LEIKHÓPURINN GRAL
18/19 1
SKÁL FYRIR ÞÉR LÉTTÖL
18/19
4
Þar sem listamenn taka áhættu Kæru gestir, Nú er nýtt leikár gengið í garð með spennandi og fjölbreyttum sýningum fyrir alla: Dansunnendur, fjölskyldur og ævintýraþyrst börn, nýbakaðar mæður, fólk í tilvistarkreppu, skóelskendur og poppmenningarvita. Tjarnarbíó sem vettvangur sjálfstæðra sviðslista hefur uppskorið ríkulega undanfarin ár. Áhorfendum fjölgaði um þriðjung í fyrra og sýningar Tjarnarbíós hlutu fjölda tilnefninga til Grímuverðlauna á liðnu leikári. Að baki Tjarnarbíó standa Sjálfstæðu Leikhúsin (SL) sem er bandalag allra sjálfstætt starfandi atvinnusviðslistamanna á Íslandi. Listafólk sjálfstæðu senunnar eru í framvarðarsveit íslenskra sviðslista: Þau taka listræna áhættu, skapa fjölda nýrra íslenskra verka ár hvert, þora að prófa nýjar aðferðir og takast á við viðkvæm, hættuleg og brennandi viðfangsefni. Í Tjarnarbíói
mæta áhorfendur hugrökkum og skapandi listamönnum. Sýningar vetrarins verða með eindæmum fjölbreyttar en verkin snerta á samfélagsmálum sem varða okkur öll, svo sem einmanaleika, neysluhyggju, fortíðarþrá, nágrannaerjur og pólitískt gagnsæi. Gleðin er aldrei langt undan og verður veturinn stútfullur af söng, leik og dansi. Við hlökkum til að takast á við spurningar samtímans með ykkur í vetur. Sjáumst í Tjarnarbíói! Friðrik Friðriksson Framkvæmdastjóri
5
6
Kontrapunkturinn við tjörnina Liðin er sú tíð að ungt sviðslistafólk hafi engan valkost að loknu námi annan en að hanga á hurðarhúnum leikhússtjóra stofnanaleikhúsanna og vonast til þess að hljóta náð fyrir augum þeirra. Þeir tímar eru líka blessunarlega að baki þar sem það að starfa sjálfstætt að listsköpun í leikhúsi eða dansi þykir ekki jafn merkilegt og ferill innan stofnananna. Við virðumst loksins vera að ná ákveðnu jafnvægi í íslenskum sviðslistum, þar sem stóru leikhúsin fá stöðugt og hollt mótvægi, nokkurs konar kontrapunkt, frá kraftmikilli sjálfstæðri sviðslistasenu. Þar er Tjarnarbíó í lykilhlutverki. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með Tjarnarbíói springa út á undanförnum árum og smátt og smátt verða sá griðastaður sjálfstæðu sviðslistasenunnar sem svo mikil þörf var orðin á í íslensku menningarlífi. Leikhópar, danshópar og sviðslistahátíðir hafa ásamt fleirum fundið sér skjól í leikhúsinu á tjarnarbakkanum þar sem fagmennska og metnaður helst í hendur við hlýlegt og persónulegt andrúmsloft. Framlag Tjarnarbíós hefur ekki síst skipt máli sem lifandi vettvangur fyrir nýsköpun í sviðslistum og dagskrá komandi leikárs bendir til þess að á því verði spennandi framhald í vetur. Nýir tímar kalla nefnilega stöðugt á nýjar leiðir. Meirihluti uppsetninga í Tjarnarbíói
á undanförnum árum hafa verið ný íslensk sviðsverk. Mörg þeirra hafa hrist rækilega upp í áhorfendum með áleitnum spurningum um samtímann. Önnur hafa þanið mörk listarinnar rækilega. Einstaka sinnum er skotið yfir markið. Auðvitað. Það er óhjákvæmilegt þegar verið er að ryðja nýjar brautir. Ég hef sjálf einstaklega gaman af því að sækja sýningar sjálfstæðra hópa. Þeim fylgir alveg sérstök orka sem gefur til kynna að þarna sé bókstaflega allt lagt að veði. Mjög oft er það líka þannig; listrænt, tilfinningalega, faglega, já og jafnvel fjárhagslega. Listafólkið á bak við þessi verkefni hefur oft þurft að leggja mikið á sig og færa fórnir til þess að koma nákvæmlega þessari sýningu á fjalirnar. Þau eru ekki bara að mæta í vinnuna eins og venjulega. Allt þetta gefur sýningunum knýjandi undiröldu sem áhorfandinn getur ekki annað en fundið fyrir úti í sal og hrifist með. Ég óska starfsfólki og listafólki Tjarnarbíós hjartanlega til hamingju með glæsilega dagskrá og hlakka svo sannarlega til að láta þau koma mér á óvart á nýju leikári!
Vigdís Jakobsdóttir Listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík
7
Tjarnarkortin Hagkvæmasta leiðin til að njóta einstakrar listupplifunar og styrkja um leið framtíð sviðslista á Íslandi!
Með Tjarnarkortið í vasanum getur þú séð fjöldann allan af sýningum komandi leikárs, eins oft og þú vilt! Tjarnarkortið er nafnlaust og takmarkast ekki við fyrirfram valdar sýningar. Þar af leiðandi getur þú tekið fjölskyldumeðlimi og vini með þér í leikhús og glatt þau sem standa þér nær með persónulegri gjöf. Með því að tryggja þér Tjarnarkortið leggur þú okkur í Tjarnarbíói lið við að styrkja sjálfstæðar sviðslistir á Íslandi. Þinn stuðningur gerir okkur kleift að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá af því besta og ferskasta í íslenskum sviðslistum og tryggja sviðslistafólki vettvang til listsköpunar. Sem vinir hússins njóta handhafar Tjarnarkortsins ýmissa fríðinda: 15% afsláttar af öllum veitingum Tjarnarbarsins, mánaðarleg fréttabréf og persónulegra boða á viðburði tengda hverri sýningu. Tjarnarkortið er fáanlegt bæði fyrir börn og fullorðna og hægt er að tryggja sér kort á tix.is eða í miðasölu Tjarnarbíós.
Fullorðnir 4 miðar
12.000 kr.
10 miðar
25.000 kr.
Börn
4 miðar
9.500 kr.
18/19 Svartlyng 8 Skýjaborg 9 Griðastaður 10 Trouble in Tahiti 11 Rejúníon 12 Spectacular 13 Ísheit Reykjavík 13 Ævintýrið um Augastein 14 Jólaævintýri Þorra og Þuru 15 Jólasýning Svansins 16 Það sem við gerum í einrúmi 18 Rauðhetta 19 Ég býð mig fram – Sería 2 20 Í hennar sporum 21 Istan 22 Vorblót 23 Iður 24
SEPT
GRAL LEIKFÉLAG
Svartlyng Sótsvartur gamanleikur ,,Fyrirgefðu... ég verð bara alltaf svo graður þegar allt er að ganga upp.“ Í Lagadeild Háskóla Íslands er þrískipting valdsins útskýrð með þessum hætti: „Svartlyng-ættin á dómstólana, Svartlyng-ættin á stjórnarráðið og Svartlyng-ættin á löggjafarþingið.“ Hinu er sleppt, að Flokkurinn mannar öll embætti í nafni Svartlyngs-ættarinnar enda á hún Flokkinn. Þegar dregur til tíðinda í stjórnarráðinu og ríkisstjórn Svartlynga riðar til falls ákveður hæstvirtur ráðherra Hermann Svartlyng að ráða til sín gluggaþvottamann til að sýna að það er jú allt uppi á borðum og allt gjörsamlega gegnsætt í ráðuneytinu sem hann stýrir. En það er ekki nóg – til að tryggja að spillingin nái ekki að brjótast upp á yfirborðið verða hausar og hendur að fjúka – því Svartlyngættin passar upp á sitt... en ekki sína. Svartlyng er glænýr sprenghlægilegur og blóðugur íslenskur farsi. Svartlyng er fimmta sviðsverk GRAL en leikhópurinn hefur áður sett upp 21 manns saknað, grímuverðlaunaverkið Með horn á höfði, Endalok alheimsins og Eiðurinn og eitthvað eftir Guðberg Bergsson. Leikritið Svartlyng er sett upp með styrk frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Listamannalaunum.
10
Höfundur: Guðmundur Brynjólfsson Leikstjórn: Bergur Þór Ingólfsson Leikmynda- og búningahönnun: Eva Vala Guðjónsdóttir Ljósahönnun: Magnús Arnar Sigurðsson og Hafliði Emil Barðason Sviðshreyfingar: Valgerður Rúnarsdóttir Leikarar: Sveinn Ólafur Gunnarsson, Sólveig Guðmundsdóttir, Benedikt Gröndal, Þór Tulinius, Emilía Bergsdóttir og Valgerður Rúnarsdóttir Framkvæmdastjórn: Sólveig Guðmundsdóttir Kynningarmál: Alexía Björg Jóhannesdóttir
SEPT
BÍBÍ & BLAKA
Skýjaborg Danssýning fyrir yngstu áhorfendurna Skýjaborg er danssýning fyrir yngstu börnin þar sem litir, form, ljós og tónlist tala til barnanna. Verkið fjallar um tvær verur, Sunnu og Storm, sem vakna furðulostnar upp á dularfullum stað. Þar eru sífelld veðrabrigði og verurnar verða því stöðugt að takast á við nýjar aðstæður. Sýningin tekur tæpan hálftíma en í lok hennar er börnunum boðið að koma á sviðið til að leika sér, hitta verurnar og skoða leikmyndina. Skýjaborg er fyrsta íslenska danssýningin sem er sérstaklega ætluð yngstu áhorfendunum. Hún var frumsýnd í Kúlunni, barnasviði Þjóðleikhússins, árið 2012 við góðar undirtektir. Skýjaborg var tilnefnd til þriggja Grímuverðlauna auk þess að hljóta Menningarverðlaun DV í flokki danslistar.
Höfundar: Tinna Grétarsdóttir í samstarfi við hópinn Tónlist: Sólrún Sumarliðadóttir Leikmynd og búningar: Guðný Hrund Sigurðardóttir og Tessa Sillars Powel Flytjendur: Maren Rúnarsdóttir og Snædís Lilja Ingadóttir
11
OKT
ALLIR DEYJA LEIKFÉLAG
Griðastaður Allir deyja, mamma. Allir deyja. Griðastaður er einleikur um dauðleikann, fjöldaframleiðslu húsgagna, Billy-hillur, bældar tilfinningar, mömmur, sænskar grænmetisbollur, fyrrverandi kærustur, krúttlegar skjaldbökur, einsemd, sniðugar kryddhillur, dauðann, Nockeby-sófa, lífið, sorgina og fleira. Allir deyja leikfélag þakkar Ikea kærlega fyrir sýndan stuðning. Sýningin hlaut mikið lof þegar hún fór fyrst á fjalirnar sem útskriftarverk Matthíasar Tryggva Haraldssonar frá Listaháskóla Íslands. Nú hefur Griðastaður öðlast nýtt líf í Tjarnarbíói.
„Þrusu tragi-kómik, hrollvekjandi og sprenghlægileg í senn. Ferskur andblær – gustur jafnvel.“ – Rúnar Guðbrandsson, sviðslistamaður
„Eitt eftirminnilegasta og vandmeltasta leikrit síðari ára.“ – Guðrún Sóley Gestsdóttir, menningarfréttamaður
„Eitt besta útskriftarverkefni sem ég hef séð í minni tíð.“ – Stefán Jónsson, leikstjóri
Handrit og leikstjórn: Matthías Tryggvi Haraldsson Á sviði: Jörundur Ragnarsson Dramatúrgía: Eydís Rose Vilmundardóttir og Jökull Smári Jakobsson Tónlist: Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir Ljós: Egill Ingibergsson og Hafliði Emil Barðason Búningar og leikmynd: Allir deyja leikfélag
12
OKT
ÓPERUDAGAR Í REYKJAVÍK
Trouble in Tahiti Djössuð ópera eftir Leonard Bernstein Sam og Dinah eru fyrirmyndarhjón sem búa í hinni fullkomnu úthverfaparadís. Undir fægðu yfirborðinu leynist þó veruleiki sem er á skjön við markaðsvædda ímyndina. Við fylgjumst með einum degi í lífi þeirra og tvísýnni atburðarás um framtíð hjónabandsins. Verkið er háðsádeiluverk sem endurspeglar poppmenningu 6. áratugarins í Bandaríkjunum og afhjúpar tálsýn ameríska draumins, heim samanburðar og neyslukapphlaups á kostnað ástarinnar. Trouble in Tahiti verður nú sett upp í fyrsta sinn á Íslandi en tónskáldið Leonard Bernstein hefði orðið 100 ára á árinu. Sýningin er hluti af dagskrá Óperudaga í Reykjavík 2018 sem fram fer víðs vegar um borgina frá 20. október til 4. nóvember. Óperan er aðeins tæp klukkustund að lengd og verður flutt á ensku.
Tónskáld: Leonard Bernstein Leikstjórn: Pálína Jónsdóttir Framkvæmdastjórn: Guja Sandholt og Ása Fanney Gestsdóttir Leikmynd, búningar og grafísk hönnun: Þórdís Erla Zoëga Ljósahönnun: Hafliði Emil Barðason Stjórnandi: Gísli Jóhann Grétarsson Söngvarar: Ása Fanney Gestsdóttir, Aron Axel Cortes og fleiri Píanisti: Hrönn Þráinsdóttir Styrkir: Borgarsjóður, Tónlistarsjóður og Norræni menningarsjóðurinn Heimasíða: www.operudagar.is
13
NÓV
LAKEHOUSE
Rejúníon „Ég byrjaði bara á þessu í fæðingarorlofinu. Núna er ég komin með 9 þúsund fylgjendur.“ Júlía er ekta íslensk ofurkona sem leggur sig 110% fram í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún er eftirsóttur ferlafræðingur með eigið ráðgjafafyrirtæki en nýtt hlutverk hennar í lífinu hefur reynst henni krefjandi - móðurhlutverkið. Í stað þess að horfast í augu við erfiðleika sem fylgja nýja lífinu tapar hún sér í ferlagreiningu, bollakökubakstri og í hlutverki sínu sem Snapchatstjarna. Þegar óumflýjanlegar breytingar vofa yfir hjá fjölskyldunni reynir hún að endurnýja tengslin við æskuvinukonu sína. Saman ætla þær að skipuleggja grunnskólarejúníon aldarinnar. Rejúníon er nýtt íslenskt leikverk eftir Sóleyju Ómarsdóttur í framleiðslu Lakehouse. Verkið gerist í íslenskum samtíma og varpar ljósi á barneignir, sambönd og samfélagspressu.
14
Höfundur: Sóley Ómarsdóttir Leikstjóri: Árni Kristjánsson Hreyfileikstjórn: Vala Ómarsdóttir Hönnun: Fiona Rigler Tónlist: Harpa Fönn Sigurjónsdóttir Lýsing og hreyfimyndir: Ingi Bekk Leikarar: Sólveig Guðmundsdóttir, Sara Marti Guðmundsdóttir og Orri Huginn Ágústsson Framkvæmdastjórn: Harpa Fönn Sigurjónsdóttir Ýmis aðstoð: Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir Styrktaraðilar: Rannís, Reykjavíkurborg, 17 sortir og Dansverkstæðið
NÓV
REYKJAVÍK DANCE FESTIVAL OG LÓKAL
Spectacular Alþjóðlega sviðslistahátíðin Reykjavík SPECTACULAR er árleg sviðslistahátíð sem blásið er til af LÓKAL og Reykjavík Dance Festival dagana 14.-18. nóvember. Þetta er í fjórða sinn sem LÓKAL og RDF skipuleggja alþjóðlega sviðslistahátíð í höfuðborginni. SPECTACULAR er einstakur vettvangur fyrir þá sem vilja kynna sér nýjustu strauma og stefnur í sviðslistum. Dagskráin teygir sig yfir 5 daga og er sem fyrr þéttskipuð og afar fjölbreytt. Boðið verður upp á frumsýningar á íslenskum verkum eftir marga af framsæknustu sviðslistamönnum landsins í bland við ný verk virtra, alþjóðlegra listamanna. Einnig verða bráðnauðsynlegar umræður um listina og lífið, vinnustofur og aðrir viðburðir á dagskrá. SPECTACULAR er leikvöllur fyrir fjölþætta fagurfræði, gleði, alvarleika, húmor, erindi og drifkraft. Við tökumst á við aðkallandi spurningar í samtímanum, bregðum hvunndeginum undir sjóngler og fögnum margbreytileika hans! SPECTACULAR er sameiginleg sviðslistahátíð RDF (www.reykjavikdancefestival.is) og LÓKAL (www. lokal.is). Hátíðin nýtur stuðnings Menningar- og menntamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Nánari upplýsingar um verk og listamenn má finna á www.spectacular.is
Ísheit Reykjavík
DES
Stærsti dansviðburður Norðurlanda kemur til Reykjavíkur og í Tjarnarbíó Norrænn danstvíæringur 12.-16. desember 2018. Alþjóðleg kynning á því besta í norrænum dansi fyrir kaupendur allsstaðar að úr heiminum. Frábært tækifæri fyrir íslenska danssamfélagið! Nánari upplýsingar um hátíðina má nálgast á www.icehotnordicdance.com
15
Á SENUNNI
Ævintýrið um Augastein Jólaævintýri fyrir fjölskylduna sem margir sjá aftur og aftur! Jólaævintýri fyrir alla fjölskylduna eftir Felix Bergsson í samvinnu við Kolbrúnu Halldórsdóttur og Helgu Arnalds. Ævintýrið um Augastein var frumsýnt í London árið 2002 og hefur verið sýnt reglulega á aðventunni síðan þá. Árið 2015 sneri sýningin aftur „heim“ í Tjarnarbíó og hefur algjörlega slegið í gegn að nýju og uppselt á allar sýningar. Margir líta á það sem hluta af jólaundirbúningnum að koma í Tjarnarbíó
og heyra og sjá söguna í flutningi Felix Bergssonar. Í kjölfarið hefur Forlagið endurútgefið bókina með ævintýrinu en hún hefur verið uppseld í áraraðir. Bókin er til sölu á sýningum. Verkið er æsispennandi ævintýri sem byggir á sögunum um sveinstaulana þrettán, syni Grýlu og Leppalúða. Nú eru það jólasveinarnir sem reyna að bjarga drengnum Augasteini úr klóm Grýlu og jólakattarins áður en jólin ganga í garð.
Leikari: Felix Bergsson Höfundur: Felix Bergsson í samvinnu við Kolbrúnu Halldórsdóttur og Helgu Arnalds Brúður og leikmynd: Helga Arnalds Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason Tónlistarstjóri: Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson Upptökustjóri: Sveinn Kjartansson Meðleikari og sviðsstjóri: Guðmundur Felixson Leikstjóri: Kolbrún Halldórsdóttir
16
DES
DES
MIÐNÆTTI
Jólaævintýri Þorra og Þuru Töfrandi jólaleikrit fyrir yngstu leikhúsgestina og fjölskyldur þeirra Í Jólaævintýri Þorra og Þuru er fjallað um gildi jólanna og hvernig við eigum það til að gleyma okkur í neysluhyggjunni. Þorri og Þura ætla að undirbúa jólin saman, taka til, þrífa og pakka inn jólagjöfum. Þau eru alveg að springa úr jólaspenningi, skrifa langa og ítarlega jólagjafaóskalista og skoða auglýsingabæklinga verslana sem flæða inn um póstlúgurnar þeirra. Innan um alla bæklingana finna þau dularfullt bréf. Sá sem það skrifar er jólakötturinn, en hann hefur stolið öllu jólaskrautinu og gjöfunum þeirra. Þar af leiðandi, að mati Þorra og Þuru, verða engin jól. Eða hvað? Með álfatöfrum og hjálp ungra áhorfenda, einlægni, gleði og ávallt með vináttuna að leiðarljósi, tekst Þorra og Þuru að finna hinn sanna jólaanda og uppgötva að það þarf ekki skraut og pakka til að halda jól – heldur gleði og ljós í hjarta.
Handrit, tónlist og leikur: Agnes Wild og Sigrún Harðardóttir Leikmynd og búningar: Eva Björg Harðardóttir Ljósahönnun: Andri Guðmundsson
17
SVANURINN
Jólasýning Svansins Alveg eins og Jólagestir Bó! Nema enginn er frægur. Stress? Rétt fyrir jólin? Hvernig væri þá að kíkja á jólasýningu Svansins og hlæja smá? Svanurinn verður í svaka stuði. Það verða dansar, söngvar og að sjálfsögðu spunagrín sem er búið til á staðnum og aldrei aftur endurleikið! Allt getur gerst! Kannski kemur jólasveinninn! Kannski verður helgileikur! Kannski fá allir piparkökur! Kannski fá ekki allir piparkökur en geta samt kannski keypt sér piparkökur á barnum! Eða kannski verða ekki piparkökur á barnum en þá er líka bara hægt að koma með sínar eigin piparkökur! Svanurinn er spunahópur sem samanstendur af einhverjum reynslumestu spunaleikurum
landsins. Allir eru þeir meðlimir í sýningarhóp Improv Ísland og hafa verið að kenna og sýna spuna í nokkur ár. Svanurinn hefur komið fram með Improv Ísland og sem sjálfstæður hópur á spunahátíðum á Íslandi, í Danmörku og í Bandaríkjunum. Meðlimir Svansins eru mikil jólabörn og því ætla þeir að gera sitt allra besta til að koma áhorfendum í jólaskap þegar mest á reynir, á hápunkti jólastresssins. Þetta er fjórða árið í röð sem Svanurinn stendur fyrir jólasýningu en viðburðurinn hefur sífellt farið stækkandi. Þetta árið verður sýningin auðvitað algjör jólasprengja á stærðarskala sem aldrei hefur sést áður.
Fram koma: Adolf Smári Unnarsson, Auðunn Lúthersson, Guðmundur Einar, Guðmundur Felixson, Máni Arnarson, Ólafur Ásgeirsson og Pálmi Freyr Hauksson Tæknimaður: Stefán Ingvar Vigfússon
18
DES
LEIKHÓPURINN GRAL
18 19
19
JAN
SMARTÍLAB
Það sem við gerum í einrúmi „Ég veit að þú ert heyrnarlaus en þú ert samt frábær hlustandi.“ Það sem við gerum í einrúmi er nýtt íslenskt kvikmyndaleikhúsverk um einsemdina. Verkið segir frá fjórum ólíkum einstaklingum sem búa í sömu blokkinni. Öll eru þau einangruð, en af mismunandi ástæðum. Þrá þeirra til að tengja við aðra drífur þau til aðgerða, hvert á sinn hátt. Óttinn við höfnun getur þó verið ansi hávær þegar safna á kjarki og sumar aðferðir eru árangursríkari en aðrar í mannlegum samskiptum. Fallegt, grátbroslegt og mannlegt verk um þörf okkar fyrir hvort annað.
20
Höfundar: Sigrún Huld Skúladóttir og Sara Martí Guðmundsdóttir Leikstjórn: Sara Martí Guðmundsdóttir Framkvæmdastjórn: Martin Leifson Vídjóverk: Pierre-Alain Giraud Leikmynda- og búningahönnun: Sigríður Sunna Reynisdóttir Lýsing: Kjartan Darri Kristjánsson Tónlist og hljóð: Stefán Örn Gunnlaugsson Búningagerð: Tanja Huld Levý Leikarar: Árni Pétur Guðjónsson, Ragnheiður Steindórsdóttir, Albert Halldórsson, Sigríður Vala Jóhannsdóttir
LEIKHÓPURINN LOTTA
Rauðhetta
JAN
Stórskemmtilegur fjölskyldusöngleikur með Rauðhettu og úlfinum, Hans og Grétu og grísunum þremur. Klassísk ævintýrablanda í boði Leikhópsins Lottu. Leikhópurinn Lotta er landsmönnum að góðu kunnur en hópurinn hefur frá árinu 2007 ferðast með sýningar sínar um landið þvert og endilangt. Hópurinn sem hefur sérhæft sig í sýningum utandyra er nú annan veturinn í röð kominn inn fyrir dyrnar til okkar í Tjarnarbíói. Hópurinn setti Rauðhettu fyrst upp árið 2009 en nú tíu árum síðar verður rykið dustað af þessu skemmtilega verki og fært nýjum og gömlum áhorfendum í glænýjum búningi.
Ævintýrið um Rauðhettu og úlfinn þekkja allir en í meðförum Lottu hefur tveimur þekktum ævintýrum til viðbótar verið bætt í leikinn. Það eru sögurnar um grísina þrjá og systkinin Hans og Grétu. Þá eru í verkinu meira en 10 stórskemmtileg lög sem binda söguna saman. Úr verður gómsætur ævintýrakokteill sem enginn má láta framhjá sér fara.
Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir Handritshöfundur: Snæbjörn Ragnarsson Höfundar laga og texta: Baldur Ragnarsson og Snæbjörn Ragnarsson Leikarar: Andrea Ösp Karlsdóttir, Anna Bergljót Thorarensen, Árni Beinteinn Árnason, Sigsteinn Sigurbergsson og Stefán Benedikt Vilhelmsson Lýsing: Kjartan Darri Kristjánsson Hljóðmynd: Baldur Ragnarsson Búningar: Rósa Ásgeirsdóttir Leikmynd: Andrea Ösp Karlsdóttir, Ágústa Skúladóttir og Sigsteinn Sigurbergsson
21
FEB
UNNUR ELÍSABET GUNNARSDÓTTIR
Ég býð mig fram – Sería 2
Ég býð mig fram til að flytja verkið þitt. 14 höfundar. 14 örverk. Komdu og upplifðu smáréttaveislu. Ég býð mig fram – Sería 2 er listahátíð yfir eina kvöldstund þar sem listamenn þvert yfir listsviðið skapa hver sitt örverk. Í ár eru fjórtán höfundar. Listsviðið er breitt en listahátíðin er tilraun til að færa listsköpunina nær almenningi með suðupotti hugmynda úr ólíkum áttum, eins konar smáréttahlaðborði. „Það er gjöfult að vinna þvert á listgreinar. Ég hef komist að því að rithöfunda dreymir á laun um að semja dansverk, myndlistarfólk vill búa til lifandi performans og dansarar þrá að fá að japla á góðum texta. Í raun hafa samræður mínar við listamennina snúist um hugmyndir sem geta tekið á sig alls kyns myndir ef við leyfum okkur að afmá mörk milli skapandi greina. Þannig hefur verkefnið ekki bara opnað heim minn og huga heldur hafa gestalistamennirnir komið sjálfum sér á óvart með því að láta gamla eða nýja drauma rætast.“ Ég býð mig fram – Sería 2 snýst um að brjóta niður veggi. Kasta sér út í alheiminn, sjá hvort hann grípur, kastar þér til baka eða fer með þig í rússíbanareið. Listahátíðin snýst um að koma saman, án fordóma, án landamæra, bara fólk að vinna saman. Hittast í miðju, teygjast, kuðlast eða móta hvort annað á stuttum þremur mínútum hvort sem þær verða enn fleiri í framtíðinni eða fyrstu og síðustu mínútur samvinnu þessara tveggja aðila. Listahátíðin hlaut styrki frá Reykjavíkurborg og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
22
Listrænn stjórnandi og leikstjóri listahátíðarinnar: Unnur Elísabet Gunnarsdóttir Framkvæmdastjóri: Álfrún Helga Örnólfsdóttir Ljósahönnuður og hljóðmaður: Hafliði Emil Barðason Ljósmyndari: Saga Sigurðardóttir Grafískur hönnuður: Sveinbjörg Jónsdóttir Flytjandi: Unnur Elísabet Gunnarsdóttir Höfundar listahátíðar 2019: Almar Steinn Atlason, Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Frank Fannar Petersen, Friðgeir Einarsson, Gréta Kristín Ómarsdóttir, Helgi Björnsson, Ilmur Stefánsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Kitty von Somtime, Kristinn Arnar Sigurðsson, Steinar Júlíusson, Ólafur Darri Ólafsson, Ólöf Kristín Helgadóttir, Urður Hákonardóttir
MARS
SVANLAUG JÓHANNSDÓTTIR
Í hennar sporum Fetað í fótspor fyrirmynda Skór eru svo sérstakir. Þeir eru alls konar í laginu, alls konar á litinn og fjölbreytilegir eftir tísku. Það skipti máli að eiga nesti og nýja skó þegar ævintýrin hófust og enn hefjast mörg ævintýri á nýju pari. Skór og konur… eilíf ástarsaga. Söngkonan Svanlaug Jóhannsdóttir hefur safnað saman skóm frá konum sem hún lítur upp til. Frá konum sem eiga sögu sem við hin getum nýtt okkur til þess að taka þau skref sem við þurfum að taka. Saga kvennanna og skónna, rómantíkin, gleðin og átökin, er sögð með sögum, söngvum og tónlist úr öllum áttum.
„Eftir sýninguna var ég harðákveðin í að sinna sjálfri mér betur og fara að huga að því sem gleður mig.“ – Eva Sigríður Ólafsdóttir, sérfræðingur
„Nýtt og ferskt! Sögurnar og söngurinn fylltu mig krafti og innblæstri, sem fylgdi mér löngu eftir að sýningu lauk.“ – Sunna Dóra Sigurjónsdóttir, arkitekt
„Þegar ég heyrði hana syngja. Þá var myndin fullkomnuð. Stelpan er satt að segja ómótstæðileg.“ – Bryndís Schram, dansari og fjölmiðlakona
Höfundur og flytjandi: Svanlaug Jóhannsdóttir Leikkona: Svanlaug Jóhannsdóttir Leikstjóri: Árni Kristjánsson Píanóleikari: Einar Bjartur Egilsson Ljósahönnuður: Owen Hindley
23
MARS
PÁLMI FREYR HAUKSSON
Istan Þrjátíu persónur Einn leikari Smábærinn Istan hefur alltaf verið rólegur og saklaus bær. Við heimsækjum bæinn á 19. öld og verðum vitni að óvæntum atburði sem hristir upp í bæjarbúum og fær þá til að sýna sitt raunverulega andlit. Bæjarbúar eru fljótir að kenna hver öðrum um hvernig farið er fyrir fallega bænum þeirra. Frændur verða fjandmenn og skyndilega er saklausi bærinn ekki svo saklaus lengur. Fjölmargar óvæntar persónur skjóta upp kollinum og enginn veit hverjum er hægt að treysta. Leikarinn Albert Halldórsson leikur alla bæjarbúa Istan.
Leikstjórn og handrit: Pálmi Freyr Hauksson Aðstoðarleikstjóri: Tómas Helgi Baldursson Leikari: Albert Halldórsson Tónlist: Jónas Sen Búningar: Hildur Yeoman Leikmynd: Helgi Már Verkefnastjóri: Emilía Sigurðardóttir Textar: Sigga Soffía
24
APRÍL
TJARNARBÍÓ OG REYKJAVÍK DANCE FESTIVAL
Vorblót Tjarnarbíó og Reykjavík Dance Festival taka höndum saman og fagna vorinu! Vorblót er sviðslistahátíð Tjarnarbíós unnin í samvinnu við Reykjavík Dance Festival. Hátíðin kannar mörkin milli dans, leiklistar og tónlistar og leitast við að gefa gestum tækifæri til að upplifa fjölbreytileika íslensku sviðslistanna á einu bretti. Á Vorblóti er komu vorsins fagnað með allsherjar veisluhöldum sem teygja sig yfir fimm daga. Fjölbreytt íslensk sviðsverk verða á dagskrá en einstök atriði verða kynnt þegar nær dregur. Fylgist með á heimasíðu Tjarnarbíós: tjarnarbio.is
25
MAÍ
GUNNAR KAREL MÁSSON
Iður „Betra er að eiga þekktan óvin en óþekktan” Iður er nýtt íslenskt tónleikhúsverk byggt á sönnum atburðum þar sem við kynnumst Mark Kennedy, lögreglumanni og fjölskylduföður. Þetta er þó einungis það sjálf sem er á yfirborðinu, því hann er uppljóstrari í leynum. Þegar verkið gerist standa ensk yfirvöld í stappi við róttæka aðgerðasinna. Mark er ómissandi í þeirri baráttu, þar sem hann hefur lagt allt undir í því að villa á sér heimildir innan raða umhverfissinna. Á meðan Mark færist stöðugt nær innsta hringnum í þeim hópum sem eru undir stækkunargleri yfirvalda, neyðist hann til að halda hluta af sér leyndum fyrir þeim sem standa honum næst. Þetta ástand getur auðvitað ekki varað lengi og óhjákvæmilega endar hann í yfirheyrslu hjá aðgerðasinnunum sem hann þóttist vera í liði með. Mun hann segja þeim allt af létta? Munu þeir geta fyrirgefið honum? Þegar komst upp um Mark þá var hann fenginn til yfirheyrslu hjá aktívistunum þar sem hann sagði allt af létta. Í Iður er velt upp spurningum um raunveruleikann, sjálfsmynd og stað okkar í tilverunni. Inn í verkið fléttast aríur og kórlög við texta eftir endurreisnarskáldið John Donne. Þau hafa að leiðarstefi innri baráttu mannsins og spurningar um lífið og dauðann. Hvað gerist þegar við getum ekki lengur greint á milli ímyndunar og raunveruleika?
Leikari: Hlynur Þorsteinsson Höfundur og leikstjóri: Gunnar Karel Másson Dramatúrg: Saga Sigurðardóttir Tónlist: Gunnar Karel Másson Ljóðatextar: John Donne Kór: Drengjakór Reykjavíkur Ljósahönnun: Jóhann Friðrik Ágústsson Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir
26
Tjarnarkortin Klippikort sem þú notar að eigin vild. Hvernig lítur leikárið þitt út?
27
Tjarnarbarinn Samverustaður og blómstrandi upplýsingamiðstöð Tjarnarbarinn er samverustaður Tjarnarbíós. Hér er heimilislegt og óformlegt andrúmsloft og allir eru velkomnir. Á Tjarnarbarnum mætast ungir sem aldnir, listafólk og gestir utan úr bæ. Á daginn og um helgar veitir Tjarnarbarinn skjól í amstri hversdagsins með ilmandi kaffi, hressandi drykkjum, gómsætu kruðeríi, súpu dagsins og öðrum kræsingum. Veitingasalan er einnig opin á kvöldin í tengslum við sýningar og aðra viðburði en þá er tilvalið fyrir gesti að mæta snemma, njóta stemningarinnar og búa sig undir upplifun kvöldsins. Tjarnarbarinn er einnig blómstrandi upplýsingamiðstöð: Vettvangur listamanna til að viðra og ræða hugmyndir sínar sem og gesta sem þyrstir í innsýn í heim sviðslista og starfssemi hússins. Á Tjarnarbarnum er margt um að vera og reglulega haldnir fjölbreyttir viðburðir við allra hæfi. Tjarnarbarinn er opinn alla virka daga á milli 10.00-16.00, um helgar frá 11.00-17.00 og klukkutíma fyrir hverja sýningu. Hlökkum til að taka á móti þér! Ert þú með hugmynd að skemmtilegum viðburði sem gæti átt heima á Tjarnarbarnum? Ekki hika við að hafa samband: tjarnarbarinn@tjarnarbio.is
Bókanir og fyrirspurnir tjarnarbio@tjarnarbio.is
Miðasala
tix.is midasala@tjarnarbio.is www.tjarnarbio.is
/tjarnarbio @tjarnarbio
Menningarfélagið Tjarnarbíó | Tjarnargata 12, 101 Reykjavík | Sími: 527-2100 Tjarnarbíó er styrkt af Reykjavíkurborg
Útgefandi: Menningarfélagið Tjarnarbíó, september 2018 Ritstjórar: Friðrik Friðriksson og Sunna Ástþórsdóttir Hönnun og umbrot: Konsept Ljósmyndir: Ljósmyndir við einstök verk eru í eigu leikhópanna. Aðrar ljósmyndir: Ásgeir Ásgeirsson Prentun: Prentun.is
Innihald blaðsins er birt með fyrirvara um breytingar
Yfir 300 tilboð Allir viðskiptavinir Arion banka eru í Einkaklúbbnum Náðu í appið og nýttu þér tilboðin
32