Tjarnarbio 17/18

Page 1

17/18 1



Þar sem nýsköpun er regla Nú skellum við á skeið með enn eitt stútfullt leikárið í Tjarnarbíói þar sem fjölbreytnin er svo mikil að allir ættu að finna eitthvað fyrir sinn snúð. Við bjóðum upp á sýningar fyrir börn og fjölskyldur, unnendur dansins, kvíðasjúklinga, elskendur og hláturmildar leikhúsrottur. Tjarnarbíó hefur aldrei áður fengið jafnmikla aðsókn sem á síðasta leikári. Áhorfendum fjölgaði um 20% á milli ára og sýningarnar fengu mikla athygli og lof gagnrýnenda. Að baki Tjarnarbíós standa Sjálfstæðu Leikhúsin (SL) sem er bandalag allra sjálfstætt starfandi atvinnusviðslistamanna á Íslandi. Þörfin fyrir Tjarnarbíó er meiri en nokkru sinni áður sem sýnir sig í því að við náum ekki að hýsa allan þann fjölda sýninga sem óska eftir að komast að í húsinu. Við erum stolt af því að bjóða upp á fimm barnasýningar í vetur. Einnig verða danssýningar áberandi, enda einkar mikil gróska í íslensku danssenunni. Við höfum því ákveðið að blása til danshátíðar í apríl þar sem gefst kostur á að sjá öll dansverk leikársins á einni helgi. Húsið verður líka fullt af söng þar sem sungið verður um allt frá stafrænum tilfinningum til hins óþekkta. Við munum kanna mörkin, velta fyrir okkur kynjahyggju í nútímanum, hampa ástinni og reyna að skapa eitthvað úr engu – í lofttæmi. Hér er nýsköpun regla frekar en undantekning. Sjáumst í leikhúsinu! Friðrik Friðriksson Framkvæmdastjóri


Friðrik Friðriksson

Fæddur og uppalinn í YtriNjarðvík en hefur búið meirihluta ævinnar í 101 Reykjavík. Hefur starfað sem leikari í 18 ár og tók við sem framkvæmdastjóri Tjarnarbíós í mars 2016.

Hver ertu núna? Skrifstofukarl. Nei djók. Ég er framkvæmdastjóri Tjarnarbíó og hluti af mér er enn leikari. Ég er blanda af business-karli og listamanni. Business listamaður. Hvers vegna vildirðu verða leikari? Ég ætlaði að verða einhverskonar vísindamaður eða raungreinamaður. Fór svo í leiklistakúrs í Fjölbraut Suðurnesja og þar var kennari sem að hrósaði mér svo mikið fyrir getu mína í leiklist að mér datt í hug að prófa það áfram. Fór í leiklistaklúbbinn sem heitir Vox Arena. En það var ekki fyrr en ég var tvítugur að ég komst að því að hægt væri að starfa við leiklist. Ég fór í inntökuprófin eftir stúdentsprófið. Komst ekki inn en reyndi aftur og komst þá inn. Svo lærði ég bara leiklist með góðu fólki og hef ég verið leikari í 20 ár. Hvers vegna framkvæmdastjóri? Svona eins og leiklistin þá var það tilviljun. Ég hafði verið fastráðinn leikari hjá Þjóðleikhúsinu í 8 ár og átti gott samtal við vin minn sem var að fara í framhaldsnám erlendis. Hann sagði að maður yrði að taka U beygjur í lífinu á sjö ára fresti. Þessi setning sat í mér. Stuttu seinna dró annar félagi mig á kynningu á MBA náminu í HR og þá var ekki aftur snúið. Ég var síðan beðinn um að leysa af sem framkvæmdastjóri Tjarnarbíós í nokkra mánuði og á sama tíma losnaði staðan og mér boðið að taka við henni. Sem ég gerði og sé ekki eftir því. Helstu áskoranir sem þú hefur mætt? Fólk. Í MBA náminu var sagt að viðskipti snúast að einhverju leyti um tölur og peninga en að mestu leyti um fólk. Það er óútreiknanlega stærðin. En það hefur komið mér á óvart hvað fólk er velviljað. Upplifun mín er að það standi allir með Tjarnarbíói - litla leikhúsinu með stóra hjartað. Leikari eða framkvæmdastjóri? Hefurðu lagt skóna á hilluna? Ég hef ekki beint lagt þá á hilluna. En ég leik mun minna því ég hef minni tíma. En tímanum er vel varið í annað. Hvernig sérðu framtíð Tjarnarbíós? Framtíðin er tvímælalaust björt. Þörfin fyrir þetta hús er gríðarlega mikil. Á undanförnun árum hefur aðsókn áhorfenda aukist og sömuleiðis hefur eftirspurn og þörf listamanna fyrir að komast í húsið aukist. Við stöndum frammi fyrir því lúxus vandamáli að við getum ekki tekið á móti öllum hópum sem sækjast eftir að komast í húsið. Hvað er Tjarnarbíó í þínum augum? Það er heimili sjálfstæðra sviðslista. Þar sem grasrótin dafnar með skapandi, spruðlandi listamönnum á öllum aldri.


Hvað drífur þig áfram? Það er alveg misjafnt. Ég held samt að lykilatriðið sé að hafa brennandi áhuga á sögunni sem maður er að segja. Hver hefur verið hápunktur á ferlinum, hingað til? Veit ekki, kannski er hann ekki kominn? Mögulega að skrifa og vinna Sóley Rós. Að ná utanum þann efnivið var alveg rosalega gefandi og skemmtilegt. Ertu með upphitunar-rútínu? Ég er algjört texta nörd og renni alltaf yfir allan textann og hugsa sýninguna alla í gegn. Stundum í huganum en stundum með handritið. Svo geri ég létta upphitun fyrir líkamann. Svo er ég reyndar í raun líka með lokarútínu á kvöldin þegar ég leggst á koddann. Þá fer ég aftur yfir þetta allt saman. Hefurðu einhvern leyndan hæfileika utan leiklistarinnar? Hmmm. Ég er mjög jákvæð. En svo er ég líka mjög heppin með fólkið í kringum mig. Það er kannski bara hæfileikinn - allt góða fólkið og taka hlutunum létt - það er mjög mikilvægt. Hvað er vandræðalegasta augnablikið á sviði? Pörupiltar voru með kynfræðisýningu sem við höfum sýnt síðastliðin ár fyrir 10. bekkinga. Ég á það til að vera pínu tepra stundum og átti soldið erfitt fyrst. Var t.d. í risa píkubúning og oft var ég frekar vandræðaleg með það. En í dag fíla ég mig bara vel í píkunni! Hvert er draumahlutverkið? Ég held að sérhvert hlutverk sé draumahlutverk. Mér finnst mjög gaman að stíga inn í hlutverk í kvikmyndum og sjónvarpi því ég hef ekki gert mikið af því. En ég hef verið rosalega heppin að fá að taka að mér góð kvenhlutverk. Það er einmitt það sem er svo skemmtilegt við sjálfstæðu senuna. Stundum eru dúndur hlutverk skrifuð fyrir mann og þá fær maður tækifæri til að hafa áhrif og mótað þau eftir sínu höfði. Það er lúxusinn við þessa vinnu. Hvað er á döfinni? Það er sko ýmislegt. Tvö verk í Tjarnarbíó - Sóley Rós fer aftur á svið í haust og svo leik ég í Hans Blævi sem verður frumsýnt í mars. Síðan er ég að fara að leika í verkinu Efi í Þjóðleikhúsinu. Það verður mitt fyrsta hlutverk í stóru leikhúsunum utan þeirra sem ég hef unnið sjálfstætt í samstarfi við þau. Og við höldum áfram að flakka með sýninguna Lífið en næst förum við til Möltu. Mjög spennandi allt saman. Hvernig er líf leikkonu í hnotskurn? Mjög fjölbreytt. Ég framleiði, skrifa og leik. Er mikið með puttana allt í öllu og reyni að hugsa verkefni fram í tímann og hafa marga bolti á lofti í einu. Svo fer ég auðvitað að sækja börnin á leikskólann og kaupa í matinn og allt þetta klassíska í bland. Gott líf - Gullin blanda.

Sólveig Guðmundsdóttir

Hvers vegna leiklist? Mér fannst þetta konsept svo sjúklega skemmtilegt. Þetta er soldið eins og með hestaíþróttir, eins og baktería sem þú bara smitast af. Mér finnst líka svo æðislega gaman að vinna með hóp af góðu fólki og segja sögur.

Ólst upp á Seltjarnarnesi og stefndi alltaf á nám í læknisfræði. Fór í MR og smitaðist algjörlega af leiklistarbakteríunni þar. Endaði í leiklistarnámi í Arts Educational í London.


Útgefandi: Menningarfélagið Tjarnarbíó Ritstjórar: Friðrik Friðriksson og Ingibjörg Huld Haraldsdóttir Hönnun og umbrot: Konsept Ljósmyndir: Ásgeir Ásgeirsson Prentun: Prentun.is

TJARNARKORTIN Besta og hagkvæmasta leiðin til að njóta spennandi leikárs í Tjarnarbíó! Tjarnarkortið er klippikort sem þú getur notað að vild, það er ekki bundið við eitt nafn svo hægt er að nota það á marga vegu; kaupa eitt fyrir alla fjölskylduna saman, gefa í gjöf, bjóða vinum með, allt eftir hentugleika hvers og eins.

Kort í boði

Hverju klippikorti fylgir 15% afsláttur af öllum veitingum Tjarnarbarsins.

X4

12.000

Kynnið ykkur nánar þennan spennandi möguleika á heimasíðu Tjarnarbíós:

X10

25.000

tjarnarbio.is

X4 barna

9.500

Bókanir og fyrirspurnir tjarnarbio@tjarnarbio.is

Miðasala midasala@tjarnarbio.is

@tjarnarbio /tjarnarbio

Menningarfélagið Tjarnarbíó | Tjarnargata 12 | 101 Reykjavík | Sími: 527-2100 Tjarnarbíó er styrkt af Reykjavíkurborg


17/18

Í samhengi við stjörnurnar 8 Fyrirlestur um eitthvað fallegt 9 Sóley Rós ræstitæknir 10 Á eigin fótum 11 Kæra manneskja 12 A Thousand Tongues 13 Tröll 14 FUBAR 15 Íó 16 Everybody´s Spectacular 17 SOL 18 Ævintýrið um Augastein 19 Svanurinn 20 Galdrakarlinn í Oz 22 Frjáls Framlög 23 Ahhh 24 Hans Blær 25 Crescendo 26 Vakúm 27 Bergmálsklefinn 28 Them 29


ÁGÚST

Í samhengi við stjörnurnar Breskt verðlaunaverk

,,Það er hreint magnað, hversu samstilltir hinir ólíku þættir sýningarinnar eru” - JJ, Kvennablaðið ,,Á frumsýningunni í Tjarnarbíói í gærkvöldi fannst mér oft að ég væri að upplifa danssýningu, myndlistargjörning eða tónverk…” - SA, TMM

S.J. Fréttablaðið

Hverri ákvörðun fylgja óendanlegir möguleikar og ein leið getur útilokað aðra. María og Ragnar hittast í grillveislu hjá sameiginlegum vini og á milli þeirra verður tenging. Síðan ekki söguna meir, nema þau kíki á barinn eftir á? Kannski eiga þau nótt saman, kannski heila ævi. Leikritið Í samhengi við stjörnurnar eftir Nick Payne hóf sýningar í Tjarnarbíói í maí við frábærar undirtektir gagnrýnenda og áhorfenda. Það verður aftur sýnt í Tjarnarbíói í ár ásamt því að ferðast um landið. Höfundurinn Nick Payne byggir leikritunarformið á lögmálum skammtafræði og afstæðiskenningar.

Leikarar: Birgitta Birgisdóttir og Hilmir Jensson Leikstjóri og þýðandi: Árni Kristjánsson Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir Tónlist: Harpa Fönn Sigurjónsdóttir Ljósahönnun: Hafliði Emil Barðason Aðstoðarleikstjórn: Ólafur Ásgeirsson

8


SEPT

Fyrirlestur um eitthvað fallegt Gamanverk um kvíða

Baldur stígur á svið og er að hefja fyrirlestur um nýjasta listaverk sitt. Hann finnur að eitthvað er ekki eins og það á að vera… hann frýs. Hann er að fá sitt fyrsta kvíðakast. Hann kíkir inn í heilann sinn og sér þá hvar stjórnstöðin er að bila. Við kynnumst Baldri – ótta hans, þrálátum hugsunum og leit hans að lausn. Við kynnumst líka öllum hinum Böldrunum, því kvíði býr í okkur öllum. Birtingarmyndir kvíða geta verið ótalmargar og upplifun hvers og eins er sérstök. Fimm leikarar túlka mörg andlit kvíðans, í sjónrænu, gamansömu leikverki.

„Þetta var stórkostleg sýning. Þetta verk er mikilvægt innlegg í baráttuna gegn fordómum.“ - Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir „Ég er eiginlega bara orðlaus, þessi flotti leikhópur setti saman sýningu sem náði að mér fannst alveg að skera beint inn að kjarna þess að upplifa kvíða og setja hana upp á hátt sem fólk skilur og getur tengt við.“ - Þórður Páll Jónínuson „Fyrirlestur um eitthvað fallegt er fyrirtaks fræðslusýning um kvíða sem á erindi við alla.“ - Silja Björk Huldudóttir, Morgunblaðið

Í verkinu verður kvíðinn skoðaður frá ýmsum sjónarhornum og kafað í tilfinningar, hugsanir, magaverki, tölvuleiki, geðlyf, svefntruflanir, sjálfsþekkingu, sigra, bata, hugarangur og sálarfrið. Og ofurhetjukvíðamaðurinn kemur að sjálfsögðu við sögu. Rannsóknir sýna að á hverju ári þjást um 12% Íslendinga af óeðlilegum eða sjúklegum kvíða. Leikverkið fjallar á glettinn hátt um þetta erfiða málefni, með það að markmiði að vekja fólk til meðvitundar og opna umræðuna um geðheilbrigði á Íslandi enn frekar.

Höfundur: SmartíLab-hópurinn Leikstjórn: Sara Martí Framkvæmdastjórn: Martin L. Sörensen Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir Ljósahönnun: Arnar Ingvarsson Leikarar: Agnes Wild, Guðmundur Felixson, Kjartan Darri Kristjánsson, Sigrún Huld Skúladóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson Hljóðmynd og myndbönd: SmartíLab-hópurinn Grafísk hönnun: Martin L. Sörensen og Raffaella Brizuela Sigurðardóttir Ljósmyndir: Ásgeir Ásgeirsson Styrkir: Mennta- og menningarmálaráðuneytið

9


SEPT

Sóley Rós ræstitæknir

Verðlaunaverk sem sló í gegn á síðasta leikári

Leikrit ársins 2017 Leikkona ársins 2017

„Saga sem bætir heiminn“ - J.S.J. Kvennablaðið „Sólveig túlkar sársauka Sóleyjar Rósar af sterkri innlifun sem lætur engan ósnortinn.“ - S.B.H. Morgunblaðið. „Bráðfyndið leikrit sem hittir beint í hjartastað, fullkomlega íslenskt en á sama tíma sammannlegt og líka skerandi sárt. … Sterkur efniviður sem unnið er úr af virðingu, hnitmiðaður leiktexti, hárbeitt leikstjórn Maríu Reyndal og stjörnuleikur Sólveigar og Sveins Ólafs“. - D.S. Starfugl

Sóley Rós ræstitæknir segir frá sögu og sambandi hjónanna Sóleyjar og Halla. Sóley Rós er einstök persóna. Hún er 42 ára mamma, amma, eiginkona og skúringakona. Hún er Bjartur í Sumarhúsum, hún er Þóra í Hvammi. Sóley Rós ræstitæknir hlaut 5 tilnefningar til Grímuverðlauna 2017 og hreppti tvenn. Þar að auki hlaut Sólveig Guðmundsdóttir Menningarverðlaun DV í leiklist fyrir leik sinn í verkinu. Meinfyndið og grátbroslegt verk um samtímann, byggt á viðtölum við íslenska hvunndagshetju.

R.E. Pressan

S.J. Fréttablaðið

10

Höfundar leikverks: María Reyndal og Sólveig Guðmundsdóttir Leikarar: Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson Leikstjórn: María Reyndal Ljósa - og sviðshönnun: Egill Ingibergsson Myndbönd: Pierre Alain Giraud Búningar: Margrét Einarsdóttir Tónlist: Úlfur Eldjárn Hár og förðun: Diego Batista Framkvæmdarstjórn: María Heba Þorkelsdóttir Styrkir: Mennta- og menningarmálaráðuneytið


SEPT

Á eigin fótum

Ný íslensk Bunraku brúðusýning eftir leikhópinn Miðnætti í samstarfi við Lost Watch Theatre.

Á eigin fótum er sýning sem fjallar um hugrekki. Ninna er sex ára uppátækjasöm stelpa sem er send ein í afskekkta sveit sumarlangt þar sem hún þarf að aðlagast nýjum aðstæðum, eignast nýja vini og læra að standa á eigin fótum. Sýningin hentar börnum frá tveggja ára aldri og fjölskyldum þeirra. Tilnefnd til Grímunnar í flokkunum „Barnasýning ársins“ og „Dans- og sviðshreyfingar“

„Gullfalleg barnasýning“ - Tmm.is

Fréttablaðið

Morgunblaðið

Leikstjóri: Agnes Wild Sviðsmyndar- og búningahönnuður: Eva Björg Harðardóttir Höfundar og flytjendur tónlistar: Sigrún Harðardóttir og Margrét Arnardóttir Ljósahönnun: Kjartan Darri Kristjánsson Leikarar: Olivia Hirst, Rianna Dearden, Þorleifur Einarsson, Nick Candy og Agnes Wild Framkvæmdarstjóri: Bergdís Júlía Jóhannsdóttir Styrkir: Mennta- og menningarmálaráðuneytið

11


SEPT

Kæra manneskja

„Mig langar að segja þér svolítið“

Hefur þú einhvern tíma tekið eftir því hvernig tilveran gengur hring eftir hring? Fyrst ertu barn, svo eignast þú kannski börn, sem eignast börn. Þú andar inn, andar út, inn, út, sífelldar endurtekningar, stórar sem smáar, hring eftir hring. Þú þarft súrefni til að lifa, en að lokum verður úr þér allur vindur. Af moldu ertu komin, að moldu skalt þú aftur verða. Þú ert nátengd náttúrunni og hringrásin þín og hennar eru samstilltar. Þú þarfnast hennar. Allt hefur áhrif, kæra manneskja, og vonandi munu þessar hugleiðingar fá þig til þess að sjá stöðu þína í hringrás lífsins í nýju ljósi

12

Danshöfundur: Valgerður Rúnarsdóttir Dansarar/sviðslistamenn: Ragnar Ísleifur Bragason, Snædís Lilja Ingadóttir, Valgerður Rúnarsdóttir og Védís Kjartansdóttir Tónlist: Áskell Harðarson Leikmynd og búningar: Ragnheiður Maísól Sturludóttir Lýsing: Kjartan Darri Kristjánsson Ljósmynd: Ragnheiður Maísól Sturludóttir Dramatúrg: Sigrún Huld Skúladóttir Framkvæmdarstjóri: Davíð Freyr Þórunnarson Styrkir: Mennta- og menningarmálaráðuneytið


SEPT

A Thousand Tongues

Hið óræða haf sem skilur tvo heima

A Thousand Tongues er í senn tónleikar og leiksýning. Myndir og tilfinningar lifna við á sviðinu í gegnum hefðbundna tónlist frá öllum heimshornum í flutningi dönsku söng-, leik- og tónlistarkonunnar Nini Juliu Bang. Hún syngur á tíu ólíkum tungumálum enda endurspeglar verkið margra ára ferðalag hennar um ólíka menningarheima landa á borð við Íran, Spán, Mongólíu, Georgíu og Ísland. Leikhúsgestir eru leiddir inn í veröld varnarleysis, einangrunar og hins óþekkta. Leikstjórinn, hin bandaríska Samantha Shay, sótti innblástur í rödd Bang við sköpun dularfulls heims þar sem hljóð, vatn og ljós mætast. A Thousand Tongues var heimsfrumsýnt á Ólympíumóti í leiklist sem haldið var í pólsku borginni Wroclaw, menningarhöfuðborg Evrópu 2016. Sýninguna framleiddi alþjóðlegi listahópurinn Source Material í samstarfi við Grotowski-stofnunina í Póllandi. Þetta er í annað sinn sem Source Material sýnir á sviði Tjarnarbíós. Hópurinn heimsfrumsýndi óperuna Of Light í Tjarnarbíói sumarið 2016.

Flytjandi og hugmyndasmiður: Nini Julia Bang Leikstjóri: Samantha Shay Dramatúrg: Jaroslaw Fret Ljósahönnuður: Nicole Pearce Hljóð: Paul Evans Aðstoðarljósahönnuður: Kate Ashton Aðstoðarleikstjóri: Valerie McCann Tæknistjóri: Maciej Madry Framleiðendur: Dagný Gísladóttir og Hallfríður Þóra Tryggvadóttir

13


SEPT

Tröll

„Ég trúi á Truntum Runtum og tröllin mín í klettunum.“

Í 17 milljón ár (gæti skeikað um öld eða tvær) hafa tröllin átt þessa eyju alveg fyrir sig. Þau grófu gljúfur, gerðu sér heimilislega skúta og nutu kyrrðar og friðar miðnætursólarinnar. Tröllin voru glöð. En núna… Núna er allt breytt. Mannfólkið er komið. Það byggir hús. Leggur vegi. Hefur hátt. Svo óskaplega... hátt. Geta þessar ólíku verur búið saman? Tröll er endurtúlkun á sumum vinsælustu tröllasögum landsins, sögð með sjónarhorni lítillar telpu og óvanalega vininum hennar úr fjöllunum. Brúðurnar eru handgerðar og hljóðmyndin er samin af hinu virta breska tónskáldi Paul Mosley, en söngurinn er í höndum heimamanna í Húnaþingi vestra. Þetta er svolítil þjóðsaga, smá draugasaga og eintómir töfrar. Tröll eru ógleymanleg leikhúsupplifun fyrir alla fjölskylduna.

Saga og brúðugerð: Greta Clough Leikstjóri: Sigurður Líndal Þórisson Tónlist: Paul Mosely Brúðuleikarar: Greta Clough, Elaine Hartlet og Siân Kidd

14


OKT

FUBAR

Uppistand, söngur og dans með Siggu Soffíu og Jónasi Sen

FUBAR fékk frábærar viðtökur gagnrýnenda um allt land auk tveggja tilnefninga til Grímuverðlaunanna 2017: Jónas Sen fyrir tónlist ársins og Sigga Soffía sem dansari ársins. Sýningin er blanda af uppistandi, dansi, söng og tónlist en verkið FUBAR var sýnt í Reykjavík í Gamlabíói, á Airwaves´16 og víða um landið á síðasta leikári. Verkið er því tekið upp aftur og verða tvær sýningar í Tjarnarbíói og í framhaldi verða sýningar á norðaustur horni landsins, Hveragerði, Vestmannaeyjum o.fl „Sigríður er ofsafenginn dansari sem hefur ekki bara impónerandi ægivald yfir líkama sínum heldur ekki síður magnaða tilfinningu fyrir uppbyggingu, skáldskap, ljóðrænu, tónlist og drama. Hún er dágóð leikkona, frábær sagnamaður og með fallega söngrödd, hefur til að bera kynþokka rokkstjörnu og tímasetningar góðs uppistandara. Tónsmíðar Jónasar eru til mikillar fyrirmyndar, þjóna sínu hlutverki vel, þótt þær myndu kannski ekki njóta sín jafn vel án umgjarðarinnar – grunar mig – en umgjörðin ekki heldur án þeirra, þetta eru allt púsl í sömu heildinni og allt passar fallega saman. Þá er fallegt að sjá hann dansa með Sigríði, það undirstrikar þema sýningarinnar, þennan berskjaldaða en tígulega vandræðaleik.“ -EÖ Verkið er framleitt af Níelsdætrum í samvinnu við Menningarsjóð VÍB og Reykjavíkurborg

„FUBAR var áhugavert, skemmtilegt og áhrifamikið verk.“ - Sesselja Magnúsdóttir, Kastljós.

„Sennilega besta danssýning menningarsögunnar“ - Eiríkur Örn, Starafugl

Tónlist: Jónas Sen Búningar: Hildur Yeoman Leikmynd: Helgi Már Verkefnastjóri: Emilía Sigurðardóttir Textar: Sigga Soffía

15


OKT

Íó

Undirheimaferð stúlku og hrafns

Hafrún er níu ára stelpa með mikið hrokkið hár. Hún elskar að ráða í drauma, borða pizzur og fylgjast með tunglinu. En í nótt getur Hafrún ekki sofið. Hún situr við gluggann, horfir á mánann og saknar ömmu sinnar sárt. Allt í einu sér hún hvítan hrafn koma fljúgandi á ógnarhraða. Hann skellur á rúðuna og hún opnar varlega til að hleypa honum inn. Hafrún hrekkur í kút þegar hrafninn hefur upp raust sína. Hann segist heita Íó og biður hana að fljúga með sér út um gluggann. Hann þarf á hjálp hennar að halda, því heimur hans er í mikilli hættu. Þá hefst stórfenglegt ferðalag til að bjarga heimi Íós. Þar takast Hafrún og Íó á við mögnuð öfl sem búa innra með okkur og eru jafn ómissandi og tunglið sem lýsir okkur nóttina. Íó er þroskasaga um hugrekki, vináttu, missi og leit að jafnvægi milli ljóss og myrkurs.

16

Höfundur og listrænn stjórnandi: Ragnheiður Harpa Leifsdóttir Leikstjóri: Aude Busson Leikmynda-, búninga- og brúðuhönnun: Sigríður Sunna Reynisdóttir Brúðuhönnun og leikkona: Aldís Davíðsdóttir Leikkona: Gríma Kristjánsdóttir Tónlist: Ásta Fanney Sigurðardóttir Ljósahönnun: Arnar Ingvarsson Textílhönnun og búningagerð: Tanja Huld Levý Guðmundsdóttir Framkvæmdastjóri: Anna Rut Bjarnadóttir Plakat og myndband: Una Lorenzen Styrkir: Mennta- og menningarmálaráðuneytið


NÓV

Everybody´s Spectacular

Alþjóðlega sviðslistahátíðin í Reykjavík, 15. – 19. nóvember 2017

Everybody’s Spectacular er árleg sviðslistahátíð sem blásið er til af Lókal og Reykjavík Dance Festival. Hátíðin, sem fram til þessa hefur verið haldin í lok ágústmánaðar, fer nú fram í fyrsta sinn í nóvember og verður þar með enn sterkari hluti menningarvetrarins í höfuðborginni. Everybody’s Spectacular er einstakur vettvangur fyrir þá sem vilja kynna sér nýjustu strauma og stefnur í sviðslistum. Dagskráin teygir sig yfir 5 daga, frá miðvikudegi til sunnudags, og er sem fyrr þéttskipuð og afar fjölbreytt. Boðið verður upp á frumsýningar á íslenskum verkum eftir marga af framsæknustu sviðslistamönnum landsins, í bland við ný verk virtra, alþjóðlegra listamanna. Einnig verða bráðnauðsynlegar umræður um listina og lífið, vinnustofur og aðrir viðburðir á dagskrá sem eiga við á þeirri mögnuðu stund þegar glugginn inn í hina litríku veröld sviðslistanna opnast upp! Frábærar sýningar, spennandi umræður, vinnustofur og partístemmning … Everybody’s Spectacular er leikvöllur fyrir fjölþætta fagurfræði, gleði, alvarleika, húmor, erindi og drifkraft. Við tökumst á við aðkallandi spurningar í samtímanum, bregðum hvunndeginum undir sjóngler og fögnum margbreytileika hans!

Everybody’s Spectacular er sameiginleg sviðslistahátíð RDF (www.reykjavikdancefestival.is) og LÓKAL (lokal.is). Hátíðin nýtur stuðnings Menningar- og menntamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Nánari upplýsingar um verk og listamenn má finna á spectacular.is

17


DES

SOL

Stafræn ást í háskerpu

Davíð upplifir umhverfi sitt sem tvo aðskilda heima. Annars vegar raunheiminn þar sem hann býr einn í stúdíóíbúð sinni, hræddur við það sem er hinumegin við útidyrnar, og hinsvegar heim tölvuleikja og netsamskipta. Þar eru engin vandamál. Þar getur hann verið nákvæmlega sá sem hann vill vera. Þar getur hann líka verið með SOL. Allir elska SOL. Allir girnast SOL. Allir vilja vera SOL. Það er skiljanlegt. Hún er sterkust, fljótust, fallegust og gáfuðust. Hún er almáttug og ódauðleg. En er hægt að verða ástfanginn af manneskju sem maður veit nær ekkert um, hefur aldrei séð og hvað þá hitt? Eru stafrænar tilfinningar raunverulegar, eða eru þær bara flóttaleið frá óútreiknanlegum raunveruleikanum? Sagan af SOL byggir á raunverulegri ástarsögu úr samtímanum.

18

Leikstjóri: Tryggvi Gunnarsson Leikarar: Salóme Rannveig Gunnarsdóttir, Hilmir Jensson og Kolbeinn Arnbjörnsson Handrit: Hilmir Jensson og Tryggvi Gunnarsson Hreyfihönnuður: Sigríður Soffía Níelsdóttir Leikmynd, ljósahönnun og hljóðheimur: Tryggvi Gunnarsson, Hafliði Emil Barðason og Valdimar Jóhannsson Aðstoð við búningahönnun: Sveinn „Nexus“ Ólafur Lárusson Styrkir: Mennta- og menningarmálaráðuneytið


DES

Ævintýrið um Augastein Jólaævintýri fyrir fjölskylduna sem hefur slegið í gegn fimmtán ár í röð!

Jólaævintýri fyrir alla fjölskylduna eftir Felix Bergsson í samvinnu við Kolbrúnu Halldórsdóttur og Helgu Arnalds. Verkið var frumsýnt í London árið 2002 og hefur verið sýnt reglulega á aðventunni síðan þá. Í fyrra sló sýningin enn í gegn, á sínu fimmtánda sýningarári, og var uppselt á allar sýningar. Í kjölfarið hefur Forlagið ákveðið að endurútgefa bókina með ævintýrinu en hún hefur verið uppseld í áraraðir. Bókin kemur út í september. Verkið byggir á sögunum um sveinstaulana þrettán, syni Grýlu og Leppalúða. Nú eru það jólasveinarnir sem reyna að bjarga drengnum Augasteini úr klóm Grýlu og jólakattarins áður en jólin ganga í garð.

Leikari: Felix Bergsson Höfundur: Felix Bergsson í samvinnu við Kolbrúnu Halldórsdóttur og Helgu Arnalds Brúður og leikmynd: Helga Arnalds Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason Tónlistarstjóri: Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson Upptökustjóri: Sveinn Kjartansson Meðleikari og sviðsstjóri: Guðmundur Felixson Leikstjóri: Kolbrún Halldórsdóttir

19


DES

Svanurinn Alveg eins og Jólagestir Bó! Nema verri söngvarar

Jólasýning Svansins er löngu orðin mikilvægur þáttur í jólaundirbúningi allra landsmanna. Þar verður grínað, glensað og allt gert til þess að koma áhorfendum í tengsl við hinn eina sanna jólaanda. Lög verða sungin, atriði verða leikin og hver veit nema einn eða tveir leynigestir láti sjá sig! Svanurinn er spunahópur sem var stofnaður fyrir fjórum árum og samanstendur af sjö metnaðarfullum spunaleikurum úr röðum Improv Ísland. Meðlimir Svansins hafa leikið fjöldann allan af spunasýningum, bæði sem hópur og sem meðlimir í sýningarhóp Improv Ísland. Þeir hafa komið fram á spunahátíðum hér á landi og í Bandaríkjunum. Þetta er þriðja árið í röð sem Svanurinn stendur fyrir jólasýningu en í ár verður sýningin að sjálfsögðu betri, stærri og jólalegri en nokkru sinni fyrr.

Fram koma: Adolf Smári Unnarsson, Auðunn Lúthersson, Guðmundur Einar, Guðmundur Felixson, Máni Arnarson, Ólafur Ásgeirsson og Pálmi Freyr Hauksson Tæknimaður: Stefán Ingvar Vigfússon

20


17 18

21


JAN

Galdrakarlinn í Oz

Syngjandi skemmtilegt ævintýraferðalag

Galdrakarlinn í Oz var frumsýndur af Leikhópnum Lottu í Elliðaárdalnum í maí 2008 og nú tíu árum síðar fær hann endurnýjun lífdaga í Tjarnarbíói. Leikhópurinn Lotta er landsmönnum að góðu kunnur en síðastliðin ellefu sumur hefur hópurinn ferðast með útileiksýningar út um allt land. Á hverju ári setur hópurinn upp nýjar sýningar sem allar hafa slegið í gegn og eru enn spilaðar af geislaplötum á fjöldamörgum heimilum. Núna hefur Lottan ákveðið að dusta rykið af þessum gömlu sýningum og endurvekja þær, 10 árum síðar, og nú innandyra. Við byrjum því á byrjuninni, á Galdrakarlinum í Oz sem er fyrsta verkið sem sérstaklega var skrifað fyrir Lottu. Flestir þekkja söguna af ævintýralegu ferðalagi Kansasstúlkunnar Dórótheu og Tótó, hundinum hennar, til ævintýralandsins Oz. Þar kynnist hún heilalausu Fuglahræðunni, hjartalausa Pjáturkarlinum og huglausa Ljóninu auk þess sem hún lendir í klóm vondu Vestannornarinnar. Dóróthea og vinir hennar lenda í allskyns hremmingum og þurfa að leita á náðir Galdrakarlsins ógurlega í Oz. Spurningin er núna hvort Galdrakarlinn getur hjálpað Dórótheu að komast aftur heim til sín og vinum hennar að fá það sem þá svo sárlega vantar.

22

Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir Höfundur leikgerðar: Ármann Guðmundsson Lög og söngtextar: Ármann Guðmundsson, Baldur Ragnarsson, Eggert Hilmarsson og Snæbjörn Ragnarsson Leikarar: Anna Bergljót Thorarensen, Baldur Ragnarsson, Huld Óskarsdóttir, Rósa Ásgeirsdóttir og Sigsteinn Sigurbergsson


JAN

Frjáls Framlög Tónleika-uppistand með óskabarni Snæfells- og Hnappadalssýslu

,,Hafið mig afsakaðann á meðan ég er skrítinn.” ,,Kári Viðarsson er fæðingarhálfviti” Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV ,,Næstvanmetnasti leikari landsins” Halldór Gylfason, frændi og leikari ,,Ef þú gengur ekki út, þá rennur þú út!” Drífa Skúladóttir, móðir

Frjáls Framlög er sprenghlægileg, grátbrosleg og afkáraleg gleðistund þar sem sveitaleikhúsmaðurinnn tví-kviðslitni og sí-kvíðasjúki, Kári Viðarsson, opnar myndlíkingargluggann inn í sundurslitið sálartetrið upp á gátt, lekur sínum leyndustu leyndarmálum og leikur leifturhress lög í fjölmörgum mismunandi tónlistarstílum inn á milli. Djúpar vangaveltur um lífið, leikhúsið, ástina og dauðann blandast saman við hárbeitta samfélagsrýni, samsæriskenningar og rammpólitískar afhjúpanir þar sem engu verður sópað undir teppið. Í hvert sinn er markmið sýningarinnar einfalt: Að miðla tvöföldum regnboga tilfinninga þar sem sviti hins sveltandi listamanns endurspeglar allt litrófið sem finna má á hinu vafa- og varasama vegasalti veruleikans.

Höfundur og gerandi: Kári Viðarsson Hönnuður veggspjalds: Franchesca Lombardi

23


FEB

Ahhh

Komdu, ég skal kæfa þig með kossi

RaTaTam, listhópur Reykjavíkurborgar 2017 Kynþokkafullur, fyndinn og ljóðrænn kabarett um vegi og vegleysur ástarinnar. RaTaTam syngur, dansar og leikur sér í gegnum margvíslega heima ástarglóðanna. Símtalið Ég ætlaði ekki að svara ef hann hringdi en svo hringdi hann ekki og þá varð ég brjáluð. Skyrtan Þarna liggur köflótta skyrtan hans á stólnum og ég verð yfirkomin af greddu svo gæti ég líka farið í hana og grenjað. Herbergi, hæð og hverfi Ef hann var í sama herbergi var ég mjög skotin í honum ef hann var á neðri hæðinni var ég sjúklega skotin í honum ef hann var í öðru hverfi var ég að deyja úr ást.

24

Höfundur : RaTaTam Ljóðheimur : Elísabet Jökulsdóttir Leikstjóri: Charlotte Bøving Búningar og sviðsmynd: Þórunn María Jónsdóttir Hljóðheimur: Helgi Svavar Helgason Ljósahönnun: Arnar Ingvarsson Leikarar: Gudmundur Ingi Þorvaldsson, Halldóra Rut Baldursdóttir, Hildur Magnúsdóttir og Laufey Elíasdóttir Listræn aðstoð: Guðrún Bjarnadóttir Framkvæmdarstjóri: Gríma Kristjánsdóttir Styrkir: Mennta- og menningarmálaráðuneytið


MARS

Hans Blær

„Róa sig. Ég er bara að reyna að vera svolítið skemmtilegt“

Hafið þið nokkurn tíma spurt ykkur hvaða eiginleika manneskja þyrfti að hafa til þess að þið gætuð verið þess fullviss að viðkomandi væri að öllu leyti, innra sem ytra, óferjandi skíthæll og viðundur? Og ef ekki - hvers vegna í ósköpunum ekki? Hans Blær Viggósbur er gjálífiströll með uppleysta sjálfsmynd, ofvirka tískuvitund og egó í hjartastað. Hán er glundroðamaskína í fjölkynja líkama sem lifir fyrir það eitt að storka heiminum og trekkja upp hina viðkvæmu. Allt frá því hán komst fyrst í tæri við hamstrahjól fjöl- og félagsmiðlunar hefur Hans Blær verið á milli tannanna á þjóðinni, sem sýpur hveljur og skríkir til skiptis, en skemmtir sér alltaf vel. Þegar upp kemst að Hans Blær hefur notað nauðgunarmeðferðarheimilið Samastað til þess að svala afbrigðilegum fýsnum sínum er hugsanlegt - rétt svo hugsanlegt - að samfélagið hafi loks fengið nægju sína og þjóðin sé hætt að flissa. Óskabörn ógæfunnar og Eiríkur Örn Norðdahl unnu síðast saman að leiksýningunni Illska sem hlaut sex tilnefningar til Grímunnar, þar á meðal sýning ársins og leikrit ársins. Nú matreiða þau ískalt lík tröllasamfélagsins ofan í gapandi vandláta skolta ofurmeðvitaðra hipsterkúreka og réttlætisriddara - á besta stað í borginni - og bera það fram snyrtilega niðursneitt á nýuppþvegnu silfurfati. Skemmtið ykkur í guðanna bænum vel. Þetta verður tótal hatefest.

Höfundur: Eiríkur Örn Norðdahl Leikstjóri: Vignir Rafn Valþórsson Sviðshreyfingar: Halla Ólafsdóttir Flytjendur: Sveinn Ólafur Gunnarsson, Sólveig Guðmundsdóttir, Jörundur Ragnarsson, Birna Rún Eiríksdóttir, Kjartan Darri Kristjánsson Framkvæmdarstjóri: Davíð Freyr Þórunnarson Styrkir: Mennta- og menningarmálaráðuneytið

25


MARS

Crescendo Hvað gerist þegar líkaminn leggur við hlustir?

Þrjár konur vinna hörðum höndum að því að flétta saman einföld hreyfimunstur á dáleiðandi hátt. Þær þrá að hverfa bak við hreyfingar sínar og verða sviðsgaldrinum að bráð. Crescendo er nýtt íslenskt dansverk eftir Katrínu Gunnarsdóttur, umvafið reyk, rödd og rythma. Crescendo sækir innblástur í vinnusöngva, hvernig það að raula og syngja hefur verið notað í gegnum tíðina til að létta undir líkamlegri vinnu og stilla saman strengi. Katrín Gunnarsdóttir hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir frumlegar og ögrandi sýningar sem hafa verið sýndar víða hér heima og erlendis. Hún hlaut Grímuna sem dansari ársins 2017 fyrir sólóverkið Shades of History sem sýnt var í Tjarnarbíói á síðasta leikári við frábærar viðtökur gagnrýnenda og áhorfenda.

26

Danshöfundur: Katrín Gunnarsdóttir Dansarar: Heba Eir Kjeld, Snædís Lilja Ingadóttir og Védís Kjartansdóttir Sviðsmynd og búningar: Eva Signý Berger Hljóðmynd: Baldvin Magnússon Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson Dramatúrgía: Alexander Roberts og Ásgerður G Gunnarsdóttir Ljósmynd: Hörður Sveinsson Styrkir: Mennta- og menningarmálaráðuneytið


APRÍL

Vakúm

Poppópera um lofttæmingu

Vakúm merkir lofttæming eða tómarúm og margir tengja orðið vakúmpakkningum eða vakúmryksugum. Vakúm er einnig hugtak í eðlisfræði og á við rými sem inniheldur hvorki neitt efni né nokkra rafsegulgeislun og hefur loftþrýsting 0 Pa. Í tómi örsamfélagsins Vakúms standa fimm söngvarar og dansarar á sviði og takast á við það verkefni að skapa eitthvað úr engu; regla verður að óreiðu, samhverf og ósamhverf mynstur verða til, þögnin fæðir af sér söng. Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, danshöfundur, hefur í fyrri sviðsverkum leitast við að varpa nýrri sýn á samband og möguleika þessara tveggja miðla; tónlistar og danslistar.

Höfundur: Melkorka Sigríður Magnúsdóttir Tónlist: Árni Rúnar Hlöðversson og Melkorka Sigríður Magnúsdóttir (Milkywhale) Texti: Auður Ava Ólafsdóttir Leikmynd og búningar: Magnús Leifsson Dramatúrg: Halldór Halldórsson Flytjendur: Auðunn Lúthersson, Ásgeir Helgi Magnússon, Elísa Lind Finnbogadóttir, Gunnar Ragnarsson og Melkorka Sigríður Magnúsdóttir Styrkir: Mennta- og menningarmálaráðuneytið

27


MAÍ

Bergmálsklefinn Hvar lifum við lífinu okkar?

#bergmálsklefinn #echochamber

Bergmálsklefinn er ný íslensk ópera um kynjahyggju á samskiptamiðlum frá tón- leikfélaginu Aequitas Collective í samstarfi við Alþýðuóperuna. Bergmálsklefinn kynnir sögu af 4 einstaklingum og upplifanir þeirra af Twitter. Áhorfendur dýfa sér lengst niður í dimman, absúrd og fyndinn heim samskiptamiðla og kynnast fernhyrntri tjáningu hugsana í formi 140 stafa. Skjárinn á sviðinu verður með „Twitter feed“ í beinni þar sem áhorfendur geta tístað beint inn í atburðarrásina. Sungið verður bæði á íslensku og ensku, en þýðingar verða birtar á skjá. Bergmálsklefinn notar tíst úr íslensku samfélagi orð fyrir orð til að skoða hvernig tjáning okkar á netinu mótar okkar daglega líf. Hvar lifum við lífinu okkar? Á netinu eða fyrir utan skjáinn? Sýningin rannsakar hvort skuggi svarta skjásins sýnir raunverulegu hlið manneskjunnar og hennar raunverulegu tilfinningar. Hvað segjum við og hvað meinum við í skjóli tölvunnar?

28

Leikstjóri og textagerð: Ingunn Lára Kristjánsdóttir Tónskáld: Michael Betteridge Leikendur: Rosie Middleton, Ísabella Leifsdóttir, Jónína Björt Gunnarsdóttir og Ívar Helgason Styrktaraðliar: Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Arts Counsil Englandi, Reykjavíkurborg, Open Fund PRS Foundation, Íslenska óperan og Söngskóli Sigurðar Demetz


MAÍ

Them

„Ekki vera kelling“

Að vera karlmaður, ekkert mál! Fjórar ungar konur með ólík sjónarmið og reynslur leggja af stað í rannsóknarferðalag til að öðlast skilning á því hvað það er að vera karlmaður í nútíma samfélagi. Allt frá því að bera hatur til karlmanna, að langa að vera karlkyns í barnæsku yfir í að geta ekki lifað lífinu án þess að hafa karlmann sér við hlið, mætast þær í forvitnlegum leiðangri um heim karlmannsins og karlmennskunnar. Breytt ímynd karlmannsins, barátta karla og kvenna fyrir jafnrétti, eitruð karlmennska - þorum við að taka stærra skref fram á við og skoða meinið við rætur þess? “Opin umræða um kynbundnar reynslur er mikilvæg til að skilja vandamál sem eiga annars til að vera dulin fyrir öðrum en þeim sem eiga í hlut. Við finnum til ábyrgðar á að kynna okkur reynslu feðra okkar, bræðra, maka, vina og kunningja sem við, sem kvenmenn, áttum okkur mögulega ekki á. Hver er þeirra veruleiki?” Byggt á tugum viðtala við karlmenn í hinum Vestræna heimi.

Leikstjóri: Anna Korolainen Dramatúrg: Minerva Pietilä Sviðsmyndahönnuður: Hallveig Kristín Eiríksdóttir Tónlist- og hljóðmynd: Kristian Pernilä Ljósahönnuður: Markus Alanen Framkvæmdarstjóri: Suvi Nousiainen Art Direction: Louis Crevier Leikarar: Anna Korolainen, Bergdís Júlía Jóhannsdóttir, Marjo Lahti og Tinna Þorvalds Önnudóttir.

29


TJARNARBARINN Tjarnarbarinn er kaffihús í Tjarnarbíói, sem er nú opið alla daga. Einnig er Tjarnarbarinn opinn í tengslum við alla viðburði. Þá opnar barinn klukkustund fyrir sýningar og er opinn áfram að þeim loknum. Tjarnarbarinn er veglegt kaffihús og blómstrandi miðstöð sjálfstæðu leikhópanna. Á Tjarnarbarnum eru til sölu allskyns kræsingar: frábært kaffi, gómsætar kökur og kruðerí, beyglur, súpur og fleira. Svo er vínið og bjórinn auðvitað alltaf á sínum stað. Gestum er velkomið að taka léttar veitingar með sér inn á sýningar. Á Tjarnarbarnum eru reglulega viðburðir af öllum gerðum; tónleikar, upplestrar, leiksýningar, samkomur, fundir, myndlistarsýningar og kynningar. Ertu með hugmynd? Langar þig að vera með viðburð á Tjarnarbarnum? Ekki hika við að hafa samband: tjarnarbarinn@tjarnarbio.is


Yfir 300 tilboð Allir viðskiptavinir Arion banka eru í Einkaklúbbnum

H V Í TA H Ú S I Ð / S Í A

– 17-1280

Náðu í appið og nýttu þér tilboðin


32


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.