Veiðivötn

Page 1

Veiðivötn

Örn Óskarsson

1



Kort af vatnasvæðinu - þarf að vera brotið saman

Veiðivötn



Örn Óskarsson

Veiðivötn

2014


Rit þetta er verkefni í Margmiðlunarhönnun við Borgarholtsskóla. Umbrot og myndvinnsla var í höndum undirritaðrar en texti og meirihlutinn af myndefninu fengin hjá umsjónarmanni upplýsingavefs um Veiðivötn: veidivotn.is Kærar þakkir til Arnar Óskarssonar fyrir afnot af texta og aðgang að myndabanka, og til kennara og samnemenda fyrir aðstoð og ábendingar. Kristín Runólfsdóttir

Náttúrufar í Veiðivötnum © Höfundaréttur mynda: Örn Óskarsson/Kristín Runólfsdóttir Allar myndir eru teknar á Nikon D70 og D90. Allt efni í þessu riti er verndað af ákvæðum höfundalaga. Öll birting efnis úr bókinni er háð skriflegu leyfi frá höfundi. Notkun, sem brýtur í bága við lög eða samninga, getur haft bóta- og refsiábyrgð í för með sér.


Efnisyfirlit Náttúrufar í Veiðivötnum ............................... 6 Jarðfræði ......................................................... 10 Gróður ............................................................ 14 Fiskur .............................................................. 18 Urriði ........................................................... 20 Bleikja .......................................................... 22 Hornsíli ....................................................... 23 Seiðasleppingar .......................................... 24 Saga silungsveiða í vötnunum .................. 27 Veiðin í vötnunum .................................... 31 Fuglar .............................................................. 34 Spendýr ........................................................... 38


Náttúrufar í Veiðivötnum

6


Veiðivötn er vatnaklasi norðan Tungnaár á Landmannaafrétti. Alls eru vötn og pollar á svæðinu 50 talsins. Vötnin liggja í aflangri dæld sem er breiðust um 5 km og um 20 km löng frá Snjóölduvatni í suðvestri að Hraunvötnum í norðaustri. Þau eru í 560-600 m hæð yfir sjávarmáli. Austan Veiðivatna liggur Snjóöldufjallgarður en Vanaöldur vestan þeirra. Mörg Veiðivatnanna eru gígvötn mynduð í Veiðivatnagosinu 1477. Þau eru flest lítil um sig, innan við 1 km2, en oft hyldjúp. Eskivatn og Nýjavatn eru dýpst, um og yfir 30 m djúp. Stærstu vötnin eru Litlisjór, Grænavatn, Ónýtavatn og Snjóölduvatn. Litlisjór er langstærstur um 9,2 km2, Grænavatn 3,3 km2 og Snjóölduvatn 1,6 km2. Þessi vötn eru ekki gígvötn og voru til fyrir 1480. Tjaldvatn og Breiðavatn eru grynnst, meðaldýpi um 1-3 m. Á neðri hluta Veiðivatnasvæðisins eru gróðurlitlar vikuröldur og melar áberandi í umhverfi vatnanna en norðar setja mosavaxin hraun sterkan svip á landslagið. Hraunin og klepragígarnir á Hraunvatnasvæðinu eru sérlega tilkomumikil. Sömuleiðis eru fallegar hraunmyndanir í Fossvatnahrauni, við Skálavötn og Pyttlur. Talsvert votlendi er meðfram Vatnakvísl sem einkennist af grunnum tjörnum, pollum og mýrarfenjum. Breiðaver og verin við Ampapoll eru stærst en minni ver eru við Nýjavatn, Snjóölduvatn og í Kvíslum neðan við Grænavatn. Verin eru stærstu samfelldu gróðursvæðin og mikilvægust fyrir fuglalífið í Veiðivötnum. 7


Gróðurfar hefur öræfasvip. Mosi er algengasti gróðurinn og setja mosaklæddir gjallhólar víða einkennandi svip á svæðið. Mest er gróskan í gróðrinum þar sem raka er að finna svo sem á bökkum vatna og lækja. Jarðvegur á Veiðivatna svæðinu er mjög sandorpinn, blanda af sandi og ösku. Hann bindur vatn lítið og aðeins þurrkþolnar og harðgerðar plöntur dafna í slíkum jarðvegi. Í þurrum og snörpum vindi fýkur sandur af Vatnaöldum og hraunbreiðunum norður af Hraunvötnum og Litlasjó suður yfir vötnin. Moldarmyndun er mjög hæg. Moldarjarðveg er helst að finna meðfram vatns- og lækjarbökkum. Þekktust eru vötnin fyrir gjöfula silungsveiði. Urriði er náttúrulegur á svæðinu og er nú í flestum vötnum, en bleikja hefur komist úr Tungnaá í nokkur af neðstu vötnunum. Hornsíli finnast í flestum vötnum. Vötnin eru flest mjög lífauðug. Plöntusvif er ríkulegt og frumframleiðsla mikil. Botndýralíf er ríkulegt en svifdýralíf aftur á móti fábreyttara. Af botndýrum eru lirfur rykmýs og vorflugu áberandi svo og vatnabobbar. Skötuormar finnast í flestum vötnum síðsumars. Lirfur bitmýs eru algengar í botni kvísla og lækja. Einkum er bitmý mikið við Fossvötn, Tjaldvatn, Langavatn og Eskivatn. Fuglalíf er fjölbreytt á svæðinu. Breiðaver og verin við Ampapoll, Nýjavatn, Snjóölduvatn og í Kvíslum neðan við Grænavatn eru mikilvægust fyrir fuglalífið á svæðinu. Einnig er mikið um fugla við Tjaldvatn, Skálavatn, Fossvötnin og víða í Hraunvötnum. Þrjár tegundir villtra spendýra finnast á svæðinu, refur, minkur og hagamús. 8


Fossvatnahraun

9


Jarðfræði Veiðivötn liggja í aflangri lægð með norðaustur - suðvesturstefnu. Lægðin er allt að 5 km breið og 35 km löng frá Norðurnámum á Landmannaafrétti að Ljósufjöllum. Veiðivatnasvæðið frá Snjóölduvatni norðaustur í Hraunvötn er um 20 km langt. Suðaustan við svæðið er móbergshryggur, Snjóöldufjallgarður en öskugígaröð, Vatnaöldur, að norðvestanverðu. Í lægðinni eru fjölmörg stöðuvötn og pollar. Eldgos um 1477 mótaði ásýnd Veiðivatnasvæðisins. Þá gaus á 67 km langri sprungu sem liggur eftir Veiðivatnadældinni miðri. Gosið byrjaði allsstaðar sem þeytigos nema á stuttum kafla meðfram Litlasjó þar sem flæðigos var allan tímann. Síðar tóku flæðigos við af þeytigosunum og hraun tók að renna. Þar sem hraun rann víða yfir mjög blautt land urðu kröftugar gufusprengingar sem mynduðu marga gervigíga sem hlóðu upp gjóskubingjur. Stórir gjóskugígar og stuttar gígaraðir með fjölbreytilegum gosmyndunum eru víða á gossprungunni. Gjóskugígarnir hafa myndast í upphafi goss. Sumir gígarnir eru ógnarstórir. Stærsti gígurinn er þar sem Skálavatn 10


Klepragígur við Hraunvötn og Langavatn eru. Hann er um 2,5 km í þvermál þar sem hann er víðastur. Tjaldvatn og veiðihúsin standa í 1,5 km víðum gíg. Í honum er stutt klepragígaröð, Vatnaborgir, og hraun frá henni þekur gígbotninn. Fossvötnin eru fallegir gjóskugígar. Í Hraunvötnum eru víða mjög stórir gjósku og klepragígar. Í Veiðivatnagosinu varð til mikið gjóskulag sem er 10 - 12 m þykkt í 2 - 3 km fjarlægð frá gígunum. Askan barst til norðausturs og myndar öskulag á norðausturlandi. Mörg smáhraun urðu til í gosinu, einkum á Hraunvatnasvæðinu og í Pyttlum. Hraunin hafa runnið seinni hluta gossins frá klepragígum. Flest stöðuvötnin á svæðinu mynduðust í Veiðivatnagosinu. Fyrir gosið er talið að eitt eða fleiri stór stöðuvötn hafi verið á svæðinu. Snjóölduvatn, Ónýtavatn, Grænavatn og Litlisjór eru taldar vera leifarnar af þessu vatni eða vötnum. Vatnaöldur norðvestan við Veiðivötn eru taldar myndaðar í stórgosi um 900. Þá gaus á um 60 km langri sprungu. Skyggnisvatn er í stærsta gígnum frá því gosi. 11


12


Rauðigígur í Hraunvötnum

13


Gróður Gróðrinum í Veiðivötnum er með öræfasvip og flestar tegundir sem vaxa þar eru algengar um allt hálendið. Helstu gróðurlendin eru Kvíslar milli Grænavatns og Ónýtavatns og Breiðaver við Breiðuvötn. Furðu gróður -sælt er einnig í Fossvatnahrauni, Slýdrætti, Snjóölduveri, við Tjaldvatn og Skálavatn. Þar eru víða skjólsælir staðir með miklum raka og gróskulegu blómlendi. Í Breiðaveri eru mýrarflóar með klófífu (Eriophorum angustifolium Honck) og hengistör (Carex rariflora). Einnig finnast fífusund við Tjaldvatn og vesturenda Nýjavatns. Gróðurinn er yfirleitt gróskumestur og fjölbreytilegastur meðfram lækjum og vötnum. Þar er ætihvönnin (Angelica archgelica) mest áberandi. Hún vex oftast á mjórri rönd næst vatnsbökkum en myndar sumstaðar samfellt hvannastóð eins og í Fossvatna- hrauni og Slýdrætti. Alaskalúpína dafnar ágætlega innan um brennisóleyjar (Ranunculus acris), hvannir, burnirót (Rhodiola rosea) og annan blómgróður við Ampahól og í Slýdrætti. Lúpínan nær ekki að þroska fræ nema í bestu árum og breiðist því hægt út. Fjallavíðir (Salix arctica Pall) Grávíðir (S. callicarpaea), holurt (Silene uniflora), geldingahnappur (Armeria maritima), krækilyng (Empetrum nigrum) og ýmis grös eru áberandi þar sem jarðvegur er þurrari.

14


Vetrarblóm

Mosi er algengasti gróðurinn á vatnasvæðinu. Allvíða myndar hann þykka dýnu. Mosaklæddir móbergshólar við Fossvötn (Litli-Klofi), Snjóölduvatn (Mosanefið) og Nýjavatn setja sterkan svip á landslagið. Þykkur mosagróður er einnig víða í hraunum við Hraunvötn og í Pytlum. Mjög fáar plöntur dafna á foksandssvæðunum í Vatnaöldum og ofan við Hraunvötn. Þar finnast þó stakir melgresisbrúskar (Leymus arenarius). Þar sem sandöldurnar eru fastari fyrir finnast ýmis grös, geldingahnappur og holurt. Hvergi mynda þær samfellt gróðurlendi á öldunum. 15


16


Geldingahnappur

Músareyra

Holurt

Eins og víða annarsstaðar á hálendinu er gróður á Veiðivatnasvæðinu ákaflega viðkvæmur. Í góðu árferði er gróskan í gróðrinum ótrúlega mikil og þroski margra plantna síst lakari en gerist á láglendi.. Af og til koma síðan ár þar sem plönturnar ná varla að lifna, hvorki blómstra né mynda fræ. Gróður á Veiðivatnasvæðinu var nýttur til beitar á þessari öld. Síðustu tvo áratugina hefur svæðið að mestu notið friðunar fyrir sauðfjárbeit. Síðan landið var friðað hefur víða á svæðinu orðið sýnileg aukning bæði á gróðurþekju og grósku. Ágangur veiðimanna og ferðamanna hefur stöðugt aukist síðustu ár. Víða stórsér á gróðri við vatnsbakka og á mosavöxnum hólum. 17


Fiskur Þrjár fisktegundir finnast í Veiðivötnum; urriði (Salmo trutta), bleikja (Salvelinus alpinus) og hornsíli (Gasterosteus aculeatus). Veiðimálastofnun undir stjórn Magnúsar Jóhannssonar hefur rannsakað fiskinn í Veiðivötnum frá árinu 1985. Megintilgangurinn hefur verið að fylgjast með ástandi fiskistofnanna með áherslu á nýliðun urriða og ástand og vöxt sleppiseiða og ungfiska. Einnig hefur útbreiðsla og viðgangur bleikju verið athugað. Rannsóknirnar eru unnar fyrir Veiðifélag Landmannaafréttar.


19


Urriði Frá náttúrunnar hendi eru Veiðivötn hrein urriðavötn. Urriði finnst nú í flestum vötnum og pollum á Veiðivatnasvæðinu. Sennilega hafa menn frá fornu fari stundað fiskflutninga á milli vatna og síðar skipulagðar seiðasleppingar.

20


Toppflugan er mikilvæg fæða fyrir fiskana

Urriðinn í Veiðivötnum er einstakur. Hann er óvíða stórvaxnari og feitari. Samkvæmt niðurstöðum erfðarannsókna virðist Veiðivatnaurriðinn hafa einangrast ofan ófiskgengra fossa fljótlega eftir að ísöld lauk. Óvíða í heiminum er til hreinni stofn af þessum ísaldarurriða. Urriðinn í Þingvallavatni er af sömu gerð. Urriðar af þessum stofni eru sérlega hraðvaxta og verða síðar kynþroska en urriðar af sjógöngustofnum eða stofnum í láglendisvötnum. Algengast er að Veiðivatnaurriðinn verði kynþroska 7-9 ára þá orðinn 40 sm og l kg. Allt að 20 punda fiskar hafa veiðst í Veiðivötnum og árlega veiðast 10-15 punda fiskar. Þessir stórfiskar eru oft 9-16 ára gamlir. Urriðinn hrygnir í malarbotn í rennandi vatni í október til desember. Hrygningarstöðvarnar eru oftast á um 0,52 m dýpi. Í mörgum vatnanna eru slík skilyrði eingöngu við lindir. Léleg hrygningar -skilyrði og uppeldisskilyrði fyrir smáseiði eru í mörgum stóru vatnanna. Þar er því stopul náttúruleg nýliðun. Í Grænavatni og Ónýtavatni er mjög lítil nýliðun og í Litlasjó heppnast klak aðeins í einstaka árum. Í Fossvötnum, flestum Hraunvatnanna og í Skálavötnum eru þokkalegar aðstæður til hrygningar. Þar sem náttúruleg nýliðun nægir ekki til að viðhalda afkastamiklum stofni hefur undanfarin ár verið gripið til seiðasleppinga. Urriðinn er uppistaðan í stang- og netaveiði í Veiðivötnum og undirstaðan í fæðu himbrimans á vatnasvæðinu. 21


Bleikja Bleikju varð fyrst vart í Snjóölduvatni árið 1972 en árið 1983 er hún einnig í Skyggnisvatni, Breiðavatni, Nýjavatni og Langavatni. Í Veiðivötn hefur bleikja gengið úr Tungnaá eftir kvíslunum. Á 7. áratugnum var bleikju sleppt í vötn á Skaftártungnaafrétti og barst hún þaðan út í Tungnaá. Nú er bleikja í 11 vötnum á Veiðivatnasvæðinu. Það er nánast öll

vötn sem hafa samgang við Tungnaá nema Fossvötnin. Fossinn neðan við Litla-Fossvatn er hindrun á útbreiðslu bleikjunar. Bleikja hefur fundist í Snjóölduvatni, Nýjavatni, Austurbjallavatni, Krókspolli, Skyggnisvatni, Kvíslarvatni, Eskivatni, Langavatni, Tjaldvatni, Stóra-Skálavatni og Hamrafellsvatni. Erfitt er að skýra hvernig bleikja hefur borist í Skálavatn sem ekki hefur neitt sýnilegt úrrennsli. Hugsanlega hafa fuglar borið smáseiði úr Tjaldvatni en þar er nóg af smábleikju og stutt á milli vatnanna. Ef til vill eru hefur hún fundið sér leið neðanjarðar um sprungur. Í Austurbjallavatni og Hamrafellsvatni er bleikjan smávaxin og horuð en víða annarsstaðar er ástand hennar gott. Bleikja er einráð í Austurbjallavatni og Tjaldvatni en er annars í sambýli og samkeppni við urriða. Urriðinn hefur víða orðið undir í þeirri samkeppni t.d í Langavatni og Eskivatni. Undanfarin ár hefur veiðiálag á bleikju í þessum vötnum verið aukið með netaveiði og urriðaseiðum sleppt til að freista þess að rétta við urriðastofninn. Bleikjan veiðist yfirleitt lítið á stöng.

22


Hornsíli Hornsíli finnast sennilega í flestum vötnum á svæðinu. Útbreiðsla þeirra og stofnstærð hefur ekki verið könnuð. Hornsíli eru mjög áberandi í flestum Hraunvatnanna, Snjóölduvatni, Litla- og Stóra Skálavatni, Litlasjó og Nýjavatni. Þar sjást þau í torfum við bakka og rekur dauð á land í ölduróti. Aftur á móti eru hornsíli sjaldséð, en eru þó til í Fossvötnum, Breiðu vötnum, Grænavatni og Pyttlum. Líklega eru hornsíli og skötuormur í einhverri samkeppni því þar sem hornsíli eru algeng er skötuormurinn sjaldgæfur og öfugt. Hornsíli eru mjög líklega uppistaðan í fæðu kríunnar í Veiðivötnum. Einnig nýtir urriðinn þau sem fæðu.

23


e af s d n My

m ngu i p p asle

Seiðasleppingar Til eru upplýsingar um seiðasleppingar frá árinu 1965. Engar heimildir liggja fyrir um fiskflutninga fyrir þann tíma. Árið 1965 var nokkrum seiðum ásamt klakfiski sleppt í Hraunvötn. Seiðin voru klakin í klakhúsi á Heiðarbrún í Holtum. Aftur var seiðum sleppt í Hraunvötn 1969.

24

Veiðifélagið hefur látið veiða klakfisk í ötnunum frá árinu 1965. Árin 1975, 1976, 1979-82, 1985 og 1992 var engum seiðum sleppt í Veiðivötn en annars var töluverðu magni urriðaseiða sleppt árlega.


Í fyrstu var aðallega sleppt kviðpokaseiðum í fisklaus vötn svo sem Hraunvötn og Litlasjó. Á siðari árum hefur áhersla verið lögð á sleppingu stærri seiða, einkum ársgömlum, enda hefur árangur þess reynst betri. Með tilkomu fiskeldisstöðvarinnar að Fellsmúla í Landsveit um miðjan 9. áratuginn varð veruleg aukning í seiðaeldi og sleppingum. Frá árinu 2011 hafa seiðin komið úr klakhúsi og seiðaeldisstöð að Götu í Holtum. Nú er áhersla lögð á sleppingu í vötn sem hafa lélega nýliðun eins og Litlasjó, Ónýtavatn, Grænavatn og Snjóölduvatn. Jafnframt hefur verið sleppt í önnur vötn svo sem Tjaldvatn, Litla- og Stóra-Skálavatn, Breiðavatn, Nýjavatn, Langavatn, Arnarpoll, og Stóra-Fossvatn (1999-2002). Pyttlur, Fremra-Ónýtavatn, Skálavatnspollur, Ónefndavatn, Litla-Breiðavatn, Kvíslarvatnsgígur og Andapollur voru fisklaus. Urriðaseiði voru sett í flest þessi vötn árið 1974 en einnig síðar. Frá upphafi hefur eingöngu urriðaseiðum verið sleppt í vötnin og þess kappkostað að nota eingöngu urriða af Veiðivatnastofni. Klakfiskurinn hefur komið úr Hraunvötnum og úr Litlasjó. Árin 1999 til 2002 var nokkur þúsund seiðum sleppt í Stóra Fossvatn. Þá var klak-

fiskurinn tekinn úr Stóra Fossvatn og seiðunum haldið aðgreindum frá öðrum seiðum. Árið 1973 var 10 þúsund seiðum ættuðum úr Meðalfellsvatni sleppt í Litlasjó. Erfðamengun frá þessum stofni er óveruleg en finnst þó í Litlasjó. Fiskur úr Litlasjó hefur margoft verið nýttur til hrognatöku svo möguleiki er á erfðamengun víðar þó svo slíkt hafi ekki mælst. Flestum seiðum var sleppt árið 1986. Um 105 þúsund sumaröldum seiðum var þá sleppt í 15 vötn, mest 35 þúsund seiðum í Litlasjó. Frá árinu 1993 hefur árlega verið sleppt 20-105 þúsund seiðum, mest í Litlasjó. Árangur seiðasleppinga í Veiðivötnum er augljós. Áður fisklaus vötn eins og Hraunvötn og Litlisjór eru nú full af fisk og aflaaukning kemur fram í rannsóknarveiðum og í stang- og neta- veiði í kjölfar seiðasleppinga í Litlasjó, Grænavatni, Ónýtavatni og Snjóölduvatni. Greining á hreistri og kvörnum ásamt merkingum sýna að aflaaukning í þessum vötnum er vegna sleppinga. Miðað við árangur er mjög brýnt að halda áfram seiðasleppingum í þau vötn sem sýna lélega eða enga nýliðum því ljóst er að það er forsenda fyrir jafnri og góðri veiði í Veiðivötnum.

25


Anna Rut Arnardóttir og Kristín Runólfsdóttir með urriða úr Hraunvötnum

26


Saga silungsveiða í vötnunum Silungsveiði hefur eflaust verið stunduð í Veiðivötnum frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Veiðisaga vatnanna er að mestu ókunn á fyrri öldum en þeirra er fyrst getið í Njálu en eru þar nefnd Fiskivötn. Um aldamótin 1700 minnist Árni Magnússon á Veiðivötn í riti sínu og segir að þar sé nógur silungur. Á fyrri öldum var veiðin stunduð bæði úr Skaftártungu og Rangárvallasýslu en síðustu 200 árin einkum úr Rangárvallasýslu og nokkuð úr Árnessýslu. Þorvaldur Thoroddsen getur þess í ferðabók sinni (1898) að veiði sé farin að minnka mikið í vötnunum næst kofunum síðan menn fóru að brúka lóðir. Þá voru menn nýlega byrjaðir að leggja lóðir í Snjóölduvatni og þar var veiðin mikil. Á þessum árum var ekki talinn vera fiskur í Litlasjó, Grænavatni og Ónýtavatni. Þó reyndu menn að leggja þar líka en veiðin var engin. Fiskurinn var sendur til byggða ef vel veiddist áður en veiðiferð lauk en

annars var hann hertur eða saltaður innfrá. Í ferðabók Sveins Pálssonar (1945) er þess getið að Skaftártungumenn hafi stundað miklar silungsveiðar upp við Fiskivötn á haustin en veiðiferðirnar hafi lagst að nokkru niður eftir 1740. Veiðivatnaferðir Skaftfellinga hættu síðan endanlega í Móðuharðindunum og engar heimildir til um að þær hafi hafist að nýju eftir harðindin. Veiði var mjög lítið stunduð á 18. öld. Ástæðan er sennilega tíð eldgos. Guðmundur Árnason í Múla á Landi segir í Árbók Ferðafélags Íslands 1940 að eftir Kötlugosið 1918 hafi veiði dottið niður í Veiðivötnum. Aðeins fengust fáeinir gamlir horslápar en beinagrindur hafi legið með löndum. Fjórum til fimm árum seinna fór að votta fyrir ungviði. Um 1940 töldu vatnakarlar að silungurinn hafi enn ekki náð sér að stærð og gæðum. Mjög líklega hefur álíka hrun í stofni Veiðivatnaurriðans gerst oft fyrr á öldum í tengslum við stórgos.

27


Örn Óskarsson með urriða úr Hraunvötnum

Á síðustu öld voru það einkum Landmenn sem nytjuðu vötnin og hefur svo verið lengst af á 20. öld. Löngum var fáförult til Veiðivatna enda Tungnaá mikil hindrun. Árið 1950 fannst Hófsvað og þá komust fjallabílar inn í Veiðivötn. Um svipað leiti eru dæmi þess að flugbátur hafi flutt veiðimenn frá Vestmannaeyjum til vatnanna og lent á einhverju vatnanna. Um 1960 stunduðu bændur netaveiði mjög stíft enda var veiðin oft ævintýraleg. Einnig slæddust inneftir stangveiðimenn sem einnig veiddu vel. Jeppavegur opnaðist til Veiðivatna með tilkomu kláfferjunnar á Tungnaá 1964 og eftir að brú kom á

28

Tungnaá við Sigöldu 1968 var auðfarið inn í Veiðivötn og umferð mikil. Veiðifélag Landmannaafréttar var stofnað um vötnin árið 1965. Þá var tekinn upp sá háttur að stangveiðimönnum var leigð veiði í tvo mánuði, oftast frá 20. júní til 20. ágúst en þá tók netaveiði bænda og landeigenda í Holta- og Landsveit við til 20. september. Netaveiði er nú takmörkuð við 12 vötn af þeim 22 sem veiði er stunduð. Mest er lagt í Litlasjó og önnur stór vötn. Fjöldi neta er takmarkaður. Í nokkrum vötnum t.d. í Litlasjó eru svæði friðuð fyrir netaveiði og ákveðin lágmarks möskvastærð.


29


Stangafjöldi hefur alltaf verið takmarkaður í Veiðivötnum og á 7. og 8. áratugnum voru veiðitakmarkanir í einstökum vötnum og ákveðin veiðisvæði í vötnum friðuð. Á árunum 1965-1980 var stangafjöldi takmarkaður við 20 stangir á dag en nú er miðað við að stangafjöldinn fari ekki yfir 80 stangir. Veiðileyfin hafa lengst af eingöngu verið seld í Skarði í Landsveit allt til ársins 1999. Sigríður Theodóra Sæmundsdóttir í Skarði í Landsveit (Dóra í Skarði) annaðist söluna árin 1967-1999. Frá árinu 2000 hefur Bryndís Magnúsdóttir selt veiðileyfin. Veiðivörður hefur verið í Veiðivötn um frá 1959. Sæmundur Guðmunds -son var veiðivörður frá 1959-1966 og aftur 1980-1985. Gunnar Guðmundsson var veiðivörður frá 19671979. Frá árinu 1986 hafa Rúnar Hauksson og Bryndís Magnús -dóttir séð um gæslu á svæðinu. Hermann Karlsson hefur verið þeim til aðstoðar. 30


Veiðin í vötnunum Veiði hefur verið skráð reglulega frá árinu 1965. Fyrir þann tíma eru aflatölur mjög óljósar en oft var veiðin mikil og veiðisögurnar stórkostlegar. Töluverðar sveiflur hafa alla tíð verið á veiðinni. Frá 1965 hefur veiðin sveiflast frá 600 fiskum 1966 upp í mest um 19 þúsund fiska árið 1977. Árið 1965 veiddust 9300 urriðar, þar af 8552 í Stóra Fossvatni. Eftir lágmarkið í veiðinni 1966 var veiðin um 3-4 þúsund fiskar árlega fram til ársins 1973. Frá árinu 1974 varð mikil aflaaukning sem náði hámarki árið 1977, þegar 18885 fiskar veiddust, þar af 15760 urriðar (83% veiðinnar) í Stóra Fossvatni. Aflinn úr Stóra Fossvatni var uppistaðan í heildarveiðinni árin 1974-78.

Þá var Stóra Fossvatn þéttsetið af smáum urriða. Eftir viðkomubrest í Stóra Fossvatni minnkaði veiðin þar og féll þá heildarveiðin niður í 3-4 þúsund fiska í byrjun 9. áratugarins. Um miðjan 9. áratuginn jókst veiðin jafnt og þétt einkum vegna aukinnar veiði í stóru vötnunum, Litlasjó, Grænavatni, Ónýtavatni og Snjóölduvatni. Þá aukningu má að verulegu leiti rekja til seiðasleppinga í þessi vötn. Einnig varð veruleg aukning í bleikjuveiði í Snjóölduvatni, Bjallavötnunum og Skyggnisvatni. Árið 1988 var bleikja um 40% heildaraflans. Bleikja var 10% heildarveiðinnar 1991-1992 en aðeins 3% (322 bleikjur) árið 1993. Flestar bleikjur veiddust í Skyggnisvatni og Langavatni þessi ár. 31


Árin 1990 til 2000 var stangveiðin 7000-11000 fiskar en eftir 2000 hefur veiðin aukist umtalsvert og er nú 14000-17000 fiskar á ári. Uppistaðan í veiðinni síðustu árin (allt að 43%) hefur að jafnaði verið stór og fallegur urriði úr Litlasjó. Einnig hefur veiðst vel í Hraunvötnum og Ónýtavatni. Grænavatn hefur sömuleiðis gefið vaxandi afla. Veiði á urriða hefur minnkað en

Örn Óskarsson við Litlasjó

32

bleikjuveiði aukist í ýmsum af neðri vötnunum svo sem Nýjavatni, Langavatni og Eskivatni. Sem dæmi þá veiddust aðeins 3 urriðar og 1 bleikja á stöng í Langavatni árið 1993. Áður voru þessi vötn gjöful og urriðinn stór og feitur. Ástandið í þessum vötnum hefur þó lagast mikið undanfarin ár í kjölfar aðgerða gegn bleikjunni og sleppingu urriðaseiða.


Anna Rut Arnardóttir við Snjóölduvatn

Á síðari árum hafa um 60% veiðinnar komið í stangveiði og um 40% í net. Þetta segir ekki alla söguna því oftast fást stærri og þyngri fiskar í netin. Meðalþyngd urriða í veiðinni hefur oftast verið um 1 kg. en hefur heldur vaxið undanfarin ár. Meðalþyngdin er misjöfn á milli vatna en hefur verið hæst í Grænavatni undanfarin ár. Litlisjór og Hraunvötn koma þar skammt á eftir.

Bleikja veiðist frekar í net (87%) en á stöng (13%) en undanfarin ár hafa mun fleirri urriðar veiðst á stöng en í net. Á árunum 1992-1996 veiddust um 65% urriðanna á stöng og 35% í net. Sumarið 1993 veiddust 4724 fiskar (6772 kg) í net. Sama ár veiddust 5312 fiskar (6596 kg) á stöng. Þá var veitt á 3070 stangir. Að meðaltali veiddust 1,7 fiskar á stöng árið 1993. Svipað þessu hafa hlutföllin oftast verið.

33


Lóuþræll

Straumendur

Húsönd

Óðinshani

Fuglar Alls hafa 57 fuglategundir sést á Veiðivatnasvæðinu. Þar af eru 22 tegundir árvissir varpfuglar. Ásamt varpfuglunum sjást 11 tegundir reglulega en ekki hefur tekist að staðfesta varp. Um 24 tegundir hraknings og flækingsfugla hafa sést á svæðinu. Nú á tímum eru Breiðaver og verin við Ampapoll mikilvægustu varpsvæði fugla á Veiðivatnasvæðinu. Þar er mikið óðinshana-, anda- og heiða- gæsavarp. 34

Á varptíma eru stokkendur og hávellur algengustu endurnar en einnig sést talsvert af duggönd, skúfönd, urtönd og grafönd í verunum. Talsvert er einnig af fuglum í verum við Nýjavatn, Snjóöldu -vatn, í Kvíslum, við Fossvötnin, Stóra Skálavatn, víða í Hraunvötnum, umhverfis Tjaldvatn og við Slídrátt. Álftir verpa í verum víða á svæðinu.


Á bökkum vatna og kvísla verpa himbrimar og endur, einkum stokkendur og hávellur. Á vikuröldum á milli vatnanna er varpsvæði sendlings, sandlóuog kríu. Nokkur kríuvörp eru á svæðinu. Allsstaðar þar sem kletta er að finna svo og í hraunum er snjótittlingur með hreiður. Hann er algengasti varpfuglinn á svæðinu. Stöku maríuerlupör verpa einnig í hraungjótum. Maríuerla er árviss varpfugl í Vatnsgíg við Tjaldvatn. Heiðlóur, stelkar, steindeplar, þúfutittlingar og rjúpur teljast sjaldgæfir varpfuglar.

Haförn verpti í Arnarsetri við Stóra Skálavatn til ársins 1902. Á meðan arnarvarpið var til staðar virðist sem stórt andavarp hafi verið í hólmunum í Skálavatni í næsta nágrenni arnarhreiðursins. Nú eru þar fáir fuglar. Síðsumars er oft líflegt fuglalíf í Veiðivötnum. Þá koma á svæðið fuglar í fæðuleit svo sem hópar af steindeplum, þúfutittlingum og maríuerlum og fuglar sem eiga leið um á farflugi. Þá sjást smyrlar, hettumáfar, spóar, hrossagaukar, helsingjar og skógarþrestir stakir eða nokkrir saman.

Himbrimi á hreiðri

35


Á Grænavatni er stór andahópur í fjaðrafelli öll sumur. Þetta eru mest duggendur og hávellur en einnig nokkuð um skúfendur. Annar minni fellihópur er á litlu grunnu vatni vestast í Hraunvatnaklasanum. Þar eru einkum duggendur.

Markvissar rannsóknir á fuglalífi í Veiðivötnum eru fáar og einkum frá síðari árum. Í lok síðustu aldar ferðuðust innlendir og erlendir fuglaáhugamenn um Veiðivatnasvæðið.

Óðinshani myndaður

36


Kríuáras

Þorvaldur Thoroddsen (1889) getur um fugla í Veiðivötnum í ferðabók sinni og breskir ferðamenn og eggjasafnarar Þeir Henry J. og Charles E. Pearson (1894) lýsa fuglalífi við Tjaldvatn. Erling Ólafsson, Ólafur Karl Nielsen og Örn Óskarsson könnuðu fuglalíf í Veiðivötnum 15.-16. júní 1980. Arnþór Garðarsson og Kristinn Haukur Skarphéðinsson rannsökuðu fuglalíf úr flugvél að vetrar- og sumarlagi á 9. áratugnum. Örn Óskarsson hefur fylgst með fuglalífi í Veiðivötnum frá árinu 1969 er hann kom fyrst á svæðið. Hann fór sérstakar ferðir til fuglarannsókna í Veiðivötnum árin 1994-2006. Einar Þorleifsson og Kristinn Haukur Skarphéðinsson könnuðu fuglalífið 3.-4. júlí 1996.

37


Spendýr Þrjár tegundir villtra spendýra finnast á Veiðivatnasvæðinu. Minkur (Mustela vison) er algengasta spendýrið. Minka verður fyrst vart á þessum slóðum um 1964. Þeir virðast fljótlega ná góðri fótfestu á svæðinu, enda er nóg af fylgsnum í hraungjótum og fæðu í vötnum. Fiskur er sennilega aðalfæðan árið um kring. Á varptíma fugla tekur hann örugglega mikið af eggjum og ungum. Algengt er að sjá mink eða ummerki eftir hann við Hraunvötn, Fossvötn, Skálavötn og í Pyttlum. Minkaveiðar hafa

38

verið stundaðar á Veiðivatnasvæðinu, bæði af minkaveiðimönnum og veiðivörðum. Að meðaltali hafa 40 dýr verið drepin árlega síðustu árin. Refur (Alopex lagopus) sést af og til á Veiðivatnasvæðinu, en telst sjaldgæfur. Á svæðinu eru þekkt fjögur greni, en þau hafa lítið verið nýtt undanfarin ár. Hagamús (Apodemus sylvatixus) er sjaldgæf á svæðinu enda er lítið um samfelld frægjöful gróðursvæði. Hennar hefur einkum orðið vart við gömlu veiðihúsin hjá Slídrætti.


Lágfóta í Veiðivatnahrauni

39




Veiðivötn er vatnaklasi norðan Tungnaár á Landmannaafrétti. Vötn og pollar á svæðinu eru um 50. Þau liggja í aflangri dæld frá Snjóölduvatni í suðvestri að Hraunvötnum í norðaustri, í 560-600 metra hæð yfir sjávarmáli.

Þekktust eru vötnin fyrir gjöfula veiði og náttúrufegurð

42


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.