6 minute read

INNGANGUR BLS

INNGANGUR

INNGANGUR

VERKFÆRAKISTAN

Þessi verkfærakista er ætluð sveitarfélögum sem vilja bæta lífsgæði lítilla og meðalstórra bæja með umbreytingu þéttbýlissvæða. Hún er kynning á verkfærum fyrir skipulag og umræðu sem leggja áherslu á lífsgæði, mannlíf í þéttbýli og aðlaðandi atvinnustarfsemi í gegnum allt ferlið. Vinnan byggir á sjálfsmynd og staðarvitund, og virkar sem áminning fyrir sveitarstjórnir og verktaka um að áherslan þarf að vera á lífsgæði frá upphafi skipulagsvinnu til framkvæmdar og mats á verkefnum.

ÞÁTTTAKENDUR

Verkfærakistan er hluti af stærra verkefni, Aðlaðandi norrænir bæir, sem hleypt var af stokkunum árið 2017 þegar Noregur fór með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Í verkefninu Aðlaðandi norrænir bæir er áhersla á litla og meðalstóra bæi og er það eitt af fjölmörgum verkefnum sem efla samkeppnishæfni Norðurlandanna, umhverfisvæna endurnýjun, umskipti í lág-kolefna samfélög, félagslega aðlögun samfélagshópa, og umhverfi sem bætir heilsu íbúa. Áhersla er m.a. á þéttbýlismyndun sem lykiláskorun Norðurlandanna í umbreytingu sinni í grænt hagkerfi. Ýmsar áskoranir og kerfislæg vandamál hafa haft áhrif á marga litla og meðalstóra bæi í nágrenni við stórborgasvæði á síðustu árum. Sem dæmi má nefna að atvinnugreinar flytja eða leggja niður starfssemi sína og skilja eftir stór tóm iðnaðarsvæði og hafnir. Einnig dvínar verslunarstarfssemi og íbúafjöldi sem verður sýnilegt í tómum verslunarhúsnæðum í miðbæjarkjörnum. Brottflutningar til stærri borga og samkeppni á milli bæja felur í sér áskoranir fyrir mörg minni bæjarfélög á Norðurlöndunum.

Formennskuverkefnið hefur lagt til samnorræna stefnumótun um það hvernig bæir og bærliggjandi svæði geta aukið aðdráttarafl sitt með lifandi og auðnotuðu þéttbýlisumhverfi sem er sjálfbært út frá efnahagslegum, umhverfislegum og félagslegum sjónarmiðum. Norræna ráðherranefndin vill þróa aðferðir og verkfæri sem efla litla og meðalstóra bæi í umbreytingu þéttbýlissvæða með það að markmiði að sporna við áframhaldandi brottflutningi til stærri borga og efla sveitarstjórnir í þróun lítilla og meðalstórra bæja. 18 litlir og meðalstórir norrænir bæir hafa myndað tengslanet og tóku þátt í verkefninu á árunum 2017-2019. Unnið var í fjórum þemahópum - með ólík áhersluatriði innan verkefnisins. Áhersla þessa verkefnis, verkfærakistunnar, er á hvernig LÍFSGÆÐI getur orðið mikilvægt þema byggðarþróunar á öllum stigum - í hag bæja, íbúa þeirra og hagsmunaaðila. Sveitarfélögin Middelfart, Salo, Akranes og Växjö hafa skilgreint sameiginlega áskorun: Hvernig á að tengja umbreytingarsvæði við miðbæjarkjarna, og hvernig er hægt að einkenna þessi svæði miklum lífsgæðum sem eru oft tengd litlum og meðalstórum norrænum bæjum. Þessi sameiginlega áskorun er lögð að grunni verkefnisins, og samhliða þróun verkfærakistunnar hafa sveitarfélögin fjögur prófað aðferðirnar í uppbyggingu eigin umbreytingasvæða.

Nánari upplýsingar um verkefnið Aðlaðandi norrænir bæir er að finna hér: https://www.regjeringen.no/no/tema/kommuner-og-regioner/ by--og-stedsutvikling/attraktive-nordiske-byer-

GILDI FYRIR AÐRA BÆI

Verkfærakistan er hönnuð til að styðja við og veita litlum og meðalstórum bæjum innblástur til að umbreyta úreltum viðskipta- eða iðnaðarsvæðum í ný aðlaðandi þéttbýlissvæði og þannig auka gildi svæðanna og almenn lífsgæði í þéttbýlinu.

Margar norrænar bæir þurfa að enduruppfinna sjálfa sig ef ætlunin er að halda eða laða að yngri íbúa og nýja atvinnustarfssemi. Hins vegar þurfa bæir að finna leiðir til umbreytinga án þess að rýra gildi jákvæðra eiginleika sem til staðar eru. Það þarf ekki að breyta einhverju sem virkar vel, eða að breyta því án þess að huga að því hvernig hægt væri að bæta það. Að kortleggja tiltæka eiginleika jafnt sem framtíðareiginleika er því sérstaklega mikilvægt. Að leggja áherslu á lífsgæði er þess vegna gefandi á margan hátt.

Fagfólk í borgarskipulagi og íbúar þéttbýla þurfa a þróa sameiginlegt tungumál til að eiga samskipti við yfirvöld um lífsgæði. Í tiltækum vísum um byggðarþróun er oft lögð áhersla á tölfræðilega þætti sem ná ekki yfir allar hliðar lífsgæði, og almennt er skortur á vísum sem meta félagslega þætti til að geta skilgreint og lagt mat á lífsgæði og eiginleika þéttbýlisþróunar. Verkfærakistan getur breytt þessu með því að tryggja áframhaldandi áherslu á lífsgæði sem byggja á staðarvitund.

NÁLGUN

Þessi verkfærakista er leiðarvísir í gegnum ferlið að tryggja lífsgæði í bænum þínum.

Fyrst er kynning á vísitölu lífsgæða með 9 þemum. Með þátttöku almennings í fjórum sveitarfélögum voru þemun valin sem mest viðkomandi lífsgæðum í litlum og meðalstórum bæjum á Norðurlöndunum. Skýrslan leiðir þig í gegnum æfingar sem auðvelda skipulag í þróunarferlinu og styðja við það með kortlagningu, greiningum, mótun framtíðarsýnar, aðferðum til að safna saman hagnýtum hugmyndum um verkefni, aðferðum framkvæmdaáætlunar, og að lokum aðferðum til að meta niðurstöðurnar.

Í stuttu máli er nálgunin svona:

• Notaðu passlega mikinn tíma í að greina og skilja séreinkenni bæjarins og umlykjandi svæðis og hvernig aðstæður eru í samhengi alþjóðavæðingar og samkeppnisharðs heims. Skilgreindu og kortleggðu áskoranir og tækifæri. • Fáðu skilning á verkefninu í samhengi alþjóðavæðingar og greindu frá áskorunum sem bærinn stendur frammi fyrir. • Kortleggðu viðkomandi aðila sem sinna ákvarðanatöku og aðra sem ættu að vera hluti af umbreytingaferlinu og verkefninu. • Íhugaðu hvaða samtök og stofnanir ættu að koma að verkefninu. Hafðu gott skipulag á ferlinu og skilgreindu lykilhagsmunaaðila og hver það er sem fer með ákvarðanavald í lokaákvörðunum. • Notaðu verkfærakistuna í ferlinu og lagaðu verkfærin að sértækum aðstæðum og þörfum. • Aðaláhersla er á að móta sameiginlega framtíðarsýn fyrir verkefnið, og síðan að leggja fram undirmarkmið sem fylgt er eftir í seinni hluta ferlisins. Framtíðarsýnina á að skapa saman! • Skapið eigin skilgreiningu á hugtakinu LÍFSGÆÐI, hvað það þýðir í þínum bæ og fyrir þína menningu, og hvaða kröfur og skilyrði umbreytingaferlið þarf að uppfylla til að ná markmiðum framtíðarsýnarinnar. • Komdu á fót skilvirkum umræðuvettvangi þar sem allir hagsmunaaðilar geta tekið þátt og niðurstöður eru lagaðar að ákvarðanatöku í gegnum allt ferlið. • Gerðu framkvæmdaráætlun fyrir verkefnið sem er fjárhagslega raunhæf og mun skila áþreifanlegum árangri. • Meta þarf verkefnið stöðugt í gegnum allt ferlið og einnig þarf að skipuleggja lokamatsvinnu á niðurstöðunum.

ÁBENDINGAR OG GÓÐ RÁÐ

Aðferðirnar í verkfærakistunni, eyðublöð, ráðleggingar og leiðbeinandi spurningar á ekki að sjá sem lista yfir staðreyndir eða handbók sem á að fylgja frá A til Ö.

Í hverjum bæ eru aðstæður íbúa sérstakar. Þetta á við um landfræði, menningu, samhengi, þarfir, o.s.frv. Þess vegna ætti frekar að nota verkfærakistuna sem innblástur og laga síðan aðferðirnar að ferlinu þínu, bænum þínum og samhengi.

Þéttbýlisþróun er lifandi ferli. Það munu koma hindranir á leiðinni og það þarf getu til að laga verkefnið að þeim og endurhugsa ákvarðanir til þess að komast yfir þær.

Á meðan á mótun og framkvæmd verkefnisins stendur er mjög mikilvægt að tryggja að farið sé með umboð ákvarðanatöku. Þetta á við um einstaka hluta verkefnisins en einnig umræður við hagsmunaaðila.

Oft getur reynst erfitt að fá yfirsýn yfir kostnað umbreytingaverkefnis og getur leitt til að hlutar verkefnisins komast ekki í framkvæmd. Það er því mælt með því að fá aðstoð fagfólks sem getur lagt raunhæft mat á kostnað hvers hluta og hugsanlegan hagnað þess. Það getur verið gott að nota greiðsluflæðislíkan til að reikna út stöðu fjármála í verkefninu á öllum stigum. Það er von okkar að þessi ráð, og verkfærakistan, auki gildi byggðarþróunar á Norðurlöndunum.

ÁFANGARNIR 5:

1. Greining | Kortlagning lífsgæða, tækifæra og áskorana í bænum og á svæðinu.

2. Framtíðarsýn | Mótun framtíðarsýnar á lífsgæði á svæðinu.

3. Verkefni | Skilgreining verkefna í þágu lífsgæða og framtíðarsýnar.

4. Framkvæmd | Þróun áætlunar til að koma hugmyndum í framkvæmd.

5. Matsvinna | Mat á aðferðum framkvæmdanna.

Verkfærakistan kynnir einnig leiðir til að auðvelda umræður um verkefnið og að gera raunhæfnimat samhliða áföngunum 5.

This article is from: