9 minute read

Brautskráning 4. júní 2021

Next Article
Ræktun & Fæða

Ræktun & Fæða

Endurmenntun tekur jafnan þátt í erlendum samstarfsverkefnum og á árinu 2021 var framhald á samstarfsverkefninu „LEARN THE LIFE - „Development of the Cultural and Heritage Tourism Skills for Rural Communities“ en samstarfsaðilar verkefnisins eru frá Danmörku, Frakklandi, Króatíu, Litháen og Noregi. Endurmenntun tók einnig þátt í Nordplus verkefninu „Education of older adults – OLDER. Comparing Baltic and Nordic Frame-works“ ásamt fulltrúum frá Danmörku, Lettlandi og Litháen og lauk því samstarfi á árinu 2021.

RAGNHEIÐUR I. ÞÓRARINSDÓTTIR, REKTOR

Kæru kandídatar, búfræðingar, starfsfólk og aðrir góðir gestir.

Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin til brautskráningarhátíðar Landbúnaðarháskóla Íslands 2021. Kæru kandídatar og búfræðingar, hjartanlegar hamingjuóskir með áfangann, sem þið hafið unnið hörðum höndum að, og staðfestist á þessum fallega degi með afhendingu prófskírteina.

Þetta skólaár var fyrsta heila skólaárið þar sem unnið var eftir nýju skipuriti skólans sem tók gildi 1. janúar 2020, þar sem fagdeildum er skipt í Ræktun & fæðu, Náttúru & skóg, og Skipulag & hönnun. Það er óhætt að segja að vel hafi tekist til við þessa breytingu. Nemendum hefur fjölgað á öllum deildum og á öllum námsstigum, nýir starfsmenn hafa bæst í hópinn, rannsóknir hafa stóreflst, fé úr samkeppnissjóðum hefur aukist og ritrýndum greinum hefur fjölgað. Ný samstarfsverkefni hafa hafist innanlands og alþjóðlegt samstarf aukist.

Mörg af þeim markmiðum sem ákveðin voru í stefnu skólans til fimm ára sem samþykkt var í júní 2019 hafa þannig nú þegar náð fram að ganga.

Hlutverk Landbúnaðarháskólans er í stefnunni skilgreint; “að skapa og miðla þekkingu á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu á norðurslóðum.” Áhersla er lögð á að efla rannsóknir, nýsköpun og kennslu sem styður hvert við annað, byggja upp innviði og skilvirka nýtingu þeirra, efla mannauð og liðsheild og tryggja traust og gott orðspor.

Á vormánuðum tók Landbúnaðarháskólinn þátt í Gallup könnun sem metur traust almennings á starfsemi skólans og hversu vel almenningur þekkir til starfseminnar. Niðurstaðan byggir á samanburði við aðrar stofnanir og fyrirtæki og í ljós kom að traust almennings á Landbúnaðarháskólanum mældist yfir meðallagi en þekking almennings á starfsemi skólans undir. Því betur sem fólk þekkir til skólans þeim mun meira er traustið. Hér er því sóknarfæri fyrir okkur að gera enn betur í kynningarmálum. Helstu þættir sem svarendur nefndu sem skólinn þyrfti að breyta voru 1) að vera sýnilegri og kynna sig betur, 2) bjóða upp á fjölbreyttara nám, 3) auka áherslu á garðyrkju, 4) auka nútímavæðingu og 5) auka umhverfissjónarmið og tillit til loftslagsbreytinga.

Við höfum þegar brugðist við þessum niðurstöðum og fórum m.a. í samstarf við Atvinnulífið á Hringbraut um gerð tveggja kynningarþátta um starfsemi skólans og námsframboð, sem sýndir voru í maímánuði. Vil ég þakka sérstaklega þeim nemendum sem tóku þátt, sem og samstarfsfólki, en tekin voru á þriðja tug viðtala fyrir þættina. Þá höfum við lagt okkur fram um að koma okkur á framfæri í öðrum frétta- og samfélagsmiðlum. Allt

kynningarstarf er mikilvægt en það verður þó ávallt svo í þessum efnum að nemendur okkar, núverandi og fyrrverandi, eru okkar allra bestu erindrekar. Það er því besta kynningarstarfið þegar nemendur segja frá verkefnum sínum í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum og í beinum samskiptum við áhugasama.

Upplýsingagjöf innan skólans var aukin með reglulegum starfsmannafundum og upplýsingapóstum til starfsmanna og nemenda.

Formleg vinna við sjálfsmat fagdeilda hófst í janúar á þessu ári en undirbúningur hófst nokkuð fyrr. Unnið var ötullega að sjálfsmatsskýrslum allra þriggja fagdeilda, en þær leggja grunninn að undirbúningi fyrir úttekt Gæðaráðs íslenskra háskóla sem fram fer á næsta ári. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkar skýrslur eru unnar niður á deildir skólans. Vinnan gekk vel og var lærdómsrík fyrir allar deildir og er það sérstakt gleðiefni hvernig nemendur tóku virkan þátt. Niðurstöðurnar voru síðan rýndar af þremur erlendum sérfræðingum sem skiluðu endurgjöf um miðjan maí sem deildirnar munu nú vinna úr. Allt er þetta hluti af sífelldu umbótastarfi sem er nauðsynlegt allri skólastarfsemi.

Unnið hefur verið að ýmsum umbótum í stoðþjónustu skólans. Haustið 2020 voru innleidd ný kennslu- og prófakerfi, Canvas og Inspera, sem auðvelda nemendum jafnt sem kennurum utanumhald um gögn og aðgengi þeirra í kennslu. Þessi kerfi hafa komið að sérlega góðum notum í fjarnáminu sem var óumflýjanlegt í Covid-19 faraldrinum og hafði mikil áhrif á skólastarf nánast allt árið.

Skólaárið hófst með nýrri Covid-bylgju og takmarkað sem nemendur gátu komið saman á haustmánuðum, enginn leðjuslagur leyfður og bannað að nýta líkamsræktaraðstöðu skólans sér til heilsubóta. Það var því einstaklega góð tilfinning að taka þátt í Skeifudeginum á Sumardaginn fyrsta. Ákváðu nemendur að halda sínu striki og fundu lausnir til að láta vel takast til þrátt fyrir samkomutakmarkanir.

Ég veit að þetta var oft erfitt og mikið álag í því síbreytilega regluumhverfi sem við bjuggum við. Vil ég nota tækifærið hér og þakka nemendum, kennurum, starfsfólki kennsluskrifstofu, tölvuþjónustu og annarrar stoðþjónustu skólans fyrir alla þá vinnu sem lögð var í það á láta hlutina ganga upp. Þá vil ég einnig þakka mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrir stuðning við að efla námsráðgjöf og auka aðstoð við nemendur, koma á sumarnámi, og styðja við skólana á allan þann hátt sem unnt var.

Landbúnaðarháskóli Íslands er fyrsti skólinn á Íslandi sem tekur upp WorkPoint skjalakerfi, en innleiðingin hófst á haustmánuðum. Samhliða er unnið að því að færa Gæðahandbók skólans í kerfið og uppfæra reglur, stefnuskjöl og verklag. Á skólaárinu var ný gæðastefna, starfsþróunarstefna og ný persónuverndarstefna samþykkt af háskólaráði, ný heilsuverndarstefna var samþykkt, reglur um meistaranám voru uppfærðar, nýjar reglur um viðbótarnám á meistarastigi hjá Landgræðsluskólanum voru samþykktar, og reglur um BS nám og verklagsreglur um námsbrautarstjórn í BS námi voru samþykktar. Þá var ný upplýsinga- og skjalastefna samþykkt og jafnréttisáætlun uppfærð.

Miklar endurbætur fóru fram á skólahúsnæðinu á Reykjum. Þá var unnið að ýmsum endurbótum á Hvanneyri og Keldnaholti í samstarfi við Ríkiseignir og Húsafriðunarsjóður styrkti endurbætur á Leikfimihúsi og Hvanneyrarkirkju, Fífilbrekku á Reykjum, auk úttektar á gróðurhúsunum þar. Þrír rafmagnsbílar voru keyptir og rafhleðslustöðvar settar upp með styrk úr Orkusjóði.

Ýmis tæki og búnaður var keyptur til rannsókna og kennslu á öllum starfsstöðvum og í sumum tilfellum fengust myndarlegir styrkir m.a. úr Innviðasjóði. Á undanförnum misserum hefur verið

keyptur tækjabúnaður fyrir jarðræktarrannsóknir fyrir á annað hundrað milljónir. Þá hefur verið keypt nýtt kolefnistæki og ýmis annar búnaður fyrir jarðvegsrannsóknir svo dæmi séu nefnd.

Ný bygging og gróðurhús sem hýsa á Jarðræktarmiðstöð á Hvanneyri hafa verið teiknaðar. Fjármunir fengust á fjárlögum 2021 til að hefja undirbúning að byggingu Jarðræktarmiðstöðvar og unnið hefur verið að samningum um fjármögnun ásamt kaupum á Mið-Fossum með hluta af andvirði Korpu.

Sú uppbygging mun verða mikil lyftistöng á sviði jarðræktar, sem og á sviði landnýtingar, umhverfis- og loftslagsmála, auk þess að styðja við búvísindi og hestafræði skólans, og starfsemi Hvanneyrarbús og Hestbús. Landbúnaðarháskólinn hefur hug á því að gerast einn af fyrstu háskólunum á alþjóðavísu til að vera kolefnishlutlaus og uppbyggingin mun styðja beint við þær áætlanir.

Aðsókn í skólann hefur verið að aukast. Haustið 2019 fjölgaði sérlega í hópi nemenda í umhverfisvísindum og skógfræði. 2020 var mesta aukningin í landslagsarkitektúr og á garðyrkjubrautum skólans. Umsóknarfrestur í ár er ekki liðinn en nýjustu tölur sýna mikinn áhuga á búvísindum.

Nemendum fjölgaði á öllum námsstigum. Eru nemendur nú hátt á sjötta hundrað, og þá eru ekki taldir þeir sem sækja nám við Endurmenntun skólans. Í starfsmenntanáminu eru um 200 nemendur, í grunnnámi skólans eru rúmlega 200 nemendur og einnig hefur fjölgað í hópi framhaldsnema sem eru nú ríflega 100. Fjölgun doktorsnemenda styður við rannsóknastarf skólans og er að þakka góða sókn í samkeppnissjóði.

Leitað er leiða til að anna eftirspurn í búfræðinámið, en í mörg ár hafa færri komist að en vilja. Ungir bændur hafa biðlað til skólans um að taka inn fleiri nemendur og er boðið upp á inntöku í fjarnám í haust og stefnt er að því að fjölga í tvo bekki í búfræði haustið 2022.

Unnið er að því að færa starfsmenntanám í garðyrkju til Fjölbrautaskóla Suðurlands í samræmi við ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra sem barst í lok síðasta árs.

Samstarf við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti á grundvelli samnings sem undirritaður var í mars 2020 hefur verið afar gefandi og hefur leitt af sér viðamiklar skýrslur um fæðuöryggi, flokkun landbúnaðarlands og afkomu sauðfjárbænda. Í lok apríl var síðan haldinn fundur á Hvanneyri með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hagaðilum um eflingu kornræktar.

Samstarf Landbúnaðarháskóla Íslands, Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og atvinnuvega- og nýsköpunarrráðuneytis um Orkídeu hófst með formlegum hætti í júlí 2020, en það snýr að því að nýta sjálfbæra orku og styðja við ný tækifæri í matvælaframleiðslu og líftækni.

Síðastliðinn þriðjudag hófst á Hvanneyri hringferð ráðuneytisins, þar sem kynnt er umræðuskjal um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland, Ræktum Ísland. Var fundurinn á Hvanneyri vel sóttur og umræður mörkuðust af jákvæðni og bjartsýni á framtíð íslensks landbúnaðar. Menn eru almennt sammála um að sú vinna sem liggur til grundvallar í skjalinu sé fagleg og vönduð, en nú þarf að tryggja að allir hagaðilar leggist saman á árarnar og vinni sameiginlega að þeirri framtíðarsýn sem verður mörkuð. Tryggja verður að landbúnaðarstefna og aðrar mikilvægar stefnur tali saman og að aðgerðir, tímasetning þeirra og fjármögnun fylgi í kjölfarið.

Áskoranir eru margar en tækifærin fylgja þeim og drög að landbúnaðarstefnu, vinna við gerð loftslagsstefnu og fæðuöryggisstefnu, aukinn áhugi og almenn umræða um landbúnað, umhverfis-, loftslags- og skipulagsmál fylla okkur öll bjartsýni, enda landið okkar gjöfult á auðlindir og landið þekkt fyrir hreinleika og gæðaafurðir.

Kæru kandídatar og búfræðingar Það er sumar og hækkandi sól. Ekki bara á ykkur á þessum stóra degi í lífi ykkar heldur á íslenskan landbúnað og allar greinar honum tengdum. Áhugi á landbúnað, matvælaframleiðslu, matvælaöryggi, umhverfis- og loftslagsmál, landslagsarkitektur og skipulagsmál er mikil. Ný landbúnaðarstefna er að líta dagsins ljós, og þið getið haft bein áhrif á það hvernig hún mun mótast, gerð aðgerðaáætlunar og að koma henni í framkvæmd.

Hefðbundinn landbúnaður stendur að mörgu leyti á tímamótum sem mótast af þeim lykilbreytum sem eru dregnar fram í umræðuskjalinu um landbúnaðarstefnu: landnýtingu, loftslagsmálum og umhverfisvernd, tækni og nýsköpun og alþjóðlegum straumum. Frjósamur jarðvegur er fyrir nýjar og ferskar hugmyndir sem byggja á sjálfbærri nýtingu auðlinda landsins og kom það skýrt í ljós á nýafstaðinni nýsköpunarviku þar sem ótal mörg spennandi og fjölbreytt verkefni voru kynnt. Voru þar ný sprotafyrirtæki að taka sín fyrstu skref og önnur fyrirtæki sem voru lengra komin og farin að velta milljörðum á ári hverju.

Hugmyndirnar voru allt frá því að vera í frumframleiðslu í það að vera byggðar á fullvinnslu eða jafnvel endurvinnslu afurða. Ljóst er að hér eru lítil takmörk á því hvað hugmyndaauðgi, kraftur og þekking fær áorkað þegar saman koma öflugir hópar einstaklinga með þverfaglegan bakgrunn.

Tækifærin sem þið kæru kandídatar og búfræðingar standið frammi fyrir eru því óteljandi og vandinn felst helst í því að velja sér rétta leið sem færir manni lífsfyllingu og ánægju. Sjálfbærni er lykilorðið í dag og þá verður að muna eftir öllum þremur stoðum sjálfbærninnar, umhverfinu, samfélaginu og efnahagslegum þáttum.

Kæru kandídatar og búfræðingar Við erum afar stolt af árangri ykkar og óskum ykkur velfarnaðar í þeim verkefnum sem framundan eru, um leið og við þökkum fyrir góða samvinnu og samveru á undanförnum árum. Tækifærin innan landbúnaðar, loftslags- og skipulagsmála á Íslandi hafa líklega sjaldan verið jafn spennandi og nú og maður fyllist bjartsýni að sjá þennan glæsilega hóp ungs fólks sem ætlar að taka framtíðina í sínar hendur.

Í lokin langar mig að flytja fyrir ykkur vísu eftir Steingrím Baldvinsson í Nesi:

Leggðu þig fram, það er lífsins boð

Lítil að náminu er þér stoð ef kappið ei hugann hvetur.

Hvort há eða lág þín einkunn er alltaf er prófið til sæmdar þér ef þú gerir eins vel og þú getur.

Þakka ykkur öllum fyrir samfylgdina. Til hamingju með daginn!

This article is from: