5 minute read

Ræktun & Fæða

ÞÓRODDUR SVEINSSON, DEILDARFORSETI

Ræktun og fæða leggur áherslu á sköpun, varðveislu og miðlun þekkingar í búfjárrækt, jarðrækt og sjálfbærri nýtingu lands til landbúnaðarframleiðslu. Sérstök áhersla er lögð á fóðrun, atferli og velferð búfjár; búfé og búfjárkynbætur; jarðveg, ræktun og plöntukynbætur; búrekstur og bútækni.

Viðfangsefni deildarinnar eru þverfagleg sem samtvinna líffræðilega, tæknilega, hagfræðilega og samfélagslega þætti tengda landbúnaðarframleiðslu og áhrif hennar á allt umhverfi nær og fjær.

Ræktun og fæða leggur áherslu á verkefni sem styðja við sjálfbæra þróun í samræmi við þarfir samfélagsins og alþjóðlegar skuldbindingar. Þessu tengist bæði fræðsla til almennings og leiðbeiningar til stjórnvalda.

Ræktun og fæða stuðlar að tengslum milli rannsókna og kennslu og leggur áherslu á rannsóknamiðað nám á öllum fagsviðum búvísinda sem og öflugt starfsmenntanám.

Í nýsköpunarstarfi er leitast við að umbreyta og aðlaga fræðilega þekkingu í tæki og tól sem nýtast þeim sem starfa á fagsviðum deildarinnar.

Þarfir samfélagsins fyrir heilnæm matvæli, fæðuöryggi, líffræðilegan fjölbreytileika og sjálfbæra landnýtingu eru leiðarljós Ræktunar og fæðu.

Við deildina voru starfræktar tvær brautir á framhaldsskólastigi í Búfræði og Garðyrkjuframleiðslu, tvær til bakkalár gráðu (BS): Búvísindi og Hestafræði. Einnig býður deildin upp á einstaklingsmiðað framhaldsnám (MS og PhD) í Búvísindum og Hestafræði. Menntamálaráðuneytið ákvað að færa starfsmenntanám í garðyrkju frá LbhÍ til Fjölbrautaskóla Suðurlands á árinu 2021 en það drógst fram á árið 2022 eins og væntanlega verður nánar greint frá annarsstaðar. Nám á framhalds- og háskólastigi Árið 2021 útskrifuðust 15 nemendur af framhaldsskólastigi og sjö af háskólastigi þar af einn úr meistaranámi. Vor 2021 voru alls 208 nemendur skráðir í nám við deildina; 129 í starfsmenntanámi, 70 nemendur í BS námi og níu í framhaldsnámi. Haustið 2021 voru alls 248 nemendur skráðir í nám; 151 í starfsmenntanámi, 86 í BS, átta nemendur í MS námi og þrír í PhD námi.

Brautarstjórar voru Ingólfur Guðnason fyrir námsbrautina í Garðyrkjuframleiðslu, Helgi Eyleifur Þorvaldsson sem tók við af Eyjólfi Kristni Örnólfssyni fyrir Búfræði og Sigríður Bjarnadóttir sem tók við af Birnu Kristínu Baldursdóttur fyrir Búvísindi og Hestafræði. Erla Sturludóttir sat fyrir hönd deildar í Framhaldsnámsnefnd þar til hún fór í barneignarleyfi en þá tók við Jóhannes Guðbrandsson tímabundið.

Ritstörf Starfsfólk deildarinnar ásamt Ólafi Inga Sigurgeirssyni frá Háskólanum á Hólum vann að skýrslu um fæðuöryggi á Íslandi fyrir Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Þetta verkefni var unnið í tveimur hlutum og kom fyrri skýrsla út í maí 2020 en seinni skýrslan kom út 2021. Í seinni skýrslunni var bætt við köflum um veikleika íslenskrar matvælaframleiðslu og hvaða áhrif það hefði á fæðuöryggi ef skortur yrði á þeim aðföngum sem notuð eru við framleiðsluna í dag. Þar var einnig farið yfir atriði sem gætu stuðlað að auknu fæðuöryggi á Íslandi. Ritstjórar skýrslnanna voru Erla Sturludóttir og Jóhannes Sveinbjörnsson. Þá var unnin skýrsla fyrir Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið um stöðu sauðfjárræktar á Íslandi og kom sú skýrsla út í apríl 2021. Þessa vinnu leiddi Jóhannes Sveinbjörnsson

en Daði Már Kristófersson var meðhöfundur. Þá var Jóhannes Sveinbjörnsson ráðinn af sama ráðuneyti til að gera tillögur og greinargerð um aðgerðir til að auka fæðuöryggi Íslands og mun sú skýrsla koma út um mitt ár 2022. Þóroddur Sveinsson var meðhöfundur skýrslu ásamt Daða Má Kristóferssyni og Ragnheiði Ingu Þórarinsdóttur sem kom út á árinu og heitir Betri búskapur bættur þjóðarhagur. Skýrslan var unnin með styrk frá Byggðarannsóknasjóði og Erasmus+.

Birt voru 11 rit á vegum starfsmanna deildarinnar í ritröðinni Rit LbhÍ. Auk þess voru starfsmenn eða nemendur deildarinnar meðhöfundar að 16 ritrýndum greinum árið 2021.

Starfsmannamál og stjórnsýsla Um áramótin 2021/22 voru 30 starfsmenn á samningi við deildina í um 25 ársverkum sem skiptust eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Mannauður Ræktunar og fæðu í árslok 2021.

Alls var gerður ráðningasamningur við 8 nýja starfsmenn á árinu til skemmri eða lengir tíma. Sex starfsmenn við deildina voru í MS eða PhD námi á árinu. Þá er deildin með þrír gestaprófessorastöður og einnig koma um 20 stundakennarar að kennslunni.

Haldnir voru tveir deildarfundir árinu, 5. maí og 8. desember. Á fyrri fundinum var efst á baugi fyrir utan hefðbundna dagskrá, starfsmannamál, stefnumörkun og sjálfsmat deildar. Á seinni fundinum voru starfsmannamál rædd áfram, staða rannsóknaverkefna rædd og undirbúin rafræn kosning á deildarforseta og varamanni hans sem og í deildarráð. Þóroddur Sveinsson og Erla Sturludóttir gáfu áfram kost á sér og voru sjálfkjörin. Deildarráð var endurnýjað og í því sitja nú: Helgi Eyleifur Þorvaldsson, Ingólfur Guðnason, Jóhannes Guðbrandsson (tímabundið í stað Erlu Sturludóttur), Jóhannes Kristjánsson, Jóhannes Sveinbjörnsson, Jón Hallsteinn Hallson, Jónína Svavarsdóttir, Sigríður Bjarnadóttir og Þóroddur Sveinsson.

Á árinu var að frumkvæði Erlu Sturludóttur efnt til reglulegra kynningarfunda starfsmanna fyrir starfsmenn Ræktunar og fæðu á Teams. Þar gátu starfsmenn sagt frá sjálfum sér og fyrri störfum eða tekið fyrir einhver skemmtileg verkefni sem þeir höfðu komið að. Í alla staði vel heppnað framtak.

Stjórnsýslustörf eru mest á höndum deildarforseta sem situr í framkvæmdastjórn og vísindanefnd LbhÍ.

Verkefnastyrkir og samstarf Deildin fékk samtals um 172 milljónir króna í verkefnastyrki sem sótt var um á árinu: um 65 milljónir fengust í jarð- og ylræktarverkefni, 40 milljónir í búfjárverkefni, 7 milljónir í innviðauppbyggingu og um 60 milljónir í önnur verkefni, þar af 50 milljóna króna öndvegisstyrkur fyrir Rannís verkefnið “Fiskveiðar til framtíðar” sem Erla Sturludóttir stýrir ásamt Gunnari Stefánssyni við HÍ. Verkefnið er einnig unnið í samstarfi við Hafró, SFS, NOAA, CSIRO og ShuttleThread.

Stærstur hluti styrkjanna koma úr innlendum sjóðum, eins og Ranníssjóðum, Þróunarsjóðum búgreina og Matvælasjóði.

Deildin og starfsmenn deildar eru þátttakendur eða meðlimir í ýmsum fjölþjóðlegum samtökum,

eins og Public Private Partnership in pre-breeding (PPP), European Grassland Federation (EGF), Norræni Genbankinn (NordGen), European Federation of Animal Science (EAAP), Centre for Genetic Resources (CGR) og Erfðanefnd landbúnaðarins. Deildin er einnig í miklu samstarfi við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Matís í ýmsum verkefnum.

Ráðstefnur og fundir Vegna Covid var lítil þátttaka í ráðstefnum þetta árið. Innviðauppbygging Haldið var áfram með uppbyggingu á Jarðræktarmiðstöð LbhÍ á Hvanneyri og tækjakostur efldur enn frekar. Þá hélt áfram undirbúningur að byggingu nýs jarðræktarhúss á Hvanneyri. Það fengust tveir innviðarstyrkir sem sótt var um á árinu, fyrir fullkomna búveðurstöð á Hvanneyri og kaupum á búnaði til að mæla metanlosun í búfé en uppsetning hefst ekki fyrr en árið 2022.

This article is from: