6 minute read
KORNRÆKT Á ÍSLANDI
Kornrækt á Ísland
Kornrækt er afar mikilvæg til að fæða heiminn. Árið 2013 kom tæpur fjórðungur af orkuneyslu mannkyns úr korntegundum (FAO, e.d.-a), eins og vísað er til í Ritchie o.fl. (2017). Korntegundir eru einkum hveiti, hrís, bygg, rúgur, hafrar, maís, hirsi og dúrra. Hér á landi hefur ræktun á byggi verið alls ráðandi en einnig er nokkuð framleitt af höfrum og hveiti. Í þessari skýrslu er fjallað um bygg, hveiti og hafra, sem eru þær korntegundir sem hægt er að rækta með góðum árangri á Íslandi. Rúg er hægt að rækta en það er vandasamt og erfitt að kynbæta hann.
Bygg er á heimsvísu aðallega ræktað sem fóður fyrir búfé en einnig notað til drykkjarframleiðslu en sáralítið sem grjón eða mjöl til manneldis. Bygg er algengt fóður fyrir nautgripi og getur verið stór hluti af svínafóðri en aðeins lítið brot fyrir alifugla. Sem stendur eru eingöngu ræktuð vorafbrigði af byggi hér á landi. Bygg hefur sýnt mikla uppskerumöguleika í tilraunum hér á landi eða yfir tíu tonn á hektara (ha) og bændur hafa greint frá uppskeru sem nemur allt að sjö til átta tonnum á hektara. Kynbætur á byggi á Íslandi og norðlægum slóðum eru lengra komnar en fyrir aðrar korntegundir.
Hveiti er ein mest ræktaða korntegund heims og er afar mikilvæg í fæðuöflun heimsins. Hveiti hefur ekki verið kynbætt á Íslandi en kynbætur fyrir norðlægar slóðir hafa farið fram hjá finnska kynbótafyrirtækinu Boreal. Hveiti er algengt fóður fyrir allt búfé, sérstaklega alifugla en einnig eldisfisk. Strangar kröfur eru gerðar varðandi hveiti til manneldis (mathveitis) og íslenskt hveiti hefur ekki reynst vel til mjölframleiðslu. Bæði eru ræktuð vor- og vetrarafbrigði af hveiti hér á landi en vetrarafbrigðin þroskast betur en vorafbrigðin og er þar af leiðandi til mikils að vinna varðandi hveitikynbætur fyrir íslenskar aðstæður.
Hafrar eru aðallega ræktaðir til manneldis en lítið til fóðurs. Strangar gæðakröfur eru gerðar til manneldishafra. Hafrar eru ræktaðir á Íslandi sem flögur til manneldis en engin aðstaða er til meðhöndlunar hafra hér á landi. Einungis vorafbrigði af höfrum eru ræktuð hér á landi enda hafa hafrar lítið vetrarþol. Vísbendingar eru um aukna eftirspurn eftir höfrum og því miklir möguleikar fyrir hendi hér á landi til aukinnar verðmætasköpunar (Sunna Ósk Logadóttir, 2018). Kynbæta þarf hafra fyrir íslenskar aðstæður með það að markmiði að auka gæði, öryggi og uppskeru.
Saga Íslenskrar kornræktar
Í rituðum heimildum og fornleifarannsóknum er kornræktar getið og ummerki eru frá landnámsöld um bæði bygg og hafrarækt víða um Ísland (Árni Daníel Júlíusson, 2010). Hafrarækt virðist hafa lagst af fljótlega eftir landnám en byggrækt var umtalsverð, einkum sunnanlands, fram á 15. öld. Mannfækkun af völdum plágunnar miklu í byrjun 15. aldar, og plágunnar síðari við lok 15. aldar, olli miklum samdrætti í kornrækt og hún lagðist endanlega af á 16. og 17. öld (Árni Daníel Júlíusson, 2018). Kornrækt hnignaði af þremur orsökum: (1) vegna aukins framboðs af ódýru korni frá Evrópu, (2) kaldara tíðarfari og (3) mannfækkun af völdum plágnanna jók landrými í hlutfalli við mannfjölda og því varð hagstæðara fyrir bændur að auka kvikfjárrækt á kostnað kornræktar (Árni Daníel Júlíusson, 2018). Á 18. öld voru gerðar töluverðar tilraunir með kornyrkju en niðurstaðan var þó sú að kornrækt var með öllu lögð niður við lok aldarinnar. Kornræktartilraunir voru gerðar í smáum stíl á 19. öld en niðurstaða tilraunanna var að grasrækt borgaði sig fremur en kornrækt (Sigurður Sigurðsson, 1937). Klemens Kristjánsson, forstöðumaður tilraunastöðvarinnar á Sámsstöðum, gerði víðtækar og árangursríkar kornræktartilraunir á 20. öld. Dæmi Klemensar, þar sem samfelldar kornyrkjutilraunir voru gerðar ár eftir ár í nokkuð stórum stíl, sýndi fram á að kornrækt væri möguleg hér á landi. Snöggur vöxtur varð í kornrækt 1960-1962 og árið 1961 voru um 500 hektarar af byggi og 200 hektarar af höfrum ræktaðir (Björn Sigurbjörnsson, 2014). Frá 1962 varð kaldviðrasamt með uppskerubresti á korni á Íslandi og víða í Norður-Evrópu (Björn Sigurbjörnsson, 2014). Við lok sjöunda áratugarins ræktuðu aðeins tveir bæir bygg á Íslandi. Kornræktin jókst þó aftur og eftir 1990 fór hún verulega að aukast og jókst jafnt og þétt fram til 2010.
Kornrækt óx um tuttugu ára skeið, frá 1990 til 2010 þegar korn var ræktað af 448 bændum á rúmum 4.000 hekturum, sem skiluðu 16.400 tonnum (Þorsteinn Tómasson o.fl., 2011). Árið 2022 var korn ræktað af 293 bændum í 3.450 hekturum og var meðaluppskeran 3,1 tonn/ha (tafla 2-1). Um 98% kornframleiðslunnar 2022 var bygg. Meðalumfang hvers býlis hefur þó aukist, úr 8,4 hekturum að meðaltali á hverju búi árið 2007 (Intellecta ehf., 2009) upp í 12,3 hektara árið 2022 (Borgar Páll Bragason, RML, tölvupóstur, 27.12.22, 2022). Hugsanlega hafa þeir bændur sem eftir standa náð betri tökum á ræktuninni og því aukið við sig. Flestir kornræktendur árið 2022 voru á svæði Búnaðarsambands Suðurlands eða 45% allra kornræktarbýla (tafla 2-2). Þessi bú stóðu undir 56% af innlendri kornframleiðslu það ár og meðalumfang hvers býlis var mest af öllum Búnaðarsambandssvæðum. Meirihluti framleiðslunnar er votverkaður og sýrður með própíonsýru. Votverkunin hefur reynst hagkvæm til framleiðslu á fóðri heima á bæjum, einkum fyrir nautgripi en líka fyrir sauðfé. En til annarrar notkunar eins og fyrir kjarnfóður- eða matvælaframleiðslu þarf að þurrka kornið.
Ræktarland á Íslandi
Þó að sumur á Íslandi séu svöl þá eru styrkleikar í víðáttumiklu og frjósömu ræktarlandi, mildum vetrum og löngum vaxtartímabilum með löngum ljóslotum. Upplýsingar um ræktanlegt land á Íslandi eru ónákvæmar. Guðni Þ. Þorvaldsson o.fl. (2021) unnu skýrslu fyrir Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið um flokkun landbúnaðarlands. Þar kemur fram að á Íslandi teljist um 600.000 hektarar gott ræktarland. Miðað við útgreiddar landgreiðslur og jarðræktarstyrki árið 2022 voru hins vegar aðeins 93.000 hektarar af þessum 600.000 í notkun (Stjórnarráð Íslands, 2022a). Samkvæmt Guðna Þorvaldssyni o.fl. (2021) eru 380.000 hektarar nýtilegir til byggræktar og um 20.000 hektarar, einkum sunnanlands, sem gætu nýst til hveitiræktar. Til viðbótar við þetta er hægt að rækta korn með góðum árangri á mjög rýru landi, til dæmis á söndum og örfoka landi sunnanlands, og þannig binda kolefni (Ólafur Arnalds, munnleg heimild, 19. október 2022). Nauðsynlegt er að fá nákvæmari greiningu á íslensku ræktarlandi. Af hálfu Landgræðslunnar stendur til að nota GIS (e. geographic information system) upplýsingatækni til að flokka ræktarland eftir jarðvegsgerð, frjósemi, legu, halla, daggráðum og fleiru sem ræður ræktunarmöguleikum (Sigmundur Helgi Brink, símtal, nóvember 2022). Þessar upplýsingar verða nauðsynleg viðbót til að greina nákvæmlega hvar best sé að rækta korn á Íslandi. Sé miðað við tölurnar frá Guðna Þorvaldssyni o.fl. (2021) er þó hægt að framleiða um það bil 40.000 tonn af hveiti (miðað við tvö tonn/ha og notuð séu eingöngu vetraryrki) og 1.178.000 tonn af byggi (miðað við 3,1 tonn/ha). Skortur á ræktarlandi virðist ekki standa í vegi fyrir eflingu kornræktar. Með kynbótum er hægt að búa til harðgerðari afbrigði fyrir norðlægar aðstæður og þar með auka stækka mögulegt ræktarland fyrir bygg, hveiti og hafra.