3 minute read

AÐFERÐIR

Vinnan var að miklu leyti byggð á sérfræðiviðtölum en einnig víðtækri könnun heimilda. Ákveðið var að nota sérfræðiviðtöl (e. expert interviews) þar sem markvisst úrtak (e. purposive sampling) sérfræðinga og hagsmunaaðila er valið í viðtöl út frá þekkingarstöðu. Stefnt var að því að taka nógu mörg viðtöl þar til mettun svara var náð. Þessi aðferðafræði var notuð til að fá skýra sýn á þarfir bænda og markaðar. Viðtöl voru tekin við 72 aðila sem má flokka í þrjá hópa sem skarast að einhverju leyti; bændur, stórnotendur á korni á Íslandi og sérfræðinga. Markmið viðtalanna var að fá yfirlit yfir hvað stendur aðallega í vegi fyrir eflingu kornræktar, allt frá ræktun í akri þar til kornið er selt og keypt, og hvaða úrbætur væru mögulegar.

Viðtöl voru tekin við 13 íslenska bændur sem hafa náð góðum árangri í kornrækt. Bændurnir voru spurðir út í hvað þeir teldu að væru helstu atriði sem stæðu í vegi fyrir eflingu íslenskrar kornræktar. Mettun svara náðist nokkuð fljótt. Bændur nefndu óhagkvæma þurrkun, ágang af fuglum, nauðsyn þess að auka stuðning, auknar rannsóknir og leiðbeiningar, og tryggingakerfi. Sex vikum fyrir skil skýrslunnar voru tveir bændafundir haldnir, annar á Suðurlandi og hinn á Norðurlandi. Þar voru drög aðgerðaáætlunarinnar kynnt fyrir bændum og þau rædd. Það var gert til að ná sem víðtækustu samráði um tillögurnar. Samtals mættu um hundrað bændur og áhugamenn um eflingu kornræktar á þessa tvo fundi.

Til að kanna fýsileika kornsamlags var vilji stórra kaupenda til að kaupa korn af slíku fyrirtæki athugaður, þ.e. félagi sem væri milliliður milli bænda og notenda og hefði yfirlit yfir magn og gæði innlendrar kornframleiðslu. Þetta voru fóðurframleiðendur, bakarí, bruggverksmiðjur og fleiri. Undirritaðar viljayfirlýsingar eru í viðauka 5. Sömuleiðis var vilji bænda til að skipta við slíkt félag kannaður. Við heimsóttum fimm kornsamlög meðan á verkefninu stóð, Felleskjøpet í Noregi, Lantmännen og Södra Åby Lokalförening í Svíþjóð, Vilja Tavastia í Finnlandi og Archer Daniels Midland (ADM) í Þýskalandi. Auk þess var fundað með fulltrúum eistneska kornsamlagsins, Kevili, í gegnum fjarfundabúnað. Í viðtölum við fulltrúa kornsamlaga var grein gerð fyrir stöðunni á Íslandi, leitað var eftir innsýn í sögu og rekstur fyrirtækjanna, spurt var hvernig hægt væri að stofna og reka kornsamlag á Íslandi. Hvað bæri að varast og hverjar væru líklegar helstu áskoranir. Þá var rætt við fulltrúa Sölufélags garðyrkjumanna og Auðhumlu ehf. Til viðbótar við þetta voru tekin viðtöl við ýmsa sérfræðinga sem tengjast kornrækt; til dæmis plöntuerfðafræðinga, tryggingarfræðinga, jarðræktarfræðinga og náttúrufræðinga. Sérstaklega var tekið á móti yfirmönnum plöntukynbóta Lantmännen til Íslands og norska plöntukynbótafyrirtækið Graminor var sótt heim.

Verkfræðistofan Verkís var fengin til að kanna hagkvæmni í þurrkun og flutningi korns á Íslandi. Sérstaklega var kannað hvort notkun jarðvarma til kornþurrkunar væri hagkvæm lausn. Verkís gerði sömuleiðis athugun á mögulegum staðsetningum fyrir kornmóttöku. Þeir fengu tilboð frá framleiðendum um kostnað við kornmóttöku af mismunandi stærð, og gerðu kostnaðaráætlanir fyrir slíkar stöðvar. Þær niðurstöður eru settar fram í kafla 11. Útreikningarnir voru gerðir af Þorleiki Jóhannessyni og Óskari P. Einarssyni. Daði Már Kristófersson skrifaði kafla um þjóðhagslega hagkvæmni kornræktar fyrir Ísland.

Úttekt var gerð á núverandi stöðu kornræktar, sérstaklega með tilliti til markaðsmála, stærð kornmarkaðarins, hvernig hann skiptist eftir tegundum, og hver líkleg þróun verður. Þær forsendur voru hafðar til hliðsjónar við útfærslu aðgerða. Kallað var eftir sýnum af byggi úr ökrum íslenskra bænda. Rúmþyngd (g/dL) og þúsundkornaþyngd voru mæld. Þetta var gert til að fá mat á gæðum íslenskrar kornuppskeru. Því miður fengust ekki nægilega mörg sýni til að draga áreiðanlegar ályktanir. Niðurstöður sýnatökunnar eru birtar í viðauka 4.

This article is from: