2 minute read

Kynbætur á háliðagrasi

– TÚNRÆKT –

Kynbætur á háliðagrasi

GUÐNI ÞORVALDSSON

Sumarið 1994 hófust hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins kynbætur á háliðagrasi. Farið var á 100 bæi víðs vegar um landið til að safna háliðagrasplöntum. Í flestum tilvikum var safnað úr túnum sem voru eldri en 30 ára til að tryggja að grösin hefðu sannað lífsþrótt sinn við íslenskar aðstæður. Fyrsta veturinn voru plönturnar í gróðurhúsi, en vorið 1995 var þeim plantað út á Korpu þannig að hægt væri að fylgjast með hverjum einstaklingi fyrir sig. Þetta voru 1500 einstaklingar, þrjú eintök af hverjum, samtals 4500 plöntur. Í tvö sumur voru þessar plöntur metnar með tilliti til uppskeru, vaxtarlags, skriðtíma, vetrarþols og þols gegn sveppum. Á grundvelli þessa mats voru valdar plöntur í væntanlegt yrki. Ákveðið var að hafa hópana fleiri til að byrja með og velja plöntur í fimm mismunandi hópa. Þessir hópar voru eftirfarandi: 1. Plöntur með fínleg blöð og skríða snemma (7 arfgerðir) 2. Plöntur með grófari blöð og skríða seint (36 arfgerðir) 3. Plöntur með fínleg blöð og skríða seint (25 arfgerðir) 4. Plöntur með grófari blöð og skríða snemma (10 arfgerðir) 5. Plöntur með meira þol gegn sveppasmiti (6 arfgerðir)

Hópur númer tvö átti að vera aðalyrkið. Þessum úrvalsplöntum var plantað út á Geitasandi á Rangárvöllum. Hópunum var plantað út á mismunandi stöðum á sandinum og voru nokkur hundruð metrar á milli hópa. Fræi var safnað af þessum hópum fyrstu árin og hnausasafn úr hópi tvö plantað út á Korpu. Hópi tvö var svo sáð í fræfjölgunarreit í Gunnarsholti. Þá var lögð út tilraun á Korpu þar sem hópar 1-4 voru í samanburði við önnur yrki af háliðagrasi.

Þegar hér var komið sögu gátum við á Rala ekki haldið verkinu áfram þar sem við höfðum ekki útbúnað til að framleiða fræ í stærri stíl og ekki þótti heldur eðlilegt að ríkisstofnun stæði í því. Það tókst ekki að fá neinn til að framrækta

18. mynd. Hnausasafnið á Korpu.

fræið fyrir okkur og því stöðvaðist ferlið. Fyrir nokkrum árum fannst mér kominn tími til

að endurnýja fræið og safna úr fræreitunum á Geitasandi. Þá kom í ljós að hnausasöfnin höfðu drepist væntanlega vegna þess að ekki hafði verið borið á þau í nokkuð mörg ár. Þá var brugðið á það ráð að senda gamla fræið til NordGen í Svíþjóð og athuga hvort þeir gætu ekki fjölgað því aftur svo hægt væri að varðveita það í genbankanum. Þangað var það sent 2019 og fljótlega mun koma í ljós hvernig fræfjölgunin tekst til.

This article is from: