1 minute read

8.3.4. Loftslag, þanþol og hrun

8.3.4. Loftslag, þanþol og hrun Slæmu árferði er gjarnan kennt um hnignun landkosta á landinu, enda hefur loftslag mikil áhrif á starf‐semi vistkerfa. Þannig tóku Áslaug Geirsdóttir o.fl. (2009) eftir því að rof jókst í umhverfi Haukadalsvatns í Dalasýslu fyrir landnámið vegna kólnandi veðurfars. Vesturland einkennist af votlendiskerfum, en víða einnig af bröttum hlíðum (t.d. í Haukadal). Þar kemur ekki fram mjög aukin setmyndun eftir landnámið. Vísindamenn eru ekki allir á sama máli um hversu alvarleg áhrif árferðisins á vistkerfi voru í samanburði við aðra þætti (Ogilvie 2005). Áhrifin eru háð ástandi vistkerfa, þanþoli – þ.e. samspili margra þátta sbr. líkan á mynd 45. Þar sem landnýting er þung og/eða þanþol skert af einhverjum orsökum eru áhrif langvarandi kulda mun meiri en ella. Eyðing skóga, sem breytir nærveðurfari og næringarhringrásinni í moldinni, hefur örugglega haft mikil áhrif á útreið þurrlendisvistkerfanna í og við gosbeltin og þar hefur slæmt árferði og gjóskugos í kjölfar skógarfellis haft slæm áhrif. Doner (2003) taldi að þung landnýting yfirskyggi áhrif af köldu árferði, en þá ályktun byggði hann á rannsóknum á vatnaseti á Vestfjörðum. Streeter o.fl. (2012) fjölluðu um hvernig öflugt þanþol seinkar áhrifum af köldu árferði. Það er ávallt mikilvægt að hafa í huga að minni framleiðni í köldum árum þar sem þanþol hefur verið teygt, leiðir til veldisvaxandi álags á vistkerfi, sbr. kaflann um beit hér á undan. Í kjölfarið fylgir iðulega hinn þekkti „vítahringur landhnignunar“ með sífellt auknu álagi á þær auðlindir sem eftir eru (sjá mynd 3; Whisen‐ant, 1999). Hafís fylgdi köldustu árunum, sem lokaði meðal annars höfnum svo ekki var hægt að róa til fiskjar (sjá Ogilvie og Trausta Jónsson 2001) og þar með óx álag á auðlindir á landi. Ogilvie og Trausti Jónsson (2001) telja að áhrif slæms árferðis á „litlu ísöldinni“ væru í raun lítilvæg miðað við áhrif landnýtingarinnar. Í þessu riti er lögð áhersla á samspil þáttanna, sbr. líkan á mynd 45. Spurningin um áhrif loftslagsbreytinga í samanburði við áhrif landnýtingar eru vitaskuld í brennidepli eftir því sem áhrif gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu verða meiri (sjá Herrick o.fl. 2013).

This article is from: