1 minute read

3.2. Hvað er mikið kolefni í hverri „moldareiningu“?

Mynd 3. Dreifing kolefnis í hringrás við andrúmsloft og vistkerfi. Moldin er miðlæg í hringrásinni. Hér er gert ráð fyrir >3000 Pg í jarðvegi, en líklegri tala er >3500 þegar allt kolefni í jarðvegi heimskautasvæðanna sem getur losnað er talið með (sjá töfluna hér fyrir ofan).

3.2. Hvað er mikið kolefni í hverri „moldareiningu“?

Það er mikilvægt að þeir sem eru að huga að kolefnisjöfnuði, t.d. með kolefnisbindingu í landbúnaði, skógrækt eða landgræðslu, geti reiknað út magn kolefnis í jarðvegi. Hér er stuttur kafli til að auðvelda þeim sem vilja fóta sig í slíkum útreikningum. Magn kolefnis í jarðvegi undir hverjum fermetra er talið í kílóum kolefnis (kg C/m2) Eyðimerkurjörð hefur fá kg C/m2 en magn kolefnis í mójörð getur numið yfir 200 kg C/m2. Magn kolefnis í jarðvegi er afar breytilegt eftir dýpt. Í jarðvegsfræði er jarðveginum frá yfirborði niður á berggrunninn skipt i einstök lög sem hvert hefur sína eiginleika. Jarðvegssnið er þverskurður af jarðvegi frá yfirborði niður að berggrunni eða upprunaefni jarðvegsins. Í öðrum greinum þar sem fjallað er um kolefnisforða er oft stuðst við dýptarbil. Til að fá út heildarmagnið þarf að leggja saman magn kolefnis í hverju jarðvegslagi (dýptarbili) fyrir sig, því það getur verið mikill breytileiki innan hvers sniðs. Yfirleitt er mest af kolefni í efstu lögunum og stundum beinast útreikningar aðeins að yfirborðslögunum, t.d. efstu 30 cm. Niðurstöður mælinga á jarðvegskolefni eru yfirleitt gefnar sem %C þ.e.a.s. t C í 100 t þurrs jarðvegs. Til að reikna kolefnisforða á rúmmálseiningu er hlutfallsgildi kolefnis (% deilt með 100; gefur t C/t jarðvegs) margfaldað með rúmþyngd jarðvegsins (t jarðvegs/m3 jarðvegs) og niðurstaðan er þá tonn kolefnis í hverjum rúmmetra; t C/m3 jarðvegs. Síðan þarf að laga þá tölu að þykktinni. Ef lagið er t.d. 10 cm þykkt, þ.e. 0,1 metri, þá er niðurstaðan t C/m3jarðvegs x 0,1 m jarðvegs = t C/m2 jarðvegs. Margfaldað er með 1000 til að breyta tonnum í kg. Dæmi: ef jarðvegslagið er 20 cm þykkt, rúmþyngdin 0,8 t/m3 og hlutfall kolefnis 8% er heildarmagn kolefnis í kg/m2 í þessu lagi: 8/100 x 0,8 t/m3 x 0.2 m x 1000 kg/t = 12,8 kg/m2

This article is from: