3 minute read
Andrés á Hvítárvöllum og Torfi á Varmalæk
verðlagsskrám þeirra tíma. Mundi Kristján konungur ef til vill þar hafa verðlaunað helsta hvatamanninn að stofnun Jarðyrkjufjelagsins í Andakíl og Bæjarsveit.
Þá má nefna Einar Guðmundsson á Heggstöðum sem talinn var verður verðlauna árið 1875 fyrir að hafa „sljettað 2155 ferfaðma; grætt út 520 ferfaðma, grafið vatnsveitingaskurði 100 faðma að lengd, 1 alin á breidd, 1 alin á dýpt; hlaðið 28 faðma langa brú á engjavegi. Þetta er unnið á 3 árum. Hann er einyrki, ómagamaður og leiguliði“, skrifuðu matsmenn.20
Andrés á Hvítárvöllum og Torfi á Varmalæk
Nú má gera örlítinn sveig á söguna:
Torfi Bjarnason, sem orðið hefur holdgervingur ræktunarumbóta og búnaðarframfara á efstu áratugum nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu, jafnan kenndur við Ólafsdal, bjó á Varmalæk árin 1868-1870. Um búskap hans þar er svo sem ekki mikið vitað, þó það að vildarvinur hans var Andrés Fjeldsted, á Hvítárvöllum, maður sem kallaður verður til búnaðarfélagssögu hreppsins í næsta kafla þessarar ritsmíðar. Þeir Andrés og Torfi voru á svipuðum aldri, Andrés þó þremur árum eldri. Þeir munu hafa kynnst að ráði er þeir dvöldu með Skotum á árunum 1866-1867. Þeir höfðu notið fyrirgreiðslu feðganna John og James Ritchie, „niðursuðukaupmanna“ í Peterhead í Skotlandi, sem þeir þökkuðu í opinberu ávarpi í Þjóðólfi veturinn 1868 . . . „fyrir ógleimanlegt göfuglyndi, einlægni og alúð er þeir sýndu okkur meðan við dvöldum á Skotlandi næstliðið ár“21 . . . Hérlendis voru Ritchie-feðgar þá þekktir fyrir hlut sinn að laxveiðum og niðursuðu á laxi, en hana hafði Andrés kynnt sér ytra og tekið þátt í henni hér heima.22 Með Andrési og Torfa óx mikill vinskapur eins og fjöldi og efni bréfa frá Andrési í safni Torfa bera með sér.
20 Skýrsla Búnaðarfjelags Suðuramtsins (1877), 21-22. 21 Þjóðólfur 24. mars 1868. 22 Sigurður Fjeldsted: Héraðssaga Borgarfjarðar II, 249-250.
Ýmsum nýjungum kynntust þeir félagar í Skotlandi. Ágiskun skrifarans er að Andrés hafi meðal annars keypt þar plóg og haft með sér heim, því að í bréfi til Torfa á Varmalæk, rituðu í Þingnesi 12. október 1869 segir hann: . . . „já, jeg vil gjarnan ljá þér Plóginn . . . jeg sje líka að hann muni vera brúkunar lítill núna, jeg hefi rist ofan af nokkrum þúfum, þó of lítið sje,“23. Þá um vorið mun Torfi hafa keypt plóg frá Skotlandi24 svo þá ættu plægingarnar að hafa gengið lipurlega á Varmalæk. Andrési var sýnilega í mun að menn nýttu plóg í jarðabótum sínum og 30. september 1874 skrifaði hann Torfa, sem þá var fluttur vestur í Ólafsdal, m.a.: „Eingan hefi eg fengið hér til að læra að plæja hjá þér enn, en vona þó, að einhver mannd. . . . . vilji læra það, skófluna og gafalinn sendi eg upp að Þingnesi.“ En svo þrengdi að, eins og lesa má í bréfi Andrésar til Torfa 27. mars 1879: „Þú talar um plóginn minn, og er það satt að þjer ann eg hann best af öllum, vegna þess að nú þarf eg peninga með, en fokið er í flest skjól.“ Skoskur plógur var því kominn í Andakílshrepp fyrir tilverknað Andrésar og frá honum virðist Torfi hafa fengið gripinn. Frá Skotlandi sneri Torfi skuldugur25 svo varla hafði hann tök á að kaupa þar mikið af nýjum verkfærum til þess að hafa með sér heim til Íslands. Líklega hefur því Andrés Fjeldsted fengið sinn plóg á undan Torfa sem varð verkfærið hins vegar töluvert drýgra til frægðar en bóndanum á Hvítárvöllum.
Það má ljúka þessum sveig á sögunni með tilvitnun í bréf Andrésar til Torfa 19. janúar 1872 sem skrifaði: „Ó, [ef] þú hefðir verið kjur á Varmalæk, þá er eg viss, við hefðum gjört eitthvert gagn, en eg verð að vera í svo mörgu“ . . . Já, í ljósi þess sem Torfi Bjarnason átti eftir að koma til leiðar í Ólafsdal, má vissulega velta fyrir sér hvað sprottið hefði upp úr samstarfi þeirra, en það er önnur saga.
23 Torfi Bjarnason: Skjala- og bréfasafn. Lbs 150 NF – 1. 24 Bjarni Guðmundsson: Yrkja vildi eg jörð. (2020), 157. 25 Játvarður Jökull Júlíusson: Saga Torfa Bjarnasonar og Ólafsdalsskóla (1986), 134.