5 minute read
Vegabætur og vegavinna – meðal annars fyrir mæðiveikifé
síðar verður vikið að.
Sumarið 1933 var reist brú á Flókadalsá (Flóku). Íbúar Andakílshrepps virðast ekki hafa fjallað um þá framkvæmd á fundum sínum því á brúarframkvæmdir við Flóku er hvorki minnst í fundargerðum Búnaðarfélagsins né heldur gjörðabókum hreppsskilafunda. Líklega er sú þögn til nokkurs marks um að samgöngur til efri byggða Borgarfjarðar hafi ekki verið hreppsbúum jafn mikilvægar um þetta leyti og samgöngur við Borgarnes og „suður.“ Á hitt er líka að líta að Flóka gat að öðru jöfnu varla talist farartálmi á við Grímsá.
Vegabætur og vegavinna – meðal annars fyrir mæðiveikifé
Það var á fundi Búnaðarfélagsins 24. febrúar 1934 að ítarlega var fjallað um samgöngumál í hreppnum líklega að frumkvæði formanns félagsins, Guðmundar á Hvítárbakka sem „lýsti vegasambandi hreppsins og taldi nauðsynlegt að skipuleggja það og bæta.“ Um þetta leyti eru reglulegir mjólkurflutningar til nýstofnaðs Mjólkursamlags í Borgarnesi að skapa bændum nýtt sjónarhorn. Eftir „alllangar umræður“ samþykkti fundurinn ályktun sem fulltrúa hreppsins var falið að bera fram á sýslufundi. Hún er heimild um stöðu samgöngumála í hreppnum og viðhorf til þeirra um þær mundir og er því birt orðrétt hér:
1. Að breytt verði sýsluveginum um Bæjarsveit til hagræðis fyrir bæina þar og að hraðað verði sem mest framkvæmdum um brúarsmíð á Grímsá og veginum í sambandi við hana. 2. Að skorað verði á ríkisstjórn og vegamálastjóra að láta framkvæma nauðsynlegar vega og brúargerðir á þjóðveginum frá Hvítárbrú að Hvalfirði á þeim kafla er liggur um Andakílshrepp. 3. Að fá nauðsynlegt fje úr sýslusjóði til aðgerðar á veginum frá þjóðveginum, sem liggur suður Andakíl og að þjóðveginum hjá Grund. 4. Að fá framkvæmda nauðsynlega breytingu á þjóðveginum frá Hvítárbraut að Andakílsá við Skorradalsvatn, svo að hann verði bílfær að vetri til.
Hér má stinga við fæti og bera þessa ályktun saman við uppkastið að greinargerð Framfarafélagsmanna hér um bil þremur áratugum fyrr. Viðhorfin hafa gjörbreyst: Samgöngur sjóveg til Borgarness heyrðu nú sögunni til að mestu en allt kapp lagt á samgöngur á landi, einnig suður á bóg, þar sem höfuðborgin var vaxandi markaður og verslunarstaður. Á hreppsskilum um vorið upplýsti Guðmundur á Hvítárbakka að ríkissjóður hefði veitt kr. 2.500,- „í veginn að Grímsá gegn sama framlagi frá hreppi og sýslu til samans.“ Síðan segir að tekin hafi verið „vinnuloforð og ákveðið að byrja vinnu mánudaginn 18. júní.“
Aftur var fjallað um vegamálin á Búnaðarfélagsfundi 13. apríl 1935. Var þá m.a. óskað eftir fjárveitingu úr sýslusjóði „til að fullgera Grímsárbraut að brúarstæði á Grímsá.“ Ennfremur var þess óskað að tekinn verði í tölu sýsluvega „vegur frá væntanlegri brú á Grímsá hjá Fossatúni norður í Græfrur gegn[t] Stafholtsey.“ Á hreppsskilum um vorið var „safnað vinnuloforðum og hesta“ og samþykkt að byrja vinnu við Grímsárbraut 3. júní.
Enn báru vegamálin upp á Búnaðarfélagsfundi vorið 1936 og þá samþykkti fundurinn að skora á sýslunefndina „að taka upp í sýsluvegatölu vegina frá Varmalæk ofan í Græfrur, og að breytt verði sýsluveginum frá Vatnshamraborg að Bárustöðum þannig að sá kafli falli niður úr sýsluvegatölu, en tekinn upp nýr vegur í þess stað frá Vatnhamrab[org]. að þjóðveginum hjá Litlahamri.“
Á hreppsskilum síðar um vorið 1936 greindi Guðmundur á Hvítárbakka frá því að sennilega yrði hægt að vinna fyrir 5.600 krónur að nýbyggingu vega í hreppnum. Ákveðið var að vinna í Grímsárbraut, Bæjarsveitarvegi og Fossavegi. Á fundinum var safnað loforðum um vegavinnu og var miklu afkastað það sumar; unnið var rúmlega fyrir þá „fjárupphæð er veitt
hafði verið til veganna“, upplýsti Guðmundur á Hvítárbakka á hausthreppsskilaþingi. Þörf fyrir atvinnu og tekjur undir ógn mæðiveikinnar var án efa undirliggjandi ástæða áhuga fyrir vegavinnunni. Haustþingið samþykkti að „lána úr Brúarsjóði allt að 1500 kr. til nýbyggingar Fossavegar, Grímsárvegar og Bæjarsveitarvegar nú í haust ef veður leyfir. Skal lánið vera vaxtalaust og endurgreiðast af vegafje þegar hreppsfundur ákveður.“
Næstu sumrin var áfram unnið að vegagerð í hreppnum, meðal annars fyrir hið svonefnda Mæðiveikifé. Lögðu bændur fram vinnu og hesta eins og fyrr og bætti það að nokkru skerðingu tekna af sauðfénu. Vorið 1940 samþykktu bændur á hreppsskilaþingi sínu eftir umræðu að Andakílshreppur í félagi við Reykdæli „tæki að sjer að leggja veg að Flóku frá Varmalæk og lána fje til þess, þar til fje er veitt til þess í fjárlögum.“ Heimilað var að lána allt að 3.000,- úr hreppssjóði til þess.
Júlíus í Laugabæ og Jakob á Varmalæk sögðu vegavinnuna hafa gefið góðar tekjur. Vinna var eftirsótt á pestarárunum, vel borguð; 70 aurar á klst og 1 kr. á dag fyrir hest og kerru, sagði Júlíus. Þetta var vorvinna en líka haustvinna, ef veður voru hagstæð; akkorðsvinna, sagði Jakob á Varmalæk, „það hét að planera“ og dagskaupið var 11 krónur.
Hér að framan hafa gerðir hreppsfunda varðandi samgöngumál á fjórða áratug aldarinnar verið raktar allnákvæmlega. Til þess liggur sú ástæða að þá var lagður grundvöllur að því vegakerfi sem sveitin bjó við út öldina, og raunar lengur. Þetta kerfi fól í sér allmiklar breytingar frá hinum fornu samgönguleiðum í hreppnum enda sniðið að nýrri samgöngutækni. Hvort tveggja var raunar mikilvæg forsenda þeirra búskaparhátta sem nú voru að breiðast út um sveitir.
Eyjólfur Hjálmsson (1939-2016) í Þingnesi vann bændum um langt árabil með vélum og verkfærum Búnaðarfélags Andakílshrepps, líklega lengur og víðar en flestir aðrir. (Ljósm.: Úr safni Umf. Íslendings).
Eyjólfur var bóndi í Þingnesi en sinnti einnig viðgerðum á rafmagnstækjum af flestum tegundum og öðrum tæknibúnaði fyrir nágranna sína vítt um hérað. Það varð síðar helsta viðfangsefni hans. Ekki síst kom hann að því að innleiða sjónvarpið á marga bæi. Hann vann um árabil eða allt frá vorinu 1958 við jarðvinnslu og síðar líka heyskaparstörf á vegum Búnaðarfélagsins. Hann annaðist einnig í verktöku á eigin vegum baggabindingu um árabil. „Eyjólfur sagði í vor [2016] frá því sem hann vann fyrst fyrir Búnaðarfélagið vorið 1958. Það var á þriðjudegi í maí, hann mundi þó ekki hvaða dag. Hann stjórnaði W4 dráttarvélinni og byrjaði á að herfa flag sunnan við húsin á Varmalæk. Daginn eftir á miðvikudegi í Laugarholti, á fimmtudagsmorgni í NýjaBæ, síðan í Bæ, þá Hellum, Fossatúni og Árbakka.“ Eyjólfur var að vinnu fyrir Búnaðarfélagið allt fram í byrjun júlí 2016. Hann lést þann 19. sama mánaðar eftir skamma sjúkrahússlegu. (Byggt á óbirtu handriti Eiríks Blöndal og Sigurðar Péturssonar um Eyjólf Hjálmsson frá 2016).