1 minute read

Inngangur

Next Article
Heimildaskrá

Heimildaskrá

Ræktun jólatrjáa á Íslandi hefur verið stunduð um 70 ára skeið. Ræktunin hefur að mestu farið fram á skógræktarsvæðum og í birkiskógum eða birkikjarri. Framleiðsla jólatrjáa á ökrum hefur lítið verið stunduð hérlendis og því lítil staðbundin þekking til á þessu sviði. Erlendis er jólatrjáarækt á frjósömum ökrum algeng og slík jólatrjáaræktun er stunduð sem sjálfstæð búgrein með markvissa og umfangsmikla framleiðslu.

Til að auka þekkingu og kunnáttu í jólatrjáaræktun á Íslandi var langtíma rannsóknar-verkefninu „Hraðræktun jólatrjáa á ökrum“ hrundið af stað við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri árið 2009. Markmið verkefnisins var að kanna hvaða þættir hafa áhrif á ræktunina og hvaða tegundir henta til ræktunar á frjósömu landi. Langtíma markmiðið er að finna hagkvæma, fljótlega og örugga leið til að framleiða íslensk jólatré á ökrum.

Fyrsta tilraun verkefnisins var sett út á Hvanneyri í frjósaman jarðveg þar sem skjólbelti höfðu verið ræktuð í kring. Tegundirnar í tilrauninni voru rauðgreni (Picea abies; kvæmið Bö), blágreni (Picea engelmannii; kvæmið Rio Grande) og stafafura (Pinus contorta; kvæmið Skagway). Aðalmarkmið tilraunarinnar var að kanna hver þessara tegunda henta best við ræktun á ökrum á Íslandi og hvaða áburðarmeðferðir gefa bestan vöxt. Niðurstöður þessa fyrsta hluta verkefnisins voru kynntar í bakkalárverkefni (BS) Else Möller „Hraðrækt jólatrjáa á ökrum: Lifun ungplantna og áhrif mismunandi áburðarmeðferða“. Árið 2011 voru tvær samanbærilegar tilraunir settar út, á Krithóli í Skagafirði og í Prestsbakkakoti í Vestur-Skaftafellssýslu. Þá var eitrunartilraun bætt við til að kanna hvort óhætt væri að heilúða yfir tré og gróður að hausti til að halda samkeppnisgróðri í skefjum, í stað endurtekinna eitrana milli trjáa, vor og síðsumars. Niðurstöður þessa verkefnis voru kynntar í meistaraverkefninu (MS) „Hraðrækt jólatrjáa á ökrum: Áhrif mismunandi ræktunaraðferða á lifun og vöxt jólatrjáa á fyrstu vaxtarstigum á ökrum“ eftir sama höfund. Í þessari skýrslu verður ekki fjallað um tilraunirnar sjálfar en niðurstöður þeirra er hægt að nálgast á heimasíðu Landsamtaka skógareigenda, www.skogarbondi.is eða í „Skemman“ (gagnabanka Háskóla Íslands), heimasíða: http://skemman.is

Í BS og MS ritgerðunum var einnig safnað saman talsverðu bakgrunnsefni um jólatrjáaræktun erlendis og um fyrri reynslu af jólatrjáaræktun hérlendis. Þetta er hér tekið saman og birt sem almennt fræðslurit fyrir áhugamenn um jólatrjáaræktun á Íslandi.

This article is from: