4 minute read

INNGANGUR

INNGANGUR Veðráttan á Íslandi einkennist af löngum vetrum og fremur svölum sumrum. Vegna þessa er notkunartími íþróttavalla með lifandi grasi fremur stuttur hér á landi. Það væri mikill ávinningur ef hægt væri að lengja notkunartíma vallanna t.d með upphitun. Upphitun valla er vel þekkt erlendis en þar er hún fyrst og fremst hugsuð til að þíða yfirborð valla ef kuldakast gengur yfir. Hitalagnir eru einnig í nokkrum völlum hér á landi en meiri þekkingu vantar um það hvernig nýta skuli þessa tækni. Fótboltavöllur er dýr tilraunareitur og því æskilegt að prófa sig áfram með hjálp minni reita. Með upphitun er hægt að hindra myndun jarðklaka og svella en þá þurfa menn að vera viðbúnir því að hita snemma vetrar. Gallinn við að byrja upphitun snemma, umfram kostnaðinn, er að upphitun getur haft áhrif á vetrarundirbúning grasanna og einnig viðhaldið sjúkdómum. Það þarf einnig að skoða hvaða áhrif langvarandi hitun hefur á rótarkerfi grasanna. Önnur leið er að hugsa ekki um jarðklaka eða svell fyrr en síðla vetrar þegar sól er farin að hækka vel á lofti og byrja þá að hita þannig að jarðklaki og svell þiðni og jarðvegurinn verði fyrr nægilega hlýr til að gróður geti farið af stað. Þessar leiðir þarf báðar að rannsaka, bæði út frá hagsmunum grasanna og svo þarf að reikna kostnað við upphitunina. Áður en farið var að lýsa gróðurhús hér á landi var oft notuð sú þumalfingursregla að hægt væri að setja plöntur í þau um 20. febrúar. Þá væri birtan orðin nógu mikil til að plöntur gætu farið að vaxa. Það er því langur tími sem ekkert gerist utanhúss vegna kulda þó birtan sé orðin næg fyrir sprettu. Að meðaltali byrjar að grænka á tilraunastöð LbhÍ að Korpu í byrjun maí (Guðni Þorvaldsson 1996) en breytileiki milli ára er töluverður. Jarðklaki getur seinkað því að gróður fari af stað þó svo að lofthiti sé nægur. Yfirleitt byrjar ekki að grænka fyrr en jörð er orðin klakalaus niður í 20 cm dýpt (Landström 1990; Guðni Þorvaldsson 1996) en þó eru á því undantekningar. Þegar jörð er orðin klakalaus fer að grænka fljótlega eftir að lofthiti er kominn í 4‐5°C (Bjarni Guðmundsson 1974; Landström 1990; Guðni Þorvaldsson 1996). En það er ekki bara jarðvegshitinn og lofthitinn sem hafa áhrif á byrjun gróanda heldur einnig jarðvegsrakinn og næringarstaða gróðursins. Ef næg næringarefni eru til staðar byrjar fyrr að grænka (Guðni Þorvaldsson 1996; 1998). Það er einnig hægt að hugsa sér að lengja notkunartíma vallanna fram á haustið með upphitun. Þá gæti einnig þurft að bæta við lýsingu þegar dagarnir fara að styttast. Þegar jarðvegur er hitaður að hausti er hætt við því að grösin nái ekki að undirbúa sig fyrir veturinn eins og norðlæg grös gera við náttúruleg skilyrði (Håbjørg 1977). Árið 2001 var lögð út upphitunartilraun á garðyrkjuskólanum á Reykjum þar sem hitalagnir voru lagðar í mismunandi dýpt (Grabda 2002). Þannig fengust reitir með mismunandi hita, upphituðu reitirnir voru með 4,5‐6°C hærri jarðvegshita en viðmiðunarreiturinn. Vallarsveifgras, túnvingull og hálíngresi voru notuð í tilrauninni. Tilraunin stóð bara í eitt ár. Hálíngresið var fljótt til en fór illa vegna sveppasjúkdóma. Vaxtartíminn vegna upphitunarinnar lengdist um 4‐11 daga eftir því hve hár hitinn var. Á Reykjum eru einnig upphitaðir grasreitir með skriðlíngresi, vallarsveifgrasi, túnvingli og vallarrýgresi sem hafa verið hitaðir í nokkur ár. Þessar tegundir hafa lifað vel í upphituðu reitunum (Robert Dell persónulegar heimildir). Á Náttúrufræðistofnun Íslands hefur tegundasamsetning á hverasvæðum þar sem jarðvegur er heitur vegna áhrifa jarðhita verið skoðuð (Ásrún Elmarsdóttir o.fl. 2003; Ásrún Elmarsdóttir og Olga Kolbrún Vilmundardóttir 2009). Ýmsar grastegundir eru í hópi þeirra tegunda sem vaxa á þessum svæðum. Skriðlíngresi virðist vera sérlega þolið gagnvart heitum jarðvegi og fannst þar sem hiti var hærri en 50°C. Blávingull og fjallafoxgras virðast einnig mjög þolnar tegundir að þessu leyti. Hálíngresi, fjallapuntur, vallarsveifgras og túnvingull vaxa einnig í hveragraslendi þar sem jarðvegur í 10 cm dýpt er um og yfir 20°C. Hafa ber í huga að á þessum stöðum eru staðbrigði sem hafa aðlagast þessum aðstæðum á löngum tíma og ekki hægt að yfirfæra niðurstöðurnar beint á yrki sömu tegundar sem eiga sér annan uppruna.

Á Reykjum í Ölfusi urðu breytingar á hverasvæðinu þar í jarðskjálfunum 2008. Þá opnuðust nýir hverir þar sem jarðhiti var ekki fyrir. Hálíngresi var algeng grastegund á nýja svæðinu og hefur hingað til haldið sínum hlut í jarðvegi sem er 10°C hlýrri en hann var áður en hverirnir mynduðust (Michielsen 2014). Hálíngresi er einnig í gömlu hveragraslendi á Reykjum. Þar er hálíngresi með svipaða þekju utan hitasvæðisins og í jarðvegi sem er 10°C hlýrri. Vallarsveifgras hefur einnig haldið sínum hlut á nýja hverasvæðinu og hlutdeild þess á gamla svæðinu er meiri í hlýja hlutanum en þeim sem er utan áhrifasvæðis jarðhitans. Ofangreindar niðurstöður sýna að grös geta vaxið við mun meiri hita en algengastur er í íslenskum jarðvegi og gefur það ástæðu til bjartsýni um jákvæðan árangur af upphitun. Þetta verkefni var sett af stað að frumkvæði Brynjars Stefánssonar hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Hann kallaði til fulltrúa frá Landbúnaðarháskóla Íslands og íþróttahreyfingunni til umræðu og í framhaldi var sótt um styrk til Orkuveitu Reykjavíkur. Þar var samþykkt að veita styrk til að byggja upp tilraunaaðstöðu en þó ekki af þeirri stærð sem sótt var um. Verkefnið hófst árið 2008 og árið 2009 var byggð upp tilraunaflöt á Korpúlfsstöðum, lagðar hitaleiðslur og sáð mismunandi grastegundum, sem henta annars vegar á fótboltavelli og hins vegar á golfflatir. Aðstaðan var ekki tilbúin fyrr en í marslok árið 2010 og því ekki hægt að hefja upphitun á tilsettum tíma það ár en byrjað var að hita upp strax og kerfið var tilbúið. Síðan hefur tilraunin að mestu verið keyrð samkvæmt áætlun en fjárskortur hefur þó hindrað að hægt væri að gera allt eins og til stóð.

This article is from: