2 minute read
Inngangur - bakgrunnur
Það eru fá lönd í heiminum þar sem notað er jafn mikið af tegundum víðis (Salix sp.) í ræktun og raun ber vitni hér á Íslandi (Samson B. Harðarson, 2009a). Mikið er notað af erlendum tegundum og yrkjum, svo sem alaskavíði (Salix alaxensis) og jörfavíði (Salix hookeriana) frá Alaska og selju (Salix caprea) og viðju (Salix myrsinifolia) frá Noregi, en mikið er einnig notað af íslenskum yrkjum. Má fullyrða að óvíða sé til jafn mikið safn norrænna víðitegunda og hérlendis og hafa erlendir aðilar eins og Norðmenn og Svíar leitað fanga hérlendis um harðgerð yrki. Hingað til hefur ekki verið til heildstætt safn þessara tegunda hérlendis. Fjöldi yrkja íslenskra víðitegunda í ræktun er töluverður og eru sumar þeirra með algengari garð- og skjólbeltaplöntum hérlendis svo sem yrkin Brekkuvíðir og Strandavíðir sem eru bæði afbrigði af gulvíði (Salix phylicifolia). Fæst íslensku yrkjanna hafa þó fengið yrkisheiti og er í raun lítið vitað um fjölda þeirra. Sum þessara yrkja hafa verið í ræktun í yfir hundrað ár eins og gulvíðirinn frá Sörlastöðum sem C. E. Flensborg skógarvörður tók í ræktun um 1901. Áhugi á notkun íslenskra tegunda hefur aukist og því nauðsynlegt að fá skýrari yfirsýn yfir þann fjölbreytileika sem er til í ræktuðum íslenskum víðiyrkjum, skrásetja þau og varðveita og gera upplýsingar og plöntuefnivið aðgengilegan til ræktenda. Aukinn áhugi birtist m.a. í því að ýmsir aðilar vilja fremur nota íslenskar plöntur en erlendar, bæði til notkunar í görðum og útivistarsvæðum og einnig til landgræðslu og frágangs á ferðamannastöðum. Með samantekt á aðgengilegum upplýsingum um yrki íslenskra víðitegunda fyrir almenna garðeigendur, garðyrkjumenn, landslagsarkitekta og skjólbeltaræktendur, má búast við að notkunin verði meiri og markvissari. Þó íslenskar víðitegundir séu ekki nema fjórar talsins (Salix artica, S. herbacea, S. lanata og S. phylicifolia), þá er fjölbreytileiki þeirra mikill, loðvíðir (Salix lanata) til frá jarðlægum yrkjum upp í uppréttan 2ja metra háan runna og allt þar á milli. Ekki er til heildaryfirlit yfir yrki íslenskra víðitegunda þótt ýmislegt hafi verið ritað um íslenska víðinn t.d. Jóhann Pálsson, Víðir og víðiræktun á Íslandi, 1997 og Óli Valur Hansson, 1972. Af rannsóknum sem gerðar hafa verið á arfgerðum íslensks víðis má telja rannsóknir Kesöru Anamthawat-Jónsson og samstarfsaðila á íslenskum afbrigðum gulvíðis, Salix phylicifolia: brekkuvíði og tunguvíði (Kesera Anamthawat-Jónsson, 2013). Þá má einnig nefna rannsóknir á líffræði íslenskra víðitegunda og notkunarmöguleikum þeirra í landgræðslu ((Ása L. Aradóttir et. al., 1999,) og (Kristín Svavarsdóttir, ritstj., 2006) sem beindist að samanburði á klónum gulvíðis, loðvíðis og í minna mæli fjallavíðis, frá mismunandi stöðum á landinu (Ása L. Aradóttir ofl., 2007).