![](https://static.isu.pub/fe/default-story-images/news.jpg?width=720&quality=85%2C50)
4 minute read
Það var eins og verkin yxu hvert út úr öðru
from Ex - leikskrá
Marius von Mayenburg er höfundur þríleiksins sem samanstendur af leikritunum Ellen B., Ex og Ekkert mál (Egal). Benedict Andrews leikstýrir Ellen B. og Ex á leikárinu 2022-23 og höfundurinn mun sjálfur leikstýra því þriðja, Ekkert mál, næstkomandi haust. Leikritin eru framúrskarandi vel skrifuð og fjalla um ástina og valdið í samtímanum, nútímafólk og nándina, af nístandi hreinskilni og kolsvörtum húmor. Bitastæð hlutverkin eru öll í höndum stórleikara.
Leiðir ykkar Benedicts hafa legið saman í leikhúsinu í tvo áratugi. Hvernig er samvinnu ykkar sem höfundar og leikstjóra háttað? Vinnið þið náið saman á ritunar- og æfingatíma verkanna?
Við Benedict hittumst fyrst þegar hann setti upp leikrit mitt Eldfés (Feuergesicht) hjá Sydney Theatre Company árið 2001, og hann hefur áður leikstýrt fimm leikritum eftir mig í leikhúsum í Ástralíu og í Schaubühne-leikhúsinu í Berlín. Í gegnum okkar tengsl var honum boðið að leikstýra við Schaubühne-leikhúsið í Berlín og ég var dramatúrg í nokkrum sýningum hjá honum þar.
Hvað varðar samvinnu höfundar og leikstjóra, þá má segja að ég sjálfur sé eini leikstjórinn sem kemur að ritunarferli leikrita minna. Síðustu tólf árin hef ég sjálfur leikstýrt frumuppfærslum á verkunum mínum og auðvitað hefur það haft mikil áhrif á skrifin – kannski til hins betra, kannski ekki. Áður en ég fór að leikstýra sjálfur var ritunarferlið líka mjög einmanalegt. Eina undantekningin var sýning sem við Benedict unnum saman að fyrir Adelaide-hátíðina, Moving Target. Þá vorum við búnir að vinna saman í nokkur ár, hann sem leikstjóri og ég sem dramatúrg.
Við höfðum myndað mjög sérstaka listræna vináttu og Benedict spurði mig hvort ég hefði áhuga á að vinna sýningu með honum alveg frá grunni. Það er að segja að byrja að æfa með hópi af leikurum með ekkert í höndunum nema hugmynd. Engan texta, enga leikmynd – ekkert. Allt yrði þróað í æfingaferlinu. Þetta var mjög kraftmikið og fallegt ferli. Fljótlega eftir þessa sýningu fór Benedict að skrifa leikrit sjálfur og ég að leikstýra.
Verkin í þríleik þínum, Ellen B., Ex og Ekkert mál eru á margan hátt ólík, en formið er svipað og það eru þemu og ákveðnir eiginleikar sem tengja þau. Hvaðan spretta þessi verk og hvers vegna líturðu á þau sem þríleik?
Rétt áður en öllu var skellt í lás vegna Covid árið 2020 var frumsýnt eftir mig leikrit. Frumsýningarpartýið var fyrsti smitpotturinn í nærumhverfi mínu og daginn eftir frumsýninguna var öllum leikhúsum í Berlín lokað. Þetta var mjög erfitt, ég sá fram á að leikritið mitt myndi ekki lifa áfram, enginn myndi koma að sjá það. Og þá byrjaði ég að skrifa Ex, skrifin urðu eins og nokkurs konar þerapía fyrir mig. Frá því að skrifa Ex fór ég yfir í að skrifa Ellen B. og daginn sem ég lauk við Ellen B. byrjaði ég að skrifa Ekkert mál. Það var eins og verkin yxu hvert út úr öðru og öll uxu þau út úr frelsinu sem fólst í því að vera innilokaður og í þessum félagslegu höftum. Ég kalla þennan þríleik gjarnan „Lockdown”-þríleikinn.
Ég hafði gengið með flestar hugmyndirnar árum saman en aldrei haft tíma til að skrifa þær niður. Hugmyndin að Ex fæddist t.d. þegar ég átti samtal við nokkra kollega um stéttskipt þjóðfélög í leikritum fyrri alda, hvort okkar þjóðfélag væri eins stéttskipt og áður, eða hvort stéttaskipting væri jafnvel liðin undir lok. Í Ex hafa mál sem tengjast stéttaskiptingu mikil áhrif á átök parsins sem er í forgrunni. Ellen B. er kannski persónulegra verk, en Ekkert mál sprettur aftur á móti upp úr vandamálum í okkar afturhaldssama þjóðfélagi. Öll verkin eiga það sameiginlegt að hafa á sér yfirbragð innilokunar, bæði hvað varðar bygginguna – þetta eru allt einþáttungar – og hvað tungumálið snertir. Mér finnst þau vera á sama hraða, með svipað hitastig, og samtölin eru drifin áfram eins og í gamanleik. Persónurnar eru allar með þráhyggju fyrir því að eiga í átökum og verða að bera sigur úr býtum í öllu sem þær rífast um. Verkin eru eins og systkini með ólík áhugamál, ólíka galla og kannski ólíka hæfileika, mér finnst eins og þau kallist á. Og vonandi á áhorfandi sem sér þau öll eftir að njóta samvistanna við þessa þrjá „illgjörnu þríbura”.
Verkin þín eru oft nokkurs konar andsvar við því sem er að gerast í samfélaginu. Í Ellen B. kemurðu inn á viðkvæmt umfjöllunarefni, ásakanir um kynferðislega áreitni og misnotkun. Hér á Íslandi var MeToo umræðan mjög kraftmikil, en sumir karlmenn hafa verið hræddir við að tjá sig um málefnið.
Ég held að karlmenn þurfi að hætta að skilgreina frelsisbaráttu og femínisma sem einvörðungu málefni kvenna. Reynsla af kynferðislegri misnotkun er ekki bundin við einungis eitt kyn. Þetta er almenn ógn. Fyrir mitt leyti er ég ekki í neinum vafa um að valdastrúktúrinn á bak við hvert kynferðisbrot sé hægt að skilgreina sem karllægan. En innan þess ramma geta gerendur verið bæði karlar og konur. Það er þetta kerfi og valdið sem verður til í gegnum tungumálið sem ég hef áhuga á. Það er nokkurs konar vald sem byggist á misnotkun og viðheldur misnotkun. Það er ákveðin tegund af ofbeldi sem þarf ekki að vera kynferðislegt til að leggja líf manneskju í rúst.
Þú munt leikstýra Ekkert mál hér í Þjóðleikhúsinu á næsta ári, hvaða væntingar hefurðu til vinnunnar?
Ég hlakka til að vinna með Benedict og Ninu Wetzel, leikmyndaog búningahöfundi, í þessu nýja og risavaxna samhengi. Þau eru bæði nánir vinir og listrænir samverkamenn mínir, og ég er forvitinn að sjá hvert þetta nýja skref í okkar listrænu samvinnu leiðir okkur. Það er líka nýtt og alveg sérstakt fyrir mig sem höfund að þrjú verk eftir mig séu sett upp á svo stuttum tíma og í svona miklu návígi. En aðallega er ég spenntur vegna þess að Ísland býr yfir stórkostlegri menningu sem ég hlakka mjög mikið til að komast í snertingu við. Það að leikstýra verki þar sem samtöl eru helsta driffjöðrin á öðru tungumáli verður áskorun, en ég hef alltaf haft gaman af þeirri fjarlægð sem það að vinna á öðru tungumáli skapar. Því vonast ég eftir gjöfulum samskiptum og leiftrandi kynnum við nýja áhorfendur.
Viðtal: HHG og MTÓ