Við Akranes æpti hann: "Stopp". Ágrip að upphafi flugsögu Akraness.

Page 1

ÁRBÓK AKURNESINGA 2006

Við Akranes æpti hann: „Stopp!“ Ágrip að upphafi flugsögu Akraness

Þ

egar myndirnar í Ljósmyndasafni Akraness eru skoðaðar á netinu finnur maður oft merkilegar myndir sem kitla forvitnina. Oft vantar sárlega nánari upplýsingar með myndunum. Vilji maður fá nánari vitneskju um þær er ekki um annað að ræða en að fara á stúfana og reyna að finna upplýsingar um það sem fyrir augu ber. Það getur verið mjög gaman að grúska í þessum myndum. Nokkrar myndir vöktu áhuga minn þegar ég skoðaði myndasöfn Ólafs Frímanns Sigurðssonar og Árna Böðvarssonar. Þeir tóku nokkrar stórmerkilegar myndir af flugvélum sem heimsóttu Akranes á upphafsárum flugs hér á landi. Þessar myndir eru ekki síst merkar vegna þess að þær hafa nær undantekningalaust hvergi birst opinberlega áður. Ég hef reynt að grafast fyrir um hvað hér var á ferðinni, og hefur orðið nokkuð ágengt við leitina sem hefur farið fram víða í söfnum og á netinu. Í þessu greinarkorni deili ég vitneskjunni með lesendum.

Magnús Þór Hafsteinsson.

Súlan sest í Steinsvör

Myndir Árna Böðvarssonar og Ólafs Frímanns Sigurðssonar af komu Súlunnar til Akraness hljóta að teljast merkilegar fyrir íslenska flugsögu. Líklega var þetta í fyrsta sinn sem flugvél lenti á Skipaskaga. Þriðji áratugur 20. aldarinnar var að renna sitt skeið á enda. Þó að flug hefði verið stundað af síauknu kappi beggja vegna Atlantsála alla öldina, þá höfðu flugvélar verið næsta fátíð sjón hér á landi. Fyrsta flugið hafði átt sér stað með tvíþekju úr Vatnsmýri í Reykjavík haustið 1919. Sama flugvél var notuð hér á landi árið eftir en hún mun aldrei hafa flogið yfir Akranes þó hún færi austur að Álafossi, yfir Suðurland og til Vestmannaeyja. Næstu árin á eftir komu nokkrir flugbátar til Íslands. Bandaríkjamenn urðu fyrstir til að fljúga hingað til lands þegar herflugvélar þeirra þreyttu hnattflug árið 1924. Þetta voru sjóflugvélar sem lentu við Hornafjörð í byrjun ágúst eftir flug frá Skotlandi. Síðar í sama mánuði lenti svo ítalskur flugbátur í 97


ÁRBÓK AKURNESINGA 2006

Súlan í Steinsvör sumarið 1929. Gamall og nýr tími í samgöngumálum landsmanna mætast á Akranesi í fyrsta sinn. Flugvél í fjörunni, seglskip fyrir strönd. Koma vélarinnar vakti að vonum mikla athygli. Telja má nálega 100 manns á þessari ljósmynd, bæði unga sem aldna. Mynd: Á.B./ Ljósmyndasafn Akraness.

98

Reykjavík á leið sinni vestur um haf. Þegar dagblöðum frá þesssum tíma er flett, er augljóst að Íslendingar höfðu mikinn áhuga á flugmálum. Líklega gerðu margir sér grein fyrir því að flugvélar myndu með tíð og tíma reynast ómetanleg samgöngutæki innan lands og milli landa. Þannig myndu þessi stórkostlegu tækniundur gera sitt til að rjúfa ekki bara einangrun landshluta og héraða, heldur einnig einangrun Íslands við umheiminn allan. Þetta voru spennandi tímar. Þjóðin var kannski fátæk og þekkingasnauð þegar kom að flugi. En hún var rík af mannauði, og meðal þjóðarinnar voru menn sem bjuggu yfir áræði og framtíðarsýn til að hleypa íslensku flugfélagi af stokkunum, þegar árið 1928. Menn sáu möguleika til farþegaflutninga, póstflugs, útsýnisflugs og síldarleitar.

Þetta var Flugfélag Íslands hf., - hið fyrsta með því nafni. Stofnandinn var dr. Alexander Jóhannesson. Gerður var samningur við þýska flugfélagið Lufthansa og leigð eins hreyfils farþegaflugvél af gerðinni Junkers F-13. Vélar af þessari gerð þóttu ákaflega vel smíðaðar. Framleiðsla þeirra hófst árið 1919 og þóttu þær þá þegar mjög framúrstefnulegar. Á tímum tvívængja þótti einvængja flugvél tíðindi. Auk þess var hún málmklædd, eingöngu smíðuð úr léttmálmum. Pláss var fyrir fjóra farþega sem sátu í lokuðu rými. Flugstjórnarklefinn sem rúmaði flugmann og flugvirkja var hins vegar opinn. Vélin fékk nafnið Súlan. Þar sem engir voru flugvellirnir var hún sett á flotholt og gerð að sjóflugvél. Henni var flogið sumarið 1928 af þýskum flugmanni og landi hans í flugvirkjastétt sá um viðgerðir


ÁRBÓK AKURNESINGA 2006

Þessi ljósmynd Árna Böðvarssonar sýnir Súluna frá öðru sjónarhorni. Hús jarðarinnar Heimaskaga standa á kambinum. Íbúðarhúsið var reist 1905 en rifið 1944 til að veita rými til byggingar hraðfrystihússins Heimaskaga. Myndirnar á næstu síðu voru teknar af Ólafi Frímanni Sigurðssyni. Þær sýna þegar vélin rennir fyrir eigin afli upp í Steinsvör. Þá var drepið á hreyflinum, Neumann flugmaður steig út úr klefa sínum, einhverjir óðu út í sjóinn og vélinni var snúið í fjöruborðinu þannig að hreyfilinn vísaði aftur á haf út. Íbúar Akraness fylgdust greinilega með af mikilli athygli, - ekki síst strákarnir. Myndir: Á. B. og Ó. F. S./Ljósmyndasafn Akraness.

og viðhald. Þó flugvélin fengi hið íslenska nafn Súlan, var hún áfram þýsk og hélt einkennisstöfum sínum D 463, en íslenski fáninn var málaður á stélið. Líklegt má telja að vélin hafi flogið yfir Akranes á ferðum sínum um landið þetta sumar, en heimildir hafa ekki fundist fyrir því að hún hafi lent hér þá. Hins vegar sigldi Súlan framhjá Akranesi eitt júníkvöld áleiðis til Reykjavíkur. Mótorinn hafði brætt úr sér og stöðvast á flugi yfir Snæfellsnesi. Nauðlent var á sjónum við Mýrar, og Súlan síðan tekin í slef með mótorbát vestur fyrir Akranes, yfir Faxaflóann og til Reykjavíkur. Eftir vel heppnað flugrekstrarsumar var Súlan tekin sundur þá um haustið og send með skipi aftur til Þýskalands. 1, 2, 3 Snemma sumarið eftir kom Súlan aftur til landsins. Um veturinn hafði

flugvélin verið endurbætt. Nýr mótor var settur í hana, legu útblástursröra var breytt, stélið stækkað og formi þess breytt.4 Þetta gerir okkur kleift að slá föstu að það var sumarið 1929 sem Ólafur Frímann Sigurðsson, Árni Böðvarsson og aðrir Akurnesingar urðu vitni að því að þessi vél lenti við Akranes og sigldi síðan upp í Heimaskagavör. Á myndunum sem finna má á vef Ljósmyndasafns Akraness sést útblásturrör og stél vélarinnar greinilega og þessir hlutar hafa útlitið eftir breytingarnar veturinn 1928-1929 í Þýskalandi. Ekki er ljóst hvaða dag þessi fyrsta heimsókn flugvélar til Akraness átti sér stað, en sennilega hefur það verið í júlí eða ágúst. Allt sumarið var vélin í ferðum um landið og flaug henni þýskur maður Arthur Neumann að nafni.3 Þessi 39 ára flugmaður var 99


ÁRBÓK AKURNESINGA 2006

mjög reyndur. Hann hafði á sínum tíma verið herflugmaður á sjóflugvélum þýska hersins í fyrri heimsstyrjöld, stundað flug í rannsóknaleiðangri við Svalbarða og í Noregi. Arthur Neumann reyndist ákaflega farsæll þar sem hann flaug, lenti og tók á loft við framandi aðstæður í landslagi þar sem enginn maður hafði flogið áður. Þessi frumkvöðull flugs á Íslandi lést árið 1974 í Þýskalandi.5 Fullyrða má að hann hafi stýrt Súlunni þennan sumardag til Akraness. Vonandi eiga eftir að finnast heimildir um það hvenær flugvélin kom hingað, og jafnvel hvert erindið hafi verið. Hver veit nema það hafi verið jafn sakleysislegt og það að setja frá borði farþega sem ekki vildi fara lengra? Þó að flugið hafi vakið óskipta athygli eins og reyndar má sjá á ljósmyndunum sem teknar voru á Akranesi þegar Súlan kom hingað, er jafn ljóst að sumum þeirra sem reyndu flugið hefur ekki orðið um sel. Að minnsta kosti birtist vísukornið „Flug Guðmundar“ í kvæðabók sem gefin var út í Reykjavík árið 1929:

Súlan um heiðríkan himininn leið með hárauða varninginn þann. Í sjálfan sig Guðmundur skíthræddur skreið skjálfandi og nötrandi átekta beið. - Það var sorglegt að horfa upp á hann. Með rykkjum og hávaða flugvélin fló, Þá fór um Guðmundar kropp. Af aumingja manninum endalaust dró, af angist og hryllingi fnæsti og spjó, - Við Akranes æpti hann: ”Stopp!”6

100


ÁRBÓK AKURNESINGA 2006 Danski jarðfræðingurinn og landkönnuðurinn Lauge Koch snýr hér vanganum að ljósmyndara, nýlentur í Krókalóni 26. ágúst 1932 íklæddur anorak og ísbjarnarskinnsbuxum eftir flugferð sína frá Austur Grænlandi. Við hlið hans er annar félaga hans en í baksýn sést hreyfill og vængur Heinkel flugvélarinnar. Mynd: Ó.F.S./ Ljósmyndasafn Akraness.

Danskur landkönnuður á Krókalóni

Snemma að kveldi föstudagsins 26. ágúst árið 1932, hljóta Akurnesingar að hafa heyrt flugvéladyn af hafi. Líklegt má telja að skömmu síðar hafi stór rauðmáluð sjóflugvél sveimað hring yfir bænum. Flugmennirnir voru að leita að lægi fyrir vél sína. Eftir nokkra stund skreið svo þessi eins hreyfils vél inn á Krókalón og staðnæmdist í fjöruborðinu þar sem mikill mannfjöldi hafði nú safnast saman til að fylgjast með atburðum. Út úr vélinni stigu þrír vörpulegir karlmenn, dúðaðir í anorakka og íklæddir loðnum buxum sem virtust gerðar úr ísbjarnarfeldi. Hér var kominn danski landkönnuðurinn dr. Svend Lauge Koch ásamt fluglautenant Petersen og vélamanninum Kramme. Þegar þeir lentu við Akranes höfðu þeir lagt að baki sex tíma flug frá Scoresbysundi við

austurströnd Grænlands. Í upphafi gekk ferðin vel. Það tók aðeins um þrjá tíma að ná landi við norðanverða Vestfirði um sexleytið síðdegis, enda veður gott. Flugvélin náði þá sambandi við loftskeytastöð í Reykjavík sem veitti upplýsingar um veðurfar við Faxaflóa og vestanvert Ísland. Þótti mönnum óráð að vélin héldi för sinni áfram suður, þar sem þykknað hafði upp og loftvog fallið. Bjuggust menn við að flugvélin myndi lenda á Ísafirði þar sem beðið yrði betra veðurs. Landkönnuðurinn og menn hans afréðu hins vegar að fljúga áfram suður á bóginn. Þetta var vafasöm ákvörðun. Klukkan var langt gengin í átta þegar sást til vélarinnar þar sem hún flaug framhjá Lóndröngum á Snæfellsnesi. Hálftíma síðar náði flugvélin loftskeytasambandi við danska varðskipið „Fylla“ sem lá í Reykjavíkurhöfn og einnig við loftskeytastöðina. Flugmaðurinn bað 101


ÁRBÓK AKURNESINGA 2006

varðskipið um að miða sig út, því hann væri villtur í þoku einhvers staðar yfir Faxaflóa. Síðan heyrðist ekkert meir í flugvélinni og tilraunir til að ná sambandi voru árangurslausar. Það greip um sig geigur í Reykjavík, um að vélinni hefði hlekkst á í dimmviðrinu. Ekkert heyrðist fyrr en síminn hringdi rétt fyrir klukkan níu um kvöldið. Dr. Koch var á línunni og talaði frá Akranesi. Mönnum létti þegar hann greindi frá því að vélin hefði lent á sjónum um 10 mínútna siglingu frá Akranesi og þangað hefðu menn rennt að landi. Ástæðan fyrir sambandsleysinu var að loftnetið hafði dottið úr sambandi á fluginu. Annað var það ekki, og allir voru heilir á húfi. Landkönnuðurinn tilkynnti að þeir félagar ætluðu að gista á Akranesi og halda svo áfram til Reykjavíkur, sem þeir og gerðu.1, 7, 8

Morgunblaðið birti viðtal við dr. Lauge Koch strax sunnudaginn 28. ágúst. Þá var vélin lent í Reykjavík og lá þar við stjóra. Koch lýsti fluginu: „Við höfðum bensín til 7 tíma flugs, er við fórum frá Scoresbysundi. Og til Ísafjarðar vorum við ekki nema 3 tíma. En svo skall á okkur sunnanveðrið. Og þegar við sáum Akranes í ljósaskiptunum um kvöldið þá áttum við ekki eftir nema um 40 lítra af bensíni, af rúmlega 700 er við tókum með. Þá höfðum við misst loftnetið, svo við gátum engin loftskeyti fengið, og töldum því tryggast að staðnæmast þarna“. Dönsku flugmennirnir voru ánægðir með móttökurnar á Skipaskaga. „Ljetu þeir fjelagar mjög vel yfir viðtökum þeim sem þeir höfðu fengið 102

á Akranesi“, skrifaði Morgunblaðið í lok viðtalsins.9 En hver var tilgangur þessarar flugferðar? Dr. Lauge Koch var á sínum tíma einn helsti jarðfræðingur Dana. Stór svæði voru enn ókönnuð á Grænlandi. Ekki síst á austurströndinni. Margir höfðu trú á því að mikil auðæfi væri að finna á Grænlandi. Talað var um gull og aðra eðalmálma. Inn í þetta blandaðist svo hatrömm milliríkjapólitík. Norðmenn áttu metnaðarfulla landkönnuði og höfðu þá sem nú fullan hug á því að ná ráðum yfir sem stærstum land- og hafsvæðum í Norðurhöfum. Þeir höfðu slegið eign sinni á eldfjallaeyna Jan Mayen, og ásældust nú mjög austurströnd Grænlands. Danir voru ákveðnir að gefa Grænland hvergi eftir. Þetta voru helstu ástæður þess að þeir lögðu mikið kapp á það að kanna og kortleggja Grænland á árunum upp úr 1930. Stofnað var til þriggja ára rannsóknarverkefnis sem náði yfir árin 1931-1934. Dr. Lauge Koch var settur til að leiða þessa vinnu. Sumarið 1932 var mikill leiðangur gerður út með tveimur stórum skipum, tveimur sjóflugvélum og allnokkrum vélbátum. Hér gegndu flugvélarnar lykilhlutverki við að kanna hina hrikalegu strandlengju og hálendið inn af henni. Dr. Koch lýsti starfinu í viðtali við Morgunblaðið: „Alls hafa flugvélarnar flogið um 30.000 kílómetra. Hæst höfum við farið í loft upp í 4600 metra hæð: og oft höfum við flogið í 20-30 stiga frosti. Landmælingarnar með ljósmyndun úr loftinu tókust alveg prýðilega. Alls fengum við uppdrætti af 45.000 ferkílómetra svæði“. En þrátt fyrir að megintilgangur


ÁRBÓK AKURNESINGA 2006

leiðangursins væri að stunda rannsóknir, þá var markmiðið einnig að stunda eftirlit með hugsanlegri ásælni Norðmanna. Dr. Koch viðurkenndi það fúslega í viðtali við Morgunblaðið, að eitt af verkefnunum væri að „annast einskonar lögreglustörf með ströndum fram“ 9. Ástæða þess að flogið var til Íslands var sú að nú tók að hausta og Danir hugðu á heimferð. Til að koma flugvélinni í skip þurfti að taka hana í sundur. Ekki þótti ráðlegt að gera það á Grænlandi. Því var henni flogið til Reykjavíkur. Þar var beðið komu skipanna frá Grænlandi og vélin síðan tekin sundur áður en leiðangurinn hélt heim til Danmerkur. Það þurfti heldur ekki að vera svo vitlaus hugmynd að fljúga til Íslands og ná þannig athygli og undirstrika ítök Dana á Íslandi. Flugvélin var eldrauð og danski fáninn var málaður á stél hennar. Eins og sjá má á myndunum sem fylgja hér með, þá vakti koma vélarinnar óskipta athygli innfæddra. Annars áttu Danir eftir að leika sama bragð árið eftir. Í lok júní árið 1933 var sömu vél flogið frá Reykjavík til

Ísafjarðar og áfram til Austur-Grænlands, eftir að vélin hafði verið flutt hingað með flutningaskipi. Voru þar enn á ferð Dr. Koch og félagar. Það var áttunda árið í röð sem Danir héldu til landkönnunar og –mælinga á Grænlandi.1 Flugvélin sem Ólafur Frímann Sigurðsson myndaði í Krókalóni ágústkvöldið góða árið 1932 var þýsk hönnun af gerðinni Heinkel HE 8. Danski sjóherinn eignaðist alls 22 vélar af þessari gerð. Voru þær meðal annars notaðar til loftmyndatöku af Íslandi. Margar vélanna voru smíðaðar í skipasmíðastöð sjóhersins í Danmörku eftir leyfi frá Þýskalandi. Þar á meðal var sú vél sem lenti við Akranes en hún bar númerið 87 og var smíðuð árið 1931. Hún var um árabil í notkun við Grænland. Flestar Heinkel HE 8 vélar danska sjóhersins voru eyðilagðar í seinni heimsstyrjöldinni þegar andspyrnumaður kveikti í flugskýli þar sem þær voru geymdar. Þetta var gert til að koma í veg fyrir að Þjóðverjar gætu nýtt sér vélarnar í stríðsrekstri sínum 10, 11. Landkönnuðurinn Lauge Koch

Heinkel HE8 flugvél Dr. Lauge Koch og félaga í fjöruborðin við Krókalón. Að minnsta kosti tveir úr áhöfninni eru um borð og vélin annað hvort nýkomin eða verið að undirbúa brottför eftir stuttan stans á Akranesi. Flugvélin var rauð á litinn, eflaust til að hún sæist betur í ísaumhverfi Grænlands, og danski fáninn „Dannebrog“ málaður á stél hennar. Enginn þurfti því að veljast í vafa um hverjir væru hér á ferð enda spenna í samskiptum Dana við aðrar þjóðir og þá einkum Norðmenn, vegna deilna um yfirráð yfir Grænlandi. Mynd:Ó.F.S. /Ljósmyndasafn Akraness.

103


ÁRBÓK AKURNESINGA 2006

Dr. Light og Wilson stýra flugvél sinni á Lambhúsasundi, áttaviltir og ringlaðir eftir mikla svaðilför frá Ammassalik í Grænlandi. Í dagbók sinni lýsir dr. Light því hvernig þeir leituðu að bauju til að binda flugvélina við, og að Akurnesingar hefðu sett út árabát og róið að vélinni. Árabáturinn sést vel á myndinni, og „flotholtið“ fyrir framan vélina gæti verið pokaskjattinn sem Wilson siglingafræðingur greip í. Mynd: Ó.F.S./Ljósmyndasafn Akraness.

104

var greinilega hrifinn af þeirri stórkostlegu náttúru sem hann og menn hans höfðu uppgötvað fyrstir manna. Þetta voru mikil ævintýri sem höfðu á sér hetjublæ. Dr. Koch var glæsimenni, sterkur persónuleiki og duglegur á sínu sviði. Þegar hann lenti við Akranes hafði hann þegar lagt að baki mikil afrek á sviði Grænlandsrannsókna. Hann átti síðar eftir að skila miklu verki við könnun Grænlands, og má skoða hluta af starfi hans á netinu.12 Koch átti sér hins vegar óvildarmenn úr hópi eldri landkönnuða og vísindamanna sem ásökuðu hann um óvönduð vinnubrögð. Þetta leiddi af sér mikil og bitur málaferli í Danmörku, sem öðrum þræði áttu rót að rekja til baráttu um það hverjir ættu að leiða rannsóknir Dana á Grænlandi. Dr. Lauge Koch; landkönnuðurinn, vísindamaðurinn og gæslumaður Austur-Grænlands fyrir ásælni Norðmanna, sem stýrði annarri flugvélinni er lenti á Akranesi, lést í Danmörku árið 1964 13.

Amerískur taugaskurðlæknir í Lambhúsasundi

Síðdegis föstudaginn 31. ágúst árið 1934 birtist skyndilega lítil sjóflugvél við Akranes. Hún kom úr norðri og lenti á Lambhúsasundi. Flugmaðurinn stýrði vélinni í áttina að því sem hann taldi vera bauja sem hægt væri að binda vélina við. Siglingafræðingurinn stökk niður á annað flotholtið og teygði sig í áttina að henni en greip í tómt. Þetta var ekki bauja, heldur tómur bréfpoki sem loft hafði komist í og flaut nú á sjónum. Vélin stöðvaðist og brátt kom að árabátur með nokkrum Akurnesingum. Þeir töluðu ensku. „Velkomnir til Íslands, eruð þið á leið til Reykjavíkur?“ spurðu Skagamenn eins og hér væri daglegur viðburður að flugvélar kæmu dalandi af himnum ofan. Það kom nokkuð á flugmennina. Þeir héldu að þeir væru lentir í Reykjavík! Annar þeirra áttaði sig strax á því að þeir væru lentir á vitlausum stað. Til að bjarga andlitinu, svaraði hann að bragði: „Já, hve langt er þangað?“. Svarið kom um hæl: „Tólf mílur“ 14.


ÁRBÓK AKURNESINGA 2006

Flugmennirnir kvöddu heimamenn með virktum og brátt hóf vélin sig til lofts, hvarf sjónum í átt til Reykjavíkur og sást ekki meir. Eftir stóð ungur maður með myndavél. Hann hét Ólafur Frímann og hann hafði fest flugvélina á filmu. Hér voru á ferðinni auðugur bandarískur taugaskurðlæknir, Richard Upjohn Light að nafni. Auk þess að sinna lækningum þá var Light mikill flugáhugamaður. Nú var hann á flugi ásamt siglingafræðingi sínum Robert French Wilson að nafni. Og þetta var ekkert smá ferðalag hjá þeim félögum. Aðeins sjö árum eftir að Charles Lindbergh flaug fyrstur yfir Norður-Atlantshaf voguðu þessir tvímenningar sér í hnattflug umhverfis jörðina á lítilli eins hreyfils sjóflugvél (Lindbergh hafði reyndar heimsótt Ísland á sjóflugvél ásamt eiginkonu sinni sumarið áður, en það er önnur saga). Ferðin hafði byrjað í New Haven í Connecticut fylki í Bandaríkjunum þann 20. ágúst. Þeir félagar höfðu flogið dagleiðir með austurströnd

Bandaríkjanna, Kanada og yfir Grænlands þar sem lent var í Qaqortoq á fornum slóðum Íslendinga. Á Grænlandi var flugvélinni gefið nafnið „Asulinak“ sem þýðir áhyggjulaus. Frá Quaqortoq flugu þeir suður fyrir Hvarf og norður með austurströndinni til Ammassalik. Raunar áttu þeir félagar í mestu vandræðum með að finna Ammassalik. Það varð þeim til bjargar að þar lá við festar franska rannsóknarskipið Pourquoi pas? Þegar skipverjar urðu varir við flugvélina bættu þeir kolum og olíuvættum tuskum í ketilinn til að búa til svartan reyk sem liðaðist upp. Light og Wilson sáu reykinn og lentu. Pourqoi pas? fórst svo við Mýrar í september 1936 eins og frægt er. Frá Ammassalik lá leiðin til Íslands. Takmarkið var að ná til Reykjavíkur en þessi kafli reyndist hættuspil. Þeir lentu í mótvindi og slæmu veðri á leið yfir hafið. Um tíma voru þeir ekki vissir um hvort stefnan væri rétt. Loks sáu þeir land og brátt reis jökull úr sænum. Þeir áttuðu sig á því að þetta væri Snæfellsjökull.

Eins hreyfils Bellanca Skyrocket sjóflugvél taugaskurðlæknisins dr. Light og siglingafræðingsins Wilson á siglingu innan um bátaflota Akurnesinga á Lambhúsasundi 31. ágúst árið 1934. Þessi litla vél átti fyrir höndum eitt fyrsta hnattflug veraldarsögunnar með eins hreyfils flugvél. Mynd: Ó.F.S./ Ljósmyndasafn Akraness.

105


ÁRBÓK AKURNESINGA 2006

Nú vissu þeir í hvaða átt þeir áttu að fljúga til Reykjavíkur, en nú var vélin að verða bensínlaus. Þeim hlýtur að hafa verið létt þegar þeir sáu lítið þorp framundan. Þetta hlaut að vera Reykjavík, og vélinni var lent þar sem hlaut að vera höfnin þar sem fiskibátar lágu við festar. Þetta var Lambhúsasund á Akranesi. Eftir að hafa skipst á framangreindum upplýsingum við Akurnesingana flugu þeir félagar til Reykjavíkur. Þar lentu þeir loksins um kvöldið eftir sjö tíma flug frá Ammassalik. Þá var bensínið nánast á þrotum. Aðeins eftir tæpir fimmtán lítrar sem hefðu dugað til tíu mínútna flugs. Light og Wilson dvöldu nokkra daga í Reykjavík á meðan þeir biðu eftir flugveðri til Færeyja. Á meðan notuðu þeir tækifærið til að skoða sig um. Á netinu má finna skemmtilega dagbók sem dr. Light skráði á meðan

ferðin stóð yfir. Hnattfluginu luku þeir í New York þann 24. janúar árið 1935. Flugvélin var af gerðinni Bellanca Skyrocket.1, 7, 14 Eitt fyrsta hnattflug í heimi á eins hreyfils flugvél, sem við vitum nú að fór meðal annars fram um Lambhúsasund á Akranesi, var ekki eina flugafrekið sem dr. Light vann á æfinni. Hann átti síðar eftir að fljúga suður með ströndum Suður-Ameríku yfir Norður-Atlantshaf og norður með Afríkuströndum á árunum 19371938. Dr. Light var um áratugaskeið forstjóri Upjohn lyfjafyrirtækisins, gegndi formennsku í ameríska landfræðifélaginu og sat í háskólaráði Yale háskóla. Dr. Richard U. Light lést rúmlega níræður árið 1994, en arfleifð hans lifir meðal annars í námssjóði á vegum Yale háskóla sem stofnaður var fyrir fé sem hann lét eftir sig. 14, 15

Heimildir: 1

Eggert Norðdahl, 1991. Flugsaga Íslands 1919-1945. 1. bindi. Örn og Örlygur, Reykjavík. 2 Morgunblaðið 1917-1928. Aðgengilegt á www.timarit.is 3 Arngrímur Sigurðsson, 1971. Annálar íslenskra flugmála 1917-1928. Bókaútgáfa Æskunnar, Reykjavík. 4 Ólafur Jóhann Sigurðsson, án ártals. Íslenskar flugvélar frá 1919 til 1940 – vefsíða. http://www.cl44.com/caa/1919_ISL.html 5 http://www.ju-f13.de/F13/person.html#Neumann 6 Arngrímur Sigurðsson, 1972. Annálar íslenskra flugmála 1928-1931. Bókaútgáfa Æskunnar, Reykjavík. 7 Arngrímur Sigurðsson, 1973. Annálar íslenskra flugmála 1931-1936. Bókaútgáfa Æskunnar, Reykjavík. 8 Morgunblaðið, 27. ágúst 1932. Aðgengilegt á www.timarit.is 9 Morgunblaðið, 28. ágúst 1932. Aðgengilegt á www.timarit.is 10 http://www.milhist.dk/weapons/systemer/flyvevabenet/he8/he8.htm 11 http://www.navalhistory.dk/danish/Flyvning/Flyvetjenesten.htm 12 . http://www.arktiskebilleder.dk/siulleq/album/person_7003575_1.html 13 . Cristopher Jacob Ries, 2003. Retten, magten og æren. Lauge Koch Sagen – En strid om Grønlands geologiske udforskning. Lindhardt og Ringhof. 14 . http://www.neurosurgery.org/Cybermuseum/seaplane/Introduction.html 15 . http://www.yale.edu/opa/ybc/v25.n7.news.04.html

106


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.