Mars 2022 Mars 2022
Ingvi Stefánsson hjá grísunum í stíunni í Teigi. Þaðan fara 70-75 grísir að jafnaði á viku til slátrunar og mikil þörf er á markaðnum fyrir aukna framleiðslu.
Fæðuöryggi þjóðarinnar hefur aldrei verið mikilvægara áhersluefni Ingvi Stefánsson, svínabóndi í Teigi í Eyjafjarðarsveit og formaður Félags svínabænda, segir að stríðsátök síðustu vikna í Úkraínu undirstriki meira en nokkru sinni að tryggja verði betur fæðuöryggi Íslendinga, fóðurframleiðslu og framleiðslu á innlendum matvælum. Hann kallar eftir viðbragðsáætlun stjórnvalda og aðgerðum til að efla innlenda fóðurframleiðslu.
Áhrif stríðsátakanna koma hratt fram Ingvi heimsótti Úkraínu fyrir 16 árum og sá þá með eigin augum hversu öflugt þetta ríki er í kornframleiðslu sem er grunnstoð fóðurframleiðslu víða á Vesturlöndum, þar á meðal á Íslandi. „Ef þessi átök standa í marga mánuði þá er hætt við að ræktunar tíminn í Úkraínu bregðist í ár og það mun hafa mikil áhrif næsta vetur. Við sjáum nú þegar miklar hækkanir á korni og þær eru strax byrjaðar að birtast í hækkun svínakjötsverðs í Evrópu, svo dæmi sé tekið. Landbúnaðurinn og matvælaframleiðslan eru því á tímapunkti núna sem ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af,“ segir Ingvi.
Eigum ekki að treysta á aðra Stóraukin framleiðsla á innlendu korni er viðbragð sem Ingvi segir að geti verið liður í áætlun stjórnvalda sem að hans mati er nauðsynlegt að líti dagsins ljós. „Ég hef kallað eftir því að stjórnvöld setji strax saman viðbragðs áætlun og ein leið er sú að styðja við stóraukna kornframleiðslu innanlands. Hugmynd um kornsamlög út um landið er ekki ný af nálinni en það er skynsamlegt og nauðsynlegt að til séu birgðir af korni í landinu svo hægt sé að grípa til ef slíkir atburðir verða sem nú eru í Úkraínu. Við Íslendingar getum einfaldlega ekki treyst algjörlega á aðra í því að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Atburðir síðustu vikna ættu að hafa opnað augu fólks fyrir þeirri staðreynd. Þessu var á dögunum líkt saman við að það stoði ekki að fara út í IKEA og kaupa nýja eldhúsinnréttingu á sama tíma og húsið brennur. Það er nokkuð til í þeirri samlíkingu,“ segir Ingvi.