Sóknarfæri 3. tbl. 2017

Page 1

Sóknarfæri Júní 2017

Frumkvæði og fagmennska í íslenskum sjávarútvegi

Hátækni og sjálfvirkni í Sólbergi ÓF 1

 Nýr Björgúlfur EA 312 til Dalvíkur

 Ungt fólk í sjávarútvegi

 Ný tækifæri í sölumálum sjávarafurða

 Reykjavíkurhöfn 100 ára


2  | SÓKNARFÆRI

Fjárfest til framtíðar

Jóhann Ólafur Halldórsson ritstjóri skrifar.

Á dögunum var á Siglufirði tekið á móti nýjum frystitogara Ramma hf., Sólbergi ÓF 1, sem vafalítið er fullkomnasta fiskiskip flotans. Í gær lagðist síðan nýr ísfisktogari að bryggju á Dalvík, Björgúlfur EA 312 og þar með hafa fjórir nýir togarar bæst í flotann frá áramótum. Og sex til viðbótar eiga eftir að koma til landsins áður en árið er úti, gangi allar áætlanir eftir. Nú kunna margir að spyrja sig hvort saman fari fjárfesting upp á tugi milljarða á sama tíma og mikil umræða er um að gengisþróun sé að setja greinina í umtalsverðan vanda. Þarna á milli er hins vegar ekki beint samhengi. Í fyrsta lagi má benda á að í flestum tilvikum eru að hverfa úr flotanum skip í stað þessara nýju togara sem orðin eru um og yfir 40 ára gömul. Útgerðirnar hafa vissulega haldið skipum sínum mjög vel við en þau eru engu að síður börn síns tíma og fyrir löngu er komið að endurnýjun. Fjörtíu ára gamall tækjabúnaður þætti líkast til óhugsandi í flestum atvinnugreinum en

meðalaldur í skipastólnum er til vitnis um hversu mörg gömul fiskiskip eru enn í flotanum. Í öðru lagi eru nýju skipin, hvort heldur eru frystitogarar eða ísfisktogarar, liður í að bregðast við eftirspurn á afurðamörkuðum úti í hinum stóra heimi. Því hvað sem tautar og raular, og hvað sem sagt er um að sjávarútvegur geti þróast svona eða hinsegin, þá breytist greinin öðru fremur eftir áhuga viðskiptavina okkar erlendis. Ef enginn kaupandi hefði verið að ferskum afurðum frá Íslandi þá hefðum við líkast til að stærstum hluta byggt alfarið áfram á hefðbundinni land- og sjófrystingu. Í þriðja lagi eru nýju skipin stórt skref í umhverfismálum. Nýjar vélar eyða minna eldsneyti en áður, ný hönnun skipanna miðar að því að ná sem bestri nýtingu orkunnar, lýsing skipanna krefst minni orku en áður og er þá aðeins fátt eitt talið. Og þessu til viðbótar er í tilfelli frystitogarans nýja í Fjallabyggð um að ræða skip þar sem allur afli er nýttur um borð. Úr hausum,

beinum og slógi fæst mjöl og lýsi. Verðmætasköpun alla leið. Í fjórða lagi er svo vert að benda á þá staðreynd að í tækniþróun nýju skipanna leika íslensk fyrirtæki stórt hlutverk, hvort heldur er í hönnun, tæknilegum útfærslum eða smíði búnaðar. Í öllum ísfisktogurunum níu verður fiskvinnslubúnaður smíðaður og settur niður hér á landi. Við sjáum nýjungar eins og mannlausar og íslausar fiskilestir, ofurkælingartækni og í frystitogaranum Sólbergi er bitaskurður úti á sjó með íslenskri vatnsskurðartækni reyndur í fyrsta sinni. Svo nokkur dæmi séu tekin. Allt mun þetta skila betri afurðum, léttari störfum sjómanna og í heild sinni meiri árangri í greininni. Enn væri hægt að telja upp fleiri atriði sem tengjast því sem er að gerast nú um stundir í skipastólnum en heildarmyndin er sú að burtséð frá gengisstöðu dagsins í dag eru ný fiskiskip liður í langri framtíð. Og enn eitt merkið um þá nýsköpun og drifkraft sem er í sjávarútvegi á Íslandi.

Ný nálgun í markaðssetningu á íslenskum saltfiski

Sögur úr þorpinu Íslandsstofa hefur undanfarin ár starfrækt markaðsverkefni í samstarfi við framleiðendur og útflytjendur á söltuðum þorskafurðum til Spánar, Portúgals og Ítalíu. Guðný Káradóttir, forstöðumaður matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar hjá Íslandsstofu, hefur leitt þetta verkefni og segir að lögð hafi verið áhersla á að fara nýjar leiðar í kynningu á sameiginlegum hagsmunum þar sem upprunalandið, gæðin, hefðirnar og íslenska þorpið eru miðpunktur miðlunarinnar. „Smakkaðu og deildu leyndarmáli íslenska þorsksins“ er yfirskrift verkefnisins.

Góður efniviður er lykilatriði „Okkar samskipti út á markaðinn eru með ýmsum hætti en þó má kannski segja að hefðbundnar leiðir hafi verið á undanhaldi. Við einblínum á að koma sögum á framfæri í gegnum samfélagsmiðla og vinnum til að mynda með áhrifaaðilum til að ná markmiðum okkar, sem eru að koma vitund og ímynd gæða á framfæri,“ segir Guðný. „Við settum okkur stefnu varðandi miðlun sagna en þær hverfast þó allar um íslenska fiskveiðiþorpið, sögur af fólkinu, vinnslunni, hlutverki fisksins í hversdagslífinu og hvernig allt þorpið tekur þátt í vinnslu íslenska saltfisksins. Allar segja þær á myndrænan hátt frá leyndarmálinu á bak við gæði íslenska þorsksins. Við bjuggum til dreifingaráætlun fyrir okkar samstarfsaðila, PR stofur úti á mörkuðum. Þeir bera ábyrgð á þýðingu yfir á ítölsku, spænsku og portúgölsku, að birta efnið og í framhaldinu að fylgjast með og svara kommentum. Við sögðum eina heila sögu í hverri viku og sáum

Guðný Káradóttir ásamt ítölskum kokkum í Salt eldhúsi, en þeir eru meðal þeirra sem boðið var að upplifa landið og kynnast fagmennsku í veiðum og vinnslu.

svo um að „efla“ ákveðnar sögur eftir svæðum og markhópum og fylgdumst náið með viðbrögðum. Viðbrögðin voru vonum framar, en á tveggja mánaða tímabili í vetur fjölgaði fylgjendum á Facebook t.d. um 28% á Ítalíu,“ segir Guðný og bætir við að grunnskilaboðin séu alltaf þau að varan sé hrein og sjálfbær, yfirburða gæði og ríkar hefðir.

Áhrifaaðilar ná til almennings „Það er mikilvægt að eiga gott efni til að miðla, þannig verðum við áhugaverður samstarfsaðili,“ segir Guðný og leggur áherslu á að vinna með sérfræðingum úti á markaðnum sem þekkja vel til staðhátta á hverju svæði og að finna áhrifaaðila sem eru reiðubúnir í samstarf. „Það skiptir miklu máli að velja áhrifaaðila sem eru trúverðugir og hafa sterka stöðu gagnvart okkar markhópi. Við leitum þannig eftir samstarfi við kokka og veitingahús sem hafa marga fylgjendur á samfélagsmiðlum og eru duglegir að

Sóknarfæri

Frumkvæði og fagmennska í íslenskum sjávarútvegi

deila af reynslu sinni. Matreiðslumenn og veitingastaðir eru einn þeirra markhópa sem við leggjum sérstaka áherslu á að nálgast því fyrir þennan hóp skiptir máli að hafa gott hráefni. Þeir vinna af fagmennsku og ástríðu til að framkalla góða upplifun fyrir neytendur. Við höfum m.a. boðið kokkum til Íslands til að upplifa landið og kynnast fagmennskunni í veiðum og vinnslu og höfum þá valið virta kokka á sínu sviði á mikilvægustu markaðssvæðunum okkar.“

Spennandi viðburðir Verkefnið hefur þó ekki einskorðast við samfélagsmiðla því einnig hefur mikið verið lagt upp úr sýnikennslu („show cooking“) og smakkviðburðum, bæði úti á mörkuðunum og á mikilvægum viðburðum, t.d. hinni virtu kokkaráðstefnu Madrid Fusion og á stærstu saltfiskhátíð í Portúgal. „Við höfum einnig lagt mikið upp úr samstarfi við verslanir á borð við verslanakeðjuna La Sirena á Spáni á föstunni. Keðjan miðlaði ýmisskonar efni frá okkur á sínum Útgefandi: Athygli ehf. Útgáfustjóri: Valþór Hlöðversson. Ritstjóri: Jóhann Ólafur Halldórsson (ábm). Umsjón, textavinnsla og umbrot: Athygli ehf. Auglýsingar: Augljós miðlun. Sími 515-5206. GSM 898-8022, inga@athygli.is Suðurlandsbraut 30, Reykjavík

Ungir kokkanemar læra að elda íslenskan saltfisk.

samfélagsmiðum og alltaf var Bacalao de Islandia „taggað við“, allt frá uppskriftarkeppnum, deilingu sagna og mynda eða auglýsinga á smakkviðburðum. Árangurinn var betri en við hefðum getað náð ein og sér en yfir fjórar milljónir manna sáu efnið og 132.000 brugðust við því á einhvern hátt, smelltu á hlekki, lýstu ánægju eða deildu.“

Sameina íslenskar og katalónskar hefðir „Í Barcelona áttum við í samstarfi við félag útvatnara, Gremi de Bacallaneras, sem er forn starfstétt í Katalóníu, um að vekja athygli á og auka neyslu á saltfiski með því að para saman hágæða saltfiskrétti og bjór frá DAMM á völdum veitingastöðum í Barcelona. Við þetta bætist svo opnunarhátíð, smakkbásar á mörkuðum, kynning í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum og fleira,“ segir Guðný og bendir á að í Barcelona sé íslenskur saltfiskur vel þekktur. „Okkar rannsóknir sýna að um 40% Barcelonabúa nefna Ísland

Prent­un: Landsprent ehf. Dreift með prentaðri útgáfu Morg­un­blaðsins föstudaginn 2. júní 2017.

fyrst sem upprunaland saltfisks og tengja íslenskan uppruna umfram allt við gæði. Með því að tengja okkur við Gremi de Bacallaners erum við að tengja okkur við hefðir og gæði í Barcelona – okkar lykilmarkaði á Spáni.“

Ísland selur Það er ljóst af máli Guðnýjar að umfang verkefnisins var mikið enda hvert og eitt markaðssvæðanna gríðarstórt, hvert með sínar sérþarfir. Hún segir þó töluverð samlegðaráhrif vera af þeim markaðsverkefnum sem Íslandsstofa hefur unnið í á ólíkum sviðum og að vörumerki Íslands sé orðið vel þekkt. „Ísland selur. Til að mynda er ferð til Íslands í vinning eftirsóknarverður og hagkvæmur kostur. Það nýttum við okkur í samstarfinu við La Sirena og á viðburðum eins og Madrid Fusion og saltfiskhátíð í Portúgal.“ islandsstofa.is


Til hamingju sjómenn! Arion banki óskar sjómönnum, fjölskyldum þeirra og okkur öllum, sem njótum góðs af störfum þeirra, gleðilegs sjómannadags.

H V Í TA H Ú S I Ð / S Í A – 1 7 - 1 4 4 7

SÓKNARFÆRI  | 3


4  | SÓKNARFÆRI

U N G T F Ó L K Í S J ÁVA R Ú T V E G I Unnur Inga Kristinsdóttir lýkur námi í sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri

Óhrædd við að taka áskorunum og henda sér í djúpu laugina „Námið hefur opnað mér ótalmargar dyr, ég er óhrædd við að taka áskorunum og henda mér í djúpu laugina. Það er gaman að takast á við krefjandi verkefni og ég legg mig alla fram um að leysa þau vel af hendi,“ segir Unnur Inga Kristinsdóttir sem útskrifast sem sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri nú í júní. Unnur, sem er fædd árið 1989, ólst upp í Hrísey og segir það aldeilis hafa verið frábært að alast upp í litlu sjávarþorpi þar sem börnum lærist fljótt að sætta sig við það sem í boði er hverju sinni og meta fólk eins og það er.

Keppnisandinn réð ríkjum í beitningaskúrnum „Við lærðum að búa til okkar eigin afþreyingu. Fótbolti, sund og leikir af öllu tagi á opnum svæðum voru vinsæl iðja, þá veiddum við marhnúta, krabba og krossfiska. Tengslin við sjávarútveginn myndast strax en svo til allir í minni fjölskyldu hafa unnið við greinina. Ég byrjaði 12 ár gömul að vinna fyrir mér, fyrst í bæjarvinnunni á sumrin en beitti línu eftir skóla og um helgar á veturna og var fljót að ná tökum á beitningunni. Á kannski ekki langt að sækja þann hæfileika, amma Eygló og pabbi minni voru vel liðtæk og beittu línu í mörg ár. Þegar ég var 14 ára var ég farin að beita allt árið um kring og tók þetta þrjá til fimm bala á dag. Á sumrin og um helgar yfir veturinn mætti ég í skúrinn helst ekki seinna en klukkan 4 að nóttu og var eiginlega ekki ánægð nema hafa tekið fimm bala um hádegi. Ég er svo mikil keppnismanneskja, tók aldrei pásur á milli bala nema ef gömlu karlarnir sem litu við í skúrnum í kaffi buðust til að beita á meðan ég brá mér frá. Ég vissi nefnilega að öðruvísi gerðist ekki neitt í balanum,“ segir Unnur. Hún hefur töluverða reynslu af beitningu og línuveiðum, en vann einnig annað slagið í frystihúsinu, hjá Útgerðarfélaginu Hvammi og Íslensku sjávarfangi, en staldraði aldrei lengi við í einu – það vantaði alltaf einhvern í beitninguna og var Unnur send í verkið snarlega. Grunnskólagöngunni lauk vorið 2005, þegar Unnur var 16 ára gömul og flutti hún þá til Akureyrar og hóf nám við Verkmennta-

Unnur fræðir grunnskólabörn um lífríki sjávar. Myndin er tekin um borð í Húna II haustið 2016.

Á sumrin og um helgar yfir veturinn mætti ég í skúrinn helst ekki seinna en klukka 4 að nóttu og var eiginlega ekki ánægð nema hafa tekið fimm bala um hádegi. Ég er svo mikil keppnismanneskja ...“ skólann á Akureyri. Þaðan útskrifaðist hún um jólin árið 2010.

Það verður í nógu að snúast hjá verðandi sjávarútvegsfræðingnum Unni Ingu Kristinsdóttur í sumar, en hún mun starfa við Sjávarútvegsskólann, sem fræðir ungmenni um íslenskan sjávarútveg, auk þess að skoða fyrir sjávarútvegsráðuneytið hvernig strandveiðar hafa komið út undanfarin ár.

Áhugi og ástríða „Þessi vinna í tengslum við sjávarútveginn varð til þess að áhuginn á greininni kviknaði og leiddi mig að þeim stað sem ég nú er á. Ég skal samt alveg viðurkenna að ég átti aldrei von á því að verða sjávarútvegsfræðingur og það sama gildir um fleiri í fjölskyldunni,“ segir Unnur, en áður hafði hún prófað eitt og annað; fjölmiðlafræði, pípu-

lagnir og hárgreiðslu en festist ekki við nám af því tagi. „Mér finnst líklegt að einhverjir í fjölskyldunni hafi hugsað sem svo þegar ég hóf nám í sjávarútvegsfræði sumarið 2014 að þetta væri enn eitt námið sem ekki yrði lokið. Raunin er önnur og ég er fegin að hafa tekið ákvörðun um að fara í þetta nám, hef aldrei notið mín jafnvel í námi og aldrei haft jafnmikinn áhuga og ástríðu fyrir því sem ég er að gera, hvort heldur það tengist skólanum eða vinnu í tengslum við sjávarútveg.“ Unnur segir námið krefjandi og hún ætli sér ekki að halda því fram að það hafi alltaf verið dans á rósum. Með góðu skipulagi og þrjósku hafi hún komið sér yfir erfiðustu hjallana. Alltaf hafi verið gaman í skólanum og henni leið vel, tengslin sem mynduðust bæði við samnemendur og kennara séu ómetanleg. Kennarar hafi ævinlega verið tilbúnir að fara yfir stöðuna og aðstoða á alla lund. „Það eru blendnar tilfinningar að klára núna og kveðja skólafélaga sem róa nú á önnur mið líkt og ég sjálf.“

Lokarannsóknin um sjókælingu á karfa Lokaárið, síðastliðinn vetur, hefur að sögn Unnar einkennst af vinnu við lokaverkefnið, en í fyrrasumar hóf hún rannsóknarvinnu í sam-


SÓKNARFÆRI  | 5

Hafið hefur kennt okkur

Hafið hefur kennt okkur auðmýkt gagnvart náttúruöflunum og ábyrgðartilfinningu gagnvart lífríkinu. Hafið hefur kennt okkur að hagnýta tæknina af virðingu fyrir fiskum og mönnum.

5x38 dagblað

Visirhf.is


6  | SÓKNARFÆRI

U N G T F Ó L K Í S J ÁVA R Ú T V E G I vinnu við Síldarvinnsluna og Matís sem snérist um hvort hægt væri að sjókæla karfa. Rannsóknin fól í sér að Unnur fór alls þrjár veiðiferðir með togaranum Bjarti NK 121, sem þá var í eigu Síldarvinnslunnar. Þar var komið fyrir tilraunabúnaði til að sjókæla karfa, í landi var karfinn tekinn í skynmat, ýmist heill eða flakaður. Þá voru einnig framkvæmdar örveru- og TVB-N mælingar auk mælinga á fríum fitusýrum. „Rannsóknin gekk vel og lífið á sjónum var skemmtilegt og lærdómsríkt, mig hafði lengi langað að prufa að fara á sjó á togara,“ segir Unnur, en í síðasta túrnum var hún háseti og tók þátt í öllum störfum úti á dekki, m.a. að hífa trollið um borð. „Þessi tími verður alltaf ofarlega í huga mér því ég

lærði svo miklu meira þar heldur en hægt er að læra af bókum í skólanum, þarna var ég í beinni snertingu við hlutina, sá hvernig farið er að þessu og það er ómetanlegt.“

Unnur Inga með vaktinni sinni og vélstjórum um borð í Bjarti NK eftir síðustu veiðiferðina í fyrrasumar.

Starfar við Sjávarútvegsskólann í sumar Unnur ætlar að staldra við nú að lokinni útskrift varðandi frekara nám en lætur til sín taka á vinnumarkaði. „Ég er reyndar svo heppin að ég kveð háskólann ekki alveg og mun í sumar starfa sem leiðbeinandi í Sjávarútvegsskólanum, skóla sem snýst um að fræða unglinga um íslenskan sjávarútveg,“ segir hún, en Síldarvinnslan hafði forgöngu um stofnun skólans árið 2013, hann fékk nafnið Sjávarútvegsskóli Austurlands tveimur árum síðar og náði starfsemin þá frá

Höfn í Hornafirði til Vopnafjarðar. Í fyrrasumar undirrituðu sjávarútvegsfyrirtæki á Austurlandi og Háskólinn á Akureyri samning þess efnis að háskólinn hefði umsjón með Sjávarútvegsskólanum. Í fyrrasumar var Unnur verkefnastjóri og flakkaði um alla Austfirði. „Núna í sumar færum við út kvíarnar, ætlum einnig að setja skólann upp á Norðurlandi sem er mjög spennandi,“ segir hún. Samhliða þessu starfi vinnur Unnur einnig að verkefni fyrir sjávarútvegsráðuneytið sem felst í því að taka saman upplýsingar um strandveiðar og hvernig þær hafa komið út á liðnum árum. „Það verður nóg að gera hjá mér á næstu mánuðum og ég hlakka til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér eftir annasamt sumar,“ segir Unnur.

Ungt fólk stofnar áhugafélag um sjávarútveg Sjávarútvegur spannar æ víðara svið í tæknisamfélagi nútímans og teygir anga sína allt frá hefðbundnum fiskveiðum til líftækniþróunar á einstökum efnum úr því sem áður var jafnvel hent. Áhugi ungs fólks á þessum efnum virðist einnig færast í aukana og á dögunum var félagið UFSI stofnað en það er félag ungs áhugafólks um sjávarútveg. „Þetta byrjaði þannig að við vorum þrír bekkjarbræður úr Kvennó sem fórum að ræða um þessi mál en einn okkar hafði þá unnið í sjávarútvegi og þekkti inn á greinina. Við hinir vorum blautir á bak við eyrun en höfðum mikinn áhuga á að kynna okkur þetta frekar,“ segir Tryggvi Másson, einn af stofnendum félagsins. „Okkur fannst erfitt að nálgast upplýsingar og hvað þá óhlutdrægar. Eins og við þekkjum er mikið um skoðanaskipti og ólíkar skoðanir á flest öllu sem á sér stað í greininni, hvort sem er á landi eða sjó.“

Tryggvi Másson og félagar í UFSA vilja skapa öflugan umræðuvettvang um sjávarútveg meðal ungs fólks.

Félagsmenn í UFSA stefna á að helga strandveiðum fyrsta málefnafundi sínum.

Fjölbreyttur hópur stofnenda Síðastliðið haust ákvað Tryggvi, ásamt Ásbirni Daníel Ásbjörnssyni og Bergþóri Bergssyni, að ganga skrefinu lengra og undirbúa stofnun félags ungs áhugafólks um sjávarútveg. Í byrjun árs stofnuðu þeir Facebook hóp til að kanna áhugann fyrir því. „Strax á fyrsta sólarhring gengu yfir 150 manns í hópinn og margir fóru að hafa samband við okkur. Þannig myndaðist sá hópur sem stendur að baki stofnunar félagsins. Í þessum hópi er alls konar fólk sem við þekktum ekki neitt en fjölmargir þekktust líka innbyrðis, hvort sem var úr sjávarútvegsfræðinni í Háskólanum á Akureyri eða höfðu rekist á hvort annað í vinnu. Þetta er ótrúlega breiður bakgrunnur og ólíkur því sem vísitöluhöfuðborgarbarn á að venjast,“ segir Tryggvi og bendir á að angar sjávarútvegsins nái inn í ótrúlegustu starfsgreinar; fjármálastarfsemi, iðnaðarfyrirtæki og rannsóknarstofnanir til að nefna nokkrar.

Skapa ópólitískan umræðugrundvöll Markmið stofnunar UFSA er fyrst og fremst að skapa umræðugrundvöll fyrir sjávarútvegsmál og mál tengd sjávarútvegi, bæði fyrir fólk sem er starfandi í þeim greinum og líka það sem er bara áhugasamt um málaflokkinn. „Við höfum áhuga á að kynna það starf sem á sér stað og efna til umræðu um mismunandi nálganir og skoðanir, til dæmis með málfundum og heimsóknum. Við stefnum á að halda okkar fyrsta málfund nú í byrjun sumars þar sem við tökum fyrir eitthvað heitt málefni, að öllum líkindum strandveiðar, þar sem við fáum að heyra ólík sjónarmið á þeim veiðum,“ segir Tryggvi og tekur fram að það sé þó ekki markmið félagsins að taka afstöðu til ákveðinna mála heldur að vera óhlutdrægur vettvangur umræðu. „Félagsmenn UFSA hafa vitaskuld ólíkar skoðanir og geta tjáð sig um þær, en félagið sem slíkt mun ekki hampa einum málstað frekar en öðrum. Frekar gera fólki kleift að mynda sína eigin skoðun.“


SÓKNARFÆRI  | 7

ÞORLÁKSHÖFN - framtíðarstaðsetning fyrir þitt fyrirtæki? Þorlákshöfn er á SV-strönd landsins og er hún eina flutnings- og fiskiskipahöfnin á Suðurlandi allt austur að Hornafirði. Frá Þorlákshöfn eru góðar og greiðfærar samgöngur á landi til allra átta, aðeins 40 km til Reykjavíkur og ekki nema 85 km í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eftir Suðurstrandarveginum.

Í Þorlákshöfn er mikið úrval lóða ætlaðar fyrirtækjum af ýmsum stærðum og gerðum. Fyrir liggur skipulag á stóru iðnaðar- og þjónustusvæði við höfnina og á upplandi hafnarinnar. Landrými er mikið og aðstæður allar góðar til uppbyggingar. Staðsetningin er mjög heppileg út frá helstu skilyrðum sem fjárfestar setja t.d. um staðarval fyrir iðnað og framleiðslu en er ekki síður kjörin vegna annarrar starfsemi. Vikulegar ferjusiglingar með Smyril Line Cargo milli Þorlákshafnar og Rotterdam munu hefjast í apríl 2017. Með þessari siglingarleið verður flutningstíminn sá stysti sem er í boði á sjóflutningum til og frá landinu.

Ef þetta eru kostir sem henta þínu fyrirtæki og/eða áhugi er á að skoða málið betur þá tökum við vel á móti þér.

olfus@olfus.is

Hafnarbergi 1 815 Þorlákshöfn 480 3800


8  | SÓKNARFÆRI

Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish við starfsstöð félagsins í Dýrafirði en þar fer sjókvíaeldið fram.

Arctic Fish áformar að skipta úr eldi á regnbogasilungi yfir í lax

Auknar fjárfestingar framundan og fjölgun starfa fáist til þess leyfi „Frekari leyfisveitingar eru forsenda þess að fyrirtækið nái ákveðinni stærðarhagkvæmni og verði samkeppnishæft á afurðamörkuðum,“ segir Sigurður Pétursson framkvæmdastjóri og einn eigenda fiskeldisfyrirtækisins Arctic Fish. Félagið er 6 ára gamalt, var stofnað árið 2011 og þá með einum starfsmanni, framkvæmdastjóranum, en hefur heldur betur vaxið fiskur um hrygg á þeim tíma sem liðinn er. Starfsemin fer nú fram víða á Vestfjörðum; á Ísafirði, Dýrafirði, Flateyri og Tálknafirði og starfsmenn eru um 40 talsins auk þess sem 10 til 30 starfsmenn vinna við uppbyggingu á nýrri seiðaeldisstöð félagsins. Arctic Fish er nú með starfsleyfi fyrir regnbogasilung en áformar að skipta yfir í lax.

við stofnun félagsins,“ segir Sigurður, en stofnendur höfðu allir reynslu af framleiðslu og sölu eldisafurða. Þar má nefna félaga hans, Guðmund Stefánsson sem stýrir dreifingarfyrirtækinu Novo Food í Frakklandi. Stærsti stofneigandinn er Jerzy Malek og samstarfsmenn hann, en þeir hafa byggt upp í Póllandi stærstu vinnslu á laxaafurðum þar í landi og taka einnig þátt í eldisstarfsemi utan lands.

Ný kví sett út fyrir utan flugvöllinn í Patreksfirði.

„Okkar markmið, allt frá því félagið var stofnað fyrir 6 árum, var að byggja upp frá grunni eldis- og framleiðslufyrirtæki þannig að eld-

ið færi fram í náttúrulegu íslensku umhverfi. Hér á Íslandi höfum við aðgang að heitu og köldu tæru vatni, grænni orku, lágri tíðni fisk-

sjúkdóma auk hreinnar náttúru, sem gefur okkur möguleika á sérstöðu þegar kemur að uppruna eldis. Þetta var grundvöllur okkar

Mikilvægt að læra inn á ferlið og aðstæðurnar Þegar einungis fáir mánuðir voru liðnir frá stofnun félagsins festi það kaup á sjókvíaeldisfyrirtækinu Dýrfiski, sem þá hafði hafið starfsemi í silungaeldi í kvíum í Dýrafirði. Tveir starfsmenn voru á þeim tíma að störfum við sjókvíaeldið og starfsmenn hjá Arctic Fish í heild því orðnir þrír. Félagið hefur vaxið hröðum skrefum á þessum 6 árum sem liðin eru frá því fyrstu skrefin voru tekin. Á þeim tíma sem Arc-


SÓKNARFÆRI  | 9

Alhliða þjónusta í sjávarútvegi Brandenburg | sía

Við höfum allt frá upphafi haft það að markmiði að sinna orkuþörf einstaklinga og fyrirtækja hratt og örugglega í sátt við umhverfið. Skipaþjónusta Skeljungs veitir alhliða þjónustu í sjávarútvegi, útgerð og vinnslu til viðskiptavina félagsins. Við leggjum ríka áherslu á fyrirtaks þjónustu við þessa mikilvægu atvinnugrein og munum halda því áfram um ókomin ár. Skeljungur — fyrir þá sem ferðast og framkvæma

Skeljungur hf. | Borgartún 26 | 105 Reykjavík | 444 3000 | skeljungur@skeljungur.is | skeljungur.is


10  | SÓKNARFÆRI

tic Fish keypti Dýrfisk var fiskurinn kominn í sláturstærð, magnið var ekki mikið en engu að síður vantaði hús til að vinna hann og segir Sigurður að því hafi verið ráðist í kaup á vinnslu á Flateyri, Arctic Odda, sem áður hafði verið í bolfiskvinnslu. „Við gerðum okkur ljóst frá upphafi að grunnurinn að uppbyggingu félagins lægi í því að byggja upp góða seiðaeldisstöð svo hægt væri að efla eldið enn frekar. Þegar félagið var ársgamalt keyptum við gamla seiðaeldisstöð í botni Tálknafjarðar, Norður-Botn, en þar er gott jarðnæði til uppbyggingar og við höfum aðgang bæði að heitu og köldu vatni auk þess sem nálægðin við sjóinn er kostur, m.a. þegar sjógönguseiði eru sett út. Við héldum áfram uppbyggingu í Tálknafirði og byggðum þar nýja seiðaeldisstöð til viðbótar þeirri sem fyrir var,“ segir Sigurður. Félagið hóf starfsemi sína í kringum silungaeldi, tekið var eitt skref í einu og byggt upp. Sigurður segir að mönnum hafi verið í mun að læra inn á ferlið og þær aðstæður sem búið var við, en þær eru um margt sérstakar, þó svo að einhverju leyti svipi þeim til þess sem gerist í norðanverðum Noregi.

Vinnslutími vegna leyfisveitinga allt upp í 5 ár „Þegar við hófum okkar starfsemi voru við með 200 tonna eldisleyfi sem síðar var aukið upp í 2.000 tonn. Það tekur gríðarlega langan tíma að vinna leyfisumsóknir, mikil undirbúningsvinna að baki áður en leyfi eru gefin út. Eldisleyfi hafa

mikið verið í umræðunni undanfarið og af henni má ráða að verið sé að veita fjöldann allan af leyfum en svo er ekki. Síðast var veitt sjókvíaeldisleyfi fyrir um það bil ári síðan, en það var stækkun í Arnarfirði. Við höfum verið að vinna að stækkun í Dýrafirði og sótt um leyfi til þess, vinnslutíminn á því hefur verið rúm 5 ár,“ segir Sigurður. „Til að greinin nái að byggjast upp til framtíðar og á ábyrgan hátt er mikilvægt að iðnaðurinn, sveitarfélögin og stjórnsýslan eigi sér sameiginleg markmið um uppbygginguna. Stjórnvöld í okkar nágrannalöndum hafa gefið út stefnu í þessum efnum, þ.e. hvernig standa á að uppbyggingu sjókvíaeldis. Eldisstarfsemi félagsins hófst í Dýrafirði og þar er enn helsta starfsstöð félagsins í sjóeldinu. Sjö starfsmenn eru við þann hluta starfseminnar. Vinnsla afurða hefur verið í Ísafjarðarbæ, bæði á Flateyri og Ísafirði en á síðarnefnda staðnum er einnig skrifstofa Arctic Fish þar sem starfsmenn eru fjórir talsins. Við vinnsluna sjálfa starfa að jafnaði 20 starfsmenn. Á Tálknafirði er sem fyrr segir seiðaeldi félagsins með 8 föstum starfsmönnum. Við uppbyggingu á aðstöðu þar hafa um 10 manns starfað og fleiri þegar meira er umleikis, á fjórða tug þegar mest er. „Fyrir þessi smærri þorp, þar sem mest af okkar starfsemi fer fram, hefur uppbygging Arctic Fish haft mikil og sýnileg áhrif. Bein störf í kringum hana eru á sjötta tuginn og ætla má að annað eins af óbeinum störfum í tengsl-

Arctic Fish og dótturfélög þess náðu á liðnu ári að uppfylla hinn eftirsóknarverða umhverfisstaðal ASC, Aquaculture Stewardship Council og var fyrst íslenskra eldisfyrirtækja til að ná þeirri vottun.

um við starfsemina hafi skapast. Það er staðreynd að íbúum á suðurfjörðum Vestfjarða hefur fjölgað eftir að fiskeldi hófst á svæðinu, eftir umtalsverða fækkun árin á undan. Atvinnuleysi er einnig minna en áður var,“ segir Sigurður. Með áframhaldandi uppbyggingu

Gott jarðnæði til uppbyggingar er við seiðaeldisstöðina í Tálknafirði en þar hefur félagið aðgang að bæði að heitu og köldu vatni auk þess sem nálægðin við sjóinn er kostur, m.a. þegar sjógönguseiði eru sett út.

félagsins og enn þróttmeira starfi megi gera ráð fyrir að störfum fjölgi frá því sem nú er. Arctic Fish og dótturfélög þess náðu á liðnu ári að uppfylla hinn eftirsóknarverða umhverfisstaðal, ASC; Aquaculture Stewardship Council og var fyrst íslenskra eldis-

fyrirtækja til að ná þeirri vottun. Sigurður segir að um sé að ræða vottun sem sé hliðstæð MSC staðli, sem er þekktasta umhverfisstaðllinn fyrir sjávarafurðir. Samtökin að baki ASC staðlinum eru óháð og ekki rekin í hagnaðarskyni. „Við erum nú komin með

Tímamóta minnst á Hátíð hafsins í Reykjavíkurhöfn Hátíð hafsins verður haldin við höfnina í Reykjavík dagana 10.11. júní næstkomandi. Að hátíðinni standa Faxaflóahafnir og Sjómannadagsráð en hátíðin er í raun sameining tveggja viðburða sem eru Hafnardagurinn laugardaginn 10. júní og Sjómannadagurinn sunnudaginn 11. júní. Hátíð hafsins er fjölskylduhátíð þar sem fjallað er um allt sem viðkemur hafinu, menningu tengda sjómennsku, skip, sjómenn, fisk og matarmenningu hafsins í bland við góða skemmtun. Óvenjumikið verður lagt í hátíðina að þessu sinni því nú er þess minnst að 100 ár eru frá því að fyrsta áfanga gömlu hafnarinnar í Reykjavík lauk og 80 ár eru frá stofnun Sjómannadagsráðs. Þótt dagskráin þessa daga verði að mestu með hefðbundnu sniði verða þó gerðar nokkrar breytingar. Þannig hefur Bryggjusprell fyrir krakka verið fært og mun tengjast Sæbjörgu skólaskipi Slysavarnardeildarinnar í Reykjavík sem mun liggja við Bótabryggju fyrir framan hús Sjávarklasans. Seldar verða veitingar um borð í Sæbjörgu og fer allur ágóði af sölunni til tækjakaupa björgunarsveitanna. Sæbjörg er ekki eina skipið sem verður opið almenningi um helgina því varðskipið Óðinn verður einnig opið á laugardeginum en

Á Grandagarði verður hægt að sjá helstu nytjafiska við Ísland auk fjölmargra fisktegunda sem finnast í úthafinu og koma sjaldan fyrir sjónir almennings.

Þyrlubjörgunarsveit æfir björgun úr sjó.

skipið liggur við festar fyrir framan Sjóminjasafnið við Grandagarð.

Fastur liður í dagskrá Sjómannadagsráðs er að veita heiðursmerki Sjómannadagsins.

Saltbarin þrekmenni reyna með sér Í tilefni tímamótanna verður boðið upp á risastóra hátíðaköku fyrir gesti og gangandi á Grandagarði auk þess sem kátum krökkum býðst andlitsmálun og að fara í ratleiki og spreyta sig við línubrú sem Björgunarsveitin Ársæll mun setja upp við Víkina. Á Grandagarði sýnir Hafrannsóknastofnun helstu nytjafiska við Ísland auk fjölmargra fiskteg-

unda sem finnast í úthafinu og koma sjaldan fyrir sjónir almennings. Á sunnudag kl. 15 verður aftur tekinn upp Koddaslagur á plankanum en það er dagskrárliður sem tíðkaðist á sjómannadaginn á árum áður þegar saltbarin þrekmenni reyndu með sér þar til annar féll í sjóinn. Sex garpar munu reyna með sér og fær sigurvegarinn veglegan verðlaunaskjöld sem er reyndar farandgripur. Loks má geta þess að á sunnudeginum mun HB Grandi verða á athafnasvæði sínu með hefðbundna fjölskylduhátíð í tilefni sjómannadagsins eins og fyrirtækið hefur gert í fjölmörg ár. hatidhafsins.is


SÓKNARFÆRI  | 11

staðal sem byggir á rekjanleika, allt frá eggi og fiski og inn á borð hins almenna neytenda, en að baki liggur að uppfylla þarf ströng umhverfisskilyrði. Okkar eldisaðferðir og ósnortin náttúra Íslands gefa fyrirtækinu ákveðið forskot til að uppfylla þessi skilyrði. Enn sem komið er hafa ekki mörg fyrirtæki sem stunda laxfiskaeldi náð þessari vottun.“

Öflugt norskt fiskeldisfélag til liðs við Arctic Fish Síðastliðið haust gerðist norska félagið Norway Royal Salmon, NRS hluthafi í Arctic Fish og segir Sigurður það mikila viðurkenningu fyrir félagið. Fiskeldi sé í eðli sínu mjög fjárbindandi, einkum meðan á uppbyggingu stendur. Það hafi því verið mikilvægt að fá hina norsku kollega inn í félagið. „Við höfðum verið að leita samstarfsfélaga, aðallega hér innanlands þegar þeir hjá NRS höfðu samband við okkur að fyrra bragði síðasta sumar,“ segir hann, en ekki hvað síst er mikilvægt að fá inn í félagið þá reynslu og þekkingu sem Norðmenn búa yfir í þessum iðnaði, einkum í Norður-Noregi. NRS á nú helming hlutafjár í Arctic Fish en þeir lögðu fram aukið hlutafé við innkomu sína. NRS varð til árið 1992 þegar 34 fiskeldisfyrirtæki í Noregi sameinuðust um stofnun sölu- og markaðsfyrirtækis fyrir eldislax sem og fleiri sameiginlega hagsmuni smærri eldisframleiðenda. Félagið hóf laxeldi árið 2006 undir eigin nafni en sér einnig enn um söluog markaðsmál auk stuðnings við aðilarfélög innan NRS. Fyrirtækið var skráð í kauphöll í Osló árið 2010. Félagið er eitt af þeim fiskeldisfyrirtækjum í Noregi sem eru í fararbroddi í greininni, eigin laxeldisframleiðsla þess á síðastliðnu ári fór yfir 35 þúsund tonn og rúmlega tvöfalt það magn fór um dreifingakerfi þess til yfir 50 landa víða um heim. „Það er einkum tvennt sem skiptir sköpum varðandi það að fá NRS sem hluthafa hjá okkur, það tryggir fjármögnun félagsins og við munum njóta góðs af þeirri þekkingu sem félög í fiskeldi á norðlægum slóðum hafa í áranna rás aflað sér. Meginhluti eldis NRS fer fram í Norður-Noregi þar sem aðstæður eru á margan hátt sambærilegar og á Vestfjörðum. Markmið beggja félaga, Arctic Fish og NRS er að byggja upp á Íslandi, í umhverfi sem gerir okkur kleift að vera í sjálfbæru og vistvænu fiskeldi,“ segir Sigurður. Meiri sveiflur á silungamarkaði Sigurður segir að frá upphafi hafi Arctic Fish gengið ágætlega að selja gæðavöru, eldisafurðir af Vestfjörðum, „en vissulega skiptast í þessum iðnaði, eins og annars staðar, á skin og skúrir.“ Helsta áfallið var þegar markaðir lokuðust í Rússlandi, þó svo að félagið hefði ekki verið að selja beint inn á þann markað hafði lokunin áhrif víða enda um að ræða stærsta markaðinn fyrir silung í heiminum. „Það varð á skömmum tíma mikið verðhrun á silungi og hafði að auki tímabundin áhrif á verð á laxi. Á þeim vettvangi náðist að rétta fljótt úr kútnum, sá markaður hefur undanfarin ár verið mjög sterkur,“ segir Sigurður. Nokkur munur sé á markaði fyrir lax og silung, sveiflur eru meiri á markaði fyrir silung og er það ein megin ástæða þess að félagið leggur nú áherslu á að byggja upp laxeldi.

Seiðaeldisstöð Arctic Fish er við Tálknafjörð og þar hefur á liðnum misserum verið unnið að endurbótum og stækkun.

Stefna á frekari uppbyggingu fyrir vestan Arctic Fish er að sækja um 8 þúsund tonna laxeldisleyfi í Ísafjarðardjúpi. Það er nú með 4 þúsund tonna starfsleyfi fyrir regnbogasilung en áformar að skipta yfir í lax. Á næstu árum er einnig fyrirhugað að setja út seiði í Patreksfirði og Tálknafirði og eru leyfisveitingar þar um á lokavinnslustigi. Með því færir félagið út kvíarnar, en sjókvíaeldið fer nú einugins fram í Dýrafirði. Byggð hefur verið upp endurnýtingastöð fyrir seiðaeldi félagsins í Tálknafirði og segir Sigurður að ef leyfismálin varðandi Ísafjarðardjúp klárist á næstu misserum ætti afkastageta í seiðaeldinu að aukast þannig að mögulegt væri að

hefja eldi í Ísafjarðardjúpi jafnvel á næsta ári. „Frekari leyfisveitingar eru forsenda fyrir því að fyrirtækið nái ákveðinni stærðarhagkvæmni og verði samkeppnishæft á afurðamörkuðum. Við erum nú þegar með talsverða starfsemi á Vestfjörðum en höfum hug á að auka þar vel við, stefnum að því að fjölga störfum og fara út í meiri fjárfestingar að því gefnu að leyfisumsóknir félagsins fái jákvæða afgreiðslu,“ segir Sigurður. arcticfish.is

HÁGÆÐA

HRÁEFNI ÞARFNAST HÁGÆÐA VINNSLU

Til hamingju með sjómannadaginn! Við þökkum samstarf liðinna ára og sendum landsmönnum öllum heillaóskir í tilefni dagsins. marel.is

Marel á Íslandi þakkar samstarf liðinna ára og sendir Dalvíkingum og landsmönnum öllum heillaóskir í tilefni Fiskidagsins mikla. marel.is


12  | SÓKNARFÆRI

Íslenskt framleiðsla í 68 ár

Íslensk framleiðsla í yfir 70 ár

RB dýnurnar eru íslensk framleiðsla. RB springdýnurnar eru íslensk framleiðsla. Framleiddar í öllum stærðum. Gæðadýnur fyrirfyrir íslenska sjómenn. Gæðadýnur íslenska sjómenn. Seljum einnig:

Seljum einnig svamp-,  heilsukodda  yfirdýnur  gelheilsukodda  gelyfirdýnur latexog þrýstijöfnundýnur.  þrýstijöfnunaryfirdýnur  þrýstijöfnunarkodda  eggjabakkadýnur

 dúnkodda  fíberkodda

Fást í öllum stærðum. Fást í öllum stærðum. Myndir á heimasíðunni: www.rbrum.is

Opið virka daga 09:00 til 18:00 / laugardaga 10:00 til 14:00


Saga vélstjórastéttarinnar á Íslandi Fáar stéttir hafa komið að eins mörgum greinum atvinnulífsins í gegnum áratugina og vélstjórastéttin, hvort sem er til lands eða sjós. Í síðasta mánuði kom út Saga vélstjórastéttarinnar á Íslandi sem rituð er af Sigurgeiri Guðjónssyni sagnfræðingi. Bókin er ríkulega myndskreytt og ber glögglega með sér þau miklu tengsl og áhrif sem vélstjórar hafa haft á tæknibreytingar sem orðið hafa á 20. öldinni og þeir halda áfram að gera það. Dæmi um það er sjálf útgáfa bókarinnar sem var prentuð í fáum eintökum, aðallega fyrir bókasöfn og til gjafa. Bókin sjálf er sett upp sem rafbók og verður aðgengileg öllum sem hafa áhuga á að lesa hana í tölvutæku formi á netinu meðal annars í gegnum heimasíðu Vélstjóra og málmtæknimanna, vm.is Sigurgeir segir að vinna við bókina hafi tekið nokkurn tíma en hún hófst 2014. Hann segir að menn hafi viljað vanda vel til verka enda hafi verið úr miklu efni að moða. Meðal annars var stuðst við fundargerðarbækur Vélstjórafélags Íslands, Mótorvélstjórafélags Íslands og landshlutafélaga og segist hann hafa notið þess að hafa gott samstarfsfólk og öfluga ritnefnd. Aðspurður hvað standi upp úr í þessari sögu nefnir Sigurgeir þrjá meginþætti; atvinnulíf, skólamál og harða verkalýðspólitík. Hann segir áberandi hvað mikil deigla var í kringum vélstjórana allan þennan tíma og hve víða þeir komu við. „Í atvinnubyltingu 20. aldarinnar voru vélstjórar alltaf nálægir þegar tækniframfarir og atvinnuuppbygging í atvinnulífinu var annars vegar. Þessi saga tengist líka harðri verkalýðspólitík og skólamálum því það var mikil þróun í kennslu, ekki síst með tilkomu Sjómannaskólans í lok síðari heimsstyrjaldarinnar.“ Sigurgeir segir að við ritun sögunnar hafi verið lögð aðaláhersla á að kynna stéttina á aðgengilegan hátt með því að gefa fólki tækifæri til að glugga í hana á netinu, ýmist með því að grípa niður í hana á stöku stað eða lesa hana í heild. vm.is

SÓKNARFÆRI  | 13

Forsíðu bókarinnar prýðir mynd úr Gömlu rafstöðinni við Kirkjuveg í Vestamannaeyjum. Myndin var tekin á fimmta áratug síðustu aldar og er í eigu Ljósmyndasafns Vestmannaeyja.

Saga vélstjórastéttarinnar á Íslandi er ríkulega myndskreytt. Þar á meðal er þessi mynd sem tekin var í Reykjavík frostaveturinn mikla 1917-1918 þar sem danski fáninn er málaður á skip vegna styrjaldarátakanna sem þá voru í gangi. Ljósmyndari var Magnús Ólafsson og er myndin varðveitt í Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

FISKTÆKNI ER HAGNÝTT NÁM SEM TEKUR EINUNGIS TVÖ ÁR

VEIÐAR VINNSLA FISKELDI

www.fiskt.is Starfstengt nám á framhaldsskólastigi

Spennandi starfsnám fyrir ungt fólk á aldrinum 16 - 25 ára Grunnnám í fisktækni er hagnýtt tveggja ára nám með fjölbreytta starfsmöguleika. Að námi loknu er einnig opin leið til frekara framhaldsnáms og/eða háskólanáms. Fisktækninámið skiptist í þrjár línur eftir áhugasviði nemenda: veiðar, vinnslu og fiskeldi. Náminu er skipt upp í annir og er önnur hver önn bókleg, en hinar kenndar á völdum vinnustöðum í samræmi við áherslur námsins. Á meðan á námstímanum stendur er mikið um heimsóknir í stofnarnir og fyrirtæki tengdum sjávarútvegi. Farið verður í tvær námsferðir erlendis í samstarfi við samstarfsskóla okkar í Danmörku og Portúgal. Kynnið ykkur námið á Facebook og á heimasíðunni www.fiskt.is Innritun fer fram á Menntagátt á www.menntagatt.is Skólaakstur af Suðurnesjum. Þeir nemendur sem þess óska geta einnig verið skráðir í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en taka þá faggreinar námsins og verklega þjálfun samhliða í Fisktækniskóla Íslands.

www.fiskt.is

//

info@fiskt.is

//

412 5966


14  | SÓKNARFÆRI

Vigfús Ásbjörnsson, smábátasjómaður á Höfn í Hornafirði. Hann notaði hann síðustu daga aprílmánaðar til að gera bát sinn, Ásbjörn SF 123, kláran fyrir veiðitímabilið.

Á strandveiðimiðunum.

Strandveiðikerfið verður að efla segir Vigfús Ásbjörnsson, stranveiðimaður á Höfn í Hornafirði „Ég gæti valið mér að starfa á skrifstofu þar sem ég er menntaður ferlahagfræðingur en finnst sjómennskan einfaldlega miklu skemmtilegri. Hún togar alltaf í,“ segir Vigfús Ásbjörnsson, smábátasjómaður á Höfn í Hornafirði og formaður Hrolllaugs, félags smábátasjómanna Hornafirði. Vigfús er strandveiðimaður og hóf veiðar þetta sumarið þann 2. maí eins og heimilt var. Hann segir maímánuð hafa verið nokkuð erfiðan tíðarfarslega en fiskiríið er hins vegar ekki vandamálið. Skammtur dagsins næst, ef á annað borð gefur á sjó! „Ég fer út klukkan þrjú á nóttunni og oft er ég kominn heim til mín og upp í rúm klukkan tíu á morgnana, búinn að landa og ganga frá. Það er gott fiskirí hér á svæðinu og góður fiskur en brælurnar hafa gert okkur erfiðara fyrir nú í maí en oft áður. Kosturinn er hins vegar sá að ef viðmiðunaraflinn á D-svæðinu næst ekki í mánuðinum þá getum við flutt hann til næsta mánaðar þannig að við höfum þá bara úr meiru að spila í júní,“ segir Vigfús.

Eignaðist fyrsta bátinn í fyrra „Ég hef verið í sjómennsku frá 16 ára aldri en í fyrra keypti ég mér eigin bát og byrjaði að gera hann út á strandveiðar. Smábátaútgerð hér á Höfn var nánast horfin þegar strandveiðarnar komu til sögunnar og þær hafa algjörlega hleypt nýju lífi í höfnina. Núna eru hátt í 20

í greininni. Hljóðið er mjög þungt í strandveiðimönnum almennt, vegna fiskverðsins og þess hversu lítið við fáum að veiða en flestir ætla að róa, enda kostar alltaf sitt að eiga bátana og mikilvægt að ná inn á þá þeim tekjum sem mögulegt er,“ segir Vigfús.

„Auðvitað væri allra best að mínu mati að krókaveiðar yrðu alfarið gefnar frjálsar, íslensk fiskveiðiþjóð á það skilið að hafa þau tækifæri fyrir þegna sína. Ég hef enga trú á að smábátaflotinn gæti ógnað viðgangi fiskistofna við Ísland þó krókaveiðar yrðu frjálsar. Það er ofmat,“ segir Vigfús.

smábátar á strandveiðum, þó að kerfið sé ekki öflugra en það er. Að okkar mati er alltof lágu hlutfalli aflamarks úthlutað til strandveiða og því er lítið út úr þessu að hafa. Flestir þeir sem stunda strandveiðar hér á staðnum eru kvótalausir og eru í störfum á öðrum tímum ársins. Hér höfum við litla möguleika á grásleppuveiðum þó einstaka bátar hafi farið eitthvað lengra austur til að fara á þær veiðar,“ segir Vigfús.

Náum ekki lágmarkslaunum Afli strandveiðibátanna á Höfn fer alfarið á fiskmarkað og segir Vigfús að alla jafna sé fiskurinn af heimamiðunum vænn og fyrir hann fáist ágætt verð. „Fiskverðið hefur verið mjög lágt að undanförnu og eins og við óttuðumst þá er fiskverðið um 30% lægra nú en í fyrra. Miðað við útkomuna í fyrra er erfitt að mæta því en engu að síður erum við allir að róa, strandveiðimennirnir hér á Höfn. Við verðum að ná þessum

tekjum inn á bátana þó svo að þetta sé slök afkoma. Þrátt fyrir að maður sé að borga sjálfum sér lágmarkslaun og innan við það þá ber útgerðin það ekki, þó svo að hámarksafli náist á hverjum degi og róið sé mjög stíft. Við verðum að sjá betri afkomu í þessu, bæði til að menn geti haldið launum, viðhaldið bátunum og annað sem til þarf. Stærsta skýringin á þessari stöðu sem uppi er núna er gengisþróunin að undanförnu og hún snertir okkur strandveiðimennina eins og aðra

Skorar á þingmenn að efla strandveiðikerfið Höfn tilheyrir D-svæði strandveiðikerfisins en mikil viðbrögð urðu við þeirri ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, þegar hann skerti í fyrra hámarksafla á svæðinu um 200 tonn. Smábátasjómenn í Hrollaugi á Höfn brugðust mjög hart við þessari ákvörðun og gáfu ráðherranum rauða spjaldið fyrir. Vigfús segist því fagna þeirri ákvörðun Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, núverandi sjávarútvegsráðherra, að auka heildaraflann á D-svæðinu á nýjan leik um 200 tonn. „Já, auðvitað erum við ánægðir með þessa leiðréttingu á ákvörðun ráðherra á síðasta ári en engu að síður eru heimildirnar í strandveiðinni alltof litlar. Í heild er verið að bæta við 200 tonnum milli ára en strandveiðarnar eiga að okkar mati miklu meira inni í aukningu miðað við aukningu heildarafla síðustu ár. Þar munar þúsundum tonna ef litið er aftur til ársins 2011 þannig að strandveiðin hefur því miður ekki fengið réttláta meðferð hjá stjórnvöldum. Nú í vor komu fram tvö frumvörp á Alþingi, bæði frá VG og Pírötum, þar sem lagðar eru til breyt-


SÓKNARFÆRI  | 15


16  | SÓKNARFÆRI

ingar til eflingar á strandveiðikerfinu. Við Hrollaugsmenn styðjum þær heilshugar og ég skora á þingmenn að samþykkja annað hvort þessara frumvarpa. Þau eru skref í átt að aukinni sanngirni og ég vona að stjórnmálamenn sjái að sér og grípi í taumana því út um allt land má sjá hversu jákvæð áhrif strandveiðin hefur haft í byggðarlögun-

um. Þetta kerfi hefur sýnt sig vera mjög áhrifamikið skref í byggðafestu út um landið en ég vil bæði sjá aukningu heildarafla og að þessi „ólympíski“ veiðihvati hverfi úr kerfinu. Kapphlaup í veiðum á smábátum er mjög óæskilegt og gerir að verkum að menn róa stíft þó veður sé vont. Bræla er óþekkt hugtak á strandveiðum vegna þess

Vigfús segir mikið líf hafa færst í smábátaútgerðina á Höfn með tilkomu strandveiðikerfisins. Hér er hópur félaga í Hrollaugi, félagi smábátasjómanna á Höfn en þeir létu hraustlega til sín heyra fyrir ári þegar þáverandi sjávarútvegsráðherra minnkaði heildarafla á suðursvæði strandveiðanna, D-svæðinu, um 200 tonn. Núverandi sjávarútvegsráðherra hefur aukið heildarafla svæðisins um sömu tonnatölu á ný fyrir komandi strandveiðitímabil.

hvernig fyrirkomulagið í kerfinu er og það má ekki ógna öryggi manna með þessum hætti. Í fyrrasumar var veðrið okkur mjög hagstætt hér á Höfn en það er alls ekki sjálfgefið og við þekkjum vel hvaða aðstæður geta verið hér í innsiglingunni. Þó við hér á Höfn og á D-svæðinu fögnum því að leiðrétting fáist á gjörningi sjávarútvegsráðherra í fyrra þá er okkar aðal keppikefli að berjast fyrir betra veiðikerfi fyrir alla strandveiðisjómenn, hvar svo sem þeir eru á landinu.“

Krókaveiðar ættu að vera frjálsar Vigfús segir stærsta baráttumálið að fá aukna úthlutun heildarafla til strandveiða en hann fer ekki í grafgötur með þá skoðun að óþarft sé að takmarka jafn mikið veiðar smábáta og nú er gert. „Auðvitað væri allra best að mínu mati að krókaveiðar yrðu alfarið gefnar frjálsar, íslensk fiskveiðiþjóð á það skilið að hafa þau tækifæri fyrir þegna sína. Ég hef enga trú á að smábátaflotinn gæti ógnað viðgangi fiskistofna við Ísland þó krókaveiðar yrðu frjálsar. Það er ofmat,“ segir Vigfús og nefnir mikilvægi strandveiðanna hvað varðar nýliðun í smábátaútgerð. Sjálfur er hann gott dæmi um mann sem fjárfestir í sínum fyrsta bát til að hefja útgerð í strandveiði. „Stjórnmálamenn nota gjarnan strandveiðina sem dæmi um leið fyrir þá sem vilja koma undir sig fótunum í útgerð. Á sama tíma er svo naumt skammtað til kerfisins að menn geta ekki einu sinni greitt sér lágmarkslaun í þessari útgerð. Við, sem erum að basla í þessu, erum meira af hugsjón en skynsemi í þessu og verðum að treysta á önnur störf til að hafa framfærslu á ársgrundvelli. Hér á Höfn sést vel að strandveiðin hefur laðað yngri menn inn í smábátaútgerð en til að þessi hópur geti byggt sig upp í greininni til framtíðar þarf að styrkja rekstrargrunninn verulega, fyrst og fremst með auknum heildarafla. Þá yrði útgerðin samfelldari yfir sumarið og veiðitímabilið jafnvel lengra. Óbreytt kerfi er með öðrum orðum ávísun á ákveðna gildru sem menn sitja fastir í,“ segir Vigfús.

Þeir geta verið fallegir dagarnir á strandveiðunum.

Hágæða vörur fyrir sjávarútveginn og iðnaðinn í yfir 30 ár

HNÍFALOKAR · RENNILOKAR · SPJALDLOKAR · KEILULOKAR SÍÐULOKAR · BOTNLOKAR · EINSTEFNULOKAR · KÚLULOKAR · SÍUR ..................................................

Metnaður og þjónusta í þína þágu KVIKA

MIÐHRAUNI 15 · 210 GARÐABÆ · SÍMI 561 2666 · FAX 562 6744 · vorukaup@vorukaup.is · www.vorukaup.is


SÓKNARFÆRI  | 17

WORLD SEAFOOD CONGRESS 2017 Vöxtur í bláa lífhagkerfinu Hagnýt nálgun og vandaðar rannsóknir til markaðsnýsköpunar, öruggs framboðs sjávarfangs og heilinda í framleiðslu matvæla. Matís ásamt þekktum alþjóðlegum samstarfsaðilum skipuleggur ráðstefnuna sem haldin verður í Hörpu 10.-13. september 2017, nú í fyrsta skipti á Norðurlöndum. Markmið ráðstefnunnar er að tengja saman íslenska og alþjóðlega nýsköpun ásamt heilindum í framleiðslu sjávarafurða við alþjóðastofnanir og alþjóðleg sjávarútvegsfyrirtæki. Meginviðfangsefni ráðstefnunnar er mikilvægi fjárfestinga og aukin þekking í samhengi við tæknilegar umbyltingar í virðiskeðju sjávarfangs. Meðal fyrirlesara eru: -

John Bell, Bioeconomy Directorate EC DG Ray Hilborn, University of Washington Tanja Hoel, NCE Seafood Innovation Cluster Lynette Kusca, Natural Machines David M. Malone, United Nations University Árni Mathiesen, FAO Marie C. Monfort, Marketing Seafood & Sea-Matters wsc2017.com

Fisheries Training Programme


18  | SÓKNARFÆRI

Fullkomnasti frystitogari fiskiskipaflotans Þann 19. maí síðastliðinn lagðist nýr frystitogari Ramma hf. í Fjallabyggð, Sólberg ÓF 1, að bryggju á Siglufirði eftir hálfs mánaðar siglingu frá Tyrklandi. Formleg móttökuathöfn var daginn eftir á Siglufirði í blíðskaparveðri þar sem fjöldi fólks úr Fjallabyggð og víða af landinu fagnaði þessum fullkomnasta togara landsmanna. Skipið kostar um fimm milljarða króna og leysir af hólmi frystitogarana Sigurbjörgu ÓF 1 og Mánaberg ÓF 42. Síðarnefnda skipið var raunar selt til Rússlands síðla vetrar en Sigurbjörg ÓF fer í formlegt söluferli nú þegar nýja Sólbergið fer í rekstur. Skipið heldur í reynslutúr á miðin á morgun og reiknað er með að eftir sjómannadag fari skipið í sína fyrstu veiðiferð. Sólberg er fjórða skipið sem ber einkennisstafina ÓF 1. Það fyrsta var Einar Þveræingur sem smíðað var á Akureyri fyrir Magnús Gamalíelsson útgerðarmann í Ólafsfirði árið 1946. Réttum tuttugu árum síðar var fjölveiðiskipið Sigurbjörg ÓF 1 smíðuð hjá Slippstöðinni á Akureyri fyrir Magnús og sama útgerð fékk síðan áðurnefndan frystitogara, Sigurbjörgu, afhenta frá Slippstöðinni á Akureyri árið 1979. Og það skemmtilega er að skipið var afhent fyrir 38 árum á sama mánaðardegi og nýja Sólbergið lagðist að bryggju nú, þann 19. maí.

Mikill búnaður og tækni Hvert sem litið er um borð í Sólberginu, hvort heldur er á stærð skipsins, tæknibúnað eða aðbúnað áhafnar er um að ræða mikla breytingu frá því sem þekkt er í íslenskum togurum. Sólbergið er flakafrystitogari og einnig búinn vatnsskurðarvél og lausfrysti sem þýðir að hægt er að framleiða lausfrysta bita um borð jafnframt flakafrystingunni. Vatnsskurðarvélin er frá

Ólafur H. Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma hf.

Þórður Þórðarson, yfirvélstjóri á Sólbergi, við hlið aðalvélarinnar sem er Wartsila og skilar 4.640 kW afli.

Álfhildur Stefánsdóttir gaf skipinu formlega nafnið Sólberg ÓF 1.

Völku ehf. en slík hefur ekki áður verið sett í togara í heiminum svo vitað sé. Í skipinu er einnig ný próteinverksmiðja frá Héðni hf. sem vinnur mjöl og lýsi úr hausum, beinum og slógi. Allur afli er því nýttur um borð og í vinnsluferlunum er mikil sjálfvirkni.

Af öðrum búnaði um borð má nefna hausara og flökunarvélar frá Vélfagi ehf. í Ólafsfirði, fiskvinnslutæki eru frá Optimar, rafmagnsvindur frá Rapp og aðalvél frá Wartsila. Aflanemakerfi er frá Scanmar, siglingatæki frá Furuno, Simrad, Sailor og fleiri framleið-


SÓKNARFÆRI  | 19

Við kappkostum að veita viðskiptavinum okkar góða varahlutaþjónustu!

Við óskum Ramma hf. til

hamingju með Sólberg ÓF 1 Starfsfólk Vélfags Hágæða tölvustýrðar fiskvinnsluvélar frá Vélfagi tryggja aukna nýtingu, meiri flakagæði og bæta þannig umgengnina við auðlindina og umhverfið. Rafpóleraðar fiskvinnsluvélar Vélfags hrinda frá sér óhreinindum. Aukið hreinlæti dregur úr örverumyndun, tryggir hráefnisgæði og lengir hillulíf afurða. Rafpólering tryggir betri endingu og þol gegn tæringu. Lægri viðhaldskostnaður. Bolfiskflökunar- og roðdráttarvél

Tölvustýrð bolfiskflökunar- og roðdráttarvél

Afburða ending

Auðveld þrif

Einfalt aðgengi

Tölvustýrður bolfiskhausari

www.velfag.com

Vélfag ehf. // Múlavegur 18 / 625 Ólafsfjörður //// Njarðarnes 2 / 603 Akureyri //// 466 2635 // sales@velfag.is


20  | SÓKNARFÆRI

Stjórnrými vélstjóra.

endum. Skipið er hönnun frá norska fyrirtækinu Skipsteknisk AS og var smíðað hjá Tersian skipasmíðastöðinni í Tyrklandi.

Mikil reynsla í sjófrystingunni Rammi hf. hefur mikla reynslu í rekstri frystitogara hér á landi og hefur á síðustu áratugum byggt upp traustan markað fyrir sjófrystar afurðir sínar í Bretlandi, sér í lagi sölu til svokallaðra „fish&chips“ veitingastaða. Ólafur H. Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma hf., segir að með tilkomu þessa nýja og glæsilega skips haldi fyrirtækið áfram á sömu braut í þjónustu við þennan mikilvæga markað en með nýrri vinnslutækni um borð, þ.e. bitavinnslunni opnist einnig nýir möguleikar í markaðssetningu afurða. „Við munum fara með þessar vörur á nýja markaði, bæði í Evrópu og Ameríku,“ segir hann.

Sólbergið hefur úr þeim veiðiheimildum að spila sem áður voru á togurunum Sigurbjörgu og Mánabergi og gerir Ólafur ráð fyrir að ársaflinn verði 12-15.000 tonn. Að stærstum hluta segir hann um að ræða þorskafla en auk flaka- og bitavinnslunnar getur skipið einnig heilfrysti afla. Rammi hf. ræður yfir heimildum í Barentshafi og þangað mun Sólbergið sækja, auk heimamiðanna. En hver er stærsti ávinningurinn í þessu mikla skipi fyrir útgerð Ramma? „Það er auðvitað mjög margt sem við fáum með Sólberginu. Í mínum huga eru hvað stærstu atriðin orkusparnaður og nýting á öllum afla með próteinverksmiðjunni um borð. Orkusparnaðurinn er bæði fenginn með nýjustu tækni í vélbúnaði en líka því að við veiðum þennan afla á eitt skip í stað tveggja áður,“ segir Ólafur.

Gleðidagur fyrir forsvarsmenn Ramma hf. þegar nýtt skip kemur til heimahafnar í fyrsta sinn. Frá vinstri: Ólafur H. Marteinsson framkvæmdastjóri, Svavar Magnússon stjórnarmaður, Gunnar Sigvaldason stjórnarformaður og Ragnar Aðalsteinsson útgerðarstjóri.

Vistlegur borðsalurinn. Á skipinu verður 34 manna áhöfn í hverri veiðiferð.

TIL HAMINGJU MEÐ SÓLBERG ÓF 1 Við óskum Ramma hf. til haming ju með Sólberg ÓF 1, fyrsta íslenska skipið útbúið vatnsskurðarvél til að framleiða beinlausar afurðir. Starfsfólk Völku

www.valka.is

Í setustofunni.


SÓKNARFÆRI  | 21

Fjallabyggð óskar útgerð og áhöfn Sólbergs ÓF 1 til hamingju með nýtt og glæsilegt skip


22  | SÓKNARFÆRI

Hamingjudagur fyrir fiskveiðiþjóðina Íslendinga sagði Þorgerður K. Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra

Ólafur H. Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma hf. og Þorgerður K. Gunnarsdóttir í skipstjórastólunum í brúnni á Sólbergi. Eftir að hafa gengið um skipið sagði Þorgerður það vera sannkallaðan ævintýraheim.

„Það er svo sannarlega hátíð í þessum glæsilega bæ sem Siglufjörður er og fyrir rótgróna fiskveiðiþjóð sem við Íslendingar erum þá er þetta sannkallaður hamingjudagur. Megi heill og hamingja fylgja áhöfn skipsins, fjölskyldum skipverja og eigendum skipsins um ókomna tíð. Gangi ykkur allt að sólu,“ sagði Þorgerður K. Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ræðu sinni við móttöku Sólbergs ÓF 1. Hún sagði skipið mikinn ævintýraheim hvað tækni varðar.

Höldum forystuhlutverkinu „Fyrir okkur Íslendinga er mikilvægt að fá svona skip því áfram höldum að vera forystuþjóð á sviði fiskveiða, erum að fjölga tækifærum til að auka framleiðni og verðmætasköpun en ekki síður að ýta undir umhverfisvernd. Þegar ég

stend hér fyllist ég bæði þakklæti og líka stolti yfir útsjónarsemi, framsýni og metnaði sem Rammi hf. hefur sýnt og um leið ræktarsemi. Ég veit að á sínum tíma var farið í gegnum flóknar sameiningar fyrirtækja milli Ólafsfirði og Siglufjarðar, löngu áður en samgöngubætur komu til sögunnar. Þetta gekk eftir m.a. vegna þess að menn stóðu við orð sín. Þannig byggist upp traust, bæði hér í þessu samfélagi og víðar. Fyrir það ber að þakka og um leið ber að geta þess að Rammi hf. keypti á sínum tíma fyrirtæki í Þorlákshöfn sem starfar mjög farsællega,“ sagði Þorgerður og vék síðan máli sínu frekar að nýja togaranum, Sólbergi ÓF.

Vel búið að áhöfninni „Það er mögnuð upplifun að fara um skipið og við Íslendingar verðum að halda áfram á þessari leið og byggja á þeim grunni sem lagður hefur verið á undanförnum árum og áratugum. Við eigum að vera

stolt af því að hafa tekið ákvörðun um sjálfbært fiskveiðistjórnunarkerfi, kerfi sem hefur svo sannarlega ýtt undir hagræðingu, tækniþróun, verðmætasköpun og ekki síst umhverfisvernd. Þetta þurfum við að tryggja áfram og finna jafnframt hið mikilvæga gullna jafnvægi í þeirri viðleitni okkar allra að styðja við samfélagslega sátt. Margt við svona nýtt skip er stórfenglegt en ég vil helst draga fram hversu vel er búið að áhöfninni, sjómönnunum okkar. Starfsaðstæður í Sólberginu eru með því allra besta sem fyrirfinnst og ég finn að áhöfninni líður vel og ekki síður fjölskyldum áhafnarmeðlima,“ sagði Þorgerður K. Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ávarpar gesti á bryggjunni á Siglufirði við móttöku Sólbergs ÓF 1. Myndir: Jóhann Ólafur Halldórsson.


SÓKNARFÆRI  | 23

Óskum útgerð og áhöfn til hamingju með Sólberg ÓF 1

www.scanmar.is

Scanmar ehf. • Grandagarði 1A • Sími: 551 3300 • GSM: 691 4005 • Netfang: tm@scanmar.is


24  | SÓKNARFÆRI

Rúmt er í brúnni á skipinu og allt það nýjasta þar að finna í siglinga-, fiskileitar- og fjarskiptatækni.

Svefnrými eru fyrir 38 manna áhöfn, í eins og tvegja manna klefum.

Sigþór Kjartansson, skipstjóri á Sólbergi ÓF 1

Sólbergið er risastökk inn í framtíðina „Það er góð tilfinning að koma heim með þetta nýja skip og mikil breyting frá gamla skipinu,“ segir Sigþór Kjartansson, annar tveggja skipstjóra á frystitogaranum Sólbergi ÓF 1. Tvær áhafnir verða á skipinu, 34 manns í hvorri en skipstjóri á móti Sigþóri er Trausti Kristinsson. Þeir voru áður með frystitogarann Mánaberg ÓF í eigu sömu útgerðar. Sigþór segir allan aðbúnað áhafnar gjörbreytingu frá því sem var í Mánaberginu. „Það skip var tæplega 68 metrar en Sólbergið er tæplega 80 metrar að lengd og 15,4 metra breitt. Stærðarmunurinn er því verulegur á skipunum og ekki síst finnst munurinn í þessari miklu breidd sem er í Sólberginu. Bæði kemur hún fram í allri aðstöðu innan skips, auk heldur sem skipið verður stöðugra í sjó,“ segir Sigþór.

Allur aflinn nýttur Líkt og fram kemur annars staðar í blaðinu er lýsis- og mjölvinnsla meðal nýjunga í Sólberginu og raunar er aðeins einn frystitogari í íslenska flotanum að keyra slíka vinnslu samhliða flakafrystingunni. Þetta þýðir að allur afli er nýttur til fulls til verðmætasköpunar. „Hér er því verið að horfa á mun meiri nýtingu á aflanum, sem er hið besta mál. Hér erum við með lýsisvinnslu, próteinframleiðslu, getum unnið í flök til frystingar og skorið í bita. Í stuttu máli er skipið alveg gríðarlegt stökk inn í framtíðina. Það er mjög góð tilfinning að taka þátt í því skrefi að fullnýta allan afla um borð, bæði út frá umhverfislegu sjónarmiði og því að gera sem mest verðmæti úr aflanum,“ segir Sigþór.

Skipstjórarnir í brúnni, Sigþór Kjartansson (t.v.) og Trausti Kristinsson.

Erfiðustu störfin hverfa Í Sólberginu eru svefnrými fyrir 38 en gert er ráð fyrir að í hvorri áhöfn verði 34. „Fjölgunin frá því sem við vorum áður með á Mánaberginu felst fyrst og fremst í vinnslunni á millidekkinu. Það verður sama mönnun í vél, á togdekki og í brú en bræðsla, bitaskurður og ýmislegt fleira kallar á fleiri menn í vinnsluna sjálfa,“ segir Sigþór en meðal fjölmargra tæknibreytinga sem fylgja Sólberginu er að allur afli er frágenginn á

brettum á millidekki áður en þau fara í lest. Það þýðir að engin umstöflun er á fiskikössum við löndum, allar afurðir fara á brettunum beint í land. „Stóra byltingin felst í því að hér er búið að koma við sjálfvirkni við frystana, útsláttur úr frystipönnum er sjálfvirkur og menn þurfa ekki lyfta pönnum í fanginu. Það er gríðarlegur munur að losna við þessi erfiðu störf og má segja að hér sé komin nokkurs konar sjálfvirk flæðilína. Þetta hafa verið erfið

Myndir: Jóhann Ólafur Halldórsson.

störf sem er mjög jákvætt að verði nú vélræn.“

Lítið stoppað milli túra Í áhöfnum Sólbergs eru menn sem áður voru um borð í frystitogurunum Sigurbjörgu og Mánabergi. „Við komum til með að skipta algjörlega um áhöfn í hverjum túr og skipið hefur því stutta viðkomu í landi milli túra. Rétt til að landa, taka kost og olíu og skipta um áhöfn. Þetta er nýtt og öflugt skip og þarf enga hvíld milli túra,“ segir

Sigþór og hlær við. Hver veiðiferð tekur upp undir mánuð. „Ég er hæstánægður með allt handbragð hér um borð, fallegar innréttingar, efnisval og litir. Flott í alla staði. Ég reikna með að við förum út í fyrsta túr um eða eftir sjómannadag þegar búið verður að stilla allt og gera klárt. Það er auðvitað spennandi að sjá allt hér um borð fara að virka í raunverulegum aðstæðum.“


SÓKNARFÆRI  | 25

NÝ C-2031

glæSilEg Ný Roðvél fRá CuRio tRyggiR HámaRkS NýtiNgu og aRðSEmi. fallEg áfERð og lítið loS í flökum að viNNSlu lokiNNi.

ýSa

ÞORSKUR ufSi

LAX

kEila

blEikja SiluNguR LANGA STEINBÍTUR

lýSiNguR

ROÐFLETTIVÉL

RoðfléttiNg - tEguNDiR

FYRIR BOLFISK & LAX

RoðflEttivéliN C2031 ER NýjaSta fiSkviNNSluvéliN í fRamlEiðSlu CuRio HöNNuð til viNNSlu á bolfiSki og laxi Roðflettivélin C2031 er nýjasta fiskvinnsluvélin í framleiðslu Curio. Þessi vél er hönnuð til vinnslu á öllum bolfiski og laxi. Vélarnar

samanstanda af tæplega 1000 vélarhlutum sem eru að stærstum hluta smíðaðir úr ryðfríu stáli en aðrir hlutar hennar

eru úr tæringarþolnu plasti. Meginmarkmiðið með hönnun roðflettivélarinnar var að ná því takmarki að fjarlægja roðið af

C-2031 Roðfléttivél C-2015 - Brýni

C-3027 - Hausari

Fiskvinnslutækin frá Curio eru hágæða íslenskt hugverk og handverk og stærstu þremur

fiskinum með sem mýkstum hætti til að tryggja lítið los í flökunum og fallegri áferð að vinnslu lokinni.

HáþRóuð, SkilviRk og glæSilEg fiSkviNNSlutæki, HámaRkS NýtiNg og aRðSEmi

C-2011 - Flökunarvél

tækjunum – hausara, flökunarvél og roðflettivél – er stillt upp í heildstæða framleiðslulínu sem

hentar afar vel fyrir bæði litlar og stórar fiskvinnslur.

Curio ehf. / Eyrartröð 4 / 220 Hafnarfirði / Sími: 587 4040 / Netfang: curio@curio.is

www.curio.is


26  | SÓKNARFÆRI

Ný kynslóð frystitogara segir Ragnar Aðalsteinsson, útgerðarstjóri Ramma hf.

Ragnar Aðalsteinsson, útgerðarstjóri Ramma hf., fylgdi smíðinni eftir í Tyrklandi og bjó þar ytra í 13 mánuði.

„Hvað varðar vinnslu og tækni þá er Sólberg ÓF 1 ný kynslóð frystitogara hér á landi,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, útgerðarstjóri Ramma hf. í Fjallabyggð en hann fylgdi smíði skipsins eftir í Tyrklandi og bjó þar síðustu 13 mánuði smíðatímans. Sólberg er smíðaður samkvæmt teikningu frá norska fyrirtækinu Skipsteknisk AS og nú þegar eru fimm slíkir togarar í útgerð í Noregi, reyndar lítið eitt minni en Sólbergið. „Þetta er fyrsta og stærsta skipið samkvæmt þessari hönnun, 116 XL eins og teikningin heitir en nú er verið að byggja annan samskonar togara í Bandaríkjunum. Þetta eru 5 metrum lengri skip en stærri togararnir sem var búið að smíða

eftir þessari hönnun í Noregi,“ segir Ragnar. Um margt segir hann Sólbergið með nokkuð hefðbundnum hætti, þó vissulega sé skipið stórt, rúmgott og búið tækjum af nýjustu gerð. „Við getum sagt að vinnslulínan

í skipinu sé að hluta til nokkuð hefðbundin fyrir frystiskip. Fiskurinn er tekinn úr móttökunni og hausaður í kör, forflokkaður með mjög einföldum hætti og síðan kældur. Hausararnir eru þrír við móttökuna en eftir þvott og kælingu koma tvær flökunarvélar og önnur þeirra er af nýrri kynslóð og byggð með sérstaka áherslu á að vinna stærri fisk. Bæði hausararnir og flökunarvélarnar koma frá Vélfagi ehf. í Ólafsfirði, svo að þar er um að ræða búnað úr heimabyggð,“ segir Ragnar en á þessum

stað í vinnsluferlinu er komið að einni af stærstu nýjungunum um borð, vatnsskurðarvél frá Völku ehf., þeirri fyrstu sem sett er í frystitogara í heiminum.

Vatnsskurðarvél og sjálfvirkni „Eftir flökunina höfum við valkosti fyrir snyrtingu á flökunum; annað hvort að handsnyrta með gamla laginu eða að nýta vatnsskurðarvélina til að snyrta flökin. Vatnsskurðarvélin getur því bæði skorið fyrir okkur í bita og snyrt flökin. Ef við erum í flakavinnslu þá fara flökin áfram úr snyrtingunni í flokkun og þaðan í pönnufrystingu. Samhliða getum við líka verið að keyra bitavinnslu í gegnum vatnsskurðarvélina og þá fara bitarnir áfram inn í lausfrysti og svo í pökkun. Hvað flakafrystinguna varðar höfum við nýjung í plötufrystingunni sem er sjálfvirkni bæði á innmötun og slætti úr pönnum. Þaðan fara afurðirnar áfram í pökkun og merkingu. Þá tekur við enn ein nýjungin sem er svokallað vöruhótel sem hægt er að segja að sé stór skápur með hillum sem róbót raðar öskjunum í og les um leið vörunúmerið af kössunum. Þegar réttu magni á bretti er náð af tilteknum vörunúmerum,

60 kössum, sendir vinnslustjóri skilaboð um að afgreiða út af hótelinu þessar afurðir og þeim er þá raðað á bretti, plastað og síðan sér búnaður um að senda brettið niður í lest. Allt með sjálfvirkum hætti. Í lestinni er svo notaður rafmagnslyftari til að raða brettunum,“ segir Ragnar.

Próteinverksmiðja framleiðir lýsi og mjöl Hér má segja að ekki sé nema hluti sögunnar sagður hvað vinnsluna varðar því hausar, beinagarðar og slóg fara í próteinverksmiðju frá Héðni hf. sem er ein af áhugaverðum nýjungum í skipinu. Sá búnaður er staðsettur við hlið vélarrúmsins og vinnur lýsi og mjöl. Lýsinu er dælt í tanka en mjölinu blásið í síló framskips á vinnsluþilfarinu þar sem því er pakkað í sekki. Sekkjunum er síðan staflað í mjöllestina framan aðallestar skipsins. Viðmiðunarregla er að úr 100 tonna afla fáist 10 tonn af mjöli og lýsi. Þegar svo kemur að löndun úr Sólberginu eru afurðabrettin ekki hífð frá borði með krana eins og algengast hefur verið heldur er lúga á síðu skipsins sem opnast og út yfir bryggjukantinn gengur færiband úr skipinu. Á það koma afurða-

Vélar og Skip ehf. óskar útgerð og áhöfn Sólbergs til hamingju með nýtt og glæsilegt skip Í skipinu er aðalvél og framdrifsbúnaður frá Wartsila

Snyrtiborðin á vinnsludekkinu og fjær sér í vatnsskurðarvél frá Völku ehf. Sólberg ÓF er fyrsti togarinn í heiminum með vatnsskurðarvél og hún nýtist bæði til að snyrta flök og einnig til að skera í bita.


SÓKNARFÆRI  | 27

Próteinverksmiðja frá Héðni hf. er um borð og framleiðir mjöl og lýsi úr hausum, beinum og slógi. Verðmæti eru sköpuð úr öllu sem um borð kemur.

brettin með lyftu úr lestinni og annar lyftari tekur svo við þeim uppi á bryggju. Miðað við þá reynslu sem er komin af skipum þessarar gerðar í Noregi er áætlað að fullfermi úr Sólbergi geti verið komið upp á bryggju á 10-12 klukkustundum.

Tvö troll og mikill orkusparnaður Frystikerfi skipsins miðast við 90 tonna afkastagetu á sólarhring og

Horft inn í svokallað vöruhótel þar sem sjálfvirkur róbót flokkar kassa með afurðum áður en þær fara áfram í sjálvirka stöflun á bretti og loks sína leið niður í lest.

mun skipið draga tvö troll samtímis. Togkraftur Sólbergs er 90-100 tonn, enda skipið búið stórri skrúfu og 4640 kW aðalvél. „Fyrst og fremst er Sólbergið útfært sem flakavinnsluskip og kemur til með að veiða þorsk að stærstum hluta en við höfum þessa getu til að vinna einnig í lausfrysta hnakka og aðra bita eftir því sem hentar hverju sinni,“ segir Ragnar. Skipið er búið kerfum sem reiknar út bestu mögulega nýtingu

» Loftsíur » Smurolíusíur

orku eftir þeim þeim aðstæðum sem eru hverju sinni. Á þann hátt er náð fram mesta mögulega sparnaði í olíunotkun. „Við væntum þess að sjá mikinn orkusparnað miðað við hvert kíló í afla og mínar væntingar standa til þess að hann megi mæla í tugum prósenta miðað við gömlu skipin. Hér erum við að keyra eitt skip í stað tveggja til að ná sama kvóta og með þeirri tækni sem er í dag þá eigum við að sjá mikinn mun. Því

» Eldsneytissíur » Kælivatnssíur

Í skipinu eru tvær flökunarvélar frá Vélfagi ehf. í Ólafsfirði, þrír hausarar Myndir: Jóhann Ólafur Halldórsson. og roðdráttarvélar.

sem betur fer hefur mikið gerst í tækniþróun og orkunýtingu á 45 árum.“

Gott að fá skipið í heimahöfn Öll aðstaða fyrir áhöfn og skipstjórnendur segir Ragnar að sé vel útbúin, nettengingar eru í skipinu, líkamsræktaraðstaða, gufubað, þrjár seturstofur og margt fleira. Hann ber Tyrkjum vel söguna í skipasmíðinni og samstarfinu en vissulega hafi verkefnið verið flókið

þar sem mikill búnaður sé í skipinu. „Það var gott að vera í Tyrklandi og þrátt fyrir að ég hafi upplifað eina valdaránstilraun á þessum tíma þar í landi þá var ég aldrei verulega órólegur þarna ytra. En það var gott að koma heim og góð tilfinning að sjá Sólbergið leggjast að bryggju hér á Siglufirði í fyrsta sinn.“

» Glussasíur

Viðgerða- og varahlutaþjónusta í yfir 30 ár Bætir ehf hefur í rúm 30 ár boðið uppá alhliða viðgerða- og varahlutaþjónustu fyrir breiðann hóp viðskiptavina. Við þjónustum og útvegum varahluti í flestar tegundir dísilvéla og höfum mikla reynslu í ZF og Twin Disc gírum. Bætir ehf hefur um árabil boðið uppá hágæða varahluti, frá framleiðendum á borð við IPD og Interstate Mcbee, sem henta m.a. í vélar frá: Caterpillar® Cummins® Detroit Diesel®

Baldwin® hefur sérhæft sig í smur-, loft- og hráolíusíum Við bjóðum upp á Baldwin® síur í flestar gerðir þungavinnu- og sjóvéla á hagstæðum verðum.

Gangráðar frá GAC Governors America Corp. (GAC) er í fremstu röð framleiðenda á rafrænum gangráðum og samkeyrslubúnaði fyrir vélar. Við vinnum náið með GAC og sérsníðum lausnir að þörfum viðskiptavina okkar.

Túrbínur Bætir ehf. býður upp á viðgerðarþjónustu fyrir flestar gerðir túrbína.

Sími 567-2050 - Bíldshöfða 14 - 110 Reykjavík

Nöfn vélaframleiðenda eru hér aðeins til upplýsinga og eru vörumerkin eign hvers framleiðanda. Cat® og Caterpillar® eru skrásett vörumerki í eigu Caterpillar Inc. Cummins® er skrásett vörumerki í eigu Cummins Engine Company. Detroit Diesel® er skráett vörumerki í eigu Detroit Diesel Corporation.


28  | SÓKNARFÆRI

Mikið tækifæri að fá World Seafood Congress til Íslands

„Ég tel það mikið tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg að fá þessa ráðstefnu hingað til lands til að kynna fyrir hvað hann stendur. Erlendis eru margir sem horfa með öfundaraugum til Íslands vegna þess hversu vel okkur hefur tekist að halda utan um stjórnun og nýtingu sjávarauðlindanna,“ segir Steinar B. Aðalbjörnsson forstöðumaður miðlunar og samskipta hjá Matís. Ráðstefnan World Seafood Congress (WSC) verður haldin í Hörpu 10.-13. september nk. og heldur Matís utan um framkvæmd hennar. Að sögn Steinars er WSC einn stærsti vettvangur heims sem fjallar um verðmætasköpun og matvælaöryggi í sjávarútvegi. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og hana sækja starfsmenn útgerða og fiskvinnslu, fjárfestar og fólk úr stofnana- og menntaumhverfinu víða um heim. Steinar segir mjög eftir-

Ráðstefnan World Seafood verður í Hörpu dagana 10.-13. september.

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís og Guðmundur S. Ragnarsson, forstöðumaður sjávarútvegs hjá Arion banka, handsala samning um að Arion banki verði aðal styrktaraðili World Seafood Congress 2017.

sótt að halda ráðstefnuna, en hún var síðast haldin í Bretlandi og þar áður í Kanada. „Það felst mikil viðurkenning í því að fá ráðstefnuna hingað til lands, en Ísland er fyrst Norðurlanda til að halda hana.“

tengist matvælaframleiðslu í sjávarútvegi, ekki síst í þróunarríkjum.

Ráðstefnan er í eigu IAFI (International Association of Fish Inspectors) sem eru samtök fag- og eftirlitsaðila í fiskiðnaði og þar er lögð áhersla á faglega þætti sem snúa að matvælaöryggi og eftirliti sem

Íslenskur sjávarútvegur sýnir ábyrgð í verki með vottun fiskistofna undir merkjum Iceland Responsible Fisheries.

Bláa lífhagkerfið Ráðstefnan stendur frá mánudegi og fram á hádegi á miðvikudag en

þá hefst einmitt Íslenska sjávarútvegssýningin í Kópavogi. Yfirskrift ráðstefnunnar er að þessu sinni „Vöxtur í bláa lífhagkerfinu“. Lífhagkerfið spannar allar lífrænar og endurnýjanlegar auðlindir og bláa


SÓKNARFÆRI  | 29

„Við viljum vekja athygli á að allt sem við gerum hefur áhrif á lífrænar auðlindir okkar,“ segir Steinar B. Aðalbjörnsson hjá Matís sem sér um framkvæmd ráðstefnunnar á Íslandi.

Ráðstefnan er skipulögð þannig að fyrir hádegi verða sameiginlegar málstofur með yfirgripsmikilli umfjöllun en síðan verður boðið upp á samliggjandi málstofur þar sem farið verður dýpra í afmörkuð efni. Miðvikudagurinn verður hins vegar með dálítið öðru sniði en þá verður umfjöllun fram að hádegi enda er þetta daginn sem Íslenska sjávarútvegssýningin hefst í Kópavogi. Á þessum síðasta degi verður miklu tjaldað til þegar kynntar verða helstu nýjungar og tækniumbyltingar sem orðið hafa síðustu misserin í matvælaframleiðslu, með sérstaka áherslu á sjávarútveginn. Þá verður þar meðal annars fulltrúi frá Gfresh sem er nettengt markaðstorg fyrir sjávarafurðir á heimsvísu, Lynette Kucsma sem kom að hönnun eins af fyrstu þrívíddar matvælaprenturunum, en hún hefur verið valin af sjónvarpsrisanum

CNN sem einn af sjö tæknifrömuðum sem við ættum að fylgjast með. Auk þeirra mun John Bell frá framkvæmdastjórn ESB fjalla um hvernig tækniumbyltingar eru að hafa áhrif í evrópskum sjávarútvegi og fleiri mjög áhugaverðir fyrirlesarar. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, mun svo loka ráðstefnunni. Að sögn Steinars verður hægt að kaupa sig inn á þennan viðburð sérstaklega. Dagskrá ráðstefnunnar má finna á slóðinni: www.wsc2017. com/programme matis.is

lífhagkerfið skírskotar til þess sem þrífst í höfum og vötnum. „Við viljum vekja athygli á að allt sem við gerum hefur áhrif á lífrænar auðlindir okkar. Þegar við fjöllum um sjávarútveg erum við því ekki bara að tala um fiskinn í sjónum heldur líka þörungana sem fiskarnir þrífast á, orkuna sem notuð er til að sigla á miðin, hversu vel við förum með hráefnið sem við veiðum og allt annað sem hefur áhrif og tengist lífinu í hafinu.“

Matvælaöryggi Steinar segir dagskrá ráðstefnunnar ákveðna af vísindanefnd sem skipuð er fulltrúum IAFI og Matís og þar vegi þungt áherslur IAFI á matvælaöryggi- og eftirlit og viðhorf vísindamanna Matís sem sveigi áherslurnar meira að viðskipta- og fyrirtækjaverkefnum og fjármögnun. „Þótt ráðstefnan sjálf byrji ekki fyrr en mánudaginn 10. september verða komnir ýmsir hópar hingað strax á laugardegi til að funda um helgina. Þar á meðal eru fulltrúar sem tengjast Sjávarútvegsskóla Háskóla sameinuðu þjóðanna, Matvælastofnun sameinuðu þjóðanna (FAO) og IAFI og verðum við með fyrirlestra og námskeið fyrir þá um helgina.“ Hann segir að í upphafi ráðstefnunnar á mánudag verði áhersla á þróunarsamstarf og stöðuna á hinum ýmsu svæðum í heiminum og þar á meðal þar sem sjávarútvegstengd matvælaframleiðsla er ekki komin jafn langt og á Vesturlöndum. Þá verði meðal annars fjallað um matvælaöryggi, eftirlit og skylda þætti sem miða að því að stuðla að nægu fæðuframboði og öruggum matvælum. „Matvælaframleiðsla í heiminum er mjög tengd innbyrðis og þess vegna er mikilvægt að við höfum góða innsýn í það sem er að gerast annars staðar þar sem framleidd eru matvæli sem síðan eru flutt hingað, hvort sem þau tengjast sjávarútvegi eða ekki.“ Tæknilegar umbyltingar Á öðrum degi breytast áherslur ráðstefnunnar og færast meira yfir á tækniumbyltingar, fjármögnun og fyrirtækjarekstur þar sem litið verður á matvælaframleiðslu í sjávarútvegi sem viðskiptatækifæri. Sem dæmi nefnir Steinar að mikið hafi verið unnið í að auka matvælaframleiðslu í Norður- og MiðAfríku og gera hana öruggari. Þegar það gerist er talið að þetta verði áhugaverðir kostir til innviðauppbyggingar og að fjármagn til þeirra fáist þá frá alþjóðlegum fjármálastofnunum, hvort sem það eru Alþjóðabankinn eða aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna.

Gúmmísteypa Þ. Lárussonar ehf.,

Gylfaflöt 3 ·

Sími 567 4468 ·

Kt. 571293-2189 ·

Bankanr. Gylfaflöt 3 · 112 Reykjavík· Sími 567 4467 gummisteypa@gummisteypa.is www.gummisteypa.is

Netfang: dekk@g

www.


30  | SÓKNARFÆRI

Erum stolt af því að skila miklu til samfélagsins Rætt við Erlu Ósk Pétursdóttur, mannauðs- og þróunarstjóra Vísis hf. í Grindavík

Erla Ósk Pétursdóttir.

„Við erum stolt af því að vera hluti af sjávarútvegi sem skilar miklu til samfélagsins. Við erum í atvinnugrein sem stendur sig vel, er að byggja upp til framtíðar og skilar miklu inn í þjóðarbúskapinn. Við trúum því ekki að svo mikið verði lagt á greinina að hún verði ekki lengur sjálfbær. Auðvitað verður alltaf karpað um það hversu mikið eigi að skattleggja fyrirtækin og sú umræða er eðlileg og verður alltaf til staðar. Ég held að allir skilji að það er gott fyrir samfélagið að sjávarútvegurinn standi vel.“ Þetta segir Erla Ósk Pétursdóttir, mannauðs- og þróunarstjóri Vísis hf. í Grindavík í samtali við Sóknarfæri. Íslenskur sjávarútvegur keppir við sjávarútveg í öðrum löndum þar sem veiðigjöld eins og hér tíðkast eru mun umfangsminni og má þar nefna Noreg og Evrópusambandið.

100% húsið „Vísir er fjölskyldufyrirtæki sem gerir út fimm línuskip og tvær fiskvinnslur. Saltfiskvinnslu, sem er búin að vera á sama stað öll 50 ár fyrirtækisins. Þrátt fyrir að sama varan í grunninn sé enn framleidd, hefur þar verið mikið um tækninýjungar. Hitt húsið er nýtt. Það er frystihús þar sem við erum með frystan og ferskan fisk. Það er hátæknihús þar sem við erum að nýta allt það nýjasta í vinnslutækni. Við tölum oft um það sem 100% húsið. Það sýnir tæknina sem er 100% íslensk hönnum og framleiðsla á

vélunum og svo nýtum við allt hráefnið 100% eins og við gerum í saltfiskvinnslunni. Þetta sýnir í raun hversu langt íslenskur sjávarútvegur er kominn. Við seljum svo afurðirnar út um allan heim. Þurrkaðar afurðir seljum við í gegnum fyrirtækið Haustak til Nígeríu, söltuðu afurðirnar fara mest á Evrópumarkað; Evrópu, Spán, Ítalíu og Grikkland og loks erum við með frystar og ferskar afurðir sem fara til meginlands Evrópu, Bretlands og Bandaríkjanna. Tæplega 300 manns vinna hjá fyrirtækinu, 100 sjómenn og 200 í landi,“ segir Erla Ósk. Vísir gerir eingöngu út línuskip og hefur tæplega 17.000 tonna kvóta fyrir þau. Erla segir að draumurinn sé að auka kvótann, því vinnslur fyrirtækisins ráði við að taka við meiri afla til vinnslu og skipin geti skilað meiri afla að landi. Fyrirtækið leggur áherslu á

Vinnsla hjá Vísi hf.

að fullvinna sem mest af öllum sínum fiski í Grindavík og nýta allt sem á land kemur.

Áhersla á gæðin alla leið „Við leggjum mikla áherslu á gæðin í gegnum allt ferlið. Við erum að hámarka verðmætin hjá okkur með því stunda ábyrgar fiskveiðar og huga að gæðunum allt frá því fiskurinn kemur um borð og í

gegnum allt vinnsluferlið. Í þessum efnum er mikil gróska og þróun í dag og eru neytendur orðnir meðvitaðri um rekjanleika og ábyrga fiskveiðistjórnun. Það er gott fyrir Íslendinga, því við stöndum mjög framarlega í þeim málum borið saman við önnur lönd. Við höldum oft Íslendingar að við séum að keppa við næsta sjávarútvegsfyrirtæki í bænum eða

annars staðar á Íslandi. Í raun er allur íslenskur fiskur að keppa við önnur matvæli um hylli neytenda. Í því umhverfi er mikilvægt að vera með ýmsar vottanir, bæði á því að við stundum ábyrgar sjálfbærar fiskveiðar og að inni í því eru rekjanleikavottanir þannig að við getum sannað að fiskurinn sem við erum að selja, komi í raun úr fiskistofnum þar sem fiskveiðistjórnun er ábyrg.“ Erla Ósk bendir á að stjórnvöld hafi stjórnað veiðum hér við land af mikilli ábyrgð og ákvarðanir um leyfilegan heildarafla séu teknar á vísindalegum forsendum. Og í gildi er aflaregla sem kveður á um að aðeins megi veiða ákveðið hlutfall úr hverjum fiskistofni á hverju fiskveiðiári. „Stöðugleikinn í þeim efnum er mjög mikilvægur. Sem dæmi um það mætti taka að í efnahagshruninu fóru stjórnvöld ekki þá leið að heimila meiri veiðar til að fá meiri tekjur inn í þjóðarbúskapinn. Það hefði verið á skjön við aflaregluna og ábyrga, sjálfbæra fiskveiðistjórnun. Þess í stað var ákveðið að stunda ábyrgar veiðar við erfiðar efnahagsaðstæður og það sýndi umheiminum að okkur var alvara með ábyrgri fiskveiðistjórnun. Að veiða meira en ráðlegt er, er bara eins og að pissa í skóinn sinn. Það færir okkur kannski auk-


SÓKNARFÆRI  | 31

Nú fástSnickersvinnuföt í

Hágæða vinnuföt Mikið úrval af öryggisvörum

í miklu úrvali

Sérmerkjum fyrir fyrirtæki

Verkfæri og festingar HAGI ehf

Stórhöfða 37 • 110 Reykjavík • S. 414-3700 • hagi@hagi.is •

Hagi ehf HILTI


32  | SÓKNARFÆRI

inn afla tímabundið, en er í raun mikið ábyrgðarleysi og trúverðugleiki okkar bíður hnekki. Því er það mikilvægt að stjórnvöld setji ramma sem byggir á vísindalegri ráðgjöf og ábyrgri nýtingu. Það er svo okkar að vinna innan þess ramma af sömu ábyrgð, en gera jafnframt eins mikið úr því sem okkur stendur til boða og mögulegt er.“

Veiðum stýrt eftir þörfum markaðsins „Eftir að kvótakerfið kom á er hver og einn með ákveðið magn sem veiða má yfir árið. Stýring á því hvernig við veiðum fiskinn hefur gjörbreyst. Skipstjórarnir fara ekki á sjó og reyna að fylla skipin af þeim fiski sem best er að ná í hverju sinni, eins og áður var. Nú er byrjað á því að meta hvað það er sem markaðurinn þarfnast hverju sinni. Þá er bátunum beint á þau svæði þar sem líklegast er að fá þann fisk sem markaðurinn vill. Markaðurinn ræður þannig ferðinni þegar unnið er að því að fá hæsta verðið fyrir afurðirnar hverju sinni. Þeim mun meira sem maður getur stýrt því hvað er veitt, því meiri möguleikar eru á því að fá hærra verð. Þegar báturinn fer úr höfn liggur fyrir að hverju er stefnt og hvenær hann á að vera í landi. Nýja vinnslutæknin í frystihúsinu hefur einnig gert mikið til að hámarka verðmætin. Nýja skurðarvélin FleXicut ákveður hvernig best er að skera flakið í bita miðað við lögun flaksins og verðin á mörkuðunum. Eftir að við tókum nýja frystihúsið í gagnið snýst hver dagur meira um takt í veiðunum og vinnslunni. Við hugsum minna um magnið en meira um stöðuga vinnslu. Bátarnir eru úti í fimm til sjö daga og landa reglulega frá sunnudegi og fram eftir viku og þannig erum við alltaf með nýjan fisk beint í vinnsluna. Það er algjörlega nauðsynlegt að vera með góða tengingu milli veiða, vinnslu og markaðar til að ná árangri. Það skiptir miklu máli að vita hvers konar hráefni er að koma inn í vinnsluna og vera með tengingu við markaðinn til að vita

Góðum afla landað til vinnslu í Grindavík.

hvað er best að veiða og framleiða á hverjum tíma.“

Gengið veldur erfiðleikum Ekki fer á milli mála að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki standa í fremstu röð slíkra fyrirtækja um víða veröld. Við höfum fengið staðfestingu á því að Íslendingar reka hagkvæman og sjálfbæran sjávarútveg sem skilar miklu til samfélagsins. En hvernig er rekstrarumhverfið núna, ætti ekki allt að vera í lukkunnar velstandi? „Nú er það hið háa gengi íslensku krónunnar sem er mest að hrjá okkur. Reksturinn verður einfaldlega miklu erfiðari með sterkara gengi. Við höfum farið í gegnum miklar breytingar á síðustu árum, til að geta tekist á við breytilegt rekstrarumhverfi og erum mjög fegin því nú að hafa gert það. Þannig erum við í dag betur í stakk búin til að takast á við erfiðleika. En framleiðnin dregst mikið saman milli ára, bara út af genginu, þó við séum að bæta reksturinn á margan hátt og bæta taktinn, er þetta háa gengi krónunnar stór biti,“ segir Erla Ósk og heldur áfram. „Það eru blikur á lofti vegna stöðunnar í íslenskum stjórnmálum, en það verður bara að bíða

Allt það nýjasta í vinnslutækni er að finna í vinnslu Vísis í Grindavík. „Við köllum það stundum 100% húsið," segir Erla Ósk.

fram á haustið til að sjá hvort auknar gjaldtökur verða það sem stjórnmálamennirnir færa okkur á einhverju erfiðasta rekstrarári þennan áratuginn. Þá liggur það fyrir að skuldaskjólið, sem mörg sjávarútvegsfyrirtæki hafa getað nýtt sér hingað til við greiðslu veiðigjalda, er nú ekki lengur fyrir hendi. Því munu veiðigjöldin hækka hjá mjög mörgum í haust. Verði gjöldin svo hækkuð til viðbótar gæti það orðið ansi stór biti.“

Vélar og Skip ehf. óskar útgerð og áhöfn Björgúlfs til hamingju með nýtt og glæsilegt skip Í skipinu er spil frá Seaonics

Uppboð aflaheimilda framundan? Ekki er bara óvissa um veiðigjöldin, heldur grunn sjálfrar fiskveiðistjórnunarinnar og töluvert rætt um að bjóða upp aflaheimildir á opinberum markaði með einhverjum hætti. „Já, það er margt í umræðunni nú. Ekkert kerfi er fullkomið og má ýmsu breyta, en ég segi að besta kerfið sé það sem skapar langtíma stöðugleika fyrir fyrirtækin og starfsfólk þeirra, því það skilar mestu til samfélagsins. Það hefur ekki komið skýrt fram í hverju svokölluð markaðsleið myndi felast. Markaðsleiðin er í raun fyrningarleið þar sem hluti kvótans er tekinn af öllum og boðinn upp, en verður þetta opið uppboð þar sem hæstbjóðandi fær kvótann óháð hvar hann er á landinu? Mér finnst ólíklegt að það verði, uppboðin verði frjáls þar sem hæstbjóðandi fái kvótann, þó það skili mestu til ríkisins, því önnur lönd hafa fallið frá slíku uppboði þar sem það leiðir til samþjöppunar í greininni. Miðað við umræðuna í dag þá finnst mér ólíklegt að það sé það sem stjórnvöld vilja. En það er erfitt að tjá sig um það sem talað er um að eigi hugsanlega að koma,“ segir Erla Ósk. Færri og stærri fyrirtæki Sú þróun sem er í tæknivæðingu sjávarútvegsins ein og sér gerir það að verkum að fyrirtækin verða færri og stærri. Til þess að hafa efni á þessum bestu tækjum þarf mikið magn af fiski til að fara í gegnum vinnsluna. „Þess vegna fækkar þeim stöðum sem bera uppi öfluga fiskvinnslu og í stað þess að berjast á móti þeirri þróun og jafnvel banna hana, verðum við að vinna með breytingunum. Umræðan um fækkun fiskvinnslna á landsbyggðinni er eðlileg en hin hliðin á sama peningi er að mikil fjárfesting hefur orðið um allt land í fisk-

vinnslum og nýjum skipum. Sjávarútvegurinn er ennþá dreifður hringinn í kringum landið en breytingin er sú að þetta eru færri og stærri kjarnar. Að sjálfsögðu verður að ræða hvað gera skal á þeim stöðum, þar sem vinnsla verður ekki. Hingað til hefur lausnin verið að útvega kvóta á þessa staði eins og byggðakvóta. Mér finnst að umræðan ætti að vera aðeins breiðari. Kannski er eitthvað annað sem hentar viðkomandi svæðum betur en hefðbundinn sjávarútvegur. Stjórnvöld eiga að leiða þessa umræðu og ná saman um það hvernig við sem samfélag viljum að þetta þróist með hinni öru tækniþróun. Veiðar og vinnsla á uppsjávarfiski er búin að fara í gegnum þessar breytingar. Nú eru bara nokkur stór fyrirtæki í uppsjávarfiskinum á landinu. Þessi þróun er styttra komin í bolfiskinum og þar ætti að taka af skarið og hefja umræðuna fyrir alvöru. Það er mikið í umræðunni að sjávarútvegurinn sé eina atvinnugreinin sem eigi að standa undir byggð í landinu. En í raun þarf að taka fyrst um það ákvörðun hvernig sjávarútveg við viljum reka á Íslandi. Ef hagkvæmni og sjálfbærni er markmiðið, svo útvegurinn geti skilað miklu til samfélagsins í hvaða formi sem er, þá á það að vera á hreinu. Umræðan um að halda uppi byggð með úthlutun veiðiheimilda kemur alltaf upp en hún samræmist illa hinum markmiðunum. Þá er það spurningin: vilja menn heldur nýta sjávarútveginn til að viðhalda byggð við strendur landsins? Slíkt fyrirkomulag er ólíklegra til að skila samfélaginu miklum tekjum. Ég vil heldur hafa öflugan sjávarútveg sem skilar miklu til samfélagsins en sjávarútveg sem einhvers konar byggðastofnun. Í ljósi þess að aflaheimildir eru að færast frá smærri stöðum ættu stjórnvöld að huga að bættum samgöngum svo hægt sé að sækja atvinnu milli byggðarlaga og byggja upp önnur tækifæri til atvinnu á þeim stöðum. Eins og ég sagði þá sýnist mér þróunin vera sú að það verði ákveðnir sjávarútvegskjarnar hringinn í kringum landið, sem hafa nóg hráefni fyrir öfluga vinnslu. Þá þarf að gera fólkinu kleift að komast þangað til að sækja vinnu. Það þarf ekki endilega að koma fiskur í staðinn fyrir fisk. Það er svo margt annað sem kemur til greina. Við eigum að vera stolt af því að fækka erfiðum og leiðinlegum störfum í sjávarútveginum til að skapa önnur betri.

Skapa betri störf Tækniþróunin fækkar störfunum á gólfinu hjá okkur, en við erum að kaupa allar þessar vélar af íslenskum fyrirtækjum og skapa þar betri störf en þau, sem eru að fara. Staðreyndin er einnig sú að það hefur verið erfitt að manna þessi störf og í mörgum tilfellum hefur þurft að leita til annarra landa eftir vinnuafli. Við erum nú þegar farin að sjá glitta í stöðuna frá 2007 þegar mjög erfitt var að fá fólk til starfa í sjávarútvegi, bæði til lands og sjós. Það er til dæmis ekki lengur langur listi af sjómönnum sem eru tilbúnir til að koma um borð ef vantar menn í áhöfn. Það er uppgangur í samfélaginu og þó laun í sjávarútvegi séu góð, er nú orðið auðveldara að hoppa yfir í önnur störf. Því er það mikilvægt að sjávarútvegsfyrirtækin séu nógu sterk til að geta boðið góð laun til að geta haldið góðu fólki. Við þurfum því að hlúa vel að starfsfólkinu okkar“ segir Erla Ósk Pétursdóttir.


SÓKNARFÆRI  | 33

Stólpi Gámar

fyrir atvinnulífið

Stólpi Gámar bjóða gámalausnir fyrir atvinnulífið – til leigu eða sölu  þurrgáma  hitastýrða gáma

 geymslugáma  einangraða gáma

 fleti og tankgáma  gáma með hliðaropnun

Einnig gámahús og salernishús frá Containex, færanlega starfsmannaðstöðu frá EuroWagon.dk og vinnu- og vörulyftur frá ATN og Maber Hafðu samband 568 010 0

www.stolpigamar.is

Klettagörðum 5 | 104 Reykjavík | Óseyrarbraut 12 | 220 Hafnarfirði


34  | SÓKNARFÆRI

Nýr Björgúlfur til heimahafnar á Dalvík Nýr Björgúlfur EA 312, sem fagnað var í gær við komu til heimahafnar á Dalvík, leysir af hólmi togara með sama nafni sem smíðaður var í Slippstöðinni hf. á Akureyri fyrir Útgerðarfélag Dalvíkinga hf. árið 1977. Óhætt er að segja að algjör kynslóðaskipti verði með komu nýs Björgúlfs, hvort heldur er litið til stærðar, búnaðar, hönnunar, aflameðhöndlunar eða aðbúnaðar áhafnar. Þegar nýi Björgúlfur var skráður í Tyrklandi fyrir afhendingu skipsins til Samherja hf. fékk eldra skipið nafnið Hjalteyrin EA 306 og mun áfram afla hráefnis fyrir vinnslu fyrirtækisins á Dalvík þar til lokið verður við smíði og uppsetningu fiskvinnslubúnaðar í nýja skipinu síðsumars eða snemma hausts. Kostnaður við smíði nýja skipsins er um 2,5 milljarðar króna.

Farsælt aflaskip Gamli Björgúlfur EA 312 hefur frá afhendingardegi í apríl 1977 verið hjartað í hráefnisöflun fyrir frystihúsið á Dalvík. Fyrir átti Útgerðarfélag Dalvíkinga hf. á sínum tíma annað skip, Björgvin EA 311, en þau voru 50 metra löng og 9,5 metra breið. Skrokkarnir voru smíðaðir í Noregi en smíði lokið hjá Slippstöðinni á Akureyri. Skipin voru 424 brúttólestir að stærð. Árið 1998 skipti Útgerðarfélag Dalvíkinga hf. eldri Björgvin EA

út fyrir nýtt frystiskip með sama nafni en hélt áfram útgerð ísfisktogarans Björgúlfs EA í óbreyttri mynd og svo hefur einnig verið undir merkjum Samherja hf. allt fram á þennan dag.

Björgúlfur EA 312 hefur verið afar fengsælt fiskiskip og til að mynda skilaði togarinn yfir 950 tonnum á land í einum mánuði árið 2013, sem er mjög góður árangur hjá ekki stærra skipi. Björgúlfur

Guðmundur Arason ehf. óskar útgerð og áhöfn Björgúlfs EA til hamingju með nýtt og glæsilegt skip Skjáveggur í brúnni er ein af tækninýjungunum í Björgúlfi. Myndir: Baldur Kjartansson

Horft yfir skutrennuna og fram togdekkið.


SÓKNARFÆRI  | 35

Björgúlfur EA 312

Helstu stærðir Lengd 62,54 m Breidd 13,5 m Brúttótonn 2081 Mesti siglingarhraði 14 hnútar Togkraftur 40 tonn Fiskvinnslusvæði 406 ferm. Fiskilest 995 rúmm.

EA hefur á undanförnum árum verið meðal aflahæstu ísfiskskipa flotans og á því glæsta útgerðarsögu að baki.

Tækni og orkunýting Nýi Björgúlfur EA 312 er einn af fjórum samskonar ísfisktogurum sem smíðaðir eru hjá Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Fyrstur togaranna fjögurra var Kaldbakur EA 1 sem Útgerðarfélag Akureyringa, dótturfélag Samherja hf., tók á móti í heimahöfn á Akureyri fyrr í vor. Þriðja skipið verður Drangey SK fyrir FISK Seafood á Sauðárkróki sem væntanleg er síðsumars eða snemma hausts og í árslok fær Samherji hf. togarann Björgu EA afhentan. Skipin eru byggð eftir teikningu Bárðar Hafsteinssonar, skipaverkfræðings hjá Skipatækni ehf. Björgúlfur EA 312 er um 13 metrum lengri en gamla skipið, eða 62,5 metrar og 13,5 metra

Þeir hafa haft í nógu að snúast í lokafrágangi á Björgúlfi EA í Tyrklandi. Frá vinstri: Baldur Kjartansson, Marius Petcu og Halldór Gunnarsson. Baldur og Marius eru eftirlitsmenn Samherja við nýsmíðaverkefnin í Tyrklandi en Halldór er yfirvélstjóri á Björgúlfi EA.

breiður. Skipið er skráð 2081 brúttótonn og hefur 14 hnúta siglingahraða að hámarki. Það er búið Yanmar aðalvél sem Marás ehf. hefur umboð fyrir hér á landi. Hún skilar 1620 kW afli við 750

snúninga og getur bæði keyrt á svartolíu og gasolíu. Skrúfa skipsins er 3,8 m í þvermál og er skipið búið kerfum sem reikna út bestu nýtingu orku hvort heldur það er á veiðum eða siglingu. Orkusparnaði

er einnig náð fram í ljósabúnaði skipsins með LED tækni. Allar vindur skipsins eru knúnar með rafmagni og koma frá norska framleiðandanum Seaonics. Togafl skipsins er 40 tonn. Aflanemakerfi

er frá Marport. Sérefni hafði eftirlit og ráðgjöf um málningu skipsins. Í lest rúmar það 225 tonn af fiski en lestin er tæplega 1000 rúmmetrar að stærð. Í henni er ný gerð af krana sem gengur á brautum í lest-

Skipatækni óskar útgerð og áhöfn Björgúlfs EA til hamingju með nýtt og glæsilegt skip


36  | SÓKNARFÆRI

Í skipinu er Yanmar aðalvél.

arloftinu, nokkurs konar hlaupaköttur. Þessi búnaður er notaður til að raða fiskikerum í lestina en hann er hollenskur að uppruna og er ný tækni í lestum fiskiskipa. Í brú skipsins er allt það nýjasta og besta að finna í siglinga-, fiskileitar- og fjarskiptabúnaði frá Brimrún ehf. og eitt það athyglisverðasta er svokallaður skjáveggur frá Brimrún ehf. og Nordata ehf.

Horft yfir togdekkið.

þar sem skipstjórar geta unnið með marga upplýsingaskjái samtímis eftir því sem best hentar hverju sinni. Öllum tækjum hefur einnig verið komið fyrir í sérstöku rými undir brúnni og gerir það vinnuumhverfi skipstjórnarmannanna umtalsvert hljóðlátara.

Vinnslubúnaður í smíðum – íslaus lest Lokaáfanginn í smíði Björgúlfs EA hefst strax eftir heimkomuna, þ.e. smíði fiskvinnslubúnaðar á millidekki. Sá verkþáttur verður í höndum Slippsins ehf. á Akureyri. Nú er verið að smíða búnað í Kaldbak EA 1 og verða skipin tvö útfærð með nákvæmlega sama hætti. Kristján Vilhelmsson, út-

gerðarstjóri Samherja hf., segir að aflinn verði fullkældur á vinnsluþilfarinu og geymdur íslaus í lest. „Við komum til með að vinna þessi verkefni nokkurn veginn samhliða þannig að væntanlega verður stuttur tími á milli þess sem skipin fara á sjó fullbúin,“ segir Kristján. Sú nýbreytni verður í aflameðhöndluninni að gengið verður frá fiskinum fullkældum í

ker á vinnsluþilfari og þau síðan færð með lyftu niður í lest. Hingað til hefur tíðkast að fiskinum sé raðað í kerin í lestinni. Þrettán manna áhöfn verður á Björgúlfi í veiðiferð og koma flestir þeirra úr áhöfn gamla skipsins. Skipstjóri er Kristján Salmannsson og yfirvélstjóri Halldór Gunnarsson.

Óskum útgerð og áhöfn til hamingju með glæsilegt skip Eftirtalinn búnaður er frá Brimrún er í Björgúlfi EA Siglingatæki

Fjarskiptatæki

Annar búnaður

Furuno FAR-2x17, X-Band Radar m/ 6.5’ loftneti Furuno FAR-2x17, X-Band Radar m/ 4’ loftneti Furuno MU-190, 19” IMO skjár Time Zero Professional, MaxSea siglingahugbúnaður, 2 stk. Tölvur frá Brimrún, fyrir Time Zero, 2 stk. Furuno FMD-3100, ECDIS, 2 stk. Furuno GP-170, GPS staðsetningatæki, 2 stk. Furuno FA-150, AIS tæki Aflestrarskjáir frá Brimrún, 3 stk. Cassen & Plath seguláttaviti Furuno SC-110, GPS áttaviti

Furuno FM-8900, GMDSS VHF talstöðvar, 2 stk Furuno FM-4721, VHF talstöð Furuno FS-1575, GMDSS MF/HF talstöð Furuno Felcom 18, GMDSS Standard-C tæki Furuno NX-700B, veðurriti (NavTex) Furuno KU-100, VSAT, internet og tal yfir gervitungl Tölva frá Brimrún, fyrir VSAT Palo Alto PA-200, eldveggur Iridium Open-Port, gervitunglasími Furuno PR-850, GMDSS spennugjafi Furuno PR-300, GMDSS spennugjafi McMurdo R5, GMDSS VHF talstöðvar, 3 stk McMurdo S5, AIS neyðarbaujur, 2 stk McMurdo G5A, EPIRB neyðarbauja Viðvörunar panell fyrir GMDSS í brú Rafmagnstafla fyrir GMDSS 3G netbeinir

Thies Clima, vindmælir David Clark, hjálma samskiptakerfi Veinland, vökustöð (BNWAS) Símkerfi Neyðarsímar, innanskips, 3 stk Kallkerfi Paging kerfi FM og sjónvarpsdreifikerfi með lekum kóax KNS gervihnattadiskur fyrir sjónvarp 32”, 47” og 60” sjónvörp, 14 stk Skrifstofutölvur, 5 stk Skjáveggur 32” tölvuskjáir, 2 stk 23” tölvuskjáir, 5 stk NMEA dreifikerfi með skiptaraplötu í brú

Fiskileitartæki Furuno FCV-1900G, CHIRP dýptarmælir, 3 kW Furuno DFF3, FFS dýptarmælir, 3 kW WASSP, fjölgeisladýptarmælir, 80 kHz, 1 kW Furuno CI-68, straummælir, 244 kHz Marport M4

MAREIND

Reykjavík - Sími 5 250 250 – Akureyri - Sími 5 250 260

Grundarfirði Sími 438 6611


SÓKNARFÆRI  | 37

Óskum eigendum og áhöfn til hamingju með glæsilegt nýtt skip

marport.com

533 3838


38  | SÓKNARFÆRI

Allir spenntir að reyna skipið á veiðum segir Kristján Salmannsson, skipstjóri á Björgúlfi EA 312

„Heimsiglingin hefur gengið ljómandi vel hingað til og ekkert óvænt komið uppá. Það er rjómablíða hjá okkur og við höfum verið í mjög góðu veðri nánasta alla leið, fengum svolítinn kalda um tíma við Sikiley en annars bara logn og sól,“ segir Kristján Salmannsson, skipstjóri á Björgúlfi EA 312, sem stýrir skipinu til heimahafnar á Dalvík í fyrsta sinn. „Það verða gríðarleg viðbrigði fyrir okkur að fara af gamla Björgúlfi yfir á þetta nýja skip. Munurinn er mikill á öllum sviðum, hvort heldur er horft til stærðar skipsins, vinnuaðstöðu eða aðbúnaðar áhafnar,“ segir Kristján sem verið hefur skipstjóri á gamla Björgúlfi frá árinu 2010. „Skipið er auðvitað talsvert stærra og breiðara og kemur til með að fara betur með okkur. Breiddin skiptir miklu máli fyrri sjóhæfnina og gerir að verkum að það veltur minna. Þetta breytir miklu fyrir okkur sem störfum um borð og við þekkjum það frá gamla skipinu sem á til að velta talsvert. Hver meter í breidd skipanna kemur fram í bæði minni veltingi og meira vinnurými innanskips,“ segir Kristján.

Skrokklagið sannar sig Margir staldra við þetta skrokklag sem er á nýjum togurum sem eru að koma til landsins þessa mánuðina. Hönnuðir togaranna með þessu lagi hafa bent á að í raun sé hér á ferð áframhaldandi þróun á perustefninu sem fram kom á sín-

Björgúlfur EA var hálfan mánuð á siglingu frá Tyrklandi.

um tíma. Með þessu framstæða stefni vinnist margt í sjóhæfni, mótstaða verði minni þegar skipin fara í gegnum ölduna í sjógangi, auk þess sem á sama tíma fáist aukið rými innanskips. „Ég hef fulla trú á að þetta skrokklag skili sér fullkomlega. Við höfum reyndar ekkert fengið að reyna skipið í öldu það sem af er heimsiglingunni en ég sigldi sem stýrimaður á Kaldbaki EA þegar við komum með það skip frá Tyrklandi fyrr í vor og þá fengum svolítið veður á okkur á heimleiðinni. Þá sá ég hvernig skipið hagar

Myndir: Baldur Kjartansson

sér. Það stingur sér minna niður í ölduna og svo verður greinilega minni mótstaða þegar það klýfur ölduna. Þetta skilar orkusparnaði, sem skiptir miklu máli,“ segir Kristján.

Meðal aflahæstu ísfisktogaranna Björgúlfur EA 312 hefur verið meðal aflahæstu ísfisktogara landsins undanfarin ár og segir Kristján það vera gott skip, þó 40 ára gamalt sé. „Okkur hefur gengið prýðilega síðustu ár og höfum verið að veiða að jafnaði 5.500-6.000 tonn

Vítt til veggja og öllu vel fyrir komið í brúnni.

Sérefni óskar útgerð og áhöfn Björgúlfs EA til hamingju með nýtt og glæsilegt skip

Tveggja manna klefi.

International skipamálning www.serefni.is

á ári. Alengasta túralengdin er fjórir sólarhringar og fyrir tveimur árum var meðalengd veiðiferðar hjá okkur 3,6 sólarhringar yfir árið. Það segir talsvert um að við höfum ekki þurft langan tíma á miðunum til að sækja aflann,“ segir Kristján og bætir við að þarfirnar í vinnslunni í landi ráði mestu um það hversu langar veiðiferðirnar eru hverju sinni. „Vinnslan ræður mestu um þetta en við vitum yfirleitt þegar við látum úr höfn hve-

nær miðað er við að við komum inn til löndunar. Stundum erum við kallaðir fyrr inn ef á þarf að halda vinnslunnar vegna.“ Nú tekur við smíði vinnslubúnaðar á millidekk Björgúlfs og því ekki alveg komið að því strax að reyna skipið á miðunum. „Ég get ekki sagt annað en að það sé mikil spenna hjá okkur öllum í áhöfninni að halda til veiða á þessu fína skipi. Þetta verður algjörlega nýr vinnustaður,“ segir Kristján.


SÓKNARFÆRI  | 39

Samhentir óskar útgerð og áhöfn Björgúlfs EA til hamingju með nýtt og glæsilegt skip

SJÓMENN OG FISKVINNSLUFÓLK TIL HAMINGJU MEÐ SJÓMANNADAGINN

Suðurhrauni 4 • 210 Garðabæ • Furuvellir 3 • 600 Akureyri • Sími 575 8000 • www.samhentir.is


40  | SÓKNARFÆRI

Ný landvinnsla, nýr ísfisktogari og hafnarframkvæmdir á Dalvík

„Hér eru allir glaðir í dag“ segir Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar Íbúar Dalvíkurbyggðar hafa ríka ástæðu til að gleðjast þessa dagana. Nýr ísfisktogari Samherja hf., Björgúlfur EA 312, er kominn að bryggju eftir heimsiglingu frá Tyrklandi og á dögunum tilkynnti Samherji jafnframt fyrirætlanir sínar um byggingu nýs fiskvinnsluhúss við höfnina á Dalvík sem Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri fyrirtækisins, segir að verði fullkomnasta bolfiskvinnsla í heimi. Þessu til viðbótar eru að hefjast framkvæmdir við nýjan viðlegukant í Dalvíkurhöfn sem áætlað er að ljúki á næsta ári og munu þær kosta um hálfan milljarð króna. Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar segir íbúa byggðarlagsins sannarlega gleðjast við þessi tíðindi sem enn styrki sjávarútvegsbæinn Dalvík í sessi. „Hér eru allir glaðir með tilkynningu Samherja hf. um byggingu nýja fiskvinnsluhússins og ég er virkilega stoltur fyrir hönd Dalvíkurbyggðar að ákvörðun skuli vera tekin um fjárfestingu í há-

Ný landvinnsla Samherja hf. verður á svæði við norðurgarð Dalvíkurhafnar og er nú unnið að hönnun byggingarinnar. Við norðurgarðinn eru einnig að hefjast framkvæmdir við nýjan 120 metra viðlegukant sem verið hefur á áætlun um nokkurra ára skeið.

Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar.

tæknivæddri fiskvinnslu hér hjá okkur. Þetta er verkefni sem unnið verður af miklum metnaði af hálfu Samherja hf. og ánægjulegt að heyra um þær fyrirætlanir að íslensk iðnfyrirtæki hafi aðkomu að þeim tæknilausnum og tækjabúnaði sem í húsinu verða. Það skiptir miklu máli fyrir lítið byggðarlag eins og okkar að öflugt sjávarútvegsfyrirtæki, sem er með starfsemi víða um heim, skuli ákveða að efla sína starfsemi enn frekar á Dalvík. Samherji hefur verið meðal helstu máttarstólpa hér í byggðarlaginu um árabil, skapað atvinnutækifæri

og byggt upp sína starfsemi auk þess að styðja við fjölmörg verkefni í félags- og mannlífinu. Oft mætti það að mínu mati njóta meira sannmælis í umræðunni,“ segir Bjarni.

Milljarða fjárfesting í nýju skipi og nýrri landvinnslu Á kynningarfundi Samherja á Dalvík með starfsmönnum fyrirtækisins og fulltrúum Dalvíkurbyggðar var tilkynnt um byggingu nýju landvinnslunnar og sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, að fjárfesting fyrirtækisins í þessum

Óskum áhöfn og útgerð til hamingju með nýtt og stórglæsilegt skip.

Óskum áhöfn og útgerð til hamingju með nýtt og stórglæsilegt skip.

þ YANMAR aðalvél þ YANMAR hjálparvél þ REINTJES niðurfærslugír Marás ehf. Miðhrauni 13 - 210 Garðabæ Sími: 555 6444 - Fax: 565 7230 www.maras.is - maras@maras.is

þ BERG skiptiskrúfa þ SCANTROL autotroll þ NORSAP skipstjórastólar

Fagleg ráðgjöf, sala og þjónusta Bjóðum aðeins viðurkenndan búnað

þ SIMRAD sjálfstýring þ SIMRAD gýróáttaviti þ VINGTOR kallkerfi Friðrik A Jónsson ehf. Miðhrauni 13 - 210 Garðabæ Sími: 552-2111 - Fax: 552 2115 www.faj.is - faj@faj.is


SÓKNARFÆRI  | 41

tveimur verkefnum á Dalvík, þ.e. vinnsluhúsinu og nýjum Björgúlfi EA nemi samanlagt 6 milljörðum króna. Þar af er landvinnslan rúmur helmingur eða um 3,5 milljarðar króna. Benti Þorsteinn á að fjárfesting Samherja hf. í veiðum og vinnslu á Eyjafjarðarsvæðinu nemi um 11 milljörðum króna á aðeins þremur árum. „Árangur okkar í vinnslunni hér er eftirtektarverður og ástæðan er fyrst og fremst starfsfólkið okkar sem hefur staðið sig frábærlega. Og í raun samfélagið allt því allir hafa viljað hag vinnslunnar sem mestan og staðið með fyrirtækinu í gegnum árin,“ sagði Þorsteinn Már ennfremur á fundinum. Hann sagði að með nýrri vinnslu myndu störfin breytast, þau yrðu fjölbreyttari og meira krefjandi en jafnframt auðveldari líkamlega. „Við ætlum að byggja hér fullkomnustu fiskvinnslu í heimi og okkur mun takast það með ykkar hjálp, ágætu starfsmenn. Í nýju vinnslunni munum við vinna áfram með íslenskum iðnfyrirtækjum að því að þróa lausnir í matvælaiðnaði sem síðan verða seldar innanlands og erlendis. Húsið verður viðmiðið sem íslensk fyrirtæki munu nota til að sýna tæknilausnir sínar og framleiðslu úti um allan heim. Þannig hefur íslenskur iðnaður þróast með íslenskum sjávarútvegi og við njótum öll góðs af,“ sagði Þorsteinn Már en fyrirtækið vann úr 14.500 tonnum af bolfiski á Dalvík á síðasta ári.

Hafnarframkvæmdir að hefjast Bjarni segir nýja landvinnslu veita byggðarlaginu ákveðna fótfestu til langrar framtíðar. „Þetta sýnir að hér eru góðir og sterkir innviðir fyrir sjávarútvegsfyrirtæki til að vinna með, mannauður og þekking, nóg af heitu og köldu vatni, góð hafnaraðstaða, miklir stækkunarmöguleikar í framtíðinni hvað hafnarmannvirkin varðar, stöðugt vinnuafl, við liggjum vel við fiskimiðum og þannig má áfram telja,“ segir Bjarni en einmitt þessa dagana eru að hefjast framkvæmdir við nýjan 120 metra langan viðlegukant við norðurgarð Dalvíkurhafnar. „Hafnarframkvæmdirnar hafa verið á samgönguáætlun síðustu fimm ár og eru óskyldar þessum áformum Samherja hf. þó vissulega komi bætt aðstaða í höfninni til með að nýtast því fyrirtæki líkt og öðrum sem nýta hafnaraðstöðuna hér. Það hefur verið aukið umfang í löndunum báta hjá okkur, sérstaklega á haustin og því er bætt aðstaða kærkomin til að mæta þeirri þróun,“ segir Bjarni en fyrirtækið Norðurtak ehf. á Sauðárkróki annast fyrsta áfanga framkvæmdanna. Í næstu áföngum verður dýpkun, niðurrekstur á stálþili og loks landfylling og steypa á þekju bryggjunnar, væntanlega á næsta ári. „Framkvæmdirnar voru ekki á fjárlögum þessa árs en til að flýta fyrir þeim tókum við ákvörðun um að fjármagna verkefnið af hálfu sveitarfélagsins með lántökum og eigin fé. Þannig fáum við þessi mikilvægu mannvirki í rekstur fyrr en ella,“ segir Bjarni, sem var með sveitungum sínum og fagnaði á bryggjunni þegar nýr Björgúlfur EA 312 lagðist að bryggju á Dalvík. „Það var mjög stór stund fyrir okkur og togarinn verður mikil lyftistöng fyrir sveitarfélagið,“ segir hann.

Samningur um leigu Samherja hf. á 23.000 fermetra lóð við Dalvíkurhöfn undirritaður á dögunum. Frá vinstri: Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja; Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja; Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar; Heiða Hilmarsdóttir, forseti Mynd: Margrét Víkingsdóttir. sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar og Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson, formaður byggðaráðs Dalvíkurbyggðar.

Allt fyrir ferskleikann

Laxinn

er viðkvæmur og vandmeðfarinn

23 kg Laxakassinn er þannig hannaður að hann viðheldur ferskleika laxins lengur en sambærilegar umbúðir. Laxakassinn frá Tempru sér til þess að laxinn kemst ferskur til neytenda um allan heim.

einangrun – umbúðir

TEMPRA EHF • Íshella 8 • 221 Hafnarfjörður • Sími: 520 5400 • tempra@tempra.is • www.tempra.is

60 ára


42  | SÓKNARFÆRI

Hundrað ára afmæli Reykjavíkurhafnar í ár

Fjöreggið sem stýrði vexti bæjarins Í ár eru 100 ár frá lokum dýrustu framkvæmdar Íslandssögunnar á þeim tíma. Byggingu Reykjavíkurhafnar lauk árið 1917 en þá höfðu framkvæmdir við þetta mikla mannvirki staðið í 4 ár. Fyrir þennan tíma var engin eiginleg höfn í Reykjavík, bara bátabryggjur og því gátu stærri skip ekki lagst að bryggju heldur varð að selflytja fólk og varning til og frá landi.

Hliðhollur konungur Umræður um að koma upp hafnaraðstöðu í Reykjavík höfðu staðið í 60 ár en strönduðu alltaf á fjárskorti. Eins og nærri má geta var þetta dýrt verkefni og því þurfti að afla lánsfjár erlendis. „Páll Einarsson fyrsti borgarstjóri í Reykjavík fór til Danmerkur ásamt bankastjórum Landsbanka og Íslandsbanka til að útvega peninga í verkið en það gekk ekki vel. Danskir bankar neituðu að lána þar til talið er að kóngurinn sjálfur, Friðrik áttundi, hafi skorist í leikinn og beitt áhrifum sínum til að útvega fé til verksins,“ segir Guðjón Friðriksson sagnfræðingur en hann skráði sögu Faxaflóahafna sem kom út árið 2013. Guðjón segir að Friðrik áttundi hafi verið mjög vinveittur Ís-

lendingum eftir að hann kom til landsins 1907. „Það er svo merkilegt með Friðrik áttunda, hann var ekkert sérlega hátt skrifaður í Danmörku en í þeim mun meiri metum hér uppi á Íslandi.“ Að sögn Guðjóns var það bæjarstjórn Reykjavíkur sem hafði forgöngu um þetta risavaxna verkefni en í henni sátu á þessum tíma öflugir einstaklingar eins og Tryggvi Gunnarsson bankastjóri sem Tryggvagata var síðar kennd við. Hann bendir á að líklega hafi það flýtt fyrir að ráðist var í verkið að komin var hafskipabryggja á vegum Milljónafélagsins í Viðey og þá var Einar Benediktsson einnig kominn á fulla ferð að undirbúa höfn í Skerjafirði. Kaupmenn í Kvosinni óttuðust að ef hafnarstarfsemin færðist í Skerjafjörð myndi þungamiðja bæjarlífsins færast þangað líka og þá sætu þeir eftir með verðlitlar eignir.

Tæknibylting Guðjón segir tvær stórar tæknibyltingar tengjast Reykjavíkurhöfn. „Sú fyrri var þegar fluttar voru til landsins stórar gufuknúnar vélar sem skiluðu meiri afköstum en áður höfðu þekkst á Íslandi. Þar á meðal voru tvær eimlestir og járnbraut sem er sú eina sem starfrækt hefur verið hér á landi. Grjótnám-

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur og höfundur Sögu Faxaflóahafna telur að stórbrotin áform Einars Benediktssonar um hafskipahöfn í Skerjafirði hafi orðið til að flýta fyrir gerð Reykjavíkurhafnar.

ið fyrir höfnina var í Öskjuhlíð og þangað voru lögð tvö járnbrautarspor, annað austan við bæinn og hitt vestan við bæinn sem mættust svo í Öskjuhlíð þaðan sem grjótið var flutt á 22 lestarvögnum niður á hafnarsvæðið. Þarna voru einnig gufuknúnar vélskóflur og dýpkun-

arskip auk loftbora sem aldrei höfðu sést áður hér á landi. Þetta var stórkostleg tæknibylting á tímum þegar Íslendingar þekktu ekkert en skóflu og haka.“ Síðari tæknibyltinguna tengir Guðjón stórvirkum vinnuvélum, trukkum, krönum og lyfturum sem fylgdu

Ameríkönum hingað til lands á stríðsárunum. Sem fyrr segir var grjótið til hafnargerðarinnar sótt í Öskjuhlíðina en mölin sem til þurfti var að mestu tekin á Skólavörðuholti og þangað var líka lagt járbrautarspor. Guðjón segir að ásýnd Skólavörðuholtsins hafi

Sendum sjómönnum og fjölskyldum þeirra hamingjuóskir með sjómannadaginn

Fagleg ráðgjöf, sala og þjónusta Bjóðum aðeins viðurkenndan búnað

Kraftur Hliðarskrúfur

Ending

Vökvakranar fyrir skip og báta

Sparneytni Áreiðanleiki

Stærð allt að 6200hö

AUTOMATION TECHNOLOGY

Rafstöðvar

Marás ehf. Miðhrauni 13 - 210 Garðabæ Sími: 555 6444 - Fax: 565 7230 www.maras.is

Lasdrop S H A F T - S E A L S

Stjórntæki og Gírar

Allt fyrir nýsmíðina


SÓKNARFÆRI  | 43

Verkamenn í grjótnámi í Öskjuhlíð.

(Mynd úr Sögu Faxaflóahafna).

breyst mikið þegar nánast allri möl var flett ofan af holtinu.

Fyrir daga Reykjavíkurhafnar þurfti að selflytja bæði vörur og farþega til og frá skipum sem ekki gátu lagst að bryggjum í Reykjavík. Hér er verið að (Mynd úr Sögu Faxaflóahafna). skipa upp skútufiski á Duusbryggju.

Gróði og samfélagsleg áhrif „Það kom fljótlega í ljós að hafnargerðin var mikið gróðafyrirtæki og umferð um Reykjavíkurhöfn varð miklu meiri en bjartsýnustu áætlanir höfðu gert ráð fyrir.“ Guðjón segir að í kjölfarið hafi nánast öll heildverslun landsins flust til Reykjavíkur en áður hafði verið talsverður innflutningur beint á hafnirnar úti á landi. Reykjavík varð umskipunarhöfn fyrir allt landið og þaðan var varningurinn síðan fluttur með strandferðaskipum áfram. Hann segir þetta meðal annars hafa orðið til þess að verslun á Suðurlandi færðist á tímabili meira og minna til Reykjavíkur því ekki var aðstaða til að taka á móti vörum með jafn greiðum hætti við

Önnur tveggja eimreiða sem drógu grjót-og malarflutningavagna úr Öskjuhlíð og Skólavörðuholti niður á hafnarsvæðið. (Mynd úr Sögu Faxaflóahafna).

Suðurströndina. „Á þessum tíma voru bílar að ryðja sér til rúms og vegirnir að batna og þetta varð til þess að kaupfélögin á Suðurlandi fóru meira og minna á hausinn og það var ekki fyrr en með komu Kaupfélags Árnesinga 1930 að verslun fór aftur að færast austur fyrir fjall.“ Hafnarbæturnar urðu líka til þess að á tímabili safnaðist nánast öll togaraútgerð landsins til Reykjavíkur. Á tímabilinu á milli fyrri og síðari heimstyrjaldar voru þrír af hverjum fjórum togurum gerðir út frá Reykjavík og flestir

hinna frá Hafnarfirði. Það var síðan ekki fyrr en ráðist var í hafnarbætur víða um land eftir seinna stríð sem togurum fór að fjölga að ráði á landsbyggðinni. Guðjón segir að við ritun sögu Faxaflóahafna hafi lokist upp fyrir honum hvað hafnargerðin hafði mikil áhrif á þróun Reykjavíkur. „Það er ljóst að tilkoma hafnarinnar hafði gríðarleg áhrif og hún var það fjöregg sem átti hvað mestan þátt í því hvað Reykjavík óx hratt,“ segir Guðjón Friðriksson sagnfræðingur.


44  | SÓKNARFÆRI

Sex goðsagnir um sjávarútveg Íslenskur sjávarútvegur fór ekki að skila raunverulegum arði til samfélagsins fyrr en upp úr síðustu aldamótum eftir áratuga taprekstur sagði Dr. Ásgeir Jónsson, dósent og deildarstjóri hagfræðideildar Háskóla Íslands, á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á dögunum. Þar ræddi hann um þá umbyltingu sem varð í íslenskum sjávarútvegi með upptöku aflamarkskerfis árið 1984, frjálsum fiskmörkuðum 1986 og frjálsu framsali aflakvóta árið 1990. Með þessum breytingum á fiskveiðikerfi Íslendinga hefur tekist að umbylta virðissköpun í íslenskum sjávarútvegi, sagði Ásgeir og skapa gríðarleg verðmæti. Hann talaði um breytingarnar sem þrjá nýja „þéttihringi“ fyrir sjávarútveginn – með vísan til Challengergeimferjuslyssins árið 1986 – og þeir yrðu allir að vera í lagi til að árangur næðist. Aukinheldur væri sjávarútvegur á Íslandi orðin stöðug atvinnugrein sem stuðlaði að efnahagslegum stöðugleika en samt sem áður lifi fortíðin enn í almennri umræðu um greinina.

Standast ekki skoðun Þessu til áréttingar tók Ásgeir fyrir það sem hann kallar 6 mýtur um sjávarútveg sem virðast lifa sjálfstæðu lífi og sýndi fram á að þær stæðust ekki við nánari skoðun. „Ekki er annað hægt en að græða á sjávarútvegi“ væri fyrsta mýtan því hagnaður væri algerlega háður núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, frjálsu framsali aflaheimilda og frjálsri ráðstöfun aflans. Máli sínu til stuðnings benti hann á að enginn gróði fór að sjást í íslenskum sjávarútvegi fyrr en á 21. öldunni. „Sjávarútvegur er lágtækni frumframleiðslugrein með sífellt minnkandi vægi í íslensku hag-

Dr. Ásgeir Jónsson, dósent og deildarstjóri hagfræðideildar Háskóla Íslands.

kerfi“ væri önnur mýtan sem slegist væri við þegar sjávarútvegur væri í raun helsti brimbrjótur tækniframfara og nýsköpunar í íslensku hagkerfi. Greinin hafi verið uppspretta ýmissa tækninýjunga og margir hliðarsprotar vaxið frá henni. Eftir því sem hefðbundnum störfum í veiðum og vinnslu hafi fækkað hafi hliðarstörfum fjölgað. Mannaflaþörf greinarinnar hafi verið að breytast og hún hafi í auknum mæli orðið vettvangur fyrir menntað fólk. „Sjávarútvegur er óstöðug grein sem skapar þjóðhagslega áhættu“ væri þriðja mýtan sem greinin væri að kljást við. Staðreyndin sé sú að síðasta aldarfjórðung hafi sjávarútvegur verið aflvaki stöðugleika í íslensku hagkerfi. Greinin hafi veitt mikilvægan bakstuðning í síðustu tveim niðursveiflum, þegar landsmenn hafi verið að prófa sig áfram með nýjar atvinnugreinar og í næstu niðursveiflu muni það koma í ljós. „Sjávarútvegur er háður íslensku krónunni og vælir út gengisfelling-

䤀渀愀愀爀爀礀欀猀甀最甀爀

Fjölmennt var á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Mynd: SFS

ar“ væri fjórða mýtan sem slegist væri við. Staðreyndin væri hins vegar sú að gengi krónunnar hafi hreyfst óháð sjávarútvegi frá síðustu gengisfellingunni árið 1993. Sjávarútvegurinn væri vel í stakk búinn til að takast á við gengissveiflur vegna hlutaskiptakerfisins og öflugs alþjóðlegs markaðsstarfs. Útgerðin hagnaðist af lágu gengi en útgerðarmenn biðu ekki lengur eftir gengisfellingum til þess að laga reksturinn – þeir hagræddu. „Samþjöppun í sjávarútvegi má alfarið rekja til kvótakerfisins og hefur komið landsbyggðinni á kaldan klaka“ væri fimmta mýtan sem lifði góðu lífi þó svo að frjálst framsal aflaheimilda, frjálsir fiskmarkaðir og malbikaðir vegir hafi gert landið að einu markaðssvæði fyrir fisk. Það væri áfall fyrir einstakar byggðir að missa frá sér aflaheimildir en samkeppnishæfur sjávarútvegur væri þó forsenda fyrir samkeppnishæfum lífskjörum úti á landi, enda væru einu hálaunastörfin á landsbyggðinni einmitt í sjávarútvegi.

一吀 㘀㔀⼀㈀  吀愀挀琀

一吀 㐀㔀⼀㄀  吀愀挀琀

吀 㠀⼀㄀

刀礀欀猀甀最甀爀 昀礀爀椀爀 ︀甀爀爀琀

一吀 ㌀㔀⼀㄀ 吀愀挀琀 唀洀戀漀 漀最 ︀樀渀甀猀琀愀

刀礀欀猀甀最甀爀 昀礀爀椀爀  戀氀愀甀琀琀 漀最 ︀甀爀爀琀

„Hægt er að fjármagna heilbrigðiskerfið og jafnvel menntakerfið með hærra auðlindagjaldi“ væri svo sjötta mýtan sem lifði góðu lífi í umræðunni. Benti hann á að sjávarútvegur greiðir nú rúma 20 milljarða til ríkisins á ári sem auðlindagjald, tekjuskatt og tryggingagjald. Hvað sem fólki finnist um auðlindagjald væri ljóst að það leysti ekki úr fjárvanda heilbrigðiskerfisins. Sá vandi yrði ekki leystur nema með nýrri stefnumótun og það væri önnur saga!

Frá grátkór til greifa Í lokin benti Ásgeir á að sú hafi verið tíðin að talað hafi verið um „grátkór útgerðarmanna“ og að hagstjórn á Íslandi hafi snúist um reddingar og gengisfellingar til þess

að „bjarga“ sjávarútveginum. Nú snérist umræðan um „kvótagreifa“ og hvernig hægt væri að skattleggja greinina. Þetta væri jákvæð breyting og allir Íslendingar ættu að geta glaðst yfir þeim frábæra árangri sem hefur náðst í sjávarútvegi. Þessi árangur væri þó ekki sjálfsagður því staðreyndin væri sú að fyrir hverjar kosningar frá árinu 1991 hafi skapast ótti um að kerfinu yrði umbylt og virðiskeðjum greinarinnar sundrað. Benti Ásgeir á að hin samfélaglega sátt væri eini „þéttihringurinn“ sem væri enn veikur í hinni ógnarlöngu virðiskeðju úr hafinu sem við í daglegu tali kölluðum sjávarútveg Íslands – og lauk svo máli sínu með því að spyrja hvað gerðist þegar þétti­ hringir gefi eftir?

Botnfiskaflinn dróst saman í febrúar um 58% miðað við sama mánuð í fyrra.

Minni aflaverðmæti vegna verkfalls í febrúar Aflaverðmæti íslenskra skipa í febrúar var 5,8 milljarðar króna sem er 53,6% minna en í febrúar 2016. Mikill samdráttur í aflaverðmæti skýrist af verkfalli sjómanna sem var aflýst 19. febrúar. Á tólf mánaða tímabili frá mars 2016 til febrúar 2017 nam aflaverðmæti íslenskra skipa rúmum 118 milljörðum sem er 19,4% minna en á sama tímabili ári fyrr, samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Það sem vekur athygli í tölum Hagstofunnar er að fiskafli í febrúar dróst aðeins saman um 4%, féll úr 88.879 tonnum í 85.678 tonn, meðan verðmætið féll um 53,6%. Skýringin á er að botnfiskafli dróst saman um 58% vegna verkfalls sjómanna, féll úr 47.393 tonnum í 19.823 tonn. Á móti kemur að afli í uppsjávarfiski fór úr 39.609 tonnum í 65.290. Þar liggur munurinn í þreföldun loðnuaflans, en enginn annar uppsjávarfiskur veiddist í mánuðinum. Um 18.000 tonn af

kolmunna veiddust í febrúar í fyrra, en ekkert nú. Verð á uppsjávarfiski er mun lægra en á botnfiski, þannig að þessi mikla aukning um rúmlega 40.000 tonn í loðnu vegur hvergi nærri upp á móti 18.000 tonna samdrætti í kolmunna og tæplega 30.000 tonna samdrætti í bolfiski mælt í verðmætum. Verðmæti uppsjávarafla í febrúar varð alls 1,9 milljarðar króna, sem er 16,1% aukning miðað við sama mánuð í fyrra, þrátt fyrir 65% aukningu í afla. Verðmæti botnfiskaflans féll úr 10,3 milljörðum í 3,8 eða um 62,5% en botnfiskaflinn í mánuðinum dróst saman um 58%. Verðmæti þorskaflans í febrúar varð um 3 milljarðar sem er samdráttur um 56,7% en samdrátturinn í afla var 51%. Svipaða sögu er að segja um aðrar fisktegundir, samdráttur í afla og verðmæti hans fer nokkuð saman.


SÓKNARFÆRI  | 45

A-39

MÁLNING Á SKIP OG STÁLVIRKI

- það segir sig sjálft Málning hf. - Dalvegi 18 - 201 Kópavogur - Sími 580 6000 - www.malning.is


46  | SÓKNARFÆRI

Vélaþjónustan Bætir flytur á Bíldshöfða Vélaþjónustan Bætir ehf., sem undanfarin ár hefur verið til húsa á Smiðshöfða 7, hefur nýlega flutt í eigið húsnæði á Bíldshöfða 14. Þar verður hægt að sérsníða húsakynnin að þörfum fyrirtækisins og skilja á milli verslunar- og lagerhalds á

efri hæð og viðgerðarverkstæðis sem verður á neðri hæð. „Með því að flytja í eigið húsnæði aukum við rekstraröryggi okkar til muna á tímum þegar ástandið á fasteignamarkaði er mjög hvikult og óöruggt. Um leið gerir nýja húsnæði

okkur kleift að kom upp skilvirkri flæðilínu í viðgerðarþjónustunni,“ segir Valdimar Hilmarsson sem sér um viðskiptaþróun Bætis. Bætir er vélaþjónusta og varahlutaverslun fyrir stórvirkar vélar um borð í bátum og jarðvinnuvélGengið er inn á skrifstofu og lager Bætis frá Axarhöfða, en inn á viðgerðarverkstæðið frá Bíldshöfða.

um. Starfsmenn Bætis eru faglærðir viðgerðarmenn með mikla reynslu af vélaviðgerðum og hafa hlotið þjálfun í Bandaríkjunum og Evrópu. Fyrirtækið þjónar þeim sem nota stórvirkar vinnuvélar, hvort sem það er í sjávarútvegi eða jarðvinnuverktöku. Fyrirtækið hefur á yfir 30 ára starfstíma skapað sér sérstöðu í viðgerðum á amerískum díselvélum, eins og Caterpillar, Cummins, John Deere og Detroit Diesel auk upptekta á túrbínum, dælum og tengdum hlutum.

Valdimar Hilmarsson í nýju húsnæði Bætis á Bíldshöfða 14 þar sem skrifstofa og lager eru á efri hæð en viðgerðarverkstæði á þeirri neðri.

Náið samstarf við málmsmiðjuna Tækni Núverandi eigandi, Friðrik Sigurðsson sem tók við fyrirtækinu 2015, rekur einnig málmsmiðjuna Tækni og starfa þessi tvö fyirtæki náið saman. „Það felst mikil samlegð í nánu samstarfi þessara tveggja fyrirtækja. Þannig getum

við til dæmis boðið fiskiskipa- og bátaútgerðum mjög víðtæka þjónustu, hvort sem það er smíðavinna sem tengist fiskvinnslulínum eða öðru um borð eða viðhaldi á aðalog ljósavélum,“ segir Valdimar. Hann bætir því við að nokkrir stærstu viðskiptavinir beggja fyrirtækja séu þeir sömu. Því þekki þeir vel stöðu og þarfir helstu viðskiptavina sinna. Aðspurður segir Valdimar að um þessar mundir eigi sér stað talsverð fjárfesting í þessum geira atvinnulífsins, bæði í sjávarútvegi og jarðvinnslu og því fylgi mikið viðhald. Hann segir Bætir með umboð fyrir mjög trausta varahluti og hafi fyrst og fremst verið að sinna viðhaldi á vélum. baetir.is

PELTOR HEYRNARHLÍFAR MEÐ BLUETOOTH

Heyrnarhlífar með útvarpi og Bluetooth

Heyrnarhlífar með samskiptamöguleika á 8 rásum og Bluetooth

Kemi ehf | Tunguhálsi 10 | 110 Reykjavík | S: 415 4000 | kemi@kemi.is | www.kemi.is


SÓKNARFÆRI  | 47

Úthlutanir úr Rannsóknasjóði síldarútvegsins

„Fiskur á disk“ Verkefnið snýst um að búa til 360° sýndarveruleika kennsluefni (360° virtual reality) fyrir efstu bekki grunnskóla um ferlið frá því að fiskurinn kemur upp úr sjó á kæliskipi og þar til hann er tilbúinn sem veislumatur á disk. Efninu fylgja spurningar og ítarefni. Verkefnisstjóri er Árni Gunnarsson, í samstarfi við Skotta ehf., FISK Seafood og Árskóla og nam styrkupphæðin þremur milljónum króna.

Við tjörnina í miðbæ Ólafsfjarðar. Þar verður vettvangur ýmissa dagskrárliða sjómannadagshátíðarinnar.

Hátíð sjómanna í Ólafsfirði Þar sem Hvítasunnudag ber nú upp á fyrsta sunnudag í júnímánuði færist sjómannadagurinn aftur um viku og verður 11. júní. Löng hefð er fyrir hátíðarhöldum í tilefni sjómannadags í Ólafsfirði og hefjast þau strax föstudaginn 9. júní þegar m.a. verður 16 ára ball í Tjarnarborg með FM958BLÖ. Þétt dagskrá verður síðan allan laugardaginn og hefst hún með golfmóti sjómanna, dorgveiðikeppni verður fyrir börnin við höfnina, sigling í boði Ramma hf., kappróður sjómanna, þrautir og keppnir við Tjarnarborg og sundlaugina, náttúrugripasafnið verður opið, sjómenn keppa í leirdúfuskotfimi og fótbolta og margt fleira. Dagskráin hefst að morgni sjómanndagsins kl. 10:15 með skrúðgöngu og hátíðarmessu þar sem sjómenn verða heiðraðir. Fjölskylduskemmtun verður síðan kl. 13:30 við Tjarnarborg þar sem Jónsi í Svörtum fötum skemmtir, Sveppi, Pétur Jóhann, Steindi Jr. og Auddi Blö koma einnig fram. Að því loknu verður kaffisala slysavarnadeildar kvenna í Tjarnarborg og síðan verður árshátíð sjómanna í Íþróttahúsinu kl. 19. Þeirri samkomu stýra Pétur Jóhann, Sveppi, Auddi Blö og Steindi Jr. En auk þeirra skemmta Ari Eldjárn, Regína Ósk, Magni Ásgeirs og Matti Matti. Rokkabillýbandið spilar síðan fyrir dansi inn í sumarnóttina.

NaNO námsefni – Náttúra, nýsköpun og tækni í sjávarútvegi Markmið verkefnisins er að semja, prófa og birta á vef námsefni um sjávarútveg sem veki áhuga nemenda með því að tengja saman nútímaleg viðfangsefni með samspili atvinnulífs, vísinda, tækni, náttúru og samfélags. Námsefninu er ætlað að nýtast ólíkum námsgreinum, stuðla að samþættingu þeirra og vinna þvert á greinar, bóklegar og verklegar. Verkefnisstjóri er Ester

Ýr Jónsdóttir, í samstarfi við Háskóla Íslands, Matís og Hafrannsóknastofnun og nam styrkupphæðin þremur milljónum króna.

Öryggishandbók fyrir fiskvinnslur Félag síldarútgerða styrkti einnig verkefnið Öryggishandbók fyrir fiskvinnslur sem öryggishópur sjávarútvegsins innan raða SFS vinnur í samstarfi við Verkís. Handbókin er ætluð starfsfólki í fiskvinnslu og er liður í stefnu sem miðar að því

Jens Garðar Helgason, formaður SFS og Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, afhentu styrkina þeim Snæfríði Mynd: SFS Einarsdóttur, Ester Ýr Jónsdóttur og Árna Gunnarssyni.

að auka öryggi í fiskvinnslum hér á landi og draga þannig úr líkum á alvarlegum slysum. Snæfríður Ein-

arsdóttir hjá Verkís veitti styrknum viðtöku að upphæð tvær milljónir króna.

Fjarðabyggðarhafnir

Við gerum út á góða þjónustu Fjarðabyggðarhafnir hafa innanborðs sex framúrskarandi hafnir sem bjóða sólarhringsþjónustu, allan ársins hring. Við gerum út á góða þjónustu á öllum sviðum hafnarrekstrar. Við erum á sýningarsvæði A13 á sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll 28. til 30. september. Komdu við og taktu góðan snúning á Austfirðina.

Sigldu í örugga höfn Löndunarþjónusta Ísframleiðsla Kæligeymslur Frystigeymslur Vélaverkstæði Veiðarfæraþjónusta Rafeindaþjónusta Olíuafgreiðsla Landflutningar Stutt í flugfrakt Öll heilbrigðisþjónusta Lágverðsverslanir Verslun, veitingar Afþreying

Mj

F

Héraðsprent

Rannsóknasjóður síldarútvegsins, sem er á forræði Félags síldarútgerða, styrkir á hverju ári fjölda mikilvægra verkefna á sviði námsog kynningarefnis fyrir sjávarútveginn og voru þau þrjú verkefni sem hlutu styrk úr sjóðnum í ár kynnt á dögunum á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

FJARÐABYGGÐ Mj

F

Fjarðabyggðarhafnir Hafnargötu 2, 730 Fjarðabyggð Sími 470 9000 Netfang fjardabyggd@fjardabyggd.is Veffang fjardabyggd.is/hafnir


48  | SÓKNARFÆRI

Gúmmísteypan og Reimaþjónustan sameinast „Ég er hef rekið Gúmmísteypuna síðan 1984 og hafði áður verið í kringum þessa starfsemi frá því að ég var 7-8 ára að fylgjast með afa sem setti þennan rekstur á fót árið 1953,“ segir Þorsteinn Lárusson, eigandi Gúmmísteypu Þ. Lárussonar ehf. Þorsteinn segir að á sínum tíma hafi afi hans unnið á dekkjaverkstæði og þá oft þurft að redda mönnum um ýmsa hluti. Það hafi hann gert utan vinnutíma uppi á háalofti heima hjá sér og þá hafi móðir hans hjálpað til. „Þegar hitaveitan var lögð í hverfi borgarinnar þurfti að þétta allar lagnir með gúmmíhringjum. Þá tók afi að sér að steypa þessa hringi sem skiptu einhverjum milljónum þegar upp var staðið. Ég man eftir því að mamma hafði það sem aukavinnu um tíma, meðfram því að annast

okkur börnin, að klippa niður gúmmi í þessa hringi.“

Færibandaþjónusta um allt land Þorsteinn segir að framan af hafi mikið af verkefnum fyrirtækisins tengst sjávarútvegi og viðgerðum á gúmmíblökkum sem notaðar voru við síldarnæturnar. Í dag sé nótin ekki notuð eins mikið og áður heldur hafi trollin tekið við og þeirra verkefnum þar með fækkað. Því hafi þau fært sig yfir í að vinna við og þjóna færiböndum sem meðal annars eru notuð af verktökum við malarvinnslu og í álverunum. Þá flytur hann böndin inn og sker þau í þær stærðir sem henta hverju sinni og límir saman. „Við ferðumst mikið um og veitum færibandaþjónustu um allt land.“

Það er samhent fjölskylda sem rekur Gúmmísteypuna, hér er Þorsteinn ásamt Steinunni eiginkonu sinni og Berglindi sem nú er tekin við sem framkvæmdastjóri Gúmmísteypunnar.

Þorsteinn fyrir utan höfuðstöðvar fyrirtækjanna við Gylfaflöt.

Fyrirtæki sem eiga vel saman Nýlega stækkaði Þorsteinn við sig og keypti Reimaþjónustuna sem framleiðir færibönd fyrir matvælaiðnað. Þorsteinn segir að það henti vel að sameina þessi tvö fyrirtæki undir einu þaki þar sem að um skylda starfsemi sé að ræða. Að auki rekur Þorsteinn dekkjaverkstæði að Gylfaflöt 3. Alls starfa í dag 9 manns í sameinuðu fyrirtæki og gerir Þorsteinn ráð fyrir að hann muni þurfa að

bæta við sig einhverjum mannskap fljótlega. „Annars vinnum við hér tvö úr fjölskyldunni, ég og Berg­ lind dóttir mín og síðan hleypur konan undir bagga þegar mikið er að gera,“ segir Þorsteinn. Hann bætir því við að Berglind hafi tekið við af honum sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins og því sé hann

kominn aftur á gólfið. Aðspurður hvort frekari verkefni séu í kortunum segir hann aldrei að vita. „Konan mín hefur ósjaldan á orði að það sé alltaf eitthvað nýtt að gerjast í Gúmmísteypunni,“ segir Þorsteinn Lárusson að lokum. gummisteypa.is

Af 77 þúsund tonnum sem veiddust á fyrstu fjórum mánuðum ársins fengust 9 þúsund tonn í íslensku lögsögunni en megin veiðisvæðið er í færeyskri lögsögu.

Ágæt kolmunnaveiði í ár Kolmunnaveiði hefur verið ágæt það sem af er þessu ári. Þannig veiddu fiskiskipin rúmlega 77 þúsund tonn af kolmunna á fyrstu fjórum mánuðum ársins, samanborið við rúmlega 103 þúsund tonn á sama tímabili í fyrra en komunni veiðist að stærstum hluta í lögsögu Færeyja. Um 9 þúsund tonn af þessum 77 þúsund tonnum fengust í íslenskri lögsögu, samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu.

Aflahæsta skipið í kolmunna á þessu fjögurra mánaða tímabili er Börkur NK-122 með tæplega 10.800 tonn en næstur kemur Beitir NK-123 með tæplega 9.700 tonn. Bæði eru skipin í eigu Síldavinnslunnar hf. í Neskaupstað. En það er ekki bara kolmunni sem fæst á þessum miðum því talsverður meðafli er af makríl. Þannig var meðafli skipanna af makríl í aprílmánuði rúmlega 500 tonn.


SÓKNARFÆRI  | 49

VÖKULAUGU Á SJÓNUM MEÐ FLIR

FLIR HITAMYNDAVÉLAR VEITA SKIPSTJÓRNARMÖNNUM SÝN Í NIÐAMYRKRI EÐA ÞEGAR SÓL BLINDAR. MEÐ FLIR MU ER STIGLAUS ÞYSJUN Á HITAMYND Á NÆR OG FJÆR UMHVERFI

FLIR HANDVÉLAR GEFA AUKNA SÝN

Á BREYTINGUM Á VÉLBÚNAÐI, KÆLIBÚNAÐI, RAFKERFUM, GLUSSALÖGNUM...

MEÐ REGLUBUNDNUM SKOÐUNUM ER HÆGT AÐ

BREGÐAST VIÐ ÁÐUR EN UPP KEMUR BILUNEÐA TJÓN.

VERÐ FRÁ: 139.950.- M/VSK ( FLIR C2 HANDVÉL HAN )


50  | SÓKNARFÆRI

Nýjar kröfur – ný tækifæri Sólveig Arna Jóhannesdóttir leiðir sölu botnfiskafurða hjá HB Granda og tekst daglega á við breytingar á markaði. Kröfur neytenda þróast með nýjum kynslóðum, straumum og stefnum en Sóknarfæri hafði áhuga á að forvitnast nánar um hvaða áhrif það hefur á sölu íslenskra sjávarafurða bæði erlendis og hérlendis.

Tækifæri í netsölu „Kynslóðirnar eru um margt ólíkar en í því felast tækifæri. Við reynum að lesa í þarfir markaðarins og sjá út leiðir til að uppfylla þessar þarfir á hverjum tíma. Ungt fólk virðist minna vanafast og opnara fyrir nýjungum en þeir sem eldri eru en er á sama tíma kröfuharðara og upplýstara. Í samtölum við ungt fólk hefur komið fram að það sem stendur helst í vegi fyrir að þau borði oftar fisk er vöntun á fjölbreyttum og einföldum matreiðsluleiðbeiningum og hugmyndum um notkun fiskmetis í daglegu mataræði. Við vinnum að því um þessar mundir að kynna gullkarfa fyrir íslenskum neytendum. Hluti af því verkefni er pökkun og sala á ferskum gullkarfahnökkum, bæði marin­eruðum, tilbúnum í ofn eða á pönnu og svo alveg ómeðhöndluðum sem hægt er að matreiða að vild. Gullkarfahnökkunum er pakkað undir merkjum Norðanfisks í handhægar umbúðir og eru hluti af ferskfiskvörulínu sem kom á markaðinn fyrr á árinu. Á sama tíma opnuðum við netsíðuna fiskurimatinn.is. Okkar nálgun til markaðssetningar á netinu hefur m.a. verið að framleiða stutt myndbönd með spennandi mataruppskriftum og gefa út uppskriftir á vefnum en með því náum við vonandi að hvetja fólk til að prófa sig áfram í matargerð úr fiskmeti og svara kalli nýrra kynslóða. Þau eru jú neytendur framtíðarinnar og tengillinn við komandi kynslóðir.

Löndun úr frystitogara HB Granda, Höfrungi III AK 250.

Þetta teljum við einnig góða leið til að koma vöru á framfæri við nýja kynslóð sem ekki kann að meta beina sölu, til að mynda á samfélagsmiðlum. Ef þeim líkar við efnið geta þau sjálf deilt því og þannig mælt með því sem það hefur góða reynslu af. Við höfum svo hug á að læra af þessu verkefni og nýta okkur þá reynslu á erlendum vettvangi. Ég tel að það séu mikil tækifæri á netinu – ekki endilega á samfélagsmiðlum þar sem nú þegar er mikið áreiti, nema þá óbeint – heldur í beinni og óbeinni netsölu sem er í miklum vexti og örri þróun um allan heim,“ segir Sólveig Arna og nefnir sem dæmi þjónustu á borð við Eldum rétt og að fyrirtæki eins og Amazon hafi nú hafið sölu á fiski víða um heim.

Rótgróin ímynd
 Sólveig Arna segist hafa fundið fyrir aukinni jákvæðni gagnvart Íslandi erlendis undanfarin ár, til að mynda á árlegri sjávarútvegssýningu í Brussel og víðar. ,,Ímynd Íslands er sterk og góð víða í Evrópu. Fiskveiðisaga okkar Íslendinga er samofin sögu margra okkar helstu viðskiptaþjóða eins og Frakka, Englendinga, Þjóðverja og Spánverja sem sóttu hingað fisk úr sjó og kenndu okkur um leið

margt af því sem lagði grunn að okkar farsælu sjósókn. Sú saga er mörgum hérlendis og erlendis ókunn en skiptir miklu máli,“ segir Sólveig Arna. Samhliða kröfu um aukið gegnsæi vinnur yngra fólk oft sína rannsóknarvinnu, „googlar“ fyrirtæki, lönd og vörur. Sólveig Arna segir það sína skoðun við Íslendingar eigum mikilla hagsmuna að gæta í því að þessi saga komi upp í slíkri upplýsingaleit og ættum við saman að reyna að tryggja það. „Þeirri spurningu, hvort við getum treyst á ímynd okkar um „íslenskt best í heimi“, verð ég svara á þá leið að ég er mótfallin þeirri framsetningu og finnst að við mættum hafa í huga að dramb er falli næst. Það sem ég á við er ekki það að við séum ekki að gera vel. Þvert í móti tel ég okkur standa mjög framarlega á sviði sjávarútvegsmála. Ég tel það hins vegar heppilegri nálgun og okkur mest til framdráttar að skilgreina þá heildarmynd vel, teikna skýrt upp og reyna að koma henni á framfæri. Raunsannri mynd sem við getum stutt með rökum. Það ættu að vera hæg heimatökin því við erum tæknisinnuð og framsækin og höfum borið gæfu til að standa vel að umgengni við og nýtingu auð-

Sólveig Arna Jóhannesdóttir, markaðsstjóri botnfiskafurða HB Granda.

lindarinnar og verið frumkvöðlar í mörgum þáttum sem falla vel að kröfum nútímans, til að mynda um sjálfbærni og samfélagsábyrgð.“

Hafrannsóknir traust undirstaða markaðsstarfs Sólveig Arna segir að Íslendingar þurfi að sinna hafrannsóknum vel og styðja við menntun og rannsóknir almennt. „Það er ekki bara gott fyrir náttúruna og vörslu auðlinda heldur jafnframt traust undirstaða markaðssetningar og sölustarfs. Þó að fiskveiðistjórnunarkerfið okkar sé umdeilt þegar kemur að framsalshlutanum, megum við alls ekki gleyma hinum hlutanum sem snýr að auðlindinni sjálfri og hversu góðum árangri við höfum náð varðandi nýtingu og verndun hennar. Hversu vel hefur gengið að fá alþjóðlegar vottanir á okkar fiskistofna sýnir hve vel við höfum unnið,“ segir Sólveig Arna.

FJÖLGEISLA DÝPTARMÆLIR Ný endurbætt útgáfa 5 geisla dýptarmælismynd Stærðar- og þéttnigreining fiskitorfa 224 geisla botnstykki og sendihluti Fáanlegur í 80 kHz — meira langdrægi Hefur reynst frábærlega við makrílleit Einfaldur í notkun — íslenskar valmyndir

Fáðu rétta heildarmynd

– af botni og fiskitorfum!

NGÁÝFA!

ÚT

Sónar ehf Sími 512 8500 sonar@sonar.is www.sonar.is

www.godverk.is

CHIRP breiðbands dýptarmælir

Heildstætt söluferli Þegar kemur að söluferlinu segir Sólveig Arna að HB Grandi einblíni ekki á kynningu fyrir söluaðilum. ,,Við hugum að öllu ferlinu og verklagi á hverju stigi. Til að mynda förum við með skipstjórnarmönnum og vinnslufólki út á markaðina og sjáum vöruna eins og hún kemur fyrir augu neytenda, skoðum saman þá samkeppni sem hún mætir, gæða- og verðlega og veltum fyrir okkur hvernig hægt sé að gera enn betur og styrkja okkar stöðu. Þegar núverandi eða tilvonandi viðskiptavinir koma í heimsókn til okkar reynum við einnig að sýna þeim heildarmyndina, tæki og búnað eins og skipin og vinnslurnar en einnig kerfin sem við notum og tæknina, hvernig við getum fylgst með veiðunum í rauntíma og gert áætlanir til lengri og skemmri tíma sem taka mið af þörfum markaðarins. Við reynum einnig að virkja þá í að koma til okkar með sínar hugmyndir og fá fram þeirra sýn.“ Ekki í keppni við ódýran fisk Sólveig Arna segir það sína persónulegu skoðun að Íslendingar þurfi að staðsetja sig betur á mörkuðunum og beina öllum þunganum þangað sem íslenskar vörur eigi best heima. Ákveða hvar við viljum vera og róa að því öllum árum að komast þangað. „Ég myndi vilja sjá meiri samstöðu hér heima um þessi mál. Við höfum allt til að geta boðið heilnæma gæðavöru, veidda og unna af metnaði og vandvirkni og af virðingu við náttúruna. Og við eigum besta samleið með þeim sem leggja metnað sinn í að velja einungis vörur úr hæsta gæðaflokki inn í sínar verslanir, hótel eða mötuneyti,“ segir Sólveig og bætir við að í samkeppni úti á mörkuðum sé ýmsum brögðum beitt til að lækka verð. Þær aðferðir bitni oftar en ekki á gæðum og heilnæmi. „Það er mín skoðun að við eigum að hvetja til samanburðar á okkar sjávarafurðum og þeirra sem seldar eru á verðum sem ekki geta verið sjálfbær. Samanburði sem unninn er faglega og vísindalega. Ég er viss um að dropinn holar steininn á þessu sviði. Við sjáum þess nú þegar merki, ekki síst hjá yngri neytendum.“


SÓKNARFÆRI  | 51

Ný bók um fiskveiðistjórnun Bókin Fiskveiðar – fjölbreyttar áskoranir er nú að koma út á íslensku. Hún fjallar um fiskveiðistjórnun víða um heim. Sumir halda að íslenska kvótakerfið við fiskveiðistjórnun sé það besta í heimi, aðrir vilja breyta kerfinu og hefja uppboð á aflaheimildum. Bókin er eftir færeyska sjávarútvegsráðgjafann Óla Samró og hefur Hjörtur Gíslason blaðamaður þýtt hana úr færeysku. Bókin verður kynnt í Grindavík, Reykjavík og Vestmannaeyjum um sjómannadagshelgina. Efni bókarinnar er kynnt með eftirfarandi hætti á kápu bókarinnar: „Misjafnt er milli landa hvaða hagsmunum sjávarútvegurinn skal þjóna og hver það er sem á fiskinn í sjónum. Í Færeyjum segja lögin að fiskurinn sé „... ogn Föroya fólks.“ Í Noregi segja þau „... ligg til fællesskapet í Noreg“ og á Íslandi „... standi undir lífsafkomu og hagsæld þjóðarinnar.“ Í öllum löndum eru deilur milli þjóðfélagshópa. Áherslur stjórnmálamanna og atvinnulífsins eru misjafnar og miklar. Sumir telja að kvótakerfi sé besta lausnin, en aðrir telja fiskidagakerfi betra. Deilt er um hvernig aflaheimildum skuli úthlutað, eftir aflareynslu eða þær boðnar út á almennum markaði. Ósamkomulag er um hvort útlendingar megi eiga fiskiskip og aflaheimildir eða ekki. Skoðanirnar eru margbreytilegar.“ Óli Samró er fæddur 9 janúar 1963. Hann er menntaður við-

Aflaverðmætið féll vegna verkfallsins Aflaverðmæti féll verulega í febrúarmánuði vegna verkfalls sjómanna, sem lauk 19. dag mánaðarins. Það bitnaði misjafnlega á landshlutunum, mest þar sem bolfiskur er uppistaðan en minna á þeim höfnum sem nutu góðs loðnuafla eftir að veiðar hófust að loknu verkfalli. Samtals féll aflaverðmætið um 53,6%. Mest verðmæti voru á Austurlandi, 2,3 milljarðar króna og er það aðeins 13,5% samdráttur frá árinu áður, þrátt fyrir verkfallið. Þar nýtur landshlutinn loðnunnar en geldur á móti þess að enginn komunni veiddist í mánuðinum. Öll uppsjávarskipin einbeittu sér að loðnu seinni hluta febrúar. Næstmest aflaverðmæti voru á Suðurnesjum í febrúar, 1,3 milljarðar króna, sem þó er um 53% samdráttur. Það svarar til samdráttarins í heildina þó einhverju af loðnu hafi líklega verið landað í Helguvík.

skiptafræðingur frá Háskólanum í Árósum 1989. Frá árinu 1991 hefur Óli veitt sjálfstæða ráðgjöf í sjávarútvegi í Færeyjum og um allan heim. Hjörtur Gíslason er fæddur 1951. Hann hefur verið blaðamaður í 40 ár og lengst af skrifað um sjávarútveg. Hann er ritstjóri vefsíðunnar kvotinn.is sem Athygli ehf. heldur úti.

Höfundur bókarinnar, Óli Samró (t.h.) ásamt Hirti Gíslasyni sem þýddi bókina úr færeysku.

BETRI HREINSUN Á OLÍU ÖRUGGARI REKSTUR MINNA VIÐHALD

Þjónustusími 585 1070

Boosterar fyrir svartolíu

Varma og vélaverk og Alfa Laval

Kerfi til meðhöndlunar á svartolíu. Nauðsynlegur búnaður fyrir vélar sem brenna svartolíu til að tryggja að olían sé með rétta seigju og þrýsting í olíuverkinu. Fjarlægir óæskileg aukaefni úr olíunni sem hafa áhrif á vélbúnaðinn.

Varma og vélaverk er samstarfsaðili Alfa Laval á búnaði fyrir skip og fyrir matvælaframleiðslu.

Plötuvarmaskiptar Fyrir sjó/vatn/olíur eða aðra vökva. Há nýting, sveigjanleiki og lítil plássþörf.

Ferskvatnseimarar Til framleiðslu á hágæðaneysluvatni úr sjó. Hagkvæmir í notkun á glatvarma frá vélum. Unnt er að þrífa plötur án þess að taka eimara í sundur. Fæst í ýmsum stærðum.

Varma og vélaverk býður lausnir fyrir meðhöndlun á olíu til að tryggja öruggan rekstur vélbúnaðar og til að minnka viðhald. Jafnframt tryggir nýjasta þróun í ALCAP með S-skilvindum að nýting á olíu er í hámarki. Vara- og íhlutir fyrir Alfa Laval vélbúnað eru sérframleiddir til að mæta sérstaklega háum kröfum um nákvæmni og endingu. Til að ná hámarksárangri er því nauðsynlegt að nota upprunavarahlutina GENUINE spare pasts frá Alfa Laval.

KSB dælur og lokar

Olíusíur Sjálfhreinsandi olíusíur (Moatti). Hágæða síur með bakskolun sem hafa lítið þrýstifall.

Bentone kynditæki Bentone kynditæki af öllum stærðum ásamt þjónustu við kynditæki.

Skilvindur Skilvindur fyrir smurolíu, gasolíu og svartolíu sem mæta hörðustu kröfum vélaframleiðanda og tryggja öruggan rekstur á vélbúnaði.

Knarrarvogi 4 104 Reykjavík Sími 585 1070 vov@vov.is www.varmaverk.is


52  | SÓKNARFÆRI

Orðið erfitt að manna skipin Einar Hannes Harðarson, frystitogarasjómaður og formaður SVG, segir hátt gengi íslensku krónunnar sé að drepa íslenskan sjávarútveg Bjór í jólagjöf Einar nefnir breskan kaupanda sem dæmi um óskir viðskiptavina. „Þetta er fínn karl sem heitir Hugh. Hann vill öll sín flök með roði og beini. Hann hann vill bara flök frá 225 grömmum til 500 grömm og fyrir þá þjónustu borgar hann 10% hærra verð. Hann á 22 veitingastaði í Englandi sem heita Fish and chicken. Hann kaupir allan sinn fisk af sömu skipunum á Íslandi og hefur gert í mörg ár. Hann kaupir allan sinn kjúkling af sama býli og hefur gert í mörg ár og allar sínar frönsku kartöflur af sama framleiðanda árum saman. Til gamans má geta þess að hann kemur hingað til Grindavíkur árlega á svokölluðum Fjörugum föstudegi og eldar fyrir Þorbjarnarmenn í veislu sem þeir halda fyrir alla Grindvíkinga. Hann gefur öllum sjómönnum á togurum Þorbjarnar jólagjöf, 104 mönnum ásamt lausaróðrarmönnum. Það eru 10 bjórar á mann og ég held að hann gefi alls 250 sjómönnum á Íslandi jólagjafir. Ég held að þessir 10 bjórar skili honum fiski af toppgæðum enda er dextrað alveg sérstaklega við framleiðsluna fyrir hann og í þessum samskiptum ríkir gagnkvæmt traust.“

„Það sem við erum fyrst og fremst að glíma við er að gengi krónunnar er að drepa íslenskan sjávarútveg. Laun sjómanna hafa hrunið eftir verkfall vegna gengis krónunnar. Ég held að það sé brostinn á mikill flótti úr sjómannastéttinni út af launum, sérstaklega á línubátum, þar sem mesta vinnan er. Það er orðið erfitt að manna þá og þessi þróun mun fara upp allan stigann. Við höfum séð þetta gerast áður.“ Þannig lýsir frystitogarasjómaðurinn Einar Hannes Harðarson stöðunni í málefnum sjómanna um þessar mundir. „Ég held að stjórnvöld verði að grípa inn í og gera eitthvað í þessum gengismálum. Það sem stjórnvöld hafa gert hingað til hefur engu skilað,“ segir Einar, sem einnig er formaður Sjómannaog vélstjórafélags Grindavíkur.

Menn geta ekki farið hvern einasta túr „Ef þú ferð alla túra á línubát í mánuði eru heildartekjur ekki nema 800 til 900 þúsund. Það er hagvöxtur í landinu og menn geta farið í land fyrir sambærilegar tekjur. Við þær aðstæður fækkar mjög í sjómannastéttinni og verður erfiðara að manna skipin. Við höfum séð hér í Grindavík dæmi um að bátar hafi ekki farið á sjó vegna þess að ekki hefur náðst að manna þá. Við erum ekki á góðum stað hvað þetta varðar og á þrælaskútunum, sem eru línubátarnir, eru tekjurnar orðnar allt of lágar. Um það virðast allir vera orðnir sammála. Vinna er rosaleg og menn endast ekki lengi í þessu. Menn geta ekki farið hvern einasta túr til að geta haft einhver mannsæmandi laun. Menn verða að taka sér einhver frí, skrokkurinn leyfir ekki að fara alla túra. Við hjá Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur reyndum að berjast fyrir þessa menn í síðustu kjarasamningum en var erfitt því þetta er líka erfitt árferði fyrir útgerðarmennina. Þeir eiga þó að vera betur undirbúnir en við í svona árferði þar sem bestu ár íslensks sjávarútvegs eru nýliðin. Þeir hljóta að vera búnir að undirbúa sig undir það að alltaf komi niðursveifla eftir góðæri,“ segir Einar. Færri pláss, meiri vinna Einar er háseti á frystitogara og er búinn að vera á sjó í 17 ár. Hann segir að aflabrögð nú eftir verkfall hafi verið mjög góð. „Með þeirri samþjöppun sem orðið hefur í íslenskum sjávarútvegi hefur plássum fækkað gríðarlega en á móti kemur að vinnan á þessum skipum með auknum kvóta á hvert skip hefur aukist mikið. Það er orðin mikil pressa að vera á þessum togurum, því lögð er áhersla á að koma miklu magni í gegn á sem stystum tíma. Þetta hefur sloppið til hjá okkur með auknu magni en krónan er alltof sterk. Eins og allir vita sem eitthvað þekkja til íslensks sjávarútvegs er komið að hættumörkum. Það er orðið erfitt að starfa í íslenskum sjávarútvegi með krónuna svona rosalega sterka.“ Nú standa menn á frystitogur-

Einar Hannes Harðarsson, frystitogarasjómaður í Grindavík.

„Eins og allir vita sem eitthvað þekkja til íslensks sjávarútvegs er komið að hættumörkum. Það er orðið erfitt að starfa í íslenskum sjávarútvegi með krónuna svona rosalega sterka.“

Einar fagnar þeirri endurnýjun sem er að verða í togaraflotanum. Erfiðum og hættulegum störfum fækki jafnframt því sem nýting og verðmæti aukist.

um átta tíma, rúllandi vaktir, en ekki sex og sex tíma eins og áður var. „Við byrjum hálf fimm á morgnana og vinnum til hálf eitt í hádeginu. Þá er hvíld til hálf níu um kvöldið, þá hefst vinna til hálf fimm á ný á annarri vaktinni. Hin vaktin er svo á hinu rólinu. Þannig erum við að vinna 16 tíma annan sólarhringinn og 8 tíma hinn. Þetta er mjög fínt, en áður fyrr vorum við á sex tíma vöktum sem var miklu erfiðara, því þá var hvíld á milli vakta miklu minni. Eftir átta tíma hvíld er maður betur úthvíldur og mætir ferskari á vaktina,“ segir Einar.

Mismikil snyrting Á átta tíma vakt á frystitogara er að jafnaði híft einu sinni. Þegar aflinn er kominn um borð er fiskurinn hausaður og settur í kör með ískrapa og sjó til að kæla hann niður. „Á þessum 17 árum sem ég hef verið í þessu hafa orðið gífurlegar framfarir í því að kæla fiskinn niður og auka gæði hans með því. Hann verður hvítari og betra hráefni,“ segir Einar. Eftir kælinguna fer fiskurinn í flökunarvél og roðflettingu. Síðan kemur að áhöfninni að snyrta flökin, en það mismunandi hve mikil snyrtingin er. Vinnslunni er stjórnað mikið til úr landi eftir þörfum markaðarins hverju sinni og hvar hæstu verðin eru. „Stundum þarf við að vinna mikið beinlaust og á Bretlandsmarkað. Breska pundið hefur reyndar fallið eftir ákvörðunina um útgöngu er Evrópusambandinu og því skerum við meira á Ameríkumarkað. Dollarinn hefur ekki veikst eins mikið gagnvart krónunni og pundið,“ segir Einar en að lokinni snyrtingu fara flökin í stærðarflokkun og síðan er þeim pakkað í öskjur, fryst og enda loks í kössum niðri í lest.

Í stöðugri framför Á frystitogurunum er verið að fullvinna fisk eftir eftir óskum markaðsins hverju sinni. Togarinn er einskonar fljótandi frystihús, sem veiðir fiskinn auk þess að vinna hann. „Við erum í raun að vinna fiskinn í neytendapakkningar og hann er seldur út um allan heim. Gæðakröfur eru alltaf að verða meiri og meiri og við erum farnir að nýta meira af fiskinum en áður var. Nú hirðum við til dæmis alla karfahausa enda orðið ágætisverð á þeim. Við erum að fá frá 80 upp í 100 krónur fyrir kíló af hausum sem áður fyrr var hent.

Íslenskur sjávarútvegur er því alltaf í stöðugri framför. Það mun bara aukast að menn hirði og nýti allt sem kemur um borð. Meðan verðið á svokölluðum aukaafurðum fer hækkandi, verður meiri hvati til að vinna þær. Það mun til dæmis koma að því að hirða þurfi allt þorskroð. Þeir á línubátunum eru farnir að hirða slógið, en Haustak á Reykjanesi vinnur það allt. Þetta er mikið framfaraskref og laun sjómanna hækka lítillega við þetta. Sem dæmi um þær miklu breytingar sem orðið hafa á undanförnum áratugum má nefna að grálúðan var sett í bræðslu á sínum tíma. Nú er hún ein verðmætasta fisktegundin sem við veiðum við Ísland. Með því að auka nýtingu á því sem kemur um borð, munum við skapa meiri verðmæti í greininni, öllum til góðs. Það má taka dæmi um hið frábæra fyrirtæki Haustak á Reykjanesi sem er alltaf að eflast og þróa framleiðslu sína í þurrkuðum afurðum eftir gangi mála á mörkuðum. Nígería er helsti markaðurinn fyrir þurrkaðar afurðir en sá markaður er nú mjög veikur en tekur afurðir á lágu verði. Mikilvægt er að viðhalda þessum markaði þó hann sé í lægð því margir hafa atvinnu af fiskþurrkun í landinu.“

Slysum fækkar með betri skipum Einar er ánægður með þá endurnýjun sem er að verða í togaraflota landsmanna, en nýir togarar flykkjast nú til landsins. „Frystitogarinn Sólberg er nýkominn til landsins er þar verða 34 í áhöfn, en almennt eru 26 í áhöfn frystitogaranna. Þetta er í fyrsta sinn sem svona gríðarleg fjölgun verður í áhöfn á einu skipi við Ísland. Þar verða vatnsskurðarvélar í fyrsta sinn í íslenskum togara til að skera flökin niður í bita. Þeir munu nýta betur það sem um borð kemur og skapa ótrúlega verðmæti úr því sem aðrir hafa ekki enn náð að ég tel, þó það taki einhvern tíma að fínstilla vinnsluna til að ná henni eins og menn vilja hafa hana. Ég held að það sé mikið framfaraskref í íslenskum sjávarútvegi að fá þessi nýju skip, sem nú eru að bætast í flotann. Norðmenn eru búnir að vera með svona skip í 10 ár og þeir ná miklum árangri. Við viljum alls ekki dragast aftur úr þeim. HB Grandi er einnig að fá nýja ísfisktogara með mannlausri lest, sem ég held að sé mikið framfaraskref. Eins og þeir verða útbúnir, mun vinnan í lestinni nánast detta alveg út. Miðað við þær slysatölur sem ég hef séð hjá sjómönnum verða mörg slysanna á ísfisktogurum og línubátum í lestinni. Við skulum vona að slysum fækki í kjölfarið á þessari miklu tækniþróun. Það er til hagsbóta fyrir alla að ná árangri í öryggismálum sjómanna og útrýma erfiðum og hættulega störfum um borð. Í samningum sem gerðir voru í febrúar var tekist á um slysamálin og allir vonast til þess að slysum fari að fækka. Þeim fylgir mikill kostnaður en margar útgerðir eru að vinna mjög vel í þessum málum, til dæmis með skipan öryggismálafulltrúa,“ segir Einar Hannes Harðarson.


SÓKNARFÆRI  | 53


54  | SÓKNARFÆRI

Vörumerkjastjórnun í sjávarútvegi Vel mótað vörumerki endurspeglar stöðu á markaði og þá aðgreiningu sem stefnt er að gagnvart samkeppnisaðila. Með vel heppnaðri vörumerkjastjórnun geta fyrirtæki eða aðrir aðilar treyst sig í sessi og aukið virði varnings til muna. „Vörumerkjastjórnun í sjávarútvegi hefur ekki náð þeim framgangi sem æskilegt væri í íslenskum sjávarútvegi,“ segir Dr. Friðrik Larsen sem hefur sérhæft sig í því sem kalla má vörumerkjastjórnun hrávöru (e. commodity branding). Hann er jafnframt framkvæmdastjóri og eigandi Larsen Energy Branding auk þess að vera lektor í Háskóla Íslands og kenna þar vörumerkjastjórnun. „Sögulega séð hefur íslenskur sjávarútvegur aðallega gengið út á að veiða fisk og selja hann sem hrávöru á hæsta verði á markaði. Þegar ég valdi mér orkuiðnaðinn sem sérsvið fyrir um tíu árum þá stóð valið eiginlega bara á milli orku og sjávarútvegs, en ferðamannaiðnaðurinn var ekki kominn á þann stað sem er núna. Þá voru miklar breytingar fyrirséðar í orkuiðnaði og tækniþróun sem leysti út gömul fyrirtæki fyrir ný. Tækni og hugs-

þessi hugsun hefur ekki fengið brautargengi í sjávarútveginum þrátt fyrir að við höfum þetta frábæra vörumerki, Ísland,“ segir Friðrik.

Friðrik Larsen segir að íslenskur sjávarútvegur gæti haft mikinn hag af skilvirkri vörumerkjastjórnun.

un geta breyst hratt og þegar það gerist er nauðsynlegt að þekkja viðskiptavininn og þarfir hans og finna leiðir til að tengjast honum svo að þú sért sá aðili sem er að selja nýju tæknina.“

Að tengja við jákvæða ímynd „Fiskurinn hefur verið seldur beint

„Ef þú ert að selja vöru þá viltu hafa sögu að segja og tryggja þér trúverðugan aðgreiningargrunn og það höfum við sem landið Ísland,“ segir Friðrik.

út sem hrávara en ekki útfrá markaðsþenkjandi forsendum. Hugmyndafræðilega séð er það ekkert rangt í sjálfu sér. En ef við berum saman til dæmis Noreg og Ísland erlendis og spyrjum „hvar er besti lax í heimi?“ þá myndu líkast til margir vera fljótir að svara því að norskur lax sé sá besti í heimi. Í

Mexíkó borðar fólk til dæmis norskan lax á jólunum og borgar mikið fyrir því þar var búið að byggja upp þessa tengingu við Noreg og þetta köllum við vörumerkjastjórnun. Þeir hafa tengt saman jákvæða ímynd Noregs við gæðavöru og markaðssett sem slíka. Við gerum lítið af þessu,

Nýr bátur Stakkavíkur til veiða í fyrsta sinn

„Fer svolítið rólega af stað“ Hinn nýi Óli á Stað GK hefur róið sleitulítið síðan Stakkavík fékk bátinn afhentan. Óðinn Arnberg Kristinsson skipstjóri segir að aflinn sé að meðaltali um sex tonn í róðri og mætti vera meiri. „Við höfum verið hérna fyrir norðan og landað á Siglufirði. Fari aflinn að glæðast verðum við sennilega áfram hér fyrir norðan,

en annars er góður afli fyrir austan og þangað gætum við farið. Það er kominn tími á að fylla bátinn,“ segir Óðinn. „Þetta fer svolítið rólega af stað. Vantar svolítinn kraft í þetta.“ Báturinn var afhentur Stakkavík á fimmtudaginn 18. maí og fór í fyrsta róðurinn laugardaginn þar á eftir og landaði 7,7 tonnum dag-

Óli á Stað GK var smíðaður í hjá Seiglu á Akureyri.

Ker Umbúðamiðlunar eru eingöngu ætluð til leigu undir matvæli.

inn eftir. Síðan hefur verið róið daglega en aflinn yfirleitt heldur minni. Afhendingu bátsins seinkaði verulega en hann átti að vera tilbúinn í nóvember á síðasta ári. Óli á Stað er einn af stóru bátunum í krókakerfinu, tæp 30 tonn, með beitningarvél um borð, og segir Óðinn að báturinn sé mjög góður en þó þurfi að þyngja hann

að framan til að hann fari betur í sjó. Brúin er hærri á þessum bát en hinum Óla á Stað, sem nú er Sandfell SU og lestin er hærri. Hann er svipaður og Gullhólmi SH, nema að hann er 70 sentímetrum lengri og gæti borið 26 tonn, en á það á eftir að reyna. Þá er aðstaða til að gera að aflanum um borð.

Óðinn Arnberg Kristinsson skipstjóri í brúnni.

Myndir: Þorgeir Baldursson.

Vörumerkið Ísland er sterkt „Ef við hugsum hvaða þættir einkenna vörumerkið Ísland þá koma upp orð eins og hreinleiki, hrein orka og náttúra en allt eru þetta þættir sem gera okkur kleift að selja orku dýru verði. Ef þú ert að selja vöru þá viltu hafa sögu að segja og tryggja þér trúverðugan aðgreiningargrunn og það höfum við sem landið Ísland. Ef við lítum til Englands og hugsum t.d. um Grimsby eða Hull, þá hafa þessir staðir ekki þessi hugrenningartengsl við náttúruna sem Ísland hefur, og það er undirstaða vörumerkis sem þú getur byggt á,“ segir Friðrik. „Það tekur tíma að breyta hugsunarhætti og þessi tegund af markaðshugsun virðist nokkuð framandi fyrir þá sem eru að selja fiskinn. Menn eru að hugsa um nýjustu tækni til veiða og finna leiðir til að gera vöruna sem besta en átta sig ekki á hvað markaðshugsun og „branding“ gætu fært þeim. Vörumerkið er það sem þú leggur ofan á allt þetta góða sem þegar er verið gera og bæði eykur ágóða og treystir þig í sessi.“ Vörumerkjastjórnun skilar arði Friðrik segir vörumerkjastjórnun ekki snúast bara um auglýsingar heldur ákveðna heimspeki eða hugsun sem við þurfum að tileinka okkur. „Ef þú býrð yfir sterku vörumerki getur þú ekki einungis selt vöruna þína á hærra verði heldur verður auðveldara að halda í gott starfsfólk, innviðirnir styrkjast og það verður auðveldara að tala við hagsmunaaðila. Það er fullt af góðum hlutum að gerast í þessum efnum til dæmis hjá Íslandsstofu, en við erum því miður sein af stað. Noregur hefur forskot á okkur því þótt þessi hugsun sé í góðu fóstri hjá Íslandsstofu er hinn almenni söluaðili lítið að spá í þetta.“ Friðrik tekur fram að til sé heilt fræðasvið sem sýnir að vörumerkja­ stjórnun skili arði. „En iðngreinin sjálf virðist hafa ákveðið að skella skollaeyrum við því vegna þess að hún trúir ekki á þetta. Það er nákvæmlega sama með orku, við höfum alla burði til að gera þetta í orkunni, byggja upp sterkt vörumerki, og ótal dæmi sýna að hægt er að selja hrávöru dýrara ef þú notar skilvirka vörumerkjastjórnun. Þetta er margrannsakað. Lokum ekki á aðra hugsun, það gæti verið eitthvað þarna úti sem hækkar arðsemina og hví þá ekki að hlusta á þetta?“


SÓKNARFÆRI  | 55

Danfoss ofnhitanemar í fararbroddi í 7 áratugi

Þægindi

orkusparnaður Með RA 2000 ofnhitanema á ofninum er nýtingin á varma með besta móti.

Einn lykillinn að meira en 20 ára endingartíma RA 2000 ofnhitanemans er gasfyllingin, sem ólíkt öðrum fyllingum, býr alltaf yfir sömu stjórnunar- og viðbragðsgetu. Þetta gerir RA 2000 ofnhitanemann að mun betra stjórntæki en aðrar gerðir ofnhitanema. Viðbragðstími annarra algengra gerða af hitanemum er allt að 70% lengri. TELL - Thermostatic Efficiency Label er nýtt orkunýtnimerkingarkerfi fyrir Evrópska ofnhitanema og lokahús. RA 2000 ofnhitanemarnir frá Danfoss eru fyrstu ofnhitanemarnir á markaðnum til að fá orkunýtnimerkingu A frá TELL Danfoss hf. • Skútuvogi 6 • 104 Reykjavík • Sími: 510 4100


56  | SÓKNARFÆRI

Allt fyrir kælingu & frystingu

Bitzer kæli- & frystivélar ofl.

Hraðopnandi iðnaðarhurðir fyrir kæli & frystiklefa ofl.

Eimar & eimsvalar

Ísvélar

Tilbúin kæli- & frystikerfi

North Star ísvélar

Mycom kæli- & frystivélar & varahlutir

Kælivélaolíur

Kæli- & frystiklefar, hurðir & Iðnaðareiningar fyrir stærri öryggisbúnaður kæli- & frystigeymslur

rð R auðage

i 25 · 108 Reykjavík · Sími 440 180

0 · ww

w.ka e

Plaststrimlahurðir

Kælimiðlar R507, R404, R134 ofl.

litae kni.

Okkar þekking nýtist þér


Konur í sjávarútvegi fengu hvatningarverðlaun SFS Félagið Konur í sjávarútvegi (KIS) hlaut hvatningarverðlaun sjávarútvegsins árið 2017 en þau eru veitt einstaklingi eða félagasamtökum sem hafa lagt sitt af mörkum til að bæta og efla íslenskan sjávarútveg Það var Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), sem afhenti Freyju Önundardóttur, formanni KIS hvatningarverðlaunin á ársfundi samtakanna á dögunum en þau eru forláta skál, með sterka skírskotun til sjávarútvegs, eftir leirlistakonuna Ingu Elínu. Kom fram hjá formanninum að SFS þætti stofnun félags kvenna í sjávarútvegi þarft og áhugavert framtak. Með því hafi konur innan sjávarútvegsins stigið enn frekar fram sem talsmenn greinarinnar á breiðum grundvelli og breytt um leið ímynd þessarar mikilvægu greinar. Félagið Konur í sjávarútvegi er ungt að árum. Upphaf þess má rekja til vorsins 2013 þegar 10 konur sem allar störfuðu í sjávarútvegi hittust og ræddu þörfina á að skapa vettvang fyrir konur í greininni. Allar konur sem starfa innan haftengdrar starfsemi geta orðið félagar og eru félagskonur Í KIS orðnar rúmlega 200 talsins í dag. Félagið hefur reynst öflugur vett-

Sjófrystingin tók dýfu Gífurlegur samdráttur varð í sjófrystingu í febrúarmánuði síðastliðnum. Skýringin liggur að sjálfsögðu í verkfalli sjómanna sem leystist ekki fyrr en 19. febrúar. Fyrir vikið varð litlu sem engu landað af frystitogurum í mánuðinum. Þar sem veiðidagar í mánuðinum voru aðeins 9 og lönduðu þeir allir eftir mánaðamótin febrúar mars. Á hinn bóginn var eitthvað af loðnu sjófryst í mánuðinum. Verðmæti afla úr sjófrystingu í febrúar var aðeins 274 milljónir króna, var 3,1 milljarður í sama mánuði í fyrra. Það er samdráttur um 91,3%. Að sama skapi hrundi útflutningur á ferskum fiski í gámum úr 302 milljónum króna í 83,2 milljónir eða um 72,4%. Verkfallið bitnaði meira á ráðstöfun afla beint til vinnslu innan lands en á fiskmörkuðum. Verðmæti í beinum viðskiptum var 4,1 milljarður króna og dróst saman um 42,1%. Verðmæti fiskafla sem landað var á fiskmörkuðum var 1,3 milljarðar króna, sem er 30,6% samdráttur.

vangur fyrir konur sem starfa í sjávarútvegi og greinum tengdum honum til að efla tengslanet og samstarf og kynna sjávarútveginn sem öfluga og fjölbreytta atvinnugrein. Hefur félagið m.a. staðið að viðamikilli rannsókn á aðkomu kvenna að sjávarútvegi þar sem kortlögð eru tækifæri til vaxtar fyrir sjávarútveginn með aukinni þátttöku og eflingu kvenna innan greinarinnar.

SÓKNARFÆRI  | 57

Freyja Önundardóttur, formaður Félags kvenna í sjávarútvegi og Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Mynd: SFS


58  | SÓKNARFÆRI

Ferjan Mykines er engin smásmíði, eins og sjá má á þessari loftmynd yfir Þorlákshafnarhöfn, eða 19 þúsund tonn, ríflega 138 metra löng, tæplega 23 metra breið og getur flutt 90 tengivagna og 500 bíla í hverri ferð. Mynd: Hafnarfréttir

Smyril Line Cargo er fyrsta skipafélagið sem hefur reglubundnar vikulegar millilandasiglingar til Þorlákshafnar og var íbúum Sveitarfélagsins Ölfuss, nærsveitarmönnum og öllum sem áhuga höfðu, boðið að skoða ferjuna í Mynd: Profilm fyrstu ferð hennar til landsins.

Þorlákshöfn

Aukin umsvif í kjölfar vikulegra siglinga Smyril Line Cargo Flutningar til og frá landinu með færeysku ferjunni Mykines, sem siglir vikulega milli Þorlákshafnar og Rotterdam, eru langt umfram áætlun, bæði innflutningur og útflutningur, nú þegar um tveir mánuðir eru liðnir frá því að siglingarnar hófust. „Viðbrögðin hafa verið framar okkar björtustu vonum. Það var strax mikil eftirspurn eftir flutningum á bílum og stórum tækjum og vinnuvélum til landsins, ásamt allskyns bygginga- og neytendavörum og útflutningurinn hefur

líka farið mjög vel af stað en þar er farmurinn mestmegnis fiskur,“ segir Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line Cargo á Íslandi.

Auknar landanir vegna ferjusiglinganna Hafnarstjórinn í Þorlákshöfn tekur í sama streng og segir mikið að gera við að þjónusta fiskútflytjendur, bæði hjá Fiskmarkaðnum í Þorlákshöfn og kæli- og frystigeymslunni Kuldabola. Þá hafi færst mjög í vöxt að íslenskir fiskibátar og togarar landi í Þorláks-

höfn stuttu fyrir brottför ferjunnar, til að koma aflanum sem ferskustum á markað í Evrópu. „Fyrirspurnum um lóðir hér í Þorlákshöfn, bæði fyrir íbúðarhús og atvinnustarfsemi, hefur líka fjölgað mikið eftir að siglingarnar hófust og er nú unnið að því hjá sveitarfélaginu að skipuleggja um 50 hektara athafnasvæði með misstórum lóðum í næsta nágrenni hafnarinnar,“ segir Hjörtur Bergmann Jónsson hafnarstjóri.

Hafnarframkvæmdum að ljúka Það er því ekki útlit fyrir að lát verði á framkvæmdum í Þorlákshöfn á næstunni en þar hafa staðið yfir miklar hafnarframkvæmdir undanfarið. Dýpkunarframkvæmdum lauk fyrir nokkru og vinna við breikkun innsiglingarinnar er á síðustu metrunum og verður þá ennþá rýmra og betra fyrir ferjuna að leggjast að bryggju segir hafnarstjórinn en áréttar jafnframt að ekkert óvænt hafi komið upp á frá því að siglingarnar hófust þann 7. apríl sl.

Mykinesið er með stærstu skipum, ef ekki stærsta skip, sem lagst hefur að bryggju í Þorlákshöfn og með siglingum þess stóreykur Smyril Line Cargo þjónustu sína við íslenska markaðinn, ekki síst á suðvesturhorni landsins. Ferjan kemur til Þorlákshafnar á föstudögum, siglir þaðan samdægurs og er komin til Rotterdam á mánudegi. Þaðan fer hún aftur til Íslands á þriðjudegi með viðkomu í Færeyjum. smyrilline.is

Sjómenn: Gleðilegan sjómannadag 11. júní! Félag skipstjórnarmanna

Hvalur hf. Reykjavíkurvegi 48 220 Hafnarfjörður

Farmanna- og fiskimannasambandið

FJARÐABYGGÐ

Sigurbjörn ehf. Grímsey

Fiskmarkaður Suðurnesja hf www.fms.is


SÓKNARFÆRI  | 59

FPT báta- og skipavélar Nútímatækni - Mikið afl - Góð eldsneytisnýting - aðalvélar í báta og skip

FTP tvisvar verið með “DIESEL OF THE YEAR”

Tí Tímaritið Diesel valdi Cursor 16-díselvélina sem DIESEL OF THE YEAR ® 2014. „Diesel hefur í tuttugu ár fjallað um málefni sem tengjast þróun, framleiðslu og notkun díselvéla í Evrópu og verðlaunin staðfesta þann árangur í rannsóknum og nýsköpun sem við byggjum á,“ sagði Massimo Siracusa, aðstoðarforstjóri framleiðslu hjá FPT.

Floscan eyðslumælar fyrir díselvélar Marsili hefur framleitt stýrisdælur í meira en 50 ár og bjóða þær fyrir bæði 12 og 24 volta spennu. Gæðavara á góðu verði.

Halyard hljóðkútar og pústlagnir Tidesmarine öxulþétti með varapakkdós

- hlutlaust gagnvart raftæringu - sjókæling á pakkdós og legu - engir hreyfanlegir hlutir - ryðgar ekki

Halyard framleiða hljóðkúta sem geta minnkað hávaða um 40% með hefðbundnum hljóðkút, um 70% með tvöföldum hljóðkút og allt að 90% með vatnsblöndun í hljóðkút.

Whale og Cim lensidælur Öflugar 24 volta CIM dælur úr níðsterku og sjóþolnu plasti með afköst upp á 13.200 l/klst og lyftihæð upp á 8 metra.

Ambassador skrúfuhnífar minnka tæringu

Ambassador skrúfuhnífarnir eru ekki bara hnífur til að skera bönd og kaðla af skrúfuöxlum, því hönnunin minnkar einnig tæringu á skrúfublöðunum. Hnífurinn er með straumgöng sem beina sjóstraum að blöðunum sem splundra loftbólunum sem myndast.

Tecnoseal sink í mörgum stærðum

Aflmiklar og hraðvirkar Whale lensidælur. Stíflast ekki og engin þörf á síu. Hönnun sem byggir á áratuga reynslu

BT Marine báta- og skipaskrúfur

BT Marine er leiðandi í hönnun og framleiðslu á skrúfum, öxlum og stefnisrörum. Skrokklag skipa og báta er mismunandi og þess vegna þarf að velja góðan skrúfubúnað til að hámarka nýtingu á vélarafli.

Helac snúningsliðir fyrir lúgur

Umboðsaðilar á landsbyggðinni:

ÁSAFL

Hjallahrauni 2 - 220 Hafnarfjörður Sími 562 3833 -www.asafl.is


60  | SÓKNARFÆRI

Það er gott að vera í viðskiptum við Samskip Pétur Hafsteinn Pálsson

ENNEMM / SÍA / NM78585

framkvæmdastjóri Vísis

> Við hjá Samskipum leggjum okkur fram um að kynnast viðskiptavinum okkar og þekkja þarfir þeirra Samskip bjóða upp á heildarlausnir á sviði flutninga og við leggjum stolt okkar í að uppfylla væntingar kröfuharðra viðskiptavina. Persónuleg og traust þjónusta um allan heim.

Saman náum við árangri

www.samskip.is


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.