4 minute read

Formáli

Þetta er ekki eiginleg uppeldisfræðibók.

Ég er ekki að fjalla um koppaþjálfun eða hvernig á að venja barn af bleyju.

Advertisement

Þessi bók fjallar um hvernig samskiptum okkar við börnin er háttað, hvað stendur í vegi fyrir góðum tengslum og hvað getur styrkt þau.

Hún fjallar um hvernig við vorum alin upp og hvernig það hefur áhrif á uppeldisaðferðir okkar, um mistökin sem við gerum – sérstaklega þau sem við ætluðum okkur aldrei að gera – og hvernig við getum unnið úr þeim.

Hér er ekki að finna mikið um ráðleggingar eða galdralausnir fyrir uppeldið en aftur á móti eru líkur á að bókin komi þér úr jafnvægi, reiti þig til reiði, geri þig jafnvel að betra foreldri, hver veit.

Til að gera langa sögu stutta þá skrifaði ég bókina sem ég hefði þurft að hafa við höndina sem nýbakað foreldri og sem ég hefði svo sannarlega viljað að foreldrar mínir hefðu haft við höndina.

Inngangur

Nýlega horfði ég á uppistand grínistans Michael McIntyre. Þar talaði hann um að allt umstang í kringum börnin okkar snerist um fernt: koma þeim í föt, gefa þeim að borða, þrífa þau og koma þeim í rúmið. Hann sagði að áður en hann eignaðist börn hefði hann haft þá rómantísku sýn að barnauppeldi snerist um lautarferðir og ærslalæti úti í náttúrunni. Raunveruleikinn væri hins vegar viðvarandi barátta við að fá þau til að gera þessa fjóra grundvallarhluti. Áhorfendur hlógu dátt á meðan hann lýsti fyrir þeim atganginum við að sannfæra börnin um að láta þvo á sér hárið, fara í úlpu, fara út að leika eða borða grænmetið á disknum. Þetta var hlátur foreldra, máske samskonar foreldra og þú ert, sem vissu hvað Michael var að tala um. Foreldrahlutverkið* getur verið gríðarlega erfitt. Það getur verið leiðinlegt, lýjandi, ergjandi og átakasamt en um leið það fyndnasta, ánægjulegasta, kærleiksríkasta og unaðslegasta sem þú munt nokkurn tíma upplifa.

Okkur getur reynst erfitt að sjá foreldrahlutverkið í samhengi á meðan við erum á kafi í bleyjuskiptum, að annast veikt barn eða að takast á við bræðikast (smábarns eða unglings). Sama má segja þegar við komum heim að vinnudegi loknum til að sinna okkar eiginlegu vinnu þar sem við þurfum að þrífa matarklessur af barnastólnum eða

* Með orðinu „foreldri“ vísa ég í einstakling sem er ábyrgðaraðili barns, hvort sem er líffræðilega eða lagalega eða sem náinn ættingi eða vinur; „foreldri“ í þessu samhengi er því samnefni fyrir „forsjáraðili“. Stundum nota ég hugtakið „umönnunaraðili“; það getur vísað til foreldris, staðgönguforeldris, stjúpforeldris, gæsluaðila (gegn eða án greiðslu) eða annarra aðila sem gegna ábyrgðarhlutverki gagnvart barninu.

10

Bókin sem þú vildir að foreldrar þínir hefðu lesið

lesa enn einn lúsapóstinn frá leikskólanum eða skólanum. Þessari bók er ætlað að auðvelda þér að sjá heildarmyndina, að gera þér kleift að stíga aðeins til baka til að greina hvað það er sem skiptir máli og hvað gerir það ekki, og hvað þú getur gert til að hjálpa barninu þínu að þroskast í þá manneskju sem það geymir innra með sér.

Grundvöllur alls uppeldis eru tengsl þín við barnið þitt. Ef fólk væri plöntur væru tengslin jarðvegurinn. Tengslin styðja, næra, stuðla að vexti – eða hefta hann. Börn upplifa sig óörugg án traustra tengsla. Tengslin eiga að vera uppspretta stuðnings og styrks fyrir barnið þitt – og, þegar fram líða stundir, fyrir börn þess líka.

Í gegnum starf mitt sem sálfræðingur hef ég hlustað á og rætt við fólk sem hefur átt í vandræðum með mismunandi þætti foreldrahlutverksins. Ég hef getað rýnt í hvernig tengsl verða vanvirk – og hvernig hægt er að virkja þau að nýju. Markmið þessarar bókar er að deila með þér hvað skiptir máli í uppeldinu. Í henni er fjallað um hvernig á að vinna með tilfinningar – bæði þínar og barnanna – hvernig þú getur „stillt“ þig inn á barnið til að skilja það betur og hvernig þú getur myndað raunveruleg tengsl við þau í stað þess að sitja föst/fastur í lýjandi endurteknu mynstri átaka eða flótta.

Ég legg áherslu á uppeldi til langs tíma í stað einfaldra ráðlegginga. Ég hef meiri áhuga á að skoða hvernig við tengjumst börnunum okkar heldur en hvernig við getum stjórnað þeim. Í bókinni hvet ég fólk til fara yfir upplifanir í sinni eigin barnæsku til að greina það góða sem það getur skilað áfram og bælt niður birtingarmyndir neikvæðari hluta þess. Ég fer í gegnum hvernig við getum bætt öll okkar tengsl þannig að þau komi börnunum okkar til góða í uppvextinum. Ég fjalla um hvernig viðhorf okkar á meðgöngu geta haft áhrif á hvernig við tengjumst barninu okkar og hvernig er gott að hátta samskiptum við smábarn, barn, táning eða fullorðið barn þannig að hægt sé að mynda tengsl við það sem veita því styrk og stuðning og þér ánægju; og, um leið, hvernig hægt er að fækka orrustunum við að klæða, fæða, þrífa og svæfa.

Þessi bók er fyrir foreldra sem elska börnin sín og vilja einnig líka vel við þau.

This article is from: