Tíðindi, 3. árg., 3. tbl

Page 1

Samband íslenskra sveitarfélaga

Tíðindi l. b t 3. rs ma 5 1 20


Þjónusta við fatlað fólk Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 27. febrúar sl. var m.a. fjallað um samþykkt stjórnarfundar Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks, dags. 23. febrúar 2015, þar sem því er beint til aðildarsveitarfélaganna að óska eftir viðræðum við velferðarráðuneytið um að ríkið taki við málaflokki fatlaðs fólks á Vestfjörðum úr höndum sveitarfélaga vegna aðstæðna sem upp eru komnar og eru frekar skýrðar í samþykktinni. Á fundi stjórnar sambandsins greindi framkvæmdastjóri sambandsins frá störfum verkefnisstjórnar um endurmat á yfirfærslu á þjónustu við fatlað fólk sem fundar nú vikulega og stefnir að því að skila niðurstöðum fyrir lok apríl nk. Fjallað verður um endurmatsvinnuna á stjórnarfundi sambandsins 27. mars nk. og einnig á landsþingi sambandsins sem haldið verður 17. apríl nk. Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða á fundinum: Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga lýsir yfir áhyggjum af þeirri þróun, sem margir sveitarstjórnarmenn hafa greint frá undanfarið, að ekki sé næg fjármögnun til að standa undir útgjöldum við þjónustu við fatlað fólk. Sveitarfélögin hafa lagt metnað sinn í að standa vel að þessari þjónustu og mikilvægt er að endurmatið taki mið af því og að ekki verði horfið til baka í þeirri viðleitni. Stjórn sambandsins leggur áhersla á, að niðurstöður endurmatsins leiði til þess að framtíðarfjármögnun þjónustunnar verði tryggð og ekki þurfi að koma til þess að sveitarfélögin verði að skila verkefninu

aftur til ríkisins. Að sama skapi er áríðandi að útkoma endurmatsins, og samningaviðræðna á grundvelli þess, liggi fyrir sem fyrst til að draga úr þeirri óvissu sem skapast hefur í málaflokknum vegna vanfjármögnunar hans. Náist ekki niðurstaða fyrir mitt þetta ár um fullnægjandi fjármögnun þjónustunnar til framtíðar, að mati stjórnar sambandsins, verði þegar hafist handa við að undirbúa það að ríkið taki málaflokkinn aftur til sín frá næstu áramótum.


Málþing um samþætta nærþjónustu sveitarfélaga Samband íslenskra sveitarfélaga hélt, í samvinnu við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, umræðu- og upplýsingafund um málefni fatlaðs fólks undir yfirskriftinni: Málefni fatlaðs fólks innan samþættrar nærþjónustu sveitarfélaga. Fundurinn var haldinn fimmtudaginn 19. febrúar 2015 kl. 13:15 - 16:40 í Gullteigi á Grand hóteli í Reykjavík. Meðal frummælenda á fundinum var Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. Markmið fundarins var m.a. að fara yfir stöðu mála á því tímamarki þegar málefni fatlaðs fólks eru að festa sig í sessi sem hluti af samþættri nærþjónustu sveitarfélaga. Að ræða áskoranir í þróun þjónustunnar og að kynna lausnir á helstu faglegum málum sem unnið hefur verið að samhliða endurmati á yfirfærslunni, m.a. um atvinnumálin og um húsnæðisúrræði og tengda þjónustu Upptaka frá fundinum 19. febrúar.


TÍÐINDI

Náum áttum Forvarna og fræðsluhópur um velferð barna og unglinga

Náum áttum er fræðslu- og forvarnahópur sem skipuleggur morgunverðarfundi um ýmis mál er varða forvarnir og velferð barna og ungmenna. Í hópnum eiga sæti fulltrúar nokkurra stofnana og félagasamtaka sem ákveða saman fundarefni og skipuleggja dagskrá fundanna og útvega einnig fyrirlesara og aðstöðu. Fyrstu fundir Náum áttum voru haldnir árið 2000 en síðan þá hafa um 70 fundir verið haldnir við góðar undirtektir hinna ýmsu fag- og leikmanna en fundina hafa sótt að meðaltali 70 - 80 manns. Á þessum tíma hafa yfir 200 fyrirlestrar verið fluttir og bæði fræðimenn, stjórnamálamenn, foreldrar, ungmenni og sérfræðingar á ýmsum sviðum komið við sögu. Það sem hefur einkennt

4

fundina er góð stemning og hversu fjölbreyttur hópur hefur sótt þá. Upplýsingar um alla fundina má finna á heimasíðu Náum áttum og þar má einnig nálgast upptökur af síðusstu fundum og ítarefni eins og glærur með fyrirlestrum, upplýsingar sem og skráningarform fyrir fundina. Næsti fundur verður haldinn á Grand Hóteli í Reykjavík miðvikudaginn 18. mars en þá verður fjallað um geðheilbrigði barna, viðbrögð, úrræði og nýjar leiðir. Upptaka frá fundinum 25. febrúar 2015


TÍÐINDI

Starfsmaður frá GERT á skrifstofu sambandsins Síðastliðinn þriðjudag, 10. mars, kom til starfa á skrifstofu sambandsins Þorvarður Kjerúlf Sigurjónsson, en hann er verkefnisstjóri GERT verkefnisins sem er samstarfsverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka iðnaðarins. Markmið þess er að efla áhuga nemenda á raunvísindum og tækni og virkja atvinnulíf og skóla í því skyni. Stýrihóp verkefnisins mynda Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, Ásta Magnúsdóttir,

ráðuneytisstjóri menntamálaráðuneytisins, og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandins. Svandís Ingimundardóttir er fulltrúi sambandsins í verkefnisstjórn. Þorvarður er í MBA námi og sinnir starfi verkefnisstjóra (starfsnemastaða) í 50% stöðu samhliða. Hann hefur haft vinnuaðstöðu hjá SI, síðan hjá menntamálaráðuneytinu, en verður í næstu 2 mánuði á skrifstofu sambandsins, 2-3 daga í viku eftir atvikum.

5


TÍÐINDI

Um orlof húsmæðra Framlag til orlofsnefnda Samkvæmt upplýsingum frá Velferðarráðuneytinu skal framlag sveitarfélaga til orlofsnefnda á hverju svæði vera 104,15 krónur fyrir hvern íbúa sveitarfélagsins. Framlag þetta skal greiða orlofsnefnd viðkomandi orlofssvæðis fyrir 15. maí nk. sbr. 5. gr. laga nr. 53/1972.

Frumvarp um afnám laga um húsmæðraorlof Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um afnám laga um orlof húsmæðra. Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a.:

Lögin voru sett á þeim tíma þegar barnauppeldi og heimilishald var að mestu í höndum kvenna og stór hluti þeirra starfaði einungis á heimilum án þess að til kæmu launagreiðslur. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og margt áunnist í jafnréttisbaráttu, barnauppeldi er nú sameiginlega á ábyrgða beggja foreldra, konur eru virkari þátttakendur á vinnumarkaði en áður var og mynda meiri hluta þeirra nemenda sem stunda nám við háskóla landsins. Frumvarpið á vef Alþingis

Frá kvennafrídeginum 1975, myndin er tekin af vefnum kvennafri.is

6


TÍÐINDI

Ályktun í tilefni af alþjóðadegi kvenna 8. mars Evrópusamtök sveitarfélaga og svæða, CEMR, beina því til Evrópustofnana að styðja betur við jafnréttisstarf sveitar- og svæðisstjórna því tölulegar upplýsingar sýni að kynjajafnrétti eigi ennþá langt í land. 22% kvenna hafa upplifað ofbeldi í nánum samböndum, þær fá 16% minna kaup fyrir sams konar vinnu og þær eru ennþá í minnihluta þegar kemur að störfum sem fela í sér ákvörðunarvald. Án frekari stuðnings sé hætta á að það dragi úr jafnréttisstarfi á sveitarstjórnarstiginu eða það hverfi jafnvel alveg. ESB þurfi að styðja við tölfræðilega vinnslu á stöðu kynjajafnréttis á sveitarstjórnarstiginu og aðstoða við þróun verkfæra til að mæla árangur. ESB þurfi einnig að

hafa sveitarstjórnastigið með í ráðum í stefnumótun sinni en ESB vinnur nú að stefnumótun um jafnrétti kynjanna eftir 2015. Nánari upplýsingar má finna á vef CCRE. Alþjóðasamtök sveitarfélaga og borga, UCLG, benda til viðbótar á að aðeins 16% borgarstjóra höfuðborga heimsins séu konur og aðeins 7,8% forsætisráðherra. UCLG bendir á að ekki sé hægt að ná félagslegu réttlæti, nema með því að tryggja fulla þátttöku kvenna í ákvörðunartökuferlum. Sjálbær þróun þurfi að byggjast á kynjaðri stjórnun. Sjá nánar á vef UCLG.

7


TÍÐINDI

Síðasti möguleiki til að komast á námskeið fyrir kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum Sambandið hefur í vetur staðið fyrir níu námskeiðum fyrir nýkjörna sveitarstjórnarmenn, hvort sem þeir eru nýir í sveitarstjórn eða ekki. Tvö námskeið voru haldin á Vestfjörðum, Norðurlandi eystra og Suðurlandi og eitt námskeið á Vesturlandi, Norðurlandi vestra og Austurlandi. Reynt sveitarstjórnarfólk, þau Smári Geirsson, Fjarðabyggð, og Svanfríður Inga Jónasdóttir Dalvíkurbyggð, hafa skipst á um að stýra námskeiðunum en auk þeirra hafa sérfræðingar sambandsins á fjármála- og lögfræðisviði verið leiðbeinendur. Ákveðið hefur verið að síðasta námskeiðið verði haldið í Reykjavík, daginn eftir landsþing sambandsins, þ.e. laugardaginn 18. apríl, og að það verði opið sveitarstjórnarmönnum af öllu landinu.

8

Reynslan hefur einnig sýnt að framkvæmdastjórar sveitarfélaga og nefndarformenn hafa talið sig eiga erindi á námskeiðin. Á námskeiðinu er farið yfir hlutverk sveitarstjórnarmanna, stjórnkerfi sveitarfélaga og réttindi, skyldur og ábyrgð sveitarstjórnarmanna, fjármál sveitarfélaga, stjórntæki sveitarstjórna og samskipti og samstarf. Í tilefni námskeiðanna hefur verið gefið út fræðslurit: „Að vera í sveitarstjórn“, sem þátttakendur fá. Alls hafa 206 tekið þátt í námskeiðunum og samkvæmt matssvörum eru þátttakendur mjög ánægðir með þau. Skráning á námskeiðið verður á www. samband.is og verða nánari upplýsingar þar að finna.


TÍÐINDI

Minni sóun – meiri hagkvæmni Fimmtudaginn 19. mars 2015 efnir Samband íslenskra sveitarfélaga til málþings um stöðu úrgangsmála, undir heitinu „Minni sóun, meiri hagkvæmni“. Málþingið fer fram á Hótel Nordica í Reykjavík og hefst kl. 09:30. Málþingið verður tvískipt, fyrri hlutinn stendur til kl. 14:15 og er öllum opinn en seinni hlutinn er einungis ætlaður kjörnum sveitarstjórnarmönnum og starfsfólki sveitarfélaga. Sérstakur gestur á málþingsins verður Weine Wiquist, framkvæmdastjóri Avfall Sverige og formaður stjórnar Municipal Waste Europe, samtaka fyrirtækja á vegum sveitarfélaga í Evrópu sem sinna

úrgangsmeðhöndlun. Fundarstjóri verður Bjarni Torfi Álfþórsson, stjórnarformaður Sorpu bs. og bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi. Þátttökugjald er 7.000 krónur, innifalið er léttur hádegisverður (súpa og brauð) og kaffi og með því eftir hádegisverð. Dagskrá málþingsins og skráning.

9


TÍÐINDI

Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga Mikil umræða á sér nú stað í samfélaginu um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Af því tilefni hefur Samband íslenskra sveitarfélaga tekið saman margvíslegar upplýsingar um þennan mikilvæga lið í velferðarþjónustu sveitarfélaga. Síðan verður uppfærð reglulega með nýjum gögnum, m.a. afritum af umsögnum sveitarfélaga um frumvarp það sem er til meðferðar hjá velferðarnefnd Alþingis. Með því móti vill sambandið stuðla að opinni og upplýstri umræðu um málið, en mikil áhersla er lögð á að það fái afgreiðslu á Alþingi fyrir þinglok í vor. • Skýrsla hagdeildar ASÍ frá nóvember 2013 • Skýrsla unnin fyrir Vinnumálastofnun frá desember 2014

10

Til upplýsingar um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga Almennt er hverjum manni skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Hins vegar er sveitarfélögum skylt að veita íbúum sínum þjónustu og aðstoð sé þörf á því. Því geta einstaklingar undir ákveðnum viðmiðunarmörkum eða einstaklingar án framfærslu átt rétt á því að sækja um fjárhagsaðstoð hjá sínu sveitarfélagi. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er veitt samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglum hvers sveitarfélags fyrir sig, en sveitarfélög skulu setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar. Fjárhagsaðstoð skal ávalt veitt til þess að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf.


TÍÐINDI

Fjárhagsaðstoð skal ávalt veitt til þess að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf.

• Skýrsla um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga Í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga 2014 – 2018 segir m.a.: 3.3.16 Sambandið skal vinna að því að félagslegur stuðningur sé skilgreindur út frá þörfum þeirra einstaklinga og fjölskyldna sem þurfa á aðstoð að halda, óháð aldri, heilbrigði eða fötlun þeirra. Stefnt verði að því að lög um félagsþjónustu nái til allra og sérlög um einstaka hópa verði felld úr gildi.

3.3.17 Sambandið skal vinna að því að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga verði skilgreind sem neyðaraðstoð og öryggisnet fyrir þá sem eru að fara á milli annarra framfærslukerfa eða eiga af einhverjum ástæðum ekki rétt á annarri framfærslu. Áhersla verði lögð á að virkja þá, sem þurfa á neyðaraðstoð að halda, til sjálfshjálpar með fjölbreyttum virkniúrræðum sem henta þörfum sem flestra.

11


TÍÐINDI

Fjármála- og verkefnastjórnun hjá sveitarfélögum

Almenn skilgreining á hugtakinu „stjórnun“ er að hafa áhrif á þá, sem vinna innan ákveðinnar heildar, á þann veg að starfið beinist í þá átt sem stjórnandinn telur æskilegt. Það byggir meðal annars á því að þeir verkferlar, sem nauðsynlegir eru til að ná settum markmiðum, séu nýttir til hins ítrasta. Starfsemi sveitarfélaga er þess eðlis að stjórnun felur í sér að taka þarf bæði mið af fjármálalegum þáttum svo og þeirri þjónustu sem sveitarfélagið er skuldbundið að veita íbúunum.

Einkafyrirtæki mælir árangur sinn í rekstrarafkomu eða ágóða með öðrum orðum. Árangur í rekstri sveitarfélags er mældur á annan hátt. Hann getur bæði verið mældur í magni þjónustunnar og gæðum hennar. Hann getur einnig verið mældur í fjárhagslegri stöðu þess. Endanleg niðurstaða í mati á árangri í rekstri sveitarfélagsins hlýtur að vera blanda af þessu öllu, þjónustumagni, gæðum þjónustunnar og fjárhagslegri afkomu. Markmiðið hlýtur að vera að fá sem mesta og besta þjónustu fyrir sem minnsta fjármuni.

Hvernig er árangur í starfsemi sveitarfélagsins metinn? Árangur í starfsemi sveitarfélags er metinn á annan hátt en starfsemi fyrirtækis í einkarekstri.

Sveitarfélögin eru í þessu sambandi farin að leggja sívaxandi áherslu á mat á árangri þjónustunnar, mati á viðhorfum íbúanna og skilvirkni í ráðstöfun

12


TÍÐINDI

Fjármál sveitarfélaga

Fjárhagur 3. hluti ákvarðanir sem teknar hafa verið. Að lokum þarf að vera fyrir hendi eftirlit með að verk séu framkvæmd í samræmi við samþykktar áætlanir og eftirfylgni með að færa til betri vegar það sem ástæða þykir til. Innra eftirlit hefur að markmiði að tryggja að það náist að uppfylla sett markmið í starfsemi sveitarfélagsins. Innra eftirlit er þannig hjálpartæki til að ná settum markmiðum en ekki markmið eitt og sér. Þannig tengjast allir, bæði kjörnir fulltrúar sem og starfsmenn sveitarfélagsins, innra eftirliti með framkvæmd á ákvörðunum sveitarstjórnar.

á tekjum þeirra. Eftir því sem verkefnum sveitarfélaganna fjölgar og þau verða flóknari, því mikilvægara er að hafa slíka heildarsýn yfir starfsemina. Stjórnun á rekstri sveitarfélags felur í sér almenna áætlanagerð, samþættingu verkþátta, eftirfylgni og eftirlit. Vinna við áætlanagerð leggur grunn að útfærslu margra mikilvægra og afgerandi atriða í starfsemi sveitarfélagsins. Þar má nefna raunsæa markmiðssetningu, gerð fjárhagsáætlana, og framkvæmdaáætlana. Ábyrgð sveitarstjórnar felst síðan í því að samþætta áætlanir út frá fyrirliggjandi möguleikum hverju sinni og framkvæma þær

Innra eftirlit er skilgreint sem ferli sem er framkvæmt á ábyrgð kjörinna fulltrúa eða annarra stjórnenda og hefur að markmið að tryggja að sett markmið séu uppfyllt með hliðsjón af eftirfarandi þáttum: • Framkvæmd verks sé skilvirk og ábyrg. • Traustar skýrslur gefnar um fjárhagslega framvindu. • Unnið sé eftir tilheyrandi lögum og reglum. Reynslan hefur sýnt að skilvirkt innra eftirlit hefur leitt af sér bætta nýtingu fjármuna, betri tengsl sveitarstjórnar við daglegan rekstur og skilvirkari viðbrögð ef eitthvað ber út af í daglegum rekstri.

13


TÍÐINDI

Evrópsk peningavika 9.-13. mars 2015

Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), sem Lánasjóður sveitarfélaga ohf. er aðili að, eru meðal þátttakenda í evrópskri peningaviku, sem stendur yfir dagana 9.-13. mars. Markmiðið með vikunni er að vekja athygli á mikilvægi eflingu fjármálalæsis meðal ungmenna í Evrópu. Mánudaginn 9. mars hélt Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, ásamt fleirum erindi í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi en þar var einnig fréttastofa RUV sem gerði stutt innslag um kynninguna. SFF eru eitt þeirra tuttugu aðildarfélaga Evrópsku bankasamtakanna sem standa að Evrópsku peningavikunni sem fram fer í fyrsta sinn vikuna 9. til 13. mars næstkomandi. Með þessari viku vilja Evrópsku bankasamtökin og aðildarfélög þeirra leggja sín lóð á vogarskálarnar til eflingar fjármálafræðslu ungmenna

14

og stuðla að umræðu og vitundarvakningu um mikilvægi þess. Í tengslum við Evrópsku peningavikuna munu SFF kynna Fjármálavit en það er kennsluefni sem hefur verið þróað af sérfræðingum aðildarfélaga SFF í samstarfi við kennara og kennaranema. Markmiðið er að Fjármálavit nýtist kennurum í grunnskólum í kennslu um fjármál en það byggir á myndböndum og verkefnum þeim tengdum. Í peningavikunni munu starfsmenn aðildarfélaga SFF heimsækja grunnskóla og kynna Fjármálavit fyrir nemendum og kennurum. Nánar má fræðast um Fjármálavit á heimasíðu verkefnisins sem og á Facebook-síðu þess. Á þessum síðum má meðal annars finna skilaboð Páls Óskar Hjálmtýssonar, tónlistarmanns, en hann er verndari Fjármálavits.


TÍÐINDI

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2015 Fjármálaráðstefna sveitarfélaga verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica dagana 24. og 25. september nk. Hún verður haldin heldur fyrr en seinustu ár. Fjármálaráðstefnan er fjölmennasta ráðstefna sveitarfélaganna ár hvert en hana sækja að jafnaði nálægt 400 manns. Á ráðstefnunni er fjallað um fjölmörg efni sem tengjast fjármálum sveitarfélaganna á einn eða annan hátt. Nánari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar verða birtar þegar nær dregur. Þar sem reynslan hefur sýnt að hótelrými getur verið takmarkað þá er rétt að benda áhugasömum á að hafa góðan fyrirvara á að tryggja sér hótelherbergi.

Niðurstöður úr fjárhagsáætlunum sveitarfélaga 2015-2018 Niðurstöður úr fjárhagsáætlunum sveitarfélaga fyrir A-hluta og A+B hluta fram til ársins 2018 liggja nú fyrir. Í heildina tekið þá er útlitið heldur gott í rekstri sveitarfélaga á árunum 2015-2018. Rekstrarafgangur er ásættanlegur, veltufé frá rekstri fer vaxandi, lántaka minnkar, skuldir lækka og veltufjárhlutfall og skuldahlutfall styrkist. Á hinn bóginn er samdráttur í fjárfestingum í varanlegum rekstrarfjármunum. Vitaskuld eykst óvissan um endanlega útkomu eftir því sem lengra líður á áætlunartímabilið. Því gefa þessar niðurstöður fyrst og fremst ákveðnar vísbendingar um í hvaða átt stefnir á ýmsum sviðum í fjármálalegu umhverfi sveitarfélaganna á komandi árum. Niðurstaða fjárhagsáætlana fyrir samstæðu sveitarfélaga fyrir árin 2015-2018 er að sveitarfélögin hafa í heildina tekið góð tök á fjármálum A-hluta sveitarsjóða og B-hluta fyrirtækja. Þróunin virðist stefna í rétta átt þrátt fyrir að um einhver frávik geti verið að ræða milli ára. Á tímabilinu

er rekstrarafkoma sveitarfélaga almennt góð, veltufé frá rekstri er ásættanlegt og skuldir fara lækkandi. Vitaskuld eru þessar niðurstöður háðar ýmsum ytri forsendum sem sveitarfélögin ráða ekki við. Þar má til dæmis nefna niðurstöður kjarasamninga, almenna verðþróun, atvinnustig í samfélaginu, gengisþróun og vaxtastig. Að því gefnu að þessar forsendur þróist innan ásættanlegra marka á komandi árum, þá er ekki hægt að segja annað en það stefni í fjárhagslega rétta átt hjá íslenskum sveitarfélögum og stofnunum þeirra á næstu fjórum árum.

15


TÍÐINDI

Íbúakosningar í Sveitarfélaginu Ölfusi Á síðastliðnu ári óskaði bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss eftir því að taka þátt í tilraunaverkefni Þjóðskrár Íslands um rafrænar íbúakosningar. Í X. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er fjallað um samráð sveitarstjórna við íbúa. Er þar meðal annars kveðið á um að sveitarstjórn geti ákveðið að halda sérstakar íbúakosningar um einstök málefni sveitarfélagsins, sbr. 107. gr. og 2. mgr. 108. gr. laganna. Slík atkvæðagreiðsla er ráðgefandi fyrir sveitarstjórn nema hún ákveði að niðurstaðan bindi hendur hennar til loka kjörtímabilsins. Samkvæmt sérstöku bráðabirgðaákvæði við sveitarstjórnarlögin getur sveitarstjórn óskað eftir því við ráðherra að íbúakosningar fari eingöngu fram með rafrænum hætti. Kveikjan að beiðni Sveitarfélagsins Ölfuss um þátttöku í tilraunaverkefninu var erindi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar með ósk um viðræður um mögulega sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Innanríkisráðherra heimilaði í desember sl. að íbúakosningarnar í Ölfusi yrðu eingöngu með

16

rafrænum hætti og síðar var veitt heimild til þess að kosningaaldur yrði færður niður í 16 ár. Nú hefur verið ákveðið, að íbúakosningarnar í Ölfusi fari fram dagana 17. til 26. mars næstkomandi. Kosningarrétt eiga allir íbúar sveitarfélagsins sem falla undir ákvæði 2. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna með þeirri undantekningu frá ákvæðum laganna að kosningarréttur miðast við 16 ára aldur, en ekki 18 ár. Í rafrænu íbúakosningunum í Ölfusi verður spurt þriggja spurninga: Spurning 1

Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss ræði við annað sveitarfélag eða sveitarfélög um sameiningu? • Hlynnt(ur) viðræðum • Andvíg(ur) viðræðum


TÍÐINDI

Spurning 2

Ef meirihluti íbúa er hlynntur viðræðum, við hvaða sveitarfélag ætti Ölfus helst að ræða? (Sé fyllt í valkosti má velja eitt eða fleiri sveitarfélög) • • • •

Árborg Hveragerði Grindavík Annað sveitarfélag

Spurning 3

Hvaða tímasetningu telur þú heppilegasta/besta fyrir Hafnardaga? • • • • • •

Sjómannadagshelgi Júní eftir sjómannadag Júlí Verslunarmannahelgi Ágúst eftir verslunarmannahelgi September til maí

Sá sem greiðir atkvæði og hakar ekki við neinn svarmöguleika í einni eða fleirum spurningum telst hafa skilað auðu í viðkomandi spurningu. Hver þátttakandi getur kosið oftar en einu sinni og mun síðast greidda atkvæðið verða talið þegar kosningu lýkur. Áhugavert er að í kosningakerfinu verða spurningarnar og svarmöguleikarnir á fjórum tungumálum. Auk íslensku geta þátttakendur valið spurningar á ensku, pólsku og tælensku. Er þetta gert með tilliti þess fjölda íbúa í sveitarfélaginu sem eru af erlendu bergi brotnir. Íbúar með kosningarrétt í Sveitarfélaginu Ölfusi þurfa að vera með rafræn skilríki eða svokallaðan Íslykil til þess að geta tekið þátt í kosningunni. Eigi menn hvorugt er mjög auðvelt að bæta úr því, t.d. með því að fá Íslykil sendan í heimabanka. Eins er hugað vel að þörfum þeirra sem eru lítt tæknilega sinnaðir, þeir geta mætt á bókasafnið og fengið aðgang að tölvu og nauðsynlega tæknilega aðstoð til að kjósa.

Tilraunaverkefnið í Sveitarfélaginu Ölfusi með rafrænar íbúakosningar er mikilvæg tilraun á sviði samráðs við íbúa og stórt skref í framkvæmd rafræns lýðræðis í sveitarfélögunum. Það er full ástæða til þess að þakka bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss fyrir framtakið og þá djörfung sem hún sýnir með þessari ákvörðun sinni. Þá er ekki síður ástæða til þess að hvetja Ölfusinga til þess að taka þátt í íbúakosningunum. Rafrænu íbúakosningarnar í Ölfusi eru merkur sögulegur áfangi í þróun lýðræðis í sveitarfélögum á Íslandi.

Það er Þjóðskrá Íslands sem annast framkvæmd rafrænu íbúakosninganna. Þjóðskrá hefur samið við spænska fyrirtækið Scytl, sem er leiðandi í þróun rafræns kosningakerfis á heimsvísu. Fyrirtækið hefur þróað rafrænt kosningakerfi frá 2001 og í raun fyrr, þar sem stofnendur þess voru framarlega í hönnun dulkóðunaraðferða vegna kosninga í háskólaumhverfinu allt frá árinu 1995. Kerfið er nú í notkun með ýmsum hætti í 18 þjóðlöndum. 300 starfsmenn vinna hjá Scytl.

17


TÍÐINDI

Ný skýrsla:

Starfsþróun kennara – greining á sjóðaumhverfi

Út er komin skýrslan Starfsþróun kennara – greining á sjóðaumhverfi sem Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri vann fyrir Fagráð um símenntun og starfsþróun kennara. Markmið skýrslunnar er að varpa ljósi á þau tækifæri sem kennarar hafa til starfsþróunar og hversu miklum fjármunum er veitt til hennar. Þegar talað er um kennara í skýrslunni er víðast átt við skólastjórnendur líka og ráðgjafa, þ.e. náms- og starfsráðgjafa og aðra ráðgjafa s.s. sérkennslu- og kennsluráðgjafa. Greiningin tekur til sjóða sem stóðu leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólakennurum til boða árin 2012 og 2013. Auk þess var skoðuð aðkoma ríkis, sveitarfélaga og háskólastofnana að starfsþróun kennara. Vinnan fór fram á tímabilinu

18

febrúar til maí 2014 og aftur í desember 2014 og byggir á þeim upplýsingum sem fengust frá viðeigandi aðilum. Niðurstöður skýrslunnar eru ekki tæmandi en gefa góða mynd af því hvaða sjóðir styðja starfsþróun kennara í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum, hvers konar starfsþróun er styrkt og hversu miklum fjármunum er varið í málaflokkinn. Ljóst er að sjóðaumhverfi vegna starfsþróunar kennara, skólastjórnenda og ráðgjafa innan skólakerfisins er margslungið og umtalsverðum fjárhæðum er varið til þessara mála í samfélaginu. • Starfsþróun kennara – greining á sjóðaumhverfi


TÍÐINDI

Er eðlilegt að sveitarfélög greiði rekstrarkostnað ríkisstofnana? Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála Markmið ofangreindu frumvarpi er að færa inn í lög um stjórn vatnamála ákvæði um gjaldtöku fyrir vatnsþjónustu. Vatnsþjónusta er skv. frumvarpinu fólgin annars vegar í vatnstöku, miðlun, geymslu, hreinsun eða dreifingu yfirborðs- og grunnvatns, og hins vegar í söfnun skólps og hreinsun þess. Markmið fyrirhugaðrar gjaldtöku er að fjármagna kostnað Umhverfisstofnunar við framkvæmd laganna, svo sem gerð vatnaáætlunarinnar og fleiri áætlana. Greiðendur gjalds fyrir vatnsþjónustu eru vatns- og jarðvarmavirkjanir, stærri vatns- og hitaveitur, svo og fráveitur sem við taka við meira en 2000 persónueiningum, þ.e. fráveitur allra helstu þéttbýlisstaða á landinu. Sambandið hefur í umsögn sinni um frumvarpið mótmælt því harðlega að sveitarfélög og fyrirtæki þeirra sem sinna almannaþjónustu eigi að greiða

kostnað ríkisstofnunar við framkvæmd laganna og bent m.a. á hættulegt fordæmi sem er fólgið í þessu. Sömuleiðis hafa Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja og Samtök atvinnulífsins lagst eindregið gegn samþykkt þessa frumvarps. Heimild til þessarar gjaldtöku er sótt í 9. gr. tilskipunar ESB um stjórn vatnamála. Þar sem ekki er skylda til að innleiða ákvæði tilskipunarinnar um gjaldtöku var það ekki gert við innleiðingu hennar með téðum lögum um stjórn vatnamála. Ríkisvaldið lítur hins vegar svo á að notendur vatnsauðlindarinnar eigi að greiða fyrir notkun hennar og því til stuðnings er vísað í nytjagreiðslu- og mengunarbótareglurnar. Þessi rök telja sambandið, Samorka og Samtök atvinnulífsins vera hriplek.

19


Frá kynningarfundi um siðareglur sveitarfélaga.

Siðanefnd sambandsins Siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur gefið út leiðbeiningar til nýrra sveitarstjórna um gerð siðareglna og hlutverk siðanefndar. Í leiðbeiningunum eru nýjar sveitarstjórnir minntar á skyldu þeirra skv. 29. gr. sveitarstjórnarlaga til að meta hvort ástæða er til að endurskoða siðareglur sveitarfélagsins og setja siðareglur hafi það ekki þegar verið gert. Jafnframt eru veittar leiðbeiningar um hvernig sé rétt að standa að skráningu siðareglna.

Kynningunni hefur verið skipt upp í tvo hluta. Í fyrri hlutanum fjallar Sigurður um siðferðileg álitamál í starfi kjörinna fulltrúa og í seinni hlutanum svarar hann spurningum bæjarfulltrúa um ýmis álitaefni sem komið hafa upp í þeirra störfum.

Kynning á siðareglum Til að fylgja leiðbeiningunum eftir hélt formaður siðanefndarinnar, Sigurður Kristinsson, kynningu á siðareglum sveitarfélaga fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar sem var tekin upp, þannig að hún gæti nýst fleiri sveitarfélögum. Kynningin er aðgengileg á vef sambandsins.

© Samband íslenskra sveitarfélaga Borgartúni 30 • Pósthólf 8100 • 128 Reykjavík Hönnun og umbrot: Ingibjörg Hinriksdóttir Myndir: Ingibjörg Hinriksdóttir og af vefsíðum Ritstjóri og ábm.: Magnús Karel Hannesson 2015/11 Afritun og endurprentun er heimil svo fremi að heimildar sé getið.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.