2 minute read

Fjölskyldan er lykillinn að velgengni

Oft standa fjölskylda og vinir í vegi fyrir því að sá sem greinst hefur með sykursýki breyti lífsháttum sínum. Nýjar sænskar rannsóknir sýna að einn mikilvægasti þátturinn í því hvort lífsstílsbreyting takist vel er að fjölskyldan öll taki þátt í henni.

Að breyta matarvenjum sínum til langframa er um það bil það erfiðasta sem maður tekur sér fyrir hendur, og ekki hafa allir stuðning frá umhverfi sínu. Sænskir næringarfræðingar hafa skoðað nokkra þá þætti sem stýra matarvenjum okkar. Það kom þeim á óvart að oft vinna okkar nánustu gegn breyttum matarvenjum, og vilji fjölskylda og vinir ekki borða nýja matinn getur verið afar erfitt að halda sig við hann. Tekin voru viðtöl við hóp fólks sem fimm árum áður hafði tekið þátt í tilraun þar sem þau borðuðu norræna útgáfu af Miðjarðarhafs-mataræði í þrjá mánuði. Flestir höfðu haldið sig við nýja matinn einhvern tíma eftir að tilrauninni lauk, en nú fimm árum

síðar eru aðeins tveir af fjórtán sem enn halda sig við þetta mataræði.

Ein ástæðan fyrir því að fólk hafði hætt að borða hinn nýja heilsusamlegri mat var að honum fylgdi aukin vinna við skipulagningu, innkaup og matseld. En, aðalástæðan var sú að fjölskyldan, og þá fyrst og fremst makinn, vildi ekki borða þennan nýja mat. Þegar hjónin voru ekki sammála um mataræðið þurfti endalausa samninga um hvað ætti að borða, á að „valta yfir“ aðra fjölskyldumeðlimi eða á að elda tvenns konar mat. Annað vandamál var hvernig ætti að höndla ýmsar félagslegar aðstæður, eins og t.d. matarboð. Fólki fannst dónalegt að biðja um annan mat en var á boðstólum og valdi í þess stað að „svindla“, sem þá varð til þess að hvatinn til að halda áfram með hollari matinn minnkaði. Niðurstöðurnar sýndu ótvírætt mikilvægi þess að allir á heimilinu taki þátt þegar breyta á mataræði, og þeir sem áður höfðu borðað tiltölulega hollt áttu auðveldara með að fara alla leið en hinir sem höfðu borðað mjög óhollt.

Það er því mikilvægt að finna mataræði sem allir geta sætt sig við. Þá minnkar líka vinnan við undirbúning og matseld, sem aftur eykur líkurnar á að vel gangi að viðhalda nýjum venjum. Ekki þarf að koma á óvart að tími og peningar hafa mikil áhrif á það hvernig fólki gengur að breyta venjum sínum. Því miður er það oft raunin að hollari kosturinn er um leið sá dýrari. Lengi hefur verið vitað að fólk með minni menntun og lægri laun borðar óhollari mat en hinir. Það þarf þó ekki endilega að vera dýrara að borða hollt, það getur hins vegar kostað meiri tíma til bæði undirbúnings og matseldar, en tími er einmitt það sem er af skornum skammti hjá svo mörgum okkar.

This article is from: