5 minute read

Af hverju eru sjómenn samningslausir?

Þann 9. febrúar var skrifað undir kjarasamning fyrir sjómenn í húsakynnum Ríkissáttasemjara eftir langar og vinnusamar samningaviðræður. Mörgum brá við þar sem viðræðurnar höfðu ekki verið mikið í fjölmiðlum en í þetta skiptið höfðu aðilar þokast nær og nær samkomulagi í langan tíma. Þegar hyllti undir samning voru samninganefndir kallaðar í hús og afurðin af því var að undirritaður var kjarasamningur sem samningsaðilar sjómanna vildu leggja í dóm sjómanna. Það er skemmst frá því að segja að þeim samningi var hafnað með afgerandi meirihluta atkvæða sjómanna.

Af hverju gerðist þetta? Til að skýra það þarf að horfa aftur í tímann og skyggnast inn í hugarheim sjómanna.

Laun sjómanna

Laun sjómanna reiknast ekki eins og hefðbundið er í öðrum greinum, heldur er þetta líkara viðskiptasambandi þar sem útgerð og sjómenn taka að sér það verkefni að veiða fisk. Í núverandi kerfi virkar það þannig að útgerðin leggur til skip og allt sem þarf til veiðanna, og sá liður flokkast sem útgerðarkostnaður sem er sá hluti aflaverðmætisins sem er utan skipta. Sjómenn sjá um alla vinnuna og fá í sinn hlut ákveðna prósentu af skiptaverðmæti, þ.e. verðmæti aflans að frádregnum útgerðarkostnaði. Til samræmingar og gengnsæis eru þessir hlutir nú bundnir í prósentur af aflaverðmæti, en þær prósentur hafa ákveðna forsögu.

Sjóðakerfi lagt niður og olíverðsviðmið tekið upp

Sjóðakerfi sjávarútvegsins var flókið fyrirbæri sem olli því að sjómenn almennt höfðu enga yfirsýn yfir hvernig launin þeirra væru reiknuð, en það sem þeir vissu var að þeir voru á góðum launum og fengu hluta launa sinna utan skatts. Menn voru ánægðir og fengu helling útborgað. En sjóðakerfið var ekki fullkomið og var lagt niður og nýtt módel notað til að reikna út laun sjómanna. Sjómönnum fannst þetta módel ekki skila þeim réttum launum og vildu leiðréttingu, og þá leiðréttingu fengu þeir í formi olíuverðsviðmiðs sem tók gildi 1. janúar 1987. Olíuverðsviðmiðið virkaði þannig að skiptaprósentu sem hafði verið 69% í nýja módelinu var stillt upp þannig að lágmarks hlutur sjómanna yrði 70% og gæti náð 80% þegar olíuverð væri í lægri kantinum. Í júní 1987 var svo ákveðið með lögum að skiptaprósenta væri 76% sem gæti svo hækkað í 80%þegar olíverð væri lágt og lækkað í 70% þegar olíverð væri hátt. Skiptaprósentan sem slík ákvarðar hversu hátt hlutfall aflaverðmætis kemur til skipta milli útgerðar til að greiða útgerðarkostnað, og áhafnar sem laun fyrir vinnuna, og breytist með fyrrgreindum hætti. Þessu kerfi hefur ekki verið viðhaldið með þeim afleiðingum að laun sjómanna byggja næstum alltaf á 70% skiptum.

Verðmyndun á afla

Forsenda fyrir því að ofangreint kerfi gangi upp er að aflinn sé rétt verðmetinn og hafa verið stigin mörg skref í áttina að sanngjarnri og gegnsærri verðmyndun aflans. Samkvæmt kjarasamningum er það verkefni útgerðar að selja aflann og hefur útgerð þá lagalegu skyldu að selja aflann á hæsta mögulega verði. Sá hluti aflans sem er seldur á opnum makaði lýtur markaðslögmálum, en sá hluti sem er seldur til eigin vinnslu útgerðar eða til tengdra aðila er verðmetinn með 80% markaðstengingu.

Kauptrygging

Kauptrygging háseta, þ.e. þau laun sem hann fær fyrir mánaðar vinnu ef aflahlutur er ekki hærri, er í dag kr. 326.780 og á bak við það eru um 330 vinnustundir. Enginn sjómaður fer á sjó til að vina fyrir kauptryggingu eða til að vinna á tímakaupi við bryggju, en kauptryggingin er nauðsynleg þar sem hún er grundvöllur veikindalauna lendi sjómaður í langtíma veikindum. Flestir sjómenn á Íslandi eru á góðum launum, enda byggir aflahlutur á aflaverði sem þróast með verðlagsþróun, en kauptryggingin er ákveðið lágmarksviðmið sem verður að viðhalda.

Kjaraviðræður sjómannaforystunnar

Sjómannaforystan eins og verkalýðshreyfingin er ekki jafn sameinuð og hún ætti að vera, en hlutverk þessa aðila er að vina að því að uppfylla óskir sinna félagsmanna, forgangsraða þeim og gæta hagsmuna sinna manna í hvívetna. Þegar menn eru á góðum launum og þurfa ekki að grípa til grunnréttindanna falla þau í gleymsku, en það er hlutverk forystunnar að gæta þeirra af kostgæfni, en þetta er stórt og göfugt verkefni þar sem allir eru að gera sitt besta.

Hvað vilja sjómenn?

Þegar landverkafólk fer í kjaraviðræður er stóra krafan alltaf hækkun launa til að halda í við verðlagsþróun. Sá hluti á ekki við hjá sjómönnum þar sem þeirra laun fylgja söluverði afla sem þróast sjálfkrafa með verðlagi, en skýr vilji sjómanna er að fá meira. Þetta meira er oft á tíðum óskilgreint og ólíkar hugmyndir, en eitt vitum við þó, það er að sjómenn hafa aldrei fengið góðan kjarasamning, og með góðum kjarasamningi á ég við kjarasamning sem sjómenn eru sáttir við. Þar af leiðandi er það frekar regla en undantekning að sjómenn séu samningslausir svo árum skiptir.

Launakerfi sjómanna eins og því hefur verið lýst hér að ofan byggir á því að hagsmunir sjómanna og útgerðar fari saman þannig að þegar illa árar hjá útgerðinni lækki hlutur sjómanna í aflaverðmæti, og þegar vel árar hjá útgerðinni hækki hluturinn. Þetta vilja sjómenn klárlega að fari saman en undanfarin ár hefur afkoma útgerðar verið með eindæmum góð og skiptaprósenta samt verið í lágmarki utan fárra mánaða. Þetta finnst sjómönnum hrópandi óréttlæti og ekki í samræmi við þeirra launakerfi, …hlutur þeirra úr aflaverðmæti hefur rýrnað frá því sem ætlast var til með þessu kerfi.

Af hverju er skortur á trausti sjómanna í garð útgerðar? Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör, en þessi þáttur hefur afgerandi áhrif á ákvörðurnartöku sjómanna þegar nýr samningur er lagður fyrir þá til atkvæðagreiðslu. Mín reynsla er að þegar hvert mál fyrir sig er krufið og aðilar tala saman næst réttlát lending í flestum málum. Aftur á móti ganga sögusagnir meðal sjómanna um hvernig mönnum hafi verið hegnt fyrir að leita réttar síns, sögur sem sjómenn leggja trúnað á en útgerðarmenn segja uppspuna frá rótum. Þessar sögusagnir valda því að sjómenn leita síður réttar síns og upplifa rétt sinn aðeins ómerka stafi á blaði, en í síðustu samningum var mikil áhersla lögð á traust milli aðila og gegnsæi, og voru aðilar báðum megin borðsins jafn viljugir til að innleiða og rótfesta traust milli aðila í greininni. Ég segi fyrir mig að ég upplifði að nú værum við loksins að stíga stórt skref inn í framtíðina og innleiða traust starfsumhverfi fyrir sjómenn og lagði mikla áherslu á einmitt þennan póst þegar ég kynnti betri framtíð fyrir sjómönnum í Verk Vest meðan atkvæðagreiðsla var opin um samninginn. Trúverðugleiki minn beið mikla hnekki einmitt vegna þessa þegar upp kom í miðri atkvæðagreiðslu að togarasjómanni var sagt upp störfum fyrir það eitt að vilja fá greidd veikindalaun fyrir veiðiferð sem hann gat ekki farið vegna veikinda, maður sem fær hin bestu meðmæli frá sínum skipstjóra.

Þetta mál verður væntanlega litið á sem undantekninguna sem sannar regluna, en þegar menn vilja sækja sinn rétt samkvæmt kjarasamningum hugsa þeir eðlilega hvort þeir verði líka svona undantekningartilfelli. Til hvers erum við að semja um veikindarétt ef sjómenn þurfa að velja milli þess að gefa hann eftir ellegar að missa vinnuna?

Hvað var sjómönnum boðið upp á í síðustu samningum? Auk eðlilegra hækkana á launatöflu sjómanna voru stigin ýmis framfaraskref varðandi starfsumhverfi sjómanna, en hryggstykkið í þeim liðum er traust milli aðila. Frá því samið var 2017 hafa útgerðarmenn í tvígang farið með túlkunaratriði úr kjarasamningi fyrir félagsdóm til að óvirkja ákvæði sem sjómenn höfðu talið meitluð í stein. Sjómenn horfa til þess að 1987 var ákveðið með lagasetningu að sanngjarn skiptahlutur þeirra sé 76%. Það sem þeim er boðið nú er að festa skiptin í 69,2% og fá

3,5% tilgreinda séreign í lífeyrissjóð gegn því sem skilar þeim ca. 71,37% fastri prósentu að teknu tilliti til innborgana í lífeyrissjóðinn. Niðurstöður atkvæðagreiðslu um þann samning sem lagður var fyrir sjómenn til ákvörðunar er morgunljóst að þetta eru ekki réttlát skipti.

Hver er þá staðan?

Nú er svo að kjarasamningar hafa ekki verið endurnýjaðir við sjómenn þannig að laun og réttindi þeirra byggja á eldri kjarasamningi að frádregnum þeim atriðum sem útgerðarmenn vísuðu til Félagsdóms. Staðan er sem sé verri fyrir sjómenn heldur en þegar samið var fyrir sex árum síðan. Forsenda fyrir framfaraskrefum er fyrst og síðast traust, en það er mikið verk og útgerðarmenn eru með boltann. Hvað varðar tilgreinda séreign og að festa skiptaprósentu hafa sjómenn gefið tóninn og krefjast réttlætis.

This article is from: