3 minute read
Kveðja á Sjómannadegi 2023
Kæru sjómenn og fjölskyldur, um leið og ég óska ykkur til hamingju með daginn minni ég á að enn er ósamið við þorra sjómanna. Félag skipstjórnarmanna samþykkti samninginn sem ritað var undir þann 7. febrúar sl. Þessi kjarasamningur hefði fært þeim sjómönnum sem hann heyrir undir, töluverðar kjarabætur í formi tilgreindrar séreignar.
Krafan um 3,5% í tilgreinda séreign í lífeyrissjóði kom fram og fallist var á hana með því að sjómenn greiddu einn þriðja af kröfunni en útgerðin bæri tvo þriðju af kostnaðinum. Einnig var boðið uppá annan valkost sem var að skiptahlutfallið færi í 70,5% ef sjómenn vildu ekki lífeyrisleiðina.
Með því að velja lífeyrisleiðina lækkaði skiptaprósentan í 69,2% sem þýðir í raun sem sagt er hér að framan, að kostnaðurinn við kröfuna er 1/3 sjómenn og 2/3 útgerðin. Kostnaðarmatið á þannig fram kominni kröfu er að útgerðin ber að lágmarki, eins og laun sjómanna eru nú, um 1500 milljónir á ári. Það eru um 3000 sjómenn á Íslandi sem hafa sjómennsku að aðalstarfi og ,,tekjutapið” að meðaltali á hvern sjómann er þá um kr. 200.000 á ársgrundvelli. Í staðinn fengi hver sjómaður að meðaltali um kr. 500.000 í tilgreinda séreign sem er erfanleg við andlát og ávaxtast þar til viðkomandi má taka hana út eftir þeim reglum sem um það gilda.
Dæmi: Ef viðkomandi sjómaður er 50 ára og fengi þessi réttindi í 15 ár, til 65 ára aldurs ætti hann um 12 milljónir á sínum tilgreinda séreignarreikningi miðað við meðallaun sjómanna í dag. Þ.e.a.s. tæplega ein árslaun núna.
Annað sem er til verulegra hagsbóta fyrir sjómenn er hækkun kauptryggingar og tenging við taxta Starfsgreinasambandsins út samningstímann. Sumir hafa haft þann skilning að kauptrygging sjómanna skipti engu máli þar sem allir séu á hlut. Ég segi og get fyllilega staðið við, að kauptryggingin skiptir mjög miklu máli ef menn lenda í áföllum og detta á kauptryggingu. Einnig í uppihaldi útgerðar, eins og stefnir í t.d. í sumar. Tímakaup hefði hækkað um 53% hjá háseta. Farið úr kr. 1800 í kr. 2900. Þetta skiptir máli.
Umræðan um kauptrygginguna er á algerum villigötum og hefur m.a. verið spyrt saman við launakjör forsvarsmanna sjómanna. Með því að kauptrygging hækki sé einungis verið að hækka laun þeirra. Sem er fjarri öllum sanni. Sjómenn þurfa viðunandi kauptryggingu ef eitthvað kemur uppá. Kauptryggingin er lágmarkslaun, því hærri því betri.
Umræðan um þá grein samningsins sem kveður á um nýjar veiði og verkunaraðferðir er hrapallega miskilin. Umræðan fór meira segja þangað að ef það kæmi ný hrærivél í kokkhúsið myndi skiptaprósentan lækka eða nýr flokkari á millidekkið o.s.frv.. Bullið og þvælan ríður ekki við einteyming. Rekur einhvern minni til þess að þegar Helgu Maríu Sk var aftur breytt í ísfiskara, sem kostaði einhverja hundruði milljóna, að skiptaprósentan hafi lækkað? Eða þegar Blæng var breytt í frystitogara sem var enn dýrara. Er eitthvað öðruvísi skiptaprósenta á Blæng en öðrum frystitogurum?
Svona er umræðan leidd áfram um þessa grein sem nota bene hefur verið í kjarasamningi frá 2004. Að fororði sjómanna er greininni breytt þannig að félög sjómanna hafi beina aðkomu ef upp koma nýjar aðferðir eða tækni við veiðar sem auka verðmætin umtalsvert. Tæknin er á fleygiferð á öllum sviðum, líka til sjós.
Veikinda- og slysaréttur var lagfærður til mikilla muna í þessum samningi. Alveg sama hverju sumir forsvarsmenn sjómanna halda fram. Þeir hinir sömu höfðu þó samþykkt þessar breytingar árið 2019 í bókunarvinnu við kjarasamninginn sem þá var í gildi.
Tilgangurinn er og verður að menn séu jafnsettir hvort þeir sem þeir eru á sjó eða í fríi. Í hreinu skiptimannakerfunum þar sem menn skipta launum er tryggður fjögurra mánaða veikindaréttur á hálfum hlut og fulla kauptryggingu eftir það. Ekki hálfa eins og haldið er fram. Þarna skiptir hækkun kauptryggingar líka miklu máli.
Dómaframkvæmdin er sú að útgerðinni er ekki skylt að greiða nema tvo mánuði á hálfum hlut og kauptryggingu eftir það.
Lengd samningsins fór fyrir brjóstið á mörgum, 10 ár! Forsenduákvæði er eftir 4 ár og samninginum hefði verið hægt að segja upp með árs fyrirvara þá og árlega eftir það út gildistímann. Ég minni á að frá árinu 2012 til dagsins í dag hafa sjómenn verið samingslausir í 8 ár af þeim 11 sem liðin eru. Ef ekki semst á þessu ári hafa samningar verið lausir í 4 ár. Tíminn er sannanlega fljótur að líða.
Með því að festa samning í þennan tíma er verið að tryggja launahlut sjómanna með útgerðinni til langframa og ekki verði krukkað í hann á næstu árum. Ég hvet sjómenn til að kynna sér samninginn vel og vandlega og til gagnríninnar umræðu um þessi mál. Ekki upphrópana og sleggjudóma. Samfélagsmiðlarnir eiga sinn þátt í þessu. Þar er hent fram alls konar bulli sem stenst enga skoðun. Hrapað er að ályktunum og fólki beinlínis hótað ef það er á annari skoðun. Ég fékk yfir mig skilaboð af óhróðri og hótunum sem ég ætla ekki að sitja undir í kjölfar undirritunar síðasta samnings. Ég frábið mér svona ósóma og bið viðkomandi að haga sér eins og siðaðar manneskjur. En svona er nú lífið einu sinni. Ekki alltaf sanngjarnt og enginn á heimtingu á að allt fari þann veg sem óskað er.
Enn og aftur innilegar hamingjuóskir með Sjómannadaginn sjómenn og landsmenn allir!
Göngum til góðs og lifum heil. Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambands Íslands