2 minute read

Á Sjómannadaginn

Að alast upp í sjávarþorpi eru sannkölluð forréttindi sem aldrei gleymist og sama hvar ég kem, alltaf er höfnin fyrsta stopp ef hún er til staðar. Pjakkar eins ég og gömlu félagar mínir eyddu löngum stundum að brasa eitthvað niður við sjó og komum oftar en ekki blautir heim. Það var alltaf spennandi að fara í siglingu með togaranum á sjómannadaginn og fræðast um þennann heim sem sjómennskan er. Ekki var það nú verra að yfirleitt var Prins Póló í boði líka sem var vel þegið. Merkilegt nokk þá hafði ég sjálfur aldrei löngun til að vera sjómaður, þrátt fyrir að margir fændur mínir og bróðir væru sjómenn, en fann mig ágætlega í frystihúsinu sem ekki er síður mikilvægt í þeirri keðju sem sjávarútvegurinn er. Ævintýraþráin tók svo völdin og lét ég mig svo hverfa af landi brott í þó nokkuð mörg ár en kom til baka aftur því gamla þorpið togar hressilega í.

Eftir að hafa flutt aftur heim fékk ég þann heiður að vera ráðinn hafnarvörður hér á Seyðisfirði og langar mig að fara stuttlega yfir það sem drífur á daga okkar hér. Seyðisfjarðarhöfn er nú hluti af sameinuðum Höfnum Múlaþings ásamt Djúpavogshöfn og Borgarfjarðarhöfn Eystri. Hver höfn hefur sína sérstöðu, en saman leika þær stórt hlutverk í móttöku skemmtiferðaskipa á Íslandi. Á Seyðisfirði er Síldarvinnslan með bæði frystihús og bræðslu, og nóg að gera við vinnslu á bolfiski, Loðnu og Kolmunna. Ekki má svo gleyma ferjunni Norrönu sem siglir til Færeyja og Danmerkur, siglingar sem hófust 1975 og eru enn einn besti ferðamáti sem völ er á. Það er því næg verkefni flesta daga ársins og sjaldan að manni leiðist.

Móttaka skemmtiferðaskipa verður sífellt umsvifameiri og á þessu ári er von á 115 skipakomum til Seyðisfjarðar. Þessu fylgir heilmikið umstang og skapar mörg störf við móttöku, gæslu og umsjón við höfnina. Einnig er fjöldi fólks sem vinnur við leiðsögn og akstur farþega og skipta þessi skip umtalsverðu máli fyrir lítil byggðarlög hvað tekjur varða. En áhugaverðast þykir mér að hitta og spjalla við gesti og áhafnarmeðlimi frá hinum ýmsu löndum. Sum þeirra jafnvel svo framandi að fletta þarf upp í landakorti til að sjá hvar þau eru. Já gestirnir eru frá ólíklegustu stöðum.

Þó svo að ég hafi vaðið úr einu í annað þá er sjómannadagurinn tileinkaður okkar besta fólki, og eigum við þeim margt að þakka. Sjómennskan hefur alltaf verið undirstaða atvinnulífs og verður það vonandi áfram um ókomna framtíð. Ég er stoltur af þeim skyldmennum mínum sem staðið hafa vaktina í gegnum árin og sumir standa hana enn. Það var ákveðinn ævintýraljómi yfir þessum stóru og sterku mönnum sem færðu litlum frændsystkynum gjafir þegar komið var heim úr siglingum til Bretlands og Þýskalands á árum áður. Þetta voru sannarlega hetjur hafsins í mínum huga.

Mig langar með þessum stutta pistli að þakka öllum sjómönnum Íslands fyrir sitt framlag til okkar sem á eftir fara og óska þeim öllum velfarnaðar í sínum störfum til framtíðar.

Einnig langar mig til að heiðra sérstaklega minningu frænda míns og vinar Jóns Grétars Vigfússonar sem var sjómaður alla sína starfsævi. Til hamingju með daginn kæri frændi.

Til hamingju með daginn sjómenn, hiphiphúrra.

This article is from: