2 minute read
Menntun fyrir alla
Mikilvægi menntunar
Tækifæri til menntunar eru grundvallarréttindi og afgerandi þáttur í mannlegri þróun. Menntun gegnir mikilvægu hlutverki í að móta líf einstaklingsins og framtíðarmöguleika hans. Með aukinni menntun öðlast einstaklingurinn nauðsynlega færni og þekkingu til að skara fram úr á sínu sviði. Þekking og færni bætir framleiðni og frammistöðu, eykur tekju- og starfsmöguleika og gerir einstaklingnum kleift að taka að sér flóknari og fjölbreyttari hlutverk á lífsleiðinni.
Menntun skiptir ekki síður máli fyrir þróun samfélagsins, hún býr til hæft vinnuafl sem er nauðsynlegt fyrir vöxt og þróun atvinnugreina. Hæft vinnuafl hjálpar til við að þróa nýja tækni og ferla sem geta bætt hagkvæmni og arðsemi atvinnugreina í samfélaginu. Menntun styrkir einnig félagslega og menningarlega þætti hvers samfélags með því að bæta hugmyndaflug, efla sköpun, víkka sjóndeildarhringi og hvetja til virkari þátttöku í samfélaginu. Þetta er sérstaklega mikilvægt í litlu sjávarplássi eins og okkar þar sem samfélagsþátttaka skiptir sköpum fyrir velgengni samfélagsins. Að auki getur menntun hjálpað til við að draga úr fátækt, bæta lífsgæði og heilsufar og stuðlað að félagslegri aðlögun. Það er hins vegar ekki nóg að veita einfaldlega aðgang að menntun. Mikilvægt er að sú fræðsla sem veitt er sé fjölbreytt, að allir finni sig í menntakerfinu og tryggja þarf að búseta hafi ekki áhrif á möguleika einstaklingsins til náms. Með því að bjóða upp á fjölbreytt námsframboð í heimabyggð tryggjum við fjölbreyttara vinnuafl og sjálfbærara samfélag. Samfélög breytast ört vegna tækniframfara, hnattvæðingar og vaxandi samfélagslegra þarfa. Fjölbreytt störf og fjölbreytt vinnuafl tryggir að samfélagið geti lagað sig að þessum breytingum á áhrifaríkan hátt. Nýjar atvinnugreinar og atvinnutækifæri geta komið fram á meðan þær sem fyrir eru geta þróast, dafnað eða hnignað og jafnvel fjarað út. Með fjölbreyttu vinnuafli er hægt að þróa nýja færni, endurmenntun og getu til að grípa tækifæri sem gefast hverju sinni. Þannig er hægt að tryggja stöðugan vöxt og framfarir samfélagsins okkar.
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum hefur í yfir 40 ár þjónustað nær samfélagið okkar. Hann hefur ætíð brugðist hratt og vel við tækninýjungum og breyttum kröfum atvinnulífsins af fagmennsku og metnaði. Skólinn býður upp á fjölbreytt tækifæri til menntunar með vönduðu og góðu námsframboði á mörgum sviðum sem tekur mið af þörfum og kröfum nærsamfélagsins og eftirspurn nemenda. Síðustu ár hefur verið lögð rík áherslu á að nýta bættar samgöngur og tækni til að tryggja möguleika til náms óháð búsetu og stuðla þannig að öflugra þekkingarsamfélagi.
Námsframboð við skólann er fjölbreytt og sjaldan verið eins fjölbreytt og nú. Í haust verður í fyrsta sinn boðið upp á grunnnám rafiðna í dreifnámi (lotubundið) sem er mjög spennandi tækifæri fyrir þá sem ekki hafa tök á að sækja dagskólann. Einnig verður boðið upp á nám við vélstjórn C-stigs í fyrsta sinn. Það er ekki síður spennandi tækifæri fyrir þá sem lokið hafa B-stiginu og vilja bæta við sig réttindum. Námið er til réttinda til að gegna stöðu yfirvélstjóra og 1. vélstjóra á skipum með vélarafl minna en 3000 kW (STCW III/3) og undirvélstjóra á skipum með ótakmarkað vélarafl (að loknum siglingatíma). Þetta námsstig er jafnframt nám til stúdentsprófs. Verið er að kanna þörf og áhuga á að fara