6 minute read

Áhrif hvalveiða á umhverfið

Saga hvalveiða

Hvalveiðar eru órjúfanlegur hluti af menningu Íslands. Strax í landnámssögu Íslands, frá 874 e.Kr., skipuðu sjávarspendýr stóran sess í íslensku samfélagi og gerðu Íslendingum kleift að lifa af harðan veturinn. Hins vegar eru engar heimildir til um hvalveiðar í Íslendingasögunum og miðað við tæknina sem landnámsmenn bjuggu yfir er ólíklegt að þeir hafi verið færir um að veiða hvali, þar sem þeir hefðu þurft stór skip og verkfæri, til dæmis skutla. Það sem Íslendingasögur segja okkur hins vegar er að hvalir voru notaðir sem leiðarvísar þar sem þeir gátu gefið vísbendingar um frjósöm fiskimið. Þar að auki voru hvalir lykilþáttur í lífsviðurværi Íslendinga, en þegar hvali rak upp á fjörur gat skrokkurinn séð fólki fyrir fæðu og leiddi slíkt meira að segja oft til deilna milli fólks um skiptingu landsins (þ.e. á hvaða jörð hvalurinn lægi).

Advertisement

Á fyrsta áratug 19. aldar náðu hvaleiðar hápunkti þegar lönd um allan heim tóku þátt í hvalveiðum í þúsundatali. Sléttbakurinn (e. right whale) fékk meira að segja heiti sitt vegna þess að hann var talinn „rétti“ hvalurinn til að veiða: hann þrífst í köldu loftslagi þannig að hann hreyfist hægt (auðvelt skotmark) og hann er mjög fitumikill (þannig hann þótti sérstaklega arðbær og flaut þar að auki þegar hann var drepinn).

Hvalalýsi hefur í gegnum tíðina verið notað í alls konar tilgangi og mismunandi hvalir hafa haft mismunandi notagildi. Venjulegt hvalalýsi, framleitt úr spiki hvala eins og sléttbaksins og norðhvalsins, var notað sem olía í lampa, sem smjörlíki og í sápugerð; olía úr búrhvölum sem var gerð úr hvalsauka (vaxkenndu fituefni úr höfði búrhvalsins) var dýrari og var notuð í snyrtivöruframleiðslu, kertagerð og sem iðnaðarsleipiefni. Hvalambur, vaxkennt efni sem finnst í meltingarfærum búrhvala var notað allt aftur til tíma forn-Egyptalands sem reykelsi og alveg fram til iðnbyltingarinnar, en á þeim tíma færðist hvalveiði í aukana þar sem hvalambrið var mikils metið sem bindiefni í ilmvötnum til að auka endingartíma þeirra. Hvalalýsi er ekki eini hluti hvalsins sem mannkynið hefur fundið sér not fyrir í gegnum árin - svokölluð hvalbein, þ.e. skíðin í munnum skíðishvala, hafa mikið verið notuð í tískuiðnaðinum þar sem þau eru stíf en samt örlítið sveigjanleg sem gerir þau fullkomin fyrir t.d. korselett.

Hvalveiðar á Íslandi og aktívismi

Alþjóðlega hvalveiðiráðið (IWC) hefur bannað hvalveiðar síðan 1986 en þrjú lönd virða enn í dag þá reglugerð að vettugi: Japan, Noregur og Ísland. Á Íslandi er einungis eitt fyrirtæki, Hvalur hf. undir stjórn forstjórans Kristjáns Loftssonar, sem stundar hvalveiðar í gróðaskyni. Í dag er fyrirtækið með kvóta upp á 161 langreyði á ári sem er í gildi til ársloka 2023. Það er enn óákveðið hvort leyfi Hvals hf. til hvalveiða verði endurnýjað eftir árið 2023. Ein samtök sem hafa helgað sig baráttunni gegn hvalveiðum er Sea Shepherd, alþjóðleg hafverndarsamtök sem voru stofnuð árið 1977 og hafa barist ötullega gegn hvalveiðum. Árið 1986 flugu tveir aðgerðarsinnar á vegum Sea Shepherd til Íslands, sökktu tveim hvalveiðiskipum, Hval 6 og Hval 7, og unnu skemmdarverk á vinnslustöð Hvals hf. Árið 2022 endurvöktu fyrrum róttækir umhverfisverndarsinnar baráttuna gegn Hval hf. og hófu átakið „Northern Exposure“ sem fólst í að skrásetja slátrun langreyða í Hvalfirði og afhjúpa grimmdina sem fylgir hvalveiðum á Íslandi. Kristján Loftsson hefur ekki ennþá gefið út yfirlýsingu um hvort hann hyggist halda veiðum á langreyðum áfram sumarið 2023, en af viðtölum við hann að dæma má draga þá ályktun að hann ætli sér ekki að hætta að berjast fyrir rétti sínum til hvalveiða í bráð - í mars 2022 tilkynnti hann áform sín um að halda hvalveiðum áfram það sumar. Í kjölfar þessa gaf framkvæmdastjóri Sea Shepherd á Íslandi út eftirfarandi yfirlýsingu:

Lykilhlutverk hvala í neðansjávarvistkerfum

Hvalir eru þekktir sem garðyrkjumenn hafsins - tilvera þeirra er lykilatriði í að viðhalda neðansjávarvistkerfinu sem er jörðinni nauðsynlegt. Hvalamykja verkar sem eins konar neðansjávaráburður og er ómissandi næring fyrir plöntusvif og ljósætur (þessar lífverur eru svo étnar af fiski og öðrum hvölum sem heldur hringrásinni gangandi). Það eru ekki aðeins lifandi hvalir sem eru mikilvægir hvað þessa hringrás varðar, heldur gegna dauðir hvalir líka stóru hlutverki í fæðuvef sjávarins. Þegar hvalur deyr sekkur hann til sjávarbotnsins, sem kallast hvalafall, og þúsundir lífvera nærast á hræinu. Hvalafall tryggir þannig blómstrandi neðansjávarvistkerfi í mörg ár eftir dauða hvalsins.

Hlutverk hvala í hafinu er því tvíþætt; í fyrsta lagi er mykjan sem þeir framleiða uppspretta næringarefna sem tryggja vöxt plöntusvifs, og plöntusvifið nýtir svo koltvísýring úr andrúmsloftinu til ljóstillífunar og dregur þannig úr gróðurhúsalofttegundum sem hægir á hlýnun jarðar. Þó að seinna hlutverk hvala sé svipað er það aðeins öðruvísi í eðli sínu - eftir dauða sinn næra hvalir neðansjávarvistkerfi og hindra að koltvísýringur komist út í andrúmsloftið til að byrja með. Hvalveiðar rjúfa hringrásina í báðum tilfellum og raska þannig viðkvæmu jafnvægi lífríkisins. Þó að það sé sláandi að viss lönd (þar á meðal Ísland) leyfi enn hvalveiðar í viðskiptaskyni, er skaðinn nú þegar skeður. Þó að við myndum hætta hvalveiðum á heimsvísu á einni nóttu stæðu hvalir enn frammi fyrir ýmsum ógnum.

Plastið í sjónum hefur fengið gríðarlega mikla umfjöllun, en ýmis myndbönd hafa ferðast eins og eldur í sinu á netinu; selir fastir í plasthringjum, fólk að toga plaströr út úr nefjunum á skjaldbökum og hvalir að skolast á land með magann fullan af plastpokum. Hins vegar er þetta ekki eina vandamálið - hlýnun jarðar og hækkandi hiti sjávar hefur áhrif á fæðukeðjuna alla og gerir áður byggileg svæði hafsins óbyggileg eða knýr dýr (bæði hvali og fæðu þeirra) til að flytja til annarra hluta hafsins til að fylgja fæðuframboðinu. Þar að auki getur hljóðmengun af völdum iðnaðar (svo sem vöruflutninga), hersónartækja og sprengja sem notaðar eru við neðansjávarnámur haft í för með sér óþægindi og jafnvel dauða hvala, sem neyðir þá til að hörfa frá hávaðanum og upp á land. Báta- og veiðislys eru líka sökudólgar hvað varðar umtalsverða fækkun hvala. Sléttbaksstofnar munu mögulega aldrei jafna sig á hvalveiðum 19. og 20. aldar þar sem lífsferill þeirra er afar langur og hægur, og þó að þeir séu í dag verndaðir gegn veiðum eru þeir enn að deyja vegna slysa hraðar en þeir geta fjölgað sér.

Hvalir gegna lífsnauðsynlegu hlutverki í vistkerfi sjávar, og þó að það virðist óraunhæft að samfélög heimsins muni takast á við sjávarmengunina á næstunni verðum við að vona að Ísland og hin tvö löndin sem enn stunda hvalveiðar viðurkenni skaðleg áhrif þeirra á umhverfið.

This article is from: