4 minute read

Menningarlegt áhugaleysi og tregða í umhverfismálum

Ósonlagið. Eitt fyrsta og og sýnilegasta merki loftslagsbreytinga, afleiðing sem orsakaðist af stóriðjutengdri losun klórflúorkolefna (e. chlorofluorocarbons, CFC) út í andrúmsloftið og varð hitamál í samfélaginu. Þynning ósonlagsins er að ganga til baka 1) og það er framför sem við ættum að fagna. Það eru samt fleiri alvarleg vandamál sem steðja að nú þegar hitastig jarðar hækkar óðfluga 2). Falsfréttir og sérhagsmunir hægri afla hafa lengi grafið undan loftslagsfræðum og krafist sannana með reglulegu millibili 3). Á einhverjum tímapunkti á síðustu áratugum er eins og umræðan um loftslagsbreytingar og hverfandi umhverfi hafi kveðin niður að einhverju leyti, en afleiðingar þess má til dæmis sjá í æ hraðari skógareyðingu í Brasilíu sem er nú fyrst á niðurleið vegna stefnubreytinga hins nýja forseta, Luiz Inácio Lula da Silva, í þarsíðasta mánuði 4). Hins vegar hefur samfélagsumræðan um loftslagsbreytingar snúist upp í umræðuna um þörf - en það samtal skekkist þegar um þróaðri ríki er að ræða. Á meginlandi Afríku, til dæmis, stendur hugmyndin um græn samfélög í skugga kapítalismans, og jafnvel þau sem vilja innleiða græna stefnu eru ófær um það vegna skorts á auðlindum og styrkjum 5).

Innlent frumkvæði

Advertisement

Hér heima fyrir stefna íslensk stjórnvöld að því að verða leiðandi afl á heimsvísu hvað varðar umhverfisstefnu og hafa lagt áherslu á að styrkja rannsóknir og fræðslu almennings 6). Ef við hugsum til súrnunar sjávar og afleiðinganna sem það gæti haft á fiskiðnaðinn er ekki að furða að yfirvöld hafi áhyggjur af þróun mála. Innlendur iðnaður, eins og hinn gríðarlega mengandi áliðnaður, hefur tekið við sér og innleitt kolefnisjöfnunarstefnu 7). Það er hægt að færa rök fyrir því að vel hafi verið tekið á loftslagsvánni, þó að staðan sé sífellt að breytast og þróast og loftslagsbreytingar haldi áfram að vera alvarleg ógn hvað varðar afkomu mannsins 8). Háskóli Íslands hefur einnig staðið fyrir ráðstefnum og fræðslu hvað varðar græna orku, þar á meðal viðburði um vetnishagkerfi.

Vaxandi vandamál

Aðalvandinn hvað varðar loftslagsbreytingar og náttúruvernd er tímarammi aðgerða. Meira að segja í samanburði við COVID-19 faraldurinn, sem setti stóran hluta heimsins á hliðina, eru afleiðingar loftslagsbreytinga grafalvarlegar og munu vera til staðar í marga áratugi og jafnvel aldir. Flest fólk er illa í stakk búið til þess að takast á við jafn langvarandi áskoranir, og þó hópur ungs fólks beiti sér af krafti til þess að sporna gegn þeim (þar má sérstaklega nefna hina óstöðvandi Gretu Thunberg 9)) er athygli okkar dreifð vegna aukinnar samfélagsmiðlanotkunar 10) og loftslagsbreytingar eru æ oftar settar í flokk þeirra málefna sem við ætlum að takast á við seinna. Það er ávísun á stórslys. Það er ekki hægt að leggja of mikla áherslu á loftslagsvána og afleiðingar hennar, því þegar áhrifanna fer að verða vart verður ekkert í stöðunni annað en að flýja þau. Jarðskjálftar og þurrkar, þó hægt sé að spá fyrir um slíkt, eru vandamál sem erfitt er að stemma stigu við svo einhverju muni. Ólíkt heimsfaraldrinum sem hægt var að leysa með manngerðu bóluefni, er engin ein töfralausn sem hægt er að nota til að má út þau neikvæðu áhrif sem vanræksla umhverfisins hefur haft.

Stefnt að stöðugleika

Vegna þess hvernig stefnur og reglugerðir haldast hönd í hönd, væri best að finna leið til að safna úrræðum saman þvert á lönd. Þetta er erfitt í framkvæmd vegna leyndarinnar sem einkennir oft viðskipta- og fjármálatengdar upplýsingar landa, en það sem faraldurinn sýndi okkur var að heimurinn er fær um að taka höndum saman og deila auðlindum sín á milli í þágu sameiginlegs markmiðs. Tíminn til þess að sameinast í baráttunni gegn loftslagsbreytingum er núna. Nú eru innlendar aðgerðir ríkja því miður ekki nóg til þess að bregðast við af alvöru, heldur þurfum við að leggja áherslu á þverfaglega samvinnu, sem er gríðarlega mikilvæg, auk þess að beita okkur af auknum krafti í að uppræta falsfréttir um loftslagsbreytingar og umhverfismál.

This article is from: