3 minute read

Ávarp Ritstjóra

Next Article
Rósalind rector

Rósalind rector

Ávarp Ritstjóra

Hólmfríður María Bjarnardóttir

Mynd: Kata Jóhanness

Advertisement

Hólmfríður María Bjarnardóttir

Hvað ber framtíðin í skauti sér? er spurning sem við veltum öll fyrir okkur af og til. Sumir meira en aðrir en hún virðist þó alltaf birtast í einhverju formi. Hvort sem það er frænka í fermingarveislu sem spyr hvað þú sért að gera í lífinu og hver séu næstu skref, vangaveltur með maka eða vinum um framtíðina eða einfaldlega bíómynd sem fær þig til að hugsa. Þema þessa blaðs er framtíðin, í öllum sínum formum, hlykkjum og einfaldleika. Spurningar mínar til framtíðarinnar skipta iðulega um takt, ég velti fyrir mér hvar ég verði eftir 5 ár, 10 ár, 40 ár, hvað ég muni gera, hvar ég verði staðsett og hvaða sambönd ég muni enn rækta og hvort nýjar manneskjur séu búnar að ganga inn í lífið mitt. Ég velti fyrir mér hver staðan verði í heiminum, umhverfismálum, bókaútgáfu, landbúnaði, pólitík, námi og svo má lengi telja.

Nú höfum við gengið inn í nýtt ár, 2021. Bráðum munum við eftir að skrifa 2021 í stað 2020 þegar við hripum árið niður af einhverri ástæðu. Margir sáu fyrir sér nýja byrjun með nýju ári, að sprengingar flugelda gætu hratt veiruna burt en við þurfum enn að fara varlega. Þetta ár fór vissulega af stað með sprengingu, þó ekki þeirri sem við bjuggumst við, en allir hljóta að hafa heyrt af því þegar meginkaldavatnsæð Vesturbæjar rofnaði og um það bil ein Laugardalslaug lak inn í Háskólann. Alvarlegt tjón varð í Háskólanum og ýmsar stórar stofur sem átti að nota til staðkennslu lentu m.a. illa í því. Það eru vissulega mikil vonbrigði þar sem margir voru spenntir að geta mætt í skólann, þó með takmörkunum. Rafræn kennsla mun því halda áfram að einkenna háskólanám okkar og við skulum gera það besta úr því. Ég bendi á á greinar sem hafa birst í síðustu tveimur blöðum með alls kyns ráðum fyrir stúdenta og aðra á þessum rafrænu tímum.

EIGA STÚDENTAR EKKI BETRA SKILIÐ?

Í lok janúar fór Stúdentaráð í herferð sem bar nafnið: Eiga stúdentar ekki betra skilið. SHÍ krefst þess að nemendum sé tryggður réttur til atvinnuleysisbóta, grunnframfærsla framfærslulána hjá Menntasjóði námsmanna sé hækkuð og raunverulegt samráð sé milli stúdenta og stjórnvalda. Tölur frá Eurostudent VII sýna að 72% íslenskra stúdenta vinna því annars hefðu þeir ekki efni á að stunda nám, 31% íslenskra stúdenta eiga í fjárhagslegum erfiðleikum og 25% telja að vinnan hafi áhrif á frammistöðu þeirra í námi. Könnunin var lögð fyrir faraldurinn og því má búast við því að staða stúdenta hafi versnað síðan.

Atvinnuleysisbótakrafa Stúdentaráðs snýst ekki um að gefa stúdentum færi á að liggja í leti, hún snýst um að allir stúdentar sem þurfi að sækja sér fjárhagsaðstoð, sökum atvinnuleysis, eigi kost á því til jafns við aðra vinnandi landsmenn. Af launum stúdenta, rétt eins og annarra, er dregið 1,35% sem greitt er í atvinnutryggingasjóð og Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga. Það er því meira en lítið furðulegt að stúdentar séu sagðir eiga engan rétt á aðstoð þaðan, líkt og þeir áttu fyrir 2010 þegar breyting varð á og stúdentar skildir eftir í bát án ára, meðan annað vinnandi fólk sigldi fram hjá.

Margir hafa eflaust velt fyrir sér hvers vegna stúdentar séu að kvarta, þeir hafi nú námslánakerfið, sem er vissulega stuðningur við stúdenta en grunnframfærslan gerir stúdentum samt ekki kleift að mæta öllum sínum útgjöldum. Stúdentar neyðast því einnig til að vinna með námi, þó ekki of mikið, því þá skerðast námslánin.

Stúdentaráð er hér til þess að standa vörð um réttindi stúdenta og beita sér í þágu þeirra. Á síðasta ári varð Stúdentaráð 100 ára, í tilefni þess var unnið að heimildaþáttum um sögu og hagsmunabaráttu Stúdentaráðs sem voru sýndir á Rúv alla fimmtudaga í febrúar 2021. Ég mæli með að horfa á þættina og kynna sér kynngimagnaða sögu stúdentabaráttunnar.

Ég vil þakka öllum sem komu að blaðinu, það er ekki auðvelt að vinna í slíku í heimsfaraldri þegar hugurinn er á milljón í allar áttir.

This article is from: