Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2.tbl 2024

Page 1


Tímarit HJÚKRUNARFRÆÐINGA

The Icelandic Journal of Nursing | 2. tbl. 2024 | 100. árgangur

Sjöfn Kjartansdóttir

hjúkrunarfræðingur á gjörgæslu í draumastarfinu eftir 24 ár á öðrum vettvangi

Átröskunarteymi Landspítala

– mikil skörun er á milli áfalla og geðrænna áskorana

Hjúkrunarfræðingur sem starfar á heilsustofnun og vökudeild gefur út bók um einmanaleikann

Ört stækkandi hópur með ópíóíðavanda er stærsta áskorunin á sjúkrahúsinu Vogi

„ Heilsugæslan er frábær vinnustaður“

Efnisyfirlit

17 26 38 34 30

Ásdís M. Finnbogadóttir aðstoðardeildarstjóri á sjúkrahúsinu á Vogi 12 Spurt og svarað um Styrktarsjóð Fíh

14 Viðtal – Aðalbjörg S. Helgadóttir, hjúkrunarfræðingur, rithöfundur og doktorsnemi

17 Minning – Litið um öxl, Elín Eggertz Stefánsson

18 Aðalfundur Fíh á Grand Hótel Reykjavík

20 Hjúkrunarfræðineminn Jón Grétar hélt ræðu á aðalfundi Fíh

22 Vaktin mín – Þorbjörg Anna Steinarsdóttir, skólahjúkrunarfræðingur í Sunnulækjarskóla

26 Viðtal – Rætt við Jórlaugu Heimisdóttur sem starfar hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu

30 Viðtal – Sjöfn Kjartansdóttir, hjúkrunarfræðingur snéri aftur á gjörgæsludeild eftir rúm 20 ár á allt öðrum vettvangi

34 Háskólakennarinn – Sigrún Sunna Skúladóttir, lektor við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands

38 Viðtal – Rætt við Söndru Friðriksdóttur, hjúkrunarfræðing í átröskunarteymi Landspítala

42

52

62

72

80

Ritrýnd grein: Mér fannst ég verða aftur ég sjálfReynsla kvenna af notkun hormónauppbótarmeðferðar á breytingaskeiði

Ritrýnd grein: Þýðing og prófun á PREMIS: Spurningalisti til að kanna þekkingu heilbrigðisstarfsmanna á ofbeldi í nánum samböndum

Ritrýnd grein: „Suma daga nær maður ekki höfðinu upp úr vatninu“ - Reynsla hjúkrunarfræðinga af starfi teymisstjóra í heimahjúkrun

Ritrýnd grein: Næringarástand eldra fólks í sjálfstæðri búsetu á Akureyri og nágrenni: Lýsandi þversniðsrannsókn

Ritrýnd grein: Eftirfylgni og árangur meðferðar hjá fólki með sykursýki gerð 2 innan tveggja sykursýkismóttaka á heilsugæslustöðvum

90 Fræðslugrein: Endursagnaraðferðin í sjúklingafræðslu: Gagnreynd leið til að kanna skilning og bæta heilsulæsi

Frí jafn nauðsynlegt andlegri vellíðan og súrefni heilanum

Maður er manns gaman stendur í Hávamálum sem voru skrifuð fyrir mörg hundruð árum síðan. Sumt breytist ekki, við þrífumst flest best á góðum og nærandi tengslum; samveru, snertingu og hlýju og án samferðafólks, fjölskyldu og vina erum við eyland og upplifum mögulega einsemd. Við viljum tilheyra, upplifa kærleika og nánd en í sífellt tæknivæddari heimi fer einsemd vaxandi. Við tengjumst í gegnum tæknina en slík tengsl koma ekki í staðinn fyrir mannleg samskipti í raunheimi og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO hefur talað um farald einmanaleika. Í Bretlandi hefur frá árinu 2018 verið starfandi ráðherra einmanaleika og í Japan er sams konar ráðherra. Það er kannski tímabært að hér á landi verði skipaður ráðherra í ríkisstjórn sem hafi andlega líðan þegna þessa lands í brennidepli?

Í þessu tölublaði er áhugavert viðtal við Aðalbjörgu Stefaníu Helgadóttur, hjúkrunarfræðing, doktorsnema og rithöfund sem nýverið gaf út bókina Einmana – tengsl og tilgangur í heimi vaxandi einsemdar. Aðalbjörg skoðar í þessari bók einsemdina út frá ýmsum hliðum, hún segist alltaf hafa haft áhuga á tengslum en þegar hún var í meistaranáminu má segja að áhuginn á einmanaleikanum hafi kviknað fyrir alvöru. Hún tók þá viðtöl við hjúkrunardeildastjóra um upplifun af starfi, álag, og bjargráð. „Þá kom í ljós að þeim sem leið ekki vel í vinnunni sögðust upplifa sig svo einar sem kveikti áhugann enn frekar og hvort við upplifum öll þessa tilfinningu að vera einmana,“ segir Aðalbjörg og afraksturinn varð svo þessi áhugaverða bók um mikilvægi tengsla, hvernig bregðast má við einmanaleika og hvað sú tilfinning eða upplifun getur kennt okkur.

Jórlaug Heimisdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, kom líka í spjall til okkar en hún er verkefnastjóri heilsueflandi þjónustu. Hennar starf felst í að þróa, leiða og samræma starfsemi í heilsugæslu á landsvísu með áherslu á fólk með langvinnan heilsuvanda og aldraða. Þegar hún var spurð um helstu áskoranir í starfi sagði hún meðal annars: „Ein af áskorununum eru langvinnur heilsuvandi; andleg líðan og þar kemur svefnvandinn inn, kvíði og ýmislegt annað.“

Aftur komum við að andlegri líðan sem kannski má segja að sé rauði þráðurinn í átt að hamingjunni. Ef við erum vansæl, sofum illa, erum kvíðin, einmana eða allt í bland líður okkur ekki vel. Kulnun hefur verið áberandi í umræðunni undanfarin ár og sömuleiðis streitutengd heilsufarsvandamál. Þess vegna er svo mikilvægt að taka sumarfrí og njóta þess að slaka sem mest og best. Endurhlaða sig eftir veturinn með nægum svefni og njóta þess að gera sem minnst nema kannski bara að vera úti í náttúrunni eða liggja upp í sófa með góða bók. Sumir hlaða samt best á hlaupum eða á sundi í köldum sjó.

Hvað sem það er, sem gefur þér orku og vellíðan, gerðu það og njóttu þess. Ég held ég þori að fullyrða að gott frí sé andlegri heilsu jafn nauðsynlegt og súrefni er heilastarfseminni.

Kæru hjúkrunarfræðingar, vonandi náið þið að taka gott frí og njóta lífsins sem allra mest í sumar. Vonandi njótið þið líka lestur blaðsins sem er fullt af áhugaverðum viðtölum og ritrýndum greinum en þær eru fimm talsins að þessu sinni og allar mjög fræðandi og áhugaverðar.

Sumarkveðjur,

(hún/she)

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Engjateigi 9 · 105 Reykjavík

Sími: 540 6400

hjukrun.is

Útgefandi: Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga

Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Ritnefnd: Helga Pálmadóttir, Sölvi Sveinsson, Þórunn

Sigurðardóttir, Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman

Ritstjóri ritrýndra greina: Kristín Linda H. Hjartardóttir

Ritnefnd ritrýndra greina: Páll Biering, Sigrún Sunna

Skúladóttir, Þóra Jenný Gunnarsdóttir

Yfirlestur: Ragnheiður Linnet

Auglýsingar: Erna Sigmundsdóttir

Umbrot: Prentmet Oddi

Forsíðumynd: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Prentun: Prentmet Oddi

ISSN 1022-2278

Breytingar

Sumarið er tíminn til að slaka á, hlaða batteríin og njóta samverustunda með sínum nánustu. Ég vona að sem flestir hjúkrunarfræðingar nái samfelldu fríi því fátt er mikilvægara en að gefa sér góðan tíma til að hlúa að sjálfum sér og sínum.

Síðustu mánuði hafa samninganefndir hjúkrunarfræðinga fundað með launagreiðendum með það að markmiði að ná góðum kjarasamningum. Enn eru engin stór tíðindi af árangri við samningaborðið, fyrir utan breytingar á betri vinnutíma en þó er samtalið í gangi og það skiptir miklu máli. Við fundum reglulega með trúnaðarmannaráði og stjórn félagsins um framgang viðræðnanna. Ég hvet alla til að fylgjast með í gegnum vefinn okkar, hjukrun.is, fréttabréfið okkar eða á samfélagsmiðlum Fíh.

Það er að mörgu að huga þegar samið er um kjör til framtíðar. Það eru að verða miklar breytingar á þjóðfélaginu sem hjúkrunarfræðingar fara ekki varhluta af. Árlega eru teknar saman tölur um starfandi hjúkrunarfræðinga á landinu, í fyrra var í fyrsta sinn frá upphafi fækkun á starfandi hjúkrunarfræðingum, þó innan tölfræðilegra marka með teknu tilliti til fæðingarorlofa, veikindaleyfa og annarra slíkra þátta.

Það að fjöldi starfandi hjúkrunarfræðinga fari lítillega fækkandi milli ára þá er ekki tilefni til gífuryrða en það gefur tilefni til að íhuga í hvaða átt þetta þjóðfélag er að stefna. Við höfum ekki efni á því sem þjóð að halda áfram í sömu átt, allar rannsóknir sýna að það þarf háskólamenntaða hjúkrunarfræðinga til að halda heilbrigðiskerfinu gangandi. Það er hlutverk stjórnvalda að koma í veg fyrir frekara brottfall hjúkrunarfræðinga úr starfi, halda þeim í starfi og tryggja nýliðun.

Lína í sandinn

Tölurnar segja okkur einnig að hjúkrunarfræðingum af erlendu bergi brotnu fjölgar úr rúmlega 6% í 8% milli ára. Þetta er eðlileg þróun í takt við þjóðfélagsbreytingarnar þar sem stækkandi hluti þjóðarinnar fæddist í öðru landi. Okkur mun aldrei takast að manna heilbrigðiskerfið með einungis íslenskum hjúkrunarfræðingum, það er einfaldlega ekki hægt að mennta nógu marga hérlendis til að halda í við eftirspurnina. Það skiptir hins vegar máli hvernig staðið er að fjölgun erlendra hjúkrunarfræðinga.

Hér á landi getum við stolt sagt að engin heilbrigðisstofnun sæki markvisst hjúkrunarfræðinga til annarra landa. Slíkt gengur gegn opinberri og alþjóðlegum stefnum um að sækja ekki hjúkrunarfræðinga til annarra landa. Það er skortur á hjúkrunarfræðingum um allan heim og það er ósiðlegt að nota fjárhagslegan styrk okkar þjóðar til að sækja hjúkrunarfræðinga frá efnaminni löndum sem þegar berjast í bökkum með að reka sitt heilbrigðiskerfi. Við höfum séð ásakanir um slíkt t.d. á hendur heilbrigðisstofnunum í Bretlandi og það væri miður ef slíkt kæmi upp hér á landi.

Þetta málefni verður til umræðu á ráðstefnu Samvinnu hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum (SSN) sem haldin verður í Reykjavík í september næstkomandi. Sjálfbærni þjóða þegar kemur að mönnun hjúkrunarfræðinga er langt frá því að vera einkamál okkar á Íslandi, um allan heim stendur fólk í sömu sporum og veltir fyrir sér framtíðinni. Það sem skiptir máli er að við höfum dregið línu í sandinn. Við látum ekki aðrar þjóðir mennta fyrir okkur hjúkrunarfræðinga en bjóðum þó að sjálfsögðu þá hjúkrunarfræðinga velkomna sem vilja setjast að á Íslandi á eigin vegum og ekki er um skipulagðan innflutning á þeim að ræða.

Stöðvum ofbeldið Ólýsanlegur hryllingur á sér nú stað á Gazaströndinni, innviðir eru í rúst, ráðist hefur verið á heilbrigðisstarfsfólk og almenna borgara. Aðgangur fólks að heilbrigðisþjónustu eru mannréttindi og árásir á heilbrigðisstarfsfólk og sjúklinga eru með öllu óásættanlegar. Félagið hefur fordæmt ofbeldið sem á sér stað frá upphafi og tekið þar m.a. undir tilmæli frá alþjóðlegum samtökum hjúkrunarfræðinga og heilbrigðisstarfsfólks. Nauðsynlegt er að koma á friði án tafar og koma hjálpargögnum til þeirra sem þurfa á því að halda.

Þann 3. október verður haldið hjúkrunarþing og munum við ræða þar hjúkrun við lok lífs. Málefni sem kemur hjúkrunarfræðingum við og nauðsynlegt að tekin verði markviss umræða um. Það þarf að hlusta á öll sjónarmið áður en félagið myndar sér formlega afstöðu eins og t.d. um margumrædda dánaraðstoð. Það þarf að skoða hlutverk hjúkrunarfræðinga, siðferðisleg álitamál og reynslu annarra þjóða.

Nýr formaður á næsta ári Á næsta ári fara fram kosningar um formann Fíh. Ég mun ekki gefa kost á mér til áframhaldandi setu og verður þetta því mitt síðasta starfsár. Þetta er búinn að vera mjög gefandi, lærdómsríkur og krefjandi tími. Fram undan eru nú áframhaldandi kjaraviðræður og mörg önnur stór verkefni. Í framhaldinu tekur svo nýr leiðtogi við keflinu næsta vor.

Ég hvet alla hjúkrunarfræðinga, eins og fyrr, til að taka sér lögbundið sumarfrí og eiga gefandi og góðan tíma með sínum nánustu. Þá fyrst er hægt að mæta aftur til vinnu og halda áfram því góða starfi sem þið þegar innið af hendi.

Okkar besta fólk

Okkar besta fólk í heilbrigðisgeiranum hefur reitt sig á þjónustu okkar um árabil. Þau þurfa að geta treyst því að öll tæki og búnaður sé örugglega í lagi og virki eins og til er ætlast.

Fréttamolar

Tveir nýir stjórnarmeðlimir í stjórn Fíh

Tveir nýir meðlimir voru kjörnir í stjórn Fíh fyrir starfsárið 2024-2025 á aðalfundi félagsins, sem haldinn var á Grand Hótel Reykjavík, þann 16. maí síðastliðinn. Þegar aðalfundi lauk stillti nýja stjórnin sér upp fyrir myndatöku þar sem ritstýran náði þessu glaðlega augnabliki.

Þess má geta að á aðalfundinum voru einnig tveir nýir kjörnir í ritnefnd Tímarits hjúkrunarfræðinga; Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman í almennu ritnefndina og Herdís Sveinsdóttir í ritnefnd ritrýndra greina. Þær komu inn í staðinn fyrir Pál Biering (ritnefnd ritrýndra greina) og Þórunni Sigurðardóttur (almennu ritnefnd) sem við viljum þakka góð störf síðastliðin tvö ár.

Stjórn Fíh 2024-2025. F.v. Hulda Björg Óladóttir, Þórdís Hulda Tómasdóttir, Ásdís M. Finnbogadóttir, Guðbjörg Pálsdóttir, Bryndís Rut Logadóttir, Kristófer Kristófersson (varamaður), Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen, Gunnhildur H. Blöndal (varamaður) og Guðlaug Ásta Gunnarsdóttir.

Karlmenn í hjúkrun hittumst á Petersen svítunni

Karladeild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í samstarfi við Fíh, blés til hittings á Petersen svítunni fimmtudagskvöldið 23. maí þar sem bæði hjúkrunarfræðingar og nemar í hjúkrun voru hvattir til að láta sjá sig. Gleðin réði ríkjum og góð mæting skapaði frábæra stemningu hjá hópnum en tilgangurinn með hittingnum var einfaldlega að hittast, ræða saman og stuðla að áframhaldandi aukningu karla í hjúkrunarfræði sem við vonum svo sannarlega að verði raunin.

Nýsamþykkt lög um refsiábyrgð í hnotskurn

Í desember 2023 samþykkti Alþingi frumvarp um refsiábyrgð heilbrigðisstofnana og rannsókn alvarlegra atvika.

Markmið lagabreytinganna er að:

• auka öryggi sjúklinga

• efla öryggismenningu innan heilbrigðiskerfisins

• fækka alvarlegum atvikum

• skýra og auka réttaröryggi heilbrigðisstarfsfólks

Hvað þýða þessi nýsamþykktu lög fyrir hjúkrunarfræðinga?

• Stærsta breytingin er að áður var ekki hægt að ákæra heilbrigðisstofnanir ef atvik áttu sér stað innan þeirra.

• Í nýju lögunum er nú heimild til þess að láta heilbrigðisstofnun bera refsiábyrgð.

• Nýju lögunum er ætlað að minnka líkur á að heilbrigðisstarfsfólk sé ákært.

• Ákæruvald getur samt sem áður áfram sótt heilbrigðisstarfsfólk til saka.

• Fíh áréttar mikilvægi þess að hjúkrunarfræðingur sem kallaður er til viðtals vegna atviks eða kvörtunar leiti til félagsins þar sem Fíh veitir stuðning og ráðgjöf í slíkum málum.

Ráðstefna ICN í Helsinki í júní 2025

Ráðstefna Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN) árið 2025 verður haldin í Helsinki í Finnlandi dagana 9.-13. júní. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2001 sem ICN heldur ráðstefnu á Norðurlöndunum. Fíh hvetur hjúkrunarfræðinga til að missa ekki af þessu frábæra tækifæri til að heimsækja Helsinki og að setja ráðstefnu ICN í ráðstefnudagatal næsta árs. Vert er að vekja athygli á því að þessi ráðstefna er styrkhæf í starfsmenntunarsjóð Fíh.

Þema ráðstefnunnar 2025 er „Kraftur hjúkrunarfræðinga til að breyta heiminum“ (e. The Power of Nurses to Change the World). Líkt og á fyrri ráðstefnum ICN gefst hjúkrunarfræðingum kostur á að víkka tengslanet sitt, læra hver af öðrum og kynnast leiðtogum í hjúkrun frá öllum heimshornum. Ekki láta þessa spennandi ráðstefnudaga í Helsinki fram hjá þér fara.

Hjúkrunarþing 2024

Hjúkrun við lífs Fimmtudaginn 3. október The Reykjavík EDITION Takið daginn frá lok

Leiðtoginn Ásdís M. Finnbogadóttir

Ört stækkandi hópur fólks með ópíóíðavanda stærsta áskorunin

Texti og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Starfstitill: Aðstoðardeildarstjóri á sjúkrahúsinu Vogi.

Aldur: 49 ára.

Fjölskylduhagir: Gift Magnúsi Magnússyni, við eigum þrjú börn.

Varst þú alltaf ákveðin í að verða hjúkrunarfræðingur?

Nei en ég var alltaf viðloðandi heilbrigðisgeirann, til dæmis var ég læknaritari um tíma á röntgendeildinni í Fossvogi. Ég held að það að verða hjúkrunarfræðingur hafi verið í undirmeðvitundinni alla tíð því ég fann fyrir nokkrum árum minningabók sem ég hafði skrifað í þegar ég var sjö ára og þar stóð að ég ætlaði að verða hjúkrunarkona þegar ég yrði stór. Ég fór í Háskóla Íslands í hjúkrunarfræði þegar ég var 25 ára og útskrifaðist í janúar árið 2004.

Hvert lá leiðin eftir útskrift?

Við fjölskyldan fluttum þá strax til Kaupmannahafnar þar sem maðurinn minn var að fara í nám og ég fór að starfa við heimahjúkrun. Það var mikill lærdómur og góð reynsla, skjólstæðingarnir voru á öllum aldri og hjúkrunin fjölbreytt. Við fluttum heim haustið 2004 og þá fór ég að starfa á gjörgæslunni í Fossvogi sem var rosalega góð deild að vera á og ég fékk dýrmæta reynslu þar. Það sem er öðruvísi á gjörgæsludeild er að þar er ekki bara verið að hjúkra sjúklingum sem liggja inni á deildinni heldur líka aðstandendum sem finnst aðstæður á gjörgæslu oft ógnandi. Þetta var eins og fyrr segir dýrmæt reynsla en líka erfið; hjúkrunin sjálf var þung og maður þurfti alltaf að vera í viðbragðsstöðu og til taks í akút aðstæðum. Ég fann fljótt að þetta var ekki mín hilla í faginu og fór þá að leita fyrir mér. Ég sá svo auglýsingu frá SÁÁ, að hjúkrunarfræðing vantaði til starfa á Vogi, ég ákvað að sækja um og fékk starfið. Ég hóf störf árið 2006 og nú 18 árum seinna er ég enn á Vogi.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að sækja um stöðu aðstoðardeildarstjóra?

Árið 2017 bauðst mér að taka við stöðunni en ég hafði þá verið deildarstjóranum innan handar í nokkur ár. Það má kannski segja að ég hafi unnið mig upp í starfið, sérstaklega varðandi daglega stýringu á deildinni og yfisýn yfir mönnun og starfsmannamál.

Á vaktinni starfa um það bil 35 manns; hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, meðferðarfulltrúar og næturverðir. Vogur er lítil stofnun og hér er gott flæði á milli hlutverka deildarstjóra og aðstoðardeildarstjóra, störf okkar skarast að ákveðnu leyti sem skapar góða samvinnu okkar á milli. Bryndís Ólafsdóttir er deildarstjóri, við bætum hvor aðra upp, vinnum vel saman og deilum með okkur verkefnum.

Hvaða eiginleika þarf góður leiðtogi í hjúkrun að hafa?

Góður leiðtogi þarf að hafa mikla og góða samskiptahæfileika, búa yfir jákvæðu viðmóti og vera lausnamiðaður. Mér finnst líka mikilvægt að það sé auðvelt að leita til leiðtoga eða yfirmanna með öll mál, líka litlu málin. Leiðtogi þarf líka að geta tekið ákvarðanir, staðið með þeim og keyrt þær í gegn, hann má ekki efast um sjálfan sig og starfsfólk verður að geta treyst á sinn yfirmann.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í þínu starfi?

Ört stækkandi hópur skjólstæðinga með ópíóíðavanda, það þarf að sinna þessum skjólstæðingum og grípa þá sem vilja aðstoð fljótt því þetta er hópur sem þolir ekki bið. Umsvifin í kringum hvern skjólstæðing með ópíóíðavanda eru mikil og rýmin hér á Vogi þyrftu að vera mun fleiri ef við eigum að ná að sinna öllum sem þurfa og vilja fá hjálp við sinni fíkn. Þetta er auk þess hópur sem þarf sérhæfða göngudeildarþjónustu sem fer fram hér á Vogi. Húsnæðið sem við höfum í dag undir þessa þjónustu er sprungið og við þurfum einnig fleiri hjúkrunarfræðinga til að sinna þessum hópi. Afeitrun fer fram á Vogi og svo fara margir á Vík í meðferð en einnig er göngudeild í Efstaleiti og á Akureyri eru margir meðferðarmöguleikar.

Hvernig hlúir þú að starfsfólki þínu sem þarf stundum að takast á við krefjandi aðstæður?

Við tölum mikið saman og styðjum þannig hvert annað. Það fer enginn starfsmaður einn inn í krefjandi aðstæður og ef starfsmaður lendir í atviki sem tengist ofbeldi, hótun eða akút ástandi hjá

„Leiðtogi þarf líka að geta tekið ákvarðanir, staðið með þeim og keyrt þær í gegn …“

skjólstæðingi metum við það með viðkomandi starfsmanni hvort hann þurfi sálfræðiaðstoð. Hún er í boði hér innanhúss en ef tilvik eru metin alvarleg er einnig í boði meiri stuðningur og sálfræðiþjónusta utan frá.

Bjargráð í starfi?

Náin og góð samskipti starfsfólksins sem starfar á Vogi, við leitum mikið hvert til annars varðandi stuðning.

Hvernig hlúir þú að þinni andlegu og líkamlegu heilsu?

Ég á góða að og hreyfi mig mikið; ég hleyp og lyfti lóðum. Mér finnst það núllstilla heilann og taugakerfið að hlaupa við taktfasta tónlist. Ég hleyp yfirleitt þrisvar í viku og þess á milli lyfti ég lóðum. Ég viðurkenni að ég upplifi oft andlega þreytu eftir vinnudaginn og þá finnst mér virka best að hreyfa og eyða tíma með mínum nánustu. Við spilum og við reynum að borða alltaf kvöldmat saman, það finnst mér mikilvæg samvera.

Ertu meðvitað að vinna í því að efla leiðtogahæfileika þína til þess að verða betri yfirmaður?

Já, ég geri mér grein fyrir þeirri ábyrgð sem ég ber sem aðstoðardeildarstjóri og legg mig fram um að vanda mig í samskiptum. Ef ég sé fram á flókin mál sem kalla á krefjandi samskipti þá leita ég mér aðstoðar hjá öðrum leiðtogum á vinnustaðnum.

Hvernig sérðu að hjúkrun hér á landi muni þróast á næstu tíu árum?

Ég held að hjúkrunarfræðingar munu í auknum mæli stíga fram, taka meiri ábyrgð og sinna fleiri stjórnunarstöðum innan heilbrigðisgeirans. Ég sé líka fyrir mér að róbótar geti leyst ákveðinn mönnunarvanda eins og til dæmis lyfjaskömmtun og þess háttar en kjarninn í hjúkrun eru mannleg samskipti og róbótar munu aldrei koma í stað þeirra.

Draumastarfið þitt?

Ég myndi segja að ég væri í draumastarfinu, ég er búin að starfa á Vogi í 18 ár og á þessum árum takast á við mjög fjölbreytt verkefni.

Það kemur alltaf eitthvað nýtt og spennandi. Ég er einnig í stjórn Fíh og hef verið það í hátt í fjögur ár. Sú reynsla sem ég hef fengið í gegnum starf mitt í stjórn Fíh er ómetanleg. Ég hef lært mikið og áttað mig á hversu mikilvægt vel stýrt stéttarfélag er fyrir félagsmenn þess.

Hvernig gengur þér að samræma vinnu og einkalíf?

Mjög vel, ég tek ekki vandamálin í vinnunni með mér heim en ég er vissulega oft í samskiptum við samstarfsfólk mitt utan vinnutíma því á meðal okkar hefur skapast góð vinátta í gegnum árin.

Hvað finnst þér vera það besta við þitt starf?

Að fá að taka þátt í vexti og þroska SÁÁ. Ég hef fengið að taka þátt í mikilvægum ákvörðunum hvað varðar skipulag hjúkrunar og sálfélagslegrar meðferðar sem fer fram á Vogi. Ég hef fengið tækifæri að taka þátt í rannsóknum og verkefnum og mótun hjúkrunar við sérstakra hópa sem leita aðstoðar hjá SÁÁ.

Þarft þú sem yfirmaður að eyða miklum tíma í skriffinsku og skipulag?

Nei, ég myndi ekki segja það. Minn tími fer að langmestu leyti í að sinna starfsfólki og skjólstæðingum.

Hvernig myndir þú vilja bæta þjónustuna á Vogi?

Ég myndi vilja stærra og hentugra húsnæði undir þjónustuna sem er mjög fjölbreytt. Húsnæðið var byggt 1984 og er orðið barn síns tíma, eftirspurnin eftir þjónustu SÁÁ hefur aukist í takt við fjölgun íbúa á landinu. Það þarf stærra húsnæði hér á höfuðborgarsvæðinu og einnig útibú á landsbyggðinni.

Að lokum hvað er það besta við vera hjúkrunarfræðingur?

Það hefur þroskað mig gríðarlega í samskiptum að vera hjúkrunarfræðingur. Umhyggjuþráðurinn í mér verður sterkari með árunum og reynslunni. Mér finnst ég vera á hárréttri hillu í lífinu og myndi ekki vilja starfa við neitt annað.

BRÁÐAMEÐFERÐ VIÐ MÍGRENISKASTI

FÁANLEGT Í LAUSASÖLU

Sumatriptan Apofri filmuhúðaðar töflur innihalda 50 mg af sumatriptani og er lyfið ætlað til bráðameðferðar við mígreniköstum, með eða án fyrirboðaeinkenna. Ráðlagður skammtur er ein 50 mg tafla eins fljótt og hægt er eftir að mígrenikast hefst. Lesið vandlega upplýsingar á umbúðum og í fylgiseðli fyrir notkun lyfsins. Leitið til læknis eða lyfjafræðings sé þörf á frekari upplýsingum um áhættu og aukaverkanir. Sjá nánari upplýsingar um lyfið á www.serlyfjaskra.is. Evolan Pharma AB. EVO240601 - Júní 2024

Styrktarsjóður Fíh

Styrktarsjóður Fíh veitir hjúkrunarfræðingum fjárhagsaðstoð í veikinda- og slysatilvikum, styður og eflir félagsfólk vegna endurhæfingar eftir slys eða veikindi, auk þess að efla forvarnir sem varða heilsufar og heilbrigði. Í stjórn Styrktarsjóðs sitja fimm hjúkrunarfræðingar sem kjörnir eru á aðalfundi félagsins annað hvert ár.

Hvernig er Styrktarsjóðurinn fjármagnaður?

Það eru atvinnurekendur hjúkrunarfræðinga sem greiða í sjóðinn í samræmi við ákvæði kjarasamninga. Greitt er mánaðarlega 0,75% af heildarlaunum hjúkrunarfræðinga sem vinna hjá ríkinu, Reykjavíkurborg og sveitarfélögum en 1% iðgjald fyrir þá hjúkrunarfræðinga sem vinna á almenna markaðnum. Ástæðan fyrir mishárri prósentu er að m.a. er réttur vegna veikinda sterkari hjá ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélögum en á almenna markaðnum.

Hvenær get ég sótt um styrk í sjóðinn?

Rétt til að fá úthlutað styrk úr Styrktarsjóði Fíh á félagsfólk sem atvinnurekendur hafa greitt styrktarsjóðsframlag fyrir í samtals sex mánuði, þar af samfellt í þrjá mánuði, þegar stofnað var til útgjalda vegna viðburðar sem sótt er um.

Hvar sæki ég um í Styrktarsjóð?

Sækja þarf um styrki til sjóðsins á rafrænu formi á Mínum síðum. Mínar síður má nálgast efst í hægra horninu á vef Fíh, hjukrun.is. Nota þarf rafræn skilríki eða Íslykil til að skrá sig inn.

Hvað styrkir Styrktarsjóður Fíh?

Veittir eru ferns konar styrkir: Heilsustyrkur, fæðingarstyrkur, sjúkradagpeningar og útfararstyrkur.

Hverjar eru fjárupphæðir styrkja sjóðsins?

Veittur er heilsustyrkur allt að 60.000 krónur á ári vegna heilsutengdra útgjalda. Heilsurækt og endurhæfing, s.s. líkamsrækt, sjúkraþjálfun, sjúkranudd, kírópraktor, næringaráðgjöf og sálfræðiþjónusta, er undanþegið skatti en heilbrigðiskostnaður er skattskyldur. Þar má nefna gleraugnakaup, tannlæknakostnað, krabbameinsskoðun og áhættumat vegna hjarta- og æðasjúkdóma. Er þá staðgreiðsla dregin af fjárhæð fyrir útborgun.

Fæðingarstyrkur er að hámarki 250.000 til foreldris fyrir hvert barn og ákvarðast upphæðin af starfshlutfalli.

Hámarks mánaðargreiðsla sjúkradagpeninga hjúkrunarfræðinga er starfa hjá ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélögum er 400.000 kr. og miðast sú upphæð við fullt starf. Hjá hjúkrunarfræðingum er starfa á almenna markaðnum er hámarks mánaðargreiðslan 610.000 kr. og miðast við fullt starf. Sjúkradagpeningar eru greiddir í allt að fjóra mánuði.

Aðstandendur hjúkrunarfræðinga geta sótt um útfararstyrk að upphæð 350.000 kr.

Hvað mega kvittanir vera gamlar?

Kvittanir mega vera allt að 12 mánaða gamlar frá umsókn styrksins.

Hvenær þarf að skila inn umsóknum?

Umsóknir eru afgreiddar mánaðarlega, heilsustyrkur er þó ekki greiddur út í júlí. Umsóknum ásamt viðeigandi gögnum skal skila inn fyrir lok mánaðar.

Hvaða gögnum þarf að skila inn með umsókn?

Fyrir heilsustyrk: Sundurliðuðum reikningi, með nafni umsækjanda og kennitölu, ásamt staðfestingu á greiðslu reikningsins. Á reikningnum þarf að vera áritun/stimpill/merki þess sem gefur reikninginn út með upplýsingum um nafn og kennitölu, ásamt lýsingu á því sem greitt er fyrir.

Fyrir fæðingarstyrk: Fæðingarvottorði barns og launaseðlum síðustu þriggja mánaða með starfshlutfalli.

Fyrir sjúkradagpeninga: Umsóknareyðublað, læknisvottorði, launaseðlum síðustu þriggja mánaða með starfshlutfalli og vottorði um tæmingu veikindaréttar frá vinnuveitanda.

Fyrir útfararstyrk: Dánarvottorð.

Hvenær eru styrkir greiddir út?

Að jafnaði er greitt út 24.–26. dag næsta mánaðar (eftir að umsókn berst) eða næsta virka dag á eftir. Umsóknir sem berast í desember greiðast út í janúar en færast sem styrkur á sama ár og umsókn barst.

Er tekinn skattur af styrkjum sjóðsins?

Greiðslur úr Styrktarsjóði eru almennt staðgreiðsluskyldar og er staðgreiðsla dregin af við afgreiðslu styrks. Dánarbætur og styrkir vegna heilsuræktar og endurhæfingar eru þó undanþegnir staðgreiðsluskyldu.

Hvaða rétt hef ég í veikindaleyfi?

Sjóðsfélagar halda réttindum sínum í sjóðnum fyrir það tímabil sem þeir fá greidda sjúkradagpeninga frá Styrktarsjóði Fíh. Eins er farið með mál sjóðsfélaga sem þiggja endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun og greiða stéttarfélagsgjald.

Hvaða rétt hef ég í launalausu leyfi?

Heilsustyrkur: Sjóðsfélagar halda réttindum í launalausu leyfi í allt að þrjá mánuði.

Fæðingarstyrkur: Sjóðsfélagar halda réttindum í launalausu leyfi í allt að þrjá mánuði.

Sjúkradagpeningar: Sjóðsfélagi í launalausu leyfi heldur réttindum í allt að þrjá mánuði.

Réttur til styrkjar miðast við að hjúkrunarfræðingur hefji störf á ný um leið og launalausu leyfi lýkur. Ekki eru greiddir dagpeningar vegna veikinda í launalausu leyfi.

Ég er atvinnulaus, á ég rétt á styrk?

Sjóðsfélagar með full réttindi við upphaf atvinnuleysis halda réttindum sínum í eitt ár, enda hefjist bótatímabil eða ef til útgjalda sé stofnað innan árs frá upphafi atvinnuleysis. Skilyrði er að greitt sé félagsgjald af atvinnuleysisbótum til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Held ég rétti í sjóðinn þegar ég er komin/n á lífeyri?

Sjóðsfélagar halda réttindum í 12 mánuði eftir að þeir láta af störfum og fara á lífeyri.

Dagpeningar eru þó ekki greiddir lengur en í þrjá mánuði.

Eru einhverjir fyrirvarar á styrkjum?

Heilsu- og útfararstyrkir eru styrkhæfir í allt að 12 mánuði frá því að til útgjalda var stofnað. Kvittanir mega því vera allt að 12 mánaða gamlar.

Fæðingarstyrk þarf að sækja um innan eins árs frá fæðingu barns.

Get ég fengið greitt fyrir fram úr styrktarsjóðnum?

Styrkur er aldrei greiddur út fyrir fram. Greiðsla styrkja felur alltaf í sér endurgreiðslu útlagðs kostnaðar fyrir heilsustyrk, fullnægjandi vottorðum og launaseðlum fyrir fæðingarstyrk, sjúkradagpeninga og útfararstyrk.

IMMEX VIÐ BRÁÐUM NIÐURGANGI

LEYSIST UPP Á TUNGU VIRKAR HRATT

Immex 2 mg frostþurrkaðar töflur, 12 stk. í pakka. Virkt efni: Lóperamíð. Ábendingar: Til meðferðar við einkennum bráðs niðurgangs hjá fullorðnum og unglingum 12 ára og eldri. Leitið til læknis ef sjúkdómseinkenni versna eða lagast ekki innan 2 daga.

FÆST ÁN LYFSEÐILS Í NÆSTA APÓTEKI | LESIÐ FYLGISEÐILINN FYRIR NOTKUN

Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir, hjúkrunarfræðingur og rithöfundur

Hjúkrunarfræðingur í doktorsnámi gefur út bók

Texti: Þórunn Sigurðardóttir | Myndir: Þórunn Sigurðardóttir og úr einkasafni

Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir er hjúkrunarfræðingur með marga hatta. Nýverið kom út bókin Einmana eftir hana en áður hefur hún gefið út bækurnar Samskiptaboðorðin og Samfélagshjúkrun auk þess sem hún ritstýrði bókaröð um hjúkrun fyrir sjúkraliðanema. Við fengum að heimsækja Aðalbjörgu og Díönu, hundinn hennar ljúfa, á fallegt heimili þeirra í Laugardalnum og spyrja út í líf Aðalbjargar og störf.

„Ég ólst upp úti á landi og þar starfaði skólahjúkrunarfræðingur sem hét Adda. Eins og svo mörg þá lenti ég í einelti í grunnskóla en Adda mætti mér alltaf af svo mikilli hlýju og var ein af mínum fyrirmyndum úr æsku. Það var alltaf draumur minn að verða eins og hún en svo bara gerðist lífið, ég flutti til Reykjavíkur þegar ég kláraði grunnskóla, fór í FB og var í hljómsveit sem hét Afródíta. Svo flutti ég til Akureyrar þegar ég var 18 ára. Þar kynnist ég barnsföður mínum og við eignumst þrjú börn, fyrst son þegar ég er tvítug og svo tvíbura. Ég lauk ekki framhaldsskóla á réttum tíma, var að njóta þess að vera til og tók einn og einn kúrs í VMA. Við barnsfaðir minn skildum og tveimur árum seinna kynntist ég núverandi manni mínum sem bjó í Reykjavík. Ég ákvað því að flytja til höfuðborgarinnar haustið sem elsti strákurinn minn byrjaði í grunnskóla. Við eignumst svo tvær dætur saman og þegar ég var 29 ára var ég orðin fimm barna móðir.

Þegar sú yngsta var þriggja ára ákvað ég að fara í nám. Ég fór í FÁ og útskrifaðist sem sjúkraliði árið 2006 og fór þá að vinna á vökudeild Landspítalans, kláraði svo stúdentinn og fór svo í kjölfarið í hjúkrun árið 2007. Þegar ég fór í hjúkrun rættist gamall draumur en ég man þegar ég var í kvöldskóla VMA og tók strætó heim sem keyrði fram hjá SAk að ég hugsaði með mér að ég ætlaði mér að verða hjúkrunarfræðingur fyrir fertugt. Þá var ég bara 24 ára og gaf mér því rúman tíma en ég náði markmiðinu og kláraði hjúkrun þegar ég var 39 ára árið 2011. Þetta lá einhvern veginn alltaf fyrir mér, mér finnst allt við fagið ótrúlega áhugavert og skemmtilegt.“

Verkefni í náminu varð seinna að bók og námskeiði Hvert lá leið þín eftir útskrift árið 2011? „Ég starfaði á vökudeildinni samhliða náminu og deildarstjórinn minn þar, Ragnheiður Sigurðardóttir, veitti mér mikinn stuðning. Ég var í hlutastarfi á vökudeildinni til ársins 2015 en ég var líka skólahjúkrunarfræðingur í Langholtsskóla í þrjú ár. Fór svo að kenna í Fjölbraut í Ármúla en árið 2016 fékk ég stöðu deildarstjóra á Heilsustofnun í Hveragerði og starfaði þar til ársins 2020. Þá hafði ég fengið styrk hjá Sjálfstætt starfandi fræðimönnum til að skrifa bókina Einmana, en styrkveitingunni fylgdi sú regla að ég mátti ekki vinna launaða vinnu á sama tíma og ég fékk styrkinn. Ég hafði klárað meistaranám frá HA 2018 samhliða öllum þessum störfum og fór svo í kjölfarið í doktorsnám. Ég byrjaði frekar gömul í námi og kannski þess vegna fannst mér allt þetta nám svo gefandi og veita mér mörg tækifæri. Þegar ég var í grunnnámi í hjúkrun

áttum við að gera verkefni í heilsugæsluhjúkrun, sem var að búa til fræðsluefni, ég gerði leiðarvísi um góð samskipti sem urðu svo Samskiptaboðorðin og komu út árið 2012. Í kjölfarið skrifaði ég svo bók um samskipti sem kom út 2016. Núna átta árum seinna er ég enn að nýta þessa afurð á námskeiði sem ég kenni í Bataskólanum sem mér finnst vera mjög gefandi og áhugavert.

Stundum engin úrræði en alltaf hlýtt andrúmsloft

Aðalbjörg hafði starfað í Hveragerði í um fjögur ár þegar hún tók sér pásu til að skrifa bókina en núna er hún aðeins byrjuð að vinna þar aftur. „Það var í raun mjög erfitt að taka þessa ákvörðun að hætta og fara í leyfið en mér fannst ég verða að skrifa þessa bók um einmanaleikann. Ef ég hefði ekki skrifað hana þá hefði örugglega enginn annar gert það. Á Heilsustofnuninni í Hveragerði finnst mér yndislegt að starfa og þar hittir maður fólk sem er með alls konar áföll og erfiða reynslu á bakinu en maður sér fólk rísa upp við veruna þarna. Þetta eru engin geimvísindi, þarna fá þau bara tíma og næði til að hlúa að sér. Við erum búin að læra um þetta í náminu; hve mikilvægt það er að annast sjálfan sig svo unnt sé að annast aðra, en að horfa á þetta raungerast þarna er stórkostlegt,“ segir hún brosandi.

Hvernig er hefðbundin vakt á Heilsustofnuninni í Hveragerði? „Hún er öðruvísi en á öðrum vinnustöðum sem ég hef starfað á. Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar vinna í nánu samstarfi á vaktinni. Við erum kannski með um 120 manns í húsinu og hluti af þeim þarf mögulega smá aðstoð. Sum eru að koma til okkar í lyfjagjafir eða sáraskipti og þetta minnir stundum á hjúkrunarmóttöku á heilsugæslu. Eitt sem er frábrugðið þarna er að við tölum um gesti en ekki skjólstæðinga. Við tökum á móti gestunum okkar og tökum ítarlegt komuviðtal. Þannig erum við fyrsta snertingin. Svo eru fastir liðir eins og slökun á kvöldin og samflot í sundlauginni tvisvar í viku. Einnig felst starfið líka í því að vera til staðar, eiga samtöl við gestina, hlúa að þeim og vera vakandi yfir þeim sem þurfa stuðning, svo eru göngur einu sinni á dag.“

Aðalbjörg segir að sér finnist erfiðast við starfið að vera með gesti sem ekki er hægt að gera neitt fyrir; „það eru stundum engin úrræði og það er erfitt en þarna er alltaf hlýlegt andrúmsloft og gestir finna fyrir umhyggju. Við sem þarna störfum gefum okkur tíma til að eiga samtal við fólk. Það er auðvitað ýmislegt sem getur

komið upp á og stundum þurfum við að hringja út sjúkrabíla því fólk er misjafnlega á sig komið en það er yndislegt að vera þarna.“

Hlúir að tengslamyndun á vökudeildinni

Aðalbjörg starfar ekki eingöngu á Heilsustofnun í Hveragerði því árið 2022 fór hún aftur að starfa á vökudeildinni. „Bæði vökudeildin og heilsustofnun eru gefandi vinnustaðir. Vökudeildin fangaði hjarta mitt þegar ég kom þangað fyrst í verknám sem sjúkraliðanemi. Þar er ég núna í 40% starfi og finnst það vera forréttindi. Þessi tvö ólíku störf mín sýna vel tækifærin sem felast í því að vera í hjúkrun. Þetta eru mjög ólíkir vinnustaðir, gjörgæsla og endurhæfing, en mér finnst ég aldrei vera slitin í sundur, þetta gengur allt upp. Á vökudeildinni er gjörgæsla, hágæsla og svo vaxtarrækt þar sem börnin eru orðin meira stabíl en eru enn að læra að drekka og slíkt. Ég flakka svolítið milli þess að vera í vaxtarræktinni og hágæslunni. Skemmtilegast finnst mér að hlúa að tengslamyndun milli foreldra og barna. Það eru þessi augnablik í starfinu eins og til dæmis að færa lítinn fyrirbura í fang móður þess eða föður í fyrsta skiptið, sem er mest gefandi. Það getur verið mjög krefjandi fyrir foreldra að vera með barnið sitt á vökudeild og það að geta valdeflt foreldra til að taka á sig þetta stóra hlutverk er líka mjög gefandi fyrir mig í starfi.“

Hún segir enn meiri áherslu vera á fjölskylduhjúkrunina en var fyrir nokkrum árum. „Það eru fleiri fjölskylduherbergi og við erum meira að fara til fjölskyldunnar; inn á sængurkvennagang og fæðingardeildina, í stað þess að barnið fari frá fjölskyldunni og til okkar. Það gerir það að verkum að starfið okkar er umfangsmeira, við þurfum að vera í öllum þessum tæknilega krefjandi atriðum og líka að sinna þessari fjölskylduhjúkrun og starfið meira krefjandi. Á sama tíma, þegar það gengur vel, þá er það meira gefandi.“

Mikilvægt að hlúa vel að starfsfólki Í B.S.-náminu í hjúkrun gerði ég rannsókn á handleiðslu fyrir hjúkrunarfræðinga, sem var ekki áberandi í umræðunni á þeim tíma en er það í dag. Það getur verið snúið að sinna alls konar fjölskyldum og stuðningur fyrir fagfólk hefur aukist. Stuðningsog ráðgjafateymi spítalans kemur til dæmis inn og býður upp á stuðning en ég tel það vera lykilatriði fyrir starfsfólk að fá stuðning til að geta verið í þessu starfi. Við erum að takast á við erfiða hluti, jafnvel á hverjum degi og svo má ekki gleyma því að það eru ekki öll börn sem hafa það af. Þess vegna skiptir máli að það sé gætt að því að hlúa vel að starfsfólkinu, hjúkrunarfræðingar eru dýrmætir starfskraftar og sinna oft skjólstæðingum við erfiðar aðstæður, það þarf þá líka að hlúa að þeim sjálfum og það hefur aukist að það sé gert, að ég tel.“

Aðalbjörg nefnir líka að stór hluti gestanna sem komi á Heilsustofnunina í Hveragerði sé fólk sem er komið í kulnun eða í veikindaleyfi af einhverjum orsökum. „Þetta er oft fólk sem starfar með fólki, eins og til að mynda kennarar og hjúkrunarfræðingar, og þess vegna er svo mikilvægt að við pössum upp á okkur sjálf.“

Vanlíðan í starfi tengd einmanaleika

Þá vindum við okkur að öðru; bókaskriftum og spyrjum Aðalbjörgu fyrst að því hvort hún hafi alla tíð haft áhuga á skrifum? „Já, ég hef alltaf haft mjög gaman af því að skrifa, það hefur verið mitt líf og yndi. Varðandi bókina Samskiptaboðorðin, þá var ég eiginlega beðin um að skrifa hana. Fyrst byrjaði ég á því að skrifa fræðibók um samskipti en hún var of þurr. Ég hafði í þá bók sett sögur úr mínu lífi sem tengdust samskiptum og var með dásamlegan ritstjóra sem heitir Guðrún. Hún eiginlega lagði til að ég skrifaði mína sögu og samskiptin út frá því, þannig að við snerum þessu

Aðalbjörg á heimili sínu.
Aðalbjörg í útgáfuboði bókarinnar Einmana.

Bókakynning í Sölku á nýjustu bók Aðalbjargar.

svolítið við. Það var ótrúlega skemmtilegt ferli. Í kjölfarið var ég beðin um að ritstýra kennslubókum fyrir sjúkraliða sem voru þýddar úr dönsku. Ég staðfærði þær og aðlagaði að íslenskum aðstæðum. Þær voru þrjár talsins en svo kom á daginn að það vantaði eina bók sem var ekki til í seríunni og því var ég líka beðin um að skrifa þá bók, sem fjallar um samfélagshjúkrun. Þegar ég var að kenna samfélagshjúkrun þá hafði ég búið til lítið hefti um efnið og það var byrjunin. Upp úr því varð bókin Samfélagshjúkrun til. Ég ákvað að skrifa hana þannig að hún gæti nýst öðrum líka, hjúkrunarfræðinemum og öðrum sem hafa áhuga á þessu efni. Þessi bók gekk vel og ég fékk tilnefningu frá Hagþenki fyrir hana,“ segir hún.

Fljótlega eftir að Aðalbjörg gaf út Samskiptaboðorðin fór hugmyndin að næstu bók að banka upp á. „Kannski af því að ég hef alltaf haft áhuga á tengslum þá fór ég árið 2018 af alvöru að skoða einmanaleikann, þetta var eftir að ég kláraði meistaranámið. Það kveikti eflaust líka áhugann að í meistaraverkefninu tók ég viðtöl við hjúkrunardeildastjóra um allt land þar sem ég spurði um upplifun af starfi, álag og bjargráð. Þá kom í ljós að þeim sem leið ekki vel í vinnunni sögðust upplifa sig svo einar sem kveikti áhugann enn frekar og hvort við upplifum öll þessa tilfinningu að vera einmana.“

Hvernig var ferlið þegar þú skrifaðir bókina Einmana? „Ég byrjaði á fræðilega hlutanum og bauð svo fólki að hafa samband við mig ef það vildi deila reynslu sinni af einmanaleika. Það voru mjög margir sem sendu mér inn sína sögu og ég fékk einnig símtöl frá fólki sem vildi deila sinni reynslu. Ég tók líka viðtöl við einstaklinga og vann úr þeim. Ég hef mikinn áhuga á vellíðan og að varpa ljósi á það hvernig fólk fer að því að líða vel og upplifa hamingju þrátt fyrir mótlæti.“

Upplifði spennufall þegar bókin kom út

Aðalbjörg segir aðspurð að samskiptaboðorðin séu horfa, heilsa, hlusta, hljóma, hrósa og hjálpa. „Það að hjálpa þýðir ekki að við séum með plástur í vasanum heldur að við gegnum því hlutverki, hvert og eitt okkar, að geta séð til þess að við njótum öll sem bestu lífsgæða og það finnst mér vera rauði þráðurinn í öllu sem ég hef verið að gera. Bókin Einmana byggir á fræðilegri vinnu, sem er grunnurinn í bókinni, en ég vil samt höfða til almennings; að allir geti lesið hana og haft gagn af. Það er kúnst að höfða til allra og flétta þetta fræðilega saman við þetta mannlega. Að fara úr því að vera doktorsnemi þar sem ég þarf að hafa heimildir fyrir öllu, í það að leyfa mér að segja mínar skoðanir, þetta var lærdómsríkt. Ég er stolt af þessari bók og það var mikið spennufall þegar hún kom út. Mér finnst ég njóta mikilla forréttinda að hafa fengið tækifæri til að vinna við klíníska hjúkrun eins og ég geri í dag og líka að við skrifa, kenna og halda fyrirlestra. Þetta eru oft margir hattar og erfitt en í lok dags finnst mér ég vera lánsöm.“

Nýtti heimsfaraldurinn til að tala við stjórnendur

í auga stormsins

Nú ertu í doktorsnámi við Háskóla Íslands, geturðu sagt okkur aðeins frá því? „Ég er í doktorsnámi í stjórnun við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Þegar ég var búin með meistaranámið í HA hvatti leiðbeinandinn minn, Sigrún Gunnarsdóttir, mig til að halda áfram. Upphaflega ætlaði ég að halda áfram með þetta efni, tala við fleiri millistjórnendur í fleiri geirum og halda áfram með fyrirbærafræðilegu aðferðina en svo kom covid, þegar ég var nýbyrjuð í náminu. Ég ákvað þá að nýta tækifærið og taka viðtöl við stjórnendur í auga stormsins og leiðbeinendur mínir, þær Sigrún og Erla Sólveig Kristjánsdóttir, samþykktu það. Það varð úr að ég tók viðtöl við skólameistara í framhaldsskólum og æðstu stjórnendur heilbrigðisstofnana á Íslandi í fyrstu bylgju af covid. Þetta voru alls 43 viðtöl og ég er að skoða upplifun þeirra sem ég ræddi við af þessum aðstæðum, áskorunum, álagi og hvað þau gerðu til að komast í gegnum þetta.

Ég hef áhuga á að skoða hvernig fólki getur liðið vel og átt gott líf þrátt fyrir svakalegt mótlæti. Hvað er það sem gerir það að verkum að fólk nær að eiga gott líf og vera hamingjusamt? Þetta er það sem ég er að skoða í doktorsnáminu. Þannig að þetta tengist allt. Í bókinni Einmana tala ég um að upplifa tilgang þrátt fyrir að vera einmana. Það er má segja rauði þráðurinn í því sem ég er að gera og er ástæða þess að ég held alltaf áfram.“

Fleiri bækur og húsbílaferðir í framtíðinni

Aðspurð um hvar Aðalbjörg ætli að vera eftir fimm til tíu ár segist hún sjá fyrir sér að hún verði búin að skrifa aðra bók: „Jafnvel upp úr doktorsverkefninu sem væri einnig fyrir almenning. Mig langar líka til að skrifa skáldsögu. Svo keypti ég húsbíl í fyrra sem mér finnst gaman að keyra og hafa Díönu með. Kannski verð ég bara að keyra um og skrifa bækur, kannski líka að kenna, mér finnst það mjög skemmtilegt. Ég kenni alltaf einn áfanga í fjarnámi í FÁ, mér finnst svo gefandi að hjálpa fólki að koma auga á hvað það í raun veit mikið og að hjálpa því við að koma þekkingunni sinni frá sér og nýta hana. Ég er samt ekkert endilega alltaf besti kennarinn fyrir mig sjálfa. Stundum getur verið erfitt að vera í svona mörgum hlutverkum og undir miklu álagi á tímabilum. En ég á góða að, góða fjölskyldu, góðan mann og yndisleg börn sem eru mér allt. Stundum held ég að maður sé betri í því að segja öðrum til en að fara eftir hlutunum sjálfur. Það sem ég þarf kannski að gera meira af er bara að njóta og draga andann.

Elín Eggerz Stefánsson

fædd 6. mars 1926

dáin 8. nóvember 2023

Þrettánda þing Samvinnu hjúkrunarkvenna á Norðurlöndunum var haldið í Reykjavík dagana 6.–9. júlí 1970. Fimmtíu ára afmælishátíð, yfir 700 þátttakendur og mikið um dýrðir. Hjúkrun í brennidepli var umræðuefni þingsins og Elín Eggerz Stefánsson var aðalfyrirlesari. Þar leggur hún áherslu á mikilvægi þess að hjúkrun sé starf hugar, hjarta og handar. Veltir upp spurningum hvert stéttin stefni, framtíðarþróun, menntun hennar og mikilvægi gagnreyndra aðferða.

Elín Eggerz lauk hjúkrunarnámi við The Royal Surrey County Hospital, School of Nursing í mars árið 1952 og B.S.-gráðu við University of Washington Seattle árið 1961. Í millitíðinni hafði hún lokið fyrri hluta ljósmæðranáms við Hackney Hospital í London og framhaldsnámi í hjúkrunarkennslu við Svensk Sjuksköterskeforeningens Institut för Högre Utbilding í Stokkhólmi, ásamt því að starfa við sitt fag á Landspítala, Akureyri, Heilsuverndarstöð Reykjavíkur, Vífilsstöðum og við Hjúkrunarskóla Íslands.

María Pétursdóttir, formaður Hjúkrunarfélags Íslands, hafði í þriðja tölublaði árið 1967 vakið athygli á 5. skýrslu sérfræðinganefndar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um hjúkrunarmál er kom út árið 1966 þar sem segir að „öll menntun hjúkrunarkvenna, bæði grunn- og framhaldsmenntun verði, eins fljótt og unnt er, innan vébanda æðri menntastofnana landsins.“

Í maí árið 1970 kemur til landsins að tilhlutan landlæknis, sem var formaður skólanefndar Hjúkrunarskóla Íslands, dr. Maria P. Tito de Moraes, yfirmaður hjúkrunardeildar Evrópusvæðis (WHO). Þorbjörg Jónsdóttir skólastjóri, María Pétursdóttir formaður HFÍ og Elín Eggerz höfðu veg og vanda af dagskránni.

Menntamálaráðuneytið skipaði síðan þann 6. nóvember árið 1970 nefnd til að kanna möguleika á hjúkrunarnámi á háskólastigi þ.e.a.s. grunnnámi og framhaldsmenntun hjúkrunarkvenna innan háskóla. Þorbjörg Jónsdóttir, skólastjóri Hjúkrunarskóla Íslands, var formaður nefndarinnar en hana skipuðu María Pétursdóttir formaður Hjúkrunarfélags Íslands, Elín Eggerz Stefánsson hjúkrunarkona tilnefnd af menntamálaráðuneytinu, Snorri Páll Snorrason læknir tilnefndur af Háskóla Íslands og Páll Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Niðurstöður nefndarinnar birtust í Tímariti Hjúkrunarfélags Íslands, fyrsta tölublaði, árið 1972.

Í sama blaði birtist grein um að fulltrúi WHO Evrópudeild dr. Vera Maillart hafi komið hingað að ósk skólanefndar Hjúkrunarskóla Íslands.

Elín brann fyrir menntunarmálum stéttarinnar, var þar bæði stefnuföst og rökvís og taldi að líta þyrfti á þau heildstætt. Í 2. tölublaði tímaritsins árið 1974 setur hún fram tillögur sínar um menntun hjúkrunarmannaflans, þær tillögur tengdust veru hennar í nefnd er vann að undirbúningi frumvarps til laga um hjúkrunarmenntun. Fjölbrautaskólar eru þá að hefja starfsemi og sýn menntamálaráðuneytisins sú að hjúkrunarnám ætti þar vel heima. Kennaradeild félagsins var nýstofnuð og deildi ekki þeirri sýn fremur en félagið sjálft. Undirrituð var formaður í deildinni, þar var oft hart tekist á, þannig að óhörðnuðum kennara þótti nóg um. En markmiðið var öllum ljóst.

Elín var í undirbúningsnefnd er vann að námi í kennslu og uppeldisfræði fyrir hjúkrunarfræðinga í Kennaraháskóla Íslands árin 1977–1979. Námið var mikil lyftistöng fyrir hjúkrun. Nefndarstörfum fyrir Hjúkrunarfélagið gegndi hún fjölmörgum, sat í stjórn þess og ritstjórn ásamt að vera fulltrúi félagsins hjá BSRB. Einnig var Elín í nefnd á vegum Samvinnu hjúkrunarkvenna á Norðurlöndum þar sem verið var að vinna að rannsóknum í hjúkrun. Elín sat í heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar og var einnig formaður heilbrigðismálaráðs bæjarins. Hún kynnti sér mál, skrifaði greinar, var hreinskiptin og skoðanaföst. Elín las mikið og áhugi hennar á málefnum stéttarinnar hélst óbreyttur. Ég tók viðtal við Elínu fyrir nokkrum árum, þar kom glöggt í ljós að neistinn var enn til staðar, þrátt fyrir að vera á tíræðisaldri.

Græðum saman mein og mein, metumst ei við grannan.

Fellum saman stein við stein, styðjum hverjir annan, plöntum, vökvum rein við rein ræktin skapar framann.

Hvað má höndin ein og ein?

Allir leggjum saman.

Matthías Jochumsson

Með Elínu er gengin einn af brautryðjendum okkar stéttar. Hafi hún heila þökk fyrir.

Sigþrúður Ingimundardóttir.

Aðalfundur Fíh á Grand Hótel Reykjavík

Texti og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fór fram fimmtudaginn 16. maí á Grand Hótel Reykjavík og á Teams fyrir þá hjúkrunarfræðinga sem vildu mæta en sáu sér ekki fært að koma á staðinn. Fundurinn gekk eins og í sögu, stemning var góð og ljúffengar veitingar voru veittar í hléi. Í lok fundar voru svo veittir hvatningastyrkir og rannsóknarstyrkir B-hluta Vísindasjóðs við fögnuð viðstaddra. Ritstýran var á staðnum og fangaði stemninguna með myndavélina á lofti og hér má sjá brot af því besta.

Þær Margrét og Eva Hjörtína tóku á móti hjúkrunarfræðingum sem mættu á fundinn.
Guðbjörg Pálsdóttir og Anna Stefánsdóttir.
Kristófer Kristófersson og Helga Bragadóttir létu sig ekki vanta á aðalfund félagsins.
Helga Rósa Másdóttir og Tryggvi Hjörtur Oddson sem var fundarstjóri.
Hulda Björg Óladóttir situr í stjórn Fíh og var að sjálfsögðu mætt á fundinn.
Hafdís Böðvarsdóttir er fjármálastjóri Fíh og Harpa Ólafsdóttir starfar á kjara- og réttindasviði Fíh, þær eru alltaf hressar og brostu sínu breiðasta.

Fjórir hjúkrunarfræðingar fengu hvatningastyrk.

Ingibjörg Hjaltadóttir, Margrét Dís Yeoman, Rannveig Jóna Jónasdóttir og Rannveig Þöll Þórsdóttir

Styrkhafar rannsóknarstyrkja B-hluta vísindasjóðs:

Arna Garðarsdóttir

Þróun og innleiðing á skimunartækinu HEILUNG í framhaldsskólum á Íslandi

Erla Kolbrún Svavarsdóttir

Aðlögun einstaklinga í virkri krabbameinsmeðferð og fjölskyldna þeirra að krabbameinssjúkdómi:

Langtímarannsókn

Berglind Ólöf Sigurvinsdóttir

Áhrif fiskiroðs á gróanda húðtökusvæða, forrannsókn

Bjarnheiður Böðvarsdóttir

Kraftmiklir krakkar! Lífsstílsmóttaka fyrir börn með offitu og foreldra þeirra

Hólmfríður Margrét Bjarnadóttir

Árangur NADA- nálastungumeðferðar í eyru sem viðbótarmeðferð vegna svefntruflana notenda í innlögn til geðendurhæfingar á sjúkrahúsi

Ína Rós Jóhannesdóttir

Viðhorf hagaðila til notkunar á meðferðaróskum í geðrænni meðferð: Rýnihóparannsókn

Íris Dröfn Björnsdóttir

Reynsla kvenna af notkun hormónauppbótarmeðferðar á breytingaskeiði

Marianne E. Klinke

Quality of stroke treatment in Iceland, ICESTROKE study (ísl. Gæði slagmeðferðar á Íslandi)

Rannveig Elíasdóttir

Heilsufar grunnskólabarna á Akureyri, tengsl holdafars við líðan

Rakel Björg Jónsdóttir

Snemmútskriftir af nýburagjörgæslu - fyrirburar sem útskrifast heim af nýburagjörgæsludeild-vökudeild LSH með sondu og/eða súrefni. Samanburður á legutíma, þyngd og brjóstagjöf fyrir og eftir breytingu

á útskriftarviðmiðum

Rósa Eiríksdóttir

„Það er fagmennskan og starfsandinn, manni bara líður vel á deildinni“ - Upplifun hjúkrunarfræðinga á hjartadeild Landspítalans af starfsumhverfi sínu

Sólveig Gylfadóttir

Mat á árangri innleiðingar á fræðslumeðferð fyrir sjúklinga í einangrun vegna smitsjúkdóma: innleiðingarrannsókn

Steinunn Snæbjörnsdóttir

Blóðsykur barna í gegnum svæfingu - algengi lágs blóðsykurs við innleiðslu svæfingar og samband við föstutíma

Þórgunnur Birgisdóttir

Heilsutengd lífsgæði einstaklinga með bláæðasár

„Af hverju hjúkrunarfræði?

Komst þú ekki inn í læknisfræði?“

Jón Grétar Guðmundsson, forseti nemendafélagsins Eirar

Umsjón: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Jón Grétar Guðmundsson stundar nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri og er forseti Eirar, nemendafélags hjúkrunarfræðinema. Jón Grétar brást vel við þeirri bón að segja nokkur orð á aðalfundi Fíh sem haldinn var núna í maímánuði og sló í gegn með ræðu sinni sem við fengum góðfúslegt leyfi til að birta svo fleiri en bara þeir sem voru viðstaddir aðalfundinn geti fengið innsýn í heim karlyns hjúkrunarfræðinema.

Ég fékk þann heiður að ávarpa ykkur hér í dag fyrir hönd hjúkrunarnema, bæði við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Mig langar að byrja á því að kasta fram nokkrum lýsingarorðum: Umhyggjusöm, hugguleg, hlý, frek .... Þetta eru allt lýsingarorð sem ég hef heyrt notuð um kvenkyns hjúkrunarfræðinga og ég er eflaust ekki einn um það.

En, þetta er ekki það eina sem ég hef heyrt. Góður, sterkur, ákveðinn, hommi? Þetta eru nokkur orð sem ég hef heyrt um karlkyns hjúkrunarfræðinga. Geta karlmenn í hjúkrun þá ekki sýnt umhyggju og hlýju? Erum við ákveðnir, en konur frekjur þegar við erum kannski að nota sömu orðin? Erum við allir hommar? Eða fannst okkur læknisfræðin of erfið eða leiðinleg?

Ég var úti á landi í verknámi um daginn, þar fór ég inn á stofu ásamt kvenkyns samnemanda mínum þar sem eldri maður tekur á móti okkur. Þar kynnir samnemandi minn sig sem hjúkrunarnema og áður en ég næ að kynna mig spyr maðurinn: „Og ert þú þá læknanemi?“.

Þetta var í fyrsta skiptið og ekki það síðasta, þar sem ég sá staðalímyndirnar svona greinilega. Ég segi „ekki það síðasta“ því síðan þá hef ég orðið meira og meira var við þetta. Ég hef ítrekað lent í því að sjúklingar og aðstandendur skauta fram hjá kvenkyns hjúkrunarfræðingum sem ég er að fylgja eða aðstoða og ávarpa mig beint með spurningar, vangaveltur eða áhyggjur sem ég, með fullri virðingu, hef ekki hundsvit á, en þessir framúrskarandi hjúkrunarfræðingur við hliðina á mér getur auðveldlega svarað. Ég sé að þetta bítur á þær margar, en þær segja oft ekkert, láta sig hafa þetta. En trúið mér, ég legg mig allan fram um að leiðrétta þetta en þetta er að mínu mati fullkomið dæmi um öráreitið sem við verðum ítrekað fyrir.

Ein stutt dæmisaga í viðbót áður en lengra er haldið. Á vakt um daginn heyrði ég einn sjúkraliða segja: „Ég vil hafa hann Nonna með okkur í að hagræða sjúklingnum, gott að vera með svona sterkan strák á vaktinni.“ Ég get lofað ykkur því að það voru að minnsta kosti fimm konur á vakt með okkur sem taka meira en ég í bekkpressu eða réttstöðulyftu. En ég var sterki strákurinn á vaktinni. Mynduð þið segja að þetta sé dæmi um öráreiti? Gagnvart hverjum þá? Er það gagnvart mér? Crossfit-stelpunum á vaktinni? Eða okkur öllum?

Í rannsókn sem framkvæmd var af Reform, Resource Centre for Men, í Noregi, í samstarfi við Háskólann á Akureyri, Jafnréttisstofu og Háskólann í Hróaskeldu, sem birt var 2019 kom fram að Ísland er með fæsta karlkyns hjúkrunarnema af öllum Norðurlöndunum eða um 3% og á landsvísu var talan sú sama yfir starfandi karlkyns hjúkrunarfræðinga, eða 3%. Samkvæmt tölum Fíh fyrir 2023 hefur þessi tala hækkað um 1% og stendur nú í 4% sem er eitt lægsta hlutfall í heiminum.

Við búum í landi sem er á topp fimm lista þjóða þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Við eigum að geta gert betur, við eigum að geta jafnað bilið í hjúkrun eins og annars staðar.

Við þurfum að efla karlmenn í hjúkrun, en við þurfum líka að brjóta niður þessar staðalímyndir. Við útskrift úr náminu stöndum við öxl í öxl, við erum jafningjar. Vissulega veljum við að fara ólíkar leiðir á ferlinum. Sumir fara í stjórnun, aðrir í meira nám og svo framvegis en á endanum erum við öll jöfn.

Eins og þið heyrið, þá er þetta mál sem ég brenn fyrir, en þetta er þó ekki eina vandamálið sem við stöndum frammi fyrir. Það hefur verið ljóst í smátíma að hjúkrunarnemar eru ítrekað að lenda í kulnun, bæði á meðan námi stendur og einnig stuttu eftir að námi líkur. Í rannsókn sem birt var í Tímariti hjúkrunarfræðinga 2021 sem framkvæmd var af þeim Birnu Flygenring, Herdísi Sveinsdóttur, Rakel Dís Björnsdóttur og Salome Jónsdóttur kemur fram að yfir 80% þátttakenda voru almennt með streitustig yfir viðmiðunarmörkum en 85% þátttakenda fundu fyrir mjög eða frekar mikilli streitu tengdu háskólanáminu.

Það sem vakti athygli mína við þessa rannsókn voru ekki bara þessar sláandi tölur heldur var það að stór hluti þátttakenda unnu í 10-30% starfshlutfalli með náminu. Þetta er raunveruleiki sem stendur ekki öllum til boða. Margir, og er ég einn af þeim, þurfa að vinna allt að 70-80% starfshlutfall til að ná endum saman og standa við fjárhagslegar skuldbindingar. Ráðherrar státa sig af umbótum á Menntasjóði námsmanna en raunin er sú að framfærslulán Menntasjóðs duga í fæstum tilfellum fyrir leigu eða afborgunargreiðslum á húsnæði. Hvað þá fæði, námsgögnun og öðrum útgjöldum, hvað þá einstaka bíómiða.

Það geta ekki allir flutt heim til mömmu og pabba eða farið á stúdentagarðana. Einstæðir foreldrar sem vilja mennta sig þurfa að reikna dæmið langt fram í tímann til að sjá hvort það gangi upp. Staðan er því miður sú að mörg þurfa einfaldlega að vinna mikið með skóla. Sjálfur veit ég um dæmi þar sem hjúkrunarnemar taka 16 tíma vinnudaga, jafnvel í prófatíð, þar sem þau taka morgunvakt í verknámi og kvöldvakt á heimadeild. Við sleppum því að taka okkur sumarfrí og söfnum upp orlofsdögum til að nýta þá í prófatíð eða fyrir lotur og verknám. Við útskrift höfum við mörg þá verið í því sem samsvarar 180% vinnu með litlu sem engu fríi í um fjögur ár. Það kemur mér því ekkert á óvart að kulnun sé vandamál.

Það er hlutverk mitt og kollega minna, sem kjörnir fulltrúar stúdenta, að standa vörð um réttindi nema í skólastofum, það er okkar hlutverk að útrýma því öráreiti sem fylgir því að vera kallaður einn af stelpunum, eða sterkur strákur. Það er okkar hlutverk að berjast fyrir bættum kjörum og mannsæmandi framfærslulánum. Það er okkar hlutverk að stuðla að öruggu og uppbyggilegu námi fyrir öll. En það er ykkar hlutverk að gera slíkt hið sama á vinnustaðnum. Það er ykkar að byggja skjaldborg um okkur nemana, það er ykkar að taka öllum með opnum örmum – fylgist með okkur – gerið allt sem þið getið til að fyrirbyggja kulnun, útrýmið öráreyti og fordómum, haldið í höndina á okkur ef við þurfum. Styðjið okkur ... standið með okkur ... en umfram allt verið fyrirmynd framtíðarhjúkrunarfræðinga sem munu taka við keflinu á næstu árum.

Takk fyrir mig.

Heimildir:

Flygenring, B. G., Sveinsdóttir, H., Björndsóttir, R. D., & Jónsdóttir, S. (2021). Streita og kulnun hjúkrunarfræðinema. Tímarit Hjúkrunarfræðinga, 97(3), 76–85.

Reform, Research Center for Men. (2019). Men in Nursing Education.

Jón Grétar sló í gegn með ræðu sinni.
Jón Grétar á vakt.

Vaktin mín

-Þorbjörg Anna Steinarsdóttir hjúkrunarfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Markmiðið er að efla

heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra

Umsjón: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Þorbjörg Anna Steinarsdóttir hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur í sex ár í sumar, fyrst eftir útskrift og á meðan hún var í náminu starfaði hún á bráðamóttökunni í Fossvogi, ákvað svo að skipta alveg um hlutverk innan heilbrigðiskerfisins og réði sig á Heilsugæsluna á Selfossi. Þorbjörg hefur komið að flestöllum sviðum í starfi sínu á heilsugæslunni en ástríða hennar og fókus er á heilsuvernd skólabarna.

Ég starfa sem skólahjúkrunarfræðingur í Sunnulækjarskóla sem er stærsti grunnskólinn í Árborg. Hér eru 672 nemendur í fyrsta til tíunda bekk. Auk þess er hér í skólanum sérdeildin Setrið sem hefur það hlutverk að veita nemendum með sérþarfir á Suðurlandi fjölbreytt nám í hvetjandi námsumhverfi, sem tekur mið af þörfum þeirra og stöðu, í samvinnu við þeirra heimaskóla sem getur verið annar en Sunnulækjarskóli. Þessum skóla sinni ég í fullu starfi frá heilsugæslunni og er því með viðveru þar alla virka daga.

Það er kannski óraunhæft að einn dagur í lífi skólahjúkrunarfræðings geti gefið mjög glögga mynd á umfangi starfsins en ætti þó að geta gefið hugmynd um hvað starfið felur í sér. Hér eru engir tveir dagar eins og mörgum verkefnum þarf að sinna á einum skólavetri. Þó að verkefnið sé í grunninn það sama, til dæmis varðandi fræðslu eða skimun, þá eru alltaf nýir nemendur og hópar á hverju skólaári. Það reynir mikið á fjölbreytta þekkingu, hæfni í samskiptum, skipulag og sjálfstæð vinnubrögð að vera skólahjúkrunarfræðingur. Skólahjúkrunarfræðingur er aðeins sér á báti í grunnskólanum sem starfsmaður heilsugæslunnar og einn um verkin. Það er því mikilvægt að fá stuðning og eiga samtal, bæði við annað starfsfólk heilsugæslunnar, t.d. aðra skólahjúkrunarfræðinga

og eins starfsfólk skólans, til að koma í veg fyrir að maður upplifi sig algjörlega einan. Mér finnst það vera lykillinn að því að þrífast í þessu starfi að eiga góð samskipti og vera í góðri samvinnu við aðra.

Markmið með heilsuvernd skólabarna er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Helstu áherslur í heilsuvernd skólabarna

eru forvarnir, fræðsla og heilsuefling, skimanir og skoðanir, bólusetningar, umönnun veikra og slasaðra barna, ráðgjöf til nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans. Heilsuvernd skólabarna er framhald af ung- og smábarnavernd sem flestir þekkja vel. Skipulagðar skoðanir eru gerðar hjá öllum nemendum í 1. bekk, 4. bekk, 7. bekk og 9. bekk þar sem mæld er hæð og þyngd í þeim tilgangi að fylgjast með vexti og þroska, gert er sjónskerpupróf og tekin einstaklingsviðtöl um lífsstíl og líðan þar sem tilgangurinn er að með áhugahvetjandi samtali sé fræðsluþörf barnsins metin og fræðsla veitt í samræmi við það. Auk þess að sitja þverfaglega fundi með öðru fagfólki sem kemur að málefnum nemenda. Unnið er í náinni samvinnu við foreldra og forráðamenn nemenda, skólastjórnendur, kennara og aðra svo sem lækna eða sálfræðinga. Skipulögð heilbrigðisfræðsla er síðan veitt í öllum árgöngum og er áherslan á að hvetja til heilbrigðra lífshátta.

„Ég dýrka það að vera skólahjúkrunarfræðingur og finnst ég mjög lánsöm að fá með minni vinnu að stuðla að heilbrigði grunnskólabarna og er mjög stolt af því sem ég geri.“

Mánudagsvakt

Þennan mánudagsmorgun hringir klukkan 6:30 eins og venjulega á virkum dögum. Mér finnst mjög gott að byrja daginn á því að eiga rólega stund með sjálfri mér áður en sú litla sem er fjögurra ára orkubolti fer á fætur. Ég sýð mér tvö egg og við mæðgur græjum okkur síðan út í daginn. Við búum svo vel að geta farið okkar ferða hjólandi þegar vel viðrar og nýtum okkur það þennan morguninn.

Í dag er ég með hjúkrunarnema sem er í verknámi á heilsugæslu. Ég legg mikla áherslu á að segja sem allra mest og best frá heilsuvernd skólabarna þennan stutta tíma sem nemar fá að kynnast því. Mín reynsla var nefnilega ekki þannig þegar ég var í grunnnáminu, sem er synd, enda datt mér alls ekki í hug að ég myndi vilja starfa á heilsugæslu í framtíðinni, hvað þá sem skólahjúkrunarfræðingur. En ég dýrka það að vera skólahjúkrunarfræðingur og finnst ég mjög lánsöm að fá með minni vinnu að stuðla að heilbrigði grunnskólabarna og er mjög stolt af því sem ég geri. Það eru skilaboðin sem ég vil koma áfram til þeirra hjúkrunarnema sem koma til mín í verknám.

Ef ég tala út frá minni reynslu af grunnnáminu og síðan starfsreynslu á heilsugæslunni þá myndi ég vilja sjá miklu meiri áherslu á heilsugæsluna í hjúkrunarnáminu, sem ég upplifði sem mjög sjúkrahúsmiðaða. Bæði í akademísku námi og klínísku verknámi er hægt að gera betur varðandi heilsugæsluna. Ekki óraði mig fyrir því þegar ég var að læra um heilsugæsluhjúkrun eða var í því verknámi að þetta væri nú eitthvað fyrir mig. Ég hef lokið framhaldsnámi í klínískri heilsugæsluhjúkrun og er í meistaranámi í heilbrigðisvísindum, því mér finnst svo brjálæðislega gaman að vera hjúkrunarfræðingur og læra meira um það sem nýtist mér í mínu starfi. Með því að kynna starfsemi heilsugæslunnar vel, tryggja nemum sem fjölbreyttust námstækifæri í verknámi og koma því til skila hversu skemmtilegt og fjölbreytt er að starfa á heilsugæslu skilar það sér vonandi í auknum áhuga. Þetta á auðvitað líka við um alla hjúkrunarfræðinga sem hafa áhuga á heilsueflingu og ættu að geta fundið sína fjöl innan heilsugæslunnar þar sem verkefnin eru alls konar og fólki er sinnt frá vöggu til grafar.

Þegar ég mæti í vinnuna hengi ég af mér, fer í inniskóna og ræsi tölvuna. Ég þarf að opna Ískrá sem er rafrænt sjúkraskrárkerfi

sem skólahjúkrunarfræðinga á öllu landinu nota við skráningu í heilsuvernd skólabarna. Í gegnum VPN-tengingu hef ég aðgang að Sögunni og afgreiðslukerfi heilsugæslunnar og get t.d. séð tímabókanir, gefið tíma, fylgt eftir niðurstöðum og sent skilaboð til hjúkrunarfræðinga og lækna, án þess að þurfa að mæta á stöðina eða hringja, sem sparar bæði spor og tíma. En fyrir covid hafði ég ekki aðgang að Sögunni þegar ég var staðsett í skólanum, sem var ákveðið flækjustig og fáránlegt til þess að hugsa svona eftir á. Ég opna tölvupóstinn og Mentor þar sem ég hef allar upplýsingar um nemendur, stundatöflur þeirra og fleira. Meðan þetta er allt saman að komast í gang sæki ég mér fyrsta kaffibolla dagsins. Ég skil eftir skilaboð á hurðinni hjá mér þegar ég fer svo fólk viti að ég sé mætt í hús; „skrapp frá, kem eftir smástund …“ Á kaffistofunni hitti ég á kennara tvítyngdra barna skólans sem minnir mig á að ég hafi boðað til mín þrjú systkini sem byrjuðu nýlega í skólanum, ásamt foreldrum og símatúlk í skólaskoðun, viðtal og bólusetningar síðar í vikunni.

„Ég hef lokið framhaldsnámi

í klínískri heilsugæsluhjúkrun og er í meistaranámi í heilbrigðisvísindum, því mér finnst svo brjálæðislega gaman að vera hjúkrunarfræðingur og læra meira um það sem nýtist mér í mínu starfi“

Þegar ég geng síðan ganginn með kaffibollann sé ég haltrandi dreng sem er á leiðinni inn til mín. Ég næ honum og spyr hvað hafi komið fyrir. Hann segist hafa snúið sig á ökkla kvöldinu áður þegar hann var í körfubolta. Hann kemur til mín á skoðunarbekkinn, ég fæ nánari upplýsingar frá honum og skoða fótinn með Ottawa-reglur í huga. Ökklinn er bólginn, verkur yfir fimmta metatarsal og hann stígur varla í fótinn og þarf því að fá röntgenmyndatöku til að athuga hvort um beinbrot sé að ræða. Hann fær hjá mér teygjusokk og ég hringi í foreldri og ráðlegg að leita á bráðamóttöku til nánari skoðunar. Upplýsi svo umsjónarkennara um stöðuna. Ég skanna síðan tölvupóstinn og svara því sem við á og skrái niður fundarboð fyrir næsta nemendaverndarráðsfund.

Þá fer ég að stilla upp fyrir verkefni dagsins sem er kynþroskafræðsla fyrir nemendur í 6. bekk. Aðstaðan mín er mjög góð og ég get haft fræðsluna á skrifstofunni minni þar sem þetta verða bara sex nemendur. Ég finn til verkefnaheftin, varpa fyrirlestrinum upp á skjá, sæki dömubindi, túrtappa og módel af kvenlíffærum sem ég nota sem við kennsluna. Ég set svo skilaboð á hurðina „er með fræðslu“ til að tryggja næði á meðan. Þetta er ein skemmtilegasta fræðslan sem ég sinni og þessi kröftugi drengjahópur reynist líka mjög áhugasamur, þeir spyrja og spekúlera og við reynum að komast í gegnum allar vangaveltur þeirra.

Við taka frímínútur, ég gríp mér banana, sæki kaffibolla og rölti af stað með hjúkrunarnemanum til að sýna skólann.

Á leiðinni heilsa ég krökkum og starfsfólki. Mér finnst mikilvægt að vera sýnileg og í góðum tengslum og samskiptum við bæði nemendur og starfsfólk svo auðveldara sé að leita til mín ef á þarf að halda. Það er kominn tími á áfyllingu á plástrum hjá 1. bekk þannig að það verður tekið með í næstu ferð og bætt í

sjúkrakassann hjá þeim. Eftir útsýnisröltið er það næsti hópur dagsins í kynþroskafræðslu. Þegar þeirri fræðslu er lokið þá býð ég hjúkrunarnemanum að gefa mér endurgjöf á fræðsluna og við ræðum það sem vel var gert og hvernig hefði mögulega verið hægt að gera eitthvað öðruvísi. Við ræðum síðan verkefni sem hún á að gera í tengslum við verknámið og hittum umsjónarkennara á yngsta stigi sem er tilbúin að leyfa nemanum að koma inn með stutta fræðslu tengt forvörnum og valdi hún að tala um mikilvægi svefns. Stekk með plástrana inn í 1. bekk í leiðinni og kveð hjúkrunarnemann sem fer í önnur verkefni inni á stöð í dag og kemur aftur í fyrramálið.

Næst á dagskrá er fyrir fram ákveðið viðtal við nemanda á unglingastigi sem ég hef verið að fylgja eftir með styðjandi samtali reglulega í nokkra mánuði þar sem verið er að einblína á kvíða og sjálfsstyrkingu og hafa verkfæri hugrænnar atferlismeðferðar reynst vel í þessu tilfelli. Ég er búin að mynda góð meðferðartengsl við unglinginn sem hefur tekið ákveðnum framförum á þessu tímabili. Hér er vert að taka það fram að um þverfaglega nálgun er að ræða og unnið í samstarfi við barnalækni, deildarstjóra og þroskaþjálfa skólans.

Þegar því viðtali er lokið bíða mín þrír nemendur fyrir utan. Sá fyrsti í fylgd með vinum sínum fékk bolta framan á fingur í íþróttatíma, líkleg tognun, ég kæli fingur meðan ég tek þann næsta í skoðun. Sá er eitthvað slappur, illt í maganum og óglatt, fölur og með glansandi augu. Reynist vera með hita og ég hringi í foreldri sem kemur og sækir barnið. Þegar búið er að kæla fingurinn þá strappa ég saman tvo fingur, veiti almennar ráðleggingar varðandi tognun til nemandans og spjalla við vinahópinn um handboltamót sem allir eru spenntir fyrir í sumar. Síðasti nemandinn er með flís í fæti sem ég næ léttilega að fjarlægja.

Eftir hádegismat er yfirleitt minna um viðtöl, skipulagða fræðslu eða skyndikomur enda skólinn búinn hjá flestum milli kl.13 og 14. Þá gefst tími fyrir skráningar og önnur verk. Ég fylgi eftir þeim skoðunum sem ég var að vinna að í síðustu viku þegar nemendur í 7. bekk voru í mælingum, sjónprófi og viðtali um lífsstíl og líðan. Ef það voru einhver frávik í skoðun þá þarf að hafa samband við foreldra og koma málum í farveg. Ég næ að taka þrjú slík símtöl. Hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands erum við að vinna eftir sérstöku verklagi í þessum málaflokki þar sem skólahjúkrunarfræðingar eiga samtal við foreldra, annaðhvort símleiðis eða með viðtali, taka nánari upplýsingar varðandi lífsstíl og líðan og geta veitt ráðgjöf. Einnig er foreldrum barna boðin blóðprufa og tími hjá heimilislækni í kjölfarið og er þá sem dæmi verið að athuga hvort það séu frávik í skjaldkirtilsstarfsemi eða byrjandi þróun á efnaskiptavillu. Þetta geta verið krefjandi og erfið samtöl um viðkvæmt umræðuefni og mjög mikilvægt að gæta að nærgætni og virðingu hér eins og annars staðar þegar maður á samskipti við foreldra vegna heilsu barna þeirra.

Ég enda daginn á að fara aftur yfir tölvupóstinn og sendi út tölvupóst til foreldra þeirra nemenda sem voru í kynþroskafræðslu þennan daginn þar sem þeir eru hvattir til þess að eiga frumkvæði að umræðum um kynþroskann við börnin sín, skoða með þeim fræðsluheftið og vinn síðasta verkefnið með þeim. Ég sé svo að ég er búin að fá sent afrit af fyrri bólusetningum á arabísku fyrir systkinin sem eiga bókað hjá mér skoðun síðar í vikunni. Ég þarf að gefa mér tíma til þess að fara yfir það og setja upp plan ef eitthvað vantar upp á, það verður að bíða næsta dags. Ég slekk á tölvunni, geng frá og læsi öll vinnugögn ofan í skúffu. Gríp með mér hjálminn og hjóla af stað heim.

Kynning fyrir heilbrigðisstarfsfólk

Stórkaup býður upp á kynningar og ráðgjöf við innkaup og notkun á ABENA þvaglekavörum.

Með kynningunni vilja sérfræðingar Stórkaups tryggja að hver einstaklingur fái vöru við hæfi sem stuðlar að betri nýtingu og meiri þægindum. Rétt notkun á réttri vöru leggur grunn að jákvæðri upplifun notenda og hámarkar árangur vörunnar.

Markmiðið er að gera innkaup hagkvæmari og notkun auðveldari bæði fyrir notendur og þjónustuaðila.

Bókaðu kynningu fyrir þinn vinnustað í síma 515 1500 eða á storkaup@storkaup.is

Jórlaug Heimisdóttir, hjúkrunarfræðingur

„Heilsugæslan er frábær vinnustaður“

Texti og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Jórlaug Heimisdóttir hjúkrunarfræðingur ólst upp á Grenivík, hún fór suður til náms og útskrifaðist úr hjúkrunarfræði frá HÍ árið 1994. Seinna ákvað hún að bæta við sig meistaragráðu í lýðheilsu með áherslu á faraldsfræði, sem og í stjórnun. Ritstýran hitti Jórlaugu yfir kaffibolla í húsnæði Félags hjúkrunarfræðinga og spjallaði meðal annars við hana um störf hennar hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu þar sem hún er verkefnastjóri heilsueflandi þjónustu. Jórlaug segir að starf sitt felist í því að þróa, leiða og samræma starfsemi í heilsugæslu á landsvísu með áherslu á fólk með langvinnan heilsuvanda og áherslu á aldraða.

Eftir útskrift fyrir 30 árum starfaði Jórlaug í nokkur ár á hjartadeild, slysadeild og barnadeild. Hún flutti svo til Kaupmannahafnar þar sem hún tók meistaragráðu, flutti aftur heim til Íslands árið 2004 og fór þá að starfa á Lýðheilsustöð sem var þá ný stofnun. „Þar starfaði ég að lýðheilsuverkefnum með sveitarfélögum og heilsugæslunni til ársins 2012 þegar Lýðheilsustöð rann inn í Embætti landlæknis en þá fór ég að sinna öðrum verkefnum sem tengdust heilbrigðisþjónustunni.

Minnisstæðast hvað hjúkrunarfræðingar voru fljótir að stökkva til Tíminn leið og árið eftirminnilega rann upp. „Þegar covidfaraldurinn skall á árið 2020 var ég lánuð yfir til heilsugæslunnar til að sinna ýmsum verkefnum og þar á meðal sýnatökum á Keflavíkurflugvelli. Á þessum tíma réð ég mig til starfa á Þróunarmiðstöð og var svo lánuð þaðan í bólusetningar í Laugardalshöll,“ útskýrir Jórlaug og það er örugglega flestum í fersku minni hvað bólusetning heillar þjóðar var umfangsmikið verkefni og hvað hjúkrunarfræðingar voru áberandi í því. Nú þremur árum síðar er farið að fenna í covid-sporin og áhugavert að heyra hvað Jórlaugu finnst standa upp úr eða hefði mátt gera betur? „Mér er minnisstæðast hvað allir unnu vel saman að þessu verkefni og hvað hjúkrunarfræðingar voru fljótir að stökkva til þegar það vantaði að manna vaktir, til dæmis við bólusetningar eða blöndun bóluefna. Það komu hjúkrunarfræðingar alls staðar að, þetta var samvinnuverkefni margra aðila og allir lögðust á eitt sem gerði það að verkum að þetta gekk eins vel og raun ber vitni,“ segir hún og við höldum áfram að ræða heimsfaraldurinn og spyrjum Jórlaugu hvað henni hafi fundist taka mestum framförum á þessum fordæmalausu tímum? „Tæknin tók risastór skref,“ segir hún án þess að hugsa sig um og bætir við að Embætti landlæknis ásamt Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafi þar verið í fararbroddi. Hún segist aðspurð ekki sakna þessa tíma en tækniframfarir og samtakamáttur allra sem að þessu stóra verkefni komu situr eftir.

Mikilvægt að skipuleggja þjónustuna heildstætt Við vindum við okkur í aðra sálma sem snúa að heilsugæslunni og þeim verkefnum sem Jórlaug sinnir þar og snúa að því að samræma þjónustu í heilsugæslunni á landsvísu. Hún segir að ein áherslan sé að auka heilsulæsi fólks. Hugtakið er frekar nýlegt en gott heilsulæsi á að geta aukið líkur á heilsusamlegu líferni og einnig haft áhrif á það hvernig fólk notar heilbrigðisþjónustu og geti þannig dregið úr bæði álagi og kostnaði í heilbrigðiskerfinu.

Eins og fyrr segir þá stýrir Jórlaug verkefni sem snýr að því að samræma þjónustu fyrir fólk með langvinnan heilsuvanda og aldraða og tryggja að allir fá grunnheilbrigðisþjónustu, óháð búsetu. „Þegar við erum að horfa á hóp fólks sem er kominn með langvinnan heilsuvanda og jafnvel fleiri en einn sjúkdóm þá þurfum við að skipuleggja þjónustuna heildstætt og horfa á þá verkþætti sem hafa áhrif á heilsu og lífsgæði fólks. Í þessu samhengi má nefna skipulag þjónustunnar, stuðning við ákvarðanir um meðferð, verkfæri sem styður einstaklinginn til að taka málin í sínar hendur, rafrænar heilbrigðislausnir og upplýsingatækni,“ útskýrir hún.

Jórlaug segir mikilvægt að áherslan sé einnig á heilsueflingu og forvarnir: „Áherslan á ekki bara að vera á sjúkdóminn, heldur einnig á þætti sem hafa áhrif á heilsu og lífsgæði. Þar má nefna svefn, geðheilsu, næringu, munnheilsu, hreyfingu, áfengi og tóbak, sem og lyf sem fólk tekur. Allir þessir þættir hafa áhrif á lífsgæði og þarna þurfum við að auka heilsulæsi og leggja áherslu á hegðunarbreytingu. Þetta á einnig við um lyfjanotkun.“

Hún bætir við að að sjálfsögðu sé líka lögð áhersla á blóðprufur og gerðar klínískar skoðanir og mælingar á öllum sem greinast og eru í eftirfylgd. „Tryggja þarf að eftirfylgd sé einstaklingsmiðuð en hún getur farið fram með viðtali á stöð, í fjarsamtali eða með símtali, allt eftir þörfum og sjúkdómsástandi skjólstæðingsins.“

Öðruvísi lýðheilsutengd nálgun

Jórlaug segir að allt sem tengist heilsu og lífsstíl fólks séu margir samverkandi þættir og að mikilvægt sé að leggja áherslu á lífsgæði ekki bara sjúkdóminn sjálfan. „Að fólk fái greiningu og meðhöndlun við einkennum með það að markmiði að auka lífsgæðin og draga úr áhrifum einkenna. Það er þessi heildstæða mynd í kringum skjólstæðinginn sem við leggjum svo ríka áherslu á. Það eru margir áhrifaþættir sem hafa áhrif á framgang sjúkdóma og lífsgæði fólks, þetta er öðruvísi nálgun sem tengist lýðheilsunni, útskýrir hún og talið berst að þeim áskorunum sem heilsugæslan stendur helst frammi fyrir núna. ,,Ein af áskorununum er langvinnur heilsuvandi, andleg líðan og þar kemur svefnvandinn inn, kvíði og ýmislegt annað. Langvinnir sjúkdómar eins og t.d. offita, hjarta- og æðasjúkdómar, sykursýki og háþrýstingur. Einnig er þjóðin að eldast og það eru sóknarfæri í að bæta þjónustu við þann hóp.“

„Hræðsluáróður er ekki besta leiðin til að ná til fólks, það þarf að bera ábyrgð á sinni heilsu sjálft en við getum verið leiðbeinandi ef fólk er mótttækilegt.“

Jórlaug mætti sumarleg

Stærsta áskorunin að breyta hegðun

Jórlaug segir að í verkefninu sé verið að leggja aukna áherslu á áhugahvetjandi samtal í samskiptum heilbrigðisstarfsfólks við skjólstæðinga. „Áhersla er lögð á að nýta styrkleika fólks til að takast á við andlegar, líkamlegar og félagslegar áskoranir og styðja skjólstæðinga til að leggja upp með sína eigin einstaklingsmiðuðu áætlun. Það má kannski segja að verið sé að hvetja fólk til að sjá hlutina í víðara samhengi og möguleika á raunhæfum hugmyndum um breytingar sem einstaklingurinn velur sjálfur og er síðan hvattur áfram með.“

Hún segir að til að kanna áhugahvöt og trú skjólstæðinga á eigin getu sé lagt upp með fjórar spurningar, sem til dæmis varðandi lyfjanotkun, væru:

- Hvernig gengur þér að taka lyfin?

- Hversu mikilvægt finnst þér að taka lyfin?

- Hvað þarf til að þú takir lyfin þín?

- Hvernig get ég stutt þig í því?

„Heilbrigðisstarfsfólk þarf að vera leiðbeinandi, styðjandi og hvetjandi en skjólstæðingurinn á að vera við stýrið þegar kemur að ákvarðanatöku og hvað hann ætlar að leggja áherslu á því það er enginn sem breytir hegðun sinni algjörlega með tilliti til allra þessara þátta sem ég nefndi hér áðan.“ útskýrir Jórlaug og bætir við: „Þetta er breytt nálgun og hugsun, við eigum ekki að vera með forræðishyggju og það er bara staðreynd að það er mjög flókið að breyta hegðun. Það er í raun stærsta áskorunin. Það þýðir til dæmis lítið að segja fólki sem ætlar ekki að hætta að reykja að hætta að reykja, það getur gert illt verra að tala við fólk í boðhætti. Hræðsluáróður er ekki besta leiðin til að ná til fólks, það þarf að bera ábyrgð á sinni heilsu sjálft en við getum verið leiðbeinandi ef fólk er móttækilegt.“

Svefnvandi algeng greining innan heilsugæslunnar

Jórlaug segir að svefnlyfjanotkun sé mikil hér á landi og að svefnvandi sé algeng sjúkdómsgreining innan heilsugæslunnar. Farið var í það að búa til efni og verkfæri til að takast á við vandann. „Í samstarfi við Betri svefn og Erlu Björnsdóttur fórum við í það að búa til matstæki/skimunartæki sem metur hvort um svefnvanda eða slæmar svefnvenjur sé að ræða en þetta matstæki gefur strax endurgjöf/niðurstöðu. Einnig var búið til fræðsluefni og stutt rafræn námskeið. Þessi verkfæri gagnast bæði fagfólki sem og skjólstæðingum með svefnvanda. Við þurfum alltaf að tryggja það að ef við erum að skima eða meta svefn eða eitthvað annað hjá fólki að það hafi aðgang að úrræðum og/eða heilbrigðisstarfsfólki ef það greinist með vanda, annað væri óábyrgt.“

Fræðsluefni þarf að vera auðskiljanlegt og einfalt Átaksverkefnið „Lyf án skaða“ er ætlað að vera vitundarvakning um lyfjaöryggi landsmanna og mikilvægi þess að endurskoða reglulega lyfjameðferðir einstaklinga hér á landi. Á alþjóðavettvangi gengur þessi vitundarvakning undir heitinu „Medication without harm“. Í byrjun október á síðasta ári var haldið málþing hér á landi um skynsamlega endurskoðun lyfjameðferðar þar sem tilgangurinn var að opna umræðuna um mismunandi leiðir til að draga úr lyfjatengdum skaða í aðstæðum fjöllyfjameðferðar og einnig að deilda nýjum hugmyndum og reynslu. Það eru lyfjafræðingar og læknar sem hafa staðið að þessari vitundarvakningu.

Jórlaug þekkir svolítið til þessarar vitundarvakningar og hefur þegar nefnt mikilvægi þess að auka heilsulæsi eða lyfjalæsi þegar kemur að lyfjanotkun en hvert er hlutverk hjúkrunarfræðinga og

hvernig geta hjúkrunarfræðingar aukið hæfni og þekkingu sína á þessu sviði? ,,Það er mikilvægt að fólk taki lyfin sín rétt því algengt er að þessi hópur sem er með langvinnan heilsuvanda sé oft á mörgum lyfjum. Við leggjum upp úr því að allt efni sem við búum til í þessu verkefni sem m.a. snýr að því að auka lyfja- og heilsulæsi sé lesið yfir af aðila sem er sérfræðingur í heilsulæsi til að tryggja að skilaboðin séu orðuð rétt og fólk fái í hendurnar efni sem það skilur og hvetur það til að breyta hegðun sinni.“

Hún bætir við að áhersla sé á að búa til ákveðið verklag og verkfæri varðandi meðal annars lyfjanotkun og lyfjarýni en það eru lyfjafræðingar innan heilsugæslunnar sem hafa veg og vanda af því. Heilsueflandi þjónusta sé þverfagleg samvinna hjúkrunarfræðinga og fleira fagfólks. Til að mynda komi lyfjafræðingar að því að búa til fræðsluefni ásamt hjúkrunarfræðingum. „Þá skiptir máli að textinn sé ekki í boðhætti og að hann sé einfaldur og ekki of langur. Fræðsluefnið þarf að vera auðskiljanlegt og aðgengilegt, það eykur heilsulæsi/lyfjalæsi og skilning fólks.“ Hún segir að til að mynda sé hægt að senda fræðsluefni í gegnum Heilsuveru en það sé eingöngu sent til þeirra skjólstæðinga sem kjósa að fá fræðslu um sinn vanda eða sjúkdóm.

Heilsuvera getur bætt heilsulæsi

Jórlaug segir að ein af þeim áskorununum sem heilsugæslan standi frammi fyrir sé gamalt sjúkraskrárkerfi. Hún segir að nauðsynlegt sé að fá nútímalegra kerfi sem styður betur við verklag í þjónustunni og bæti gæði þjónustunnar. „Það er líka sóknarfæri í því að fólk fari í auknum mæli að skrá sína sjúkraskrá sjálft þannig að upplýsingarnar flæði inn í þjónustuna.“

Hún tekur vaktir á Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar þar sem veitt er þjónusta í gegnum netspjall og símsvörun fyrir allt landið. ,,Þar sér maður vel að heilsulæsi fólks er misjafnt. Á heilsuveru.is má finna fræðsluefni um forvarnir, ýmsa sjúkdóma og fyrirbyggjandi leiðir til betra lífs. Þar er einnig að finna leiðsögn um heilbrigðiskerfið. Upplýsingarnar sem eru inni á Heilsuveru eru mjög góðar. Að fá fólk til að fara þarna inn og fræðast eykur heilsulæsi og aðtoðar fólk við að fá lausnir á sínum heilsuvanda. Það er samt sem áður mikil eftirspurn eftir að fá að tala við heilbrigðisstarfsfólk,“ segir hún og á meðan við spjöllum og drekkum kaffi skoðum við síðuna sem á að auka heilsulæsi þjóðarinnar. ,,Upplýsingamiðstöð hefur séð um að búa til hnitmiðað og stutt fræðsluefni sem flestir eiga að skilja sem leita eftir upplýsingum á Heilsuveru.“

Hvar sérð þú helst tækifæri til að auka heilsulæsi og bæta lýðheilsu? „Ég held að sóknarfærin séu mörg og mikilvægt að við höfum í auknum mæli að leiðarljósi að bæta lífsgæði og jöfnuð. Horfum meira til upplýsingatækni og rafrænna lausna við veitingu þjónustunnar og byggjum upp þjónustu sem er heildræn, þverfagleg, framvirk og einstaklingsmiðuð,“ svarar hún og áður en við kveðjumst spyr ég Jórlaugu hvað henni þykir vera það besta við starfið?

„Hvað það er fjölbreytt, ég vinn með fjölbreyttum hópi fagfólks frá bæði heilbrigðisstofnunum og öðrum stofnunum eins og Embætti landlæknis og heilbrigðisráðuneytinu. Það er mjög gaman að fá að vinna að þróun verkefna innan heilsugæslunnar með flottu fagfólki og taka þannig þátt í að efla lýðheilsu.

Það er gaman að vinna með fólki í heilsugæslunni um land allt. Heilsugæslan er frábær vinnustaður.“ Við látum það vera lokaorðin enda langt liðið á daginn og tímabært að kveðja.

Sjöfn Kjartansdóttir, hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild

„Þetta er draumastarfið mitt“

Texti: Sölvi Sveinsson | Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Sjöfn Kjartansdóttir er hjúkrunarfræðingur sem starfaði á gjörgæsludeild fyrstu árin eftir útskrift úr hjúkrun árið 1992. Samspil vaktavinnu og fjölskyldulífs gekk illa árin eftir útskrift, sem varð á endanum til þess að hún söðlaði um og fór í dagvinnu. Hún hefur átt farsælan ferli sem hefur að mestu leyti snúist um að vinna við að þróa og kynna notkun heilasírita hjá gjörgæslusjúklingum. Fyrir nokkrum árum stóð Sjöfn á tímamótum á starfsferlinum og fann að þá væri rétti tíminn til að snúa til baka á gólfið. Það reyndist svo sannarlega rétt ákvörðun enda hefur Sjöfn sjaldan verið jafn ánægð í starfi og núna en hún starfar á gjörgæslunni í Fossvogi.

Fann sig á gjörgæslunni

Það var í raun tilviljun sem réði því að Sjöfn fór í hjúkrunarfræði. Það tók tíma að finna sig í hjúkrun en námið fannst henni þó áhugavert. „Heimspeki, lífeðlisfræði og efnafræði voru greinar sem vöktu áhuga hjá mér. Ég drakk í mig þessi fög og fannst þau skemmtileg. Ég var þó alltaf aðeins óviss með námið en á fjórða ári tók ég ákvörðun um að klára það. Að lokum fann ég svo mína hillu í hjúkrun þegar ég hóf störf á gjörgæsludeild Borgarspítalans eftir útskrift. Ég sá ekki fyrir mér að ég myndi vinna við hjúkrun fyrr en ég byrjaði á gjörgæslunni,“ segir Sjöfn og bætir við að hún hafi ekki haft neinar fyrirmyndir í hjúkrun í sínu nærumhverfi.

„Ég vann þar til ársins 1996 og þetta voru frábær ár en ég var með lítil börn og átti þess vegna erfitt með að vera í vaktavinnu. Ég var ánægð í vinnunni og langaði virkilega að starfa þar áfram en það gekk ekki upp. Í kjölfarið fór ég að vinna hjá GKS húsgögnum, sem seldi meðal annars skrifstofuhúsgögn. Starf mitt þar fólst í að leiðbeina fólki í skrifstofustörfum varðandi líkamsbeitingu. Ég var ráðgefandi varðandi vinnuaðstöðu og skrifaði bækling um líkamsbeitingu. Eftir eitt til tvö ár þar fór ég að hugsa mér til hreyfings og tók að starfa hjá fyrirtækinu Heilsuvernd sem var fjölbreytt og skemmtilegt. Meðal annars sá ég um líkamsbeitingarog skyndihjálparnámskeið, auk fræðslufyrirlestra um hjarta- og æðasjúkdóma. Þá var í boði ráðgjafarþjónusta fyrir ýmis fyrirtæki sem vildu bjóða starfsfólki sínu ráðgjöf í veikindum og sinnti ég því,“ segir Sjöfn. Á næsta vinnustað fékk hún svo færi á að nýta reynslu sína af gjörgæslunni. „Eftir að hafa starfað hjá Heilsuvernd í nokkur ár sá ég auglýsingu frá nýsköpunarfyrirtæki sem hét Taugagreining, þar sem auglýst var eftir gjörgæsluhjúkrunarfræðingi. Fyrirtækið hafði verið að þróa heilalínurit til greiningar á flogavirkni og vildu koma því í notkun inn á gjörgæslur. Þetta fannst mér strax góð hugmynd.“

Fannst oft skorta upplýsingar um heilastarfsemi hjá alvarlega veikum

Þegar þarna er komið við sögu voru liðin átta ár frá því að Sjöfn hætti á gjörgæslunni en hugurinn leitaði alltaf þangað. „Ég hugsaði til baka um tímann sem ég starfaði á gjörgæslunni og var minnisstætt að hafa hugsað til dæmis um fjöláverka sjúklinga sem voru hjá okkur í nokkra daga eða vikur og það kom kannski ekki í ljós fyrr en eftir einhvern tíma að þeir væru með skerta heilastarfsemi. Þá var farið að leggja mat á heilastarfsemina og

stundum kom í ljós að hún var verulega skert og erfitt að segja til um hvort skaðinn hafði orðið í legunni eða slysinu. Mér fannst oft skorta upplýsingar um heilastarfsemina hjá alvarlega veikum sjúklingum. Auðvitað er og var hægt að fara í myndrannsóknir en þær segja okkur hvernig heilavefurinn lítur út en veita minni upplýsingar um heilastarfsemina sjálfa,“ bendir Sjöfn réttilega á. Hún bætir við að á þessum tíma hafi verið vitað að heilalínurit gætu komið að gagni við að meta heilastarfsemi og hvort viðkomandi væri í hættu. Sjöfn fékk starfið hjá Taugagreiningu og lýsir starfsumhverfi sem var henni ekki kunnugt: „Ég fékk starfið, þetta var hugbúnaðarfyrirtæki í eigu læknis og flest sem unnu þarna voru tölvunarfræðingar og hugbúnaðarverkfræðingar svo þetta var mjög framandi starfsumhverfi fyrir mig.“

Á ferð og flugi í krefjandi starfsumhverfi

Sjöfn segist hafa lesið vísindagreinar um heilalínurit mánuðum saman til að koma sér inn í fræðin og lýsir fyrstu mánuðunum í starfi sem mikilli brekku. „Í framhaldinu ferðaðist ég svo um allan heim, heimsótti sjúkrahús og ræddi við heilbrigðisstarfsfólk um hvort vit væri í því að nota heilalínurit á gjörgæslum. Mest var ég á ferðalögum í Skandinavíu, Bandaríkjunum, Hollandi og svo var ég mikið í Asíu,“ segir Sjöfn með heimsborgarabrag. Árangurinn af þessum miklu ferðalögum lét ekki á sér standa og reynsla Sjafnar í heilalínuritum jókst jafnt og þétt. „Við náðum miklum árangri á þessu sviði og vörumerkið Nervus er enn í dag vel þekkt. Við seldum tækin ekki beint sjálf heldur vorum með umboðsmenn um allan heim. Mitt hlutverk var að kenna þeim á hugbúnaðinn og halda erindi um tilgang þess að nota heilalínurit, þannig að ég hef verið að velkjast um í þessum heimi í mörg ár,“ segir hún og tekur fram að þótt starfið hafi tekið sinn toll hafi það sömuleiðis verið gefandi. „Svo gerðist það að bandarískt fyrirtæki fékk áhuga á okkur og fyrirtækið var selt þangað. Það þýddi að ég var enn meira á ferðinni. Mig minnir að eitt árið hafi ég verið 250 daga í útlöndum sem var of mikið. Þetta var frábær skóli, ég lærði ótrúlega mikið, heimsótti sjúkrahús um allan heim og kynntist alls konar fólki,“ segir Sjöfn með þakklæti en viðurkennir að á þessum tímapunkti í lífinu hafi það verið mikið púsl að halda jafnvægi milli vinnu og einkalífs.

„Það var eiginlega auðveldara að ferðast um allan heim heldur en að vera á vöktum á gjörgæslunni með tilliti til þess að það var flóknara að fá pössun fyrir kvöldvakt eða um helgar heldur en

„Þegar mest var vorum við með 22 öndunarvélapláss. Svo fór að róast í maí og allir héldu að þetta væri búið en þá kom næsta bylgja …“

að láta hitt foreldrið vera með barnið í nokkra daga. Við vorum í eilífum vandræðum með að láta allt ganga upp og þess vegna hætti ég á gjörgæslunni. Reyndar var ég komin í annað samband á þessum ferðalagatíma og seinni maðurinn minn tók dætur mínar alveg að sér á meðan ég var á ferðalögum, sem var alveg einstakt.“

Eftir að þessum kafla hjá Taugagreiningu lauk fór Sjöfn að vinna á skurðstofu og kunni vel við sig. „Þar var rosalega mikill hraði og hálfgerð akkorðsvinna – annaðhvort inni á skurðstofu, í aðgerð eða inn á vöknun,“ lýsir Sjöfn en hún stoppaði þó stutt við á skurðstofunni áður en næsta tækifæri bauðst.

Starfaði í ferðaþjónustu en fór svo aftur í heilalínuritabransann

Ári eftir að hún hóf störf á skurðstofu dembdi Sjöfn sér óvænt inn í ferðabransann. „Bróðir minn sem var þá búsettur í Þýskalandi, hafði verið að selja Þjóðverjum ferðir til Íslands í nokkurn tíma og hann vantaði aðila til að taka á móti þessu fólki. Mér finnst gaman að breyta til og að láta reyna á mig og sló því til. Þetta var árið 2006 og eiginlega engir innviðir hér á Íslandi til að taka á móti ferðamönnum. Þarna starfaði ég til ársins 2012 og var eiginlega stanslaust á símavakt því við þjónustuðum þessa ferðamenn vel,“ segir Sjöfn en hún segist hafa verið farin að sakna þess að starfa í heilbrigðisgeiranum.

„Þó að ferðaþjónustan sé að mörgu leyti heillandi bransi, þá togaði alltaf í mig að starfa frekar í heilbrigðisgeiranum. Þess vegna var ég fljót að ákveða mig þegar ég fékk símtal frá gömlum kollega úr heilalínuritabransanum sem bauð mér vinnu hjá fyrirtæki sem heitir Mentis Cura. Ég stoppaði samt frekar stutt hjá þeim, því að fyrrum samstarfsfélagar mínir hjá Taugagreiningu höfðu stofnað fyrirtæki sem heitir Kvikna og vissu af mér og ég færði mig yfir til þeirra. Þar fór ég að vinna í svipuðu starfi og ég sinnti hjá Taugagreiningu. Við tóku ferðalög og ég hitti gamla félaga í bransanum á ný. Ég hafði mjög mikla trú á heilasíritanum sem fyrirtækið hafði þróað en eins og með Taugagreiningu þá kom bandarískt fyrirtæki fáum árum síðar og keypti fyrirtækið Kvikna. Þar var ekki áhugi fyrir því að halda áfram þróun síritans fyrir gjörgæslu svo ég hætti hjá fyrirtækinu. Þetta var árið 2019 og ég ákvað að taka mér frí og njóta þess að verða amma í fyrsta skiptið. En svo fór ég að hugsa hvað tæki næst við.“

Vissi að það yrði átak að byrja aftur á gjörgæslu Í gegnum þau 24 ár sem Sjöfn starfaði ekki á gjörgæslunni leitaði hugur hennar ítrekað þangað aftur. Og fyrrum kollegar voru sama sinnis: „Þegar ég hitti gömlu vinnufélagana fékk ég spurningar hvenær ég ætlaði að koma aftur, jafnvel að öllum þessum árum liðnum. Eftir því sem lengra leið fannst mér þessi hugmynd fráleitari. Ég veit að það er löng og ströng þjálfun að byrja að vinna á gjörgæslu. Það breytist margt og ég vissi að það yrði talsvert átak að byrja aftur. En mér þótti vænt um þessi tengsl og það var alltaf eitthvað sem togaði í mig að byrja aftur,“ útskýrir Sjöfn og bætir við að hún hafi nefnt það við eiginmann sinn að kannski væri kominn tími til að snúa aftur. „Honum fannst það frábær hugmynd og hvatti mig áfram,“ segir Sjöfn sem segist einnig hafa fengið mikinn stuðning frá fjölskyldu og vinum. „Ég ræddi þetta við vinkonur mínar sem vinna á gjörgæslunni og fékk mikinn stuðning frá þeim. Ein sagði reyndar að ég sæi þetta í of miklum dýrðarljóma, þetta væri ekki alveg svona gott,“ segir Sjöfn og skellir upp úr. „Ég hugsaði þetta fram og til baka og nefndi þetta við Ólöfu, þáverandi deildarstjóra og vinkonu mína, sem tók

svakalega vel í þessa hugmynd. Við ákváðum í sameiningu að ég myndi byrja þann 1. apríl 2020. Svo skall á heimsfaraldur.“

Hálfgert brjálæði að hefja störf í fyrstu bylgju covid

Það gefur því augaleið að endurkoma Sjafnar á gjörgæslu kom á krítískum tíma en hún hefur aldrei skorast undan áskorunum og fannst enn mikilvægara að koma aftur til starfa við slíkar aðstæður. „Við Covid varð ég eiginlega enn spenntari fyrir því að byrja aftur að vinna á sjúkrahúsi. Mig langaði svo að leggja mitt af mörkunum. Ég mætti með uppbrettar ermar og tilbúin þann fyrsta apríl en þegar ég lít til baka sé ég að það var hálfgert brjálæði að byrja þarna á þessum tímapunkti. Fyrsta bylgjan var í hámarki og spítalinn varla búinn að ná tökum á aðstæðum. Þegar mest var vorum við með 22 öndunarvélapláss. Svo fór að róast í maí og allir héldu að þetta væri búið en þá kom næsta bylgja,“ segir Sjöfn og finnst, þegar litið er í baksýnisspegilinn, að mögulega hafi það verið aukaálag að fá hana í aðlögun á þessum tímapunkti. „En eins og hjúkrunarfræðinga er von og vísa, þá gekk þetta þó upp og mér finnst ótrúlegt hvað mér var vel tekið og hvað mér var sýnd mikil þolinmæði. Sumt þurfti ég algjörlega að læra upp á nýtt. Ég kunni varla að draga upp lyf í sprautu. En svo voru önnur handtök sem voru í bókstaflega í vöðvaminninu líkt og að soga úr barkarennu sjúklinga. Allt saman rifjaðist þetta svo hægt og rólega upp. Á þessu tímabili voru allir í framandi aðstæðum, ekki bara ég. Ég fann samt að ég hafði góða reynslu í farteskinu. Til dæmis hafði ég góða þekkingu á menningarlegum samskiptum og ég hafði öðlast mikla reynslu í samskiptum sem nýtist vel bæði sambandi við sjúklinga og aðstandendur.“

„Maður lærir að hafa kjark til að efast um aðferðir og meðferðir.“

Sjöfn lýsir aðlögun sinni í heimsfaraldri með kostum og göllum. „Það sem var jákvætt við að byrja í heimsfaraldinum var að ég lærði það mjög vel að sinna þessum sjúklingahópi. Það var lítið um önnur veikindi eða slys á þessum tíma. Þegar covid lauk fóru að leggjast inn sjúklingar með fjölbreyttari veikindi og eftir slys og þá upplifði ég að ég væri í smá vandræðum. Ég þurfti að spyrja mjög mikið og læra enn þá meira. En sem betur fer er þannig menning á þessari deild að það þykir sjálfsagt og eðlilegt að spyrja hvert annað og samvinna milli stétta er mjög góð,“ segir Sjöfn og bætir við að teymi sjúklings sé alltaf að ræða saman um hvernig megi koma sjúklingnum í gegnum veikindin á sem bestan hátt. „Maður er aldrei einn á vaktinni. Það er svo mikill stuðningur í umhverfinu frá hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, læknum og öðrum fagstéttum. Teymisvinnan er eitt af því sem mér þykir svo skemmtilegt við að vinna á gjörgæslunni.“

Vaktavinnan hentug Í dag þykir Sjöfn vaktavinnan henta sínu fjölskyldumynstri mun betur en hún gerði fyrstu árin eftir útskrift. „Í seinni tíð, nú þegar börnin eru uppkomin, kann ég sérstaklega vel við að vinna á vöktum. Mér finnst frábært að eiga frí á virkum dögum og eiga tíma fyrir sjálfa mig. Í vaktavinnu á maður frí í miðri viku meðan aðrir eru í vinnu eða skóla og það er algjör draumur. Mér finnst líka gaman að vinna allar vaktir og hver vakt hefur sinn sjarma. Á tímabili hætti ég að vinna næturvaktir en svo saknaði ég þess þannig að núna tek ég nokkrar næturvaktir í hverjum mánuði þótt ég þurfi þess ekki, vegna aldurs,“ segir Sjöfn brosandi.

Meistaranám í gjörgæsluhjúkrun eftir meistaranám í verkefnastjórnun

„Ég fattaði það eiginlega ekki fyrr en ég kynntist núverandi manni mínum hvað ég er mikill nörd. Ég var alltaf að gera grín að honum, hvað hann væri mikill nörd, en svo benti hann mér á að ég er líka algjör nörd. Mér finnst ótrúlega gaman að læra og það liggur vel fyrir mér. Þegar ég byrjaði á gjörgæslunni vorið 2020 voru hjúkrunarfræðingar á deildinni í sérskipulögðu meistaranámi í gjörgæsluhjúkrun. Ég varð strax mjög spennt fyrir þessu námi og sá mér leik á borði að með því að fara í þetta nám myndi ég komast mjög hratt inn í sérþekkingu í gjörgæsluhjúkrun. Mér finnst nefnilega ekki nóg að vita bara nokkurn veginn hvað ég er að gera, ég vil vita nákvæmlega hvað ég er að gera. Ég hafði lokið meistaranámi í verkefnastjórnun (MPM) árið 2015 en ákvað haustið 2021 að sækja um þetta M.S.-nám og komst inn. Í náminu hélt ég áfram að vinna með heilasírita. Mér fannst ég ekki hafa lesið alveg nógu margar greinar um heilasírita,“ segir Sjöfn á léttu nótunum. „Það hafa auðvitað orðið þvílíkar framfarir á síðastliðnum 20 árum. En þetta voru hundruð greina sem komu í ljós við heimildaleit. Í raun er búið að setja niður leiðbeiningar um að það eigi að nota heilasírita hjá ákveðnum sjúklingum á gjörgæslu,“ segir Sjöfn sem talar vel um meistaranámið. „Náminu lauk ég svo vorið 2023 og hefur það reynst mér frábært veganesti. Maður verður miklu öruggari með þennan þekkingargrunn á bak við fagið. Maður lærir að hafa kjark til að efast um aðferðir og meðferðir. Svo var auðvitað ómetanlegt að verða samferða góðum hópi af samnemendum. Í kjölfar námsins hóf ég sérfræðinám í hjúkrun hjá Landspítala og vonast til að verða sérfræðingur í hjúkrun gjörgæslusjúklinga. Hluti af því er að innleiða notkun á heilasírita með af meiri festu en áður.“

Aldrei of seint að sinna klínískri hjúkrun aftur „Sumum fannst ég vera taka skref niður á við að fara sinna beinni sjúklingavinnu aftur. Mér finnst hins vegar ég vera vinna við það sem mig langar mest að gera, að hjúkra sjúklingum. Að því leyti þvældist meistaranámið aðeins fyrir mér. Mig langaði að oft að vera í vinnunni en ekki í skólanum. Mig langar ekkert annað en að hjúkra. Þetta er rosalega krefjandi starf en mjög gefandi. Ég hugsa næstum því á hverri vakt hversu skemmtilegt mér finnist að starfa á gjörgæslunni. Auðvitað er þetta erfitt á köflum en við sjáum langoftast góðan árangur af starfi okkar og erum dugleg að hjálpa hvert öðru í gegnum erfiðar aðstæður,“ segir Sjöfn full af innblæstri og ástríða hennar fyrir starfinu skín í gegn.

„Mér fannst mjög leiðinlegt að þurfa að fara úr þessu starfi á sínum tíma en aðstæður voru bara þannig að ég gat ekki verið í vaktavinnu. Í öll önnur störf var ég alltaf ráðin vegna þess að ég var hjúkrunarfræðingur að undanskildu starfinu í ferðaþjónustunni. Hjúkrunarnámið opnar svo margar dyr á ýmsum sviðum. Hjúkrunarfræðingar njóta almennt trausts og eru eftirsótt vinnuafl. Ég er ánægð með starfsferilinn og að hafa prófað að vinna annars staðar en á Landspítala. Það gott að fara í burtu og öðlast fjölbreyttari reynslu og víðari sýn,“ segir Sjöfn sem er laus við eftirsjá þó að hún hafi verið lengi að snúa aftur til baka í hjúkrun. „Ég held ég væri ekki sama manneskja ef ég hefði ekki prófað hin störfin. Það getur verið gott að fara og prófa nýja hluti en þegar maður kemur aftur er alltaf tekið vel á móti manni. Þetta er algjörlega draumastarfið mitt.“

Sjöfn í garðinum heima.

Háskólakennarinn

Háskólakennarinn Sigrún Sunna Skúladóttir

Vill tileinka sér sanngirni, húmor og gleði í starfi

Texti og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Nafn: Sigrún Sunna Skúladóttir.

Menntun: Sjúkraliði, hjúkrunarfræðingur, diplóma í bráðahjúkrun, meistaranám í hjúkrun og doktorspróf í heilbrigðisvísindum.

Starfsheiti: Lektor við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands.

Af hverju hjúkrunarfræði?

Þegar ég vann sem sjúkraliðið þá upplifði ég að geta ekki gert nóg fyrir mína sjúklinga og þess vegna hélt ég áfram að mennta mig. Ég vildi geta veitt betri hjúkrun óháð þeim sem ég vann með.

Af hverju kennsla frekar en klíník?

Ég vinn bæði í Háskólanum og á Landspítalanum. Þegar ég fór að kenna þá áttaði ég mig á hve mikil hjúkrun felst í því að kenna hjúkrun, að geta haft jákvæð áhrif vonandi á alla þessa flottu einstaklinga sem velja hjúkrun sem sýna fræðigrein. Annars eru kennsla og klíník svo tengd, þetta er eins og að reyna að aðskilja hjartslátt og púls, bæði betra og raunverulega það sama, bara skoðað á ólíkum stöðum.

Hver er þín sérgrein?

Bráðahjúkrun í grunninn en þar fór ég að skoða þá sem komu inn vegna mjaðmabrots og þá beindist áhuginn að eldri einstaklingum. Þannig að ætli mín sérgrein í dag sé ekki bráðabæklunarbrot aldraðra.

Hvað heillaði þig við þá sérgrein og varð til þess að þú valdir hana frekar en aðra?

Að fá þessa sjúklinga inn á bráðamóttöku, aldraða einstaklinga sem í grunninn var erfitt að verkjastilla, því mesta verkjastilling kemur með viðgerð á broti. Þeir voru áskorun og flókið að sinna þeim því ekki er auðvelt að hreyfa þá. Ég hugleiddi hvernig þeim reiddi af eftir útskrift af því bæklunarlæknar eru góðir í að gera við þessi brot en samt er dánartíðni þessa hóps mjög há. Íslensk rannsókn hefur sýnt að 36% karla deyja innan

árs frá broti og 21% kvenna. Mig langaði að vita hvers vegna og hvað væri hægt að gera betur. Þess vegna er ég enn þá að skoða þennan hóp.

Þyrstir þig í fleiri háskólagráður, langar þig í meira nám?

Ég er reyndar í námi, er að klára kennslufræði. Sjáum hvort ég láti ekki þar staðar numið en góður maður sem

ég þekki sagði alltaf sá lifir sem lærir. Líklega mun ég aldrei að læra, spurningin er kannski frekar hvort það verður hefðbundið nám.

Ef þú hefðir ekki lært hjúkrunarfræði hvað hefðir þú þá lært?

Þetta er erfið spurning. Ég ætlaði að vera iðjuþjálfi þegar ég var í grunnskóla, sjúkraþjálfun hefði líka geta komið til greina.

Hvaða fög kennir þú?

Ég held utan um námskeið í skurðlækningarfræði sem er kennt af skurðlæknum. Ég held líka utan um hjúkrun aðgerðarsjúklinga og kenni þar, er með einn fyrirlestur. Svo kem ég inn í mörg námskeið. Kenni um stoðkerfið í almennri hjúkrun og kenni þar líka um lyfjaútreikinga. Ég kenni nemum að setja upp æðalegg og blöndun sýklalyfja í færinstofunni. Ég kenni í öldrunarhjúkrun; bæði sem sérfræðikennari í verknámi og einnig fyrirlestur um mjaðmabrot og sarcopeniu. Ég kenni einnig í meistaranáminu í aðferðarfræði, tölfræði og í skurðframhaldsnáminu um næringu skurðsjúklinga. Svo kenni ég grunnnemum við matvæla- og næringarfræðideild um hlutverk hjúkrunarfræðinga og meistarnemum hvernig sé hægt að nýta áhugahvetjandi samtal þegar taka þarf viðtal við skjólstæðing. Að lokum er ég annar af tveim umsjónarkennurum um þverfræðilega samvinnu heilbrigðisstétta sem er skyldunámskeið fyrir allar nemendur á heilbrigðisvísindasviði. Þannig að ég kem víða við í kennslu.

Hvað er það besta við kennarastarfið?

Að kynnast öllum þessum frábæru einstaklingum sem eru að mennta sig. Að geta vonandi aukið áhuga og gert efnið skemmtilegt og spennandi. Þegar maður upplifir að nemendur sem höfðu ekki trú á sér; að þeir gætu lært efnið, koma til manns og segja: „Sigrún þetta gekk upp hjá mér, ég gat þetta.“ Það er gefandi að finna að maður geri gagn.

„Annars eru kennsla og klíník svo tengd þetta er eins og að reyna að aðskilja hjartslátt og púls …“

Hver var þinn uppáhaldskennari á námsárunum?

Guðrún Pétursdóttir og Pétur Tyrfingsson skurðlæknum.

Hverjar eru helstu áskoranir háskólakennarans?

Stækkandi árgangar og að fylgja nýjustu breytingum í tækni varðandi kennslu. Það getur líka verið áskorun að viðhalda áhuga sínum og annara á efninu.

Er Eirberg sjarmahöll eða lúið og lélegt húsnæði undir háskólakennslu?

Eirberg er sjarmahöll en hún er orðin gömul þessi höll, hún geymir mikla sögu en ég hlakka til þegar við flytjum í nýtt og betra húsnæði.

Uppáhaldskennslustofan þín að kenna í?

Færinstofan í kjallaranum, þar eru nánast engir gluggar að horfa út um svo athyglin er öll á því sem er að gerast inni í stofunni.

Eitthvert fag sem þér finnst vanta í námið?

Ég myndi ekki segja að neitt fag vanti í hjúkrunarfræðinámið en það mætti auka kennslu í næringarfræði að mínu mati, sem og í endurhæfingu og hreyfingu.

Hressasti kennarinn á kennarastofunni?

Erfitt að gera upp á milli þeirra en ég myndi segja Þóra Jenný, Þórdís Katrín og Herdís.

Eftirminnilegasta kennslustundin?

Þegar ég var í námi þá kom einn kennarinn inn í stofuna of seint og hafði ekki tekið herðatréð úr frakkanum sem hann var í. Ég brjálaðist úr hlátri og hann spurði hvað væri svona fyndið. Ég þurfti að segja honum frá herðatrénu og þá segir hann: Það er ekki skrítið að fólkið hafi horft á mig í strætó þegar ég fór út við geðdeildina.

Flottasta fyrirmyndin þín í hjúkrunarfræði?

Þær eru nokkrar, ég vil nefna Kristínu Höllu Marinósdóttur, Arndísi Henriksdóttir, Ellen Björnsdóttur og Signhildi Sigurðardóttur. Allt flottar fyrirmyndir.

Eiginleikar sem þú vilt tileinka þér í kennarastarfinu?

Skýrleika, sanngirni, húmor og gleði.

Hvernig tilfinning er að útskrifa nemendur?

Hún er blendin, sumpartinn saknar maður þess að hafa þá ekki áfram í skólanum en mest megins er það gleði að þau hafi klárað sitt nám og geti farið að gera góða hluti á sínum forsendum.

Hvernig mætti bæta hjúkrunarfræðinámið að þínu mati?

Það mætti bæta klíníska námið á spítalanum og auka tækjakost okkar í færnisetrinu. Sýndarveruleiki er eitthvað sem er að koma meira inn í nám og það væri gaman að geta leyft nemendum að njóta þess besta sem tæknin hefur upp á að bjóða.

Hvernig myndir þú sannfæra áhugasama um að skella sér í nám í hjúkrunarfræði?

Ég myndi segja að hjúkrun væri ótrúlega gott og gefandi starf þar sem hjúkrunarfræðingur fær að vera með fólki á erfiðustu og bestu stundum lífsins. Ef hjúkrunarfræði verður fyrir valinu eru störfin fjölbreytt; það er hægt að velja að starfa í forvörnum, við að bjarga mannslífum, við að fylgjast með þroska barna, í skólum, á skurðstofum, gjörgæslum, í geðinu og við lífslok fólks. Það er

flókið að finna sér nám sem gefur eins marga starfsmöguleika og hjúkrun.

Hvernig nærir þú andann?

Með því að fara út í gönguferðir, í útilegur í hjólhýsinu, vera úti í náttúrunni og snæða kvöldmat með fjölskyldunni. Það getur líka verið nærandi að tala við kettina mína.

Hvað gleður þig mest í lífinu?

Þegar ég sé að fólki gengur vel í sínu, hvort sem það er í námi eða starfi. Það gleður mig líka þegar fjölskyldan situr saman og ræðir málin yfir kvöldmatnum og þegar ég man eftir því að anda djúpt og njóta þess að vera í núinu.

Hvað hryggir þig helst?

Fólk sem kemur illa fram við aðra, dauðsföll og veikindi.

Hvernig fáum við fleiri karlmenn til að læra hjúkrun?

Með fræðslu, við þurfum að kynna fyrir íslenskum karlmönnum hve margir karlar fara í hjúkrun erlendis. Við verðum að leiðrétta þessa skökku ímynd að hjúkrun sé kvennastarf. Hjúkrun er krefjandi starf fyrir fólk sem vill sigrast á áskorunum og starfa við eitthvað sem skiptir máli í stóra samhenginu.

Ef þú ættir eina ósk fyrir heilbrigðiskerfið á Íslandi hver væri hún?

Að stjórnvöld og við sem þjóð myndum hætta að líta á heilbrigðiskerfið sem kostnaðarlið og fara líta á það sem sparnaðarlið. Þessi þreytta umræða um hve mikill kostnaðurinn er við heilbrigðiskerfið þegar við ættum frekar að ræða hve mikill sparnaður felst í því að geta lengt líf fólks og haldið fleiri einstaklingum í vinnu fyrir samfélagið sem annars hefði kannski dáið eða orðið öryrkjar.

Eitt dæmi gæti hljómað svona: Landspítali gerði 100 liðskiptiaðgerðir á síðustu þremur mánuðum, það mun lækka sjúkradagpeninga um xx milljóir á ári og skila ríkinu og samfélaginu xx milljónum í formi framleiðslu og skatta.

Falin perla í náttúru Íslands?

Borgarfjörður eystri og Rauðasandur.

Hvað ætlar þú að gera í sumarfríinu þínu?

Kannski ég reyni að skrifa eina grein. Ég ætla líka að ferðast um landið með hjólhýsið mitt og fara á Bræðsluna.

Að endingu, hvert er þitt mottó?

Það er nú svolítið kaldhæðnislegt, eins og ég á til að vera, en það hljómar svona: Til langs tíma litið þá deyjum við öll.

LSR er til staðar fyrir þig á mörgum helstu tímamótum ævinnar.

Sem sjóðfélagi öðlastu víðtæk réttindi – kynntu þér þau á lsr.is.

Hjá okkur geturðu líka fengið séreignarsparnað, sem er ekki aðeins bein launahækkun fyrir þig, heldur líka ein besta sparnaðarleið sem völ er á. Við bjóðum einnig fasteignalán, bæði verðtryggð og óverðtryggð.

Nú geturðu sótt um bæði séreignarsparnað og fasteignalán á vefnum okkar. Kynntu þér málið á lsr.is.

Lífeyrissjóður

Sandra Friðriksdóttir, hjúkrunarfræðingur í átröskunarteymi Landspítala

Segist sjá mikla skörun milli áfalla og geðrænna áskorana

Texti: Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Sandra Friðriksdóttir er hjúkrunarfræðingur í átröskunarteymi Landspítala og gegnir auk þess starfi aðstoðardeildarstjóra á göngudeild lyndisraskana en innan þess eru, auk átröskunarteymis, fjögur önnur sérhæfð meðferðarteymi. DAM-teymi, áfallateymi, geðhvarfateymi og þunglyndis- og kvíðateymi. Teymin eru til húsa á Kleppi, fyrir utan það síðastnefnda sem er staðsett í húsnæði geðdeildar við Hringbraut.

Sandra útskrifaðist með B.Sc.-gráðu í hjúkrunarfræði úr Háskóla Íslands árið 2010, bætti svo við sig meistaragráðu í lýðheilsuvísindum við sama háskóla þegar námsþorstinn gerði aftur vart við sig tæpum áratug síðar. Hún kynntist fyrst vinnu með einstaklingum með átraskanir í verknámi í geðhjúkrun. „Þá var átröskunarteymið til húsa á jarðhæð geðdeildarbyggingarinnar á Hringbraut. Ég fékk líka að fara aðeins á Hvítabandið þar sem DAM-meðferðin var veitt á þeim tíma og einhverja daga var ég á bráðaþjónustu geðsviðs. Við nemarnir fengum nánast ekkert að gera, fengum ekki að vera með í viðtölum og gátum þannig ekki kynnst starfi hjúkrunarfræðinga neitt að ráði. Ég man að verknámið kveikti alls engan áhuga hjá mér að starfa á geðsviði. Ég veit að síðan ég var í mínu grunnnámi hefur mikið vatn runnið til sjávar og í dag vil ég trúa því að nemarnir sem koma til okkar í göngudeildarteymin fái margir hverjir áhuga á geðhjúkrun,“ segir hún einlæg.

Þegar Sandra var á lokaárinu í hjúkrun fór hún samhliða námi að starfa á smitsjúkdóma- og meltingardeild en þangað kom gjarnan fólk með vímuefnavanda: „Þar fékk ég smjörþefinn af geðinu og áttaði mig á að það væri kannski ekki svo galið að skoða geðhjúkrun sem mögulegan starfsvettvang.“ Í mars á útskriftarárinu eignaðist

Sandra sitt fyrsta barn og útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur þremur mánuðum síðar. Hún segir þetta tímabil vera í hálfgerðri móðu. „Einhvern veginn tókst mér þetta en ég get ekki sagt að ég muni mikið eftir vormánuðunum þetta ár 2010,“ segir hún og hlær.

Frá heila- og taugadeild á sérhæfða endurhæfingargeðdeild

Nýbakaða móðirin sneri svo aftur til vinnu, í þetta sinn á heila- og taugadeild Landspítala þar sem hún starfaði næstu sjö árin og undi hag sínum prýðilega þar til hún rak, einn góðan veðurdag, augun í starfsauglýsingu frá sérhæfðri endurhæfingargeðdeild (SEG) á Kleppi sem þjónustaði ungt fólk með geðrofssjúkdóma og vímuefnavanda: „Ég man eftir að hafa hugsað með mér að þetta hlyti að vera spennandi starf og ákvað að sækja um. Þar var ég í tvö ár þar til önnur auglýsing um starf í átröskunarteyminu greip mig og það kveikti virkilega í mér. Þetta var sumarið 2020 og hér er ég enn.“ Málefni tengd vímuefnavanda eru Söndru hugleikin en hún gerði meistararannsókn sína í lýðheilsuvísindum um tengsl áfalla í æsku við vímuefnavanda meðal kvenna á Íslandi. Rannsókn

Söndru var til 60 eininga og hún nýtti gögn úr áfallasögu kvenna, stóru rannsókninni sem Dr. Unnur Valdimarsdóttir prófessor hefur leitt.

Mikil skörun milli áfalla og geðrænna áskorana

Sandra segist í gegnum starf sitt sjá mikla skörun milli áfalla og geðrænna áskorana. „Fólkið sem við þjónustum í átröskunarteyminu er oft með einkenni sem geta átt rót sína í áföllum og vímuefnavandi er líka algengur. Ég væri alveg til í að læra áfallameðferð. Tilfinningalegur óstöðugleiki er líka til staðar hjá mjög mörgum og þá kemur sér vel að við erum í farsælli sambúð í risinu á Kleppi með DAM-teyminu, þar sem sérhæfð meðferð er veitt við alvarlegum tilfinningavanda. Mikil samvinna er milli teymanna og við gerum okkar besta til að finna lausnir sem henta fólkinu okkar. Það er svo mikilvægt að kerfið hafi ákveðinn sveigjanleika í stað þess að við ætlumst til þess að skjólstæðingar okkar, sem eru í mikilli þjáningu, eltist við duttlunga þess. Þarna finnst mér styrkleiki geðhjúkrunar koma ótrúlega skýrt fram – að geta farið út úr boxinu og hafa kjark til þess. Við eigum að geta lagað meðferð að þörfum viðkvæmra skjólstæðinga í stað þess að vera algjörlega föst í kössum prótókolla.“

Átröskunarteymið hafði verið án hjúkrunarfræðings í heilt ár

Átröskunarteymið er þverfaglegt göngudeildarteymi innan meðferðareiningar lyndisraskana. Teymið er þverfaglegt en innan þess starfa auk Söndru annar hjúkrunarfræðingur, sálfræðingar, atferlisfræðingur, næringarfræðingur, geðlæknir og ráðgjafi. Flestir í þjónustu teymisins mæta í meðferðarviðtöl á göngudeild en ákveðinn hluti skjólstæðinga þarf meiri þjónustu og mætir á dagdeild. Á dagdeild eru máltíðir og máltíðarstuðningur mikilvægur þáttur þjónustunnar en einnig gefst þá möguleiki til þéttari viðtala og aðkomu fleiri fagaðila. Stundum er þörf á innlögnum vegna átröskunarvanda og þá vinnur teymið með innlagnardeildum á geðdeildinni á Hringbraut eða geðendurhæfingardeild á Kleppi. Þegar Sandra kom til starfa í teyminu hafði það verið án hjúkrunarfræðings í um það bil ár á undan. Sandra segir það hafa verið áskorun: „Í raun vissi ég lítið um hvernig ég átti að vera eða hvað ég átti að gera. Ég þurfti tíma til að finna mitt hlutverk innan teymisins. Það reyndi mest á að finna hver sérstaða hjúkrunar átti að vera innan teymisins,

„Það er svo mikilvægt að kerfið hafi ákveðinn sveigjanleika, í stað þess að við ætlumst til þess að skjólstæðingar okkar sem eru í mikilli þjáningu, eltist við duttlunga þess.“

Sandra Friðriksdóttir er 39 ára, hún býr í Árbænum ásamt fjölskyldu sinni.

hvernig hlutverk hjúkrunarfræðings til dæmis var ólíkt hlutverki sálfræðings. Það var oft mikil áskorun fyrir mig að koma inn í mál þar sem geðrænn vandi var margþættur og kannski nauðsynlegt að fara í flóknar mismunargreiningar. Því hafði ég enga þjálfun í. Á hinn bóginn voru mínir styrkleikar greinilegir þegar kom að líkamlegum vanda skjólstæðinga. Það voru mál sem höfðu dálítið týnst í teyminu á tímanum sem enginn hjúkrunarfræðingur var til staðar. Blóðþrýstingsmælirinn hafði til dæmis týnst löngu áður en ég mætti á svæðið,“ útskýrir hún.

Tímabært að hjúkrunarfræðingar í geðþjónustu hafi aðgang að klínískri handleiðslu

Sandra segist mögulega hafa haft helst til mikinn metnað þegar hún hóf störf í teyminu: „Ég var ákveðin í að taka hvern einasta skjólstæðing í teyminu í vandlegt heilsufarsmat, en komst fljótt að því að það væri alls ekki raunhæft.“ Júlíana Guðrún Þórðardóttir sem í dag hefur tekið við hlutverki annars forstöðuhjúkrunarfræðings geðþjónustu var á þeim tíma deildarstjóri á göngudeild lyndisraskana og reyndist Söndru vel: „Það var ótrúlega mikilvægt fyrir mig að hafa hana og líka ómetanlegt að njóta handleiðslu Bjargar Guðmundsdóttur geðhjúkrunarfræðings. Ég gat tekið upp mál og alls kyns klínísk úrlausnarefni og borið undir hana. Mér finnst löngu tímabært að hjúkrunarfræðingar í geðþjónustu hafi aðgang að klínískri handleiðslu frá þeim sem reyndari eru og fagna því sannarlega að nýju forstöðuhjúkrunarfræðingarnir okkar ætli að gera skurk í þeim málum.“

Meðferðin sem veitt er í átröskunarteymi byggist á HAM en upphafsmaður hennar, Glenn Waller, hefur einmitt handleitt teymið undanfarin misseri: „Ég fékk þjálfun í meðferðinni og var fljótlega farin að taka skjólstæðinga í tíu tíma HAM-meðferð við átröskun. Smám saman hefur hæfni mín aukist og ég er þannig farin að taka að mér flóknari mál líka. Reynsla mín af SEG og sú þjálfun sem ég hafði fengið þar í samtalstækni var mjög mikilvæg. Það var líka mjög hjálplegt að hafa bakgrunn af legudeildum spítalans, þekkja boðleiðir, umhverfið og ólíka þjónustu. Geðkerfið er svo alveg sér á báti og mjög mikilvægt að fagfólk í göngudeildarþjónustu þekki það vel. Fólk þarf oft að sækja sér þjónustu á ólíkum stöðum í kerfinu, til dæmis í geðheilsuteymum, á heilsugæslu eða hjá mismunandi meðferðaraðilum á stofum. Því betur sem við þekkjum króka og kima kerfisins, því betur gengur okkur að tryggja samfellu í þjónustu fyrir okkar skjólstæðinga. Það er ekkert gaman að upplifa sig týndan í óskiljanlegu kerfi þegar líðanin er slæm og við getum sannarlega dregið úr þjáningu með því að leggja okkur fram.“

Verkefni hjúkrunarfræðinga í átröskunarteymi eru fjölbreytt:

Meðferðarviðtöl

Heilsufarsviðtöl og heilsufarsmat (allir skjólstæðingar á dagdeild)

Fræðsla fyrir aðstandendur

Stuðningur í máltíðum og eftir máltíðir

Sjúklingafræðsla

Samvinna við innlagnadeild

Fræðsla og kennsla (t.d. íþróttaþjálfarar, hjúkrunarnemar, geðsjúkraliðanemar)

Umbótaverkefni (t.d. gerð fræðsluefnis, þróun verklags, þróun apps sem skjólstæðingar nota til að skrá matarinntekt)

Stuðningur við önnur sérhæfð teymi innan geðþjónustu

Innlagnir skjólstæðinga átröskunarteymis er hjúkrunarleitt umbótaverkefni sem felst í samvinnu teymisins við geðendurhæfingardeildina á Kleppi. Eitt pláss á deildinni er þannig merkt átröskunarteyminu og notað fyrir einstaklinga sem eru í mikilli þörf fyrir aukinn stuðning til að geta sinnt meðferð vegna átröskunarvanda. Þétt samvinna milli teymisins og legudeildarinnar hefur verið lykilatriði í þeim árangri sem verkefnið hefur skilað. Teymið stýrir meðferð þeirra sem nýta sér innlagnir og sér einnig um kennslu og stuðning við starfsfólk deildarinnar.

Dæmigerður dagur hjá hjúkrunarfræðingi í átröskunarteymi:

Stöðumatsfundur teymis – farið yfir daginn, hverjir eru að koma á dagdeild, hvaða fundir eru á dagskrá o.fl.

Máltíðastuðningur í morgunmat, hádegismat og síðdegisbita – stuðningur við skjólstæðinga bæði í máltíðum og eftir þær.

Viðtöl – heilsufarsviðtöl, meðferðarviðtöl, fjölskylduviðtöl Eftirfylgd með niðurstöðum rannsókna – blóðprufur, hjartalínurit o.fl. og samráð við lækni teymis.

Samskipti við innlagnardeildir ef einhver í þjónustu teymis liggur inni.

Framtíðarsýn og umbótatækifæri:

Þróun á innihaldi dagdeildar – erum að vinna í samskiptum við erlenda tengiliði.

Bætt þjónusta við aðstandendur – erum nýlega byrjuð aftur með fasta aðstandendafræðslu tvisvar á önn.

Áframhaldandi þróun rafrænna lausna – búið er að gera matardagbók rafræna, verið að vinna í rafrænum spurningalistum sem auðveldar fjarmeðferð.

Skerpa verklag í tengslum við reglulegt heilsufarsmat.

Algeng mýta varðandi átröskunarsjúkdóma er að allir sem eru með átröskun séu í undirþyngd. Raunin er hins vegar sú að flestir sem greinast með átröskun eru í eða yfir kjörþyngd. Þetta segja bæði innlendar og erlendar tölur. Þetta gerir það að verkum að fólki finnst það oft ekki nógu veikt til að leita sér aðstoðar.

Helstu átraskanir sem unnið er með hjá átröskunarteymi Landspítala:

- Lystarstol (e. anorexia nervosa)

- Lotugræðgi (e. bulimia nervosa)

- Lotuofát/átkastaröskun (e. binge eating disorder)

- Átröskun ótilgreind (e. other specified feeding or eating disorder)

- ARFID sem stendur fyrir Avoidant, restrictive food intake disorder en heitið hefur ekki enn þá verið íslenskað.

„… gerði meistararannsókn sína í lýðheilsuvísindum um tengsl áfalla í æsku við vímuefnavanda meðal kvenna á Íslandi.”

Framboð til formanns Fíh

Kjörnefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga auglýsir eftir framboðum til formanns félagsins

• Formaður er kjörinn í allsherjaratkvæðagreiðslu samkvæmt lögum félagsins.

• Kjörtímabil formanns er fjögur ár, að hámarki átta ár og skal formaður vera í fullu starfi hjá félaginu.

• Einungis félagsfólk með fulla aðild að Fíh er kjörgengt í embætti formanns.*

Framboðsfrestur er til og með 31. janúar 2025

Niðurstaða formannskosningar skal liggja fyrir a.m.k. 8 vikum fyrir aðalfund.

Frambjóðendur skulu skila til kjörnefndar skriflegu framboði ásamt meðmælendaskrá á netfangið kjornefnd@hjukrun.is. Nánari upplýsingar um formannskjör má finna í 10. gr. laga Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, lögin má finna á hjukrun.is.

* Fulla aðild hefur hjúkrunarfræðingur sem greiðir félagsgjöld samkvæmt ákvörðun aðalfundar af launum sínum og atvinnuveitandi greiðir tilskilin gjöld í sjóði félagsins fyrir hans hönd.

Mér fannst ég verða aftur ég sjálfReynsla kvenna af notkun hormónauppbótarmeðferðar á breytingaskeiði

doi: 10.33112/th.100.2.1

ÚTDRÁTTUR

Tilgangur

Tilgangur þessarar rannsóknar var að afla aukinnar þekkingar á reynslu kvenna af hormónauppbótarmeðferð á breytingaskeiði. Breytingaskeið getur hafist allt að 10 árum áður en tíðahvörf skella á. Á þessu skeiði getur konan upplifað ýmis líkamleg og andleg einkenni. Hormónameðferð tengd breytingaskeiði er árangursríkur meðferðarmöguleiki til meðhöndlunar á líkamlegri og andlegri vanlíðan.

Aðferð

Eigindleg fyrirbærafræðileg aðferð var valin og stuðst við Vancouver-skólann í fyrirbærafræði. Þátttakendur voru 12 íslenskar konur á aldrinum 47-53 ára sem höfðu verið á hormónauppbótarmeðferð síðustu 3-24 mánuði og voru valdar með tilgangsúrtaki. Tekin voru 12 einstaklingsviðtöl, rituð upp orð fyrir orð og að lokum þemagreind.

Niðurstöður

Yfirþema rannsóknarinnar var: Mér fannst ég verða aftur ég sjálf. Jafnframt voru sex meginþemu greind: Líkaminn varð aftur eins og ég þekkti hann, Það kviknaði aftur á mér, Félagsleg tengsl byggð upp, Eftirsjá að tímanum sem ég missti, Virk hlustun og samskipti og Þetta þroskar mann. Konurnar greindu frá jákvæðum líkamlegum, andlegum og félagslegum breytingum eftir að þær byrjuðu á hormónauppbótarmeðferð. Til dæmis hurfu verkir í liðum og þær hvíldust betur á nóttunni sem var ein af ástæðum þess að þær byrjuðu á hormónameðferð. Í rannsókninni kom fram að konurnar hefðu viljað fá greiningu fyrr þar sem þær áttu nokkrar læknisheimsóknir að baki og upplifðu eftirsjá að tímanum þegar þær voru að kljást við einkenni breytingaskeiðs. Einnig hefðu þær viljað fá meiri skilning frá fagfólki þegar þær leituðu eftir aðstoð. Ályktun

Álykta má að hormónauppbótarmeðferð bæti verulega líkamlega-, andlega- og félagslega líðan kvenna á breytingaskeiði. Mikilvægt er að heilsugæslan komi til móts við konur sem eru að ganga í gegnum breytingaskeiðið og bæti stuðning og fræðslu til þeirra um breytingaskeiðið þannig að þær geti tekið upplýsta ákvörðun um ávinning og áhættuþætti hormónauppbótarmeðferðar.

Lykilorð

Hormónauppbótarmeðferð, breytingaskeið, reynsla, konur, fyrirbærafræði.

HAGNÝTING RANNSÓKNARNIÐURSTAÐNA

Hvaða nýjungar koma fram í niðurstöðum þessarar rannsóknar?

Konur upplifa mikla byltingu á lífsgæðum við að fara á hormónauppbótarmeðferð. Það tók oft langan tíma fyrir þær að fá rétta greiningu og upplifðu þær eftirsjá að tíma þegar þeim hefði getað liðið betur. Konurnar hefðu viljað fá meiri hlustun og viðurkenningu frá heilbrigðisstarfsfólki.

Hagnýting

Mikilvægt er að bæta fræðslu til einstaklinga og fagfólks heilsugæslunnar um breytingaskeiðið og hormónauppbótarmeðferðir. Síðustu ár hefur orðið mikil vitundarvakning í samfélaginu og bæði hið opinbera og einkareknar heilbrigðisþjónustur boðið upp á fræðslu um breytingaskeiðið. Mikilvægt er að halda áfram þessari vinnu og bæta fræðslu til einstaklinga og fagfólks heilsugæslunnar um breytingaskeiðið og hormónauppbótarmeðferðir.

Hvaða þekkingu bæta niðurstöður þessarar rannsóknar við hjúkrunarfræði?

Niðurstöður gefa til kynna að þátttakendur endurheimtu það líf sem þær áttu áður en þær fóru á breytingaskeiðið. Þátttakendur upplifðu eftirsjá að tímanum sem þær hefðu getað verið á fullum dampi ef þær hefðu verið meðhöndlaðar fyrr með hormónauppbótarmeðferð. Einnig hafði vanlíðan fyrir hormónauppbótarmeðferð áhrif á félagsleg tengsl þátttakenda. Áhugavert væri að rannsaka reynslu kvenna af hormónauppbótarmeðferð með megindlegum aðferðum þar sem hægt væri að nota stærra úrtak og greina betur hvaða áhrif slík meðferð hefur á líðan kvenna.

Áhrif á störf hjúkrunarfræðinga Rannsóknin sýnir að mikilvægt er fyrir hjúkrunarfræðinga að halda áfram að efla fræðslu og ráðgjöf um breytingaskeiðið og tíðahvörf til kvenna. Í dag mega heilsugæsluhjúkrunarfræðingar sem eru með meistarapróf og hafa farið í námið Ráðgjöf um getnaðarvarnir og lyfjaávísanir, skrifa upp á getnaðarvarnir. Mögulegt er að víkka út þetta starfssvið og bjóða hjúkrunarfræðingum einnig upp á menntun um hormónauppbótarmeðferðir hjá konum. Það er því mikilvægt að hjúkrunarfræðingar taki það hlutverk að sér að sinna aukinni þörf kvenna fyrir fræðslu og stuðning í kringum breytingaskeiðið. En með því gætu hjúkrunarfræðingar sinnt aukinni ráðgjöf á heilsugæslu til kvenna um breytingaskeiðið og mögulega skrifað upp á hormónauppbótameðferð ef þörf er á því.

Höfundar

ÍRIS DRÖFN BJÖRNSDÓTTIR

Hjúkrunarfræðingur, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

SIGFRÍÐUR INGA KARLSDÓTTIR

Prófessor við Háskólann á Akureyri

SÓLRÚN ÓLÍNA SIGURÐARDÓTTIR

Hjúkrunarfræðingur, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Mér fannst ég verða aftur ég sjálfReynsla kvenna af notkun hormónauppbótar meðferðar á breytingaskeiði

INNGANGUR

Náttúruleg tíðahvörf eru skilgreind sem varanleg stöðvun tíða eftir 12 mánaða tíðateppu án annarra meinafræðilegra eða lífeðlisfræðilegra orsaka (La Rosa o.fl., 2019). Talað er um þrjú stig breytingaskeiðs: Breytingaskeið, tíðahvörf og eftirtíðahvörf. Breytingaskeið er tímabil frá fyrstu einkennum að tíðahvörfum sem getur hafist allt að 10 árum áður en tíðahvörf eiga sér stað. Á þessu skeiði getur konan upplifað ýmis líkamleg og andleg einkenni. Tíðahvörf eru greind þegar tólf mánuðir eru liðnir frá síðustu blæðingum (Verdonk o.fl., 2022). Skeiðið eftirtíðahvörf tekur síðan við sem er skilgreint sem „allt æviskeið konunnar eftir að tíðahvörf eru að fullu komin fram“ ( CEMCOR, ed.). Meðalaldur kvenna sem fara í tíðahvörf er 51 ár. Þegar kona er í kringum 45 ára þá lækka kvenhormón í líkama hennar og þessi lækkun getur leitt til aukinnar hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Þetta getur leitt til þess að helmingur kvenna þrói með sér háþrýsting en einnig aukast líkur á hækkun á kólesteróli, aukningu á líkamsþyngd og þróunar á sykursýki tegund 2 (Verdonk o.fl., 2022).

Tíðahvörf kvenna marka varanleg lok tíðablæðinga og einkenni geta jafnvel aukist. En einkennin eru t.d. hitakóf, liðverkir, skapsveiflur, svefntruflanir, minnistap, þurrkur í leggöngum, rýrnun í slímhúð legganga og þyngdaraukning (Jayasena o.fl., 2019; Samarasiri o.fl., 2017; Vaccaro o.fl., 2021). Talið er að 60-80% kvenna í Bandaríkjunum upplifi hitaog svitakóf á breytingaskeiði eða tíðahvörfum og finna 32-46% kvenna fyrir miðlungs eða alvarlegum einkennum. Miðgildið í árum hjá konum sem upplifa hita- og svitakóf er 7,4 ár (Shiozawa, 2023). Í rannsókn Yisma et al. (2017) þar sem tíðni ýmissa tíðahvarfaeinkenna voru skoðum meðal kvenna á aldrinum 30-49 ára kom fram að algengustu einkenni tíðahvarfaeinkenna voru; hitakóf (65,9%), erfiðleikar við að sofna (46,6%), þunglyndiseinkenni (46,0%) pirringur (45,1%) og kvíði (39,8%).

Á eftirtíðahvörfum stuðlar lækkandi magn hormóna að aukinni hættu á vöðvarýrnun, þunglyndi, beinþynningu, aukinni hættu á hjarta- og æðasjúkdómum og illkynja sjúkdómum (La Rosa o.fl., 2019). Eftir tíðahvörf kvenna aukast líkur á mjaðmagrindarbroti og þvagleka. Sumar konur upplifa einnig minnkaða kynhvöt og minni tíðni kynferðislegra hugsana á breytingaskeiðinu og eftir tíðahvörf (Jayasena o.fl., 2019). Þessi einkenni geta haft mikil áhrif á daglegt líf kvenna og geta leitt að lokum til verri lífsgæða (Samarasiri o.fl., 2017). Lífslíkur kvenna hafa aukist talsvert síðustu áratugi og í dag má búast við að 50% kvenna muni ná 90 ára aldri árið 2030 (Lambrinoudaki o.fl., 2022). Niðurstöður Moser og félaga (2020) sýndu að konur sem eru með einkenni breytingaskeiðs eru marktækt líklegri til þess að upplifa þunglyndi, kvíða og svefnleysi.

Mjög fáar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi um breytingaskeiðið og tíðahvörf og engar tölulegar upplýsingar eru fáanlegar um tíðni einkenna eða hormónauppbótarmeðferðar meðal kvenna. Í rannsókn Ásthildar Björnsdóttur (2017) á reynslu kvenna á breytingaskeiði,

kom fram að þær fundu fyrir breytingum á líkamlegri og andlegri líðan. Einnig fundu þær minni kynlöngun og sögðu að stuðningur maka skipti miklu máli fyrir þær meðan þær gengu í gegnum breytingaskeið. Þau bjargráð sem þær nýttu sér til að takast á við breytingaskeiðið var aukin hreyfing, hollara mataræði ásamt náttúru- eða hormónalyfjum. Niðurstöður í rannsókninni sýndu einnig að þær töldu að fræðslu væri ábótavant bæði til heilbrigðisstarfsmanna og til kvenna sjálfra. Konur eru oft illa undirbúnar undir breytingaskeiðið og kom það fram í rannsókn Steinunnar Kristbjargar Zophoníasdóttur (2020). Upplifun kvenna í rannsókn hennar var einnig svefnleysi, skortur á kynlöngun og þurrkur í leggöngum sem skerti lífsgæði þeirra. Snemmkomið breytingaskeið hefur lítið verið til umfjöllunar hér á landi og í rannsókn Sólrúnar Ólínu Sigurðardóttur (2018) kom fram að erfitt var fyrir konur að ganga í gegnum snemmkomið breytingaskeið og hefðu þær viljað fá meiri hlustun og skilning meðal fagfólks. Ekki eru til nýlegar rannsóknir um reynslu kvenna af hormónauppbótarmeðferð og sýndi rannsókn Herdísar Sveinsdóttur (2005) að konur höfðu jákvætt viðhorf til hormóna á breytingaskeiði og þær sem fengu upplýsingar frá læknum voru jákvæðari en þær sem fengu upplýsingar frá vinum og ættingjum. Jákvæð viðhorf til hormóna tengdust auknum aldri, tíma frá síðustu tíðablæðingum og núverandi notkun á hormónauppbótarmeðferð.

Í dag er hormónauppbótarmeðferð í tengslum við breytingaskeið árangursríkasti meðferðarmöguleikinn til meðhöndlunar við líkamlegri og andlegri vanlíðan (Flores o.fl., 51 2021; Lambrinoudaki o.fl., 2022). Þegar velja á hormónauppbótarmeðferð við einkennum breytingaskeiðs þá er mikilvægt að skoða ýmsa þætti, til dæmis aldur, hvenær tíðahvörf hófust og tegund hormónauppbótarmeðferðar, skammta og lyfjaform. Hormónauppbótarmeðferð er talin vera örugg og árangursrík meðferð gagnvart einkennum breytingaskeiðs hjá heilbrigðum konum sem eru yngri en 60 ára eða styttra en tíu ár liðin frá greiningu tíðahvarfa. Rannsóknir benda til að hormónauppbótarmeðferð hafi jákvæð áhrif á beinþéttni, hjarta- og æðasjúkdóma og sykursýki tegund 2 (Flores o.fl., 2021). Vaccaro og félagar (2021) framkvæmdu rannsókn sem fjallaði um hvernig ítalskar konur upplifðu breytingaskeiðið og kom þar fram að 51,9% þátttakenda þekktu hormónauppbótarmeðferð og jókst þekking hjá þátttakendum sem voru með lengri skólagöngu og með auknum aldri. Meðal þeirra kvenna sem voru komnar í eftirtíðahvörf sögðust 7,6% nota hormónauppbótarmeðferð en 6,5% sögðust nota smáskammtalyf og/eða plöntuhormón. Af þeim sem voru á meðferð þá var meirihlutinn á náttúrulyfjum. Meirihluti kvenna (um 70%) greindi frá líkamlegum og andlegum ávinningi við einhvers konar meðferð á breytingaskeiði en 68% töldu hins vegar ekki nauðsynlegt að nota lyf því þeirra skoðun var að tíðahvörf væru lífeðlisfræðilegt ástand.

Kynhormón kvenna eru estrógen, prógesterón og testósterón og á breytingaskeiði minnkar framleiðsla þessara hormóna (La Rosa o.fl., 2019). Skortur á estrógeni hjá konum getur valdið náms- og minnisskerðingu, svefn- og geðröskunum, hitakófum og aukið hættu á hjarta- og æðasjúkdómum (Moran o.fl., 2021). Meta þarf hættu á krabbameini, hjarta- og æðasjúkdómum og blóðtappa áður en hormónauppbótarmeðferð er hafin (Gosset o.fl., 2021). Estrógen um húð er talið vera öruggasta lyfjaformið í hormónauppbótarmeðferð á breytingaskeiði með engri hættu á blóðtappamyndun (Donohoe o.fl., 2022; LaVasseur o.fl., 2022). Því ætti hormónauppbótarmeðferð um húð með estrógeni að vera

æskileg fyrir konur eftir tíðahvörf sem eru með áhættuþætti fyrir hjarta- og æðasjúkdóma eða sem lifa með offitu. Til að meðhöndla vandamál í kyn- og þvagfærum kvenna eftir tíðahvörf, eins og þurrk í leggöngum og tíðar þvagfærasýkingar, hafa rannsóknir sýnt að estrógen sem gefið er staðbundið í leggöng sé áhrifaríkasta meðferðin (Flores o.fl., 2021).

Flestar hormónauppbótarmeðferðir á breytingaskeiði fela í sér estrógen og prógesterón. Þær konur sem hafa farið í legnám geta verið eingöngu á estrógeni. Prógesterón meðferð er aðallega notuð hjá konum sem eru á estrógeni til að draga úr hættu á legslímukrabbameini því estrógen meðferð þykkir legslímhúðina (LaVasseur o.fl., 2022; Mehta o.fl., 2021). Ef þörf er á prógesterón þá eru rannsóknir sem benda til að míkrómalað prógesterón valdi minni aukaverkunum þegar kemur að hættu á bláæðablóðtappa en eldri gerðir prógesteróns (Donohoe o.fl., 2022). Prógesterón getur haft róandi áhrif og bætir svefn (Mehta o.fl., 2021; Minkin, 2019). Konur hafa notað testósterón í yfir 80 ár til meðhöndlunar á breytingaskeiði og eftir tíðahvörfin (Donovitz, 2022). Hjá konum er lífeðlisfræðilegri virkni testósteróns talin fela í sér stjórnun á kynhvöt og kynferðislegri örvun (Glaser, 2011). Til skamms tíma er meðferð með testósteróni almennt vel þolanleg (Jayasena o.fl., 2019). Vísbendingar gefa til kynna að testósterón geti verið verndandi þáttur gegn brjóstakrabbameini og beinþéttni konunnar (Donovitz, 2022). Í rannsókn Glaser o.fl. (2019) kom fram eftir að konum hafði verið fylgt eftir í tíu ár að meðferð með testósteróni tengdist 39% lægri tíðni brjóstakrabbameins en spáð var af Surveillance Epidemiologic End Result sem er stofnun sem heldur utan um fjölda tilfella af krabbameini í Bandaríkjunum (Healthy People 2030, ed). Tilviljanakenndar samanburðarrannsóknir sem bera saman testósterón meðferð hjá konum við lyfleysu hafa ekki sýnt fram á marktækan mun á tilviki tíðni fyrir hvers kyns afleiðingar hjarta- og æðasjúkdóma, þar með talið bláæðablóðtappa (Jayasena o.fl., 2019). Aukinn áhugi er á hlutverki testósteróns meðferðar á kyndeyfð kvenna eftir tíðahvörf. Í samanburðarrannsókn Islam og félaga (2019) kom í ljós marktækur munur á notkun testósteróns varðandi fjölda ánægjustunda í kynlífi, á kynlöngun, kynörvun, fullnægingu, ánægju og bætta sjálfsmynd þegar borið var saman við töku lyfleysu. Bandaríska matvælalyfjaeftirlitið FDA hefur ekki samþykkt að nota testósterón vegna minnkaðrar kynlöngunar hjá konum þó að rannsóknir hafi sýnt fram á jákvæð áhrif (Uloko o.fl, 2022). En þess ber að geta að verulegur skortur er á langtímarannsóknum sem meta áhrif hormónauppbótarmeðferðar á heilsu og líðan kvenna í heiminum.

Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á reynslu kvenna af notkun hormónauppbótarmeðferðar á breytingaskeiði. Í rannsókn Dotlic og félaga (2020) kom fram að konur sem höfðu nýtt sér hormónauppbótarmeðferð í 44 mánuði fundu fyrir betri lífsgæðum, bæði líkamlegum og andlegum. Einnig sýndi rannsókn Wium-Andersen og félaga (2022) fram á ef hormónauppbótarmeðferð var hafin fyrir 50 ára aldur var tvöfalt meiri hætta á greiningu þunglyndis en líkurnar minnkuðu ef hormónauppbótarmeðferð var hafin eftir 54 ára aldur. Staðbundin hormónauppbótarmeðferð tengdist ekki aukinni áhættu á þunglyndi óháð aldri.

Markmið þessarar rannsóknar var að afla aukinnar þekkingar á reynslu kvenna af notkun hormónauppbótarmeðferðar á breytingaskeiði. Rannsóknarspurningin er: Hver er reynsla kvenna af notkun hormónauppbótarmeðferðar á breytingaskeiði.

AÐFERÐ

Til að svara rannsóknarspurningunni var valin eigindleg rannsóknaraðferð Vancouver-skólans í fyrirbærafræði þar sem horft var á upplifun einstaklingsins af reynslu hormónauppbótarmeðferðar á breytingaskeiði. Hugmyndafræði fyrirbærafræði sem rannsóknaraðferð felst í að skilja einstaklinginn, reynslu hans og sjá lífið eins og hann sér það. Rannsóknarferlið í Vancouver-skólanum er ákveðið ferli sem byggist á sjö meginþáttum (Sjá mynd 1) (Sigríður Halldórsdóttir, 2021).

reynt að mynda gott traust milli viðmælenda og rannsakanda. Rannsakandi sýndi heiðarleika og einlægni sem er mikilvægur þáttur í viðtölum eigindlegra rannsókna (Helga Jónsdóttir, 2021).

Gagnagreining var gerð samkvæmt tólf þrepum Vancouver-skólans (Tafla 1). Í byrjun var tekið eitt einstaklingsviðtal við hvern þátttakanda, samtals 12 viðtöl. Viðtölin voru tekin á tveggja mánaða tímabili. Hvert viðtal tók 34–68 mínútur. Viðtölin voru skrifuð upp orðrétt og þess gætt að ekki væri hægt að persónugreina þau og var nöfnum þátttakenda breytt ásamt ýmsum staðháttum. Þátttakendur fengu að ráða hvar viðtöl færu fram. Þrír þátttakendur völdu stað sem rannsakandinn bauð upp á, þrjú viðtöl fóru fram á heimilum þátttakenda og sjö viðtöl voru tekin með myndsamtali. Viðtöl með aðstoð tölvutækninnar hafa notið vaxandi vinsælda undanfarið. Kostir tölvustuddra viðtala er að rannsakandinn og þátttakandinn geta verið í gagnvirkum samskiptum óháð staðsetningu, þarf af leiðandi getur þátttakandinn búið hvar sem er á landinu eða í öðru landi. Rannsakandinn getur einnig greint svipbrigði þátttakandans í gegnum myndsamtalið (Helga Jónsdóttir, 2021). Til viðbótar var tekið eitt viðtal símleiðis við ellefu þátttakendur þar sem meginþemu og undirþemu viðtals voru útskýrð og heildargreiningarlíkan borið undir þátttakendur.

Réttmæti og áreiðanleiki

Til að auka trúverðugleika rannsóknar var öllum þrepum Vancouver-skólans fylgt eftir. Rannsakandi hélt rannsóknardagbók og ígrundaði hvert viðtal. Rannsóknargögn voru aftur lesin eftir mótun heildargreiningarlíkans og var haft samband við ellefu þátttakendur til staðfestingar á réttri túlkun rannsakanda. Í niðurstöðum var vitnað beint í þátttakendur til að auka innra réttmæti rannsóknar.

Þátttakendur

Notast var við tilgangsúrtak við val á þátttakendum og er helsti kostur þessarar úrtaksaðferðar að hún er einföld í notkun en ókostur er að ekki er hægt að segja hvort úrtakið sé dæmigert fyrir hópinn og því erfitt að yfirfæra niðurstöður yfir á allt þýðið (Hjördís Sigursteinsdóttir, 2021). Auglýst var eftir þátttakendum á Facebook-hóp sem kallast Breytingaskeiðið. Tuttugu og fimm þátttakendur buðu sig fram og fyrstu 12 sem höfðu samband og uppfylltu skilyrði fyrir þátttöku voru valdir í úrtakið. Skilyrði fyrir þátttöku var að konur væru komnar á breytingaskeiðið og hefðu verið á hormónum í 3-24 mánuði. Þátttakendur urðu að vera á aldrinum 45-55 ára.

Gagnasöfnun og greining gagna

Gagnasöfnun og gagnagreining fór fram samhliða en það var gert samkvæmt Vancouver-skóla aðferðinni. Rannsóknargögnum var safnað með því að nota hálfstaðlaðan viðtalsramma og í viðtölunum var reynt að ná ákveðinni dýpt í samræður um viðfangsefnið. Viðtalsramminn samanstóð af átta opnum spurningum. Upphafsspurning viðtalsins var; fannst þú fyrir einhverjum líkamlegum einkennum sem þú upplifðir í tengslum við breytingaskeiðið áður en þú byrjaðir að taka hormón og getur þú sagt mér frá þeim einkennum? Síðar var spurt um hvort konurnar hefðu fundið fyrir, annars vegar breytingu á líkamlegri líðan og hins vegar á andlegri líðan eftir að þær hófu inntöku hormóna. Einn höfundur tók öll viðtölin, en allir höfundar komu að gagnagreiningu. Virkri hlustun var beitt í viðtölum sem þýðir að reynt var að skilja bæði tilfinningar og það sem viðmælandinn segir. Borin var virðing fyrir hverjum og einum þátttakanda og

Rannsóknarsiðfræði Vísindasiðanefnd staðfesti símleiðis að ekki þyrfti leyfi hennar fyrir rannsókninni. Þátttakendur tilheyra ekki viðkvæmum hópi og taldi rannsakandi ekki líkur á að þessi rannsókn myndi valda þátttakendum vanlíðan og engin áhætta var fólgin í þátttöku. Rannsakandi tryggði siðferðilega hagsmuni þátttakenda með því að afhenda þátttakendum kynningarbréf með kynningu á rannsóknarefni, tilgangi rannsóknar og hvernig niðurstöður yrðu birtar. Þátttakendur skrifuðu einnig undir upplýst samþykki.

NIÐURSTÖÐUR

Þátttakendur voru samtals tólf konur á aldrinum 45-53 ára sem höfðu verið á hormónauppbótarmeðferð í 3-24 mánuði. Yfirþema rannsóknarinnar Mér fannst ég verða aftur ég sjálf lýsir reynslu þátttakenda af þeim breytingum sem urðu á líðan þeirra eftir að þær byrjuðu að taka inn hormóna. Þátttakendur í rannsókn áttu það sameiginlegt að upplifa, að eftir að þær byrjuðu á hormónauppbótarmeðferð endurheimtu þær það líf sem þær áttu áður. Bára sagði til dæmis: „Ég bara finn það að ég er búin að endurheimta gömlu mig … Ég er orðin ég sjálf aftur. Manneskja sem þú veist að gat gert alveg fullt af hlutum.“

Alls voru greind sex meginþemu: Líkaminn varð aftur eins og ég þekkti hann; Það kviknaði aftur á mér; Félagslegu tengslin byggð upp; Eftirsjá að tímanum sem ég missti; Virk hlustun og samskipti og Þetta þroskar mann. Að lokum voru greind nokkur undirþemu undir hverju meginþema, mynd 2.

Að vera kyrr 1.
Að ígrunda 2.
Að koma auga á 3.
Að velja 4.
Að túlka 5.
Að ræða saman 6.
Að sannreyna 7.
Mynd 1. Vitrænn vinnuferill Vancouver-skólans í fyrirbærafræði.

Tafla 1. Tólf meginþrep rannsóknarferils Vancouverskólans í fyrirbærafræði

Þrep í rannsóknarferlinu Lýsing á þrepum

Þrep 1

Val á samræðufélögum

Þrep 2

Undirbúningur hugans (áður en umræður hefjast)

Þrep 3

Þátttaka í samræðum (gagnasöfnun)

Þrep 4

Skerpt vitund varðandi hugmyndir og hugtök

Þrep 5 Þemagreining

Þátttakendur valdir sem hafa dæmigerða og ódæmigerða reynslu af fyrirbærinu

Rannsakandi ígrundar fyrirframgefnar hugmyndir og leggur þær meðvitaðar til hliðar

Tekin eru eitt til tvö viðtöl við hvern þátttakanda þar til mettun er komin á gögnin

Gagnasöfnun og gagnagreining er unnin samhliða

Viðtöl lesin endurtekið yfir og lykilsetningar fundnar og greindar merkingar þeirra. Greint niður í meginþemu og undirþemu

Þrep 6

Smíða greiningarlíkan fyrir hvern þátttakanda

Þrep 7

Staðfesting á hverju greiningarlíkani

Þrep 8

Heildargreiningarlíkan var smíðað úr öllum greiningarlíkönunum (fyrir hvern þátttakanda)

Þrep 9

Heildargreiningarlíkanið borið saman við rannsóknargögnin (staðfesting 2)

Þrep 10

Að velja rannsókninni heiti sem lýsir niðurstöðum í örstuttu máli

Þrep 11

Staðfesting á heildargreiningarlíkani og yfirþema með einhverjum þátttakendum (staðfesting 3)

Þrep 12

Niðurstöður rannsóknarinnar skrifaðar niður þannig að raddir þátttakenda heyrist

Það sem gert var í þessari rannsókn

Tekin voru viðtöl við 12 konur sem uppfylla skilyrði fyrir þátttöku. Konurnar voru valdar með tilgangsaúrtaki

Rannsakandinn leitast við að ígrunda fyrirframgefnar hugmyndir og leggur þær til hliðar

Tekið var eitt viðtal við 12 þátttakendur

Gagnasöfnun og gagnagreining var unnin samhliða. Hugmyndum var komið í orð. Hlustað, lesið og ígrundað

Viðtöl voru lesin nokkrum sinnum yfir og stöðugt ígrundað hver rauði þráðurinn var í viðtali hvers og eins. Greint var í meginþemu og undirþemu

Heildarmynd af reynslu einstaklings er skoðuð. Dregin eru fram meginþemu af sögu hvers einstaklings og útbúið greiningarlíkan þar sem aðalatriðin eru sett fram Rannsóknargögn um hvern þátttakanda voru ígrunduð og smíðað einstaklings greiningarlíkan úr öllum þemum (meginog undirþemum varðandi þann þátttakanda

Hvert greiningarlíkan er ákveðin túlkun rannsakandans. Þátttakandi er fenginn til að staðfesta greiningarlíkanið

Rannsakandi leitast til að átta sig á heildarmyndinni á fyrirbærinu. Reynir að átta sig á hver er sameiginleg reynsla og hver er frábrugðin. Sett er upp heildagreiningarlíkan fyrir alla þátttakendur

Rituðu viðtölin og heildargreiningarlíkanið er borið saman af rannsakanda

Sett er fram niðurstaða um fyrirbærið af rannsakanda í mjög stuttu máli sem verður yfirþema rannsóknarinnar

Þar sem heildargreiningarlíkan byggir á túlkun rannsakandans. Staðfesting er fengin af þessari túlkun hjá þátttakendum

Niðurstöður rannsóknar skrifaðar upp. Beinar tilvitnanir eru í orð allra þátttakenda úr viðtölunum til að rödd þeirra fái að heyrast

Rætt var við 11 þátttakendur og staðfesting fengin frá þeim varðandi þeirra greiningarlíkan. Samræður og sameiginleg ígrundun

Rannsakandi reyndi að átta sig á heildarmyndinni af fyrirbærinu sjálfu (meginniðurstöður rannsóknarinnar). Öll einstaklingsgreiningarlíkön voru borin saman og smíðað eitt greiningarlíkan

Viðtölin lesin aftur og borin saman við heildargreiningarlíkanið

Niðurstaða rannsóknarinnar í fyrirbærafræði var: Mér fannst ég verða aftur ég sjálf

Heildargreiningarlíkanið var kynnt 11 þátttakendum og kannað hvort þeir séu samþykkir því

Niðurstöður skrifaðar upp með hjálp heildargreiningarlíkansins, vitnað í þátttakendur jafnóðum svo rödd þeirra heyrist

Liða- og vöðvaverkir hurfu Hvílist loksins á næturnar

Hafði loksins orku í lífið Dásamlegt að stunda kynlíf a ur

Lífið endurskoðað Hugað að heilsunni

Vanda valið hvað ég set orkuna í

Aukið þor að prófa nýja hluti

Að viðurkenna vanda skjólstæðings

Virk hlustun og samskipti Þetta þroskar mann

Þarf að auka fræðslu Þekking heilbrigðisstarfsmanna

Meiri innri ró

Líkaminn varð a ur eins og ég þekkti hann Það kveiknaði a ur á mér

Mér fannst ég verða a ur ég sjálf

Félagslegu tengslin byggð upp

Aukin nenna

Heilaþokan fór

Aukið sjálfsöryggi

Endurheimti tengslanetið

E irsjá að tímanum sem ég missti

Margir mánuðir sem fara til spillis

Mynd 2. Heildargreiningarlíkan.

Fagfólkið seint að grípa inní

Endurheimti ánægjuna af því að vera í tengslum við fólkið mitt

Líkaminn varð aftur eins og ég þekkti hann

Fyrsta meginþemað nefnist Líkaminn varð aftur eins og ég þekkti hann og eru greind fjögur undirþemu: Liða- og vöðvaverkir hurfu, Hvíldist loksins á næturnar, Dásamlegt að stunda kynlíf aftur og Hafði loksins orku í lífið

Fyrsta undirþemað Liða- og vöðvaverkir hurfu lýsir þeirri breytingu sem þátttakendur upplifðu að hafa endurheimt sinn líkama. Þátttakendur héldu að þeir væru komnir með gigt og áttu erfitt með standa upp úr stól eða sófa. Hanna lýsti líkamlegri líðan fyrir töku hormóna: „Ég var með rosalega liðaverki og stirðleika. Einkenni sem ég hafði aldrei verið með. En eftir inntöku hormóna þá hættu þessi einkenni.“

Annað undirþema ber yfirskriftina Hvíldist loksins á næturnar. Flestir þátttakendur áttu það sameiginlegt að leita sér aðstoðar hjá heimilislækni eða kvensjúkdómalækni vegna svefnvandamála. Þær áttu það sameiginlegt að vakna upp á nóttunni eða vöknuðu of snemma og gátu ekki sofnað aftur. Eftir hormónatöku þá breyttist svefninn til hins betra hjá þeim öllum. Ingunn sagði: „Það var bara strax þvílíkur munur. Þegar ég var búin að taka þetta í tvo daga þá fór bara svefninn að skána um leið.“

Þriðja undirþema nefnist Dásamlegt að stunda kynlíf aftur. Í viðtölum kom fram hjá næstum öllum þátttakendum að þær upplifðu skerta kynlöngun fyrir töku hormóna. Þátttakendur töluðu um tíðar þvagfærasýkingar, sveppasýkingar, þurrk og sprungur í leggöngum fyrir töku hormóna. Helga lýsti vel hvernig kynlífslöngun hjá henni var fyrir töku hormóna: „Svo bara engin kynlöngun. Hefði verið til í að gera margt annað heldur en að stunda kynlíf. Bara fara út og grafa skurð.“ Aðrar ræddu um að skortur á kynlöngun leiddi til að makinn tók því sem höfnun sem leiddi til samviskubits konunnar. Þátttakendur töluðu um mikilvægi þess að hafa opna umræðu um breytingaskeið og kynlíf í sambandinu því það leiði til aukins skilnings maka. En eftir töku hormóna þegar vandamál tengt kynfærum var ekki lengur til staðar og þeim fór að líða betur líkamlega og andlega þá jókst kynlöngun. Hanna sagði: „Ég fór að fá meiri kynhvöt þegar ég byrjaði á estrógelinu.“

Hafði loksins orku í lífið nefnist fjórða undirþema. Í þessu þema er lýst hvernig þátttakendur höfðu loksins aukna orku og fundu fyrir þörf að hreyfa sig og gera það sem þeim þótti skemmtilegt. Bára sagði: „Mér finnst þessir hormónar gefa mér svolítið kraftaverk. Þetta er svo mikil bylting á lífsgæðum og líðan. … og eftir að ég byrjaði á hormónum var ég farin að kannast við sjálfan mig. Bara með rosa orku. Ánægja af því sem ég var að gera.“

Það kviknaði aftur á mér

Annað meginþema nefnist Það kviknaði aftur á mér og skiptist það niður í fjögur undirþemu sem eru: Meiri innri ró, Aukin nenna, Heilaþokan fór og Aukið sjálfsöryggi. Margar töluðu um að fyrir hormóna þá hafi það verið sófinn sem var þeirra besti vinur og þær áttu mjög erfitt að standa upp úr honum og upplifðu aukna andlega deyfð. Hugrún sagði að fyrir hormóna hafi hún upplifað sig sem litla mús og var farin að fela sig. En eftir að hún byrjaði á hormónum lýsti hún: „Ég varð ég sjálf. Létt og kát, hress, hnyttin, dugleg, vinnusöm og svona sterkur karakter eins og ég er.“

Fyrsta undirþemað er Meiri innri ró. Í viðtölum kom fram að allir þátttakendur fundu fyrir andlegri vanlíðan fyrir töku hormóna. Ingunn hélt að breytingaskeiðið snerist nær eingöngu um hitakóf og kom það henni mjög á óvart: „Ég fékk rosa mikla depurð. Ég er alltaf í góðu skapi og brosandi og það var mjög ólíkt mér. En eftir töku hormóna fór mér að líða miklu betur andlega. Ég varð aftur eins og ég á mér að vera.“

Annað undirþemað ber yfirskriftina Aukin nenna. Konurnar upplifðu orkuleysi, áhugaleysi og nenntu engu áður en þær voru settar á hormóna. Kristín sagði: „Ég gerði ekki neitt. Keypti mér jogginggalla og var bara í honum. Ég fór upp í sófa. Fór og náði mér í prjónana. Mér fannst geggjað að sitja og horfa á sjónvarpið á kvöldin. Mér fannst drævið fara. Maður var flatur og leiðinlegur. Þú nennir ekki í líkamsrækt. Ég fann bara strax mun á og estrógeni og utrogestan. Þetta hafði mjög mikil áhrif á allt þetta sjálfstraust og drive og maður fór bara allt í einu að plana sumarfrí og svona til í hlutina.“

Heilaþokan fór er þriðja undirþemað. Allar áttu það sameiginlegt að hafa upplifað heilaþoku. Algengt var að konurnar upplifðu að þær væru komnar með skemmd í heila, áttu erfitt með tal og fóru jafnvel í sneiðmynd af heila til að útiloka sjúkdóma. Ef heilabilun/ Alzheimer-sjúkdómur var í fjölskyldunni þá jók það áhyggjur þátttakenda í rannsókn. Ingunn sagði: „Mér fannst ég bara rosalega gleymin. Sem að var mjög nýtt fyrir mér bæði í vinnu og heima. Dóttir mín sagði kannski; mamma ég var að segja þér þetta í gær. Það jafnaði sig síðan.“

Aukið sjálfsöryggi nefnist fjórða undirþemað. Það var mat margra þátttakenda að þau upplifðu aukið sjálfsöryggi eftir töku hormóna. Þátttakendur voru einnig farnir að huga meira að heilsunni. Hreyfðu sig meira, borðuðu hollari mat og fengu betri svefn sem gerði það að verkum að þeim leið betur og virtist það hafa góð áhrif á sjálfsöryggi þeirra. Þátttakendur töluðu um mikilvægi þess að hlusta á líkamann og aðlöguðu hormónaskammt eftir því. Kristín upplifði gríðarlega mikinn mun eftir að hún var sett á testósterón og sagði: Já núna þegar maður er á testósteróni, þá er maður hress og með þetta „confidence“ sem maður var með. Ég hefði aldrei trúað þessu. Það er svo lítið sem ég er að taka. Það er mest sjálfstraustið og gleði. Að vera frjáls og fíflast. Ég myndi segja að testóið sé lífsgleðin, sjálfstraustið og kjarkur.“

Félagslegu tengslin byggð upp

Þriðja meginþemað nefnist Félagslegu tengslin byggð upp. Sumar kvennanna höfðu misst sitt tengslanet því þær höfðu dregið sig inn í skel. Þannig að eftir að þær byrjuðu á hormónum og fóru að fá aukna orku þá fóru þær að endurvekja vinskap og endurheimta tengslanetið. Aðrar endurheimtu ánægjuna af því að vera í tengslum við sitt fólk.

Fyrra undirþemað er nefnt Endurheimti tengslanetið sem lýsir hvernig þátttakendur fóru að endurvekja vinskap sem þær höfðu vanrækt í nokkur ár vegna vanlíðanar og hversu erfitt það gat verið að endurheimta tengslanetið. Anna lýsti á eftirfarandi hátt: „Maður hefur ekki haldið við vinskap við vinkonur. Og svo þótt manni líði betur og langi þá er það óyfirstíganlegt þegar maður hefur ekki látið heyra í sér í tvö til fjögur ár. Er eiginlega með símakvíða. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að byrja samskipti aftur og það er held ég afleiðing af því að ég er búin að draga mig í hlé.“ Í dag líður Önnu betur og er að reyna að vera virkari‚ „... ég er svona að reyna að vera jákvæð að fara út. En svo er ég að reyna að finna leiðir hvernig maður ræktar eða vekur upp samskipti. Ég allavega byrjaði að hringja til þriggja vinkvenna í staðinn fyrir að senda þeim Facebook afmæliskveðjur.“

Seinna undirþemað ber yfirskriftina Endurheimti ánægjuna að vera í tengslum við fólkið mitt. Þátttakendur sögðust hafa gert allt sem var ætlast til af þeim og mættu í fjölskylduboð en upplifðu ef til vill ekki ánægjuna af því að hitta fólk. En eftir hormónatöku fundu þátttakendur fyrir aukinni ánægju af að hitta sitt fólk og fjölskylduna. Kristín lýsti þessu svona: „Langa að klæða mig upp og fara út. Hlakka til að fara eitthvað. Ég finn aldrei núna að ég nenni ekki af því ég er þreytt. En ég er mjög peppuð í huganum.“

Eftirsjá að tímanum sem ég missti Fjórða meginþemað er nefnt Eftirsjá að tímanum sem ég missti. Þetta þema lýsir hvernig margar konurnar voru búnar að vera með einkenni í nokkur ár áður en þær fengu hormóna og upplifðu missi af þeim tíma sem þeim hefði getað liðið betur.

Fyrra undirþemað Margir mánuðir sem fara til spillis lýsir því hvernig þátttakendur upplifðu að þær hefðu misst af nokkrum góðum árum vegna þess að hafa ekki byrjað fyrr á hormónum. Þátttakendur upplifðu að ekki var tekið mark á þeirra einkennum og þær ekki rétt greindar þegar þær leituðu fyrst til læknis. Þyrí sagði: „Ég sé svo eftir þessum fimm árum sem ég hefði getað verið í fullri virkni og gert eitthvað alls konar.“

Fagfólkið seint að grípa inn í er seinna undirþemað. Þetta þema lýsir vonbrigðum þátttakenda að fá ekki meðferð sem hentar þeim. Þátttakendur höfðu leitað til læknis vegna einkenna um heilaþoku, depurðar og svefntruflunar og fengið ávísun á svefnlyf og þunglyndislyf. María lýsti þessu þannig: „Þá var ég komin með alls konar einkenni. Svefntruflanir, heilaþoku og hækkaðan blóðþrýsting og ég var komin á lyf við því. Þarna leitaði ég til heilsugæslunnar og hitti lækni sem er karlmaður á sextugsaldri og hann setur mig á kvíðalyf og svefnlyf.“

Virk hlustun og samskipti

Virk hlustun og samskipti er fimmta meginþemað. Öllum þátttakendum fannst mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk hefði þekkingu á breytingaskeiðinu og viðurkenndu vanda skjólstæðinga. Ásamt því fannst öllum mikilvægt að auka þurfi fræðslu til almennings.

Þekking heilbrigðisstarfsmanna nefnist fyrsta undirþema. Í viðtölum kom glöggt fram að þátttakendur upplifðu að heilbrigðisstarfsfólk trúði ekki að einkenni sem þátttakendur voru með væru hluti af breytingaskeiðinu. Ragnhildur sagði að heilsugæslan hafi ekki tengt við breytingaskeiðið: „Ekki fyrr en ég tala við kvensjúkdómalækni sjálf. Það hafði enginn minnst á að það gæti verið eitthvað af þessu breytingaskeið. Bara þunglyndislyf. Það er ekki fyrr en maður kveikir sjálfur á perunni að ekkert virkar.“

Annað undirþema er nefnt Að viðurkenna vanda skjólstæðings Þátttakendum fannst mikilvægt að hlustað sé á skjólstæðinginn þegar hann leitar á heilsugæsluna og að heilbrigðisstarfsmaður íhugi hvort einstaklingurinn geti mögulega verið kominn á breytingaskeiðið. Ragnhildi fannst alveg stórmerkilegt að ekki hafi verið spáð í þetta þegar mikil breyting var á hennar andlegu líðan á stuttu tímabili. Anna lýsti miklum létti þegar hún loks hitti lækni sem hlustaði á hana: „Ég var bara svo ótrúlega glöð að hitta á þennan lækni. Ég mætti til hennar með listann minn. Hún tók hvert einkenni fyrir sig. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa fengið þessa hjálp.“

Þriðja undirþema nefnist Þarf að auka fræðslu. Þátttakendur voru sammála um mikilvægi þess að auka fræðslu til almennings. Margar upplifðu þetta eins og að greinast með sjúkdóm og hefðu viljað fá afhentan bækling frá heilsugæslunni um einkenni og meðferðir breytingaskeiðsins. Aðrar töluðu um að auka þyrfti umfjöllun um breytingaskeiðið í samfélaginu. Bára gaf mjög góða lýsingu: „Ég vissi bara nákvæmlega ekkert um þetta skeið. Og ég bara skildi það ekki hvernig maður gat verið sprengmenntuð manneskja á 21. öldinni og vera svona totally „ignorant“. Þetta kom svo ferlega mikið í bakið á mér.“

Þetta þroskar mann

Síðasta meginþemað nefnist Þetta þroskar mann. Konurnar endurskoðuðu sitt líf og upplifðu ákveðinn þroska eftir að hafa gengið í gegnum þetta tímabil.

Fyrsta undirþemað er Lífið endurskoðað. Konurnar voru margar búnar að gera breytingar á sínu lífi og drógu úr streitu. Bára ákvað að skipta um starf innan síns fyrirtækis og „því ég hef alltaf verið orkumikil í vinnu og haldið hundrað boltum á lofti í einu og var markaðsfulltrúi í banka í 10 ár. Ég er enn í bankanum en skipti um vettvang þarna um mitt ár vorið 2022.“

Annað undirþemað nefnist Hugað að heilsunni. Allir þátttakendur voru farnir að huga meira að heilsunni, til dæmis hreyfðu sig reglulega og drógu úr streitu. Ásdís tók til í sínu lífi og sagði: „Ég er líka að passa að fara á skikkanlegum tíma að sofa. Ég dró úr áfengisneyslu. Ég er alltaf dugleg að hreyfa mig. Ekki bara að ég ætla að fara baða mig í einhverju estrógeli og halda að hlutirnir bara lagist.“

Vanda valið hvað ég set orkuna í er þriðja undirþemað. Í viðtölum við þátttakendur kom fram að konurnar eru orðnar óhræddari að hugsa hversu vel nærir þessi félagsskapur mig, hvert ætla ég að fara með orkuna mína og hvað nærir mig. Helga nefndi: „Maður er að velja í hvað maður setur orkuna og í hvern. Svo koma smá vitsmunir. Einhver extra dýpt þegar maður er á þessu skeiði.“

Fjórða og síðasta undirþemað lýsir Auknu þori að prófa nýja hluti. Með aukinni orku, bættu sjálfstrausti og betri líkamlegri líðan upplifðu þátttakendur aukið þor í að prófa nýja hluti eftir að hafa

hafið hormónauppbótarmeðferð. Sumar skráðu sig á námskeið sem þær höfðu verið búnar að hugsa lengi um eða voru að íhuga til dæmis að bjóða sig fram í sjálfboðaliðastarf. Þyrí sagði: „Heyrðu ég skelli mér á gönguskíðanámskeið. Jú ég ætla að fara í ræktina.“

UMRÆÐUR

Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að konur upplifðu allajafna breytingu á andlegum-, líkamlegum- og félagslegum lífsgæðum við að fara á hormónauppbótarmeðferð. Yfirþema rannsóknar Mér fannst ég verða aftur ég sjálf lýsir reynslu allra þátttakenda í rannsókninni. Upplifun þeirra var að þær höfðu endurheimt sína fyrri heilsu og voru orðnar orkumeiri eins og þær voru fyrir breytingaskeið. Þetta samræmist niðurstöðum rannsóknar Steinunnar Kristbjargar Zophoníasdóttur (2020) en þar voru þátttakendur sammála um að eftir töku hormóna voru þeir farnir að kannast við líkamann eins og hann var og upplifðu aukna orku og drifkraft. Þátttakendur upplifðu mikinn mun á líkamlegri og andlegri líðan eftir töku hormóna og er það er í samræmi við rannsókn Dotlic og félaga (2020) sem sýndi fram á að þær konur sem voru á hormónauppbótarmeðferð upplifðu betri andlega og líkamlega líðan og þær voru ekki að hugsa um að hætta meðferðinni. Þetta er hins vegar í andstöðu við niðurstöður Wium-Andersen og félaga (2022) sem sýndu fram á auknar líkur á þunglyndi á fyrsta ári hormónauppbótarmeðferðar, ef hormónameðferð var hafin fyrir 50 ára aldur en ef hún er hafin eftir 54 ára aldur sýndi rannsókn þeirra fram á minni hættu á þunglyndi. Í þessari rannsókn upplifðu þátttakendur skerta kynlöngun fyrir töku hormóna og hafði það áhrif á líðan þeirra og sambandið við makann. Eftir hormónatöku upplifðu allir þátttakendur aukna kynlöngun en mismikla. Sumar voru eingöngu á estrógeni og prógesteróni og fundu mun til batnaðar á kynlöngun og þær sem voru á testósteróni sögðu sumar að það gerði kraftaverk fyrir sig. Það er þó ekki í samræmi við rannsókn Ásthildar Björnsdóttur (2017) því þar kom fram að eftir að konurnar hættu á hormónameðferð þá jókst kynlöngunin. Hins vegar sýndi rannsókn Islam og félaga (2019) að notkun testósteróns hafði góð áhrif á kynlöngun og bætti sjálfsmynd kvenna. Í þessari rannsókn töluðu konurnar um það sem þær kölluðu heilaþoku, voru gleymnar, einbeitingalausar og ólíkar sjálfum sér hvað það varðaði. En eftir að þær byrjuðu á hormónauppbótarmeðferð fundu þær mikinn mun á minni og einbeitingu. Þessar niðurstöður eru í samræmi við niðurstöður Rasha og félaga (2023).

Í rannsóknum Sólrúnar Ólínu Sigurðardóttur (2018) og Steinunnar Kristbjargar Zophoníasdóttur (2020) kom fram að konum fannst oft skorta á skilning og hlustun þegar þær leituðu til læknis. Sambærilegar niðurstöður komu fram í þessari rannsókn og lýstu konurnar að þær hefðu verið settar á kvíða- og svefnlyf í stað hormónauppbótarmeðferðar sem sýndi svo síðar að þær þurftu á hormónum að halda en ekki geðlyfjum. Í þessari rannsókn kom fram eftirsjá að tímanum sem þær hefðu getað verið á fullum dampi ef þær hefðu verið meðhöndlaðar fyrr með hormónauppbótarmeðferð. Einnig kom fram að konurnar höfðu misst tengsl við vini vegna andlegrar vanlíðunar fyrir hormónauppbótarmeðferð og voru að reyna finna leiðir til að endurheimta tengslanetið eftir að meðferð var hafin. Þessar tvær niðurstöður hafa höfundar ekki séð áður í rannsóknum. Þessi rannsókn, rannsókn Sólrúnar Ólínu Sigurðardóttur (2018), Steinunnar Kristbjargar Zophoníasdóttur (2020) og rannsókn Herdísar Sveinsdóttur (2005) sýna að konur hérlendis hefðu

viljað fá meiri tíma með heilbrigðisstarfsmanni, betri hlustun og aukna fræðslu. Þessar niðurstöður sýna okkur að heilsugæslan þarf að vinna með breytingaskeiðið á markvissan hátt og veita fræðslu til almennings og heilbrigðisstarfsfólks þannig að konur séu upplýstari um þetta lífsskeið og þær meðferðir sem í boði eru. Í þessari rannsókn kom fram að hormónauppbótarmeðferð bætir líðan kvenna sem eru að ganga í gegnum breytingaskeið og tíðahvörf. Hægt er að líta á breytingaskeiðið sem nýtt lífsskeið konunnar og gengur hún í gegnum ákveðið þroskatímabil. Í þessari rannsókn voru konurnar búnar að breyta ýmsu í sínu lífi, farnar að hugsa betur um sína heilsu og drógu úr streitu, sem samræmist niðurstöðum rannsóknar Sólrúnar Ólínu Sigurðardóttur (2018).

STYRKLEIKAR OG TAKMARKANIR RANNSÓKNAR

Þessi rannsókn veitir innsýn í reynslu kvenna af áhrifum hormónauppbótarmeðferðar á breytingaskeiði en það hefur ekki verið skoðað áður hér á Íslandi. Styrkleiki rannsóknarinnar felst í að farið var eftir ákveðinni rannsóknaraðferð Vancouver-skólans. Veikleiki rannsóknarinnar er takmarkaður fjöldi þátttakenda og hugsanlegt að þeir sem buðu sig fram til þátttöku hafi frekar haft jákvæða reynslu af notkun hormónauppbótarmeðferðar.

ENGLISH SUMMARY
I felt like myself again: Women's experiences of hormone replacement therapy during menopause
Bjornsdottir,

ABSRTAKT

Aim

The aim of this study was to gain more knowledge about women’s experiences of hormone replacement therapy during menopause. Perimenopause is the period from when the first symptoms of menopause start to when it finishes. Perimenopause can begin up to 10 years before menopause starts At this stage, a woman may experience various physical and mental symptoms. Today, menopausal hormone replacement therapy is an effective treatment option for managing the physical and emotional distress.

Method

The Vancouver-School of Phenomenology was chosen for this study. The participants were 12 Icelandic women aged between 45 and 53, selected by purposive sampling who had been on hormone replacement therapy for the last 3-24 months. Twelve individual interviews were recorded, written down, and finally analyzed thematically.

Results

The main theme of the study was: I felt like myself again Furthermore, six themes were identified: The body returned to how I knew it, I felt alive again, Social connections built, Regret of the time I lost, Active listening and communication, and This is a growth experience. The women reported great physical-, mentaland social changes after taking hormones. For example, joint pain disappeared, and they slept better at night, which was one of the main reasons they started hormone replacement therapy. This study shows that the women would have liked to receive a diagnosis sooner. They had visited a doctor numerous times but felt that they were not listened to when experiencing their menopause symptoms.

Conclusions

Hormone replacement therapy significantly improves women’s physical, mental and social well-being. It is important that healthcare accommodates women going through perimenopause and menopause and provides them with support and education about this period so that they can make an informed decision about the benefits and risk factors of hormone replacement therapy.

Keywords

Hormone replacement therapy, perimenopause, experience, women, phenomenology.

Correspondent inga@unak.is

HEIMILDASKRÁ

Ásthildur Björnsdóttir. (2017). „Hver kona er bara einstök“: Reynsla og upplifun íslenskra kvenna af breytingaskeiðinu. [Meistararitgerð, Háskólinn á Akureyri]. https://skemman.is/handle/1946/28236

CEMCOR: Centre for Menstrual Cydle an Ovulation Reearch. (ed.). Life phase information. Sótt af http://www.cemcor.ubs.ca/life-phase-information

Donohoe, F., O'Meara, Y., Roberts, A., Comerford, L., Kelly, C. M., Walshe, J. M., . . . Brennan, D. J. (2022). Using menopausal hormone therapy after a cancer diagnosis in Ireland. Irish Journal of Medical Science; doi:10.1007/s11845-02-02947-6

Donovitz, G. S. (2022). A personal prospective on testosterone therapy in women— What we know in 2022. Journal of Personalized Medicine, 12(8); doi:10.3390/ jpm12081194

Dotlic, J., Nicevic, S., Kurtagic, I., Radovanovic, S., Rancic, B., Markovic, N., Milosevic, B. og Gazibara, T. (2020). Hormonal therapy in menopausal transition: Implications for improvement of health-related quality of life. Gynecological Endocrinology: The Official Journal of the International Society of Gynecological Endocrinology, 36(4), 327-332; https://doi.org/10.1080/09513590.2019.1676409

Flores, V. A., Pal, L. og Manson, J. E. (2021). Hormone therapy in menopause: Concepts, controversies, and approach to treatment. Endocrine Reviews, 42(6), 720-752; doi:10.1210/endrev/bnab011

Glaser, R., York, A. E. og Dimitrakakis, C. (2011). Beneficial effects of testosterone therapy in women measured by the validated menopause rating scale (MRS). Maturitas, 68(4), 355-361; doi:10.1016/j.maturitas.2010.12.001,

Glaser, R. L., York, A. E. og Dimitrakakis, C. (2019). Incidence of invasive breast cancer in women treated with testosterone implants: A prospective 10-year cohort study. BMC Cancer, 19(1), 1271; doi:10.1186/s12885-019-6457-8

Gosset, A., Robin, G., Letombe, B., Pouillès, J Trémollieres, F. (2021). Le traitement hormonal de la ménopause en pratique. RPC les femmes ménopausées du CNGOF et du GEMVi. Gynécologie Obstétrique Fertilité & Sénologie, 49(5), 358-372; doi:10.1016/j.gofs.2021.03.019

Healthy people 2030. (ed). Surveillance, Epidemiology, and End Results Program (SEER) https://health.gov/healthypeople/objectives-and-data/data-sources -and-methods/data-sources/surveillance-epidemiology -and-end-resultsprogram-seer

Helga Jónsdóttir. (2021). Viðtöl í eigindlegum og megindlegum rannsóknum. Í Sigríður Halldórsdóttir (ritstjóri), Rannsóknir Handbók í aðferðafræði (1. útg.) (bls. 147-170). Akureyri: Háskólinn á Akureyri.

Herdís Sveinsdóttir. (2005). Tekist á við tíðahvörf: Um líðan og afstöðu 47 til 53 ára kvenna til tíðahvarfa og notkunar tíðahvarfahormóna. Tímarit Hjúkrunarfræðinga, 81(4), 6-17.

Hjördís Sigursteinsdóttir. (2021). Úrtök og úrtaksaðferðir í megindlegum rannsóknum. Sigríður Halldórsdóttir (ritstjóri), Rannsóknir Handbók í aðferðafræði (1. útg.) (bls. 429-441). Akureyri: Háskólinn á Akureyri.

Islam, R. M., Bell, R. J., Green, S., Page, M. J. og Davis, S. R. (2019). Safety and efficacy of testosterone for women: A systematic review and meta-analysis of randomised controlled trial data. The Lancet. Diabetes & Endocrinology, 7(10), 754-766; doi:10.1016/S2213-8587(19)30189-5

Jayasena, C. N., Alkaabi, F. M., Liebers, C. S., Handley, T., Franks, S. og Dhillo, W. S. (2019). A systematic review of randomized controlled trials investigating the efficacy and safety of testosterone therapy for female sexual dysfunction in postmenopausal women. Clinical Endocrinology, 90(3), 391-414; doi:10.1111/ cen.13906

La Rosa, V. L., Ciebiera, M., Lin, L., Fan, S., Butticè, S., Sathyapalan, T., . . . Favilli, A. (2019). Treatment of genitourinary syndrome of menopause: The potential effects of intravaginal ultralow-concentration oestriol and intravaginal dehydroepiandrosterone on quality of life and sexual function. Przeglad Menopauzalny / Menopause Review, 18(2), 116-122; doi:10.5114/pm.2019.86836

Lambrinoudaki, I. o.fl., (2022). Menopause, wellbeing and health: A care pathway from the european menopause and andropause society. Maturitas, 163, 1-14; https://doi. org/10.1016/j.maturitas.2022.04.008

LaVasseur, C., Neukam, S., Kartika, T., Bannow, B. S., Shatzel, J. og DeLoughery, T. G. (2022). Hormonal therapies and venous thrombosis: Considerations for prevention and management. Research and Practice in Thrombosis and Haemostasis, 6(6), e12763; doi:10.1002/rth2.12763

Mehta, J., Kling, J. M. og Manson, J. E. (2021). Risks, benefits, and treatment modalities of menopausal hormone therapy: Current concepts. Frontiers in Endocrinology, doi:10.3389/fendo.2021.564781

Minkin, M. J. (2019). Menopause: Hormones, lifestyle, and optimizing aging. Obstetrics and Gynecology Clinics, 46(3), 501-514. doi:10.1016/j.ogc.2019.04.008

Moran, V. E., Echeverria, F., Barreto, G. E., Echeverria, J. og Mendoza, C. (2021b). Estrogenic plants: To prevent neurodegeneration and memory loss and other symptoms in women after menopause. Frontiers in Pharmacology, doi:10.3389/ fphar.2021.644103

Moser, S.S., Chodick, G., Bar, S. og Shalev, V. (2020). Healthcare Utilization and Prevalence of Symptoms in Women with Menopause: A Real-World Analysis. International Journal of Women's Health, 12 (445-454).

Rasha, N. M., Saleh, M. H., Ritchie, C.W. og Minihane, A.M. (2023). Hormone replacement therapy is associated with improved cognition and larger brain volumes in at-risk APOE4 women: Results from the european prevention of Alzheimer’s disease (EPAD) cohort | Alzheimer's research & therapy. Alzheimer's Research & Therapy, 15(10), 1-13. https://alzres.biomedcentral.com/ articles/10.1186/s13195-022-01121-5

Samarasiri, D., Rajanayake, I., Wattegedara, P., Kodituwakku, R.,Senadheera, A. og De Silva, B. S. (2017). Women’s experiences on menopause: A phenomenological study. OUSL Journal, 12, 43- 62. https://doi.org/10.4038/ouslj. v12i2.7407

Sigríður Halldórsdóttir. (2021). Fyrirbærafræði sem rannsóknaraðferð. Í Sigríður Halldórsdóttir (ritstjóri), Rannsóknir handbók í aðferðafræði (1. útg.) (bls. 255-275). Akureyri: Háskólinn á Akureyri. Sólrún Ólína Sigurðardóttir. (2018). Kippt úr umferð í blóma lífsins: Upplifun kvenna af snemmkomnu breytingaskeiði. [Meistararitgerð, Háskólinn á Akureyri]. https:// skemman.is/handle/1946/31125

Steinunn Kristbjörg Zophoníasdóttir. (2020). Upplifun kvenna af breytingaskeiðinu. Þema- og frásagnagreining. [Meistararitgerð, Háskóli Íslands]. Sótt á https:// skemman.is/handle/1946/35158

Shiozawa, A., Thurston, R.C., Cook, E., Yang, H., King, D. D. Kristy. R. M og Mancuso, S. (2023). Assessment of women’s treatment preferences for vasomotor symptoms due to menopause. Expert Review of Pharma Research & Outcomes Research, 23, (10), 1117–1128. https://doi.org/10.1080/14737167.2023.2250916

Uloko, M., Rahman, F., Puri, L.I. og Rubin, R.S. (2022). The clinical management of testosterone replacement therapy in postmenopausal women with hypoactive sexual desire disorder: a review. International Journal of Impotence research,34 (7), 635-641. https://doi.org./10.1038/s41443-022-00613-0

Vaccaro, C. M., Capozzi, A., Ettore, G., Bernorio, R., Cagnacci, A., Gambacciani, M., . . . Lello, S. (2021). What women think about menopause: An italian survey. Maturitas, 147, 47-52. doi:10.1016/j.maturitas.2021.03.007

Verdonk, P., Bendien, E. og Appelman, Y. (2022). Menopause and work: A narrative literature review about menopause, work and health. Work, 72(2), 483-496. https:// doi.org/10.3233/WOR-205214

Wium-Andersen, M. K., Jørgensen, T. S. H., Halvorsen, A. H., Hartsteen, B. H., Jørgensen, M. B., og Osler, M. (2022). Association of hormone therapy with depression during menopause in a cohort of Danish women. JAMA Network Open, 5(11), E2239491. https://doi.org/10.1001/jamanetworkopen.2022.3949

Yisma, E., Eshetu, N., Ly, S. og Dessalegne, B. (2017). Prevalence and severity of menopausse symptoms among perimenopausal and postmenoaupausal women aged 30-49 years in Gulele sub-city of Addis Ababa, Ethiopia. BMC Women‘s Health (17, 124). https://doi.org/10.1186/s12905-017-0484-x.

Þýðing og prófun á PREMIS: Spurningalisti til að kanna þekkingu heilbrigðisstarfsmanna á ofbeldi í nánum samböndum

doi: 10.33112/th.100.2.3

ÚTDRÁTTUR

Tilgangur

Ofbeldi er þekkt heilsufarsvandamál og mikilvægt að heilbrigðisstarfsmenn hafi þekkingu og færni í að spyrja um ofbeldi og bregðast við því. Spurningalistanum PREMIS (Physician Readiness to Manage Intimate Partner Violence Survey) er ætlað að kanna þekkingu heilbrigðisstarfsfólks varðandi ofbeldi. Tilgangur rannsóknarinnar var tvíþættur: 1) Að þýða, staðfæra og athuga próffræðilega eiginleika íslenskrar útgáfu af PREMIS 2) Að meta gildi PREMIS til notkunar fyrir íslenskt heilbrigðisstarfsfólk.

Aðferð

Tveir þýðendur þýddu PREMIS yfir á íslensku og þriðji þýddi hann aftur á ensku til að athuga hvort merking listans hefði haldið sér í gegnum þýðingarferlið. Þýðendurnir voru heilbrigðisstarfsmenn með góða enskuþekkingu ásamt þekkingu á íslenska heilbrigðiskerfinu. Fimm heilbrigðisstarfsmenn voru fengnir í hugarferlaviðtöl til að meta orðalag og inntak PREMIS. Listinn var lagður fyrir úrtak heilbrigðisstarfsfólks á Íslandi (n=177). Innra samræmi allra kvarða var reiknað með Cronbach´s alpha og þáttagerð skoðanakvarðans var könnuð með meginhlutagreiningu (e. Principal Components Analysis).

Niðurstöður

Áreiðanleiki PREMIS var mældur með Cronbach’s alpha og reyndist a=0,71-0,98 eftir kvörðum. Þáttagreining gaf til kynna sjö skýra þætti. Spurningarnar röðuðust ekki eins upp á þætti í íslensku útgáfu PREMIS og þeirrar bandarísku, sérstaklega hvað starfsumhverfi og lagalega þætti snerti, sem er auðskýranlegt með tilliti til þess hversu ólík heilbrigðiskerfi þessara landa eru.

Ályktanir

Mat rannsakenda er að tekist hafi að staðfæra og aðlaga PREMIS að starfsumhverfi íslensks heilbrigðisstarfsfólks. Þáttagerð listans er ekki sú sama og í bandarísku útgáfunni en það kemur ekki á óvart þar sem heilbrigðiskerfin tvö eru jafn ólík og raun ber vitni. Þáttagerð íslensku útgáfunnar er hreinleg og áreiðanleiki í svörum viðunandi. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa sterklega til kynna að íslenska útgáfa PREMIS sé áreiðanleg og viðeigandi til notkunar í íslensku heilbrigðiskerfi.

Lykilhugtök

PREMIS, staðfæring matstækja, forprófun, ofbeldi í nánum samböndum, heilbrigðisstarfsfólk.

HAGNÝTING RANNSÓKNARNIÐURSTAÐNA

Með tilkomu PREMIS-IS verður tiltækt mælitæki til að kanna þekkingu heilbrigðisstarfsmanna á ONS.

Niðurstöðurnar geta meðal annars nýst yfirmönnum í heilbrigðiskerfinu til að meta stöðu þekkingar á ofbeldi og gera viðeigandi ráðstafanir til að efla þekkingu starfsmanna t.d. með námskeiðum og hermikennslu.

PREMIS-IS hélt áreiðanleika sínum við þýðingu og með því að svara listanum ætti heilbrigðisstarfsmaður að geta fengið innsýn í hvar hugsanlega sé þörf fyrir viðbótar menntun og þjálfun varðandi ofbeldi og birtingarform þess. Aukin vitundarvakning og þekking á ofbeldi styrkir hjúkrunarfræðinga bæði í að nálgast einstaklinga sem hugsanlega eru þolendur ofbeldis, sem og styrkir þá til að benda á möguleg úrræði fyrir einstaklinga sem búa við eða hafa búið við ofbeldi í nánu sambandi.

Höfundar

SUNNA K JÓNSDÓTTIR1

Hjúkrunarfræðingur, M.Sc. Áhersla: Sálræn áföll og ofbeldi. Kennari (dipl.)

GUÐMUNDUR T. HEIMISSON2 Lektor

SIGRÍÐUR SÍA JÓNSDÓTTIR3

Dósent

1Verkmenntaskóli Austurlands

2Sálfræðideild Háskólans á Akureyri

3Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri

Þýðing og prófun á PREMIS: Spurningalisti til að kanna þekkingu heilbrigðisstarfsmanna á ofbeldi í nánum samböndum

INNGANGUR

Þriðjungur kvenna á heimsvísu hefur upplifað ofbeldi á lífsleiðinni og um það bil sama hlutfall kvenna sem hefur verið í nánum samböndum hefur upplifað líkamlegt og/eða kynferðislegt ofbeldi af hendi maka eða fyrrverandi maka. Þegar konur eru myrtar er maki eða fyrrverandi maki gerandinn í um 38% tilfella (World Health Organization (WHO), 2021).

Konum sem leituðu til slysa- og bráðamóttökunnar á Landspítalanum í Fossvogi var boðið að taka þátt í rannsókn um reynslu af ofbeldi. Hundrað og ein kona tók þátt í rannsókninni og af þeim höfðu 50% orðið fyrir ofbeldi eða hótun um ofbeldi. Hjá 33% kvennanna var um að ræða ofbeldi í nánu sambandi (ONS) (Kolbrún Kristianssen, 2010). Niðurstöður úr lýðfræðilegri rannsókn á Íslandi sýndu fram á að rúmlega 40% kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi eftir 16 ára aldur, hótunum um ofbeldi og/eða kynferðislegri snertingu sem veldur vanlíðan (Elísabet Karlsdóttir og Ásdís A. Arnalds, 2010). Þegar meðgöngu- og fæðingarskýrslur 514 íslenskra kvenna voru skoðaðar kom í ljós að hjá einungis 8,5% kvennanna var skráð að þær hefðu verið spurðar um reynslu af ofbeldi (Jonsdottir, 2019). Ef gengið er út frá þeirri gullvægu reglu að það sem „ekki er skráð hefur ekki verið gert“ þá fara 91,5% kvenna hér á landi í gegnum meðgöngu án þess að vera spurðar um eigin reynslu af ofbeldi. Það er því augljóst að við þurfum að gera enn betur í að spyrja og styðja skjólstæðinga íslenska heilbrigðiskerfisins þegar kemur að ofbeldistengdum málum.

Þegar tíðni ofbeldis gagnvart körlum í nánu sambandi er skoðað sést að mun styttra er síðan rannsóknir hófust á þeim málaflokki. Bandarískar tölur benda til að um 10% karla hafi upplifað ofbeldi af hálfu maka (Center for Disease Control and prevention (CDC), 2020) sem er ábending um mikilvægi þess að heilbrigðisstarfsfólk sé einnig vakandi gagnvart stöðu karla þegar kemur að ofbeldi.

Árið 2012 gaf Landspítali út klínískar leiðbeiningar um ofbeldi í nánum samböndum, mat og viðbrögð. Þeim er ætlað að vera heilbrigðistarfsfólki stuðningur í skimun og viðbrögðum við ofbeldi en jafnframt er mælt með að þeir sem nýti sér þessar leiðbeiningar hafi farið á námskeið í notkun þeirra (Páll Biering, 2012). Ljósmæður sem sinna meðgönguvernd, hjúkrunarfræðingar sem sinna ung- og smábarnavernd og bráðahjúkrun, auk heimilislækna og bráðalækna verða að teljast í lykilaðstöðu til að nálgast hugsanlega þolendur ofbeldis. Ekkert mælitæki er til á íslensku sem kannar þekkingu heilbrigðisstarfsmanna á ONS. Slíkt mælitæki gæti m.a. nýst til endurmenntunar starfsfólks og stefnumótunar stjórnenda. Til að ráða bragarbót á því var ákveðið að þýða og meta próffræðilega eiginleika mælitækisins „Physician Readiness to Manage Intimate Partner Violence“ (PREMIS). PREMIS-listinn var hannaður í Bandaríkjunum til að mæla þekkingu, reynslu og viðhorf lækna á ONS.

Samkvæmt höfundum PREMIS má aðlaga listann að öðrum heilbrigðisstéttum, nota efni hans sem útgangspunkta í fræðslu um ONS eða nota til að kanna þekkingu sama hóps fyrir og eftir fræðslu. Áreiðanleiki (Cronbach‘s alpha (a), jafnframt kallað innra samræmi) upprunalega PREMIS er a=0,65-0,96 fyrir lykilkvarða og undirkvarða listans (Short o.fl., 2006). PREMIS hefur verið þýddur og staðfærður á grísku og spænsku og þar hélt mælitækið áreiðanleika sínum gegnum þýðingarferlið (Cases o.fl., 2015; Papadakaki o.fl., 2013; Papadakaki o.fl., 2012; Rodríguez-Blanesa o.fl., 2017). Eins hefur PREMIS verið aðlagaður og notaður að hluta eða öllu leyti til að kanna þekkingu ýmissa heilbrigðisstarfsstétta og nemenda á ONS eða þá verið notaður í fræðslu (Baird o.fl., 2015; Connor o.fl., 2011; McAndrew o.fl., 2014; Sawyer o.fl., 2017).

Staðfærsla spurningalista

Mikilvægt er að vanda til við þýðingu og aðlögun spurningalista að nýrri menningu svo spurningalistinn haldi áreiðanleika sínum og hugsmíðaréttmæti í gegnum þýðingarferlið (American Educational Research Association (AERA) o.fl., 2014; Hambleton, 2005; International Test Commission (ITC), 2017; Wild o.fl., 2005). Ástæðan er sú að þegar spurningalistar eru þróaðir, þá eru þeir hannaðir fyrir ákveðinn hóp fólks, fyrir ákveðið tungumál og ákveðna menningu. Þegar heimfæra á spurningalista yfir á annað menningarsvæði er ekki sjálfgefið að hugsmíðaréttmæti haldi sér. Helstu samtök innan mælifræðigreina hafa gefið út staðlahandbók um gerð og notkun matstækja á spurningalistaformi (AERA o.fl., 2014). Samkvæmt handbókinni og viðmiðum ITC (2017) verður að gæta þess að listinn endurspegli menningu þess lands sem nota á hann í og að hann passi fyrir þann úrtakshóp, að hafa hæfa þýðendur sem hafa gott vald á upprunalegu tungumáli og því máli sem á að staðfæra listann yfir á. Þó er tungumálaþekking ein og sér ekki nægjanleg, því þýðendur og ritrýnar þurfa einnig að hafa góða þekkingu á þeirri menningu sem listinn er ætlaður fyrir sem og tungutakinu sem svarendahópur listans notar. Í þessu tilfelli er átt við tungutak heilbrigðisstarfsfólks. Mælt er með því í flestum tilfellum að nota bæði þýðingu og bakþýðingu. Bakþýðing felur í sér að listinn er þýddur aftur yfir á upprunalegt tungumál til að ganga úr skugga um að innihald spurninga haldi sér í þýðingunni. Sömuleiðis er mælt með að ritrýna niðurstöður bakþýðingar og leiðbeininga með mælitækinu, með hliðsjón af skýrleika texta og málvenjum viðkomandi hóps (AERA o.fl., 2014). Megindleg prófun á borð við þá sem hér er lýst er nauðsynlegur þáttur góðrar staðfæringar á spurningalista ætluðum öðru menningarsvæði (Einar Guðmundsson, 2006; Guðmundur T. Heimisson, 2021b). Með prófun er ekki bara verið að kanna hvort þátttakendur geti svarað spurningum mælitækis, heldur er líka verið að kanna uppbyggingu, orðanotkun, skýrleika og annað sem tengist spurningalistanum (Beatty og Willis, 2007; Collins, 2003, Einar Guðmundsson, 2005-2006¸ Guðmundur T. Heimisson, 2021a).

AÐFERÐ

Haft var samband við dr. Short, aðalhöfund PREMIS, og leyfi fengið fyrir notkun. Ásamt listanum komu leiðbeiningar um hvernig á að vinna úr listanum og kóða til að nota við úrvinnslu. Auk þess bauðst dr. Short til þess að yfirfara ensku bakþýðinguna á PREMIS til að tryggja að upprunalegt innihald spurninganna myndi halda sér í gegnum þýðingarferlið. Þýðingarferli PREMIS var sett upp í tíu skref til að uppfylla áðurnefndar kröfur um þýðingu spurningalista (sjá töflu 1).

Tveir hjúkrunarfræðingar með meistaragráðu þýddu PREMIS. Báðir hafa íslensku að móðurmáli en hafa gott vald á ensku og

Tafla 1. Þýðingarferlið

1. Nákvæm undirbúningsvinna og almenn grunnvinna fyrir þýðingu.

2. Þýðing frá ensku yfir á íslensku. Tveir þýðendur með reynslu úr heilbrigðiskerfinu og málnotkun heilbrigðisstarfsmanna.

3. Þýðingar bornar saman og sett saman fyrsta íslenska útgáfan, PREMIS-IS.

4. Bakþýðing PREMIS-IS yfir á ensku. Einn bakþýðandi.

5. Bakþýðing borin saman við upprunalegu þýðingu. Kanna innihald spurninga gegnum bakþýðingarferlið.

6. Samræming bakþýðingar. Bæði við upprunalega PREMIS og Dr. Short fór einnig yfir bakþýðingu. Lagfæring á PREMIS-IS.

7. Hugarferlaviðtöl við fimm heilbrigðisstarfsmenn. Rýnt í orðalag og skilning þátttakenda á orðanotkun í PREMIS-IS. Eins hvort listi passi inn í íslenskt heilbrigðiskerfi hvað varðar orðanotkun og málnotkun.

8. Lagfæringar á PREMIS-IS út frá niðurstöðum úr hugarferlaviðtölum.

9. Prófarkalestur á PREMIS-IS.

10. Skýrsla um ferlið.

reynslu innan heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Annar þýðandinn hefur einnig reynslu af því að vinna í bandaríska heilbrigðiskerfinu. Þýðendurnir þýddu PREMIS hvor í sínu lagi. Fyrsti höfundur fór yfir þýðingar, skoðaði vafaatriði með þýðendum, hvorum í sínu lagi, og setti saman fyrstu útgáfu af íslenska PREMIS sem hér eftir verður kölluð PREMIS-IS. Einn bakþýðandi var fenginn til að þýða PREMIS-IS aftur yfir á ensku. Bakþýðandinn var ekki kunnugur PREMIS-listanum fyrir og hafði ekki komið að þýðingarferlinu fram að þessu. Það er mikilvægt að bakþýðandi sé ekki kunnugur upprunalega listanum til að skekkja ekki bakþýðinguna (ITC, 2017). Bakþýðandi er íslenskur læknir með M.D.-gráðu frá enskumælandi háskóla. Bakþýðingin var borin saman við frumþýðinguna og síðan við upprunalegu ensku útgáfuna. Eftir lagfæringar var bakþýðingin send dr. Short til yfirferðar. Eftir nokkrar lagfæringar var PREMIS-IS tilbúinn fyrir hugarferlaviðtöl. Þátttakendur

Úrtakið fyrir forprófun PREMIS-IS var heilbrigðisstarfsfólk sem nálgast var með hentugleika- og snjóboltaúrtaki gegnum samfélagsmiðla og tölvupóst. Hentugleikaúrtak varð fyrir valinu þar sem markmið rannsóknarinnar var ekki að yfirfæra niðurstöður yfir á þýðið. Hentugleikaúrtök eru notuð til að kanna tengsl breyta innbyrðis (Hjördís Sigursteinsdóttir, 2021) þ.e. að kanna hvort innihald PREMIS héldi sér í gegnum þýðingarferlið. Þar sem erfiðlega gekk að fá þátttakendur í upphafi var snjóboltaúrtaksaðferð bætt við. En þá eru þátttakendur beðnir að benda á aðra hugsanlega þátttakendur (Hjördís Sigursteinsdóttir, 2021). Í forprófun svöruðu samtals 177 heilbrigðisstarfsmenn listanum að hluta til eða í heild. Svarendahópurinn var mjög breiður og kom víða úr heilbrigðiskerfinu. Sjá bakgrunn svarenda í töflu 2. Fimm heilbrigðisstarfsmenn sem valdir voru með hentugleikaúrtaki voru fengnir í hugarferlaviðtöl.

Framkvæmd

Spurningalistinn var settur upp á Google Forms og forprófunin fór eingöngu fram í gegnum netið. Svartími var áætlaður um það bil 25 mínútur.

Hugarferlaviðtölin fóru fram fyrir forprófun með fyrsta höfundi og einum þátttakanda í einu. Fyrst las þátttakandi listann upphátt um leið og hann svaraði listanum skriflega. Á meðan skrifaði höfundur

Tafla 2. Bakgrunnur

Hvar vinnur þú?

Hver er aðalstarfsvettvangur þinn?

Hvaða gráðu eða starfsréttindi hefur þú?

Hversu marga sjúklinga hittir/sinnir þú að meðaltali í viku? Hitti ekki sjúklinga

Að þér meðtöldum/talinni hve margir heilbrigðisstarfsmenn hafa farið á námskeið í ofbeldi í nánum samböndum (ONS) á vinnustað þínum undanfarna sex mánuði?

hjá sér minnispunkta varðandi hik eða önnur viðbrögð sem gætu gefið til kynna að eitthvað við innihald eða orðalag listans þætti torskilið eða skrýtið. Eftir að þátttakandi hafði svarað listanum spurði höfundur út í atriðin sem punktuð voru niður og fékk þar með ábendingar um orðalag og innihald spurninga. Heildartími hvers viðtals var á bilinu 40 til 60 mínútur.

Ábendingar sem komu úr þessum viðtölum voru teknar saman og unnið úr til frekari lagfæringar á PREMIS-IS. Tvöföld neitun einnar fullyrðingar listans var tekin út til að gera fullyrðinguna skýrari. Sú fullyrðing þýddist upprunalega „Það er engin ástæða nógu góð til að fara ekki úr ofbeldisfullu sambandi“ en allir þátttakendur stoppuðu á þessari fullyrðingu. Henni var því breytt í „Það er engin ástæða nógu góð til að vera áfram í ofbeldisfullu sambandi“. Breytingin hafði ekki áhrif á kóðun spurningarinnar. Aðrar ábendingar úr viðtölunum sneru m.a. aðallega að orðanotkun, sem dæmi að nota orðið „starfsvettvangur“ í stað „deilda“ þar sem starfssvið er mjög breitt. Prófgráðum var bætt við í valmöguleika um menntun. Í spurningu um fjölda starfsmanna á vinnustað var valmöguleikinn „enginn“ settur inn í spurningu um fjölda starfsmanna á vinnustað sem hefur sótt fræðslu um ONS. Þátttakendum fannst vanta möguleikann að t.d. karlmenn gætu verið þolendur ofbeldis, að hægt væri að benda þolendum á rafrænt fræðsluefni og að vettvangur til að kynna sér efni um ONS getur verið fjölbreyttari en sá sem gefinn er upp í PREMIS. Þessum atriðum var ekki bætt við að svo stöddu þar sem það gæti haft áhrif á tölfræðilega úrvinnslu PREMIS-IS. Niðurstöður hugaferlaviðtalanna nýttust við að setja saman skýrari útgáfu af PREMIS-IS m.t.t. orðanotkunar og þess að sjá heilt yfir hvernig þátttakendur upplifðu að svara PREMIS-IS. Þetta samræmist Collins (2003) og ITC (2017) um að hugræn viðrun sé gagnleg við þýðingu mælitækja.

Mælitæki

PREMIS inniheldur 67 atriði sem taka á þekkingu og reynslu heilbrigðisstarfsfólks á ONS, ásamt fjórum spurningum um akademískan og klínískan bakgrunn viðkomandi svaranda. Atriðum listans er skipt í fjóra aðalkvarða/lykilkvarða og þrjá undirkvarða til að auðvelda tölfræðilega úrvinnslu og túlkun. Fyrsti lykilkvarðinn er bakgrunnskvarði og skiptist í þrjá undirkvarða. Þeir eru 1a) áætlaður undirbúningur; 1b) áætluð þekking og 1c) fyrri þjálfun. Aðrir lykilkvarðar listans eru 2) raunveruleg þekking á ofbeldi í nánum samböndum; 3) skoðanir þátttakenda og 4) klínískir þættir (nefnt verklag og starfsumhverfi í þessari grein til aðgreiningar á lykilkvörðum og þáttum). Í þessum kvörðum eru atriði sem snúa meðal annars að því hversu oft þátttakendur spyrja um ofbeldissögu, hvaða hópa fólks þeir spyrja, hvort til séu verklagsreglur á vinnustaðnum, aðgengi að úrræðum, aðgengi að fræðsluefni og fleira sem snýr að vinnulagi og vinnuumhverfi þeirra.

Úrvinnsla PREMIS-IS

Töluleg úrvinnsla var unnin í forritinu SPSS, útgáfu 28 (IBM, 2021). Úrvinnslan fól í sér greiningu á bakgrunnsbreytum (t.d. kyni og aldri) og meginhlutagreiningu (e. Principal Components Analysis) á skoðanakvarða PREMIS. Einnig var fjölbreytuaðhvarfsgreining (e. Multiple Regression) gerð til að kanna hvort þættir úr þáttagreiningu hefðu forspárgildi fyrir svör úr kvarðanum verklag og starfsumhverfi samanber Short o.fl. (2006). Áreiðanleiki PREMIS-IS var mældur með mælitölunni Cronbach‘s alpha, sem metur innra samræmi í svörum. Þáttagreining felur í sér að skoða samband atriða á spurningalista innbyrðis og greina með

aðstoð tölfræðistuðla hvaða atriði virðast eiga betur saman en önnur. Atriðin sem eiga betur saman en önnur kallast „þættir“ (e. factors). Stærðin sem gefur til kynna styrkleika sambands atriðis á spurningalista við þátt, kallast þáttahleðsla (DeVellis, 2016; Field, 2017). Notast var við afbrigði af þáttagreiningu sem kallast meginhlutagreining (e. Principal Components Analysis), með varimax-snúningi. Ef þáttahleðslurnar eru háar og samband atriðanna innbyrðis í samræmi við kenninguna um mælitækið er kominn vísir að réttmæti en sé þessu öfugt farið er það vísbending um að svörin við listanum endurspegli ekki viðkomandi hugsmíð eins og lagt var upp með (DeVellis, 2016). Leiðbeinandi viðmið um hversu há þáttahleðsla í leitandi þáttagreiningu þarf að vera er 0,4 (Hair o.fl., 2019). Þáttagreind atriði voru skoðanakvarði PREMIS-IS, það er atriði sem ætlað er að mæla skoðanir heilbrigðisstarfsfólks á ONS. Við úrvinnslu gagna úr þáttagreiningu var tekið tillit til öfugkóðunarleiðbeininga sem fengnar voru frá dr. Short.

NIÐURSTÖÐUR

Kaiser-Meyer-Olkin-talan var 0,71 sem gaf til kynna að gögnin henti til þáttagreiningar (Field, 2017). Cronbach’s alpha fyrir undirkvarða PREMIS-IS mældist a=0,97 fyrir áætlaðan undirbúning, a=0,98 fyrir áætlaða þekkingu, og a=0,83 fyrir skoðanakvarðann í heild. Áreiðanleiki undirkvarða verklags- og starfsumhverfis var á bilinu a=0,71 til 0,99, sem telst frá ásættanlegu upp í mjög gott eftir atvikum (Nunnally, 1978; Nunnally og Bernstein, 1994). Ekki var reiknaður áreiðanleiki fyrir lykilkvarðann raunveruleg þekking Ástæðan er að í þeim kvarða eru tekin saman rétt og röng svör og markmið þessarar rannsóknar var ekki að kanna þekkingu heilbrigðisstarfsfólks á ofbeldi, heldur að meta próffræðilega eiginleika listans. Í bandarísku gerð PREMIS var a=0,96 fyrir áætlaðan undirbúning og a=0,96 fyrir áætlaða þekkingu. Í heild er áreiðanleiki hvers lykilkvarða og undirkvarða PREMIS-IS örlítið hærri en upprunalega listans. Meginhlutagreiningin á skoðanakvarða PREMIS-IS skilaði sjö þáttum, sama fjölda og fékkst úr upprunalega PREMIS en þó aðeins frábrugðnum þáttahleðslum, þ.e. að atriðin/spurningarnar röðuðust ekki alveg eins á hvern þátt. Þáttunum voru gefin eftirfarandi nöfn, eftir efni atriðanna sem hlóðust á þættina: Starfsmaðurinn og vinnustaðurinn (SV); þekking (Þ); lagaleg ákvæði (LÁ); ábyrgð þolenda (ÁÞ); aðstæður (A); réttur þolanda (RÞ); og úrræði (Ú). Í töflu 3 má sjá kvarða, lykilkvarða og þætti úr þáttagreiningu á PREMIS-IS, þáttahleðsluna má sjá í töflu 4 og áreiðanleika þáttanna má sjá í töflu 5. Fylgni milli kvarða PREMIS-IS og þátta úr þáttagreiningu má sjá í töflu 6.

Tafla 3. Lykilkvarðar, undirkvarðar og þættir úr þáttagreiningu PREMIS-IS

1) Bakgrunnskvarði

1a ) Áætlaður undirbúningur

1b) Áætluð þekking

1c) Fyrri þjálfun

2) Raunveruleg þekking

3) Skoðanakvarði

3a) Starfsmaðurinn og vinnustaðurinn

3b) Þekking

3c) Lagaleg ákvæði

3d) Ábyrgð þolenda

3e) Aðstæður

3f) Réttur þolanda

3g) Úrræði

4) Verklag og starfsumhverfi (nefnt Klínískir þættir í upprunalega PREMIS)

Tafla 5. Innra samræmi á þáttum skoðanakvarða PREMIS-IS

Nafn þáttar Cronbach‘s a Fjöldi atriða Starfsmaðurinn og vinnustaðurinn 0,82

Fylgni milli þáttanna úr meginhlutagreiningunni var engin, fyrir utan lága neikvæða fylgni r= -36 milli SV og RÞ. Þetta þýðir að svör á einum þætti eru óháð svörum á öðrum þætti. Undantekningin er sú að svör við spurningum um starfsmanninn og vinnustaðinn annars vegar og upplifaða þekkingu á ONS hins vegar haldast lítillega í hendur, sem kemur ef til vill ekki á óvart miðað við innihald atriðanna, það er að þekking á ONS helst í hendur við það sem starfsmaðurinn upplifir um úrræði við ONS á vinnustaðnum. Atriðin sem röðuðu sér saman í þætti í íslensku útgáfunni eru talsvert önnur en í upprunalegu útgáfunni en þó vekur athygli að þáttagerðin er tiltölulega hreinleg. Með því er átt við að atriðin hlaðast almennt afgerandi mest á einn þátt. Þar við bætist að áreiðanleiki PREMIS-IS í heild var sambærilegur upprunalega PREMIS. Þar sem atriðin í þáttagreiningunni röðuðu sér ólíkt á þættina og ólíkar spurningar þar með í hverjum þætti er ekki merkingarbært að bera saman fylgni milli þátta bandarísku og íslensku útgáfna listans. Aðeins eitt atriði hlóð á tvo þætti, miðað við viðmið Hair o.fl. (2019) sem notuð voru hér, það er „Ég get aflað upplýsinga til að bera kennsl á ONS sem undirliggjandi orsök“. Þetta atriði hlóð bæði á þáttinn um starfsmann og vinnustað annars vegar, og lagaleg ákvæði hins vegar, sem er rökrétt þegar hugsað er til þeirrar óhjákvæmilegu skörunar sem oft verður milli heilbrigðiskerfis og réttarkerfis.

Fjölbreytuaðhvarfsgreining (e. Multiple Regression) var notuð til að kanna hvort kvarðarnir og/eða þættir úr þáttagreiningu hefðu forspárgildi fyrir svör úr kvarðanum verklag og starfsumhverfi Þetta var gert til að skoða hvort þessir kvarðar spiluðu eins saman og í bandarísku útgáfunni. Ekki fundust tölfræðilega marktæk áhrif þátta PREMIS-IS á verklags- og starfsumhverfiskvörðunum, ólíkt því sem er í upprunalega PREMIS-listanum (Short o.fl., 2006).

UMRÆÐA

Niðurstöður greiningarinnar sem sjá má hér að framan styðja við notkun PREMIS-IS til endurmenntunar og stefnumótunar í íslensku heilbrigðiskerfi. Áreiðanleiki allra kvarða PREMIS-IS reyndist sambærilegur eða örlítið hærri en í upprunalegu útgáfunni. Niðurstöður meginhlutagreiningar á skoðanakvarðanum studdu við sjö þætti í samræmi við það sem búist var við, en röðun atriða var ólík því sem fékkst í bandarísku útgáfunni. Uppröðun atriðanna á þættina eftir efni var tiltölulega hreinleg. Með öðrum orðum gefa niðurstöður til kynna að innihald listans endurspegli efnisflokka sem koma íslensku heilbrigðisstarfsfólki við þegar kemur að því að

Tafla 4. Niðurstöður meginhlutagreiningar PREMIS-IS Þáttur**

Nr. Atriði (stytt) SV Þ LÁ ÁÞ A RÞ Ú

3. Vinnustaður hvetur til að bregðast við ONS

2. Spyr nýja sjúklinga um ONS

9. Finnst auðvelt að ræða ONS við sjúklinga

17. Fylgi leiðbeiningum/gæðaskjölum til að meta ONS

4. Get vísað þolendum á viðeigandi úrræði í samfélaginu

5.* Get borið kennsl á ONS án þess að spyrja sjúklinga

20. Hef komið á sambandi milli þolenda ONS og aðila sem bjóða úrræði

14. Get aflað upplýsinga til að bera kennsl á ONS sem undirliggjandi orsök

29. Get tengt inngrip við hversu tilbúinn þolandi er fyrir breytingum

24. Skimun ONS mun líklega móðga skimaða

Hef ekki þekkingu til að ræða ONS við karlkyns þolendur*

10.c* Hef ekki þekkingu til að ræða ONS við þolendur úr annarri menningu*

10.a* Hef ekki þekkingu til að ræða ONS við kvenkyns þolendur*

6.* Hef ekki þjálfun til að styðja fólk til að ræða ONS

32.* Get borið kennsl á þolendur ONS eftir hegðun

Meðvitund um lagaleg ákvæði, ofbeldi gagnvart öldruðum

12.a Meðvitund um lagaleg ákvæði um grun um ONS

12.b Meðvitund um lagaleg ákvæði um grun um ofbeldi gagnvart börnum

21.* Áfengismisnotkun er aðalástæða ONS

16.* Þolendur ONS gætu yfirgefið sambandið ef þeir vilja 0,54

11.* Ef þolendur dvelja áfram í ONS bera þeir sjálfir ábyrgð 0,52

27.* Meginástæða ONS er að konan braust úr hefðbundinni stöðu

31. Áfengisneysla eða vímuefnaneysla tengist því að vera þolandi ONS 0,43

7. Misnotkun áfengis eða lyfja er líkleg til sögu af ONS 0,41

25. Nóg af stöðum til að sinna þolendum ONS í einrúmi 0,59

19. Vinnufyrirkomulag býður upp á tíma til að sinna þolendum ONS

22. Þolendur ONS hafa oft gildar ástæður fyrir að vera áfram

13.* Heilbrigðisstarfsfólk hefur ekki tíma til að aðstoða vegna ONS

26. Get safnað upplýsingum til að greina ONS sem ástæðu áverka

28.* Heilbrigðisstarfsfólk hefur ekki þekkingu til að aðstoða vegna ONS

30. Skil af hverju þolendur fara ekki alltaf eftir ráðleggingum

8. Þolendur hafa rétt til að ákveða hvort við grípum inn í

Ef sjúklingur neitar að ræða ONS er bara hægt að meðhöndla áverka

1.* Ef þolandi viðurkennir ekki að búa við ofbeldi er lítið hægt að gera*

18. Heilbrigðisstarfsfólki ber skylda að spyrja um ONS

*Þær spurningar sem skv. dr. Short o.fl. (2006) þarf að öfugkóða við tölfræðilega úrvinnslu gagna.

**SV = Starfsmaðurinn og vinnustaðurinn; Þ = Þekking; LÁ = Lagaleg ákvæði; ÁÞ = Ábyrgð þolenda; A = Aðstæður; RÞ = Réttur þolanda; Ú = Úrræði.

meta ofbeldi í nánum samböndum. Þættir skoðanakvarðans koma vissulega öðruvísi út en hjá Short o.fl. (2006), en því má ekki gleyma að starfsumhverfi íslensks heilbrigðisstarfsfólks er allt annað en

í upprunalandinu Bandaríkjunum. Til dæmis kemur ekki á óvart að engin fylgni sé milli lagalegra þátta og annarra í PREMIS-IS en áhrif lagalegs umhverfis og gerðar almannatryggingakerfis í

Tafla 6. Fylgni milli kvarða PREMIS og þátta úr þáttagreiningu úr skoðanakvarðanum

Kvarðar PREMIS Verklag

Þættir úr þáttagreiningu Verklag og starfsumhverfi Raunveruleg þekking Áætlaður undirbúningur Áætluð þekking Fyrri þjálfun

og vinnustaðurinn

Lagaleg ákvæði

Marktækt við *p<0,05; **p<0,0.

viðkomandi samfélagi getur af augljósum orsökum hvatt eða latt fólk til að leita sér aðstoðar. Þetta atriði veldur því aftur á móti að heilbrigðisstarfsfólk á Íslandi og í Bandaríkjunum býr við gjörólíkar áherslur í nálgun sjúklinga, ekki síst varðandi ONS. Eins hafa skýr lagaleg ákvæði t.d. hvað varðar íslensk barnaverndarlög og lög um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna áhrif á starfsumhverfið hér á landi.

Úr hugarferlaviðtölum komu athugasemdir sem skoða þarf við frekari aðlögun PREMIS-IS listans. Til dæmis þótti svarendum listinn ekki taka nóg tillit til þess að þolendahópurinn geti verið breiðari. Eins var bent á að starfssvið heilbrigðisstarfsmanna er talsvert viðameira en hefðbundin klínísk vinna á sjúkrastofnun eins og í bandarísku útgáfu PREMIS. Þetta hefur mjög líklega áhrif á svörun í íslensku útgáfunni. Þýðing PREMIS gekk vel, þó ef til vill þurfi að aðlaga listann enn betur að íslensku starfsumhverfi fyrir frekari notkun og fjölga valmöguleikum fyrir mismunandi starfssvið og gera ráð fyrir fjölbreyttari þolendahópi.

Niðurstaðan eftir þýðingu, hugaferlaviðtölin og tölfræðilega úrvinnslu er að listinn sé tilhýðilegur til notkunar með ákveðnum fyrirvörum um menningarmun á löndunum tveimur og klínískri dómgreind fagfólks í starfi. Eins þurfa frekari tölfræðilegar rannsóknir á PREMIS-IS að eiga sér stað. Samkvæmt Short o.fl. (2006) má meðal annars nota listann að hluta eða í heild sem útgangspunkt í fræðslu. Þá er hægt að fara yfir efni listans og ræða og læra út frá innihaldi hans. PREMIS-IS er þýddur samkvæmt stöðlum og leiðbeiningum og hann má nota í hagnýtar rannsóknir. Þriðji hluti listans er nothæfur sem könnun á þekkingu heilbrigðisstarfsfólks á ONS, annaðhvort í tengslum við fræðslu eða einn og sér sem kennslutæki.

Svarendur PREMIS-IS voru á breiðu aldurssviði og koma víða úr heilbrigðiskerfinu með mismunandi bakgrunn og starfsaldur, sem er styrkur fyrir rannsóknina. Það sem gæti svo veikt rannsóknina er sú staðreynd að hópurinn hefur mismunandi bakgrunn sem getur að einhverju leyti haft áhrif á tölfræðilega úrvinnslu og listinn gæti því þarfnast frekari aðlögunar með stærra úrtaki. En á móti kemur að slíkar athuganir eru nú til dags æskilegar í hvert skipti sem spurningalistar eru lagðir fyrir (AERA o.fl., 2014). Mögulegir veikleikar við þýðingu eru að þýðendur voru ekki tvítyngdir. Aðrir þættir styrkja fullyrðingar um ágæti þýðingarinnar s.s. að þýðendur hafa gott vald á báðum tungumálum, eru kunnugir íslensku heilbrigðiskerfi/starfsumhverfi og tungumáli

menningarinnar. Annar þýðandinn hafði einnig starfsreynslu úr bandarísku heilbrigðiskerfi.

Hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk hefur kallað eftir aukinni fræðslu um ofbeldistengd málefni. Samfélagið hefur breyst hratt hvað varðar að viðurkenna afleiðingar ofbeldis og áhrif þess á þolendur og alla sem að koma. Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður eru í lykilaðstöðu til að nálgast hugsanlega þolendur ofbeldis og bregðast við þegar þolandi greinir frá ofbeldi. Það er þó ekki nóg að vera í lykilaðstöðu ef heilbrigðisstarfsfólk hefur ekki þekkingu eða úrræði til að bregðast við, greini skjólstæðingur frá ofbeldi. Það er ekki heldur nægjanlegt að hafa aðgang að sérfræðingum á sviði ofbeldis, heldur þarf allt heilbrigðisstarfsfólk að búa yfir þekkingunni sem nauðsynleg er til að geta brugðist við. Mikilvægt er að þekkja einkenni og afleiðingar ofbeldis, sem og úrræði í boði fyrir þolendur og/eða gerendur eftir því sem við á. Til að hægt sé að greina hvar þekkingarþörf er mest er fyrsta skrefið að kanna grunnþekkingu á ofbeldi. Ekkert viðurkennt mælitæki hefur þó fram að þessu verið til á Íslandi til þess að kanna slíkt.

Með þessari rannsókn hefur verið lagður grunnur að því að hér á landi sé til mælitæki sem kannar þekkingu heilbrigðisstarfsmanna á ofbeldi í nánum samböndum. Frekari áreiðanleikaprófanir og réttmætisprófanir þurfa vissulega að eiga sér stað áður en PREMIS-IS er notaður en hér hefur fyrsta skrefið verið stigið til að hér á landi verði aðgengilegt mælitæki til að kanna þekkingu heilbrigðisstarfsmanna á ofbeldi í nánum samböndum.

ÞAKKARORÐ

Höfundar þakka þýðendum, bakþýðanda, einstaklingum í hugarferlaviðtölum, þátttakendum rannsóknarinnar og yfirlesurum fyrir sitt framlag. Áslaug Lind Guðmundsdóttir fær sérstakar þakkir fyrir lokayfirlestur. Einnig þakka höfundar fyrir styrk úr B hluta Vísindasjóðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og námsleyfi frá Heilbrigðisstofnun Austurlands sem fyrsti höfundur fékk þegar hann vann að rannsókninni í meistaranámi sínu við Háskólann á Akureyri.

ENGLISH SUMMARY

Icelandic translation and pre-testing of the PREMIS questionnaire

ABSRTAKT

Study Aims

Violence by intimate partners is a known health care problem, for which health care professionals need adequate training and skills. PREMIS (Physician Readiness to Manage Intimate Partner Violence Survey) is a questionnaire developed to assess healthcare professionals’ knowledge of violence. The purpose of this study was two-fold: 1) To translate, pre-test, and analyze the psychometric properties of PREMIS-IS. 2) To assess the usefulness of PREMIS-IS for use by Icelandic healthcare professionals.

Method

PREMIS was translated from English by two translators. A third translator back-translated PREMIS to English for quality assurance of the first translation. The translators were experienced Icelandic healthcare professionals, who were fluent in English. Five health care workers were recruited for cognitive interviewing, PREMIS was then administered to a sample of health care professionals (n=177). Internal consistency of all scales was computed with Cronbach´s alpha (a) and the factor structure of the opinion scale was explored with Principal Components Analysis.

Results

Reliability scores for PREMIS ranged from a=0,71-0,98 on the subscales. A Principal Components Analysis returned seven components. It is notable that, while the factor structure was clear and loadings acceptable for use, different items loaded on the components in the Icelandic version. Items measuring legal issues and work environment differed between the United States and Iceland, as expected due to differences between the health care systems in these countries.

Conclusions

Adapting PREMIS to Icelandic has succeeded. In the study, a clear factor structure was achieved, and inner responding consistency was acceptable. The factor composition of PREMIS-IS is not identical to the English version, but this is expected given the profound differences between the U.S. and Icelandic health care systems. The results of the study strongly indicate that the Icelandic version of PREMIS is appropriate for use in the Icelandic health care system.

Keywords

PREMIS, cross-cultural adaptations, pilot study, intimate partner violence, health care professionals.

Correspondent sunna@va.is

HEIMILDIR

American Educational Research Association, American Psychological Association, & National Council on Measurement in Education. (2014). Standards for educational and psychological testing. American Educational Research Association. Baird, K.M., Saito, A.S., Eustace, J. og Creedy, D.K. (2015). An exploration of Australian midwives’ knowledge of intimate partner violence against women during pregnancy. Women Birth, 28(3), 215-220. doi://10.1016/j.wombi.2015.01.009

Beatty, P.C., og Willis, G.B. (2007). Research synthesis: The practice of cognitive interviewing. Public Opinion Quarterly, 71 (2), 287–311. https://doi.org/10.1093/poq/nfm006

Cases, C.V., Domínguez, J.T., Portiño, M.C., Espinar-Ruiz, E., GilGonzález, D. og Goicolea, I. (2015). Validation of the spanish 54 version of physician readiness to manage intimate partner violence survey (PREMIS). [Validación de la versión española del cuestionario physician readiness to manage intimate partner violence survey (PREMIS)]. Revista Espanola De Salud Publica, 89(2), 173-190. https://www.scopus.com/inward/record. uri?eid=2-s2.0-84936769754&partnerID=40&md5=910c1f39b7d94f36938060599cf4e5c9

CDC. Center for Disease Control and Prevention. (2020, 1. júní). Intimate partner violence, sexual violience and stalking among men. https://www.cdc.gov/violenceprevention/ intimatepartnerviolence/men-ipvsvandstalking.html

Collins, D. (2003). Pretesting survey instruments: an overview of cognitive methods. Quality of life research, 12(3), 229-238. doi.10.1023/A:1023254226592

Connor, P. D., Nouer, S. S., Mackey, S. T. N., Tipton, N. G. og Lloyd, A. K. (2011). Psychometric properties of an intimate partner violence 55 tool for health care students. Journal of Interpersonal Violence, 26(5), 1012-1035. doi:10.1177/0886260510365872

DeVellis, R.F. (2016). Scale development: Theory and applications. Sage Publishing. Einar Guðmundsson. (2006). Þýðing og staðfærsla sálfræðilegra prófa. Sálfræðiritið – Tímarit Sálfræðingafélags Íslands, 10-11, 23-40.

Elísabet Karlsdóttir og Ásdís A. Arnalds. (2010). Rannsókn á ofbeldi gegn konum Reynsla kvenna á aldrinum 18-80 ára á Íslandi. https://rafhladan.is/bitstream/handle/10802 /7349/26012011_Ofbeldi_a_konum.pdf?sequence=1

Field, A. (2017). Discovering Statistics Using IBM SPSS Statistics (5. útgáfa). SAGE Publishing.

Guðmundur T. Heimisson (2021a). Gerð og þróun mælitækja á spurningalistaformi. Í Sigríður Halldórsdóttir (Ritstjóri), Rannsóknir: Handbók í aðferðafræði (bls. 603-615). Háskólinn á Akureyri.

Guðmundur T. Heimisson (2021b). Réttmæti og áreiðanleiki í megindlegum rannsóknum. Í Sigríður Halldórsdóttir (ritstjóri). Rannsóknir, handbók í aðferðafræði (bls 443–454). Háskólinn á Akureyri. Hair, J.F., Black, W.C., Babin, B.J., og Anderson, R.E. (2019). Multivariate Data Analysis (8. útgáfa). Cengage.

Hambleton, R. K., (2005). Issues, Designs, and Technical Guidelines for Adapting Tests Into Multiple Languages and Cultures. Í R.K. Hambleton, P.F. Merenda og C.D. Spielberger (ritstjórar), Adapting Educational and Psychological Tests for Cross-Cultural Assessment (bls 3–38). Lawrence Erlbaum Associates. Hjördís Sigursteinsdóttir (2021). Úrtök og úrtaksaðferðir í megindlegum rannsóknum. Í

Sigríður Halldórsdóttir (ritstjóri), Rannsóknir: Handbók í aðferðafræði (bls. 429-442). Háskólinn á Akureyri.

IBM (2021). IBM SPSS Statistics for Windows, útgáfa 28.0. IBM Corp International Test Commission. (2017). The ITC Guidelines for Translating and Adapting Tests (Second edition). https://www.intestcom.org/files/guideline_test_adaptation_2ed.pdf Jonsdottir, Sigridur Sia (2019). Effects of perinatal distress, satisfaction in partner relationship and social support on pregnancy and outcome of childbirth, [doktorsverkefni Linnaeus University]. https://opinvisindi.is/handle/20.500.11815/1214 Kolbrún Kristiansen. (2010). Í erli dagsins. Þolendur ofbeldis sem leita til Slysa- og bráðadeildar Landspítalans. Í Erla Kolbrún Svavarsdóttir (ritstjóri). Ofbeldi: margbreytileg birtingarmynd (bls. 61–83). Háskólaútgáfan.

McAndrew, M., Pierre, G. C. og Kojanis, L. C. (2014). Effectiveness of an online tutorial on intimate partner violence for dental students: A pilot study. Journal of Dental Education, 78(8), 1176-1181. PMID: 25086151.

Nunnally, J. C. (1978). Psychometric theory. McGraw-Hill.

Nunnally, J. C., og Bernstein, I.H. (1994). Psychometric theory (2. útg.). New York: McGraw-Hill.

Papadakaki, M., Petridou, E., Kogevinas, M. og Lionis, C. (2013). Measuring the effectiveness of an intensive IPV training program offered to greek general practitioners and residents of general practice. BMC Medical Education, 13(1), doi:10.1186/1472-6920- 13-46

Papadakaki, M., Prokopiadou, D., Petridou, E., Kogevinas, M. og Lionis, C. (2012). Defining physicians' readiness to screen and manage intimate partner violence in greek primary care settings. Evaluation and the Health Professions, 35(2), 199-220. doi:10.1177/0163278711423937

Páll Biering. (2012). Ofbeldi í nánum samböndum. Mat og viðbrögð. Klínískar leiðbeiningar https://www.landspitali.is/fagfolk/reglur-leidbeiningar-handbaekur-og-frettabref/ kliniskar-leidbeiningar/

Rodríguez-Blanes, G.M., Vives-Cases, C., Miralles-Bueno, J.J., San Sebastián, M., og Goicolea, I. (2017). Detección de violencia del compañero íntimo en atención primaria de salud y sus factores asociados. Gaceta Sanitaria, 31, 410-415. doi:10.1016/j.gaceta.2016.11.008

Sawyer, S., Coles, J., Williams, A., Lucas, P. og Williams, B. (2017). Paramedic students' knowledge, attitudes, and preparedness to manage intimate partner violence patients. Prehospital 61 Emergency Care, 21(6), 750-760. doi:10.1080/10903127.2017.1332125

Short, L.M., Alpert, E., Harris Jr., J.M. og Surprenant, Z.J. (2006). A tool for measuring physician readiness to manage intimate partner violence. American Journal of Preventive Medicine, 30(2), 173-180. doi:10.1016/j.amepre.2005.10.009

Wild, D., Grove, A., Martin, M., Eremenco, S., McElroy, S., Verjee-Lorenz, A. og Erikson, P. (2005). Principles of good practice for the translation and cultural adaptation process for patient-reported outcomes (PRO) measures: report of the ISPOR Task Force for Translation and Cultural Adaptation. Value in health, 8(2), 94-104. doi. org/10.1111/j.1524-4733.2005.04054.x

World Health Organization. (2021, 9.mars). Violence against women. https://www.who.int/ en/news-room/fact-sheets/detail/violence-against-women

„Suma

daga nær maður ekki höfðinu upp úr vatninu“

Reynsla hjúkrunarfræðinga af starfi teymisstjóra í heimahjúkrun

doi: 10.33112/th.100.2.4

ÚTDRÁTTUR

Heimahjúkrun er þjónustuform sem ætlað er að mæta hjúkrunarþörfum og aðstoða skjólstæðinga við að vera sem mest sjálfbjarga heima. Teymisstjórar í heimahjúkrun hafa yfirumsjón með ákveðnum teymum sem fara inn á heimili fólks og bera ábyrgð á að skjólstæðingar fái þá þjónustu sem þeir þurfa

Tilgangur

rannsóknarinnar var að skoða starf teymisstjóra heimahjúkrunar til að varpa ljósi á umfang og ábyrgð starfsins og hvaða leiðsögn og stuðning teymisstjórar fengu til að takast á við starfið.

Aðferð

Notuð var eigindleg aðferðafræði þar sem tekin voru viðtöl við 10 starfandi teymisstjóra innan heimahjúkrunar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Við greiningu gagna var stuðst við vinnulag grundaðrar kenningar og niðurstöður settar fram í flokkum.

Niðurstöður

Þrír meginflokkar komu fram, hver með tveimur undirflokkum, umfang starfsins, flókin vinnuaðstaða og stuðningur og skipulag. Teymisstjórunum gekk misjafnlega að hafa yfirsýn yfir allt sem tilheyrði starfinu og að forgangsraða verkefnum. Við það skapaðist álag sem meðal annars leiddi til þess að mörgum reyndist erfitt að skilja á milli vinnu og einkalífs.

Dæmi voru um að teymisstjórar upplifðu kvíða þegar umfangið varð of mikið. Einnig gat verið áskorun að viðhalda dagskipulagi og bregðast við breytingum með stuttum fyrirvara. Starfsaðstæður í heimahúsum voru mismunandi og aðstæður til hjúkrunar oft erfiðar. Teymisstjórar fengu litla aðlögun í upphafi starfs en meirihluti þeirra var með stutta starfsreynslu.

Stuðningur fyrir teymisstjórana var þó til staðar ef þeir báru sig eftir honum sjálfir.

Ályktanir

Teymisstjórastarfið er umfangsmikið starf og töluvert álag sem því fylgir. Niðurstöður sýndu að hlúa þarf betur að teymisstjórum og þá sérstaklega þeim sem eru nýir í starfi og veita þarf betri stuðning til þess að takast á við þetta krefjandi starf.

Lykilorð

Teymisstjóri, eigindleg rannsókn, grunduð kenning, starfsaðstæður, stjórnun.

HAGNÝTING RANNSÓKNARNIÐURSTAÐNA

Nýjungar rannsóknar: Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á umfang starfs teymisstjóra í heimahjúkrun og hvaða stuðning þeir fá við að að koma sér inn í starfið og takast á við krefjandi aðstæður.

Hagnýting niðurstaðna: Niðurstöðurnar geta veitt mikilvægar upplýsingar fyrir yfirstjórn heilsugæslunnar með því að varpa ljósi á umfang og ábyrgð starfs teymisstjóra og á hvaða hátt er best að veita þeim leiðsögn og stuðning.

Þekkingarleg viðbót: Niðurstöðurnar eru mikilvæg viðbót til fræðasamfélagsins og innlegg í umræðu til að takast á við sívaxandi hjúkrunarþyngd í starfsemi heimahjúkrunar á Íslandi.

Áhrif á störf: Niðurstöðurnar gefa ákveðna mynd af áhrifum starfsumhverfis á störf teymisstjóra og hvernig umhverfisþættir geta haft áhrif á líðan þeirra við að starfa í heimahúsum.

Höfundar

SUNNA KRISTINSDÓTTIR1,2 teymisstjóri endurhæfingar hjá Reykjavíkurborg

HJÖRDÍS SIGURSTEINSDÓTTIR1 dósent í stjórnun, Heilbrigðis-, viðskipta og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri

OLGA ÁSRÚN STEFÁNSDÓTTIR1 aðjúnkt við iðjuþjálfunarfræðideild, Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri

1Háskólinn á Akureyri 2Reykjavíkurborg

„Suma daga nær maður ekki höfðinu upp úr vatninu“ Reynsla hjúkrunarfræðinga af starfi teymisstjóra í heimahjúkrun

INNGANGUR

Heilbrigðiskerfið er í stöðugri þróun til að mæta þörfum notenda en eitt þjónustuform sem boðið er upp á er heimahjúkrun. Slík þjónusta er hugsuð til þess að aðstoða skjólstæðinga við að vera sem mest sjálfbjarga heima og fyrirbyggja frekari heilsubrest sem myndi kalla á aukna þjónustu (Kristinsdottir o.fl., 2021). Sú stefna að einstaklingar búi sem lengst heima hefur í för með sér að hjúkrunarþyngd þeirra skjólstæðinga sem fá heimahjúkrun er að aukast og þeim fylgja iðulega áhyggjufullir ættingjar sem einnig þarf að sinna (Kristinsdottir, o.fl., 2021; Martinsen o.fl., 2018).

Innan heimahjúkrunar hér á landi eru ákveðin teymi sem sjá um að fara á heimili fólks. Yfir þessum teymum eru teymisstjórar sem bera ábyrgð á því að skjólstæðingar fái þá þjónustu sem þeir þurfa og hafa umsjón með starfsfólkinu sem teyminu tilheyrir. Teymisstjórar eru skilgreindir sem millistjórnendur á stjórnendastigi sem standa næst skjólstæðingum og starfsfólki sem sinnir klínísku starfi (Birken o.fl., 2018). Rannsóknir sýna að æðstu stjórnendur og millistjórnendur í heilbrigðisþjónustu upplifa togstreitu og álag í starfi og á milli vinnu og einkalífs í meira mæli en þeir heilbrigðisstarfsmenn sem ekki hafa stjórnunarskyldur (Hartviksen o.fl., 2020; Peter o.fl., 2020). Auk þess upplifa stjórnendur á lægri stjórnendastigum minni starfsánægju, miklar líkamlegar og andlegar kröfur, aukin líkamleg álagseinkenni og minni fyrirsjáanleika yfir vinnudaginn heldur en þeir heilbrigðisstarfsmenn sem engar stjórnunarskyldur hafa (Peter o.fl., 2020).

Í langflestum tilvikum eru það hjúkrunarfræðingar sem sinna teymisstjórastarfi samhliða því að veita hjúkrunarþjónustu til skjólstæðinga í heimahúsi en einnig getur verið um annars konar fagmenntun teymisstjóra að ræða. Af teymisstjórum er krafist að þeir hafi yfirsýn yfir hjúkrunarþarfir skjólstæðinga sem tilheyra þeirra teymi, skipuleggi þá þjónustu sem veita á og haldi utan um starf annarra teymismeðlima (Kristín Björnsdóttir, 2011). Teymisstjórar þurfa einnig að standa vörð um hagsmuni starfsfólks teymisins, til dæmis með því að koma á samræmdum kröfum um öryggisráðstafanir og aðbúnað í heimahúsum (Larsson o.fl., 2018). Aukalega fylgir starfinu mikil pappírsvinna og samskipti við marga aðila sem viðkemur skjólstæðingum (Kristín Björnsdóttir, 2018). Í rannsókn sinni lýsir Kristín Björnsdóttir (2018) hvernig starf teymisstjóra er í eðli sínu tengslastarf þar sem leitast er við að samhæfa og tengja störf hinna fjölmörgu fagaðila sem koma að meðferð og aðstoð og fjölskyldu og vina til að mynda heildstætt net aðstoðar. Þetta krefst flókinnar þekkingar og færni á sviði hjúkrunar sem teymisstjórar í heimahjúkrun þurfa að búa yfir og þau gildi sem höfð eru í heiðri (Kristín Björnsdóttir, 2018; Kristín Björnsdóttir o.fl., 2021). Af fyrrgreindu má telja að teymisstjórn í heimahjúkrun hjá Heilsugæslu Höfðuborgarsvæðisins sé umfangsmikið stjórnendastarf

og geti verið yfirþyrmandi að bera ábyrgð á öllu í senn; gæðum þjónustunnar, starfsfólki og skipulagi (Solbakken o.fl., 2019). Að takast á við ófullnægjandi mönnun og veikindi starfsfólks sem hefur mikil áhrif á dagskipulagið (Nakrem og Kvanneid, 2022) veldur auknu álagi á stjórnendur og leiðir til að starfsfólk teymisins nær síður að sinna skjólstæðingsmiðaðri nálgun (Backman o.fl., 2020). Skipulagsvinna teymistjóra í heimahjúkrun er því bæði flókin og ófyrirsjáanleg og krefst aukinnar skipulagshæfni, samvinnu og klínískrar færni til að tryggja samstilltar aðgerðir í samræmi við þarfir hvers sjúklings (Norlyk o.fl., 2023).

Þegar fólk þiggur þjónustu í heimahúsi verður heimili þess vinnustaður starfsfólksins (Persson o.fl., 2018). Starfsfólk þarf oft að sýna mikið umburðarlyndi og sætta sig við erfiðar vinnuaðstæður (Kristín Björnsdóttir, 2020) því mörg hús eru komin til ára sinna og ekki hentug til að veita aðhlynningu og hjúkrun. Ólíkir umhverfisþættir hafa áhrif á færni starfsfólks til að sinna skjólstæðingum og aðstandendum þeirra (Solbakken o.fl., 2019), svo sem skipulag húsnæðis og stærð rýmis til athafna og aðgengi til að nota hjálpartæki. Auk þess hefur verið sýnt fram á að margir stjórnendur í heimahjúkrun hafa ekki nægan tíma til að uppfylla lagaleg skilyrði eins og skráningu (Ree o.fl., 2019). Þá er sparnaðarkrafa oft hávær og gjarnan á kostnað umönnunar og þjónustu til skjólstæðinga (Hartviksen o.fl., 2020; Ree o.fl., 2019). Starfsaðstæður sem eru ekki styðjandi eða ákjósanlegar, auka álag sem getur valdið neikvæðum áhrifum á heilsu starfsfólksins (Mehrotra o.fl., 2021). Hæft og reynslumikið starfsfólk í hjúkrun og góð innleiðing í starfið er lykilforsenda gæði þjónustu við skjólstæðinga (Nakrem og Kvanneid, 2022) og gæði menntunar (WHO, 2016). Fyrri rannsóknir hafa til dæmis bent á að hjúkrunarfræðingar í millistjórnendastöðum á norskum hjúkrunarheimilum hafi sjaldan menntun eða reynslu af stjórnun við upphaf starfs sem getur leitt til óöryggis í starfi sem stjórnandi þrátt fyrir að búa yfir reynslu af hjúkrun (Hartviksen o.fl., 2020). Því er mikilvægt að styðja starfsfólk í að auka færni sína í starfi og veita starfsfólki í stjórnendastöðum stuðning (Moriano o.fl., 2021). Markviss stuðningur til starfsfólks, líkt og handleiðsla eða regluleg starfstengd ráðgjöf, getur aukið starfsánægju og þróun í starfi (Martin o.fl., 2021). Einnig stuðla skýrar verklagsreglur að öruggara starfsumhverfi fyrir starfsfólkið (Larsson o.fl., 2018; White o.fl., 2020) og koma í veg fyrir ágreining eða álag vegna mismunandi sýnar á verkefni þess (Larsson o.fl., 2018). Á þeim tíma sem rannsóknin var framkvæmd voru starfandi 11 teymi í heimahjúkrun hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins. Fjöldi skjólstæðinga innan hvers teymis getur hlaupið á bilinu 50–90 manns. Innan stofnunarinnar vinna tvö teymi saman, systrateymi, og er þeim ætlað að leysa hvort annað af þegar á þarf að halda. Starfsmannafjöldi hvers teymis er mismunandi og er matsatriði eftir hjúkrunarþyngd skjólstæðinga hverju sinni. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða starf teymisstjóra heimahjúkrunar til þess að varpa ljósi á umfang og ábyrgð starfsins og hvaða leiðsögn og stuðning teymisstjórar fengu til þess að takast á við starfið með eftirfarandi rannsóknarspurningum:

1) Hver er reynsla hjúkrunarfræðinga af starfi teymisstjóra í heimahjúkrun hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins? 2) Hvaða leiðsögn og stuðning fá teymisstjórar til að takast á við áskoranir sem tengjast starfsfólki teymisins eða skjólstæðingum og aðstandendum þeirra?

AÐFERÐ

Notuð var lýsandi eigindleg aðferðarfræði þar sem stuðst var við vinnulag grundaðrar kenningar (e. grounded theory) og nálgun Charmaz (2014) notuð við greiningu gagna. Eigindleg aðferð þótti einnig henta vel til að fá innsýn inn í þá merkingu sem teymisstjórarnir leggja í líf sitt og starfsaðstæður (Creswell og Poth, 2018).

Þátttakendur

Þátttakendur í rannsókninni voru valdir með tilgangsúrtaki (e. purposive sampling) með það í huga að þeir hefðu persónulega reynslu og þekkingu á rannsóknarefninu (Katrín Blöndal og Sigríður Halldórsdóttir, 2021). Lögð var áhersla á að ná sem mestri breidd í reynslu þátttakenda af teymisstjórn og þess vegna var ekki gerð krafa um ákveðið langa starfsreynslu. Skilyrði fyrir þátttöku voru að vera fastráðinn í starfi teymisstjóra í heimahjúkrun. Rannsakandi kynnti rannsóknar hugmyndina með ítarlegu kynningarbréfi á fundi með yfirmönnum heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu og starfandi teymisstjórum. Í framhaldinu var öllum 11 teymisstjórunum boðin þátttaka í rannsókninni og samþykktu tíu þeirra þátttöku, allt konur á aldrinum 29-67 ára. Einn teymisstjóri sinnti starfinu tímabundið í afleysingu og var því ekki boðin þátttaka í rannsókninni. Starfsreynsla þátttakenda sem teymisstjóri í heimahjúkrun var frá þremur mánuðum og upp í 15 ár en aðeins höfðu þrír teymisstjórar lengri en tveggja ára starfsreynslu.

Gagnaöflun og gagnagreining

Gagnaöflun fór fram í janúar og febrúar 2023 og tekið eitt viðtal við hvern þátttakenda. Stuðst var við hálfopinn (e. semi structured) viðtalsramma þar sem meðal annars var spurt um reynslu af starfinu. Einnig var spurt hve lengi þeir höfðu starfað sem teymisstjórar, um helstu áskoranir og hindranir, hvernig gengi að axla þá ábyrgð sem starfinu fylgir, jákvæða og neikvæða þætti starfsins og hvaða leiðsögn og stuðning þeir fengu til þess að takast á við áskoranir sem tengjast starfsfólki teymisins, skjólstæðingum og aðstandendum þeirra. Viðtölin voru á bilinu 30 til 50 mínútur, voru hljóðrituð og rituð orðrétt upp.

Greining gagna var framkvæmd í samræmi við fimm fyrstu skrefin í grundaðri kenningu samkvæmt Charmaz (2014). Gagnagreining fór fram samhliða gagnaöflun en fyrsti höfundur leiddi greininguna í nánu samstarfi við meðrannsakendur með það að markmiði að greina reynslu og ferli í stað þess að greina þemu. Til að fá heildarmynd var hvert viðtal lesið vandlega yfir áður en næsta viðtal var tekið og skrifuð greiningarblöð. Viðtölin voru kóðuð í upphafskóðun og markvissa kóðun með því að nota stöðugan og endurtekinn samanburð í hverju viðtali og á milli viðtala til þróunar á afleiddum hugtakaflokkum. Að lokum voru þrír lykilflokkar skilgreindir: 1) ,,Umfang starfsins“ sem vísar til þess að teymistjórarnir áttu í erfiðleikum með að halda yfirsýn og að taka ekki vinnuna með sér heim. 2) ,,Flókin vinnuaðstaða“ fjallar um hve flókin vinnuaðstaða teymisstjóranna er þegar farið er inn í mismunandi aðstæður á heimili skjólstæðinga og dagskipulag getur breyst með litlum fyrirvara. 3) Síðasti flokkurinn er ,,Stuðningur og skipulag“ og lýsir því hve teymisstjórarnir töldu bæði mikilvægt að fá aðlögun í upphafi starfs og hafa stuðning í starfi. Í þessari rannsókn voru tekin 10 viðtöl og að þeim loknum var ljóst að mettun hefði verið náð eftir átta viðtöl þar sem ekkert nýtt kom fram í síðustu tveimur viðtölunum.

Siðfræði

Allir þátttakendur fengu kynningarbréf um rannsóknina og skrifuðu undir upplýst samþykki um þátttöku áður en viðtölin hófust. Tekið var fram að frjálst væri að hætta þátttöku hvenær sem væri í ferlinu án útskýringa. Þátttakendum voru gefin rannsóknarnöfn og starfsaldri aðeins skipt í tvennt (tvö ár eða minna og meira en tvö ár) til að tryggja nafnleynd. Viðtölin voru tekin upp með leyfi þátttakenda og hljóðupptökum eytt strax eftir að viðtöl höfðu verið rituð upp. Rannsóknin var ekki leyfisskyld hjá Vísindasiðanefnd. Farið var eftir lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga (nr. 90/2018) og reglugerð um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði (nr. 286/2008) til að tryggja rétt þátttakenda.

NIÐURSTÖÐUR

Niðurstöður endurspegluðu reynslu hjúkrunarfræðinga af starfi teymisstjóra og hvaða þættir höfðu helst áhrif á störf þeirra innan heimahjúkrunar. Niðurstöður greininga leiddu til þriggja meginflokka: 1) Umfang starfsins sem lýsir því hvernig teymisstjórunum gekk að halda yfirsýn yfir þá þætti sem falla undir hlutverk teymisstjóra og hvernig þeim gekk að skilja á milli vinnu og einkalífs. 2) Flóknar starfsaðstæður sem vísa til síbreytilegs dagskipulags og mismunandi starfsaðstæðna á heimilum skjólstæðinga. 3) Stuðningur og skipulag sem lýsir upplifun teymisstjóra af innleiðingu og stuðningi í upphafi starfs til þess að takast á við áskoranir tengdar starfinu. Mynd 1 sýnir meginflokka og undirflokka.

1. Umfang starfsins

- Að halda yfirsýn

- Að taka vinnuna með heim

2. Flókin vinnuaðstaða

- Að takast á við dagskipulagið

- Að takast á við mismunandi aðstæður á heimilum

Mynd 1. Meginflokkar og undirflokkar.

Umfang starfsins

Að halda yfirsýn

3. Stuðningur og skipulag

- Að fá aðlögun í upphafi starfs

- Að fá stuðning í starfi

og hjúkrunarþyngdin orðin meiri. Einn viðmælandi lýsti að þegar mest var hafði fjöldi skjólstæðinga farið upp í 90 manns í hans teymi. Samfara auknum umsvifum urðu verkefnin fleiri. Sem dæmi nefndu þeir að sinna RAI-mati (Heildrænt hjúkrunarheimilismat, e. InterRAI Homecare) fyrir alla nýja skjólstæðinga og svo endurmati eftir þrjá og sex mánuði. Það krefst ítarlegrar upplýsingaöflunar um skjólstæðinga og útfylling á þessu mati getur því verið tímafrek. Þeim þótti erfitt að ná að sinna RAI-mati á réttum tíma, auk allra annarra verkefna sem þurfti að sinna.

Leitast var við að hafa hjúkrunarfræðinga aukalega á vakt til að geta sinnt þeim vitjunum þar sem þörf var á hjúkrunarfræðingi til að létta á vitjanabyrði teymisstjóra. Allir viðmælendur voru á einu máli um mikilvægi þessarar aðstoðar en fram kom að aukalegur hjúkrunarfræðingur væri sjaldan til staðar þótt vaktaskýrsla gerði ráð fyrir því. Teymisstjórar upplifðu sig sjaldan geta treyst á að nauðsynleg mönnun væri til staðar og voru sífellt í viðbragðsstöðu til að taka á sig vitjanir og verkefni sem varð að sinna innan teymisins og jafnvel afleysingu fyrir systrateymið, auk daglegrar stjórnunar. Það þýðir að teymisstjórar þurftu að auki að þekkja málefni systrateymisins til þess að geta leyst þar af ef á þurfti að halda. Gróa lýsti vel álaginu sem þessu fylgdi:

Já þá finnur maður, til dæmis, ef eru veikindi, ef annar teymisstjórinn dettur út að það er miklu meira álag. Þó að ég þekki teymið þá man ég ekkert endilega þjónustuþörfina hjá skjólstæðingunum og þetta er mikið álag. Ég myndi ekki meika að vera lengi ein með tvö teymi

Teymisstjórarnir upplifðu þó flestir stuðning frá systrateyminu sínu og sögðu gott að geta rætt ýmis skjólstæðingsmál við hinn teymisstjórann, skiptast á skoðunum varðandi skipulag og fá aðstoð. Hins vegar þótti þeim illgerlegt að leysa hvorn annan af til lengri tíma til dæmis vegna sumarfría. Lína deildi reynslu sinni:

Mér finnst það bara ekki gott og ef ég á að segja alveg eins og er þá kvíði ég fyrir sumrinu því í fyrsta lagi fáum við bara fjórar vikur og þurfa svo að vera með tvöfaldan fjölda af skjólstæðingum í fjórar vikur þegar við erum að vinna. Það bara liggur við að maður nenni þá bara ekki að vera í sumarfrí.

Teymisstjórarnir lýstu starfinu sem viðamiklu og krefjandi og í mörg horn að líta. Skipuleggja þurfti dagana fyrir starfsfólk teymisins, fylgjast með breytingum á hjúkrunarþörfum skjólstæðinga, sinna vitjunum ásamt því að vera í samskiptum við marga aðila á borð við aðrar heilbrigðisstofnanir, félagsþjónustu og ættingja skjólstæðinga. Eftir því sem teymin urðu stærri varð erfiðara að hafa yfirsýn yfir öll skjólstæðingsmál, skrá og uppfæra þjónustuþætti fyrir hvern aðila og koma upplýsingum áfram til teymismeðlima. Diljá sagði: „Þú getur ekki verið að halda utan um starfsfólkið og alla skjólstæðingana, það er bara ekki hægt“ og varð þá tilfinningin um að vera gleyma einhverju ráðandi. Bogga sagði: „Suma daga nær maður ekki höfðinu upp úr vatninu en aðra daga þá gengur þetta ótrúlega vel“.

Þær sem höfðu verið lengst í starfi teymisstjóra fundu fyrir auknum umsvifum, fjöldi skjólstæðinga í hverju teymi hafði aukist, tíminn sem gafst til að sinna hverjum og einum var styttri

Að taka vinnuna með heim Umfang starfsins og sú rökleiðsla sem fór fram við að finna lausnir og halda utan um nauðsynlegar upplýsingar varð til þess að flestir teymisstjórarnir áttu erfitt með að hafa jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Diljá tók fram að það væri misjafnlega mikið sem hún tæki vinnuna með sér heim en fann fyrir því að ef mál skjólstæðinga voru erfið, eins og að glíma við krabbamein, þá ætti hún erfitt með að skilja slíkt eftir í vinnunni í lok dags. Fanney hafði á orði að sem teymisstjóri væri hún í vinnunni allan sólarhringinn en með tímanum væri hún meðvitaðri um að setja sér mörk. Þrátt fyrir það átti hún samt sem áður í erfiðleikum með að skilja að vinnu og einkalíf og lýsti því svo:

Það er kannski bara þetta að vera aldrei alveg laus úr vinnunni, að vera alltaf með hausinn svolítið fastan hérna, mér finnst það svolítið mikið og stór „challenge“.

Hjá þremur teymisstjórunum var tilfinningin að vera alltaf í vinnunni það sterk að það truflaði nætursvefn eða samverustundir með fjölskyldunni, sérstaklega ef þeim fannst þeir vera að gleyma einhverju í tengslum við vinnuna. Hanna og Ingibjörg bentu á að teymisstjórar bæru alla ábyrgð og væru einir með mikið af

upplýsingum sem þyrfti að muna. Þetta gat valdið kvíða ef upp komu aðstæður þar sem teymisstjóri sá sér ekki fært að mæta til vinnu. Ingibjörg upplifði sig því ómissandi því það var svo margt sem ekki væri skráð heldur hlutir sem hún þyrfti að halda utan um og muna. Hún fékk því kvíða og samviskubit þá daga sem hún sá ekki fram á að geta mætt.

Flóknar starfsaðstæður

Að takast á við dagskipulagið

Teymisstjórum fannst mikilvægt að létta á álagi á sjúkraliðum þegar farið var að bera á þreytu gagnvart skjólstæðingum með mikla hjúkrunarþyngd og reyndu að koma til móts við óskir þeirra. Ingibjörg sagði:

Það eru alltaf föst plön en við erum búnar að vera duglegar að laga til plönin ef það er eitthvað og þær hafa t.d. bara verið duglegar að skipta böðum ef einhver er búin að vera í marga mánuði þar sem er þungt og er komin þreyta og vill kannski bara aðeins létta á dögunum.

Stundum var þó lítið svigrúm til að bregðast við og hliðra til í dagskránni en veikindi starfsfólks og skyndilegar breytingar í teymi hvað varðaði heilsufar skjólstæðinga höfðu þau áhrif að sjaldan var hægt að létta á álaginu. Endurskipuleggja þurfti daginn með stuttum fyrirvara og bæta vitjunum á starfsfólk. Hvað þetta varðar kom fram að veikindi starfsfólks í einu teymi gátu haft áhrif á hin teymin þar sem að þá þurfti að samnýta starfsfólk. Erna lýsir þessu: „Svo þegar eru veikindi þá þarf maður að deila heilu plönunum, það er ekki oft auka mönnun og þá þarf maður að deila yfir á hin teymin“. Erna upplifði stundum ríg á milli teyma þegar þessar aðstæður komu upp og lýsti hún því að slíkt ætti að vera óþarfi á einum og sama vinnustaðnum. Þétt dagskipulag hafði einnig þau áhrif að erfitt gat verið að mæta því ef upp komu óvænt vandamál hjá skjólstæðingum. Í slíkum tilvikum gat verið erfitt að fá starfsmann til að sinna því með stuttum fyrirvara og því lentu slíkar vitjanir oftar en ekki á teymisstjórum. Ingibjörg lýsti létti þegar fækkaði aðeins skjólstæðingum í teyminu hennar:

Akkúrat núna eru margir ekki heima og þá finn ég hvað það gerir mína vinnu miklu léttari þegar stundataflan er ekki alveg full og líka bara ef einhver hringir og ég get sagt: „heyrðu, ég skal biðja hana að kíkja á þig“. Maður getur bara veitt betri þjónustu þegar ekki er allt í botni.

Þegar dagskipulagið var þétt fór gjarnan dýrmætur tími í langar boðleiðir. Langan tíma gat tekið að ná sambandi við lækna eða aðrar heilbrigðisstofnanir sem komu að málefnum skjólstæðinga. Skráningarkerfið reyndist ekki vera nægilega skilvirkt og upplifun teymisstjóra var að þurfa að skrá sömu upplýsingar á fleiri en einn stað eða eins og Fanney sagði: „Við erum ekki með neitt á einum stað lengur og það er þessi tvískráning alls staðar“.

Að takast á við mismunandi aðstæður á heimilum skjólstæðinga Teymisstjórarnir greindu frá margs konar áskorunum við að starfa inni á heimilum fólks sem gæti verið leið til að vaxa í starfi en að sama skapi ýttu undir streitu og álag. Vegna þess hve fjölbreyttur skjólstæðingahópurinn var upplifðu teymisstjórarnir sig þurfa að vera tilbúnir til að takast á við allt mögulegt. Hjúkrunarþarfir skjólstæðinga voru margs konar og þurftu teymisstjórarnir oft að tileinka sér fljótt nýja þekkingu og leikni, líkt og Ingibjörg sagði: „Það þarf að vera með opinn huga og vera tilbúin til að stíga inn í alls konar vélar, tæki og tól“. Og Hanna tók í sama streng: „Það er

bara allt, maður sér allt. Það er líka jákvætt, maður verður alger „expert“ í alls konar, og bara það sem er inni á borðinu bara núna, maður verður sjúklega klár í því“.

Aðstæður voru mismunandi heima hjá fólki og aðgengi til að sinna hjúkrun var oft takmarkað, sérstaklega í eldri eða litlum íbúðum. Það reyndi því á hyggjuvit starfsfólks sem þurfti að vera lausnamiðað og finna leiðir svo hægt væri að mæta þörfum skjólstæðinga og tryggja um leið viðunandi vinnuaðstæður. Karítas nefndi:

Þeim er að fækka þessum húsnæðum sem eru alveg eiginlega fáránleg hvað varðar hjúkrun. Maður getur ekki alltaf búist við að þetta sé fullkomið, þetta eru heimili fólks, maður getur ekki ætlast til þess að aðstæður séu eins og á spítalanum.

Þrír teymisstjórar töluðu einnig um mikilvægi viðeigandi hjálpartækja inni á heimilum og samvinnu við aðrar heilbrigðisstéttir, svo sem iðjuþjálfa, til að aðlaga umhverfið og styðja þannig bæði við starfsfólk og þá sem búa á heimilinu. Samt sem áður var vinnurýmið sjaldan eins og best væri á kosið. Átti það líka við um aðstæður til að taka á móti símtölum og skrá niður upplýsingar varðandi skjólstæðinga. Áreiti var oft mikið frá símanum, bæði þegar aðrir teymismeðlimir hringdu til að fá leiðsögn eða heilbrigðisstofnanir með upplýsingar um ákveðna skjólstæðinga. Þetta kom skýrt fram í viðtalinu við Önnu sem upplifði sig sjaldan hafa „back-up“ eða í aðstæðum til að taka á móti og skrá mikilvægar upplýsingar:

Svo náttúrlega líka þú ert í vitjunum, þú ert samt með símann og þú átt einhvern veginn alltaf að vera til taks og svara sjúkraliðunum, þær hringja, svo er kannski heilsugæslan að hringja, læknir er að hringja, MS setrið og þú ert sjálf bara í vitjun. Ég væri til í að geta svarað núna en bara get það ekki. Mann vantar pínu „back-up“.

Það sama átti við ef óvænt atvik komu upp í vitjunum hjá fólki, þá þótti Önnu erfitt að hafa ekki liðsinni annars starfsfólks og upplifði sig eina bera ábyrgð á hjúkrun og verkþáttum sem voru fyrir utan hennar þekkingarsviðs. Það reyndi því á að finna lausnir á vandanum og vinna með þá þætti og þekkingu sem teymisstjórarnir höfðu yfir að ráða.

Stuðningur og skipulag

Að fá aðlögun í upphafi starfs

Vegna þess hversu yfirgripsmikið starfið reyndist vera töldu allir teymisstjórarnir mikilvægt að nýtt starfsfólk fengi góða innleiðingu í hlutverkið. Það reyndist hins vegar vera ábótavant, flestir töldu sig ekki hafa fengið aðlögun við hæfi og lýstu því að vera „hent út í djúpu laugina“. Diljá sagði: „Ég fékk eiginlega enga aðlögun, þetta voru tveir dagar“.

Þá kom fram að þó að aðlögun væri stutt væri mikið magn upplýsinga sem þyrfti að ná yfir en Lína lýsti sinni upplifun: „Þú þarft að taka inn gríðarlegt magn af upplýsingum [...] og maður situr bara með hausinn á yfirsnúningi og það er ekki séns að ná utan um þetta sko“.

Þótt flestir teymisstjórar hafi komið inn í starfið með reynslu annars staðar frá var margt öðruvísi frá fyrri reynslu sem þurfti að setja sig inn í og óljóst hvað nákvæmlega tilheyrði þeirra starfi. Þessu lýsti Anna:

Þótt ég þekki kannski verkefnin sem ég á að fara í, eins og vitjanir og svona og hvað þarf að gera svona flest, eins og þvagleggsskipti og sáraskipti, þú veist allt þetta „basic“, en svona allt þetta umfang í kringum starfið, mér fannst ég svolítið lengi að átta mig á því hvað ég átti að vera að gera.

Starfslýsing teymisstjóra var til að mynda ekki nægjanleg skýr og það tók nokkra af teymisstjórunum töluverðan tíma að gera sér fyllilega grein fyrir hlutverkum sínum þegar þeir hófu störf. Diljá og Bogga nefndu að þær fyndu fyrir reynsluleysi hjá þeim teymisstjórum sem höfðu ekki starfað lengi og að það bæri á úrræðaleysi hjá þeim, sem stuðlaði að auknu álagi á samstarfsfólk. Flestir teymisstjórar nefndu að þeir reyndu að vera duglegir að spyrja samstarfsfólk og systrateymisstjóra ef þá vantaði upplýsingar og lýstu góðum stuðningi frá nánasta samstarfsfólki.

Að fá stuðning í starfi

Teymisstjórar sóttu mikið í stuðning frá samstarfsfólki ef vantaði ráð tengd ákveðnum sviðum hjúkrunar til skjólstæðinga. Ef upp komu ágreiningsmál tengd skjólstæðingum og/eða starfsfólki eða áföllum sem starfsfólk varð fyrir tengt skjólstæðingum eða inni á heimilum reyndist óljósara hvert hægt væri að leita eftir stuðningi eða hvers konar verklagi ætti að fylgja. Í þessu samhengi kom skortur á stuðningi frá stjórnendateymi til tals í mörgum viðtölum.

Erna hafði sjálf leitað eftir að fá handleiðslu en fannst vanta að slíkt væri í boði á vinnustaðnum, sérstaklega í tengslum við svo erfið mál, hún sagði:

Það vantar svolítið held ég, eins og ég lenti í, að það var einn í teyminu mínu sem framdi sjálfsmorð og það kannski hefði eitthvert ferli átt að fara í gang, þegar þú lendir í því, Það ætti eiginlega eitthvert ferli að fara í gang.

Þegar leið á viðtölin kom í ljós að ýmiss formlegur stuðningur var til staðar fyrir teymisstjórana en þeir þurftu sjálfir að bera sig eftir honum. Það var til dæmis geðhjúkrunarfræðingur á staðnum sem þeir gátu leitað til. Þótt hægt væri að biðja um stuðning þá upplifðu sumir neikvætt viðmót frá aðilum innan stjórnendateymis þegar leitað var til þeirra. Þá var mjög persónubundið hvort og hvenær teymisstjórarnir leituðu eftir formlegum stuðningi. Þótt mál byrjuðu ekki erfiðlega gátu þau verið fljót að vinda upp á sig og reyndu þá á teymisstjórana persónulega. Misjafnt var hversu fljótt teymisstjórarnir áttuðu sig á að þörf væri á aðkomu fleiri aðila til að leysa úr málum. Bæði Bogga og Diljá upplifðu að stundum hefði verið hægt að grípa fyrr inn í og veita stuðning áður en málin yrðu of umfangsmikil. Bogga sagði: „Og það hefði verið hægt að grípa inn í þó nokkuð marga hérna sem hafa svo dottið í veikindi og annað, miklu fyrr“.

UMRÆÐUR

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að teymisstjórunum gekk misjafnlega að hafa yfirsýn yfir allt sem tilheyrði starfinu og að forgangsraða verkefnum. Við það skapaðist álag sem meðal annars leiddi til þess að mörgum reyndist erfitt að skilja á milli vinnu og einkalífs. Sumir þeirra upplifðu kvíða þegar umfang starfsins varð of mikið og breyta þurfti dagskipulagi með stuttum fyrirvara. Í heimahúsum reyndist oft erfitt að sinna skjólstæðingum við mismunandi krefjandi starfsaðstæður. Í ljós kom að aðlögun inn í starfið var lítil sem engin og meirihluti teymisstjóranna var með stutta starfsreynslu sem teymisstjórar. Þeir gátu þó fengið stuðning en þurftu sjálfir að bera sig eftir honum.

Athygli er vakin á því að sjö af tíu teymisstjórunum höfðu minna en tveggja ára starfsreynslu í starfi teymisstjóra og því mætti að einhverju leyti rekja skort á yfirsýn yfir verkefnin og leikni við forgangsröðun á reynsluleysi þeirra, því eins og Norlyk og félagar (2023) segja þá er skipulagsvinnan sem teymisstjórastarfinu fylgir flókin og krefst mikillar skipulagshæfni. Jafnframt bendir Kristín Björnsdóttir (2018) á að teymisstjórastarfið krefjist flókinnar þekkingar og færni á sviði hjúkrunar og kannski ekki óeðlilegt að það taki tíma að komast inn í starfið. Hins vegar má einnig ætla að skortur á yfirsýn geti stafað af auknum umsvifum í heimahjúkrun, fleiri skjólstæðingum, stöðugum breytingum á dagskipulagi og auknum samskiptum við aðrar heilbrigðisstofnanir, félagþjónustu og ættingja. Einnig nefnir Kristinsdottir o.fl. (2021) að hjúkrunarþyngd hafi aukist og því fylgi gjarnan fleiri áhyggjufullir aðstandendur.

Eins og fram kom í máli teymisstjóranna leiddi undirmönnun til þess að þeir höfðu minni tíma til að sinna skjólstæðingum og skráningu. Teymisstjórarnir upplifðu viðvarandi starfsálag sem þeir réðu illa við og fylgdi þeim heim að vinnudegi loknum, sérstaklega þeir sem höfðu styttri starfsaldur. Þeir sem tóku vinnuna með sér heim upplifðu kvíða þegar umfangið reyndist of mikið. Ef umfangið verður of mikið hefur það áhrif á færni og getur haft neikvæð áhrif á heilsu (WHO, 2015). Niðurstöðurnar koma heim og saman við niðurstöður Solbakken o.fl. (2019) sem telja það yfirþyrmandi fyrir teymisstjóra að bera ábyrgð á gæðum þjónustunnar, starfsfólki og skipulagi. Leiða má líkum að því að skortur á yfirsýn, undirmönnun og reynsluleysi komi niður á gæðum þjónustu við skjólstæðinga í heimahjúkrun og því sé nauðsynlegt að finna leiðir til að létta álagi af teymisstjórunum og veita þeim betri stuðning í starfi, sérstaklega þeim reynsluminni.

Eitt af því sem teymisstjórunum var tíðrætt um var að erfiðlega gekk að halda dagskipulagi, einkum vegna veikinda starfsfólks og undirmönnunar. Stöðug endurskipulagning vinnuferla og aukin vitjanabyrði teymisstjóra vegna veikindanna skapaði aukið álag. Johannessen o.fl. (2020) benda á að slíkt valdi bæði stjórnendum og starfsfólki auknu álagi en ófullnægjandi mönnun leiðir óhjákvæmilega til þess að dagskipulagið fari úr skorðum (Nakrem og Kvanneid, 2022).

Það reyndist teymisstjórunum krefjandi að starfa á heimilum fólks. Aðbúnaður var mismunandi og það reyndi á að þurfa einir að taka ákvörðun um meðferð skjólstæðinga. Hjúkrunarfræðingar í rannsókn Arab o.fl. (2022) lýstu sambærilegum áskorunum innan heimahjúkrunar en það sem er ólíkt með niðurstöðum þeirra og þessarar rannsóknar er að lítil aðlögun inn í starfið sem og reynsluleysi teymisstjóranna sem stjórnenda hafði einnig áhrif. Til að greina betur hvaða þættir það eru sem valda álagi eða ánægju í starfi er mikilvægt að taka tillit til einstaklingsbundinna þátta (WHO, 2015), líkt og menntun og reynslu, og samspili þeirra við starfsumhverfið hverju sinni (Escorpizo o.fl. 2011). Hartviksen o.fl. (2020) benda á að starfsfólk sé gjarnan ráðið í stöður millistjórnenda án þess að hafa menntun eða reynslu af stjórnun. Hæft og reynslumikið starfsfólk sem fær góða innleiðingu í starfið er hins vegar ein af forsendum þess að hægt sé að tryggja gæði þjónustu til skjólstæðinga (Nakrem og Kvanneid, 2022). Þótt ekki sé vitað um stjórnunarreynslu eða viðbótarmenntun teymisstjóranna í þessari rannsókn má ljóst vera að sú aðlögun sem þeir fengu við upphaf starfs var lítil sem engin og að reynsluleysi og úrræðaleysi þeirra endurspeglast í álagi og óöryggi í starfi. Að auki voru starfslýsingar óskýrar og hlutverk

einhverra óljós en Larsson o.fl. (2018) og White o.fl. (2020) benda á mikilvægi skýrra verklagsreglna til að tryggja starfsfólki öruggt starfsumhverfi. Þá virtist óljóst hvert teymisstjórarnir gætu leitað eftir stuðningi, sérstaklega við aðlögun inn í starfið. Í ljós kom að teymisstjórunum stóð þó viss stuðningur til boða en þeir þurftu sjálfir að bera sig eftir honum.

Ree og félagar (2019) telja að skortur á tíma og fjármagni sé eitt af því sem dregur helst úr gæðum og öryggi þjónustu. Því má velta fyrir sér hvort ekki sé ávinningur af því að verja meiri tíma og fjármagni til að veita starfsfólki betri aðlögun og markvissari stuðning. Einnig væri til bóta að hafa skýrari ramma í kringum verklag við aðlögun og stuðning sem er í boði sýnilegri. Setja mætti á reglubundna fundi þar sem farið er yfir mönnun og verkefnastöðu í teymum með það að markmiði að stytta boðleiðir og grípa inn í þar sem þörf er á. Það gefur augaleið að það krefst mikillar yfirsýnar og skipulags að hafa 60-90 manns í teymi. Eins og fram kom hjá teymisstjórunum var það of mikið fyrir einn og því ekkert sem mátti út af bera, til dæmis veikindi hjá starfsfólki. Glíma við undirmönnun og of þétt dagskipulag varð til þess að þeir fóru að missa niður bolta. Næg mönnun er þó ekki það eina sem skiptir máli heldur einnig að starfsfólkið sé ánægt í starfi. Þannig verður þjónustan skilvirkari og skilar sér í betri gæðum til skjólstæðinga og aðstandenda þeirra (Nakrem og Kvanneid, 2022).

STYRKLEIKAR OG TAKMARKANIR

Styrkleika rannsóknarinnar má rekja til þess að niðurstöður byggja á upplifunum teymisstjóranna af starfinu og góður samhljómur var í viðtölum. Alls tóku þátt 10 af þeim 11 teymisstjórum innan heimahjúkrunar heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem boðin var þátttaka og spannar úrtakið því þýðið að mestu. Takmörkun rannsóknarinnar er að hún nær aðeins til lítils hluta hóps sem sinnir starfi teymisstjóra í heimahjúkrun á Íslandi.

Að mati höfunda fékkst mettun í gögnin og gefa niðurstöður því nokkuð góða mynd af starfsemi Heimahjúkrun Heilsugæslunnar. Takmarkanir felast í því að ekki er hægt að yfirfæra niðurstöður á heilbrigðisstofnanir sem bjóða sams konar þjónustu.

ÁLYKTUN OG FRAMTÍÐARRANNSÓKNIR

Teymisstjórastarfið er umfangsmikið og töluvert álag sem því fylgir, einkum fyrir hjúkrunarfræðinga með litla reynslu af stjórnun. Álykta má að ekki einungis menntun sem hjúkrunarfræðingur, heldur einnig stjórnunarreynsla og/eða stjórnunarmenntun, sé nauðsynleg. Að viðhafa jafnvægi einstaklingsbundinna þátta, umhverfis og færni í starfi er heilmikil áskorun eins og niðurstöður rannsóknarinnar sýna. Mikilvægt er að ígrunda mönnun í hverju teymi í takt við umfang og gæði þeirrar þjónustu sem verið er að veita til skjólstæðinga. Hlúa þarf betur að teymisstjórum og þá sérstaklega þeim sem eru nýir í starfi og veita þeim betri stuðning til þess að takast á við þetta krefjandi starf.

Framtíðarrannsóknir ættu að snúa að því að skoða sálrænt vinnuálag hjá teymisstjórum og hvort það tengist ef til vill bæði reynsluleysi og undirmönnun. Jafnvel mætti gera mælingar á því hvort einhverjir af teymisstjórunum eigi á hættu að fara í kulnun.

ÞAKKARORÐ

Höfundar þakka yfirmönnum heimahjúkrunar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrir leyfi fyrir rannsókninni og sérstakar þakkir fá teymisstjórar fyrir þátttökuna.

ENGLISH SUMMARY

“Some days you can’t get your head out of the water” Nurses' experience of the work of team leaders in home care
Kristinsdottir, S., Sigursteinsdottir, H. and Stefansdottir, O. A.

ABSRTAKT

Home care is a service designed to meet nursing needs and help clients be as self-sufficient as possible at home. Home care team leaders oversee specific teams that go into client’s home and are responsible for making sure clients get the services they need.

The aim of the research was to examine the job of home care team leaders to shed light on the scope and responsibility of the work and what guidance and support team leaders receive to cope with the work.

Method

A qualitative methodology was used. Interviews were conducted with ten team leaders within the home care of the Capital Region Health Care. When analyzing the data, the working method of grounded theory was used, and the results were presented in categories.

Results

Three main categories were revealed, each with two subcategories, the scope of the work, complex working conditions and support and organization. The team leaders had varying degrees of success in having an overview of everything that belonged to the job and had to prioritize tasks which created pressure which, among other things, led to many finding it difficult to distinguish between work and private life. There were examples of team leaders experiencing anxiety when the scope became too much. It could be a challenge to maintain a daily schedule and they had to respond to changes at short notice. The working conditions in clients’ homes were different and the conditions for nursing were often challenging.

The team leaders had received little adjustment at the beginning of their work, but most of them had a short work experience. However, support was available if they asked for it themselves.

Conclusions

The team leader job is an extensive job, and a considerable amount of stress comes with it. The results showed that better care is needed for team leaders, especially new ones, and better support is needed to cope with this demanding job.

Keywords

Team leader, qualitative research, grounded theory, working conditions, management.

Correspondent hjordis@unak.is

HEIMILDIR

Arab, M., Shahriari, M., Keshavarzian, A., Abbaszadeh, A. og Keshvari, M. (2022). Nurses’ experiences of the ethical values of home care nursing: A qualitative study. International Journal of Nursing Sciences, 9(3), 364-372. https://doi.org/10.1016/ j.ijnss.2022.06.008

Backman, A., Ahnlund, P., Sjögren, K., Lövheim, H.H., Mcgilton, K.S. og Edvardsson, D. (2020). Embodying person-centred being and doing: Leading towards person-centred care in nursing homes as narrated by managers. Journal of Clinical Nursing, 29, 172-183. https://doi.org/10.1111/jocn.15075

Birken, S., Clary, A., Tabriz, A.A. et al. (2018). Middle managers’ role in implementing evidence-based practices in healthcare: a systematic review. Implementation Science, 13, 149. https://doi.org/10.1186/s13012-018-0843-5

Charmaz, K. (2014). Constructing Grounded Theory (2. útgáfa). SAGE.

Creswell, J.W. & Poth, C.N. (2018). Qualitative Inquiry and Research Design: Choosing Among Five Approaches (4. Ed). Los Angeles: Sage Publications Ltd Escorpizo, R., Reneman, M.F., Ekholm, J., Fritz, J., Krupa, T., Marnetoft, S., Maroun, C.E., Guzman, J. R., Suzuki, Y., Stucki, G. og Chan, C. C. H. (2011). A conceptual definition of vocational rehabilitation based on the ICF. Journal of Occupational Rehabilitation, 21(2), 126-133. https://doi.org/10.1007/s10926-011-9292-6

Hartviksen, T.A., Aspfors, J. og Uhrenfeldt, L. (2020). Healthcare middle managers’ capacity and capability to quality improvement. International Journal of Health Care Quality Assurance Incorporating Leadership in Health Services, 33(3), 279-294. https://doi.org/10.1108/LHS-11-2019-0072

Johannessen, T., Ree, E., Aase, I., Bal, R. og Wiig, S. (2020). Exploring challenges in quality and safety work in nursing homes and home care – a case study as basis for theory development. BMC Health Services Research, 20(1), 277-289. https://doi. org/10.1186/s12913-020-05149-x

Katrín Blöndal og Sigríður Halldórsdóttir. (2021). Úrtök og úrtaksaðferðir í eigindlegum rannsóknum. Í Sigríður Halldórsdóttir (ritstjóri), Rannsóknir: Handbók í aðferðafræði (bls. 205-217). Háskólinn á Akureyri.

Kristinsdottir, I.V., Jonsson, P.V., Hjaltadottir, I. og Bjornsdottir, K. (2021). Changes in home care clients’ characteristics and home care in five European countries from 2001 to 2014: Comparison based on InterRAI - home care data. BMC Health Services Research, 21, 1177. https://doi.org/10.1186/s12913-021-07197-3

Kristín Björnsdóttir. (2011). Samvinna í heimahjúkrun eldri borgara. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 87(4), 23-27. https://www.hjukrun.is/library/Timarit---Skrar/Timarit/ Timarit-2011/4.-tbl-2011/SAMvINNA%20%c3%8d%20HEIMAHJ%c3%9aKRUN%20 ELdRI%20BORGARA.pdf

Kristín Björnsdóttir (2018). ‘I try to make a net around each patient’: home care nursing as relational practice. Scandinavian Journal of the Caring Sciences, 32(1), 177-185. https://doi.org/10.1111/scs.12443

Kristín Björnsdóttir (2020). Heimili hrumra eldri borgara sem þiggja heilbrigðisþjónustu: yfirlitsgrein. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 96(3), 112-119. Sótt af: https:// hjukrun.cdn.prismic.io/hjukrun/eb38aa39-2b4f-4be6-a304-16b05b2c302e_ HeimiliHrumraEldriBOrgara.pdf

Kristín Björnsdóttir, Auður Ketilsdóttir, Margrét Guðnadóttir, Inga V. Kristinsdóttir og Brynja Ingadóttir (2021). Integration of nursing services provided to patients with heart failure living at home: A longitudinal ethnographic study. Journal of Clinical Nursing, 30(7-8), 1120-1131. https://doi.org/10.111/jocn.15658

Larsson, A., Westerberg, M., Karlqvist, L. og Gard, G. (2018). Teamwork and safety climate in homecare: A mixed method study. International Journal of Environmental Research and Public Health, 15(11), 2495. https://doi.org/10.3390/ ijerph15112495

Lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. https://www.althingi. is/lagas/148c/2018090.html

Martin, P., Lizarondo, L., Kumar, S. og Snowdon, D. (2021). Impact of clinical supervision on healthcare organisational outcomes: A mixed methods systematic review. PloS One, 16(11), e0260156. https://doi.org/10.1371/journal.pone.0260156

Martinsen, B., Mortensen, A.S. og Norlyk, A. (2018). Nordic homecare nursing from the perspective of homecare nurses — a meta-ethnography. British Journal of Community Nursing, 23(12), 597-604. https://doi.org/10.12968/bjcn.2018.23.12.597

Mehrotra, R., Gupta, M., Bhagwati, M. og Jain, D. (2021). The prevalence, causes, and management strategies for stress among health-care professionals of delhi-national capital region. Journal of Clinical and Preventive Cardiology, 10(3), 85-94. https://doi.org/10.4103/jcpc.jcpc_4_21

Moriano, J. A., Molero, F., Laguía, A., Mikulincer, M. og Shaver, P. R. (2021). Security providing leadership: A job resource to prevent employees’ burnout. International Journal of Environmental Research and Public Health, 18(23), 12551. https://doi. org/10.3390/ijerph182312551

Nakrem, S. og Kvanneid, K. (2022). How is quality of care in home healthcare created? A qualitative study of health professionals’ perspectives. Healthcare, 10(6), 1021. https://doi.org/10.3390/healthcare10061021

Norlyk A., Burau, V., Ledderer, L.K. og Martinsen B. (2023). Who cares? – The unrecongnised contribution of homecare nurses to caree trajectories. Scandinavian Journal of Caring Sciences, 37(1), 282-290. https://doi.org/10.1111/scs.13120

Persson, J., Erlingsdottir, G., Löfqvist, L. og Johansson, G. (2018). Evaluating innovations for the physical environment in home care – A workplace for one, a home for the other. Í Bagnara, S., Tartaglia, R., Albolino, S., Alexander, T., Fujita, Y. (ritstjórar). Proceedings of the 20th Congress of the International Ergonomics Association (IEA 2018). Springer. https://doi.org/10.1007/978-3-319-96098-2_29

Peter, K.A., Schols, J.M.G.A., Halfens, R.J.G. og Hahn, S. (2020). Investigating work-related stress among health professionals at different hierarchical levels: A cross-sectional study. Nursing Open, 7(4), 969-979. https://doi.org/10.1002/ nop2.469

Ree, E., Johannessen, T. og Wiig, S. (2019). How do contextual factors influence quality and safety work in the norwegian home care and nursing home settings? A qualitative study about managers’ experiences. BMJ Open, 9(7), e025197. https:// doi.org/10.1136/bmjopen-2018-025197

Reglugerð um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði nr. 286/2008. https://www.reglgerd. is/reglugerdir/allar/nr/286-2008

Solbakken, R., Bondas, T. og Kasén, A. (2019). Safeguarding the patient in municipal healthcare — A hermeneutic focus group study of nordic nursing leadership. Journal of Nursing Management, 27, 1242-1250. https://doi.org/10.1111/jonm.12806

White, E.M., Aiken, L.H., Sloane, D.M. og McHugh, M.D. (2020). Nursing home work environment, care quality, registered nurse burnout and job dissatisfaction. Geriatric Nursing, 41(2), 158-164. https://doi.org/10.1016/j.gerinurse.2019.08.007

World Health Organization. (2015). Alþjóðlegt flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu: ICF: Stutt útgáfa. Háskólinn á Akureyri.

World Health Organization. (2016). Global strategy on human resources for health: Workforce 2030. https://www.who.int/publications/i/item/9789241511131

Næringarástand eldra fólks í sjálfstæðri búsetu á Akureyri og nágrenni -Lýsandi þversniðsrannsókn

ÚTDRÁTTUR

Bakgrunnur

Öldruðum kemur til með að fjölga hratt á næstu áratugum ef mannfjöldaspár ganga eftir. Með fjölgun í hópi eldra fólks má áætla aukið álag á heilbrigðiskerfið. Næringarástand eldra fólks í sjálfstæðri búsetu hefur lítið verið rannsakað en ef næringarþörf þessa viðkvæma hóps er mætt má mögulega stuðla að auknum lífsgæðum, minni þjónustuþörf, færri legudögum á sjúkrahúsum og ótímabærum búferlaflutningi á öldrunarheimili. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta næringarástand eldra fólks í sjálfstæðri búsetu á Akureyri og nágrenni sem fá þjónustu frá heimahjúkrun Heilbrigðistofnunar Norðurlands (HSN).

Aðferð Rannsóknin var þversniðsrannsókn. Heimahjúkrun skimaði skjólstæðinga sína (n=193), ≥65 ára í sjálfstæðri búsetu á Akureyri og nágrenni í mars 2022 með matstækinu „Mat á áhættu fyrir vannæringu“ sem finnst í Sögu sjúkraskrá. Skimunin gefur skjólstæðingunum stig (0-30) eftir því hve mikil áhættan er talin vera á vannæringu, þar sem hærri stig lýsa meiri áhættu. Við skimun þarf að skrá hæð og þyngd, skoða þyngdarsögu m.t.t. þyngdartaps, svara spurningum um t.d. ógleði, uppköst og niðurgang, erfiðleika við að kyngja eða tyggja, nýlega sjúkrahúslegu og aðgerð. Í lok skimunar gefur matstækið stig eftir svörum skjólstæðingsins.

Niðurstöður

Miðgildi aldurs var 84 ár (IQR:10), miðgildi þyngdar 79 kg (IQR:24) og miðgildi líkamsþyngdarstuðuls (LÞS (kg/m2) 27,5 (IQR:7,5). Í heild voru 4% með LÞS <18,5 og 35% þátttakenda með LÞS ≥30. Alls reyndist 31,1% þátttakenda vera með ákveðnar líkur á vannæringu (3-4 stig) og 5,2% vera með sterkar líkur á vannæringu (≥5 stig). Ósjálfrátt þyngdartap undanfarið, viðvarandi léleg matarlyst eða ógleði og nýleg dvöl á sjúkrastofnun voru veigamestu áhættuþættirnir meðal þátttakenda sem höfðu ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu (≥3 stig).

Ályktanir

Niðurstöðurnar sýna að 36% (n=70) einstaklinga í sjálfstæðri búsetu á Akureyri með þjónustu frá heimahjúkrun eru með ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu. Þörf er á forvörnum og íhlutandi aðgerðum til að stuðla að fullnægjandi næringarinntekt eldra fólks í sjálfstæðri búsetu.

Lykilorð

Eldra fólk, næringarástand, sjálfstæð búseta, þversniðsrannsókn, skimun.

HAGNÝTING

RANNSÓKNARNIÐURSTAÐNA

Hvaða nýjungar koma fram í niðurstöðum þessarar rannsóknar?

Áhætta á vannæringu hjá eldra fólki í sjálfstæðri búsetu sem fær heimahjúkrun er mikil, ósjálfrátt þyngdartap, ógleði og lystarleysi eru veigamestu áhættuþættirnir.

Hvernig má hagnýta niðurstöður rannsóknarinnar í hjúkrun eða íslenskri heilbrigðisþjónustu?

Tryggja þarf að eldra fólk sé skimað fyrir áhættu á vannæringu í samræmi við klínískar leiðbeiningar ásamt því að efla samvinnu milli sjúkrastofnana og næringarfræðinga með eftirfylgni eftir útskrift.

Hvaða þekkingu bæta niðurstöður þessarar rannsóknar við hjúkrunarfræði?

Niðurstöður rannsóknarinnar leiða í ljós að eldra fólk með LÞS ≥ 30 glímir ekki síður við vannæringu eða er í áhættu á vannæringu. Því er mikilvægt að skima alla skjólstæðinga, óháð holdafari.

Hver geta áhrif rannsóknarinnar orðið á störf hjúkrunarfræðinga?

Hjúkrunarfræðingar eru í lykilstöðu til að skima eldra fólk fyrir áhættu á vannæringu og vísa áfram í þverfagleg úrræði.

Höfundar

SANDRA ÁSGRÍMSDÓTTIR

Sjúkrahúsið á Akureyri

ÁRÚN KRISTÍN SIGURÐARDÓTTIR

Hjúkrunarfræðideild, Háskólinn á Akureyri

Mennta- og vísindadeild, Sjúkrahúsið á Akureyri

BERGLIND SOFFÍA BLÖNDAL

Heilsuvernd

LAUFEY HRÓLFSDÓTTIR

Mennta- og vísindadeild, Sjúkrahúsið á Akureyri

Heilbrigðisvísindastofnun, Háskólinn á Akureyri

Næringarástand eldra fólks í sjálfstæðri búsetu á Akureyri og nágrenni -Lýsandi

þversniðs-

rannsókn

INNGANGUR

Langlífi er ekki ávísun á heilbrigði en heilbrigð öldrun hefur verið skilgreind sem „ferli þróunar og viðhalds á getu til virkni sem gerir öldruðum kleift að njóta efri áranna.“ Viðhald góðrar heilsu á seinni hluta lífsleiðarinnar er stór lýðheilsuáskorun og hafa rannsóknir á sviði öldrunar beinst að því að framlengja þann tíma sem fólk nýtur heilbrigðis á lengdum lífstíma (WHO, 2022).

Næring og hreyfing eru lykilþættir í forvörnum og eru talin vera undirstaða þess að eldra fólk geti búið lengur í sjálfstæðri búsetu (Mathewson o.fl., 2021). Með hækkandi aldri eiga ýmsar breytingar sér stað sem hafa áhrif á starfsemi líkamans og efnaskipti, til að mynda minnkar orkuþörfin með aldrinum lítillega sem er aðallega tilkomin vegna vöðvarýrnunar og minni hreyfingar en á sama tíma eykst þörfin fyrir prótín og ákveðin vítamín og steinefni (Mathewson o.fl., 2021). Orku- og næringarþörf eldra fólks er oft ekki mætt með fullnægjandi fæðuinntekt (Blondal, o.fl., 2022a; 2022b), sem getur leitt til vannæringar.

Vannæring meðal eldra fólks

Vannæring er ekki óhjákvæmileg afleiðing öldrunar en líkurnar aukast með hækkandi aldri því breytingar á lífsstíl, sjúkdómsástandi og félagslegu umhverfi geta haft bein áhrif á matarhegðun og þar með næringarástand eldra fólks (Norman o.fl., 2021). Vannæring er ástand þegar skortur er á inntöku og/eða upptöku næringarefna sem leiðir til breyttrar líkamssamsetningar. Vannæring vegna ónógrar inntöku á orku og/eða prótíni eða getu til að frásoga eða melta orku og/eða prótein kallast prótín-orkuvannæring (e. protein energy malnutrition (PEM)) (Mathewson o.fl., 2021).

Undirliggjandi ástæður vannæringar meðal eldra fólks eru margþættar, sumar þeirra eru afleiðingar öldrunarferlisins, aðrar ástæður eru af líffræðilegum toga eins og t.d. erfiðleikar við að kyngja eða tyggja (Scholes, 2022). Breytingar á meltingu, s.s. sjúkdómar sem valda skertu frásogi næringarefna eða seinkaðri magatæmingu eftir stórar máltíðir, geta valdið því að aldraðir leita mögulega frekar í fljótandi fæði og smærri máltíðir. Framleiðsla sedduhormóna eykst einnig með aldrinum sem stuðlar að minni hungurtilfinningu ásamt því að breytt bragð- og lyktarskyn getur haft áhrif á fæðuinntekt (Scholes, 2022). Eldra fólk glímir auk þess gjarnan við fjölþættan heilsufarsvanda sem getur leitt til fjöllyfjameðferðar (Kok o.fl., 2021; Scholes, 2022) en fylgikvillar lyfjanotkunar geta verið margir eins og niðurgangur, hægðatregða, magaverkir, ógleði, þorsti, munnþurrkur og minnkuð matarlyst. Aðrar ástæður geta verið skortur á félagslegum stuðningi eða aðstoð við matseld og mötun, en einnig léleg fjárhagsleg staða og aðgengi að næringarríkum mat (Scholes, 2022).

Vannæring hefur áhrif á líkamlega og andlega heilsu (Mathewson o.fl., 2021; Volkert o.fl., 2019) og getur leitt til þess að andlegri líðan og almennri heilsu hrakar ásamt því að félagsleg þátttaka verður minni (Norman o.fl., 2021; O´Connell o.fl., 2021). Vannæring ásamt skertri

hreyfigetu og lélegri samhæfingu geta leitt til aukinnar byltuhættu ásamt því að beinþynning og samfallsbrot aukast með hækkandi aldri (Norman o.fl., 2021). Sár gróa einnig verr hjá vannærðum og hefur næringarástand áhrif á teygjanleika húðarinnar og þar með sáramyndun. Skortur á prótíninntöku hægir á gróanda sára, lengir bólgutíma og sýkingar verða algengari (Norman o.fl., 2021).

Í rannsókn Lim og félaga (2012) reyndust vannærðir sjúklingar dvelja að meðaltali 1,5-1,7 sinnum lengri sjúkrahússlegur en aðrir og legudagar voru að meðaltali 6,9-7,3 dagar hjá þessum hópi samanborið við 4,6-5,6 daga hjá vel nærðum sjúklingum. Einnig reyndust vannærðir sjúklingar mun líklegri til að leggjast inn aftur ásamt því að dánartíðni þeirra var þrefalt hærri innan árs frá útskrift (Lim o.fl., 2012).

Rannsóknir hafa leitt í ljós að stór hluti eldri skjólstæðinga á sjúkrahúsum eru vannærðir eða með sterkar líkur á vannæringu ásamt því að næringarástandi þeirra hrakar á meðan á sjúkrahúsdvölinni stendur (Thorsdottir o.fl., 2005; Shin o.fl., 2018). Rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið síðasta áratuginn á öldrunardeildum Landspítalans sýna að 66% skjólstæðinga voru með ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu árið 2016 (Katrín Sif Kristbjörnsdóttir 2016) og 49% árið 2019 (Ásdís Lilja Guðmundsdóttir, 2019). Greint hefur verið frá sambærilegum niðurstöðum á sjúkrahúsum á hinum Norðurlöndunum (Sobestyansky, 2021; Thomsen o.fl., 2022). Sömuleiðis sýndi nýleg rannsókn meðal íbúa á Heilsuvernd (n=197) hjúkrunarheimilum á Akureyri svipaðar niðurstöður en þar reyndust 56,3% íbúa vannærð eða í mikilli áhættu á vannæringu ásamt því að 24,4 % voru í áhættu á vannæringu (Blondal, 2022.)

Vandinn er því mikill á íslenskum stofnunum en fáar rannsóknir hafa skoðað stöðuna meðal eldra fólks í sjálfstæðri búsetu. Erlendar rannsóknir benda til þess að tíðni vannæringar meðal eldra fólks í sjálfstæðri búsetu sé oftast undir 10% (Cereda o.fl., 2015; Lozoya o.fl., 2017; Leij-Halfwerk o.fl., 2019) en að meira en helmingur þessa aldurshóps sé þó í mikilli áhættu á vannæringu (Poínhos o.fl., 2021). Þær rannsóknir sem hafa verið framkvæmdar hér á landi hafa fyrst og fremst beinst að eftirfylgni skjólstæðinga eftir útskrift af sjúkrahúsi (Blondal o.fl., 2022a;2022b).

Greining á vannæringu Snemmtæk greining á vannæringu er einn af mikilvægustu þáttunum til að koma í veg fyrir eða hægja á vannæringu (Norman o.fl., 2021). Skimun fyrir áhættu á vannæringu er fljótlegt ferli, framkvæmt með matstæki sem hefur verið gildismetið fyrir viðkomandi þjóðfélagshóp og auðvelt í notkun (Mathewson, 2021). Mikilvægt er að skimun fari fram reglulega til að hægt sé að greina áhættu á vannæringu tímanlega og að viðeigandi inngrip verði framkvæmd (Embætti landlæknis, 2018). Í ráðleggingum frá Embætti landlæknis (2018) kemur fram að allt eldra fólk á að vera skimað fyrir áhættu á vannæringu innan heilbrigðiskerfisins og nota eigi skimun til að meta næringarástand hjá eldra fólki sem fær þjónustu heilsugæslu, heimaþjónustu, dagvist eða á hjúkrunarheimili. Mati á næringarástandi hefur ekki verið sinnt eins og ráðleggingar segja til um og hefur það verið rakið til tímaskorts og vanþekkingar hjá læknum og hjúkrunarfræðingum (Norman o.fl., 2021).

Næringarástand eldra fólks í sjálfstæðri búsetu er lítið rannsakað en ef næringarþörf þessa viðkvæma hóps er mætt má mögulega stuðla að auknum lífsgæðum, lægri þjónustuþörf, færri legudögum

á sjúkrahúsum og ótímabærum búferlaflutningi á öldrunarheimili. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna næringarástand eldra fólks í sjálfstæðri búsetu á Akureyri sem fékk þjónustu í mars 2022, frá heimahjúkrun Heilbrigðistofnunar Norðurlands (HSN), þ.e. skoða hversu stór hluti eldra fólks hafði ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu samkvæmt mati fyrir áhættu á vannæringu og hverjir voru veigamestu áhættuþættirnir hjá þessum hópi.

AÐFERÐAFRÆÐI

Rannsóknarsnið og þátttakendur

Rannsóknin var lýsandi þversniðsrannsókn (e. descriptive cross sectional study). Úrtakið var hentugleikaúrtak og í þýðinu (n=193) voru allir skjólstæðingar heimahjúkrunar HSN á Akureyri í mars 2022 sem uppfylltu gefin skilyrði. Skilyrði fyrir þátttöku voru að skjólstæðingarnir væru 65 ára eða eldri, í sjálfstæðri búsetu og þjónustuþegar heimahjúkrunar HSN á Akureyri.

Gagnaöflun – mælitæki

Starfsfólk heimahjúkrunar HSN skimaði skjólstæðinga sína með mælitækinu „mat á áhættu fyrir vannæringu“ sem finnst í Sögu sjúkraskrárkerfi.

Áreiðanleiki mælitækis

Mælitækið „Mat fyrir áhættu á vannæringu“ er gildismetið (e. validated) og hefur verið notað á Landspítala (LSH) síðan 2001, í klínískri meðferð til að bera kennsl á sjúklinga með litlar, ákveðnar eða sterklar líkur á vannæringu (Thorsdottir o.fl., 2001; 2005; Thorsdottir og Geirsdóttir, 2008). Mælitækið hefur næmni (e. sensitivity) 0,83 og sértækni (e. specifity) 0,96 hjá sjúklingum með krabbamein (Thorsdottir og Geirsdóttir, 2008) en hjá sjúklingum með COPD var næmni 0,69 og sértækni 0,90 (Thorsdottir o.fl., 2001).

Framkvæmd

Skjólstæðingar voru vigtaðir og svöruðu spurningum um heilsufar sitt sl. tvo mánuði. Þegar hæð og þyngd var skráð í matstækið reiknast líkamsþyngdarstuðull sjálfkrafa og fást stig fyrir að vera undir viðmiðunarmörkum (tvö stig þar fyrir að vera 18,5-20 kg/m2 í LÞS og fjögur stig fyrir að vera undir 18,5 kg/m2 í LÞS). Þyngdarsaga skjólstæðings undanfarið var einnig skoðuð í Sögu og gefin stig eftir hversu mikið þyngdartap var (>5% sl. mánuð eða >10 % sl. mánuði 4 stig, 5-10% sl. mánuði 2 stig). Ef hakað er í „Veit ekki“ fást 2 stig og „Nei“ (ekkert þyngdartap) 0 stig).

Í spurningum um vandamál sl. vikur eða mánuði, þ.e. dagleg uppköst í meira en þrjá daga, daglegan niðurgang (þunnar hægðir þrisvar á dag eða oftar), viðvarandi lélega matarlyst eða ógleði, erfiðleika við að kyngja eða tyggja, sjúkrahúsdvöl í fimm daga eða lengur sl. tvo mánuði og hvort skjólstæðingur hafi gengist undir aðgerð sem telst veruleg sl. mánuð fékkst eitt stig fyrir hverja spurningu sem svarað var játandi. Spurningar um sjúkdóma, bruna >15%, innlögn v/vannæringar eða fjöláverka (e. multiple trauma) gáfu fimm stig fyrir hvert ef svarað var játandi. Eitt stig kemur sjálfkrafa ef skjólstæðingurinn er 65 ára eða eldri og þarf ekki að reikna það sérstaklega eða slá inn kennitölu því mat fyrir áhættu á vannæringu er gert á svæði skjólstæðingsins innan Sögu. Heildarniðurstaða fæst þegar öllum spurningum skimunarinnar hefur verið svarað og er stigagjöf á bilinu 0-30 stig. Stig 0-2 flokkast sem litlar líkur á vannæringu, 3-4 stig sem ákveðnar líkur á vannæringu og fimm stig eða fleiri sem sterkar líkur á vannæringu.

Ef um er að ræða lungna- eða krabbameinssjúklinga eru viðmið fyrir sterkar líkur á vannæringu lægri eða ≥4 stig.

Starfsfólk heimahjúkrunar skráði upplýsingar um kyn þátttakenda og niðurstöður skimunar skjólstæðinga í Excel skjal þar sem breytur úr spurningalista skimunar fyrir áhættu á vannæringu komu fram án nafns eða annarra upplýsinga sem hægt væri að rekja. Skjalið var síðan afhent rannsakendum.

Gagnagreining

Lýsandi og ályktunartölfræði var notuð. Dreifing samfelldra breyta var skoðuð myndrænt með Shapiro-Wilks prófi. Niðurstöður voru settar fram sem meðaltöl og staðalfrávik fyrir normaldreifðar breytur, miðgildi og fjórðungsspönn (e. Interquartile Range ( IQR)) fyrir ónormaldreifðar breytur og hlutföll fyrir flokkabreytur. Tvö kyn voru notuð, „karl“ og „kona“ en aldurskipting var þríþætt, 6574 ára, 75-84 ára og 85 ára og eldri. Kíkvaðratpróf (e. Chi square test) og Fisher próf (e. Fisher‘s Exact Test) var reiknað til þess að skoða samband kyns, aldurs og líkna á vannæringu (0-2 stig, 3-4 stig og ≥5 stig). Marktækni var skilgreind sem <0,05. Við skráningu og úrvinnslu gagna var töflureiknirinn Excel og tölfræðiforritin SPSS (útgáfa 27) og Jamovi (útgáfa 2.3.21) notuð.

Siðfræði

Leyfi fyrir rannsókninni fékkst frá Vísindasiðanefnd nr. VSN-22-041.

NIÐURSTÖÐUR

Alls voru 193 skjólstæðingar, 80 karlar og 113 konur, sem uppfylltu skilyrði um þátttöku.

Tafla 1. Einkenni þátttakenda

Allir (n=193) Karlar (n=80) Konur (n=113)

Aldur (ár) 84,0 (IQR10,0) 85,0 (IQR 10,3) 84,0 (IQR 10)

Spönn (65-99)

hæð (cm) 166,6 (SF ±9,2) 173,9 (SF ±7,1) 161,4 (SF ±6,4)

Spönn (147-190)

þyngd (kg) 79,0( IQR 24,0) 82,2 (IQR 20,9) 74,6 (IQR 23,3)

Spönn (38,9-149,1)

LÞS (kg/m2) 27,5 (IQR 7,5) 27,1 (IQR6.0) 28,1 (IQR 8,0)

Spönn (16,0-63,7)

LÞS <18,5 (%) 7 (4%) 2 (3%) 5 (4%)

LÞS 18,5 -24,9 (%) 51 (26%) 21 (26%) 30 (27%)

LÞS 25- 29,9 (%) 68 (35%) 32 (40%) 36 (32%)

LÞS 30 -34,9 (%) 47 (24 %) 19 (24%) 28 (25%)

LÞS 35 - 39,9 (%) 15 (8%) 5 (6%) 10 (9%)

LÞS 40 + (%) 5 (3%) 1 (1%) 4 (3%)

LÞS = Líkamsþyngdarstuðull, (kg/m2). Gildi eru meðaltal ± staðlafrávik eða miðgildi og fjórðungsspönn (IQR) fyrir samfelldar breytur og % fyrir flokkabreytur.

Tafla 1 sýnir einkenni þátttakenda. Einungis gildi fyrir hæð var normaldreift, aðrar samfelldar breytur voru ónormaldreifðar. Miðgildi aldurs var 84 ára (IQR:10; bil 65-99), miðgildi þyngdar 79 kg (IQR:24; bil 39-149) og meðalhæðin var 166,6 cm (SF±9,2;

spönn 147,0-190,0). Miðgildi LÞS var 27,5 kg/m2 (IQR:7,5; bil16,0-63,7). Ef miðað er við viðmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO (e. World health organization) (WHO, 2020) þá voru 4% (n=7) þátttakenda undir kjörþyngd (LÞS <18,5 kg/ m2), og 70% voru yfir kjörþyngd (LÞS ≥25 kg/m2), þar af voru 35% með offitu (LÞS ≥30 kg/m2). Ef miðað er við aðlagaðan líkamsþyngdarstuðull fyrir eldra fólk í samræmi við ráðleggingar Embættis landlæknis (2018) þá voru 15% í undirþyngd (LÞS<23 kg/m2), 50% í kjörþyngd (23-30 kg/m2) og 35% í ofþyngd eða með offitu (LÞS≥30 kg/m2).

Tafla 2. Líkur á vannæringu eftir aldri, kyni og LÞS (n (%))

0-2 stig Litlar líkur á vannæringu

3-4 stig Ákveðnar líkur á vannæringu

5+ stig Sterkar líkur á vannæringu

Heild (n=193) 123 (64%) 60 (31%) 10 (5%)

65-74 ára 23 (12%) 6 (3%) 4 (2%) 75-84 ára 36 (19%) 28 (15%) 2 (1%)

85 ára og eldri 64 (33%) 26 (13%) 4 (2%)

Karlar (n = 80) 53 (66%) 23 (29%) 4 (5%)

Konur (n=113) 70 (62%) 37 (33%) 6 (5%)

LÞS yfir 30 (n=70) 48 (25%) 19 (10%) 3 (2%)

Í töflu 2 má sjá líkur á vannæringu eftir aldri, kyni og LÞS. Í heild voru 64% þátttakenda sem fengu 0-2 stig og því litlar líkur á vannæringu, 31% fékk 3-4 stig og höfðu ákveðnar líkur á vannæringu og 5% fékk 5 stig eða fleiri og því með sterkar líkur á vannæringu. Ekki reyndist vera marktækur munur á kynjum varðandi líkur á vannæringu (p=0,094).

Í efri hluta töflu 3 (Tafla 3 hér) má sjá helstu áhættuþætti vannæringar fyrir alla þátttakendur rannsóknarinnar (n=193) en í neðri hluta töflunnar sjást niðurstöðurnar einungis fyrir hópinn sem fékk ≥3 stig (n=70). Í heild voru 29% (n=56) af skjólstæðingum heimahjúkrunar búnir að missa þyngd undanfarið, 18% (n=34) glímdi við viðvarandi lélega matarlyst eða ógleði og 14% (n=27) höfðu dvalið á sjúkrastofnun fimm daga eða lengur sl. tvo mánuði. Af þátttakendum með LÞS ≥30 (n=70) voru 31% með ≥3 stig á mælitækinu en skiptingin á áhættuþáttum reyndist vera svipuð með tilliti til líkna á vannæringu og fyrir heildina. Þegar áhættuþættir voru skoðaðir nánar hjá einstaklingum sem fengu ≥3 stig reyndist ekki vera marktækur munur milli aldurshópa og veigamestu áhættuþáttanna sem voru ósjálfrátt þyngdartap (x2(2) = 4,102, p = 0,129), viðvarandi léleg matarlyst/ógleði((x2(2) = 1,166, p = 0,558) og nýleg dvöl á sjúkrastofnun (x2(2) = 0,242, p = 0,886).

UMRÆÐUR

Rannsóknin gefur nýjar upplýsingar um hver áhætta eldra fólks, sem fær heimahjúkrun, er á vannæringu. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að 36% (n=70) eldra fólks í sjálfstæðri búsetu sem fékk heimahjúkrun á Akureyri höfðu ákveðnar (31%; n=60) eða sterkar líkur (5%; n=10) á vannæringu. Niðurstöðurnar eru í samræmi við erlendar rannsóknir sem sýna að vannæring hjá þessum hópi er í flestum tilfellum undir 10% (Cereda o.fl., 2015; Lozoya o.fl., 2017; Leij-Halfwerk o.fl., 2019) en stór hluti eldra fólks er þó í áhættu á vannæringu (Leij-Halfwerk, o.fl., 2019; Poínhos o.fl., 2021).

Tafla 3. Áhættuþættir

vannæringar eftir kyni, aldri og LÞS (n (%))

Ósjálfrátt þyngdartap undanfarið Dagleg uppköst sl. 3 daga Daglegur niðurgangur sl. 3 daga

Viðvarandi léleg matarlyst eða ógleði

Heild (n=193) 56 (29%) 2 (1%) 7 (4%) 34 (18%)

Erfiðleikar við að kyngja eða tyggja

Dvöl á sjúkrastofnun 5+ dagar sl. 2 mán. Aðgerð sl. mánuð

Innlögn vegna bruna eða vannæringar

* Þátttakendur sem fengu ≥3 stig við mat fyrir áhættu á vannæringu (ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu).

Niðurstöður þessarar rannsóknar sýndu ekki marktækan mun milli aldurshópa m.t.t. líkna á vannæringu en þó voru ákveðnar vísbendingar um samband (p = 0,094). Hafa þarf í huga að ekki er víst að þátttakendur rannsóknarinnar endurspegli almennt hóp eldra fólks í sjálfstæðri búsetu. Þeir sem þurfa heimahjúkrun geta verið viðkvæmari eða með undirliggjandi veikindi sem skýrir mögulega ástæðuna fyrir að ekki sást skýrari munur milli elstu aldurshópa.

Erlendar rannsóknir hafa sýnt að vannæring eykst með hækkandi aldri (Leij-Halfwerk o.fl., 2019; Norman o.fl., 2021; Ökzaya, 2021).

Um þriðjungur eldra fólks í sjálfstæðri búsetu á Akureyri og nágrenni sem fékk þjónustu heimahjúkrunar, hafði ósjálfrátt þyngdartap undanfarið (n=56) og reyndist það vera veigamesti áhættuþátturinn hjá hópnum sem var með ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu. Ósjálfrátt þyngdartap undanfarið hefur forspárgildi um næringarástand en 5-10% tap á líkamsþyngd á nokkrum mánuðum getur gefið vísbendingar um áhættu á vannæringu (Cederholm o.fl., 2015; Regína B. Þorsteinsson, 2016). Ósjálfrátt þyngdartap er mikill áhættuþáttur fyrir vöðvarýrnun og hrumleika (e. frailty) sem tengist skertri getu, meiri byltuhættu og aukinni þjónustuþörf (Mathewson o.fl., 2021). Aðrir mikilvægir áhættuþættir vannæringar í rannsókninni voru viðvarandi ógleði eða lystarleysi, en lystarleysi er algengur fylgikvilli sjúkdóma, lyfja og öldrunar sem veldur því að næringarinntekt verður ekki nægjanleg og því algeng ástæða fyrir þyngdartapi hjá öldruðum (Cederholm, 2016). Lystarleysi og ógleði er helsta ástæðan fyrir því að erfitt er að vinna gegn lítilli orku- og próteinneyslu aldraðra (Mathewson o.fl., 2021). Mikilvægt er að hjúkrunarfræðingar sem

sinna þessum hópi spyrji hvort einstaklingurinn sé með ógleði eða sé lystarlaus.

Vannæringu meðal eldra fólks þarf að taka alvarlega og er ósjálfrátt þyngdartap merki um skort á orku, nauðsynlegum næringarefnum og/eða niðurbrot á vöðvum sem hrindir oft af stað keðju vandamála sem leiða af sér sjúkdóma, óhöpp og aukna dánartíðni (Norman, 2021). Íhlutun og forvarnir eru mikilvægir þættir í þjónustu við eldra fólk í sjálfstæðri búsetu og með góðri samvinnu heimahjúkrunar og næringarfræðinga mætti sporna við óæskilegri þróun. Reglubundnar skimanir fyrir áhættu á vannæringu eru því ákaflega mikilvægar til að finna eldra fólk í áhættu og vísa þeim til næringarfræðings sem leggur upp meðferðaráætlun sem starfsfólk heimahjúkrunar getur fylgt eftir með eftirliti og stuðningi.

Þriðji stærsti áhættuþáttur vannæringar í rannsókninni var nýleg dvöl á sjúkrastofnun (9%). Það er þekkt vandamál að næringarástand versni við innlögn á sjúkrahús (Shin o.fl., 2018) og því mikilvægt að hefja næringarmeðferð inni á sjúkrastofnun (Regína B Þorsteinsson, 2016; Shuetz o.fl., 2019). Niðurstöður úr rannsóknum Blondal o.fl., (2022a, 2022b) sýna hvað góð næring og eftirfylgd eftir útskrift af sjúkrahúsi er mikilvæg fyrir eldra fólk. Íhlutunarhópur sem fékk frían orku- og prótínríkan mat ásamt eftirfylgni í formi næringarmeðferðar veitta af klínískum næringarfræðingi, mat heilsu sína og líðan betri miðað við viðmiðunarhópinn sem fékk eingöngu ráðleggingar við útskrift (Blondal o.fl., 2022a; 2022b). Klínísk mikilvæg færni var bætt hjá íhlutunarhópnum, svo sem líkamleg færni, þunglyndiseinkenni minnkuðu og komið var í veg fyrir þyngdartap og tap á vöðvamassa

(Blondal o.fl., 2022a; 2022b). Þessar niðurstöður styðja eindregið mikilvægi þess að skima kerfisbundið eldra fólk við innlögn á sjúkrastofnanir, óháð heilsufarsástandi þess og fylgja eftir með næringarfræðilegu mati og einstaklingsmiðaðri næringarmeðferð eftir útskrift (Schuetz o.fl., 2019).

Ef litið er á aðlagaðan þyngdarstuðul frá Embætti landlæknis (2018) voru 15% (n=29) þátttakenda undir kjörþyngd (LÞS<23), helmingur (n=96) í kjörþyngd (LÞS 23-30) og 35% (n=67) í yfirþyngd eða með offitu (LÞS ≥ 30). Athygli vekur að í hópnum sem fær ≥3 stig í skimun fyrir áhættu á vannæringu og hefur LÞS ≥ 30 (n=22), glíma 86% (n=19) við ósjálfrátt þyngdartap og 23% (n=5) við viðvarandi lélega matarlyst eða ógleði. Rannsakendur höfðu ekki upplýsingar um lyfjanotkun þátttakenda og því ekki hægt að taka tillit til þess hvort skjólstæðingar með offitu hafi fengið megrunarlyfi ávísað eða ekki. Slíkt væri þó ekki í samræmi við ráðleggingar Embættis landlæknis (2018) þar sem almennt er varað við þyngdartapi meðal aldraðra (Volkert o.fl., 2019). Tap á fitufríum massa getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og sjúkdómar eins og vöðvarýrnun og hrumleiki ganga almennt ekki til baka og geta versnað hratt við minnstu breytingu (Fan o.fl., 2021). Einnig eru vísbendingar um að hækkun á LÞS meðal eldra fólks tengist lægri dánartíðni samanborið við lækkun á LÞS (Javed o.fl., 2019). Því ætti að varast að setja eldra fólk í „megrun“ eða nýta megrunarlyf hjá þessum viðkvæma hópi.

Vannæring er dulið vandamál hjá einstaklingum með LÞS≥30. Í rannsókn Thomsen o.fl., (2021) kom í ljós að sjúklingar með háan LÞS voru síður skimaðir fyrir áhættu á vannæringu en þeir sem voru með lágan LÞS. Það er því mikilvægt að fræða hjúkrunarfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk sem starfar með fólki í yfirþyngd eða með offitu, og vinna gegn fitufordómum en viðhorf heilbrigðisstarfsfólks getur haft áhrif á þá þjónustu sem veitt er (Talumaa o.fl., 2022).

Það er áskorun fyrir heimahjúkrun að sinna stækkandi hópi með vaxandi þjónustuþörf á meðan fjárveitingar eru af skornum skammti. Með vaxandi fjölda eldra fólks aukast stöðugt þær kröfur sem gerðar eru til heilbrigðis- og félagsþjónustu um að auka þjónustu við eldra fólk og um leið að tryggja gæði og hagkvæmni en vannæring meðal eldra fólks kostar samfélagið, heilbrigðiskerfið og einstaklinginn mikla fjármuni. Í Bretlandi er talið að kostnaður vegna vannæringar og næringarvandamála sem afleiðingu annars sjúkdómsástands sé um 15% kostnaðar heilbrigðiskerfisins (Smith o.fl., 2020). Það varpar ljósi á mikilvægi þess að greina og meðhöndla næringarvandamál því vannærðir einstaklingar kosta heilbrigðiskerfið þrisvar til fjórum sinnum meira en aðrir (Smith o.fl., 2020). Skimun fyrir áhættu á vannæringu er fljótlegt og einfalt áhættumat en því hefur ekki verið sinnt eins og ráðlagt er. Hefur það verið rakið til lélegrar vitundar, tímaskorts og vanþekkingar hjá hjúkrunarfræðingum og læknum en viðurkenning og meðferð við vannæringu hjá eldra fólki er óneitanlega áskorun, jafnvel þegar hún greinist snemma (Norman o.fl., 2021). Hjúkrunarfræðingar eru í lykilstöðu til að gera mat fyrir áhættu á vannæringu og vísa áfram í nauðsynleg úrræði vegna nálægðar við skjólstæðinga sína (Moyles, 2022). Nauðsynlegt er að efla menntun og fræðslu á þessu sviði ásamt því að vinna að öflugri teymisvinnu með næringarfræðingum og stuðla þannig að heilbrigðri öldrun ásamt farsælum og innihaldsríkum efri árum.

STYRKLEIKAR OG TAKMARKANIR RANNSÓKNARINNAR

Helstu styrkleikar rannsóknarinnar felast í góðu samstarfi við starfsfólk heimahjúkrunar HSN, gögn fengust um alla skjólstæðinga sem uppfylltu sett skilyrði á stóru þjónustusvæði HSN. Einnig er það styrkleiki að gögnum er safnað af fagfólki sem bundið er þagnarskyldu og sama aðferð er notuð á öllum heilbrigðisstofnunum á landinu ef fleiri rannsóknir verða gerðar. Mælitækið „Mat fyrir áhættu á vannæringu“ er viðurkennt og þykir áreiðanlegt og réttmætt (Thorsdottir o.fl., 2001). Mælitækið hefur verið notað í rannsóknum á Landspítalnum síðan 2001 (Thorsdottir o.fl., 2001; 2005; Thorsdottir og Geirsdóttir, 2008). Mælitækið hefur einnig verið notað á öðrum á sjúkrastofnunum síðustu áratugi og því auðvelt að bera saman niðurstöður og meta árangur fræðslu og íhlutana.

Aðaltakmörkun rannsóknarinnar er að rannsakendur höfðu einungis upplýsingar um niðurstöður matsins en það hefði styrkt rannsóknina að vera með frekari upplýsingar um lífsstíl, lyfjanotkun eða sjúkdóma þátttakenda. Til að mynda eru viðmiðin um sterkar líkur á vannæringu lægri hjá lungna- eða krabbameinssjúklingum eða ≥4 stig og því möguleiki að fleiri aðilar myndu skimast með sterkar líkur á vannæringu.

Annar veikleiki rannsóknarinnar er að LÞS er ein af breytunum sem þarf að taka tillit til við matið en þessi stuðull hefur verið umdeildur þar sem hann gefur ekki upplýsingar um samsetningu á mismunandi vefjum líkamans. Þó gefur hann góðar vísbendingar til flokkunar á líkamsþyngd. Niðurstöður okkar sýna mikilvægi þess að einblína ekki á þetta gildi, matið í heild sinni er nauðsynleg til að meta næringarástand einstaklinga.

ÁLYKTUN

Niðurstöðurnar sýna að 36% (n=70) einstaklinga í sjálfstæðri búsetu á Akureyri með þjónustu frá heimahjúkrun eru með ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu. Þörf er á forvörnum og íhlutandi aðgerðum til að stuðla að fullnægjandi næringarinntekt eldra fólks í sjálfstæðri búsetu. Einnig ítreka niðurstöður rannsóknarinnar mikilvægi tilmæla Embættis landlæknis um að skima þennan hóp árlega fyrir áhættu á vannæringu og oftar ef þau eru metin með aukna áhættu fyrir vannæringu.

ÞAKKIR

Sérstakar þakkir fá Vísindasjóður Sjúkrahússins á Akureyri, Lýðheilsusjóður, deild mennta og vísinda á Sjúkrahúsinu á Akureyri, félag Íslenskra hjúkrunarfræðinga fyrir veitta styrki við gerð rannsóknar og Bára Elísabet Dagsdóttir hjá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri fyrir tölfræðilega ráðgjöf.

ENGLISH SUMMARY

Nutritional status of community dwelling older adults in Akureyri and surroundings

ABSRTAKT

Background

The number of older adults will increase rapidly over the next few decades if population projections are accurate. With a higher proportion of older adults in the population, it can be expected that the workload in the healthcare system will increase. The nutritional status of community dwelling older adults is an understudied field, but the importance of meeting the nutritional needs of this vulnerable group may potentially lead to an improved quality of life, lower the need for services, decrease hospitalisations, shorten hospital stays, and prevent premature nursing home admission.

Aim

To determine the nutritional status of community dwelling older adults in Akureyri who received home care nursing from the North Iceland Healthcare Institute (HSN).

Method

This was a cross-sectional study. The home care nursing at HSN screened their community dwelling clients (n=193), ≥ 65 years, living in Akureyri and its surroundings in March 2022 using the screening tool "Assessment of risk for malnutrition" found in Medical Records. The screening gives the clients points (0-30) depending on the degree of risk of malnutrition, where more points describe a higher risk. The screening requires height and weight measurements, checking weight history for weight loss, and answering questions about, e.g., nausea, vomiting, diarrhoea, difficulty swallowing or chewing, recent hospitalisation and surgery. At the end of the questionnaire, the screening tool provided points based on the client’s answers.

Results

The median age was 84 years (IQR:10), the median weight was 79 kg (IQR:24), and the median body mass index (BMI (kg/m2) 27.5 (IQR:7.5). Overall, 4% of the subjects had a BMI <18.5 and 35% had a BMI ≥30. Participants at risk of malnutrition (3-4 points) were 31.1%, and 5.2% had a high risk of malnutrition (≥5 points). Involuntary recent weight loss, persistently poor appetite or nausea, and recent hospitalisation were the most prevalent risk factors among participants at risk of malnutrition (≥3 points).

Conclusions

The results of this study showed that 36% (n=70) of older community dwelling adults in Akureyri who received formal care from nursing staff were at risk or at high risk of being malnourished. Preventive and interventional measures are needed to promote adequate nutritional intake in older adults living independently.

Keywords

Older adults, nutritional status, community dwelling, cross-sectional study, screening.

Correspondent sas0322@sak.is

HEIMILDIR

Ásdís Lilja Guðmundsdóttir. (2019). Nutritional status and dietary intake at geriatric units at Landspítali (LSH). Skimun fyrir vannæringu og fæðuskráning sjúklinga á öldrunardeildum Landspítala (LSH) (óútgefin meistararitgerð). Sótt af :http://hdl. handle.net/1946/33195

Blondal, B. S., Geirsdottir, O. G., Beck, A. M., Halldorsson, T. I., Jonsson, P. V., Sveinsdottir, K. og Ramel, A. (2022a). HOMEFOOD randomized trial—beneficial effects of 6-month nutrition therapy on body weight and physical function in older adults at risk for malnutrition after hospital discharge Springer Science and Business Media LLC.https:// doi.org/10.1038/s41430-022-01195-2

Blondal, B. S., Geirsdottir, O. G., Halldorsson, T. I., Beck, A. M., Jonsson, P. V. og Ramel, A. (2022b). HOMEFOOD randomised trial – six-month nutrition therapy improves quality of life, self-rated health, cognitive function, and depression in older adults after hospital discharge. Clinical Nutrition ESPEN, 48, 74-81. https://doi.org/10.1016/j. clnesp.2022.01.010

Blondal, B.S. (2022). Nutritional status of nursing home residents in Akureyri, Iceland. Abstracts of the 18th congress of the european geriatric medicine society. (2022). European Geriatric Medicine, 13(Suppl 1), 1-439. https://doi.org/10.1007/s41999-02200711-8

Cederholm, T., Bosaeus, I., Barazzoni, R., Bauer, J., Van Gossum, A., Klek, S., Muscaritoli, M., Nyulasi, I., Ockenga, J., Schneider, S. M., de van der Schueren, M. A. E og Singer, P. (2015). Diagnostic criteria for malnutrition – an ESPEN consensus statement. Clinical Nutrition (Edinburgh, Scotland), 34(3), 335-340. https://doi.org/10.1016/j. clnu.2015.03.001

Cereda, E., Pedrolli, C., Klersy, C., Bonardi, C., Quarleri, L., Cappello, S., Turri, A., Rondanelli, M. og Caccialanza, R. (2016). Nutritional status in older persons according to healthcare setting: A systematic review and meta-analysis of prevalence data using MNA. Clinical Nutrition (Edinburgh, Scotland), 35(6), 1282-1290. https://doi.org/10.1016/j. clnu.2016.03.008

Crichton, M., Craven, D., Mackay, H., Marx, W., de van der Schueren, M. og Marshall, S. (2019). A systematic review, meta-analysis and meta-regression of the prevalence of protein-energy malnutrition: Associations with geographical region and sex. Age and Ageing,48, 38. https://doi.org/10.1093/ageing/afy144

Embætti landlæknis (2018. Ráðleggingar um mataræði fyrir hrumt eða veikt eldra fólk. Sótt af https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item35914/Radlegg%20 mataraedi%20eldra%20folk %20vid%20goda%20heilsu%20des%202018.pdf

Fan, L., Tian, Y., Wang, J., Ding, Y., Wang, S., Xue, H. og Du, W. (2021). Frailty predicts increased health care utilization among community-dwelling older adults: A longitudinal study in china. Journal of the American Medical Directors Association, 22(9), 1819-1824. https://doi.org/10.1016/j.jamda.2021.01.082

Geirsdottir, O.G. og Thorsdottir, I. (2008). Nutritional status of cancer patients in chemotherapy; dietary intake, nitrogen balance and screening. Food &amp; Nutrition Research, 52(1), 1856. https://doi.org/10.3402/fnr.v52i0.1856

Hjaltadóttir, I., Ásgeirsdóttir, A.E., Árnadóttir, B., Ottósdóttir, H., Hermannsdóttir, G.G., og Ramel, A. (2007). Matstæki til greiningar á vannæringu aldraðra. Tímarit hjúkrunarfræðinga. 5 (83). 48 – 56

Javed, A. A., Aljied, R., Allison, D. J., Anderson, L. N., Ma, J. og Raina, P. P. (1467789). Body mass index and all-cause mortality in older adults: A scoping review of observational studies Wiley.https://doi.org/10.1111/obr.13035

Katrín Sif Kristbjörnsdóttir. (2016). Nutritional status of patients at geriatric unit. Their attitude and wastage of food. (óútgefin meistararitgerð). Sótt af http://hdl.handle. net/1946/24708

Leij-Halfwerk, S., Verwijs, M. H., van Houdt, S., Borkent, J. W., Guaitoli, P. R., Pelgrim, T., Heymans, M. W., Power, L., Visser, M., Corish, C. A. og de van der Schueren, Marian A.E. (2019). Prevalence of protein-energy malnutrition risk in european older adults in community, residential and hospital settings, according to 22 malnutrition screening tools validated for use in adults ≥65 years. Maturitas, 126, 80-89. https://doi. org/10.1016/j.maturitas.2019.05.006

Lim, S. L., Ong, K. C. B., Chan, Y. H., Loke, W. C., Ferguson, M. og Daniels, L. (2012). Malnutrition and its impact on cost of hospitalization, length of stay, readmission and 3-year mortality. Clinical Nutrition (Edinburgh, Scotland), 31(3), 345-350. https://doi. org/10.1016/j.clnu.2011.11.001

Mathewson, S. L., Azevedo, P. S., Gordon, A. L., Phillips, B. E. og Greig, C. A. (2021).

Overcoming protein-energy malnutrition in older adults in the residential care setting: A narrative review of causes and interventions. Ageing Research Reviews, 70, 101401. https://doi.org/10.1016/j.arr.2021.101401

Montejano Lozoya, R., Martínez-Alzamora, N., Clemente Marín, G., Guirao-Goris, S. J. A. og Ferrer-Diego, R. M. (2017). Predictive ability of the mini nutritional assessment short form (MNA-SF) in a free-living elderly population: A cross-sectional study PeerJ.https://doi. org/10.7717/peerj.3345

Moyles, N., AL., N. (2022). Nurses Role in Malnutrition. Unified Nursing Research, Midwifery & Women’s Health Journal, 1(2). 46-53. https://ucjournals.com/ nurses-role-in-malnutrition/

Norman, K., Haß, U. og Pirlich, M. (2021a). Malnutrition in older adults—Recent advances and remaining challenges. Nutrients, 13(8), 2764. https://doi.org/10.3390/nu13082764

O´Connell, M. L., Coppinger, T., Lacey, S., Arsenic, T. og McCarthy, A. L. (2021). The nutritional status and dietary intake of free-living seniors: A cross-sectional study. Clinical Nutrition ESPEN, 43, 478-486. https://doi.org/10.1016/j.clnesp.2021.02.020

Poínhos, R., Oliveira, B. M. P. M., Sorokina, A., Franchini, B., Afonso, C. og de Almeida, M. D. V. (2021). An extended version of the MNA-SF increases sensitivity in identifying malnutrition among community living older adults. results from the PRONUTRISENIOR project. Clinical Nutrition ESPEN, 46, 167-172. https://doi.org/10.1016/j. clnesp.2021.10.018

Regína B. Þorsteinsdóttir. (2011). Hjúkrun og næring sjúklinga. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 87(3), 12- 15.

Scholes, G. og Judd, J. (2022). Protein-energy malnutrition in older australians: A narrative review of the prevalence, causes and consequences of malnutrition, and strategies for prevention. Health Promotion Journal of Australia, 33(1), 187-193. https://doi. org/10.1002/hpja.489

Schuetz, P., Fehr, R., Baechli, V., Geiser, M., Deiss, M., Gomes, F., Kutz, A., Tribolet, P., Bregenzer, T., Braun, N., Hoess, C., Pavlicek, V., Schmid, S., Bilz, S., Sigrist, S., Brändle, M., Benz, C., Henzen, C., Mattmann, S., ... Mueller, B., (2019) Individualised nutritional support in medical inpatients at nutritional risk: a randomised clinical trial. The lancet 393(1). doi.org/10.1016/ S0140-6736(18)32776-4

de van der Schueren, M.A.E., Keller, H., Cederholm, T., Barazzoni, R., Compher, C., Correia, M.I.T.D., Gonzalez, M.C., Jager-Wittenaar, H., Pirlich, M., Steiber, A., Waitzberg, D., Jensen, G.L. (2020). Global Leadership Initiative on Malnutrition (GLIM): Guidance on validation of the operational criteria for the diagnosis of protein-energy malnutrition in adults. Clinical nutrition. 39 (1). 2872-2880

Shin, B. C., Chun, I. A., Ryu, S. Y., Oh, J. E., Choi, P. K. og Kang, H. G. (2018). Association between indication for therapy by nutrition support team and nutritional status Ovid Technologies (Wolters Kluwer Health).https://doi.org/10.1097/md.0000000000013932

Smith, T. R., Cawood, A. L., Walters, E. R., Guildford, N. og Stratton, R. J. (2020). Ready-made oral nutritional supplements improve nutritional outcomes and reduce health care Use—A randomised trial in older malnourished people in primary care. Nutrients, 12(2), 517. https://doi.org/10.3390/nu12020517

Sobestiansky, S., Åberg, A. C. og Cederholm, T. (2021). Sarcopenia and malnutrition in relation to mortality in hospitalised patients in geriatric care – predictive validity of updated diagnoses. Clinical Nutrition ESPEN, 45, 442-448. https://doi.org/10.1016/j. clnesp.2021.07.002

Talumaa, B., Brown, A., Batterham, R. L. og Kalea, A. Z. (2022). Effective strategies in ending weight stigma in healthcare Wiley.https://doi.org/10.1111/obr.13494

Thomsen, T. K., Pedersen, J. L., Sloth, B., Damsgaard, E. M., Rud, C. L. og Hvas, C. L. (2022). Nutritional risk screening in a danish university hospital is insufficient and may underestimate nutritional risk: A cross-sectional study. Journal of Human Nutrition and Dietetics, https://doi.org/10.1111/jhn.13025

Thorsdottir, I., Gunnarsdottir, I., og Eriksen, B. (2001). Screening method evaluated by nutritional status measurements can be used to detect malnourishment in chronic obstructive pulmonary disease. Journal of the American Dietetic Association, 101(6), 648-654.

Thorsdottir, I., Jonsson, P. V., Asgeirsdottir, A. E., Hjaltadottir, I., Bjornsson, S., og Ramel, A. (2005). Fast and simple screening for nutritional status in hospitalized, elderly people. Journal of Human Nutrition and Dietetics, 18(1), 53-60. doi:10.1111/j.1365-277X.2004.00580.x

Volkert, D., Beck, A. M., Cederholm, T., Cruz-Jentoft, A., Goisser, S., Hooper, L., Kiesswetter, E., Maggio, M., Raynaud-Simon, A., Sieber, C. C., Sobotka, L., van Asselt, D., Wirth, R. og Bischoff, S. C. (2019). ESPEN guideline on clinical nutrition and hydration in geriatrics. Clinical Nutrition (Edinburgh, Scotland), 38(1), 10-47. https://doi.org/10.1016/j. clnu.2018.05.024

World Health Organization. Obesity and overweight (WHO fact sheet No. 311) [Internet]. Geneva, Switzerland: World Health Organization; 2021 . Available from: https://www. who.int/news-room/fact-sheets/detail/obesity-and-overweight

Eftirfylgni og árangur meðferðar hjá fólki með sykursýki gerð 2 innan tveggja sykursýkismóttaka

doi: 10.33112/th.100.2.2

HAGNÝTING

á heilsugæslustöðvum

ÚTDRÁTTUR

Tilgangur

Hjúkrunarstýrðum móttökum einstaklinga með sykursýki innan heilsugæslunnar fjölgar þar sem unnið er eftir alþjóðlegum viðmiðum. Tilgangur rannsóknarinnar var að greina árangur eftirfylgni hjúkrunarstýrðrar sykursýkismóttöku innan heilsugæslu og bera saman við alþjóðleg viðmið. Ásamt því að rannsaka lyfjanotkun og veitta þjónustu.

Aðferð

Megindleg afturvirk ferilrannsókn framkvæmd innan heilsugæslu

Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) Fjallabyggðar og Dalvíkur. Úrtakið voru skjólstæðingar sykursýkismóttöku frá ársbyrjun 2019 til loka árs 2020 sem höfðu tvær (mæling 1 og 2) langtímablóðsykursmælingar (HbA1c gildi), með a.m.k. sex mánaða millibili. Lýsandi og ályktunar tölfræði var notuð og mæligildi hópsins borin saman við alþjóðleg viðmið.

Niðurstöður

Við upphaf rannsóknar var meðalaldur þátttakenda (n=88) 66,1 (±12,68) ár og hlutfall karla 58%. Sjúkdómslengd var á bilinu 1-21 ár. Við mælingu 2 var meðal HbA1c gildið 47,8 mmól/mól (±14,9). Allir þátttakendur tóku lyf að staðaldri. Flestir tóku blóðsykurslækkandi lyf (93,2%) og tæplega helmingur (44,3%) tók Glucagon-like peptide-1 agonista (GLP-1). Alls tóku 80,7% þátttakenda blóðþrýstingslækkandi lyf og um helmingur tók blóðfitulækkandi lyf. Algengustu fylgikvillar voru hjartasjúkdómar (84,1%). HbA1c gildi (p=0,049), líkamsþyngdarstuðull (p=0,013), og slagbilsþrýstingur (p=0,040) lækkaði í mælingu 2. Við mælingu 2 var í 72,7% tilfella alþjóðlegum viðmiðum náð í HbA1c gildi en einungis 32% þátttakenda náðu viðmiðum með líkamsþyngdarstuðul við sömu mælingu.

Ályktun

Meirihluti þátttakenda náði alþjóðlegum viðmiðum í mæligildum. Reglubundið eftirlit, mæting í sykursýkismóttöku og samvinna við skjólstæðinga bar því árangur. Þetta sýnir klínískt mikilvægi þess að hafa hjúkrunarstýrðar sykursýkismóttökur innan heilsugæslunnar.

Sykursýkismóttakan virðist vinna eftir alþjóðlegum viðmiðum sem mælt er með að unnið sé eftir.

Lykilorð

Sykursýkismóttaka, heilsugæsla, alþjóðleg viðmið, afturvirk ferilrannsókn.

RANNSÓKNARNIÐURSTAÐNA Hvers vegna ættir þú að lesa þessa grein?

Nýjungar: Rannsóknin staðfestir árangur af eftirfylgd og þjónustu hjúkrunarstýrðrar sykursýkismóttöku innan heilsugæslu á Íslandi.

Hagnýting: Niðurstöðurnar gefa hjúkrunarfræðingum tækifæri til að efla þjónustu og/eða halda áfram að vinna með það sem reynist vel.

Þekking: Þekking skapast á árangri meðferðar sem hjúkrunarfræðingar stýra innan heilsugæslunnar á Íslandi.

Áhrif á störf hjúkrunarfræðinga: Niðurstöður rannsóknarinnar ættu að hvetja hjúkrunarfræðinga til að sinna áfram því faglega starfi sem á sér stað innan sykursýkismóttöku og hvetja til teymisvinnu þvert á fagið.

Höfundar

MATTHILDUR BIRGISDÓTTIR

Hjúkrunarfræðingur

Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi

Háskólinn á Akureyri

HAFDÍS SKÚLADÓTTIR

Dósent

Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri

ÁRÚN K. SIGURÐARDÓTTIR

Prófessor

Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri

Deild mennta og vísinda Sjúkrahúsinu á Akureyri

Eftirfylgni og árangur meðferðar hjá fólki með sykursýki gerð 2 innan tveggja sykursýkismóttaka á heilsugæslustöðvum

INNGANGUR

Sykursýki er heilbrigðisvandi sem fer sífellt vaxandi á heimsvísu og er talinn einn algengasti langvinni sjúkdómur heims í dag. Áætlað er að um 537 milljónir í heiminum, eða 10,5% fullorðinna á aldrinum 20 til 79 ára þjáist af sykursýki (International Diabetes Federation [IDF], 2021b). Í íslenskri rannsókn, þar sem algengi og nýgengi sykursýki af gerð 2 (T2DM) var metið og sett fram spá um algengi T2DM eftir 10 og 20 ár, kemur fram að algengi hefur meira en tvöfaldast frá 2005 til 2018. Gert er ráð fyrir að árið 2040 verði algengi T2DM á Íslandi komið í 24.000 einstaklinga. Einnig að konum með sykursýki virðist fjölga hraðar en körlum (Bolli Þórsson o.fl., 2021).

Fylgikvillar eru langtímaafleiðing af illa eða ómeðhöndlaðri sykursýki og geta gert vart við sig mörgum árum áður en greining sykursýkinnar á sér stað en fylgikvillar eru algengir meðal einstaklinga með T2DM (Das o.fl., 2012; World Health Organisation [WHO], 2020). Slæm stjórnun á blóðsykri, aldur einstaklings og sjúkdómslengd hafa sterk tengsl við líkur á því að þróa með sér fylgikvilla. Líkur á fylgikvillum aukast með sjúkdómslengd og eftir því sem einstaklingurinn eldist (Alaboud o.fl., 2016; Sophia o.fl., 2014).

Fylgikvillar geta valdið skaða í stór- og smáæðakerfi líkamans, leitt m.a. til vandamála í hjarta- og æðakerfi líkamans, nýrna-, tauga- og sjónkvilla og fótameins (WHO, 2020).

Sykursýkismóttökur innan heilsugæslu eru hjúkrunarstýrðar móttökur sem almennt eru ætlaðar einstaklingum með T2DM. Þar sem þverfagleg teymisvinna hjúkrunarfræðings, læknis og hreyfistjóra er ráðlögð svo og aðkoma annarra fagaðila eftir því sem við á (Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu [ÞÍH], e.d.).

Vinnuhópur á vegum ÞÍH vann leiðbeiningar út frá alþjóðlegum viðmiðum Bandarísku (American Diabetes Association [ADA] og Evrópsku sykursýkissamtakanna (European Association for the Study of Diabetes [EASD] en þær eru hugsaðar sem hagnýt aðstoð við að sinna skjólstæðingum með T2DM og aðstoða þá að ná meðferðarmarkmiðum. Helstu markmið móttökunnar eru að skjólstæðingar séu vel upplýstir og virkir þátttakendur í sinni meðferð og geti með því, í samráði við meðferðaraðila, tekið upplýstar ákvarðanir um meðferð á eigin sjúkdómi. Lögð er áhersla á að auka lífsgæði skjólstæðinga bæði til skemmri (einkenni hás blóðsykurs) og lengri tíma (fylgikvillar), með jákvæðum áhrifum á blóðsykur og aðra áhættuþætti eins og háar blóðfitur, háþrýsting og reykingar. Ásamt því að bæta þjónustu við skjólstæðinga með hjúkrunarstýrðum móttökum (ÞÍH, e.d.). Þetta samræmist viðmiðum bandarísku sykursýkissamtakanna um þjónustu við einstaklinga sem greinast með T2DM en samtökin leggja til að öllum sem greinast með T2DM sé boðin þátttaka í sérhæfðri móttöku og sé fylgt eftir árlega að minnsta kosti eftir að góðri sykurstjórn hefur verið náð (Davies o.fl., 2022).

Rannsóknum ber saman um mikilvægi þess að skjólstæðingurinn sé virkur þátttakandi í meðferð sinni og að reglulegt eftirlit hafi jákvæð áhrif á líffræðilega þætti eins og HbA1c gildi, blóðþrýsting, kólesteról, blóðfitur og líkamsþyngdarstuðul (LÞS) (Davies o.fl., 2022; Vugt o.fl., 2020).

Miller o.fl. (2016) fylgdu eftir í rannsókn sinni nýgreindum einstaklingum (n=478) með T2DM í fimm ár þar sem skoðað var samband á milli upplifunar fólks á einstaklingsmiðaðri þjónustu, heilsuhegðunar og áhættunnar á að fá hjarta- og æðasjúkdóma. Eftir fimm ár í árlegu utanumhaldi mátti sjá lækkun á gildum eins og HbA1c (54,1 mmól/mól í 51,9 mmól/mól), ummáli mittis (109,9 cm í 107,9 cm), LÞS (32,4 kg/m2 í 31,9 kg/m2), blóðþrýstingi (136/80 mmHg í 132/73 mmHg) og kólesteróli (4,9 mmól/l í 4,2 mmól/l). Niðurstöðurnar sýndu að eftir eitt ár í eftirfylgd voru þeir sem voru ánægðir með þjónustuna líklegri til að auka líkamlega hreyfingu. Eftir því sem eftirfylgdin var lengri, eða eftir fimm ár, var ekki augljós fylgni á milli ánægju og breytinga á líkamlegri hreyfingu eða mataræði.

Í rannsókn van Vugt o.fl. (2020) á Indlandi kom fram að meðferðarheldni jókst hjá 30% þátttakenda (n=1284) eftir árlegt eftirlit í einstaklingsmiðaðri þjónustu sykursýkismóttöku. Sameiginleg ákvarðanataka skjólstæðings og meðferðaraðila jók öryggi í markmiðasetningu og vitneskju um sjúkdóminn. Markmiðasetning virtist vera einn mikilvægasti þátturinn í að styrkja skjólstæðinginn til sjálfsumönnunar. Þeir sem fengu þéttara eftirlit voru líklegri til að setja sér markmið heldur en þeir sem nýttu sér lítið sem ekkert eftirlit. Einnig að þeir, sem fá litla sem enga þjónustu, eru líklegri til að þurfa lyf til að lækka blóðsykur.

Í íslenskri afturvirkri rannsókn Hafdísar Lilju Guðlaugsdóttur og Árúnar K. Sigurðardóttur (2018) sem gerð var á sykursýkismóttöku yfir 10 ára tímabil (n=113) kom fram að um 30% einstaklinga með sykursýki náðu alþjóðlegum viðmiðum varðandi HbA1c- gildið. Þeir sem höfðu einkenni fylgikvilla í taugakerfi höfðu hærra HbA1c- gildi en þeir sem voru án fylgikvilla. Rúmlega helmingur náði alþjóðaviðmiðum í blóðþrýstingi eða 59,2-74,2% á meðan 32,6-78,4% náðu viðmiðum í blóðfitum en LÞS var hár öll árin eða í kringum 32 kg/m2.

Klínískar leiðbeiningar leggja áherslu á að meðferð einstaklinga með sykursýki sé einstaklingsmiðuð og þverfagleg (Inzucchi o.fl., 2012; WHO, 2020). Í hjúkrunarstýrðum móttökum er lögð áhersla á fræðslu, eftirlit, hreyfingu og mataræði. Alþjóðasykursýkissambandið leggur áherslu á að fræðsla sé hornsteinn þegar kemur að meðferðarmarkmiðum T2DM. Fræðsla og stuðningur til sjálfsumönnunar við greiningu ætti að vera hluti af heilsugæsluþjónustu einstaklingsins (Davies o.fl., 2022; IDF, 2017). Mataræði og næringarmeðferð eru taldir góðir kostir til að bæta og viðhalda heilsu til lengri og skemmri tíma hjá einstaklingum með T2DM. Markmiðið er að bæta horfur, viðhalda lífsgæðum og draga úr fylgikvillum. Mælt er með að næringarmeðferð sé fyrst og fremst einstaklingsmiðuð og unnin í samráði við einstaklinginn sjálfan, þannig má tryggja að meðferðarheldnin verði sem best (National Institute for Health and Care Excellence [NICE], 2022; Óla Kallý Magnúsdóttir o.fl., 2016; Sami o.fl., 2017). Hreyfing leikur stórt hlutverk þegar kemur að því að draga úr insúlínviðnámi, skertu sykurþoli og sykursýkis tengdum fylgikvillum hjá fólki með T2DM. Bæði þol- og styrktarþjálfun leiða af sér betri stjórn á blóðsykri, blóðfitum, blóðþrýstingi, hjarta- og æðavandamálum og auknum

lífsgæðum en hreyfingu þarf að stunda reglulega (Colberg o.fl., 2010). Því er líkamleg hreyfing ásamt hollu mataræði mikilvægur hlekkur í heilsu þeirra sem eru með T2DM (Colberg o.fl., 2010; Umpierre o.fl., 2011).

Í viðmiðum við meðferð á T2DM stendur að ef HbA1c- gildið er 48 mmól/mól, sem eru greiningarviðmið sykursýki, er mikilvægt að leggja áherslu á einstaklingmiðaða þjónustu, mataræði, hreyfingu, þyngdarstjórnun og lyfjameðferð. Fari HbA1c- gildið yfir 53 mmól/ mól þá er Metformin algengast sem fyrsta lyf en nú er einnig mælt með að nota sodium-glucose cotransporter 2-inhibitor (SGLT2i) lyf vegna verndandi áhrifa þeirra á hjarta- og æðakerfi. Ef HbA1chækkun heldur áfram þá er öðrum blóðsykurslækkandi lyfjum bætt við, eftir því sem við á, og/eða insúlínmeðferð. Einnig hafa glucagon-like peptide-1 (GLP-1 hliðstæðulyf (analog)) verið notuð vegna áhrifa á blóðsykursstjórn ásamt verndandi áhrifa á hjartaog æðakerfi. Meta þarf meðferð á þriggja til sex mánaða fresti þar til tilsett markmið nást og að minnsta kosti árlega eftir það. Skoða þarf hverja meðferð út frá einstaklingnum sjálfum (Davies o.fl., 2022; Inzucchi o.fl., 2012; NICE, 2021).

Mikilvægt er að einfalda fólki með sykursýki að sjá sjálft um sjúkdóminn. Einstaklingurinn þarf að takast á við áskoranir daglegs lífs sem fylgja sykursýkinni þar sem taka þarf tillit til og samþætta hreyfingu, mataræði og lyfjameðferð, allt þetta krefst þess að einstaklingurinn þekki sjálfan sig og sjúkdóm sinn. Til að ná sem bestum árangri þarf einstaklingurinn að hafa trú á eigin getu en það er talið ýta undir betri sjálfsumönnun en þar gegnir fræðsla lykilhlutverki (Aragón, 2019; Árún K. Sigurðardóttir 2009; Emery o.fl., 2019).

Tilgangur rannsóknarinnar var að greina afturvirkt árangur eftirfylgni hjúkrunarstýrðrar sykursýkismóttöku innan heilsugæslu og bera saman við alþjóðleg viðmið. Ásamt því að rannsaka lyfjanotkun skjólstæðinganna og veitta þjónustu innan sykursýkismóttakanna.

Sett var fram tilgáta um að lækkun verði á seinni mælingu HbA1c gildi, blóðfitum (kólesteróli, HDL og þríglýseríði), blóðþrýstingi og LÞS hjá einstaklingum sem notið hafa þjónustunnar.

AÐFERÐ

Megindleg afturvirk ferilrannsókn (e. retrospective cohort study).

Þátttakendur

Í þýði rannsóknarinnar voru skjólstæðingar (N=101) sem þáðu þjónustu sykursýkismóttöku innan heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) í Fjallabyggð og Dalvík frá ársbyrjun 2019 til loka árs 2020. Í úrtaki voru allir (n=88) sem uppfylltu þau skilyrði að hafa tvær HbA1c-mælingar með a.m.k. sex mánaða millibili.

Viðmið meðferðar Þegar viðmið meðferðar voru metin var horft til alþjóðlegra viðmiða sem klínískar leiðbeiningar sykursýkismóttöku byggja á í þjónustu sinni (ADA, 2022; IDF, 2021b; ÞÍH, e.d.). Stuðst var við eftirfarandi alþjóðleg viðmið: HbA1c<53 mmól/mól, kólesteról<5 mmól/l, HDL>1,3 mmól/l, þríglíseríð <1,7 mmól/l, blóðþrýstingur<140/80 og LÞS<30 kg/m2 (ADA, 2022; IDF, 2017; WHO, 2020).

Framkvæmd og gagnasöfnun

Gagnasöfnun fór fram í gagnagrunni Sögukerfis HSN eða gagnagrunnum sykursýkismóttaka HSN í Fjallabyggð og á Dalvík. Gögn voru tekin úr heilsugátt og samskiptaseðlum lækna og hjúkrunarfræðinga, bæði úr almennum samskiptaseðlum og þar til gerðum samskiptaseðlum sem ætlaðir eru sykursýkismóttökum, samskiptaseðill vegna sykursýki. Þátttakendur fengu þátttökunúmer sem var skráð í excel-gagnagrunn ásamt rannsóknarbreytum.

Rannsóknarbreytur

Breytur í rannsókninni voru: kyn, aldur, sjúkdómslengd, hreyfing, mataræði og reykingar. Skráð voru gildi HbA1c, blóðþrýstings, blóðfitu, kreatíns, gaukulsíunarhraða (Gfr) og LÞS, tvær mælingar sem voru með a.m.k. sex mánaða millibili, mæling 1 (T1) og mæling 2 (T2). Samantekt var gerð á lyfjanotkun úrtaks: blóðsykurs-, blóðþrýstings- og blóðfitulækkandi lyfjum ásamt notkun á GLP-1 hliðstæðulyfi.

Skráð var þjónusta móttöku: veitt fræðsla, tilvísun í hreyfiseðli, tilvísun til næringarfræðings, fótaskoðun, augnskoðun, notkun á streitulistanum (Problem Areas In Diabetes - PAID) og mæting í móttöku.

Gagnagreining Úrvinnsla og greining gagna fór í gegnum tölfræðiforritið Statistical Package for Social Sciences (SPSS) útgáfu 26 (IBM, Armonk, NY, USA). Lýsandi og ályktunar tölfræði var notuð til að greina rannsóknarbreytur. Fylgni var reiknuð á milli bakgrunnsbreyta og HbA1c gildis, kólesteróls, HDL, þríglýseríðs, kreatíns, Gfr, slagbilsþrýstings, hlébilsþrýstings og LÞS ásamt notkun á GLP-1 hliðstæðulyfjum. Gerður var samanburður á mælingum HbA1c- gildis, kólesteróls, HDL, þríglýseríðs, kreatíns, Gfr, slagbilsþrýstings, hlébilsþrýstings og LÞS þátttakenda, T1 og T2. Parað t-próf var notað til að skoða breytingar á sömu mælingum milli T1 og T2. Miðað var við marktektarmörk p-gildi <0,05 og einhliða marktektarmörk (e. one-sided p). Spábreytur í línulegri aðhvarfsgreiningu til að skoða tengsl á milli HbA1c- gildis (háð breyta) voru valdar vegna fylgni við háða breytu á T1: GLP-1 lyf, LÞS, hjartasjúkdómar, reykingar, sjúkdómslengd og kyn.

Siðfræði

Leyfi til rannsóknarinnar fékkst hjá Vísindasiðanefnd (VSN-21-091) og framkvæmdastjórn HSN veitti samþykki fyrir rannsókninni.

NIÐURSTÖÐUR

Einstaklingar sem komu í móttökurnar tvær á umræddu tímabili voru 101 en 13 áttu ekki tvær mælingar á HbA1c- gildi og voru því útilokaðir frá frekari rannsókn. Úrtakið voru 88 einstaklingar, því voru gögn um 87,1% skjólstæðinga viðkomandi sykursýkismóttaka á rannsóknartíma greind.

Bakgrunnur

Tafla 1 sýnir persónu- og heilsuþætti þátttakenda í upphafi rannsóknartímabilsins (T1). Þátttakendur voru á aldrinum 3290 ára (M=66,1 ár) og hlutfall karla 58%. Meðaltal HbA1c var 50,9 mmól/mól (±16,5) með spönn frá 27,9 mmól/mól-105,5 mmól/ mól. Meðal LÞS var 33,5 kg/m2 og meðal sjúkdómslengd úrtaks var 10,3 ár (spönn 1-21 ár). Um 57% voru með sjúkdómslengd upp á níu ár eða skemur. Þegar skoðaðir voru lífsstílshættir kom í ljós að 38,6% höfðu á einhvern hátt gert breytingu á mataræði, 34,1% stunduðu hreyfingu og 30,7% höfðu hætt reykingum.

Tafla 1. Persónu- og heilsuþættir sem einkenndu þátttakendur (n=88) í upphafi rannsóknartímabils

Meðaltal (±Sf) Spönn Vantar upplýsingar (%)

Persónuþættir

Aldur, ár 66,1 (12,68) 32-90

Sjúkdómslengd 10,3 (6,09) 1-21

n (%)

Karl 51 (58)

Kona 37 (42) n (%)

Heilsuþættir

Reykingar 23,9

Reykir 15 (17)

Hætt/ur að reykja 27 (30,7)

Aldrei reykt 25 (28,4)

Hreyfing 30 (34,1)

Breyting á mataræði 34 (38,6)

Meðaltal (±Sf) Spönn

HbA1c (mmól/ mól) 50,9 (16,5) 27,9-105,5

Slagbilsþrýstingur (mmHg) 143 (19,35) 105-198 9,1

Hlébilsþrýstingur (mmHg) 81 (9,17) 62-105 9,1

Þyngd (kg) 99,8 (19,69) 63-156,2 10,2

LÞS (kg/m2) 33,5 (5,93) 21,8-47,6 13,6 n (%)

Meðferðarform

Insúlín ásamt töflum 8 (9,1)

Metformin 28 (31,8)

Töflur, 2 tegundir og fleiri 22 (25)

GLP-1 39 (44,3)

Engin blóðsykurslækkandi lyf 6 (6,8)

Blóðþrýstingslækkandi lyf 71 (80,7)

Blóðfitulækkandi lyf 48 (54,5) n (%)

Fylgikvillar

Hjarta- og æðasjúkdómar 74 (84,1) 4,5

Nýrnakvillar 7 (8) 9,1

Taugakvillar 25 (28,4) 17

Augnsjúkdómar 8 (9,1) 18,2

Meðferðarform

Allir þátttakendur tóku lyf að staðaldri. Flestir tóku blóðsykurslækkandi lyf (93,2%) og tæplega helmingur (44,3%) tók

GLP-1 hliðstæðulyf til að styðja við blóðsykurslækkun. Þátttakendur sem eingöngu notuðu Metformin voru 31,8% en 6,8% notuðu engin blóðsykurslækkandi lyf og enginn einstaklingur var eingöngu á insúlíni (tafla 1). Alls tóku 80,7% þátttakenda blóðþrýstingslækkandi lyf og um helmingur tók blóðfitulækkandi lyf (54,5%). Algengustu fylgikvillar voru hjartasjúkdómar (84,1%).

Þjónusta

Í 80,7% tilvika veittu hjúkrunarfræðingar fræðslu til þeirra sem mættu í móttöku en mæting í móttöku var um 81,8%. Um þriðjungur átti tilvísun til næringarfræðings (30,7%), 8% áttu tilvísun í hreyfiseðil. Reglubundin fótaskoðun var framkvæmd í 62,5% tilvika (tafla 2).

(n=88)

Þjónusta n (%) Vantar upplýsingar (%)

Fræðsla hjúkrunarfræðings 71 (80,7) 15 (17)

Tilvísun til næringarfræðings 27 (30,7) 18 (20,5)

Tilvísun í hreyfiseðil 7 (8) 17 (19,3)

PAID lagður fyrir 1 (1,1)

Mæting í móttöku 72 (81,8)

Fótaskoðun framkvæmd 55 (62,5) 18 (20,5)

Augnskoðun hjá augnlækni 49 (55,7) 18 (20,5)

Mat á árangri og samanburður við alþjóðleg viðmið

Við samanburð á T1 og T2 með pöruðu t-prófi kom í ljós að marktækur munur var á milli mælinga á HbA1c gildi (p=0,049), LÞS (p=0,013) og slagbilsþrýstingi (p=0,040) (tafla 3). Tilgátan um að lækkun verði á seinni mælingum er staðfest á ofangreindum þremur mælingum en ekki öðrum.

Tafla 3. Niðustöður tveggja mælinga (T1 og T2) á HbA1c, kólesteróli, HDL, þríglýseríð, kreatín, gaukulsíunarhraða (Gfr), líkamsþyngdarstuðli og slagbils- og hlébilsþrýstingi

Tafla 4 sýnir hlutfall einstaklinga sem náðu alþjóðlegum viðmiðum við T2 á HbA1c gildi og öðrum mælingum. Í 72,7% tilfella var alþjóða viðmiðum náð í HbA1c gildi en einungis 31,6% náðu markmiðum með LÞS. Einnig náðu 56% viðmiðum slagbilsþrýstings.

Tafla 4. Hlutfall einstaklinga sem ná alþjóðlegum viðmiðunarmörkum á mælingum við T2 n (%)

HbA1c <53 mmól/mól (n=88) 64 (72,7)

Kólesteról <5,0 mmól/l (n=73) 57 (78)

HDL >1,3 mmól/l (n=73) 22 (30,1)

Þríglýseríð <1,7 (n=73) 33 (45,2)

Slagbilsþrýstingur <140 mmHg (n=66) 37 (56)

Hlébilsþrýstingur <80 mmHg (n=66) 32 (48,6)

LÞS <30 kg/m2 (n=60) 19 (31,6)

Við T1 var fylgni á milli hærra HbA1c gildis og þess að nota insúlín ásamt töflum (p=0,036), hærra HbA1c gildis og hlébilsþrýstings (p=0,010). Einnig var fylgni á milli hærra HbA1c gildis og þess að reykja (p=0,036). Ekki mældist fylgni milli þessara breyta á T2.

Aðhvarfsgreiningarlíkan yfir spábreytur fyrir HbA1c á T2 er að finna í töflu 5. Heildarlíkanið var marktækt með F=3,102, df=6, (p<0,001). Líkanið skýrir 17% (leiðrétt R2 er 0,171) af breytileika HbA1c gildis við spábreytur; GLP-1 hliðstæðulyf, LÞS, hjartasjúkdóma, reykingar, sjúkdómslengd og kyn. Sterkasta spábreytan var GLP-1 hliðstæðulyf sem sýndi hærra HbA1c gildi ef notaður er GLP-1 hliðstæðulyf (B=-1,502) og ef LÞS er lægri er HbA1c gildið hærra en þau tengsl voru ekki sterk (B=-0,070).

HbA1c (mmól/mól) 88 50,9 (16,5) 27,9105,5 47,8 (14,8) 23,593,4 0,049*

Kólesteról (mmól/l) 72 4,47 (1,09) 2,3-7,5 4,41 (1,04)

Þríglýseríð (mmól/l) 72 2,09 (1,3) 0,5-9,3 2,23 (1,57) 0,410,8 0,111

Kreatín 76 85,82 (33,66) 49-296 85,88 (36,94) 30-311 0,484

Gfr 72 74,79 (16,34) 18-90 74,04 (18,09) 17-90 0,293

Slagbilsþrýstingur (mmHg)

(19,35)

Hlébilsþrýstingur (mmHg) 66 81 (9,17) 62-105 81 (9,55) 60-103 0,500

LÞS (kg/m2) 60 33,52 (5,93) 21,847,6 32,79 (6,1) 21,849,7 0,013*

*P-gildi parað t-próf, marktækni miðuð við p<0,05.

Tafla 2. Skráð þjónusta sykursýkismóttöku
Tafla 5. Aðhvarfsgreiningarlíkan

UMRÆÐA

Í þessari rannsókn voru tvær mælingar skoðaðar hjá skjólstæðingum sykursýkismóttöku heilsugæslustöðvanna í Fjallabyggð og á Dalvík. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að reglubundin eftirfylgd og samvinna með skjólstæðingnum geti skilað árangri á mælingum eins og HbA1c- blóðþrýstingi og LÞS. Það samræmist niðurstöðum annarra rannsókna (Davies o.fl., 2022; Miller o.fl., 2016; van Vugt o.fl., 2020). Meginniðurstaða rannsóknarinnar var að meðal HbA1c gildi hópsins var innan alþjóðlegra viðmiða á T2, í 72,7% tilfella, ásamt því að HbA1c, LÞS og slagbilsþrýstingur lækkuðu marktækt á milli mælinga. Mæling á T2 var valin vegna þess að einstaklingarnir voru búnir að fá fræðslu og reglulegt eftirlit fram að T2, en móttakan hóf formlega starfsemi í byrjun árs 2019. Hlutfall þeirra sem ná alþjóðlegum viðmiðum í HbA1c- gildi er mismunandi eftir rannsóknum, t.d. í Noregi (64%) (Bakke o.fl., 2019) og í Kanada (49,6%) (Leitier o.fl., 2013). Í íslenskri rannsókn er hlutfallið um 43%. (Hafdís Lilja Guðlaugsdóttir og Árún Kristín Sigurðardóttir, 2018). Möguleg skýring á lækkun HbA1c gildis getur verið að formlegt utanumhald og eftirfylgni, teymisvinna og að reglubundin fræðsla fagaðila hafi áhrif á árangur og meðferðarheldni einstaklinga. Veitt fræðsla var skráð í 80,7% tilfella og mæting í móttöku var 81,8%. Í rannsókn van Vugt o.fl. (2020) á Indlandi jókst meðferðarheldni hjá 30% þátttakenda eftir einstaklingsmiðað eftirlit innan heilsugæslu. Miðað við aðrar rannsóknir má sjá lækkanir á mælingum fyrstu eitt til tvö árin eftir að reglubundin eftirfylgni hefst en til lengri tíma litið (5 ár+) virðast mælingar hækka aftur (Hafdís Lilja Guðlaugsdóttir og Árún Kristín Sigurðardóttir, 2018; Miller o.fl., 2016).

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að algengustu fylgikvillarnir voru hjarta- og æðasjúkdómar (84,1%) og um þriðjungur hópsins hafði þróað með sér taugakvilla (28,4%). Fótaskoðun er mikilvægur þáttur þegar kemur að því að meta taugakvilla og ætti að vera gerð einu sinni á ári en það var einungis framkvæmt í 62,5% tilfella. Allir þátttakendur tóku lyf að staðaldri, flestir tóku blóðþrýstingslækkandi lyf sem samræmdist algengi hjarta- og æðasjúkdóma innan hópsins. Á sama tíma voru þó einungis 54,5% sem tóku blóðfitulækkandi lyf. Tíðni hjarta- og æðasjúkdóma er heldur hærri en í öðrum rannsóknum. Í rannsókn sem gerð var í Noregi var tíðnin um 50% (Bakke o.fl., 2019), í Kanada um 30% (Leiter, 2013) og í annarri íslenskri rannsókn 63% (Hafdís Lilja Guðlaugsdóttir og Árún Kristín Sigurðardóttir, 2018).

Hér kemur fram að um 21% þátttakenda notaði annars konar blóðsykurslækkandi töflur en metformin. Ekki er ráðlegt að fólk sem hefur skerta nýrnastarfsemi taki inn metformin (Inzucchi o.fl., 2012). Átta prósent þátttakenda í þessari rannsókn voru með skerta nýrnastarsfsemi sem var túlkað út frá Gfr<60, hækkun á kreatíni í blóði og sjúkdómsgreiningum. Alþjóðasykursýkissambandið (IDF, 2021a) áætlar að tíðni nýrnakvilla sé um 40% á meðal fólks með T2DM. Í rannsókn Das o.fl. (2012) kemur fram að tíðni nýrnakvilla sé 65,1%. Tíðni nýrnakvilla þessarar rannsóknar var því heldur lág samanborið við þetta. Tæplega helmingur (44,3%) þátttakenda notaði GLP-1 hliðstæðulyf til að styðja við blóðsykurslækkun en í rannsókn Hafdísar Lilju Guðlaugsdóttur og Árúnar Kristínar Sigurðardóttur (2018) er notkun á GLP-1 hliðstæðulyfjum í kringum 20%. Hér var fylgni á milli hærra HbA1c- gildis og þess að nota GLP-1 hliðstæðulyf en notkun á GLP-1 hliðstæðulyfjum er að aukast. Samkvæmt Sjúkratryggingum Íslands hefur einstaklingum sem hafa fengið greiðsluþátttöku í ATC-flokknum sem inniheldur GLP-1 hliðstæðulyf fjölgað úr 479 einstaklingum árið 2019 í tæplega 4.000 einstaklinga árið 2022 (Ásthildur Björnsdóttir,

viðskiptastjóri Novo Nordisk, munnleg heimild, 3. apríl 2023). Hér lækkaði LÞS á milli mælinga sem mögulega má að einhverju leyti rekja til notkunar á GLP-1 hliðstæðulyfjum. Niðurstöður þessarar rannsóknar sýndu að þátttakendur stunduðu hreyfingu og gerðu breytingu á mataræði en þetta tvennt hefur verið talið mikilvægur hlekkur í heilsu þeirra sem eru með sykursýki, hefur áhrif m.a. á LÞS, blóðþrýsting og HbA1c (Colberg o.fl., 2010; Umpierre o.fl., 2011). Ráðleggingar um mataræði og hreyfingu eru mikilvægur þáttur í vinnu hjúkrunarfræðinga innan móttöku. Ásamt því að setja markmið með sjálfsumönnun (Aragón, 2019; Emery o.fl., 2019; ÞÍH, e.d.).

Það er þekkt að einstaklingar vanmeti afleiðingarnar sem sykursýki getur haft í för með sér vegna þess hversu dulinn sjúkdómurinn er. Rannsóknum ber saman um að markmið meðferðar við sykursýki sé að koma í veg fyrir eða seinka fylgikvillum ásamt því að auka lífsgæði fólks (Davies o.fl., 2022; Mohamed o.fl., 2007). Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu leggur einnig áherslu á þessa þætti (ÞÍH, e.d.).

Við skoðun á þjónustu sykursýkismóttökunnar benda niðurstöður þessarar rannsóknar til að móttakan vinni eftir þeim alþjóðlegu viðmiðum sem mælt er með að unnið sé eftir, þ.e. skipulagi, reglulegu eftirliti og fræðslu (Davies o.fl., 2022; ÞÍH, e.d.). Í niðurstöðum Bautista o.fl. (2020) kemur fram að fræðsla og eftirfylgni innan heilsugæslu hafi jákvæð áhrif á efnaskipti líkamans sem samræmist niðurstöðum þessarar rannsóknar. Vinnulag móttakanna í þessari rannsókn var á þann veg að skjólstæðingar voru kallaðir inn í eftirlit eftir því sem við átti. Hjúkrunarfræðingar sáu um allt utanumhald og innkallanir en ákvarðanir um meðferð og eftirlit voru í samráði við lækna. Tilvísunum til næringarfræðings og í hreyfiseðil var ábótavant en var vel nýtt þegar það kom til. Það getur skýrst af fjarveru næringarfræðings seinni hluta rannsóknartímabils og þess að tilvísun í hreyfiseðil er metin út frá þörf hverju sinni. En 34,1% þátttakenda stunduðu reglubundna hreyfingu. Móttakan hóf formlega starfsemi 2019 og var skráningu ábótavant til að byrja með. Leita þurfti að upplýsingum í stað þess að þær væru allar skráðar á einn stað á eyðublað vegna sykursýki, en vinnulag batnaði og skráning jókst og varð ítarlegri eftir því sem meiri reynsla kom á sykursýkismóttökuna. Þar með voru upplýsingar aðgengilegri. Út frá fjölda skráninga og samskiptaseðla má túlka að eftirfylgd skjólstæðinga hafi í heild verið vel sinnt á rannsóknartímabilinu. Áætlað var að kanna notkun á Streitulistanum (PAID) sem skimar fyrir streitu í tengslum við sykursýkina en listinn var einungis lagður fyrir einn einstakling og því ekki hægt að rýna í niðurstöður honum tengdar. ÞÍH (e.d.) mælir með að listinn sé lagður fyrir til að skima fyrir sálrænum vandamálum hjá fólki með sykursýki.

Mikilvægt er að skrá upplýsingar skjólstæðinga í sykursýkismóttöku á þar til gert eyðublað, sem ætlað er sykursýkismóttökum, í Sögukerfinu. Með því liggja upplýsingarnar sem mest á einum stað og auðveldar meðferðaraðilum að hafa yfirsýn yfir hvert tilfelli fyrir sig. Mikilvægt er að fylgjast með hversu vel meðferðarmarkmið nást, sjá breytingar sem verða á milli ára og rýna í það sem gengur vel og það sem betur má gera. Fyrst og fremst skiptir máli að hjúkrunarfræðingar tileinki sér strax þá verkferla sem alþjóðleg viðmið mæla með að unnið sé eftir, með því er hægt að fá sem bestan árangur. Sem dæmi má nefna þá er LÞS skráður hjá 83% þeirra sem að mæta í móttöku sem ætti öllu jafna að vera hærra. Samskiptaseðill vegna sykursýki leiðir fagaðilann skref fyrir skref í gegnum ferlið og því ætti ekkert að gleymast í framkvæmd og skráningu.

Styrkleiki rannsóknarinnar var að greind var skráning gagna tveggja sykursýkismóttaka yfir tveggja ára tímabil sem staðfesti að unnið er eftir alþjóðlegum viðmiðum. Hægt var að nýta gögn 87,1% þeirra sem sóttu móttökurnar út frá HbA1c-mælingum. Rannsóknin gefur gott yfirlit yfir vinnulag sem viðhaft er í viðkomandi móttökum.

Helsta takmörkun rannsóknarinnar er að hún er afturvirk, því voru upphafleg gögn ekki skráð í rannsóknarskyni. Skráning var ekki góð í upphafi rannsóknartímabils og því þurfti að leita að upplýsingum á milli eyðublaða en skráning batnaði eftir því sem meiri reynsla komst á sykursýkismóttökurnar. Einnig er takmörkun hversu lítið úrtakið var og hversu ný sykursýkismóttakan var. Gott hefði verið að komin væri meiri reynsla á vinnulag og skráningu áður en rannsóknin hófst. Veikleiki framkvæmdar og skráningar hefur áhrif á gæði gagna og það hvort niðurstöður gefi rétta mynd af því sem verið er að rannsaka. Hjúkrunarstýrðar sykursýkismóttökur innan heilsugæslunnar eru mikilvægur þáttur í þjónustu við skjólstæðinga með sykursýki. Þær áherslur sem unnið er eftir virðast skila árangri ef litið er til niðurstaðna þessarar rannsóknar. Viðkomandi sykursýkismóttökur vinna eftir þeim alþjóðlegu viðmiðum sem ráðlögð eru. Út frá hlutfalli einstaklinga sem ná alþjóðlegum viðmiðum á mælingum gefa niðurstöður rannsóknarinnar til kynna að reglubundin eftirfylgd, mæting í móttöku og samvinna með skjólstæðingnum beri árangur sérstaklega á mælingum eins og HbA1c, LÞS og blóðþrýstingi.

ÞAKKARORÐ

Þakkir fá hjúkrunarfræðingar á HSN í Fjallabyggð og á Dalvík og allir þeir sem á einhvern hátt aðstoðuðu við framkvæmd rannsóknarinnar. Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga þakka ég veittan styrk úr B-hluta vísindasjóðs.

ENGLISH SUMMARY

Follow up and outcomes of treatment for people with type 2 diabetes within two nurse led clinics in primary care

ABSRTAKT

Aim

More nurse led diabetes clinics in primary care are established. The clinics should follow international guidelines in diabetes care. The purpose of this study was to analyse outcomes of treatment in patients with type 2 diabetes, in two diabetes clinics, on measurements with at least six months interval and compare to international guidelines. Attendance to the clinic and use of other services was analysed

Method

A retrospective cohort study in primary care of The Healthcare institution of North Iceland (HSN) in Fjallabyggð and Dalvík. The sample was patients in the two diabetes clinics from beginning of 2019 to the end of 2020 and had two HbA1c measurements with at least six months between the measurements (Time 1 and 2). In addition, use of blood sugar, blood pressure and blood lipid lowering medications were analysed. Descriptive and inferential statistics were used and measurements compared to international guidelines.

Results

At time 1, mean age (n = 88) was 66.1 (±12.68) years, 58% were male. Diabetes duration was 1-21 years. At time 2 mean HbA1c was 47.8 mmol/mol (±14.9). All participants (n = 88) did use medicine. Most used blood sugar lowering medicine (93.2%), around half of the sample (44.3%) used Glucagon-like peptide-1 agonista (GLP-1). In total 80.7% of the participants took blood pressure lowering medicine and around half of the sample did use lipid lowering medicine. The most common complication was cardiovascular disease (84.1%). HbA1c (p=0.049), body mass index (p=0.013) and systolic pressure (p=0.040) decreased at the second measurement. At the second measurement 72,7% reached international goals in HbA1c but 32% reached it in body mass index at the same time.

Conclusions

Most patients reached international guidelines goals in clinical measurements. Regular follow up, attendance to the diabetes clinic and collaboration with the patient gives a positive outcome. The results demonstrate the clinical importance of having nurse led diabetes clinics in primary care. The two diabetes clinics seem to follow international guidelines when providing the care.

Keywords

Diabetes Clinics, Primary Health Care, International Guidelines, Cohort Study.

Correspondent matthildurb@hsn.is

HEIMILDASKRÁ

Alaboud, A.F., Tourkmani, A.M., Alharbi, T.J., Alobikan, A.H., Abdelhay, O., Batal, S.M.A., Alkhashan, H.I. og Mohammed, U.Y. (2016). Microvascular and macrovascular complications of type 2 diabetic mellitus in Central, Kingdom of Saudi Arabia. Saudi Medical Journal, 37(12), 1408-1411. https:// doi.org/ 10.15537/smj.2016.12.17062

American Diabetes Association. (2022). 10. Cardiovascular disease and risk management: Standards of medical care in diabetes – 2022. Diabetes Care, 45(1), S144-S175. https://doi.org/10.2337/dc22-S010

Aragón, V.A. (2019). Improving patient self-care using diabetes technologies. Therapeutic Advances in Endocrinology and Metabolism, 10, 1-11. https://doi.org/10.1177/2042018818824215

Árún K. Sigurðardóttir. (2009). Sjálfsumönnun í sykursýki og áhrifaþættir. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 85(2), 50-56.

Bakke, A., Dalen, I., Thue, G., Cooper, J., Skeie, S., Berg, T.J., Jenum, A. K., Claudi, T., Lovaas, K., F. og Sandber, S. (2019). Variation in the achievement of HbA1c, blood pressure and LDL cholesterol targets in type 2 diabetes in general practice and characteristics associated with risk factor control. Diabetic Medicine, 9(37), 14711481. https://doi.org/10.1111/dme.14159

Bautista, J.C., Uttumchandani, S.K., Mayor, S.G., Estrada, F.V., Herrera, J.C.M., Campos, Á.L., González, A.J.G. og Asencio, J.M. M. (2020). Impact of self-care programmes in type 2 diabetes mellitus population in primary health care: Systematic review and meta-analysis. Journal of Clinical Nursing, 29(9-10), 1457-1476. https://doi. org/10.1111/jocn.15186

Bolli Þórsson, Elías Freyr Guðmundsson, Gunnar Sigurðsson, Thor Aspelund og Vilmundur Garðarsson. (2021). Algengi og nýgengi sykursýki 2 á Íslandi frá 2005 til 2018. Læknablaðið, 107(5), 227-233. https://doi.org/10.17992/lbl.2021.05.634

Colberg, S.B., Sigal, R.J., Fernhall, B., Regensteiner, J.G., Blissmer, B.J., Rubin, R.R., Chasan-Taber, L., Albright, A.L. og Braun, B. (2010). Exercise and type 2 diabetes. Diabetes Care, 33(12), 147-167. https://doi.org/10.2337/dc10-9990

Das, A.K., Seshiah, V., Sahay, B.K., Kumar, A., Asirvatham, A.J., Balaji, V., Kalra, S., Channabasavaiah, R., Shetty, R. og Moses, C.R.A. (2012). Improving management practices and clinical outcomes in type 2 diabetes study: Prevalence of complications in people with type 2 diabetes in India. Indian Journal of Endocrinology and Metabolism, 16(2), S430-S431. https://doi.org/10.4103/22308210.104119

Davies, M.J., Aroda, V.R., Collins, B.S., Gabbay, R.A., Green, J., Maruthur, N.M., Rosas, S.E., Prato, S., Mathieu, C., Mingrone, G., Rossing, P., Tankova, T., Tsapas, A. og Buse, J.B. (2022). Management of hyperglycemia in type 2 diabetes, 2022. A consensus report by the American Diabetes Association (ADA) and the European Association for the Study of Diabetes (EASD). Diabetes Care, 45(11), 2753-2786. https://doi. org/10.2337/dci22-0034

Emery, K.A., Robins, J., Salyer, J. og Thurby-Hay, L. (2019). Self and family management in Type 2 Diabetes: Influencing factors and outcomes. Nursing Science Quarterly, 32(3), 189-197. https://doi.org/10.1177/0894318419845399

Hafdís Lilja Guðlaugsdóttir og Árún Kristín Sigurðardóttir. (2018). Sykursýki er áskorun: Tíu ára eftirfylgd einstaklinga með sykursýki. Læknablaðið, 104(4), 171-176.

International Diabetes Federation. (2017). IDF clinical pratice recommendations for managing type 2 diabetes in primary care. https://www.idf.org/component/ attachments/attachments.html?id=1586&task=download.

International Diabetes Federation. (2021a). Diabetes and the kidney. https://www.idf. org/our-activities/care-prevention/diabetes-and-the-kidney.html

International Diabetes Federation. (2021b). IDF Diabetes Atlas: 10TH edition 2021. IDF_Atlas_10th_Edition_2021.pdf(diabetesatlas.org)

International Diabetes Federation. (2023). Type 2 Diabetes. https://www.idf.org/ aboutdiabetes/type-2-diabetes.html

Inzucchi, S.E., Bergenstal, R.M., Buse, J.B., Diamant, M., Ferrannini, E., Nauck, M., Peters, A.L., Tsapas, A., Wender, R. og Matthews, D.R. (2012). Management of hyperglycemia in type 2 diabetes: A patient-centred approach. Diabetes Care, 35(3), 154-171. https://doi.org/10.2337/diaspect.25.3.154

Leiter, L.A., Berard, L., Bowering, K., Cheng, A.Y., Dawson, K.G., Ekoé, J.M., Fournier, C., Goldin, L., Harris, S.B., Lin, P., Ransom, T., Tan, M., Teoh, H., Tsuyuki, R.T., Witham, D., Woo, V., Yale, J.F. og Langer, A. (2013). Type 2 diabetes mellitus management in Canada: Is it improving?. Canadian Journal of Diabetes, 37(2), 82-89. http://dx.doi. org/10.1016/j.jcjd.2013.02.055

Miller, H.D., Cooper, A.J.M., Simmons, R.K., Kinmonth, A.L. og Griffin, S.J. (2016). Patient-centred care, health behaviours and cardiovascular risk factor levels in people with recently diagnosed type 2 diabetes: 5-year follow-up of the ADDITION-Plus trial cohort. BMJ Open, 6, 1-7. e008931. http://dx.doi. org/10.1136/bmjopen-2015-008931

Mohamed, Q, Gillies, M.C. og Wong, T.Y. (2007). Management of diabetes retinopathy: A systematic review. JAMA, 298(8), 902-916. https://doi.org/10.1001/jama.298.8.902 National Health Service (2019). Why is my waist size important? https://www.nhs.uk/ common-health-questions/lifestyle/why-is-my-waist-size-important/ National Institute for Health and Care Excellence. (2021). Managing blood glucose in adult with type 2 diabetes. https://pathways.nice.org.uk/pathways/ type-2-diabetes-in-adults#path=view%3A/pathways/type-2-diabetes-in-adults/ managing-blood-glucose-in-adults-with-type-2-diabetes.xml&content=view-index National Institute for Health and Care Excellence. (2022). Type 2 diabetes in adults: Management.https://www.nice.org.uk/guidance/ng28/chapter/ Recommendations#individualised-care

Óla Kallý Magnúsdóttir, Bertha María Ársælsdóttir, Hörður Björnsson, Rafn Benediktsson, Rut Gunnarsdóttir, Tómas Þór Ágústsson og Bryndís Eva Birgisdóttir. (2016). Næringarmeðferð einstaklinga með sykursýki af tegund 2: Fræðilegur bakgrunnur leiðbeininga fyrir heilbrigðisstarfsmenn. https://www.landlaeknir.is/ servlet/file/store93/item32223/Næringar meðferð_vegna_sykursýki_af_tegund-2_ apríl%202017.pdf

Sami, W., Ansari, T., Butt, N. S. og Hamid, A.R.A. (2017). Effect of diet on type 2 diabetes mellitus: A review. International Journal of Health Sciences, 11(2), 65-71. PMID: 28539866

Sophia, Z., Mark, W., Qiang, L., Mark, C. og Pavel, H. (2014). Impact of age, age at diagnosis and duration of diabetes on the risk of macrovascular and microvascular complications and death in type 2 diabetes. Diabetologia, 57(12), 2465-2474. https://doi.org/10.1007/s00125-014-3369-7

Umpierre, D., Ribeiro, P. A. B., Kramer, C. K., Leitão, C. B., Zucatti, A.T.N., Azevedo, M.J., Gross, J.L., Ribeiro, J.P. og Schaan, B.D. (2011). Physical activity advice only or structured exercise training and association with HbA1c levels in type 2 diabetes: A systematic review and meta-analysis. JAMA, 305(17), 1790-1799. https://doi. org/10.1001/jama.2011.576

Van Vugt, H.A., Heijmans, M.J.W.M., P.deKoning, E.J. og Rutten, E.H.M. (2020). Factors that influence the intended intensity of diabetes care in a person-centered setting. Diabetes Medicine, 37(7), 1167-1175. https://doi.org/10.1111/dme.14072

World Health Organization. (e.d.). Body mass index - BMI. https://www.euro. who.int/en/health-topics/disease-prevention/nutrition/a-healthy-lifestyle/ body-mass-index-bmi

World Health Organization. (2020). Diagnosis and management of type 2 diabetes https://www.who.int/publications/i/item/who-ucn-ncd-20.1 Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. (e.d.). Sykursýkismóttaka http://þíh.is/leidbeiningar/sykursykismottaka/

Höfundar

BRYNJA INGADÓTTIR1,2

JÓHANNA ÓSK EIRÍKSDÓTTIR1

NANNA FRIÐRIKSDÓTTIR1,2

KATRÍN BLÖNDAL1,2

BJÖRK BRAGADÓTTIR3

JÓNÍNA SIGURGEIRSDÓTTIR⁴

HILDUR EINARSDÓTTIR (†)1

MARGRÉT HRÖNN SVAVARSDÓTTIR⁵

1Landspítali

2Háskóli Íslands

3Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins

4Reykjalundur

5Háskólinn á Akureyri († lést 5. september 2022)

Fyrir hönd samstarfshóps um heilsulæsi (heilsulæs.is)

Endursagnaraðferðin í sjúklingafræðslu: Gagnreynd leið til að kanna skilning og bæta heilsulæsi

Í störfum hjúkrunarfræðinga er sjúklingafræðsla afar mikilvæg og því hefur verið haldið fram að hún sé það næstmikilvægasta á eftir því að bjarga mannslífum (London, 2016). Til þess að sjúklingar geti tekið upplýstar ákvarðanir varðandi heilsufar sitt og verið þátttakendur í eigin meðferð, þurfa þeir vandaðar og áreiðanlegar upplýsingar og fræðslu sem veitt er af fagmennsku og byggð er á gagnreyndri þekkingu (Bhattad og Pacifico, 2022; HCEA, 2022; Johnson o.fl., 2023). Heilsulæsi ræður miklu til um hversu vel sjúklingum gagnast upplýsingar til að sinna heilsu sinni og sjálfsumönnun og nota heilbrigðisþjónustuna á árangursríkan hátt.

Hugtakið heilsulæsi er í vaxandi mæli áberandi í stefnumótun og umfjöllun um heilbrigðistengd málefni, allt frá forvörnum til meðferðar langvinnra sjúkdóma (Jackson o.fl., 2021; The Standing Committee of European Doctors o.fl., e.d.; U.S. Department of Health and Human Services, 2010). Heilsulæsi felst í getu, þekkingu og áhuga fólks til þess að nálgast, skilja, meta og nota upplýsingar sem varða heilsu þess til ákvarðanatöku í daglegu lífi sem tengist notkun heilbrigðisþjónustu, sjúkdómaforvörnum og heilsueflingu til að viðhalda eða bæta lífsgæði (Sørensen o.fl., 2012). Í íslensku heilbrigðisstefnunni til 2030 (heilbrigðisráðuneytið, 2019) kemur fram að heilbrigðisstarfsfólk geti eflt heilsulæsi með markvissum aðgerðum, en ekki er nánar kveðið á um hvernig það er gert. Í siðareglum hjúkrunarfræðinga (2. grein) stendur hins vegar að hjúkrunarfræðingur virðir rétt skjólstæðings til að taka ákvarðanir um eigin meðferð, stuðlar að því að hann geti tekið upplýsta ákvörðun og fái réttar og tímabærar upplýsingar (Siðaráð Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, 2015) og í lögum um réttindi sjúklinga eru einnig mikilvæg ákvæði er varða upplýsingagjöf heilbrigðisstarfsmanna og virðingu við sjálfræði sjúklinga (Lög um réttindi sjúklinga, 1997).

Notkun endursagnaraðferðarinnar (e. Teach-back) er gagnreynd leið til að styðja við árangursríka sjúklingafræðslu og efla heilsulæsi notenda heilbrigðisþjónustunnar (Yen og Leasure, 2019). Endursagnaraðferðin felst í því að biðja sjúklinga að endurtaka með sínum eigin orðum það sem fór fram í fræðslunni um það sem þeir þurfa að vita eða gera (Anderson o.fl., 2020). Með aðferðinni er hægt að kanna skilning (nota endursögn) eða færni (nota endursýningu) þeirra sem hafa fengið fræðslu. Endursagnaraðferðin hefur sannað gildi sitt í mörgum erlendum rannsóknum og hún þykir fýsilegur kostur til notkunar í heilbrigðisþjónustu, enda einföld og ódýr leið til að meta og staðfesta árangur af fræðslu (Talevski o.fl. 2020).

Fræðsla er eitt af mikilvægustu hlutverkum hjúkrunarfræðinga og til að geta sinnt henni vel þurfa þeir að hafa þekkingu á gagnreyndum aðferðum til að meta árangur hennar. Markmiðið með þessari fræðslugrein er að kynna endursagnaraðferðina og mikilvægi hennar fyrir hjúkrunarfræðingum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum og hvernig megi tileinka sér aðferðina í klínísku starfi. Í umfjöllun okkar notum við til einföldunar orðið „sjúklingur“ en í mörgum tilfellum beinist fræðsla einnig að aðstandendum eða öðrum notendum heilbrigðisþjónustunnar. Sjúklingshugtakið varð fyrir valinu umfram aðra valkosti, svo sem skjólstæðingur, notandi, þjónustuþegi eða viðmælandi meðal annars vegna þess að sjúklingur er skilgreindur í íslenskum lögum sem notandi heilbrigðisþjónustu (Lög um réttindi sjúklinga, 1997).

Á milli kafla í fræðslugreininni eru verkefni (merkt ,,staldraðu við“) sem ætluð eru til þess að styðja við nám lesenda. Eftir að hafa lesið greinina og lokið verkefnunum sem henni fylgja ætti lesandi að:

1. Geta útskýrt hvað felst í endursagnaraðferðinni.

2. Geta útskýrt af hverju er mikilvægt að nota aðferðina í sjúklingafræðslu.

3. Geta beitt aðferðinni í samskiptum við sjúklinga.

4. Hafa ígrundað eigin hæfni í samskiptum og fræðsluhlutverkinu.

Staldraðu við Ígrundaðu starf þitt Manstu eftir atviki þar sem sjúklingur sem þú veittir fræðslu:

- Sýndi lítinn áhuga á fræðslunni?

- Tók ekki þátt í fræðslunni, hlustaði en spurði einskis?

- Fylgdi ekki þeim leiðbeiningum sem komu fram í fræðslunni?

- Spurði þig spurninga um það sem þú taldir þig þegar hafa frætt hann um? Hvernig brást þú við?

- Veltir þú því fyrir þér hver ástæðan gæti verið?

- Hvað hefðir þú getað gert öðruvísi?

Sjúklingafræðsla

Skýr upplýsingagjöf og sjúklingafræðsla er mikilvæg í heilbrigðisþjónustu. Það er sífellt lögð meiri áhersla á samráð og þátttöku sjúklinga í ákvarðanatöku um eigin meðferð og sjálfsumönnun. Einnig er lögð áhersla á þátttöku þeirra á öllum stigum í undirbúningi og framkvæmd rannsókna, við gerð klínískra leiðbeininga og þegar opinberar stefnur eru mótaðar samanber Heilbrigðisáætlun Íslands til 2030 (heilbrigðisráðuneytið, 2019). Til þess að sjúklingar geti verið þátttakendur þurfa þeir meðal annars að búa yfir nægilegri færni og þekkingu og skilja þær upplýsingar og leiðbeiningar sem þeir fá. Í sjúklingafræðslu hefur notkun endursagnaraðferðarinnar verið skilgreind sem einn af tíu mikilvægum þáttum sem einkenna árangursríka sjúklingafræðslu (HCEA, 2022; Institute for Healthcare Advancement, e.d). Þessir 10 þættir eru sýndir í töflu 1

Þættir sem hafa áhrif á nám sjúklinga

Tafla 1. Tíu atriði sem einkenna árangursríka sjúklingafræðslu

1. Fræðsla er einstaklingshæfð og tekur mið af þörfum og aðstæðum sjúklinga og aðstandenda.

2. Fræðsla er byggð á mati á fræðsluþörfum og heilsulæsi.

3. Valin er sú fræðsluaðferð sem hentar sjúklingi.

4. Sjúklingur tekur þátt í fræðslunni.

5. Notað er lesvænt skriflegt fræðsluefni til stuðnings munnlegri fræðslu.

6. Notað er einfalt og skýrt mál, án slangurs.

7. Áhersla er lögð á 2-3 mikilvæg lykilatriði hverju sinni og byrjað á mikilvægustu atriðunum.

8. Fræðsla er ferli. Hún þarf að fara fram reglulega og endurtekið og taka mið af breytingum á þörfum sjúklings yfir tíma.

9. Aðstandendur eru þátttakendur ef sjúklingur samþykkir það.

10.Endursagnaraðferðin er notuð til að meta árangur fræðslunnar.

Það eru margir þættir sem geta hindrað nám sjúklinga og dregið úr árangri fræðslu. Þessir þættir geta tengst stofnunum, heilbrigðisstarfsmönnum eða sjúklingunum sjálfum eins og fram kemur á mynd 1.

STOFNUN

-Sýn og stefna

-Forgangur í daglegri þjónustu -Aðstaða, kennslugögn -Hæfni starfsfólks

Þættir sem geta ha áhrif á nám sjúklinga

HEILBRIGÐISSTARFSMAÐUR

-Hæfni í samskiptum og fræðsluhlutverki -Beiting gagnreyndrar þekkingar

SJÚKLINGUR

-Ófullnægjandi heilsulæsi -Tungumálaerfiðleikar -Hugræn skerðing -Vanlíðan og einkenni

Staldraðu við

- Kynntu þér hvort stofnunin sem þú starfar hjá hafi stefnu um fræðslu til notenda þjónustunnar og ef svo er, hvað stendur í henni?

- Ígrundaðu hvernig fyrirkomulag fræðslu er á stofnuninni.

- Ígrundaðu eigin hæfni til að skipuleggja og veita fræðslu. Hversu góð er hún, hvar og hvernig öðlaðist þú hæfnina og eru einhverjir þættir sem þú myndir vilja bæta hæfni þína í?

Fræðsluferlið í fjórum skrefum

Til þess að sjúklingafræðsla beri árangur þarf að nota gagnreyndar aðferðir við framkvæmd hennar. Leiðbeiningar um slíkar aðferðir má finna í nýlegum klínískum leiðbeiningum um skipulagningu og framkvæmd sjúklingafræðslu en íslensk útgáfa þeirra er aðgengileg á heimasíðu Miðstöðvar sjúklingafræðslu á Landspítala (HCEA, 2022). Fræðsla byggð á gagnreyndri þekkingu felur í sér að fylgja fjórum skrefum fræðsluferlisins sem eru forkönnun (upplýsingaöflun eða mat á sjúklingi og aðstæðum), skipulagning, framkvæmd og mat á árangri fræðslu (HCEA, 2022). Það er okkar reynsla að heilbrigðisstarfsfólk leggur megináherslu á að veita upplýsingar þegar það fræðir sjúklinga og aðstandendur en mat á árangri fræðslunnar sem er eitt það mikilvægasta, er það skref sem oftast er vanrækt í fræðsluferlinu. Mælt er með að nota endursagnaraðferðina til þess að meta árangur af fræðslunni.

Staldraðu við

Skoðaðu eftirfarandi efni og umfjöllun þar um fræðslu:

1. Heilbrigðisstefnu til 2030¹

2. Leiðbeiningar um skipulagningu og framkvæmd sjúklingafræðslu²

3. Siðareglur hjúkrunarfræðinga³

Hvar sérðu tækifæri til að efla þig í hlutverki fræðarans í starfi þínu?

Vefslóðir: ¹https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/ Heilbrigdisstefna_4.juli.pdf

²https://www.landspitali.is/library/Sameiginlegar-skrar/Fagfolk/Midstod-sjuklingafraesdlu/ Leidbeinginar-um-skipulag-og-framkvaemd-sjuklingafraedslu.pdf

³https://prismic-io.s3.amazonaws.com/hjukrun/62abbf82-8c5f-446b-9991-638795d72fa0_ Si%C3%B0areglur_2022.pdf

Mynd 1. Nokkrir þættir sem geta haft áhrif á nám sjúklinga.

Endursagnaraðferðin

Að því er næst verður komist má rekja notkun endursagnaraðferðarinnar til miðáttunda áratugar síðustu aldar en frá þeim tíma hefur bandaríska stofnunin Agency for Healthcare Research and Quality mælt með því að heilbrigðisstarfsfólk noti aðferðina til þess að efla heilsulæsi (Agency for Healthcare Research and Quality, 2024). Gagnsemi endursagnaraðferðarinnar hefur verið staðfest í fjölda rannsókna eins og vikið verður að hér að neðan.

Hvernig er endursagnaraðferðinni beitt?

Endursagnaraðferðin felur í sér að kanna hvort sjúklingur muni og skilji upplýsingar sem honum hafa verið veittar með því að biðja hann um að endursegja með eigin orðum það sem hann var fræddur um eða honum var leiðbeint með. Í stað þess að spyrja sjúklinginn „skilur þú?“ eða „eru einhverjar spurningar?“ kannar heilbrigðisstarfsmaður markvisst hvort hann hafi frætt og útskýrt hlutina á þann hátt sem sjúklingur man og skilur. Grundvallaratriði er að ganga úr skugga um að sjúklingur upplifi ekki að hann sé í prófi eða yfirheyrslu heldur viti að aðferðinni sé beitt af því að heilbrigðisstarfsmaðurinn vilji fullvissa sig um að hann hafi komið fræðslunni nógu vel til skila. Til að tryggja að fræðsla með endursagnaraðferðinni beri árangur þarf að huga að samskiptum í fræðsluferlinu. Auk atriðanna sem nefnd eru í töflu 1 þarf að hafa eftirfarandi í huga þegar endursagnaraðferðinni er beitt í fræðslu (Institute for Healthcare Advancement, e.d):

Atriði sem mikilvægt er að hafa í huga til að endursagnaraðferðin beri árangur

- Mynda traust í upphafi.

- Sýna umhyggjusemi í viðmóti og raddtóni.

- Mynda augnsamband og nota afslappaða líkamstjáningu.

- Nota opnar spurningar og forðast að hafa þær gildishlaðnar.

- Beita virkri hlustun, þögnum og speglun.

- Vera vakandi fyrir eigin viðmóti, raddblæ, óyrtum tjáskiptum og eigin fordómum.

- Nota annað orðalag eða aðferð og útskýra aftur ef sjúklingur getur ekki endursagt eða endursýnt það sem verið er að fræða um.

- Skrá upplýsingar um fræðsluna líkt og aðra meðferð.

Líta má á notkun endursagnaraðferðarinnar sem hringrás fimm meginskrefa (Agency for Healthcare Research and Quality, e.d.) sem sýnd eru á mynd 2. Skrefin eru endurtekin þar til sjúklingur sýnir fullnægjandi skilning eða færni.

1. skref

Heilbrigðisstarfsmaður fræðir

Heilbrigðisstarfsmaður metur fræðsluþarfir og fræðir. Byrjað er á að meta hvað sjúklingnum finnst mikilvægast að fá upplýsingar um. Fyrst eru valin 1-3 mikilvægustu atriðin, þannig verður efnið viðráðanlegra og hægt að komast yfir meira efni í samtalinu. Þegar um mörg efnisatriði er að ræða er gott að brjóta efnið niður í hluta og fara í gegnum eitt atriði í einu og beita endursagnaraðferðinni við hvert atriði áður en farið er í það næsta.

2. skref

Heilbrigðisstarfsmaður spyr og beitir endursagnaraðferðinni

Næst er sjúklingur beðinn um að segja með eigin orðum aðalatriðin í fræðslunni eða sýna handtökin við verkið. Þess er gætt að nota orðalag sem ekki er niðurlægjandi eða dæmandi. Dæmi um viðeigandi orðalag má sjá í töflu 2. Sjúklingnum má ekki líða eins og hann sé í prófi heldur þarf að árétta í samtalinu að verið sé að kanna hversu vel þeim sem fræddi tókst að koma upplýsingunum frá sér. Þannig tekur hann ábyrgð á því ef sjúklingur hefur ekki skilið allt eða náð tökum á verkefninu.

3. skref

Heilbrigðisstarfsmaður hlustar og metur skilning eða færni sjúklings

Metið er hvernig sjúklingnum tekst að endursegja (eða endursýna) með sínum eigin orðum það sem hann var fræddur um. Ef heilbrigðisstarfsmaður metur að sjúklingurinn hafi meðtekið fræðsluna þá lýkur henni hér, eða haldið er áfram og frætt um ný efnisatriði. Ef fræðslan hefur ekki skilað sér eða misskilningur kemur í ljós er fræðslan endurtekin samkvæmt skrefi 4.

4. skref

Heilbrigðisstarfsmaður fræðir aftur

Atriði sem sjúklingi tókst ekki að endursegja eru útskýrð aftur eða umorðuð. Hægt er að einfalda orðalag og beita öðrum fræðsluaðferðum til dæmis með myndlíkingum eða teikningum eða jafnvel með því að biðja annan að sinna fræðslunni.

5. skref

Heilbrigðisstarfsmaður spyr aftur

Sjúklingur er aftur beðinn um að segja með eigin orðum aðalatriðin í fræðslunni eða sýna handtökin við verkið. Þegar sjúklingi gengur illa að skilja umfjöllunarefnið eða ná tökum á verklaginu og getur

Fræða 1.
Spyrja2.
Hlusta 3.
Fræða a ur 4.
Spyrja a ur 5.
Mynd 2. Endursagnaraðferðin sem hringrás.

ekki endursagt efnið eftir 2-3 skipti þarf að íhuga aðrar leiðir, svo sem að bjóða honum að hafa aðstandanda með, gera hlé, ákveða annan tíma seinna eða biðja annan í meðferðarteymi sjúklings að taka yfir fræðsluna.

Við lok fræðslunnar, þegar sjúklingur hefur náð tökum á efninu eða verkinu, er spurt hvaða (ekki hvort) spurningar hann hafi að lokum. Mikilvægt er að nota opnar spurningar og forðast lokaðar spurningar sem gefa bara möguleika á já eða nei svari. Þannig gefst sjúklingi tækifæri til að fá frekari útskýringu á efninu, verkinu eða öðru því sem hvílir á honum. Og ferlið hefst aftur, með sama viðfangsefni eða nýju.

Tafla 2. Dæmi um orðalag sem er ekki dæmandi þegar heilbrigðisstarfsmaður notar endursagnaraðferðina

1. Ég vil vera viss um að ég hafi útskýrt nógu vel hvers vegna þú þarft að taka þetta lyf, getur þú útskýrt það fyrir mér með þínum eigin orðum?

2. Til þess að ég geti verið viss um að ég hafi útskýrt nægilega vel fyrir þér … langar mig að biðja þig um að segja mér hvers vegna það gagnast þér að taka þetta lyf.

3. Nú höfum við farið yfir … Hvað ætlar þú að segja fjölskyldu þinni þegar þú kemur heim varðandi breytingar sem hafa verið gerðar á lyfjunum þínum?

4. Ég vil vera viss um að ég hafi útskýrt þetta nógu vel, getur þú sagt mér og sýnt mér hvernig þú ætlar að skipta á sárinu þegar þú kemur heim?

5. Nú hef ég farið yfir þrjú einkenni sem þú þarft að fylgjast með heima og hvað þú átt að gera ef þau verða mikil. Má ég biðja þig um að fara yfir þessi einkenni og segja mér hvenær og við hvern þú hefur samband ef þörf er á?

Staldraðu við

Endursagnaraðferðin krefst þjálfunar til að ná tökum á henni. Æfðu þig með því að nota aðferðina með fjölskyldumeðlimi eða vinum, viðfangsefnið getur verið hvað sem er. Prófaðu að vera bæði í hlutverki kennarans og nemandans.

- Tókst þér að forðast að láta nemandann eða sjúklinginn upplifa að hann væri í prófi?

- Hvernig leið þér í hlutverki nemandans/sjúklingsins?

- Hvaða orðalag fannst þér best að nota? Af hverju?

Af hverju ætti að nota endursagnaraðferðina?

Endursagnaraðferðin er gagnreynd aðferð í sjúklingafræðslu þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi hennar, meðal annars þannig að afdrif sjúklinga eru betri þegar aðferðin er notuð. Rannsóknir og kerfisbundnar samantektir hafa verið gerðar á mörgum mismunandi sjúklingahópum til dæmis krabbameinssjúklingum (Choi og Choi, 2021), sjúklingum í líknarþjónustu (Ryan-Madonna et al., 2019), skurðsjúklingum (Seely o.fl., 2022), konum í mæðravernd (Cheng o.fl., 2023), sjúklingum á bráðamóttöku (Hesselink o.fl., 2022), hjartabiluðum (Howie-Esquivel og Bidwell, 2023) og sjúklingahópum með langvinna sjúkdóma (Dinh o.fl., 2016). Aðferðin hefur einnig verið notuð í fjarheilbrigðisþjónustu (Morony o.fl., 2018). Áhrif á sjúkrahúsþjónustu hafa verið jákvæð, til dæmis eru vísbendingar um fækkun á endurinnlögnum (Dinh o.fl., 2016; Howie-Esquivel og Bidwell, 2023) en mikilvægasti árangurinn snýr að sjúklingunum sjálfum. Sýnt hefur verið fram á að aðferðin bætir skilning og hjálpar fólki að muna atriði til dæmis eftir útskriftarfræðslu um sjálfsumönnun, þar með talið lyfjatöku (Caplin og Saunders, 2015;

Dinh o.fl., 2016; Marks o.fl., 2022). Notkun aðferðinnar eykur traust og ánægju sjúklinga með því að gefa þeim tækifæri til að spyrja spurninga og ræða áhyggjur sínar. Þannig má koma í veg fyrir eða leiðrétta misskilning (Caplin og Saunders, 2015; Kornburger o.fl., 2013; Miller, 2016). Enn fremur virðist notkun aðferðarinnar auka skilning sjúklinga á ástandi sínu, meðferðarheldni, trú á eigin getu, færni við sjálfsumönnun og heilsulæsi (Choi og Choi, 2021; Dinh o.fl., 2016) og auka sjálfstraust umönnunaraðila (Ryan-Madonna o.fl., 2019)

Hverjum og hvenær gagnast endursagnaraðferðin? Þótt ákveðnir hópar fólks séu líklegri en aðrir til að eiga erfitt með að meðtaka upplýsingar er ráðlagt að nota endursagnaraðferðina með öllum sem verið er að fræða, sjúklingum jafnt sem aðstandendum (Agency for Healthcare Research and Quality, 2024) enda er ekki hægt að gefa sér fyrir fram að sumir skilji og meðtaki fræðslu betur en aðrir. Dæmi um aðstæður þar sem viðeigandi er að nota endursagnaraðferðina er í fræðslu um sjálfsumönnun (lífsstílsbreytingar, lyfjameðferð, vöktun einkenna, viðbrögð við breytingum á líðan eða einkennum), bæði með sjúklingum og aðstandendum en frekari dæmi má sjá hér að neðan:

Hvenær á að nota endursagnaraðferðina?

Alltaf þegar mikilvægar upplýsingar eru veittar, til dæmis um:

- Sjúkdómsgreiningu, meðferðarmöguleika eða meðferð.

- Meðferðaráætlun.

- Lyf, lyfjanotkun og helstu aukaverkanir.

- Vöktun einkenna.

- Breytingar á lífsstíl.

- Notkun tækja, aðferða eða tækni í meðferð.

- Framhald meðferðar og næstu skref.

- Hvenær, hvert og við hvern á að hafa samband næst eða þegar aðstoðar er þörf

Hvernig verður endursagnaraðferðin hluti af vinnustaðamenningu?

Það er brýnt innan hjúkrunar að bæta starfshætti er tengjast skipulagningu og framkvæmd sjúklingafræðslu í heild sinni. Eins og við allar breytingar í starfi hjúkrunarfræðinga þurfa stjórnendur að beita aðferðum við innleiðingu nýrra starfshátta sem eru líklegar til árangurs. Í þessari grein er fjallað sérstaklega um endursagnaraðferðina en hvernig hægt er að innleiða notkun hennar í klínísku starfi er utan við efnistök greinarinnar. Þó má nefna að þótt endursagnaraðferðin hljóti að teljast frekar einföld og auðveld í notkun og krefjist ekki annars en færni af hálfu heilbrigðisstarfsmanna hafa komið fram gagnrýnisraddir og efasemdir um fýsileika eða gagnsemi þess að nota aðferðina. Helsta gagnrýnin felst í því að ekki sé tími til þess að nota aðferðina en ekki verið sýnt fram á að sú staðhæfing eigi við rök að styðjast. Reyndir notendur endursagnaraðferðarinnar segja að um ein mínúta bætist við viðtalstíma (Bodenheimer, 2018) en betri skilningur og aukin fylgni sjúklinga við leiðbeiningar spari tíma þegar til lengri tíma er litið. Aðrir nefna að sjúklingi geti fundist niðurlægjandi að vera beðinn um að endurtaka efnið eða verkið sem farið var yfir, aðferðin geti valdið sjúklingum kvíða og tilfinningu um stimplun (stigma). Ein rannsókn hefur þó sýnt að sjúklingar velja endursagnaraðferðina fram yfir hefðbundna fræðslu þar sem aðferðinni er ekki beitt (Kemp o.fl., 2008). Síðast en ekki síst hefur því verið haldið fram að erfitt sé fyrir heilbrigðisstarfsfólk að breyta vinnulagi sínu (Bodenheimer, 2018;

Klingbeil og Gibson, 2018; Shersher o.fl., 2021). Til þess að notkun endursagnaraðferðarinnar verði hluti af vinnustaðarmenningu er mælt með því að þjálfa heilar einingar á heilbrigðisstofnunum en ekki einungis hluta þeirra (Anderson o.fl., 2020). Ekkert ætti þó hindra einstaka áhugasama einstaklinga að byrja að beita aðferðinni í samskiptum sínum við sjúklinga og aðstandendur því reynslan sýnir að einmitt þjálfun sé lykilatriði til að öðlast færni í notkun aðferðinnar. Eins og í svo mörgu öðru er það æfingin sem skapar meistarann.

AÐ LOKUM

Samskipti eru hornsteinn fræðslu. Endursagnaraðferðin byggir á opnum samskiptum milli heilbrigðisstarfsmanns og sjúklings, sem auðvelda sjúklingi að taka þátt í meðferð sinni. Með endursagnaraðferðinni má styðja við nám sjúklings í fræðsluferlinu, kanna hvað hann man og skilur af því sem kennt hefur verið. Þannig er verið að meta árangur fræðslunnar og gefa kost á því að bæta hana svo tilgangi hennar verði frekar náð. Með innleiðingu endursagnaraðferðarinnar í sjúklingafræðslu á heilbrigðisstofnunum má gera ráð fyrir betri árangri í meðferð þar sem heilsulæsi sjúklinga og trú þeirra á eigin getu til sjálfsumönnunar getur aukist. Mögulega til lengri tíma litið minnkar álag á heilbrigðiskerfið með færri endurkomum og símtölum sjúklinga sem eru óöruggir varðandi meðferð sína. Við hvetjum því alla heilbrigðisstarfsmenn og stjórnendur til að hefjast handa, byrja að æfa sig og innleiða notkun endursagnaraðferðarinnar í klínísku starfi.

HEIMILDIR

Agency for Healthcare Research and Quality (e.d.). Teach Back - A Guide for Staff. https://www.ahrq.gov/sites/default/files/wysiwyg/professionals/ quality-patient-safety/patient-family-engagement/pfeprimarycare/ teach-back-guideforstaff.pdf

Agency for Healthcare Research and Quality (2024). About Health Literacy. https:// www.ahrq.gov/health-literacy/about/index.html

Anderson, K. M., Leister, S. og De Rego, R. (2020). The 5Ts for Teach Back: An operational definition for Teach-Back training. Health Literacy Research and Practice, 4(2), e94–e103. https://doi.org/10.3928/24748307-20200318-01

Bhattad, P.B. og Pacifico, L. (2022). Empowering patients: Promoting patient education and health literacy. Cureus, 14(7), e27336. https://doi.org/10.7759/cureus.27336

Bodenheimer T. (2018). Teach-Back: A simple technique to enhance patients' understanding. Family Practice Management, 25(4), 20–22. https://pubmed.ncbi. nlm.nih.gov/29989780/

Caplin, M. og Saunders, T. (2015). Utilizing Teach-Back to reinforce patient education: A step-by-step approach. Orthopedic Nursing, 34(6), 365–370. https://doi. org/10.1097/NOR.0000000000000197

Cheng, G.Z., Chen, A., Xin, Y. og Ni, Q.Q. (2023). Using the teach-back method to improve postpartum maternal-infant health among women with limited maternal health literacy: a randomized controlled study. BMC Pregnancy and Childbirth, 23(1), 13. https://doi.org/10.1186/s12884-022-05302-w

Choi, S. og Choi, J. (2021). Effects of the teach-back method among cancer patients: a systematic review of the literature. Supportive Care in Cancer, 29(12), 7259-7268. https://doi.org/10.1007/s00520-021-06445-w

Dinh, H.T.T., Bonner, A., Clark, R., Ramsbotham, J. og Hines, S. (2016). The effectiveness of the teach-back method on adherence and self-management in health education for people with chronic disease: a systematic review. The JBI Database of Systematic Reviews and Implementation Reports, 14(1), 210. https://doi. org/10.11124/jbisrir-2016-2296

Health Care Education Association (HCEA) (2022). Leiðbeiningar um skipulagningu og framkvæmd sjúklingafræðslu. https://www.landspitali.is/lisalib/getfile. aspx?itemid=bb076192-13d8-11ed-a2e8-005056865b13

Heilbrigðisráðuneytið (2019). Heilbrigðisstefna til 2030

Hesselink, G., Sir, Ö., Koster, N., Tolsma, C., Munsterman, M., Olde Rikkert, M. og Schoon, Y. (2022). Teach-back of discharge instructions in the emergency department: a pre-post pilot evaluation. Emergency Medicine Journal : EMJ, 39(2), 139–146. https://doi.org/10.1136/emermed-2020-210168

Howie-Esquivel, J. og Bidwell, J. T. (2023). A State-of-the-Art review of Teach-Back for patients and families with heart failure: How far have we come? Journal of Cardiovascular Nursing, 10.1097. https://doi.org/10.1097/JCN.0000000000000980 Institute for Healthcare Advancement. (e.d.). Always Use Teach Back. http://www. teachbacktraining.org/home

Jackson, D.N., Trivedi, N. og Baur, C. (2021). Re-prioritizing digital health and health literacy in Healthy People 2030 to affect health equity. Health Communication, 36(10), 1155–1162. https://doi.org/10.1080/10410236.2020.1748828

Johnson, A.M., Brimhall, A.S., Johnson, E.T., Hodgson, J., Didericksen, K., Pye, J., Harmon, G.J.C. og Sewell, K.B. (2023). A systematic review of the effectiveness of patient education through patient portals. JAMIA Open, 6(1). ooac085. https://doi. org/10.1093/jamiaopen/ooac085

Kemp, E.C., Floyd, M.R., McCord-Duncan, E. og Lang, F. (2008). Patients prefer the method of "tell back-collaborative inquiry" to assess understanding of medical information. Journal of the American Board of Family Medicine, 21(1), 24–30. https:// doi.org/10.3122/jabfm.2008.01.070093

Klingbeil, C. og Gibson, C. (2018). The Teach Back project: A system-wide evidence based practice implementation. Journal of Pediatric Nursing, 42, 81–85. https://doi. org/10.1016/j.pedn.2018.06.002

Kornburger, C., Gibson, C., Sadowski, S., Maletta, K. og Klingbeil, C. (2013). Using “teach-back” to promote a safe transition from hospital to home: An evidence-based approach to improving the discharge process. Journal of Pediatric Nursing, 28(3), 282–291. https://doi.org/10.1016/j.pedn.2012.10.007

Lög um réttindi sjúklinga, nr. 74 (1997).

London, F. (2016). No time to teach (3rd ed.). Pritchett og Hull Associates, Inc.

Marks, L., O’Sullivan, L., Pytel, K. og Parkosewich, J.A. (2022). Using a teach-back intervention significantly improves knowledge, perceptions, and satisfaction of patients with nurses’ discharge medication education. Worldviews on Evidence-Based Nursing, 19(6), 458–466. https://doi.org/10.1111/wvn.12612

Miller, T. A. (2016). Health literacy and adherence to medical treatment in chronic and acute illness: A meta-analysis. Patient Education and Counseling, 99(7), 1079–1086. https://doi.org/10.1016/j.pec.2016.01.020

Morony, S., Weir, K., Duncan, G., Biggs, J., Nutbeam, D. og McCaffery, K.J. (2018). Enhancing communication skills for telehealth: Development and implementation of a Teach-Back intervention for a national maternal and child health helpline in Australia. BMC Health Services Research, 18(1), 162. https://doi.org/10.1186/s12913018-2956-6

Ryan-Madonna, M., Levin, R.F., og Lauder, B. (2019). Effectiveness of the Teach-Back method for improving caregivers’ confidence in caring for hospice patients and decreasing hospitalizations. Journal of Hospice and Palliative Nursing, 21(1), 61-70. https://doi.org/10.1097/NJH.0000000000000492

Seely, K.D., Higgs, J.A. og Nigh, A. (2022). Utilizing the “teach-back” method to improve surgical informed consent and shared decision-making: a review. Patient Safety in Surgery, 16(1), 12. https://doi.org/10.1186/s13037-022-00322-z

Shersher, V., Haines, T.P., Sturgiss, L., Weller, C. og Williams, C. (2021). Definitions and use of the teach-back method in healthcare consultations with patients: A systematic review and thematic synthesis. Patient Education and Counseling, 104(1),118–129. https://doi.org/10.1016/j.pec.2020.07.026

Siðaráð Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. (2015). Siðareglur hjúkrunarfræðinga Sørensen, K., Van den Broucke, S., Fullam, J., Doyle, G., Pelikan, J., Slonska, Z. og Brand, H. (2012). Health literacy and public health: A systematic review and integration of definitions and models. BMC Public Health, 12(1), 80. https://doi. org/10.1186/1471-2458-12-80

Talevski, J., Wong Shee, A., Rasmussen, B., Kemp, G. og Beauchamp, A. (2020). Teach-back: A systematic review of implementation and impacts. PloS one, 15(4), e0231350. https://doi.org/10.1371/journal.pone.0231350

The Standing Committee of European Doctors, the European Patients’ Forum, Health Literacy Europe og Maastricht University (e.d.). Consensus paper: Making health literacy a priority in EU policy. https://www.eu-patient.eu/globalassets/ U.S. Department of Health and Human Services, Office of Disease Prevention and Health Promotion (2010). National Action Plan to Improve Health Literacy Washington, DC: Author.

Yen, P.H. og Leasure, A.R. (2019). Use and effectiveness of the Teach-Back method in patient education and health outcomes. Federal Practitioner: for the health care professionals of the VA, DoD, and PHS, 36(6), 284–289.

Takk fyrir stuðninginn

HRAFNISTA

Avero Motion baðker með hurð á hlið til að auðvelda aðgengi. Hægt er að halla baðkerinu fram og aftur.

Mikið úrval lyftara og baðkera frá Beka Hospitec

Beka Hospitec er þýskt fyrirtæki sem hefur frá árinu 1967 verið leiðandi í hönnun á lyftibaðkerum, lyfturum og öðrum búnaði fyrir heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarheimili.

Avero Premium er vinsælasta baðkerið frá Beka hér á landi. Baðkerið er aðgengilegt frá þremur hliðum sem auðveldar notkun lyftara.

Carlo Alu er mjög léttur og meðfærilegur lyftari sem að mestu gerður úr áli.

Markmið okkar eru að efla heilsu, auka lífsgæði, auðvelda störf og daglegt líf

Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.