Tímarit hjúkrunarfræðinga - 3.tbl 2024

Page 1


The Icelandic Journal of Nursing | 3. tbl. 2024 | 100. árgangur

„Ég sé Ísland sem Mekka vísindarannsókna“

Marianne Elisabeth Klinke taugahjúkrunarfræðingur segir forréttindi felast í því að búa í litlu samfélagi.

RITRÝNDAR GREINAR

‒ Siðferðileg færni í hjúkrun ‒‒ Áhrif hjúkrunar á gæði lífslokameðferðar á gjörgæsludeildum ‒‒ Reynsla einstaklinga af því að fara í hjartastopp utan sjúkrahúss ‒‒ Bein útgjöld og útgjaldabyrði heimilanna vegna heilbrigðisþjónustu ‒‒ Eldra fólk sem kom á bráðamóttöku og var vísað á greiningarmóttöku öldrunarlækningadeildar Landspítala ‒

Sterkari saman

Efnisyfirlit

20 34 28 26 38

18

Viðtal – Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri HSS, lætur verkin tala

Ráðstefna NNF í Reykjavík

Viðtal – Howard Catton, framkvæmdastjóri Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga, ICN

Hvað brennur á hjúkrunarfræðingum á Norðurlöndunum?

20 Viðtal – Ólafur G. Skúlason framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, segir starfið krefjandi en gefandi

26

Vaktin mín – Jenný Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur á A1

28 Viðtal – Marianne Elisabeth Klinke Segir taugahjúkrun hafa þróast hratt á undanförnum árum 34

Viðtal – Elinóra Friðriksdóttir, hjúkrunarfræðingur er aðstoðardeildarstjóri á 12G sem er hjúkrunarstýrð deild

36 Hjúkrunarþing 2024 fór fram á Reykjavík Edition 3. október undir yfirskriftinni Hjúkrun við lok lífs

38 Viðtal – Yousef Ingi Tamimi Starfar á sjúkrabíl og sem svæfingahjúkrunarfræðingur

42

44

46

48

54

64

76

86

96

Háskólakennarinn – Þórhalla Sigurðardóttir

Hugleiðing Ingunnar Stefánsdóttur, formanns Curators

Fræðslugrein: Eigin stofnfrumumeðferð á Íslandi í 20 ár: Þróun meðferðar á Íslandi og samvinna heilbrigðisstétta

Fræðslugrein: Innleiðing heilsufarsmats í geðhvarfateymi á geðsviði Landspítala

Ritrýnd grein: Bein útgjöld og útgjaldabyrði heimilanna vegna heilbrigðisþjónustu

Ritrýnd grein: Áhrif hjúkrunar á gæði lífslokameðferðar á gjörgæsludeildum: Samþætt fræðileg samantekt

Ritrýnd grein: Ég gæti gróðið vel að utan en ekki jafn vel að innan: Reynsla einstaklinga af því að fara í hjartastopp utan sjúkarhúss

Ritrýnd grein: Siðferðileg færni í hjúkrun: Fræðileg skilgreining

Ritrýnd grein: Eldra fólk sem kom á bráðamóttöku og var vísað á greiningarmóttöku öldrunarlækningadeildar

Landspítala árin 2016-2018: Heilsufar og afdrif

Hugrekki og þor er allt sem þarf

Tíminn er furðufyrirbæri því með hækkandi aldri virðist hann sífellt líða hraðar en líklega er það kapphlaupið í lífinu sem veldur hækkandi hraðatilfinningu með hækkandi aldri. Ég hef lúmskan grun um að kappakstursbíllinn sem þýtur nú á ofsahraða í gegnum vikur, mánuði og ár muni svo snögghægja á sér á síðustu metrunum; þegar tímaglas æviskeiðsins er að klárast og sólin að setjast í hinsta sinn. Mér finnst svo stutt síðan ég skilaði síðasta blaði í prentun en síðan þá hefur sumarið flogið hjá, ljúfir haustdagar sömuleiðis og veturinn er mættur í öllu sínu veldi. Kosningar og kjaraviðræður hljóma nú hæst í bland við jólastemningu sem jólaálfarnir fagna á meðan Grinch-ar jólanna mynda háværan tuðkór yfir öllu saman og vilja bara brenna sænsku jólageitina. Aftur!

Það var einstaklega gaman og gefandi að vinna þetta blað, ég kíkti í heimsókn á deild 12G sem er hjúkrunarstýrð göngudeild og hitti þær Elinóru og Þórgunni sem stjórna þar af stakri snilld og fagmennsku. Ég fór líka í Fossvoginn og heimsótti deild A1, eða húð og kyn eins og deildin er gjarnan kölluð. Þar hefur tæknin stytt biðlista og einfaldað allt ferlið þannig að nú hitta fæstir skjólstæðinga sem fara í kynsjúkdómatékk starfsmann og enginn þarf því að forðast vandræðalega heimsókn á húð og kyn lengur.

Svo eru það hjúkrunarfræðingar sem láta vaða og þora. Ég spjallaði við Yousef Inga Tamimin sem sagði mér að það sem hafi heillað sig mest við hjúkrun hafi verið sú hugmynd að geta sem hjúkrunarfræðingur verið til staðar fyrir fólk á viðkvæmum stundum í lífi þess og hann er það án efa í starfi sínu á sjúkrabíl og sem svæfingahjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsi í Svíþjóð. Yousef lét vaða, tók stökkið yfir hafið og mælir með því að fólk prófi að búa í öðru landi og öðlast nýja sýn. En það þarf hugrekki til og

hann játar hreinskilinn að það hafi ekki verið auðvelt að fóta sig fyrstu mánuðina í nýju landi en að það hafi orðið auðveldara með tímanum og hann er alsæll í Svíþjóð í dag. Ekki bara er veðrið þar betra og sólin sýnilegri heldur er líka betur hugsað um barnafjölskyldur og leikskólapláss ekkert vandamál. Grasið er stundum grænna hinum megin við hafið og það getur verið gott, gefandi eða bara alveg nauðsynlegt að breyta til og láta vaða stundum.

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir þekkir það en hún tók við starfi forstjóra HSS á þessu ári eftir mörg ár hjá Landspítalanum og víðar. Hún segir að það þurfi stundum hugrekki til að takast á við hlutina og vill láta verkin tala. Ekki gera ekki neitt, segir hún og stendur keik. Metnaðurinn drífur hana áfram en hún játar að það geti verið kalt á toppnum og það var líka kalt á toppi Kilimanjaro sem hún ákvað að klífa í sumar og segir að hafi verið mögnuð lífsreynsla en það þurfti smá skammt af hugrekki til að drífa sig af stað upp fjall sem er hæsti tindur Afríku.

Okkur skortir stundum hugrekki til að taka stökkið, láta draumana rætast, klífa hæstu tindana og lifa lífinu sem okkur dreymir um. Ekki festast í viðjum vanans, láttu heldur vaða ef þig dreymir t.d. um að fara í framhaldsnám, flytja yfir hafið, bjóða þig fram til formanns Fíh eða starfa á framandi slóðum, „just do it“, hugrekki og þor er allt sem þarf!

Njótið lesturins og aðventunnar kæru hjúkrunarfræðingar og hafið það sem allra best.

(hún/she)

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Engjateigi 9 · 105 Reykjavík

Sími: 540 6400

hjukrun.is

Útgefandi: Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga

Tímarit hjúkrunarfræðinga | 3. tbl. 100. árg. 2024

Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Ritnefnd: Helga Pálmadóttir, Sölvi Sveinsson, Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman

Ritstjóri ritrýndra greina: Sigrún Sunna Skúladóttir

Ritnefnd ritrýndra greina: Herdís Sveinsdóttir, Kristín Linda H. Hjartardóttir, Þóra Jenný Gunnarsdóttir

Yfirlestur: Ragnheiður Linnet

Auglýsingar: Erna Sigmundsdóttir

Umbrot: Prentmet Oddi

Forsíðumynd: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Prentun: Prentmet Oddi

ISSN 1022-2278

Pistill ritstjóra

Kynning fyrir heilbrigðisstarfsfólk

Stórkaup býður upp á kynningar og ráðgjöf við innkaup og notkun á ABENA þvaglekavörum.

Með kynningunni vilja sérfræðingar Stórkaups tryggja að hver einstaklingur fái vöru við hæfi sem stuðlar að betri nýtingu og meiri þægindum. Rétt notkun á réttri vöru leggur grunn að jákvæðri upplifun notenda og hámarkar árangur vörunnar.

Markmiðið er að gera innkaup hagkvæmari og notkun auðveldari bæði fyrir notendur og þjónustuaðila.

Bókaðu kynningu fyrir þinn vinnustað í síma 515 1500 eða á storkaup@storkaup.is

Stórar ákvarðanir

Það er margt búið að vera á döfinni á vettvangi Fíh það sem af er hausti og enn stærri verkefni eru fram undan. Um þessar mundir brennur helst á mér, eins og öðrum hjúkrunarfræðingum, staðan í kjarasamningsviðræðum. Þegar þetta er skrifað þá er samtal samninganefnda enn í gangi og við höldum reglulega fundum með trúnaðarmannaráði og stjórn félagsins. Viðræður við íslenska ríkið ganga mun hægar en ástæða er til en staðan getur breyst hratt og hvet ég alla til að fylgjast með framvindunni í gegnum vefinn okkar, hjukrun.is, fréttabréfið okkar eða á samfélagsmiðlum Fíh.

Barátta okkar snýst um sanngirni, að hjúkrunarfræðingum séu greidd laun í samanburði við aðra háskólamenntaða sérfræðinga og ábyrgð í starfi. Álagið heldur áfram að vera of mikið, starfsumhverfið erfitt og enn ein birtingarmynd þess var þegar Landspítali var nýverið í nokkrar vikur á hæsta viðbúnaðarstigi. Innviðirnir hafa ekki stækkað í takt við þjóðfélagið og geta ekki stækkað nema virðismat starfa hjúkrunarfræðinga breytist og hjúkrunarfræðingar njóti jafnræðis við aðra háskólamenntaða sérfræðinga.

Það er ljóst við náum ekki að mennta þann fjölda hjúkrunarfræðinga hér á landi sem þarf til starfa og því höfum við þörf fyrir að fá erlenda hjúkrunarfræðinga til liðs við okkur. Við bjóðum að sjálfsögðu erlenda kollega okkar velkomna til starfa og þurfum áfram að taka vel á móti þeim, hjálpa þeim að kynna sér land og þjóð, læra tungumálið og okkar menningu. Þannig getum við stutt þá í að geta sem best tekist á við starfið hér á landi og haft líka áhrif á gæði og öryggi þjónustunnar. Í þessu samhengi er ég að ræða um hjúkrunarfræðinga sem vilja flytja búferlum til annars lands en ekki skipulagðar ráðningar hjúkrunarfræðinga sem eiga að fylla upp í skortinn á starfandi hjúkrunarfræðingum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur nefnilega hvatt þjóðir til að leysa ekki sinn mönnunarvanda með skipulögðum ráðningum erlendis frá. Því miður eru þjóðir eins og Bretland að gera tvíhliða samninga milli sín og annarra landa þar sem fyrir er skortur og er það þvert ofan í það sem WHO talar fyrir. Ég tel, því miður, að við séum komin þangað. Í kjölfar norrænnar ráðstefnu Bandalags hjúkrunarfélaga á Norðurlöndunum sem haldin var hér á landi í september síðastliðnum, sendum við formenn allra félagana sameiginlegt bréf til stjórnvalda allra landanna þar sem við köllum eftir aðgerðum stjórnvalda í að hafna slíkum

skyndilausnum, fjárfesta frekar í innlendum hjúkrunarfræðingum, skoða ráðningar erlendis frá út frá siðferðilegum sjónarmiðum, o.s.frv. Þessu fylgi ég eftir við yfirvöld og heilbrigðisstofnanir því hér þarf að verða vitundarvakning vegna m.a. afleiðinga slíkra hópráðninga.

Á áðurnefndri ráðstefnu ræddi Howard Catton, framkvæmdastjóri Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga, um mikilvægi samstöðu meðal hjúkrunarfræðinga. Að hans sögn er auðveldasta leiðin fyrir stjórnmálamenn að þagga niður í umræðu um málefni hjúkrunarfræðinga, að benda á ósamstöðu innan stéttarinnar. Enn og aftur er hér staðfesting á því hvað samstaðan skiptir gríðarlega miklu máli út á við og við nýtum okkur þannig sameiginlega rödd hjúkrunarfræðinga í baráttunni fyrir okkar málum og okkar skjólstæðinga.

Á vettvangi Fíh eru mörg tækifæri til að móta sameiginlega stefnu okkar í stórum málaflokkum og eitt heitasta umræðuefnið í dag var rætt á hjúkrunarþingi í byrjun október. Við ræddum hvort heimila eigi dánaraðstoð hér á landi út frá mörgum og ólíkum sjónarhólum. Ég hvet ykkur öll til að kynna ykkur vandlega allar hliðar málsins áður en þið myndið ykkur formlega afstöðu því þetta mál verður áfram í umræðunni á næstu árum og mikilvægt að hjúkrunarfræðingar geti rætt málið af þekkingu. Fyrirlestrarnir frá hjúkrunarþinginu verða áfram aðgengilegir til áramóta á Mínum síðum og hvet ég ykkur til að hlusta á þau fróðlegu erindi sem þar eru.

Eins og ég sagði í síðasta tölublaði hef ég tekið þá ákvörðun að gefa ekki kost á mér til áframhaldandi setu sem formaður félagsins. Í vor verða rúm níu ár frá því ég tók við þessu frábæra starfi og kominn tími til að annar hjúkrunarfræðingur taki við. Ég vil skora á ykkur, kæru hjúkrunarfræðingar, að hugsa vel um hvort þið séuð rétti aðilinn í þetta einstaka leiðtogastarf eða er einhver sem þið viljið hvetja frekar og styðja til framboðs í starfið? Tíminn er fljótur að líða og rennur framboðsfresturinn úr í lok janúar. Enn er því tími til stefnu og má velta þessu fyrir sér og ræða við kollegana. Hvern viltu sjá í brúnni?

Pistill formanns
Samingafundir með Reykjavíkurborg og ríkinu.

Okkar besta fólk

Okkar besta fólk í heilbrigðisgeiranum hefur reitt sig á þjónustu okkar um árabil. Þau þurfa að geta treyst því að öll tæki og búnaður sé örugglega í lagi og virki eins og til er ætlast.

Brjóstaþjónusta Eirbergs

Krabbamein í brjóstum er algengasta krabbamein hjá íslenskum konum og er nærri þriðjungur af öllum meinum sem greinast hjá konum samkvæmt vef Krabbameinsfélagsins. Langflestar konur sem fá brjóstakrabbamein fara í skurðaðgerð þar sem fjarlægður er annað hvort hluti brjóstsins með svokölluðum fleygskurði eða farið í brottnám þar sem allt brjóstið er fjarlægt.

Þjónustan okkar sinnir konum eftir þessar aðgerðir, veitir þeim ráðgjöf og aðstoð við val á fleygum til uppfyllingar og gervibrjóstum. Einnig er fjölbreytt úrval af brjóstahöldurum, toppum, bolum og sundfatnaði sem er sérhannað fyrir konur í þessum sporum. Brjóstin og fleygarnir sem við bjóðum koma frá framleiðendunum Anita og Amoena sem eru leiðandi í framleiðslu og vöruþróun á þessum markaði á heimsvísu. Í boði eru einstaklega létt og mjúk brjóst sem mátast vel og hlífa herðum og hálsi. Einnig eru til aðeins þyngri púðar sem gefa fallega þyngd í haldarann. Þá eru til sjálflímandi brjóst sem festast beint á brjóstvegginn og fylgja líkamanum í öllum hreyfingum.

Einnig bjóðum við upp á vandaða þrýstingshaldara til að nota eftir aðgerð á brjóstum. Þeir henta í uppbyggingarferli á brjóstum eftir brottnám og einnig eftir brjóstaminnkanir, brjóstastækkanir eða aðrar aðgerðir á brjóstum.

Þrýstingshaldararnir veita góðan stuðning, hraða bata og geta minnkað verki. Við bjóðum upp á sérpantanir án skuldbindinga til að mæta konum með þeirra óskir, enda aldursbil viðskiptavina breitt og smekkur kvenna ólíkur. Eirberg er í góðu samstarfi við Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis (KAON) með vörur og þjónustu. Jenný Valdimarsdóttir hjúkrunarfræðingur tekur þar á móti konum fyrir hönd Eirbergs, veitir ráðgjöf og afgreiðir vörur. Sótt er um styrk til kaupa á hjálpartækjum í tengslum við brottnám, fleygskurð og uppbyggingu brjósts til Sjúkratrygginga Íslands. Fyrsta umsókn er útbúin af heilbrigðisstarfsmanni eftir aðgerð og send til Sjúkratrygginga. Hjúkrunarfræðingar Eirbergs sjá um að sækja um endurnýjun eftir það. Fyrsta árið eftir brottnám eða fleygskurð greiða Sjúkratryggingar fyrir tvö brjóst eða fleyga og síðan eitt á ári eftir það.

Gígja Grétarsdóttir og Íris Björg Sigmarsdóttir

Brjóstaþjónusta Eirbergs veitir konum sem hafa fengið brjóstakrabbamein ráðgjöf varðandi val á gervibrjóstum og aðgerðarfatnaði ásamt því að bjóða upp á úrval af undirfatnaði og sundfatnaði sem er sérhannaður fyrir konur eftir brottnám. Móttaka þjónustunnar er á Stórhöfða 25 og þar er hverri konu sinnt af natni og alúð í notalegu umhverfi.

Brjóstaþjónusta Eirbergs veitir konum sem hafa fengið brjóstakrabbamein ráðgjöf varðandi val á gervibrjóstum og aðgerðarfatnaði ásamt því að bjóða upp á úrval af undirfatnaði og sundfatnaði sem er sérhannaður fyrir konur eftir brottnám. Móttaka þjónustunnar er á Stórhöfða 25 og þar er hverri konu sinnt af natni og alúð í notalegu umhverfi.

Þær Gígja Grétarsdóttir og Íris Björg Sigmarsdóttir eru báðar menntaðir hjúkrunarfræðingar með áralanga starfsreynslu. Gígja hefur leitt brjóstaþjónustu Eirbergs í 10 ár og stuðlað að stöðugri vöru- og þjónustuþróun. Íris gekk til liðs við þjónustuna í upphafi þessa árs og er með yfir tuttugu ára reynslu frá Heilsugæslunni.

Móttakan fer fram í rúmgóðu og hlýlegu herbergi á 2. hæð í húsnæði okkar á Stórhöfða 25. Þar er pláss til að taka með maka, vinkonu eða annan gest ef konan óskar þess. Við leggjum upp úr notalegri og góðri upplifun þar sem þessar heimsóknir geta reynst konum kvíðvænlegar í fyrstu. Í fyrstu heimsókn er farið yfir hvað er í boði af brjóstum eða fleygum og fatnaði. Þá tekur við mátun þar sem unnið er að því að finna bestu mögulegu lausn fyrir konuna. Þjónustan er mjög einstaklingsmiðuð þar sem úrvalið er fjölbreytt og konurnar ólíkar. Gera má ráð fyrir klukkutíma í fyrstu heimsókn. Í endurkomu vinnum við út frá reynslu konunnar, hvað hefur reynst vel og

Bókaðu tíma á noona.is eða í

noona appinu

Nauðsynlegt er að bóka tíma í þjónustunni. Það er hægt með lítilli fyrirhöfn á noona.is eða í Noona appinu. Áhersla er lögð á að hægt sé að bóka tíma með sem skemmstum fyrirvara og markmiðið að hver kona komist að innan vikutíma. Auðvelt er að afbóka tíma í appinu ef þörf er á.

Stórhöfði 25, 2.hæð • Sími: 569-3100 • hjukrun@eirberg.is

Opnunartími: 08:30 – 16:00

hvað má gera betur. Þessar heimsóknir eru jafnan styttri, eða um hálftími. Þegar konur eru í uppbyggingarferli og þurfa aðgerðahaldara er ekki þörf á að bóka tíma nema þess sé sérstaklega óskað. Afgreiðsla aðgerðahaldara fer fram í verslun okkar á Stórhöfða og hefur starfsfólk okkar í verslun fengið þjálfun í þeirri þjónustu.

Sé um að ræða endurnýjun á samskonar brjósti eða fleyg og konur hafa fengið áður geta þær sent tölvupóst á hjukrun@eirberg.is eða haft samband í síma 569-3100, lagt inn pöntun og fengið vöruna senda sér að kostnaðarlausu eða sótt í verslun Eirbergs.

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri HSS

Lætur verkin tala

Eftir að hafa verið stjórnandi á Landspítala í yfir tvo áratugi og farið í gegnum fjölmargar skipulagsbreytingar, ákvað Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir að róa á ný mið og nýta reynsluna til að halda áfram að byggja upp heilbrigðisþjónustu í landinu. Hún er óhrædd við að fara ótróðnar slóðir, er metnaðardrifin og hefur sinnt ýmsum stjórnunarstörfum innan heilbrigðskerfisins. Lengst af á Landspítala þar sem hún bar ábyrgð á stefnumótun, þjónustu, mannauðsmálum, fjármálum og rekstri. Guðlaug Rakel var til í spjall um lífið og tilveruna, nýja starfið á Suðurnesjum og Kilimanjaro sem hún ákvað að klífa í sumar.

Eftir að Guðlaug Rakel sagði skilið við Landspítala starfaði hún í eitt ár í heilbrigðisráðuneytinu áður en hún tók við starfi forstjóra HSS. Þar tók hún að sér það mikilvæga, og samkvæmt henni sjálfri, skemmtilega verkefni að vinna að mönnunarviðmiðum í hjúkrun. „Skýrslunni með niðurstöðum þeirrar vinnu hefur verið skilað og í framhaldinu mun vonandi koma eitthvað gott út úr því sem nýtist til að auka gæði þjónustunnar og tryggja öryggi sjúklinga.“ Guðlaug Rakel segir að ekki sjái fyrir endann á mönnunarvandanum, ýmislegt geti þó komið til hjálpar eins og til að mynda fjarheilbrigðisþjónusta: „Við getum nýtt tæknina betur en við gerum í dag. Þetta er flókið og að mínu viti þurfum við að horfa á áskorunina í mönnum út frá teyminu í kringum sjúklinginn, við þurfum að horfa meira á það og hvað við getum gert til að nýta sem best fagþekkingu hvers og eins starfsmanns,“ segir hún og við förum út í aðra sálma.

Guðlaug Rakel er að búin að vera í námi, eða réttara sagt verið í samstarfi, við Florence Nightingale Foundation í Bretlandi. „Ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að vera í alþjóðlegri samvinnu hjá þeim. Þetta er ekki formlegur skóli í þeim skilningi heldur stuðningur í verkefnum og kjörinn vettvangur til að komast í kynni við frábært fagfólk. Þessi reynsla hefur sannarlega víkkað sjóndeildarhringinn og við eigum að vera duglegri að nýta okkur það sem aðrir hafa gert vel og aðlaga það svo að okkar samfélagi og okkar þörfum. Við þurfum ekki alltaf að finna upp hjólið, horfum meira til þeirra sem gera vel, lærum af þeim og nýtum okkur það,“ segir hún og fær sér kaffisopa.

Leitar lausna og leiða til að þjónusta þegna heilbrigðiskerfisins betur

Guðlaug Rakel útskrifaðist úr hjúkrunarfræði árið 1986 eða sama ár og leiðtogafundur risaveldanna var haldinn í Höfða. Hún bætti við sig diplómanámi og mörgum árum síðar, eða árið 2002, skellti hún sér í MBA-nám og námsþorstinn lætur greinilega reglulega á sér kræla því hún skráði sig svo í doktorsnám fyrir nokkrum árum þar sem hún skoðaði komur á bráðamóttökur og áhrif efnahagshrunsins á heilsu og líðan fólks. Aðspurð hvort hana langi að enda sinn feril sem háskólakennari og miðla þekkingu til verðandi hjúkrunarfræðinga segir hún svo ekki vera. Hún hafi verið stundakennari við Háskóla Íslands síðan árið 1989 og láti það duga. Það gustar af henni, hún segist vera markmiðadrifin og að það henti sér vel að standa í miðjum stormi og finna lausnir og leiðir til að þjónusta þegna heilbrigðiskerfisins betur. Það á

því betur við hana að láta til sín taka á öðrum vettvangi en innan veggja háskólasamfélagsins.

Ekki gera ekki neitt

Guðlaug Rakel hefur eins og áður segir verið stjórnandi í heilbrigðiskerfinu í yfir tuttugu ár og fengið margar viðurkenningar fyrir störf sín á þessum vettvangi í gegnum árin. Finnst henni mikið hafa breyst á þessum árum síðan hún mætti fyrst til leiks eftir útskrift úr hjúkrun? „Já, það hefur mjög margt breyst á þessum tíma. Ég hef fylgst með þróun heilbrigðiskerfisins og hef skoðanir á því hvernig hlutirnir hafa þróast, sumt hefur þróast til betri vegar og annað síður eins og gengur. Eitt af því sem við þurfum að minna okkur stöðugt á er fagmennska og fagvitund. Það er ekki einfalt að útskýra það en sumt í umhverfinu okkar er lært atferli og jafnvel skynjar maður stundum lært hjálparleysi, það gerist nefnilega ekkert af sjálfu sér. Þá á ég við þegar finna þarf lausnir eða bregðast við og finna leiðir. Með því að ræða hlutina og koma með hugmyndir að lausnum þá verða til nýjar leiðir. Það að taka ekki afstöðu eða taka ekki þátt er ekki val að mínu mati, ekki gera ekki neitt.“

„Ég hef oft velt því fyrir mér hvort við séum að horfa á leiðtogaskort í samfélaginu og þá líka í hjúkrun. Það er erfitt að festa hönd á ástæðunni en það hefur margt breyst sem hefur kannski orðið til þess að fólk stígur frekar til hliðar en að taka forystu. Líkleg skýring er einnig að fólk skorti hugrekki, hvatningu og stuðning. Það hafa orðið margar sameiningar og skipuritsbreytingar hjá heilbrigðisstofnunum sem eiga eflaust sinn þátt í þessari þróun.“ Og talið berst að sameiningu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítala árið 2000 sem Guðlaug Rakel kom að, hvernig gekk sú sameining? „Hún gekk að mestu leyti vel en árið 2009 varð síðan grundvallarbreyting á skipuritinu, skipulagi fagstétta.“

Samfélagið á Íslandi hefur líka breyst mikið á undanförnum árum og hún segir að heilbrigðisþjónustan hafi jafnvel ekki fylgt þeirri breytingu nógu vel eftir. Sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir séu í eðli sínu mjög íhaldssamar sem getur hæglega verið þrándur í götu.

Guðlaug Rakel tók við sem forstjóri HSS í mars á þessu ári. Samfélagið á Suðurnesjum er um margt frábrugðið því sem er á höfuðborgarsvæðinu, varðandi samsetningu íbúa til að mynda. Á hvaða hátt vinnur hún með það í sínu starfi sem forstjóri? „Ég horfi mjög til þessa í þeim ákvörðunum sem teknar eru. Ég var

„Stundum þarf hugrekki til að takast á við hlutina.“

til dæmis á fundi á vegum Embættis landlæknis í Grindavík fyrir stuttu þar sem verið var að birta nýja lýðheilsuvísa og þar sést að samfélagið sker sig úr varðandi ýmsa þætti samanborið við önnur heilbrigðisumdæmi. Hérna eru til dæmis hlutfallslega fleiri sem telja líkamlega og/eða andlega heilsu sína vera sæmilega eða lélega, það er hærra hlutfall sem leitar sér ekki heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar og það eru hlutfallslega færri sem sinna skimunum við krabbameinum heldur en í öðrum umdæmum. Við sjáum líka breytingu í nýútgefnum lýðheilsuvísum, núna er meiri þunglyndislyfjanotkun meðal fólks sem er 18 ára og yngra og ég held að við þurfum að vera mjög vakandi fyrir þessum breytingum sem lýðheilsuvísarnir eru að segja okkur varðandi líðan fólks. Ég vil að við reynum eins vel og við getum að nálgast fólk þar sem það er statt, það eiga allir sama rétt á þjónustu og

það þarf að koma þeim upplýsingum til fólks. Ég vil að við finnum leiðir til að bæta aðgengi að þjónustunni og eins að finna leiðir til að bæta þjónustuna, til að mynda með því að finna leiðir til að auka skimanir við krabbameinum. Nú erum við úti í miðri á, erum í mikilli stefnumótunarvinnu og erum langt komin með þá vinnu, við sjáum til lands.“

Guðlaug Rakel segir að liður í þeirri vinnu hafi verið að halda fundi með starfsfólki stofnunarinnar og íbúum til að fá betri mynd af því sem vel er gert og hvað megi bæta til að auka traust til stofnunarinnar, þannig að hún verði til fyrirmyndar. „Það er okkar samfélagslega ábyrgð að mæta fólki þar sem það er, þessi stefnumótunarvinna verður birt í nóvember og við munum svo nýta hana til að bæta þjónustuna.“

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir tók við starfi forstjóra HSS í mars á þessu ári.

Er einhver óvænt áskorun sem hefur mætt þér hér á nýjum vinnustað? „Í rauninni ekkert sem kom á óvart en mér finnst frábært hvað stofnunin býr yfir miklum mannauði, hér starfar frábært fagfólk og mín upplifun er sú að starfsfólkið vill gera vel og láta hlutina ganga.“

Gríðarlega mikilvægt að hafa sérfræðinga í hjúkrun á HSS

Og þar sem við erum farnar að ræða fagmennsku og mannauðinn er ekki úr vegi að spyrja Guðlaugu Rakel hvort margir sérfræðingar í hjúkrun starfi á HSS? „Við vorum nýlega að ráða fyrsta sérfræðinginn í hjúkrun á HSS og ég kann satt best að segja ekki skýringar á því hvers vegna það var ekki gert fyrr. Í framhaldinu auglýstum við stöðu sérfræðings í bráðahjúkrun en ég tel gríðarlega mikilvægt að sérfræðingar í hjúkrun séu starfandi á þessari heilbrigðisstofnun.“

Stundum þarf hugrekki til að takast á við hlutina. Og það fer ekki milli mála að Guðlaug Rakel veigrar sér ekki við að taka ákvarðanir. Sumir segja að það sé kalt á toppnum, það sé gjarnan fylgifiskur þess að vera í stjórnunarstöðu, ertu sammála því? „Já, það getur verið það alveg sama hvar maður er þá er það nú oft þannig að það segjast allir vilja breytingar en það er samt enginn tilbúin að breyta hjá sér og þar með taka raunverulegan þátt í ákvörðunum og innleiðingu breytinga. Staðan er sú að þessi stofnun er rekin með halla og það þarf að gera breytingar og fara vel með það fé sem við höfum. Reyna að nýta það sem allra best í þágu þeirra sem þiggja þjónustuna, það er mitt hlutverk að gera það.“

Mögnuð upplifun að standa á toppi Kilimanjaro

Guðlaug Rakel hikar aldrei meðan við spjöllum saman, það verður ekki um villst að þetta er eldklár stjórnandi sem veigrar sér ekki við að láta skoðanir sínar í ljós og býr yfir hugrekki til láta til sín taka. En hvaðan kemur þessi seigla og þetta hugrekki, hvaða lífsreynsla hefur mótað hana mest? „Mér finnst ekki auðvelt að

svara því, mótunin á sér stað allt æviskeiðið; öll lífsreynsla og allt það sem lífið býður upp á gerir mann að því sem maður er. Ég er mjög meðvituð um það að láta reynsluna vera mér lærdóm og styrkja mig. Ég held til dæmis að það hafi mótað mig, meira en ég hef gert mér grein fyrir, þegar ég var á Barnaspítala Hringsins, þá var ákvörðun tekin að vinna í heilbrigðiskerfinu og þar voru mínar fyrirmyndir. Ég hef alltaf verið mjög viðbragsmiðuð og það hentar mér bara ekki að sitja á hliðarlínunni, það er að segja ef ég hef eitthvað til málanna að leggja. Ég þarf alltaf að hafa eitthvað að moka sem er eflaust ástæðan fyrir því að ég fer í stjórnunarstöðu. En ég viðurkenni að ég sakna sjúklinganna og myndi helst vilja getað tvinnað þetta saman,“ svarar hún einlæg. Það er ákveðið markmið og eflaust finnur hún einhverja leið til að ná því.

Talið berst þá að öðru markmiði, himinháu markmiði sem Guðlaug Rakel átti ekki endilega von á að ná. Segðu okkur frá Kilimanjaro-ævintýrinu? „Þetta kom þannig til að vinkona mín hafði gengið í grunnbúðir á Everest og langaði mikið að fara á Kilimanjaro og fá mig með. Ég hugsaði mér mér að það væri annaðhvort að fara núna eða aldrei og úr varð að við fórum fjórar saman en við vorum allar saman í MBA-náminu í gamla daga. Við fórum á vegum Fjallafélagsins og þetta var einstök lífsreynsla. Maður hefur allan heimsins tíma til að hugsa á leiðinni upp fjallið. Það er alls óvíst hvernig líkaminn bregst við svona þunnu lofti. Ég setti mér því það markmið að ná upp í fyrstu búðir og ef líkaminn myndi þola það og ekki veikjast myndi ég halda áfram upp í aðrar búðir og verða glöð með að ná því,“ útskýrir hún og sækir viðurkenningarplagg sem hún fékk fyrir að komast alla leið upp á toppinn og sýnir blaðamanni það meðan hún heldur áfram með söguna af fjallaferðinni stórkostlegu. „Við vorum þarna tíu manna hópur sem fór saman upp en með okkur voru rúmlega fjörtíu fylgdarmenn sem sáu um allt fyrir okkur. Þeir báru tjöld og allt okkar dót, ég þurfti bara að hugsa um að koma sjálfri mér upp fjallið og átti meira en nóg með það. Ég átti erfitt með að horfa á fólk vera að bera dótið okkar og fann skömmustutilfinningu.

Guðlaug Rakel, ásamt tveimur fylgdarmönnum sem fóru upp fjallið með hópnum.
Guðlaug Rakel fór í magnað ferðalag upp á Kilimanjaro.

Það sem var eftirtektarvert var að þau sem fylgdu okkur voru svo ótrúlega nægjusöm og lífsglöð og vildu allt fyrir okkur gera til að við kæmumst upp á topp, okkar sigur var þeirra sigur. Ég geng frekar hægt að eðlisfari, næstum aftur á bak, og minn einkaleiðsögumaður sagði alltaf við mig every step is a golden step, hann var mér mikil hvatning að fara alla leið upp. Síðasti göngudagurinn byrjaði í myrkri um miðnætti en það er til að upplifa sólarupprásina. Það var alveg mögnuð upplifun, einstök birta, maður verður meyr og upplifir sig svo smáan í þessu stóra umhverfi. En þar sem ég gekk hægar en hinir í hópnum var ég síðust upp. Vinkona mín hélt að ég hefði snúið við og átti ekki von á mér en þegar hún sá mig koma og nálgast toppinn hentist hún af stað niður til að taka á móti mér, það var ekki eins og hún væri í tæplega 6.000 metrum. Þetta var mjög tilfinningaþrungin stund þegar við hittumst þarna og fórum síðustu metrana saman upp á topp.“

Guðlaug Rakel segir erfitt að koma því í orð hvernig upplifun það hafi verið að vera á toppnum, það hafi verið algjörlega magnað en tekur fram að ferðalagið sjálft hafi verið ótrúlega gefandi lífsreynsla. „Þessi auðmýkt, gleði, einlæga umhyggja og ríka þjónustulund heimamanna sem fylgdu okkur hafði mikil áhrif á mig. Svo kemur maður heim og það er umhugsunarefni, ef við getum orðað það þannig, hvað við höfum það í rauninni gott en kunnum varla að meta það.“

Viðkvæm og flókin áminningarmál erfiðust Sem forstjóri heilbrigðisstofnunar kemur óhjákvæmlega ýmislegt upp á, mál sem krefjast úrlausnar eða flóknar óvæntar aðstæður. Hvaða bjargráð nýtir Guðlaug Rakel sér á slíkum stundum? „Ég er í verunni mjög lokuð en hef tamið mér að hugsa hlutina út frá ólíkum hliðum og reyni að skilja hvers vegna hlutir eru með þeim hætti sem raun ber vitni. Mér finnst ekki erfitt að snúa við eða breyta ákvörðun ef ég kemst að þeirri niðurstöðu að ég gerði mistök,“ segir hún. Eftir smá umhugsun bætir hún við: „Það sem hefur reynst mér erfiðast að takast á við á mínum ferli eru áminningarmál, sérstaklega þau sem snúa að fíknivanda þar sem starfsmaður hefur til dæmis verið að misnota lyf eða önnur vímuefni. Það sem mér finnst erfiðast við þau mál er að það er bara toppurinn á ísjakanum. Það er alvarlegt ef ekki er brugðist við í þessum málum ef staðfastur grunur er um slíkt, það er mjög alvarleg vangá og meðvirkni en þetta eru mjög viðkvæm og flókin mál.“

Hún segir það besta við starfið vera að sjá starfsfólk vaxa í verkefnum, sérstaklega þegar fólk telur sig ekki ráða við verkefnið en leysir það síðan. „Mér finnst ofboðslega gaman að vinna með fólki sem er tilbúið að dýfa höndunum ofan í vatnið og ganga í verkefnin; gera það sem gera þarf. Mér finnst frábært að sjá þegar markmiðin nást og það verður ávinningur fyrir starfsemina. Ég hef alla tíð verið markmiðadrifin og líklega meira með árunum, ég er líka meðvituð um að svo lengi lærir sem lifir og ég reyni alltaf að gera aðeins betur eða aðeins meira en ég held að ég geti. Það þýðir samt ekki að maður þurfi alltaf að klífa hæsta fjall Afríku,“ segir hún og hlær.

Árin á Grensás mikil eldskírn

Við förum aftur í tímann, allt til ársins 1998, þegar Guðlaug Rakel tók við Grensás. „Það var í raun mitt fyrsta stjórnunarstarf og má segja að árin þar hafi verið mikil eldskírn. Ég fékk gott veganesti frá framkvæmdarstjóra hjúkrunar sem þá var, Sigríði Snæbjörnsdóttur, sem sagði við mig að ef ég myndi ekki gera

mistök þá væri ég líklega ekki að gera neitt. Með þessa setningu í huga var tekist á við verkefnið með góðu fólki. Grensás hafði verið í margs konar erfiðleikum og það voru fáir sjúklingar og mitt verkefni var að koma Grensás í rekstur eða einfaldlega loka. Rúmlega ári seinna var staðan orðin önnur. Grunnurinn var góður, frábært starfsfólk, ég sá ekki miklar hindranir og fannst líka svo sjálfgefið að einstaklingar sem þyrftu á endurhæfingu að halda gætu leitað á Grensás. Mitt markmið var því bara að efla Grensás, mér þykir mjög vænt um að sjá hvað það hefur gengið vel undanfarin ár og vona að fólki beri gæfu til að viðhalda því góða og faglega starfi sem þar er unnið,“ segir hún.

„Í grunninn snýst starfið alltaf um þjónustu við skjólstæðinga; sjúklingurinn á alltaf að vera í öndvegi og það þarf að taka allar ákvarðanir með hann efst í huga. Þess vegna þykir mér svo gott að leita í lýðheilsuvísa Embættis landlæknis og eiga samtal við íbúa. Mér finnst mikilvægt að bjóða upp á þetta samtal og heyra skoðanir íbúa á þjónustu HSS. Við þurfum fyrst og fremst að bjóða upp á öfluga heilsugæslu, góða heimahjúkrun og almenna spítalaþjónustu. Þetta er allt til staðar en það má alltaf bæta um betur og það er markmiðið. Þetta er stórt samfélag, í þessu heilbrigðisumdæmi búa rúmlega 30 þúsund manns og það er aukin ásókn í að flytja hingað,“ segir Guðlaug Rakel og ljóst að það eru næg verkefni fram undan og það passar markmiðadrifna forstjóranum vel sem segir að það henti sér best að bretta upp ermar og láta verkin tala.

Að lokum hvernig sérðu fyrir þér að hjúkrun muni þróast á næstu árum? „Ég vona að hún þróist í þá átt að vera enn sjúklingamiðaðri. Við þurfum að horfa á hjúkrunina, eins og allt annað í heilbrigðiskerfinu, út frá sjúklingnum. Í stað þess að horfa á upplifun fagfólksins á starfinu að horfa meira á upplifun sjúklinga á þjónustunni, þar fáum við svörin við því hvað má bæta.“

Guðlaug Rakel segist meðvitað reyna að njóta hvers dags en viðurkennir að hún þurfi að læra að slaka á og gera ekki neitt, „það er mín stærsta áskorun,“ segir hún brosandi. Talið berst að fjölskyldunni en Guðlaug Rakel á eiginmann, þrjár dætur og sjö barnabörn. „Við erum öll ólík, það verður hver að fljúga eins og hann er fiðraður,“ segir hún að lokum.

Yfirlýsing NNF send á stjórnvöld Norðurlandanna

Texti: Ari Brynjólfsson | Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Ráðstefna Bandalags hjúkrunarfélaga á Norðurlöndunum (NNF) fór fram í Reykjavík dagana 12. og 13. september.

Mættir voru rúmlega eitt hundrað fulltrúar frá stéttar- og fagfélögum hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndunum ásamt formönnum.

Markmið ráðstefnunnar var að ræða mönnun og að stilla saman strengi NNF þegar kemur að ráðningu hjúkrunarfræðinga á milli landa og alþjóðlegum skorti á þeim til starfa. Skortur á hjúkrunarfræðingum á Norðurlöndunum má ekki bitna á löndum sem mega enn síður við því að missa þá úr landi.

Aðalfyrirlesarar voru Howard Catton, framkvæmdastjóri Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN), og Dr. James Buchan, prófessor í hjúkrunarfræði við Háskólann í Edinborg. Í erindi Catton um mönnun kom fram að á heimsvísu sé þörf á rúmlega sex milljón hjúkrunarfræðingum til viðbótar við þær 29 milljónir sem eru nú starfandi, þar að auki munu tæplega fimm milljónir hætta störfum sökum aldurs á næstu árum. Buchan beindi meðal annars spjótum sínum að ráðningum hjúkrunarfræðinga frá löndum sem

mega ekki við því að missa þá, vandi sem þarf að leysa með því að hvert land mennti og þjálfi nógu marga hjúkrunarfræðinga ásamt því að koma í veg fyrir að þeir hverfi úr starfi.

Í lok ráðstefnunnar var samþykkt yfirlýsing NNF sem send var á stjórnvöld á öllum Norðurlöndunum þar sem skorað er á þau að fylgja reglum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um ráðningar hjúkrunarfræðinga milli landa. Í yfirlýsingunni var farið yfir þær aðgerðir sem þarf að ráðast í til að tryggja sjálfbærni heilbrigðisþjónustu landanna á sama tíma og uppfylla þarf alþjóðlegar skuldbindingar um siðferðileg vinnubrögð og jafnan rétt til heilsu á alþjóðavísu eins og WHO mælir fyrir um. Yfirlýsinguna má finna á vef Fíh.

Á LSH er 5 tonnum af úrgangi hent á hverjum

degi, þar af eru 2,2 tonn endurnýjanleg. Hvað með afganginn?

- WoodSafe® er nýjung á markaði af ílátum fyrir spilliefni - 80% endurnýjanlegt hráefni úr

skógariðnaði í Svíþjóð - 66% minnkun á CO2 losun - Auðvelt að innleiða og til á lager

Steinunn Arna Jóhannesdóttir Viðskiptastjóri steinunn.arna@icepharma.is

Howard Catton, framkvæmdastjóri Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga, ICN

Aðrar þjóðir vilja læra af íslenskum hjúkrunarfræðingum

Viðtal: Ari Brynjólfsson | Mynd af Howard: Sigtryggur Ari Jóhannsson

Howard Catton, framkvæmdastjóri Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga, ICN, var gestur á ráðstefnu NNF sem haldin var á Íslandi. Við notuðum tækifærið á milli funda til að setjast niður með honum og spyrja hann út í stöðu hjúkrunarfræðinga í heiminum, hvaða áskorunum ICN stendur frammi fyrir og hvaða þýðingu þær hafa fyrir hjúkrunarfræðinga á Íslandi.

Heimurinn allur stendur frammi fyrir stórum áskorunum þegar kemur að heilbrigðismálum. „Það geisa stríð, það eru stórar krísur sem snerta mannúðarmál og alltaf þegar við stöndum frammi fyrir slíkum áskorunum þá eru hjúkrunarfræðingar mættir í framlínuna,“ segir Howard. „Við vitum að heilbrigðiskerfi heimsins eru enn að jafna sig á heimsfaraldrinum, biðlistar eru langir og á sama tíma eru þjóðir að eldast, það er mikið álag á öllu kerfinu. Það skortir sex milljónir hjúkrunarfræðinga í heiminum og þeir sem eru starfandi eru undir miklu álagi og fá oft og tíðum ekki þann stuðning, fjármagn og vernd sem þeir þurfa.“

Það eru teikn á lofti um að staðan muni batna. „Ég tel að heimurinn sé að átta sig á hversu miklu máli heilsa fólks skiptir í stóra samhenginu, hvaða áhrif heilsa hefur á efnahag þjóða, frið og öryggismál, sem og jöfnuð. Á sama tíma eru mjög mörg tækifæri fyrir okkur til að styrkja og fjölga hjúkrunarfræðingum til að mæta þessum stóru áskorunum, það er verkefni okkar hjá ICN. Til að hjúkrunarfræðingar geti veitt hágæða þjónustu þarf að styðja þá, verja þá og fjárfesta í þeim. Það þarf að minnka álagið og koma í veg fyrir að þeir brenni út í starfi. Það helst alfarið í hendur við að bæta almenna heilsu í heiminum.“

Rökin bíta

Howard hefur ferðast víða um heim fyrir hönd ICN og hittir reglulega stjórnmálamenn og aðra sem koma að stefnumótun. Hann er bjartsýnn á árangurinn en það er þó ekki á þeim vettvangi sem ICN myndi vilja, hann mætir iðulega því viðmóti að störf hjúkrunarfræðinga séu einföld. „Það er ekkert einfalt við að hjúkra,“ segir hann. „Eitt af því jákvæða sem kom út úr heimsfaraldrinum, það var þó töluvert meira af neikvæðu, var að almenningur sá í fréttum hvaða störf hjúkrunarfræðingar inna af hendi. Ég tel að það hafi hjálpað mikið til við að breyta ímynd hjúkrunarfræðinga, sem ég segi hreinskilnislega að hafi byggst á þeirri staðalímynd að hjúkrun sé kvennastarf en okkar starf hefur náð að breyta þeim skilningi.“

Vegna efnahagslegra afleiðinga heimsfaraldursins og aukinna fjárveitinga í varnarmál í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu er erfitt að fá stjórnvöld víða um heim til að fjárfesta í hjúkrun. „Stjórnmálamenn standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum um hvar eigi að forgangsraða fjármagninu. Við það bætist að það hefur lengi tíðkast að líta á fjárfestingar í heilbrigðismálum sem hreinan kostnað sem auðveldlega má skera niður, það er kolröng nálgun. Fjárfesting í heilsu og hjúkrunarfræðingum er fjárfesting í efnahagslegri velsæld, við höfum sýnt fram á það með

rannsóknum að þarna eru skýr tengsl á milli.“ Á það líka við um að auka jöfnuð og minnka fátækt en þrátt fyrir það er erfitt að koma þessum boðskap á framfæri. „Við sjáum samt að þessi rök eru byrjuð að bíta.“

Á toppnum og sér fagið sækja fram um allan heim Howard hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra ICN frá árinu 2019. Hann er frá Bretlandi og útskrifaðist þaðan sem hjúkrunarfræðingur. „Ég hef verið mjög heppinn að fá að vinna víða, meðal annars á Nýja-Sjálandi og í Bandaríkjunum. Eiginkona mín er frá Ástralíu.“ ICN er líkt og mörg önnur alþjóðleg samtök með höfuðstöðvar sínar í Sviss. Ferlið að vinna sig upp í ICN hófst með því að taka þátt í félagsstarfi hjúkrunarfræðinga í heimalandinu. „Ég hvet alla hjúkrunarfræðinga til að vera meðlimir í sínu félagi, félög hjúkrunarfræðinga vinna stórfengleg störf fyrir hjúkrunarfræðinga á svo marga vegu,“ segir hann. „Þau eru vanmetin þegar kemur að þeim stuðningi sem þau veita hjúkrunarfræðingum í heimalandinu. ICN er einungis til vegna félaganna.“

Þegar Howard starfaði sem hjúkrunarfræðingur tók hann að sér að verða talsmaður á vinnustað, það leiddi til þess að hann fór að starfa alfarið fyrir Royal College of Nurses; Bresku konunglegu hjúkrunarfræðingasamtökin í Bretlandi, og fór þá að vinna að stefnumótunarmálum. Í kjölfarið fékk hann tækifæri til að starfa fyrir ICN. „Það má líkja þessu við draum ungmennis um að spila fyrir landsliðið sitt í fótbolta, þetta er toppurinn fyrir mér,“ segir hann.

Howard er ekki maður sem missir trúna á verkefnið. „Stundum finnst manni eins og maður stígi eitt skref fram á við en svo tvö skref aftur á bak. En ég sé fagið sækja fram um allan heim, sums staðar hraðar en annars staðar. Ég sé fagið þróast og hjúkrunarfræðinga fá þá viðurkenningu sem þeir eiga skilið. Það sem hefur skipt sköpum í því er stuðningur við leiðtoga í hjúkrun. Þú ferð til lands og hittir formann félagsins í því landi, þeir skipta vissulega máli en þeir einir geta ekki breytt öllu. Allir hjúkrunarfræðingar eru að sinna hlutverki leiðtoga, skjólstæðingar og samfélagið leitar til þeirra eftir ráðum. Það eru 29 milljónir hjúkrunarfræðinga í heiminum sem eru leiðtogar, það er gríðarlegt afl,“ segir hann.

Afl hjúkrunarfræðinga byggir á trausti almennings Hjúkrunarfræðingar verða aldrei á einni skoðun um öll mál, opin skoðanaskipti skipta miklu máli þegar kemur að því að mynda stefnu og með sameiginlegri stefnu er hægt að nota afl hjúkrunarfræðinga.

„Það eru 29 milljónir hjúkrunarfræðinga í heiminum sem eru leiðtogar, það er gríðarlegt afl ...“

„Þegar við stöndum frammi fyrir risastórum áskorunum á borð við loftslagsbreytingar, skort á hjúkrunarfræðingum eða hamförum þá þurfum við að standa saman. Það er ekki einungis vegna þess að það er besta leiðin til að takast á við vandann eða koma á breytingum, heldur kemur pólitík inn í þetta líka. Þegar ég er til dæmis að tala við stjórnmálamenn um eitthvert tiltekið málefni þá er besta leiðin fyrir þá til að þagga niður í mér að segja: „Það er frábært að það sé afstaða ICN en ég var að tala við hjúkrunarfræðinga sem starfa á þessum spítala og þeir segja annað.“ Þannig er ósamstaða meðal hjúkrunarfræðinga notuð sem afsökun til að gera ekkert,“ segir hann.

Afl hjúkrunarfræðinga byggir á trausti almennings. „Í hvert sinn sem það er gerð könnun meðal almennings um hverjum það treystir helst þá eru hjúkrunarfræðingar yfirleitt efst á blaði. Á sama tíma eru stjórnmálamenn á botninum. Þetta traust kemur til vegna þess að fólk ber virðingu fyrir störfum hjúkrunarfræðinga, við þurfum að vera meðvituð um það.“

Á sama tíma og fólk ber virðingu fyrir störfum hjúkrunarfræðinga þá skortir oft á skilning á hvað hjúkrunarfræðingar gera. „Ég held að það sé vegna þess að veruleiki nútímahjúkrunar er ekki nógu áberandi. Sem dæmi, þá kom Breska ríkisútvarpið, BBC, til okkar hjá ICN eftir heimsfaraldurinn og þeir sögðust ekki hafa haft hugmynd um að hjúkrunarfræðingar gerðu svona mikið og vildu gera stuttmyndir í samstarfi við okkur. Við vorum að sjálfsögðu til í það, stuttmyndirnar heita Caring for Courage og auðvelt að finna þær á Google,“ segir Howard. Fulltrúar BBC voru gestir á ráðstefnu ICN í Montreal í fyrra og tóku með sér markaðskönnun sem var gerð um verkefnið. „Þar kom fram að meira en 60% allra sem sáu stuttmyndirnar sögðu að þeir höfðu ekki áttað sig á störfum hjúkrunarfræðinga og áhrifum þeirra. Þetta segir mjög mikið.“

Þeir sem sáu stuttmyndirnar gátu því séð hjúkrunarfræðinga sem brautryðjendur og frumkvöðla. „Ég heyri þetta líka hjá hjúkrunarfræðingum sjálfum, þeir segja oft: „Ég er bara hjúkrunarfræðingur“. Þetta er manneskja sem er vinna með mjög flókna hluti en lætur það hljóma eins og það sé mjög einfalt. Það er hluti af vandanum, við þurfum að segja fólki frá öllum þessum flóknu hlutum sem við erum að gera. Þarna er mikið sóknarfæri.“

Verkefni sem snýr að aðstoð til hjúkrunarfræðinga á stríðssvæðum

ICN mun aldrei fylgja neinni pólitískri hugmyndafræði eða taka afstöðu í öðru en því sem snýr beint að hjúkrunarfræðingum. Howard viðurkennir að slíkt hlutleysi geti verið erfitt á köflum, þá helst þegar um er að ræða stríðsátök. „Við getum ekki staðið hjá þegar um er að ræða heilbrigðis- eða mannúðarkrísu þar sem hjúkrunarfræðingar eru ávallt í framlínunni. Það þýðir samt að við verðum að hafa fókusinn mjög skýran þegar kemur að því hvað við segjum og gerum, það þarf að snúa að því sem hjúkrunarfræðingar eru að gera.“

Allt frá stofnun Alþjóðaráðsins fyrir 125 árum hefur það beitt sér fyrir hjúkrunarfræðinga í löndum þar sem stríð geisar eða aðrar hamfarir eiga sér stað, það hefur þó aldrei verið stór hluti af starfinu. Í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu setti ICN á laggirnar verkefnið #NursesForPeace sem snýr að aðstoð til allra hjúkrunarfræðinga á stríðssvæðum. Hann tekur fram að ICN sé ekki hjálparsamtök sem sendi fólk á vettvang. „En við erum í sambandi við hjúkrunarfræðingana í landinu og getum komið á sambandi milli þeirra og hjúkrunarfræðinga annars staðar.“ Einnig hefur safnast fé sem hefur nýst til þess að kaupa hjálpargögn en

líka til að sinna námskeiðum, mikilvægasti hlutinn er þó að tengja hjúkrunarfræðinga saman.

Verkefnið hefur stækkað töluvert á síðustu tveimur árum. „Í gegnum samtökin í Ísrael höfum við aðstoðað við áfallahjálp og í gegnum samtökin í Palestínu höfum við fjárfest í hjálpargögnum,“ segir Howard. Sums staðar er erfiðara að athafna sig, til dæmis í Afganistan. „Ég held því miður að þörfin fyrir þetta verkefni muni ekki hverfa á næstunni.“

Viðvörunarbjöllur eru farnar að hringja Á ráðstefnu NNF var rætt um tvær stórar áskoranir sem hjúkrunarfræðingar á Norðurlöndunum, sem og víðar, standa frammi fyrir. Annars vegar mönnun hjúkrunarfræðinga og hins vegar ráðningar hjúkrunarfræðinga á milli landa. „Skortur á hjúkrunarfræðingum er fyrirbæri sem ég rekst á í hverju einasta landi sem ég heimsæki,“ segir Howard. „Álagið er oft gríðarlega mikið. Viðvörunarbjöllurnar eru farnar að hringja, hjúkrunarfræðingar hætta fyrr störfum og sums staðar er samdráttur í aðsókn í hjúkrunarnám. Allt þetta gerir það að verkum að það eru færri hjúkrunarfræðingar sem við vitum, og allar rannsóknir sýna, að dregur úr öryggi sjúklinga og hækkar dánartíðni. Við leggjum hart að okkur við að hvetja til fjárfestingar í hjúkrun.“ Það sama á við um að bæta starfsaðstæður, nefnir hann sérstaklega, eins og nýlegar breytingar á lögum um refsiábyrgð hér á landi, lög sem eru fyrirmynd fyrir önnur lönd.

Þegar upp er staðið þá þarf hvert land að finna eigin lendingu. „Núna er víða mikill áhugi á lögfestum mönnunarviðmiðum en það er hægt að fara fleiri leiðir til að tryggja að það séu nógu margir hjúkrunarfræðingar við störf.“ Þó að Ísland glími við sömu áskoranir og aðrir þá segir Howard landið vera á góðum stað til ná árangri. Umræðan um fjölgun hjúkrunarfræðinga hefst gjarnan á því hvernig megi mennta fleiri. Howard vill snúa því við og ræða frekar hvernig eigi að halda þeim í starfi og þegar búið er að ræða það þá sé tímabært að ræða um menntun. „Það er mun meira aðkallandi nú þegar við erum að sjá hjúkrunarfræðinga með margra ára reynslu hætta störfum löngu áður en þeir fara á aldur.“

Varðandi flutninga á milli landa þá segir Howard það alveg skýran rétt einstaklinga að flytja á milli landa til að starfa. „Að því sögðu, frá því í heimsfaraldrinum höfum við séð mikla fjölgun í flutningum hjúkrunarfræðinga á milli landa og síðustu tvö ár hef ég heyrt sögur sem gefa til kynna að það sé verið að valda skaða á heilbrigðisþjónustu í þeim löndum sem eru að missa hjúkrunarfræðinga. Í þeim löndum sem höfðu fyrir mun færri hjúkrunarfræðinga en Ísland og aðrar þjóðir með hærri tekjur,“ segir hann. Þjóðir verji miklu í menntun en sjái svo hjúkrunarfræðinga flytja úr landi skömmu eftir útskrift. „Það er mjög lítið, nánast ekkert, sem gefur til kynna að þessar þjóðir fái eitthvað í staðinn.“

Howard heimsótti Afríku nýverið og fundaði með formönnum hjúkrunarfélaga frá tuttugu löndum. „Það var mikil reiði. Það voru nokkrir sem töluðu um að þeim liði eins og þetta væri nútímanýlendustefna, það eru stór orð en það eru orð sem ég hef komið á framfæri. Ég skil hvað þau eru að segja, það er verið að taka frá þeim dýrmæta auðlind og setur þau í erfiðari stöðu gagnvart því að bæta aðstæður í landinu sínu,“ segir hann og bætir við: „Í mörgum löndum, þar á meðal þeim löndum sem eru að missa frá sér hjúkrunarfræðinga, eru hjúkrunarfræðingar sem eru atvinnulausir. Ég fæ að heyra þau rök reglulega að þarna sé fólk í atvinnuleit. Auðvitað skil ég vel þá einstaklinga en það þarf að

vera á hreinu að ástæðan fyrir atvinnuleysinu er ekki að það séu of margir hjúkrunarfræðingar heldur stafar það af því að stjórnvöld vilja eða geta ekki fjármagnað stöðurnar þeirra. Það þarf að fjárfesta í hjúkrun. Allur heimurinn þarf fleiri hjúkrunarfræðinga.“

Fundaði með ráðherra og leiðtogum í hjúkrun Á ráðstefnunni fundaði Howard með Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra, Guðbjörgu Pálsdóttur, formanni Fíh, og fleiri leiðtogum í hjúkrun. „Mér fannst þær umræður mjög jákvæðar. Við fórum yfir áskoranirnar, rökin og rannsóknirnar, ráðherrann var með mjög góðan skilning á áskornunum, hvað það þýðir að hafa of fáa hjúkrunarfræðinga og hvaða hættu það skapar fyrir sjúklinga. Við ræddum um nokkrar leiðir sem hægt er að fara til að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga, þar á meðal mönnunarviðmið,“ segir hann. Það fór ekki fram hjá Howard að ráðherra sat áfram eftir fundinn og hlustaði á nokkur erindi á ráðstefnunni. „Það er segir mikið um stöðu félagsins ykkar. Ráðherrar gera það ekki nema þeir séu í góðu talsambandi við viðkomandi félag og bera virðingu fyrir því.“

Hér á landi er ekki lengur nein sérstök staða yfirhjúkrunarfræðings innan stjórnsýslunnar, Howard segir að slíkur einstaklingur gegni lykilhlutverki. „Ef þú ert að reka heilbrigðiskerfi og hanna

heilbrigðisþjónustu til framtíðar og ert ekki með reynslu, þekkingu og íhlutun leiðtoga í hjúkrun þá má segja að þú sért í blindflugi. Þig einfaldlega skortir lykilupplýsingar og ráðgjöf frá stærstu einstöku fagstéttinni, fólkinu sem er ábyrgt fyrir að veita heilbrigðisþjónustuna og sér hvar áhættuþættirnir eru,“ segir hann. „Yfirhjúkrunarfræðingur gegnir lykilhlutverki í að þetta komist á framfæri við stefnumótun. Ég ræddi þetta við heilbrigðisráðherrann ykkar, sagði honum að um 70% allra þjóða væru með slíka stöðu. Í öllu sem hefur að gera með mönnun og áætlanir til framtíðar þá skipta yfirhjúkrunarfræðingur og leiðtogar í hjúkrun miklu máli.“ Það hefur einnig að gera með að tryggja góða menningu innan heilbrigðisþjónustunnar. Íslenskir hjúkrunarfræðingar hafa margt til málanna að leggja á alþjóðavísu. „Hjúkrunarfræðingar á Íslandi eru mjög öflugir. Þeir eru öflugir á alþjóðlegum vettvangi í gegnum félagið sitt. Það er mikill áhugi á heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndunum og hvernig farið er að því að gera hluti, þið notið tæki og hafið komið á ferlum sem aðrar þjóðir vilja gjarnan læra af ykkur,“ segir Howard. „Ég sé fyrir mér íslenska hjúkrunarfræðinga gegna stóru hlutverk á alþjóðavettvangi, þið vinnið vel saman, þið eruð með öfluga leiðtoga og náið eyrum ráðamanna.“

Fyrir ráðstefnuna fundaði Howard með Guðbjörgu Pálsdóttur, formanni Fíh, Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra og fleirum. Mynd: Helga Rósa Másdóttir.

Hvað brennur á hjúkrunarfræðingum á Norðurlöndunum?

Texti: Ari Brynjólfsson | Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir og Sigtryggur Ari Jóhannsson

Á ráðstefnu NNF voru allir formenn félaga hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndunum. Við nýttum tækifærið til að spyrja þá að hvað brennur helst á hjúkrunarfræðingum í þeirra landi og hver þeirra baráttumál eru.

Anne Pauna

Sairaanhoitajat

Sineva Ribeiro

Vårdförbundet

Óluva í Gong

Felagið Føroyskir Sjúkrarøktarfrøðingar

Dorthe Boe Danbjørg

Dansk Sygeplejeråd

„Um þessar mundir snýst baráttan helst um fjármagn,“ segir Anne Pauna, framkvæmdastjóri Félags finnskra hjúkrunarfræðinga. „Í Finnlandi erum við nýbúin að ganga í gegnum miklar endurbætur á heilbrigðiskerfinu, því er nú skipt í 25 heilbrigðissvæði sem skortir fjármagn en nú á að skera niður hátt í eitt þúsund stöðugildi á stærsta háskólasjúkrahúsinu í landinu. Öllum er sagt að ekki verði skorið niður meðal hjúkrunarfræðinga í klíník en hvað þýðir þetta í raun?“ Niðurskurðurinn bitnar á bæði rannsóknum og stoðþjónustu sem eykur álagið á hjúkrunarfræðinga. „Ef það er enginn til að þrífa herbergi á sjúkrahúsinu eða skurðstofur, hver á þá að gera það? Það mun á endanum verða á ábyrgð hjúkrunarfræðinga.“

Anne hefur miklar áhyggjur af stöðunni. Í Finnlandi eru 74 þúsund starfandi hjúkrunarfræðingar en þörf sé á rúmlega 16 þúsund til starfa til viðbótar. „Álagið er alltaf að aukast en það kemur ekkert í staðinn.“ Bindur hún vonir við að ráðstefna ICN sem haldin verður í Helsinki á næsta ári muni vekja athygli á málstað hjúkrunarfræðinga. „Það er gott tækifæri til að sýna hversu öflugir og faglegir hjúkrunarfræðingar starfa í landinu.“

„Í Svíþjóð eru of margir hjúkrunarfræðingar í hlutastarfi. Álagið er of mikið og starfsumhverfið er ekki nógu gott, það er helsta ástæðan fyrir því að hjúkrunarfræðingar eru að minnka við sig vinnu,“ segir

Sineva Ribeiro, formaður Vårdförbundet, samtaka heilbrigðisstétta í Svíþjóð. „Við erum núna að vinna að því að ná samkomulagi um styttingu á vinnuviku þannig að það borgi sig að fara úr 70% starfi og upp í 85% starf.“

Meðalaldur hjúkrunarfræðinga í Svíþjóð fer hækkandi og er nú stór hluti af sérfræðingum í hjúkrun á leið af vinnumarkaði. „Þegar ég var að læra að verða sérfræðingur í hjúkrun fyrir um þremur áratugum þá var um 60% allra hjúkrunarfræðinga sérfræðingar, í dag er það hlutfall komið niður í 43%.“

Vårdförbundet, sem er stéttarfélag 114 þúsund hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og lífeindafræðinga, stóð í verkfallsaðgerðum fyrr á þessu ári sem enduðu með kjarasamningum. „Þar var samið um að atvinnurekendur greiði fyrir sérfræðinganám að öllu leyti. Ég held því að hlutfallið fari að hækka á ný.“

„Um þessar mundir stöndum við vel þegar kemur að hjúkrunarfræðingum með grunnmenntun, það eru tvöfalt fleiri að útskrifast nú en fyrir áratug og við ættum að geta verið sjálfbær með hjúkrunarfræðinga. Það krefst þess þó að við höldum vel á spöðunum til að þessi staða breytist ekki á næstu árum,“ segir Óluva í Gong, formaður Félags færeyskra hjúkrunarfræðinga. „Við eigum í erfiðleikum þegar kemur að sérfræðingum í hjúkrun, við erum ekki að mennta nóg af sérfræðingum í skurð-, gjörgæslu- og svæfingahjúkrun. Okkar bíður mikil áskorun að fá stjórnmálamenn til að skilja þörfina til að fjármagna sérfræðimenntun.“

Óluva segir að stjórnvöld reiði sig um of á að fólk flytji aftur heim til Færeyja að loknu námi. „Við getum ekki alltaf treyst á það. Það er líka spurning um að þegar fólk kemur aftur heim frá Danmörku eða Noregi, hvort það fari aftur,“ segir hún. Stór hluti af ungu fólki flytur frá Færeyjum og skýtur rótum í öðru landi. „Þau sem koma aftur heim til Færeyja upplifa oft að það var ekki eins og þá minnti, þá fara þau aftur.“

„Hjúkrunarfræðingar í Danmörku standa frammi fyrir sömu áskorunum og kollegar þeirra um allan heim. Það er almennur skortur á hjúkrunarfræðingum. Á síðustu árum höfum við séð marga hætta störfum í heilbrigðiskerfinu og í dag erum við með rúmlega fimm þúsund hjúkrunarfræðinga sem starfa utan heilbrigðiskerfisins,“ segir Dorthe Boe Danbjørg, formaður Félags danskra hjúkrunarfræðinga.

„Ein helsta áskorunin á faglaga sviðinu er að stjórnmálamennirnir og stjórnvöld eru að skoða möguleikann á því að fá annað starfsfólk, ófaglært, til að sinna sumum störfum hjúkrunarfræðinga. Það er mikil ógn við okkar fag. Það eru líka uppi hugmyndir um stytta námið og við höfum miklar áhyggjur af því hvaða áhrif það getur haft á gæði heilbrigðisþjónustunnar og öryggi sjúklinga.“

Guðbjörg Pálsdóttir

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga

Lill Sverresdatter

Larsen

Norsk Sykepleierforbund

„Í ár var sú sögulega þróun að starfandi hjúkrunarfræðingum fækkaði á milli ára en það hefur ekki áður gerst svo ég viti til,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. „Ég hef í mörg ár bent á að þetta væri að gerast í öðrum löndum og að við gætum ættum von á þessi staða kæmi upp hér líka ef ekki yrði gripið til aðgerða til að halda hjúkrunarfræðingum í starfi. Nú er þetta að raungerast og yfirvöld verða að fara hlusta og bregðast við stöðunni.“

„Eitt af stóru verkefnunum á Íslandi er að nýta til fullnustu þekkingu, reynslu og hæfni hjúkrunarfræðinga, með því væri hægt að bæta skilvirkni þjónustunnar og auka hagkvæmni í rekstri. Það er nú einu sinni í takt við heilbrigðisstefnu yfirvalda og myndi án efa hjálpa til við að halda hjúkrunarfræðingum í starfi.“

Guðbjörg segir hjúkrunarfræðinga á Íslandi óþreyjufulla að sjá alvörubreytingar á kjörum og starfsumhverfi. „Þung og flókin samtöl við okkar viðsemjendur og heilbrigðisstofnanir um þessi mál hjálpa ekki til við að halda stéttinni starfandi í heilbrigðiskerfinu eins og staðan er þar í dag.“

Það jákvæða er að íslenskir hjúkrunarfræðingar eru öflugt fagfólk sem hefur margt fram að færa þegar kemur að rannsóknum og gagnreyndri þekkingu. „Ég veit að margir íslenskir hjúkrunarfræðingar ætla að sækja stóru ICN ráðstefnuna sem verður í Helsinki í júní 2025 og nokkrir verða þar með erindi. Við hér á landi eum mjög framarlega í bæði þróun og nýsköpun í hjúkrun og viljum leyfa öðrum að njóta góðs af þeirri þekkingu og hafa þannig áhrif á þróun fagsins í heiminum.“

„Stærsta áskorun norska heilbrigðiskerfisins í dag er að tryggja nægt framboð af starfsfólki með rétta hæfni. Hjúkrunarfræðingar eru eftirsóttasta stéttin í Noregi, samkvæmt tölum frá 2023 segja níu af hverjum tíu sveitarfélögum eiga erfitt með að ráða hjúkrunarfræðinga,“ segir Lill Sverresdatter Larsen, formaður Félags norskra hjúkrunarfræðinga. „Við erum meðal annars að vinna að því núna að fá staðfesta sérfræðivottun fyrir hjúkrunarfræðinga.“ Einnig er unnið að því að fá löggjöf um vinnuslys breytt til að hjúkrunarfræðingar hafi sambærileg réttindi og iðnmenntaðar stéttir.“

Lill er einnig forseti NNF en á vettvangi Norðurlandanna eru mörg sameiginleg baráttumál. „Það er hughreystandi að vita að við stöndum saman um okkar sameiginlegu gildi, sterk og opin velferðarsamfélög sem byggja á samstarfi,“ segir Lill. „Það er ekki hægt að taka þessi gildi sem sjálfsögðum hlut, því miður sjáum við of mörg dæmi þess utan okkar landamæra. Við finnum öll fyrir miklum þrýstingi á hjúkrunarfræðinga, það er ekki nóg gert til að halda þeim í starfi og stuðla að nýliðun, og stjórnmálamenn sem reiða sig á skammtímalausnir.“

Ólafur G. Skúlason framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala

Framkvæmdastjóri hjúkrunar

á Landspítala segir starfið skemmtilegt, krefjandi og gefandi

Viðtal: Helga Pálmadóttir | Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Ólafur G. Skúlason, eða Óli eins og hann er alltaf kallaður, byrjaði starfsferil sinn í eldhúsi Sjúkrahúss Reykjavíkur 17 ára gamall. Í gegnum tíðina hefur hann verið óhræddur við að breyta til í starfi og hefur unnið víða, bæði utan og innan Landspítala. Í dag starfar hann sem framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala. Blaðamaður hitti Ólaf og fór yfir vegferð hans að því starfi sem hann sinnir í dag sem og önnur mál sem tengjast hjúkrun.

Hver er Ólafur G. Skúlason í stuttu máli? „Ég er 44 ára gamall pabbi og eiginmaður í Garðabæ. Ég hef áhuga á hlaupum, líkamsrækt, útiveru og ferðalögum og elska góðan mat og skemmtilegt fólk. Ég er hjúkrunarfræðingur, sérfræðingur í skurðhjúkrun, sjúkraliði og sjúkraflutningamaður að mennt og reyni að lifa í sátt og samlyndi við allt og alla.“

Karlmenn gátu líka lært hjúkrun

Segðu mér frá vegferð þinni að því að verða framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala. „Í raun má segja að þessi vegferð hefjist með lítilli bók og í kjölfarið varð röð tilviljana. Þegar ég var að klára grunnskóla var ég mjög áttavilltur varðandi hvað mig langaði að verða þegar ég yrði stór. Ég fann bók sem hét „Störf á Íslandi“ og fletti í gegnum þá bók til að lesa mér til um ýmiss konar störf. Þegar ég var ég komin að H-inu kom starfið „hjúkrunarfræðingur“. Þar var mynd af karlkyns hjúkrunarfræðingi, ágætum kollega sem heitir Róbert Lee, og ég hugsaði með mér: Nú! Geta karlmenn orðið hjúkrunarfræðingar? Ég las kaflann um hvað hjúkrunarfræðingar gera og fannst það mjög spennandi. Í kjölfarið hallaðist ég að því að fara í nám sem tengdist heilbrigðiskerfinu. Ég skráði mig í sjúkraliðanám í þeim tilgangi að sjá hvernig væri að vinna í heilbrigðiskerfinu. Ég byrjaði að vinna á hjúkrunarheimili á sautjánda ári og var ráðinn á undanþágu vegna ungs aldurs, réð mig svo í eldhús Sjúkrahúss Reykjavíkur til að komast inn í spítalalífið. Svo kom að því að ég þurfti að klára verknám á sjúkrahúsi til að fá leyfi sem sjúkraliði. Ég sótti um á Landspítalanum en það var erfitt fyrir mig að komast að, bæði þótti ég ungur og svo stóð í einhverjum að ég væri karlmaður. Anna Stefánsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, fann fyrir mig pláss á allt öðru sviði en ég hafði sótt um á. Brynja Ingadóttir, þáverandi deildarstjóri á hjarta- og lungnaskurðdeildinni, var tilbúin að gefa mér tækifæri sem var ein mín mesta lukka í lífinu. Ég vann þar í fjögur ár. Fyrst sem sjúkraliðanemi, svo sem sjúkraliði og loks sem hjúkrunarnemi. Þar kynnist ég frábæru starfsfólki með mikinn metnað fyrir að gera hlutina vel og í þágu sjúklinga. Á öðru ári í hjúkrunarfræði fór ég að vinna á bráðamóttökunni við Hringbraut. Sjúkraliðarnir á báðum þessum einingum höfðu

mjög mótandi áhrif á mig, þeir kenndu mér að vinna, sjá vel um sjúklingana og hafa metnað fyrir því sem ég tek mér fyrir hendur. Eftir sjúkraliðanámið heillast ég af heimi hjúkrunar og ákvað að verða hjúkrunarfræðingur.

Eftir útskrift úr hjúkrunarfræði fór ég að vinna á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Mývatni og á Raufarhöfn. Það var mikil skóli fyrir nýútskrifaðan hjúkrunarfræðing að fara út á land, baklandið var lítið og maður var oft og tíðum einn. Eftir það fór ég að vinna á gjörgæslunni í Fossvogi og þaðan fór ég svo á bráðamóttökuna í Fossvogi. Ég var svolítið að flakka á milli þessara tveggja eininga til að byrja með og ég prófaði líka að vinna hjá lyfjafyrirtæki en það átti ekki við mig. Í kjölfarið var mér boðið að koma að vinna á heilsugæslunni á Kópaskeri og flutti ég þangað með alla fjölskylduna. Ég bjó á Kópaskeri í eitt og hálft ár og stefndi á að fara í nám í svæfingahjúkrun í Bandaríkjunum. Ég var kominn inn í skóla en á sama tíma kom efnahagshrunið og námið margfaldast í verði. Ég hætti því við að fara út og fór aftur til starfa á gjörgæsludeildinni í Fossvogi.“

Örlagaríkt símtal

Ólafur fékk svo örlagaríkt símtal frá Erlínu Óskarsdóttur, deildarstjóra á skurðstofum Landspítala við Hringbraut: „Hún bauð mér að koma í nám í skurðhjúkrun. Ég hafði sýnt náminu áhuga þegar ég var í grunnnáminu og svaraði; „já, af hverju ekki“. Eftir námið starfaði ég aðeins við skurðhjúkrun, þetta var í kringum 2010-2013 en um það leyti var mikil ólga meðal hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum. Það var var búið að draga mikið saman á stofnuninni og fólk vildi breytingar. Ég var allt í einu kominn í hringiðuna í því öllu saman þegar óskað var eftir framboði til formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ég var hvattur til þess að bjóða mig fram. Ég lét slag standa, bauð mig fram og sigraði óvænt kosninguna og var formaður Fíh í tæp fjögur ár. Þá sótti ég um stöðu deildarstjóra skurðstofu í Fossvogi sem ég fékk og starfaði þar í fimm ár. Ég var þá beðinn um að leysa af sem forstöðumaður skurðstofa og gjörgæsla sem var í skipuriti Landspítala á þeim tíma og sló til. Starfið var síðan auglýst og ég fékk stöðuna.

„Mikilvægur hluti starfsins er að horfa til framtíðar, marka stefnu hjúkrunar. Hvert ætlum við að fara og hvernig ætlum við að komast þangað? Hvernig ætlum við að tryggja að við séum að vinna eftir gagnreyndri þekkingu og hvernig getum við tryggt gæði hjúkrunar á sama tíma og okkur vantar starfsfólk?“

Landspítalinn fór svo í skipulagsbreytingar og forstöðumannastarfið var lagt niður. Ég sótti þá um stöðu framkvæmdastjóra hjúkrunar og hér er ég í dag,“ segir hann hress í bragði.

Vinnur eina helgi í mánuði á skurðstofum til að halda sér við Samhliða þessu öllu sem Ólafur hefur nefnt þá tók hann meistarapróf í hjúkrunarstjórnun með áherslu á mannauðsmál og rekstur. „Þannig að það má segja að þetta hafi ekki beinlínís verið leiðin sem ég ætlaði mér að fara, ég hafði hugsað mér að vera í klínískum störfum og til að byrja með átti bráðahjúkrun hug minn allan. Ég elska þó að starfa í klíník enn í dag og vinn fast á skurðstofum Landspítala eina helgi í mánuði til að halda mér við og tek líka stundum vaktir á öðrum einingum.“

Hvernig er að vera framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala og hverjar eru helstu áskoranir í því starfi? „Það er rosalega skemmtilegt starf og engir tveir dagar eins. Verkefnin eru oft krefjandi og flókin og það eru ákveðnar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í dag, bæði vegna skorts á mannafla í hjúkrun og aukins fjölda sjúklinga. Það eru forréttindi að vera í starfi framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala og fá að kynnast fjölbreytileikanum í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum. Þó að ég sé með mjög víðtaka reynslu þá er ég að setja mig inn í mörg sérsvið hjúkrunar sem ég hef takmarkaða þekkingu á, eins og ljósmóðurfræði, svo eitthvað sé tiltekið. Starfsemin er yfirgripsmikil og fjölbreytt og maður þarf að hafa skilning á henni og því flækjustigi sem fylgir að reka stóra stofnun. Sem betur fer búum við að öflugum hópi hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra, sjúkraliða og sérfræðinga í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum sem tryggir að við höfum gagnreynda þekkingu að leiðarljósi við okkar störf. Mikilvægur hluti starfsins er að horfa til framtíðar og marka stefnu hjúkrunar. Hvert ætlum við að fara og hvernig ætlum við að komast þangað? Hvernig ætlum við að tryggja að við séum að vinna eftir gagnreyndri þekkingu og hvernig getum við tryggt gæði hjúkrunar á sama tíma og okkur vantar starfsfólk?“

Starfið á að vera krefjandi

„Það er krefjandi að vera framkvæmdastjóri hjúkrunar og það á að vera það. Starfið er viðamikið og maður þarf að læra að búta það í sundur. Ég er búinn að vera framkvæmdastjóri í eitt og hálft ár og ég er rétt svo núna á átta mig á öllum öngum þessa starfs. Sem betur fer er ég umvafinn frábærum leiðtogum í hjúkrun og saman reynum við að láta dæmið ganga upp. Þannig að svarið við spurningunni þinni er; skemmtilegt, krefjandi, gefandi og á tímum mjög erfitt. Er það ekki bara fullkomin blanda?“

Hvernig er þá hefðbundinn vinnudagur hjá þér? „Ég vakna flesta daga kl. 5:30 og þá förum við konan mín í ræktina eða út að hlaupa. Ég er mættur í vinnuna um kl. 7:30 og byrja yfirleitt á því að skoða tölvupóstinn minn og fara yfir dagskrá dagsins. Ég reyni að skipuleggja fundina mína þannig að ég sé í sama húsi yfir daginn en oft þarf ég að vera á hlaupum milli húsa. Starfið krefst mikillar fundasetu; í framkvæmdarstjórn, hjúkrunarstjórn, með stjórnendum eininga, ráðuneytinu, öðrum heilbrigðisstofnunum og verkefnahópum innanhúss. Við erum alltaf að reyna að bæta verkferla og gæði. Það sem er á forræði framkvæmdastjóra hjúkrunar og lækninga eru gæði og öryggi, menntun, mönnun og skipulag þjónustunnar. Flæði sjúkrahússins er hjá framkvæmdastjóra hjúkrunar og skipulag bráðaþjónustu hjá framkvæmdastjóra lækninga. Það þarf að hafa mikla yfirsýn til að

tryggja að þessir þættir gangi upp. Það fer líka mikill tími í að rýna flæðið. Það dylst engum að það er oft krefjandi. Ég reyni að hafa klukkutíma í lok dags til að fara yfir tölvupósta og skoða skipulag morgundagsins. Föstudagar eru yfirleitt fundarlausir eftir hádegi, þá get ég unnið við að taka mesta kúfinn eftir vikuna af og komið verkefnum í farveg,“ útskýrir hann og heldur áfram: „Þetta er stíf forgangsröðun og sem betur fer vinn ég með góðu fólki. Ég þarf ekki að vera ofan í hverju einasta verkefni þó að ég hafi yfirsýnina. Ég er með frábært starfsfólk á skrifstofu hjúkrunar sem allt rekur verkefni og gerir það sjálfstætt. Ég gæti ekki án þeirra verið. Þetta er teymisvinna sem krefst mjög mikils skipulags. Maður getur ekki gert allt í einu og þarf að setja sér ákveðin mörk. Ég á það til að vera svolítið óþolinmóður og vil að hlutirnir gangi hratt og örugglega fyrir sig; sjá árangurinn strax. Ég þarf að venjast því að sum verkefni taka mjög langan tíma að raungerast. Þú sigrar ekki heiminn á einum degi. Þetta er ákveðið ferli. Það eru áskoranir og maður verður einhvern veginn að klífa þær eins og önnur fjöll.“

Ólafur segist núllstilla sig þegar hann er með fjölskyldu og vinum og kúplar sig út þegar þess gerist þörf. „Það er ótrúleg núvitund fólgin í hlaupum og margar góðar hugmyndir fæðast þá. Ég reyni að skilja vinnuna eftir þegar ég fer heim, það gengur ekki alltaf en það er mikilvægt að kúpla sig út. Ég hef lent í því að ganga of nærri sjálfum mér og ég ætla ekki að fara þangað aftur. Maður þarf að læra að setja sjálfum sér mörk en mér fannst auðveldara að skilja að vinnu og einkalíf þegar ég var í klíník. Ég finn líka að þegar ég er í klínísku starfi þá endurnýjast orkan mín og ég sé hvað starfsemi spítalans skiptir miklu máli. Það er ágætt að hafa augun á því fyrir hverja við erum hérna og það er ekkert betra en bein samskipti við skjólstæðingana sem fá mann til að beina augunum í rétta átt.

Teymisvinna mun leysa áskoranir í heilbrigðiskerfinu

Ertu með einhver heillaráð til framtíðarhjúkrunarstjórnenda?

„Það sem hefur hjálpað mér í öllum þeim stjórnendastörfum sem ég hef verið í er að muna fyrir hverja er ég í þessu starfi. Við erum hér fyrir sjúklingana og við erum hér til að gera þjónustuna betri fyrir þá. Það er mjög auðvelt að tapa sér í einhverjum öðrum þáttum en það er sjúklingurinn sem skiptir máli. Hitt er að muna að þegar maður er að vinna með sjúklingum, aðstandendum og samstarfsfólki að það eru allir með eitthvað í bakpokanum. Við erum að vinna með manneskjum. Allir eru að reyna að gera sitt besta og þegar maður lendir í erfiðum samskiptum og atvikum þá erum við í grunninn öll manneskjur með tilfinningar og líðan. Það er mjög mikilvægt fyrir stjórnendur að þekkja sjálfa sig og að hafa þroska til bregðast ekki við þegar maður er illa stemmdur. Það eru aldrei allir sammála, maður tekur ákvarðanir út frá ákveðnum forsendum, gerir sitt besta og leitar ráða hjá þeim sem þekkja betur til málanna ef á þarf að halda. Við gerum öll mistök og eigum að læra af þeim, ekki velta okkur upp úr þeim. Stjórnendur verða að sýna sjálfum sér mildi, sömu mildi og þeir sýna starfsfólkinu sem þeir leiða. Stjórnendur verða að átta sig á að þeirra hlutverk er að reyna að skapa umhverfi fyrir starfsfólkið til að hæfileikar þeirra og þekking nái að blómstra. Það skapar öruggt umhverfi fyrir sjúklingana og starfsumhverfi sem fólk þrífst í. Síðast en ekki síst myndi ég ráðleggja framtíðarhjúkrunarstjórnendum að nýta sér allar þær frábæru starfsstéttir sem eru innan heilbrigðiskerfisins til að leysa áskoranir sem það er að takast á við. Teymisvinna er það sem mun leysa áskoranir núna og til framtíðar í heilbrigðiskerfinu. Samskipti eru stærsti þáttur starfsins og maður verður að vanda sig í samskiptum, bera virðingu fyrir skoðunum annarra, hlusta og þora að biðjast afsökunar ef manni verður á.“

Hvernig finnst þér hjúkrun hafa breyst á síðustu 20 árum? „Hraðinn var ekki svona mikill fyrir 20 árum, inniliggjandi sjúklingar voru ekki jafn veikir og þeir lágu lengur inni. Sjúklingar sem eru á legudeildunum okkar í dag hefðu margir hverjir verið á hágæslu fyrir 20 árum. Þjóðin er að eldast og samhliða því eru veikindin meiri. Tæknin hefur líka eflst mikið sem gerir það að verkum að sjúklingar lifa lengur með alvarleg veikindi. Fólk þarf meiri þjónustu, meiri hjúkrun. Það leggst enginn inn á spítala í dag sem ekki þarfnast hjúkrunar. Að mínu mati höfum við færst of langt frá grunnhjúkrun í hraðanum til að láta hlutina ganga upp. Við höfum verið að leggja áherslu á þessa grunnþætti síðustu ár með teymisvinnu hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og allra heilbrigðisstarfsmanna að leiðarljósi. Tæknin hjálpar okkur en á sama tíma hefur hún dregið okkur frá sjúklingnum. Við þurfum að hugsa hvernig við getum nýtt tæknina með sjúklingnum þannig að við séum ekki alltaf að hlaupa burt frá honum. Það hlýtur að vera okkar verkefni að hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og ljósmæður séu sem mest með sjúklingnum svo þeir fái þá hjúkrun sem þeir þurfa. Mér fannst ég hafa meiri tíma með sjúklingunum áður fyrr. Fyrir utan meiri hraða þá eru fleiri sjúklingar sem hjúkrunarfræðingar sinna. Það er verkefni sem þjóðir heimsins standa frammi fyrir að finna út hvernig þær ætla að takast á við þessa áskorun í sínum heilbrigðiskerfum. Hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum fer fækkandi eða þeim fjölgar að minnsta kosti ekki nógu hratt. Við þurfum að finna út hvernig getum við gert sjúkraliðastarfið þannig að sjúkraliðar vilji halda áfram að starfa. Við þurfum að finna út hvernig ætlum við að veita góða hjúkrun eins og við erum vön með þeim mannafla sem við höfum. Hvernig við getum nýtt hæfni hverrar og einnar

fagstéttar til fullnustu. Við eigum að nýta hæfnina á þann hátt að það sé þjónustunni og sjúklingnum fyrir bestu. Við sjáum það til dæmis í þróun hjúkrunar á Íslandi að við erum ekki komin jafn langt og þjóðir sem við berum okkur saman við í nýtingu á sérfræðingum í hjúkrun. Ég myndi vilja þróa starf sérfræðinga í hjúkrun og vil að sérfræðingar í hjúkrun á Íslandi starfi eins og nurse practitioners eða advanced nursing practicioner gera erlendis. Að við einbeitum okkur að því að þeir fái að starfa á þann hátt að hæfni þeirra, þekking og reynsla nýtist sjúklingnum sem best. Það er urmull rannsókna sem sýnir að heilbrigðisþjónusta veitt af þessum aðilum er örugg, hagkvæm og árangursrík. Auk þess að skoða hvað hjúkrunarfræðingar geta gert verðum við líka að sjá hvar aðrar heilbrigðisstéttir geta komið sterkar inn. Hvernig ætlum við að nýta mannaflann innan heilbrigðiskerfisins til að veita þá þjónustu sem við verðum að veita.“

Núna er verið að skoða breytingar á hjúkrunarnáminu, að hjúkrunarfræðingar útskrifist með meistaragráðu í hjúkrunarfræði eftir fimm ár. Heldur þú að það leiði til fleiri sérfræðinga í hjúkrun? „Það vantar fleiri sérfræðinga, ég veit ekki hvort breytingar á náminu leiði beint til fjölgunar sérfræðinga vegna þess að ef grunnnámið er meistarapróf þá hlýtur sérfræðingur að þurfa að vera með eitthvað meira ofan á það nám. Þá kannski ýtist sérfræðingsnámið lengra upp í doktorsnám. Það eru ekki nógu margar sérfræðingsstöður hjúkrunarfræðinga á stofnunum landsins. Ef allir eru komnir með meistarapróf þá þurfum við að tryggja að sérfræðingarnir séu með einhverja aukna hæfni fram yfir aðra hjúkrunarfræðinga. Það sem þú lærir í meistaranámi, fyrir utan að dýpka þekkingu þína í faginu, er aðferðarfræðin. Hvernig leita ég að nýrri þekkingu, hvernig nýti ég mér nýja þekkingu og hvernig rýni ég nýja þekkingu. Það sem tekur of langan tíma í dag er að koma nýrri þekkingu inn í klíníkina. Með aukinni þekkingu hjúkrunarfræðinga í aðferðafræðum og rannsóknum og hvernig á að nýta upplýsingar þá bætum við þjónustuna. Núna eru margar aðrar stéttir komnar með meistarapróf sem forsendu þess að fá starfsleyfi, til dæmis sjúkraþjálfarar og lyfjafræðingar. Til að vera samkeppnishæf þá þurfum við að horfa á það að ef fólk er ungt og er að leita sér að starfsvettvangi og sér að það getur orðið sjúkraþjálfarar eftir fimm ár með meistarapróf, en hjúkrunarfræðingar með meistarapróf eftir sex ár, þá muni einhverjir velja fag sem kemur þeim fyrr út á vinnumarkaðinn. Þetta hefur líka áhrif á launin. Ef þú er komin með meistaranám sem grunnkröfu þá er launaseðillinn þinn hærri en ef þú ert með B.Sc-gráðu sem grunnkröfu. Þannig að þetta er mál sem hefur bæði faglegar afleiðingar upp á gæði hjúkrunar en líka á kjara- og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga. Ég held að það sé gott fyrir okkur að fara í fimm ára nám en ég held að við þurfum að skoða það svolítið heildrænt hvaða áhrif það hefur á starfið og hvernig við þurfum þá að breyta öðrum þáttum.

Við verðum líka að horfa til annarra landa og hvað er verið að gera þar. Maður sér í auknu mæli nýja doktorsgráðu sem er klínísk, Doctor of Nursing Practice (DNP). Sú doktorsgráða snýr meira að hagnýtingu niðurstaða rannsókna og hvernig við komum þeim inn í klíníkina á öruggan hátt. Sumt sérnám innan hjúkrunar er á þann hátt að meistaranám hefur verið fellt niður og sérnámið komið í DNP. Við verðum að skoða hvort þetta sé kostur sem við ættum að skoða fyrir sérfræðinga í hjúkrun sérstaklega til að auka klíníska færni. Samhliða því þarf að tryggja að hjúkrunarfræðingar sæki sér hefðbundna doktorsgráðu (Ph.D.) til að tryggja vísindarannsóknir í hjúkrun, þróun þekkingar og kennslu í hjúkrun.”

Vélmenni og gervigreind mun ekki taka yfir störf hjúkrunarfræðinga

Mun gervigreindin taka yfir og hvernig getum við notað hana í hjúkrun? „Ég held að gervigreindin muni ekki taka yfir en hún mun hjálpa okkur mikið. Við sjáum það strax að hún getur auðveldað okkur hlutina. Í framtíðinni verður enn auðveldara að nálgast gagnreynda þekkingu í gegnum gervigreindina. Við getum líka nýtt okkur hana til að þjálfa nemendur í heilbrigðisgreinum og þróunin er hröð þar. Hjúkrunarfræðingar eru ein af 1% stéttum í heiminum sem talið er að muni ekki verða skipt út fyrir gervigreind og vélmenni. Vissulega munu vélmenni og gervigreind verða okkur til aðstoðar. Það má ekki gleyma því mannlega við starf hjúkrunarfræðingsins og kjarni hjúkrunar er umhyggja. Við erum að sinna fólki oft á erfiðustu tímum lífs þess og það þarf að huga að andlegri líðan og velferð sjúklinganna á þeim tíma. Umhyggjan er það sem skiptir einna mestu máli í erfiðum aðstæðum þegar einstaklingur er berskjaldaður og oft öðrum háður. Mér fannst það ekki hljóma spennandi þegar ég var í náminu og hafði kannski ekki alveg skilning á því hvað umhyggjan er mikilvæg í hjúkrun. Með auknum þroska og starfsreynslu og þeim áföllum sem maður hefur sjálfur lent í í lífinu sér maður hvað umhyggja hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða skiptir miklu máli. Það mun engin tölva eða gervigreind bera umhyggju fyrir þér. Mannlegi þátturinn skiptir svo miklu máli.“

Félagsmótun og staðalímyndir hafa áhrif á starfsval

Hvernig fjölgum við karlmönnum í hjúkrun? „Við erum að nálgast 4% í stéttinni og þar koma erlendir karlkyns hjúkrunarfræðingar sterkt inn. Við sjáum líka að það eru fleiri íslenskir strákar að læra hjúkrun en áður. Við heyrum oft: „Af hverju er mikilvægt að fá karlmenn í hjúkrun og af hverju þurfum við að leggja áherslu á það? Í fyrsta lagi þá eiga öll kyn að fara í hjúkrun. Hjúkrunarfræðingar eiga að endurspegla þýði þjóðarinnar. Við viljum sjá konur, karla og kvár í hjúkrun. Það skiptir máli að fjölbreytileikinn og dýnamíkin sé ekki einsleit. Að auki má ekki gleyma að karlmenn eru um það bil 50% af vinnuafli þjóðarinnar. Ef það er þannig að um helmingur starfsflota hjúkrunarfræðinga telur hjúkrun ekki vænlegan kost sem starfsvettvang munum við aldrei ná árangri að manna betur í þessar stöður. Hjúkrunarfræði þarf að vera fyrir alla. Það var gerð rannsókn í Bandaríkjunum á karlmönnum. Þar voru teknar starfslýsingar og hvað felst í hverju starfi án titils og viðmiðunarhópurinn fékk starfslýsingu með titli. Þar sem enginn starfstitill var gefinn voru margir karlmenn sem völdu hjúkrun en þar sem var titill þá var minnihluti þeirra sem valdi hjúkrun. Það sýnir okkur hvað félagsmótun og staðalímynd hefur mikið að segja þegar fólk er að velja sér starfsframa. Þar koma fyrirmyndirnar inn. Það skiptir miklu máli að flagga fjölbreytileikanum innan stéttarinnar til auka í raun fjölbreytileikann innan hennar. Þess vegna er líka mikilvægt að leggja áherslu á karlmenn og í raun alla menn. Ég hefði örugglega ekki hugleitt hjúkrun ef ég hefði ekki séð umrædda mynd af karlkyns hjúkrunarfræðingi í bókinni um störf á Íslandi forðum daga,“ segir hann.

Hvernig getum við fjölgað hjúkrunarfræðingum almennt? „Hérna skiptir máli hvernig við hjúkrunarfræðingar tölum um hjúkrun. Það er eitt að fara inn í skóla og segja hvað hjúkrun sé skemmtileg og fjölbreytt. En svo heyra nemendur allt aðra orðræðu í samfélaginu og hér er ég ekkert barnanna bestur. Sonur minn er tvítugur og hann er nýbúinn að velja sér háskólanám. Hann var svolítið óviss hvað hann ætlaði að læra og ég hvatti hann til að fara í hjúkrun

og þarna er ekki skortur á fyrirmynd. Hann horfði á mig eins og ég væri að leggja eitthvað fáránlegt fram og sagði: „Þið talið svo illa um starfið ykkar, talið um álagið, launin og vinnutímann. Þú hefur alltaf unnið svo mikið, það er alltaf verið að hringja í þig. Og svo koma vinir þínir sem eru í hjúkrun og þið talið um hvað allt er erfitt. Ég vil ekki vinna við þetta.“

„Þetta var raunveruleikatékk fyrir mig. Því ég tala yfirleitt frekar jákvætt um hjúkrun en svo dettum við í þessa orðræðu. Við verðum að tala jákvætt um starfið okkar því það er svo margt jákvætt við það. Þetta er skemmtileg vinna. Það eru fáir hjúkrunarfræðingar sem ég hef heyrt segja að það sé leiðinlegt að vinna við hjúkrun. Þetta er eitt fjölbreyttasta starf sem hægt er að velja sér. Það er alltaf gaman í vinnunni og heilbrigðisstarfsfólk er upp til hópa afar skemmtilegt fólk þótt ég segi sjálfur frá. Vissulega eru krefjandi og erfiðir tímar líka en þeir fölna í samanburði við þá góðu. Við verðum að að tala meira um það jákvæða, tala starfið upp fyrir unga fólkinu og sýna fram á alla kostina. Það munu fáir vilja fara í fag þar sem neikvæðnin er ráðandi. Hér er líka verðugt að nefna nemana okkar sem koma í verknám á heilbrigðisstofnanir. Það verður að taka vel á móti þeim og passa að níða ekki skóinn af okkur sjálfum með því að tala starfið niður. Við viljum fá þessa frábæru, kraftmiklu einstaklinga til starfa innan fagsins.“

Spennandi tilraunaverkefni að fara af stað Þá að öðru, áhrif breytts samfélags á heilbrigðiskerfið hér á landi. „Já, samfélagið er breytt. Í staðinn fyrir að vera með einsleitt samfélag erum við fjölmenningasamfélag með alls konar trú, siðum, venjum og hefðum. Við þurfum að aðlaga okkur að því. Við eigum að veita þjónustu sem er inngildandi og menningarnæm. Fjölgun Íslendinga er meiri en nokkurn óraði fyrir og innviðir, hvort sem það er heilbrigðiskerfið, gatnakerfið eða menntakerfið hefur ekki náð að halda í við þróunina. Sem betur fer erum við að byggja nýjan spítala til að bæta aðstöðuna en í rauninni hefur sjúkrarúmum á heilbrigðisstofnunum fækkað undanfarin ár á meðan landsmönnum fjölgar og fjöldi erlendra ferðamanna er í hæstu hæðum. Við þurfum að breytast í takt við auknar kröfur og breytt samfélag og skipuleggja þjónustuna öðruvísi með tækni, nýsköpun og þekkingu að leiðarljósi. Dæmi um slíkt er að nú er margt sem fer fram á dag- eða göngudeildum sem áður kallaði á innlögn. Þetta kallar allt á breytta ferla, þjálfun starfsfólks og innleiðingu nýrra hugsunar í störfin okkar. Innan hjúkrunar mun þetta þróast yfir í að við þurfum að veita þjónustuna í auknu mæli á heimili sjúklinganna og með fjarheilbrigðisþjónustu. Við erum einmitt að fara af stað með tilraunaverkefni sem kallast sjúkrahús á heimavelli, eða hospital@home, þar sem hjúkrunarfræðingar fara heim til fólks í stað þess að hafa það á sjúkrahúsi. Það er afar spennandi verkefni,“ segir hann brosandi.

Að lokum hver er drifkrafturinn þinn í lífi og starfi? „Drifkrafturinn minn er að bæta þjónustuna og hjúkrunina fyrir sjúklingana. Að við séum að veita hágæða þjónustu, eins góða og við getum. Við séum að þróa hjúkrunar- og ljósmóðurfræðina áfram í takt við það nýjasta sem gerist og nýta það í þágu sjúklinga. Grunnurinn er svo sem alltaf sá sami en breytingarnar eru hraðar og miklar og við þurfum að geta aðlagað okkur að því til að bæta þjónustuna og tryggja öryggi sjúklinganna. Í einkalífinu er það að vera að vera betri maður í dag en ég var í gær. Það er eilífðarvegferð sem við ættum öll að vera að feta.“

Verður þú næsti formaður?

Kjörnefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

auglýsir eftir framboðum til formanns félagsins.

Framboðsfrestur er til og með 31. janúar 2025.

Í febrúarmánuði mun Fíh standa fyrir kynningum á frambjóðendum. Ef um er að ræða eitt framboð telst viðkomandi frambjóðandi sjálfkjörinn. Ef um er að ræða fleiri framboð verður formaður kjörinn í allsherjaratkvæðagreiðslu sem hefst föstudaginn 28. febrúar og lýkur þriðjudaginn 4. mars.

Kjörtímabil formanns er fjögur ár og má hann að hámarki sitja tvö kjörtímabil. Starf formanns Fíh er fullt starf og ber formaður ábyrgð á rekstri félagsins og stjórn. Formaður er talsmaður félagsins á öllum stigum stjórnsýslunnar og í málefnum sem varða hjúkrunarfræðinga og heilbrigðisþjónustuna í landinu. Hann stendur vörð um sjálfstæði, réttindi, stefnu og kjör hjúkrunarfræðinga ásamt því að efla þróun hjúkrunar, þekkingu og hæfni þeirra.

Félagsfólk með fulla aðild að Fíh getur boðið sig fram í embætti formanns en fulla aðild hefur hjúkrunarfræðingur sem greiðir félagsgjöld til Fíh samkvæmt 2. kafla, 3. gr. 3. mgr. laga Fíh. Formannskjör fer fram samkvæmt 10. gr. laga Fíh.

Þeir hjúkrunarfræðingar sem hafa hug á að bjóða sig fram til formanns félagsins þurfa að skila til kjörnefndar skriflegu framboði ásamt 29 meðmælum, eða 0,6% félagsfólks, Fíh á netfangið kjornefnd@hjukrun.is.

Hjúkrunarfræðingar sem eru skráðir í Fíh hafa atkvæðisrétt í formannskosningum. Atkvæðagreiðslan verður rafræn og kjörseðill aðgengilegur í gegnum Mínar síður.

Ef einn frambjóðandi nær ekki meira en 50% atkvæða þá verður farið í aðra umferð kosninga milli þeirra tveggja sem hljóta flest atkvæði. Niðurstöður munu liggja fyrir í síðasta lagi 19. mars.

Nýr formaður tekur svo formlega við á aðalfundi Fíh fimmtudaginn 15. maí.

Meðmælaskrá og fleiri upplýsingar má nálgast á hjukrun.is

Vaktin mín

Föstudagsvakt á göngudeild húð- og kynsjúkdóma

Viðtal og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Göngudeild húð- og kynsjúkdóma, eða deild A1, er staðsett í Fossvoginum, nánar tiltekið baka til í húsnæði sem upphaflega var reist sem smíðaverkstæði fyrir iðnaðarmenn spítalans. Það var fyrir 30 árum, í dag eru smiðirnir horfnir á braut og hjúkrunarfræðingar hafa tekið yfir stóran hluta af gamla smíðaverkstæðinu. Hjúkrunarfræðingar, standa vaktina á göngudeild A1 auk lækna, sjúkraliða og ritara.

Ritstýran kíkti í heimsókn og fékk að heyra hvernig vakt á húð og kyn gengur fyrir sig. Jenný Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur er allt í öllu á kyninu, eins og hún orðar það sjálf og hún var til í stutt spjall um deildina.

„Ég er í 50% starfi, er alla daga frá klukkan 8:00 til 12:30 og er eini fasti starfsmaðurinn hérna á kynsjúkdómadeildinni en ég fæ mikla aðstoð frá hjúkrunarfræðingum á húðsjúkdómadeild, ritara og sérhæfðum starfsmanni til þess að allt gangi sem best upp. Við sem störfum á A1 byrjum alla daga á stuttum morgunfundi sem hefst á slaginu klukkan 8:05. Við erum yfirleitt um átta til níu starfsmenn í húsi og notum morgunfundina til að renna yfir skipulag dagsins.

Eftir morgunfundinn fer ég í tölvuna en þar fer stór hluti minnar vinnu fram. Greining kynsjúkdóma hefur á síðustu tveimur árum tekið miklum breytingum. Hér áður mættu allir á deildina í viðtal og sýnatöku og komu svo aftur nokkrum dögum seinna til að fá meðferð ef þeir greindust með kynsjúkdóm og þá fór smitrakning fram. Það voru oft langir biðlistar og þjónustan gekk mun hægar fyrir sig en hún gerir í dag. Það hafði verið draumur okkar í mörg ár að veita betri og hraðari þjónustu og stytta biðlistann. Mikil áhersla hefur alltaf verið lögð á að fólk með greindan kynsjúkdóm og þeir sem eru með einkenni þurfi ekki að bíða lengi eftir þjónustu.

Gamla verklagið sem var maður á mann er nánast liðin tíð og Landspítalaappið og snjallboxin hafa má segja tekið við þegar fólk kemur í kynsjúkdómatékk. Skjólstæðingar fara þá inn á Landspítalaappið

Jenný Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur á kynsjúkdómadeild.

bóka þar tíma og svara spurningalista sem er greiningartæki fyrir okkur. Við förum yfir svörin og metum þannig þörf viðkomandi fyrir þjónustu en þess má geta að daglega bætast um 3050 skjólstæðingar við sem óska eftir þjónustu. Stundum pantar skjólstæðingur bara klamydíupróf en ef svör hans við spurningalistanum eru þess eðlis að við teljum þörf á að taka líka blóðprufu eða strok bætum við því við. Það er þó alltaf val hvers og eins skjólstæðings hvort hann þiggur blóðprufu eða ekki.

Til þess að þetta kerfi virki er gríðarlega mikil vinna sem er unnin á bak við tjöldin af samhentum hópi starfsfólks sem vinnur saman í teymi en tímabókanir, niðurstöður og meðferð er allt orðið rafrænt. Ritari, sjúkraliði og hjúkrunarfræðingar vinna eins og kostur er í því að fara yfir spurningalistana en það er forsenda þess að hægt sé að setja í snjallboxin og skjólstæðingarnir fái tíma. Ritarar sjá um að merkja öll sýniglös samkvæmt svörum á spurningalista viðkomandi, setja þau í bréfpoka og síðan í snjallbox. Þegar snjallboxinu er lokað sendir kerfið strikamerki til viðkomandi skjólstæðings um að hann eigi bókaðan tíma sem er opinn í einn sólarhring.

Hér á deildinni er því ys og þys allan daginn, fólk kemur og sækir bréfpokann sinn í snjallboxið, fer svo inn á salerni og tekur sjálft sýnin, gengur frá þeim í ákveðinn skáp sem er inni á salernunum hérna og hverfur svo á braut. Það hefur sýnt sig að fólki finnst gott að koma á kynsjúkdómadeild þar sem það er sem minnst sýnilegt og teljum við það takast nokkuð vel með þessu móti. Síðan þarf að ganga frá sýnunum sem eru send í rannsókn, niðurstöðurnar fara svo inn í Landspítalappið þar sem skjólstæðingar okkar nálgast sínar niðurstöður.

Mikil vinna fer í smitrakningu

Eftir morgunfund fer ég í gegnum tölvupósta sem berast kynsjúkdómadeildinni sérstaklega en þetta eru póstar frá einstaklingum sem hafa greinst með klamydíu og eru að senda rakningablaðið sitt inn. Þeir einstaklingar sem greinast með klamydíu gefa upp þá sem þeir hafa stundað kynlíf með sl. sex mánuði. Þegar ég hef fengið þessar upplýsingar þá kem ég skjólstæðingnum í ákveðið ferli til læknis sem sér um meðferð og fræðslu. Það er lagaleg skilda þess heilbrigðisstarfsmanns sem greinir og meðhöndlar skjólstæðing með kynsjúkdóm að framkvæma smitrakningu eða koma henni til annars aðila. Það getur verið mikil vinna að finna þá aðila sem eru gefnir upp á rakningablaðinu þar sem upplýsingar eru oft takmarkaðar. Ég sendi skilaboð í Heilsuveru til þessara skjólstæðinga um að þeir hafi komið upp í rakningu og þeim boðið að bóka tíma í tékk í appinu eða að hringja ef spurningar vakna varðandi smitrakninguna. Stundum þarf ég að hringja í þá sem senda rakningarblaðið inn il að fá betri upplýsingar. Yfirleitt gengur að finna alla þessa aðila en það getur tekið tíma.

Meðferð er ekki gefin, nema í undantekningartilfellum, fyrr en við fáum þessi rakningarblöð útfyllt. Lyf og þjónusta á kynsjúkdómadeild eru skjólstæðingnum að kostnaðarlausu sem er liður í því að draga úr útbreiðslu á kynsjúkdómum og alvarlegum afleiðingum þeirra. Rakningarblöðum er svo fargað um leið og unnið hefur verið með þau. Því næst kíki ég á tilvísanahólf deildarinnar en þar eru komnar beiðnir frá nokkrum heilsugæslum, kvensjúkdómalæknum á stofum og frá kvennadeild Landspítalans. Við bjóðum fram þessa þjónustu í von um að þessu sé vel sinnt. Með sumum beiðnum er eingöngu óskað eftir rakningu en öðrum beiðnum er óskað eftir að við sjáum um meðferð og rakningu.

Símatími og sárasótt Það er góður dagur í dag, föstudagur og þá er alltaf veisla því við skiptumst á að koma með kræsingar í föstudagskaffitímann, það er alltaf súrdeigsbrauð og salöt og í dag er líka boðið upp á marensköku og franska súkkulaðiköku. Ég skottast í kaffi en þar hittumst við öll og eigum saman góða stund.

Nú er klukkan orðin tíu, kaffitíminn búinn og vinnan tekur aftur við, það er svo endurnærandi að standa aðeins upp frá vinnunni og fylla á andlegu og líkamlegu orkutankana. Núna er símatími og ég byrja á að hringja í einstaklinga sem hafa óskað eftir símtali við hjúkrunarfræðing á spurningalistanum. Þessi símtöl geta verið alls konar, oft þörf fyrir andlegan stuðning en það er líka mikið spurt um sveppasýkingar, einkenni kynsjúkdóma og smitleiðir. Við vísum fólki rétta leið innan í kerfisins og hvert það geti leitað ef það á ekki að vera hjá okkur. Ég hringi átta símtöl þennan daginn. Þá er hringt frá rannsókn, þeir eru með nýtt sárasóttartilfelli, ég tek við upplýsingum frá þeim og ræði við vakthafandi lækni á deildinni, hringi svo í viðkomandi skjólstæðing og gef honum tíma til að koma og fá meðferð. Hann kemur eftir hádegi í dag

og bið ég hann um að koma með rakningarblaðið vel útfyllt með sér. Hjúkrunarfræðingarnir á húðdeildinni munu sjá um að gefa honum meðferð í dag þar sem ég verð farin heim.

Hjúkrunarfræðingur á húðsjúkdómaeiningunni hringir svo og biður mig að koma yfir og meta með sér fótasár og setja upp meðferð. Ég geri það með mikilli ánægju en ég hef unnið yfir 20 ár í meðferð sára. Því næst fer ég yfir vinnuhólfin okkar en ritari setur inn jákvæðar niðurstöður í þau, þetta eru hólf fyrir jákvæða klamydíu, lekanda og sárasótt. Auk þess eru rakningarhólf fyrir áðurnefnda sjúkdóma. Það hafa komið tvö ný lekandatilfelli í hólfið, ég hringi í fólkið og gef því tíma í meðferð og minni viðkomandi á að koma með rakningarblaðið með sér vel útfyllt. Tæknin einfaldar störf og sparar tíma Þeir einstaklingar sem eru ekki með íslenska kennitölu, rafræn skilríki og eru með erlend símanúmer geta ekki notað þetta nýja kerfi sem við erum að vinna með svo þeir eru bókaðir í viðtal hjá mér. Í dag eru fimm einstaklingar bókaðir. Við komu á deild fá þeir spurningalistann í spjaldtölvu sem þeir svara áður en ég kalla þá inn. Þessi viðtöl taka gjarnan langan tíma og þessir einstaklingar fá svo tíma aftur eftir viku til að sækja rannsóknarniðurstöður sínar útprentaðar. Gervigreindin kemur að góðu gagni þegar ég þarf að ná til skjólstæðinga með framandi tungumál en sá hópur hefur stækkað undanfarin ár. Tæknin kemur því að góðum notum, einfaldar störf okkar og sparar tíma sem er frábært.

Nú er klukkan að verða 12.30, ég klára að gera pantanir á veirupinnum og sýnaglösum auk þess sem ég fer yfir lyfjabirgðir okkar fyrir næstu viku. Mér finnst gott að hafa hreint borð þegar ég fer heim í lok vinnudags og því reyni ég að klára sem flest verkefni. Það er oft mikil keyrsla og flesta daga er mjög mikið að gera og dagarnir líða hratt hjá okkur teyminu á A1. Okkur vantar hjúkrunarfræðing í alla vega eitt stöðugildi en það virðist fæla frá að þetta er bara dagvinna og launin eftir því. En þá er þessi vinnudagur liðinn og ég held út í sólina sæl með að hafa náð að klára verkefnalista dagsins og spennandi helgi fram undan.

Jenný Guðmundsdóttir og Inga Óskarsdóttir.

Marianne Elisabeth Klinke taugahjúkrunarfræðingur

Stærsta ævintýrið að verða ástfangin á Grænlandi

Viðtal: Sölvi Sveinsson | Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Marianne Elisabeth Klinke segir taugahjúkrun vera eina af blómstrandi sérgreinum hjúkrunar.

Marianne Elisabeth Klinke er mörgum kunn en hún er ein af fremstu taugahjúkrunarfræðingum landsins. Hún á að baki áhugaverðan feril í faginu, hefur hjúkrað á Grænlandi, Íslandi og í Danmörku. Hún hefur sérhæft sig í taugahjúkrun og lauk meistara- og doktorsprófi frá Háskóla Íslands og sinnir nú bæði akademískum störfum við HÍ auk þess að starfa á Landspítala. Marianne er dönsk en fæddist á Grænlandi og ársgömul flutti hún til heimalandsins þar sem hún ólst upp við gott atlæti með eldri bróður sínum. Að loknu námi í hjúkrun leitaði hugur hennar aftur til landsins þar sem hún fæddist og allt í einu var hún flutt þangað um miðjan vetur. Við hjá Tímariti íslenskra hjúkrunarfræðinga hittum Marianne á dögunum og fengum að heyra brot af áhugaverðri sögu hennar.

Fann sig strax í faginu

Marianne sá ekki fyrir sér að verða hjúkrunarfræðingur: „Það var fyrir slysni að ég fór í hjúkrunarfræði. Ég ætlaði að verða læknir eða listmálari en komst ekki inn í læknisfræði í Kaupmannahöfn og langaði ekki að sækja um í háskólum fyrir utan höfuðborgina. Þá ákvað ég að taka eitt ár í hjúkrun sem reyndist hárrétt ákvörðun. Ég fann mig strax í faginu og hef verið ánægð með starfið sem býður upp á ótal möguleika. Það er svo gaman að vera hjúkrunarfræðingur og vinna í teymi og ég upplifi að maður hafi mikið vægi í teymisvinnunni. Sérstaklega á Íslandi, það er lítil stéttaskipting hér samanborið við víða annars staðar. Í náminu og fyrst eftir útskrift fannst mér allt spennandi nema taugahjúkrun sem endaði svo á að vera mín sérgrein,“ segir Marianne og hlær.

Fæddist á Grænlandi og fór aftur þangað til að vinna mörgum árum seinna

Grænland hefur verið örlagaríkur staður í lífi Marianne. „Ég fæddist í Sisimiut á Grænlandi, árið 1973 og bjó þar fyrsta árið. Foreldar mínir voru ævintýragjarnir og höfðu búið þar í nokkurn tíma þegar ég kom í heiminn. Faðir minn sinnti ýmsum störfum og mamma hugsaði um okkur systkinin en ég á einn eldri bróður. Ég man ekkert frá árunum á Grænlandi en við kvöldverðarborðið heima var gjarnan talað um tímann þar. Þegar ég kláraði hjúkrunarnámið fékk ég löngun til að fara til Grænlands og sjá hvar ég fæddist en ég vildi vita hvort það væri jafn dásamlegt þar og fjölskyldan hafði lýst.“

Stuttu eftir útskrift úr hjúkrunarfræði var Marianne að fletta dönsku hjúkrunartímariti og kom auga á atvinnuauglýsingu frá Grænlandi. „Af forvitni ákvað ég að hringja og spyrjast fyrir um starfið. Boltinn fór að rúlla og átta dögum seinna var ég lögð af stað til Grænlands.

Það var alls ekki planið hjá mér, ég ætlaði að vinna á innkirtladeild í Næstved. Ég útskrifaðist í nóvember 1996 og í desember var ég mætt til að vinna á barna- og lyflækningadeild á Dronning Ingrids Hospital í Nuuk. Ég man svo vel hvað það var ískalt þarna en þetta reyndist vera mikil lífsreynsla og algjör eldskírn. Ég var ráðin til sex mánaða og að þeim tíma liðnum var augljóst fyrir mér að mig vantaði reynslu í bráðahjúkrun. Ég ákvað því að sækja um starf á gjörgæsludeild í Kaupmannahöfn en var samt ákveðin í að fara aftur til Grænlands síðar.“

Á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn vantaði einungis hjúkrunarfræðing á taugagjörgæsluna en taugahjúkrun var alls ekki efst á lista hjá Marianne en hún sótti samt um starfið. „Það voru margir umsækjendur en ég hafði heppnina með mér og fékk starfið. Við tók þriggja mánaða metnaðarfullt aðlögunarferli. Ég datt strax inn í taugahugsunina því kennslan og aðlögunin var einstaklega góð. Sem hjúkrunarfræðingar fengum við talsverða ábyrgð, það var tekið mark á okkur og ég kynntist í fyrsta skiptið alvöruteymisvinnu. Ég gjörsamlega heillaðist af sérsviðinu,“ segir hún.

Eftir skemmtilegan tíma í Danmörku leitaði hugur Marianne aftur til Grænlands. Hún stóð við fyrri áætlanir um að snúa aftur til landsins og nú reynslunni ríkari. „Eftir um eitt og hálft ár í starfi á taugagjörgæslunni réði ég mig aftur til starfa á Grænlandi. Á sjúkrahúsinu í Nuuk var kominn talsvert betri tækjabúnaður og mun meiri fókus á taugahjúkrun. Þar fór ég að vinna í óformlegu taugateymi,“ segir Marianne.

Sjúkraflug hluti af starfinu á Grænlandi Marianne flutti allar eigur sínar til Grænlands og fékk tveggja ára fastráðningu en fastráðnir starfsmenn fengu fjölbreytt tækifæri á spítalanum og hluti af starfinu var að sinna sjúkraflugi. „Ég hafði séð sjónvarpsþætti um hjúkrunarfræðinga sem unnu við sjúkraflug í Ástralíu og fannst það heillandi.“ Í raunveruleikanum var sjúkraflug ekki sveipað sama dýrðarljóma og hún hafði ímyndað sér. „Starfinu fylgdi mikil ábyrgð og ýmislegt gat komið upp á. Við þurftum stundum að taka mjög erfiðar ákvarðanir og vinna í þröngu umhverfi. Þetta var þó mjög spennandi og ég bjó að góðri reynslu frá gjörgæslunni. Besti grunnurinn var þjálfunin í taugamati sem er í raun stór hluti af starfi mínu enn í dag. Það var ýmislegt sem kom upp á á Grænlandi og það er mér til að mynda minnisstætt þegar íbúðablokk brann og súrefni var af skornum skammti svo við urðum að deila því á milli sjúklinga.“

„Nú

er að byrja ný lyfjameðferð hér á Landspítala fyrir parkinsonssjúklinga.“

Grænland er örlagastaður í lífi Marianne. Ekki nóg með að hún sé fædd þar heldur kynntist hún líka manninum sínum þar sem er ástæða þess að hún flutti til Íslands fyrir næstum 25 árum. „Stærsta ævintýrið sem ég lenti í á Grænlandi var að kynnast manninum mínum. Í fyrra skiptið sem ég dvaldi á Grænlandi eignaðist ég mjög góða íslenska vinkonu, Halldóru Grétarsdóttur hjúkrunarfræðing, sem bjó þar ásamt fjölskyldu sinni. Ég kynntist íslenskum manni sem vann hjá eiginmanni Halldóru. Við hittumst nokkrum sinnum fyrir tilviljun og svo allt í einu uppgötvaði ég hvað hann var sætur,“ segir hún brosandi. Tíminn á Grænlandi var dýrmætur segir hún, bæði persónulega og faglega en eftir tæplega tveggja ára búsetu þar fann hún að þessu tímabili í lífi sínu væri lokið enda voru hagir hennar breyttir. „Það var frábært að vera á Grænlandi en þetta var ekki mitt heimili. Landið er fallegt en tungumálið erfitt.

Það tók mig marga mánuði að bjóða fólki að fara á klósettið –sem var næstum því það eina sem ég lærði í tungumálinu.“

Fyrsta árið á Íslandi erfitt

Marianne fór aftur til Danmerkur að vinna á taugagjörgæslu og íslenski vinurinn fór til Íslands. Við tók næstum ár í fjarástarsambandi áður en Marianne ákvað að flytja til Íslands. „Upphaflega stóð til að prófa að búa hér í hálft ár en ég hef búið á landinu síðan sumarið 2000. Hér eignaðist ég börnin mín en við eigum fjögur börn og tvö barnabörn. Þrjú elstu börnin eru búsett í Danmörku en sá yngsti er enn í foreldrahúsum,“ segir Marianne sem er stolt af fólkinu sínu og elskar ömmuhlutverkið. Á Íslandi tók við annað erfitt tungumál. „Ég var búin að tryggja mér vinnu á taugalækningadeildinni áður en ég kom til landsins og er enn í

dag nátengd deildinni. Það var erfitt til að byrja með enda talaði ég enga íslensku.“ Þegar Marianne er spurð hvernig hafi gengið að fóta sig í starfi er hún fljót til svars: „Ekki vel, fyrsta árið var svakalega erfitt. Það veldur óöruggi þegar maður hefur ekki vald á tungumálinu. Sérstaklega í hjúkrun þar sem stór hluti af starfinu byggir á samskiptum.“

Marianne lýsir því hvernig tungumálið hafi valdið margvíslegum misskilningi. „Ég hélt að ég væri að ná tökum á málinu en svo áttaði ég mig á að ég var langt frá því. Fallbeygingarnar rugluðu mig og sjúklingar virtust stundum hafa mörg nöfn. Til dæmis einu sinni þegar ég svaraði símanum og var sagt frá niðurstöðum röntgenmyndar af Agli – ég kannaðist ekki við sjúkling sem hét Agli, en auðvitað hét hann Egill!“ Hún lýsir svo skondnu atviki tengdu íslenskum orðaforða. „Á dönsku finnst mér orðið „pissa“ ekki fallegt, svo ég leitaði að betra orði í orðabók og spurði sjúkling hvort hann þyrfti að míga. Ég gerði það einu sinni og aldrei aftur.“ Svona ruglingur kemur enn þá fyrir öðru hvoru og það vekur oft kátínu meðal nemenda og samstarfsfólks,“ segir hún hlæjandi.

„Frá upphafi hefur samstarfsfólk mitt, sjúklingar og nemendur, sýnt mér óendanlega þolinmæði og hér á landi hef ég fengið ótal tækifæri. Til dæmis, eftir aðeins hálfs árs vinnu á taugadeildinni, fékk ég hugmynd að gæðaverkefni. Því var afar vel tekið og mér var strax veittur einn vinnudagur í viku til að þróa verkferla. Svona er Ísland – ef maður fær hugmyndir eru boðleiðirnar stuttar og umhverfið oftast mjög hvetjandi.“

Gefandi að leysa flókin vandamál skjólstæðinga Hvað er það sem heillar Marianne við taugahjúkrun? „Maður þarf að hafa gríðarlega þekkingu á lífeðlisfræði en einnig nota augun, innsæi og kerfisbundið líkamsmat. Taugakerfið stýrir öllu sem gerist í líkamanum. Það er ekki endilega taugakerfið sjálft sem er spennandi, heldur hvernig það stýrir líkamanum. Svo eru það

líka oft litlu hlutirnir sem skipta svo gríðarlega miklu máli.“ Ljóst er að Marianne brennur fyrir taugahjúkrun og talar af ástríðu fyrir starfinu.

Hún segir frá því þegar hún var í grunnnámi og hjúkraði parkinsonssjúklingi, sem varð til þess að taugahjúkrun heillaði hana ekki strax. „Ég vissi ekki hvernig ég átti að takast á við flókin vandamál sjúklingsins. Mér fannst það mikil áskorun og fann fyrir vanmáttarkennd,“ útskýrir hún og heldur áfram: „En í dag er einmitt þetta það sem gefur mér mest: Að leysa flókin vandamál. Það er eins og að vera Sherlock Holmes – að finna út hvað hrjáir sjúklinginn og hvernig við getum bætt líf hans. Það er ótrúlegt hvað hægt er að gera með góðum þekkingargrunni og hjúkrunarfræðilegri nálgun.“ Taugahjúkrun er lifandi fag þar sem þekkingunni fleygir fram. Það sá Marianne vel í haust þegar hún var að undirbúa kennslu þriðja árs hjúkrunarnema. „Þegar ég undirbjó kennsluna, sá ég að það þurfti að uppfæra megnið af efninu frá árinu áður. Þetta sýnir hversu hröð þróunin er í faginu. Það er alltaf eitthvað nýtt að gerast í meðferð taugasjúklinga,“ segir Marianne og það er greinilegt að hún nýtur þess í botn að starfa í þessu líflega umhverfi, bæði í háskólasamfélaginu og í klíník.

Stór hluti af starfi hennar á Landspítala felst í því að innleiða nýjungar úr fræðastarfinu. „Nú er að byrja ný lyfjameðferð hér á Landspítala fyrir parkinsonssjúklinga. Í þeirri meðferð er lyf gefið í sírennsli um lítinn plastlegg undir húð. Þetta svipar til insúlíndælu og býður upp á stöðugleika í lyfjagjöf svo sjúklingar upplifi síður sveiflur sem oft fylgja lyfjagjöf um munn. Þetta mun auka lífsgæði sjúklinga. Að það sé boðið upp á þessi meðferðarúrræði á litla Íslandi er í raun ótrúlegt, þetta er ekki meðferð sem er í boði alls staðar,“ lýsir Marianne en erlendir kollegar hennar eru gjarnan hissa á framboði meðferða í þessu fámenna samfélagi. „Ef við tökum önnur dæmi um framfarir sem hafa orðið síðustu áratugi má nefna nýjungar í segaleysandi meðferð og segabrottnám við blóðþurrðarslög. Þessir sjúklingar hafa þörf á sérhæfðu hjúkrunareftirliti. Þessa dagana fer fram mikil vinna við undirbúning opnunar á sérvöktunarherbergi fyrir slagsjúklinga á taugalækningadeildinni. Áður fyrr voru slagsjúklingar oft þungir hjúkrunarsjúklingar en í dag er útkoman margfalt betri vegna betri meðferðar og fleiri úrræða. Talsvert fleiri sjúklingar endurheimta mikilvæga færni, komast aftur heim til sín og jafnvel aftur út á vinnumarkað. Það fyllir mann krafti að sjá slíkar framfarir. Taugahjúkrun er ein af blómstrandi sérgreinum hjúkrunar. Það hefur verið sýnt fram á það endurtekið í Cochrane-safngreiningum að hjúkrunin er lykillinn að betri útkomu taugasjúklinga,“ lýsir Marianne sem hefur séð ótrúlegar framfarir á þeim rúmu 27 árum sem hún hefur starfað við fagið.

Skemmtilegast þegar einfaldar hugmyndir slá í gegn Sem kennari er Marianne þekkt fyrir að vera mjög hugmyndarík. Hún er skapandi og kemur gjarnan með stórar og skemmtilegar hugmyndir að til dæmis vísindarannsóknum og leiðir til að nýta þær í klínísku starfi. „Ég held að ég fái gjarnan útrás fyrir listræna sköpunargleði við kennslu og rannsóknarstörf.“ En hvaðan fær hún þessar hugmyndir? „Hvaðan, það er frekar hvenær ég fæ þær en það gerist sjaldnast þegar ég sit við tölvuna. Frekar þegar ég er í fríi og ekki með penna og pappír við hönd, þá spretta hugmyndirnar fram. Stundum skrifa ég heilu greinarnar í huganum þegar ég er á ferðalagi, til dæmis bara á ströndinni. Þess vegna er ég yfirleitt með upptökutæki við höndina. Auðvitað eru hugmyndirnar mínar misgóðar sem endurspeglast líka í heimilislífinu. Ég er til dæmis oft

Marianne og Ragnheiður Sjöfn deildarstjóri.

Pro-care Auto Plus loftdýna er í samningi við Sjúkratryggingar Íslands

Viking M standlyftari

og fylgihlutir eru í samningi við Sjúkratryggingar Íslands

Frekari upplýsingar um eiginleika, notkun og áhættu af völdum notkunar lækningatækis er að finna í notkunarleiðbeiningum tækis.

mjög hugmyndarík þegar kemur að eldamennsku og framkvæmi ýmsar tilraunir sem heppnast misvel. Á matseðlinum heima hef ég m.a. boðið upp á kanilsteiktar gulrætur en mér fannst að kanill og gulrætur væru góð samsetning. En annað kom á daginn, þetta var nærri óætt. Sama lögmál gildir um aðrar hugmyndir sem maður fær, þær eru misgóðar. Sumum hugmyndum hrindir maður í framkvæmd en aðrar verða aldrei að veruleika. En skemmtilegast er þegar einfaldar hugmyndir slá í gegn og verða að einhverju stórkostlegu,“ segir hún.

Marianne hafði um nokkra hríð stefnt að framhaldsnámi í hjúkrunarfræði. Eftir að hafa skoðað ýmsa möguleika erlendis, s.s. sérhæft meistaranám í taugahjúkrun í Kanada, áttaði hún sig á að framtíð hennar yrði hér á landi. Í kjölfarið fór hún að afla upplýsinga um hjúkrunarmenntun á Íslandi. „Þar kom í ljós að hjúkrunarfræðideildin í Háskóla Íslands skoraði hátt á alþjóðlegum mælikvörðum og þar með ákvað ég fara í framhaldsnám hér. Þetta var líka kjörið tækifæri fyrir mig til að bæta íslenskukunnáttuna og að stækka tengslanetið. Þetta var hárrétt ákvörðun hjá mér.“

Hún segir að íslenskan hafi verið áskorun fyrst um sinn og að það hafi tekið tíma að koma sér upp akademískum orðaforða. „Að sitja aðferðafræðinámskeiðin á íslensku var upplifun. Ég skildi ekki baun því íslenskan sem ég kunni þá var í grunninn íslenska sem er töluð á sjúkrahúsi en heima tölum við fjölskyldan alltaf dönsku. Það er mér eftirminnilegt einu sinni þegar ég kom heim og sagði við manninn minn að ég ætlaði að skrifa doktorsritgerð um gaumstol þá sagði hann: „Ha! Nei, það er ekki til, nú ertu að búa til orð“. Ég hafði ekki tilfinningu fyrir því hvort þetta voru orð sem þekktust út í bæ eða bara inn á sjúkrahúsi.“

Marianne leit á það sem mikinn kost að fá frelsi í meistaranáminu til að sérhæfa sig á sínu áhugasviði. „Meistaranámið gaf mér mikið. Kosturinn við námið er að hér velur maður sér viðfangsefni til að skrifa um. Það er alls ekki sjálfsagt í nágrannalöndunum. Svo fékk ég að vinna við viðfangsefnið eftir útskrift sem er heldur ekki sjálfsagt. Ég á til dæmis vinkonu í Danmörku sem hefur sérhæft sig í barnahjúkrun en ekki fengið vinnu við það heldur starfar við taugahjúkrun. Þetta er annar stór kostur við Ísland.“

Beint í doktorsnám

Eftir krefjandi meistaranám sem hún sinnti meðfram fjölskyldulífi og starfi á tímum fjármálakreppunnar sá hún fyrir sér að bíða með að skrá sig í doktorsnám. Hún endaði þó á að halda áfram að þróa sig sem fræðimaður. „Ég var í vafa um hvort ég ætti að fara strax í doktorsnám en fékk doktorsstyrk frá Eimskipasjóði Háskóla Íslands sem var í mínum huga skýr hvatning um að ég ætti að halda áfram í námi. Ég fékk í doktorsnáminu fimm frábæra leiðbeinendur í hjúkrunarfræði, læknisfræði og heimspeki sem gáfu mér góða leiðsögn en líka frelsi til að þróast. Ég hef haldið tengslum við heimspekina og var til dæmis nýlega lykilfyrirlesari á ráðstefnu í fyrirbærafræði um hvernig maður öðlast innsýn í reynslu fólks sem ekki getur tjáð sig á fullnægjandi hátt um líðan sína, s.s. börn eða einstaklinga með alzheimers-sjúkdóminn, gaum- eða málstol. Eftir doktorsnámið fékk ég post-doc-styrk frá Háskóla Íslands og var fyrsti hjúkrunarfræðingurinn hérlendis sem hlaut slíkan styrk. Þar hélt ég áfram með rannsóknir á gaumstoli. Meðfram því vann ég áfram á spítalanum.“

Blandar saman akademíu og klínik

Eftir doktorsnámið hefur Marianne unnið við akademíuna en einnig sinnt klínískri vinnu. Hún hefur þörf fyrir að sinna báðum

heimum og stendur betur að vígi þegar hún sinnir störfunum jafnt. „Það er gjarnan kallað á mig til ráðgjafar þegar framkvæma þarf sérhæft mat á taugasjúklingum. Mér finnst gefandi að fara til þeirra sjúklinga sem þurfa á mér að halda. Ég hef alltaf verið að sinna þessari klínísku vinnu þó að ég hafi fjarlægst deildarvinnu. Ég vinn að gæðamálum á spítalanum og er forstöðumaður fræðasviðs. Til dæmis hef ég verið að kortleggja þörf á taugahjúkrunarfræðingum og hef markvisst reynt að laða fólk að og hvatt áhugasama til að sækja sér framhaldsmenntun. Nokkrir hafa farið þá leið og haldið áfram í sérfræðinám og starfa núna á deildinni sem sérfræðingar í hjúkrun. Ég hef sterka þörf fyrir að sinna bæði akademíska starfinu og því klíníska og það setur af stað jákvæða hringrás. Um leið og ég er mikið í klíník þá fæ ég fullt af hugmyndum og skrifa miklu meira, sem skilar sér í kennslu og meiri rannsóknarvirkni. Eins og staðan er núna þá er ég í mjög góðri stöðu til að tvinna þetta saman.“

Ísland frábær staður fyrir rannsóknir

Marianne finnst hún vera í þeirri forréttindastöðu að fá að stunda vísindarannsóknir á Íslandi. Hún segir að smæðin bjóði upp á stuttar boðleiðir og tækifæri til að komast yfir gögn sem erfitt getur verið að komast yfir í stærri samfélögum. „Ég sé Ísland sem Mekka vísindarannsókna. Stundum finnst fólki Ísland of lítið en hvergi í heiminum er hægt að sjá áhrifin á samfélagið í heild sinni eins vel. Það oft hægt að nálgast tölur og gögn á Íslandi sem ekki er hægt erlendis. Ég hef tekið þátt í að vekja athygli á einkennum heilaslags í samfélaginu. Neyðarlínan gæti sem dæmi gefið upplýsingar um hversu mörg símtöl koma til þeirra þar sem grunur er um heilaslag fyrir og eftir vitundarvakninguna. Á sama tíma væri hægt að skoðað bráðamóttökur á landsvísu og sjá hversu langur tími líður frá fyrstu einkennum heilaslags og þar til leitað er á sjúkrahús. Í Bandaríkjunum gæti ég aldrei fengið þessar upplýsingar því kerfið þar er svo margfalt flóknara. Við erum nær eina landið sem getur gert þetta. Fólk gleymir forréttindunum sem felast í því að búa í litlu landi. Þegar maður ferðast mikið þá sér maður hvað við stöndum okkur vel og þegar eitthvað er í ólestri er tækifæri til að breyta hlutunum á styttri tíma en í flestum öðrum löndum.

Mínar rannsóknir hafa almennt haft klíníska skírskotun og ég er virk í alþjóðlegri samvinnu t.d. er ég í stjórn Nordic Stroke Society og er fyrsti hjúkrunarfræðingurinn utan Bandaríkjanna sem var boðið inn í International Committee of American Heart Association sem býr til stefnumótun fyrir slagmeðferð. Ég þrífst vel með fólki sem hefur sama áhugasvið og ég bæði hvað varðar aðferðafræði og taugasjúkdóma.

Framtíðin á íslandi

Marianne hefur átt farsælan feril sem hjúkrunarfræðingur á Íslandi og sér fyrir sér að halda áfram að sinna starfi sínu hér á landi. „Ég fékk prófessorstöðu í HÍ fyrir um einu og hálfu ári. Ég er mjög ánægð með starfsferilinn. Bæði í akademíunni en líka á Landspítala. Ég hef eignast gott samstarfsfólk og verið heppin með fyrirmyndir. Fólk sem hvetur mig áfram þegar ég er við það að gefast upp. Það kemur fyrir hjá okkur öllum öðru hvoru. Þetta er ekki alltaf dans á rósum. Ég get ekki ímyndað mér að vinna í Danmörku. Mér líður vel á Íslandi og finnst skemmtilegt að vinna hér. Íslendingar eru góðir samstarfsmenn, þó að þeir séu ekki góðir í að fylgja leiðbeiningum þá eru þeir góðir í mörgu öðru. Hér á ég tengslanet og hér eru ótal tækifæri í boði. Þó að tengslanet mitt teygi sig orðið um víða veröld, þá eru það tengslin á Íslandi sem gefa mér mest,“ segir Marianne að lokum.

Við hjálpum þér

Við bjóðum upp á velferðartækni sem hjálpar þér að hjálpa öðrum.

Okkar lausnir miða að því að auðvelda störf hjúkrunarfræðinga og bæta öryggi og heilsu skjólstæðinga þeirra.

Við sérhæfum okkur í velferðartækni og okkar starfsfólk býr yfir sérþekkingu á íslensku heilbrigðiskerfi.

velferdartaekni.is

Helga Dagný Sigurjónsdóttir, deildarstjóri

Sturla Geir Pálsson, verkefnastjóri

Stefanía Fanney Björgvinsdóttir, viðskiptastjóri

Göngudeild 12 G

Hjúkrunarstýrð bráða- og legudeild

Viðtal og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Göngudeild Thorax-hjúkrunar er hjúkrunarstýrð göngudeild fyrir sjúklinga sem tilheyra hjarta- og lungnaskurðlækningum og eru til að mynda á leið í hjarta-, lungna- eða holubringuaðgerð.

Elinóra Friðriksdóttir hjúkrunarfræðingur er aðstoðardeildarstjóri á deildinni sem formlega heitir 12G og er staðsett við Hringbraut. Hún var til í viðtal og ritstýran kíkti í heimsókn á fallegum og sólríkum haustmorgni.

Á leiðinni inn ganginn á deild 12G að hitta Elinóru aðstoðardeildarstjóra rek ég augun í Þórgunni Jóhannsdóttur, hjúkrunarfræðing og deildarstjóra á deildinni, og gef henni þétt faðmlag enda ekki annað hægt þar sem hún er æskuvinkona úr Breiðholtinu. Elinóra kemur og tekur á móti mér og býður mér uppáhelling á setustofu sjúklinga þar sem andrúmsloftið og umhverfið er huggulegt og hægt að ganga út á svalir þar sem sólin skín í augnablikinu. Við tyllum okkur og hefjum spjallið á því að kynnast Elinóru örlítið.

„Ég ólst upp á Eskifirði fyrstu fimm árin, flutti þá til Hornafjarðar og vann frá 16 ára aldri á hjúkrunarheimilinu Skjólgarði í öllum fríum. Gamla fólkið heillaði mig því það hafði frá svo mörgu að segja. Þarna vann ég með hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og öðru frábæru starfsfólki sem mótaði mig mikið og kveikti fyrst áhuga minn á að læra hjúkrun. Ég flutti til Reykjavíkur 16 ára til að fara í menntaskóla og flakkaði svo um heiminn í tvö ár. Þegar ég var nýkomin heim dundi stóra áfallið yfir; faðir minn var bráðkvaddur 43 ára gamall. Það var mikill harmur fyrir fjölskylduna, auk þess sem hann var fyrirvinna heimilisins. Ég er elst þriggja systkina, yngri bróðir minn var 12 ára þegar þetta gerðist og ég ákvað að vera heima þennan vetur til að vera til staðar fyrir hann og hjálpa mömmu. Ég fór að vinna á Skjólgarði en tveimur árum seinna fluttum við mamma og bróðir minn suður og ég byrjaði í hjúkrun. Ég útskrifaðist árið 1996 en meðfram náminu starfaði ég á hjartadeild og svo á hjarta-, lungna og augnskurðdeild.“

Lærdómsríkt að starfa á gjörgæsludeild í öðru landi

Elinóra hefur því verið viðloðandi deildina lengi, þó ekki starfað þar sleitulaust frá námsárunum því hún hefur þrisvar sagt upp starfi sínu og komið aftur. Hún hlær þegar hún segist alltaf koma aftur og fer að útskýra flakk sitt til og frá uppáhaldsdeildinni sinni eins og hún orðar það. „Við fjölskyldan fluttum til Noregs sumarið 1996 og bjuggum þar í fjögur ár á meðan eiginmaður minn var í framhaldsnámi. Við fluttum út með eitt barn og komum heim með tvö en á meðan við bjuggum í Bergen vann ég á gjörgæslu og vöknun á Haukeland Sykehus sem var lærdómsríkt. Norðmenn voru afskaplega góðir við mig og var umhugað að ég hefði það gott meðan ég starfaði þarna. Við fluttum svo heim árið 2000 og þá fór ég aftur til starfa á 12G. Þremur árum síðar bauðst mér starf fyrir franskt lyfjafyrirtæki sem var með hjarta- og blóðlyf sem mér fannst spennandi. Ég var þar í þrjú ár, kom þá aftur á 12G og ætlaði ekkert að fara héðan en þegar ég var nýlega byrjuð aftur var mér boðin vinna hjá Lundbeck; dönsku lyfjafyrirtæki sem starfrækti

Elinóra Friðriksdóttir aðstoðardeildarstjóri og Þórgunnur Jóhannsdóttir deildarstjóri vinna vel og náið saman.

sérútibú hér á landi en höfuðstöðvarnar voru í Danmörku. Ég var verkefnastjóri yfir alzheimers- og parkinsonslyfjum og starf mitt fólst m.a. í að búa til fræðsluefni, þýða plögg úr dönsku og ensku yfir á íslensku, sjá um markaðsplön, halda fræðslufundi og skipuleggja þing. Mig dreymdi samt alltaf um að koma aftur á deildina mína en þá kom efnahagshrunið og þá var gott að fá laun borguð í dönskum krónum. Ég ílengdist því lengur en ég ætlaði mér og það var ekki fyrr en árið 2013 sem ég hóf svo aftur störf hér og mikið var ég ánægð að koma aftur heim eins og ég kalla það,“ útskýrir hún einlæg og brosir.

Bæði bráða- og legudeild

Elinóra tók við starfi aðstoðardeildarstjóra í febrúar á þessu ári og þá er ekki úr vegi að spyrja hvernig henni líki starfið og hvernig það sé ólíkt því sem hún starfaði við áður á deildinni? „Mér líkar starfið vel en það fylgir því meiri pappírs- og tölvuvinna en ég gerði mér grein fyrir, auk þess sem það eru mun fleiri fundir. Ég

hef samt aldrei óttast að stíga út fyrir þægindarammann en minn fókus næstu mánuði verður á að fara yfir bæklinga og gæðaskjöl. Ég er einhverja daga vaktstjóri eða með sjúklinga og hef verið fast þrjá daga vikunnar á göngudeild Thorax-hjúkrunar þannig að mitt starf er frekar fjölbreytt. Það sem er svo gefandi og skemmtilegt við að starfa á 12G er að deildin er bæði bráða- og legudeild og engir tveir dagar er eins. Á okkar deild koma bráðatilfelli eins og til að mynda loftbrjóst og áverkar á brjóstkassa eftir slys. Þar sem við fyllum ekki okkar deild alveg þá aðstoðum við aðrar deildir sem þurfa innlögn fyrir sjúklinga,“ útskýrir Elinóra og sækir sér áfyllingu á kaffið.

Stofnaði göngudeildina ásamt þremur öðrum Aðspurð um daglegar áherslur í starfi sínu á göngudeildinni segist

Elinóra leggja sig fram um að leysa farsællega allt sem kemur á deildina þann daginn. „Mér finnst mikilvægt að vera í góðu sambandi við sérnáms- og deildarlækna sem sinna deildinni því þeir fá oft erindi sem ég sendi á þá varðandi sjúklinga og í sameiningu vinnum við úr þeim.“ Hvernig er starfsemi þessarar göngudeildar frábrugðin öðrum göngudeildum?

„Hún er eingöngu hjúkrunarstýrð. Eftir að ég lauk framhaldsnámi í hjúkrun aðgerðarsjúklinga og bráðveikra einstaklinga fyrir nokkrum árum, fékk ég ásamt þremur öðrum hjúkrunarfræðingum, meðbyr til að opna göngudeild við deildina okkar. Við fengum stuðning frá deildarstjóra en við þurftum allar fjórar sem byrjuðum í þessu verkefni að auka örlítið við okkur vinnu til að geta stofnað göngudeildina. Við störfuðum allar á deild 12G og jukum allar vinnuhlutfallið um 5-10% til að koma göngudeildinni af stað. Hún var svo formlega stofnuð þann 21. nóvember árið 2017 og hefur vaxið og dafnað síðan þá. Tilgangurinn var að bæta þjónustuna við sjúklinga fyrir aðgerð og eftir útskrift með eftirfylgd og einkennamati. Að styðja sjúklinga við að stýra sjálfir flókinni verkjalyfjameðferð heima við og taka verkefni út af legudeild sem hægt er að sinna á göngudeild; s.s. sjúklingafræðslu og símtölum sem koma inn daglega virka daga, ásamt því að styðja við sjúklinga sem útskrifast með brjóstholsdren og eru heima eða á annarri deild eða stofnun,“ útskýrir hún stolt af því starfi sem þarna fer fram.

Ávinningurinn sem fylgir því að hafa göngudeild:

- Að stytta legutíma og fækka endurinnlögnum.

- Bæta aðgengi og auka öryggi sjúklinga sem eru á biðlista og eftir útskrift.

- Auka sjúklingaánægju.

- Minna álag á hjúkrunarfræðinga á legudeild.

- Aukin fjölbreytni í starfi hjúkrunarfræðinga – eykur starfsánægju.

- Hvati til að auka starfshlutfall hjúkrunarfræðinga.

Elinóra segir verkefni göngudeildar vera tvenns konar eftirfylgni og fræðslu. Annars vegar er það símaeftirfylgd; einkennamat/ meðferð, sjúklingar með dren og brotasjúklingar á deild. Hins vegar fræðsla fyrir og eftir hjartaskurðaðgerð, holubringuaðgerð (NUSS), lungnaaðgerð og hóstakirtilsbrottnám. „Við erum í sambandi við sjúklinga þegar þeir koma á biðlistann og erum tengiliður við spítalann. Það er aukin samvinna við biðlistastjóra og við hjálpumst að ef eitthvað kemur upp hjá sjúklingunum okkar á biðtímanum. Árið 2019 fórum við að einkennameta sjúklinga sem eru á biðlistanum fyrr og eftir ERAS-flýtibata leiðbeiningum (Enhanced Recovery after surgery) í þeim tilgangi að greina t.d. hrumleika, reykingar, kvíða, óhóflega áfengisneyslu, vannæringu/offitu og háan blóðsykur sem getur haft áhrif á sáragróningu.

Við leitum eftir einkennum þegar við fræðum sjúklinga fyrir aðgerðir, þannig spyrjum við vísvitandi um ákveðin atriði og einkenni sem geta tafið útskrift og það kemur fyrir að við þurfum að senda sjúklinga áfram til innkirtlasérfræðings til dæmis í þeim tilgangi að ná betri stjórn á blóðsykrinum fyrir aðgerð. Sáragróning er verri ef blóðsykur hefur verið hár lengi og við höfum þurft að fresta aðgerð ef áfengisneysla er óhófleg. Það er t.d. aukin hætta á óráði tengdu mikilli áfengisneyslu. Við hjálpum fólki að komast í viðtal vegna áfengisfíknar og margir þiggja það. Það eru alls konar tilfelli sem koma upp hérna á deildinni og við grípum sem gerir starfið fjölbreytt og áhugavert,“ útskýrir hún og bætir við að göngudeildin létti álagið á hjúkrunarfræðinga deildarinnar og ekki síður á vaktstjórann.

Göngudeildin léttir álaginu af öðrum deildum „Við fórum í stórt verkefni sem unnið var með svæfingu á innskrift, undirbúningssetri svæfingar og skurðlækna og einnig með lungnalæknum. Innskrift svæfingalækna er látin vita ef eitthvað er athugavert með sjúklingana okkar eins og til að mynda reykingar, óhófleg áfengisneysla, vannæring eða hár blóðsykur. Þau grípa þá boltann með okkur og reyna að bæta úr áður en sjúklingarnir koma í aðgerð. Þetta hefur verið mjög góð samvinna og sjúklingurinn verður betur undirbúinn fyrir inngripið.

Sjúklingar sem koma frá lungnalæknum eru búnir í öllum rannsóknum og við þurfum bara að senda þá í viðtöl fyrir aðgerð við lyfjafræðing, sjúkraþjálfara, deildarlækni, svæfingalækni og í fræðslu til hjúkrunarfræðings. Við þurfum ekki endilega að hitta viðkomandi því við veitum oft fræðslu og upplýsingasöfnun gegnum síma og þar kemur oft fram eitthvað sem þarf að flagga fyrir svæfingalækna. Við grípum sjúklinga sem þurfa endurinnlögn og þá koma þeir hingað í stað þess að fara á bráðamóttökuna. Þannig léttir göngudeildin til að mynda á álaginu af öðrum deildum. Þegar Covid var byrjuðum við að hringja í alla með pre op-fræðslu og þá vann ég stundum að heiman en mér finnst alltaf betra að geta hitt fólk til að geta betur metið það.“

Er mikil sérhæfing í hjúkrun á deild 12G? „Já, þetta er eina deildin á landinu sem er sérhæfð í brjóstholskurðaðgerðum og aðgerðum vegna áverka á brjóstholi, það er engin önnur brjóstholsskurðdeild á landinu. Það hefur aðeins verið fækkun í fjölda hjartaaðgerða á ári en á móti eru gerðar fleiri lungnaaðgerðir. Þessi sérhæfing gerði það að verkum að göngudeildin varð til.“

Mikilvægt að starfsfólkinu líði vel í vinnunni

Elinóra segir að daglegt starf gangi vel og starfsandinn sé mjög góður sem skipti miklu máli þegar starfsfólk vinnur þétt saman við alls konar aðstæður. „Það er mjög mikilvægt að fólki líði vel á vinnustaðnum, við eyðum svo miklum tíma í vinnunni. Allir eiga að geta þrifist vel og átt góð samskipti við samstarfsfólk og það er alltaf tekið vel í hugmyndir sem koma upp,“ segir hún og að lokum spyrjum við hvað sé það besta við starfið? „Hjúkrunin er skemmtileg og gefandi, engir tveir dagar eru eins. Mannleg samskipti gefa mér mikið og auk þess er gaman að vinna með skemmtilegu fólki,“ svarar hún einlæg og óhætt er að segja að deildin sé áhugaverð hjúkrunarstýrð göngudeild sem gaman var að heimsækja enda einstakur andi sem ríkir á deildinni.

Hjúkrun við lok lífs

Texti: Ari Brynjólfsson og Helga Rósa Másóttir | Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Hjúkrunarþing 2024 fór fram á Reykjavík Edition 3. október undir yfirskriftinni Hjúkrun við lok lífs. Umræðuefnið var dánaraðstoð frá ýmsum sjónarhornum. Hátt í hundrað hjúkrunarfræðingar voru viðstaddir og álíka fjöldi tók þátt í gegnum fjarfundarbúnað. Erindin voru tekin upp og verða aðgengileg á Mínum síðum til áramóta.

Dánaraðstoð hefur verið til umræðu hér á landi síðustu ár. Í fyrra og aftur núna í ár var lögð fram þingsályktunartillaga um að heilbrigðisráðherra legði fram frumvarp um dánaraðstoð. Það er því nauðsynlegt að hjúkrunarfræðingar dýpki þekkingu sína og fyrir Fíh að fá innsýn í skoðanir hjúkrunarfræðinga.

Fundarstjóri þings var Henry Alexander Henryson, doktor í heimspeki og sérfræðingur í rannsóknum hjá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Hann kenndi áður heimspeki við Háskóla Íslands en starfar nú sem ráðgjafi og sérfræðingur á sviði siðfræði. Hann hefur margsinnis fjallað um dánaraðstoð og fór yfir málið frá siðfræðilegu sjónarhorni ásamt því að stýra umræðum.

Dánaraðstoð er málefni með margar hliðar. Fleiri en einn fyrirlesari hafði orð á því að auðvelt væri að vera sammála síðasta ræðumanni. Því var mikilvægt að heyra eins mörg sjónarhorn og völ var á.

Hvaða leið erum við á?

Í erindi sínu sagði Henry Alexander að umræðan hafi þroskast hér á landi síðustu ár. Spurningar væru uppi hvort dánaraðstoð væri mannréttindi eða ekki, einnig hversu langt réttur sjúklings nær við að stýra eigin meðferð ásamt því hvaða áhrif það kann að hafa á heilbrigðisstarfsfólk sem kæmi að því að veita dánaraðstoð.

Uppi eru vangaveltur um hvaða braut það myndi leiða samfélagið á, hvort það yrði til þrýstingur, beinn eða óbeinn, á skjólstæðinga um að þiggja dánaraðstoð. Sérstaklega í ljósi þess að margir upplifa sig sem bagga á þjóðfélaginu.

Guðríður Kristín Þórðardóttir, fulltrúi siðanefndar Fíh, fór yfir siðareglur hjúkrunarfræðinga. Siðareglurnar taka ekki beina afstöðu til dánaraðstoðar, þó segir þar meðal annars að hjúkrunarfræðingur „stendur vörð um rétt skjólstæðings til að deyja með reisn“. Hvað það þýðir með tilliti til dánaraðstoðar þarfnast frekari umræðu sem var annars tilgangur dagsins.

Frekar dauða en líf?

Katrín Edda Snjólaugsdóttir, sérfræðingur í líknarhjúkrun, fór yfir stöðuna hér á landi í dag þar sem leyfð er líknarslæving án beinnar íhlutunar. Benti hún á að orðanotkun skipti máli þar sem hugtakaruglingur hefur verið uppi, líknarmeðferð yrði aldrei dánaraðstoð þar sem hún snýst um lífsgæði en ekki dauðann. Mikil þörf væri á því að ræða almennt um dauðann og hvernig hann liti út.

Samkvæmt skilgreiningu fyrirliggjandi þingsályktunartillögu er dánaraðstoð „verknaður að aðstoða einstakling við að binda enda á líf sitt á grundvelli yfirlýsts samþykkis hans til að leysa

viðkomandi undan óbærilegum sársauka eða þjáningum“. Benti Katrín Edda á að þörf væri á að vita hvaða þjáning sé óbærileg í ljósi þess að á því séu margar birtingarmyndir. Velti hún einnig upp spurningunni hvort það væri meiri áhugi á dánaraðstoð en að veita grunnheilbrigðisþjónustu.

Læknafélag Íslands er mótfallið dánaraðstoð. Í erindi sínu benti Steinunn Þórðardóttir, formaður LÍ, á að fagfélög lækna á Norðurlöndunum og Heimssamtök lækna væru það einnig. Frumskylda lækna er að vernda líf og bæta lífsgæði. Líta læknar á þann verknað að enda líf manneskju með virkum hætti, einfaldlega ekki hluta af þeirra skyldu eða þjónustu. Ögmundur Bjarnason, sérfræðilæknir og meðlimur siðfræðiráðs lækna, minnti á hvaðan frumskylda lækna er sprottin og sagði að regluverkið þyrfti að tryggja að dánaraðstoð verði ekki beitt sérstaklega gegn þjóðfélagshópum eða einstaklingum í viðkvæmri stöðu.

Strangar reglur í skipulögðu kerfi

Ingrid Kuhlman, frá Lífsvirðingu, félagi um dánaraðstoð, ræddi um mál föður síns sem var veitt dánaraðstoð fyrir rúmum tveimur áratugum, ákvörðun sem öll fjölskyldan var sátt við. Tók hún sérstaklega fyrir Holland þar sem dánaraðstoð hefur verið leyfð frá 2002. Þar er skilyrði að dánaraðstoð þurfi að vera veitt að beiðni sjúklings og ekki hægt ef dómgreind viðkomandi sé ekki í lagi. Síðustu áratugi er búið að framkvæma dánaraðstoð um 100 þúsund sinnum og í einungis fimm tilfellum hefur komið upp vafi sem rataði á borð dómstóla. Kallaði hún eftir frekari könnunum meðal heilbrigðisstarfsfólks um viðhorf þess.

Til að ræða málið af hálfu skjólstæðinga og aðstandenda komu þau Kristín Þórsdóttir frá stuðningsfélaginu Krafti og Guðjón Sigurðsson, formaður MND á Íslandi. Kristín var fylgjandi dánaraðstoð í ljósi þess hvaða áhrif það hafði á maka hennar sem barðist við heilakrabbamein í áratug.

Guðjón var því hins vegar mótfallinn. „Á meðan ríki og sveitarfélög draga lappirnar við að aðstoða fólk við að lifa, þá vara ég við því að opna á leið fyrir fólk að koma sér úr erfiðum skorti á umönnun með því að velja að deyja frekar en að umönnun lendi öll á nánustu ættingjum,“ kom fram í erindi Guðjóns.

Guðlaug Ingunn Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur starfar sem nurse practitioner í Kanada þar sem dánaraðstoð er leyfð. Lýsti hún eigin vegferð að því að veita dánaraðstoð. Sagði hún að fylgt væri ströngum reglum við veitingu dánaraðstoðar í nánu samstarfi við aðstandendur og einungis eftir líknandi meðferð.

Helgi Hafsteinn Helgason, sérfræðingur í krabbameinslækningum og klínískri lyfjafræði, starfaði lengi í Hollandi. Byrjaði hann á að lýsa hugsunarhætti Hollendinga til að setja það í samhengi hvernig dánaraðstoð virkar í samfélagi þeirra. Hollendingar, ólíkt Íslendingum, hafa yfir að ráða mjög skipulögðu og öflugu heilbrigðiskerfi með afar öguðum venjum og samskiptum. Mikil aukning hefur verið á dánaraðstoð þar síðustu ár, ef það yrði heimfært yfir á Ísland myndi það þýða að um 135 einstaklingar fengju dánaraðstoð á ári.

Hjúkrunarfræðingar sem sátu þingið í streymi og á staðnum gafst kostur á að ræða dánaraðstoð sín á milli auk þess sem þeir gátu varpað afstöðu sinni, vangaveltum og spurningum til annarra fundargesta. Loks fór fram umræða á borðum þar sem hjúkrunarfræðingar gátu skrifað niður sitt innlegg varðandi sýn Fíh á dánaraðstoð. Fíh þakkar hjúkrunarfræðingum fyrir góðar umræður og þeirra framlag á þinginu.

Yousef Ingi Tamimi svæfingahjúkrunarfræðingur

Starfar á sjúkrabíl og sem svæfingahjúkrunarfræðingur í Svíþjóð

Viðtal: Sigríður Elín Ásmundsdóttir | Myndir: Úr einkasafni

Yousef Ingi Tamimi hjúkrunarfræðingur fluttist búferlum ásamt Lindu, eiginkonu sinni, og ungum syni til Svíþjóðar sumarið 2019 þar sem hann starfar bæði sem svæfingahjúkrunarfræðingur inni á spítala og einnig á sjúkrabíl á svæðissjúkrahúsinu í Västerås. Fjölskyldan var rétt að koma sér fyrir í öðru landi þegar heimsfaraldurinn skall á og Yousef segist hafa upplifað mjög streituvaldandi vinnuaðstæður, sérstaklega fyrstu mánuðina þegar hann var hvorki bólusettur né með hlífðarbúnað við störf. Hann segir að fyrstu þrír mánuðirnir á nýjum slóðum hafi reynst erfiðastir en mælir með því að fólk prófi að búa og starfa í öðru landi, fái ný sjónarhorn og læri nýja hluti. Hann segir gott að búa í Svíþjóð, veðrið sé betra en á Íslandi og vel hugsað um barnafjölskyldur.

„Ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík með stuttri viðkomu í Palestínu og Svíþjóð. Ég á fjórar systur og segi stundum að það hafi því legið beinast við að fara í Kvennaskólann og hjúkrunarfræði. Eftir stúdentspróf fór ég samt fyrst í stjórnmálafræði en hætti í því námi eftir einn vetur þegar ég áttaði mig á því að stjórnmálafræðin var ekki alveg það sem ég var að leita að. Ég hafði kynnt mér hjúkrunarfræðinámið á Akureyri þegar ég var í menntaskóla og heillaðist. Ég byrjaði svo í hjúkrunarfræði við HÍ árið 2009 og útskrifaðist 2013, ég var öll árin eini karlmaðurinn í náminu en það skipti mig engu, þetta var stór og góður nemendahópur; 84 stelpur og ég,“ segir hann og hlær.

Yousef segist fyrst hafa fengið innsýn í störf hjúkrunarfræðinga þegar hann fór sem sjálfboðaliði til Palestínu árið 2008, ásamt nokkrum öðrum Íslendingum en þar á meðal voru tveir hjúkrunarfræðingar, þau Anna Tómasdóttir og Gunnar Pétursson. „Í gegnum þau kynntist ég fyrst störfum hjúkrunarfræðinga og sá jafnframt möguleikann á að geta unnið við hjúkrun út um allan heim og það finnst mér spennandi möguleiki. Ég hef ekki mikla trú á að fara í sjálfboðastörf við hjúkrun því ég hef meiri trú á að starfa undir sömu formerkjum og samfélagið sjálft starfar, þetta er flókið en í grunninn hef ég ekki mikla trú á að fara í sjálfboðastarf til að reyna að bjarga fólki.“

Svæfingahjúkrun veitti mikilvæga þekkingu og reynslu

Yousef segir að það sem hafi heillað sig mest við hjúkrun hafi verið sú hugmynd að geta sem hjúkrunarfræðingur verið til staðar fyrir fólk á viðkvæmum stundum í lífi þess, það fékk hann til að velja hjúkrunarfræði og hann sér ekki eftir því. Og aðspurður hvort eitthvað hafi komið honum á óvart við starfið segir hann að eiginlega allt hafi komið sér á óvart. „Ég hafði aldrei starfað við umönnun áður en ég lærði hjúkrunarfræði og hafði í rauninni ekki miklar hugmyndir um hvað starfið raunverulega snýst um. Það sem kannski kemur mér sífellt á óvart og heillar mig er hvað hjúkrunarfræðingar starfa víða, við erum út um allt að sinna mikilvægum störfum; allt frá því að skipuleggja heilbrigðisstefnur og meðferðir sjúklinga upp í að vera í beinum tengslum við skjólstæðinga og aðstandendur.“

Eftir útskrift og til ársins 2017 starfaði Yousef á bráðamóttöku Landspítala, þá ákvað hann að skella sér í meira nám og valdi diplómanám í svæfingahjúkrun. „Mig langaði að bæta við mig menntun og sömuleiðis að öðlast meiri klíníska þekkingu. Svæfingahjúkrun hentaði mínu áhugasviði og hefur veitt mér mikilvæga þekkingu og reynslu sem nýtist mér vel; bæði sem svæfingahjúkrunarfræðingur inni á spítala og einnig á sjúkrabílnum þar sem ég starfa aðallega í dag. Ég kláraði námið árið 2019 en þá vaknaði áhugi hjá mér að fara í meira rannsóknartengt nám, ég bætti þá við mig einu ári til viðbótar og er því með meistaragráðu,“ segir hann sáttur.

Þrískipt bráðamóttaka

Yousef býr ásamt Lindu, eiginkonu sinni, og tveimur börnum í Svíþjóð en hvers vegna flutti fjölskyldan þangað? „Konan mín Linda Ósk Árnadóttir er læknir og það var alltaf á döfinni hjá okkur að flytja erlendis svo hún gæti farið í sérnám í skurðlækningum sem hún er einmitt að klára núna. Það kom því ekki óvænt upp að flytjast búferlum,“ svarar hann brosandi en þau hjónin starfa á sama sjúkrahúsi sem er svæðissjúkrahúsið í Västerås og er álíka stórt og Landspítalinn en íbúafjöldi í Västerås, sem er fimmta stærsta borg Svíþjóðar, er rúmlega 300.000. Og þá leikur okkur forvitni á að vita kosti heilbrigðiskerfisins þar í landi sem heilbrigðiskerfið á Íslandi mætti taka sér til fyrirmyndar? „Ég starfa á sjúkrabíl og við svæfingar inni á spítalanum, auk þess sem ég er að sinna mínu doktorsnámi og ég er því ekki sérfræðingur í að telja upp kosti og galla heilbrigðiskerfisins hér í Svíþjóð. Ég get samt sagt að við erum ekki á að glíma við sama vandamál hér og á bráðamóttökunni heima á Íslandi, hér fer allt má segja á hliðina ef það meira en átta tíma bið eftir þjónustu, það þykir mjög löng bið hérna.“

Aðspurður hvað skýri minna álag þar segir hann erfitt að segja til um. „Þetta eru tvö ólík kerfi og því erfitt að bera þau saman. Hérna þar sem ég bý er bráðamóttakan þrískipt þar sem bæklunarsvið, skurðsvið og lyflækningasvið bera ábyrgð á sínum hluta bráðamóttökunnar. Það þýðir að hvert svið ber ábyrgð á sínum sjúklingum og verður tryggja innlögn á sínar deildir og það er enn þá mjög sterkt í menningunni hérna, ef við getum orðað

það þannig, að sjúklingar eigi ekki að bíða lengi á bráðamóttöku. Bráðamóttakan á svæðissjúkrahúsinu þar sem ég starfa fær um 80 þúsund heimsóknir á ári en hjúkrunarfræðingar geta einnig forgangsraðað sjúklingum á læknavakt sem er á hæðinni fyrir ofan. Ég held það sé samt bara tímaspursmál hvenær kerfið hérna verður eins og heima varðandi mönnunarvanda og álag. Ég finn að álagið hérna er að aukast og mögulega er það tilkomið vegna afleiðinga Covid-faraldursins. Margir hjúkrunarfræðingar á spítalanum hættu störfum í kjölfar Covid, starfsfólk var útbrunnið og álagið var gríðarlegt, sérstaklega á gjörgæslunni en líka öðrum deildum. Það hefur byggst upp langvarandi þreyta og vanlíðan hjá mörgum í stéttinni sem hefur leitt til þess að margir hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp störfum,“ segir hann hreint út og en verður hann var við að hjúkrunarfræðingar sæki

þá í auknum mæli í störf utan heilbrigðisgeirans? „Nei, ekkert endilega en það hefur skapast mikil menning fyrir því að skrá sig hjá svokölluðum leigufyrirtækjum sem borga töluvert hærri laun. Þangað hafa hjúkrunarfræðingar leitað undanfarið og fengið töluvert betur borgað og jafnvel fyrir minni vinnu. Sparnaður hjá flestum sjúkrahúsum undanfarið hefur þó orðið til þess að það er að draga úr þessu en hvort að hjúkrunarfræðingar eru að koma til baka er mjög óljóst.“

Harðar tekið á heimsfaraldrinum á Íslandi

Það var sumarið 2019 sem Yousef og Linda fluttu, ásamt tveggja ára syni sínum, til Svíþjóðar. Þau eignuðust síðan annan dreng í

október 2020, í miðjum heimsfaraldri. Hvernig var að vera í Svíþjóð á þessum fordæmalausu tímum? „Fyrsta Covid-smitið greinist hér þann 31. janúar 2020, ég var þá starfandi á sjúkrabíl og tók strax eftir því að Íslendingar tóku faraldrinum alvarlegar en Svíar. Mínir yfirmenn vissu til að mynda lítið hvað var í gangi og við sem störfuðum á sjúkrabílnum fengum engar leiðbeiningar til að vinna eftir. Það tók langan tíma að fá einhverjar leiðbeiningar; til dæmis bara hvað við á sjúkrabílunum áttum að gera ef við vorum útsett fyrir smiti. Ég upplifði að upplýsingaflæðið á Íslandi væri miklu betra og þar var líka tekið miklu harðar á faraldrinum. En eftir nokkra mánuði lagaðist ástandið hér í Svíþjóð en það var óvissa í nokkra mánuði og það er óhætt að segja að þessi tími sem Covid var að ganga yfir hafi verið mjög sérstakur. Það var til að mynda ekki hægt að skreppa heim til Íslands, allt lokað þar og við vorum

því föst í Svíþjóð í langan tíma. Það má samt nefna að þrátt fyrir allt þá fannst mér líka jákvætt að sjá að lífið hélt áfram hérna og fólk var úti þrátt fyrir að það væri tveggja metra fjarlægðarregla. Veitingastaðir hérna voru opnir og fólk var á ferðinni sem var góð tilfinning í stað þess að allir væru lokaðir inni heima hjá sér. Um leið og bóluefnið kom upplifði ég létti en Svíar voru með þeim fyrstu til að fá bóluefni sem var um ári eftir að fyrsta smitið uppgötvaðist. Það létust margir úr Covid og ég viðurkenni að þetta voru mjög streituvaldandi vinnuaðstæður, sérstaklega til að byrja með þegar við vorum ekki með hlífðarbúnað og ekki heldur bólusett. Þetta var erfitt tímabil og álagið var mikið en það var ákveðið að setja okkur sem vorum á sjúkrabílunum á breytt vaktaplan. Ég vann

Yousef í vinnunni.
Yousef og sonur hans.

samkvæmt því tvær dagvaktir í röð, svo næturvakt og svo var tveggja daga frí. Þetta hentaði mér vel því ég gat nýtt tveggja daga fríin til að skrifa meistararitgerðina mína en fyrir vikið þurfti ég að vinna fimm helgar í röð og svo átti ég eina fríhelgi,“ segir

Yousef þegar hann rifjar upp tímabilið sem reyndist flestum mikil áskorun. Og ef annar svipaður heimsfaraldur myndi ríða yfir, hvernig myndir þú bregðast við? „Ég myndi mæta í vinnuna, vera til staðar en tryggja um leið öryggi mitt,“ svarar hann án þess að hugsa sig um.

Doktorsverkefnið nýr verkferill til að greina sýklasótt

Er starfsumhverfið öðruvísi þar sem þú starfar núna í Svíþjóð en á Íslandi? „Nei, við eigum við svipuð vandamál og áskoranir. Í mínu starfi á sjúkrabílnum erum við að nota sömu tæki og tól og starfið er mjög svipað fyrir utan að í Svíþjóð verður að vera einn hjúkrunarfræðingur á hverjum sjúkrabíl og einn sjúkraliði eða þá tveir hjúkrunarfræðingar. Við höfum hér auk þess tækifæri til að starfa bæði á sjúkrabíl og inni á spítalanum, eins og ég geri, en ég er í 20% starfi sem svæfingahjúkrunarfræðingur. Ég er einnig í doktorsnámi og er 50% af mínu starfshlutfallið tekið frá fyrir doktorsnámið sem er frábært, ég var mjög heppinn hvað þetta varðar. Doktorsverkefnið mitt fjallar um að greina sýklasótt (e. sepsis) utan spítala. Við sem sagt hönnuðum nýjan verkferil fyrir utanspítalaþjónustuna sem m.a. inniheldur NEWS2-kvarðann ásamt Lactate-mælingu (mjólkursýru) með það markmið að gera okkur hæfari í að bera kennsl á sýklasótt utan spítala. Rannsóknir hafa sýnt að án verkferils þá á starfsfólk á sjúkrabíl erfitt með að greina einstaklinga sem eru með, eða gætu verið með sýklasótt en á sama tíma hefur ekki komið neitt almennilegt verkfæri fyrir okkur sem er nógu nákvæmt til að finna þessa einstaklinga. Sýklasótt er alvarlegt og stórt vandamál en það er áætlað að tilfelli séu 600-800 á hverja 100.000 íbúa á ári og dánartíðnin um 20%. Til þess að greina sýklasótt þarf til að mynda að taka blóðprufu sem við getum ekki gert í utanspítalaþjónustunni. Það er því mikilvægt að utanspítalaþjónustan hafi verkfæri til að greina sýklasótt svo skjólstæðingar fái ákveðna og markvissa meðferð því sýklasótt þarf meðhöndla hratt og ákveðið. Doktorsverkefnið mitt fjallar um þetta og á hug minn allan. Hingað til höfum við ekki náð að greina þessa sjúklinga nógu oft og því miður oft áttað okkur of seint á vandamálinu.“

Svíar lengi að innleiða nýjungar

Aðspurður hverjar séu stærstu áskoranirnar sem hann hafi mætt í Svíþjóð stendur ekki á svari: „Hvað allt tekur langan tíma hérna. Svíar halda fundi um allt og geta flækt flesta hluti mikið. Til dæmis ef það vantar eitt tæki í sjúkrabíl þá þarf að ræða það í nokkrum hópum og koma með tillögur og þess háttar og því getur liðið langur tími þar til tækið kemur loksins í sjúkrabílinn. Það tekur yfirleitt langan tíma að innleiða nýjungar hérna og mér finnst að hlutirnir mættu ganga hraðar fyrir sig og Svíar mættu vera duglegri að taka ákvarðanir án þess að ræða allt í þaula. Tungumálið var líka áskorun, ég kunni ekki sænsku þegar við komum hingað en mér gekk vel að læra hana. Við hjónin hlustuðum á hljóðbækur og lásum þær á sama tíma og það hjálpaði helling, þetta var ekki létt verk en gekk,“ segir hann og hlær. Hann segir að fyrstu þrír mánuðirnir á nýjum slóðum hafi reynst erfiðastir en mælir með því að fólk prófi að flytjast búferlum og starfa í öðru landi, sjá ný sjónarhorn og læra margt nýtt. „Það er gott að búa í Svíþjóð fyrir barnafólk og hér búa margir Íslendingar, það eru örugglega tíu aðrir Íslendingar sem starfa á sama spítala og við hjónin og við aðstoðum hvert annað eins og við getum sem er frábært.“

Ertu með ráð fyrir hjúkrunarfræðinga sem vilja prófa að starfa við hjúkrun í öðru landi? „Já, ekki ofhugsa hlutina, bara drífa sig út og prófa eitthvað nýtt. Að læra tungumál er léttara en maður heldur. Það er gott að búa erlendis, sjá og læra nýja hluti og koma svo kannski heim til Íslands með nýja þekkingu og reynslu í farteskinu.“ Þegar Yousef er spurður hvað Svíþjóð hafi fram yfir Ísland stendur ekki á svari: „Veðrið hérna á sumrin er svo miklu betra en heima og svo er mjög vel hugsað um barnafjölskyldur hérna, barn fær til að mynda leikskólapláss innan þriggja mánaða frá því að umsókn berst og þar sem við búum eru börn að byrja á leikskóla í kringum eins árs aldur.“ Ætlið þið fjölskyldan að flytja aftur til Íslands? „Já, okkur langar að flytja aftur heim einn daginn en við erum ánægð í Svíþjóð eins og er. Við söknum auðvitað ættingja og vina og einnig afslappaða andrúmsloftsins á Íslandi. Svíar eru ólíkir Íslendingum hvað það varðar, eru mjög reglufastir og alltaf að skammast. Það margt ólíkt við hugsunarháttinn og eins og áður segir tekur flest langan tíma hérna sem er ólíkt því sem við erum vön heima,“ segir hann.

Hvar sérðu fyrir þér að þú verðir starfandi eftir tíu ár? „Það er erfitt að segja. Maður verður bara að taka einn dag í einu. Kannski á Íslandi, kannski í Palestínu. Okkur langar bæði að prófa að vinna og starfa annars staðar en í Evrópu áður en við við skipuleggjum að flytja til Íslands en maður verður einnig að muna að njóta þeirra augnablika sem maður hefur og ekki plana of langt fram í tímann, alls ekki 10 ár að minnsta kosti,“ svarar hann og hlær.

Og vindum okkur að allt öðru. Nú er hlutfall karlkyns hjúkrunarfræðinga komið í 4% á Íslandi sem er samt lægra hlutfall en í flestum öðrum löndum, þú varst einn í hjúkrunarfræði öll þau fjögur ár sem þú varst í náminu, hvað þyrfti að þínu mati að breytast eða gera til að fjölga karlmönnum í hjúkrun á Íslandi?

„Í fyrsta lagi væri hægt að auka upplýsingagjöf í grunn- og framhaldsskólum til að útskýra betur hvað hjúkrunarstarfið felur í sér, með áherslu á fjölbreytileika starfsins og þau tækifæri sem það býður upp á. Oft er hjúkrun tengd við kvenleika og mildi en það er mikilvægt að benda á að það þarf fjölbreytta eiginleika, þar með talið styrk og rökhugsun til að takast á við krefjandi aðstæður. Fyrirmyndir geta einnig haft mikið að segja. Það gæti hjálpað að sýna meira af karlkyns fyrirmyndum í hjúkrun, til dæmis í auglýsingum, viðtölum eða kynningum þar sem karlar í hjúkrun eru sýndir í jákvæðu ljósi og lýsa reynslu sinni. Þetta gæti haft áhrif á yngri karlmenn sem eru að velja námsleiðir. Það gæti líka verið gagnlegt að kynna betur mismunandi svið hjúkrunar. Hjúkrun er fjölbreytt starf og karlmenn gætu haft sérstakan áhuga á ákveðnum sviðum, svo sem bráðamóttöku, sálrænum úrræðum eða tæknilegri hliðum starfsins. Ef slík svið væru betur kynnt gætu fleiri karlmenn séð möguleika á áhugaverðum störfum innan hjúkrunar. Að beita jákvæðri mismunun, eins og að hvetja karla sérstaklega til að sækja um námsstyrki eða veita þeim forgang í ákveðnum námskeiðum, gæti einnig verið eitt skref til að auka hlutfall karlmanna í hjúkrun.“

Að lokum hver er draumurinn? „Að við getum öll lifað við frið og öryggi og að Palestína verði frjáls,“ svarar hann einlægur að endingu.

TÚFEN TIL MEÐFERÐAR VIÐ DJÚPUM SLÍMHÓSTA

Túfen 13,33 mg/ml, mixtúra, 180 ml. Virkt efni: Guaifenesín. Ábending: Túfen er ætlað til notkunar við einkennum sýkinga í efri hluta öndunarfæra og hjálpar til við að létta á djúpum hósta með því að losa slím sem auðveldar að hósta því upp og opna þannig öndunarveginn.

FÆST ÁN LYFSEÐILS Í NÆSTA APÓTEKI | LESIÐ FYLGISEÐILINN FYRIR NOTKUN

INNIHELDUR GUAIFENESÍN MÁ NOTA FRÁ 6 ÁRA ALDRI SAFT SLÍMLOSANDI alvogen.is

Lesið vandlega upplýsingar á umbúðum og fylgiseðli fyrir notkun lyfsins. Leitið til læknis eða lyfjafræðings sé þörf á frekari upplýsingum um áhættu og aukaverkanir. Sjá nánari upplýsingar um lyfið á www.serlyfjaskra.is. TUF.L.A.2023.0001.02

Háskólakennarinn Þórhalla Sigurðardóttir

Nýtir doktorsnámið til að sérhæfa sig í hermikennslu

Umsjón: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Menntun: Sérfræðingur í bráðahjúkrun.

Starfsheiti: Aðjúnkt við heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið

Háskólans á Akureyri og sérfræðingur í bráðahjúkrun við bráðamóttöku

Sjúkrahússins á Akureyri.

Hvernig myndir þú lýsa þér í fimm orðum?

Óþolinmóð, lífsglöð, hugmyndarík, ákveðin og vonandi skemmtileg.

Af hverju hjúkrunarfræði?

Ég er sjúkraliði og hjúkrunarfræðin kom í kjölfarið á þeirri menntun. Mig hefur alltaf langað til að vinna á sjúkrahúsi. Ég prófaði að vinna eitt sumar í apóteki til að sjá hvort mér hentaði að fara í lyfjafræði, það var mjög gaman en skemmtilegra fannst mér að starfa á sjúkrahúsi og því varð hjúkrunarfræði frekar fyrir valinu.

Af hverju kennsla frekar en klíník?

Ég er það lánsöm að geta bæði verið í kennslu og klíník. Ég er í 70% stöðu sem aðjúnkt við HA og í 60% stöðu á bráðamóttöku SAk, (eins og er 40% í klíník og 20% námsleyfi).

Hvað heillaði þig við bráðahjúkrun sem sérgrein?

Ég starfaði á Sankti Jósefsspítala frá útskrift til ársins 2010 og fór þá að vinna á bráðamóttökunni í Fossvogi. Árið 2013 var auglýst nám við Háskóla Íslands í hjúkrun

sjúklinga með bráð og alvarleg veikindi, ég sótti um og kláraði það nám 2017. Bráðahjúkrun hentar mér mjög vel og bráðamóttakan á SAk er góður staður til að vinna á. Ég prófaði að starfa á gjörgæslunni á SAk í tvö ár til að öðlast frekari reynslu. Mér fannst mjög krefjandi að byrja á nýjum stað en ég fékk þá bestu aðlögun sem ég hef fengið á mínum ferli sem hjúkrunarfræðingur á gjörgæslunni. Ef ég fengi 48 klukkustundir í sólarhringinn væri ég að vinna á bráðamóttökunni á SAk og gjörgæslunni, ásamt kennslunni.

Þyrstir þig í fleiri háskólagráður og meira nám?

Ég er í doktorsnámi við Karolinska Institutet í Svíþjóð þar sem ég er að sérhæfa mig í hermikennslu hjúkrunarnema.

Ef þú hefðir ekki lært hjúkrunarfræði hvað hefðir þú þá lært? Lyfjafræði.

Hvaða fög kennir þú?

Ég er umsjónarkennari í tveimur hjúkrunarfræðiáföngum. Ég kenni aðallega færni- og hermikennslu en ég er líka sérgreinakennari fyrir hjúkrunarnema sem eru í klínísku námi.

Hvað er það besta við kennarastarfið?

Nemendurnir og samstarfsfólkið.

Hver var þinn uppáhaldskennari

á námsárunum?

Þar sem ég er enn í námi ætla ég að nefna minn uppáhaldskennara í dag sem er Katri Manninen, aðalleiðbeinandi minn við Karolinska Institutet.

Hverjar eru helstu áskoranir háskólakennarans?

Fjöldi nemenda, nú eru 75 nemendur í hverjum árgangi og stjórnvöld kalla eftir því að við aukum fjölda nemenda í 100. Húsnæðið í HA fyrir færni- og hermikennslu hefur ekki stækkað í takt við fjölda nemenda og við bíðum spennt eftir nýju færni- og hermisetri HermNor.

Uppáhaldskennslustofan þín að kenna í?

Stofa J210, því þar er 80 tommu sjónvarp sem er líka snertiskjár.

Eitthvert fag sem þér finnst vanta í námið?

Mér finnst vanta meiri færni- og hermikennslu í hjúkrunarfræðinámið.

Hressasti kennarinn á kennarastofunni?

Kristín Linda Húnfjörð.

Eftirminnilegasta kennslustundin?

Eitt sinn var ég að kenna hermikennslu, ég var í stjórnrýminu að tala fyrir hermikennsludúkkuna, þurfti svo eitthvað að teygja úr mér á barstólnum en ég er 180 cm á hæð og háfætt. Ég flæktist í snúrunum og datt og blótaði svona hressilega í gegnum dúkkuna, nemendum til mikillar gleði. Ég á það líka til að fara úr skónum í tímum til að ná betra jarðsambandi að ég tel og ég þurfti að vera á sokkunum í heilan dag því ég fann ekki skóna mína eftir kennslustundina.

Flottasta fyrirmyndin þín í hjúkrunarfræði?

Elísabet Hjörleifsdóttir.

Eiginleikar sem þú vilt tileinka þér í kennarastarfinu?

Ég reyni mitt besta til að námsefnið sé sem aðgengilegast fyrir nemendur mína. Ég notast við sýnikennslumyndbönd fyrir færnikennsluna svo nemendur geti horft á þau heima áður en þau mæta í lotur. Einnig er ég með spurningalista sem nemendur svara eftir hermikennslu um það sem vel gekk og hvað betur mætti fara, allt nafnlaust að sjálfsögðu. Eins hef ég notað gögnin til að betrumbæta hermikennsluna. Ég reyni mitt besta að vera sanngjörn og setja mig í spor nemenda. Ég passa að taka alltaf pásur svo nemendur geti betur haldið einbeitingu í tímum hjá mér og hef glærupakkanna sem ég fer yfir viðráðanlega, ég vil ekki fara á hundavaði yfir 150 glærur. Ég vil líka að nemendur leiti til mín ef þeir eru í vandræðum og láti mig vita ef það er eitthvað sem betur má fara, ég fagna alltaf gagnlegum ábendingum.

Hvernig tilfinning er að útskrifa nemendur?

Það er góð tilfinning og enn betri tilfinning er að fá að vinna með þeim seinna meir. Mér finnst mjög ánægjulegt að hitta fyrrverandi nemendur þegar þeir taka við sjúklingum frá mér af bráðamóttökunni, vöknun eða gjörgæslunni.

Hvernig mætti bæta hjúkrunarfræðinámið að þínu mati?

Það mætti auka vægi færni- og hermikennslu.

Hvernig myndir þú sannfæra áhugasama um að skella sér í nám í hjúkrunarfræði?

Ég myndi segja þeim hvað hjúkrunarfræðin er fjölbreytt og að þeir sem séu áhugasamir geti verið að læra eitthvað nýtt á hverjum degi. Einnig að hjúkrunarfræðingar geti valið starfsvettvang sem hentar viðkomandi æviskeiði hverju sinni.

Hvernig nærir þú andann?

Ég fer í ræktina og sund, svo fer ég líka á skíði og gönguskíði með minni bestu Rut Guðbrandsdóttur. Einnig finnst mér gaman að fara á tónleika.

Hvað gleður þig mest í lífinu?

Strákarnir mínir og stórfjölskyldan og svo er mjög þakklát fyrir að vera við góða heilsu.

Hvað hryggir þig helst?

Stríðið í Palestínu og Úkraínu.

Hvernig fáum við fleiri karlmenn til að læra hjúkrun?

Ég velti þessu mikið fyrir mér þegar ég var verkefnastjóri fyrir verkefnið Strákar og hjúkrun. Það eru staðalímyndir í hjúkrun allt í kringum okkur sem eru mjög kvenlægar, sem dæmi má nefna að það er bjalla inni á öllum stofum á SAk með mynd af konu í kjól. Mig minnir að hlutfall karla í hjúkrun á Íslandi sé um 4% en í Svíþjóð þar sem ég fór í verknám á Lasarettet í Lundi var meirihluti hjúkrunarfræðinga á bráðamóttökunni karlmenn. Ég held að við þurfum að fara í átak og gera karlmenn í hjúkrun meira sýnilegri.

Ef þú ættir eina ósk fyrir heilbrigðiskerfið á Íslandi?

Til að tryggja öryggi sjúklinga myndi ég vilja að sett yrðu lög um mönnunarviðmið hjúkrunarfræðinga sem endurspegluðu þörfina á þjónustunni. Það myndi bæta starfsaðstæður hjúkrunarfræðinga og ánægju þeirra í starfi.

Falin perla í náttúru Íslands?

Kjarnaskógur.

Þitt mottó?

Á morgun segir sá lati.

Hugleiðing Ingunnar Stefánsdóttur, formanns Curators

„Eins einkennilegt og það hljómar virðist enginn afsláttur gefinn af vinnuálagi klínískra leiðbeinenda á deildum heldur bætist nemaleiðsögnin ofan á allt hitt ...“

Það er mánudagsmorgun og ég er á leið í klínískt nám í áttunda sinn. Það eru ýmsar tilfinningar sem bærast innra með mér en kvíðahnúturinn í maganum er flestu yfirsterkari. Ég er alltaf jafnhissa á þessari líðan því ég er hvorki slakur nemandi né óörugg alla jafna. Ég er fullorðin kona sem langar að fá námstækifæri og læra að verða hjúkrunarfræðingur. Mig langar hins vegar ekki til að fá námsupplifun sem er eins og „afplánun tíma“ þar sem ég er fyrir og allir eru svo uppteknir í sínu að þeir hafa ekki tíma til að leiðbeina mér. Mig langar heldur ekki að fylgja frábæra táningnum sem hefur unnið á staðnum í heilt ár, fjórða árs hjúkrunarnemanum, nýútskrifaða hjúkrunarfræðingnum eða að vera ígildi starfskrafts því mönnunin er léleg þann daginn. Umfram allt langar mig ekki að reyndir hjúkrunarfræðingar hreyti í mig orðum eins og „hvers konar hjúkrunarfræðingur heldurðu að þú verðir?“ þegar mér verða á mistök. Þetta eru raunveruleg dæmi frá hjúkrunarnemum í klínísku námi. Það er því kannski ekki svo skrítið að kvíða fyrir verknámi því maður hefur ekki hugmynd um hverju maður mætir.

Nám og sérstaklega klínískt nám í hjúkrunarfræði, reynist mörgum krefjandi og streituvaldandi verkefni (Birna G. Flygenring o.fl., 2022). Óhófleg streita getur leitt til kulnunar og saman er þetta talið meðal áhrifaþátta brottfalls úr starfi fljótlega eftir útskrift.

Ingunn Stefánsdóttir, formaður Curators, nemendafélags hjúkrunarfræðinema við Háskóla Íslands.

Vissulega gæti reynst erfitt að koma í veg fyrir streitu nemenda en ef hægt væri að bæta inn bjargráðum í formi stuðnings og hvatningar gætu þau vegið þyngra í lok dags. Í skýrslu, Tillögur til fjölgunar útskrifaðra hjúkrunarfræðinga (heilbrigðisráðuneytið, 2020) er m.a. fjallað um klínískt nám sem grundvallarþátt menntunar þar sem nemendur fá leiðsögn við hagnýtingu fræða í raunheimum heilbrigðisstofnanna. Þarna er leiðsögn lykilorð því það er nefnilega ekki sjálfgefið að hjúkrunarfræðingar geti leiðbeint nemum (enda læra þeir ekki kennslufræði, heldur hjúkrunarfræði) og mætti ætla að menntun fyrir þess háttar verkefni væri mikilvæg. Mér hefur oft borist til eyrna frásagnir um misgagnlega klíníska námsreynslu og að fólk hafi lært mest á eigin vinnustað. Mér finnst það áhugavert og velti fyrir mér hver ástæðan geti verið? Væntanlega er ávinningur fyrir fólk að koma nýliða sem fyrst inn í starfið svo hann geti nýst sem fullgildur starfsmaður á gólfi, en réttlætir það lakari námsupplifun í klínísku námi en ef viðkomandi væri í starfsþjálfun?

Klínískt nám gefur manni afar dýrmæta reynslu. Það er ómetanlegt að fá innsýn í margvísleg störf hjúkrunarfræðinga, kynnast framúrskarandi hjúkrunarfræðingum og síðast en ekki síst að finna sitt áhugasvið innan fagsins, þó að það geti auðvitað breyst með tímanum. Ég hef verið svo lánsöm að hafa, oftar en ekki, fengið frábæra leiðsögn í klínísku námi á bæði yrtan og óyrtan máta. Úrvinnsla námsins hefur þroskað mig sem manneskju og opnað augu mín fyrir hversu ótrúleg verkefni hjúkrunarfræðinga geta verið. Aðstæður eru ekki alltaf eins og fólk óskar sér og oft þarf lausnamiðaða nálgun til að afstýra „hamförum“. Eins einkennilegt og það hljómar virðist enginn afsláttur gefinn af vinnuálagi klínískra leiðbeinenda á deildum heldur bætist nemaleiðsögnin ofan á allt hitt og er, að mér skilst, lítil eða engin umbun fyrir. Miðað við mína takmörkuðu þekkingu á öllum hliðum málsins virðast ýmis sóknarfæri vera til að bæta klínískt nám bæði fyrir nema og hjúkrunarfræðinga.

Í lokin langar mig að biðja ykkur, hjúkrunarfræðinga, að rifja upp stundirnar þegar þið voruð í nemasporunum sem ég er í nú. Á þessari stundu er maður dálítið brothættur, stundum stutt í tárin og námið yfirþyrmandi. Einmitt þarna þarf maður stuðning og faglega leiðsögn við að samtvinna fræðilega þekkingu við starfsaðferðir svo maður geti orðið hjúkrunarfræðingurinn sem mann langar að verða.

En það er komið að mætingu á námsvettvang og enn á ný ætla ég að herða upp hugann, gera mitt allra besta og í samvinnu við leiðbeinandann minn að komast einu skrefi nær í átt að æskudraumnum: að verða hjúkrunarfræðingur!

Heimildir:

Birna G. Flygenring, Herdís Sveinsdóttir, Rakel Dís Björnsdóttir og Salome Jónsdóttir. (2021). Streita og kulnun hjúkrunarfræðinema á lokaári við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 97( 3), 76–85. Heilbrigðisráðuneytið. (2020). Tillögur til fjölgunar útskrifaðra hjúkrunarfræðinga

Gegn flösu, kláða og flögnun í hársverði

Dermatín

20 mg/g hársápa

Dermatín inniheldur ketókónazól sem er sveppalyf og er notað við flösu og öðrum sveppasýkingum sem valda kláða og flögnun. Sýkt húðsvæði eða hársvörður er þveginn með hársápunni og hún látin liggja á húðinni í 3-5 mín. áður en skolað er. Hársápan notist tvisvar sinnum í viku í 2-4 vikur og síðan eftir þörfum. Dermatín er ætlað unglingum og fullorðnum. Kynnið ykkur notkunarleiðbeiningar, varnaðarorð og frábendingar áður en lyfið er notað. Lesið vandlega upplýsingar á umbúðum og fylgiseðli fyrir notkun lyfsins.

Leitið til læknis eða lyfjafræðings sé þörf á frekari upplýsingum um áhættu og aukaverkanir. Sjá nánari upplýsingar um lyfið á www.serlyfjaskra.is

Markaðsleyfishafi: Teva B.V. Umboðsaðili á Íslandi: Teva Pharma Iceland ehf.

Höfundar

BRYNJA HAUKSDÓTTIR*

sérfræðingur í hjúkrun sjúklinga með blóðsjúkdóma og krabbamein, MSc

HARPA SÓLEY SNORRADÓTTIR* hjúkrunar- og lýðheilsufræðingur, MPH

*Báðir höfundar starfa á dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga LSH (11B) og eru í stofnfrumuteymi LSH

Eigin stofnfrumumeðferð á Íslandi í

20 ár: Þróun meðferðar

á Íslandi og samvinna

heilbrigðisstétta

Nú eru tuttugu ár liðin frá því að fyrsta eigin stofnfrumumeðferðin var framkvæmd á Landspítalanum. Af því tilefni er vert að líta yfir farinn veg og sjá hvernig starfsemin hefur þróast á þessum tíma. Stofnfrumumeðferð er flókin og krefjandi fyrir sjúklinginn og aðstandendur hans. Sérhæfði hluti meðferðarinnar er framkvæmdur á krabbameinssviði Landspítalans. Sjúklingahópurinn getur einnig þurft að þiggja þjónustu á öðrum deildum Landspítalans, heilsugæslustöðvum og/eða sjúkrahúsum utan höfuðborgarsvæðis meðan hann jafnar sig af eftirköstum meðferðarinnar. Í ljósi þess er mikilvægt að gefa hjúkrunarfræðingum innsýn í hvað eigin stofnfrumumeðferð felur í sér.

Upphaf og þróun eigin stofnfrumumeðferða á Íslandi Fram til ársins 2004 var allur sérhæfði hluti meðferðarinnar framkvæmdur í Svíþjóð. Þá þurftu sjúklingar að ferðast til Svíþjóðar, fyrst þar sem stofnfrumum sjúklings var safnað og svo aftur síðar til að fá háskammta krabbameinslyfjameðferð og stofnfrumuinngjöf í kjölfar þess. Daginn eftir stofnfrumuinngjöfina ferðuðust sjúklingar aftur til Íslands og lögðust í framhaldinu inn á LSH á meðan aukaverkanir meðferðarinnar gengu yfir.

Í upphafi stofnfrumumeðferða á Íslandi var ábyrgð á sérhæfðum hluta meðferðarinnar í höndum fárra einstaklinga sem lögðu grunninn að frekari uppbyggingu. Eftir því sem sjúklingum fjölgaði og starfsemin efldist var myndað sérhæft stofnfrumuteymi sem sér um skipulagningu og framkvæmd sérhæfða hluta meðferðarinnar. Teymið hefur þróað skýra verkferla sem skráðir eru í gæðahandbók LSH. Stofnfrumuteymið er þverfaglegt teymi hjúkrunarfræðinga, lækna, líffræðinga og lífeindafræðinga og starfa meðlimir þess innan þriggja eininga LSH:

• Dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga (11B)

• Blóðbankans

• Legudeild blóð- og krabbameinslækninga (11EG)

Haldnir eru reglulegir teymis- og gæðafundir. Teymið byggir starf sitt og verklag á gæðastöðlum EBMT (evrópsku stofnfrumu- og beinmergssamtakanna).

Byggst hefur upp sérhæfð þekking á sviði stofnfrumuhjúkrunar. Sex hjúkrunarfræðingar eru í stofnfrumuteymi á krabbameinssviði sem vinna sérhæfð störf er lúta að meðferðinni, til viðbótar við hjúkrunarfræðinga í blóðbankanum og á dag- og legudeild blóðog krabbameinslækninga.

Hvað er eigin stofnfrumumeðferð?

Þó að nafnið gefi til kynna að stofnfrumurnar séu lækningin í meðferðinni þá er það ekki svo, heldur er það háskammta krabbameinslyfjameðferðin. Í sumum tilfellum er hægt að nýta stofnfrumur sjúklingsins sjálfs í meðferð hans (eigin stofnfrumumeðferð) en í öðrum tilfellum er það ekki hægt og þá þarf að leita eftir stofnfrumugjafa (beinmergsígræðsla).

Sú meðferð er framkvæmd í Svíþjóð. Í þessari grein er eingöngu fjallað um eigin stofnfrumumeðferð en ekki um stofnfrumumeðferð með stofnfrumum frá gjafa (beinmergsígræðslu).

Í eigin stofnfrumumeðferð er blóðmyndandi stofnfrumum safnað hjá sjúklingnum sjálfum og þær svo gefnar sjúklingnum til baka í kjölfar háskammta krabbameinslyfjameðferðar til þess að endurvekja starfsemi beinmergsins (mynd 1). En skoðum þetta ferli aðeins betur.

Blóðmyndandi stofnfruma

Mergfrumuforveri

Mergkímfruma

Eitilfrumuforveri

Eitilkímfruma

Blóðflögur Basophil Neutrophil Eosinophil Monocyte T-eitilfruma B-eitilfruma Rauð blóðkorn

Hvít blóðkorn

Mynd 1. Stofnfrumur og myndun blóðfruma.

Meðferðarferlið og eftirfylgd

Stofnfrumumeðferðarferlið í heild sinni (mynd 2) getur tekið allt upp í ár, frá því stofnfrumum er safnað og þar til endurhæfingu og bólusetningum eftir meðferð lýkur. Eigin stofnfrumumeðferð er meðferð sem sjúklingum er veitt við nokkrum tegundum illkynja krabbameina (oftast mergæxli eða eitilfrumukrabbamein).

Meðferðin er krefjandi bæði líkamlega og andlega fyrir sjúklinginn. Því er hún eingöngu valkostur fyrir sjúklinga sem standast ákveðin heilsufarsleg viðmið t.d. með tilliti til starfsemi hjarta og lungna.

Meðferðin felur í sér gjöf háskammta krabbameinslyfjameðferðar sem ýmist er gefin í læknandi skyni eða til að koma undirliggjandi

illkynja sjúkdómi í sjúkdómshlé. Allir sjúklingar byrja fyrst á því að fara í almenna krabbameinslyfjameðferð við sínum sjúkdómi til að ná sjúkdómnum niður. Hjá sjúklingum sem ekki eru í læknanlegri meðferð (mergfrumuæxli) er eigin stofnfrumumeðferð oft fyrstu línu meðferð. Hjá öðrum (sumum tegundum eitilfrumukrabbameins) er stofnfrumumeðferð yfirleitt annarrar línu krabbameinsmeðferð þ.e. ef sjúkdómur sjúklings hefur ekki svarað nægilega vel sinni hefðbundnu fyrstu línu meðferð.

Háskammta krabbameinslyfjameðferð getur valdið ýmsum alvarlegum aukaverkunum. Ein þeirra er mikil beinmergsbæling. Gjöf stofnfruma er þess vegna lífsnauðsynleg til að meðhöndla beinmergsbælinguna sem meðferðin veldur. Sjúklingurinn fær sínar eigin stofnfrumur um sólarhring eftir að háskammtameðferð er lokið. Helstu aukaverkanir sem geta komið fram í kjölfar meðferðarinnar eru sýkingar, blæðingarhætta, blóðleysi, þreyta, slímhúðarbólga o.fl. Það tekur stofnfrumurnar um tvær vikur að koma sér fyrir í beinmergnum og byrja að framleiða lífsnauðsynlegar blóðfrumur aftur. Þegar beinmergsframleiðslan er orðin eðlileg á ný léttir á mörgum aukaverkunum sem fylgja beinmergsbælingunni s.s. sýkingarhættu, blóðleysi og blæðingarhættu. Algengt er að legutími sjúklinga eftir háskammtameðferð sé um þrjár til fjórar vikur og að stórum hluta þess tíma eru sjúklingar í varnareinangrun.

Þrátt fyrir að sjúklingur sé útskrifaður heim að meðferð lokinni getur hann enn upplifað ýmsa fylgikvilla. Sjúklingar eru því í eftirliti á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga, þar sem fylgst er með líðan þeirra. Algengt er að sjúklingar upplifi þreytu, meltingaróþægindi, orkuleysi, kvíða og önnur einkenni eftir útskrift. Ónæmisminni getur líka þurrkast út og því þarf að endurbólusetja þennan sjúklingahóp. Endurhæfing er mikilvægur þáttur í meðferðarferli sjúklings til að ná aftur upp líkamlegu og andlegu þreki. Gott samstarf er við fagaðila á sviði endurhæfingar en endurhæfingarteymi LSH, Ljósið og Reykjalundur eru þar í lykilhlutverki.

STOFNFRUMUSÖFNUN

Undirbúningur og tilfærslumeðferð

Stofnfrumusöfnun

Dagdeild 11B (3 vikur)

Stofnfrumur geymdar í Blóðbankanum

Mynd 2. Yfirlit yfir ferli eigin stofnfrumumeðferða.

Undirbúningur og háskammtameðferð

Inngjöf stofnfruma

Samvinna hjúkrunar innan og utan LSH

Hjúkrun sjúklinga sem fara í eigin stofnfrumumeðferð er flókin og krefst sérhæfðrar þekkingar. Hjúkrunarfræðingar í stofnfrumuteymi LSH sinna sérhæfðum störfum er tengjast söfnun og ígræðslu stofnfruma, bæði undirbúning, framkvæmd og eftirfylgd. Þrátt fyrir að stofnfrumuteymið sinni sérhæfðum hluta meðferðarinnar þá er hjúkrun sjúklinganna eftir meðferð í höndum hjúkrunarfræðinga á dag- og legudeilda blóð- og krabbameinslækninga. Þar er tekist á við flókna hjúkrunarmeðferð við aukaverkunum og einkennum sem sjúklingar upplifa bæði líkamlega og andlega ásamt því styðja sjúklinga og aðstandendur þeirra.

Þessi sjúklingahópur getur einnig þurft stuðning hjúkunarfræðinga á öðrum stöðum innan heilbrigiskerfisins eins og á heilsugæslustöðvum sem og sjúkrahúsum utan höfuðborgarsvæðisins. Eigin stofnfrumumeðferð krefst því samvinnu hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna alls staðar í heilbrigðiskerfinu.

Að lokum

Hjúkrun stofnfrumusjúklinga er flókin og krefst sérhæfingar en um leið er hún mjög áhugaverð og spennandi. Árangur af eigin stofnfrumumeðferð á Íslandi er góður og stenst vel samanburð við nágrannalönd okkar (Alexander Sigurðsson, 2018). Mikil gróska hefur verið í þróun bæði nýrra lyfja og frumumeðferða og spennandi verður að sjá hvernig það mun hugsanlega breyta landslagi í meðferðarvali fyrir sjúklinga í framtíðinni. Það er því margt spennandi fram undan í hjúkrun á þessu sviði. Í nóvember 2025 verður haldin í Reykjavík samnorræn hjúkrunarráðstefna um frumumeðferðir sem er opin öllum hjúkrunarfræðingum og vonandi sjáum við sem flesta þar. Upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar og skráningarhlekkur mun birtast Facebook-síðu NBMT (Nordic Blood and Marrow Transplant Nurses – https://www. facebook.com/NBMTnurses/

Varnareinangrun

Legudeild 11EG (c.a 3 vikur)

Nokkrar staðreyndir

Útskrift heim Eftirlit Bólusetningar Endurhæfing

Næstu mánuðir

• Á ári hverju fara að meðaltali um 15-20 sjúklingar í eigin stofnfrumumeðferð

• Langalgengast er að meðferðin sé veitt sjúklingum sem eru með mergæxli eða eitilfrumukrabbamein

• Meðaldur sjúklinga sem þiggja meðferðina er um 57 ár, en meðferðin er veitt fólki á aldrinum 18-70 ára

• Sjúklingar eru inniliggjandi í að meðaltali þrjár til fjórar vikur eftir háskammtameðferðina á meðan helstu aukaverkanir ganga yfir og þar til beinmergurinn fer að starfa á ný

• Frá 2004 til apríl 2024 hafa um 390 eigin stofnfrumumeðferðir verið framkvæmdar á Íslandi

Heimild: Alexander Sigurðsson (2018). Háskammta krabbameinslyfjameðferð með eigin stofnfrumuígræðslu á Landspítala háskólasjúkrahúsi 2004-2017. Skemman. https://skemman.is/bitstream/1946/30411/1/Alexander_Sigurdsson-Haskammta_Stofnfrumur-BS.pdf

Höfundar

ÍNA RÓS JÓHANNESDÓTTIR

STEINUNN INGVARSDÓTTIR

HELGA SIF FRIÐJÓNSDÓTTIR

Innleiðing heilsufarsmats í geðhvarfateymi

á geðsviði Landspítala

Lífslíkur almennings hafa aukist undanfarna áratugi og gegna framfarir á sviði heilbrigðisvísinda þar stóru hlutverki. Lífslíkur einstaklinga sem glíma við alvarlega geðsjúkdóma hafa ekki fylgt þessari þróun og er meðalævi hópsins áætluð 15-20 árum styttri en hjá öðrum hópum samfélagsins. Geðhvarfasjúkdómur flokkast sem alvarlegur og oft langvinnur geðsjúkdómur (NHS, 2016) sem einkennist af veikindalotum þar sem miklar og ýktar sveiflur verða á geðslagi. Talið er að sjúkdómurinn hrjái um 1 % mannkyns og er meðalaldur við greiningu um 20 ár. Geðhvarfasjúkdómur er leiðandi ástæða fötlunar (e. disability) hjá ungu fólki í heiminum og veldur hömlun í daglegu lífi með verulegri skerðingu á lífsgæðum (Grande o.fl., 2016; Rabelo o.fl., 2021). Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að meðalævi einstaklinga með geðhvörf er um 13 árum styttri en hjá almennu þýði. Ástæður þessarar ævistyttingar má rekja að hálfu til slaks líkamlegs heilsufars hópsins með tilheyrandi alvarlegum og lífsógnandi sjúkdómum og að hálfu til slysa eða sjálfsvíga (Chan o.fl., 2022).

Heilsufarsvandi einstaklinga sem glíma við geðhvörf Hayes og félagar (2015) gerðu kerfisbundna samantekt á þróun á lífslíkum einstaklinga með geðhvörf. Niðurstöður þeirra benda til þess að lífslíkur hópsins séu svipaðar og hjá almennu þýði um miðja síðustu öld og að vísbendingar séu um að bilið milli hópanna fari vaxandi. Rannsóknir á heilsufari einstaklinga með geðhvörf sýndu að hópurinn var líklegri en samanburðarhópur úr almennu þýði til að glíma við líkamlega sjúkdóma af ýmsum toga, svo sem hjarta- og æðasjúkdóma, lungnasjúkdóma, sykursýki og nýrnasjúkdóma. Einstaklingarnir voru einnig líklegri til að glíma við margþættan líkamlegan vanda, alvarlegri sjúkdómseinkenni og sjúkdómsbyrði innan hópsins mældist almennt meiri (Smith o.fl., 2013).

Ástæður fyrir heilsufarsvanda einstaklinga með geðhvörf eru margþættar og flóknar þar sem aukaverkanir lyfja, óheilbrigður lífsstíll og ófullnægjandi þjónusta frá heilbrigðiskerfinu koma við sögu (Happell o.fl., 2016). Einstaklingar með geðhvörf virðast síður fá, eða fá verulega seinkaða nauðsynlega viðeigandi meðferð við alvarlegum sjúkdómum eins og hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini og lungnasjúkdómum. Orsakir fyrir þessu eru óljósar, einn áhrifaþáttur er talinn tengjast neikvæðu viðhorfi heilbrigðisstarfsfólks í garð einstaklinga með geðhvörf og/eða skorti á vitund hópsins gagnvart eigin heilsu (Nilsen o.fl., 2019).

Af hverju fá notendur með geðrænar áskoranir verri heilbrigðisþjónustu?

Í kerfisbundinni samantekt (e. systematic review) Molloy og félaga (2021) á eigindlegum rannsóknum var viðhorf fagaðila og

notenda, sem glíma við alvarlega geðsjúkdóma, til almennrar heilbrigðisþjónustu skoðað. Markmiðið var að leita skýringa á því af hverju einstaklingar sem glíma við alvarlega geðsjúkdóma fá lakari heilbrigðisþjónustu þegar kemur að líkamlegum kvillum. Niðurstöður leiddu í ljós að bæði fagaðilar og einstaklingarnir upplifðu mismunun í þjónustunni og fordóma gagnvart hópnum. Einstaklingarnir upplifðu að á þá væri oft ekki hlustað. Þeir nefndu sem dæmi að kvartanir þeirra um líkamleg einkenni væru ekki teknar alvarlega og jafnvel upplifðu að þeim væri hreinlega ekki trúað. Þeir greindu einnig frá því að finna fyrir óöryggi fagfólks í sinn garð og upplifðu fordóma því tengdu. Þá sögðu einstaklingarnir frá því að þessi upplifun leiddi oft til þess að þau fyndu fyrir tortryggni í garð fagaðila og heilbrigðiskerfisins með þeim afleiðingum að þeir drógu að leita sér aðstoðar. Fagfólk taldi hins vegar að ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu mætti rekja til þátta eins og aðstöðuleysis innan almennra deilda, ófullnægjandi þekkingar og óöryggi fagfólks. Þá virðist samræmi í upplifun aðstandenda og einstaklinganna sem glíma við alvarlega geðsjúkdóma af almennri heilbrigðisþjónustu. Í samantektarrannsókn Ho og félaga (2022) kom til dæmis fram að aðstandendur upplifðu að skortur á viðunandi aðstöðu, ófullnægjandi þekking meðal fagaðila og samskiptaerfiðleikar væru ástæður þess að einstaklingar með geðrænar áskoranir fengu verri heilbrigðisþjónustu vegna líkamlegra vandamála en aðrir.

Þjónusta geðhvarfateymis Landspítala

Geðhvarfateymi er þverfaglegt göngudeildarteymi í geðþjónustu Landspítala. Markhópur teymisins eru einstaklingar á aldrinum 18-50 ára sem hafa sögu um eina til þrjár sjúkdómslotur. Teymið veitir heildræna þjónustu og meðferð sem felur í sér að mæta lífsálfélagslegum þörfum notenda. Hjúkrunarfræðingar teymisins eru í kjöraðstöðu til að þróa snemmtækar íhlutanir þar sem markmiðið er heilsuefling og að fyrirbyggja eða hægja á framgangi líkamlegra kvilla. Nálgun hjúkrunar er einstaklingsmiðuð og heildræn, byggir á faglegri færni, gagnreyndum aðferðum, myndun meðferðarsambands og samvinnu (Brennan og Sakellari, 2022; Hardy og Thomas, 2012; Tracy og Blumenthal, 2023). Geðhjúkrunarfræðingar gegna sérlega mikilvægu hlutverki í þessu sambandi. Nálægð þeirra við notendahópinn eykur á möguleika þeirra til að koma auga á áhættuþætti og/eða snemmbær einkenni og veita skjólstæðingum sínum meðferð og/eða stuðning til að bregðast við (Brennan og Sakellari, 2022; Hardy og Thomas, 2012; NHS, 2016).

Ákveðið var að innleiða heildrænt heilsufarsmat, framkvæmt af hjúkrunarfræðingum fyrir notendur í þjónustu geðhvarfateymisins. Með innleiðingunni var leitast eftir að skoða hvort heildrænt

heilsufarsmat framkvæmt af hjúkrunarfræðingum gæti greint áhættuþætti, frávik og/eða heilsufarsvanda hjá notendum geðhvarfateymis Landspítala.

Heilsufarsmat

Á undanförum árum hafa verið gefnar út leiðbeiningar sem er ætlað að vísa veginn til að bregðast við vel þekktum líkamlegum heilsuvanda einstaklinga sem glíma við alvarlega geðsjúkdóma (NHS, 2016; NHS England, 2018; NICE, 2014; NICE, 2015; World Health Organization, 2018). Í samþættri heimildasamantekt (e. integrative review) Tranter og félaga (2012) var leitast eftir að skoða árangur þeirra íhlutana sem ólíkar leiðbeiningar fela í sér. Þar er íhlutunum skipt upp í þrjú meginþemu: heilsufarsmat (e. assessment), heilbrigðisfræðslu (e. health education) og margþætta íhlutun (e. multimodal intervention). Flokkunin undirstrikar mikilvægi heilsufarsmats sem fyrsta skref í ferli sem er ætlað að hafa jákvæð áhrif á heilsufar einstaklinga með alvarlegan geðsjúkdóm. Leiðbeiningum ber saman um nauðsyn þess að framkvæma heilsufarsmat með kerfisbundnum hætti árlega. Brennan og Sakellari (2022) leggja til að matslistar sem notaðir eru í heilsufarsmat séu sérstaklega aðlagaðir að markhópnum.

Skortur er á marktækum rannsóknum á gagnsemi heilsufarsmats (Brennan og Sakellari, 2022; Tranter o.fl., 2012). Brennan og Sakellari (2022) telja að þrátt fyrir þá staðreynd sé nauðsynlegt að framkvæma heilsufarsmat enda sé það fyrsta raunhæfa skrefið til að ákvarða næstu mögulegu aðgerðir. Er það í samræmi við áherslur hjúkrunarferlisins en þar er mat fyrsta mikilvæga skrefið af fimm þegar kemur að framkvæmd hjúkrunar (Toney-Butler og Thayer, 2022).

Heilsufarsmat er íhlutun sem hjúkrunarfræðingur getur framkvæmt reglulega og felur í sér heildrænt, kerfisbundið mat á ástandi notanda (Vigini o.fl., 2015). Markmið heilsufarsmats er að meta almennt heilsufar einstaklings, koma auga á áhættuþætti og snemmbær einkenni til að geta brugðist við og þannig fyrirbyggt þróun mögulegs heilsufarsvanda. Líkan um samfellu frá forvörnum til endurhæfingar og bata, eins og því er lýst í handbókinni Reducing Risk for Mental Disorders (Mrazek og Haggerty, 1994) fellur vel að notkun heilsufarsmats til að standa vörð um líkamlega heilsu einstaklinga með alvarlega geðsjúkdóma (sjá mynd 1).

og bata þar sem litið er á allt ferlið sem forvörn í sjálfu sér því markmiðið á öllum stigum er að koma í veg fyrir óæskilega framvindu.

Þegar vandi er flókinn og margþættur er gjarnan verið að vinna með einstaklingi á fleiri en einu stigi, svo sem þegar verið er að veita samþætta meðferð við vanda og á sama tíma að hindra þróun algengra fylgikvilla (Mrazek og Haggerty, 1994). Heilsufarsmat hjá einstaklingum með geðhvörf flokkast sem valkvæð forvörn þar sem hún felur í sér kerfisbundið og reglulegt mat á undirhóp með þekkta áhættuþætti umfram aðra. Aðgerðir sem gripið er til í framhaldi heilsufarsmats getur talist til valkvæðra forvarna, viðbragðsforvarna, frumgreininga og snemmtækra íhlutana.

Að innleiða nýjung í geðheilbrigðisþjónustu Þegar gera á breytingar til bóta í heilbrigðisþjónustu er lykilatriði að vinna þær á markvissan og kerfisbundinn hátt. Undanfarna áratugi hefur The Institute for Healthcare Improvement (IHI) verið leiðandi á sviði aðferðafræði breytinga sem miða að því að auka gæði og öryggi í heilbrigðisþjónustu (MacEachern o.fl., 2023). Grunnstoð aðferðafræði IHI er umbótalíkanið (e. Model for Improvement) (sjá mynd 2) sem byggir á vísindalegum og gagnreyndum grunni og á rætur sínar að rekja til kenninga W. Edwards Demning um djúpstæða þekkingu, Evertt Rogers um innleiðingar á nýjungum og breytingahring Walter Stewart (Associates in Process Improvement, 2023; NHS England and NHS Improvement, 2022). Líkanið felur í sér aðferðir til að þróa, prófa, mæla árangur og innleiða nýjungar í heilbrigðisþjónustunni með það að markmiði að hámarka líkur á að breytingar leiði raunverulega til bóta (NHS England and NHS Improvement, 2022). Notast var við umbótalíkan IHI við innleiðingu á heildrænu heilsufarsmati geðhvarfateymis.

Mynd 1. Líkan um samfellu frá forvörnum til endurhæfingar. (Stjórnarráð Íslands, heilbrigðisráðuneytið, 2021)

Líkanið byggir á þeirri þekkingu að orsakasamhengi í þróun heilsufarsvanda er ekki línulegt og skýrt. Þvert á móti er flækjustigið mikið og sjaldan ljóst hvernig samspil og víxlverkun áhættuog verndandi þátta leiðir til ákveðinnar útkomu. Líkanið lýsir heildstæðri samfellu allt frá altækum forvörnum til endurhæfingar

Í upphafi breytingarferlisins var horft til geðhvarfateymisins og hvernig hægt væri að bæta hjúkrunarþjónustu fyrir notendur. Leitast var við að svara spurningum umbótalíkans IHI.

Mynd 2. Umbótalíkan IHI (e. Model for Improvement). (Associates in Process Improvement, 2023; Embætti landlæknis, 2018)

• Hverju viljum við ná fram (markmið)?

Eftir talsverðar vangaveltur og samráð við starfsfólk geðhvarfateymisins var viðfangsefni ákveðið, að taka fyrsta skref í átt að því að standa vörð um líkamlega heilsu notenda geðhvarfateymisins með innleiðingu á heildrænu heilsufarsmati fyrir alla.

• Hvernig vitum við að breytingin muni leiða til umbóta (mat á árangri)?

Ákveðið var að meta árangur verkefnisins með því annars vegar að mæla hlutfall notenda, sem hefja meðferð hjá geðhvarfateyminu á níu mánaða tímabili, er fá boð um heilsufarsmat hjá hjúkrunarfræðingi og hins vegar að skoða niðurstöður einstakra heilsufarsmata til að fá vísbendingu um gagnsemi þeirra.

• Hvaða breytingar er hægt að gera sem munu leiða til umbóta (hvað á að prófa)?

Til að tryggja markvissa framkvæmd heilsufarsmats var ákveðið að nota matslista sem leiðarvísi við framkvæmdina.

Áætlanagerð umbótaverkefnisins

Eftir að verkefnið hafði verið skilgreint með umbótalíkani IHI var hafist handa við áætlanagerð. Áætlanagerð er í raun umfangsmesti hluti ferlisins og felur meðal annars í sér að greina vanda og skipuleggja breytingarnar. Til að greina vandann var gagna aflað með leit í viðurkenndum gagnasöfnum, fræðiritum um geðhvarfasjúkdóminn (Joseph og Mok, 2010; Yalin o.fl., 2017) og geðhjúkrun (Brennan og Sakellari, 2022) ásamt því að skoða viðurkenndar klínískar leiðbeiningar (NHS, 2016; NHS England, 2018; NICE, 2014; NICE, 2015; World Health Organization, 2018) er vörðuðu viðfangsefnið. Niðurstöður greiningar hafa verið kynntar hér á undan í umfjöllun um heilsufarsvanda einstaklinga sem glíma við geðhvörf og upplifun hagaðila að heilbrigðisþjónustu. Matslistar sem gjarnan eru notaðir við heilsufarsmat hjá einstaklingum sem glíma við alvarlega geðsjúkdóma voru rýndir (Perry o.fl., 2023; 2014; Rethink Mental Illness, 2018; White o.fl., 2010), þeir þóttu ekki falla að þörfum hópsins með fullnægjandi hætti. Því var ákveðið að sérútbúa matslista sem að miklu leyti byggðist á Health Improvement Profile (HIP) (White o.fl., 2010). Framkvæmd umbótaverkefnisins byggði á niðurstöðum greiningarvinnunnar. Ákveðið var að setja upp stigun áþekka þeirri sem er að finna á áðurnefndum matslista. Þar eru niðurstöður matsins stigaðar og auðkenndar með grænum, gulum eða rauðum lit. Klínískt mat hjúkrunarfræðings á alvarleika og umfangi frávika liggur til grundvallar stigunar heilsufarsmatsins. Stigun hvers heilsufarsmats væri klínískt mat hjúkrunarfræðings á alvarleika frávika og umfangi nauðsynlegra viðbragða. Mat sem stigað yrði með grænum lit ætti við þar sem frávik væru metin lítil sem engin og krefðust ekki eftirfylgdar utan við áframhaldandi valkvæða forvörn. Mat stigað með gulum lit ætti við þar sem frávik væru einhver og eftirfylgd á formi viðbragðsforvarna væri þörf. Rauð stigun ætti við mat þar sem frávik mældust veruleg og íhlutun fæli í sér fjölfaglega eftirfylgd innan eða utan teymis. Rauð stigun gæti í framhaldi krafist íhlutana sem gætu talist til viðbragðsforvarna á nokkrum matsþáttum, frumgreiningaíhlutana og/eða snemmtækra íhlutana. Viðmiðunargildi og möguleg viðbrögð skráð í matslistann voru unnin upp úr HIP-listanum. Matslistann má sjá í fylgiskjali 1

Framkvæmd og athugun

Forprófun aðlagaðs matslista var gerð í heildrænu heilsufarsmati þriggja notenda geðhvarfateymis. Auk þess var tímalengd undirbúnings, viðtals og úrvinnslu mæld og reyndist vera töluvert lengri en áætlað var í upphafi eða um 90-110 mínútur fyrir

hvert heilsufarsmat. Við forprófun komu fram vísbendingar um gagnsemi heilsufarsmatsins en tveir af þremur einstaklingum þurftu frekari eftirfylgd og stuðning vegna heilsufarsvanda sem ekki var þekktur áður.

Markviss lagfæring Í kjölfar forprófunar var matslisti endurskoðaður og skýrari rammi mótaður fyrir mat og stigun hvers viðtals fyrir sig. Á næstu misserum áttu sér stað athuganir og markvissar lagfæringar með reglulegu millibili þar sem ýmsar smávægilegar breytingar voru gerðar á matslista og framkvæmd heilsufarsmatsins.

Árangursmat

Innleiðing heildræns heilsufarsmats framkvæmt af hjúkrunarfræðingum fyrir notendur geðhvarfateymisins er vel á veg komin. Þróun og prófun matslista og samhæfing stigunar heilsufarsmatsins er lokið. Verklag er lýsir framkvæmd heilsufarsmatsins hefur verið mótað í samráði við starfsfólk geðhvarfateymisins og tekið í notkun. Flýtitexti fyrir skráningu var útbúinn og er í notkun. Unnið er að tölvutækum lausnum og tengingu gagna við Sögu og Heilsugátt.

Umbótaverkefnið var árangursríkt því niðurstöður sýna að 30 af 34 (88%) þeirra sem hófu meðferð hjá geðhvarfateyminu á ákveðnu tímabili var boðið að fara í heildrænt heilsufarsmat og þáðu 28 (82%) boðið. Þá voru niðurstöður þessara 28 heilsufarsmata rýndar og eins og sjá má á mynd 3 þurftu 18 einstaklingar (64%) á frekari íhlutun að halda og af þeim þurftu 10 (36%) fjölþætta íhlutun.

Lokaorð

Erfitt er að spá fyrir um hvort og þá hvenær líkamlegur heilsufarsvandi einstaklinganna sem voru í þörf fyrir einfalda eða fjölþætta íhlutun hefði uppgötvast. Áður hefur komið fram að einstaklingar með geðhvörf fá viðeigandi heilbrigðiþjónustu vegna líkamlegra vandamál seinna en aðrir með tilheyrandi afleiðingum. Niðurstöður þessa umbótaverkefnis sýna að tækifæri til heilsueflingar þessa hóps felast að miklu leyti í innleiðingu kerfisbundins heildræns heilsufarsmats í sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu á borð við geðhvarfateymi Landspítala. Æskilegt næsta skref til umbóta er að bjóða öllum þjónustuþegum geðhvarfateymisins upp á árlegt heilsufarsmat líkt og mælt er með í klínískum leiðbeiningum. Þá er mikilvægt að hefja markvissa og reglubundna vöktun líkamsþyngdar og þyngdarbreytinga skjólstæðingahópsins í tengslum við vissa geðlyfjameðferð. Í ferlinu kom jafnframt í ljós þörf fyrir aukinn stuðning við skjólstæðingahópinn þegar kemur að lífsstílsbreytingum. Hægt

Mynd 3. Stigun eftir heilsufarsmat.

Ofnæmi/óþol

Mat skjólstæðings á eigin líkamlegu heilsufari

Almennt heilsufar og líkamlegir sjúkdómar

Slys sem hafa haft áhrif á líkamlegt heilsufar

Skurðaðgerðir

Verkir

Ættarsaga um:

• Hjarta- og æðasjúkdóma

• Háþrýsting

• Hækkaðar blóðfitur

• Sykursýki, tegund II

• Annað

Hæð

Þyngd

BMI

Kviðarholsummál

Blóðþrýstingur

Púls

Hiti

Blóðrannsóknir

• Blóðhagur og deilitalning

• Na, K, krea, TSH

• Lifrarpróf (ALAT, ALP, ASAT)

• Blóðfitur (HDL og LDL), kólesteról, þríglýseríð

• Fastandi blóðsykur

• Langtímablóðsykur (HBA1C)

Þátttaka í skimunum fyrir:

• leghálskrabbameini

• brjóstakrabbameini

Tannheilsa

Melting

Lífsstílsþættir

Svefn

Hreyfing

Næring/fæðuvenjur

• Regluleg/óregluleg fæðuinntaka

Áfengi og/eða vímuefni

• Saga um núverandi og fyrri notkun áfengis og vímuefna

Koffín

Reykingar

• Nú • Fyrri saga

Nikótín

• Nú • Fyrri saga

Kynhegðun/upplifun:

• Notkun getnaðarvarna

Konur:

• Barneignir

• Einkenni frá kvenlíffærum: óreglulegar blæðingar, verkir, breytingar á útferð

Félagsleg staða

• Kortlagning stuðningsaðila

Virkni

• Kortlagning á virkni

Þyngdaraukning/þyngdartap um 5 kg eða meira á sl. 3 mánuðum. Saga um þyngdarbreytingar.

18,5-25

Kvk: <80 cm KK: >90 cm

140/90 mmHg

60-100 sl/mín

37-38 gráður

Áhættuþáttur fyrir sykursýki: HbA1C: 42-47 mmol/mol Fastandi glúkóski: 5,5-6,9 mmol/l. Sykursýki: HbA1c: >48 mmol/mol, Fastandi glúkósi >7mmol/l Mæling >11 ef ekki fastandi

3 ára fresti hjá konum á aldrinum 23-29 ára og

5 ára fresti hjá konum á aldrinum 30-64 ára.

2 ára fresti hjá konum á aldrinum 40-69 ára.

Tannskemmdir, glerungsgallar.

Hefur viðkomandi sótt tannlæknaþjónustu á sl. ári?

Hægðatregða Linar hægðir Niðurgangur Annað

7-8 klst. á nóttu

30 mínútur daglega

Mat á einkennum átröskunar Lystarleysi

Áhættusöm/ skaðleg neysla áfengis, ánetjun/fíkn

Ef þörf er á ýtarlegri kortlagning

AUDIT-matslisti

DUTID-matslisti

Skráning í snjókorn

Hjartalínurit ef áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma

Yfirfara lyfjameðferð og íhuga að breyta yfir í lyf sem hefur minni áhrif á þyngdarstjórnunarkerfi.

Lífsstílsráðgjöf og stuðningur varðandi næringu og hreyfingu. Skoða notkun á sykursýkislyfjum til að hafa áhrif á efnaskipti.

BMI <18,5 frekari rannsóknir framkvæmdar

BMI >25 lífsstílsráðgjöf og stuðningur varðandi næringu og hreyfingu.

Skoða þarf blóðþrýsting í tengslum við aðra áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma. Áframhaldandi eftirlit innan teymis.

Lífsstílsráðgjöf og stuðningur varðandi næringu og hreyfingu. Tilvísun til heimilislæknis m.t.t. blóðþrýstingslækkandi lyfja.

Hjartalínurit

Hafa í huga Neuroleptic Malignant syndrome

Tilvísun til heimilislæknis/lífsstílsmóttöku heilsugæslunnar. Lífsstílsráðgjöf Tilvísun til heimilislæknis eða innkirtlasérfræðings í völdum tilfellum.

Hvatning, áætlun, eftirfylgd

Hvatning, áætlun, eftirfylgd

Ráðgjöf m.t.t. næringar, fæðubótarefna, lausasölulyfja sem hafa áhrif á meltingu.

Tilvísun til heimilislæknis, meltingarsérfræðings í völdum tilfellum.

Ráðgjöf, áætlun, eftirfylgd

Ráðgjöf, áætlun, eftirfylgd

Ráðgjöf, áætlun, eftirfylgd

Ráðgjöf, áætlun, eftirfylgd, vísan í viðeigandi úrræði

Ráðgjöf, áætlun, eftirfylgd

Ráðgjöf, áætlun, eftirfylgd

Ráðgjöf, áætlun, eftirfylgd

er að sjá fyrir sér slíkan stuðning með tvenns konar hætti. Annars vegar einstaklingsbundinn stuðning með eftirfylgdarsamtölum í kjölfar heildræns heilsufarsmats byggðu á áhugahvetjandi samtali, þar sem til umræðu væru lífsstílsþættir og lífsstílsbreytingar. Hins vegar þróun lífsstílsnámskeiða fyrir fólk með alvarlega geðsjúkdóma með líkamlegan heilsufarsvanda eða áhættuþætti fyrir líkamlegum vanda. Til viðbótar væri mikilvægt næsta skref að hefja samtal við aðra samtarfs- og hagsmunaaðila um þróun samstarfs um heilbrigðisþjónustu við skjólstæðingahópinn þegar kemur að líkamlegu heilsufari. Ber þar fyrst að nefna heilsugæsluna, sem vissulega er fyrsti viðkomustaður okkar allra í heilbrigðiskerfinu.

HEIMILDASKRÁ

Associates in Process Improvement. (2023). Forsíða. http://www.apiweb.org/ Brennan, G. og Sakellari, E. (2022). Interface between physical and mental health. Í Higgins, A., Kilikku, N. og Kristofersson, G. K. (ritstj.). Advanced Practice in Mental Health Nursing: A European Perspective (bls. 249-275). Springer. Chan, J. K. N., Tong, C. H. Y., Wong C. S. M., Chen, E. Y. H. og Chang, W.C. (2022). Life expectancy and years of potential life lost in bipolar disorder: systematic review and meta-analysis. British Journal of Psychiatry, 221(3), 567-576. https://doi.org/10.1192/bjp.2022.19 Embætti landlæknis. (2018). Áætlun um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu 2019-2030. Embætti landlæknis. Aaetlun_um_gaedathroun____heilbrigdisthjonustu.pdf (ctfassets.net) Grande, I., Berk, M., Birmaher, B. og Viete, E. (2016). Bipolar disorder. Lancet, (387), 1561-1573. https://doi.org/10.1016/S0140-6736(15)00241-X

Happell, B., Ewart, S. B., Bocking, J., Platania-Phung, C. og Stanton, R. (2016). 'That red flag on your file: Misinterpreting physical symptoms as mental illness. Journal of Clinical Nursing, 25 (19-20), 2933-2942. https://doi.org/10.1111/jocn.13355

Hardy, S og Thomas, B (2012). Mental and physical health comordibity: political imperatives and practice implications. International Journal og Mental Health Nursing, 21(3), 289-298. https://doi:10.1111/j.1447-0349.2012.00823.x

Hayes, J. F., Miles, J., Walters, K., King, M. og Osborn, D. P. (2015). A systematic review and meta-analysis of premature mortality in bipolar affective disorder. Acta Psychiatrica Scandinavica, 131(6), 417-25. https://doi.org/10.1111/acps.12408

Heilbrigðisráðuneytið. (2021). Framtíðarskipulag heilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni með neyslu- og fíknivanda: Skýrsla starfshóps. Heilbrigðisráðuneytið. https://www.stjornarradid. is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Sk%C3%BDrsla_ungmenni%20 og%20vimuefni_lokautgafa_140621.pdf

Ho, L. L., Li, Y., Gray, R., Ho, G. W. K og Bressington, D. (2022). Experiences and views of carers regarding the physical health care of people with severe mental illness: An integrative thematic review of qualitative research. Journal of Psychiatric Mental Health Nursing, 29(6), 774-787. https://doi.org/10.1111/jpm.12804

Joseph, C. J. og Mok, Y. M. (2010). Physical health issues. Í A. H. Young, N. Ferrier og E. El Michalak (ritstj.), Practical Management of Bipolar Disorder (bls. 106-119). Cambridge University Press. MacEachern, L., Ginsburg, L. R., Hoben, M., Doupe, M., Wagg, A., Knopp-Sihota, J. A., Cranley, L., Song, Y., Estabrokks, C. A. og Berta, W. (2023). Developing a tool to measure enactment of complex quality improvement interventions in healthcare. BMJ Open Quality, 12 https://doi.org/10.1136/bmjoq-2022-002027

Molloy, R., Brand, G., Munro, I. og Pope, N. (2021). Seeing the complete picture: A systematic review of mental health consumer and health professional experiences of diagnostic overshadowing. Journal of Clinical Nursing, 00, 1-12. https://doi.org/10.1111/jocn.16151

Mrazek, P.J. og Haggerty, R.J. (1994). Reducing Risk for Mental Disorders: Frontiers for Preventive Intervention Research. National Academy Press.

NHS. (2016). Improving the physical health of people with mental health problems: Actions for mental health nurse. GOV.UK. https://assets.publishing.service.gov.uk/government/uploads/ system/uploads/attachment_data/file/532253/JRA_Physical_Health_revised.pdf

NHS England. (2018). Improving physical healthcare for people living with severe mental illness (SMI) in primary care: guidance for CCGs. NHS England » Improving the physical health of people living with severe mental illness (SMI)

NHS England and NHS Improvement. (2022). Quality, Service Improvement and Redesign Tools:Plan, Do, Study, Act (PDSA) cycles and the model for improvement. NHS England. https:// www.england.nhs.uk/wp-content/uploads/2022/01/qsir-pdsa-cycles-model-for-improvement. pdf

NICE. (2014). Bipolar disorder in adults. Bipolar disorder: assessment and management (nice.org.uk) NICE. (2015). Psychosis and schizophrenia in adults. Psychosis and schizophrenia in adults (nice.org.uk)

Nielsen, R. E., Kugathasan, P., Straszek, S., Jensen S. E. og Licht, R. W. (2019). Why are somatic diseases in bipolar disorder insufficiently treated? International Journal of Bipolar Disorders, 7(12). https://doi.org/10.1186/s40345-019-0147-y

Perry, B. I., Holt, R. I. G., Chew-Graham, C. A., Tiffin, E., French, P., Pratt, P., Byrne, P. og Shiers, D. E. (2023). Positive cardiometabolic health resource: An intervention framework for people experiencing psychosis and schizophrenia. ncap-lester-tool-intervention-framework.pdf (rcpsych.ac.uk)

Rabelo, J. L., Cruz, B. F., Ferreira, J. D. R., Viana, B. M. og Barbosa, I. G. (2021). Psychoeducation in bipolar disorder: A systematic review. World Journal of Psychiatry, 11(12), 1407-1424. https://doi.org/10.5498/wjp.v11.i12.1407

Rethink Mental Illness. (2018). Physical health check tool: Supporting you to manage your physical health alongside your mental health. https://www.rethink.org/media/4862/ interactive-physical-health-check-tool.pdf

Smith, D. J., Martin, D., McLean, G., Langan, J., Guthrie, B. og Mercer, S. W. (2013). Multimorbidity in bipolar disorder and undertreatment of cardiovascular disease: a cross sectional study. BMC Medicine, 11. https://doi:10.1186/1741-7015-11-263

Stjórnarráð Íslands, heilbrigðisráðuneytið. (2021). Framtíðarskipulag heilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni með neyslu- og fíknivanda: Skýrsla starfshóps. Framtíðarskipulag heilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni með neyslu- og fíknivanda (stjornarradid.is)

Toney-Butler, T. J. og Thayer, J. M. (2022). Nursing Process. StatPearls Publishing. Nursing ProcessStatPearls - NCBI Bookshelf (nih.gov)

Tracy, M. F. og Blumenthal, N. P. (2023). Direct clinical practice. Í Tracy, M. F., O´Grady. E. T. og Phillips, S. J. (ritstj.). Hamric & Hanson´s Advanced Practice Nursing: An Integrative Approach (bls. 168-211). Elsevier.

Tranter, S., Irvine, F. og Collins, E. (2012). Innovations aimed at improving the physical health of the seriously mentally ill: an integrative review. Journal of Clinical Nursing, 21, 1199-1214. https://doi,org/10.1111/j.1365-2702.2011.04020.x

Virgini V., Meindl-Fridez C., Battegay E. og Zimmerli L. U. (2015). Check-up examination: recommendations in adults. Swiss Medical Weekly, 145. https://doi.org/10.4414/smw.2015.14075

White, J., Hardy, S. og Gray, R. (2010). The serious mental illness Health Improvement Profile (HIP) Manual. J_White_HSC_4393376_Appendices_FINAL_submitted_22_05_2015.pdf (uea.ac.uk)

World Health Organization. (2018). Management of physical health conditions in adults with severe mental disorders: WHO guidelines. 9789241550383-eng.pdf (who.int)

Yalin, N., Arnone, D. og Young, A. Y. (2017). Bidirectional relationship between general medical conditions in bipolar disorder: treatment considerations. Í A. F. Carvalho og E. Vieta (ritstj.), The Treatment of Bipolar Disorder: Integrative clinical strategies & future directions (bls. 271289). Oxford University Press.

OtoWax ®

Nýtt lækningatæki sem fjarlægir

eyrnamerg á áhrifaríkan hátt

▶ Mýkir og leysir upp eyrnamerg

▶ Viðheldur stöðugu sýrustigi í eyrnagöngum

▶ Olíulaus lausn

▶ Fyrir 3ja ára og eldri

▶ Eyrnaúði sem inniheldur vetnisperoxíð og fosfatbuffer

Skannaðu QR-kóðann til að horfa á fræðslumyndband um notkun og verkun OtoWax®

Bein útgjöld og útgjaldabyrði heimilanna vegna heilbrigðisþjónustu

doi: 10.33112/th.100.3.1

ÚTDRÁTTUR

Tilgangur

Bein útgjöld heimila vegna heilbrigðisþjónustu hafa áhrif á aðgengi að heilbrigðisþjónustunni. Rannsóknin athugar þróun heilbrigðisútgjaldanna og hvort einstakir samfélagshópar verji hærri upphæðum og beri þyngri útgjaldabyrðar en aðrir.

Aðferð

Byggt er á niðurstöðum úr heilbrigðiskönnun meðal Íslendinga 18 ára og eldri sem fram fór vorið 2023. Þátttakendur komu úr netpanel Félagsvísindastofnunar og þjóðskrárúrtaki. Svarendur voru alls 5.482 og heimtur tæp 50%. Niðurstöður heilbrigðiskönnunarinnar voru bornar saman við niðurstöður eldri heilbrigðiskannana meðal Íslendinga á aldrinum 18-75 ára sem fram fóru á árunum 1998, 2006 og 2015. Meðalútgjöld heimila vegna heilbrigðismála og útgjaldabyrði (hlutfall heilbrigðisútgjalda af ráðstöfunartekjum heimilis) voru borin saman milli samfélagshópa og ára.

Niðurstöður

Sjá má samfellda raunhækkun útgjalda íslenskra heimila vegna heilbrigðismála á tímabilinu frá 1998 til 2022. Hlutdeild einstakra útgjaldaliða hefur jafnframt breyst og hefur hlutdeild læknisþjónustu, sjúkraþjálfunar og sálfræðiþjónustu í heildarútgjöldum heimilanna aukist en hlutdeild tannlæknisþjónustu, lyfja, tækja og annarra lyfjabúðarvara minnkað. Hlutfall heilbrigðisútgjalda af ráðstöfunartekjum heimilanna (útgjaldabyrði) hefur í heild ekki hækkað á undanförnum árum. Útgjöldunum er þó verulega misskipt milli samfélagshópa. Hæst er hlutfall heilbrigðisútgjalda af ráðstöfunartekjum á heimilum ungfullorðinna og einhleypra, á stærri heimilum og á heimilum einstæðra foreldra, einstaklinga utan vinnumarkaðar, grunnskólamenntaðra, lágtekjufólks og einstaklinga sem glíma við langvinna sjúkdóma og örorku.

Ályktanir

Þótt útgjaldabyrði íslenskra heimila vegna heilbrigðisþjónustu hafi í heild ekki hækkað á undanförnum árum er verulegur munur á útgjaldabyrðinni eftir samfélagshópum. Útgjaldahlutföll í ýmsum hópum Íslendinga eru há sem ógnað getur aðgengi að heilbrigðisþjónustunni. Í húfi er grundvallarmarkmið íslenska heilbrigðiskerfisins um sem jafnast aðgengi að þjónustunni.

Lykilhugtök

Bein heilbrigðisútgjöld, samfélagshópar, notkun heilbrigðisþjónustu, aðgengi að heilbrigðisþjónustu

HAGNÝTING

RANNSÓKNARNIÐURSTAÐNA

Nýjungar: Rannsóknin gefur heildaryfirlit yfir útgjöld íslenskra heimila vegna heilbrigðisþjónustu og skiptingu útgjaldanna eftir þjónustuþáttum og milli samfélagshópa.

Hagnýting: Niðurstöðurnar nýtast við stefnumótun stjórnvanda í heilbrigðismálum, einkum að því er varðar kostnaðarbyrði sjúklinga og almennt aðgengi að heilbrigðisþjónustunni.

Þekking: Niðurstöður þessarar rannsóknar geta nýst til kynningar og fræðslu meðal heilbrigðisstétta, stjórnmálamanna, heilbrigðisyfirvalda og almennings.

Áhrif á störf hjúkrunarfræðinga: Hjúkrunarfræðingar eru málsvarar einstaklinga sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Í þeirri málsvörn þarf meðal annars að gæta þess að þjónustukostnaður einstaklinga og hópa fari ekki úr hófi og að aðgengi þeirra að nauðsynlegri þjónustu sé tryggt.

Höfundar

Bein útgjöld og útgjaldabyrði heimilanna vegna heilbrigðisþjónustu

INNGANGUR

Kostnaður vegna heilbrigðiskerfa í vestrænum ríkjum hefur vaxið að raungildi síðustu áratugi, þótt flest ríkin hafi dregið úr vextinum, ef Covid-árin eru undanskilin. Hið opinbera ber stærstan hluta útgjaldanna í nær öllum þessum ríkjum og hlutdeild heilbrigðisútgjalda í opinberum útgjöldum hefur vaxið (World Health Organization, 2021). Í viðleitni sinni til að takmarka aukningu heilbrigðisútgjalda hafa stjórnvöld víða brugðið á það ráð að auka aðhald í fjárveitingum til heilbrigðisstofnana, halda aftur af launahækkunum opinberra heilbrigðisstarfsmanna, takmarka framboð þjónustu með rekstri biðlista, endurskoða kostnaðarþátttöku hins opinbera, auka einkaframkvæmd og endurskoða þátttöku sjúklinga í kostnaði við heilbrigðisþjónustuna. Slíkar aðhaldsaðgerðir hafa víða aukið bein útgjöld sjúklinga vegna heilbrigðismála, þó að almennt hafi kostnaðarhlutdeild sjúklinga lækkað á Covid-árunum (Doetsch o.fl., 2023; The World Bank, 2023).

Árið 2022 námu heildarútgjöld til heilbrigðismála á Íslandi 8,6% af vergri landsframleiðslu og var Ísland í 24.-25. sæti af 38 OECD-ríkjum (OECD, 2023). Hlutfall einkafjármögnunar heilbrigðisþjónustu hefur lækkað nokkuð hérlendis undanfarin ár en hækkaði þó frá árinu 2021 og var 16,7% af heilbrigðisútgjöldunum 2022. Sú fjármögnun stafar að langmestu leyti af greiðsluþátttöku sjúklinga, sem er hærri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum, ef Finnland er undanskilið (OECD, 2023). Um þetta atriði segir í íslenskri heilbrigðisstefnu til ársins 2030 að sett hafi verið þak á hámarksgreiðslur sjúklinga „og má auka jöfnuð enn frekar með því að halda áfram að lækka greiðsluþátttöku þeirra“ (heilbrigðisráðuneytið, 2019a, bls. 12).

Íslenska heilbrigðiskerfið er að grunni til félagslegt kerfi. Meginmarkmið slíkra kerfa er að þegnarnir hafi sem jafnastan aðgang að heilbrigðisþjónustunni. Í fyrstu grein laga um heilbrigðisþjónustuna segir að markmiðið sé að „allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði“ (Lög um heilbrigðisþjónustu, 2007). Í íslenskri heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er markmiðið orðað með þeim hætti „að almenningur á Íslandi búi við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra landsmanna sé tryggt“ (heilbrigðisráðuneytið 2019a, bls. 15).

Þótt greiðsluþátttöku sjúklinga sé jafnan ætlað að auka skilvirkni í heilbrigðisþjónustunni og draga úr ónauðsynlegri þjónustunotkun (Fels, 2020), sýna erlendar og innlendar rannsóknir að greiðsluþátttaka og bein útgjöld heimilanna vegna heilbrigðismála eru mikilvæg ástæða þess að einstaklingar fresta heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa (Rúnar Vilhjálmsson, 2011; Sandoval o.fl., 2021). Þá sýna rannsóknir að áhrif greiðsluþátttöku á frestun heilbrigðisþjónustu eru jafnan meiri í tilfelli tekjulágra og langveikra sem þó hafa mesta þjónustuþörf (Guessous o.fl., 2012; Lexchin og Grootendorst, 2004; Vilhjalmsson, 2021). Áhrifin á frestun þjónustunnar koma einkum fram í útgjaldabyrði heimilanna þegar heilbrigðisútgjöldin eru orðin hátt hlutfall af tekjum heimilisins (Vilhjalmsson, 2005).

Erlendar rannsóknir á útgjöldum einstaklinga og heimila vegna heilbrigðismála benda til að útgjöldunum sé misskipt, jafnvel í löndum þar sem jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu er meginmarkmið. Þannig eru útgjöld að jafnaði hærri meðal kvenna en karla, grunnskólamenntaðra og lágtekjufólks samanborið við þá sem hafa meiri menntun og tekjur,

og þeirra sem búa við lakara heilsufar í samanburði við þá heilsuhraustari (Lemstra o.fl., 2009; Loef o.fl., 2021; Rúnar Vilhjálmsson, 2009). Vegna áhrifa beinna heilbrigðisútgjalda heimilanna á aðgengi að heilbrigðisþjónustunni, og á svigrúm til öflunar annarra nauðsynja, er mikilvægt að kortleggja útgjöldin og útgjaldabyrðina sem af þessu leiðir. Eldri athugun um þetta efni hérlendis leiddi í ljós að heilbrigðisútgjöld og hlutföll heilbrigðisútgjalda af heimilistekjum voru ólík milli samfélagshópa (Rúnar Vilhjálmsson, 2009) en sú athugun er komin til ára sinna og síðan hafa orðið verulegar breytingar á reglum og viðmiðum varðandi greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu. Þannig tóku heilbrigðisyfirvöld upp nýtt greiðsluþáttökukerfi lyfja 4. maí 2013 með fjórum greiðsluþrepum og hámarksgreiðslu sjúklinga á hverju 12 mánaða greiðslutímabili fyrir þau lyf sem falla undir kerfið. Viðmiðunarupphæðir þrepanna og greiðsluhámark á hverju greiðslutímabili eru hærri hjá fullorðnum en hjá elli- og örorkulífeyrisþegum og börnum og ungmennum yngri en 22 ára (Sjúkratryggingar, 2022a). Einnig tóku heilbrigðisyfirvöld upp nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu (komugjöld, rannsóknir og þjálfun) 1. maí 2017 með tilteknum hámarksgreiðslum sjúklinga í hverjum mánuði vegna þeirrar þjónustu sem fellur undir kerfið og eru hámarksupphæðir lægri hjá öldruðum og lífeyrisþegum og börnum yngri en 18 ára (Sjúkratryggingar, 2022b). Vegna þessara breytinga á greiðsluþáttökukerfum er full ástæða til að skoða nánar þróun og núverandi stöðu heilbrigðisútgjalda heimilanna. Tilgangur rannsóknarinnar er að athuga bein útgjöld og útgjaldabyrði íslenskra heimila vegna heilbrigðisþjónustu. Lagt er heildstætt mat á útgjöld heimilanna og þannig fengnar upplýsingar um umfang útgjaldanna óháð því hvort einhver kostnaðarþátttaka var til staðar af hálfu ríkisins eða annara aðila. Skoðuð er samsetning og þróun útgjaldanna síðustu áratugi, hver munur er á útgjöldunum eftir samfélagshópum og hvort munurinn milli hópa hafi breyst á undanförnum árum.

AÐFERÐ

Rannsóknarsnið

Rannsóknin er þversniðsrannsókn sem byggir að stærstum hluta á niðurstöðum úr stórri landskönnun meðal Íslendinga, 18 ára og eldri, sem fram fór vorið 2023. Niðurstöður þeirrar könnunar voru bornar saman við eldri þversniðskannanir sama þýðis.

Þátttakendur

Þátttakendur könnunarinnar vorið 2023 komu bæði úr netpanel Félagsvísindastofnunar og þjóðskrárúrtaki. Einstaklingar í netpanel svöruðu stöðluðum spurningalista á netinu, en öðrum þátttakendum í þjóðskrárúrtaki var gefinn kostur á að svara sama spurningalista á netinu eða í síma. Allt að þrjár ítrekanir voru sendar þeim sem ekki höfðu svarað netlista og ekki neitað þátttöku. Svarendur voru alls 5.482 og heimtur tæp 50% (Stefán Þór Gunnarsson og Sindri Baldur Sævarsson, 2023). Niðurstöður þessarar könnunar voru bornar saman við niðurstöður eldri kannana meðal Íslendinga á aldrinum 18-75 ára sem fram fóru á árunum 1998, 2006 og 2015. Kannanirnar 1998 og 2006 voru staðlaðar póstkannanir og í könnuninni 2015 gafst þátttakendum kostur að svara stöðluðum spurningum með pósti eða á netinu. Heimtur þessarra kannana voru frá 60-69% (Rúnar Vilhjálmsson o.fl., 2001; Rúnar Vilhjálmsson, 2007; Rúnar Vilhjálmsson, 2015). Gagnasöfnun í hverri könnum um sig stóð yfir í sex til átta vikur. Þegar könnunin frá 2023 er borin saman við eldri kannanir miðast niðurstöður við aldursbilið 18-75 ára (sem var aldursbil eldri kannananna). Þegar ekki er um samanburð við eldri kannanirnar að ræða miðast aldursbil könnunarinnar frá 2023 við Íslendinga 18 ára og eldri.

Siðfræði

Svör þátttakenda í könnununum voru ópersónugreinanleg og í upplýsingum sem fylgdu þeim var getið um framkvæmdaaðila, hvernig hægt væri að hafa samband ef óskað væri frekari upplýsinga og sagt frá tilgangi kannananna. Þátttakendum var jafnframt bent á að þeir þyrftu ekki að taka þátt og gætu hvenær sem er hætt við þátttöku. Eins og í öðrum spurningakönnunum af þessu tagi var

Tafla 1. Sundurliðuð bein meðalútgjöld heimila vegna heilbrigðisþjónustu á ársgrundvelli 1998-2022, á verðlagi ársins 2022.1

¹ Taflan byggir á svörum einstaklinga á aldrinum 18-75 ára. Upphæðir í krónum byggja á föstu verðlagi 2022 miðað við vísitölu neysluverðs.

² Þessi þáttur inniheldur útgjaldaliði g-j (sjá Mælitæki).

³ Ekki var spurt um sjúkraflutninga árið 1998 og þeir því ekki meðtaldir í heildarkostnaði þess árs.

litið svo á að þátttaka einstaklinga í könnununum jafngilti upplýstu samþykki. Kannanirnar voru tilkynntar Persónuvernd og uppfylltu skilyrði evrópskra og innlendra laga um rannsóknir á mönnum (Lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, 2018; Regulation (EU) of the European Parliament and of the Council, 2016).

Mælitæki

Til að meta útgjöld vegna heilbrigðisþjónustu var í öllum heilbrigðiskönnunum spurt: Hver áætlar þú að sé samanlagður kostnaður vegna notkunar þinnar og heimilismanna þinna (svo sem maka, barna og foreldra á heimili þínu) á eftirfarandi þáttum: a) Komur til lækna, komur á göngu- og slysadeild og bráðamóttöku, húsvitjanir lækna (ekki lyf), b) Lyf samkvæmt lyfseðli, c) Lyf án lyfseðils, d) Tannlæknisþjónusta, e) Sjúkraþjálfun, f) Sálfræðiþjónusta, g) Hjálpartæki (svo sem hækjur, hjólastóll, hálskragi, spelkur, gerviútlimur), h) Gleraugu (kaup á nýjum eða viðhald), i) Heyrnartæki (kaup á nýjum eða viðhald), j) Sjúkraog hjúkrunarvörur (til dæmis sjúkrakassi, plástur, teygjubindi, mælar af ýmsu tagi, bleyjur fyrir fullorðna), k) Sjúkraflutningar (þessi liður var ekki með í könnuninni frá 1998). Til að auðvelda þátttakendum svörun var þeim gefinn kostur á að merkja í átta afmörkuð kostnaðarbil þegar um einhvern kostnað var að ræða í einstökum liðum. Kostnaðar fyrir viðkomandi lið í fjölskyldunni var síðan miðaður við miðpunkt bilsins (Kohout, 1974, bls. 44; Schact, 1995, bls. 65). Í könnunum 1998 og 2006 voru svarendur beðnir að meta framangreinda útgjaldaliði frá upphafi ársins til þess tíma sem könnunin fór fram (seinni hluta september) og voru útgjaldatölurnar síðan framreiknaðar á ársgrundvelli (Rúnar Vilhjálmsson o.fl., 2001; Rúnar Vilhjálmsson, 2007). Í könnununum 2015 og 2023 voru svarendur beðnir að meta útgjaldaliðina fyrir árið á undan (2014 og 2022). Heildarútgjöld á ársgrundvelli í einstökum könnunum voru metin með samlagningu hinna einstöku útgjaldaliða. Þegar gerður er samanburður á upphæðum útgjalda milli ára er byggt á föstu verðlagi 2022 miðað við vísitölu neysluverðs. Til að meta útgjaldabyrði heimilanna vegna heilbrigðisútgjalda 2014 og 2022 voru heildarútgjöld reiknuð í hlutfalli við ráðstöfunartekjur heimilis á ársgrundvelli samkvæmt svörum þátttakenda þegar spurt var um samanlagðar tekjur heimilismanna eftir skatt).

Rannsóknin kannaði tengsl heilbrigðisútgjalda við eftirfarandi breytur: Kynferði, aldur, hjúskaparstöðu (gift(ur)/í sambúð, einhleyp(ur), frákilin(n), ekkja/ekkill), fjölda heimilismanna, foreldrastöðu (einstætt foreldri eða ekki), atvinnustöðu (ekki í starfi, í starfi), atvinnuleysi (atvinnulaus nú, ekki atvinnulaus nú), námsstöðu (í skóla, ekki í skóla), búsetu (höfuðborgarsvæði, landsbyggð), menntun (grunnskóla-, gagnfræða- eða landspróf, sérskóla- eða stúdentspróf, háskólastigspróf), heildartekjur heimilis (lægsti, annar eða hæsti tekjuþriðungur), lágtekjumörk (heimilistekjur undir eða yfir 60% af miðgildi ráðstöfunartekna), langvinnan sjúkdóm eða kvilla (já eða nei), og örorku (75%, <75%, eða engin metin örorka).

Gagnagreining

Gögn allra kannana voru vegin eftir kyni, aldri, búsetu og menntun til þess að niðurstöður endurspegluðu sem best þýði landsmanna á hverjum tíma. Við úrvinnslu gagnanna voru meðaltals- og prósentutöflur settar upp til að kanna meðalútgjöld vegna þjónustuþátta og hlutfall útgjalda af heildartekjum og ráðstöfunartekjum heimilis. Munur á hlutfallslegum útgjöldum milli hópa var metinn með kí-kvaðratprófi, en munur á meðaltalsútgjöldum milli hópa var metinn með t-prófi þegar hópar voru tveir og F-prófi þegar hópar voru þrír eða fleiri.

NIÐURSTÖÐUR

Bein heildarútgjöld heimilanna vegna heilbrigðisþjónustu voru mjög breytileg. Í heilbrigðiskönnuninni 2023 (fyrir árið 2022) voru þau lægst 0 kr. og hæst 1.047.500 kr. Tafla 1 sýnir sundurliðuð bein meðalútgjöld heimila á Íslandi vegna heilbrigðisþjónustu samkvæmt fjórum heilbrigðiskönnunum á verðlagi ársins 2022. Það ár vörðu heimilin að meðaltali 245 þús. krónum til heilbrigðisþjónustu og þar af var stærsti útgjaldaliðurinn lyf (65 þús. kr.), þar á eftir kom tannlæknisþjónusta (53 þús. kr.), næst komu tæki og lyfjabúðarvörur (44 þús. kr.) og síðan læknisþjónusta (42 þús. kr.). Vinstri hluti töflunnar sýnir jafnframt umtalsverða raunaukningu á útgjöldum heimilanna til heilbrigðismála. Í heild nam aukningin tæpum 16% milli áranna 2006 og 2022. Í öllum þáttum heilbrigðisþjónustunnar varð raunaukning beinna útgjalda á þessu tímabili, ef tannlæknisþjónusta er undanskilin. Mest varð aukningin frá 2006 til 2022 í sálfræðiþjónustunni (236%), næstmest í sjúkraflutningum (86%), þarnæst í sjúkraþjálfun (53%) og þar á eftir í læknisþjónustunni (21%). Loks sýnir hægri hluti töflu 1 að nokkrar breytingar hafa orðið á innbyrðis hlutdeild einstakra þátta heilbrigðisþjónustunnar í útgjöldum heimilanna. Hlutdeild sálfræðiþjónustunnar hefur aukist en hlutdeild tannlæknisþjónustunnar minnkað. Þá hefur hlutdeild sjúkraþjálfunar aukist en hlutdeild tækja- og lyfjabúðarvara minnkað.

Tafla 2 sýnir að verulegur munur var á heilbrigðisútgjöldum heimilanna eftir samfélagshópum árið 2022. Hæst heildarútgjöld höfðu heimili miðaldra fólks, fjölmennari heimili og heimili einstæðra, atvinnulausra, langveikra og öryrkja. Hæst voru heilbrigðisútgjöld 75% öryrkja (323 þúsund að meðaltali) sem höfðu 40% hærri útgjöld en þeir sem ekki voru öryrkjar. Útgjöld vegna einstakra liða heilbrigðisþjónustunnar fylgdu almennt sama hópamynstri og heildarútgjöldin. Sem frávik frá þessu mynstri má þó nefna há útgjöld vegna tannlæknisþjónustu meðal tekjuhárra heimila og heimila þeirra öryrkja sem eru undir 75% örorku.

Auk meðaltala útgjalda var útgjaldabyrði heimilanna athuguð með tilliti til hlutfalls útgjalda af ráðstöfunartekjum. Tafla 3

Tafla 3. Hlutfall beinna heilbrigðisútgjalda heimila af ráðstöfunartekjum heimilis 2014 og 2022

Tafla 4. Bein heilbrigðisútgjöld sem hlutfall af heildartekjum og ráðstöfunartekjum heimilis árið 2022.1

sýnir þessa útgjaldabyrði fyrir árin 2014 og 2022. Í heild hefur útgjaldabyrðin vegna heilbrigðisþjónustu breyst lítið milli áranna. Þó er útgjaldabyrðin heldur í lækkunarátt að því er varðar tannlæknisþjónustu og lyfseðilskyld lyf. Undantekning er sálfræðiþjónusta, en útgjaldabyrði heimila hefur aukist vegna hennar. Veruleg raunaukning heilbrigðisútgjalda heimilanna (sjá töflu 1), samhliða lítilli en heldur jákvæðri þróun útgjaldabyrðinnar samkvæmt töflu 3, skýrist af auknum kaupmætti ráðstöfunartekna heimilanna milli 2014 og 2022. Það þýðir þó ekki að útgjaldabyrði samfélagshópa vegna heilbrigðisþjónustu sé jöfn.

Tafla 4 sýnir heilbrigðisútgjöld heimilanna sem hlutfall af heildartekjum og ráðstöfunartekjum í einstökum samfélagshópum. Hlutföll heilbrigðisútgjalda af ráðstöfunartekjum eru hæst og útgjaldabyrðin mest á heimilum ungfullorðinna og einhleypra, á mannmörgum heimilum og á heimilum einstæðra foreldra, atvinnulausra, tekjulágra, langveikra og öryrkja.

UMRÆÐA

Bein útgjöld heimilanna vegna heilbrigðisþjónustu minnka svigrúm til öflunar annarra nauðsynja og geta hamlað frekari notkun heimilismanna á heilbrigðisþjónustunni (Rúnar Vilhjálmsson, 2011). Vannotkun heilbrigðisþjónustunnar getur síðan haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar og valdið miklum samfélagslegum kostnaði (Thomas o.fl., 2021). Því skiptir máli að heilbrigðisútgjöldum heimilanna sé stillt í hóf. Þetta gildir ekki síst um tekjulág heimili og heimili einstaklinga sem hafa mikla þörf fyrir heilbrigðisþjónustuna.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar voru meðalútgjöld heimilanna vegna heilbrigðismála árið 2022 samtals 245 þús. kr. og höfðu aukist að raungildi um 16% frá árinu 2006. Hæst útgjöld í krónum höfðu heimili miðaldra fólks, mannmörg heimili, og heimili atvinnulausra, langveikra og 75% öryrkja. Síðastnefndu tveir hóparnir höfðu að meðaltali um eða yfir 300 þúsund kr. heimilsútgjöld vegna heilbrigðisþjónustu.

Þrátt fyrir raunhækkun heilbrigðisútgjalda heimilanna var lítil breyting á þróun útgjaldabyrðinnar þegar á heildina er litið, þar eð kaupmáttur heimilanna jókst á tímabilinu. Útgjaldabyrðin kom hins vegar mjög misjafnlega niður. Hæsta útgjaldabyrði höfðu heimili yngra fólks, einstæðra foreldra, atvinnulausra, öryrkja og heimili með tekjur undir lágtekjumörkum (minna en 60% af miðgildi ráðstöfunartekna). Þessar niðurstöður eru hliðstæðar niðurstöðum innlendra og erlendra rannsókna (Lemstra o.fl., 2009; Loeb o.fl., 2021; Rúnar Vilhjálmsson, 2009; Galbraith o.fl., 2005).

Sá verulegi munur sem fram kemur milli samfélagshópa á útgjaldabyrði heimilanna vegna heilbrigðisþjónustu er verulegt umhugsunarefni, ekki síst í ljósi þess markmiðs félagslegs heilbrigðiskerfis Íslendinga að skapa þegnunum sem jafnast aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Í þessu sambandi er rétt að líta til þess að þátttaka hins opinbera í kostnaði við heilbrigðisþjónustuna er háð fjölmörgum takmörkunum. Sum þjónusta er að vísu gjaldfrjáls, einkum þjónusta á legudeildum sjúkrahúsa, mæðra og ungbarnavernd, skólaheilsugæsla, heimahjúkrun og heimsóknir á heilsugæslustöð í tilvikum barna undir 18 ára, aldraðra og lífeyrisþega. Þá geta sjúklingar í tilteknum tilvikum verið undanþegnir greiðslu gjalds vegna lyfja eftir útgáfu sérstaks lyfjaskírteinis (heilbrigðisráðuneytið, 2019b). En önnur þjónusta þarf að uppfylla ýmis skilyrði. Þátttaka hins opinbera í kostnaði vegna sérgreinalækna er háð því að viðkomandi þjónustuaðilar

hafi samning við Sjúkratryggingar. Þegar slíkir samningar renna út án þess að nýr sé gerður, miða Sjúkratryggingar þátttöku hins opinbera við gjaldskrá sem getur verið verulega frábrugðin þeim kostnaði sem þjónustuþeginn þarf að greiða á þjónustustað. Þjónusta sálfræðinga og sérgreinalækna við börn getur verið ókeypis, en það er háð því að börnin hafi tilvísun og fjöldi sálfræðinga á samningi við Sjúkratryggingar er þar að auki takmarkaður. Þá er þátttaka hins opinbera í tannlæknakostnaði í aðalatriðum háð því að um sé að ræða börn, aldraða eða lífeyrisþega. Þá taka Sjúkratryggingar almennt ekki þátt í kostnaði vegna þjálfunar sjúklinga nema um tilvísun sé að ræða. Reglur um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga í lyfjum miðast almennt við að lyfið sé lyfseðilskylt og takmarkast að auki við útgefið viðmiðunarverð. Sé smásöluverð lyfs hærra en viðmiðunarverð greiðir sjúklingurinn mismuninn (heilbrigðisráðuneytið, 2019b). Til viðbótar er fjöldi lyfseðilskyldra lyfja 0-merktur í lyfjaverðskrá og því almennt ekki um þátttöku Sjúkratrygginga að ræða í greiðslu þeirra. Þá er fjöldi annarra heilbrigðistengdra tækja- og lyfjabúðarvara almennt án greiðsluþáttöku sjúkratrygginga. Síðast en ekki síst miðar greiðsluþátttaka ríkisins við útgjöld einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu, en ekki samanlögð útgjöld fjölskyldna eða heimila. Þau samanlögðu útgjöld hafa þó mikil áhrif á það hvort einstaklingar á heimilinu fresta eða fella niður samskipti við heilbrigðisþjónustuna (Rúnar Vilhjálmsson, 2011; Vilhjalmsson, 2021).

Af framangreindum ástæðum er mikilvægt að hafa í huga að útgjöld einstaklinga og heimila vegna heilbrigðisþjónustunnar eru að jafnaði umtalsvert umfram þann greiðsluhluta sjúklinga sem yfirvöld skrá í tengslum við hið opinbera greiðsluþátttökukerfi. Því hafa yfirvöld takmarkaðar upplýsingar um heilbrigðisútgjöld einstaklinga og þá ekki síður samanlögð útgjöld og útgjaldabyrði fjölskyldna. Það er mikilvægt heilsupólitísk úrlausnarefni, sem varðar brýna almannahagsmuni, að ákvarða hver mörk eigi að vera í greiðsluþátttöku hins opinbera vegna heilbrigðisþjónustunnar. Þau mörk þarf að ræða á opinberum vettvangi á grundvelli heildstæðra upplýsinga. Fyrir liggur að núverandi greiðsluþátttökukerfi vegna heimsókna og rannsókna er aldurstengt og njóta þar börn í sömu fjölskyldu, aldraðir og aðrir lífeyrisþegar betri tryggingaverndar en aðrir. Hér hafa heimili ungfullorðinna mjög háa greiðslubyrði sem athuga þyrfti nánar. Þrátt fyrir að börn í sömu fjölskyldu teljist sem eitt barn í núverandi greiðsluþátttökukerfi (sem lækkar útgjöld barnafjölskyldna frá því sem áður var) hefur ekki tekist nægilega að halda niðri útgjaldabyrði einstæðra foreldra og stærri heimila, eins og niðurstöður í Töflu 4 benda til. Loks hefur ekki tekist sem skyldi að hemja útgjaldabyrði fólks með lægri tekjur og hærri uppsöfnuð heilbrigðisútgjöld. Þetta sést á háu hlutfalli heilbrigðisútgjalda af ráðstöfunartekjum heimila atvinnulausra, öryrkja og fólks undir lágtekjumörkum.

Lengi hefur verið í gildi hérlendis reglugerð um endurgreiðslu á umtalsverðum kostnaði sjúklinga við læknishjálp, lyf og þjálfun (heilbrigðisráðuneytið, 2022). Samkvæmt reglugerðinni á sjúklingur rétt á endurgreiðslu samanlagðra útgjalda í tengslum við heilbrigðisþjónustu sína og lyfjakostnað barna sinna, ef útgjöldin nema að minnsta kosti 0,7% af heildartekjum sjúklingsins (ef hann er einhleypingur) eða fjölskyldu hans (ef hann býr með fjölskyldu). Afar sjaldgæft er að einstaklingar leiti endurgreiðslu á grundvelli reglugerðarinnar sem kann meðal annars að skýrast af því að reglugerðin hefur fengið litla opinbera kynningu og framkvæmdin er flókin og tafsöm (bæði Sjúkratryggingar og Tryggingastofnun ríkisins koma að framkvæmdinni). Þá tekur reglugerðin aðeins til

hluta heilbrigðisútgjalda vegna tilgreindrar samningsbundinnar heilbrigðisþjónustu og ekki til heilbrigðisþjónustu fullorðinna barna á heimilinu. Loks miðar reglugerðin við hlutfall útgjalda af heildartekjum en ekki ráðstöfunartekjum. Full ástæða er til endurskoðunar reglugerðarinnar og öflugrar kynningar á endurgreiðslurétti sjúklinga.

Greiðsluþátttökukerfum í heilbrigðisþjónustu er beitt til að ná tilteknum heilsupólitískum markmiðum. Eitt mikilvægasta markmiðið er að tryggja almennt aðgengi að þjónustunni og verja einstaklinga og heimili gegn óhóflegum útgjöldum vegna þjónustu sem þörf er fyrir. Greiðsluþátttökukerfi draga línur milli þeirrar þjónustu sem er mikilvæg eða nauðsynleg og þeirrar þjónustu sem ekki er talin eins mikilvæg og hið opinbera niðurgreiðir síður eða alls ekki. Þessar markalínur eru með ólíkum hætti milli landa og eru jafnan átaka- og úrlausnarefni stjórnmálanna. Spyrja má af hverju ekki sé fyrir hendi hérlendis almenn tryggingavernd í sálfræðiþjónustu og tannlækningum. Hin mikli fjöldi 0-merktra lyfja í lyfjaverðskrá vekur sams konar spurningar. Enn fremur má spyrja um réttmæti almennra takmarkana á fjölda skipta í sjúkra-, iðju- og talþjálfun sem greiðsluþátttökukerfið setur.

Greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi telst bæði flókið og brotakennt. Það er tvíþætt eins og áður er nefnt. Sérstakt kerfi vegna samskipta og rannsókna og annað vegna lyfja. Kerfin eru aðskilin og ná utanum afmarkaðan hluta samskipta og lyfja. Hvorki er auðvelt fyrir sjúklinga að átta sig á hvort tiltekin þjónusta eða lyf fellur undir kerfið, né heldur hver kostnaður muni verða af heimsókn á þjónustustað. Draga mætti úr slíkri óvissu með gagnsærra kerfi sem miðaði við ein hámarksútgjöld sjúklinga á tilgreindu tímabili. Þá skiptir máli að taka tillit til útgjaldabyrðinnar. Því þyrfti að endurskoða reglugerð um endurgreiðslu á umtalsverðum kostnaði sjúklinga (heilbrigðisráðuneytið, 2022), einfalda framkvæmdina og miða fremur við ráðstöfunartekjur en heildartekjur við ákvörðun um útgjaldabyrði vegna heilbrigðisþjónustu. Reglugerðina þyrfti jafnframt að kynna vel og hafa aðgengilega almenningi. Hlutdeild hins opinbera á Íslandi í fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar er, eins og áður sagði, lægri en meðal norrænna nágrannalanda, ef Finnland er undanskilið. Athuganir á viðhorfum almennings hérlendis til fjármögnunar heilbrigðisþjónustunnar sýna að mikill meirihluti vill að hið opinbera verji auknu fé til heilbrigðisþjónustunnar (BSRB, 2021; Vilhjalmsson, 2016). Það virðist því verulegur stuðningur við aukna opinbera tryggingavernd í heilbrigðisþjónustunni. Sú tryggingavernd þarf að miða að frekari jöfnun heilbrigðisútgjalda heimilanna, ekki síst í þágu þeirra hópa sem bera þyngri útgjaldabyrðar, einkum ungfullorðinna, einstæðra foreldra, atvinnulausra, lágtekjufólks og öryrkja.

Helstu styrkleikar rannsóknarinnar eru þeir að úrtök voru stór og þátttakendur voru valdir með slembiaðferð úr Þjóðskrá til að endurspegla þýðið sem best. Lagt var heildstætt mat á bein útgjöld heimilanna vegna heilbrigðisþjónustu og þannig fengnar upplýsingar um umfang útgjaldanna óháð því hvort kostnaðarþátttaka var til staðar af hálfu ríkisins eða annara aðila. Slíkt heildstætt mat er ekki til staðar af hálfu þessara aðila. Heimtur í könnuninni frá 2023 hefðu mátt vera hærri en þess má þó geta að gögn allra kannana í þessari rannsókn voru vegin eftir kyni, aldri, búsetu og menntun til þess að niðurstöður endurspegluðu sem best þýði landsmanna á hverjum tíma um leið

og samanburður milli kannananna yrði sem réttmætastur. Örðugt getur reynst fyrir svarendur að draga fram útgjöld heimilisins vegna einstakra þátta heilbrigðisþjónustunnar á undangengnu ári. Þetta gildir ekki síst þegar afla þarf upplýsinga um útgjöld allra á heimilinu. Niðurstöður erlendra kannana á undangengnum heilbrigðisútgjöldum einstaklinga og heimila benda til að þegar spurt er um útgjöld yfir langt tímabil (t.d. ár) sé meiri hætta á vanmati útgjalda en þegar tímabilið er styttra (Lu o.fl., 2009). Því er mögulegt að útgjaldatölur í þessari rannsókn vanmeti að einhverju leyti (fremur en ofmeti) raunútgjöld heimilanna. Þó má nefna að svarendur fengu drjúgan tíma til að komast að niðurstöðu um útgjöldin og svara útgjaldaspurningum heimilisins þar sem kannanirnar stóðu yfir í sex til átta vikur.

ÁLYKTANIR

Verulegur munur er á útgjaldabyrði samfélagshópa vegna heilbrigðisþjónustu. Mest er útgjaldabyrðin á heimilum ungfullorðinna, einstæðra foreldra, atvinnulausra og fólks undir lágtekjumörkum.

Þörf er á aukinni tryggingavernd gagnvart þeim hópum sem bera þyngstu útgjaldabyrðarnar.

Í húfi er grundvallarmarkmið íslenska heilbrigðiskerfisins um sem jafnast aðgengi að þjónustunni.

ÞAKKARORÐ

Rannsóknasjóður Háskóla Íslands (RHÍ), Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) og Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) styrktu framkvæmd kannananna sem rannsóknin byggist á.

ENGLISH SUMMARY

Out-of-pocket health care expenditures and expenditure burden of Icelandic households

ABSTRACT

Aim

Household out-of-pocket health care expenditures affect access to health care. The study considers the development and socioeconomic differences in out-of-pocket expenditures and expenditure burden among Icelandic households.

Method

The study is based on results from a national health survey of Icelandic adults conducted in the Spring of 2023. Respondents came from a research participant panel as well as a random national sample of Icelanders age 18 and older. A total of 5.482 completed questionnaires were obtained yielding approximately 50% response rate. The results from the health survey were compared to earlier health surveys of Icelandic adults conducted in 1998, 2006 and 2015. Average household out-of-pocket expenditures and expenditure burden (expenditures as percentage of disposable income) were compared by year and sociodemographic group.

Results

Household out-of-pocket expenditures increased continuously in real terms from 1998 to 2022. The expenditure share of medical care, physical therapy and psychological treatment increased, and the share of dental care, drugs, equipment, and other drug store items decreased. The overall household expenditure burden (out-of-pocket expenditures as percentage of household disposable income) has not increased during this period. The expenditure burden differs considerably by sociodemographic group however, with young adults, single individuals, single parents, individuals in bigger households, individuals outside the labor market, individuals with low education and income, and the chronically ill and disabled bearing a higher household burden than their counterparts.

Conclusions

Even though the health care expenditure burden of Icelandic households has not increased overall, considerable differences are observed between sociodemographic groups. Relatively high out-of-pocket expenditures in certain households can affect the ability of household members to obtain health care. A central premise of the Icelandic health system is at stake, namely equal access of individuals to needed care.

Keywords

Out-of-pocket health care costs, group differences, health care utilization, access to health care.

Correspondent runarv@hi.is

HEIMILDIR

BSRB (2021). Átta af hverjum tíu vilja meira fé í heilbrigðisþjónustuna. https://www.bsrb.is/is/ frettakerfi/atta-af-tiu-vilja-meira-fe-i-heilbrigdisthjonustuna

Doetsch, J. N., Schlösser, C., Barros, H., Shaw, D., Krafft, T. og Pilot, E. (2023). A scoping review on the impact of austerity on healthcare access in the European Union: Rethinking austerity for the most vulnerable. International Journal for Equity in Health 22, 3. https://doi.org/10.1186/s12939-022-01806-1.

Fels, M. (2020). Incentivizing efficient utilization without reducing access: The case against cost-sharing in insurance. Health Economics, 29, 827-840.

Galbraith, A. A., Wong, S. T., Kim, S. E. og Newacheck, P. W. (2005). Out-of-pocket financial burden for low-income families with children: Socioeconomic disparities and effects of insurance. Health Services Research, 40, 1722-1736.

Guessous, I., Gaspoz, J. M., Theler, J. M., og Wolff, H. (2012). High prevalence of forgoing healthcare for economic reasons in Switzerland: A population-based study in a region with universal health insurance coverage. Preventive Medicine, 55, 521-527.

Hagenars, A. J. M., de Vos, K. og Zaldi, M. A. (1994). Poverty statistics in the late 1980s: Research based on micro data. Luxembourg: Office for Official Publications of the European Communities. Hagstofa Íslands (2021). Lágtekjuhlutfall: Hlutfall þeirra sem eru undir lágtekjumörkum https://visar.hagstofa.is/velsaeld/tekjur/lagtekjuhlutfall/

Heilbrigðisráðuneytið (2019a). Heilbrigðisstefna: Stefna fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu til ársins 2030. https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ ymsar-skrar/Heilbrigdisstefna_4.juli.pdf

Heilbrigðisráðuneytið (2019b). Reglugerð um greiðslu sjúkratrygginga í lyfjakostnaði nr. 1143/2019. https://island.is/reglugerdir/nr/1143-2019

Heilbrigðisráðuneytið (2022). Reglugerð um endurgreiðslu á umtalsverðum kostnaði sjúklinga við læknishjálp, lyf og þjálfun nr. 318/2013. https://island.is/reglugerdir/nr/0318-2013

Kohout, F. J. (1974). Statistics for social scientists. New York: Wiley. Lemstra, M., Machenbach, J., Neudorf, C. og Nannapeneni, U. (2009). High health care utilization and costs associated with lower socio-economic status: Results from a linked dataset. Canadian Journal of Public Health, 100, 180-183. Lexchin, J og Grootendorst, P. (2004). Effects of prescription drug user fees on drug and health services use and on health status in vulnerable populations: A systematic review of the evidence. International Journal of Health Services, 34, 101-122.

Loef, B., Meulman, I., Herber, G. M., Kommer, G. J., Koopmanschap, M. A., Kunst, A. E., Polder, J. J., Wong, A. og Uiters, E. (2021). Socioeconomic differences in healthcare expenditure and utilization in The Netherlands. BMC Health Services Research, 21, 643. https://doi. org/10.1186/s12913-021-06694-9.

Lu, C., Chin, B., Li, G. og Murrey, C. J. L. (2009). Limitations of methods for measuring out-of-pocket and catastrophic private health expenditures. Bulletin of the World Health Organization, 87, 238–244.

Lög um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. https://www.althingi.is/lagas/nuna/2007040.html

OECD (2023). Health expenditure and financing. https://stats.oecd.org/Index. aspx?DataSetCode=SHA

Rúnar Vilhjálmsson, Ólafur Ólafsson, Jóhann Ág. Sigurðsson og Tryggvi Þór Herbertsson (2001). Aðgangur að heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Reykjavík: Landlæknisembættið.

Rúnar Vilhjálmsson (2007). Landskönnunin Heilbrigði og aðstæður Íslendinga – Aðferð og framkvæmd. Reykjavík: Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

Rúnar Vilhjálmsson (2009). Bein útgjöld íslenskra heimila vegna heilbrigðismála. Læknablaðið, 95, 661-668.

Rúnar Vilhjálmsson (2011). Frestun læknisþjónustu meðal Íslendinga: Umfang og skýringar. Læknablaðið, 97, 529-534.

Rúnar Vilhjálmsson (2015). Landskönnunin Heilbrigði og lífshættir Íslandinga – Aðferð og framkvæmd. Reykjavík: Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

Sandoval, J. L., Petrovic, D., Guessous, I. og Stringhini, S. (2021). Health insurance deductibles and health care–seeking behaviors in a consumer-driven health care system with universal coverage. JAMA Network Open, 4(7): e2115722.

Schacht, S P. (1995). Social statistics. Boston: Allyn and Bacon.

Sjúkratryggingar (2022a). Greiðsluþátttökukerfi lyfja. https://island.is/ greidsluthatttokukerfi-lyfja/greidsluthrep-lyfjakaupa.

Sjúkratryggingar (2022b). Greiðsluþátttökukerfi – hvað þarf að borga fyrir heilbrigðisþjónustu? https://island.is/greidsluthatttaka-vegna-heilbrigdisthjonustu.

Stefán Þór Gunnarsson og Sindri Baldur Sævarsson (2023). Lífskjör og heilbrigðisþjónusta á Íslandi. Reykjavík: Félagsvísindastofnun.

The World Bank (2023). Out-of-pocket expenditure (% of current health expenditure). https:// data.worldbank.org/indicator/SH.XPD.OOPC.CH.ZS.

Thomas, A., Valero-Elizondo, J., Khera, R., Warraich, H. J., Reinhardt, S. W., Ali, H.-J., Nasir, K. og Desai, N. R. (2021). Forgone medical care associated with increased health care costs among the U.S. heart failure population. JACC: Heart Failure, 9, 710-719.

Vilhjalmsson, R. (2005). Failure to seek needed medical care. Social Science & Medicine, 61, 1320-1330.

Vilhjalmsson, R. (2016). Public views on the role of government in funding and delivering health services. Scandinavian Journal of Public Health, 44, 446-454.

Vilhjalmsson, R. (2021). Family income and insufficient medical care: A prospective study of alternative explanations. Scandinavian Journal of Public Health, 49, 875-883.

World Health Organization (2021). Global expenditure on health: Public spending on the rise? https://www.who.int/publications/i/item/9789240041219

Áhrif hjúkrunar á gæði lífslokameðferðar á gjörgæsludeildum: Samþætt fræðileg samantekt

doi: 10.33112/th.100.3.2

ÚTDRÁTTUR

Tilgangur

Tilgangur þessarar samantektar var að samþætta niðurstöður rannsókna um árangursríka umönnunarþætti hjúkrunar gagnvart gjörgæslusjúklingum við lífslok og fjölskyldum þeirra.

Aðferð

Samþætt fræðileg samantekt var framkvæmd með aðferð Whittemore og Knafl. Til að tryggja gæði rannsókna í samantektinni var stuðst við gæðamatsverkfæri frá Joanna Briggs Institute. Leitað var að nýlegum rannsóknum í PubMed- og CINAHL- gagnagrunnum á tímabilinu maí 2020 til febrúar 2023. Rannsóknir voru valdar, greindar og niðurstöður birtar samkvæmt leiðbeiningum PRISMA (“Preferred Reporting Items for Systematic Reviews and Meta-Analyses statement”).

Niðurstöður

Tuttugu og tvær rannsóknir voru í samantektinni. Niðurstöður sýndu fram á mikilvægi framlags hjúkrunarfræðinga til að tryggja góða einkennameðferð gjörgæslusjúklinga við lífslok og til margs konar stuðnings við aðstandendur til að gera upplifun þeirra betri. Fjögur þemu greindust: „Mikilvægi þekkingar hjúkrunarfræðinga á hjúkrun við lífslok“, „Góð einkennameðferð við lífslok“, „Þátttaka fjölskyldu í umræðum um meðferðartakmarkanir gjörgæslusjúklinga“ og „Fjölskyldumiðuð hjúkrun við lífslok gjörgæslusjúklinga“. Niðurstöður benda til þess að bæta megi einkennameðferð gjörgæslusjúklinga við lífslok. Þá virðist þörf á auknum stuðningi frá heilbrigðisstarfsfólki til fjölskyldna sem myndi auðvelda þeim þátttöku í ákvörðunum um meðferðir eða takmarkanir þeirra við lífslok ástvina á gjörgæslu.

Ályktanir

Mikilvægt er að menntun og þjálfun í líknarmeðferð og lífslokameðferð sé aðgengileg fyrir alla hjúkrunarfræðinga sem vinna á gjörgæslu. Þessi yfirlitsgrein tekur saman leiðbeiningar um hjúkrun sem mögulega nýtist hjúkrunarfræðingum við lífslokameðferð á gjörgæsludeild.

Lykilorð

Lífslokameðferð, gjörgæsla, líknarmeðferð, fjölskylduhjúkrun, samskipti

HAGNÝTING RANNSÓKNARNIÐURSTAÐNA

Hvers vegna ættir þú að lesa þessa grein?

Nýjungar: Lítið er vitað um áhrif hjúkrunar á útkomu lífslokameðferðar fullorðinna gjörgæslusjúklinga. Mikilvægt er að taka saman þá þekkingu sem er til um efnið og setja fram meginþætti slíkra meðferða og gera aðgengilegar fyrir hjúkrunarfræðinga.

Hagnýting: Niðurstöður samantektarinnar geta nýst til að efla þekkingu og öryggi hjúkrunarfræðinga á öllum sviðum lífslokameðferðar á gjörgæslu.

Þekking: Niðurstöður sýna fram á mikilvægi framlags hjúkrunarfræðinga til að tryggja góða einkennameðferð gjörgæslusjúklinga við lífslok og hvernig hægt er að veita margs konar stuðning við aðstandendur til að gera upplifun þeirra betri. Í greininni eru teknar saman niðurstöður úr rannsóknum sem geta nýst hjúkrunarfræðingum.

Áhrif á störf hjúkrunarfræðinga: Mikilvægt er fyrir hjúkrunarfræðinga og heilbrigðisstarfsfólk að vita meira um hvernig hægt er að bæta lífslokameðferð sjúklinga á gjörgæslu með það að markmiði að efla þá þjónustu sem sjúklingar og fjölskyldur þeirra þurfa.

Höfundar

ANNA HALLA BIRGISDÓTTIR

MSc, hjúkrunarfræðingur, Landspítala

ÞÓRA JENNÝ GUNNARSDÓTTIR

PhD, hjúkrunarfræðingur, prófessor við Háskóla Íslands

Áhrif hjúkrunar á gæði lífslokameðferðar á gjörgæsludeildum: Samþætt fræðileg

samantekt

INNGANGUR

Lífslokameðferð er meðferð sem veitt er þegar sjúklingar eru taldir vera á síðustu klukkustundum, dögum eða vikum lífs og tekur til meðferða og nálgana sem taldar eru gagnast best deyjandi sjúklingum. Lífslokameðferð er eitt af skilgreindum meðferðarstigum líknarmeðferðar og getur falið í sér að íþyngjandi inngripum eða meðferðum er hætt eða ekki byrjað á þeim (Landspítali, 2017). Þessi meðferð, ásamt takmörkun annarra meðferða, er fremur algeng á gjörgæsludeildum því talið er að einn til tveir af hverjum tíu sjúklingum látist á gjörgæsludeild eða skömmu eftir útskrift þaðan (Critical Care Statistics, 2023; Endacott o.fl., 2016). Þrátt fyrir algengi meðferðarinnar er skortur á nýlegum yfirlitsrannsóknum um efnið. Rannsóknir sýna að hjúkrunarfræðingar mæta oft áskorunum og jafnvel árekstrum við annað heilbrigðisstarfsfólk þegar þeir sinna deyjandi sjúklingum á gjörgæsludeildum en slíkt getur haft neikvæð áhrif á líðan þeirra (Lief o.fl., 2018; Taylor o.fl., 2020). Að takast á við bráð og lífsógnandi veikindi sjúklinga í flóknu umhverfi gjörgæsludeilda getur verið krefjandi verkefni fyrir hjúkrunarfræðinga. Þörf sjúklinga og fjölskyldna þeirra fyrir líknandi nálgun minnkar þó ekki sjálfkrafa í bráðum veikindum eða tæknivæddu umhverfi. Þrátt fyrir augljóst mikilvægi líknandi nálgunar við lífslok sjúklinga er það álit margra að innleiðing hennar sé oft erfið og komi of seint hjá gjörgæslusjúklingum (Lief o.fl., 2018). Því virðist þörf á almennum og hagnýtum leiðbeiningum fyrir hjúkrunarfræðinga sem annast deyjandi gjörgæslusjúklinga. Slíkar leiðbeiningar, byggðar á gagnreyndum rannsóknum, geta rammað inn sértæka verkþætti hjúkrunar sem gagnast gjörgæslusjúklingum og fjölskyldum þeirra. Rannsóknir sýna líka að það er hjúkrunarfræðingum á gjörgæsludeildum mikilvægt að finnast þeir vera að stuðla að friðsælum dauða fyrir deyjandi sjúklinga og sem bestri mögulegri upplifun aðstandenda af ferlinu (Stokes o.fl., 2019; Vanderspank-Wright o.fl., 2018). Það að hafa jákvæð áhrif á ferlið við lífslok hjálpar hjúkrunarfræðingum að finna tilgang í starfi sínu (Stokes o.fl., 2019).

Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er líknarmeðferð nálgun sem bætir lífsgæði sjúklinga (fullorðinna og barna) og fjölskyldna þeirra sem eru að glíma við vandamál sem tengjast lífsógnandi sjúkdómum. Unnið er að fyrirbyggingu og að lina þjáningar með snemmbærri greiningu, mati og meðferð á sársauka og öðrum vandamálum, hvort heldur þau eru líkamleg, sálfélagsleg eða andleg (Palliative care, 2020).

Líknarmeðferð er frábrugðin lífslokameðferð að því leyti að henni er hægt að beita á öllum meðferðarstigum sjúklinga en vægi líknarmeðferðar er mest þegar sjúklingur er metinn deyjandi. Lífslokameðferð er því mikilvægur hluti líknarmeðferðar og lýsir þeim stuðningi og umönnun sem sjúklingar fá þegar þeir eiga skammt eftir ólifað eða eru metnir deyjandi innan skamms tíma (End of life care for adults: service delivery, 2019).

Lífsbjargandi meðferðir eru allar þær meðferðir sem miða að því að lengja líf sjúklings án þess að lækna undirliggjandi sjúkdóm hans (Ko og Blinderman, 2015). Fyrir alvarlega veika sjúklinga virka slíkar meðferðir oft eins og brú yfir í aðrar meðferðir sem eru meira læknandi, eða þær kaupa tíma fyrir sjúklinginn að ná sér af sjálfsdáðum. Lífsbjargandi meðferðir geta falið í sér margs konar misflóknar meðferðir sem styðja við bilun í líffærakerfum sjúklinga.

Á gjörgæsludeildum eru auk þess veittar ýmsar flóknar og ífarandi lífsbjargandi meðferðir, svo sem meðferð með gervilunga (ECMO), öndunarvélarmeðferð í gegnum barkarennu og blóðskilunarmeðferð. Slíkar meðferðir á gjörgæslum geta gert breytinguna frá læknandi nálgun yfir í líknandi nálgun flóknari. Ef dregið er úr stuðningi slíkra meðferða getur andlát sjúklings oft verið yfirvofandi á næstu klukkustundum (Coombs o.fl., 2017). Framkvæmd lífslokameðferðar á gjörgæsludeildum er því oft háð ákvörðun um að draga úr lífsbjargandi meðferðum (Coombs o.fl., 2017; Endacott o.fl., 2016). Lagaleg hlið þeirra ákvarðana er mismunandi eftir löndum. Yfirleitt liggur þó meginábyrgðin hjá lækni sjúklings, sem þarf að taka bestu ákvörðunina um meðferðir, helst í samráði við sjúklinginn og fjölskyldu hans og með upplýstu samþykki þeirra (Emanuel og Johnson, 2015). Heilbrigðisstarfsfólk á gjörgæsludeildum þarf að átta sig á mikilvægi þess fyrir sjúklinga og fjölskyldur þeirra að lífslokameðferð sé góð. Það gefst sjaldan möguleiki á að flytja gjörgæslusjúklinga á deildir sem sérhæfa sig í líknarmeðferð. Því er afar mikilvægt að sú meðferð sem sjúklingar og fjölskyldur þeirra hljóta við lífslok á gjörgæslu byggist á bestu mögulegu þekkingu um efnið og sé aðlöguð að þessum skjólstæðingahóp. Markmið þessarar samþættu fræðilegu samantektar er að greina og setja fram árangursríka umönnunarþætti hjúkrunar fyrir deyjandi gjörgæslusjúklinga og fjölskyldur þeirra, með því að skoða hvað rannsóknir um það efni hafa leitt í ljós. Tvær rannsóknarspurningar voru settar fram.

1. Hvaða umönnunarþættir hjúkrunar hafa áhrif á lífslokameðferð á gjörgæsludeild?

2. Hver er upplifun aðstandenda sjúklinga af lífslokameðferð á gjörgæsludeild?

AÐFERÐ

Þessi rannsókn byggir á sameiningu niðurstaðna annarra rannsókna en slíkar rannsóknir nefnast yfirlitsrannsóknir eða samantektarrannsóknir (Ragnheiður Harpa Arnardóttir, 2016). Yfirlitsrannsóknir gefa yfirsýn yfir fyrirbærið sem er til umfjöllunar og geta gagnast við að færa þekkingu úr rannsóknum inn í gagnreynda starfshætti (Ragnheiður Harpa Arnardóttir, 2016). Slík aðferðafræði við gerð fræðilegrar samantektar gerir kleift að nota gögn, þar sem ólíkri aðferðafræði rannsókna er beitt (Whittemore og Knafl, 2005). Flókið eðli marga viðfangsefna í heilbrigðisþjónustu hefur aukið áhuga á yfirlitsrannsóknum sem sameina niðurstöður fleiri tegunda rannsókna á fyrirbærum. Whittemore og Knafl (2005) settu fram aðferðina en þar er lagt til að rannsóknargögn séu flokkuð og settar upp samþættingartöflur (matrix) til að sameina ákveðnar breytur. Eitt af markmiðum þessarar aðferðar er að gera samanburð niðurstaðna skýrari og aðgengilegri. Ferlinu var skipt niður í fjóra hluta samkvæmt tillögum Whittemore og Knafl (2005). Þeir eru; að greina rannsóknarvandamál, að safna gögnum, að greina gögnin og birta niðurstöður. Inngangur gerir grein fyrir fyrsta hluta ferlisins, markmiðum og ofangreindum rannsóknarspurningum.

Gagnasöfnun og leitarorð

Gagnasöfnunin fór fram á tímabilinu maí 2020 til febrúar 2023. Rannsóknarspurningar stýrðu leit að rannsóknum og vali á leitarorðum. Fyrri rannsóknarspurningin var mótuð með „PICOT“ viðmið í huga, þar sem þýðið (P=population) skilgreindist af orðinu „gjörgæsludeild“, því það lýtur að sjúklingum og aðstandendum þar. Íhlutanir eða áhrif sem leitað var eftir (I=intervention)

skilgreindust af orðunum „umönnunarþættir hjúkrunar“. Útkoman sjálf (O=outcome) var skilgreind með orðunum „áhrif á lífslokameðferð“ og vísar þá til gæða þeirra (Echevarria og Walker, 2014). Síðari spurningin var mótuð með „SPIDER“ viðmið í huga, en þau henta eigindlegum rannsóknarspurningum betur (Cooke o.fl., 2012). Úrtakið (S=sample) kom fram í orðinu „gjörgæsludeild“, táknaði aðstandendur sjúklinga þar. Fyrirbærið sem leitast var við að skoða (Pi=phenomenon of interest) var táknað með orðinu „lífslokameðferð“ og matið (E=evaluation) fólst í orðunum „upplifun aðstandenda“.

Í töflu 1 má sjá yfirlit yfir þau leitarorð sem notuð voru við leit í rafrænum gagnasöfnum PubMed og CINAHL. Leitað var eftir 64 samsetningum leitarorða og haldið utan um niðurstöður leitar í exel-forriti og á síðari stigum einnig í EndNote-forritinu. Nokkrar greinar fundust við handleit eða í heimildaskrám annarra greina.

Þátttakendur Einkenni/meðferð/útkoma

Quality of Death

Quality of Dying

Quality of Dying and Death

Quality of End-of-Life Care

Terminal Care

ICU

Intensive Care Unit

Critical Care

Critical Care Nursing

Intensive Care

End of Life

End of Life Care

Death and Dying

Good Death

Palliative Care

Palliative Medicine

Palliative Nursing

Palliative Nurs*

Palliative Treatment

Hospice & Palliative Care Nursing

Communication

Family Satisfaction

Dignity

Care Evaluation

Inntökuskilyrði og útilokun rannsókna

Í töflu 2 má sjá þau inntöku- eða útilokunarskilyrði sem horft var til við leit og skimun á rannsóknum í samantektina. Sjá má myndrænt flæðirit (PRISMA) yfir leit, skimun og val á greinum á mynd 1

Val á heimildum og gæðamat

Tuttugu og tvær greinar uppfylltu skilyrðin til að komast í samantektina. Af þeim 117 greinum sem komu til greina í byrjun, var flestum hafnað fremur snemma í ferlinu vegna þess að þær uppfylltu ekki inntökuskilyrði (94). Áhrifastuðull (impact factor) birtingartímarita rannsóknanna var hafður til hliðsjónar við skimun rannsókna en gæðamat rannsóknanna var ekki háð honum. Tuttugu og þrjár greinar voru lesnar í heild sinni og gert ítarlegt gæðamat á þeim. Af þeim var einni grein hafnað vegna lágs gæðamats.

Til að auka réttmæti samantektarinnar var stuðst við viðurkennd gæðamatsverkfæri frá Joanna Briggs Institute (JBI Critical Appraisal Tools, 2021). Yfirlit yfir þessi matsverkfæri má sjá í töflu 3.

Tafla 1. Leitarorð

Rannsóknir sem fundust í gagnagrunnum PubMed (n=274) Chinal (n=76) Samtals (n=350)

Rannsóknir sem fundust í heimildaskrám eða við handleit (n=4)

Samtals eftir fjarlægingu tvítekinna rannsókna (n=117)

Skimað yfir titla og útdrætti (n=117)

Rannsóknir sem uppfylltu inntökuskilyrði og fóru í gæðamat (n=23)

Eigindlegar (n=5) Megindlegar (n=14) Blönduð aðferð (n=3)

Eigindlegar rannsóknarniðurstöður (n=6)

Útilokaðar vegna inntökuskilyrða (n=94)

Rannsóknir sem ekki stóðust gæðamat (n=1)

í niðurstöðutöflu (sjá töflu 4) þar sem fram komu upplýsingar um ártal, höfunda, gæðamat, rannsóknarsnið, aðferðir, úrtak, mælitæki, tímamælingar, niðurstöður og ályktanir höfunda. Við samþættingu rannsókna voru rannsóknarniðurstöður greindar í fjögur þemu sem svöruðu rannsóknarspurningunum.

Tafla 3. Gæðamatsverkfæri

Tegund rannsóknar

Eigindleg:

Megindleg:

Blönduð aðferð:

Megindlegar rannsóknarniðurstöður (n=16)

Báðir rannsakendur framkvæmdu gæðamat. Hæsti stigafjöldi gat verið á bilinu 8 til 11. Því voru stig reiknuð í prósentuhlutfall af 100, til að auðvelda yfirsýn yfir gæði rannsóknanna í heild, svo og gæðasamanburð milli rannsókna. Miðað var við að rannsóknir skoruðu 60% eða meira til þess að vera teknar með í samantektina. Þó æskilegast hefði verið að finna sem flestar rannsóknir með sterkasta sniðinu, fundust afar fáar rannsóknir með tilraunasniði um efnið. Eina rannsóknin sem fannst með tilraunasniði og slembun í hópa uppfyllti ekki inntökuskilyrðin við skimun.

Tafla 2. Inntöku- og útilokunarskilyrði

rannsókna

Inntökuskilyrði Útilokunarskilyrði

Fullorðnir gjörgæslusjúklingar og/eða aðstandendur þeirra, 19 ára og eldri

Rannsóknarsnið megindlegt eða eigindlegt tímabil rannsókna 2016–2022

Líknarmeðferð eða lífslokameðferð veitt á gjörgæsludeild

Tungumál rannsóknar enska eða íslenska

Sjúklingur inniliggjandi á gjörgæslu í að lágmarki 48 tíma og þiggur þar líknarmeðferð eða lífslokameðferð. Andlát innan 48 tíma frá útskrift ef sjúklingur er útskrifaður á lífslokameðferð af gjörgæslu

Hjúkrunarfræðingar á gjörgæsludeild hafa aðkomu að meðferðum eða umönnunarþáttum sem rannsakaðir eru að hluta til eða öllu leyti

Gagnagreining

Líknar- eða lífslokameðferð nýbura og barna

Meðferðir væntanlegra líffæragjafa á gjörgæslu við lífslok eða eftir úrskurð heiladauða

Rannsóknir þar sem minna en helmingur skilgreinds sjúklingahóps deyr á gjörgæsludeild, eða innan við 48 tímum eftir útskrift af gjörgæsludeild

Rannsóknir sem taka allt þýði gjörgæslusjúklinga

Utanaðkomandi líknarráðgjafateymi hefur þau áhrif sem rannsókn leitast við að lýsa

Einungis horft til kostnaðarsjónarmiða eða fjölda legudaga við mat á útkomu

Stuðst var við leiðbeiningar í grein Whittemore og Knafl (2005) um aðferðina til þess að flokka og greina gögnin. Þær 22 rannsóknir sem völdust í samantektina voru yfirfarnar og komið auga á sameiginlegar breytur í þeim. Hver rannsókn var sett upp

Titill gæðamatsverkfæris JBI Critical Appraisal Höfundar

Checklist for Qualitative Studies Lockwood et al., 2015

Checklist for QuasiExperimental Studies (Non-Randomized Experimental Studies) Tufanaru et al., 2020

Checklist for Cohort Studies Moola et al., 2020

Checklist for Analytical Cross Sectional Studies Moola et al., 2020

Checklist for Prevalence Studies Munn et al., 2015

Checklist for Cohort Studies Moola et al., 2020

Checklist for Prevalence Studies Moola et al., 2020

Checklist for Qualitative Studies Lockwood et al, 2015

Siðfræðileg álitamál Ekki þurfti að sækja um leyfi fyrir samantektinni þar sem öll gögnin komu úr áður birtum rannsóknargreinum.

NIÐURSTÖÐUR

Af þeim tuttugu og tveim rannsóknum sem völdust í samantektina voru fjórtán megindlegar rannsóknir, fimm eigindlegar rannsóknir og þrjár höfðu blandaða aðferð. Rannsóknirnar birtust á tímabilinu 2016–2022, og voru þátttakendur frá Frakklandi (1.878 ættingjar og 458 sjúklingar), Hollandi (212 ættingjar og 90 sjúklingar), Danmörku (126 ættingjar og 88 sjúklingar), Bandaríkjunum (94 ættingjar, 38 sjúklingar og 139 heilbrigðisstarfsmenn (116 af þeim voru hjúkrunarfræðingar)), Ástralíu (100 hjúkrunarfræðingar), Ísrael (122 hjúkrunarfræðingar), Nýja-Sjálandi (fjórir ættingjar, 59 hjúkrunarfræðingar), Kanada (27 heilbrigðisstarfsmenn (af þeim voru 16 hjúkrunarfræðingar)), Kína (149 ættingjar og 149 sjúklingar), Indónesíu (127 hjúkrunarfræðingar), Suður-Kóreu (44 hjúkrunarfræðingar), Noregi (27 ættingjar) og Suður-Afríku (17 ættingjar). Fjögur þemu birtust eftir greiningu gagnanna: „Mikilvægi þekkingar hjúkrunarfræðinga á hjúkrun við lífslok“, „Góð einkennameðferð við lífslok“, „Þátttaka fjölskyldu í umræðum um meðferðartakmarkanir gjörgæslusjúklinga“ og „Fjölskyldumiðuð hjúkrun við lífslok gjörgæslusjúklinga“.

Mikilvægi þekkingar hjúkrunarfræðinga á hjúkrun við lífslok Átta rannsóknir fjölluðu um þekkingu hjúkrunarfræðinga á lífslokameðferð á gjörgæsludeildum (Ganz o.fl., 2020; Graham o.fl., 2018; Kentish-Barnes o.fl., 2022; Kurnia o.fl., 2020; Noome o.fl., 2017; Shifrin, 2016; Wilson o.fl., 2017; Yang og Shin, 2021) og voru 652 heilbrigðisstarfsmenn sem tóku þátt en 636 af þeim voru hjúkrunarfræðingar. Niðurstöður bentu til þess að íhlutanir til að efla þekkingu hjúkrunarfræðinga gjörgæsludeilda á lífslokameðferð væru líklegar til þess að bera árangur (Graham

Mynd 1. Prisma-flæðirit (Page o.fl., 2021).
Teknar með Hæfni
Skimun

Niðurstöður

Gæði lífslokameðferðar voru almennt talin góð. Þó var svigrúm fyrir umbætur hvað varðaði þann tíma sem ættingjar fengu með sjúklingi og gæði þeirra upplýsinga sem ættingjar fengu.

Gæði meðferða voru almennt metin há, 9 í Hollandi og 10 í Danmörku, bæta mætti verkjaog einkennameðferð sjúklinga ásamt þátttöku ættingja í ákvarðanatöku um meðferðir.

Mælitæki, aðferð gagnasöfnunar

Ættingjar fengu rafræna spurningalista euroQ2 og ARREVE, einni viku til 16 mánuðum eftir símtal frá eftirfylgd. Hringt var í ættingja 2–3 mánuðum eftir andlátið.

28 spurninga Likert-kvarði (End of Life in the ICU), VAS-kvarði (QODD). Gögnum safnað á fyrsta og síðasta degi sex mánaða námskeiðs og eftir 2–5 ár.

4. Rannsóknir

Tafla

Vettvangur og úrtak

95 ættingjar látinna gjörgæslusjúklinga á stóru sjúkrahúsi í Hollandi. Svarhlutfall 68,3%.

122 hjúkrunarfræðingar af gjörgæslum í Ísrael.

Tilgangur

Að meta gæði lífslokameðferðar og mismunandi stuðnings til fjölskyldna frá þeirra sjónarhorni.

Athuga hvort námskeið í líknarmeðferð hafi áhrif á þekkingu, viðhorf og starfshætti hjúkrunarfræðinga.

Höfundar, ár, land, snið rannsóknar

Brekelmans o.fl., (2022), Holland, lýsandi sambandsrannsókn.

Þátttakendur upplifðu íhlutun sem eflandi fyrir þekkingu og hæfni. Rafræna fræðslan var fýsilegri en hópavinnan, sem var þó nauðsynleg til að samþætta þekkingu og stuðla að þverfaglegri umræðu.

euroQODD, sem mælir gæði lífslokameðferðar á gjörgæslu frá sjónarhorni fjölskyldu, var lagt fyrir aðstandendur 3 vikum eftir andlátið.

217 fjölskyldumeðlimir (126 frá Danmörku og 91 frá Hollandi) frá samtals 178 sjúklingum (88 frá Danmörku og 90 frá Hollandi).

Marktækur munur fannst á viðhorfum og starfsháttum varðandi líknarmeðferð á gjörgæslu. Þekking hjúkrunarfræðinga á að veita líknarmeðferð stóð í stað. Gerritsen o.fl., (2018), Holland, Danmörk, framskyggn ferilrannsókn.

Ganz o.fl., (2020), Ísrael, blönduð aðferð.

Kínversk útgáfa QODD er réttmæt og áreiðanleg. Gæði lífslokameðferðar á kínverskum gjörgæslum virðist lítil.

Þægindaúrtak frá einni gjörgæsludeild. 27 heilbrigðisstarfsmenn (59 % af þeim hjúkrunarfræðingar). 10 atriða aðlagaður spurningalisti (SATIN). Þátttakendur fylltu sjálfir út rafrænan spurningalista eftir fræðslu og rýnihópasamtal.

Skoða notagildi og mæligetu aðlagaðs mælitækis (euroQODD) á gjörgæslum í Danmörku og Hollandi og meta gæði meðferða í þessum löndum.

Að kanna fýsileika íhlutunar (SATIN education) frá sjónarhorni heilbrigðisstarfsmanna.

Afturskyggn þversniðsrannsókn. Haft samband við ættingja 2–4 mánuðum eftir andlátið.

Réttmætisprófun kínverskrar útgáfu QODD og skoða gæði lífslokameðferðar á gjörgæslum. 149 ættingjar látinna gjörgæslusjúklinga frá háskólasjúkrahúsi í borginni Luzhou í Sichuan héraði.

CAESAR er gagnlegt mælitæki til þess að meta árangur íhlutana sem miða að því að bæta gæði lífslokameðferðar á gjörgæslum. Það gæti spáð fyrir um áhættu á þróun flókinna sorgarviðbragða og áfallastreitu hjá aðstandendum. Fjórðungur aðstandenda skoraði lágt á CAESAR-kvarða sem benti til mjög erfiðrar reynslu.

CAESAR mældi gæði lífslokameðferðar á gjörgæslu frá sjónarhorni fjölskyldu, lagt fyrir

3 vikum eftir andlát. HADS mældi þunglyndi og kvíða, lagt fyrir eftir 3 mánuði, IES-R mældi vanlíðan tengda áföllum, lagt fyrir eftir 3, 6 og 12 mánuði. ICG mældi flókin sorgarviðbrögð, lagt fyrir eftir 6 og 12 mánuði.

41 gjörgæsla. Tilgangsmiðað úrtak 600 ættingja.

Þróun og réttmætisprófun mælitækis sem metur reynslu fjölskyldu sjúklinga sem látast á gjörgæslum.

Hlutfall ættingja með PG-13 skor 30 eða hærra var marktækt lægra í íhlutunarhóp en samanburðarhóp. PG-13 meðalskorið var líka lægra í íhlutunarhóp.

Útkoma metin eftir stærð hlutfalls ættingja í hópunum (eftir 6 mánuði) sem höfðu hátt skor á PG-13-spurningarlista (prolonged grief / viðvarandi sorgarviðbrögð).

34 gjörgæslur í Frakklandi, 484 ættingjar í íhlutunarhóp, 392 ættingjar í samanburðarhóp. Læknar og hjúkrunarfræðingar í íhlutunarhóp fengu fræðslu um lífslokameðferð fyrir íhlutun.

Að bera saman hefðbundna lífslokameðferð á gjörgæslum og þriggja skrefa stuðningsnálgun fyrir fjölskyldur í gegnum ferlið við lífslok sjúklinga.

Marktæk tengsl voru milli þekkingar og sjálfstrausts hjúkrunarfræðinga í að veita líknarmeðferð. Meirihluti (56,7%) hafði mikið sjálfstraust í að veita líknarmeðferð. 81% hafði litla þekkingu á líknarmeðferð á gjörgæslu.

Þversniðsrannsókn, 2 spurningalistar (Palliative Care Knowledge Test og Palliative Care Nursing Self-Competence Scale).

Eitt sjúkrahús í Bandung, 127 hjúkrunarfræðingar (73,2% frá almennri gjörgæsludeild).

Íhlutunarhópur hafði meiri heildarfylgni við notkun leiðbeininga eftir 11 mánuði en samanburðarhópur. Hjúkrunarfræðingar í íhlutunarhópnum skoruðu hærra samkvæmt mati fjölskyldu á umönnun almennt og umönnun við lífslok.

4 daga námskeið í innleiðingarferli fyrir leiðtoga á deildum í íhlutunarhópi. Spurningalistar lagðir fyrir hjúkrunarfræðinga og aðstandendur byggðir á QDD og CQI. Lagðir fyrir í upphafi, eftir 6 mánuði og eftir 11 mánuði.

13 gjörgæslur (8 slembaðar í tilraunahóp, 5 í viðmiðunarhóp) 153 hjúkrunarfræðingar og 18 aðstandendur í íhlutunarhóp og 112 hjúkrunarfræðingar og 15 aðstandendur í samanburðarhóp.

Upplýsingagjöf hjúkrunarfræðinga við lífslok sjúklinga endurspeglaði fjölskyldumiðaða hjúkrun, þar sem mest áhersla var lögð á tilfinningalegan og almennan stuðning við fjölskyldu.

Rafrænn aðlagaður spurningalisti, upphaflega þróaður af Kirchoff og fleirum, 40 atriði. Þversniðsrannsókn.

Graham o.fl., (2018), Kanada, blönduð aðferð.

Han o.fl., (2021), Kína, lýsandi sambandsrannsókn.

Kentish-Barnes o.fl. (2016), Frakkland, blönduð aðferð.

Að kanna tengslin milli þekkingar og sjálfsöryggis hjúkrunarfræðinga við líknarmeðferð á gjörgæslum.

Að kanna áhrif stuðningsferlis við innleiðslu leiðbeininga um lífslokameðferð á gjörgæslu. Áhrifin á þekkingu hjúkrunarfræðinga, notkun leiðbeininga og útkomu gæða.

Kentish-Barnes o.fl., (2022), Frakkland, slembuð samanburðarrannsókn án forprófunar.

Kurnia o.fl., (2019), Indónesía, lýsandi sambandsrannsókn.

Noome o.fl., (2017), Holland, slembuð samanburðarrannsókn án forprófunar.

Að koma auga á þær upplýsingar sem hjúkrunarfræðingar veita oftast til aðstandenda sjúklinga áður en dregið er úr stuðningi lífsbjargandi meðferða og á meðan því stendur. 159 hjúkrunarfræðingar á gjörgæslu (100 í Ástralíu og 59 á Nýja-Sjálandi).

Tilgangsmiðað úrtak. 43 gjörgæsludeildir í Frakklandi. 458 sjúklingar á lífslokameðferð. 210 sjúklingar þar sem barkarenna var fjarlægð strax og 190 ættingjar þeirra. 248 sjúklingar sem héldu barkarennu og 212 ættingjar þeirra. Fyrir sjúklinga: BPS, RASS. Andköf (til staðar eða ekki). Fyrirstaða í loftvegum (1–4), mælt við upphaf lífslokameðferðar og á 15 mínútna fresti eftir það. Fyrir ættingja: IES-R eftir 3 og 12 mánuði, HADS, eftir 3, 6 og 12 mánuði, ICG eftir 6 og 12 mánuði og spurningalisti um ánægju með umönnun sjúklings eftir 3 mánuði. Að fjarlægja barkarennu strax í upphafi lífslokameðferðar virtist auka vanlíðan sjúklinga (hryglu og verki) en hafði lítil áhrif á líðan aðstandenda eða mat þeirra á gæðum meðferða. Þegar barkarenna var fjarlægð strax mátu unglæknar meðferð sjúklings verri og sjúkraliðar upplifðu meiri starfstengda streitu.

Ranse o.fl. (2016), Ástralía og Nýja-Sjáland, lýsandi sambandsrannsókn.

Robert o.fl. (2017), Frakkland, framskyggn ferilransókn. (Þegar ákvörðun um takmörkun lífsbjargandi meðferða lá fyrir). Að kanna áhrif þess að fjarlægja barkarennu strax samanborið við að halda henni og draga jafnt og þétt úr stuðningi öndunarvélarmeðferðar.

Niðurstöður

Helmingur sjúklinga fékk verki og einkenni frá öndunarvegi þegar dregið var úr meðferð. Meira vakandi sjúklingar, með minni skammta af ópíóíðum og mídazólam og þeir sem barkarenna var fjarlægð strax hjá, voru líklegri til að upplifa óþægindi.

Marktækur munur var á einkunn þátttakenda fyrir (7,9) og eftir námskeiðið (9,7). Fræðsla um lífslokameðferð á gjörgæslu getur aukið þekkingu hjúkrunarfræðinga.

Niðurstöður sýndu að heilbrigðisstarfsfólk taldi sig hafa meiri þekkingu og vera mun öruggara í umræðum um lífslokameðferð við aðstandendur eftir íhlutunina. Skráning mikilvægra umræðuefna á fjölskyldufundum varð betri og fleiri hjúkrunarfræðingar sátu og tóku þátt í leiða fjölskyldufundi.

Hjúkrunarfræðingar í íhlutunarhóp mátu sig hafa meira öryggi

í að veita líknarmeðferð eftir námskeiðið en í samanburðarhóp. Báðir hópar skoruðu hærra í seinna skiptið sem spurningalisti um þekkingu í líknarmeðferð var lagður fyrir

Yfir 70% sjúklinganna þróuðu með sér erfið einkenni sem voru viðvarandi meirihluta tímans fram að andláti. Lyfjaforgjöf fyrir töku barkarennu virtist vera ábótavant og benzodiazepine-lyf sjaldan notuð.

Gæðaþættir voru að miðlað væri heiðarlegum upplýsingum um ástand sjúklings á auðskiljanlegan hátt, að starfsfólk brygðist við tilfinningum og hagnýtum þörfum fjölskyldu, hefði góðan skilning og sýndi öryggi við ástand sjúklings og veitti stuðning við ákvarðanatöku.

Það gat verið jákvætt fyrir aðstandendur að fá gjörgæslusjúkling heim við lífslok. Töluverð ábyrgð færðist þó á fjölskylduna þegar það var gert og þarf að huga sérstaklega að því og halda vel utan um ferlið.

Fimm þemu greindust. Niðurstöður bentu til ófullnægjandi þjónustu við aðstandendur deyjandi gjörgæslusjúklinga.

Ættingjar fundu fyrir ábyrgð í ákvarðanatöku þó læknar reyndu að hlífa þeim við þessari ábyrgð. Þrjú mismunandi stig þátttöku í ákvarðanatöku greindust, allt frá feðraveldisstíl, til meira virkrar þátttöku ættingja.

Fjölskyldumeðlimir upplifðu hjúkrunarmeðferð sem styðjandi en að þörf væri á betri upplýsingagjöf. Var það helst varðandi upplýsingar um hvert þeirra hlutverk væri í ákvarðanatöku um meðferð sjúklinga.

Verkefnið bætti upplifun aðstandenda af meðferð sjúklingsins. 3WP var yfirfæranleg, hagkvæm og sjálfbær íhlutun sem kom með gildi til deyjandi gjörgæslusjúklinga, fjölskyldna þeirra og heilbrigðisstarfsfólks sem annaðist þau.

Mælitæki, aðferð gagnasöfnunar

BPS (Behavioral Pain Scale), RASS (Richmond Agitation Sedation Scale). Andköf (til staðar eða ekki). Fyrirstaða í loftvegum (1–4).

20 atriða spurningalisti (Nursing Management at the End-of-Life ) lagður fyrir þátttakendur fyrir og eftir 3,5 klst. námskeið í hjúkrun við lífslok.

Námskeið um samræður við fjölskyldur um meðferðir við lífslok. Innleiðing staðlaðs forms til skráningar fjölskyldufunda. Spurningalisti fyrir og eftir íhlutun. Skráning mikilvægra umræðuefna á fjölskyldufundum metin.

Tveir spurningalistar (Korean Palliative Care Quiz for Nurses og aðlagaður Korean self-efficacy scale) fyrir og eftir rafrænt námskeið (íhlutunarhópur) eða lestur bæklings (samanburðarhópur).

Pain Assessment Tool for Non-cognizant Adults.

Viðtöl, spurningaviðmið hönnuð með „Cognitive Task Analysis“ kenningu að leiðarljósi, efnisgreining með afleiðslu. „Donabedian“ hugmyndafræði um gæði heilbrigðisþjónustu höfð að leiðarljósi við greiningu.

Um klukkustundarlöng viðtöl með spurningaviðmiðum til hliðsjónar, þemagreining, viðmið Braun og Clarke höfð að leiðarljósi.

Viðtöl 30–45 mínútur, spurningaviðmið til hliðsjónar. Þemagreining, stuðst við aðferð Tesch.

Gögn frá fyrri rannsókn höfundar, 60–90 mínútna viðtöl með spurningaviðmiðum.

Viðtöl, 45–75 mín, þemagreining með aðleiðslu.

Viðtöl með spurningaviðmiðum, eigindleg efnisgreining með afleiðslu. Við greiningu voru hugtökin gildi, hagkvæmni, yfirfæranleiki og sjálfbærni höfð að leiðarljósi.

Vettvangur og úrtak

450 sjúklingar á lífslokameðferð á frönskum gjörgæslum.

Sex gjörgæsludeildir á stóru sjúkrahúsi 46 hjúkrunarfræðingar.

29 rúma lyflæknisgjörgæsla 21 heilbrigðisstarfsmaður, þar af voru 16 hjúkrunarfræðingar.

Háskólasjúkrahús í Seoul, 44 hjúkrunarfræðingar á gjörgæslu með 3 ára starfsreynslu eða minna, 21 í íhlutunarhóp og 23 í samanburðarhóp.

Ein heilaog taugagjörgæsludeild. Þægindaúrtak 38 sjúklinga.

Höfundar, ár, land, snið rannsóknar Tilgangur

Meta áhættuþætti vanlíðanar hjá sjúklingum þar sem dregið var úr stuðningi öndunarvélarmeðferðar við lífslok.

Að auka gagnreynda þekkingu hjúkrunarfræðinga á gjörgæslu um meðferðarmarkmið við lífslok.

Að bæta gæði samskipta milli heilbrigðisstarfsfólks, sjúklinga og fjölskyldna í umræðum um meðferðir við lífslok. Einnig að auka þekkingu og öryggi starfsfólks í umræðunum.

Að þróa námskeið í lífslokameðferð fyrir hjúkrunarfræðinga á gjörgæslu og meta áhrif þess á færniþætti, svo sem þekkingu og öryggi í að veita meðferðir.

Kanna hvort veruleg vanlíðan yrði við lífslok hjá sjúklingum eftir að barkarenna var fjarlægð. Athuga hversu langan tíma það tók að meðhöndla vanlíðan.

Robert o.fl., (2020), Frakkland, „Post hoc analysis“ notuð gögn úr eldri ferilrannsókn.

Shifrin, (2016), Bandaríkin, ferilrannsókn.

Wilson o.fl, (2017), Bandaríkin, framskyggn Ferilrannsókn.

Yang og Shin, (2021), Suður-Kórea, óslembuð íhlutunarrannsókn með samanburðarhópi.

Yeh o.fl., (2019), Bandaríkin, afturskyggn lýsandi sambandsrannsókn.

Viðtöl

tekin á skrifstofu rannsakanda eða heimili þátttakenda. 19 aðstandendur sjúklinga af almennri gjörgæsludeild.

Koma auga á gæðaþætti í heilbrigðisþjónustu gjörgæsludeildar frá sjónarhorni ættingja sem þurfa að taka ákvarðanir um meðferð við lífslok sjúklinga.

Heimili aðstandenda, tilgangsmiðað úrtak, 4 aðstandendur 2 sjúklinga sem höfðu látist 14-28 mánuðum áður.

Að fá innsýn í upplifun aðstandenda þegar gjörgæslusjúklingur er fluttur heim við lífslok.

Tilgangsmiðað úrtak 17 aðstandenda gjörgæslusjúklinga frá 3 háskólasjúkrahúsum.

Að lýsa upplifun aðstandenda gjörgæslusjúklinga á lífslokameðferð.

27 aðstandendur 21 gjörgæslusjúklings af 4 gjörgæslum.

Tilgangsmiðað úrtak 26 aðstandenda 20 látinna gjörgæslusjúklinga frá einu háskólasjúkrahúsi og 3 almennum sjúkrahúsum.

Að lýsa upplifun ættingja af ábyrgð á meðferðarákvörðunum gjörgæslusjúklinga við lífslok.

Gul o.fl., (2019), Bandaríkin, eigindleg efnisgreining eldri tilfellarannsóknar.

Hutchinson og Van Wissen, (2017), Nýja-Sjáland, eigindleg „Qualitative Description“.

Kisorio og Langley, (2016), Suður-Afríka, eigindleg lýsandi.

Lind, (2019), Noregur, eigindleg frásagnargreining.

Noome o.fl., (2016), Holland, eigindleg fyrirbærafræði. Að skoða upplifun fjölskyldu af þáttum hjúkrunar við lífslok gjörgæslusjúklinga.

Vanstone o.fl., (2020), Bandaríkin og Kanada, blönduð aðferð. Að kanna árangur og fýsileika 3WPíhlutunar í líknandi nálgun. 4 gjörgæslur, 3 í Kanada og 1 í Bandaríkjunum. Íhlutun náði til 730 deyjandi sjúklinga. Þægindaúrtak 75 ættingja, 72 heilbrigðisstarfsmanna (75% voru hjúkrunarfræðingar) og 20 stjórnenda.

Tafla 5. Umönnunarþættir hjúkrunar sem geta bætt gæði lífslokameðferðar á gjörgæsludeildum

Ígrundun Ígrunda eigið viðhorf og öryggi til þess að veita líknarmeðferð á gjörgæslu og möguleg áhrif þess á hjúkrun.

Þekking og hæfni hjúkrunarfræðinga

Velferð sjúklinga

Samstarf

Taka virkan þátt í samstarfi við aðrar heilbrigðisstéttir og sérfræðinga í lífslokameðferð. Fræðsla

Málsvari sjúklinga

Einkennamat

Viðeigandi viðbrögð

Málsvari fjölskyldu

Miðlun upplýsinga

Sækja námskeið eða fræðslu um líknarmeðferð með áherslu á svið þar sem þekkingu skortir. Lesa nýlegar fræðigreinar um efnið.

Skilja mismunandi hlutverk og ábyrgð sjúklinga, fjölskyldu og heilbrigðisstarfsfólks við lífslok sjúklinga.

Fylgja því eftir að fyrirmæli um viðeigandi lyf, nauðsynleg til góðrar einkennameðferðar, séu til staðar í lífslokameðferð.

Meta einkenni sjúklinga reglulega með réttmætum og áreiðanlegum mælitækjum (CPOT, RDOS, RASS).

Vera viðbúin/n versnun einkenna þegar dregið er úr stuðningi lífsbjargandi meðferða.

Bregðast við einkennum sjúklinga á viðeigandi hátt og gefa einstaklingsmiðaða skammta af lyfjum sem draga úr einkennum eins og verkjum, andnauð, ógleði, kvíða eða slímmyndun í öndunarvegi.

Fá upplýsingar hjá fjölskyldu og deila sjónarmiði og líðan fjölskyldu á viðeigandi hátt með öðru heilbrigðisstarfsfólki sem tekur þátt í meðferð sjúklings.

Stuðla að og sitja reglulega fjölskyldufundi með læknum og fjölskyldu sjúklings. Fara yfir markmið fjölskyldufunda með læknum áður en þeir hefjast. Íhuga notkun eyðublaða um mikilvæg umræðuefni á fjölskyldufundum og skrá niðurstöður funda í sjúkráskrá sjúklings. Kanna þekkingu fjölskyldu og þörf fyrir upplýsingar á nærgætinn hátt. Veita upplýsingar um ástand og meðferðir sjúklings í samráði við annað heilbrigðisstarfsfólk, forðast mótsagnir í upplýsingagjöf. Aðstoða fjölskyldu við að skilja sitt hlutverk og ábyrgðasvið í lífslokameðferð sjúklings og aðgreina það frá ábyrgðarsviði heilbrigðisstarfsfólks.

Velferð fjölskyldu

Stuðningur

Aðlögun umhverfis

Veita tilfinningalegan stuðning með því að sýna sjúklingi og fjölskyldu virðingu og samhygð. Kynna sér og íhuga notkun samskiptaverkfæra eins og NURSE eða SPIKES við krefjandi umræðuefni. Bjóða fjölskyldu þjónustu presta eða sálgæsluaðila sjúkrahússins. Kynna sér og íhuga notkun gæðamatskvarða, svo sem CAESAR til að koma auga á sóknarfæri og til að greina þá sem þurfa mest á eftirfylgd og stuðningi að halda.

Stuðla að nánd milli sjúklings og fjölskyldu með því að takmarka heimsóknir til sjúklings eins lítið og hægt er. Færa sjúkling á einbýli og draga úr umhverfisáreiti. Bjóða fjölskyldu upp á einveru við rúm sjúklings. Leyfa smærri persónulega hluti hjá sjúklingi til að gera umhverfið heimilislegra og fjarlægja óþarfan tækjabúnað.

o.fl., 2018; Kentish-Barnes o.fl., 2022; Noome o.fl., 2017; Shifrin, 2016; Wilson o.fl., 2017; Yang og Shin, 2021) og gætu nýst til að bæta útkomu hjá þessum sjúklingum (Kurnia o.fl., 2020; Shifrin, 2016; Wilson o.fl., 2017). Þá mátti líklega bæta útkomu fræðslunnar með því að kanna fyrst þekkingarskort hjúkrunarfræðinga á ákveðnum sviðum lífslokameðferðar og leggja áherslu á þau í fræðslunni (Graham o.fl., 2018). Íhlutanir sem miðuðu að því að hafa jákvæð áhrif á viðhorf hjúkrunarfræðinga til þess að þiggja slíka fræðslu, juku árangur fræðslunnar. Ýmis módel gátu stutt við innleiðingar á breytingum í klínískum starfsháttum (Noome o.fl., 2017; Shifrin, 2016). Aukin þekking hjúkrunarfræðinga á lífslokameðferð á gjörgæslu var líkleg til að skila sér í auknu öryggi þeirra við að veita þessa meðferð, þó var bent á að hjúkrunarfræðingar gátu líka verið öruggir við að veita meðferðir við lok lífs án nægjanlegrar þekkingar og að slíkt bætti ekki árangur meðferðanna (Kurnia o.fl., 2020).

Góð einkennameðferð við lífslok

Niðurstöður sex rannsókna fjölluðu um mögulega áhrifaþætti hjúkrunar á líðan gjörgæslusjúklinga við lífslok (Gerritsen o.fl., 2018; Han o.fl., 2021; Kentish-Barnes o.fl., 2016; Robert o.fl., 2020; Robert o.fl., 2017; Yeh o.fl., 2019) en 496 gjörgæslusjúklingar og 912 ættingjar tóku þátt í rannsóknunum. Þrjár rannsóknir bentu til þess að það að fjarlægja barkarennu snemma í lífslokameðferð gæti valdið meiri vanlíðan (hryglu og verkjum) hjá sjúklingum (Robert o.fl., 2020; Robert o.fl., 2017; Yeh o.fl., 2019), en hefði lítil áhrif á líðan aðstandenda eða mat þeirra á gæðum meðferða (Robert o.fl., 2017). Þrjár rannsóknir bentu til þess að verkir og andnauð deyjandi gjörgæslusjúklinga væru vanmeðhöndluð (Han o.fl., 2021; Robert o.fl., 2020; Yeh o.fl., 2019). Við réttmætisprófun kínverskrar útgáfu mælitækisins “Quality of Dying and Death” var það mat aðstandenda að verkjastjórnun hjá deyjandi ættingjum þeirra væri ekki góð (22,54 að meðaltali). Lágt mat (18,12) sömu aðstandenda á öndunarvélarmeðferð þessa hóps gæti líka bent til vanmeðhöndlunar á erfiðum einkennum eins og andnauð (Han o.fl., 2021). Helmingur sjúklinganna í rannsókn Roberts og félaga (2020) upplifði einnig vanlíðan þegar dregið var úr stuðningi með öndunarvél og að fjarlægja barkarennu í lífslokameðferð virtist tengjast meiri vanlíðan sjúklinganna. Í rannsókn Yeh og félaga (2019) upplifðu 73,7% sjúklinganna meiri vanlíðan eftir að barkarenna var fjarlægð. Hins vegar var það mat meirihluta ættingja frá Frakklandi, Hollandi og Danmörku í rannsóknum Kentish-Barnes og félaga (2016) og Gerritsen og félaga (2018), að verkjameðferð sjúklinganna væri góð. Þó var það mat heilbrigðisstarfsfólks í Frakklandi og Bandaríkjunum að verkir og andnauð gjörgæslusjúklinga í lífslokameðferð væri vanmeðhöndluð (Robert o.fl., 2020; Yeh o.fl., 2019). Það að meta einkenni sjúklinga sem ekki geta tjáð sig um þau er krefjandi og krefst ákveðinnar færni og þekkingar. Því er ekki ólíklegt að stundum gætu slík einkenni verið til staðar án þess ættingjar átti sig á þeim. Niðurstöður samantektarinnar bentu til að gera megi betur í einkennameðferð deyjandi gjörgæslusjúklinga.

Þátttaka fjölskyldu í umræðum um meðferðartakmarkanir gjörgæslusjúklinga Átta rannsóknir fjölluðu um þarfir og upplifun fjölskyldu, þegar umræður og ákvarðanir voru teknar um meðferðir eða takmarkanir þeirra hjá gjörgæslusjúklingum við lok lífs (Brekelmans o.fl., 2022; Gerritsen o.fl., 2018; Gul o.fl., 2019; Hutchinson og Van Wissen, 2017; Kisorio og Langley, 2016; Lind, 2019; Noome o.fl., 2016; Ranse o.fl., 2016). Alls 405 ættingjar og 159 hjúkrunarfræðingar tóku þátt í þessum rannsóknum. Niðurstöður bentu til þess að bæta megi þátttöku fjölskyldna í ákvörðunarferlinu við lífslok gjörgæslusjúklinga og að ættingjar vilji taka þátt í því (Brekelman o.fl., 2022; Gerritsen o.fl., 2018; Kisorio and Langley, 2016; Lind, 2019). Það er þó krefjandi fyrir ættingja að taka þátt og því þurfa þeir stuðning frá heilbrigðisstarfsfólki til þess að vera færir um það (Gul o.fl., 2019; Hutchinson og Van Wissen, 2017; Lind, 2019; Noome o.fl., 2016; Ranse o.fl., 2016). Ættingjar upplifa oft yfirþyrmandi ábyrgðartilfinningu í ákvörðunarferlinu (Gul o.fl., 2019; Hutchinson og Van Wissen, 2017; Lind, 2019; Noome o.fl., 2016) og þurfa aðstoð frá heilbrigðisstarfsfólki til þess að greina á milli eigin ábyrgðar og þeirrar sem hvílir á heilbrigðisstarfsfólki (Lind, 2019; Noome o.fl., 2016).

Fjölskyldumiðuð hjúkrun við lífslok gjörgæslusjúklinga

Níu rannsóknir fjölluðu um mikilvægi framlags hjúkrunar til fjölskyldna gjörgæslusjúklinga við lífslok (Brekelman o.fl., 2022; Gerritsen o.fl., 2018; Gul o.fl., 2019; Han o.fl., 2021; Kentish-Barnes o.fl., 2022; Kentish-Barnes o.fl., 2016; Kisorio og Langley, 2016; Noome o.fl., 2016; Vanstone o.fl., 2020) en þátttakendur voru 2.074 ættingjar og 72 heilbrigðisstarfsmenn (af þeim voru 56 hjúkrunarfræðingar). Niðurstöður þeirra bentu til að tilfinningalegur stuðningur frá hjúkrunarfræðingum væri mikilvægur gæðaþáttur í lífslokameðferð sjúklinga (Gul o.fl., 2019; Noome o.fl., 2016), og að fjölskyldur upplifðu lakari gæði meðferða þegar hann skorti (Kisorio og Langley, 2016). Ættingjar kunnu að meta opna heimsóknartíma (Noome o.fl., 2016) og fannst erfitt þegar heimsóknir voru takmarkaðar (Kisorio og Langley, 2016). Þörf fjölskyldna til þess að verja sem mestum tíma með sjúklingnum kom líka fram í niðurstöðum 3WP-verkefnisins (“three wishes project”) í rannsókn Vanstone og félaga (2020), en þriðjungur óskanna fólu í sér meiri viðveru fjölskyldu hjá sjúklingnum í gegnum persónulegar eða trúarlegar athafnir. Nokkrar rannsóknir sýndu fram á þörf fjölskyldu fyrir heiðarlegar og auðskiljanlegar upplýsingar frá heilbrigðisstarfsfólki (Brekelmans o.fl., 2022; Gul o.fl., 2019; Kisorio og Langley, 2016; Noome o.fl., 2016). Mikilvægi kveðjustundar fyrir fjölskyldur kom fram í nokkrum rannsóknum (Brekelmans o.fl., 2022; Gul o.fl., 2019; Kisorio og Langley, 2016; Noome o.fl., 2016). Kveðjustund var líka einn af mörgum gæðaþáttum í mælitækjum sem mátu gæði lífslokameðferðar (Gerritsen o.fl., 2018; Han o.fl., 2021; Kentish-Barnes o.fl., 2016) en í rannsókn Han og félaga (2021) tjáðu einmitt margir aðstandendur eftirsjá yfir því að hafa ekki getað kvatt sjúklinginn. Í rannsókn Vanstone og félaga (2020) mátti sjá mikilvægi kveðjustundar endurspeglast í mörgum þeim óskum sem voru uppfylltar í lífslokameðferð sjúklinganna. Í tveimur rannsóknum (Kisorio og Langley, 2016; Noome o.fl., 2016) höfðu ættingjar þörf fyrir að fá að taka beinan þátt í umönnun sjúklingsins en þeir þurftu stuðning hjúkrunarfræðinga á gjörgæslu til þess að geta verið öruggir í því hlutverki. Nýleg rannsókn Kentish-Barnes og félaga (2022) sem kannaði áhrif þriggja skrefa íhlutunar fyrir ættingja deyjandi gjörgæslusjúklinga á gæði lífslokameðferðar sýndi fram á jákvæð áhrif íhlutunarinnar. Íhlutunin byggðist á þremur fundum milli ættingja og heilbrigðisstarfsfólks í ferlinu við lífslok gjörgæslusjúklinga. Árangur var mældur með því að meta skor ættingja á langvarandi sorgarviðbrögðum eftir sex mánuði og einkennum um áfallastreituröskun (PTDS) eftir þrjá og sex mánuði. Íhlutunin dró marktækt úr hlutfalli aðstandenda sem glímdu við flókin sorgarviðbrögð (15% í íhlutunarhóp en 21% í viðmiðunarhóp). Áhugavert væri að sjá fleiri rannsóknir á notkun og árangri þessarar íhlutunar hjá fjölbreyttari hóp gjörgæslusjúklinga en þátttakendur voru 688 frá frönskum gjörgæsludeildum.

Samkvæmt niðurstöðum samantektarinnar benti flest til að gæði lífslokameðferðar væru alla jafna nokkuð góð, þó bæta mætti ákveðin svið hennar. Ættingjar frá Kína mátu gæði meðferðarinnar minni en ættingjar frá Evrópu eða Bandaríkjunum en rannsaka þyrfti betur hvort um raunverulegan mun sé að ræða þar sem þátttakendur frá Kína voru einungis 149 ættingjar frá einu stóru háskólasjúkrahúsi (Han o.fl., 2021).

UMRÆÐUR

Þessi samantekt miðaði að því að finna nýlegar rannsóknir sem gætu varpað ljósi á þá umönnunarþætti hjúkrunar sem bæta gæði lífslokameðferðar á gjörgæsludeildum. Leitað var í gagnagrunnum að gagnreyndri þekkingu um hjúkrun þessa sjúklingahóps. Þessi þekking var síðan greind til að finna þá hjúkrunarþætti sem gagnast þessum sjúklingum og fjölskyldum þeirra. Niðurstöður samantektarinnar birtast í fjórum þemum hennar sem lýsa á fremur einfaldaðan máta þeirri hjúkrun sem þessi sjúklingahópur fær í flóknum aðstæðum og umhverfi gjörgæsludeilda. Þeir umönnunarþættir hjúkrunar sem lýst er hafa möguleika á að hafa jákvæð áhrif á þrjú svið lífslokameðferðar á gjörgæsludeildum. Þessi þrjú svið eru í fyrsta lagi þekking og hæfni hjúkrunarfræðinga, í öðru lagi velferð sjúklinga og í þriðja lagi velferð fjölskyldu sjúklinga. Í töflu fimm má sjá tillögur að umönnunarþáttum hjúkrunar sem geta bætt gæði lífslokameðferðar á þessum þremur sviðum.

Sýnt hefur verið fram á að þekking hjúkrunarfræðinga um líknarmeðferð getur aukið sjálfstraust þeirra og öryggi við hjúkrun gjörgæslusjúklinga við lífslok (Kurnia o.fl., 2020; Yang og Shin, 2021). Því er mikilvægt að hvatt sé til fræðslu, námskeiða og umræðna um líknarmeðferð og lífslokameðferð fyrir alla hjúkrunarfræðinga sem starfa á gjörgæsludeildum. Þetta samræmist niðurstöðum nýlegrar kögunarrannsóknar á lífslokameðferð utan sérhæfðra líknardeilda en höfundar telja kunnáttu og reynslu hjúkrunarfræðinga styðja við góða meðferð sjúklinga og fjölskyldna (Guðríður Ester Geirsdóttir o.fl., 2023). Þörf fjölskyldna fyrir heiðarlegar og auðskiljanlegar upplýsingar kom greinilega fram í þessari samantekt (Gul o.fl., 2019; Kisorio og Langley, 2016; Noome o.fl., 2016). Hjúkrunarfræðingar gegna mikilvægu hlutverki í umræðum um meðferðir og takmarkanir þeirra við lok lífs (Coombs o.fl., 2017) og framlag þeirra er mikilvægt fyrir gæði lífslokameðferðar á gjörgæslum (Anderson o.fl., 2016; Vanderspank-Wright o.fl., 2019). Þátttaka krefst þó ákveðinnar hæfni og því ætti þjálfun í samskiptum að vera hluti af þeirri fræðslu og menntun sem er í boði fyrir hjúkrunarfræðinga á gjörgæsludeildum. Niðurstöður samantektarinnar benda til vanmeðhöndlunar á erfiðum einkennum deyjandi gjörgæslusjúklinga. Í rannsókn Guðríðar Esterar Geirsdóttur og fleiri (2023) kom einnig fram að bæta mætti einkennameðferð hjá deyjandi sjúklingum utan sérhæfðra líknardeilda. Því má álykta að hjúkrunarfræðingar á gjörgæslum þurfi að eiga frumkvæði að því að bæta einkennameðferð sjúklinga sinna. Skortur á lyfjafyrirmælum ætti ekki að tefja of lengi eða hindra góða einkennameðferð. Góð og einstaklingsmiðuð einkennameðferð sjúklinga krefst virks samstarfs hjúkrunarfræðinga og lækna á gjörgæslu. Einnig er mikilvægt að hjúkrunarfræðingar temji sér notkun mælitækja sem auðvelda þeim að meta verki og andnauð þessa sjúklingahóps. Áhrif umhverfis gjörgæslu á lífslokameðferð komu fram í þessari samantekt (Gul o.fl., 2019; Hutchinson og Van Wissen, 2017) og hjúkrunarfræðingar reyndu að aðlaga umhverfið að þörfum sjúklinga og fjölskyldna þeirra (Noome o.fl., 2016; Vanstone o.fl., 2020). Þetta samræmist niðurstöðum samantektar Coombs og fleiri (2017) sem skoðuðu stuðning hjúkrunarfræðinga til fjölskyldna gjörgæslusjúklinga við lífslok. Þetta kemur ekki á óvart þar sem líknandi nálgun leggur áherslu á heimilið eða heimilislegt umhverfi í meðferðum við lífslok (Cottrell og Duggleby, 2016) og sýnt hefur verið fram á áhrif hönnunar og umhverfis sjúkrahúsa á gæði lífslokameðferðar (Sagha Zadeh o.fl., 2018).

Þessi yfirlitsgrein dregur fram svið lífslokameðferðar á gjörgæslum sem þarfnast frekari rannsókna og umbóta. Þar má nefna stuðning til fjölskyldna við ákvarðanatöku um meðferðir við lífslok sjúklinga. Fjölskyldur vilja oftast vera meiri þátttakendur í ferlinu en eru háðar stuðningi heilbrigðisstarfsfólks til þess að svo megi verða. Þetta samræmist niðurstöðum rannsóknar Endacott o.fl. (2016) sem sýndu skort á skýrri umræðu um horfur sjúklinga, auk þess sem vilji fjölskyldu til þátttöku í ákvörðunarferlinu var oft ekki kannaður. Umræðuferlið þarf að byggja á góðu samstarfi lækna, hjúkrunarfræðinga og fjölskyldna en þátttaka hjúkrunarfræðinga er mikilvæg til að tryggja gæðaútkomu (Anderson o.fl., 2016). Ástæður skorts á þátttöku hjúkrunarfræðinga í ferlinu er áhugavert rannsóknarefni, ásamt því hvað það er helst sem hindrar góða einkennameðferð deyjandi gjörgæslusjúklinga. Í framhaldinu væri hægt að þróa íhlutanir sem miða að því að fjarlægja hindranir og bæta þannig gæði lífslokameðferðar á gjörgæsludeildum.

Ábendingar fyrir hjúkrun

Fræðsla og þjálfun í líknarmeðferð þarf að vera í boði fyrir alla hjúkrunarfræðinga sem vinna á gjörgæsludeildum, með áherslu á sértækar þarfir þessa sjúklingahóps og fjölskyldna þeirra. Stuðningur frá stjórnendum gjörgæsludeilda er mikilvægur í því samhengi en slík fræðsla bætir mögulega gæði lífslokameðferðar á gjörgæslum með aukinni þátttöku hjúkrunarfræðinga í umræðuferlinu við lífslok og bættri einkennameðferð sjúklinga.

STYRKLEIKAR OG VEIKLEIKAR

Þessi yfirlitsgrein hefur nokkrar takmarkanir. Inntökuskilyrði kunna að hafa verið of þröng og þannig útilokað mikilvægar rannsóknir sem gætu hafa styrkt niðurstöðurnar. Hætta á skekkju er einnig til staðar þar sem flókið getur reynst að samþætta niðurstöður svo ólíkra rannsóknarsniða. Þá spannar rannsóknin nokkuð vítt svið, þar sem viðfangsefnið er margþætt, og gætu rannsóknir á afmarkaðri þáttum lífslokameðferðar á gjörgæslu því mögulega gefið áhrifaríkari niðurstöður eða leiðbeiningar í klíník. Það að velja nýlegar greinar, fylgja vandlega viðurkenndum aðferðum við samþættingu og gæðamat rannsókna, ásamt því að halda rannsóknardagbók yfir ferlið hefur mögulega styrkt niðurstöður samantektarinnar.

ÁLYKTUN

Hjúkrunarfræðingar gjörgæsludeilda hafa einstakt tækifæri til þess að styðja sjúklinga og fjölskyldur þeirra í lífslokameðferð og til að hafa áhrif sem bæta gæði meðferðarinnar. Til þess þurfa þeir að búa yfir þekkingu sem eflir frumkvæði og sjálfstraust þeirra til þátttöku á öllum sviðum lífslokameðferðar. Bæta má einkennameðferð deyjandi gjörgæslusjúklinga, svo og stuðning við fjölskyldur þeirra í umræðum um meðferðir eða takmarkanir þeirra við lífslok.

ENGLISH SUMMARY

Impact of Nursing Care on the Quality of End-of-life Care in the Intensive Care Unit: An Integrative Review

Birgisdottir,

ABSTRACT

Aim

To synthesise research findings about end-of-life care preferences of adult patients in the intensive care unit and their families.

Method

An integrative review was undertaken following the Whittemore and Knafl methodology. Studies were selected, analysed, and results were reported as guided by the standards of the Preferred Reporting Items for Systematic Reviews and Meta-Analyses (PRISMA) Statement. Critical appraisal tools from the Joanna Briggs Institute were implemented to decrease the risk of bias. The PubMed and CINAHL databases were searched for recent studies from May 2020 to February 2023.

Results

Twenty-two studies were included in the review. The results highlighted the importance of intensive care nurses’ contribution in end-of-life care for the quality of symptom management and the various support offered to the family in this process. Four themes emerged from the literature and included: “Knowledge of end-of-life care needs to be available to nurses”, “Importance of quality regarding symptom management in end-of-life care”, “Decision-making processes need to involve families of dying patients” and “Nursing care at end-of-life in the intensive care unit must be family-centred”. The results of this review indicate a need for improvement in managing patients’ symptoms and supporting families in the decision-making process at end-of-life in the intensive care unit.

Conclusions

It is important that education and training in palliative care and end-of-life care are encouraged and available to all nurses working in the intensive care unit. This review proposes guidelines for intensive care nurses that may be useful in end-of-life care.

Keywords

End-of-life care, intensive care unit, palliative care, families, nursing, communication.

Correspondent thoraj@hi.is

HEIMILDIR

Anderson, W. G., Puntillo, K., Boyle, D., Barbour, S., Turner, K., Cimino, J., Moore, E., Noort, J., MacMillan, J., Pearson, D., Grywalski, M., Liao, S., Ferrell, B., Meyer, J., O'Neil-Page, E., Cain, J., Herman, H., Mitchell, W., og Pantilat, S. (2016). ICU Bedside Nurses' Involvement in Palliative Care Communication: A Multicenter Survey. Journal of Pain and Symptom Management, 51(3), 589-596.e582. https://doi.org/ https://doi.org/10.1016/j.jpainsymman.2015.11.003

Brekelmans, A. C. M., Ramnarain, D., de Haas, M., Ruitinga, R. og Pouwels, S. (2022). Evaluation of ICU end-of-life and bereavement care by relatives of deceased ICU patients. Respiratory Medicine, 202, 106972. https://doi.org/10.1016/j. rmed.2022.106972

Cooke, A., Smith, D., og Booth, A. (2012). Beyond PICO: the SPIDER tool for qualitative evidence synthesis. Qualitative Health Research, 22(10), 1435-1443. https://doi. org/10.1177/1049732312452938

Coombs, M. A., Parker, R., Ranse, K., Endacott, R., og Bloomer, M. J. (2017). An integrative review of how families are prepared for, and supported during withdrawal of life-sustaining treatment in intensive care. Journal of Advanced Nursing, 73(1), 39-55. https://doi.org/10.1111/jan.13097

Cottrell, L. og Duggleby, W. (2016). The "good death": An integrative literature review. Palliative and Supportive Care, 14(6), 686-712. https://doi.org/10.1017/ s1478951515001285

Critical Care Statistics. (2023). Society of Critical Care Medicine. Retrieved 15 march from https://www.sccm.org/Communications/Critical-Care-Statistics

Echevarria, I. M. og Walker, S. (2014). To make your case, start with a PICOT question. Nursing, 44(2), 18-19. https://doi.org/10.1097/01.NURSE.0000442594.00242.f9

Emanuel, L. L. og Johnson, R. (2015). Truth telling and consent. In N. Cherny, M. T. Fallon, S. Kaasa, R. K. Portenoy, & D. C. Currow (Eds.), Oxford Textbook of Palliative Medicine (pp. 292-299). Oxford University Press.

End of life care for adults: service delivery. (2019). National Institute for Health and Care Excellence. https://www.nice.org.uk/guidance/ng142

Endacott, R., Boyer, C., Benbenishty, J., Ben Nunn, M., Ryan, H., Chamberlain, W., Boulanger, C., og Ganz, F. D. (2016). Perceptions of a good death: A qualitative study in intensive care units in England and Israel. Intensive and Critical Care Nursing, 36, 8-16. https://doi.org/10.1016/j.iccn.2016.04.004

Ganz, F. D., Ben Nun, M., og Raanan, O. (2020). Introducing palliative care into the intensive care unit: An interventional study. Heart & Lung, 49(6), 915-921. https:// doi.org/10.1016/j.hrtlng.2020.07.006

Gerritsen, R. T., Jensen, H. I., Koopmans, M., Curtis, J. R., Downey, L., Hofhuis, J. G. M., Engelberg, R. A., Spronk, P. E., og Zijlstra, J. G. (2018). Quality of dying and death in the ICU. The euroQ2 project. Journal of Critical Care, 44, 376-382. https://doi. org/10.1016/j.jcrc.2017.12.015

Graham, R., Lepage, C., Boitor, M., Petizian, S., Fillion, L., og Gelinas, C. (2018). Acceptability and feasibility of an interprofessional end-of-life/palliative care educational intervention in the intensive care unit: A mixed-methods study. Intensive and Critical Care Nursing, 48, 75-84. https://doi.org/10.1016/j. iccn.2018.04.011

Guðríður Ester Geirsdóttir, Kristín Lára Ólafsdóttir og Helga Bragadóttir. (2023). Meðferð við lok lífs utan sérhæfðra líknardeilda: Fræðileg samantekt með kögunarsniði. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 99(2), 68-78.

Gul, S., Turkman, Y. E., Bakitas, M. A., og Dionne-Odom, J. N. (2019). Surrogates' Perceptions of Service Quality While Making Decisions for ICU Patients. Western Journal of Nursing Research, 41(10), 1370-1384. https://doi. org/10.1177/0193945918820098

Han, X. P., Mei, X., Zhang, J., Zhang, T. T., Yin, A. N., Qiu, F., og Liu, M. J. (2021). Validation of the Chinese Version of the Quality of Dying and Death Questionnaire for Family Members of ICU Patients. Journal of Pain and Symptom Management, 62(3), 599-608. https://doi.org/10.1016/j.jpainsymman.2020.12.022

Hutchinson, A. L. og Van Wissen, K. A. (2017). Home to die from the intensive care unit: A qualitative descriptive study of the family’s experience. Intensive and Critical Care Nursing, 43, 116-122. https://doi.org/10.1016/j.iccn.2017.07.008

JBI Critical Appraisal Tools. (2021). The University of Adelaide. https://jbi.global/ critical-appraisal-tools

Kentish-Barnes, N., Chevret, S., Valade, S., Jaber, S., Kerhuel, L., Guisset, O., Martin, M., Mazaud, A., Papazian, L., Argaud, L., Demoule, A., Schnell, D., Lebas, E., Ethuin, F., Hammad, E., Merceron, S., Audibert, J., Blayau, C., Delannoy, P. Y., ... . (2022). A three-step support strategy for relatives of patients dying in the intensive care unit: a cluster randomised trial. Lancet, 399(10325), 656-664. https://doi.org/10.1016/ s0140-6736(21)02176-0

Kentish-Barnes, N., Seegers, V., Legriel, S., Cariou, A., Jaber, S., Lefrant, J. Y., Floccard, B., Renault, A., Vinatier, I., Mathonnet, A., Reuter, D., Guisset, O., Cracco, C., Seguin, A., Durand-Gasselin, J., Éon, B., Thirion, M., Rigaud, J. P., Philippon-Jouve, B., ... . (2016). CAESAR: a new tool to assess relatives' experience of dying and death in the ICU. Intensive Care Medicine, 42(6), 995-1002. https://doi.org/10.1007/s00134016-4260-4

Kisorio, L. C. og Langley, G. C. (2016). End-of-life care in intensive care unit: Family experiences. Intensive and Critical Care Nursing, 35, 57-65. https://doi.org/10.1016/j. iccn.2016.03.003

Ko, D. N. og Blinderman, C. D. (2015). Withholding and withdrawing life-sustaining treatment (including artificial nutrition and hydration). In N. Cherny, M. Fallon, S. Kaasa, R. K. Portenoy, & D. C. Currow (Eds.), Oxford Textbook of Palliative Medicine (pp. 350-361). Oxford University Press. https://doi.org/10.1093/ med/9780199656097.003.0108

Kurnia, T. A., Trisyani, Y., og Prawesti, A. (2020). The relationship between nurses' knowledge and self-confidence in implementing palliative care in an intensive care unit. International Journal of Palliative Nursing, 26(4), 183-190. https://doi. org/10.12968/ijpn.2020.26.4.183 Landspítali. (2017). Klínískar leiðbeiningar um líknarmeðferð, 2. útgáfa. Líknarráðgjafateymi Landspítala. https://www.landspitali.is/library/ Sameiginlegar-skrar/Gagnasafn/BRUNNURINN/Kliniskar-leidbeiningar/ Liknarmedferd/Liknarmedferd.pdf?download=true

Lief, L., Berlin, D. A., Maciejewski, R. C., Westman, L., Su, A., Cooper, Z. R., Ouyang, D. J., Epping, G., Derry, H., Russell, D., Gentzler, E., Maciejewski, P. K., og Prigerson, H. G. (2018). Dying Patient and Family Contributions to Nurse Distress in the ICU. Annals of the American Thoracic Society, 15(12), 1459-1464. https://doi.org/10.1513/ AnnalsATS.201804-284OC

Lind, R. (2019). Sense of responsibility in ICU end-of-life decision-making: Relatives' experiences. Nursing Ethics, 26(1), 270-279. https://doi. org/10.1177/0969733017703697

Lockwood, C., Munn, Z., & Porritt, K. (2015). Qualitative research synthesis: methodological guidance for systematic reviewers utilizing meta-aggregation. International Journal of Evidence-Based Healthcare, 13(3), 179-187. https://doi. org/10.1097/xeb.0000000000000062

Moola S, Munn Z, Tufanaru C, Aromataris E, Sears K, Sfetcu R, Currie M, Qureshi R, Mattis P, Lisy K, Mu P-F. Chapter 7: Systematic reviews of etiology and risk. In: Aromataris E, Munn Z (Editors). JBI Manual for Evidence Synthesis.JBI, 2020. Available from https://synthesismanual.jbi.global

Noome, M., Dijkstra, B. M., van Leeuwen, E., og Vloet, L. C. (2016). Exploring family experiences of nursing aspects of end-of-life care in the ICU: A qualitative study. Intensive and Critical Care Nursing, 33, 56-64. https://doi.org/10.1016/j. iccn.2015.12.004

Munn, Z., Moola, S., Lisy, K., Riitano, D., & Tufanaru, C. (2015). Methodological guidance for systematic reviews of observational epidemiological studies reporting prevalence and cumulative incidence data. International Journal of Evidence- Based Healthcare, 13(3), 147-153. https://doi.org/10.1097/xeb.0000000000000054

Noome, M., Dijkstra, B. M., van Leeuwen, E., og Vloet, L. C. M. (2017). Effectiveness of supporting intensive care units on implementing the guideline 'End-of-life care in the intensive care unit, nursing care': a cluster randomized controlled trial. Journal of Advanced Nursing, 73(6), 1339-1354. https://doi.org/10.1111/jan.13219

Page, M. J., McKenzie, J. E., Bossuyt, P. M., Boutron, I., Hoffmann, T. C., Mulrow, C. D., Shamseer, L., Tetzlaff, J. M., Akl, E. A., Brennan, S. E., Chou, R., Glanville, J., Grimshaw, J. M., Hróbjartsson, A., Lalu, M. M., Li, T., Loder, E. W., Mayo-Wilson, E., McDonald, S., ... Moher, D. (2021). The PRISMA 2020 statement: an updated guideline for reporting systematic reviews. Bmj, 372, n71. https://doi.org/10.1136/ bmj.n71 %J BMJ

Palliative care. (2020). World Health Organization. https://www.who.int/news-room/ fact-sheets/detail/palliative-care

Ragnheiður Harpa Arnardóttir. (2016). Megindlegar rannsóknir: Gerð rannsóknaráætlunar og yfirlit yfir helstu rannsóknarsnið. Í Sigríður Halldórsdóttir (ritstjóri.), Handbók í aðferðafræði rannsókna. Háskólinn á Akureyri. Ranse, K., Bloomer, M., Coombs, M., og Endacott, R. (2016). Family centred care before and during life-sustaining treatment withdrawal in intensive care: A survey of information provided to families by Australasian critical care nurses. Australian Critical Care, 29(4), 210-216. https://doi.org/10.1016/j.aucc.2016.08.006

Robert, R., Le Gouge, A., Kentish-Barnes, N., Adda, M., Audibert, J., Barbier, F., Bourcier, S., Bourenne, J., Boyer, A., Devaquet, J., Grillet, G., Guisset, O., Hyacinthe, A. C., Jourdain, M., Lerolle, N., Lesieur, O., Mercier, E., Messika, J., Renault, A., ... Reignier, J. (2020). Sedation practice and discomfort during withdrawal of mechanical ventilation in critically ill patients at end-of-life: a post-hoc analysis of a multicenter study. Intensive Care Medicine, 46(6), 1194-1203. https://doi.org/10.1007/ s00134-020-05930-w

Robert, R., Le Gouge, A., Kentish-Barnes, N., Cottereau, A., Giraudeau, B., Adda, M., Annane, D., Audibert, J., Barbier, F., Bardou, P., Bourcier, S., Bourenne, J., Boyer, A., Brenas, F., Das, V., Desachy, A., Devaquet, J., Feissel, M., Ganster, F., ... Reignier, J. (2017). Terminal weaning or immediate extubation for withdrawing mechanical ventilation in critically ill patients (the ARREVE observational study). Intensive Care Medicine, 43(12), 1793-1807. https://doi.org/10.1007/s00134-017-4891-0

Sagha Zadeh, R., Eshelman, P., Setla, J., Kennedy, L., Hon, E., og Basara, A. (2018). Environmental Design for End-of-Life Care: An Integrative Review on Improving the Quality of Life and Managing Symptoms for Patients in Institutional Settings. Journal of Pain and Symptom Management, 55(3), 1018-1034. https://doi. org/10.1016/j.jpainsymman.2017.09.011

Shifrin, M. M. (2016). An Evidence-Based Practice Approach to End-of-Life Nursing Education in Intensive Care Units. Journal of Hospice & Palliative Nursing, 18(4), 342348. https://doi.org/10.1097/NJH.0000000000000254

Stokes, H., Vanderspank-Wright, B., Fothergill Bourbonnais, F., og Wright, D. K. (2019). Meaningful experiences and end-of-life care in the intensive care unit: A qualitative study. Intensive and Critical Care Nursing, 53, 1-7. https://doi.org/10.1016/j. iccn.2019.03.010

Taylor, I. H. F., Dihle, A., Hofso, K., og Steindal, S. A. (2020). Intensive care nurses' experiences of withdrawal of life-sustaining treatments in intensive care patients: A qualitative study. Intensive and Critical Care Nursing, 56, 102768. https://doi. org/10.1016/j.iccn.2019.102768

Tufanaru C, Munn Z, Aromataris E, Campbell J, Hopp L. Chapter 3: Systematic reviews of effectiveness. In: Aromataris E, Munn Z (Editors). JBI Manual for Evidence Synthesis. JBI, 2020. Available from https://synthesismanual.jbi.global Vanderspank-Wright, B., Wright, D. K., og McMillan, K. (2019). Thinking about strengths in end-of-life nursing practice: the case of intensive care unit nurses. International Journal of Palliative Nursing, 25(8), 378-385. https://doi.org/10.12968/ ijpn.2019.25.8.378

Vanstone, M., Neville, T. H., Clarke, F. J., Swinton, M., Sadik, M., Takaoka, A., Smith, O., Baker, A. J., LeBlanc, A., Foster, D., Dhingra, V., Phung, P., Xu, X. S., Kao, Y., Heels-Ansdell, D., Tam, B., Toledo, F., Boyle, A., og Cook, D. J. (2020). Compassionate End-of-Life Care: Mixed-Methods Multisite Evaluation of the 3 Wishes Project. Annals of Internal Medicine, 172(1), 1-11. https://doi.org/10.7326/ m19-2438

Whittemore, R. og Knafl, K. (2005). The integrative review: updated methodology. Journal of Advanced Nursing, 52(5), 546-553. https://doi. org/10.1111/j.1365-2648.2005.03621.x

Wilson, T., Haut, C., og Akintade, B. (2017). Improving Health Care Provider Communication in End-of-Life Decision-Making. AACN Advanced Critical Care, 28(2), 124-132. https://doi.org/10.4037/aacnacc2017302

Yang, J. H. og Shin, G. (2021). End-of-Life Care Mobile App for Intensive-Care Unit Nurses: A Quasi-Experimental Study. International Journal of Environmental Research and Public Health, 18(3). https://doi.org/10.3390/ijerph18031253

Yeh, A., Pietras, C., Wallenstein, D., og Hu, P. (2019). End of Life in the Neurological Intensive Care Unit: Is Extubating to Comfort Care Comfortable? Journal of Pain and Symptom Management, 58(4), e14-e16. https://doi.org/10.1016/j. jpainsymman.2019.07.004

Ég gæti gróið vel að utan en ekki jafn vel að innan: Reynsla einstaklinga af því að fara í hjartastopp utan sjúkrahúss

doi: 10.33112/th.100.3.3

ÚTDRÁTTUR

Tilgangur

Á heimsvísu er árleg tíðni hjartastopps utan sjúkrahúss 30-97 tilfelli á hverja 100.000 íbúa. Vegna meiri þekkingar á endurlífgun og aukins aðgengis að sjálfvirkum hjartastuðtækjum hefur fjöldi þeirra sem lifa af hjartastopp aukist. Þeir sem lifa af hjartastopp eiga á hættu að glíma við sálrænar afleiðingar eftir áfallið svo sem þunglyndi, kvíða og áfallastreituröskun en rannsóknir benda til að markviss eftirfylgd og stuðningur auki lífslíkur og lífsgæði eftir útskrift af sjúkrahúsi. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa upplifun einstaklinga sem lifað hafa af hjartastopp og þörfum þeirra fyrir fræðslu, eftirfylgd og faglegan stuðning. Tilgangurinn var að kanna hvort þörf sé á að bæta þjónustu við þessa einstaklinga eftir útskrift af sjúkrahúsi.

Aðferð Í þessari eigindlegu rannsókn var gögnum safnað með hálfstöðluðum einstaklingsviðtölum á árunum 2022-2023. Þátttakendur voru sjö karlar og fimm konur á aldrinum 28-65 ára (M=52 ár), sem höfðu lifað af hjartastopp utan sjúkrahúss á síðastliðnum 6-28 mánuðum. Tekið var eitt viðtal við hvern einstakling. Gögnin voru greind með kerfisbundinni textaþéttingu Malteruds.

Niðurstöður

Meginniðurstöður rannsóknarinnar voru að þátttakendur upplifðu flóknar og margbreytilegar líkamlegar og sálrænar afleiðingar hjartastoppsins. Greind voru fjögur meginþemu. Þemað Upplifun af hjartastoppi lýsir fyrirboðaeinkennum og upplifun af endurlífguninni.

Þemað Færniskerðingar lýsir áhrifum hjartastoppsins á líkamlega og hugræna líðan og getu. Í þemanu Sálrænar afleiðingar lýsa þátttakendur „tilfinningarússíbana“ sem þeir upplifðu eftir hjartastoppið og breyttri sýn á lífið sem felur í sér breytta forgangsröðun, þakklæti og æðruleysi. Síðasta þemað, Þörf fyrir fræðslu og stuðning, lýsir óuppfylltri þörf fyrir fræðslu og eftirfylgd eftir útskrift af sjúkrahúsi.

Ályktanir

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að einstaklingar sem lifa af hjartastopp eigi við margvíslegar líkamlegar og sálrænar áskoranir að stríða og upplifi hafsjó tilfinninga. Þörfum þátttakenda fyrir eftirfylgd eftir útskrift af sjúkrahúsi var ekki fullnægt svo nauðsynlegt virðist vera að byggja upp faglega eftirfylgd og stuðning fyrir einstaklinga sem lifa af hjartastopp og aðstandendur þeirra.

Lykilorð

Eftirfylgd, hjartastopp, hugrænar breytingar, lífsgæði, sálræn líðan

HAGNÝTING

RANNSÓKNARNIÐURSTAÐNA

Hvers vegna ættir þú að lesa þessa grein?

Nýjungar: Rannsóknin bætir við þekkingu um reynslu karla af því að lifa af hjartastopp. Þá veitir hún nýja þekkingu og er jafnframt fyrsta rannsóknin á Íslandi sem lýsir einnig reynslu kvenna af því að lifa af hjartastopp.

Hagnýting: Rannsóknin lýsir þörfum einstaklinga sem lifa af hjartastopp fyrir bætta eftirfylgd eftir útskrift af sjúkrahúsi og getur nýst við skipulag heildrænnar þverfaglegrar þjónustu fyrir einstaklinga sem lifa af hjartastopp og aðstandendur þeirra.

Þekking: Rannsóknin veitir innsýn í hugarheim einstaklinga sem lifa af hjartastopp, áskoranir sem þeir standa frammi fyrir og gefur vísbendingar um hjúkrunarþarfir þeirra.

Áhrif á störf hjúkrunarfræðinga: Hjúkrunarfræðingar geta nýtt niðurstöðurnar til að skipuleggja hjúkrun; eftirfylgd, fræðslu og stuðning fyrir einstaklinga sem lifa af hjartastopp og aðstandendur þeirra.

Höfundar

ELÍSABETH TANJA GABRÍELUDÓTTIR

MSc, hjúkrunarfræðingur1,2

AUÐUR KETILSDÓTTIR

MSc, hjúkrunarfræðingur1

MARGRÉT HRÖNN SVAVARSDÓTTIR

PhD, hjúkrunarfræðingur 2

1Landspítali

2Háskólinn á Akureyri

Ég gæti gróið vel að utan en ekki jafn vel að innan: Reynsla einstaklinga af því að fara í hjartastopp utan sjúkrahúss

INNGANGUR

Hjarta- og æðasjúkdómar eru helsta dánarorsök í heiminum og jafnframt algengasta ástæða hjartastopps utan sjúkrahúss (Wittwer o.fl., 2022). Á heimsvísu fara árlega um það bil 3097 einstaklingar á hverja 100.000 íbúa í hjartastopp utan sjúkrahúss (Kiguchi o.fl., 2020). Á árunum 2021-2023 komu árlega að meðaltali 87 fullorðnir einstaklingar á bráðadeild Landspítala eftir hjartastopp og að meðaltali útskrifast um 39 einstaklingar af hjartadeildum Landspítala eftir hjartastopp utan sjúkrahúss (Hagdeild Landspítala, munnleg heimild, 15. apríl 2024).

Þegar einstaklingur fer í hjartastopp eru lífslíkur og lífsgæði meðal annars háð því hversu fljótt endurlífgun er veitt (Moon o.fl., 2020). Endurlífgun er ferli meðferða, eins og hjartahnoðs, rafstuðs, öndunaraðstoðar, lyfjagjafa og annarra sérhæfðra meðferða sem hafa það markmið að endurheimta blóðflæði til vefja líkamans (Perkins o.fl., 2021) en hjartastopp veldur súrefnisskorti til heilans og getur því meðal annars haft áhrif á vitræna starfsemi og langtímabata (Cronberg o.fl., 2020).

Upplifun af hjartastoppi getur verið mjög ógnvekjandi reynsla og haft víðtækar langvarandi afleiðingar (Desai o.fl., 2019). Með áframhaldandi framförum í endurlífgun, bættri þekkingu almennings á endurlífgun og aukins aðgengis að sjálfvirkum hjartastuðtækjum (Sawyer o.fl., 2020) mun fjöldi þeirra sem lifa af hjartastopp halda áfram að aukast. Þar af leiðandi eykst fjöldi þeirra sem eiga á hættu að glíma við skert lífsgæði og aðrar afleiðingar áfallsins (Desai o.fl., 2019; Sawyer o.fl., 2020), en algengt er að þeir sem lifa af hjartastopp glími við líkamlegar skerðingar (Haydon o.fl., 2017), ýmsar hugrænar breytingar (Byron-Alhassan o.fl., 2021) og sálrænar áskoranir (Haydon o.fl., 2017) sem geta haft áhrif á lífsgæði þeirra (Dainty o.fl., 2021; Pek o.fl., 2023).

Margir upplifa einhvers konar skerðingu á líkamlegri starfsemi eftir hjartastopp (Dainty o.fl., 2021) svo sem takmörkun á hreyfigetu og sjálfsumönnun sem aftur getur haft áhrif á andlega líðan (Haydon o.fl. (2017). Þá eru hugrænar breytingar algengar meðal þeirra sem lifa af hjartastopp (Naber og Bullinger, 2018) og er skerðing á minni einna algengust (Zook o.fl., 2022). Aðrar algengar breytingar eru skerðing á athygli og einbeitingu, málskilningi og málnotkun, sjóntruflanir og erfiðleikar við að framkvæma athafnir sem áður voru auðveldar (Naber og Bullinger, 2018; Ørbo o.fl., 2016). Hugrænar breytingar geta aukið þunglyndi, kvíða og áfallastreituröskun sem eru einnig algengar afleiðingar hjartastopps (Byron-Alhassan o.fl., 2021; Desai o.fl., 2019). Þessi einkenni geta birst fljótlega eftir hjartastoppið, eða allt að nokkrum árum eftir það (Wagner o.fl., 2021a) og haft neikvæð áhrif á lífsgæði, bata og getu fólks til þess að takast á við endurhæfingu (Presciutti o.fl., 2018). Kerfisbundin samantektarrannsókn Hydon o.fl. (2017) leiddi í ljós að upplifun af hjartastoppi getur vakið hafsjó tilfinninga, allt frá hræðslu, varnarleysi og einmanaleika, að þakklæti og gleði. Óþolinmæði og pirringur er algengur fyrst eftir hjartastoppið þegar fólk þarf að aðlagast

nýjum veruleika. Aðrar algengar tilfinningar eru missir, leit að tilgangi og þörf fyrir að finna orsök atburðar. Þá nefndu einstaklingar sem lifðu af hjartastopp fjölmarga aðra þætti sem hafa áhrif á lífsgæði þeirra eins og breytta sjálfsmynd, breytt hlutverk innan fjölskyldunnar, breytta getu til þess að takast á við daglegt líf, breytta sýn á lífið og hræðslu við að fara í annað hjartastopp (Haydon o.fl., 2017; Whitehead o.fl., 2020).

Fjöldi rannsókna bendir til að einstaklingar sem lifa af hjartastopp hafi óuppfylltar þarfir fyrir fræðslu og stuðning eftir útskrift af sjúkrahúsi. Svo sem fræðslu um bataferlið, hugrænar, sálrænar og líkamlegar breytingar og áskoranir (Bhattacharyya o.fl., 2016; Ketilsdottir o.fl., 2014; Mion o.fl., 2021; Presciutti o.fl., 2022). Einnig telja Amerísku hjartasamtökin að þörfum þeirra sem lifa af hjartastopp fyrir fræðslu og stuðning sé ekki mætt þótt það ætti í raun að vera forgangsverkefni (Sawyer o.fl., 2020). Israelsson og félagar (2016), skoðuðu verkferla á bráðadeildum í Svíþjóð. Niðurstöður þeirra sýndu að á 39% þátttöku sjúkrahúsanna var ekki alltaf farið eftir verklagsreglum um eftirfylgd eftir hjartastopp, eftirfylgd var verulega ábótavant og gæði þjónustu og eftirfylgdar voru háð því hvaða sjúkrahús sjúklingurinn lagðist inn á. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að algengast sé að einungis hjartalæknar sinni eftirfylgdinni en sjúklingar óski eftir aðkomu fleiri fagaðila (Mion o.fl., 2021). Rannsóknir benda einnig til þess að brýn þörf sé á að bæta sálræna eftirfylgd og huga að sálrænni líðan eftir hjartastopp (Bhattacharyya o.fl., 2016). Þetta kom einnig fram í rannsókn Ketilsdóttir o.fl., (2014) meðal íslenskra karlmanna eftir hjartastopp en hefur ekki verið skoðað meðal íslenskra kvenna. Rannsóknir benda til þess að góð eftirfylgd og stuðningur við einstaklinga sem eru að jafna sig eftir hjartastopp auki lífslíkur eftir útskrift af sjúkrahúsi. Slík eftirfylgd getur dregið úr þunglyndi og kvíða og bætt andlega líðan (Moulaert o.fl., 2015) og getur því skipt sköpum í bata þeirra (Mion o.fl., 2021). Evrópska endurlífgunarráðið (Perkins o.fl., 2021) og Amerísku hjartasamtökin (Sawyer o.fl., 2020) mæla með sértækri eftirfylgd fyrir þá sem lifa af hjartastopp, innan þriggja mánaða eftir útskrift af sjúkrahúsi. Í leiðbeiningum Evrópska endurlífgunarráðsins er að finna fjölmarga þætti sem huga þarf að hjá þeim sem lifa af hjartastopp svo sem hugrænar breytingar, sálræna líðan, eftirlit með líkamlegri starfsemi, fræðslu og upplýsingagjöf. Ráðlögð er skimun fyrir þessum þáttum fyrir útskrift af sjúkrahúsi svo hægt sé að meta þörfina fyrir eftirfylgd og endurhæfingu (Perkins o.fl., 2021).

Markmið rannsóknarinnar var að lýsa upplifun þeirra sem lifað hafa af hjartastopp og þörfum þeirra fyrir fræðslu, eftirfylgd og faglegan stuðning. Tilgangurinn var einnig að kanna hvort þörf sé á að bæta þjónustu við þessa einstaklinga eftir útskrift af sjúkrahúsi.

AÐFERÐ

Notuð var eigindleg rannsóknaraðferð með fyrirbærafræðilegri nálgun, þar sem rannsóknin leitast við að lýsa reynslu og upplifun fólks af því að lifa af hjartastopp.

Þátttakendur

Alls tóku 12 einstaklingar þátt í rannsókninni, sjö karlar og fimm konur með meðalaldur 52 ár (28-65). Þátttakendur voru valdir með tilgangsúrtaki (e. Purposive sampling) og miðaðist valið við að þeir væru á aldrinum 18-65 ára og hefðu reynslu af því að hafa lifað af hjartastopp á síðastliðnum 6-28 mánuðum. Þessi tímarammi var valinn þar sem talið er að fólk nái betur að ígrunda og deila reynslu

sinni þegar að minnsta kosti sex mánuðir eru liðnir frá tiltekinni reynslu (Morse, 1999). Útilokaðir frá þátttöku voru einstaklingar ófærir um að skilja talað og ritað íslenskt mál og tjá sig á íslensku, einstaklingar með lífsógnandi sjúkdóm og/eða með greinda þroskahömlun eða heilasjúkdóm sem skerðir getu þeirra til að taka upplýsta ákvörðun um þátttöku í rannsókninni og/eða taka þátt í viðtali. Annar höfundur (AK), fékk lista frá hagdeild Landspítala yfir einstaklinga 18-65 ára, sem fengu greininguna hjartastopp (I46.0) og höfðu útskrifast af hjartadeildum eða gjörgæsludeild á tímabilinu 1. jan. 2020 til 31. desember 2022. Listinn innihélt 49 einstaklinga sem höfðu farið í hjartastopp utan sjúkrahúss og uppfylltu 19 þeirra þátttökuskilyrði. Útilokaðir frá þátttöku voru þeir sem ekki voru búsettir í Reykjavík og nágrenni. AK hafði samband símleiðis við 15 þeirra sem uppfylltu þátttökuskilyrðin, með dreifingu aldurs, kyns og lengdar frá hjartastoppi í huga, kynnti rannsóknina fyrir þeim og bauð þeim þátttöku. Hún sendi þeim sem þess óskuðu kynningarbréf um rannsóknina og af þeim afþökkuðu tveir þátttöku. Að því loknu hafði fyrsti höfundur (ETG) samband símleiðis við þá sem gáfu kost á sér í rannsóknina, af þeim gaf einn þátttakandi ekki kost á þátttöku. Alls tóku 12 einstaklingar þátt í rannsókninni, sjö karlar og fimm konur með meðalaldur 52 ár (28-65). Allir þátttakendur nema tveir voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Allir höfðu þeir farið í hjartastopp utan sjúkrahúss, verið endurlífgaðir á árangursríkan hátt og útskrifast heim eftir sjúkrahúslegu. Meðaltímalengd frá hjartastoppi þegar viðtal var tekið var 19 mánuðir (9-28). Einn þátttakandi bjó einn, ellefu bjuggu með öðrum og fimm voru með börn á heimilinu. Nánari lýsingu á bakgrunni þátttakenda má sjá í töflu 1

Tafla 1. Bakgrunnsupplýsingar þátttakenda

Breytur Fjöldi

Aldur (ár)

<50 ára 5

≥50 ára 7

Kyn

Konur 5

Karlar 7

Hjúskaparstaða

Gift/í sambúð 10

Einhleyp/ur 2

Staða á vinnumarkaði* Útivinnandi 6

Heimavinnandi 6

Öryrki 5

Hæsta menntunarstig

Grunnskólapróf 6

Stúdentspróf/iðnmenntun 3

Háskólapróf 3

* Af þeim sem voru heima- eða útivinnandi voru fjórir einnig öryrkjar og tveir þátttakendur sem voru heimavinnandi voru einnig á endurhæfingarlífeyri.

Framkvæmd

Gögnum var safnað með hálfstöðluðum viðtölum sem gaf viðmælanda tækifæri til að segja frá reynslu sinni og upplifun með eigin orðum (Brinkmann og Kvale, 2015). ETG tók eitt viðtal við hvern þátttakanda og studdist við viðtalsramma sem byggði á fyrri rannsóknum (Israelsson o.fl., 2016; Lilja, 2017; Sawyer o.fl., 2020). Öll viðtölin hófust á spurningunni „mig langar að biðja þig um að segja mér frá deginum sem þú fórst í hjartastopp“. Aðrar

spurningar má sjá í Ramma 1. Viðtölin voru tekin á tímabilinu febrúar 2022 til júní 2023. Meðal lengd viðtala var 48,0 mínútur (22,2-90,1).

Rammi 1. Viðtalsrammi

1. Mig langar að biðja þig um að segja mér frá deginum sem þú fórst í hjartastopp?

2. Hvernig var líðan þín eftir hjartastoppið?

3. Hafðir þú áhyggjur eða óttaðist þú eitthvað sérstaklega í sjúkrahúslegunni?

4. Var þér boðið að hitta fagaðila á meðan þú lást inn á sjúkrahúsi, til þess að ræða það sem kom fyrir?

5. Fékkst þú fræðslu um líðan eftir hjartastopp áður en þú útskrifaðist heim?

6. Hvernig leið þér eftir útskrift?

7. Hefur þú fundið fyrir hugrænum breytingum eftir hjartastoppið?

8. Hvernig var eftirfylgd háttað, eftir útskrift af sjúkrahúsi?

9. Hefur þessi reynsla haft áhrif á daglegt líf og þá hvernig?

10. Getur þú lýst þeim áhrifum sem þetta hafði á fjölskyldu þína?

11. Hvernig hefur þú tekist á við þessa reynslu?

12. Hvaðan hefur þú fengið stuðning?

13. Er eitthvað sem þú myndir vilja koma á framfæri, eða sem þú vilt benda á sem gæti bætt stöðu fólks sem kemur til með að lifa af hjartastopp í framtíðinni?

Gagnagreining

Í samræmi við rannsóknaraðferðir fyrirbærafræðilegra rannsókna voru gögnin greind samhliða gagnasöfnuninni (Holloway og Galvin, 2017) í gegnum gagnagreiningarforritið Nvivo-útgáfu 14 og greiningarlíkön sett upp í Mindmeister. Gögnin voru greind með kerfisbundinni textaþéttingu (e. systematic text condensation), sem er gagnagreiningaraðferð byggð á fyrirbærafræði Giorgiʹs.

Aðferðinni er ætlað að draga fram upplifun þátttakenda án þess að reyna að finna ástæðu fyrir henni en leitast þess í stað við að fá fram og lýsa mikilvægum þáttum í lífi þeirra og skapa heildarmynd af upplifuninni (Malterud, 2012). Greiningarferlið skiptist í fjögur stig, þar sem mynstur og þemu eru greind úr hverju viðtali. Lýsing á hverju stigi greiningaraðferðarinnar og hvernig því var beitt í þessari rannsókn má sjá í töflu 2. Viðtölin voru endurtekið lesin yfir af öllum rannsakendum með spyrjandi hugarfari og niðurstöður íhugaðar. Eftir hvert viðtal fór fram gagnagreining og einstaklingsgreiningarlíkan myndað, áður en næsta viðtal

Stig Kerfisbundinnar textaþéttingar

1. Stig. Heildarsýn – frá óreiðu að þemum (e. Total impression – from chaos to themes).

2. Stig. Merkingarbærar einingar – frá þemum að kóðum (e. Identifying and sorting meaning units – from themes to codes).

3. Textaþétting – frá kóðum til merkingar (e. Condensation – from code to meaning).

4. Samsetning – frá textaþéttingu til lýsingar og hugtaka (e. e. Synthesizing – from condensation to descriptions and concepts).

var tekið. Þarnæst voru líkönin sett saman hvert af öðru í heildargreiningarlíkan.

Í greiningarferlinu funduðu rannsakendur reglulega og ræddu þýðingu þess sem fram kom í hverju viðtali. Að gagnagreiningu lokinni var frumtextinn úr viðtölunum lesinn yfir aftur, borinn saman við heildarniðurstöðurnar og þóttu þær endurspegla upplifun þátttakanda vel.

Siðfræði

Rannsóknin var samþykkt af Vísindasiðanefnd og tilkynnt til Persónuverndar (VSN 21-216). Einnig veitti Vísindarannsóknarnefnd Landspítala leyfi fyrir rannsókninni. Þátttakendur fengu munnlega og skriflega kynningu á rannsókninni og skrifuðu undir upplýst samþykki áður en viðtal hófst. Þá var þeim tjáð að þeir gætu hætt þátttöku á hvaða stigi sem var án útskýringa. Þátttakendum voru gefin rannsóknarnöfn til að ekki væri unnt að rekja niðurstöður rannsóknarinnar til þeirra. Öll viðtölin voru hljóðrituð og rituð upp orðrétt, að því loknu var upptökunni eytt. Einungis rannsakendur höfðu aðgang að gögnunum.

NIÐURSTÖÐUR

Meginniðurstöður rannsóknarinnar voru að þátttakendur upplifðu margbreytilegar líkamlegar og sálrænar afleiðingar og að einstaklingar sem lifa af hjartastopp hafa óuppfylltar stuðningsog fræðsluþarfir. Niðurstöðurnar voru settar fram í fjórum meginþemum og 10 undirþemum. Þemað Upplifun af hjartastoppi lýsir fyrirboðaeinkennum og upplifun af endurlífgun. Þemað Færniskerðingar lýsir áhrifum hjartastoppsins á líkamlega og hugræna líðan og getu. Í þemanu Sálrænar afleiðingar lýsa þátttakendur „tilfinningarússíbana“ sem þeir upplifðu eftir hjartastoppið og breyttri sýn á lífið. Síðasta þemað Þörf fyrir fræðslu og stuðning, lýsir óuppfylltri þörf fyrir eftirfylgd eftir útskrift af sjúkrahúsi. Yfirlit yfir helstu niðurstöður rannsóknarinnar: yfirþemu, meginþemu og kóða má sjá á mynd 1. Upplifun af hjartastoppi Þátttakendur lýstu einkennum sem þeir töldu fyrirboða hjartastoppsins. Sumir fengu þó engan fyrirvara og höfðu takmarkaðar minningar af atburðinum og sjúkrahúslegunni. Einnig lýstu þátttakendur minningum úr endurlífguninni og því að vera á mörkum lífs og dauða.

Lýsing á hverju stigi og því sem gert var í þessari rannsókn

Á þessu stigi var lögð áhersla á að kynnast gögnunum og fá heildarmynd. Hér var einungis leitast við að velta þýðingu viðtalsins fyrir sér og hvorki skráð niður, flokkað né valin þemu. Allir rannsakendur lásu yfir hvert viðtal í heild sinni og horfðu á heildarmyndina. Skoðuð voru aðalatriði viðtalanna með rannsóknarspurninguna í huga og horft eftir mögulegum þemum (forþemum) til þess að byrja að vinna með og urðu þau leiðarvísir að næsta stigi.

Á þessu stigi hófst flokkun gagnanna með rannsóknarspurninguna í huga. Leitað var eftir textabrotum sem tengjast rannsóknarspurningunni, þannig lásu rannsakendur allan textann yfir á ný. Að því loknu voru merkingarbærar einingar skráðar niður og flokkaðar í töflu, í kóða sem fjölluðu um sama eða svipað efni. Gætt var að því að taka frekar meira en minna með af textanum.

Á þessu stigi, sem er helsta einkenni aðferðarinnar, fór fram kerfisbundin þétting á textanum í merkingarbæru einingunum. Þetta var gert með því að taka út smáorð og setningar sem ekki höfðu gildi fyrir rannsóknarspurninguna.

Á síðasta stiginu var heildarmyndinni lýst með því að raða öllum brotunum saman, með það að markmiði að fá heildarmynd af viðfangsefninu. Textinn úr kóðunum var settur saman aftur og búinn til texti sem þótti lýsa niðurstöðunum vel. Textinn var síðan dreginn saman í þemu með viðeigandi tilvitnunum. (Malterud, 2012).

Tafla 2. Kerfisbundin Textaþétting

Upplifun af hjartastoppi

Viðvörunarbjöllur

Brjóstverkur

Andþyngsli

Mæði

Svimi

Þrekleysi

Svitamyndun

Ógleði

„Ég sit hérna frammi [...] svo segi ég bara andskotinn er þetta, ég er með einhvern helvítis verk hérna í brjóstinu, ég ætla að fara inn að leggja mig“ (Arnar).

„Smá svona andþyngsli og svona“ (Bjarni).

Ég var móður við að ganga mikið og hreyfa mig“ (Orri).

„Ég var bara í hringekju allan daginn og ég labbaði bara meðfram veggjum“ (Dagný).

„Ég var alveg var við það að þrekið var ekkert eins gott og það mætti vera“ (Egill).

„Ég rétt náði að mála herbergið [...] þur i að skipta um öll föt, ég var svo sveittur e ir það“ (Bjarni).

„Ég var stundum ælandi, þú veist, bara í vinnunni og eitthvað“ (Dagný).

Á mörkum lífs og dauða

Upplifun af endurlífgun

Nær dauða upplifun

„Fyrir mér breytir það trú í staðreynd“ (Egill).

„Stund þarna þar sem að var bara kveðið á um það að ég ætti sem sagt, minn tími væri ekki kominn, en það var fyrir mér vissa sko [...] þannig að ég hræddist það ekki svo“ (Egill).

Færniskerðing Sálrænar afleiðingar Þörf fyrir fræðslu og stuðning

A urför líkamlegrar getu

Orkuleysi

Þreyta

Mæði

Verkir

„Þetta var mjög skrítið, maður hélt einn daginn, já nú er ég bara orðinn góður sko, og svo bara korteri seinna varstu bensínlaus“ (Kári).

Það var enginn máttur í mér sko, [...] einhvern veginn var allt restartað og bara allt farið“ (Lára).

Ég hafði eiginlega ekkert úthald, ég gat ekkert gert [...] eiginlega þreyta, ég bara svona var svolítið mæðin“ (Jóna).

„Eins og ég hafi orðið fyrir strætó, [...] þegar ég vaknaði, mér var illt allsstaðar, það var alveg sama hvar það var, ég náði ekki að standa upp [...] mér leið hrikalega“ (Anna).

Hugrænar breytingar

Athygli

Einbeiting

Minni

Ég er mjög fljótur að sóna út, ég þarf virkilega að einbeita mér að hlutum“ (Bjarni).

Ég bara gleymi, ég bara dett út sko, þú veist, ég er bara að fara á einhvern ákveðinn stað og svo fer ég eitthvað að hugsa eitthvað annað sko“ (Magnús). „Ég var allaf bara með, þú veist, bara punkta, einbeitingin alveg í lagi, það er ekki núna sko“ (Dagný).

Ótti og óöryggi

Óvissa

Vonleysi

Reiði

Einmanaleiki

E irsjá

Af hverju ég?

Tilfinningarússíbani

„Ég vissi aldrei bara ef ég var að fara að sofa, ég veit ekki hvort að ég vakna“ (Dagný).

„Mun ég alltaf vera svona jafn slæmur og ég hef verið? Það náttla litar framtíðina mína bara varanlega“ (Ari).

„Það er kannski meira en örlítið, það er slatti [...] slatti af vonleysi“ (Bjarni).

„Þá fór ég að hugsa um reiðina“ (Dagný).

„Ég fékk ekki að hitta strákinn minn, það var Covid. Ég fékk ekki að hitta mömmu mína, ég fékk ekki að hitta systur mína, ég fékk ekki að hitta neinn“ (Dagný).

„Auðvitað ákveðin svona sjálfsásökun, sko sem að fylgir í kjölfarið, þar sem að þú ert svolítið að berja á sjálfum þér fyrir að hafa ekki hlustað á viðvörunarbjöllurnar og allt þetta“ (Kári).

„Ég var í ágætu formi, þú veist, þó ég væri eitthvað móður þá var ég alveg líkamlega í ágætu formi, og hérna, og aldrei eitthvað barist við o itu. Ekki verið reykingamaður“ (Kári).

Að sættast við nýtt sjálf

Breytt hlutverk

Ný sjálfsmynd

Frelsissvipting

Forgangsröðun

Þakklæti

Æðruleysi

Sjálfsumönnun

Mynd 1. Heildargreiningarlíkan, yfirlit yfir helstu niðurstöður rannsóknarinnar: Yfirþemu, meginþemu og kóðar.

Viðvörunarbjöllur

Fjórir þátttakenda lýstu fyrirvaralausu hjartastoppi en aðrir lýstu algengum einkennum hjartasjúkdóma sem þeir töldu fyrirboða hjartastoppsins. Þrír höfðu efast um eða hundsað einkennin. Kári lýsti atviki tveimur vikum fyrir hjartastoppið:

Fæ svona einhvern veginn hugmynd um að þú veist það geti verið eitthvað skrítið í gangi […] hjólaði sko upp að spítala […] Svo þegar við komum þangað bara nei hvaða vitleysa maður þetta er náttúrlega bara eitthvað rugl. Þannig ég hjóla bara áfram heim (Kári).

Bjarni var einnig hikandi við að leita sér hjálpar: „Leið nærri því yfir mig á einum staðnum sko og ég bara; æji þetta er bara einhver aumingjaskapur“.

Tvær ungar konur höfðu áhyggjur af einkennum sínum og höfðu árangurslaust reynt að leita sér aðstoðar: „Heilbrigðiskerfið mætti bara hlusta þegar maður segir eitthvað. Ég hefði ekki þurft að lenda í þessu hjartastoppi“ (Anna).

Á mörkum lífs og dauða Þátttakendur lýstu nær dauða upplifun, minningum úr endurlífgun og hvernig það var að vakna til meðvitundar. Tvær konur upplifðu ruglástand þegar þær vöknuðu: „Ég man ekki neitt […] þeir sprautuðu mig með einhverju róandi út af því ég var svo mikill dólgur […] ég er ekki skapmanneskja en ég var víst mjög grimm“ (Dagný). Tveir þátttakendur lýstu vellíðunartilfinningu:

Þetta var bara indælt. Þannig bara að ég hefði bara viljað vera lengi, mér leið svo vel, af því að ég veit að þegar manns tími kemur, þá þarf maður ekki að hugsa um neitt (Guðbjörg).

„Hún á erfitt með að vera ein og hún er sjúklingur [...] ég hef alla tíð verið [...] maðurinn sem er vakandi yfir henni“ (Orri).

„Ég er maðurinn sem dó og vaknaði a ur “ (Orri).

„Ég var alltaf í svona pössun [...] ég var aldrei ein“ (Dagný).

Breytt sýn á lífið

„Ekki bíða með að gera allt þangað til að þú verður 67 ára“ (Lára).

„En svo náttúrulega kom bara svo fljótt sko upp hjá mér einhvernvegin að hugsa frekar bara, þú veist, að hugsa frekar bara svona í þakklæti“ (Kári).

„Af hverju ég og eitthvað svona sko, það hefur bara aldrei hvarflað að mér sko“ (Magnús).

„Var smá svona tíma að venjast að hætta að borða nammi og hætta að drekka gos og lífsstílsbreytingarnar, það tók smá á svona fyrst“ (Bjarni).

Uppspretta stuðnings

„Held að það væri mjög skynsamlegt, þú veist, að það væri eiginlega bara svona mandatory fjölskyldu session einhver. Og þá ekki, þú veist, með presti heldur, heldur bara með einmitt hjúkrunarfræðingum eða fólkinu sem, þú veist, með teyminu [...] af því það hafa allir, þú veist, sínar spurningar og svona pælingar, eða bara finnst gott að heyra frá fagfólkinu“ (Kári).

Lengri e irfylgd

Aðstandendur

Jafningjar Fagteymi

„Ég held að, hérna, þegar það er svona stutt liðið frá [...] þá er held ég miklu erfiðara fyrir fólk einhvern veginn að svona nýta þér aðstoðina, þú ert bara þannig lagað ennþá í áfallinu og líka í sko blissinu“ (Kári).

„Ég hef náttúrulega bara fengið mikinn stuðning frá makanum sko“ (Egill).

„Sérstaklega að hitta aðra svona hjartasjúklinga og þarna vorum við fimm sem náðum mjög vel saman [...] rosalega góður hópur sko“ (Bjarni).

Sérhæfð fræðsla

„Ég er les- og skrifblindur “ (Bjarni).

Lífið e ir hjartastopp

Einfalt og skýrt mál

„Áður en ég útskrifaðist [...] ég hefði bara viljað fá meiri svona leiðbeiningar um hvenær ég ætti að fara að vinna og svona [...] ég hefði þur að, ég hefði viljað fá meiri svona e irfylgni í því sko“ (Lára). „Það er svo erfitt að fá þessar upplýsingar einhvernvegin, það er bara fáránlega erfitt“ (Ari).

Stuðningur fyrir fjölskyldu

Áhyggjur af aðstandendum

Dylja eigin líðan og tilfinningar

Einstaklingsmiðuð Áfallahjálp

„Ég hafði alltaf bara áhyggjur af fólkinu í kringum mig [...] þetta var miklu meira sjokk fyrir þau“ (Lára).

„Ég dró úr líðan minni sko“ (Bjarni).

„Maður upplifir, þú veist, að einhvern veginn áfallið, þú veist, er ekkert minna fyrir aðstandendur“ (Kári).

Þessir þátttakendur upplifðu tímaleysi og skilaboð um að þeirra tími væri ekki kominn sem leiddi til æðruleysis.

Færniskerðingar Þátttakendur lýstu margvíslegum áhrifum hjartastoppsins á líkamlega líðan svo sem afturför líkamlegrar getu og hugrænum breytingum. Þessum breytingum fylgdu erfiðleikar og nýjar áskoranir í daglegu lífi sem hömluðu mörgum að snúa aftur til fyrra lífs.

Afturför líkamlegrar getu

Allir þátttakendurnir lýstu að einhverju marki afturför líkamlegrar getu; orkuleysi, mikilli þreytu og mæði sem gerði vart við sig við minnstu athafnir: „Ég hef náttla bara ekki komist í vinnuna, þreklítil, gleymin og bara svona, ég er rosa þreytt“ (Anna). Lára sagðist hafa „farið á núll“ og glatað líkamlegu formi: „Ég hef sjaldan verið í jafn góðu formi sko og þegar þetta gerist, einhvern veginn ég gat ekki neitt“ (Lára).

Þátttakendur lýstu líkamlegri vanlíðan og verkjum í kjölfar endurlífgunar og þrír upplifðu mikinn sársauka í endurlífguninni: Ég fann rosalega til en sársaukinn var ekki sko við að deyja. Ég var ekkert hræddur við það heldur bara sársaukinn var þegar það var verið að halda áfram að hamast á brjóstkassanum sem var brotinn […] ég vaknaði við það að ég öskraði af sársauka, sagði þeim að hætta þessu (Orri).

Hugrænar breytingar Átta þátttakendur fundu fyrir hugrænum breytingum svo sem skerðingu á minni, athygli og einbeitingu og erfiðleikum við að finna orð. Breytingarnar höfðu áhrif á daglegt líf og hindruðu atvinnuþátttöku:

Stundum fæ ég bara svona móment þar sem hausinn minn bara gjörsamlega blankar út og ég stend bara frosinn og ég veit að ég er frosinn og öll svona hugsunarlestin sem er í gangi, hún er bara farin og ég þarf bara að stara út í loftið og reyna finna hvar ég var (Ari).

Nokkrir lýstu erfiðleikum í daglegu lífi vegna minnisskerðingar: „Ég mundi ekki neitt, læknirinn sagði eitthvað við mig og ég mundi það ekki. […] ég fann alveg fyrir því, ég finn enn þá fyrir því“ (Anna)

Sálrænar afleiðingar

Hjartastoppið hafði margþætt en mismunandi áhrif á sálræna líðan þátttakenda sem upplifðu flóknar og margbreytilegar tilfinningar og að þurfa að sættast við nýtt sjálf vegna breytts hlutverks.

Tilfinningarússíbani

Þátttakendur lýstu tilfinningarússíbana sem þeir upplifðu eftir hjartastoppið. Tilfinningarnar gerðu jafnvel vart við sig allt að þremur mánuðum eftir útskrift og sumir höfðu ekki unnið úr áfallinu þegar viðtal fór fram.

Sjö þátttakendur lýstu ótta og óöryggi eftir að heim var komið, sem hafði neikvæð áhrif á líðan þeirra. Þeir óttuðust að fara aftur í hjartastopp og voru jafnvel hræddir við að fara að sofa vegna þess: ,,Ég vissi ekki hvort ég myndi lifa næsta dag“ (Dagný).

Óvissa um framtíðina var áberandi, þátttakendur óttuðust heilsubrest, að geta ekki séð fyrir sér og sínum og að geta ekki horfið aftur til fyrra lífs:

Verð ég þú veist vinnufær og þú veist þú ert bara að hugsa um alls konar. Á ég eftir að geta séð fyrir fjölskyldunni. Ferð í gegnum fullt af hlutum […] örfáar mínútur, örfáir klukkutímar einn sólarhringur eða eitthvað og […] þú ferð í gegnum allan rússíbanann sko (Kári).

Tilfinningar á borð við vonleysi og depurð gerðu vart við sig og viðkvæmni kom fram í tíma og ótíma: ,,Maður fór bara að gráta í miðju matarboði“ (Kári). Vegna Covid-19 takmarkana fékk Orri ekki heimsóknir á sjúkrahúsið og mátti lítið vera í kringum aðra: ,,En svo var þetta einmanaleikinn, það er það að fá ekki fjölskylduna.“

Tveir þátttakendur lýstu reiði yfir því að ekki var hlustað á áhyggjur þeirra vegna einkenna fyrir hjartastoppið. Dagný hafði endurtekið leitað til læknis en var greind með vöðvabólgu og sagt að taka verkjalyf: „Já heyrðu, fáðu þér bara heitan bakstur og slaka á, í viku“. Þeir sem upplifðu fyrirboðaeinkenni lýstu eftirsjá yfir að hafa ekki gefið einkennunum gaum og ásökuðu sjálfa sig fyrir að hafa ekki hlustað á viðvörunarbjöllunar: „Það voru alls konar viðvörunarbjöllur svo sem sko ef maður hefði bara, þú veist, tengt þá punkta“ (Kári).

Nokkrir veltu orsökum hjartastoppsins fyrir sér. Þeir sem höfðu ekki augljósa áhættuþætti undruðust af hverju þeir lentu í þessu og leituðu skýringa: „Ég var alltaf að hugsa; ég bara trúi þessu ekki, ég reyki ekki, ég drekk ekki og ég borða alveg hollan mat og ég lifi bara hollu lífi“ (Orri).

Að sættast við nýtt sjálf Þátttakendur þurftu að takast á við óvæntar breytingar sem höfðu neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra. Þeir glímdu við breytingar á hlutverkum innan fjölskyldunnar, erfiðleika við að takast á við fjölskyldulífið, breyttri stöðu á vinnumarkaði, daglegar lyfjagjafir, upplifun af frelsissviptingu og að vera stöðugt undir eftirliti:

„Maðurinn minn fékk svolítið að kenna á því, eða þú veist, hann tók við heimilinu og öllu, matreiðslu, frágangi og öllu“ (Jóna).

Breytt sýn á lífið Allir þátttakendur sögðu hjartastoppið hafa haft áhrif á lífssýn þeirra á einhvern hátt. Þeir lýstu meðal annars breyttu hugarfari, breyttri forgangsröðun, þakklæti og æðruleysi: ,,Þessi lífsreynsla gerði mig bara sterkari“ (Egill). Þau lýstu því hvernig hlutir sem þau áður töldu mikilvæga voru það ekki lengur og hvernig þau hugsuðu betur um heilsuna: „Og þess vegna þarf að passa mataræðið og heilsuna og taka alltaf lyfin og ef það er einhver […] viðvörunarmerki, þú veist, að hlusta á þau“ (Kári).

Þá lýstu þátttakendur þakklæti yfir öðru tækifæri til lífs: „En svo er líka þakklæti. Kemur alveg, að hafa actully náð að lifa þetta af“ (Ari).

Þörf fyrir fræðslu og stuðning

Allir þátttakendurnir lýstu óuppfylltri þörf fyrir fræðslu og stuðning eftir hjartastoppið, bæði fyrir sjálfa sig og aðstandendur.

Uppspretta stuðnings

Þátttakendurnir lýstu þörf fyrir stuðning frá fagteymi eftir útskrift af sjúkrahúsi og jafnvel þegar langur tími var liðinn frá hjartastoppinu.

Mörgum var boðið að hitta sálfræðing eða djákna í sjúkrahúslegunni. Þeim þótti það gott á þeim tímapunkti en hjá mörgum var áfallið ekki enn búið að gera vart við sig og stuðningurinn nýttist því ekki sem skyldi: ,,Maður hefur ekki svona alveg verið búinn að melta þetta og hvað ég var nálægt því að þú veist bara kveðja sko […] Ég var ekki sjálfur búinn að meðtaka þetta allt“ (Bjarni).

Allir nema einn fóru í hjartaendurhæfingu á Reykjalund sem þeir töldu eiga stóran þátt í bata þeirra: „Þetta gerði mér mjög gott, ég væri örugglega ekkert á þessum stað sem ég er á núna, ef það væri ekki fyrir Reykjalund. Einhvern veginn gripin, þú veist“ (Anna).

Orri þurfti að bíða lengi eftir því að komast í hjartaendurhæfingu sem hafði mikil áhrif á hann. ,,Það er biðin sem fer ekkert rosalega vel með mann“. Hann upplifði sig einan heima og hefði viljað fá fyrr eftirfylgd og endurhæfingu eftir sjúkrahúsdvölina.

Þá sögðu nokkrir að fjölskylda og vinir hefðu skipt sköpum: „Ég er bara heppin með maka, og þú veist, systur mína og líka bara frænkur, þær voru alltaf að koma í heimsókn til mín og eru búnar að standa við bakið á mér“ (Anna). Þátttakendur lýstu þörf fyrir jafningjafræðslu og sögðu samskipti við einstaklinga, sem einnig hefðu reynslu af því að fara í hjartastopp, reynst vel í bataferlinu:

Það mætti alveg vera svona fyrir fólk sem hefur lent í þessu sama, æ ég get alveg rætt þetta við vinkonur mínar en þær hafa ekki lent í þessu. Örugglega bara gott að ræða þetta við einhvern sem hefur lent í sama hlutnum og skilur mann, það er eitt að segjast skilja, og þú veist, og hafa lent í þessu (Anna).

Sérhæfð fræðsla Þátttakendur minntust þess að hafa fengið fræðslu á sjúkrahúsinu. Bjarni sagðist hafa fengið fræðslubækling en hefði viljað fá einstaklingsmiðaðri fræðslu: „Ég er svo ofboðslega lengi að lesa, svo það væri bara gott að fá þetta svona, persónulega, þú veist“ (Bjarni). Arnari hefði þótt gagnlegt að fá fræðslu á „mannamáli“ og Ari talaði um mikilvægi þess að fá upplýsingar á einföldu og skýru máli:

Það er svo erfitt að fá þessar upplýsingar einhvern veginn, það er bara fáránlega erfitt. Það var bara mjög seint sem ég áttaði mig á því að ég þurfti að fara til læknis, og bara skrifa niður allar spurningar sem ég hafði bara svo ég myndi ekki gleyma þeim og skrifa niður svarið (Ari).

Þá hefði Ari viljað fá meiri fræðslu um líf eftir hjartastopp: „Það sem hefði hjálpað mér mest væri […] almenn fræðsla um líf eftir hjartastopp sko […] það myndi veita manni öryggi […] hvernig þetta æxlast allt, því það fylgir þessu svo mikil óvissa sem er alveg hræðilegt“ (Ari).

Þátttakendum fannst gott að fá fræðslu um mikilvægi hreyfingar í bataferlinu, að fara varlega af stað og ofgera sér ekki. Þeir töluðu einnig um gagnsemi fræðslu um mataræði og hjartalyf og virkni þeirra. Þá óskuðu þátttakendur eftir mun meiri eftirfylgd fagteymis eftir að heim var komið:

Það er búið að gera við þig svo bara er enginn að hringja og spyrja; hvernig hefurðu það, finnurðu eitthvað, hefurðu orðið var við eitthvað? Þú kemur svo bara til læknisins eftir tíu daga. Á þessum tíu dögum getur gerst margt og þú þarft að treysta á sjálfan þig heima (Orri).

Stuðningur fyrir fjölskyldu

Allir þátttakendur lýstu þörf á stuðningi fyrir aðstandendur sem þeir höfðu haft miklar áhyggjur af og var það jafnvel fyrsta hugsunin eftir að þeir gerðu sér grein fyrir hvað hafði gerst. „Þá fer maður að hafa áhyggjur af liðinu sko“ (Arnar). Áhyggjur af líðan aðstandenda höfðu áhrif á sálræna líðan þátttakenda en meðal annars lýsti einn þeirra því að hann hefði falið eigin líðan til þess að hlífa fjölskyldunni: „Ég hafði svona meiri áhyggjur af henni, hvernig hún brygðist við“ sagði Bjarni þegar hann ræddi áhyggjur sem hann hafði af dóttur sinni.

Þátttakendur áttu það sameiginlegt að þeir hefðu viljað fá mun meiri aðstoð fyrir aðstandendur og söknuðu þess að hafa ekki fengið fjölskyldufund með fagaðilum. Þeir töldu að slíkur fundur gæti hafa gagnast bæði þeim sjálfum og fjölskyldunni til að tjá líðan sína, ræða áhyggjur og fá svör við spurningum: „Að það sem að við gerðum aldrei og hefði kannski, þú veist, verið skynsamlegt. Að, þú veist, að það hérna hefði verið einhver svona fjölskyldutími sko“ (Kári).

Þá greindu nokkrir frá því að maki eða börn höfðu þurft á sálfræðiaðstoð að halda til þess að vinna úr áfallinu en þurftu að útvega sér þá þjónustu sjálf.

UMRÆÐUR

Meginniðurstöður rannsóknarinnar voru að þátttakendurnir höfðu óuppfylltar stuðnings- og fræðsluþarfir og upplifðu flóknar og margbreytilegar líkamlegar og sálrænar afleiðingar hjartastoppsins.

Fyrirboðaeinkenni hjartastopps, eins og lýst er í þessari rannsókn, svo sem mæði, brjóstverkur og meðvitundarleysi eru vel þekkt (Zheng o.fl., 2022). Einkennin koma jafnvel fram allt að sólarhring fyrir hjartastoppið en því miður er ekki alltaf brugðist við þeim í tíma (Marijon o.fl., 2016). Margir þátttakendur í þessari rannsókn áttuðu sig ekki á alvarleika einkennanna eða hunsuðu þau. Ástæður þess að fólk bregst seint við einkennum sínum hafa verið töluvert rannsakaðar og virðast liggja þar að baki fjölmargir þættir. Aldraðir, konur og þeir sem eru með langvinna sjúkdóma

eða fyrri sögu um kransæðastíflu virðast bregðast seinna við sínum einkennum. Óhefðbundin einkenni og erfiðleikar við að túlka einkenni lengja einnig viðbragðstímann. Það að vera einn þegar einkennin gera vart við sig og að hringja ekki á sjúkrabíl veldur einnig töfum. Loks virðast vitsmunalegir og tilfinningalegir þættir gegna mikilvægu hlutverki (Wechkunanukul o.fl., 2017).

Að bregðast ekki við fyrirboðaeinkennum samræmist einnig niðurstöðum úr rannsókn Ketilsdóttir o.fl. (2014) meðal karlmanna, þar sem allir þátttakendur fundu viðvörunareinkenni hjartastopps en eins og í okkar rannsókn leituðu ekki eftir aðstoð, þar sem þeir vildu vera sterkir og ekki trufla heilbrigðisstarfsfólk án augljósrar ástæðu. Ekki fundust rannsóknir þar sem upplifun kvenna af hjartastoppi var skoðuð sérstaklega en í þessari rannsókn upplifðu tvær ungar konur að ekki hafi verið hlustað á þær og fyrirboða einkenni þeirra voru ekki greind af heilbrigðisstarfsfólki. Enginn karlkyns þátttakandi lýsti þessu. Rannsóknir hafa sýnt að fyrirboða einkenni eru misjöfn milli karla og kvenna (Reinier o.fl., 2023) og að eftir hjartastopp fara konur síður í kransæðamyndatöku, kransæðavíkkun og fá síður kælimeðferð (Feng o.fl., 2021). Niðurstöður beggja þessara íslensku rannsókna benda til mikilvægis vitundarvakningar varðandi einkenni hjartasjúkdóma hjá konum og körlum sem og viðeigandi viðbrögð. Með bættri þekkingu almennings og heilbrigðisstarfsfólks á fyrirboðaeinkennum hjartastopps og mikilvægi þess að leita sér aðstoðar tímanlega er hægt að auka líkur á árangursríkri endurlífgun og betri útkomu.

Það er ljóst af niðurstöðum rannsóknarinnar að áhrif hjartastoppsins á lífsgæði þátttakendanna voru mikil. Flestir þeirra glímdu við hugrænar breytingar af einhverju tagi en eins og í rannsókn Mion o.fl., (2021) var skert minni og einbeiting mest áberandi. Hugrænar breytingar geta haft neikvæð áhrif á bata (Sawyer o.fl., 2020) og eins og niðurstöður þessarar rannsóknar og niðurstöður Lilja (2017) benda til geta þær haft áhrif á starfsgetu og komið í veg fyrir að fólk snúi til fyrra lífs. Því er mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk þekki og sé vakandi fyrir hugrænum einkennum og beiti gagnreyndum aðferðum við skimun og meðferð. Þörf er á klínískum leiðbeiningum um skimun og meðferð hugrænna breytinga eftir hjartastopp (Hagberg, 2022) og frekari rannsóknum til að greina áhrifaríkustu meðferðirnar sem miða að fyrirbyggingu og stuðla að hugrænum bata (Sawyer o.fl., 2020).

Þær flóknu og margbreytilegu tilfinningar sem þátttakendur upplifðu samræmast niðurstöðum fyrri rannsókna sem benda til að einstaklingar sem lifa af hjartastopp standi frammi fyrir fjölmörgum sálrænum áskorunum (Case o.fl., 2021; Israelsson o.fl., 2016; Sawyer o.fl., 2020). Rannsóknir hafa meðal annars sýnt að kvíði, þunglyndi og áfallastreituröskun sé algeng hjá þeim sem lifað hafa af hjartastopp (Desai o.fl., 2019; Naber og Bullinger, 2018) en þátttakendur rannsóknarinnar lýstu einmitt einkennum sem samræmast þessum kvillum svo sem að hræðast það að sofna vegna ótta um að vakna ekki aftur. Lýsingar þátttakenda á vonleysi og depurð og að forðast staði sem minntu á atburðinn benda einnig til kvíða og áfallastreituröskunar.

Eins og í fyrri rannsóknum áttu margir af karlkyns þátttakendunum erfitt með að greina og orða tilfinningar sínar (Ketilsdottir o.fl., 2014; Uren og Galdas, 2015) og lýstu því að þeir bældu þær og leyndu líðan sinni fyrir aðstandendum sínum. Þannig höfðu margir ekki unnið úr tilfinningunum þegar viðtalið fór fram. Þá kom einnig fram í rannsókn Uren og Galdas (2015) að karlar

áttu erfiðara með að leita sér faglegrar aðstoðar. Svo virðist sem erfiðleikar við að leita sér aðstoðar hafi áhrif á tækifæri þeirra sem lifa af hjartastopp til að fá þá aðstoð sem þeir kunna að hafa þörf fyrir. Því er mikilvægt að frumkvæði komi frá heilbrigðisstarfsfólki og öllum sem lifa af hjartastopp sé boðin sálræn meðferð í bataferlinu, það er meðferð frá fagaðila um tilfinningalega þætti og úrvinnslu þeirra. Slík meðferð fer oft fram í gegnum samtalsmeðferð með það að markmiði að draga úr einkennum, bæta lífsgæði og stuðla að aukinni virkni (National Institute of Mental Health, [NHI], 2024). Þrátt fyrir að rannsóknir bendi til að sálræn vanlíðan hafi neikvæð áhrif á líkamlega endurhæfingu eftir hjartastopp (Moulaert o.fl., 2015) og að sálræn eftirfylgd sé nauðsynleg (Sawyer o.fl., 2020) virðast meðferðarmarkmið eftir útskrift af sjúkrahúsi snúa fyrst og fremst að líkamlegri endurhæfingu (Israelsson o.fl., 2016). Rannsóknir benda til að sálræn meðferð þeirra sem lifa af hjartastopp auki lífslíkur og lífsgæði þeirra (Dainty o.fl., 2021; Lilja, 2017) en ekki liggja fyrir klínískar leiðbeiningar um slíka meðferð eftir hjartastopp (Sawyer o.fl., 2020). Sérstaða hjúkrunar liggur í heildrænni nálgun sem nær yfir líkamlega, geðræna og félagslega þætti. Sálræn meðferð og stuðningur við þá sem lifa af hjartastopp er því mikilvægur þáttur í hjúkrun þessara sjúklinga, í gegnum allt bataferlið; á sjúkrahúsi eftir atburðinn, eftir útskrift af sjúkrahúsi og í endurhæfingunni. Sálræn meðferð og stuðningur hjúkrunarfræðinga felst meðal annars í því að skima fyrir einkennum kvíða og þunglyndis, hvetja sjúklinga til þessa að tjá líðan sína, beita virkri hlustun og nærveru, fræða sjúklinga um streitu og slökun og vísa þeim í sérhæfða meðferð sem þess þurfa (Turners o.fl., 2017). Eins og í rannsókn Presciutti o.fl. (2022) lýstu þátttakendur óuppfylltri þörf fyrir fræðslu, faglega eftirfylgd og stuðning eftir útskrift af sjúkrahúsi fyrir bæði sig og aðstandendur og kölluðu eftir bættri þjónustu á þessu sviði. Þá lýstu þeir margvíslegum fræðsluþörfum og óskuðu eftir einstaklingsmiðaðri fræðslu svo sem um lífið eftir hjartastopp, sjálfsumönnun, sálræna líðan og bataferlið sem einnig samræmist niðurstöðum Presciutti o.fl. (2022).

Þrátt fyrir að rannsókn meðal íslenskra karlmanna eftir hjartastopp frá 2014 sýndi þörf fyrir betri eftirfylgd eftir útskrift af sjúkrahúsi (Ketilsdottir o.fl., 2014), virðist sem þessi þörf sé enn óuppfyllt og teljast má líklegt að þörfin sé einnig til staðar meðal kvenna. Þetta samræmist erlendum rannsóknum sem hafa varpað ljósi á þörf fyrir klínískar leiðbeiningar og þróun heildrænnar og þverfaglegrar meðferðaráætlunar fyrir þá sem lifa af hjartastopp (Israelsson o.fl., 2016; Sawyer o.fl., 2020). Amerísku hjartasamtökin settu fram tilmæli um mat á líkamlegri virkni, hugrænum þáttum, sálrænni líðan og félagslegum þáttum hjá þeim sem lifa af, ásamt áætlun um snemmtæk inngrip sem fela í sér mat og tillögur að meðferð (Sawyer o.fl., 2020). Eins og í rannsókn Mion o.fl. (2021) sögðu þátttakendur að eftir útskrift hafi eftirfylgd einungis verið sinnt af hjartalækni og að aðkoma fleiri fagaðila, eins og sálfræðings, hefði verið æskileg. Í rannsókn Dainty o.fl. (2021) kom einnig fram að góð eftirfylgd hafi verið með líkamlegum þáttum en hins vegar hafi lítil sem engin eftirfylgd verið með sálrænum þáttum á meðan á sjúkrahúsvist stóð og heldur ekki eftir útskrift af sjúkrahúsi. Tryggja þarf að einstaklingar sem lifa af hjartastopp hafi aðgang að bæði líkamlegri og sálrænni eftirfylgd og faglegum stuðningi eftir útskrift af sjúkrahúsi.

Eins og kom fram hjá Case o.fl. (2021) lýstu þátttakendur óuppfylltum þörfum fyrir jafningjastuðning, þeir drógu fram mikilvægi samskipta við aðra sem deila sömu reynslu og sögðu það hafa haft góð áhrif á líðan þeirra. Jákvæðri upplifun af jafningastuðningi og mikilvægi hans í bataferlinu hefur verið lýst

í fyrri rannsóknum (Joo o.fl., 2022; Presciutti o.fl., 2022; Wagner ofl., 2021b) og styður mikilvægi formlegs jafningjastuðnings sem hluta af meðferð.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur einnig fram brýn þörf fyrir að aðstandendur fái formlega eftirfylgd og stuðning. Þetta samræmist fyrri rannsóknum sem benda til að aðstandendur standi frammi fyrir sálrænum áskorunum (Case o.fl., 2021; Rojas o.fl., 2023; Whitehead o.fl., 2020) og eiga á hættu að glíma við þunglyndi, kvíða, hugrænar breytingar og hræðslu (Mion o.fl., 2021). Eins og niðurstöður okkar rannsóknar sýna þá upplifa sjúklingar sem lifa af hjartastopp oft áhyggjur af aðstandendum sínum sem hefur neikvæð áhrif á sálræna líðan þeirra (Case o.fl., 2021; Rojas o.fl., 2023). Faglegur stuðningur við aðstandendur er því einnig mikilvægur (Dainty o.fl., 2021; Rojas o.fl., 2023).

STYRKLEIKAR OG TAKMARKANIR RANNSÓKNARINNAR

Meginstyrkur rannsóknarinnar er reynsla fyrsta höfundar í að mynda traust og taka viðtöl við þátttakendur um erfið málefni sem leiddi til innihaldsríkra gagna. Það styrkir rannsóknina að stuðst var við staðfestingaraðferðir (e. verification strategies) Morse (2015) um réttmæti í eigindlegum rannsóknum. Einnig fékk rannsakandi staðfestingu frá þátttakendum um réttan skilning sinn á frásögn þeirra með því að draga saman frásögn viðmælenda í lok hvers viðtals eins og lýst er í Dempsey o.fl. (2016).

Þrátt fyrir fáa þátttakendur, þá tóku 12 af þeim sjúklingum sem uppfylltu þátttökuskilyrði þátt, kynjahlutfallið var nokkuð jafnt og aldursbilið breitt sem gaf okkur innsýn í reynslu kvenna og karla á fjölbreyttum aldri af því að fara í hjartastopp. Það að allir þátttakendurnir fengu meðferð á sama sjúkrahúsi veikir þó yfirfærslugildi niðurstaðnanna. Margir þátttakendur í rannsókninni fóru í hjartastopp á tímum heimsfaraldurs, þegar samkomutakmarkanir voru í þjóðfélaginu. Þetta hafði áhrif á þá þjónustu sem þeim stóð til boða og upplifun þeirra af hjartastoppinu og gæti haft áhrif á alhæfingargildi niðurstaðna.

ÁLYKTUN

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að einstaklingar sem lifa af hjartastopp þurfi að takast á við margvíslegar líkamlegar og sálrænar áskoranir og upplifi hafsjó af tilfinningum. Niðurstöðurnar benda til að þörfum þeirra fyrir eftirfylgd eftir útskrift af sjúkrahúsi sé ekki fullnægt og að nauðsynlegt sé að byggja upp faglega eftirfylgd og stuðning fyrir þennan sjúklingahóp og aðstandendur þeirra.

ÞAKKARORÐ

Sérstakar þakkir fá þátttakendur, sem voru tilbúnir að deila reynslu sinni við gerð þessarar rannsóknar. Hildur Rut Albertsdóttir fær þakkir fyrir yfirlestur og gagnlegar ábendingar, Vísindasjóður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fyrir veittan styrk til rannsóknarinnar og Landspítalinn fyrir veitt námsleyfi.

ENGLISH SUMMARY

“I could recover externally but not as well on the inside”: Experience of cardiac arrest survivors

ABSTRACT

Aim

Globally, the annual incidence of out-of-hospital cardiac arrest is 30–97 cases per 100,000 inhabitants. Due to improved knowledge of cardiopulmonary resuscitation (CPR) and better access to automated defibrillators, the number of cardiac arrest survivors has increased. Survivors are at risk of psychological challenges, such as depression, anxiety, and post-traumatic stress disorder. Research indicates that structured follow-up and support for individuals recovering from cardiac arrest increases life expectancy and quality of life after discharge from a hospital. This study aimed to describe the experiences of cardiac arrest survivors and their needs for education, follow-up, and professional support. The aim was also to explore the need to improve post-hospital services for these individuals.

Methods

In this qualitative study, data were collected through semi-structured interviews in 2022–2023. The participants were seven men and five women aged 28–65 years (M=52 years) who survived out-of-hospital cardiac arrest. One interview was conducted with each participant. Data were analyzed using Malterud’s systematic text condensation.

Results

Cardiac arrest has complex and varied physical and psychological consequences for survivors. Four main themes were identified. Experiencing cardiac arrest describes warning signs and CPR experiences. Impairment describes the impact of cardiac arrest on physical and mental well-being and ability. In Psychological consequences, participants describe the "emotional rollercoaster" they experienced after cardiac arrest and a changed life perspective that includes altered priorities, gratitude, and serenity. The final theme, Need for education and support, describes the unmet need for follow-up after hospital discharge.

Conclusions

Cardiac arrest survivors face various physical and psychological challenges and experience a sea of emotions. Their needs for follow-up after hospital discharge are unmet; hence, there seems to be a need to establish professional follow-up and support for survivors and their families.

Keywords

Cognitive changes, follow-up, heart arrest, psychological well-being, quality of life.

Correspondent elisabeth.tanja@gmail.com

HEIMILDIR

Bhattacharyya, M., Stevenson, F. og Walters, K. (2016). Exploration of the psychological impact and adaptation to cardiac events in south asians in the UK: A qualitative study. BMJ Open, 6(7), e010195. https://doi.org/10.1136/bmjopen-2015-010195

Brinkman, S. og Kvale, S. (2015). Interviews: Learning the craft of qualitative research interviewing (3. útgáfa). C.A. Sage.

Byron-Alhassan, A., Collins, B., Bedard, M., Quinlan, B., Le May, M., Duchesne, L., Osborne, C., Wells, G., Smith, A. M. og Tulloch, H. E. (2021). Cognitive dysfunction after out-of-hospital cardiac arrest: Rate of impairment and clinical predictors. Resuscitation, 165, 154-160. https://doi.org/10.1016/j.resuscitation.2021.05.002

Case, R., Stub, D., Mazzagatti, E., Pryor, H., Mion, M., Ball, J., Cartledge, S., Keeble, T. R., Bray, J. E. og Smith, K. (2021). The second year of a second chance: Long-term psychosocial outcomes of cardiac arrest survivors and their family. Resuscitation, 167, 274-281. https://doi.org/10.1016/j.resuscitation.2021.06.018

Cronberg, T., Greer, D. M., Lilja, G., Moulaert, V., Swindell, P. og Rossetti, A. O. (2020). Brain injury after cardiac arrest: From prognostication of comatose patients to rehabilitation. The Lancet. Neurology, 19(7), 611-622. https://doi.org/10.1016/S1474-4422(20)30117-4

Dainty, K. N., Bianca Seaton, M. og Richard Verbeek, P. (2021). Moving from physical survival to psychologic recovery: A qualitative study of survivor perspectives on long-term outcome after sudden cardiac arrest. Resuscitation Plus, 5, 100055. https://doi.org/10.1016/j.resplu.2020.100055

Desai, R., Singh, S., Patel, K., Fong, H. K., Kumar, G. og Sachdeva, R. (2019). The prevalence of psychiatric disorders in sudden cardiac arrest survivors: A 5-year nationwide inpatient analysis Resuscitation, 136, 131-135. https://doi.org/10.1016/j.resuscitation.2019.01.035

Feng, D., Li, C., Yang, X. og Wang, L. (2021). Gender differences and survival after an out-of-hospital cardiac arrest: A systematic review and meta-analysis. Internal and Emergency Medicine, 16(3), 765-775. https://doi.org/10.1007/s11739-020-02552-4

Hagberg, G., Ihle-Hansen, H., Sandset, E. C., Jacobsen, D., Wimmer, H. og Ihle-Hansen, H. (2022). Long term cognitive function after cardiac arrest: A mini-review. Frontiers in Aging Neuroscience, 14, 885226. https://doi.org/10.3389/fnagi.2022.885226

Haydon, G., van der Riet, P. og Inder, K. (2017). A systematic review and meta-synthesis of the qualitative literature exploring the experiences and quality of life of survivors of a cardiac arrest. European Journal of Cardiovascular Nursing, 16(6), 475-483. https://doi.org/10.1177/1474515117705486

Holloway, I. og Galvin, K. (2017). Qualitative research in nursing and heathcare (4. útg.). Whiley Blackwell Israelsson, J., Lilja, G., Bremer, A., Stevenson-Ågren, J. og Årestedt, K. (2016). Post cardiac arrest care and follow-up in Sweden – a national web-survey. BMC Nursing, 15, 1. https://doi.org/10.1186/s12912-016-0123-0

Joo, J. H., Bone, L., Forte, J., Kirley, E., Lynch, T. og Aboumatar, H. (2022). The benefits and challenges of established peer support programmes for patients, informal caregivers, and healthcare providers. Family Practice, 39(5), 903-912. https://doi.org/10.1093/ fampra/cmac004Ketilsdottir, A., Albertsdottir, H. R., Akadottir, S. H., Gunnarsdottir, T. J. og Jonsdottir, H. (2014). The experience of sudden cardiac arrest: Becoming reawakened to life. European Journal of Cardiovascular Nursing, 13(5), 429-435. https://doi.org/10.1177/1474515113504864

Kiguchi, T., Okubo, M., Nishiyama, C., Maconochie, I., Ong, M. E. H., Kern, K. B., Wyckoff, M. H., McNally, B., Christensen, E. F., Tjelmeland, I., Herlitz, J., Perkins, G. D., Booth, S., Finn, J., Shahidah, N., Shin, S. D., Bobrow, B. J., Morrison, L. J., Salo, A., . . . Iwami, T. (2020). Out-of-hospital cardiac arrest across the world: First report from the international liaison committee on resuscitation (ILCOR). Resuscitation, 152, 39-49. https://doi.org/10.1016/j.resuscitation.2020.02.044

Lilja, G. (2017). Follow-up of cardiac arrest survivors: Why, how, and when? A practical approach. Seminars in Neurology, 37(1), 88-93. https://doi.org/10.1055/s-0036-1593859

Malterud, K. (2012). Systematic text condensation: A strategy for qualitative analysis. Scandinavian Journal of Public Health, 40(8), 795–805. https://doi.org/10.1177/1403494812465030

Marijon, E., Uy-Evanado, A., Dumas, F., Karam, N., Reinier, K., Teodorescu, C., Narayanan, K., Gunson, K., Jui, J., Jouven, X. og Chugh, S. S. (2016). Warning symptoms are associated with survival from sudden cardiac arrest. Annals of Internal Medicine, 164(1), 23–29. https://doi.org/10.7326/M14-2342

Mion, M., Case, R., Smith, K., Lilja, G., Blennow Nordström, E., Swindell, P., Nikolopoulou, E., Davis, J., Farrell, K., Gudde, E., Karamasis, G. V., Davies, J. R., Toff, W. D., Abella, B. S. og Keeble, T. R. (2021). Follow-up care after out-of-hospital cardiac arrest: A pilot study of survivors and families' experiences and recommendations. Resuscitation Plus, 7, 100154. https://doi.org/10.1016/j.resplu.2021.100154

Morse, J. M. (2015). Critical Analysis of Strategies for Determining Rigor in Qualitative Inquiry. Qualitative Health Research, 25(9), 1212–1222. https://doi.org/10.1177/104973231558850

Morse, J. M. (1999). Qualitative methods: The state of the art. Qualitative health research, 9(3), 393-406. https://doi.org/10.1177/104973299129121938

Moon, S., Ryoo, H. W., Ahn, J. Y., Lee, D. E., Shin, S. D. og Park, J. H. (2020). Association of response time interval with neurological outcomes after out-of-hospital cardiac arrest according to bystander CPR. The American Journal of Emergency Medicine, 38(9), 1760–1766. https://doi.org/10.1016/j.ajem.2020.05.108

Moulaert, V. R. M., van Heugten, C. M., Winkens, B., Bakx, W. G. M., de Krom, Marc C. F. T. M., Gorgels, T. P. M., Wade, D. T. og Verbunt, J. A. (2015). Early neurologically-focused follow-up after cardiac arrest improves quality of life at one year: A randomised controlled trial. International Journal of Cardiology, 193, 8-16. https://doi.org/10.1016/j.ijcard.2015.04.229

Naber, D. og Bullinger, M. (2018). Psychiatric sequelae of cardiac arrest. Dialogues in Clinical Neuroscience, 20(1), 73-77. https://doi.org/10.31887/DCNS.2018.20.1/dnaber National Institute of Mental Health. (2024). Psychotherapies. https://www.nimh.nih.gov/ health/topics/psychotherapies

Pek, P. P., Fan, K. C., Ong, M. E. H., Luo, N., Østbye, T., Lim, S. L. og Ho, A. F. (2023). Determinants of health-related quality of life after out-of-hospital cardiac arrest (OHCA): A systematic review. Resuscitation, 188, 109794. https://doi.org/10.1016/j.resuscitation.2023.109794

Perkins, G. D., Graesner, J., Semeraro, F., Olasveengen, T., Soar, J., Lott, C., Van de Voorde, P., Madar, J., Zideman, D., Mentzelopoulos, S., Bossaert, L., Greif, R., Monsieurs, K., Svavarsdóttir, H. og Nolan, J. P. (2021). European resuscitation council guidelines 2021: Executive summary. Resuscitation, 161, 1-60.

https://doi.org/10.1016/j.resuscitation.2021.02.003

Presciutti, A., Verma, J., Pavol, M., Anbarasan, D., Falo, C., Brodie, D., Rabbani, L. E., Roh, D. J., Park, S., Claassen, J. og Agarwal, S. (2018). Posttraumatic stress and depressive symptoms characterize cardiac arrest survivors' perceived recovery at hospital discharge. General Hospital Psychiatry, 53, 108-113.

https://doi.org/10.1016/j.genhosppsych.2018.02.006

Presciutti, A., Siry-Bove, B., Newman, M. M., Elmer, J., Grigsby, J., Masters, K. S., Shaffer, J. A., Vranceanu, A. og Perman, S. M. (2022). Qualitative study of long-term cardiac arrest survivors' challenges and recommendations for improving survivorship. Journal of the American Heart Association, 11(14), e025713. https://doi.org/10.1161/JAHA.121.025713

Reinier, K., Dizon, B., Chugh, H., Bhanji, Z., Seifer, M., Sargsyan, A., Uy-Evanado, A., Norby, F. L., Nakamura, K., Hadduck, K., Shepherd, D., Grogan, T., Elashoff, D., Jui, J., Salvucci, A. og Chugh, S. S. (2023). Warning symptoms associated with imminent sudden cardiac arrest: A population-based case-control study with external validation. The Lancet. Digital Health, 5(11), e763-e773. https://doi.org/10.1016/S2589-7500(23)00147-4

Rojas, D. A., DeForge, C. E., Abukhadra, S. L., Farrell, L., George, M. og Agarwal, S. (2023). Family experiences and health outcomes following a loved ones' hospital discharge or death after cardiac arrest: A scoping review. Resuscitation Plus, 14, 100370. https://doi.org/10.1016/j.resplu.2023.100370

Sawyer, K. N., Camp-Rogers, T. R., Kotini-Shah, P., Del Rios, M., Gossip, M. R., Moitra, V. K., Haywood, K. L., Dougherty, C. M., Lubitz, S. A., Rabinstein, A. A., Rittenberger, J. C., Callaway, C. W., Abella, B. S., Geocadin, R. G. og Kurz, M. C. (2020). Sudden cardiac arrest survivorship: A scientific statement from the american heart association. Circulation, 141(12), e654-e685. https://doi.org/10.1161/CIR.0000000000000747

Turner, K. M., Winder, R., Campbell, J. L., Richards, D. A., Gandhi, M., Dickens, C. M. og Richards, S. (2017). Patients' and nurses' views on providing psychological support within cardiac rehabilitation programmes: A qualitative study. BMJ Open, 7(9), e017510. https://doi.org/10.1136/bmjopen-2017-017510

Uren, A. og Galdas, P. (2015). The experiences of male sudden cardiac arrest survivors and their partners: A gender analysis. Journal of Advanced Nursing, 71(2), 349-358. https://doi.org/10.1111/jan.12499

Wagner, M. K., Berg, S. K., Tang, L. H., Stenbaek, D. S., Hassager, C. og Missel, M. (2021a). Understanding the lived experiences of short- and long-term consequences on daily life after out-of-hospital cardiac arrest. A focus group study. Journal of Advanced Nursing, 77(3), 1442-1452. https://doi.org/10.1111/jan.14707

Wagner, M. K., Kikkenborg Berg, S., Hassager, C., Joshi, V. L., Stenbæk, D. S. og Missel, M. (2021b). Feeling understood for the first time: Experiences of participation in rehabilitation after out-of-hospital sudden cardiac arrest. European Journal of Cardiovascular Nursing, 20(8), 767-774. https://doi.org/10.1093/eurjcn/zvab002

Wechkunanukul, K., Grantham, H. og Clark, R. A. (2017). Global review of delay time in seeking medical care for chest pain: An integrative literature review. Australian Critical Care: Official Journal of the Confederation of Australian Critical Care Nurses, 30(1), 13–20. https://doi.org/10.1016/j.aucc.2016.04.002

Whitehead, L., Tierney, S., Biggerstaff, D., Perkins, G. D. og Haywood, K. L. (2020). Trapped in a disrupted normality: Survivors' and partners' experiences of life after a sudden cardiac arrest. Resuscitation, 147, 81-87. https://doi.org/10.1016/j.resuscitation.2019.12.017

Wittwer, M. R., Zeitz, C., Beltrame, J. F. og Arstall, M. A. (2022). Aetiology of resuscitated out-of-hospital cardiac arrest treated at hospital. Resuscitation, 170, 178–183. https://doi.org/10.1016/j.resuscitation.2021.11.035

Zheng, K., Bai, Y., Zhai, Q., Du, L., Ge, H., Wang, G. og Ma, Q. (2022). Correlation between the warning symptoms and prognosis of cardiac arrest. World Journal of Clinical Cases, 10(22), 7738-7748. https://doi.org/10.12998/wjcc.v10.i22.7738

Zook, N., Voss, S., Blennow Nordström, E., Brett, S. J., Jenkinson, E., Shaw, P., White, P. og Benger, J. (2022). Neurocognitive function following out-of-hospital cardiac arrest: A systematic review. Resuscitation, 170, 238-246. https://doi.org/10.1016/j.resuscitation.2021.10.005

Ørbo, M., Aslaksen, P. M., Larsby, K., Schäfer, C., Tande, P. M. og Anke, A. (2016). Alterations in cognitive outcome between 3 and 12 months in survivors of out-of-hospital cardiac arrest. Resuscitation, 105, 92-99. https://doi.org/10.1016/j.resuscitation.2016.05.017

Siðferðileg færni í hjúkrun: Fræðileg skilgreining

doi: 10.33112/th.100.3.4

ÚTDRÁTTUR

Tilgangur

Fræðileg skilgreining á siðferðilegri færni hjúkrunarfræðinga getur gagnast þeim í störfum sínum en engin slík skilgreining er til í hjúkrunarfræði. Tilgangur þessarar rannsóknar var að þróa slíka skilgreiningu og var rannsóknarspurningin því: hverjir eru undirstöðuþættir siðferðilegrar færni í hjúkrun, hver er skilgreining þeirra með tilliti til hjúkrunar og hver er fræðilega skilgreiningin á siðferðilegri færni í hjúkrun?

Aðferð

Aðferðin sem notuð var til að svara rannsóknarspurningunni var blönduð aðferð hugtakasamþættingar eins og henni er lýst af Walker og Avant (2018).

Niðurstöður

Siðferðileg færni í hjúkrun samanstóð af 12 undirþáttum. Þeir voru skilgreindir og síðan flokkaðir í þrjá meginþætti (skáletraðir): (1) Þekking og skilningur; að búa yfir siðferðilegri þekkingu og skilningi á helstu kenningum um fræðilega og hagnýta siðfræði og helstu siðareglur í hjúkrun; (2) Siðferðilegir eiginleikar; hafa siðferðisvitund og siðferðilega sjálfsvitund, hafa siðferðilega næmni og siðferðilega skynjun ásamt siðferðilegri dómgreind; (3) Hæfni og áræðni til að framkvæma; vera fær um siðferðilega rökhugsun, siðferðilega ígrundun og siðferðilega ákvarðanatöku ásamt því að hafa siðferðilegt hugrekki, siðferðilega virkni og sýna siðferðilega ábyrga framkomu. Fræðilega skilgreiningin var eftirfarandi: Siðferðileg færni í hjúkrun felur í sér að hjúkrunarfræðingurinn búi yfir siðferðilegri þekkingu og skilningi, hafi siðferðilega sjálfsvitund og siðferðisvitund, siðferðilega næmni og skynjun, auk siðferðilegrar dómgreindar. Jafnframt fól hún í sér að hjúkrunarfræðingurinn væri hæfur í siðferðilegri rökhugsun, ígrundun og ákvarðanatöku sem birtist í verki sem siðferðilegt hugrekki, siðferðileg virkni og siðferðileg framkoma í starfi.

Ályktanir

Fræðilega skilgreiningin lýsir siðferðilegri færni í hjúkrun og þeim eiginleikum sem prýða siðferðilega færan hjúkrunarfræðing. Álykta má að fræðileg skilgreining á siðferðilegri færni hjúkrunarfræðinga og skilgreining á undirstöðuþáttum hennar geti gagnast hjúkrunarfræðingum í störfum sínum.

Lykilorð

Siðferðileg færni, fræðileg skilgreining, hjúkrunarfræði, blönduð aðferð hugtakasamþættingar, siðfræðikennsla í hjúkrunarfræði

HAGNÝTING

RANNSÓKNARNIÐURSTAÐNA Hvers vegna ættir þú að lesa þessa grein?

Nýjungar: Fyrsta fræðilega skilgreining sinnar tegundar á Íslandi á hugtakinu siðferðileg færni í hjúkrun er sett fram, ásamt þeim helstu þáttum sem einkenna siðferðilega færan hjúkrunarfræðing.

Hagnýting: Skilgreiningin getur reynst hjúkrunarfræðingum hjálpleg við að skilgreina eigin siðferðileg og fagleg gildi og viðhalda þannig sinni faglegu sjálfsmynd.

Þekking: Aukin þekking á siðferðilegri færni í hjúkrun ásamt lýsingu á siðferðilega færum hjúkrunarfræðingi.

Áhrif á störf hjúkrunarfræðinga: Skilgreiningin getur stutt hjúkrunarfræðinga við að standa með sínum siðferðilegu gildum í starfi, sem getur stundum reynst flókið í hröðu og síbreytilegu umhverfi heilbrigðisþjónustunnar. Fræðileg skilgreining á siðferðilegri færni getur einnig verið gagnleg við kennslu hjúkrunarfræðinema.

Höfundar

SIGRÍÐUR HALLDÓRSDÓTTIR

PhD, hjúkrunarfræðingur

Háskólinn á Akureyri

HULDA SÆDÍS BRYNGEIRSDÓTTIR

PhD, hjúkrunarfræðingur

Háskólinn á Akureyri

Siðferðileg færni í hjúkrun: Fræðileg skilgreining

INNGANGUR

Fræðigreinar byggja upp ramma samþykktra fræðilegra skilgreininga til að skilja betur mikilvæg hugtök. Slíkar skilgreiningar eru kallaðar „fræðilegar“ vegna þess að með þeim er leitast við að búa til „kenningu“ um eðli viðkomandi hugtaks. Fræðilegar skilgreiningar eiga það sameiginlegt með kenningum að þær eru menntaðar getgátur. Við tökum það sem við vitum um tiltekið hugtak og reynum að skilgreina það eftir bestu núverandi þekkingu. Þótt siðferðileg færni sé talin afgerandi þáttur í því að veita góða hjúkrun, fannst engin fræðileg skilgreining á siðferðilegri færni innan almennrar heilbrigðisþjónustu eða hjúkrunar. Þessi rannsókn miðar að því að þróa slíka fræðilega skilgreiningu innan hjúkrunar. Í því skyni að setja fram fræðilega skilgreiningu á siðferðilegri færni í hjúkrun munum við hefja innganginn á því að fjalla um siðferðilega færni hjúkrunarfræðings út frá þremur grundvallarspurningum: Hvað merkir siðferðileg færni hjá fagmanneskju? Hvað merkir siðferðileg færni hjá fagmanneskju í heilbrigðisgeiranum og hvað merkir siðferðileg færni hjá hjúkrunarfræðingum? Við munum enda innganginn á rannsóknum á ýmsum þáttum siðferðilegrar færni í hjúkrun ásamt tilgangi rannsóknar og rannsóknarspurningu.

Siðferðileg færni hjá fagmanneskju Í hverri fræðigrein er ekki aðeins krafist þekkingar heldur er einnig gert ráð fyrir færni í að beita þeirri þekkingu (Parsons, 2000). Fræðigreinar þurfa að setja sér viðmið um lágmarks faglega færni sem krafist er af fagfólki viðkomandi starfsgreinar svo nemum í greininni sé ljóst hvaða þekkingu, leikni og hæfni þeir þurfa að búa yfir við útskrift (Sultana, 2009). Fagleg færni felur meðal annars í sér vitræna færni, s.s. þekkingu og skilning og færni í að nýta sér hana í framkvæmd; starfræna færni eða leikni og verkkunnáttu til að geta sinnt tilteknum verkefnum; og siðferðilega færni, sem vísar til ákveðinna persónulegra og faglegra gilda fagfólks (Sultana, 2009).

Eriksson o.fl. (2007) telja að siðferðileg færni felist bæði í því að vera og að gera en einnig að vita. Fagleg færni felst þannig ekki aðeins í að vita (fr. savoir) eða vita hvernig á að gera eitthvað (fr. savoir faire) heldur einnig í að vita hvernig á að vera (fr. savoir être), sem vísar til gilda, viðhorfa og innri áhugahvatar einstaklingsins. Því séu þrír mikilvægustu þættir siðferðilegrar færni að kunna að vera (fr. savoir être), að vita (fr. savoir) og að geta (fr. savoir faire) (Sultana, 2009).

Siðferðileg færni hjá fagmanneskju í heilbrigðisþjónustu

Hugtakið siðferðileg færni hefur ekki verið nægjanlega rannsakað í samhengi við heilbrigðisþjónustuna (Hemberg og Hemberg, 2020). Frá fornu fari hefur þó siðferðileg færni verið álitin miðlægur þáttur í allri heilbrigðisþjónustu (Eriksson o.fl., 2007) og aukin umsvif og fjárhagslegt álag í heilbrigðisgeiranum hefur leitt til aukinnar kröfu til starfsfólks um að ástunda siðferðileg vinnubrögð (Sporrong o.fl., 2007). Kulju o.fl. (2016) gerðu hugtakagreiningu (e. concept analysis) á hugtakinu siðferðileg færni í tengslum við heilbrigðisþjónustu og skilgreindu hugtakið með tilliti til persónulegra styrkleika fagfólks, siðferðisvitundar þeirra, hæfileikanum til að leggja mat á siðferði og vilja til að gera það sem gott er. Höfundarnir líta svo á að siðferðileg færni felist í því að hafa siðferðilega þekkingu og búa yfir siðferðilegum eiginleikum sem fagmaður, m.a. að vera fær í mannlegum samskiptum. Siðferðileg færni er, að þeirra mati, líkleg til að skila sér í bestu mögulegu lausnum fyrir skjólstæðinginn og betri siðferðislegri líðan heilbrigðisstarfsfólks í starfi. Þessi hugtakagreining snýst almennt um heilbrigðisstarfsfólk en ekki sértækt um hjúkrun og engin fræðileg skilgreining fannst á hugtakinu, hvorki innan heilbrigðisþjónustunnar almennt né innan hjúkrunarfræði.

Siðferðileg færni hjá hjúkrunarfræðingum

Hjúkrun á rætur sínar að rekja til heildrænnar nálgunar með áherslu á siðferðilegar skyldur hjúkrunarfræðinga í að standa vörð um réttindi skjólstæðinga, virða sjálfræði þeirra ásamt því að viðhalda og virða reisn skjólstæðingsins, sem krefst bæði skilnings á því sem er siðferðilega rétt að gera og getu til að koma því í framkvæmd (Haahr o.fl., 2020; Tsujio o.fl., 2023). Siðferðileg færni innan hjúkrunarfræði virðist þó ekki hafa verið skilgreind á skýran hátt og fræðileg skilgreining á hugtakinu er ekki fyrir hendi (Lecchasserur o.fl., 2018). Vegna breytinga í heilbrigðisþjónustunni standa hjúkrunarfræðingar í auknum mæli frammi fyrir siðferðilegum álitamálum í klínísku starfi sínu og þurfa því að búa yfir ákveðinni siðferðilegri færni (Tsujio o.fl., 2023). Þeir bera ábyrgð á líðan og lífsgæðum margra og þurfa því að uppfylla miklar kröfur um tæknilega og siðferðilega færni (Tadd o.fl., 2006). Nái hjúkrunarfræðingar ekki að gera það sem þeim finnst vera rétt, eru þeir líklegir til að upplifa siðferðilega vanlíðan, sem getur haft neikvæð áhrif á gæði þeirrar hjúkrunar sem þeir veita (McAndrew o.fl., 2018; Tsujio o.fl., 2023).

Rannsóknir sýna að aukin starfsánægja hjúkrunarfræðinga hefur jákvæða fylgni við gott siðferðilegt andrúmsloft (e. ethical climate) og siðferðilega forystu á vinnustaðnum (Asgari o.fl., 2019). Vinnuaðstæður í hjúkrun nútímans eru oft flóknar og siðferðilega krefjandi og til þess fallnar að ógna möguleikum hjúkrunarfræðinga á að bregðast við aðstæðum á siðferðilega réttum forsendum, svo sem vegna örrar þróunar á þekkingu og tækni ásamt auknum kröfum um afköst. Slíkar aðstæður geta skapað margvísleg siðferðileg vandamál og valdið hjúkrunarfræðingum áhyggjum og vanlíðan sem geta til lengri tíma litið leitt til kulnunar í starfi (Haahr o.fl., 2020).

Vaxandi áhugi á siðferðilegri færni meðal hjúkrunarfræðinga

Vaxandi áhugi er á siðferðilegri færni meðal hjúkrunarfræðinga en sú mikla ábyrgð sem þeir bera á öryggi og velferð viðkvæmra einstaklinga krefst staðgóðrar þekkingar m.a. á siðfræði ásamt tæknilegri og siðferðilegri færni (Tadd o.fl., 2006; Tsujio o.fl., 2023). Á tímum sívaxandi siðferðilegra áskorana er mikilvægt að hjúkrunarfræðingar tileinki sér ákveðin siðferðileg, fagleg gildi til að þróa og viðhalda faglegri sjálfsmynd. Þessi gildi varða mannlega reisn, heiðarleika og réttlæti og geta þjónað sem viðmið fyrir staðla, starfshætti og mat á faglegri þjónustu hjúkrunarfræðinga (Schmidt og McArthur, 2018). Þá þurfa hjúkrunarfræðingar einnig siðferðilegt hugrekki til að tryggja siðferðilega góða hjúkrun (Hauhio o.fl., 2021) en siðferðileg færni skiptir sköpum í því að veita góða hjúkrun (Hemberg og Hemberg, 2020). Siðfræði og siðferðileg færni þurfa því að vera grundvallarþættir í hjúkrunarfræðinámi og vera samþættir í námskrá hjúkrunarnema (Lechasseur o.fl., 2018). Rannsóknir hafa sýnt að nám í siðferðilegri ákvarðanatöku er líklegt til að hafa jákvæð áhrif á siðferðisþroska hjúkrunarnema (Numminen og Leino-Kilpi, 2007), enda hafa nemar í heilbrigðisvísindum lengi viljað hagnýtt námskeið í siðfræði sem nýtist þeim við siðferðilega ákvarðanatöku í klínískum aðstæðum (Nolan og Smith, 1995).

Rannsóknir á ýmsum þáttum siðferðilegrar færni hjúkrunarfræðinga

Siðferðileg skynjun, siðferðileg dómgreind og siðferðileg hegðun. Jormsri o.fl. (2005), rannsökuðu siðferðilega færni í hjúkrun og skilgreining þeirra á siðferðilegri færni í hjúkrun samanstendur af eftirfarandi þremur víddum: siðferðileg skynjun, siðferðileg

dómgreind og siðferðileg hegðun (Jormsri o.fl., 2005). Cannaerts o.fl. (2014) gerðu hins vegar kerfisbundna heimildasamantekt og skoðuðu ítarlega 15 rannsóknir varðandi reynslu hjúkrunarnema og hjúkrunarkennara af framlagi siðfræðikennslu til siðferðilegrar færni hjúkrunarnema. Niðurstaða þeirra er að siðfræðikennsla virðist auka bæði siðferðilega skynjun hjúkrunarnema og þroska ígrundunar- og greiningarfærni þeirra. Þau telja að leita þurfi allra leiða til að tryggja siðferðilega færni hjúkrunarfræðinga og hvetja því hjúkrunarkennara til að halda áfram að þróa bestu leiðirnar til að kenna hjúkrunarnemum siðfræði svo þeir geti byrjað að þróað siðferðilega þekkingu sína og færni strax í hjúkrunarnáminu (Cannaerts o.fl., 2014).

Siðferðileg næmni, siðferðisvitund, siðferðileg rökhugsun, siðferðileg sjálfsvitund. Eitt af þeim hugtökum sem tengist siðferðilegri færni er siðferðileg næmni. Í yfirlitssamantekt sinni fundu Spekkink og Jacobs (2021) þrjár mismunandi en skyldar víddir siðferðilegrar næmni sem fólust m.a. í a) aukinni siðferðisvitund, b) hæfni til að koma auga á og vera fær um að nefna siðferðileg atriði, og c) bættri siðferðilegri rökhugsun. Í ljós kom að siðferðileg sjálfsvitund virðist vera laustengdari hinum tveimur víddunum sem vekur þá spurningu upp hjá Spekkink og Jacobs (2021) hvort líta megi á siðferðilega sjálfsvitund sem forsendu hinna tveggja.

Siðferðilegt hugrekki. Annað hugtak sem skotið hefur upp kollinum sem hluti af siðferðilegri færni er siðferðilegt hugrekki sem finnskir hjúkrunarfræðingar hafa meðal annarra vakið athygli á og benda réttilega á að það krefst hugrekkis að taka afstöðu með því sem rétt er og lifa og starfa eftir siðferðisgildum sínum (Numminen o.fl., 2017). Numminen og félagar (2017) gerðu hugtakagreiningu á siðferðilegu hugrekki og skilgreina eftirfarandi eiginleika sem helstu eiginleika siðferðislegs hugrekkis: sönn nærvera, siðferðileg heilindi, ábyrgð, heiðarleiki, skuldbinding, þrautseigja, persónuleg áhætta og að vera málsvari sjúklings. Undanfarar siðferðilegs hugrekkis eru að þeirra mati: siðferðileg næmni, samviska og reynsla og ávextir siðferðilegs hugrekkis séu meðal annars persónuleg og fagleg þróun ásamt valdeflingu (Numminen o.fl., 2017).

Tilgangur rannsóknar og rannsóknarspurning

Af framansögðu er ljóst að siðferðileg færni í hjúkrun er mikilvæg. Það er hins vegar niðurstaða samþættrar heimildasamantektar Lechasseur o.fl. (2018) að engin samstaða sé um fræðilega skilgreiningu á siðferðilegri færni í hjúkrun og jafnvel þótt mismunandi aðilar séu að efla siðfræði og hjúkrunarfræðingar hafi þegar unnið að þessu hugtaki sé enn erfitt að greina með skýrum hætti hverjir séu undirstöðuþættir þessarar færni (Lechasseur o.fl., 2018). Tilgangur þessarar rannsóknar var að greina undirstöðuþætti siðferðilegrar færni í hjúkrun, skilgreina þá með tilliti til hjúkrunar og þróa fræðilega skilgreiningu á siðferðilegri færni í hjúkrun. Rannsóknarspurningin var: hverjir eru undirstöðuþættir siðferðilegrar færni í hjúkrun, hver er skilgreining þeirra með tilliti til hjúkrunar og hver er fræðilega skilgreiningin á siðferðilegri færni í hjúkrun?

AÐFERÐ

Aðferðin sem notuð var til að svara rannsóknarspurningunni var hugtakasamþætting (e. concept synthesis) nánar tiltekið blönduð aðferð hugtakasamþættingar (e. mixed methods concept synthesis) eins og henni er lýst af Walker og Avant (2018). Í hugtakasamþættingu með blönduðum aðferðum er hægt að nota hvaða aðferð sem er af þremur aðferðum hugtakasamþættingar,

Höfundar/ár

Cannaerts o.fl./2014

Tafla 1. Yfirlit yfir þær 11 rannsóknir sem notaðar voru í hugtakasamþættingunni

Heimildasamantekt

15 vísindagreinar frá 1992 til 2012

Leitað í MEDLINE, EMBASE, CINAHL, PsycINFO og Web of Science

Haahr o.fl./2020

Heimildasamantekt 15 vísindagreinar frá árunum 2011 til 2016

Leitað í PubMed, CINAHL, Scopus, and SveMed+

Að mati nemenda og kennara efldi siðfræðikennsla siðferðilega skynjun hjúkrunarfræðinema og þroskaði ígrundunar- og greiningarhæfileika þeirra. Framlag siðfræðikennslu til þróunar siðferðilegrar hegðunar kom þó varla fram. Frásagnir nemenda og kennara leiddu í ljós mikilvæg einkenni árangursríkrar siðfræðikennslu, einkum virka þátttöku nemenda í umræðum um dæmisögur og notkun siðferðilegra ramma. Notkun slíkra kennsluaðferða krefst öruggs námsumhverfis þar sem nemendur geta opinskátt ígrundað þau gildi sem eru í húfi í umönnunarstarfi þeirra.

Samband hjúkrunarfræðings og sjúklings, starfsskipulag og samstarf við samstarfsfólk eru mikilvægir þættir í hjúkrunarstarfi. Niðurstöðurnar voru teknar saman í eftirfarandi þremur þemum: (1) jafnvægi milli skaða og umhyggju, (2) of mikið álag í vinnu sem hefur áhrif á gæði og (3) að bregðast við ágreiningi. Siðferðilega erfiðar aðstæður voru áberandi í starfsumhverfinu sem var mjög fjölbreytt, allt frá nýburagjörgæslu til umönnunar eldra fólks. Skipulag á vinnustað, upplifun af togstreitu milli eigin gilda og gilda vinnustaðar, ríkjandi staðlar og annríki leiddi í ljós hversu flókið hjúkrunarstarfið er og hversu fjölbreytt siðferðileg vandamál, áhyggjuefni og vanlíðan klínískir hjúkrunarfræðingar upplifa.

Hauhio o.fl./2021

Megindleg lýsandi þversniðsrannsókn

Kulju o.fl./2016 Hugtakagreining

Lechasseur o.fl./2018

Samþætt heimildasamantekt (e. integrative review)

Numminen o.fl./2017 Hugtakaskilgreining á siðferðilegu hugrekki

482 hjúkrunarfræðingar í Finnlandi

Notað var Nurses’ Moral Courage Scale haustið 2017

18 greinar (e. articles), 12 fræðigreinar (e. theoretical) og 6 rannsóknargreinar (e. empirical) voru notaðar

89 greinar voru notaðar frá árunum 2009-2014

Leitað var í CINAHL, MEDLINE, og EMBASE. Einnig var leitað sérstaklega í tímaritinu Nursing Ethics

31 grein voru notaðar í greiningarvinnunni

Leitað var í PubMed, CINAHL, Scopus, Web of Science, PsycINFO, og The Philosopher’s Index

Sjálfsmetið siðferðilegt hugrekki hjúkrunarfræðinga var frekar hátt. Á Visual Analogy Scale (0–10) var meðalgildið 8,20 og meðaleinkunn fjórvíddar, 21-þátta Nurses’ Moral Courage kvarðans var 4,09 á 5 punkta Likert-kvarða. Kyn svarenda, núverandi vinnuhlutverk, siðferðilegur þekkingargrunnur, viðbótarmenntun í siðfræði, sjálfsnám sem leið til að öðlast siðferðilega þekkingu og hversu oft hjúkrunarfræðingar lentu í aðstæðum sem kröfðust siðferðilegs hugrekkis voru tölfræðilega marktækt tengd siðferðilegu hugrekki hjúkrunarfræðinga.

Hugtakið siðferðileg færni má skilgreina með tilliti til karakterstyrks, siðferðisvitundar, siðferðisdómshæfileika og vilja til að gera gott. Forsendur fyrir siðferðilegri færni er að vera kostum prýddur fagmaður; búa yfir færni í mannlegum samskiptum og siðferðilegri þekkingu og vera á styðjandi vinnustað. Siðferðileg færni skilar sér á jákvæðan hátt í hjúkrun og dregur úr hættu á siðferðislegri vanlíðan í starfi.

Siðferðileg næmni (e. ethical sensitivity), siðferðileg þekking (e. ethical knowledge), siðferðileg íhugun (e. ethical reflection), siðferðileg ákvarðanataka (e. ethical decision-making), siðferðilega virkni (e. ethical action) siðferðilega ábyrg framkoma (e. ethical behaviour) eru þau hugtök sem oftast eru notuð með tilliti til siðferðilegrar færni í hjúkrun. Þessi hugtök voru síðan skilgreind í þeim tilgangi að finna undirstöðuþætti siðferðilegrar færni í hjúkrun.

Sjö helstu eiginleikar siðferðislegs hugrekkis voru skilgreindir: sönn nærvera, siðferðileg heilindi, ábyrgð, heiðarleiki, málsvörn, skuldbinding og þrautseigja og persónuleg áhætta. Áhrif þess að búa yfir siðferðilegri færni voru siðferðileg næmni, samviska og reynsla. Afleiðingar siðferðilegrar færni voru meðal annars persónuleg og fagleg þróun og valdefling.

Numminen og LeinoKilpi/ 2007

Heimildarannsókn

29 rannsóknir voru notaðar í greiningarvinnunni

Leitað var í MEDLINE og CINAHL árin 1980 til 2006

Hjúkrunarfræðimenntun og menntun í siðfræði hafa áhrif á þróun siðferðilegrar rökhugsunar og siðferðilegrar hegðunar hjúkrunarnema. Val á kennsluaðferð hefur áhrif á siðferðilega ákvarðanatökuhæfileika nemenda. Skynjun og viðbrögð nemenda við siðferðilegum álitaefnum fer eftir því hvernig þeir nálgast siðferðilega ákvarðanatöku, hugmyndum þeirra um hlutverk hjúkrunarfræðings í ákvarðanatöku, starfsumhverfi og viðhorfum þeirra til þeirra málefna sem þeir telja siðferðilega mikilvæga. Siðferðileg röksemdafærsla nemenda tengist gerð námsefnis, menntunarstigi þeirra og reynslu þeirra af siðferðilegum álitaefnum í klínískri framkvæmd. Siðferðileg röksemdafærsla nemenda er að mestu leyti á hefðbundnu stigi. Menningarumhverfi nemenda, klínísk reynsla þeirra, skynjun þeirra á hlutverki sínu sem hjúkrunarfræðingar og nýleg menntun eru þættir sem hafa áhrif á siðferðilega ákvarðanatöku þeirra.

Schmidt og McArthur/2018

Hugtakagreining á faglegum hjúkrunargildum

Schroeter/1999 Könnun

Aðferð Walker og Avant

Heimildir frá 1973-2016

Fagleg hjúkrunargildi eru skilgreind sem mikilvægar meginreglur faglegrar hjúkrunar um manngildi, heiðarleika, góðvild (e. altruism) og réttlæti sem þjóna sem rammi fyrir staðla, starfshætti og mat.

Könnunin var gerð meðal 40 skurðhjúkrunarfræðinga

Hjúkrunarfræðingarnir lýstu siðferðilegum átökum og bentu á þætti sem höfðu áhrif á siðferðilega ákvarðanatöku þeirra. Niðurstöðurnar sýndu að hjúkrunarfræðingar skynja og skilgreina ákveðin siðferðileg vandamál í skurðstofuumhverfinu. Greining á viðbrögðum þeirra leiddi í ljós að algengustu aðferðirnar sem notaðar voru til að leysa úr siðferðilegum átökum voru að tilkynna til næsta yfirmanns eða mæta persónulega þeim sem hlut áttu að máli.

Spekkink og Jacobs/2021

Yfirlitssamantekt (e. scoping review)

Sultana/2009

Umræðu-grein (e. discussion paper)

10 greinar (af 964 upphaflegum greinum)

Leitað var í CINAHL, PubMed, MEDLINE og SpringerLink.

Þrjár mismunandi en skyldar víddir siðferðisnæmis voru greindar: (1) að efla siðferðisvitund, (2) að efla hæfni í að koma auga á siðferðileg atriði og (3) að efla siðferðilega rökhugsun. Siðferðileg sjálfsvitund virtist vera lauslega tengd hinum tveimur víddunum, sem vekur upp þá spurningu hvort líta megi á hana sem forsendu þeirra.

Umfjöllun um hugtakið færni og mikilvægi þess fyrir þróun hæfnisramma (e. competence frameworks). Slíkir rammar eru í auknum mæli taldir mikilvægir við að styðja við þróun þjálfunaráætlana í færni, greina skort á færni, stuðla að sjálfsþróun og tryggja sameiginlega staðla. Fram kemur að hugmyndir um færni hafa sérstaka merkingu í ákveðnu samhengi, að mjög skiptar skoðanir eru um færni og að hugmyndir um færni séu síbreytilegar.

Leitað var í CINAHL, MEDLINE og ERIC

þ.e. eigindlega samþættingu, megindlega samþættingu og samþættingu úr fræðilegum skrifum og voru allar þrjár notaðar í samþættingunni. Það eru fyrst og fremst þarfir rannsakenda og staða þekkingar á viðkomandi sviði sem hefur áhrif á ákvarðanir og val á samþættingaraðferð og rannsakendur halda áfram rannsóknarvinnu sinni þar til ákveðinni fræðilegri mettun er náð. Það er mikilvægt að ákvarða hvaða eiginleikar eru mikilvægastir við hugtakið og hvað skiptir minna máli. Hugtakasamþættingin endar með fræðilegri skilgreiningu (e. theoretical definition) sem felur í sér skilgreiningareiginleika (e. defining attributes) þess.

Tafla 2. Yfirlit yfir þær 12 rannsóknir og ritrýndu fræðigreinar sem notaðar voru til að dýpka umfjöllun og skilgreiningu á hugtökunum 12 á staðfestingarstigi hugtakasamþættingarinnar (e. verification)

Höfundar og ár Umfjöllunarefni

Bužgová og Sikorová (2013) Færni hjúkrunarnema í að sýna siðferðilega dómgreind.

Doane o.fl. (2004) Undirstöðuatriði siðferðilegs hjúkrunarstarfs og merking þeirra fyrir siðfræðikennslu í hjúkrun.

Gallagher (2006) Hvað þarf að kenna hjúkrunarnemum um hjúkrunarsiðfræði, bæði innihaldslega og aðferðafræðilega

Haahr o.fl. (2020) Reynsla hjúkrunarfræðinga af siðferðilegum álitamálum.

Hauhio o.fl. (2021) Sjálfsmat hjúkrunarfræðinga á eigin siðferðilegu hugrekki og tengdum félags-lýðfræðilegum þáttum.

McAndrew o.fl. (2018) Siðferðileg vanlíðan hjúkrunarfræðinga í bráðaþjónustuhjúkrun

Muramatsu o.fl. (2019)

Nolan og Smith (1995)

Þróun og staðfesting á spurningalista um siðferðisnæmi hjúkrunarfræðinema (e. Ethical Sensitivity Questionnaire for Nursing Students)

Siðferðisvitund meðal fyrsta árs lækna-, tannlækna- og hjúkrunarnema.

Schmidt og McArthur (2018) Hugtakaskilgreining á faglegum gildum í hjúkrun (e. professional nursing values)

Sporrong o.fl. (2007) Þróun siðferðilegrar færni í heilbrigðisþjónustu

Thompson (2020) Þróun siðferðilegrar sjálfsvitundar.

Wocial (2010)

Mikilvægi þess að hlúa að siðferðilegu ímyndunarafli (e. moral imagination) - hugleiðing um siðfræðikennslu fyrir hjúkrunarnema.

Samþætt heimildaúttekt var gerð í gagnagrunnum CINAHL, PubMed, MEDLINE, PsychINFO og Web of Science. Jafnframt var leitað sérstaklega í tímaritinu Nursing Ethics. Leitarorðin í upphafi voru hjúkrunarsiðfræði (e. nursing ethics) og siðferðileg færni (e. ethical competence). Eingöngu voru notaðar birtar ritrýndar vísindagreinar með áherslu á heimildasamantektir. Engin takmörkun var sett á leitartímann. Síðar leituðu höfundar að nýjum víddum hugtaksins siðferðileg færni í hjúkrun með því að rannsaka einnig skyld hugtök og ákvarða hvað þau eiga sameiginlegt með hugtakinu og hvað ekki. Upphafleg skimun leiddi í ljós 72 greinar og eftir að tvítekningar voru fjarlægðar stóðu eftir 38 greinar. Loks uppfylltu 11 greinar inntökuskilyrðin og voru notaðar í hugtakasamþættinguna (tafla 1). Á síðari stigum fræðilegu hugtakasamþættingarinnar, á því stigi sem Walker og Avant (2018) kalla staðfestingu (e. verification), var leitað að undirþáttunum 12 sem komu fram í niðurstöðunum í þeim tilgangi að dýpka umfjöllun og skilgreiningu á þeim. Þannig bættust við 12 greinar (tafla 2) og voru sumar þeirra jafnframt notaðar sem

Tafla 3. Yfirlit yfir þær 16 heimildir sem notaðar voru til að efla eigin skilning á hugtökunum 12 í niðurstöðunum

Höfundar Nafn greinar/tímarits/ár/árg./Tbl./Bls.Tal doi

Alnajjar P og Abou Hashish P.

Asahara K, Kobayashi M og Ono W.

Aydogdu AL.

Begley AM.

Blažun Vošner H, Železnik D, Kokol P. o.fl.

Chao SY, Chang YC, Yang SC o.fl.

Cortis JD og Kendrick K.

Doane G, Pauly B, Brown H. o.fl.

Greenawalt JA, O‘Harra P og Little E.

Hu K, Zhou Q, Zhang Y, o.fl.

Kangasniemi M, Pakkanen P og Korhonenm A.

Newham RA.

Numminen O, Leino-Kilpi H, Isoaho H o.fl.

Numminen OH, Leino-Kilpi H, van der Arend A o.fl.

Sinclair J, Papps E og Marshall B.

Yeom HA, Ahn SH og Kim SJ.

Academic ethical awareness and moral sensitivity of undergraduate nursing students: assessment and influencing factors. SAGE Open Nurs 2021;7

Moral competence questionnaire for public health nurses in Japan: scale development and psychometric validation. Jpn J Nurs Sci 2015;12(1):18–26.

Ethical dilemmas experienced by nurses while caring for patients during the COVID-19 pandemic: an integrative review of qualitative studies. J Nurs Manag 2022, 30:2245-2258

Practising virtue: a challenge to the view that a virtue-centred approach to ethics lacks practical content. Nurs Ethics 2005; 12(6): 622–637.

Trends in nursing ethics research: mapping the literature production. Nurs Ethics 2017; 24(8): 892–907.

Development, implementation, and effects of an integrated web-based teaching model in a nursing ethics course. Nurse Educ Today 2017; 55: 31–37.

Nursing ethics, caring and culture. Nurs Ethics 2003; 10(1): 77–88.

Exploring the heart of ethical nursing practice: implications for ethics education. Nurs Ethics 2004; 11(3): 240–253.

Undergraduate nursing students' ability to apply ethics in simulated cases. Clin Simul Nurs 2017; 13; 359–379.

Latent profile analysis of nurses' moral courage: a professional values perspective. Nurs Ethics 2024; 0: 1-12.

Professional ethics in nursing: an integrative review. J Adv Nurs 2015; 71(8): 1744–1757.

An internal morality of nursing: what it can and cannot do. Nurs Philos 2013; 14(2): 109–116.

Ethical climate and nurse competence - newly graduated nurses' perceptions. Nurs Ethics 2015; 22(8): 845–859.

Nurse educators' teaching of codes of ethics. Nurse Educ Today 2010; 30(2): 124–131.

Nursing students' experiences of ethical issues in clinical practice: a New Zealand study. Nurse Educ Pract 2016; 17: 1–7.

Effects of ethics education on moral sensitivity of nursing students. Nurs Ethics 2017; 24(6): 644–652.

https://doi.org/ 10.1177/23779608 211026715

https://doi: 10.1111/ jjns.12044

https://doi. org/10.1111/ jonm.13585

https://doi: 10.1191/ 0969733005ne832oa.

https://doi: 10.1177/ 0969733016654314.

https://doi: 10.1016/ j.nedt.2017.04.011.

https://doi:10.1191/ 0969733003ne576oa

https://doi. org/10.1191/ 0969733004ne692oa

https://doi. org/10.1016/ j.ecns.2017.04.007

https://doi. org/10.1177/ 09697330241270734

https://doi: 10.1111/ jan.12619

https://doi: 10.1111/ j.1466-769X. 2012.00554.x

https://doi: 10.1177 /0969733014557137. 25488760.

https://doi: 10.1016/ j.nedt.2009.06.011.

https://doi: 10.1016/ j.nepr.2016.01.005.

https://doi.org/ 10.1177/0969733 015622060

heimildir í inngangi. Að lokum voru 16 heimildir notaðar til að dýpka enn betur skilning á undirþáttunum 12 (tafla 3) án þess að vitnað væri til þeirra.

Siðferðileg ígrundun

Rannsakendur íhuguðu og virtu siðareglur fræðarithöfunda við úttekt á greiningu og framlagi annarra höfunda og virtu höfundarétt þeirra í allri rannsóknarvinnu við þessa fræðilegu skilgreiningu.

NIÐURSTÖÐUR

Niðurstöður fræðilegu samþættingarinnar um siðferðilega færni í hjúkrun eru settar fram í þrennu lagi til að svara rannsóknarspurningunni lið fyrir lið:

1. Tólf undirþættir siðferðilegrar færni sem greindir voru og skilgreindir út frá birtum, ritrýndum heimildum um viðfangsefnið. Þessir þættir eru siðferðileg sjálfsvitund, siðferðisvitund, siðferðileg næmni, siðferðileg skynjun og siðferðileg dómgreind, siðferðileg rökhugsun, siðferðileg ígrundun, siðferðileg ákvarðanataka, siðferðilegt hugrekki, siðferðileg virkni og siðferðilega ábyrg framkoma.

2. Þrír meginþættir sem samþættir voru út frá undirþáttunum tólf; þekking og skilningur, siðferðilegir persónulegir eiginleikar og siðferðileg hæfni og áræðni til að framkvæma.

3. Fræðileg skilgreining á siðferðilegri færni í hjúkrun.

Undirstöðuþættir siðferðilegrar færni í hjúkrun eins og þeir birtast í hjúkrun Hjúkrunarfræðingur sem telst vera siðferðilega fær býr yfir þekkingu og skilningi á ákveðinni siðferðilegri þekkingu og siðferðisreglum í hjúkrun, auk siðferðilegra persónulegra eiginleika (siðferðislegri sjálfsvitund, siðferðisvitund, siðferðilegri næmni, siðferðilegri skynjun og siðferðilegri dómgreind). Auk þess hefur hann til að bera siðferðilega hæfni og áræðni til að framkvæma (siðferðileg rökhugsun, siðferðileg ígrundun, siðferðileg ákvarðanataka, siðferðilegt hugrekki, siðferðileg virkni og siðferðilega ábyrg framkoma).

Tafla 4 sýnir undirstöðuþætti siðferðilegrar færni í hjúkrun, 12 undirþætti sem flokkaðir eru í þrjá meginþætti. Síðasti dálkurinn í töflunni sýnir þá fræðarithöfunda sem greiningin byggir á.

Fræðileg skilgreining á siðferðilegri færni í hjúkrun

Siðferðileg færni í hjúkrun felur í sér að hjúkrunarfræðingurinn búi yfir siðferðilegri þekkingu og skilningi, hafi siðferðilega sjálfsvitund og siðferðisvitund, siðferðilega næmi, og skynjun, auk siðferðilegrar dómgreindar. Jafnframt felur hún í sér að hjúkrunarfræðingurinn er hæfur í siðferðilegri rökhugsun, ígrundun og ákvarðanatöku sem birtist í verki sem siðferðilegt hugrekki, siðferðileg virkni og siðferðileg framkoma í starfi.

Lýsing á siðferðilega færum hjúkrunarfræðingi Siðferðilega fær hjúkrunarfræðingur býr yfir eftirfarandi meginþáttum siðferðilegrar færni í hjúkrun: 1) siðferðilegri þekkingu og skilningi (byggt á einum þætti siðferðilegrar færni); 2) margvíslegum siðferðilegum eiginleikum (byggt á fimm undirþáttum siðferðilegrar færni); og 3) hæfni og áræðni til að framkvæma (byggt á sex undirþáttum siðferðilegrar færni).

Býr yfir siðferðilegri þekkingu og skilningi: Hjúkrunarfræðingurinn þekkir og skilur helstu siðfræðikenningar, hagnýta siðfræði, siðareglur hjúkrunarfræðinga og helstu siðferðisreglur í hjúkrun og áttar sig á mikilvægi þeirra í störfum sínum.

Býr yfir persónulegum siðferðilegum eiginleikum: Hjúkrunarfræðingurinn er meðvitaður um hlutverk sitt og áhrif eigin gjörða og framkomu (siðferðileg sjálfsvitund) og getur lagt siðferðilegt mat á aðstæður og vandamál sem upp koma og tryggt að siðferðilega sé rétt staðið að hjúkrun (siðferðisvitund). Hjúkrunarfræðingurinn er næmur fyrir siðferðilegum gildum og sýnir ábyrgð í margbreytilegum aðstæðum í hjúkrun og framkvæmd hjúkrunar (siðferðileg næmni) og kemur auga á siðferðileg vandamál eða álitamál í störfum sínum og í heilbrigðisþjónustu almennt (siðferðileg skynjun). Siðferðilega fær hjúkrunarfræðingur getur tekið ákvarðanir varðandi raunveruleg siðferðileg álitamál og vandamál í hjúkrun sem mæta honum í starfi (siðferðileg dómgreind).

Býr yfir hæfni og áræðni til að framkvæma: Hjúkrunarfræðingurinn tekur ákvarðanir í starfi eftir siðferðilega umhugsun og rökstyður ákvarðanir sínar á siðferðilegan hátt (siðferðileg rökhugsun). Hann ígrundar siðferðileg álitamál í starfi, er meðvitaður um þau siðferðilegu gildi sem liggja til grundvallar þeim ákvörðunum sem hann tekur og getur breytt eigin siðferðisáliti þegar ástæða er til (siðferðileg ígrundun). Hjúkrunarfræðingurinn hefur siðferði að leiðarljósi við ákvarðanatöku í siðferðilegum vandamálum í starfi (siðferðileg ákvarðanataka) og hefur hugrekki til að standa með eigin siðferðilegu gildum í starfi (siðferðilegt hugrekki). Hann virðir og stendur vörð um siðferðileg réttindi sjúklinga sinna og þjónustuþega (siðferðileg virkni), stuðlar að gagnkvæmri virðingu og kemur fram með heiðarleika, sanngirni og ábyrgð og hefur fagmennsku að leiðarljósi (siðferðilega ábyrg framkoma).

UMRÆÐUR

Viðfangsefni þessarar rannsóknar var að greina undirstöðuþætti siðferðilegrar færni í hjúkrun og setja fram fræðilega skilgreiningu á hugtakinu. Niðurstöðurnar lýsa undirstöðuþáttum í siðferðilegri færni í hjúkrun ásamt þeim eiginleikum sem prýða siðferðilega færan hjúkrunarfræðing. Hjúkrunarfræðingur sem telst vera siðferðilega fær býr yfir og hefur skilning á ákveðinni siðferðilegri þekkingu og siðferðisreglum í hjúkrun, auk siðferðilegra persónulegra eiginleika (siðferðisleg sjálfsvitund, siðferðisvitund, siðferðilegri næmni, siðferðilegri skynjun og siðferðilegri dómgreind). Auk þess hefur hann til að bera siðferðilega hæfni og áræðni til að framkvæma (siðferðileg rökhugsun, siðferðileg ígrundun, siðferðileg ákvarðanataka, siðferðilegt hugrekki, siðferðileg virkni og siðferðilega ábyrg framkoma).

Einn af þáttum faglegrar færni í hverri starfsgrein er siðferðileg færni, sem vísar til ákveðinna persónulegra og faglegra gilda fagfólks í viðkomandi grein (Sultana, 2009) og hefur slík færni löngum verið verið talin hryggjarstykki heilbrigðisþjónustu og þess að veita góða hjúkrun (Eriksson o.fl., 2007; Hemberg og Hemberg, 2020; Kulju o.fl., 2016). Hjúkrunarfræðingar starfa í síbreytilegu og oft mjög tæknilegu umhverfi þar sem þeir bera ábyrgð á velferð og jafnvel lífi skjólstæðinga sinna. Siðferðileg álitamál koma reglulega upp í störfum hjúkrunarfræðinga þar sem reynir á siðferðilega þekkingu þeirra og færni er þeir standa vörð um réttindi og sjálfræði sjúklinga (Jormsri o.fl., 2005; Tsujio o.fl., 2023). Ýmislegt bendir einnig til þess að siðferðileg vanlíðan hjúkrunarfræðinga í starfi geti haft neikvæð áhrif á hjúkrun og heilbrigðisþjónustu (McAndrew o.fl., 2018; Tsujio o.fl., 2023) og valdið þeim sjálfum persónulegri vanlíðan (Haahr o.fl., 2020; Kulju o.fl., 2016).

Ein leið til að styðja fagfólk í að takast á við siðferðileg vandamál er menntun og þjálfun í siðfræði (Sporrong o.fl., 2007). Áskorunin felst

Tafla 4. Undirstöðuþættir siðferðilegrar færni í hjúkrun skilgreindir með tilliti til hjúkrunar

Meginþáttur Undirþáttur Hugtak á ensku

Þekking og skilningur

Að búa yfir siðferðilegri þekkingu og skilningi

Ethical knowledge and understanding

Hafa siðferðilega sjálfsvitund Ethical selfawareness

Hafa siðferðisvitund Ethical awareness

Siðferðilegir eiginleikar

Hafa siðferðilega næmni Ethical sensitivity

Hafa siðferðilega skynjun Ethical perception

Hafa siðferðilega dómgreind Ethical judgment

Fær um siðferðilega rökhugsun Moral reasoning

Fær um siðferðilega ígrundun

Fær um siðferðilega ákvarðanatöku

Hæfni og áræðni til að framkvæma

Ethical reflection

Skilgreining með tilliti til hjúkrunar

Siðferðileg þekking og skilningur í hjúkrun felur í sér þekkingu og skilning hjúkrunarfræðings á helstu kenningum siðfræðinnar, þekkingu og skilning á hagnýtri siðfræði, siðareglum hjúkrunarfræðinga og helstu siðferðisreglum í hjúkrun svo sem mikilvægi ábyrgðar, réttlætis, sjálfræðis, góðvildar, trúmennsku, sannleika og skaðleysis.

Siðferðileg sjálfsvitund í hjúkrun felur í sér sýn hjúkrunarfræðings á siðferðilegum áhrifum eigin gjörða, sjálfsvitund um eigið hlutverk og meðvitund um siðferðileg áhrif framkomu sinnar. Slík sjálfsvitund þróast með aukinni samkennd, tilfinningaskilningi og næmni fyrir áhrifum gjörða fólks á tilfinningar, markmið og fyrirætlanir annarra.

Siðferðisvitund í hjúkrun er hæfileiki hjúkrunarfræðings til að leggja siðferðilegt mat á aðstæður og vandamál. Hugur hjúkrunarfræðingsins er vakandi fyrir því að tryggja að siðferðilega sé rétt staðið að hjúkrun.

Siðferðileg næmni í hjúkrun felst í næmni fyrir siðferðilegum gildum sem birtast í ýmsum aðstæðum í hjúkrun og ábyrgð í slíkum aðstæðum; næmni í umönnun, næmni í samskiptum, næmni í ákvarðanatöku og næmni í allri framkvæmd hjúkrunar.

Siðferðileg skynjun í hjúkrun felst í að hjúkrunarfræðingur sé fær um að koma auga á tiltekin siðferðileg vandamál og álitamál í störfum sínum jafnframt því að geta séð siðferðilega hlið vandamála og álitamála í heilbrigðisþjónustunni.

Siðferðileg dómgreind í hjúkrun felst í að hjúkrunarfræðingur búi yfir dómgreind til að taka ákvarðanir er varða raunveruleg siðferðileg álitamál og vandamál í hjúkrun. Slík dómgreind speglar oft þær skoðanir, viðhorf og grundvallar siðferðisstefnu sem hjúkrunarfræðingurinn hefur og hann notar til að greina á milli þess sem er rétt eða rangt og taka siðferðilegar ákvarðanir um þau vandamál sem upp koma í störfum hans.

Siðferðileg rökhugsun í hjúkrun er færni hjúkrunarfræðings til siðferðilegrar umhugsunar og siðferðilegs rökstuðnings sem er forsenda fyrir siðferðilegri ákvarðanatöku á sviði hjúkrunar.

Siðferðileg ígrundun er geta hjúkrunarfræðings til að ígrunda og meta siðferðileg álitamál í störfum sínum og vera fær um að breyta eigin siðferðisáliti þegar ástæða er til. Hjúkrunarfræðingurinn þróar með sér gagnrýna vitund um þau gildi sem liggja að baki þeim ákvörðunum sem teknar eru í slíkum aðstæðum. Siðferðileg ígrundun er öflug aðferð til að efla virðingu fyrir öðrum.

Ethical decisionmaking

Hafa siðferðilegt hugrekki Moral courage

Fær um siðferðilega virkni Ethical action

Sýna siðferðilega ábyrga framkomu Ethical behaviour

Siðferðileg ákvarðanataka í hjúkrun vísar til þess ferlis sem hjúkrunarfræðingur notar þegar hann tekur ákvarðanir um siðferðileg vandamál: að kynna sér vandamálið, nota siðareglur hjúkrunarfræðinga til að komast að niðurstöðu um eðli vandans, þróa hugsanlegar aðgerðir, ígrunda hugsanlegar afleiðingar allra valkosta, ákvarða aðgerðir og að lokum til að meta þær ákvarðanir sem teknar voru.

Siðferðilegt hugrekki í hjúkrun birtist þegar hjúkrunarfræðingur stendur með eigin siðferðilegu gildum og hefur hugrekki til að standa með þeim gildum í siðferðilega krefjandi aðstæðum. Það felur einnig í sér siðferðileg heilindi, heiðarleika og getu til að vera málsvari sjúklings.

Siðferðileg virkni í hjúkrun felst í því að hjúkrunarfræðingur verndar og virðir siðferðileg réttindi sjúklinga og annarra þjónustuþega hjúkrunar. Þessi nálgun byggir á þeirri trú hjúkrunarfræðingsins að allar manneskjur búi yfir reisn og hafi rétt til lífs, frelsis og mannhelgi sem beri að vernda.

Siðferðilega ábyrg framkoma í hjúkrun einkennist af heiðarleika, sanngirni, ábyrgðarkennd og fagmennsku þar sem hjúkrunarfræðingurinn virðir fjölbreytileika og réttindi einstaklinga og hópa fólks, sýnir ábyrgð og stuðlar að gagnkvæmri virðingu í öllum samskiptum.

Heimildir

Gallagher, 2006; Kulju o.fl., 2016; Lechasseur o.fl., 2018; Sultana, 2009

Spekking og Jacobs, 2021; Thompson 2020

Kulju o.fl., 2016; Nolan og Smith, 1995; Spekking og Jacobs, 2021

Lechasseur o.fl., 2018; Muramatsu o.fl., 2019; Spekkink og Jacobs, 2021

Cannaerts o.fl., 2014; Jormsri o.fl., 2005; Schroeter, 1999

Jormsri o.fl., 2005

Spekking og Jacobs, 2021

Lechasseur o.fl., 2018

Lechasseur o.fl., 2018; Numminen og Leino-Kilpi, 2007.

Hauhio o.fl., 2020; Numminen o.fl., 2017

Lechasseur o.fl., 2018

Jormsri o.fl., 2005; Lechasseur o.fl., 2018

í því að finna kennsluaðferð sem reynist bæði hjúkrunarfræðingum og hjúkrunarnemum hjálpleg við að þróa þekkingu sína og skilning á siðfræði ásamt getu til að lifa í og komast í gegnum flókið, óljóst og breytilegt landslag siðferðilegs hjúkrunarstarfs (Doane o.fl., 2004).

Til viðbótar við að starfa í krefjandi starfsumhverfi benda Eriksson o.fl. (2007) á að hjúkrunarfræðingum og heilbrigðisstarfsfólki sé gert að fara eftir margs konar lögum, reglum og leiðbeiningum í störfum sínum sem reyni oft á siðferðisþrek hjúkrunarfræðinga. Það má ekki gerast að hjúkrunarstarfinu sé svo ögrað af skipulagi og þróun heilbrigðiskerfisins að það hindri faglega ákvarðanatöku hjúkrunarfræðinga og neyði þá til að skerða grunngildi hjúkrunar (Haahr o.fl., 2020).

Algengasta form siðferðilegra leiðbeininga eru siðareglur (Tadd o.fl., 2006). Rannsókn Tadd o.fl. (2006) meðal hjúkrunarfræðinga frá sex Evrópulöndum leiddi í ljós að meirihluti þátttakenda hafði lítinn skilning á siðareglum sínum eða þekkti ekki innihaldið. Rannsakendur drógu því þá ályktun að breytinga væri þörf á því hvernig siðareglur eru þróaðar og skrifaðar, þær þurfi að kynna vel strax í hjúkrunarfræðinámi og fylgja þeim eftir í klínískri menntun og þjálfun (Tadd o.fl., 2006). Siðareglur einar og sér duga ekki sem grundvöllur siðferðilegrar færni og því er mikilvægt að skilgreina siðferðilega færni innan hjúkrunar og þróa leiðir til að kenna, þjálfa og viðhalda siðferðilegri færni, t.d. með sí- og endurmenntun í siðfræði fyrir hjúkrunarfræðinga.

Kallað hefur verið eftir betri skilningi á því hvernig hjúkrunarfræðingar og hjúkrunarnemar þróa með sér siðferðilega færni og hvað hafa þarf í huga við samsetningu siðfræðinámskeiðs fyrir fagstéttina. Margir telja að virk þátttaka í umræðum um dæmisögur og notkun siðferðilegra ramma, svo sem siðareglna, sé ákjósanleg aðferð til að kenna, þróa og viðhalda siðferðilegri færni hjúkrunarfræðinga. Slíkar aðferðir krefjast öruggs námsumhverfis þar sem þátttakendur geta opinskátt ígrundað gildi sem eru í húfi í umönnunarstarfi þeirra (Cannaerts o.fl., 2014). Siðfræðikennslu verður þó að skoða í víðtækasta skilningi þar sem slík kennsla er ekki aðeins upplýsing eða þjálfun, heldur krefst siðferðileg þekking og færni stöðugrar ígrundunar og umræðu (Wocial, 2010). Því má leiða líkum að því að stuðla mætti að siðferðilegri þekkingu og færni meðal hjúkrunarfræðinga með öflugri sí- og endurmenntun í siðfræði.

Siðferðilegt hugrekki er hjúkrunarfræðingum mikilvægt á öllum sviðum og stigum hjúkrunar. Slíkt hugrekki er hægt að kenna, læra og iðka og er það álit margra fræðihöfunda í hjúkrun að siðferðilegt hugrekki ætti að vera hluti af menntun hjúkrunarfræðinga á öllum stigum, hvort sem er til að kenna, viðhalda eða styrkja slíkt hugrekki (Hauhio o.fl., 2021; Numminen o.fl., 2017). Í rannsókn Hauhio og félaga (2021) á siðferðilegu hugrekki meðal hjúkrunarfræðinga kom fram að sjálfmetið siðferðilegt hugrekki hjúkrunarfræðinga er frekar hátt og sterk tengsl hafa fundist á milli hærra siðferðislegs hugrekkis hjúkrunarfræðinga og formlegrar og óformlegrar siðfræðimenntunar. Áhrifarík fagleg fyrirmynd nær yfir einstaklingseinkenni og skoðanir, klíníska færni og faglega helgun fyrirmyndarinnar. Mikilvægt er fyrir hjúkrunarfræðinga og hjúkrunarnema að eiga sér faglega fyrirmynd þegar kemur að siðferðilegri færni (Hauhio o.fl., 2021).

Miðað við mikilvægi siðferðilegrar færni í störfum hjúkrunarfræðinga er sérstætt að engin fræðileg skilgreining skuli hafa fundist á siðferðilegri færni í hjúkrun. Þessi rannsókn er því mikilvægt framlag til hjúkrunarfræði bæði sem fræðigreinar og

fagstéttar. Siðferðileg vanlíðan hjúkrunarfræðinga í starfi getur haft neikvæð áhrif á persónulega líðan þeirra og á þá hjúkrun sem þeir veita. Álykta má að fræðileg skilgreining á siðferðilegri færni hjúkrunarfræðinga geti gagnast hjúkrunarfræðingum í störfum sínum og stuðlað að góðri siðferðilegri líðan þeirra.

Framtíðarrannsóknir

Framtíðarrannsóknir gætu meðal annars beinst að því að rannsaka siðferðilega færni frá ýmsum sjónarhornum til dæmis frá sjónarhorni hjúkrunarnema. Einnig væri fróðlegt að rannsaka hvort og þá hvernig siðareglur íslenskra hjúkrunarfræðinga nýtast stéttinni í störfum sínum innan íslenska heilbrigðiskerfisins og tengslum siðferðilegs hugrekkis við siðferðilega líðan hjúkrunarfræðinga á Íslandi. Þá er verðugt að rannsaka innan hjúkrunar gríska hugtakið „phronesis“ sem þýtt hefur verið sem siðvit, siðferðilegur skilningur eða hagnýt viska. Hugtakið, sem kemur upphaflega frá Platóni og Aristótelesi, felur í sér bæði góða dómgreind og þroskaða mannkosti sem ýmsir vona að geti hjálpað til að brúa bilið milli siðferðilegrar þekkingar og athafna (Darnell o.fl., 2019; Kristjánsson o.fl., 2021.

STYRKLEIKAR OG TAKMARKANIR

Rannsóknin hefur nokkra styrkleika þar sem þetta er fyrsta fræðilega skilgreiningin á siðferðilegri færni í hjúkrun og því mikilvæg fyrir hjúkrunarfræði, bæði hérlendis og erlendis. Þessi hugtakasamþætting veitir yfirlit yfir 12 undirþætti sem marka hugtakið siðferðileg færni í hjúkrun sem flokkaðir eru í þrjá meginþætti. Undirþættirnir 12 eru skilgreindir, sem getur komið í veg fyrir að sama hugtak sé notað til að vísa til ólíkra fyrirbæra. Engar íslenskar rannsóknir voru notaðar við gerð fræðilegu skilgreiningarinnar í þessari rannsókn þar sem þær voru ekki fyrir hendi sem gæti verið takmörkun í þessari rannsókn. Aðrar takmarkanir lúta m.a. að magni og gæðum greinanna sem notaðar voru. Þar sem aðeins 11 greinar reyndust nothæfar í hugtakasamþættingunni gæti sjónarmiðið verið takmarkað. Þrátt fyrir takmarkanir, eru núverandi niðurstöður gagnlegar til að skýra undirstöðuþætti siðferðilegrar færni í hjúkrun og skilgreina hugtakið siðferðileg færni í hjúkrun.

ENGLISH SUMMARY

Ethical competence in nursing: A theoretical definition

Halldorsdottir,

ABSTRACT

Aim

A theoretical definition of ethical competence in nursing can benefit nurses; however, no such definition exists. The purpose of this study was to develop such a definition, and the research question was: What are the basic elements of ethical competence in nursing, what is their definition concerning nursing, and what is the theoretical definition of ethical competence in nursing?

Method

The method used to answer the research question was a mixed-method concept synthesis, as described by Walker and Avant (2018).

Results

Ethical competence in nursing consisted of 12 subthemes. They were defined and then grouped into three main themes (in italics): (1) Knowledge and understanding; have ethical knowledge and understanding of the main theories of theoretical and practical ethics and the principal codes of ethics in nursing; (2) Personal ethical qualities; have ethical awareness and ethical self-awareness, have ethical sensitivity and ethical perception together with ethical judgement. (3) Capability and courage to perform; be capable of ethical reasoning, ethical reflection, and ethical decision-making, as well as having moral courage, and be capable of ethical activity and showing ethically responsible behaviour. The theoretical definition was as follows: Ethical competence in nursing includes the nurse's possessing ethical knowledge and understanding, having ethical self-awareness and ethical awareness, ethical sensitivity and perception, and being capable of ethical judgment. At the same time, it implies that the nurse is competent in ethical reasoning, reflection, and decision-making, manifesting in work as moral courage, activity, and conduct.

Conclusions

The theoretical definition describes ethical competence in nursing and the qualities that characterize an ethically competent nurse. Nurses' ethical distress at work can negatively affect their well-being and the care they provide. The theoretical definition of nurses' ethical competence and its essential elements can benefit nurses and contribute to their moral well-being.

Keywords

Ethical competence, theoretical definition, nursing, mixed method concept synthesis, teaching nursing ethics.

Correspondent sigridur@unak.is

HEIMILDASKRÁ

Asgari, S., Shafipour, V., Taraghi, Z. og Yazdani-Charati, J. (2019). Relationship between moral distress and ethical climate with job satisfaction in nurses. Nursing Ethics, 26(2), 346-356. https://doi.org/10.1177/0969733017712083

Bužgová R. og Sikorová, L. (2013). Moral judgment competence of nursing students in the Czech Republic. Nurse Education Today, 33(10), 1201-1206. https://doi.org/10.1016/j.nedt.2012.06.016

Cannaerts, N., Gastmans, C. og Casterlé, B. D. de. (2014). Contribution of ethics education to the ethical competence of nursing students: Educators’ and students’ perceptions. Nursing Ethics. 21(8), 861-878. https://doi. org/10.1177/0969733014523166

Darnell, C., Gulliford, L., Kristjánsson, K., Paris, P. (2019). Phronesis and the knowledge-action gap in moral psychology and moral education: A new synthesis? Human Development, 62(3), 101-129. https://doi.org/10.1159/000496136

Doane, G., Pauly, B., Brown, H. og McPherson, G. (2004). Exploring the heart of ethical nursing practice: Implications for ethics education. Nursing Ethics, 11(3), 240-253. https://doi.org/10.1191/0969733004ne692oa

Eriksson, S., Helgesson, G. og Höglund, A. T. (2007). Being, doing, and knowing: Developing ethical competence in health care. Journal of Academic Ethics, 5, 207216. https://doi.org/10.1007/s10805-007-9029-5

Gallagher, A. (2006). The teaching of nursing ethics: Content and method. Í A. Davis, V. Tschudin og L. De Raeve (ritstjórar), Essentials of teaching and learning in nursing ethics: Perspectives and methods (bls. 223–239). Churchill Livingstone. Haahr, A., Norlyk, A., Martinsen, B. og Dreyer, P. (2020). Nurses’ experiences of ethical dilemmas: A review. Nursing Ethics, 27(1), 258-272. doi: 10.1177/0969733019832941.

Hauhio, N., Leino-Kilpi, H., Katajisto, J. og Numminen, O. (2021). Nurses' self-assessed moral courage and related socio-demographic factors. Nursing Ethics, 28(7-8), 14021415. https://doi.org/10.1177/0969733021999763

Hemberg, J. og Hemberg, H. (2020). Ethical competence in a profession: Healthcare professionals' views. Nursing Open, 7(4), 1249–1259. https://doi.org/10.1002/ nop2.501

Jormsri, P., Kunaviktikul, W., Ketefian, S. og Chaowalit, A. (2005). Moral competence in nursing practice. Nursing Ethics, 12(6), 582-594. https://doi org/10.1191/ 0969733005ne828oa

Kristjánsson, K., Fowers, B., Darnell, C., Pollard, D. (2021). Phronesis (practical wisdom) as a type of contextual integrative thinking. Review of General Psychology, 25(3), 239-257. https://doi.org/10.1177/10892680211023063

Kulju, K., Stolt, M., Suhonen, R. og Leino-Kilpi, H. (2016). Ethical competence: A concept analysis. Nursing Ethics, 23(4), 401-412. https://doi.org/10.1177/0969733014567025

Lechasseur, K., Caux, C., Dollé, S, Legault, A. (2018). Ethical competence: An integrative review. Nursing Ethics, 25(6), 694-706. https://doi.org/10.1177/0969733016667773

McAndrew, N. S., Leske, J. og Schroeter, K. (2018). Moral distress in critical care nursing: The state of the science. Nursing Ethics, 25(5), 552-570. https://doi.org/10.1177/0969733016664975

Muramatsu, T., Nakamura, M., Okada, E., Katayama, H., Ojima, T. (2019). The development and validation of the Ethical Sensitivity Questionnaire for Nursing Students. BMC Medical Educaction, 19, 215. https://doi.org/10.1186/s12909-019-1625-8

Nolan, P. W. og Smith, J. (1995). Ethical awareness among first year medical, dental and nursing students. International Journal of Nursing Studies, 32(5), 506-517. Numminen, O., Repo, H. og Leino-Kilpi, H. (2017). Moral courage in nursing: A concept analysis. Nursing Ethics, 24(8), 878-891. https://doi.org/10.1177/0969733016634155

Numminen, O. H. og Leino-Kilpi, H. (2007). Nursing students‘ ethical decision making: A review of the literature. Nurse Education Today, 27, 796-807. https://doi.org/10.1016/j.nedt.2006.10.013

Parsons, R. D. (2000). The ethics of professional practice. Allyn og Bacon. Schmidt, B. J. og McArthur, E. C. (2018). Professional nursing values: A concept analysis. Nursing Forum, 53(1), 69-75. https://doi.org/10.1111/nuf.12211

Schroeter, K. (1999). Ethical perception and resulting action in perioperative nurses. AORN Journal, 69(5), 991-1002. https://doi.org/10.1016/S0001-2092(06)62297-7

Spekkink, A. og Jacobs, G. (2021). The development of moral sensitivity of nursing students: A scoping review. Nursing Ethics, 28(5), 791-808. https://doi.org/10.1177/0969733020972450

Sporrong, S. K., Arnetz, B., Hansson, M. G., Westerholm, P. og Höglund, A. T. (2007). Developing ethical competence in health care organizations. Nursing Ethics, 14(6), 825-837. https://doi.org/10.1177/0969733007082142

Sultana, R. G. (2009). Competence and competence frameworks in career guidance: Complex and contested concepts. International Journal for Educational and Vocational Guidance, 9, 15-30. https://doi.org/10.1007/s10775-008-9148-6

Tadd, W., Clarke, A., Lloyd, L., Leino-Kilpi, H., Strandell, C., Lemonidou, C., Petsios, K., Sala, R., Barazzetti, G.., Radaelli, S., Zalewski, Z., Bialecka, A., van der Arend, A. og Heymans, R. (2006). The value of nurses’ codes: European nurses’ views. Nursing Ethics, 13(4), 376-393. https://doi.org/10.1191/0969733006ne891oa

Thompson, R. A. (2020). The development of moral self-awareness. Í L. A. Jensen (ritstj.), The Oxford handbook of moral development: An interdisciplinary perspective (bls. 71-91). Oxford Academic. https://doi.org/10.1093/ oxfordhb/9780190676049.013.5

Tsujio, Y., Yasuda, M., Hattori, M., Yoshioka, T., Nakamura, N., Nakata, M., Teramukai, S., Minemura, Y. og Azuma, T. (2023). Developing a behaviour rubric for the practical model of ethical behaviour for clinical nursing. Nursing Open, 10(11), 7382–7393. https://doi.org/10.1002/nop2.1992

Walker, L. O. og Avant, K. C. (2018). Strategies for theory construction in nursing (6. útg.). Pearson.

Wocial, L. D. (2010). Nurturing the moral imagination: A reflection on bioethics education for nurses. Diametros: A Journal of Philosophy, 25, 92-102. https://doi.org/10.13153/diam.25.2010.407

Eldra fólk sem kom á bráðamóttöku og var vísað á greiningarmóttöku

öldrunarlækningadeildar Landspítala árin

2016-2018: Heilsufar og afdrif

doi: 10.33112/th.100.3.5

ÚTDRÁTTUR

Tilgangur

Með fjölgun aldraðra á komandi árum er líklegt að þeim fjölgi sem eru fjölveikir, með skerta færni eða hrumleika. Því verður aukin þörf fyrir sérhæfða heilbrigðisþjónustu og mikilvægt að bregðast við með viðeigandi meðferð til að fyrirbyggja versnun á heilsufari, þörf á sjúkrahúslegu eða vistun á hjúkrunarheimili. Markmið rannsóknarinnar var að skoða heilsufar, færni og heimaþjónustu þeirra sem vísað var á greiningarmóttöku öldrunarlækningadeildar á Landspítala. Einnig að skoða hvernig heilsufar og færni tengist andláti og flutningi á hjúkrunarheimili innan árs frá komu.

Aðferð

Rannsóknin er afturskyggn þversniðsrannsókn á sjúkraskrárgögnum einstaklinga sem komu á greiningarmóttöku (GM), auk upplýsinga um andlát og flutning á hjúkrunarheimili (N=161). Lýsandi og greinandi tölfræði var notuð til að greina gögnin og aðhvarfsgreining hlutfalla var notuð til að greina forspárþætti fyrir andláti eða flutningi á hjúkrunarheimili.

Niðurstöður

Meðalaldur var 84,4 ár og 71,6% voru konur. Þeir sem höfðu tvær eða fleiri komur á bráðamóttöku á síðastliðnum 90 dögum voru 62 (43,9%). Komum á bráðamóttöku fækkaði hjá einstaklingunum um 82% þegar borið var saman 30 daga tímabil fyrir og eftir komu á GM en fækkaði um 70% ef tímabilið var 90 dagar fyrir og eftir komu á GM (p=0,001). Eftirfarandi þættir sýndu auknar hlutfallslíkur á að einstaklingarnir létust eða flyttu á hjúkrunarheimili innan árs frá komu á greiningarmóttöku: voru með heimahjúkrun (OR 3,44 (CI 1,115–10,592), p<0,032); skert sjálfsbjargargeta við að klæðast (OR 5,60 (CI 1,702–18,458), p<0,005); byltur (OR 4,38 (CI 1,333–14,418), p<0,015); innlögn á bráðasjúkrahús (OR 3,79 (CI 1,004–14,295), p<0,049).

Ályktanir

Sérhæfð þverfagleg þjónusta við hrumt eldra fólk í hættu á alvarlegum heilsubresti getur tryggt viðeigandi meðferð, fækkað komum á bráðamóttöku og stutt við sjálfstæða búsetu.

Lykilorð

eldra fólk, göngudeild, heilsufar, færni

HAGNÝTING RANNSÓKNARNIÐURSTAÐNA

Nýjungar: Rannsóknin veitir innsýn í heilsufar eldra fólks sem fékk þjónustu á nýrri tegund göngudeildar en aukin þörf er á þróun slíkrar þjónustu samhliða fjölgun eldra fólks.

Hagnýting: Hægt er að nýta niðurstöðurnar við þróun nýrrar þjónustu en sérhæfðra úrlausna er þörf í þjónustu við færniskert eldra fólki með bráðan sjúkdóm, fjölveikindi eða hrumleika.

Þekking: Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um hjúkrunarþarfir þessa hóps og hvaða sérhæfðu þjónustu hjúkrunarfræðingar þurfa að þróa til að mæta þörfum hans.

Áhrif á störf hjúkrunarfræðinga: Hjúkrunarfræðingar geta nýtt niðurstöðurnar við að þróa hlutverk sitt í þverfaglegu teymi og við framkvæmd heildræns öldrunarmats.

Höfundar

INGIBJÖRG HJALTADÓTTIR

PhD, hjúkrunarfræðingur1

KARÍTAS ÓLAFSDÓTTIR

BSc, sjúkraþjálfari2

SIGRÚN BERGLIND BERGMUNDSDÓTTIR

BSc, sjúkraþjálfari2

ANNA BJÖRG JÓNSDÓTTIR

MPA, öldrunarlæknir1,2

1Háskóli Íslands

2Landspítali

Eldra fólk sem kom á bráðamóttöku og var vísað á greiningarmóttöku öldrunarlækningadeildar Landspítala árin 2016-

2018: Heilsufar og afdrif

INNGANGUR

Samhliða fjölgun aldraðra á komandi árum eru vísbendingar um að þeim fjölgi sem eru fjölveikir, með skerta færni (Prince o.fl., 2015), eru hrumir eða hafa forstig hrumleika (Manfredi o.fl., 2019). Þessi staðreynd eykur á þörf fyrir viðeigandi heilbrigðisþjónustu og heimaþjónustu sem er til þess fallin að koma í veg fyrir eða seinka stofnanavistun (Yang o.fl., 2016). Rannsóknir hafa sýnt að með því að greina áhættuþætti, meðhöndla og/eða fyrirbyggja heilsufarsvanda svo sem byltur, næringarskort, svefnvandamál, þunglyndi, taka á fjöllyfjanotkun og með því að veita viðeigandi stuðning heima er hægt að fyrirbyggja versnun á heilsufari (Leaker o.fl., 2020). Þannig er einnig hægt að fyrirbyggja eða seinka þörf á sjúkrahúslegu eða vistun á hjúkrunarheimili (Chen o.fl., 2020; Fjell o.fl., 2018).

Aldraðir sem dvelja heima hafa fjölþættar þarfir fyrir þjónustu (Kristinsdóttir o.fl., 2021) en bent hefur verið á að margt eldra fólk þarf að leita til bráðamóttöku vegna heilsubrests því önnur viðeigandi þjónusta hefur ekki verið í boði og hefur þetta verið staðan á Íslandi um nokkurt skeið (Gudmundsdottir o.fl., 2018). Þar eru þó yfirleitt ekki í boði þau sérstöku úrræði sem fjölveikt og hrumt eldra fólk þarf á að halda en mikilvægt er að bregðast við og veita viðeigandi meðferð (Karamercan o.fl., 2023; Leahy o.fl., 2023). Alþjóðleg rannsókn á heilsufari eldra fólks sem leitaði til bráðamóttöku í sjö löndum (Ástralíu, Belgíu, Indlandi, Íslandi, Kanada, Svíþjóð og Þýskalandi; N=2282) sýndi að meðalaldur var 83,2 ár, 41,2% voru karlmenn, 26% höfðu skerta vitræna getu, 49% þurftu aðstoð eða eftirlit annaðhvort við að klæðast eða við göngu, 39% voru með verki daglega, 48% voru með eitt eða fleiri öldrunarheilkenni áður en þeir veiktust og við komu á bráðamóttöku voru það 78% (Gray o.fl., 2013). Eldra fólk sem leitar til bráðamóttöku er því líklegt til að vera í þörf fyrir sérhæfða heilbrigðisþjónustu.

Greining og meðferð fjölveiks og hrums eldra fólks er flókin og því er aðkoma þverfaglegs teymis mikilvæg og hefur lengi verið talin lykilþáttur í sérhæfðri heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk auk þess sem heildrænt öldrunarmat hefur verið kallað hinn gullni staðall. Framkvæmd beggja þátta þarf þó að aðlaga að á hvaða vettvangi vinnulaginu er beitt (Ellis og Sevdalis, 2019). Fræðileg samantekt Veronese og félaga (2022) sýndi að notkun heildræns öldrunamats í spítalaþjónustu og bráðaþjónustu minnkaði líkur á flutningi á hjúkrunarheimili, hættu á byltum og þrýstingssárum í spítalainnlögn, hættu á bráðarugli tengdu mjaðmabroti og hættu á líkamlegum hrumleika hjá eldra fólki sem býr heima (Veronese o.fl., 2022). Þá hefur notkun heildræns öldrunarmats í heilsugæslu leitt til fækkunar legudaga á sjúkrahúsi og dregið úr kostnaði (Nord o.fl., 2022) og notkun þess í spítalaþjónustu til eldra fólks í heimahúsi (e. hospital at home) hefur sýnt fram á jafn góðan árangur og af innlögn á sjúkrahús en minni kostnað (Shepperd o.fl., 2022). Hluti af heildrænu öldrunarmati getur verið að framkvæma ákveðin próf sem gefa upplýsingar um styrk og jafnvægisstjórnun t.d. próf á gönguhraða, getu til að reisa sig upp úr stól án stuðnings handa (e. Five Times Sit-to-Stand; FTSST) og að ganga stutta vegalengd án hjálpartækis (e. Timed Up and Go; TUG). TUG prófið er gert til að meta öryggi við hreyfingu og rannsóknir sýna að léleg útkoma í prófinu hefur forspárgildi fyrir andláti (Chun o.fl., 2021) og þeir sem eru ≥12 sek. að framkvæma TUG-próf eru í aukinni

byltuhættu (Lusardi o.fl., 2017). FTSST-prófið er gert til að meta getu til flutnings, styrk í fótleggjum og jafnvægisstjórnun og rannsóknir sýna að prófið hefur forspárgildi fyrir hrumleika (Park o.fl., 2021) og þeir sem eru >15 sek. að framkvæma prófið er í hættu á endurteknum byltum (Bohannon o.fl., 2007). Enn fremur hafa rannsóknir sýnt að gönguhraði ≤ 1 m/sek. hefur forspárgildi varðandi skerta færni og andlát (Perera o.fl., 2016). Það er því ljóst að vönduð greiningarvinna fagfólks og þverfagleg samvinna er mikilvæg þegar halla fer undan fæti hjá eldra fólki.

Greiningarmóttaka á göngudeild öldrunarlækninga á Landspítala var sett á stofn til að bregðast við þörfum eldri einstaklinga sem áttu endurteknar komur á bráðamóttöku og bæta þjónustu við þennan hóp á Landspítala. Kjarni meðferðarinnar á greiningarmóttökunni byggir á þverfaglegri teymisvinnu (Ellis og Sevdalis, 2019; Hickman o.fl., 2015) með aðkomu sérfræðings í öldrunarhjúkrun, sjúkraþjálfara og öldrunarlæknis, sem framkvæma heildrænt öldrunarmat (Garrard o.fl., 2020; Parker o.fl., 2018). Farið var mjög nákvæmlega yfir verkaskiptingu á milli fagaðila til að koma í veg fyrir tvíverknað. Verkaskipting var í grófum dráttum að hjúkrunarfræðingur gerði mat á næringarástandi, verkjum, minni og færni; sjúkraþjálfari skoðaði hreyfigetu, vöðvastyrk, liðleika og jafnvægi; öldrunarlæknir fór yfir núverandi vandamál einstaklingsins, fyrra heilsufar, lyf og framkvæmdi líkamsskoðun með áherslu á þau líffærakerfi sem tengdust kvörtunum viðkomandi. Einstaklingurinn fékk tíma á greiningarmóttöku í vikunni eftir komu á bráðamóttöku til að bregðast fljótt við vandanum en yfirlit yfir feril sjúklings má sjá á mynd 1.

spítalans komu 161 einstaklingur á rannsóknartímabilinu (2016 n=43; 2017 n=70; 2018 n=48). Rannsóknargögn fengust fyrir 141 einstakling (2016 n=37; 2017 n= 59; 2018 n=45) eða fyrir 88% þeirra sem komu samkvæmt bókunarkerfi.

Mælitæki

Hluti af þeim upplýsingum sem komu úr sjúkraskrá voru gögn fengin úr matsgerð með mælitækinu Komumat aldraðra (e. interRAI Emergency Department Contact Assessment 9.3). Mælitækið inniheldur um 40 breytur og er ætlað til samræmdrar skráningar og mats á heilsufari, færni og þörfum aldraðra einstaklinga sem leita til bráðamóttöku. Matið byggir á upplýsingum úr viðtölum við og athugunum á einstaklingnum, viðtölum við ættingja og gögnum úr sjúkraskrá. Breyturnar í mælitækinu eru úr lengra interRAI-mælitæki sem einnig er ætlað til notkunar í bráðaþjónustu. Sýnt hefur verið fram á áreiðanleika (Wellens o.fl., 2012) og réttmæti (Wellens o.fl., 2011) þess mælitækis í aðstæðum þar sem verið er að veita bráðaþjónustu. Kvarðar sem fylgja mælitækinu nota valdar breytur til að reikna út niðurstöðu fyrir hvern einstakling sem endurspeglar ástand hans. (Hirdes o.fl., 2010). Eftirfarandi kvarðar voru notaðir í rannsókninni:

Kvarði um hættu á endurkomu eftir útskrift heim. Kvarðinn gefur til kynna hættu á endurkomu á bráðamóttöku eða legudeild innan 90 daga frá útskrift heim og er lægsta gildið 0 og gefur til kynna minnstu áhættu en hæsta gildið er 5 og gefur til kynna mestu áhættu.

Kvarði um hættu á stofnanavistun. Lægsta gildi er 0 sem merkir minnstu áhættu en hæsta gildið er 5 sem gefur til kynna mesta áhættu á stofnanavistun eða þörf á meiri þjónustu til dæmis búsetu á hjúkrunarheimili.

Verkjakvarðinn hefur lægsta gildi 0 sem merkir að einstaklingurinn hefur enga verki en hæsta gildið er 4 sem bendir til óbærilegra verkja daglega.

Kvarði um tjáningu á eigin hugarástandi. Kvarðinn hefur gildi frá 0 til 9. Gildið 0 gefur til kynna að einstaklingurinn hafi engin neikvæð einkenni. Gildi 9 bendir til að neikvæð einkenni séu til staðar daglega.

Mynd 1. Ferill sjúklings á bráðamóttöku og greiningarmóttöku.

Markmið rannsóknarinnar var að skoða heilsufar, færni og heimaþjónustu þeirra sem vísað var á greiningarmóttöku öldrunarlækningadeildar á Landspítala. Einnig að skoða hvernig heilsufar og færni tengist andláti og flutningi á hjúkrunarheimili innan árs frá komu.

AÐFERÐ

Rannsóknin var afturskyggn þversniðsrannsókn á heilsufarsgögnum einstaklinga sem komu á greiningarmóttöku öldrunarlækningadeildar á Landspítala á árunum 2016-2018, auk upplýsinga um andlát og flutning á hjúkrunarheimili. Úrtak

Á greiningarmóttöku komu fyrst og fremst einstaklingar sem var vísað þangað eftir komu á bráðamóttöku Landspítala en einnig komu 12 einstaklingar frá heilsugæslu, færni- og heilsumatsnefnd eða sérfræðingum á Landspítala. Samkvæmt bókunarkerfi

Önnur gögn sem fengin voru úr sjúkraskrá voru niðurstöður TUG-prófs sem framkvæmt var án gönguhjálpartækja og er mælt í sekúndum, FTSST-prófs sem framkvæmt var án stuðnings handa og er mælt í sekúndum og að lokum próf á 10 metra gönguhraða sem var mælt í metrum á sekúndu. Enn fremur upplýsingar um notkun gönguhjálpartækja, hvaða meðferð fólki hafði verið vísað í, upplýsingar um endurkomur á bráðamóttöku Landspítala, andlát innan árs frá komu á greiningarmóttöku og flutning á hjúkrunarheimili.

Framkvæmd

Heilsufarsupplýsingar og upplýsingar úr Komumati aldraðra sem gert var fyrir einstaklinga sem komið höfðu á greiningarmóttöku fengust úr sjúkraskrárkerfi Landspítala. Upplýsingar um flutning einstaklinganna á hjúkrunarheimili fengust frá Embætti landlæknis.

Siðfræði

Vísindasiðanefnd, Embætti landlæknis og Vísindarannsóknanefnd Landspítala veittu leyfi fyrir rannsókninni (tilvísunarnúmer: VSNb2019060037/03.01, EL1906107/5.6.1/gkg og VL16).

Gagnagreining

Lýsandi og greinandi tölfræði var notuð til að greina gögnin. Niðurstöður fyrir raðbreytur og nafnbreytur voru settar fram sem tíðni og hlutföll en til að greina mun á milli hópa var Pearson kí kvaðratpróf notað og „Yates Continuity Correction“ notað þegar um 2x2 töflur var að ræða. Fyrir jafnbilabreytur voru niðurstöður settar fram sem meðaltöl, staðalfrávik og spönn en til að greina mun var ANOVA og t-próf notað. Gögn frá öllum þremur árunum voru skoðuð sem einn hópur enda var hvorki marktækur munur á milli ára hvað varðaði meðalaldur (ANOVA, p=0,450) né hlutfall kynja (Kíkvaðratpróf, p=0,542).

Aðhvarfsgreining hlutfalla (e. logistic regression) var einnig notuð til að greina gögnin. Fylgibreytan í greiningunni var tvískipt: hvort fólk var á lífi og hafði ekki flutt á hjúkrunarheimili eftir eitt ár frá komu (gildið 0) eða hvort fólk hafði látist eða flutt á hjúkrunarheimili innan eins árs frá komu (gildið 1). Notast var við fram- og afturvirka aðhvarfsgreiningu hlutfalla í nokkrum skrefum til að greina hvaða breytur, til viðbótar við kyn og aldur, hentuðu í lokalíkanið. Eingöngu var horft til tölfræðilegra tengsla við fylgibreytuna. Flestar breyturnar voru flokkabreytur og voru búnar til vísibreytur (e. dummy variables) þar sem þess þurfti. Lokalíkanið samanstóð af fjórum breytum, auk kyns og aldurs, sem höfðu hvað mest tölfræðileg tengsl við fylgibreytuna. Við alla greiningu voru notuð marktektarmörk með p gildi ≤0,05. Gögnin voru greind með tölfræðiforritinu SPSS útgáfu 28.

NIÐURSTÖÐUR

Á árunum 2016-2018 kom alls 141 einstaklingur á greiningarmóttöku sem átti matsgerð með Komumati aldraðra. Meðalaldur þeirra var 84,4 ár (spönn 67-99; SF 6,13) og 71,6% (n=101) voru konur. Þeir sem fluttu á hjúkrunarheimili innan árs frá komu á greiningarmóttöku voru 15 (10,6%) en þeir sem létust innan árs voru 15 (10,6%) en af þeim höfðu tveir þegar flutt á hjúkrunarheimili. Meirihlutinn bjó einn (n=93; 66%) og þáði félagslega heimaþjónustu (n=92; 65,2%) og þeir sem töldu heilsufar sitt vera lélegt voru 49 (34,8%) (sjá töflu 1).

Heildarfjöldi þeirra sem komu á greiningarmóttöku á rannsóknartímabilinu var 161. Þegar bornar voru saman komur þessara einstaklinga á bráðamóttöku Landspítala fyrir og eftir komu þeirra á greiningarmóttöku reyndist komum á bráðamóttöku fækka verulega. Komum á bráðamóttöku yfir 30 daga tímabil fyrir og eftir komu einstaklinganna á greiningarmóttöku fækkaði um 82% (úr 169 í 30 komur; t próf, p=0,001) og komum yfir 90 daga tímabil fyrir og eftir komu á greiningarmóttöku fækkaði um 70% (úr 240 í 72 komur; t próf, p=0,001) (sjá mynd 2).

Þeir sem höfðu hlotið eina eða fleiri byltur síðustu 90 daga voru 52 (36,9%) en einungis 7 (5%) höfðu hlotið alvarleg meiðsl, beinbrot eða alvarlega áverka vegna byltu. Þeir sem létu í ljós að þeir fyndu fyrir kvíða daglega síðastliðna þrjá daga voru 30 (21,3%), þeir sem fundu fyrir depurð eða vonleysi voru 36 (25,5%) og 75 (53,1%) tjáðu sig um neikvætt hugarástand.

Tafla 1. Hagir, þjónusta og heilsufar eldra fólks sem kom á Greiningarmótttöku (N=141)

síðastliðna 90 daga

Félagsleg heimaþjónusta síðastliðna 90 daga

Innlögn á bráðasjúkrahús síðastliðna 90 daga

innlögn

innlagnir

Koma á bráðamóttöku síðastliðna 90 daga fyrir komu á GM

Hætta á endurkomu á bráðamóttöku eða legudeild innan 90 daga frá útskrift heim (kvarði: 0-5) Skor 0-1 = Minnsta áhætta

Skor 2-5 = Stighækkandi áhætta

Hættu á stofnanavistun / þörf á meiri þjónustu, til dæmis hjúkrunarheimili (kvarði: 0-5)

Skor 0-1 = Minnsta hætta

Skor 2-5 = Stighækkandi hætta

Eigið mat: Hvernig telur þú heilsufar þitt vera almennt?

Fjölskylda/nánir vinir finnst þeir bugaðir vegna veikinda einstaklings

Meirihluti var með verki daglega síðustu þrjá daga eða 82 (58,2%) og samkvæmt verkjakvarða voru þeir sem voru með mikla eða óbærilega verki daglega 35 (24,9%) (sjá töflu 2).

Tafla 3 sýnir niðurstöður hópsins í TUG-prófi (e. Timed Up and Go), FTSST-prófi (e. Five Times Sit-to-Stand) og 10 metra gönguprófi. Ekki reyndist marktækur munur á þeim sem létust eða fluttu á hjúkrunarheimili innan árs og hinum hópnum. Meirihlutinn náði ekki aldurstengdum viðmiðum prófanna.

Aðhvarfsgreining hlutfalla sýndi að þau sem voru með skerta sjálfsbjargargetu við að klæðast voru 5,60 sinnum líklegri til að láta lífið eða fara á hjúkrunarheimili en konur voru 0,21 sinnum ólíklegri til að láta lífið eða fara á hjúkrunarheimili. Aðrir þættir sem sýndu auknar hlutfallslíkur voru að njóta heimahjúkrunar, hafa hlotið byltu, hafa lagst inn á bráðasjúkrahús og hærri aldur (sjá töflu 4).

Tafla 2. Vitræn geta fólks sem kom á greiningarmóttöku, hugarástand, sjálfsbjargargeta við athafanir daglegs lífs (ADL), almenn dagleg verk (IADL) (N=141), notkun hjálpartækja og meðferð sem fólki var vísað í (n=154) n %

Vitræn geta til ákvarðanatöku við daglegar athafnir: takmarkað sjálfstæði

Höfðu sýnt skyndilega breytingu á andlegu ástandi miðað við venjulega andlega færni

Tjáning á eigin hugarástandi (kvarði: skor 0-9)

Skor 0-1 = Engin eða lítil neikvæð einkenni um hugarástand

Skor 2-8 = Stigvaxandi neikvæð einkenni um hugarástand

Skor 9 = Öll neikvæð eink. hugarástands eru til staðar daglega 16 11,3

Verkjakvarði (kvarði: skor 0-4)

Skor 0 = Engir verkir 24 17,0

Skor 1 = Verkir sjaldnar en daglega

Skor 2 = Verkir daglega en ekki miklir

Skor 3 = Miklir verkir daglega

Skor 4 = Óbærilegir verkir daglega 6 4,3

Hefur greinilega borðað eða drukkið minna en venjulega síðastliðna 3 daga 48 34,0

Þyngdartap 5% eða meira síðastliðna 30 daga eða 10% eða meira síðastliðna 180 daga 41 29,1

Sjálfsbjargargeta við persónulegt hreinlæti (ADL)

Sjálfbjarga eða aðeins aðstoð við undirbúning 89 63,1

Tilsýn eða hvers konar líkamleg aðstoð 52 36,9

Sjálfsbjargargeta við að klæðast – neðri hluti líkamans (ADL)

Sjálfbjarga eða aðeins aðstoð við undirbúning 121 85,8

Tilsýn eða hvers konar líkamleg aðstoð 20 14,2

Sjálfsbjargargeta við almenn dagleg verk (IADL) – lyfjanotkun

Sjálfbjarga eða aðeins aðstoð við undirbúning 78 55,3

Tilsýn eða hvers konar líkamleg aðstoð 63 44,7

Tafla 3. Útkoma úr TUG-prófi, FTSST-prófi, 10 metra gönguprófi, notkun gönguhjálpatækja og meðferð sem vísað var í n %

TUG-próf (n=124)

Gat ekki framkvæmt prófið án gönguhjálpartækja 18 14,5

Framkvæmt á >15 sek. 67 54,0

Framkvæmt á 15 sek. eða minna* 39 31,5

FTSST-próf (n=131)

Gat ekki framkvæmt prófið án stuðnings handa 62 47,3

Framkvæmt á >15 sek. 65 49,6

Framkvæmt á 15 sek. eða minna* 4 3,1

Gönguhraði (10 metrar)

Gat ekki gengið og því ekki framkvæmt próf 7 5,3

Hraði ≤1 m/sek.

Hraði

Notkun gönguhjálpartækja (n=154)

Gengur án hjálpartækis

Hækjur/stafur

Meðferð sem fólki var vísað í (n=154)

Beiðni send / Innlögn á Landspítala

Heimasjúkraþjálfun eða á stofu 36 23,3

Færni- og heilsumat 6 3,9

Annað: 24 15,5

*Aldurstengt viðmið fyrir prófin.

UMRÆÐUR

Rannsóknin sýnir að hópurinn sem kom á greiningarmóttöku var háaldraður, fólk bjó yfirleitt eitt og átti margar komur á bráðamóttöku Landspítala. Með komu á greiningarmóttöku, þar sem framkvæmt var heildrænt öldrunarmat af þverfaglegum hópi, var hægt að veita meðferð og úrræði sem ætla má að hafi stuðlað að fækkun á komum einstaklinganna á bráðamóttöku. Meirihluti hópsins var með verki, óstöðugt heilsufarsástand, var ekki sjálfbjarga og með skerta hreyfifærni, svo sem óöryggi í

4. Forspárþættir fyrir andláti eða flutningi á hjúkrunarheimili innan 1 árs frá komu á

gagnlíkindahlutfalls

Tafla

göngu án gönguhjálpartækis og með hægan gönguhraða. Þau sem létust eða fluttu á hjúkrunarheimili innan árs frá komu á greiningarmóttöku voru frekar með heimahjúkrun, skerta færni við að klæðast, nýlega byltu, nýlega innlögn á sjúkrahús, voru karlar og voru eldri.

Meðalaldur þeirra sem komu á greiningarmóttökuna og hlutfall kvenna var hærra en í evrópskri rannsókn á eldra fólki sem kom á bráðamóttökur (N=5767; níu lönd) en þar var meðalaldur 77 ár og hlutfall kvenna 51%. Fleiri höfðu hlotið nýlega byltu (36,9%) og fleiri þáðu heimaþjónustu (65,2%) í samanburði við evrópsku rannsóknina en þar höfðu 16,6% hlotið byltu innan sex mánaða og 25% þáðu heimaþjónustu (Karamercan o.fl., 2023). Þess ber þó að geta að í evrópsku rannsókninni var 51% hópsins lagður inn á sjúkrahús en í okkar rannsókn er um að ræða fólk sem hafði verið sent heim af bráðamóttöku. Í okkar rannsókn var meirihluti hópsins með daglega verki (58,2%) sem er mun meiri verkjabyrði en í alþjóðlegri rannsókn (38%) (Gray o.fl., 2013). Andleg líðan fólks var ekki góð en meirihluti (53,1%) tjáði sig um neikvæð einkenni í tengslum við hugarástand sitt samanborið við 11% sem tjáðu sig um einkenni tengd þunglyndi í finnskri rannsókn (Salminen o.fl., 2023).

Niðurstöðurnar benda til að hópurinn sem kom á greiningarmóttöku hafi almennt verið mjög hrumur eins og niðurstöður prófa á líkamlegri færni og upplýsingar um fjölda byltna gáfu til kynna. Rannsóknir hafa sýnt fram á að hægur gönguhraði (Dent o.fl., 2019) og byltur eru vísbending um hrumleika (Schrijver o.fl., 2013; Wang o.fl., 2022). Athyglisvert er að ekki reyndist vera marktækur munur á milli þeirra sem létust eða fluttu á hjúkrunarheimili innan árs og hinna, hvað varðar útkomu úr TUG-prófi, FTSST-prófi og 10 metra gönguprófi. Skýringin er þó líklega sú að mikill meirihluti gat annaðhvort ekki framkvæmt prófin eða var undir aldurstengdum viðmiðum. Ofangreint sýnir hversu hrumur og farinn að heilsu hópurinn var sem vísað var á greiningarmóttöku.

Þættir sem í þessari rannsókn voru tengdir við andlát eða flutning á hjúkrunarheimili innan árs eru í samræmi við niðurstöður finnskra rannsókna sem sýndu að færniskerðing jók líkur á andláti og flutningi á hjúkrunarheimili (HR 1,12; p<0,05) (Halonen o.fl., 2019), sömuleiðis hafði það að vera með heimaþjónustu (HR 2,43; p<0,001), hærri aldur (HR 1,65; p=0,036) og byltur á síðastliðnum 12 mánuðum (HR 1,54; p=0,012) forspárgildi varðandi flutning á stofnun innan þriggja ára (Salminen o.fl., 2020). Hins vegar voru konur í okkar rannsókn ólíklegri en karlar að látast eða flytja á hjúkrunarheimili innan árs en í rannsókn Salminen og félaga voru konur 1,41 líklegri til að flytja á stofnun innan þriggja ára (Salminen o.fl., 2020).

Bent hefur verið á mikilvægi þess að setja á stofn sérhæfða göngudeildarþjónustu fyrir eldra fólk sem býr heima vegna fjölgunar þeirra sem búa við fjölveikindi og hrumleika. Á hjúkrunarheimili flytur nú veikara fólk en áður (Ingibjörg Hjaltadottir o.fl., 2019) og fólk býr lengur heima við meiri heilsubrest og meiri þörf fyrir sérhæfða þjónustu en áður (Kristinsdóttir o.fl., 2021). Því er mikilvægt að bregðast við breyttum þörfum eldra fólks sem dvelur heima bæði með nýsköpun í þjónustu og þjónustuformi sem sýnt hefur verið fram á að komi að gagni. Bæði á vettvangi heilsugæslu (Garrard o.fl., 2020) og sérhæfðrar göngudeildarþjónustu (Salminen o.fl., 2023). Komum á bráðamóttöku fækkaði eftir að einstaklingarnir komu á greiningarmóttöku og það bendir til þess að þjónustan hafi borið árangur í að greina heilsuvandann og veita rétta meðferð. Fækkun koma er meiri ef skoðað er 30 daga tímabil samanborið við 90

daga tímabil. Hugsanleg skýring á breytileika á fækkun á komum eftir lengd tímabils sem skoðað er, getur legið í því að hjá fólki sem býr við skerta heilsu og færni geta komið fram ný ófyrirsjáanleg heilsufarsvandamál þegar um lengra tímabil er að ræða. Einnig þarf að hafa í huga að fyrir 21% einstaklinga var annaðhvort send beiðni um innlögn eða viðkomandi lagður inn á Landspítala. Getur þetta annaðhvort hafa haft áhrif til fækkunar á komum á bráðamóttöku ef fólk fékk strax innlögn eða fjölgunar ef fólk beið lengi eftir innlögn eða fékk hana ekki. Ekki var gerð greining á ástæðum endurkomu en vegna heilsu sinnar var hópurinn í aukinni áhættu fyrir ýmiss konar heilsubresti s.s. byltum og bráðri versnun sjúkdóma.

Slæmt heilsufari þeirra sem komu á greiningarmóttöku styður við mikilvægi þessa að veita þessum hópi sérhæfða göngudeildarþjónustu áður en hann þarf að leita til bráðamóttöku eins og gert hefur verið víða í Finnlandi á síðastliðnum 10 árum (Salminen o.fl., 2023). Jafnframt er mikilvægt að þar verði notuð þverfagleg nálgun en bent hefur verið á að þannig náist bestur árangur í þjónustu við eldra fólk (Ellis og Sevdalis, 2019) og að við mat á heilsufari og þörfum verði gert heildrænt öldrunarmat (Veronese o.fl., 2022). Enda eru fjölmargir af þeim sjúkdómum sem algengir eru hjá eldra fólki þess eðlis að hægt er að ná árangri með forvörnum, fyrirbyggjandi meðferð og stuðningi og þannig hægt að auka lífsgæði fólks (Salminen o.fl., 2023). Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingar sem geta nýst við að þróa nýja þjónustu bæði til að greina heilsufarsvanda en ekki síður til að þróa meðferð og stuðning sem getur nýst þessum viðkvæma hópi. Það er því mikilvægt að hjúkrunarfræðingar vinni að nýsköpun í þjónustu við þennan hóp. Í þessu samhengi má nefna að það er til mikils að vinna samfélagslega og fjárhagslega að veita þessum hópi þjónustu sem seinkar komu á hjúkrunarheimili eða styttir dvölina. Flestir vilja vera heima sem lengst þannig að lífsgæði fólks eru líka meiri ef hægt er að verða við því.

STYRKLEIKAR RANNSÓKNAR

Styrkleiki þessarar rannsóknar er að hér er lýst heilsufari ákveðins hóps eldra fólks á Íslandi sem ekki hefur verið lýst áður og er í vaxandi þörf fyrir sérhæfða þjónustu. Þetta er því þekking sem er mikilvæg til að hægt sé að skipuleggja og veita viðeigandi þjónustu. Takmarkanir rannsóknarinnar eru helstar að ekki er um alveg ný gögn að ræða en það er ekkert sem bendir til annars en að ástandið nú sé eins eða versnandi. Enn fremur er það takmarkandi þáttur að ekki var hægt að hafa samanburðarhóp. Bæði vegna þess að ekki er til önnur sambærileg þjónusta á landinu sem hægt hefði verið að bera saman við og ekki siðferðilega rétt að búa til samanburðarhóp á greiningarmóttökunni því allir voru í mikilli þörf fyrir fulla þjónustu og tímanlega. Áhrifaþættir á fækkun á komum einstaklinganna á bráðamóttöku eftir komu á greiningarmóttöku gætu því verið fleiri en hægt var að kanna í þessari rannsókn.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að vegna heilsubrests voru þeir sem komu á greiningarmóttöku í þörf fyrir nákvæmara heilsufarsmat, ráðgjöf og meðferð eftir komu á bráðamóttöku. Þetta styður mikilvægi þess að háaldraðir og veikir einstaklingar hafi möguleika á að fá sérhæfða þjónustu þeirra sem hafa sérfræðiþekkingu í öldrun í stað þess eða áður en leitað er til bráðamóttöku. Bæði til að hægt sé að veita fyrirbyggjandi meðferð og til að tryggja að þeir geti dvalið sem lengst á eigin heimili við sem besta heilsu og lífsgæði.

ENGLISH SUMMARY

Older Adults admitted to the Emergency Department and Referred to the Urgent Ambulatory Geriatric Assessment Unit

Hjaltadottir,

ABSTRACT

Aim

With the increase in the elderly population, there is likely to be a rise in those with multiple chronic conditions, impaired function, or frailty, necessitating specialised healthcare services. It is therefore crucial to respond and provide suitable treatment to prevent health decline, hospital admissions, or Long-Term Care (LTC) placements. The aim of the study was to examine the health, functional profile and home care use of individuals referred to the Urgent Ambulatory Geriatric Assessment Unit (UAGAU) at Landspítali. Also to investigate the association of health and functional profile with death and transfer to LTC within a year of referral.

Method

The study is a retrospective cross-sectional analysis of medical record data of individuals attending the UAGAU, data on mortality and LTC placements (N=161). Descriptive and inferential statistics were used to analyze the data, and logistic regression was employed to identify predictors of mortality or LTC placements..

Results

The average age was 84.4 years and 71.6% were women. Those who had two or more visits to the emergency department (ED) in the last 90 days were 62 (43.9%). ED visits decreased by 82% among individuals when comparing the 30-day periods before and after referral to the UAGAU (p=0.001), and by 70% when comparing the 90-day periods before and after referral (p=0.001). Variables associated with increased probability of the individuals dying or moving to LTC were: home care (OR 3.44 (CI 1.115–10.592), p<0.032); impairment in dressing (OR 5.60 (CI 1.702–18.458), p<0.005); falls (OR 4.38 (CI 1.333–14.418), p<0.015); and admission to a hospital (OR 3.79 (CI 1.004–14.295), p<0.049).

Conclusions

Specialized multidisciplinary services can ensure optimal treatment for frail older people suffering serious health conditions, decrease emergency department visits and support independent living.

Keywords

Key words: elderly, outpatient service, health status, functional status.

Correspondent ingihj@hi.is

HEIMILDASKRÁ

Bohannon, R. W., Shove, M. E., Barreca, S. R., Masters, L. M og Sigouin, C. S. (2007). Five-repetition sit-to-stand test performance by community-dwelling adults: A preliminary investigation of times, determinants, and relationship with self-reported physical performance. Maryland State Medical Journal, 15(2), 77-81. https://doi.org/10.3233/IES-2007-0253

Chen, L., Hwang, A., Lee, W., Peng, L., Lin, M., Neil, D., Shih, S., Loh, C. og Chiou, S. (2020). Taiwan health promotion intervention study for elders research group. Efficacy of multidomain interventions to improve physical frailty, depression and cognition: Data from cluster-randomized controlled trials. Journal of Cachexia, Carcopenia and Muscle, 11(3), 650-662. https://doi.org/10.1002/jcsm.12534

Chun, S., Shin, D. W., Han, K., Jung, J. H., Kim, B., Jung, H. W., Son, K. Y., Lee, S. P. og Lee, S. C. (2021). The Timed Up and Go test and the ageing heart: Findings from a national health screening of 1,084,875 community-dwelling older adults. European Journal of Preventive Cardiology, 28(2), 213-219. https://doi. org/10.1177/2047487319882118

Dent, E., Martin, F. C., Bergman, H., Woo, J., Romero-Ortuno, R. og Walston, J. D. (2019). Management of frailty: Opportunities, challenges, and future directions. Lancet, 394(10206), 1376-1386. https://doi.org/10.1016/S0140-6736(19)31785-4

Ellis, G. og Sevdalis, N. J. A. (2019). Understanding and improving multidisciplinary team working in geriatric medicine. Age and Ageing, 48(4), 498-505. https://doi. org/10.1093/ageing/afz021

Fjell, A., Cronfalk, B. S., Carstens, N., Rongve, A., Kvinge, L. M. R., Seiger, Å., Skaug, K. og Boström, A. M. (2018). Risk assessment during preventive home visits among older people. Journal of Multidisciplinary Healthcare, 11, 609-620. https://doi. org/10.2147/Jmdh.S176646

Garrard, J. W., Cox, N. J., Dodds, R. M., Roberts, H. C. og Sayer, A. A. (2020). Comprehensive geriatric assessment in primary care: A systematic review. Aging Clinical and Experimental Research, 32(2), 197-205. https://doi.org/10.1007/s40520-019-01183-w

Gray, L. C., Peel, N. M., Costa, A. P., Burkett, E., Dey, A. B., Jonsson, P. V., Lakhan, P., Ljunggren, G., Sjostrand, F., Swoboda, W., Wellens, N. I. H., og Hirdes, J. (2013). Profiles of older patients in the emergency department: findings from the interRAI multinational emergency department study. Annals of Emergency Medicine, 62(5), 467-474. https://doi.org/10.1016/j.annemergmed.2013.05.008

Gudmundsdottir, E., Masdottir, H. R., Gudmundsdottir, H., Jonsdottir, L. A., Sigurthorsdottir, I., Skuladottir, S. S., Lund, S. H., og Thorsteinsdottir, T. (2018). Variations in elderly peoples’ visits to the emergency departments in Iceland: A five-year population study. International Emergency Nursing, 37, 6-12. https://doi.org/10.1016/j.ienj.2017.09.010

Halonen, P., Raitanen, J., Jamsen, E., Enroth, L. og Jylha, M. (2019). Chronic conditions and multimorbidity in population aged 90 years and over: Associations with mortality and long-term care admission. Age and Ageing, 48(4), 564-570. https://doi.org/10.1093/ageing/afz019

Hickman, L. D., Phillips, J. L., Newton, P. J., Halcomb, E. J., Al Abed, N. og Davidson, P. M. (2015). Multidisciplinary team interventions to optimise health outcomes for older people in acute care settings: A systematic review. Archives of Gerontology and Geriatrics, 61(3), 322-329. https://doi.org/10.1016/j.archger.2015.06.021

Hirdes, J., Curtin-Telegdi, N., Poss, J., Gray, L., Berg, K., Stolee, P., Costa, A., Morris, J., Björgren, M. og Declercq, A. (2010). InterRAI contact assessment form and user’s manual: A screening level assessment for emergency department and intake from community/hospital. Version 9.2. InterRAI. Ingibjörg Hjaltadóttir, Kjartan Ólafsson, Árún K. Sigurðardóttir og Ragnheiður Harpa Arnardóttir. (2019). Heilsa og lifun íbúa fyrir og eftir setningu strangari skilyrða fyrir flutningi á hjúkrunarheimili. Læknablaðið, 105(10), 435-441. https://doi. org/10.17992/lbl.2019.10.251

Karamercan, M. A., Dundar, D. Z., Slagman, A., Ergin, M., Janssens, K. A. C., Fabbri, A., Bjornsen, L. P., Somodi, S., Adam, V. N., Polyzogopoulou, E., Demir, H. A. og Laribi, S. (2023). Epidemiology of geriatric patients presenting to emergency departments in Europe: EGERS study. European Journal of Emergency Medicine, 30(2), 117-124. https://doi.org/10.1097/MEJ.0000000000000997

Kristinsdóttir, I. V., Jónsson, P. V., Hjaltadóttir, I. og Bjornsdottir, K. (2021). Changes in home care clients’ characteristics and home care in five European countries from 2001 to 2014: Comparison based on InterRAI-home care data. BMC Health Services Research, 21(1), 1-12. https://doi.org/10.1186/s12913-021-07197-3

Leahy, A., Corey, G., Purtill, H., O'Neill, A., Devlin, C., Barry, L., Cummins, N., Gabr, A., Mohamed, A., Shanahan, E., Shchetkovsky, D., Ryan, D., O'Loughlin, M., O'Connor, M. og Galvin, R. (2023). Screening instruments to predict adverse outcomes for undifferentiated older adults attending the emergency department: Results of SOAED prospective cohort study. Age and Ageing, 52(7), afad116. https://doi. org/10.1093/ageing/afad116

Leaker, H., Fox, L. og Holroyd-Leduc, J. (2020). The impact of geriatric emergency management nurses on the care of frail older patients in the emergency department: A systematic review. Canadian Geriatrics Journal, 23(3), 250. https:// doi.org/10.5770/cgj.23.408

Lusardi, M. M., Fritz, S., Middleton, A., Allison, L., Wingood, M., Phillips, E., Criss, M., Verma, S., Osborne, J. og Chui, K. K. (2017). Determining risk of falls in community dwelling older adults: A systematic review and meta-analysis using posttest probability. Journal of Geriatric Physical Therapy, 40(1), 1. https://doi.org/10.1519/ JPT.0000000000000099

Manfredi, G., Midão, L., Paúl, C., Cena, C., Duarte, M. og Costa, E. (2019). Prevalence of frailty status among the European elderly population: Findings from the survey of health, aging and retirement in Europe. Geriatrics & Gerontology International, 19(8), 723-729. https://doi.org/10.1111/ggi.13689

Nord, M., Lyth, J., Marcusson, J., og Alwin, J. (2022). Cost-effectiveness of comprehensive geriatric assessment adapted to primary care. Journal of the American Medical Directors Association, 23(12), 2003-2009. https://doi.org/10.1016/j.jamda.2022.04.007

Park, C., Sharafkhaneh, A., Bryant, M. S., Nguyen, C., Torres, I. og Najafi, B. (2021). Toward remote assessment of physical frailty using sensor-based sit-to-stand test. Journal of Surgical Research, 263, 130-139. https://doi.org/10.1016/j.jss.2021.01.023

Parker, S. G., McCue, P., Phelps, K., McCleod, A., Arora, S., Nockels, K., Kennedy, S., Roberts, H. og Conroy, S. (2018). What is comprehensive geriatric assessment (CGA)? An umbrella review. Age and Ageing, 47(1), 149-155. https://doi.org/10.1093/ ageing/afx166

Perera, S., Patel, K. V., Rosano, C., Rubin, S. M., Satterfield, S., Harris, T., Ensrud, K., Orwoll, E., Lee, C. G., Chandler, J. M., Newman, A. B., Cauley, J. A., Guralnik, J. M., Ferrucci, L. og Studenski, S. A. (2016). Gait speed predicts incident disability: A pooled analysis. Journals of Gerontology Series A: Biomedical Sciences and Medical Sciences, 71(1), 63-71. https://doi.org/10.1093/gerona/glv126

Prince, M. J., Wu, F., Guo, Y. F., Robledo, L. M. G., O'Donnell, M., Sullivan, R. og Yusuf, S. (2015). The burden of disease in older people and implications for health policy and practice. Lancet, 385(9967), 549-562. https://doi.org/10.1016/S01406736(14)61347-7

Salminen, M., Laine, J., Vahlberg, T., Viikari, P., Wuorela, M., Viitanen, M. og Viikari, L. (2020). Factors associated with institutionalization among home-dwelling patients of urgent geriatric outpatient clinic: A 3-year follow-up study. European Geriatric Medicine, 11(5), 745-751. https://doi.org/10.1007/s41999-020-00338-7

Salminen, M., Stenholm, S., Koskenniemi, J., Korhonen, P., Pitkanen, T., Viikari, P., Wuorela, M., Viitanen, M. og Viikari, L. (2023). Senior health clinic for 75-year-old home-dwelling Finns - study design, clinic protocol and non-response analysis. BMC Health Services Research, 23(1), 210. https://doi.org/10.1186/s12913-02309199-9

Schrijver, E. J., Toppinga, Q., de Vries, O. J., Kramer, M. H. og Nanayakkara, P. W. (2013). An observational cohort study on geriatric patient profile in an emergency department in the Netherlands. Netherlands Journal of Medicine, 71(6), 324-330. Shepperd, S., Cradduck-Bamford, A., Butler, C., Ellis, G., Godfrey, M., Gray, A., Hemsley, A., Khanna, P., Langhorne, P., Mäkelä, P., Mort, S., Ramsay, S., Schiff, R., Singh, S., Smith, S., Stott, D. J., Tsiachristas, A., Wilkinson, A., Yu, L. M., og Young, J. (2022). Hospital at Home admission avoidance with comprehensive geriatric assessment to maintain living at home for people aged 65 years and over: A RCT. Health and Social Care Delivery Research, 10(2), 1-124. https://doi.org/10.3310/htaf1569

Veronese, N., Custodero, C., Demurtas, J., Smith, L., Barbagallo, M., Maggi, S., Cella, A., Vanacore, N., Aprile, P. L., Ferrucci, L., og Pilotto, A. (2022). Comprehensive geriatric assessment in older people: An umbrella review of health outcomes. Age and Ageing, 51(5). https://doi.org/10.1093/ageing/afac104

Wang, X., Hu, J. og Wu, D. (2022). Risk factors for frailty in older adults. Medicine (Baltimore), 101(34), e30169. https://doi.org/10.1097/MD.0000000000030169

Wellens, N. I., Deschodt, M., Boonen, S., Flamaing, J., Gray, L., Moons, P. og Milisen, K. (2011). Validity of the interRAI acute care based on test content: A multi-center study. Aging Clinical and Experimental Research, 23, 476-486. https://doi. org/10.1007/BF03325244

Wellens, N. I., Van Lancker, A., Flamaing, J., Gray, L., Moons, P., Verbeke, G., Boonen, S. og Milisen, K. (2012). Interrater reliability of the interRAI acute care (interRAI AC). Archives of Gerontology and Geriatrics, 55(1), 165-172. https://doi.org/10.1016/j. archger.2011.07.005

Yang, N., Ornstein, K. A. og Reckrey, J. M. (2016). Association between symptom burden and time to hospitalization, nursing home placement, and death among the chronically ill urban homebound. Journal of Pain and Symptom Management, 52(1), 73-80. https://doi.org/10.1016/j.jpainsymman.2016.01.006

Takk fyrir stuðninginn

Avero Motion baðker með hurð á hlið til að auðvelda aðgengi. Hægt er að halla baðkerinu fram og aftur.

Mikið úrval lyftara og baðkera frá Beka Hospitec

Beka Hospitec er þýskt fyrirtæki sem hefur frá árinu 1967 verið leiðandi í hönnun á lyftibaðkerum, lyfturum og öðrum búnaði fyrir heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarheimili.

Avero Premium er vinsælasta baðkerið frá Beka hér á landi. Baðkerið er aðgengilegt frá þremur hliðum sem auðveldar notkun lyftara.

Carlo Alu er mjög léttur og meðfærilegur lyftari sem að mestu gerður úr áli.

Markmið okkar eru að efla heilsu, auka lífsgæði, auðvelda störf og daglegt líf

heilbirgðistækni ehf.

Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.