32 Keflvíkingurinn Magnús Kjartansson er aðal númer Ljósanætur 2016 og kemur fram að minnsta kosti fjórum sinnum á hinum ýmsu viðburðum hátíðarinnar. Magnús er einn af þekktu poppurum bítlabæjarins og landsins og er höfundur margra þekktra laga sem landsmenn þekkja. Fréttamenn Víkurfrétta hittu Magnús og báðu hann að rifja nokkur atriði úr sögu þessa rúmalega sextuga bítils og tónlistarmanns. Og við tókum rölt um hluta gamla bæjarins með popparanum.
VÍKURFRÉTTIR
fimmtudagur 1. september 2016
Keflavíkurrölt með
MAGGA KJARTANS Magnús lyftir höndum með Kirkjuteig 13 í baksýn.
Gamlar myndirn eru úr tónlistarskólanum. Ungir peyjar blása og spila á hljóðfæri undir stjórn Herberts Hriberschek skólastjóra.
Upphafið við Kirkjuteig Magnús flutti ungur á Kirkjuteig 13 í Keflavík en á því heimili ólst upp stórfjölskylda hjónanna Margrétar Gauju og Kjartans Finnbogasonar. Magnús var elstur sex systkina og við hittum kappann í boganum á bakvið Keflavíkurkirkju og báðum hann að rifja upp gamla tíma í tengslum við tónlistina. „Hingað á Kirkjuteiginn flutti stór hópur af fólki á svipuðum aldri og með mörg börn. Krakkarnir hér urðu miklir félagar, m.a. við nokkrir strákar hér í götunni. Við fengum inni í bílskúr og byrjuðum að spila en svo vorum við einnig duglegir í tónlistarnámi, vorum t.d. margir í lúðrasveit sem var stofnuð í barnaskólanum. Þetta var mikil upplifun man ég,“ rifjar Magnús upp og bætir við að í bænum hafi verið tónlistarskóli og mikið tónlistarlíf. „Við vorum margir sem spiluðum uppi á Keflavíkurflugvelli, með „bigbandi“ sem skipað var nokkrum ágætum bæjarbúum hér í bæ. Við ungu strákarnir gengum til liðs við félagana í því. Ég var 12-13 ára, blés í lúðra og bar mig mannalega með körlunum.“ Hafði Kaninn áhrif á tónlistarmenninguna niðurfrá? „Jú, í gegnum útvarpið og sjónvarpið og auðvitað í gegnum vinnuna sem margir fengu við það að spila í klúbbnunum á Vellinum.“ Fyrsta hljómsveitin sem Magnús var í hét Ecco og var stofnuð af honum, Ólafi Kjartans, Jónasi Hördal og Þorsteini Ólafs, síðar markverði Keflvíkinga. Þá spilaði ég á bassa, Jónas á trommur, Óli á gítar og Steini á hljómborð og svo fengum við stundum að æfa uppi á lofti hjá syni héraðslæknisins (Óla) en afi hans bjó þar og átti forláta útvarp sem við gátum allir stungið í samband við og varð þannig fyrsti magnarinn okkar. Við spiluðum mikið í æskulýðsheimilinu
Magnús við Ásabrautina.
og á skólaböllum. Við áttum í mikilli samkeppni við aðra skólahljómsveit sem hét Skuggar. Þeir voru kurteisu strákarnir á meðan við vorum aðeins „aggresífari,“ segir Magnús en þremur árum síðar, þá 15 ára, gengur Magnús í hljómsveitina Óðmenn. „Þá þurfti ég undanþágu til að spila með bandinu svona ungur því við vorum að spila á veitingahúsum í Reykjavík.“ Þegar Óðmönnum sleppir tekur við hljómsveitin Júdas úr Keflavík sem varð mjög vinsæl en í henni voru allt heimamenn með Magnúsi; Finnbogi bróðir Magnúsar, Hrólfur Gunnarsson og Vignir Bergmann. Þeir hafa undanfarin ár mætt galvaskir og spilað á dansleik á Ránni á Ljósnaótt. Þannig lifir Júdas ennþá. Ekki varð næsta grúppa Magnúsar minna vinsæl en hún hét Trúbrot. Það var tímamóta hljómsveit og varð sú vinsælasta um tíma á landinu. „Það voru þung spor,“ segir Magnús sem skildi þá við bróður sinn Finnboga og hljómsveitina Júdas en í góðu auðvitað en þeir bræður hafa stigið tónlistartaktinn mikið saman alla tíð. Maggi rifjar það upp að þegar hann hafi gengið í Óðmenn hafi hann spilað á bassa en Finnbogi á hljómborð. „Þá fékk ég hljómborðið hjá bróður og hann fékk bassann og þannig hefur það verið síðan,“ segir hann og hlær. Þitt líf er bara tónlist og mörgum finnst þú kunna best við þig á sviðinu, spilandi og segjandi sögur á milli laga? „Já, ég þakka mömmu það að ég hef aldrei verið stressaður á sviði því hún spilaði oft undir með mér á píanó þegar ég var í tónlistarskólanum fyrstu árin. Ég var bara að fara inn á svið með mömmu. Hef þess vegna aldrei kviðið því að fara á svið og kann vel við mig þar.“ Tónlistarlíf hefur alltaf verið mjög öflugt í Keflavík og nágrenni og Magnús segir að það hafi verið haldið vel utan um það. Magnús fer fimmtíu
ár aftur í tímann og segir svo: „Vigdís gamla sýslumannsfrú stjórnaði tónlistarfélagi, kórstarf var mikið og almennur söngáhugi. Þetta hefur einhvern veginn alltaf verið blómlegt. Við þurftum að æfa og það var skilningur á því. Við fengum að nota húsakynnin sem voru til staðar á þeim tíma og húsverðirnir voru okkar bestu vinir. Þú verður að æfa þig. Það er grunnurinn að því að verða góður. Það er bara þannig og við gerðum það,“ segir Magnús. Það hefur löngum verið um það rætt hvað margir Suðurnesjamennirnir urðu mjög þekktir tónlistarmenn og popparar. Magnús jánkar því og segir að í næstu kynslóð á undan sér hafi verið kappar á borð við Gunnar Þórðarson og Þóri Baldursson að ógleymdum Rúnari Júlíussyni. Blaðamaður spyr hvort það hafi ekki verið rígur á milli þeirra töffarana? „Nei, þetta var allt í mesta bróðerni og við Rúnar vorum miklir vinir. Hann var eldri en ég og hann tók mig að sér, það var mér ómetanlegt hvað hann hélt utan um mig og hjálpaði mér mikið. Þannig var andinn á þessum tíma og birtist í fleiri myndum. Við strákarnir fengum t.d. ungir vinnu hjá körlunum sem voru í lúðrasveitunum og voru með fyrirtæki, hjá Ragga bakara til dæmis. Það var rík samstaða í Keflavík og góð tengsl á milli manna sem hjálpuðu til í þessu öllu.“
Endaði í partý í horninu þar sem hann fæddist Í viðtali okkar við Magnús vildi hann sýna okkur hvar hann fæddist. „Ertu til í að smella mynd af mér þar. Mig langar að eiga hana,“ sagði hann. Við fórum að Ásabraut 9 í Keflavík og röltum að húsinu sem er tvíbýli. „Nei, ég man nú ekki mikið eftir þessum tíma enda var ég hér bara fyrstu 3-4 ár ævi minnar en man þó þegar ég var einu sinni sendur út í búð að kaupa kaffibæti fyrir mömmu. En svo, ótrúlegt en satt, kom ég einu sinni í partý eftir ball í Stapa í húsið sem ég fæddist í. Mér þótti það ansi skemmtilegt. Settist út í hornið þar sem ég fæddist.
Var með vangaveltur og þagnaði um stund, sem gerist nú ekki oft. Hér fæddist ég, hugsaði ég með mér. Það er gaman að rifja þetta upp.“
Þú spilaðir mikið í Stapanum sem nú er orðin Hljómahöll? „Mér þykir afar vænt um Stapann og Hljómahöllina. Þetta er gríðar mikil lyftistöng og mjög jákvætt. Ég veit að þetta var dýrt en mér finnst þetta stórkostlegt hvernig til hefur tekist. Aðstaðan þarna er frábær og í samræmi við hugsunina í bænum.“ Ásabraut í Keflavík í byggingu.