2 minute read
Margt áhugavert í Víkurfréttum í dag
Fyndinn og fjörugur Benedikt
Leikfélag Keflavíkur sýnir um þessar mundir leikritið um Benedikt búálf eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson. Undirritaður átti þess kost að mæta á frumsýninguna ásamt átta ára gömlum afastrák og skemmtum við okkur konunglega. Ingrid Jónsdóttur, leikstjóra, tekst ekki aðeins að gera sýninguna áhugaverða og skemmtilega fyrir unga fólkið heldur einnig þá fullorðnu. Það gerir hún meðal annars með því að nýta sér nándina í Frumleikhúsinu með hnyttnum samtölum og samskiptum leikaranna við hljómsveitina og leikhúsgesti þegar þeirra er síst von. Frábær aðferð sem svínvirkaði.
Leikararnir standa sig allir mjög vel, hvort heldur er í leik eða söng. Aðalhlutverkin eru í höndum Jóns Ragnars
Magnússonar, sem leikur Benedikt búálf, og Helgu Rutar Guðjóns dóttur, sem leikur Dídi mannabarn, og er frammistaða þeirra frábær. Önnur burðarhlutverk eru í höndum Gunnars Gústavs Logasonar, sem leikur Aðalstein álfakonung, og Brynju Ýr Júlíusdóttur, sem leikur Brynhildi álfadrottingu. Brynja Ýr syngur stærstu
lögin í sýningunni og gerir það óaðfinnanlega en tónlist Þorvaldar Bjarna, við texta Andreu Gylfa, er ekki alltaf auðveld viðureignar. Þéttur undirleikur hljómsveitarinnar, sem er skipuð þeim Sigurði Smára Hanssyni, Ingvari Elíassyni, Davíð Mána Stefánssyni og Guðlaugi Ómari Guðmundssyni, styður vel við söngvarana. Guðlaugur Ómar leikur jafnframt eitt burðarhlutverkanna, Sölvar súra, eftir hlé.
Senuþjófurinn fyrir hlé er Unnar Már Pétursson, sem leikur Jósafat mannahrelli, en hann brillerar í því hlutverki. Senuþjófurinn eftir hlé er Tara Sól Sveinbjörnsdóttir sem leikur Daða dreka. Aðrir leikarar eru Þórhildur Erna Arnardóttir, sem leikur Tóta tannálf, og þau Andri Sævar Arnarsson, Hafdís Eva Pálsdóttir, Klaudia Kuleszewicz og Magnús Már Newmann sem leika, syngja og dansa hlutverk álfanna. Hópurinn á sviðinu er þéttur og þrautþjálfaður, skemmtileg blanda reyndra félaga Leikfélagsins ásamt nýjum andlitum.
Leikfélag Keflavíkur hefur á að skipa stórum hópi mikilvægra bakhjarla sem sjá um ljósa- og tæknimál, leikmynd, grafík, búninga, hár o.s.frv. Í öllu því góða fólki felst mikill fjársjóður fyrir félagið.
Uppfærsla Leikfélags Keflavíkur á Benedikt búálfi er heilsteypt og bráðskemmtileg sýning sem á fullt erindi til barna og fullorðinna. Heildarsýningartími með hléi er innan við tvær klukkustundir og mikill kraftur og fjör allan tímann.
Um leið og ég þakka fyrir mig færi ég Leikfélagi Keflavíkur mínar bestu hamingjuóskir með bráðfjöruga, lifandi og kraftmikla sýningu sem ég mæli með að bæjarbúar láti ekki fram hjá sér fara.
Kjartan Már Kjartansson