4 minute read
Klárum þetta verk! – segir Reynir Brynjólfsson sem vann við lagningu Keflavíkurvegar fyrir 55 árum.
Í október í ár verða 55 ár liðin síðan Keflavíkurvegurinn var formlega opnaður. Árið 1960 hófst lagning nýs vegar og átti sá vegur að vera steyptur. Vinnan tók fimm ár. Guðmundur Einarsson, verkfræðingur, var tæknilegur framkvæmdastjóri Íslenskra aðalverktaka og þar með ábyrgur fyrir lagningu Keflavíkurvegarins af hálfu verktakanna á þessum tíma.
Klukkan tíu um morguninn þann 26. október 1965, í slagveðursrigningu, óku fyrstu bílarnir hinn nýja veg. Það var ekki ókeypis að aka um veginn nýja og mjög umdeildur vegatollur var innheimtur í sérstökum gjaldskýlum við Straum. Gjaldið fór illa í marga. Kveikt var í skýlinu fáeinum dögum fyrir opnunarathöfnina en þá var byggt nýtt skýli.
Árið sem Keflavíkurvegurinn var opnaður var Reynir Brynjólfsson þrítugur að aldri og vann hjá Íslenskum aðalverktökum sem sáu um að leggja veginn frá Hafnarfirði til Njarðvíkur. Víkurfréttir kíktu í heimsókn til Reynis þar sem hann býr í Álfagerði í Vogum. Kappinn er 85 ára, hress og liggur ekki á skoðun sinni um stöðuna á veginum sem nú kallast Reykjanesbraut í daglegu tali.
Hraunmulningur notaður í að undirbyggja
„Ég vann hjá Íslenskum aðalverktökum í tæp 43 ár. Það var árið 1964 sem við byrjuðum að framlengja veginn frá Kúagerði, steyptan veg. Íslenskir aðalverktakar voru þá búnir að steypa veginn frá Hafnarfirði að Kúagerði. Við byrjuðum á því að undirbyggja frá Kúagerði og tekið var hraun þaðan sem notað var undir í nokkrum lögum. Þá voru ýtur sem ýttu hrauninu saman og mokuðu upp á stóra vörubíla sem dreifðu hraunmulningnum á vegstæðið. Þungir valtarar þjöppuðu þessu efni svo saman. Hraunið virtist vera mjög gott efni. Hólar í vegstæði á leiðinni voru sprengdir og notað efnið sem kom úr því. Þetta var endurvinnsla. Við náðum að fara með þetta á miðja Strandarheiði en fluttum okkur í Grindavíkurhraun og tókum efni þaðan. Hraunmulningurinn þaðan var notaður í undirlagið frá Strandarheiði til Njarðvíkur,“ segir Reynir.
Vinnuhópurinn ekki stór Á þessum tíma voru margir að bíða eftir að fá betri veg suður með sjó en leiðin var fjölfarin, jafnvel á þessum tíma eins og lesa mátti í gömlum fréttum frá árinu 1965. Mannskapurinn var ekki fjölmennur sem vann við að búa til Keflavíkurveginn eins og hann var kallaður þá.
„Við vorum ekkert rosa margir sem unnum við þessa vegagerð. Það voru tveir til fjórir ýtumenn, ég og annar á vélskóflu, tveir á valtara. Svo voru fimm til sex risastórir vörubílar en þeir eru of þungir á almenna vegi,“ segir Reyni.
Sérstakar vélar keyptar
Reynir hefur gott minni og rekur söguna um tilurð vegarins sem áður var holóttur og vondur yfirferðar áður en hann, ásamt samstarfsfélögum ÍAV, steyptu einbreiðan veg.
„Nú erum við komin suður í Njarðvík og þá notuðum við undirlag undir steypuna úr Stapafelli á allan veginn. Það voru keyptar sérstakar vélar fyrir
framkvæmdina. Á Stapa var sett upp steypustöð og einnig borað fyrir vatni. Steypustöðin og niðurlagningarvél fyrir steypu voru keypt fyrir þetta verkefni. Við vorum í heilt ár að undirbúa veginn sem opnaði haustið 1965. Eftir að við vorum búnir að steypa Keflavíkurveginn, sem er oftast nefndur Reykjanesbraut í dag, þá fórum við að malbika neðri veginn til Keflavíkur og svo seinna fórum við í að malbika veginn fyrir ofan Keflavík að Leifsstöð,“ segir Reynir.
Það voru ekki allir par ánægðir með gjaldtökuna við Keflavíkurveginn sem stóð yfir í nokkur ár. Gamli Keflavíkurvegurinn, úr möl og holóttur, var við hlið þess nýja sem var steyptur, rennisléttur og fínn. Þeir sem tímdu ekki að borga fyrir að keyra á nýja veginum hossuðust því áfram á gamla veginum sem ennþá sést móta fyrir í dag. Vegatollurinn var á veginum frá 1965 þegar hann var tekinn í gagnið og fram til 1972. Tollskúrinn var til móts við Straumsvík.
Mikil óánægja með gjaldtöku
„Settur var upp skúr undir Straumsvík í aðra áttina og fólk þurfti að borga fyrir hverja ferð. Það voru ekki allir ánægðir með þessa gjaldtöku. Traffíkin um veginn átti að hjálpa ríkinu að borga fyrir veginn með gjaldtökunni sem var í nokkur ár. Steypan dugði í mörg ár en svo fóru að koma hjólför í veginn og þá varð hún hættuleg í bleytu. Það var rándýrt að nota steypu í veginn en þetta þótti besta efnið á þeim tíma,“ segir Reynir.
Tvöföldun á að vera í forgangi
„Það er með ólíkindum að þessi framkvæmd sem hófst fyrir 55 árum skuli ekki vera komin lengra. Umferðin í dag er allt önnur og miklu meiri en hún var á þeim tíma sem vegurinn var opnaður og tvöföldun á að vera í forgangi hjá ríkinu. Það hlýtur að vera kominn inn óhemju mikill peningur frá öllum þessum sköttum sem lagðir eru á bifreiðaeigendur. Það eru alls konar gjöld sem búið er að rukka íslensku þjóðina um. Hvar eru allir þessir sjóðir? Hvar eru peningarnir þegar við þurfum á þeim að halda? Það kom berlega í ljós þegar óveðrið var í desember, að peningar sem eiga að vera eyrnamerktir í ofanflóðasjóð voru það ekki. Það þarf að setja peningana sem eru eyrnamerktir í þessa framkvæmd, svo að tvöföldun verði kláruð á þessu ári, á 55 ára afmæli þessa fjölfarna vegar,“ segir Reynir með áherslu en umferðartölur segja að um tuttuguþúsund bílar aki um Reykjanesbraut daglega. Til samanburðar er helmingi minni umferð um Suðurlandsveg.