1 minute read
LÍFSINS VERKEFNI - LEITIN AÐ JAFNVÆGI
STAÐNÁMSKEIÐ
Á námskeiðinu gefst þátttakendum tækifæri til að kynnast sjálfum sér, læra að þekkja eigin viðbrögð við hinum ýmsu verkefnum lífsins og taka eftir því hvar hægt er að gera breytingar. Fjallað er um mikilvægi næringar fyrir líkama og sál en lögð er áhersla á að þátttakendur geti fundið góða leið í fæðuvali.
Advertisement
Anna Lóa Ólafsdóttir heldur utan um hópinn og kennir fjórum sinnum á námskeiðstímanum. Í byrjun skoðar hún með þátttakendum breytingar, hvort og þá hverju þú vilt breyta. Hvernig breytingar geta haft áhrif á þitt líf. Þá er líf í jafnvægi skoðað, hver eru einkenni álags, hvaða áhrif hefur álag og hvaða leiðir eru til að stjórna því. Anna Lóa fer einnig í sjálfstraust, samskipti og svo hamingjuna og hvernig er hægt að stýra henni. Í gegnum viðfangsefni sín heldur Anna Lóa rauðum þræði í gegnum allt námskeiðið. Til þess er m.a. notuð dagbók sem þátttakendur fá.
Ólöf Guðný Geirsdóttir kennir næringarhluta námskeiðsins. Matur og næring er undirstaða lífs og í þessum hluta er farið yfir hvað skiptir máli þegar við tölum um heilsu og líðan okkar. Hvað hefur áhrif á fæðuval? Vitum við hvað er gott fyrir okkur? Hvað er hollt og gott? Með því að þekkja áhrifavalda eins og samfélagsmiðla, félagslegan þrýsting og menningarleg norm hvað varðar fæðuval getum við fundið okkar eigin leið í átt að betri líðan.
Þriðja viðfangsefni námskeiðsins er gagnreynda meðferðarformið ACT sem Hjördís Inga Guðmundsdóttir kennir. ACT telst til þriðju bylgju hugrænnar atferlismeðferðar og miðar að því að auka sálfræðilegan sveigjanleika. ACT byggir á þeirri kenningu að í stað þess að bæla eða forðast sársaukafulla atburði þá séu núvitund og samþykki sveigjanlegri viðbrögð gagnvart áskorunum lífsins. Með því að upplifa hugsanir okkar, líkamleg viðbrögð og tilfinningar á sveigjanlegri hátt getum við dregið úr neikvæðum afleiðingum þeirra.
Kennsla: Anna Lóa Ólafsdóttir, kennari, náms- og starfsráðgjafi með MA-diplóma í sálgæslu. Hjördís Inga Guðmundsdóttir, sérfræðingur í klínískri sálfræði fullorðinna með sérmenntun í hugrænni atferlismeðferð og viðbótarmenntun í ACT. Ólöf Guðný Geirsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.