Páll Guðjónsson
Fólkið bak við starfsemina
Fyrir ofan er stjórn Fjallahjólaklúbbsins eins og hún var kosin á síðasta aðalfundi. Fremstur til vinstri er Þórður formaður. Síðan Hrönn gjaldkeri sem gerir flest sem gera þarf svo sem að halda utan um félagatalið, opin hús, þriðjudagsferðir, dags- og helgarferðir. Tryggva þekkja allir sem koma í opnu húsin okkar sem snilldar bakara. Sjálfur er ég lengst til vinstri í aftari röðinni, ritari klúbbsins, ritstjóri Hjólhestsins og heimasíðunnar. Síðan koma Geir og Fjölnir sem líka sinna ýmsum hlutverkum. Fleiri koma að starfseminni s.s. í ferðanefnd og húsnefnd.
Á síðasta ári var gerður nýr húsaleigusamningur um áframhaldandi veru okkar á Brekkustíg 2. Síðasti samningur var frá 1999 svo eðlilega hækkaði leigan aðeins sem gerir það að verkum að á aðalfundinum var ákveðið að hækka félagsgjöldin lítillega í fyrsta skipti síðan 2017. Einstaklingsaðild verður 3.500 kr. og fjölskylduáskrift 4.750 kr. Einnig geta ungmenni undir 18 skráð sig fyrir 2.500 kr.
Að öðru leiti heldur starfsemin sínu striki. Opið hús verður áfram fyrsta og þriðja fimmtudag hvers mánaðar kl. 20 á Brekku -
stíg 2. Þriðjudagskvöldferðirnar halda áfram í sumar með breytilegum brottfararstöðum. Það verða helgarferðir, dagsferðir og ýmislegt skipulagt með stuttum fyrirvara þegar okkur dettur það í hug. Fylgist með okkur á Facebook til að missa ekki af og skráið ykkur á póstlistann á forsíðu heimasíðunnar því við sendum af og til póst á hann um það sem er á döfinni.
En þó margir í stjórn og nefndum hafi staðið í brúnni fjöldamörg ár er alltaf tekið vel á móti nýju fólki og gott að endurnýja í stjórn og nefndum. Sumir standa vaktina í einhver ár, taka frí en koma svo aftur, það er allur gangur á því. Endilega komið og takið virkan þátt í starfinu með okkur.
Klúbbhúsið Brekkustíg 2
Viðgerðaraðstaða á neðri hæðinni, kaffi og spjall uppi þegar við erum með opið hús 1. og 3. fimmtudagskvöld hvers mánaðar. Fylgist með dagskránni á vef klúbbsins og skráið ykkur á póstlistann til að fá tilkynningar um viðburði sem eru oft skipulagðir með stuttum
fyrirvara því við viljum hafa gaman af lífinu og skipuleggjum okkur ekki um of. Allir velkomnir, félagsmenn og aðrir.
Afslættir til félagsmanna
Allar helstu hjólaverslanir veita félagsmönnum ÍFHK veglegan afslátt gegn framvísun félagsskírteinis og einnig tugir annarra aðila með útivistarvörur, ljósmynda vörur, rafvörur, tónlist, málningu og m.fl. Skoðið listann á vef klúbbsins:
fjallahjolaklubburinn.is Markmið félagsins er að auka notkun reiðhjóla og vinna að bættri aðstöðu hjólreiða fólks til samgangna þó við störfum undir þessu gamalgróna nafni. Náin samvinna er við Landssamtök hjólreiðamanna en allir félagar ÍFHK, Hjólreiðafélagi Reykjavíkur, Hjólreiðafélagi Akureyrar, Hjólreiðasambandi Íslands auk Reiðhjólabænda eru jafnframt í LHM.
Félagsgjaldið er aðeins 3500 kr.
4750 kr. fyrir fjölskyldur, 2500 kr. fyrir yngri en 18 ára. Einfaldar leiðbeiningar á heimasíðu fjallahjolaklubburinn.is > klúbburinn > Gangið í klúbbinn
Hjólhesturinn, fréttabréf ÍFHK
1. tölublað 32. árgangur, mars 2023
Eldri Hjólhesta má lesa á heimasíðunni.
Útgefandi: Íslenski fjallahjólaklúbburinn. Klúbbhúsið, Brekkustíg 2, 101 Reykjavík. Netfang ifhk@fjallahjolaklubburinn.is
Heimasíða: fjallahjolaklubburinn.is
FB: facebook.com/fjallahjolaklubburinn
Ábyrgðarmaður, ritstjóri og umbrot: Páll Guðjónsson.
Próförk: Páll Guðjónsson
Myndir flestar frá greinahöfundum. Forsíðumynd: Hrönn Harðardóttir
Athugið: Skoðanir greinahöfunda eru þeirra eigin og endurspegla ekki endilega skoðanir stjórnar eða annarra félaga Íslenska fjallahjólaklúbbsins.
© 2023 Íslenski fjallahjólaklúbburinn.
Vinsamlega getið um uppruna efnis ef þið vitnið í það eða endurbirtið efni.
Helgarferðir 2023
12-14 Maí. Samkvæmt hefð verður Eurovision teiti, við höfum bara ekki ákveðið hvar það verður. En við munum hjóla eitthvað, sei sei. Og svo hafa gaman um kvöldið, horfa á Eurovision, et, drekk og ver glöðr. Hjólaleiðirnar verða í léttari kanntinum, um 30 km og lítið um brekkur. Það verður gist í bústað eða á hóteli.
Það er svolítið erfitt að skipuleggja tjaldferðalög á íslandi. Vegna veðurs. Þess vegna ætlum við að hafa fljótandi dagskrá og ákveða með stuttum fyrirvara hvert við förum. Auðvitað förum við þangað sem besta veðrið verður. En til að fólk geti skipulagt sig, þá neglum við niður 3 dagsetningar.
23-25 júní – Hvammstangi ( Fljóthlíð og Akranes til vara )
21-23 júlí – Fljótshlíð ( Akranes og Hvammstangi til vara )
11-13 ágúst – Akranes ( Fljótshlíð og Hvammstangi til vara )
Allar þessar ferðir eru í léttari kanntinum og allir sem geta á annað borð setið á hnakk og hjólað í klukkutíma geta tekið þátt. Við gistum á tjaldsvæðum og förum út að borða. Hver og einn á eigin vegum, en við getum sameinast í bíla og tekið þátt í ferðakostnaði. 6000 til Hvammstanga (báðar leiðir), 3000 til Hvolsvallar og 1500 til Akraness. Hver ferð verður auglýst með nánari dagskrá þegar nær dregur.
Dagsferðir 2023
Dagsferðir verða farnar með stuttum fyrirvara þegar veður er með skaplegra móti. Verða auglýstar á Facebook síðunni okkar með 1-2ja daga fyrirvara.
Heiðmörk. Hjólað um fallega skógarstíga steinsnar frá Höfuðborginni.
Melasveit - Ölver. Vð byrjum hjólaferðina við Melasveitarveg (505) og hjólum fyrst í Ölver. Tökum hring í sveitinni, samtals 30 km. Leiðin er létt, erfiðleikastig 4 af 10. Malbik, malarvegur og sendnir moldarslóðar. 1 km sem þarf kannski að leiða hjólið. Lítið um brekkur. Hentar öllum sem eru vön hjólreiðum.
Dyrafjöll við Nesjavallaleið. 12 km hringur á grófum malarslóðum. Það gæti þurft að leiða hjólið upp bröttustu brekkurnar, en á móti kemur að það er líka farið niður brekkur. Gróf dekk æskileg og gefum okkur 3-4 tíma í ferðina. Erfiðleikastig 6 af 10. Einungis fyrir fólk í góðu formi. Og þá frekar góðu gönguformi, því þetta er hjóla/gönguferð með náttúruskoðun, slóri og blómþefun. Hér gætu rafhjól komið sterkt inn.
Mynd: Hrönn Harðardóttir
Þriðjudagskvöldferðir
Við ætlum að breyta til og hafa brottfarir í sumar frá mismunandi stöðum. Svo við getum stækkað hjólasvæðið og gefið hverju hverfi meira pláss. Við ætlum að fara frá Hlemmi allan maí, Laugardal í júní, Mjódd í júlí og svo verður nýr staður alla þriðjudaga í ágúst. Best er að fylgjast með viðburðum á Facebook síðunni okkar, þar verður brottfararstaður gefinn upp fyrir hvern þriðjudag. Brottfarartími verður sá sami 19:30.
Myndir úr þriðjudagskvöldferðunum Hrönn Harðardóttir
Fylgist með
Við erum með viðburðaalmanak á heimasíðunni þar sem við skráum viðburði í klúbb húsinu, hjólaferðir á höfuð borgarsvæðinu, lengri ferðalög og einnig áhugaverða viðburði skipulagða af öðrum en okkur.
Við sendum einnig fréttapósta á póstlistann okkar þegar eitthvað er á döfinni, endilega skráið ykkur á hann á forsíðu heimasíðunnar, fjallahjolaklubburinn.is.
Einnig er gott að „líka við“ Facebook síðu klúbbsins fyrir minni tilkynningar og einnig er spjallgrúppa á Facebook með nafni klúbbsins þar sem félagsmenn mega spyrja og spjalla um allt milli himins og jarðar.
Klúbbhúsið okkar
Við erum með opið hús fyrsta og þriðja fimmtudag hvers mánaðar í klúbbhúsinu okkar Brekkustíg 2. Þar er ágætis aðstaða fyrir 20-30 manns á efri hæðinni, þar sitjum við í mesta bróðerni, sötrum kaffi, ræðum heimsmálin, hjólamálin og þjóðmálin. Það verða haldin kompukvöld, myndasýningar,, viðgerðanámskeið og ýmsar óvæntar uppákomur sem við kynnum á póstlistanum okkar eða Facebook síðu klúbbsins.
Á jarðhæð er viðgerðaraðstaða fyrir félags fólk. Öll áhöld til viðgerða eru til staðar en ætlast er til þess að fólk geri við sjálft og gangi fallega um aðstöðuna.
Takið þátt í starfinu
Klúbburinn rekur sig ekki sjálfur en þegar margir leggja hönd á plóg verður þetta allt auðveldara og skemmtilegra. Ertu með hugmynd að nýju verkefni eða viltu taka við og leiða hefðbundin verkefni klúbbsins?
Saman búum við yfir mikilli reynslu og erum til í að prófa nýja hluti.
Það er enginn starfsmaður á launum til að vinna verkin svo okkur vantar ekki bara hugmyndir heldur líka fólk til að framkvæma þær. Endilega hafið samband ef þið eruð með tillögur eða viljið koma inn í starfið með virkum hætti. Við erum grasrótarsamtök og ekki mikið fyrir að flækja hlutina fyrir okkur.
Hrönn Harðardóttir Eldgos í Meradölum
19. september 2021 hjólaði ég upp á Langahrygg, horfði yfir eldstöðvarnar í Geldingadal og hugsaði „Þetta er búið...“
Já, eldgosinu lauk 18 september, en ég náði
að fara 8 sinnum upp að gosinu á meðan það var virkt, þar af tvisvar með félögum úr Fjallahjólaklúbbnum.
Ég hélt að það myndu líða einhver ár,
jafnvel áratugir áður en við fengjum annað gos jafn nálægt byggð, en nei, 3. ágúst hófst eldgos í norðanverðum Meradölum. Þar eð ég var á leið á skurðarborðið 5 ágúst, ákvað ég að drífa mig upp að gosinu, svo ég gæti yljað mér við minningarnar á meðan ég lægi á sjúkrabeði. Sé ekki eftir því, þetta varð eina ferðin mín að eldgosinu í Meradölum. Ég var búin að plana ferð með Fjallahjólaklúbbnum, um leið og ég yrði gróin sára minna.
Ég hjólaði allar helstu leiðir á sem voru færar reiðhjólum sumarið 2021 og þess vegna vissi ég hvar best var að fara til að koma að gosinu þegar það hófst. Gasmengunin getur verið hættuleg ef vindátt er óhagstæð og ef reykurinn fer undan vindi í ranga átt, þá er ekkert útsýni og þar eð fólk þurfti að ganga eða hjóla yfir 20 km til að komast að gosstöðvunum, þá var nauðsynlegt að það væri skaplegt veður.
Ég fór á venjulegu reiðhjóli með mjóum dekkjum. Hefði betur verið á grófari dekkjum, það var nýbúið að setja möl ofan í veginn og hún var það gróf að ég þurfti að ganga 2ja km kafla á meðan hjólarar á grófari dekkjum þeystu fram hjá mér. Svo þurfti ég að teyma hjólið upp síðustu brekkuna, ég hefði vel
getað geymt það fyrir neðan hana, en hei, hluti af prógramminu var að taka töff sjálfu. Ég ætlaði að vera þarna fram í myrkur og hjóla svo heim um miðja nótt. En æ... hjólaljósin urðu eftir heima á náttborðinu. Ég stakk þeim í samband til að vera örugg um að það væri næg hleðsla á þeim. Svo bara gleymdust þau í æsingnum yfir gosinu. Ég varð að hjóla til baka á meðan ég hafði einhverja birtu. Ég var í góðum endurskinsfatnaði og sem betur fer með varavara ljósin, stórmarkaðsljós sem lýsa mér ekki, en aðrir vegfarendur sáu mig.
Þar eð gosið byrjaði með látum og var mun tilkomumeira en gosið sem hófst í Geldingadal taldi ég (og allir aðrir) að gosið myndi vara nokkra mánuði. Ég planaði ferðir með sonum mínum, sem og félögum í Fjallahjólaklúbbnum, en það var mikill áhugi á að fara og skoða gosið. En gosinu lauk jafn skyndilega og það hófst. 20 ágúst var allt búið. Í bili. Það má búast við frekari jarðhræringum og eldgosum á Reykjanesi í nánustu framtíð. Bara spurning hvort það eru nokkrir mánuðir í næsta. Eða ár. Eða áratugir. En þetta var gaman og minningarnar ylja.
Svíþjóð – Danmörk 2022 Grétar William Guðbergsson
Miðvikudagur, 22. júní
Nú var komið að hjólaferð ársins erlendis, Svíþjóð og Danmörk, ekki það að ég sé að fara utan að hjóla á hverju ári. Ég gat „platað“ einn félaga minn til að skutla mér upp á flugvöllinn, við fórum að heiman um hálf átta og rúmlega ellefu í loftið. Það var góður meðvindur því rúmlega þriggja tíma flugið tók aðeins um tvær og hálfa klst. Guðrún og Guðbjartur tóku á móti mér á vellinum í Köben og strax var farið í að setja hjólið saman og gera það klárt fyrir lestarferðina til Gautaborgar. Þar sem flugið tók skemmri tíma en áætlað var náðum við hálf sex lestinni til Gautaborgar, í stað þeirrar sem við vorum búin að áætla kl. hálf sjö. Það var reyndar um tuttugu mínútna seinkun á henni, þannig að hún kom ekki fyrr en um tíu mínútur í sex. Eftir nokkuð þægilega lestarferð komum við til Gautaborgar um hálf tíu. Þaðan hjóluðum tæplega við fjögurra km hjólaferð til vandræðaheimilisins, STF
Göteborg / Stigbergslidens Vandrarhem, þar sem við ætluðum að gista. Ég sagði vandræðaheimili, en það er bara vegna þess að farfuglaheimili á sænsku er Vandrahem og nánast það sama á dönsku, þannig að við töluðum um vandræðaheimili í ferðinni.
Fimmtudagur, 23. júní
Fór á fætur um hálf sjö eftir frekar svefnlitla nótt, hafði reyndar ekkert sofið neitt sérlega vel næturnar þar á undan. Eftir hefðbundin morgunstörf lögðum við af stað um klukkan níu. Það var skýjað og ekkert allt of hlýtt. Það tók smá tíma og leit að finna réttu leiðina frá gistiheimilinu að uppafi Kattegat leiðarinnar sem við ætluðum að hjóla. En að lokum fundum við skilti sem sagði Kattegat leden og þurfti nú bara að fylgja þessum skiltum að við héldum en annað koma á daginn. Við náðum að villast. Fórum m.a. voða góða leið, að við töldum, en hún
endaði á stíg sem var aðeins fyrir fótgangandi og með tröppum. Þannig að við fundum aðra góða leið en hún endaði við læst hlið og í fljótu bragði sýndist mér herbílar vera fyrir innan girðinguna. En hvað um það, áfram hélt leitin og að lokum fundum við leiðina.
Á einum stað lá leiðin um nes og ætluðum við að stytta okkur leið og fara til Kungsbacka. Ef eitt skilti hefði verið skoðað betur hefðum við ekki gert þau mistök en eftir þetta ákváðum við að skoða skiltin betur. Þetta, ásamt fleiri villum þennan dag lengdi dagleiðina um u.þ.b. 23 km og munar um minna. Þetta varð til þess að í stað þess að fara á það tjaldsvæðið í Frillesås eins og áætlað var enduðum við í Åsa sem er ca. fimm km. styttra til enda komnir um 85 km á níu og hálfum tíma. Það var komið gott fyrir daginn. Við komum þangað um hálf fimm. Ég var orðin nokkuð þreyttur eftir svefnlitlar nætur á undan. Við slógum upp tjöldunum, fórum í sturtu og svo á matsölustað við ströndina til að fá okkur að borða. Að því loknu fórum við í ICA búð og keyptum okkur morgunmat o.fl. og slökuðum svo á fyrir svefninn. Plássið sem mátti tjalda á var ekki mjög stórt, það var upp á hól og grjót og björg allt í kring. En það kom á óvart hvað það var gott að tjalda þar og var bara nokkuð „cozy“. Það var skýjað mest allan daginn, hitinn um 17°C og töluverður vindur, mótvindur að sjálfsögðu, en sólin fór
að skína þegar leið á daginn og þá hlýnaði eins og gefur að skilja.
Föstudagur, 24. júní
Eftir hefðbundin morgunstörf í tjaldferðalagi lögðum við af stað um klukkan níu. Nú var heiðskírt og hlýtt, hitinn yfir tuttugu gráður. Við byrjuðum á að borga fyrir tjaldstæðið og fórum svo í búð til að kaupa nesti fyrir daginn. Fyrir utan búðina var maður að flétta körfur, gaman að fylgjast með honum og hvað hann var ótrúlega fljótur að þessu, augljóslega vanur maður á ferð. Svo lögðum við af stað með bros á vör. Hvernig skyldi nú ganga í dag? Jú, nú gekk þetta mun betur en fyrri daginn. Nokkuð greið leið þó við færum ekki alveg eftir
leiðarlýsingunni á Kattegat leiðinni enda hefði það lengt leiðina eins og við lentum í daginn áður. Það var svo sem aldrei ætlunin að fylgja allri leiðinni nákvæmlega eins og áður hefur komið fram. Við ákváðum að stoppa á tíu km. fresti til að hvíla rassinn og drekka vatn eða annan vökva. Það munaði um það enda hitinn kominn vel yfir tuttugu gráðurnar. Það var samt svolítið hvasst sem hafði bæði kosti og galla, vindurinn kældi aðeins en hann var einnig á móti þannig að það var erfiðra að hjóla. Stuttu eftir að við fórum í gegnum bæinn Lindhov komum við auga á bekk þar sem við settumst niður og fengum okkur að borða, enda klukkan orðin hálf eitt. Þaðan var stutt í Varberg þar sem við rákumst á ísbúð sem „neyddumst“ til að stoppa hjá, mikið var það nú gott enda hitinn komin í um tuttugu og fimm gráður. Þar voru tveir menn að forvitnast um okkur og alls búnaðarins á hjólunum. Þeim fannst þetta frábært en voru svolítið undrandi á þessu. Á meðan á ísátinu stóð datt hjólið mitt á hliðina. Obb bobb bobb, eins gott að mennirnir voru
farnir. Þegar við kláruðum ísana og ætluðum að leggja af stað og reisti ég hjólið við og sá að standarinn hafði brotnað. Þá veit maður það, það er nauðsynlegt að vera með auka standara í svona ferð, og var ég reyndar með einn slíkann! Það var standari á vinstri töskuberanum að framan, sem var aðeins of stór fyrir þetta hjól og því ónothæfur. Hann rétt passaði á Skodann sem er fjallahjól með stærri dekk, 29 tommu. Ég notaði töskuberana og standarann á því hjóli síðast. En sem betur fer var hann þarna. Þennan daginn þurftum við helst að stoppa einhvers staðar þar sem ég gat lagt hjólið upp við eitthvað. Það var fullþungt til að draga það upp ef það var lagt á hliðina. Ferðin til Olafsbu var svo viðburðarlaus, nema að við komum að litlum mjög litríkum skúr með bekk og fullt af alls kyns kynningarbæklingum og þess háttar. Enda var hann merktur með I – information. Þegar við komum til Olofsbu að tjaldstæðinu, sem var með sérstöku rjóðri fyrir tjöld, reistum við tjöldin, fengum við okkur snarl, fórum í sturtu og svoleiðis. Ég
skipti um standarann og stillti stýrið betur. Ætlaði að vera búinn að því kvöldið áður en gleymdi því. Við Guðrún fórum svo í búðina á tjaldstæðinu til að kaupa okkur eitthvert snarl og borðuðum svo það sem við áttum afgangs eftir daginn. Síðan fórum við aftur í búðina rétt fyrir lokun til að fá okkur ís, hvað annað? Þess má einnig geta að á skilti við tjaldstæðið, sem benti í hina áttina, stóð: Olofsbu Islandshästar. Þannig að það eru einhverjir með íslenska hesta þarna.
Þar sem spáð var rigningu seinni part og að kvöldi næsta dags ákváðum við að panta herbergi á hóteli á næsta áfangastað í Halmstad í ca. 61 km fjarlægð. Svo spjölluðum við áður en við skriðum í tjöldin.
Við hjóluðum rúma 61 km á rúmum tíu tímum.
Laugardagur, 25. júní
Fór á fætur um hálf sjö og eftir allt þetta hefðbundna lögðum við af stað um hálf níu. Veðrið var fínt, hlýtt og léttskýað, eða há þunn ský, sem var ágætt því að þá er ekki
eins heitt. Það var um 8 km spotti í næstu búð í Falkenberg. Þegar þangað kom fengum við okkur nesti fyrir daginn og héldum áfram um sveitir landsins. Ekkert merkilegt svo sem þannig séð, fórum í gegnum nokkra bæi og svoleiðis en stoppuðum svo við gamla fallega
brú. Fyrir ofan hana var stífla og að því virtist, laxastigi eða eitthvað svoleiðis við einhverja nútímabyggingu sem gæti verið stöðvarhús þar sem það stóð við stífluna.
Um hálftíma seinna stoppuðum við til að kíkja á strandlífið við bæinn Småris. Þar komum við einnig við í búð til að fá okkur ís, hvað annað, og fleira. Við héldum svo áfram í um klukkustund áður en við stoppuðum um hálf eitt rétt við bæinn Steninge fyrir hádegismat. Nú virtumst við vera komin í landbúnaðarhérað. Við sáum meira af ökrum og þess háttar. Fórum meðal annars fram hjá fallegri vindmyllu, en að öðru leiti var ferðalagið til Halmstad frekar tíðindalítið. Fórum framhjá eða í gegnum nokkra bæi, t.d. Haverdal og Gullbrandstorp. Þegar við nálguðumst Halmstad fórum við framhjá flugvellinum og þar sá ég de Havilland Vampire. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem ég sé þessa orustuþotu með eigin augum. Ég komst því miður ekki nálægt henni til að skoða hana betur. En þegar við fórum lengra komum við að annarri vél á standi við innkeyrsluna að vellinum. Það var Saab Lansen sem ég hafði aldrei séð áður.
Eftir að hafa þrætt leiðina í gegnum bæinn komum við um þrjú leitið að hótelinu Good morning hotels, turnbygging við Hallarna verslanaklasann. Þar fengum við að geyma hjólin í læstri geymslu þar sem hótelgestir geta geymt töskur sínar. En það var nú ekki mikið pláss fyrir töskur þegar hjólin voru komin þangað inn. Eftir að hafa komið okkur fyrir, farið í sturtu og slakað á héldum við af stað niður. Við vorum á fimmtu hæð ef ég man rétt og röltum um verslanaklasann og fengum okkur að borða á Pizza Hut. Fórum svo upp á herbergi og biðum eftir rigningunni enda óveðurský að byggjast upp. Við biðum og biðum og biðum en aldrei kom rigningin. Í staðin fórum við að fylgjast með fólki á McDonalds. Við fengum okkur eftirrétt, spjölluðum og spáðum í næsta dag áður en við fórum að sofa.
Við hjóluðum tæplega 58 km á um sex og hálfum tíma.
Sunnudagur, 26. júní
Fór á fætur um hálf sjö og fengum okkur morgunmat á hótelinu. Það var hlaðborð eins og algengt er og borðuðum nóg fyrir daginn.
Við byrjuðum ferðalagið með því að fara í gegnum klasann sem við áttum alveg út af fyrir okkur. Hef aldrei verið í eins fámennum klasa, enda ekki búið að opna búðirnar fyrir utan eina matvörubúð þar sem við keyptum okkur nesti. Það var töluvert meira af fólki þarna daginn áður þegar við röltum þarna um.
Veðrið var fínt þegar við lögðum af stað um klukkan hálf níu, skýjað en hlýtt. En um hálf tíu fór sólin að skína og þá hlýnaði verulega. Sólin kom og fór yfir daginn og það varð full heitt, hitinn fór upp í um 29 gráður, að mér var sagt. Græðgin var þvílík i morgunverðinum að við höfðu varla lyst á mat restina af deginum, en við stoppuðum samt til að fá okkur ís og komum við í bakaríi og fengum okkur bakkelsi. Ég er yfirleitt ekki mikið fyrir gos en þennan dag og reyndar daginn áður fékk ég allt í einu einhverja furðulega þörf fyrir það. Kannski vantaði mig sykur og sölt.
Við komum við á Mellbystrand sem er stærsta eða lengsta baðströndin í Svíðþjóð. Að öðru leyti var ferðin viðburðarlaus þangað til við komum að einu helv. brekkunni í ferðinni sem liggur upp að Axelstorp. Ég þrjóskaðist
við og hjólaði hana, þurfti þó að stoppa á einum stað sem var þokkalega flatur, fékk mér vatssopa og kastaði aðeins mæðinni. Ég var þar af leiðandi aðeins á undan hinum upp. En þegar við höfðum náð toppnum á hæðinni var gaman að láta sig renna niður hinu megin,. Stuttu seinna um hálf tvö komum við til Förslöv og fengum okkur snarl. Ég var svo rennandi blautur á bakinu að það rann niður í buxurnar, sem voru þar af leiðandi einnig rennblautar. Leiðin til Ångelholm var svo sem ekkert merkileg. Fórum framhjá engjum og ökrum og komum svo á Råbocka tjaldstæðið, rétt fyrir utan Ångelholm, um klukkan þrjú.
Við byrjuðum á að henda upp tjöldunum, eins og venjulega. Ég hef aldrei verið eins lengi að koma þessu tjaldi upp og hef ég þó gert það þó nokkrum sinnum. Ég þurfti reglulega að komast í skugga undir tré. Síðan fórum við í sturtu og þar á eftir fengum við okkur ís…. please. Eftir ísinn um klukkan hálf sex vorum við svo sem ekkert tilbúin að fara að borða en matsölustaðurinn á staðnum lokaði klukkan sjö þannig að við fengum okkur kvöldverð. Að því loknu fórum við á Råbocka ströndina til að skoða strandlífið.
Það var slatti af fólki þar þó að klukkan væri farin að ganga átta og að mestu skýjað. Við eyddum töluverðum tíma þarna. Að því loknu fórum við Guðbjartur í smá hjólatúr áður en við hentum okkur í tjöldin.
Við hjóluðum rúma 59 km á tæpum sjö tímum.
Mánudagur, 27. júní.
Fór á fætur… æ, þið vitið hvenær og hvað svo. En um klukkan hálf níu héldum við af stað til Helsingborgar, síðasta legg Kattegatleiðarinnar. Ætlunin var að ná þangað fyrir klukkan tólf til að ná lestinni til Ystad sem átti að fara rúmlega hálf eitt. Veður var gott, tiltölulega hlýtt en að mestu skýjað. Fyrsta verkefni dagsins, eins og flesta dagana á undan, var að finna bakari og / eða matvöruverslun til að kaupa nesti fyrir daginn. Fundum loks búð í Ångelholm. Við ákváðum að hafa 10 km regluna með vatns- og rassstopp sem varð svo að 7 km reglu þegar leið á morguninn. Við fórum þessa hefðbundnu sveitarstíga og vegi og villtumst ekki neitt. Leiðin til Helsingborg var nokkuð greið og komum við að lestarstöðinni fyrir klukkan tólf. Þannig að við höfðum nægan tíma og ekkert stress að kaupa miða í lestina. Lestin fór á réttum tíma og nú tók við um eins og hálfrar klukkustundar ferð sem var nokkuð þægileg. Lestin stoppaði við höfnina í Ystad, um hálf þrjú og þurftum
við því aðeins að fara á „bak við“ eitt hús til að komast í afgreiðsluna til að kaupa farseðlana með ferjunni til Bornholm. Við fórum og fengum okkur ís áður en við héldum í röðina til að komast um borð í ferjuna. En þar sem við vorum á hjólum var okkur bent á að fara strax inn og þar var sér pláss fyrir reið- og mótorhjól. Ferjan lagði af stað rúmlega korter yfir þrjú og tók siglingin um eina klukkustund og fjörtíu mínútur. Þar sem rigningu var spáð pöntuðum við herbergi á vandræðaheimili í Rønne, Rønne Vandrerhjem. Þegar þangað kom, rúmlega tvo km frá bryggjunni komum
við okkur fyrir, fórum í sturtu og svo niður á ströndina þar sem við borðuðum afgangin af nestinu. Það var voða „nice“ að sitja á ströndinni og slaka á. Það voru nokkuð margir að skemmta sér þarna. En á meðan við vorum þarna fór að þykkna upp, enda rigningu spáð, eins og fyrr sagði. Þegar við komum aftur upp á farfuglaheimilið spjölluðum við og svoleiðis áður en við fórum að sofa. Við hjóluðum tæpa 38 km. frá Ångelholm til Helsingborgar. Lestarferðin var um 151 km. á tæpum tveimur tímum og fjörtíu mínútum. Siglingin rúmir 70 km. á um einum tíma og fjörtíu mínútum.
Þriðjudagur, 28. júní. Rumskaði við þrumur einhvern tíma snemma morguns, sofnaði aftur að ég held og
vaknaði við hellidembu. Við vorum því ekkert að flýta okkur og lögðum ekki af stað fyrr en um korter í tíu eftir kjarngóðan morgunverð á farfuglaheimilinu. Það rigndi enn þegar við lögðum af stað. Næsti náttstaður var tjaldstæði kallað Bådsted camping fyrir utan bæinn Tejn. Við tókum stefnuna þangað, til norðurs. Komum við í búð og keyptum okkur nesti eins og venjulega. Það rigndi minna þegar leið á morguninn. Við fylgdum að mestu hjólaleið tíu sem er hjólaleiðin í kringum eyjuna. Allt gekk að óskum þangað til við komum að brekku einni, einni af nokkrum sem var full brött til að burðast upp með fullklyfjað reiðhjól. Þetta var helv. brekka dauðans! Meira að segja ég náði ekki að hjóla hana. En það var fólk á gangi þarna og ein bauðst til að ýta á hjólið hennar Guðrúnar. Svo stoppaði Guðbjartur lagði hjólinu sínu og ýtti mér upp, og þegar Guðrún var komin upp fór hún niður og ýtti Guðbjarti upp. Þannig að þetta gekk allt upp á endanum.
Þetta var svolítil „úr í“ ferð, þ.e.a.s. úr og í regnfötin. Það komu þokkalegir skúrir.
Þegar við komum að rústum Hammershus kastalans var hætt að rigna og farið að létta til og meira að segja lét sólin stundum sjá sig þegar við fórum að skoða hann. Við eyddum dágóðri stund við kastalarústirnar, enda er eitt það skemmtilegasta sem ég geri að skoða rústir gamalla húsa. Við borðuðum nestið þar
og héldum að því loknu áfram ferðinni. Eftir tiltölulega stutta stund komum við til Sandvig og Allinge, tvo snotra og nánast samgróna bæi þar sem við stoppuðum aðeins. Svo tókum við stefnuna á tjaldstæðið, fórum í gegnum Tejn og héldum að tjaldstæðinu. En þegar þangað kom var full langt í næstu verslun til að kaupa morgunmat og nesti svo við héldum áfram að Gudhjem í um 8 km fjarlægð. Þar er fínt tjaldstæði og stutt í verslun og veitingahús. Þangað komum við rúmlega fimm.
Að loknu öllu þess hefðbundna; tjalda, sturta og svoleiðis fórum við í búð til að kaupa morgunmat og svo á veitingastað til að fá okkur að borða. Þar var ekki verið að skera skammtana við nögl, ó nei. Ég fékk mér sjávarrétt, tvö flök af rauðsprettu, reyktan lax, einhvern annan fisk, rækjur, humar og brauð undir, sem ég vissi ekki um, auk grænmetis. Enda var ég nánast saddur eftir allt þetta. Á staðnum hittum við sex manna hóp af Íslendingum. Tvenn hjón sem búa í Danmörku og vinahjón þeirra sem búa í Mosó. Við ræddum aðeins við þau og þau voru steinhissa á að við værum ekki á rafhjólum með allt þetta dót á hjólunum. Þau voru með hús og rafhjól á leigu á eynni. Rétt hjá matsölustaðnum var SAAB 96 sem ég þurfti að kíkja á. Húddið var aðeins opið þannig að ég gat kíkt undir það. Þar blasti við mér Ford V4 vél. Minningarnar streymdu um
huga mér því að í Taunusnum sem pabbi, og síðar ég, átti var sama vélin. Síðan fórum við að tjöldunum. Ég fór í smá göngutúr niður að sjónum við tjaldstæðið og þegar ég kom til baka var Guðrún að tala við vini okkar í símanum. Svo skriðum við í tjöldin.
Við hjóluðum tæpa 48 km. á tæpum sjö tímum og 45 mínútum.
Miðvikudagur, 29. júní
Fór á fætur á þessum venjulega tíma og eftir hefðbundin morgunstörf héldum við af stað til næsta áfangastaðar, Nexø. Það var stuttur hjóladagur framundan að við héldum enda ekki nema um 25 km til Nexø. Við fórum um fallegar sveitir og ekki voru bæirnir síðri. Við stoppuðum í Svaneke til að fá okkur ís, enda ekki vanþörf á þegar hitinn er kominn upp í um 26°C. Við komum til Nexø rétt fyrir hádegi og fórum beint á vandræðaheimilið þar sem við áttum pantað herbergi. Við ætluðum að hjóla til Dueodde en vildum helst ekki hafa farangurinn á hjólunum þangað. Við ræddum þetta við dömuna í afgreiðslunni og það var til þess að herbergið var þrifið kviss, bang, búmm svo að við gætum sett farangurinn í það. Undir venjulegum kringumstæðum hefðu við ekki átt að fá herbergið fyrr en klukkan tvö eða þrjú. Mikið var nú gott að fara á hjólinu án þessara 25 kílóa af farangri. Svo létt og skemmtilegt. Það eru um tólf km að Dueodde og tók innan við klukkutíma að hjóla það án farangursins. Það var orðið nokkuð skýjað þegar við komum á ströndina, sem var svo sem ekkert verra því að þá var ekki eins heitt. Við röltum aðeins um ströndina og settumst svo
niður til að fá okkur snarl og nutum útsýnisins. Þegar við fórum til baka ákváðum við að athuga turn einn mikinn sem við höfðum séð í fjarska á leiðinni á ströndina. Í ljós kom að þetta var turn frá tímum kalda stríðsins. Einhverskonar njósna- eða eftirlitsstöð. Enda ekki langt til Austur-Þýskalands. Þetta er nokkuð hár turn sem er safn núna og nokkur hús í kring. Við skoðuðum okkur aðeins um, en fórum ekki inn á safnið. Ég sá samt að í einni byggingunni var MIG þota, líklega MIG 15.
Síðan héldum við til baka á farfuglaheimilið, fórum við í sturtu, slökuðum á og dottuðum jafnvel. Við settum föt í þvottavél og þurrkara og fórum að því loknu í bæinn til að fá okkur að borða. Fundum ágætan stað við höfnina til að borða á. Við þvældumst aðeins um bæinn að áti loknu. Sá þar m.a. máf gleypa í sig stærðarinnar afgang af spaghetti á diski í einum bita. Ég trúði ekki mínum eigin augum. Þetta var á við munnifylli fyrir mann (karl- eða kvenmann). Ég get svo svarið það, en þetta gleypti hann í einum bita. Svo fórum við til baka á farfuglaheimilið, spjölluðum aðeins og svoleiðis áður en við fórum að sofa.
Heildar vegalengd dagsins var rúmir 50 km á tæpum sjö tímum, með göngum og svoleiðis.
Fimmtudagur, 30. júní
Jæja, nú fer að styttast í annan enda ferðarinnar og síðasti „alvöru“ hjóladagurinn runninn upp. Það var sól og um fimmtán gáðu hiti um hálf níu þegar við lögðum af stað eftir góðan morgunverð á vandræðaheimilinu. Nú lá leiðin til Rønne, stystu leið, til að ná ferjunni til Ystad klukkan hálf tvö. Leiðin er í miðju
landi og er eiginlega alveg bein og var gaman að hjóla. Smá hækkun í byrjun svo nokkuð flatt svo niður í móti. Auk þess var smá vindur í bakið þannig að við náðum stundum 25 til 30 km hraða. Meðalahraðinn endaði í um 20 km/klst sem ég tel nokkuð gott með um eða yfir 25 kg af farangri á hjólinu. Það var aðeins einn bær á leiðinni, Aakirkeby en við stoppuðum ekki þar, við vorum að flýta okkur eða þannig og gaman í svona góðu rennsli.
Við komum svo til Rønne um klukkan hálf ellefu. Við byrjuðum á að fara í búð til að kaupa okkur eitthvað að borða og drekka yfir daginn. Við fórum út úr búðinni á öðrum stað en við gengum inn og komum út á torg með miklu lífi. Fullt af fólki og sölutjöldum og –vögnum þar sem hægt var að kaupa allt mögulegt, mat, pylsur, osta, súkkulaði og ég veit ekki hvað. Ég keypti mér sixpence-ara hjá einni og súkkulaði hjá öðrum. Sá var nú með úrval af súkkulaði, úff hefði viljað kaupa nánast allt hjá honum!
Við fundum svo bakarí þar sem við keyptum eitthvað meira gott, settumst síðan niður og fengum okkur smá í gogginn. Á leið okkar niður á höfn sáum við bíl, sem er kannski ekki frásögu færandi, nema þegar ég sá hann fyrst þá datt mér í hug teiknimyndabíll, eins og t.d. í Andrés Önd eða eitthvað svoleiðis. Eldrauður, kúlulaga, á pínulitlum dekkjum og aðeins fyrir einn, alveg stórfurðulegur. Svo fórum við niður á höfn til að ná ferjunni. Þegar þangað kom voru nokkrar gamlar VW bjöllur sem voru að fara í hópferð um eyna.
Við þurftum að bíða dágóða stund eftir því að komast í ferjuna og fór að rigna á meðan við biðum. Síðan fóru bílar að streyma
í ferjuna en alltaf biðum við. Þegar við fórum til Bornholms fórum við á hjólunum fyrst í ferjuna, eins og fyrr sagði, en núna, þegar við á hjólunum var loks leyft að fara um borð var búið að fylla það stæði af bílum. Þetta kom okkur og einnig hinum sem voru á hjólum og mótorhjólum verulega á óvart. Nú voru þau bara látin standa laus upp við vegginn og mótorhjólin á stöndurunum. Ekki mjög traustvekjandi, en okkur var sagt að þetta væri alveg öruggt. Við urðum bara að treysta því. Að öðru leyti gekk siglingin vel og þegar við komum niður á dekk að hjólunum voru þau í lagi. Enda er ferjan tvíbytna og liggur því vel á sjó, ruggar lítið sem ekkert auk þess var sjórinn alveg sléttur.
Þegar við komum til Ystad héldum við að húsi sem við höfðum leigt, í um þriggja km fjar lægð frá höfninni. Þetta var hið fínasta hús. Við komum okkur fyrir, fórum í sturtu, slökuðum á og svoleiðis. Síðan gengum við út í búð í nágrenninu til að kaupa okkur eitthvað að borða fyrir kvöldið og morguninn. Þegar við komum til baka fengum við okkur að borða og horfðum á The Commitments í sjónvarpinu, frábær mynd. Að síðustu fórum við svo í háttinn.
Heildar hjólavegalengd dagsins var um 35 km á ca. fjórum og hálfum tíma.
Föstudagur, 1. júlí
Eftir öll hefðbundin morgunstörf lögðum við af stað um hálf átta. Við byrjuðum á að hjóla aðeins um Ystad áður en við fórum og keyptum lestarmiða til Malmö. Lestin fór samkvæmt áætlun um klukkan níu. Ég
klikkaði alveg á að kveikja á GPS tækinu fyrir lestarferðina, þannig að ég veit ekkert hve langt þetta var, né tímann sem þetta tók. Í Malmö þurftum við að skipta yfir í lest sem fór til Köben. Það vildi svo skemmtilega til að hún stoppaði á næstu braut við hliðina á okkar lest, sem var voða þægilegt. Það var reyndar miðavörðurinn í lestinni sem sagði okkur frá þessu. Guðrún spurði hann hvar væri þægilegast fyrir okkur að skipta um lest. Það var þó stutt þar til lestin kæmi þannig að við þurftum að hafa hraðan á að kaupa miða og ná lestinni. Ferðin yfir sundið tekur ekki nema nokkra mínútur og fórum við úr lestinni á Kastrup flugvellinum og hjóluðum inn í borgina til Guðrún‘s goodies, beint á móti þar sem Jónas Hallgrímsson bjó. Þar gátum við geymt farangurinn og hjólin. Við fengum okkur kjötsúpu hjá henni áður en við fórum og röltum um bæinn. Það vildi svo til að Tour de France (TdF) var að byrja þennan dag sem við vissum ekkert af. Þannig að það var mikið af fólki í bænum auk þess sem margar götur voru lokaðar. Það varð til þess, þegar við höfðum sótt hjólin hjá Guðrúnu, að við áttum í mestu erfiðleikum með að komast á hótelið okkar. En það tókst að lokum með hjálp góðra manna. Bæði karlog kvenmanna. Við þurftum að fara undir Hús danskra arkitekta (Danish architecture center) til að þvera götuna. Eftir það var leiðin nokkuð greið. Áður en við fundum leið yfir eða öllu heldur undir götuna sáum við upphafið á TdF, eða frekar tímatökuna…
að ég held… jú ég held það. Þetta voru alls kyns mótorhjól og bílar frá styrktaraðilum keppninnar skreyttir á margan hátt og sumir dreifðu einhverju smotterí til fólksins. Þegar við loksins komumst á hótelið, Next House Copenhagen, fór Guðrún inn til að skrá okkur inn og fá upplýsingar hvernig best væri að koma farangrinum inn og hvar við ættum að geyma hjólin. Hjólin áttum við bara að geyma úti. Við vorum ekkert voðalega ánægð með það en ekkert við því að gera. Þegar við komum að hurðinni þar sem við áttum að setja farangurinn inn voru þar tveir menn að spjalla, sem er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. En þegar við erum að taka farangurinn af hjólunum lauk samtali þeirra og annar fór, en hinn spurði okkur hvað við ætluðum að gera við farangurinn. Við sögðum honum það. Þá sagðist hann vera framkvæmdastjóri hótelsins og sagði okkur að fylgja sér. Við héldum að hann væri að grínast en fylgdum honum inn um aðrar dyr sem lá að porti innan hótelsins. Þar voru þessar fínu hjólagrindur sem við gátum sett hjólin á. Hann sagðist vera búinn að neita nokkrum hópum um aðgang að portinu vegna t.d. TdF. Við vorum heppin að rekast svona óvart á hann og hann að bjóða okkur þetta, við vorum himinlifandi yfir þessu. Er þetta ekki það að vera á réttum stað á réttri stund? Við vorum ekki síður undrandi þegar við komum inn á hótelið. Stórt og rúmgott nema herbergið! Það var MJÖG lítið og þröngt og sváfum við í nokkurs konar skápum og það var varla pláss fyrir
allan farangurinn. Þegar við vorum búin að „jafna“ okkur á þessu og slaka aðeins á fórum við niður til að skoða hótelið, eða hostelið sem þetta er í raun, betur. Það er voðalega flott og nútímalegt. Þar eru t.d. squashvöllur, lítill fótboltavöllur, líkamsræktarstöð og fleira. Svo hékk mótorhjól með hliðarvagni í loftinu og gamall Jaguarbíll var þarna einnig. En ég er samt ekki alveg viss um að hann sé ekta, held að þetta sé kit bíll, enda er hann ekki alveg eins og ekta bíll. Hann er meira eins og blanda af Jaguar og MG. Við fórum svo á köldverðarhlaðborð þar sem boðið var upp á pizzur og pastarétti. Að áti loknu sátum við niðri, spjölluðum og lásum áður en við fórum upp í herbergi til að sofa.
Heildar vegalengd hjóluð voru rúmir 22 km.
Laugardagur, 2. júlí
Nú rann síðasti dagur ferðarinna upp og heimferð. Þar sem herbergið var frekar lítið fórum við niður til að „hanga“ og spjalla. Bæði fyrir og eftir morgunmatinn. En svo fórum við upp til að ná í farangurinn og gera okkur klár fyrir ferðina að flugvellinum. Upp úr klukkan hálf tíu lögðum við í‘ann. Það voru enn lokanir í miðborginni þannig að við áttum von á því að þurfa að fara undir arkitektarhúsið eins og daginn áður. En við þurftum þess ekki því að fólki var boðið að fara inn á TdF brautina, sem við gerðum, að sjálfsögðu. Þannig að nú getur maður sagt að maður hafi hjólað TdF! Alla vega lítinn… mjög lítinn hluta af henni. Við hjóluðum
niður á Nýhöfn, fram hjá Christianiu og komum svo að flugvellinum um klukkan tólf. Þar tókum við hjólin í sundur og gerðum þau klár fyrir ferðina. Svo fórum við inn og ætluðum að „check-a“ okkur inn. En það var snúnara en hérna heima þar sem ég fór og prentaði miðana fyrir töskuna og hjólið í sjálfafgreiðsluvél, límdi miðana á farangurinn og fór með þau í afgreiðsluna án nokkurra vandræða. En þarna úti var meira vesen. Það var vesen með farangursmiðana hjá mér og Guðbjarti og þegar það var loksins búið að leysa það þá kom upp vesen þegar við ætluðum að fara með hjólin og farangurinn
þar sem stór farangur á að fara í gegn. Þá var okkur sagt að fara aftur í afgreiðsluna frammi og láta vigta hjólin, skrifa þyngdina á þau og ég veit ekki hvað. Skil það ekki af því að það var vigt á færibandinu hjá stóra farangrinum, en að lokum tókst þetta og við gátum farið að hliðinu og slakað á. Eins gott að við komum tímaleg á völlinn. Svo var flugið heim voða þægilegt, eins og venjulega með Flugleiðum og lentum við um klukkan hálf sjö.
Leiðin að flugvellinum voru tæpir 14 km.
Þetta var skemmtileg ferð með góðum vinum. Hitinn hefði stundum mátt vera aðeins lægri fyrir minn smekk, en ísinn reddar alltaf svoleiðis málum. Bornholm stóð upp úr í ferðinni, alveg stórkoslegur staður og gott að hjóla þar. Mæli með að fólk fari þangað.
Fleiri myndir á heimasíðunni okkar.Ómar Smári Kristinsson
Hjólað í Ferðafélagi Ísfirðinga
Ferðafélög landsins hafa boðið upp á hjólreiðaferðir lengi. Hefðin er rík hjá Útivist. Í allnokkur ár hélt félagið úti svokallaðri Hjólarækt, þar sem hjólað var á laugardögum á veturna á höfuðborgarsvæðinu og svo farið í lengri túra á sumrin. Um þessar mundir eru ferðir hjónanna Páls Ásgeirs Ásgeirssonar og Rósu Sigrúnar Jónsdóttur, hjá Ferðafélagi
Íslands afar vinsælar og vel sóttar. Deildir Ferðafélags Íslands hafa af og til boðið upp
á hjólreiðaferðir. Ein þeirra er Ferðafélag Ísfirðinga.
Ferðafélag Ísfirðinga var endurvakið árið 2010. Árið 2014 var farið í fyrstu hjólaferðirnar. Þær voru tvær talsins. Síðan þá hefur verið farin ein hjólaferð á ári.
2014 - Heimsins besta drykkjarvatn er í Vígðá í Seljadal á Óshlíðinni. Vatnið er enda vígt af Guðmundi góða. Ljósmynd: Rögnvaldur Þór Óskarsson.
2014 Óshlíð
17. maí 2014 skyldi bryddað upp á nýjungum hjá Ferðafélagi Ísfirðinga. Þá stóð til að fara í hjólreiðaferð. Það var gert en ekki með fararstjóranum sem ætlaði að fara. Sá sem fara átti var Þröstur Jóhannesson sem lengst af var ötulasti maðurinn í göngunefnd félagsins. Hann hefur auk þess leitt allar skíðagöngur þess. Einhverra hluta vegna komst hann ekki í þessa fyrstu hjólaferð en fékk annan til þess. Það var ég, höfundur þessarar greinar. Síðan þá hef ég leitt allar hjólreiðaferðir félagsins. Fyrsta ferðin var um Óshlíð. Auk mín mættu 12 manns og ég var drullustressaður, því leiðsögumenn þurfa helst að geta sagt frá einhverju. Flestir þarna vissu
meira um Óshlíðina en ég. Hvatti ég fólk sem hafði frá einhverju að segja að spara það ekki. Þannig fengust nokkrar hræðilegar slysasögur. Af nógu er að taka. Auðvitað var líka eitthvað rætt um sögu vegarins og samgangna og um verbúðirnar sem voru undir hlíðinni. Ferðinni lauk við Óshólavita. Ég bauð þeim sem vildu að halda áfram til Bolungarvíkur að skoða nýju varnargarðana, nýtt útilistaverk sem mig langaði að monta mig af og sitthvað fleira. Nokkrir þáðu það. Ég hitti kunningja minn sem var nýkominn úr bjargi og seldi mér svartfuglsegg. Fáeinir hjólarar sem nenntu að hjóla með mér heim til Ísafjarðar borðuðu eggin með mér.
2014 - Nærri áratugur er liðinn frá því þessi mynd var tekin. Nú er skarðið orðið mun stærra. Það verður sorglegt þegar það verður komið alveg upp í klett og leiðin lokast. Óshlíðin er heimsklassa hjólaleið. Ljósmynd: Rögnvaldur Þór Óskarsson.
Dýrafjörður
Fáum árum áður skrifaði ég mína fyrstu Hjólabók. Ég ákvað að prófa eina af leiðum bókarinnar á fólki. Þetta er stutt og auðveld leið; innsti hluti Dýrafjarðar, 16 km að lengd. Vegurinn hefur lítið viðhald fengið síðan fjörðurinn var brúaður, árið 1990. Hann var orðinn grófur á köflum þegar ferðin var farin. Sumum reyndist leiðin erfið. Það var því að kenna að ég hafði auglýst hana sem ágætis æfingarleið fyrir alla fjölskylduna. Einn ferðalangurinn var helst til of ungur og ekki bætti úr skák að það var alltaf að leka loft úr dekki hjá honum. En þetta var hraustur og þrjóskur strákur sem kláraði hringinn og allir voru sáttir að lokum. Rögnvaldur Óskarsson, formaður félagsins um þessar mundir, var ekki í ferðinni. Aðrir höfðu ekki rænu á að taka ljósmyndir þá. Það þarf bara að trúa því að þessi ferð hafi verið farin. Engar ljósmyndir sanna það. Það er heldur engin lygi að þátttakendur hafi verið 7 talsins.
2015 Ísafjörður
Frá því ég flutti á Ísafjörð hef ég notið þess hversu mikið er af alls kyns vegum, stígum og troðningum sem gaman er að ganga á og hjóla eftir. Ég vildi leyfa fólki að njóta með mér og kynnti ferðina þannig að þau sem ekki hjóluðu mikið gætu kannski kynnst einhverju nýju. 7 manns þáðu boðið. Ég held að flestir hafi farið einhverja króka og kima í fyrsta sinn í þessari ferð. Það þurfti í það minnsta að passa upp á að fólk æddi ekki á undan fararstjóranum, því hann gat verið skyndilega horfinn inn í dularfullt sund eða myrkan skógarstíg. Síðan þessi ferð var farin hefur mikið bæst við af stígum á Ísafirði.
Þetta sumar stóð til að vera með aðra Skutulsfjarðarferð fyrir fólk sem þolir meira erfiði. Vegir og slóðar ofan byggðar skyldu rannsakaðir. En áður en þar að kom flaug ég á hausinn í Hjólabókarleiðangri og braut í mér viðbein. Ég gat ekki hjólað meira það sumarið. Hálendið fyrir ofan Ísafjörð beið seinni tíma.
- Á heimasíðu Ferðafélags Ísfirðinga eru ljósmyndir úr flestum ferðum þess. Svona er gengið frá þeim. Þar má meðal annars finna þessa mynd sem Pernilla Rein tók.
2015
2016 Óshlíð – næturferð
Sumarnóttin er besti tíminn til að hjóla Óshlíðna, sérstaklega ef það er léttskýjað. Sólin er fögur þaðan að sjá á þeim tíma. Ég tók áhættuna, að fá rétta veðrið og að einhver nennti að mæta í hjólreiðatúr um miðja nótt. Mér finnst reyndar betra að vera með fáum en mörgum. Veðrið var gott og það mættu fjórir. Semsagt alveg fyrirtaks ferð. Ég held að þetta hafi verið fyrsta ferðin hjá Ferðafélagi Ísfirðinga sem ekki byrjaði að morgni dags.
2017 Seljalandsdalur – Botnsheiði – Dagverðardalur
Nú var komið að því að kynna hálendið upp af Ísafirði. Þessa helgi var akkúrat þríþrautarkeppni á Ísafirði og flestir sem nenntu að hreyfa sig hafa líklega verið að keppa í henni eða fylgjast með henni. Einn vinur minn (eldri og feitari en ég) mætti í mína ferð og tveir krakkar sem voru nýbúnir að klára mest alla orku í hlaupi og sundi.
2016 - Nótt
2016 - Runnið ljúflega. 2016 - Puðað og streðað.Sjálfur var ég á lánshjóli því hann Trekkur minn var á verkstæði. Öll þræluðumst við lengst upp á heiði. Þar gengum við rúman kílómetra yfir ófærur. Ég var að reka áróður fyrir að þarna þyrfti að koma tenging til að ná góðri hringleið. Uppi lentum við í þoku. Þessi strembna leið var samt hin skemmtilegasta. Enginn sá eftir að hafa farið hana þrátt fyrir stunur og svita. Ég bauð upp á að kynna enduro-brautir sem var þá nýbúið að leggja. Það var kurteislega afþakkað.
2018 Önundarfjörður 1
Móðir okkar Jörðin snýst um Önundarfjörðinn. Ég var nýbúinn að teikna gönguleiðakort af innsta hluta fjarðarins fyrir ferðabóndann Pál í Korpudal. Páll ólst þar upp. Hann er minnugur, fróður og skemmtilegur. Mér fannst því kjörið að fá hann til að segja frá svæðinu og kynna í leiðinni nýja kortið. Hann var hinn eiginlegi fararstjóri. Ég gerði ekki annað en að skipuleggja ferðina. Því klúðraði ég. Venjulega þegar ég hjóla þennan tæplega 15 km hring er ég um klukkutíma að því. Ég reiknaði með einum og hálfum til tveimur tímum en þeir urðu fjórir. Það var
ekki bara vegna þess að Páll hefði frá svo mörgu að segja (sem hann sannarlega hafði) heldur buðu hann og Halla, kona hans, okkur líka í kaffi og meððí. Í ferðalok þáðum við líka veitingar hjá Gunnu í Breiðadal. Hún ákvað að taka á móti ferðafélaginu með ókeypis kaffi og rabbarbaragraut. Við vorum bara þrír sem þáðum það, því tvö voru búin að fá nóg og drifu sig heim.
2019 Önundarfjörður 2
Mér fannst Önundarferðin svo frábær að ég vildi að fleiri nytu hennar. Stjórn ferðafélagsins samþykkti að ég gerði aðra tilraun. Í þetta sinn klúðraði ég engu og það mættu miklu fleiri (11 með fararstjórunum), enda var ég búinn að kynna ferðina vel. Veðrið var gott og Páll var í stuði. Sami háttur var hafður á og árið á undan, að Páll fór á undan á fjórhjólinu sínu og stoppaði á stöðum þar sem frá einhverju var að segja.
þessa árs var lítið eitt lengri í kílómetrum talin, þar sem farinn var eldri og fáfarnari vegur en núverandi alfaraleið sem liggur yfir Vaðal og Vöð. Ein eldri kona hélt að hún ætlaði ekki að ná að klára hringinn. Eftir fyrirlestra hennar
2018 - Í rabbarbaragrautarveislu í Neðri-Breiðadal (Kaffi Sól). Húsráðandinn, Guðrún Hanna Óskarsdóttir, tók myndina af okkur Pétri og Páli.
um lélegt þrek og lungu kom í ljós að hún hafði hjólað leiðina föst í bremsu.
2020 Umhverfis Ísafjörð
á 80 mínútum
Við Edda Björk Magnúsdóttir, þáverandi formaður félagsins, vorum að ræða um næstu ferð; hvort það væri kominn tími á aðra innanbæjarferð. Uppnuminn af stígakerfinu sá
ég fyrir mér góða hringleið umhverfis Ísafjörð. Edda kom þá með bókmenntalega tilvitnun. Ég tók hana á orðinu og skipulagði ferð sem tæki 80 mínútur. Hún tók 80 mínútur. Þátttakendur gáfu sér samt tíma til að prófa fatbækið sem einn ferðafélaginn, HennaRiikka Nurmi var á. Það tók svosem ekki langan tíma, því við vorum ekki nema 5 í ferðinni.
2019 - Spjallpásur voru margar, þó ekki færi hálft ferðalagið í kaffiþamb.
2021 Hestakleifarfjall
Það var kominn tími á krefjandi ferð. Hún var skipulögð með löngum fyrirvara. Því miður stangaðist hún á við annan hjólreiðaviðburð. Það kom í ljós að þetta var sami dagur og haldið var veglegt enduro-mót á nýju fjallahjólabrautum Ísfirðinga. Það mættu ekki nema tveir í mína ferð og það var þoka. En þokunni létti og þegar upp var staðið var þetta ein af gagnlegustu hjólaferðum mínum sem fararstjóri. Hún nýttist í tvennt í viðbót: Þessi leið upp Dagverðardal, upp á Botnsheiði, yfir Hestakleifarfjall, niður í Syðradal og Óshlíðina heim, nýttist aftur í Vestfjarða-hjólabók. Nýtt tilbrigði, nýjar ljósmyndir og fleira nýtt. Ferðin nýttist einnig sem rannsóknarleiðangur fyrir Cycling Westfjords-verkefnið. Þau sem mættu voru Halldóra Björk Norðdahl, höfundur þess verkefnis, og Kristinn, maður hennar. Við spáðum mikið og spökúleruðum og nú eru komnar upp merkingar á þessari leið. Svo reyndist ferðin hin skemmtilegasta og ég bauð þeim hjónum heim í ís að henni lokinni.
2022 Þingmannaheiði
Hin leiðin sem ég endurnýtti í nýju Vestfjarðahjólabókinni er hringleið sem að hluta til liggur yfir Þingmannaheiði. Nýja bókin státar af óvenju mörgum mannamyndum. Halldóra og Kristinn prýða kaflann um Hestakleifarfjall og Ómar Dagbjartsson og Arnór Magnússon skreyta
2020 - Dæmigerð auglýsing fyrir ferð á vegum Ferðafélags Ísfirðinga.
Nína Ivanova tók ljósmyndina og ég teiknaði kortin og lógóið.
2020 - Við upphaf ferðar, hjá gamla sjúkrahúsinu. Nýja sjúkrahúsið í bakgrunni.kaflann um Þingmannaheiði. Þeir voru einu ferðafélagarnir í þeirri ferð. Reyndar voru þeir félagar eins og bergmál af ferðinni árið á undan. Arnór og Kristinn eru báðir alfa-týpur sem vilja fara fremstir og þjóta yfir allt sem fyrir verður, því erfiðara, þeim mun betra. Ómar og Halldóra eru varfærnir einstaklingar sem eiga það auk þess sameiginlegt að bæði voru að prufukeyra glæný reiðhjól. Það kostaði auka aðgát. Einhversstaðar mitt á milli dólaði ég. Þegar heiðin var að baki og við komum niður á bundna slitlagið við sjávarsíðuna hittum við hóp hjólakappa. Margir slíkir heimsóttu Vestfirði í kjölfar
2021 - Fleygiferð niður grýtta hlíð. Það er ekki skrítið þó að springi aðeins.
þekktra ofurhjólara sem kynntu svæðið vel. Þarna misstum við Ómar af Arnóri. Hann fór á undan og hélt að við værum alveg á
2021 - Sumir kaflar hélt ég að væru ekki hjólanlegir, þangað til Kristinn sýndi mér fram á annað. Honum tókst þó ekki að hjóla upp sneiðinginn upp á Hestakleifarfjall, þennan sem sést í bakgrunni ef myndin prentast vel.
2021 - Komin upp á Botnsheiði. Þokan heldur sig niðri í firðinum.2022 - Ómar á niðurleið. Myndin er ekki skökk.
hælunum á honum. Það voru hinsvegar hjólagarparnir. Loks áttaði hann sig á hvað var að gerast og við þrír urðum samferða síðasta spölinn og að Flókalundi. Þar bauð Arnór okkur Ómörunum að borða. Þetta var
sérlega skemmtileg ferð, ekki síst vegna þess að ég hélt um tíma að hún yrði ömurleg. Það var nefnilega rok og rigning daginn sem hún átti að vera. Ég frestaði henni um einn dag, sem betur fór.
2022 - Dæmigerður Arnór að fara yfir á.
2022 - Það er alltaf tími til að stoppa og spjalla, taka myndir, fá sér nesti og spá og spekúlera. Fyrir neðan: 2023 - Frábær hjólaleið sem fáir eru búnir að uppgötva.
2023
Í ár ætla ég að vera með ferð í Súgandafirði. Það liggur vegslóði í norðanverðum firðinum frá Botni út í Selárdal. Það er næstum aldrei neinn á ferðinni þarna. Leiðin er mjög skemmtileg; passlega torfær fyrir venjuleg fjallahjól. Hún liggur ýmist uppi í kjarri grónum hlíðum eða neðst niðri í fjöru, þar
sem stundum þarf að hjóla yfir þarabreiður. Alls er leiðin ekki nema tæpir 15 kílómetrar að lengd. Svæðið er í námunda við þéttbýlustu staðina á norðanverðum Vestfjörðum. Kannski nenna fleiri en tveir að mæta. Texti og flestar myndir: Ómar Smári Kristinsson
Hrönn Harðardóttir Hjólhesturinn borinn út
Það er hætt við að fólk hjóli alltaf sömu leið. Þar eð ég bý nálægt Miklubraut, þá er það algengasta hjólaleiðin mín. Ég vel þó oft Suðurlandsbraut fram yfir vegna aðskilinna göngu og hjólaleiða. Þá fer ég stundum lengri leið og hjóla í gegn um Fossvoginn ef ég á erindi vestur í bæ eða upp í Breiðholt. Þar er góð aðskilin hjólabraut alveg frá Breiðholti alla leið vestur í bæ. Vissulega með köflum þar sem deila þarf stíg með gangandi og stundum með ökutækjum, þá með hjólavísum á götunni.
Þegar ég tók við félagatalinu árið 2011 hóf ég að hjóla með umslagið þegar nýr félagsmaður gekk í klúbbinn. Úr því ég var búin að klæða mig í útiföt og á leiðinni út á pósthús, þá gat ég alveg hjólað 10 aukamínútur og borið út sjálf. Oft var það götuheitið sem vakti forvitni mína. Hvar er Mjóahlíð og hversu mjó er hún? Já, Mjóahlíð er með mjóstu götum í Reykjavík. Haðarstígur og
Válastígur í Þingholtunum eru þó þrengri. Mér finnst alltaf gaman að hjóla þessar götur þegar ég á erindi í miðbæinn.
Eitt sinn gerði ég mikla leit að húsi nr 88. Fann vissulega hús númer 86 en það var á horni götunnar og því virtist mér sem heimilisfang væri ranglega skráð í þjóðskrá. En þegar ég fletti viðkomandi upp, þá bjó hann í 8b. Átta bjé. Það hlaut að vera. Grafar vogur er skemmtilegur því þar eru margir stígar sem liggja í hlykkjum á milli umferðar gatna. Ég nota mikið götukortið á ja.is til að finna nýjar hjólaleiðir. Og núna er meira að segja hægt að fá aðstoð við val á hjólaleiðum á vefnum. Þ.e. hægt að velja fararmáta, bíl, reiðhjól eða gangandi. Vel gert.
Einn fallegasta bakgarð borgarinnar fann ég þegar ég var að stytta mér leið. Og fékk meira að segja hina fríðustu fyrirsætu í kaupbæti. Það að vera umsjónaraðili félagatals Fjallahjólaklúbbsins hefur kennt
mér að rata um borgina og veitt mér ómældar ánægjustundir.
Einu sinni á ári eru félagsskírteini endurnýjuð og þá þarf að bera út um 500 umslög. Við höfum hóað í pizzuveislu, hjálpast að við að pakka Hjólhestinum ofan í umslög, blaði með póstáritun og skírteinum þeirra sem hafa þá þegar greitt árgjaldið. Svo höfum við nokkur tekið einn eða fleiri bunka og borið út gangandi eða hjólandi. Í fyrra var meira að segja farið upp á Akranes og borin út þar
7 umslög til félagsmanna sem þar búa. Góð dagsferð á hjóli, kíkt í bakarí og í sund.
27. mars í fyrra hjólaði ég með Hjólhest og félagsskírteini fyrir síðustu 15 aðilana. Það varð 25 km hressandi útivera sem spannaði góðan hluta höfuðborgarinnar og nágrannasveitarfélagsins, Seltjarnarness.
Það eru góðar líkur á því, lesandi góður að þessi Hjólhestur hafi komið hjólandi heim til þín, í fylgd eins af félagsmönnum Fjallahjólaklúbbsins.
Dalvegi 16 A Kópavogur
Dalvegi 16 A Kópavogur S. 564 5255
S. 564 5255