Mótaröð þeirra bestu - Framtíðarsýn

Page 1

Mótaröð þeirra bestu – Framtíðarsýn Eimskipsmótaröðin 2016-2018


Mótaraðir Golfsambands Íslands þurfa að vera í stöðugri skoðun og þróun. Eimskipsmótaröðin er flaggskip golfhreyfingarinnar og því er mikilvægt að vera ávallt vakandi fyrir nýjum leiðum sem geta styrkt mótaröðina og bætt ásýnd hennar, bæði fyrir keppendur, áhorfendur og samstarfsaðila. Á stjórnarfundi golfsambandsins þann 26. ágúst sl. ​var samþykkt að setja saman starfshóp sem fengi það verkefni að skoða framkvæmd Eimskipsmótaraðarinnar undanfarin ár og leggja fram tillögur að framtíðarsýn fyrir mótaröðina til næstu þriggja ára. Hópurinn var skipaður 19 einstaklingum sem komu úr ólíkum hornum hreyfingarinnar, svo besta heildarmyndin fengist. Hópurinn skilaði tillögum sínum til stjórnar golfsambandsins í lok október eins og áætlanir gerðu ráð fyrir. Tillögur hópsins voru ræddar á stjórnarfundi golfsambandsins þann 3. nóvember og samþykkti stjórn sambandsins að leggja þær fyrir Golfþing 2015, með örfáum breytingum. Golfsambandið færir öllum aðilum hópsins hjartans þakkir fyrir framlag sitt og framtíðarsýn.

Haukur Örn Birgisson forseti Golfsambands Íslands

Haukur Örn Birgisson forseti Golfsambands Íslands

2


Inngangur Eftir að starfshópurinn var skipaður í lok ágúst, hittist hann reglulega á fundum en samtals urðu fundir hópsins átta ​talsins. Þá notaðist hópurinn einnig mikið við samskiptahugbúnaðinn Trello við vinnu sína. Óhætt er að fullyrða að hópurinn var í afar reglulegum og góðum samskiptum á tímabilinu og má sjá afrakstur vinnunnar hér að aftan. Þótt einstaka atriði sem snúa að mótahaldi golfsambandsins hafi verið mikið rökrædd í hópnum þá var engu að síður mikill samhljómur í störfum nefndarinnar. Allir voru sammála um að breytinga væri þörf á mótaröðinni auk þess sem allir höfðu sama markmið – að búa til mótaröð sem væri eftirsóknarverð fyrir bestu kylfinga landsins. Með það fyrir augum að stækka mótaröðina og bæta umfang hennar, leggur hópurinn til margar breytingar. Sumar þessara breytinga kunna að fela í sér ákveðin fráhvörf frá núverandi fyrirkomulag á meðan aðrar tillögur fela eingöngu í sér skerpingu á því sem áður hefur verið gert. Í Eimskipsmótaröðinni felast einhver stærstu tækifæri golfhreyfingarinnar til úbreiðslu íþróttarinnar og tekjuöflunar. Það er því afar mikilvægt að varan sé eftirsóknarverð fyrir keppendur, samstarfsaðila, áhorfendur og fjölmiðla. Hópurinn vonast til þess að eftirfarandi hugmyndir fái hljómgrunn innan hreyfingarinnar svo unnt verði að gera ímynd golfíþróttinnar á Íslandi enn betri.

Reykjavík, 4. nóvember 2015 Ágúst Jensson GA Birgir Leifur Hafþórsson GKG/Atvinnukylfingur Gauti Grétarsson NK Guðmundur Sigvaldason GL Gunnar Ingi Björnsson GM Haukur Örn Birgisson GSÍ Hlynur Geir Hjartarson GOS/PGA á Íslandi Hlynur Sigurðsson RÚV Hörður Geirsson GK/Alþjóðadómari Jóhannes Ármannsson GB Jón Júlíus Karlsson GO Karen Sævarsdóttir GS/Golfkennari Ólafur William Hand GR/Eimskip Ólafur Þór Ágústsson GK Ómar Örn Friðriksson GR Óskar Pálsson GHR Ragnar Baldursson GR Theodór Kristjánsson GM Tinna Jóhannsdóttir GK/Afrekskylfingur

3


Fyrirkomulag mótaraðarinnar Mót Eimskipsmótaraðarinnar á hverju ári verða átta talsins, þó með þeirri undantekningu að á árinu 2016 munu sex mót telja til stigameistaratitla. Keppnistímabil hvers árs hefst í lok ágúst og lýkur í sama mánuði, ári síðar. Tímabilið hefst á tveimur mótum að hausti, því fylgja svo tvö mót að vori árið eftir og lýkur á fjórum mótum yfir hásumarið. Fjöldi keppenda í haust- og vormótum, auk Íslandsmótsins í golfi, verður með sama sniði og í dag en færri keppendur verða í öðrum mótum. Tvö ný mót bætast við mótaröðina á hverju ári. Þátttakendafjöldi í þeim verður takmarkaður mun hann taka mið af stöðu keppenda á heimslista atvinnu- og áhugamanna og stigalista GSÍ á hverjum tíma. Golfklúbbur Reykjavíkur og Golfklúbburinn Keilir hafa báðir boðist til að skuldbinda sig til þess að vera með árleg mót á mótaröðinni næstu þrjú ár og samþykkti hópurinn það fyrir sitt leyti.

Keppnistímabil

Mót

Tímabil

Fjöldi keppenda

Eimskip 1

Ágúst

144

Eimskip 2

September

144

Eimskip 3

Maí

144

Eimskip 4

Maí/júní

144

Íslandsmótið í holukeppni

Júní

64 karlar - 24 konur

Eimskip 6

Júlí

36 karlar - 18 konur

Íslandsmótið í golfi

Júlí

144

Eimskip 7

Ágúst

33 karlar – 15 konur

Hámarksforgjöf í mót á mótaröðinni verður 5,5 hjá körlum og 8,5 hjá konum. Líkur eru á því að forgjafarmörk verði lækkuð á komandi árum í takt við öflugt afreksstarf klúbba. Keppnistímabilið 2016 verður með eftirfarandi hætti:

4

Mót

Dagsetning

Eimskip 1

20.-22. maí

Eimskip 2

3.-5. júní

Íslandsmótið í holukeppni

16.-19. júní

Eimskip 4

15.-17. júlí

Íslandsmótið í golfi

21.-23. júlí

Eimskip 6 / Lokamót

19.-21. ágúst


Skoðuð verður sú hugmynd að ljúka mótum á laugardegi og leika seinnipart fimmtudags og föstudags í þeim mótum þar sem keppendafjöldi er takmarkaður. Slíkt fyrirkomulag er líklegt til að draga að fleiri áhorfendur.

Samstarf klúbba Golfhreyfingin þarf að líta á mótahald GSÍ sem samstarfsverkefni. Æskilegt er að golfklúbbar á höfuðborgarsvæðinu taki að sér að halda fleiri mót á Eimskipsmótaröðinni en til þessa hefur hlutfall móta verið klúbbum utan höfuðborgarsvæðisins í vil. Það sem einna helst hefur staðið í vegi fyrir fjölgun móta á höfuðborgarsvæðinu er eftirspurn félagsmanna eftir rástímum. Til að mæta þessu er lagt til að golfklúbbar á sama landsvæði opni golfvelli sína fyrir félagsmönnum þess klúbbs sem heldur stigamót hverju sinni. Þannig gæti tiltekinn fjöldi félagsmanna klúbbsins fengið að taka frá rástíma á öðrum golfvöllum með sama hætti og félagsmenn þess klúbbs og leika völlinn án endurgjalds. Stefnt skal að því að samstarf um framkvæmd golfmóta verði sem mest milli golfklúbba. Sérstaklega er til þess að horfa að í mörgum tilvikum hafa golfklúbbar utan höfuðborgarinnar ekki yfir að ráða miklum starfsmannafjölda á vorin eða haustin, þegar skólastarf stendur yfir. Æskilegt er að gerður sé samstarfssamningur á milli golfsambandsins annars vegar og viðkomandi golfklúbbs, sem tekur að sér framkvæmd móts hins vegar, í upphafi hvers árs. Í slíkum samningi myndu koma fram skyldur og ábyrgðir hvors aðila, með ítarlegum hætti, svo báðir aðilar séu að fullu meðvitaðir um skyldur sínar í tengslum við mótahaldið. Væri það til þess fallið að fyrirbyggja misskilning varðandi hlutverk hvors aðila. Þá er æskilegt að golfsambandið geri langtímasamninga við einstaka golfklúbba um mótahald í þá veru að golfklúbbar skuldbindi sig til að sjá um framkvæmd tiltekins móts eða tiltekinna móta til nokkurra ára í senn. GR og GK hafa lýst yfir vilja til að taka að sér mótahald á Eimskipmótaröðinni til nokkurra ára, samanber hér að framan. Þannig fæst staðfesta í mótahaldið sem býður jafnframt upp á að hægt sé að skapa ákveðnar hefðir í tengslum við tiltekin mót. Þá leiðir þetta óhjákvæmilega til þess að ákveðin þekking og verklag nýtist betur á milli ára.

Stigalistinn Hópurinn er sammála um tvö meginmarkmið með stigalistanum: 1. Stigafjöldi verður mismunandi eftir mótum. Ákveðinn stígandi skal vera í stigafjölda eftir því sem líður á mótaröðina. Þannig skulu síðustu mótin á hverju tímabili gefa fleiri stig heldur en mót í upphafi tímabils. Við stigagjöf skal litið til erlendra fyrirmynda, t.a.m. FedEx stigalistans.

5


2. Úrslit eiga ekki að liggja fyrir áður en lokamótið hefst. Lokamótið á að vera spennandi fyrir keppendur og áhorfendur. Fyrirkomulag stigalistans skal vera þannig að nokkrir keppendur eigi raunhæfan möguleika á að verða stigameistari þegar þeir hefja leik í lokamótinu. Hópurinn leggur til að stjórn golfsambandsins leiti sérfræðiaðstoðar við vinnslu reglugerðar um stigalistann og útreikning stiga. Hópurinn leggur jafnframt til að reglur um stigalista verði endurskoðaðar á hverju ári, með það fyrir augum að skynsamleg og sanngjörn útfærsla verði ofan á.

Íslandsmótið í golfi Íslandsmótið í golfi er hápunktur golftímabilsins. Fram til þessa hefur það oft ráðið vali á Íslandsmótsvelli að viðkomandi golfklúbbur hefur átt stórafmæli. Hópurinn leggur til að látið verði af þessari hefð. Við val á mótsstað skulu önnur sjónarmið ráða för. Taka þarf tillit til ýmissa sjónarmiða við val á mótsstað, t.a.m. gæði golfvallar, aðstöðu fyrir keppendur, fjölmiðla og áhorfendur, gistimöguleika, sjónarmiða samstarfsaðila o.fl. Æskilegt er að golfvellir á Íslandi verði flokkaðir eftir fyrirfram ákveðnum forsendum og að val á Íslandsmótsvelli taki mið af slíkri flokkun. Hópurinn leggur til að Íslandsmótið í golfi verði haldið á höfuðborgarsvæðinu í fjögur skipti af hverjum fimm. Hópurinn leggur áherslu á að aukin hagræðing náist í framkvæmd Íslandsmótsins og að reynt verði að byggja upp hefðir á milli ára. Það væri til þess fallið að auka áhuga áhorfenda og fjölmiðla á mótinu, sem og tryggja samræmi á milli ára. Íslandsmótið í golfi er vörumerki sem á að gagnast allri golfhreyfingunni í útbreiðslustarfi og tekjuöflun. Töluverðar umræður áttu sér stað um þetta fyrirkomulag og rétt er að geta þess að hópurinn var ekki sammála um þessa niðurstöðu, þótt hún endurspegli álit meirihlutans.

Íslandsmótið í holukeppni Hópurinn leggur til eftirfarandi breytingar á fyrirkomulagi mótsins. a. Keppendur í karlaflokki verði 64 og raðast í 16 riðla. b. Keppendur í kvennaflokki verði 24 og raðast í 8 riðla. c. Íslandsmeistari í holukeppni fyrra árs, þrír efstu íslendingarnir á heimslista atvinnumanna og þrír efstu kylfingarnir á heimslista áhugamanna eiga þátttökurétt í mótinu. Á þetta bæði við karla- og kvennaflokk. d. Að frátöldum þeim kylfingum sem eiga sjálfkrafa þátttökurétt skv. c.-lið ræður staðan á stigalistanum talið frá og með síðasta Íslandsmóti í holukeppni. e. Í stað stöðu leikmanna á stigalistanum ræður forgjöf þátttakenda því í hvaða röð leikmenn raðast í riðla.

6


Helstu ástæður tillagnanna eru: a. Samhliða breytingum á Eimskipsmótaröðinni með fjölgun móta og verulegum niðurskurði á leikmannafjölda í tveimur síðustu mótunum þarf að gæta að því að skera ekki of mikið niður keppendafjöldann á miðju sumri. Að öðrum kosti er hætta á að mótaröðin missi marks hjá miklum fjölda keppenda. Einkum á þetta við í karlaflokki. Er því lagt til að keppendur í karlaflokki verði 64 í stað 32. b. Hin hliðin á þessum sama peningi er að fjöldi kylfinga leika mikið erlendis. Fjölgun móta á haustin og vorin með tilheyrandi fjölgun stiga í pottinum getur gert mörgum þeirra erfitt fyrir að vinna sér þátttökurétt í mótinu. Það verður auðveldara fyrir þessa kylfinga að vinna sér keppnisrétt með fjölgun keppenda. c. Undanfarin ár hefur reynst erfitt að fá 32 konur til að keppa í mótinu til að fylla í riðlana. Hins vegar voru alls 40 konur sem reyndu fyrir sér á mótaröðinni árið 2015 og um 25 voru virkir keppendur. Þá verður tiltölulega stór árgangur á síðasta ári í unglingaflokkum árið 2016. Er því lagt til að fjöldi keppenda í kvennaflokki verði 24. Með sömu rökum og nefnd eru í a.- og b.-liðum hér að ofan þykir of lítið að vera með 16 keppendur í kvennaflokki. Stefnt skal að því að fjölga keppendum í 32 á komandi árum þegar virkir keppendur á mótaröðinni eru komnir yfir þá tölu. d. Auðvelda þarf íslenskum kylfingum sem eru mikið við keppni erlendis að öðlast þátttökurétt í mótinu til að tryggja að bestu íslensku kylfingarnir eigi kost á að leika í því.

Sveitakeppni GSÍ Sveitakeppni GSÍ er eitt af stærstu mótum sumarsins á hverju keppnistímabili. Mótið er feikilega vinsælt meðal keppenda. Það er einróma álit starfshópsins að auka megi veg þessarar keppni verulega og um leið auka áhuga bæði almennra kylfinga og fjölmiðla á mótinu. Sú hefð hefur skapast að leikið sé í Sveitakeppni GSÍ aðra helgi í ágústmánuði. Það jákvæða vandamál hefur komið upp að sífellt fleiri íslenskir karlkylfingar hafa áunnið sér keppnisrétt í Evrópumóti einstaklinga á undanförnum misserum sem skarast á við Sveitakeppni GSÍ. Það kallar á breytingar á tímasetningu Sveitakeppninnar þannig að allir okkar bestu kylfingar nái að taka þátt í þessari frábæru keppni. Lagt er til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á Sveitakeppni GSÍ: 1. Nafni keppninnar verði breytt. Núverandi nafn er gamaldags og ekki söluvænlegt. 2. Gerðar verði breytingar á tímasetningu keppninnar og er lagt til að leikið verði í öllum deildum karla og kvenna fjórðu helgi júnímánaðar. Sveitakeppni eldri kylfinga og unglinga fari fram aðra helgi ágústmánaðar.

7


3. Kanna skal þann möguleika að undanúrslit og úrslit í efstu deildum karla og kvenna fari fram á sama velli. Það gefur golfáhugamönnum, klúbbfélögum, áhorfendum og fjölmiðlum betra tækifæri til að fylgjast með. 4. Stefnt skal að því að fá samstarfsaðila að mótinu og að sigurvegarar í efstu deild karla og kvenna verði studdir til þátttöku í Evrópumóti golfklúbba.

Verðlaunafé Þátttaka atvinnumanna á Eimskipsmótaröðinni er til þess fallin að auka áhuga á mótaröðinni. Til að ýta undir þátttöku atvinnumanna er lagt til að peningaverðlaun verði í boði fyrir stigameistara. Standi áhugakylfingur uppi sem stigameistari getur verðlaunaféð runnið til góðgerðarmála.

Flokkun golfvalla Lagt er til að golfvellir á Íslandi verði flokkaðir. Markmið flokkunarinnar á m.a. að vera: ­ ­ ­ ­ ­

Að stigskipta golfleikvöngum og völlum, setja kvarða og leiðbeiningar um lágmarksviðmið þeirra. Að setja íþróttaleg markmið um fjölbreytni í lengd og erfileikastigi valla til að undirbúa okkar fremstu kylfinga sem best. Að auka gæði móta okkar fremstu kylfinga samhliða því að geta haldið alþjóðleg mót, t.a.m. einstaklingsmót á vegum EGA. Að auðvelda og formgera enn frekar samskipti hvers golfklúbbs við sveitarfélögin, íþróttabandalög og GSÍ Að auka á og tryggja frekari aðkomu GSÍ vegna samskipta við hið opinbera (mennta- og menningarmálaráðuneytið) og ÍSÍ vegna uppbyggingar okkar stærstu leikvanga, golfvalla og hefja uppbyggingu landsmótsstaða, í samráði við forráðamenn þeirra klúbba

Stefnt skal að því að fyrstu drögum að forsendum flokkunar verði lokið fyrir formannafund GSÍ 2016.

Fjölmiðlar Lagt er til að kannaðar verði nýjar leiðir til að auka sýnileika mótaraðarinnar í fjölmiðlum. Æskilegt er að skoða möguleika á framleiðslu sérstakra sjónvarpsþátta í tengslum við Eimskipsmótaröðina, með svipuðum hætti og Pepsí mörkin eða Dominos körfuboltakvöld. Leitað verði leiða til að auka sýningu frá golfi á samfélagsmiðlum og netinu með streymisþjónustu. Í þessu samhengi er eðlilegt að endurskoða beina útsendingu frá Íslandsmótinu í golfi.

8


Tekjur af mótum Hópurinn gerir ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi í tengslum við tekjur af mótum á mótaröðinni. Þá er jafnframt lagt til að framlag golfsambandsins til golfklúbba vegna mótahalds verði óbreytt.

Annað Starfshópurinn leggur áherslu á að mótaröðin í heild sinni verði færð upp á næsta plan. Af því tilefni skal stefnt að því að ráða sérstakan mótsstjóra til golfsambandsins. Mótsstjóri skal hafa það hlutverk að halda utan um öll mót á vegum golfsambandsins, tryggja samræmi í mótahaldi og styrkja ásýnd Eimskipsmótaraðarinnar. Stefnt skal að því að ljúka við gerð handbókar um mótahald og kynna hana sérstaklega öllum þeim klúbbum sem taka að sér mótahald á vegum sambandsins. Handbókin skal vera viðauki við þann samstarfssamning sem gerður er á milli sambandsins og klúbbanna. Lagt er til að viðhorfskannanir verði gerðar reglulega meðal keppenda á mótaröðinni. Æskilegt er að golfklúbbar sem halda mót, skuldbindi sig til þess að bjóða keppendum og aðstandendum upp á gistiaðstöðu með lágmarks tilkostnaði. Samhliða Eimskipsmótaröðinni skal haldin keppni á milli golfklúbba landsins. Golfklúbbar skulu velja þrjá karla og tvær konur fyrir hvert mót. Samanlögð stig keppenda í hverju móti telja í klúbbakeppninni yfir tímabilið. Æskilegt er að mótakerfi golf.is verði bætt með það fyrir augum að gera útlit þess notendavænna, sér í lagi í tengslum við rauntímaskráningu skora (live score).

9


Golfsamband テ行lands Engjavegi 6, 104 Reykjavテュk Sテュmi: 514 4050 info@golf.is

www.golf.is


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.