1 minute read

Lagaðu boltafarið

– Það skiptir máli hvernig þú notar flatargaffalinn

Flatargaffall er skylduútbúnaður fyrir alla kylfinga sem fara í golf - óháð aldri og getu. Það er mikilvægt að laga boltaförin á flötum, sín eigin og einnig þau sem við sjáum á flötunum.

Rétta aðferðin við að laga boltafarið er að ýta grassverðinum inn að miðju þaðan sem mesta skemmdin er í grassverðinum. Síðan er þessi aðferð endurtekinn frá þremur til fjórum mismunandi stöðum í kringum boltafarið þar til að búið er að slétta svæðið og ýta grassverðinum inn að miðju. Röng aðferð er að stinga flatargafflinum niður og þrýsta síðan upp og undir boltafarið svo svörðurinn rifnar og það myndast brúnt sár.

Ef ekki er gert við boltafar þá getur grasið í því fölnað og dáið og þá verður eftir ljósbrúnn blettur í flötinni. Einnig verða flatir ósléttar ef boltaför eru ekki lagfærð sem rýrir gæði flata og hefur áhrif á púttlínu, þ.e. hraða og stefnu golfboltans.

Gæði golfvalla liggja að stórum hluta í púttflötunum, þar er snerting golfboltans mest við grasið þegar við leikum og því skiptir miklu máli að við göngum vel um þessi svæði.

Kylfingar hitta að meðaltali átta flatir á 18 holu hring. Ef leiknir eru 130 hringir á hverjum degi á golfvellinum þá myndast 1.040 boltaför á hverjum degi. Það eru 31.000 boltaför á einum mánuði.

Á íslenskum golfvelli þar sem leikið er sex mánuði á ári væru þetta tæplega 190.000 boltaför sem þyrfti að laga.

This article is from: