5 minute read

Hugarþjálfun - Betra golf – sama hvernig viðrar

Betra golf – sama hvernig viðrar

Tómas F. Aðalsteinsson skrifar:

Í síðustu grein fór ég yfir hvernig vel æft og skipulagt vanaferli hjálpar til við að færa leikinn frá æfingasvæðinu og yfir á golfvöllinn.

En hvað með þau tilfelli þar sem erfitt er, eða jafnvel ómögulegt, að æfa til dæmis vegna veðurs? Veður er breyta sem við kylfingar höfum ekki stjórn á og á Íslandi getur verið ergilegt að bíða vikum saman eftir að vellirnir opni eftir veturinn og tækifæri gefist til að rífa af sér úlpuna og húfuna til þess prófa nýju kylfurnar. Flestir óska þess að geta bara sveiflað án þess að klæðaburðurinn líti út eins og Michelin-maðurinn sé mættur á golfvöllinn.

Það er fátt betra en golfhringur í góðum félagskap í sumarsólinni og lítið sem kemur í staðinn fyrir einbeitta æfingu og að spila sjálfan leikinn. Að spila golf er alltaf besti undirbúningurinn og áhrifaríkast þegar kemur að því að ná árangri í golfi. En niður stöður fjölda rannsókna hafa sýnt fram á að blanda af líkamlegri æfingu (að spila leikinn) og skynmyndaþjálfun (e. visualization) hámarkar frammistöðu og skilar auknum árangri.

Það er einnig árangursríkt að stunda skynmyndaþjálfun þegar ekki er hægt að komast á golfvöllinn eða æfingasvæðið. Það getur verið vegna veðurs, en líka vegna tímaskorts, meiðsla, eða annarra hindrana. Það er því alltaf hægt að bæta leik sinn og ekkert gefið fyrir afsakanir, því skynmyndaþjálfun er hægt að stunda hvenær sem er og hvar sem er.

Jack Nicklaus sagði eitt sinn að hann myndi aldrei slá golfhögg, ekki einu sinni á æfingu, án þess að hafa mjög skýra mynd af því höggi í huganum. Hann var þarna að lýsa mikilvægi skynmyndunar í vanaferlinu og margir af bestu kylfingum sögunnar hafa sagt frá því hvernig þeir nýta sér skynmyndaþjálfun til þess að hámarka frammistöðu.

Skynmyndaþjálfun getur átt sér stað í fyrstu persónu (kylfingur ímyndar sér sjálfan sig slá höggið), eða í þriðju persónu (kylfingur sér fyrir sér mynd af sjálfum sér eins og horft væri á myndband).

Hvoru tveggja er góð leið, en mikilvægt er að þú hafir stjórn á skynmyndunum (stjórn á hraða, umhverfi, útkomu, o.s.frv.) og að myndin sé mjög skýr.

Til þess að skynmyndin sé sem skýrust getur verið gagnlegt að ná fram góðri slökun fyrir, en ekki nauðsynlegt. Það er mikilvægt er að virkja sem flest skynfæri eins og lyktarskyn, heyrnarskyn, snertiskyn, hreyfiskyn og bragðskyn, þó svo að sjónskynið leiki oft aðalhlutverkið.

Skynmyndaþjálfun má skipta í fjóra þætti:

1. Að endurupplifa frammistöðu:

Það er gert til að minna sig á góðan árangur og kallar fram minningar og tilfinningar tengdar frammistöðu sem kylfingur leitast eftir. Slík skynmyndun eykur sjálfstraust og hjálpar heilanum við að styrkja tengingar við þá þætti leiksins sem hafa verið vel æfðir og eykur líkurnar á því að kylfingur geti endurtekið slíkan leik. Að endurupplifa góða frammistöðu getur líka haft jákvæð áhrif á áhugahvöt og aukið eftirvæntingu eftir að komast út á völl.

2. Að æfa tæknilegan hluta leiksins:

Skynmyndaþjálfun er mjög gagnleg þegar kemur að því að sjá fyrir sér tæknilegt atriði sem kylfingur er að vinna í, t.d. breytingu á gripi eða sveiflu. Það er hægt að sjá framför mun hraðar með því að hafa mjög skýra sýn í huganum um hver útkoman á að vera og aðstoða þar með heilann við að skilja hvernig þetta tæknilega atriði skal framkvæmt.

3. Að sjá fyrir sér boltaflug:

Þetta er líklegast þekktasta form sjónmyndaþjálfunar. Við sjáum marga af bestu kylfingum heims standa fyrir aftan boltann, jafnvel loka augunum, og sjá fyrir sér boltaflugið með þeirri kylfu sem skal nota. Þessi sjónmyndun verður því hluti af vanaferlinu og á sér oft stað rétt áður en höggið er slegið. Þetta er þó aðeins gert til að sjá fyrir sér boltaflugið, en ekki tæknilegt atriði. Það er mikilvægt að skilja muninn og komum við að því síðar.

Að setja sig í nýjar aðstæður:

Ef markmiðin eru skýr, þá er skynmyndaþjálfun góð leið til að auka líkurnar á því að þau markmið verði að veruleika. Þetta er gert með því að sjá sjálfan sig ná settum markmiðum við þær aðstæður sem leikið er í. Kylfingur sér sjálfan sig setja niður þriggja metra pútt fyrir Íslandsmeistaratitli, lægsta skori sumarsins eða fagna sigri gegn vinnufélögunum. Hér, eins og áður, er mikilvægt að skapa skýra sýn af aðstæðunum; hvar ertu, hver er með þér, hvernig er veðrið, hvað heyrirðu, hver er tilfinningin, finnurðu lykt af nýslegnu grasi?

Sjónmyndaþjálfun er eins og hver önnur æfing sem þarfnast endurtekninga og eftirfylgni til þess að hún skili tilætluðum árangri. Engin ætlast til þess að auka líkamlegan styrk með því að gera eina armbeygju. En með því að gera 30 armbeygjur, þrisvar í viku, í þrjár vikur - má búast við auknum styrk. Það sama gildir um sjónmyndaþjálfun og aðrar hugarþjálfun. Það er því ekki hægt að segja: „Ég prófaði þetta einu sinni og það virkaði ekki.“ Sjónmyndaþjálfun er hægt að endurtaka aftur og aftur, sama hvernig viðrar, og slík æfing mun skila sér í betra golfi.

Nokkrir punktar varðandi sjónmyndaþjálfun:

Sjónmyndaþjálfun ein og sér er betri en engin æfing.

Blanda af sjónmyndaþjálfun og líkamlegri æfingu skilar bestum árangri. Ég mæli því með því að kylfingar fari í gegnum hreyfingarnar um leið og þeir sjá þær fyrir sér. Haldi á kylfunni og reyna að líkja eftir aðstæðum eins mikið og hægt er.

Best er að nota sjónmyndaþjálfun við allar æfingar.

Ef nota skal sjónmyndun sem hluta af vanaferli, þá skal varast að sjá fyrir sér boltaflugið of nálægt þeim tíma sem höggið er slegið. Einnig skal varast að hugsa um tæknileg atriði þar sem önnur heilasvæði sjá um slíka greiningu á hreyfingu, og þau heilasvæði eru meira tengd námi en þau sem eru tengd lærðri hegðun og frammistöðu. Nota skal sjónmyndun í hugsanasvæðinu (e. Think Box) en ekki í leiksvæðinu (e. Play Box) til þess að hámarka frammistöðu hverju sinni (sjá fyrri grein um vanaferli).

Mikilvægt er að sjónmyndin sé ávallt skýr og nákvæm og að kylfingur hafi stjórn á æfingunni til að tryggja að útkoman verði eins og stefnt er að.

Tómas F. Aðalsteinsson er aðstoðarprófessor við Williams College í Massachusetts í Bandaríkjunum og er yfirþjálfari kvennagolfliðs skólans. Hann er með meistaragráðu í íþróttasálfræði frá John F. Kennedy University í Kaliforníu og veitir ráðgjöf og fræðslu um hugarþjálfun í golfi og öðrum íþróttum.

This article is from: