3 minute read

„Þetta mót verður bara skemmtun“

Nína Björk Geirsdóttir er eina konan úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar sem hefur fagnað sigri á Íslandsmótinu í golfi. Það gerði hún árið 2007 á Hvaleyrarvelli. Nína Björk var á þeim tíma í fremstu röð afrekskvenna í golfíþróttinni og æfði mikið. Á síðustu árum hefur lögfræðingurinn nálgast golfið með breyttum áherslum og á eigin forsendum.

„Ég ætla að sjálfsögðu að vera með á Íslandsmótinu 2020. Það er ekki hægt að sleppa því tækifæri að fá að keppa á stærsta móti ársins loksins þegar það er haldið á mínum heimavelli, þar sem að þetta byrjaði nú allt saman hjá mér,“ segir Nína Björk en hún æfir lítið sem ekkert en keppir af og til þegar hún finnur löngun til þess. „Ég hef nánast ekkert æft frá árinu 2012 þegar við eignuðumst dóttur okkar, en strákurinn okkar fæddist árið 2008,“ segir Nína Björk en maður hennar er Pétur Óskar Sigurðsson, afrekskylfingur úr GR. Vinkonugolf fasti punkturinn í tilverunni „Ég hitti vinkonur mínar í golfi á þriðjudögum yfir sumartímann. Það er fasti punkturinn í gofinu hjá mér, og stundum fer ég nokkrar holur með Pétri og vinum okkar. Annars er þetta bara til gamans gert hjá mér í dag. Ég fer bara í mót þegar mig langar og ég æfi mig pínulítið rétt fyrir mótin, bara til að skerpa aðeins á stutta spilinu og púttunum,“ segir Nína Björk.

Á Íslandsmótinu í fyrra vakti árangur Nínu Bjarkar athygli en hún blandaði sér í toppbaráttuna og endaði í þriðja sæti á +6 yfir pari á fjórum keppnisdögum. Hún fagnaði sigri á Íslandsmóti +35 ára sem fram fór samhliða Íslandsmótinu. „Ég fer í Íslandsmótið í ár til þess að njóta og hafa gaman af þessu. Ég er ekki með nein önnur markmið. Golfið mitt er mjög svipað og það var fyrir um tíu árum. Grunnurinn er til staðar og ég hef náð að setja saman góða hringi og halda forgjöfinni lágri. Ég get enn keppt við þær bestu og hangið í þeim. Þetta mót verður bara skemmtun, Hlíðavöllur hefur aldrei verið betri, og ég hlakka bara til að fá tækifæri að upplifa þetta mót á heimavelli.“ Byrjaði í golfi 10 ára á Hlíðavelli

Nína Björk er 37 ára gömul og menntuð sem lögfræðingur. Hún segir að eldri bróðir hennar hafi komið henni af stað í golfinu og sterkur vinkvennahópur á golfæfingum hafi haldið henni við efnið.

„Ég byrjaði í golfi þegar ég var 10 ára. Við áttum heima við gömlu 9- brautina sem er í dag sú 6. Bróðir minn var að æfa golf og hann leyfði mér að koma með sér út á völl að prófa. Ég fór síðan á æfingu og það var skemmtilegur andi á æfingasvæðinu. Það voru margar stelpur að æfa og þessi vinkvennakjarni er enn til staðar í lífi okkar í dag. Það sem heillaði mig fyrst og fremst var hvað þetta var skemmtilegt. Félagsskapurinn var mikilvægur og við héngum bara úti á velli allan daginn að leika okkur. Vipp- og púttkeppnir á æfingaflötinni við skálann og þess á milli vorum við bara að „hanga“ eins og krakkar gera. Stemningin í gamla golfskálanum var alltaf góð og mér leið bara vel þarna í þessu umhverfi.“

Nína Björk náði góðum tökum á golfíþróttinni fljótlega eftir að hún byrjaði. Þegar hún var 12-13 ára fór hún að mæta á unglingalandsliðsæfingar og eitt leiddi af öðru. „Þegar ég var 14 ára fór ég í mína fyrstu keppnisferð utan fyrir Íslands hönd. Þá fór ég alveg á bólakaf í golfið og ég hef ekki tölu á þeim utanlandsferðum sem ég hef farið í til að keppa í golfi.“ Nálægt sigri á ný komin sex mánuði á leið

Eins og áður segir er Nína eina konan úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar sem hefur fagnað Íslandsmeistaratitlinum í höggleik. Heiðar Davíð Bragason (2005) og Kristján Þór Einarsson (2008) hafa sigrað í karlaflokki undir merkjum Golfklúbbs Mosfellsbæjar sem á þeim tíma var Golfklúbburinn Kjölur. „Ég var búin að vera í toppbaráttunni um titilinn í nokkur ár áður en ég sigraði loksins árið 2007. Það var ljúft að ná því markmiði, nafnið mitt er á verðlaunagripnum, og ég er ánægð með árangurinn. Það munaði litlu að ég næði að verja titilinn árið 2008 í Vestmannaeyjum. Þá var ég komin sex mánuði á leið með drenginn okkar. Ég fór í bráðabana við Helenu Árnadóttur um titilinn og náði því miður ekki að sigra. Það hefði verið gaman því Kristján Þór sigraði á þessu móti í Eyjum og þá hefði Kjölur verið með tvöfaldan sigur,“ segir Nína Björk Geirsdóttir.

This article is from: