6 minute read

Íslandsmótið í golfi 2020

Kæru kylfingar og verðandi kylfingar

Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ.

Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Golftímabilið fór einkennilega af stað í vor og um tíma var ekki útlit fyrir að hægt yrði að leika íþróttina vegna takmarkana á íþróttastarfi. Til allrar hamingju er golf íþróttagrein sem unnt er að leika án snertingar við aðra og með eigin útbúnaði. Af þeim sökum lánaðist okkur kylfingum að leika um velli landsins, að virtum tilmælum stjórnvalda. Golfhreyfingin sýndi samfélagslega ábyrgð og lagði á sama tíma sitt af mörkum til aukinnar lýðheilsu og útiveru.

En þrátt fyrir frávik frá hefðbundnum golfleik og óvissu um ástundun, þá varð niðurstaðan besta golfsumar í manna minnum. Aldrei í 78 ára sögu Golfsambandsins Íslands hafa fleiri leikið golf hér á landi og fjölgaði iðkendum um 11% milli ára, sem einnig er met. Það þýðir að yfir sex prósent þjóðarinnar eru skráð í golfklúbb og meira en 10% þjóðarinnar leika golf að staðaldri. Engin önnur þjóð getur teflt fram slíkum tölum. Af þessu erum við virkilega stolt og horfum enn bjartsýnni fram á veginn. Verkefni hreyfingarinnar felast nú í að breiða enn frekar út boðskap íþróttarinnar og áskorunin felst í því að halda kylfingum við efnið. Við megum alls ekki pakka í vörn. Það fær enginn fugl með því að pútta of laust í boltann.

Á morgun er komið að rúsínunni í pylsuendanum þegar Íslandsmótið í golfi fer af stað með látum. Sjaldan eða aldrei hafa jafnmargir af sterkustu kylfingum landsins verið meðal þátttakenda og við hlökkum mikið til að hefja leik á glæsilegum Hlíðavelli í Mosfellsbæ. Þetta blað, sem gefið er út í samstarfi við Morgunblaðið, er tileinkað Íslandsmótinu. Mótið er okkar stærsti árlegi viðburður og án efa besta auglýsing sem íslenskt golf getur fengið. Að þessu sinni verður leikið í mótinu með óhefðbundnu sniði, þar sem taka þarf tillit til sóttvarna og heilsu keppenda. Ég er þó handviss um að það mun engin áhrif hafa á keppendur, enda erum við öll þakklát fyrir að geta haldið mótið. Vegna takmarkaðs fjölda áhorfenda þá kemur sér einkar vel að sýnt verður frá mótinu í beinni útsendingu á RÚV föstudag, laugardag og sunnudag. Golfþyrstir áhorfendur ættu því að geta fylgst náið með keppninni.

Ég óska keppendum öllum alls hins besta og hlakka til að afhenda verðandi Íslandsmeisturum í karla- og kvennaflokki hina eftirsóttu bikara í leikslok.

„Tilhlökkun og eftirvænting hjá klúbbfélögum“

„Á undanförnum árum hefur GM unnið með það markmið að vera skemmtilegasti golfklúbbur landsins. Það hefur tekist vel en við viljum einnig vera fjölskylduvænn klúbbur.“

Ágúst Jensson, framkvæmdastjóri GM.

„Það hefur lengi verið markmið hjá forsvarsmönnum Golfklúbbs Mosfellsbæjar að fá það verkefni að halda Íslandsmótið í golfi á Hlíðavelli. Það hefur verið unnið markvisst að því að bæta aðstöðuna hér á svæðinu til þess að geta tekið slíkt mót að okkur.

Það ríkir mikil tilhlökkun og eftirvænting hjá félagsmönnum okkar að fá þetta stóra verkefni hingað á Hlíðavöll,“ segir Ágúst Jensson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Mosfellsbæjar.iklar framkvæmdir hafa átt sér stað á Hlíðavelli á undanförnum árum og nýtt félagsheimili GM, Klettur, hefur gjörbreytt aðstöðumálum klúbbsins. „Klettur er eitt glæsilegasta klúbbhús landsins, við erum einnig með nýtt æfingasvæði og frábæran 18 holu golfvöll. Aðstaðan hér á Hlíðavelli er í fremsta flokki á landsvísu.“

Ágúst, sem er fæddur og uppalinn í Stykkishólmi, hefur mikla reynslu af framkvæmd Íslandsmótsins í golfi. „Íslandsmótið 2020 verður það þriðja hjá mér þar sem ég kem að undirbúningi og framkvæmd. Ég var vallarstjóri á Korpúlfsstaðavelli árið 2013 hjá Golfklúbbi Reykjavíkur, og ég var framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar árið 2016 þegar Íslandsmótið fór fram á Jaðarsvelli. Framkvæmd á slíku móti er samvinnuverkefni margra aðila og ég er sannfærður um að Íslandsmótið 2020 verður eftirminnilegt og glæsilegur viðburður.“

Ágúst segir ennfremur að það skipti miklu máli fyrir klúbb eins og GM að fá tækifæri til að halda stærsta golfmót ársins, Íslandsmótið. „Við erum klúbbur sem er samkeppnishæfur á þessu sviði. Bæði hvað varðar aðstöðu, umgjörð og ekki síst innra starf klúbbsins. GM er með gríðarlega sterkan hóp sjálfboðaliða sem eru allir af vilja gerðir til þess að koma klúbbnum til aðstoðar í ótal verkefnum sem fylgja móti af þessari stærðargráðu. Það skiptir einnig máli fyrir okkar fjölmörgu og góðu afrekskylfinga að fá tækifæri til þess að keppa á þessu móti á heimavelli. Það vilja allir afrekskylfingar keppa á þeim velli sem þeir þekkja best.“

Golfklúbbur Mosfellsbæjar hefur vaxið hratt á undanförnum árum og eru rétt rúmlega 1.300 félagsmenn í honum. Ágúst segir að markmiðið sé að vera með um 1.400 félagsmenn í GM. „Á undanförnum árum hefur GM unnið með það markmið að vera skemmtilegasti golfklúbbur landsins. Það hefur tekist vel en við viljum einnig vera fjölskylduvænn klúbbur. Eitt af markmiðum ársins 2020 er að fá enn fleiri börn og unglinga í starfið hjá okkur. Við buðum upp á fjölskyldutilboð sem sló heldur betur í gegn. Yngri kylfingum hefur fjölgað mjög hjá okkur. Það er jákvætt og við ætlum að halda áfram á þeirri braut á næstu misserum.“

Það er ljóst að bestu kylfingar landsins hafa áhuga á að keppa á stærsta móti ársins á Hlíðavelli.

Færri komust að í Íslandsmótið 2020 en vildu. Alls sóttu 171 keppandi um að taka þátt en aðeins 151 komust inn í mótið, 117 karlar og 34 konur. Forgjöf keppenda réði því hvort þeir komust inn eða ekki. Fyrsti kylfingurinn á biðlista í karlaflokki er með 3,1 í forgjöf en engin kona er á biðlistanum. Íslandsmótið 2020 er því á meðal fjölmennustu Íslandsmóta frá árinu 2001. Íslandsmótið árið 2009 í Grafarholti var með 155 keppendur, árið 2002 á Hellu voru 151 keppendur líkt og í ár.

Öflugur klúbbur með stutta sögu

Golfklúbbur Mosfellsbæjar Golfíþróttin á sér ekki langa sögu í Mosfellsbæ en Golfklúbbur Mosfellsbæjar er í dag einn af fjölmennustu og öflugustu golfklúbbum landsins. Klúbburinn var stofnaður árið 2015 þegar Golfklúbbur Bakkakots í Mosfellsdal og Golfklúbburinn Kjölur í Mosfellsbæ sameinuðust undir merkjum GM, eða Golfklúbbs Mosfellsbæjar.

Golfklúbbur Bakkakots hafði starfað allt frá árinu 1991 og Golfklúbburinn Kjölur frá 1980. Nýr golfklúbbur hlaut skammstöfunina GM og skartar í dag tveimur vallarsvæðum.

Hlíðavöllur er í Mosfellsbæ og er glæsilegur 18 holu golfvöllur við ströndina með óviðjafnanlegu útsýni yfir Faxaflóann. Bakkakot í Mosfellsdal er skemmtilegur níu holu golfvöllur í yndislegri náttúru Mosfellsdals. Það liðu sex ár frá því að Kjölur var stofnaður þar til byrjað var að leika á Hlíðavelli. Framkvæmdir hófust við völlinn árið 1983 og þremur árum síðar var níu holu völlur opnaður. Sjálfboðaliðar unnu að mestu við uppbyggingu vallarins á þessum árum – en GM býr enn að því hversu sterkur félagsandinn er í klúbbnum, og öflugt sjálfboðalið er eitt helsta einkenni klúbbsins.

Árið 2004 var hafist handa við að stækka Hlíðavöll í 18 holur. Fimm nýjar holur voru opnaðar árið 2008 og var völlurinn 14 holur allt til ársins 2011 þegar allar 18 holur vallarins voru tilbúnar. Edwin Roald Rögnvaldsson hannaði nýjan hluta vallarins. Völlurinn liggur við ströndina og er óviðjafnanlegt útsýni bæði til sjávar og fjalla frá ýmsum stöðum á vellinum. Brautirnar á Hlíðavelli eru fjölbreyttar og með skemmtilegum áskorunum.

Eldri hluti Hlíðavallar er tiltölule ga stuttu r og eru f latir þar oft á tíðum aðeins upphækkaðar. Á nýrri hluta vallarins eru brautirnar talsvert lengri og flatir almennt mjög stórar. Ný og glæsileg íþróttamiðstöð var opnuð við völlinn árið 2017. Við þær breytingar fékk fjölbreytt starfsemi klúbbsins frábæra aðstöðu. Efri hæð hússins er 650 fermetrar en þar er stór veitingasalur og veitingaþjónusta, golfverslun, snyrtingar og skrifstofur. Á neðri hæðinni er m.a. fullkomin æfingaaðstaða.

This article is from: