17 minute read
BAKGRUNNUR
STAÐARANDI OG GÆÐI UMHVERFIS Bæjarrými eru götur, torg og almenningssvæði sem eru vettvangur daglegs lífs heimamanna og áfangastaðir ferðamanna (Skipulagsstofnun, 2015) Lifandi bæjarrými sem búa yfir aðdráttarafli laða að sér fólk og athafnir en ímynd staðar, mannlíf og umhverfi geta styrkt vinsældir ferðamannastaða í byggð.
“Aðdráttarafl bæjarrýma felst í samspili rýmismyndunar, efnisvals og þeirri sögu og fjölbreytileika sem einkenna hið byggða umhverfi og mannlífið á svæðinu. Tilfinningu um að þangað sé gott að koma og eitthvað áhugavert að finna.”
(Skipulagsstofnun, 2015:14)
Staðarandi (lat. Genius Locci) eða staðarvitund endurspeglar þann skilning að hvert svæði í byggðu umhverfi og náttúru býr yfir sérstöðu (Auður Sveinsdóttir, 2014). Sérstaða svæðisins eru ákveðin einkenni sem eru óáþreifanleg og byggir hugtakið á upplifun og skynjun notenda á umhverfinu. Við hönnun umhverfis og skipulagsgerð er hægt að vinna markvisst með staðaranda þar sem gerð er grein fyrir sérstöðu hvers svæðis (Skipulagsstofnun, 2015). Þannig er hægt að vinna með ímynd staðar og stuðla að bættri upplifun fyrir íbúa og ferðamenn og auka gæði byggðar fyrir búsetu, atvinnulíf og ferðaþjónustu. Staðarandi og ímynd svæðis byggist á sérkennum sem einkenna hvern stað. Staður er skilgreindur sem „(lítið) svæði með óákveðnum mörkum, blettur (stór eða smár), oftast með tilliti til að eitthvað eða einhver er þar, kemur þangað, eða eitthvað gerist þar.“ (Matthildur Kr. Elmarsdóttir, 2015). En hvað er það sem gerir stað góðan og eftirsóknarverðan? Góð bæjarrými eru aðgengileg, örugg og notaleg og þar gefst fólki tækifæri á að staldra við enda eru þau sviðsmynd mannlífsins (Project for Public Spaces, á.á.). Vel hönnuð bæjarrými undirstrika staðaranda og hvetja til fjölbreyttra athafna og félagslegra samskipta. Skýringarmyndin hér á næstu síðu sýnir fjögur aðalatriði sem gera stað áhugaverðan og aðlaðandi og þá þætti sem einkennir hvern flokk.
Jan Gehl
Hugmyndafræði danska arkitektsins Jan Gehl (2018) fjallar um samband daglegra athafna fólks og gæði umhverfisins. Hversdagslegar athafnir líkt og að fara út í búð og versla í matinn lýsir Gehl sem nauðsynlegum athöfnum en þær gerast að mestu leyti óháð því hvernig umhverfið lítur út. Á móti þá eru valkvæðar athafnir háðar gæðum umhverfisins, líkt og að fara út í göngutúr í gróðursælum almenningsgarði til að njóta ferska loftsins og útsýnisins. Í bæjarrýmum þar sem umhverfið er óspennandi og gæðin lítil gerast einungis nauðsynlegar athafnir. Hönnun umhverfisins getur jafnframt haft áhrif á félagslegar athafnir með því að skapa tækifæri fyrir fólk til að mætast. Almenningsrými af góðum gæðum skapa rými fyrir mannlíf þar sem atferli og nærvera fólks laðar að sér fólk. Gehl fjallar um að til þess að almenningsrými laði að sér fólk þurfi leiðin að rýminu að vera opin og viðráðanleg, fólk geti séð það sem á sér stað, hafi erindi þangað og eitthvað að gera.
“Tækifæri til þess að sjá það sem á sér stað í almenningsrýminu er einnig liður í því að gera það aðlaðandi. Ef börn sjá götu eða leiksvæði frá heimili sínu ná þau líka að fylgjast með því sem þar fer fram og sjá hverjir eru úti að leika sér. Það verður þeim hvatning til þess að fara sjálf út að leika sér...”
(Gehl, 2018:117)
Aðlaðandi umhverfi þarf fyrst og fremst að gefa fólki tækifæri á að staldra við með góðri hönnun og skjólmyndun. Til að hvetja fólk til að dvelja í almenningsrýmum þarf umhverfið að vera vel skipulagt og bjóða upp á góða möguleika fyrir grundvallarathafnirnar að ganga um rýmin, standa, sitja ásamt því að upplifa rýmin með því að sjá, heyra og tala (Gehl, 2018).
“Það sem skiptir sköpum er þó hvers konar athafnir hafa tækifæri til að þróast í rýminu, þ.e. að ekki sé aðeins hægt að ferðast til og frá rýminu heldur einnig fara þar um og dvelja í því til þess að taka þátt í fjölbreytilegum félagslegum og afþreyingartengdum athöfnum” (Gehl, 2018:133)
AÐ GANGA Að ganga er leið til að ferðast um og fara á milli staða en gefur einnig tækifæri á að vera í almenningsrými. Aðgengi allra er mikilvægt og vörn gegn veðri. Gönguleiðir leiða vegfarendur að áfangastað og því þarf skipulag þeirra að miða við stystu vegalengdina þar sem áfangastaður er í sjónmáli.
AÐ STANDA Tækifæri til að standa í almenningsrými er lykilatriði fyrir fólk til að dvelja til dæmis þegar fólk mætist, stendur og talar við einhvern en einnig ef fólk stendur og virðir fyrir sér útsýni. Fólk sækist í að standa við jaðar svæðis, með góða yfirsýn. Þá er gott að geta hallað sér að einhverju.
AÐ SITJA Að eiga möguleika á að sitja í almenningsrými getur lengt tímann sem fólk dvelur á svæðinu og opnar fyrir fjölda athafna eins og að borða, lesa, prjóna, spjalla o.s.frv. Ef ekki er hægt að setjast niður gæti fólk gengið framhjá og misst af tækifærinu að sjá eitthvað áhugavert í umhverfinu.
AÐ SJÁ, HEYRA OG TALA Að sjá og upplifa mannlíf krefst þess að almenningsrými sé opið en ekki of stórt, þannig að fólk hafi yfirsýn yfir rýmið. Mikilvægt er að rýmin hafi góða lýsingu til að hægt sé að dvelja þar þegar dimmt er úti. Hluti af upplifun þess að dvelja á stað er að heyra án þess að verða fyrir truflun af umferðarhávaða. Bekkir skapa til dæmis tækifæri fyrir fólk til að sitja og horfa, hlusta og tala í almenningsrýminu.
AÐ ÖÐRU LEYTI NOTALEGT Almenningsrými sem hvetur fólk til að dvelja felur í sér tækifæri til að ganga, standa, sitja og upplifa. Rýmið er á allan hátt notalegt og gefur skjól frá veðri og umferð til dæmis með gróðri.
MÖRKUN STAÐAR Matthildur Elmarsdóttir (2015) skipulagsfræðingur ritaði bæklinginn Stefnumótandi skipulagsgerð og mörkun svæða en þar er fjallað um hvernig nýta má skipulagsgerð til að styrkja ímynd svæða og auka aðdráttarafl þeirra. Sú aðferð kallast á ensku place branding sem hefur verið þýtt á íslensku sem mörkun eða ímyndarsköpun svæða og nýtist við gerð stefnumótandi skipulagsáætlana. Aðferðinni hefur verið beitt við markaðssetningu ferðamannastaða en er nú einnig nýtt við byggðaþróun. Í raun mætti bera mörkun svæðis við persónu sem hefur sín einkenni og talar sinni röddu. Persónan gæti verið ferðamannastaður, miðbær, hverfi, sveitarfélag eða landssvæði. Til dæmis mætti segja að miðborg Reykjavíkur sé ein persóna og Snæfellsnes önnur. Ímyndarsköpun eða mörkun svæðis byggist á þessari persónu sem er vörumerki svæðisins og er hægt að þróa vörumerkið áfram í markaðssetningu til að auka aðdráttarafl svæðisins.
Mörkun svæðis felst í því að skilgreina sérstöðu svæðis og marka framtíðarsýn og stefnur (Matthildur Elmarsdóttir, 2015). Gerðar eru áætlanir um hvernig eigi að koma ímynd staðar á framfæri með því að hanna vörumerki og vinna að sameiginlegum markmiðum fyrir svæðið. Mikilvægt er að hagsmunaaðilar vinni saman í sátt um grunngildi vörumerkisins og fyrir hvað áfangastaðurinn stendur fyrir (Trausti Þór Karlsson, 2013). Þá er hægt að auka virði vörumerkisins með því að markaðssetja áfangastaðinn og styrkja jákvæða ímynd af áfangastaðnum í huga neytenda. Ímyndarsköpun áfangastaða þarf að draga athygli að sérstöðu svæðisins og þeirri upplifun sem hann býr yfir (Margret Herdís Einarsdóttir, 2011). Ímynd staðarins hefur áhrif á ákvarðanartöku ferðamanna varðandi val á áfangastað og skiptir hún enn meira máli á jaðarsvæðum til að laða að ferðamenn og íbúa. Með aukinni samkeppni um athygli ferðamannsins verður ímyndarsköpun enn mikilvægari við markaðssetningu áfangastaðar. Áfangastaðaáætlanir allra landshluta taka á skipulagi, þróun og markaðssetningu þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði með þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis í fyrirrúmi (Ferðamálastofa, á,á). Í áætlununum eru sett fram markmið um landshlutana sem áfangastaði, þar sem landssvæðin eru
skilgreind sem vörumerki sem bjóða upp á ákveðna upplifun. Sem dæmi má nefna Norðurstrandarleiðina sem er vörumerki fyrir leið sem tengir saman náttúru og byggð á um 900 km kafla meðfram strandlengju Norðurlands (Markaðsstofa Norðurlands, 2021). Leiðin myndar samband um lífshætti tengda hafi og norðlægri búsetu og beinir ferðamönnum um norðurströnd Íslands.
Í Landsskipulagsstefnu 2015-2026 eru sett fram markmið og stefnur í skipulagsmálum fyrir landið allt um þróun byggðar og landnýtingar. Lagt er til grundvallar að skipulag byggðar stuðli að lífsgæðum fólks og samkeppnishæfni landsins alls.
“Skipulag byggðar getur stuðlað að samkeppnishæfni með ýmsum hætti. Með því að beina vexti á tiltekin svæði í skipulagi og styrkja innviði er unnt að stuðla að hagkvæmari uppbyggingu og efla slagkraft viðkomandi svæðis í samkeppni við önnur um íbúa, fyrirtæki og ferðamenn. Einnig má nýta skipulag til að vinna út frá sérkennum og staðaranda viðkomandi staðar og styrkja þannig viðkomandi stað sem álitlegan kost fyrir búsetu og atvinnurekstur.” (Landsskipulagsstefna, bls. 10).
Markmið númer 3.3 í stefnunni segir að skipulag byggðar og bæjarhönnun skuli stuðla að gæðum í hinu byggða umhverfi og yfirbragð nýrrar byggðar falli að bæjarmynd viðkomandi staðar.
“Einnig verði sérstaklega hugað að almenningsrýmum og útivistarsvæðum með það að markmiði að hvetja til útiveru og hreyfingar, matjurtaræktunar og náttúruupplifunar og varðveita verðmæt náttúrusvæði. Jafnframt verði tekið tillit til sögulegs samhengis í þróun byggðar og menningararfurinn nýttur til að styrkja sérkenni og staðaranda.”
(Landsskipulagsstefna, bls. 59).
MÖRKUN OG SAMFÉLAGSMIÐLAR Í raun mætti segja Instagram sé nokkurs konar sjónræn persónuleg dagbók sem opin er fyrir alla til að skoða. Myndir sem notendur deila er af hverju sem er; umhverfi þeirra, þeim sjálfum, dýrunum þeirra, matnum þeirra, fötunum þeirra og svo framvegis. Notandinn birtir það efni sem honum finnst áhugavert og getur skoðað efni frá öðrum sem honum finnst áhugavert. Fyrirtæki hafa í auknu mæli nýtt samfélagsmiðilinn til að auglýsa vöru sína, ýmist með keyptri auglýsingu sem birtist á efnisveitu notenda eða með keyptri umfjöllun í formi samstarfs við áhrifavalda. Áhrifavaldar eru eins fjölbreyttir og þeir eru margir en það sem þeir eiga sameiginlegt er að vera persónur á samfélagsmiðlum sem notendur þeirra fylgja og jafnvel líta upp til og hlusta á líkt og um raunverulegan vin væri að ræða. Þannig verða notendur samfélagsmiðla oft fyrir áhrifum af myndum og umfjöllun sem aðrir notendur og áhrifavaldar birta þar. Vörur hafa selst upp eftir umfjöllun á samfélagsmiðlum, veitingastaðir orðið skyndilega vinsælir og fólk hefur jafnvel farið í ferðalög á staði eftir að hafa séð myndir annarra notenda af þeim. Telja mætti því samfélagsmiðlar séu tilvalin verkfæri fyrir aðila eins og sveitarstjórnir til að koma ímynd sinni á framfæri og þannig styrkja aðdráttarafl ákveðinna svæða eða jafnvel auka áhuga á búsetu í sveitarfélaginu.
Eitt sterkasta dæmi um markaðssetningu áfangastaðar á Íslandi er Inspired by Iceland verkefnið sem hófst árið 2010 til þess að draga úr neikvæðum áhrifum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli (Ferðamálastofa, 2010). Markaðsátakið átti að styrkja ímynd Íslands sem vænlegan áfangastað fyrir ferðamenn og skapa tækifæri úr fjölmiðlastorminum í kjölfar gossins. Stefna verkefnisins var að birta auglýsingar um Ísland og kynna landið allt með mikilli áherslu á nýtingu samfélagsmiðla. Fyrirtæki voru ekki kynnt sérstaklega heldur Ísland sem heild,
Svar úr könnun verkefnisins
í raun vörumerkið Ísland og það sem landið hefur uppá að bjóða í menningu, náttúru, mat og afþreyingu. Um þjóðarátak var að ræða þar sem allir voru beðnir um að leggja sitt af mörkum við að kynna landið. Ætli flestir Íslendingar hafi ekki séð fyrsta myndbandið sem birt var á samfélagsmiðlum þar sem landsmenn dönsuðu í náttúrunni við lagið Jungle Drum.
Til eru dæmi hér á Íslandi um áfangastaði líkt og heitar laugar sem verða óvænt vinsælar vegna samfélagsmiðla. Sem dæmi má nefna að heitir pottar í þorpunum Hjalteyri og Hauganesi í Eyjafirði hafa orðið áberandi á samfélagsmiðlum þar sem fólk deilir myndum af sér í pottinum með útsýni út á haf. Þegar ferðamenn velta fyrir sér hvert á að fara næst, þá geta samfélagsmiðlar svo sannarlega gefið ákveðna ímynd af hvað er á hverjum stað. Færst hefur jafnframt í aukanna að heilu hverfin séu markaðssett á samfélagsmiðlum sem vænlegur búsetukostur. Þetta er spennandi vettvangur og virðist vera það sem koma skal til að ná til yngri kynslóða sem hafa alist upp með tækninni og eru að kaupa sínu fyrstu eignir. Vörumerki sem er áberandi á samfélagsmiðlum virðist heilla ákveðna markhópa og því kjörið að nýta þá til markaðssetningar og ímyndarsköpunar, hvort sem um er að ræða áfangastaði fyrir ferðamenn eða búsetuvalkosti fyrir íbúa.
Með aukinni notkun samfélagsmiðla eru þeir orðnir ákveðið verkfæri í markaðssetningu áfangastaða. Aðgengi að markhópum er gott og notendur nýta miðlana til afþreyingar og upplýsingar. Sveitarfélög geta líkt og fyrirtæki nýtt miðlana til þess að markaðssetja sig og sitt vörumerki sem getur ýmist verið staður, svæði, hverfi, kennileiti, miðbær og svo framvegis. Þannig er hægt að markaðssetja áfangastaði eða byggðir fyrir ákveðna markhópa með markvissri ímyndarsköpun.
Oliver Wainwright
Fiocco og Pistone (2019) telja að samfélagsmiðlar séu að breyta hvernig við horfum á skipulag borga og bæja. Í grein þeirra benda þær á að hið byggða umhverfi er að breytast í aðdráttarafl þar sem áherslan er meiri á sviðsmyndir fyrir skapandi efnismiðlun en á notagildi hönnunarinnar. Fiocco og Pistone benda á að arkitektastofur um allan heim vinni nú markvisst að því hönnun á almenningsrýmum sé „Instagram-væn“. Wainwright (2018) segir í grein sinni að Instagram hafi vaxið í eitt áhrifamesta aflið í því hvernig umhverfi okkar er mótað. Hann telur að drifkraftur hönnuða og framkvæmdaaðila hafi snúist upp í að vinna að því að hanna myndrænt umhverfi. Wainwright tekur þó fram að með því að leggja megináherslu á að almenningsrými séu sviðsmyndir fyrir myndræn augnablik, þá megi ekki gleyma hlutverki og notagildi svæðisins. Myndræn almenningsrými gætu gengið vel til að byrja með og laðað að ferðamenn en ef ekki er hugað að notagildi svæðisins gæti svæðið fljótt hætt að vera spennandi. Tilhneiging fólks til að taka myndir og deila upplifunum sínum á samfélagsmiðlum er tækifæri fyrir nýsköpun að mati Wainwright. Hann telur að arkitektar ættu að nýta þetta tækifæri þar sem Instagram er vettvangur sem hvetur fólk til að horfa betur í kringum sig og sitt umhverfi. Instagram er orðinn stór áhrifaþáttur í daglegu lífi fólks og virðist æ meir hafa áhrif á mótun hins byggða umhverfis. Fiocco og Pistone (2019) lýsa því hvernig Instagram getur haft áhrif á hvernig við skipuleggjum dagana okkar og hvernig við horfum á nærumhverfi okkar.
Tómas Þorgeir Hafsteinsson (2020) greinir í námsritgerð sinni frá túlkunarhring Jenkins (e. circle of representation) sem lýsir hvernig ljósmynd getur haft áhrif á vilja fólks til að heimsækja stað. Túlkunarhringurinn sýnir hringrásina þegar myndir af áfangastað birtast einstaklingum á ýmsum miðlum og hver
MARKAÐSAÐILAR
SAMFÉLAG
EINSTAKLINGUR
BIRTING
mynd af áfangastað birt á samfélagsmiðli
LJÓSMYNDUN
einstaklingur tekur mynd af áfangastað
SKYNJUN
einstaklingur skoðar myndir af áfangastað
HEIMSÓKN
einstaklingur heimsækir áfangastað
Mynd 5 Hringrás myndbirtingar (byggt á Jenkins 2003).
einstaklingur meðtekur myndirnar á sinn hátt. Hugsanlega kveikja myndirnar löngun einstaklings til að heimsækja staðinn til að upplifa með sínum eigin augum. Þegar á áfangastað er komið gæti einstaklingurinn viljað taka sjálfur myndir af staðnum og sýna öðrum myndina, en þá hefst hringrásin á ný. Þessi hringrás lýsir á einfaldan hátt raunveruleikanum á samfélagsmiðlum þar sem einstaklingar deila frá lífi sínu og fylgjast með lífi annarra. Tómas Þorgeir kannaði áhrif samfélagsmiðla á ferðahegðun háskólanemenda og voru niðurstöður í samræmi við túlkunarhring Jenkins en meirihluti þátttakenda heimsóttu áfangastað eftir að hafa séð fallegar myndir frá staðnum á samfélagsmiðlum.
Manneskjan upplifir og skynjar umhverfi sitt með skilningarvitum sínum. Við horfum á umhverfið, finnum lyktina af sjónum og gróðrinum, heyrum í fuglunum og kliður í mannlífinu og umferðinni. Við snertum og finnum áferðir af náttúrulegum og manngerðum hlutum. Upplifum tilfinningar, gleði, sorg, og eigum minningar. Manneskjan nýtur ýmist þess að vera ein með umhverfinu eða meðal annarra og á félagsleg samskipti. Börnin leika sér, efla hreyfiþroska og upplifa heiminn. Ljósmyndir sem við tökum fanga augnablik í lífi okkar, minningar til að geyma áfram sjónrænar upplifanir af umhverfinu. Ljósmyndirnar geyma minningar um lykt, hljóð, samskipti og upplifanir. Rýmin milli húsa eru rými þar sem við upplifum eitthvað í lífi okkar. Rýmin eru sérstök á sinn máta og bakgrunnur fyrir líf manneskjunnar. Manneskja sem býr til minningar og upplifir tilfinningar í almenningsrými vill jafnvel deila því áfram með vinum sínum. Aðrir sjá myndina og heillast jafnvel af umhverfinu og vilja fara á staðinn til að upplifa rýmið á sinn hátt. Rýmið býr yfir ákveðinni ímynd eftir því hvernig yfirbragð þess er og hvað er hægt að gera þar.
UPPLIFUNARHÖNNUN Í lok sumars 2021 tók höfundur viðtal um viðfangsefni verkefnisins við Rebekku Guðmundsdóttur, deildarstjóra borgarhönnunar hjá Reykjavíkurborg sem vinnur að fjölbreyttum verkefnum í miðborg Reykjavíkur. Sumarborgin er eitt af verkefnum þeirra sem sett var af stað sem viðspyrna við Covid til að styðja við rekstur og mannlíf í borginni. Sett var aukið fjármagn í að gera miðborgina fegurri og blómlegri og voru heilu bílastæðin tekin yfir til að stækka svæði rekstraraðila svo fólk gæti setið úti. Það var gert til að búa til lífið á götunni og að sögn Rebekku skipti það miklu máli þegar fólk og sérstaklega Íslendingar tóku myndir af mannlífinu fyrir Instagram. Rebekka nefnir að mannlífið hefði jafnvel ekki verið svo auðugt nema af því að borgin bauð upp á rými fyrir fólkið. Undanfarið hefur verið áhersla hjá borginni að skapa upplifunarrými þar sem fólk upplifir eitthvað sem það myndi ekki upplifa annars staðar.
“Við viljum flugeldasýningu en þurfum samt líka að vera á jörðinni og hugsa um fagurfræðina. Hvernig ætlar þú að skapa upplifun, hvernig ætlar þú að skapa að þegar þú gengur eftir götunni þá gerist eitthvað spennandi þegar þú lítur til hægri eftir þessari götu. Bara leikur og upplifun. Það er bara orðið held ég miklu mikilvægara en bara aðgengi og setuaðstaða. Þetta snýst líka um að við viljum að fólkið dvelji í rýminu, að það strunsi ekki bara í gegn og hafi ekki áhuga - heldur að þú allt í einu stoppir. Eitthvað sem skapar eftirvæntingu.“
“Við þurfum bara alltaf eitthvað svona element, eitthvað sem dregur fólk að og langar að leika. Og leikur númer eitt, tvö og þrjú. “
Þegar Rebekka var spurð hvort að hönnunarteymi sem vinni að hönnun almenningsrýma í miðborginni hugsi um að hanna myndrænt umhverfi fyrir Instagram segir hún að það sé ekki gert, nema mögulega sé það eitthvað í undirmeðvitundinni. Hún telur ekki að hönnuðir setji niður á blað að ákveðin svæði eigi að verða “Instagram rammi”. Hins vegar sé oft hugsað í þá átt í tímabundnum og árstíðarbundnum verkefnum. Jólin 2020 voru til dæmis heybaggar settir víða um miðborgina til að mýkja rýmin og gefa jólaanda. Á Óðinstorgi var sett upp jólatré neðst á torginu og var markmiðið að skapa rými en líka búa til upplifunina að sjónarhornið væri “geggjuð mynd”. Rebekka telur að tímabundið inngrip inn í borgarlandið líkt og jólakisan og gróðurhúsið á Lækjartorgi og sólstólarnir á Austurvelli hafi þau áhrif að skapa myndrænt umhverfi. Hún nefnir að torg og önnur svæði sem fara í gegnum hönnunarferli þurfi tíma til að verða aðdráttarafl: “Þá ertu komin með eitthvað sem er staðbundið, komin með betri efnivið og þurfi kannski eitthvað annað til að það verði instagramvænt.”
“Ómægod það eru bara fjórir jakkafatakallar í kappi á hlaupabrautinni. Svo voru bara mamma, pabbi, afi og amma að hoppa þennan risaparís. Maður fær bara: okei þetta er að virka. Og þetta viljum við gera. Ég meina, það voru bara allar mömmur að pósta myndum af krökkunum í parís eða vinirnir á djamminu að hlaupa. Þetta verður bara leikvöllur og það vilja allir leika, þú byrjar bara óvænt að leika, ú ég ætla að hoppa hér.“
Rebekka var beðin að benda á svæði í Reykjavík sem hún hefur tekið eftir að séu vinsæl á samfélagsmiðlum. Hún bendir á að málaða hlaupabrautin og parísinn á Laugaveginum hafi verið mjög áberandi og það sem einkennir þau svæði eru að það er tímabundin hönnun sem býr til uppbrot í hið dagsdaglega umhverfi. Markmiðið var að búa til rými fyrir upplifanir hjá fólki og að hvetja fólk til að ganga á göngugötunni. Að mati Rebekku þá þurfa aðlaðandi bæjarrými að hafa ákveðin element sem dregur fólk að og hvetji fólk til að leika sér. Umhverfið megi ekki vera of einfalt heldur þarf það að bjóða upp á upplifun, eitthvað sem rífur upp umhverfið og fær fólk til að stoppa og langa að skoða. “Það þarf einhvern lit og eitthvað sem poppar upp. Eitthvað sem er ekki týpískt torg.” Sem dæmi nefnir Rebekka regnbogagötuna á Skólavörðustíg en þar er að hennar sögn alltaf mikið af fólki að taka myndir.
Það er áhugavert hvernig tímabundin inngrip líkt og Rebekka nefnir dæmi um geta haft áhrif á mannlíf og aðdráttarafl. Regnbogagatan á Skólavörðustíg og hlaupabrautin á Laugavegi eru dæmi um tímabundna hönnun sem býr til litrík almenningsrými og hvetur til leiks. Tímabundna hönnunin gerir það að verkum að fólk staldrar aðeins lengur við sem hefur keðjuverkandi áhrif á mannlíf og gæti skapað þörf fyrir varanlegri hönnun. Umhverfið er litríkt og myndrænt sem dregur að. Borgin býr til rými og upplifun, einhver tekur mynd og deilir sinni upplifun sem aðrir sjá svo og þannig verður til hringrás sem býr til aðdráttarafl. Hægt væri að útfæra svæði víða um landið sem bjóða uppá upplifun og leik og þannig styrkja ímynd og aðdráttarafl.
Mynd 6 Skjáskot af Instagram, myndir merktar með staðsetningunni „Skólavörðustígur“.