7 minute read
LOKAORÐ
Við þekkjum það mörg að fara til Parísar og taka myndir af Eiffelturninum, og að skoða Colosseum í Róm, Central Park í New York, Skakka turninn í Pisa, Strikið í Kaupmannahöfn. Alls staðar í kringum okkur eru kennileiti og þegar við ferðumst sækjast margir í að skoða kennileiti hvers staðar. Það er hluti af ferðalaginu að skoða og kynnast menningu hverrar þjóðar í gegnum arkitektúr og umhverfi. En það þarf ekki bara stóra járnturna og fornaldar hringleikhús til að laða að nútímakynslóðir. Í dag snýst þetta kannski meira um hið hversdagslega umhverfi. Umhverfi sem við getum heimsótt á förnum vegi í okkar daglega lífi. Bakgrunnur fyrir upplifanir okkar, sviðsmyndir daglegs lífs. Víða á vefnum má finna greinar með samantekt um Instagram-vænar staðsetningar um allan heim sem bjóða uppá einstök myndatækifæri. Í borgunum eru einkennandi kennileiti frá fyrri tímum svo sem brýr, byggingar, torg og styttur sem segja menningarsöguna. En hver eru kennileiti nútímans? Sviðsmynd fyrir sögu okkar tíma, ímynd staðar og þetta myndræna, fagurfræðilega tákn um hvað þú munt upplifa á staðnum. Umhverfi sem þú getur dvalið í, umhverfi sem heldur utan um þínar upplifanir og stundir með vinum og fjölskyldu. Almenningsrýmin milli húsa sem halda utan um okkur í daglegum erindum, skemmtanir, gönguferðir, tónleikar, mannlíf, menning og núvitund. Að vera manneskja í hinu byggða umhverfi, hvar er staðurinn til að hugsa og eiga sína rútínu? Hvert viljum við fara þegar við ferðumst? Heimsækjum við stað því þar býr fjölskyldan okkar eða þar er eitthvað sem við viljum sjá og upplifa, skoða, finna, vera? Hvað er í umhverfinu sem fær okkur til að stoppa og staldra við? Hvað tekur við okkur, hvað upplifum við sem lætur okkur vilja koma þangað aftur og segja vinum frá eða jafnvel búa þar?
“As we place increased importance on ‘Instagramable moments’, it’s important to remember that places are not just two-dimensional visual images, but spaces to explore and experience and enjoy. Next time you’re posing in front of a quirky bit of architecture, feel free to get a good pic for the ‘gram. But also be sure to experience where you are through your own eyes, rather than just through your phone screen.”
Maud Webster
Það er áhugavert að skoða þau áhrif sem samfélagsmiðlar hafa á aðsókn á áfangastöðum og er í raun efni í stærri rannsókn. Samfélagsmiðlar geta nefnilega oft sýnt okkur staði, einstakar upplifanir og kennileiti sem við annars hefðum ekki vitað af. Myndir ferðast hratt á netinu og vekja athygli. Fólk gerir sér ferð úr alfaraleið til að upplifa það sem aðrir hafa séð og upplifað, eftir að hafa séð myndir á miðlunum. Sumir notendur samfélagsmiðla treysta jafnvel ráðleggingum annarra notenda líkt og um vin væri að ræða. Ef vinur mælir með ákveðinni bíómynd, eru þá ekki miklar líkur á að við viljum líka horfa á myndina? Ef vinur á samfélagsmiðli mælir með náttúrulaug úti á landi, eru þá ekki einhverjar líkur á að okkur langi þangað ef við eigum til dæmis leið hjá?
Vægi samfélagsmiðla fyrir ímynd svæða verður sífellt umfangsmeiri án þess að mikið sé vitað um eiginleg áhrif notenda miðlanna á aðdráttarafl svæða. Samfélagsmiðlar gefa fólki tækifæri á að sjá hvað á sér stað í almenningsrýminu, án þess að hafa jafnvel heimsótt staðinn. Líkt og barn sem sér leiksvæði frá heimili sínu og langar að fara þangað og leika, þá sjá notendur Instagram svæði á myndum frá notendum sem þeim langar jafnvel að heimsækja. Í bakgrunnskafla verkefnisins var túlkunarhringur Jenkins kynntur sem lýsir hvernig ein ljósmynd af upplifun af stað getur myndað hringrás. Niðurstöður úr könnuninni sýndu að einhver hluti fólks leitast eftir að heimsækja staði eftir að hafa séð myndir af honum á Instagram. Það sem skiptir þó mestu máli er hvernig fólk upplifir almenningsrýmin og hvaða athafnir rýmið býður uppá fyrir fólk að upplifa. Þannig verða til minningar sem fólk vill deila frá, sem laðar jafnvel aðra að rýminu. Þótt að áhersla sé farin að vera á að skapa myndræn bæjarrými má þó ekki gleyma
Svar úr könnun verkefnisins
notagildi hönnunarinnar. Það sem gerir stað myndrænan er fyrst og fremst það sem staðurinn býður uppá, hvernig hann heldur utanum manneskjurnar í rýminu og hvaða möguleika hann býr yfir fyrir fólk til að dvelja. Gróður og byggingar sem skapa skjól, bekkir til að sitja, eitthvað litríkt til að dást að eða einhver upplifun til að taka þátt í rýminu. Staðir sem skapa tækifæri fyrir upplifanir og leik eru líklegri til að laða að sér mannlíf. Líkt og kom fram í viðtali við Rebekku borgarhönnuð þurfa aðlaðandi bæjarrými að hafa sérstöðu sem dregur fólk að og hvetur til leiks, eitthvað sem gefur uppbrot í hversdagsleikann er líklegra til að verða að myndrænu umhverfi.
Ímynd staðar skiptir miklu máli og hvað þá í samkeppni um búsetuvalkosti. Sveitarfélög á landsbyggðinni gætu laðað að sér ákveðna markhópa af fólki með markvissri ímyndarsköpun. Nú eru að koma fram kynslóðir sem hafa alist upp með samfélagsmiðlum og leita sér upplýsinga og mynda sér skoðun um hluti miðað við hvernig þeir eru kynntir á internetinu. Því eru þessir miðlar mikilvæg verkfæri fyrir sveitarfélög til að auka aðdráttarafl sitt með markaðssetningu. Mörkun staðar og stefnumótandi skipulagsáætlanir eru stór og mikilvæg verkfæri fyrir sveitarfélög en þeim þarf þó að fylgja eftir til að tryggja gæðin og trúverðugleika. Hönnun almenningsrýma getur átt stóran þátt í upplifun á ímynd svæðis en þá skiptir miklu máli hvað staðurinn býður upp á sem er frábrugðin upplifunum af öðrum stöðum. Hönnunin þarf að styrkja ímynd sem dregur athygli að sérstöðu svæðis og upplifun sem staðurinn býr yfir. Fyrir sveitarfélög á landsbyggðinni og þá sérstaklega jaðarsvæðum eru þetta mikilvægir þættir til að laða að ferðamenn og íbúa. Könnunin sem framkvæmd var í tengslum við verkefnið gaf til kynna
ákveðið samband milli notkun á Instagram og aðdráttarafli umhverfisins. Nær öllum þátttakendum eða 92,7% þótti útlit umhverfisins skipta máli í daglegu lífi sínu og meirihluti þátttakenda eða 58% telja að samfélagsmiðlar hafi áhrif á þeirra upplifun af ímynd svæða. Myndir af landslagi, náttúru, byggingum og umhverfi eru vinsælt myndefni sem þátttakendur sögðust ýmist deila eða skoða á Instagram samkvæmt könnuninni. Þá sögðust þátttakendur leita helst eftir upplýsingum og myndum af afþreyingu, upplifunum og áhugaverðu umhverfi á miðlinum.
Niðurstöður verkefnisins voru dregnar saman í flokka yfir hönnunarþætti sem hægt er að tvinna saman við hönnun á myndrænum almenningsrýmum. Flokkarnir eru nokkurs konar verkfæri sem geta nýst hönnuðum og sveitarfélögum til að skapa „instagram-vænt“ umhverfi hvort sem er um varanlega eða tímabundna hönnun að ræða. Áhugavert væri að grafa enn dýpra inn í viðfangsefni verkefnisins með frekari rannsóknum, vettvangsferðum og viðtölum. Meta mætti nánar áhrif notenda samfélagsmiðla á aðdráttarafl svæða og þá sérstaklega með áherslu á þá ímyndarsköpun sem sveitarfélög geta unnið með samspili umhverfishönnunar. Hægt væri að taka fyrir fordæmi í ákveðnu bæjarfélagi þar sem unnið væri með tímabundna upplifunarhönnun og rýna í aðsókn og birtingu á samfélagsmiðlum. Jafnframt væri áhugavert að rýna í atferli vegfarenda í almenningsrýmum sem eru vinsæl á samfélagsmiðlum. Að lokum, þá felast mikil tækifæri í samfélagsmiðlum fyrir aðdráttarafl svæða og verður spennandi að fylgjast með þróuninni næstu árin í hönnun myndrænna almenningsrýma.
HEIMILDASKRÁ
Auður Sveinsdóttir (2014). Landslagsgreining - staðareinkenni, verkfæri til byggða- og atvinnuþróunar. Sótt af vef Skipulagsstofnunar: http://www.skipulag.is/media/pdf-skjol/
Audur-Sv.-Landslagsgreining,-Stadarvitund-8.okt.pdf
DV. (2020). Myndvænasta veitingahús landsins opnar í vikulok. Sótt af: https://www.dv.is/ matur/2020/05/25/myndvaenasta-veitingahus-landsins-opnar-fimmtudag/
Ferðamálastofa. (á.á). Áfangastaðaáætlanir. Sótt af https://www.ferdamalastofa.is/is/trounog-samstarf/afangastadaaaetlanir
Ferðamálastofa. (2010). Markaðsátakið Inspired by Iceland kynnt. Sótt af https://www.ferdamalastofa.is/is/um-ferdamalastofu/frettir/markadsatakid-inspired-byiceland-kynnt
Fiocco, F. og Pistone, G. (2019). Good content vs. good architecture: Where does
“instagrammability” take us? Sótt af https://strelkamag.com/en/article/good-content-vsgood-architecture
Gehl, J. (2018). Mannlíf milli húsa. Reykjavík: Úrbanistan
Instagram. (á.d). About. Sótt af: https://about.instagram.com/
Jenkins, O. (2003). Photography and travel brochures: The circle of representation. Tourism
Geographies, 5(3), 305-328. doi: 10.1080/14616680309715
Landsskipulagsstefna 2015-2026
Markaðsstofa Norðurlands. (2021). Um Norðurstrandarleið. Sótt af https://www.arcticcoastway. is/is/um-okkur/um-leidina
Margret Herdís Einarsdóttir. (2011). Ímyndarsköpun ferðaþjónustu á jaðarsvæðum: Strandir sem áfangastaður ferðamanna. Sótt af https://skemman.is/handle/1946/8632
Matthildur Kr. Elmarsdóttir (2015). Stefnumótandi skipulagsgerð og mörkun svæða. Reykjavík:
Alta.
Omnicore. (2021). Instagram by the Numbers: Stats, Demographics & Fun Facts. Sótt af: https:// www.omnicoreagency.com/instagram-statistics/
Project for Public Spaces. (á.á.). What makes a successful place? Sótt af http://www.pps.org/ reference/grplacefeat/
Ríki Vatnajökuls. (2021). Fimm Instagramvænustu staðir Ríkis Vatnajökuls. Sótt af: https:// visitvatnajokull.is/is/fimm-instagramvaenustu-stadir-rikis-vatnajokuls/
Skipulagsstofnun (2015). Skipulag og ferðamál [bæklingur]. Reykjavík: Skipulagsstofnun.
Time. (2018). ‘Instagram’ Is Officially a Verb, According to Merriam-Webster. Sótt af: https://time. com/5386603/instagram-verb-merriam-webster/
Tómas Þorgeir Hafsteinsson. (2020). Áhrif samfélagsmiðla á ferðahegðun háskólanema (bachelor ritgerð). Sótt af https://skemman.is/handle/1946/37107
Trausti Þór Karlsson. (2013). Mörkun áfangastaða: Reykjavík sem vörumerki. Sótt af https:// skemman.is/handle/1946/17470
Webster, M. (2021). Now part of architectural briefs: Instagrammable architecture, for the people or the platform? Candid Orange. Sótt af https://candidorangemagazine. com/2021/01/25/now-part-of-architectural-briefs-instagrammable-architecture-for-thepeople-or-the-platform/
Wainwright, O. (2018). Snapping point: how the world’s leading architects fell under the
Instagram spell. Sótt af https://www.theguardian.com/artanddesign/2018/nov/23/ snapping-point-how-the-worlds-leading-architects-fell-under-the-instagram-spell
Munnleg heimild:
Rebekka Guðmundsdóttir, borgarhönnuður. Viðtal 2. september 2021.
MYNDASKRÁ
Forsíðumynd: Anna Kristín Guðmundsdóttir. Myndir 1-2 Skýringarmyndir, útfærsla höfundar. Mynd 3 Anna Kristín Guðmundsdóttir (2016). Sótt af https://skemman.is/handle/1946/25070 Mynd 4 Anna Kristín Guðmundsdóttir (2021). Sótt af https://stud.epsilon.slu.se/16796/ Mynd 5 Skýringarmynd, útfærsla höfundar. Mynd 6 Skjáskot úr forritinu Instagram, útfærsla höfundar. Mynd 7-21 Niðurstöður úr könnun verkefnisins, útfærsla höfundar. Mynd 22-45 Skjáskot úr forritinu Instagram, útfærsla höfundar. Mynd 46 Skýringarmyndir, útfærsla höfundar Mynd 47 Anna Kristín Guðmundsdóttir
STYRKT AF NÝSKÖPUNARSJÓÐI NÁMSMANNA