2
BAKGRUNNUR
STAÐARANDI OG GÆÐI UMHVERFIS Bæjarrými eru götur, torg og almenningssvæði sem eru vettvangur daglegs lífs heimamanna og áfangastaðir ferðamanna (Skipulagsstofnun, 2015) Lifandi bæjarrými sem búa yfir aðdráttarafli laða að sér fólk og athafnir en ímynd staðar, mannlíf og umhverfi geta styrkt vinsældir ferðamannastaða í byggð. “Aðdráttarafl bæjarrýma felst í samspili rýmismyndunar, efnisvals og þeirri sögu og fjölbreytileika sem einkenna hið byggða umhverfi og mannlífið á svæðinu. Tilfinningu um að þangað sé gott að koma og eitthvað áhugavert að finna.” (Skipulagsstofnun, 2015:14) Staðarandi (lat. Genius Locci) eða staðarvitund endurspeglar þann skilning að hvert svæði í byggðu umhverfi og náttúru býr yfir sérstöðu (Auður Sveinsdóttir, 2014). Sérstaða svæðisins eru ákveðin einkenni sem eru óáþreifanleg og byggir hugtakið á upplifun og skynjun notenda á umhverfinu. Við hönnun umhverfis og skipulagsgerð er hægt að vinna markvisst með staðaranda þar sem gerð er grein fyrir sérstöðu hvers svæðis (Skipulagsstofnun, 2015). Þannig er hægt að vinna með ímynd staðar og stuðla að bættri upplifun fyrir íbúa og ferðamenn og auka gæði byggðar fyrir búsetu, atvinnulíf og ferðaþjónustu. Staðarandi og ímynd svæðis byggist á sérkennum sem einkenna hvern stað. Staður er skilgreindur sem „(lítið) svæði með óákveðnum mörkum, blettur (stór eða smár), oftast með tilliti til að eitthvað eða einhver er þar, kemur þangað, eða eitthvað gerist þar.“ (Matthildur Kr. Elmarsdóttir, 2015). En hvað er það sem gerir stað góðan og eftirsóknarverðan? Góð bæjarrými eru aðgengileg, örugg og notaleg og þar gefst fólki tækifæri á að staldra við enda eru þau sviðsmynd mannlífsins (Project for Public Spaces, á.á.). Vel hönnuð bæjarrými undirstrika staðaranda og hvetja til fjölbreyttra athafna og félagslegra samskipta. Skýringarmyndin hér á næstu síðu sýnir fjögur aðalatriði sem gera stað áhugaverðan og aðlaðandi og þá þætti sem einkennir hvern flokk.
12