2 minute read

Yfirlit

Next Article
Heimildaskrá

Heimildaskrá

Í ritinu er fjallað um núverandi ástand íslenskra vistkerfa á landi, hrun þeirra sem og ýmsar af þeim undirliggjandi ástæðum sem viðhalda skaðlegri landnýtingu enn þann dag í dag. Landhnignun er alþjóð‐legt vandamál sem kemur við sögu í umhverfissamningum Sameinuðu þjóðanna. Alþjóðasamfélagið leggur mikla áherslu á að koma í veg fyrir hnignun vistkerfa: áratugurinn 2021‐2030 er helgaður endur‐heimt vistkerfa jarðar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ástand lands (e. land condition) er lykilhugtak sem leggur grunninn að baráttunni gegn landhnignun sem og endurheimt vistkerfa. Ástand lands er þverfaglegt viðfangsefni sem leitast við að útskýra stöðu vistkerfa í samhengi við vistgetu (e. ecological potential) út frá mælanlegum þáttum vistkerfa á borð við gróðurhulu, samsetningu og gerð gróðurs og jarðvegs, frjósemi jarðvegs og þáttum sem móta vatnshringrásina.

Ferli landhnignunar eru afar fjölbreytt og fela m.a. í sér skerta næringu í mold og minni hæfileika til að miðla vatni, auk þess sem dregur úr framleiðni gróðurs og gróðurhula getur minnkað. Jarðvegsrof er alvarleg birtingarmynd landhnignunar sem og ferli sem leiða til þess að yfirborðið „fer í sand“. Illa gróin sendin svæði ætti ekki að nýta til sauðfjárbeitar.

Mörg íslensk vistkerfi teljast til jaðarvistkerfa sem eru mjög viðkvæm fyrir nýtingu. Afleiðingar búsetu mannsins í landinu allt frá landnámsöld eru ákaflega breytilegar. Birt er líkan til að útskýra af hverju áhrif nýtingarinnar hafa verið misjöfn og dregnar eru fram alþjóðlegar hliðstæður. Útskýrðir eru 6 ástandsflokkar, frá heilum vistkerfum til auðna, og hvernig helstu þættir vistkerfanna breytast við hnignun niður á neðri vistþrep (e. ecological state). Lögð er áhersla á að stór hluti vistkerfa landsins sem teljast gróin eru einnig í hnignuðu ástandi, þar sem gengið hefur á næringarforða kerfanna, vatnsheldni, líffræðilega fjölbreytni og fleiri þætti.

Hnignun lands hefur verið meiri hérlendis en flestir gera sér í hugarlund. Margvíslegar vísbendingar varpa ljósi á fyrri landkosti og breytingar eftir landnámið. Þættir, sem móta ástand lands, eru útskýrðir í alþjóðlegu fræðilegu samhengi. Hér er áherslan á „útjörð“, en ekki akuryrkjuland, skógræktarsvæði eða frjósöm afgirt beitarhólf. Varpað er ljósi á hvernig slæmu ástandi lands er viðhaldið af rangsnúnum hvötum2 (e. perverse incentives) á borð við landbúnaðarstyrki sem taka ekki mið af ástandi landsins.

Slæmu ástandi landsins er oft tekið sem eðlilegum hlut með umtalsverðri afneitun. Viðhorf til slæms ástands landsins einkennast af „heilkenni breyttra grunnviðmiða“ (e. shifting baseline syndrome eða „samdaunasýki“) sem m.a. kemur skýrt fram í viðmiðum í reglugerð sem notuð er við vottun á sauðfjárbeit – en einnig víðar um stjórnkerfið. Mikilvægt er að efla skilning landnotenda, stjórnsýslu og almennings á bágri stöðu vistkerfanna – að finna lækningu við „samdaunasýkinni“ sem einkennir viðhorf til ástands lands hérlendis. Til þess þarf að efla menntun og fræðslu á þessu sviði.

Nauðsynlegt er að breikka skilgreiningar á hagaðilum sem móta nýtingu á útjörð, svo sem á afréttum og þjóðlendum – hún er ekki einkamál örfárra aðila. Nýting á hrundum vistkerfum og rofsvæðum ætti alls ekki að koma til greina og það er undrunarefni að svo sé ennþá þótt margir áratugir séu síðan skilningur á ástandinu varð almennur meðal fagfólks. Verkefnið „GróLind“ er mikilvægt skref í rétta átt til aukinnar þekkingar, þó breikka þurfi skilgreiningu á hagaðilum og tryggja aðkomu fleiri að slíkum verkefnum. Einnig þarf að gefa gaum að þeim takmörkunum sem felast í vöktun á ástandi lands innan sömu vistþrepa – sérstaklega ef ástand landsins er slæmt og fjarri vistgetu (e. ecological potential).

This article is from: