1 minute read

1. Inngangur

Next Article
Heimildaskrá

Heimildaskrá

Á síðustu áratugum hefur orðið æ ljósara að vistkerfi jarðar hafa skaðast verulega og víða jafnvel hrunið vegna ofnýtingar. Barátta fyrir verndun umhverfisins verður æ fyrirferðameiri og tekur til æ fjölbreyttari viðfangsefna á borð við lög, félagsfræði og stjórnmál auk náttúruvísinda. Segja má að hugtökin „land‐hnignun“ og „ástand lands“ séu orðin meðal lykilhugtaka umhverfisfræða og þau fela í sér einhver mikil‐vægustu viðfangsefni vísinda samtímans. Verkefni af þessu tagi krefjast þverfaglegrar vistfræðilegrar nálgunar þar sem bæði vistfræði og jarðvegsfræði eru afar mikilvægar faggreinar, en einnig er þörf fyrir aðkomu samfélagsfræða af ýmsu tagi.

Áhrif landnýtingar á íslensk vistkerfi eru meiri en víðast annars staðar í heiminum, en um leið hefur slæmu ástandi landsins verið tekið sem sjálfsögðum hlut. Skort hefur á aðgengilega umfjöllun um land‐hnignun og ástand lands á íslensku, sem og aðgengilegt yfirlit um ástand og hrun íslenskra vistkerfa, m.a. fyrir nemendur, kennara og fagfólk sem kemur að nýtingu lands. Að ekki sé talað um alla þá er láta sig náttúru landsins varða. Í þessu riti er gerð tilraun til að bæta úr þessari þörf.

Umfjöllunin í þessu riti kemur víða við. Fyrst er rætt um landhnignun almennt og síðan ástand lands þar sem ýmsir þættir jarðvegs eru mikilvægir. Einnig er fjallað um svokallaðar „undirliggjandi ástæður land‐hnignunar“ og „rangsnúna hvata“ sem drífa skaðlega landnýtingu. Landbúnaðarstyrkir eru teknir sem dæmi, enda fátt sem hefur meiri áhrif á landnýtingu á jörðinni en styrkir til landbúnaðar. Alþjóðlegar aðferðir við mat á ástandi útjarðar eru skýrðar og síðan er fjallað um núverandi ástand vistkerfa á Íslandi þar sem kynnt er einfalt skema til að meta ástandið. Ástand lands og áhrifaþættir á borð við sauðfjárbeit eru ræddir á breiðum grunni með hliðsjón af ástandi lands. Að síðustu verður fjallað um hrun íslenskra vistkerfa og sett fram líkan til að útskýra af hverju örlög kerfanna hafa verið afar mismunandi.

Mynd 1. Land í hnignuðu ástandi. Ofbeitt land í Lesotho sunnarlega í Afríku til vinstri en gróðurtorfur þar sem áður var gróið land á Suðurlandi til hægri. Ljósmynd t.v. Hafdís Hanna Ægisdóttir, birt með leyfi.

This article is from: