2 minute read

Tíðarfar 2013

Tíðarfar 2013

Segja má að veturinn 2012–2013 hafi byrjað norðanlands með stórhríð á heiðum og í uppsveitum – slyddubyl í lágsveitum – þann 10. september. Þann snjó tók ekki upp að fullu og vetur lagðist síðan að með stórhríðum og snjóþyngslum um norðurhluta landsins þegar í byjun nóvember. Snjórinn varð sums staðar með fádæmum, svo sem í Þingeyjarsýslum og í útsveitum við Eyjafjörð. Austan- og norðaustanátt var ríkjandi allan veturinn. Þó varð veður um miðbik vetrar furðumilt, en dugði ekki til annars en hleypa snjónum í klaka, þar sem snjór var fyrir. Kalt var svo aftur í mars og apríl og snjó tók ekki upp að gagni í snjóasveitum fyrr en um 20. maí. Voru þá tún víða kalin til stórra skemmda. Um suður- og vesturhluta landsins var aftur á móti snjólaust og snjólítið í innsveitum á vestanverðu Norðurlandi. Þar var veturinn mildur miðsvetrar, en nokkuð úrkomusamur, kalt þó í mars og apríl. Sunnanlands var klakalítið, en úrkomutíð í apríl tafði kornsáningu. Lítið var sáð þar fyrr en í maí eða nokkru síðar en í meðalári. Norðanlands hófst kornsáning í Skagafirði um miðjan maí, en ekki fyrr en eftir 20. maí í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Hvort tveggja var það um þremur vikum seinna en í meðalári. Svo brá til betri tíðar og júnímánuður var sá hlýjasti og besti norðanlands og austan í mannaminni eða í 60 ár. Júlí og ágúst voru líka með betra móti í nefndum héruðum og urðu til þess, að korni fór furðuvel fram og eins sáningum í kalin tún. Sunnanlands var veðri háttað á allt annan veg. Þar réð eindregin rigningatíð í þrjá mánuði, júní, júlí og ágúst. Þar að auki var sumarið í röð þeirra kaldari. Grasspretta var með lakasta móti. Korn spratt illa og þroskaðist með afbrigðum seint, því að sólskinið vantaði og nærviðrið var blautt og svalt. Á Korpu var þetta lakasta kornár í 18 ár eða síðan 1995. Í ágústlok gerði norðanáhlaup norðanlands, þó ekki til skaða í lágsveitum. Annað og verra veður gerði um miðjan mánuðinn. Þá var norðanhvassviðri og mikil úrkoma nyrðra, víðast slydda. Á austanverðu Suðurlandi og Suðausturlandi varð þá foráttu-hvassviðri, sem olli miklu tjóni á húsum, vélum og skemmdi kornakra víða og eyðlagði þá algjörlega á mörgum bæjum. Þannig fóru allir akrar á Þorvaldseyri og korntilraun á sama veg. Sumarið var stutt en gott nyrðra og eystra. Sáning hófst seint og sumarið endaði sviplega. Þrátt fyrir það varð uppskera nothæf í þeim landshlutum. Syðra og vestra var kornuppskera með allra lakasta móti, bæði lítil að vöxtum og sein til þroska, kornið smátt og hismiskennt. Til landbúnaðar var árið í röð þeirra lakari. Ekki kalt í heildina, en snjóþyngsli og kalskemmdir urðu til vandræða um hluta landsins. Um hinn hluta landsins var sumarið óvenju kalt og blautt. Heyfengur varð ekki mikill og kornuppskera með því minnsta, síðan kornrækt var hafin að marki fyrir 30 árum.

This article is from: