3 minute read

Mismunandi vetur

Next Article
Beit

Beit

Mismunandi vetur Við upphaf tilraunanna hugsuðum við okkur ferns konar vetur sem hægt væri að hafa sem viðmiðunar-flokka við mat á yrkjum. Þeir vetur eru skilgreindir hér fyrir neðan og innan sviga það land þar sem helst má búast við tilgreindu tíðarfari. 1. Mildir vetur (austanverð Rangárvallasýsla, Mýrdalur, utanvert Reykjanes, sum strandsvæði á

Vesturlandi t.d. undir Akrafjalli). 2. Kaldir vetur (stór hluti Suðurlands, stór hluti Borgarfjarðar, innanvert Norðurland). 3. Svellavetur (sveitirnar vestast og efst í Árnessýslu, vesturhluti V-Skaftafellssýslu, norðanvert

Vesturland, ýmsar sveitir á utanverðu Norðurlandi, innanvert Fljótsdalshérað, norðanverðir

Austfirðir). 4. Snjóþungir vetur (Vestfirðir, ystu sveitir á Norðurlandi, báðar Þingeyjarsýslur, utanvert Fljótsdalshérað og næstu firðir sunnan við).

Þessi listi er miðaður við tíðarfar síðasta mannsaldurinn eða svo. En tilraunaröðin nær einungis yfir fjögurra ára tímabil, sem eðlilega er einsleitara en heill mannsaldur. Veturnir þessi fjögur ár hafa verið mildir að hitafari til og má segja að stærsti hluti Suður- og Vesturlands hafi fallið undir 1. flokk í töflunni hér að ofan. Í öðrum flokknum átti að vera land þar sem vetur einkennast af hörðu frosti á auða jörð. Þar ætti að reyna á frostþol grasa og svo hefur gert í venjulegum árum á síðustu öld. Þetta álag vantar að mestu á þessa tilraunaröð. Hins vegar kom fyrir að það frysti skyndilega eftir töluverð hlýindi þannig að mikið reyndi á nýgræðing. Þetta gerðist t.d. í tvígang veturinn 2009-2010 og þá fór vetrarkorn illa á Suður- og Vesturlandi, meira að segja vetrarrúgur sem hefur reynts mjög vetrarþolinn. Svellavetur hafa hins vegar orðið þessi ár fyrir norðan og segja má að fengist hafi bærilegustu skilyrði til að meta svellþol grasa. Svellasveitirnar eru hins vegar á öðrum stað en búist hafði verið við. Lítið var um það þessi árin að tún lægju undir snjó lengi vetrar án þess að hann rynni í svell. Þol fyrir snjóalögum varð því ekki mælt að gagni. Tekinn hefur verið saman vetrarhiti síðustu 92 ára. Settur er saman hiti sjö mánaða og tekið meðaltal október til og með apríl. Notaður var hitinn í Reykjavík því að auðveldast er að nálgast hann. Hitasveiflur frá ári til árs eru áþekkar á landinu öllu og til að sýna þær hefur verið talið viðunandi að nota meðalhita frá einum stað. Og ekki er í þessari rannsókn krafist meiri nákvæmni en af þessu línuriti má sjá. Fjölmargar rannsóknir á langtímamælingum á uppskeru sýna að vetrarhitinn hefur þar afgerandi áhrif (Páll Bergþórsson 1966; Haukur Júlíusson 1973; Björnsson & Helgadóttir 1988; Thorvaldsson & Björnsson 1990). Því lægri sem hann er, því minna sprettur árið eftir að jöfnum áburði og sumarhita. Og í flestum rannsóknum hefur vetrarhitinn meiri og afdrifaríkari áhrif á uppskeru en sumarhitinn sjálfur. Þegar vetrarhitinn dregur verulega úr sprettu kemur það í gegnum kal eftir svellalög, skammkal eftir frost og lágan jarðvegshita eftir mikinn og djúpan jarðklaka. Við sögu þessara tilrauna koma fimm vetur og hefur hitafarið í Reykjavík verið sem hér segir (nánari upplýsingar um hitafar á hverjum stað eru í viðaukatöflum):

Meðalhiti í Reykjavík, október–apríl, °C 2009-10 2,5 °C 2010-11 2,2 °C 2011-12 2,5 °C 2012-13 2,4 °C 2013-14 2,4 °C

Meðalhiti þessara fimm vetra er 2,4 °C en meðalhiti áranna 92 frá 1925-2014 var 1,7 °C. Meðalhiti köldustu 18 ára samfelldra, 1978-95, var hins vegar aðeins 0,9 °C (sjá 2. mynd).

Við erum að meta yrki við allt önnur skilyrði en ríktu hér á síðasta þriðjungi síðustu aldar og mikilvægt að hafa það í huga.

2. mynd. Vetrarhiti í Reykjavík frá 1925 til 2014. Meðalhiti sjö mánaða (október-apríl) hvern vetur (―) og 11 ára keðjubundið meðaltal (―). Meðalhiti 18 hlýjustu ára samfelldra er merktur inn á línuritið, svo og meðalhiti 18 köldustu ára og 18 síðustu ára.

This article is from: