Fréttabréf, Félag Landfræðinga

Page 1

Fréttabréf

Kæru landfræðingar

Hér ber að líta fréttabréf Félags landfræðinga, með bréfinu vill stjórnin minna á félagið og upplýsa félagsmenn um starfsemi þess næsta starfsár. Vilji er hjá stjórninni að efla starf félagsins í aðdraganda 30 ára afmælisárs þess árið 2016 og fyrsta skrefið í þá átt er auðvitað að ná til allra félagsmanna. Þótti því tilvalið að senda út fréttabréf félagsins á pappírsformi að þessu sinni. Þá var ekki síst hugsað til þeirra félagsmanna sem ekki eru skráðir á póstlista félagsins. Hér er því skorað á þá sem ekki eru þegar skráðir að skrá sig á póstlistann og þar með tryggja að þeir missi ekki af dagskrá komandi starfsárs.

Vor 2015


Fréttir af starfi félagsins Félagið hefur staðið fyrir árlegu haustþingi sem hefur verið vel sótt undanfarin ár. Þingið hefur gefið mikilvæga innsýn inn í starfs- og fræðasvið landfræðinga hérlendis. Jafnframt hefur ráðstefnan verið sá vettvangur þar sem landfræðingar úr ólíkum starfsstéttum og áhugasviðum hafa mæst og spjallað um fortíð og framtíð landfræðinnar. Haustráðstefna félagsins síðastliðið haust var haldið föstudaginn 28. nóvember í Öskju. Þema ráðstefnunnar var landslag og á dagskrá voru 5 nokkuð fjölbreytt og áhugaverð erindi. Almennt var fólk ánægt með að ráðstefnan væri haldin í Öskju en rætt var um að hún mætti vera aðeins fyrr á haustinu m.a. vegna þess að í lok nóvember væru nemar að byrja í prófum. Á ráðstefnunni voru um 40 manns. Fanney Gísladóttir stýrði fundi af öryggi. Gefið var út ágripahefti og haldin veggspjaldasýning þar sem ráðstefnugestir völdu besta veggspjaldið. Stjórnin ákvað að brydda upp á smá nýbreytni þennan veturinn og bjóða upp á léttan kvöldfyrirlestur. Þann 26. febrúar bauð félagið félagsmönnum og nemum í landfræði á hvatningarfyrirlestur með Vilborgu Örnu Gissurardóttur, Áfram veginn. Fyrirlesturinn var afskaplega uppbyggjandi og áhugaverður en á hann mættu fimm manns auk stjórnar. Nokkur umræða hefur verið um framtíð Landabréfsins og fundaði stjórnin m.a. með Þorvaldi Bragasyni. Á fundinum fór Þorvaldur yfir sögulega þróun Landabréfsins og ræddar voru ýmsar hugmyndir um framtíð þess. Helsta niðurstaða fundarins var sú að málefnið væri ekki þess virði að fara á taugum yfir, þróunin hefði átt sér stað lengi, kannski væru önnur félög sem standa okkur nálægt sem við gætum

slegist í för með. Ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um Landabréfið eða á hvaða formi það kemur út næst en stjórnin skynjar að flestum þykir vænt um Landabréfið og vilja sjá það þróast áfram.

Vor 2015


Aðalfundur félagsins var haldinn 19. mars 2015. Á þeim fundi voru kosin ný inn í stjórn þau Einar Hjörleifsson ritari og Snædís Ylfa Ólafsdóttir fyrir nemendur. Áfram í stjórn eru Ester Þórhallsdóttir, Ingunn Ósk Árnadóttir gjaldkeri, Þórhildur Önnudóttir sem sér um heimasíðu og Margrét Ólafsdóttir formaður.

Dagskrá framundan Haustráðstefnan 2015 verður á sínum stað. Í þetta sinn verður hún haldin 30. október í Öskju. Hugmyndir um þema ráðstefnunnar eru enn á umræðustigi. Ráðstefnan verður vel auglýst þegar nær dregur og eru félagsmenn hvattir til að mæta, halda erindi eða hlýða á erindi, spjalla og eiga góðan og fróðlegan eftirmiðdag. Nokkrir aðrir viðburðir hafa verið ákveðnir fyrir næsta starfsár. Í haust verður boðið upp á almennan félagsfund. Tilgangur hans er að kynna félagið fyrir bæði nýjum og eldri meðlimum. Þar gefst félagsmönnum kærkomið tækifæri á að koma með ábendingar, óskir um starfsemina og annað sem brennur á þeim. Félag Landfræðinga er aðili að alþjóðasamtökum landfræðinga, International Geographical Union eða IGU og á félagsfundinum munum við í samstarfi við Guðrúnu Gísladóttur, prófessor, kynna samtökin betur og varpa skýrara ljósi á hverju sú aðild skilar til okkar félagsmanna. Stjórnarmenn eru óðum að komast í sumargírinn og viðbúið að starfsemi félagsins liggi niðri yfir sumarmánuðina. Við hvetjum félaga til að njóta sumarsins og halda áfram að upplifa landfræði í öllu sínu veldi innanlands eða utan.

Vor 2015


Félagið hefur samskipti við félagsmenn mestmegnis í gegnum netið.

Félagið heldur úti heimasíðu www.landfraedi.is

Eins hefur verið stofnaður hópur á fésbók undir heitinu Félag landfræðinga. Þar gefst félagsmönnum tækifæri á að skapa umræður og birta tengla sem eiga erindi við félagsmenn, við hvetjum alla áhugasama til að ganga í hópinn, fylgjast með og setja inn áhugavert efni.

Póstlisti félagsins er virkur, en í gegnum hann berast tilkynningar; um ráðstefnur, viðburði og annað sem á erindi til landfræðinga.

Við viljum minna félaga á að koma til okkar upplýsingum um rétt netföng og heimilisföng. Þeim upplýsingum er best að koma til ritara stjórnar, Einars á netfangið einarhjorleifs@gmail.com

Stjórnin óskar að lokum landfræðingum gleðilegs sumars með von um ánægjulega samveru á komandi starfsári.

Félag landfræðinga


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.